Tilkynningar

Gerður Kristný hlýtur Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins 2010

1.9.2010

Gerður Kristný hlaut í morgun Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins 2010 fyrir skáldsöguna Garðurinn. Ólína Þorvarðardóttir, formaður ráðsins, og prófessor Dagný Kristjánsdóttir afhentu Gerði Kristnýju verðlaunin sem nema um 1,2 milljónum íslenskra króna við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu.

Þetta er í fimmta skipti sem verðlaunin eru veitt en þeim er úthlutað annað hvert ár. Dómnefnd barnabókaverðlaunanna skipuðu Oddfríður Marni Rasmussen frá Færeyjum, Vera Lise Rosing Olsen frá Grænlandi og prófessor Dagný Kristjánsdóttir frá Íslandi.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Garðurinn sé unglingabók, samtímasaga og fortíðarsaga, skrifuð af fagmennsku og sjaldgæfum glæsibrag. Nútíð og fortíð tengjast í mörgum hliðarsögum og mörkin milli hins þekkta og óþekkta eru dregin í efa.

Garðurinn gerist í Reykjavík. Gerður Kristný blandar saman ólíkum bókmenntagreinum og beitir aðferðum draugasagna, fantasíu, sálfræðilegra þroskasagna og sögulegra skáldsagna. Íslandssagan leikur stórt hlutverk í skáldsögunni.

Spænska veikin (1918) lagðist þungt á Reykjavík. Annar áratugur aldarinnar sem leið er í bakgrunni sögunnar og að honum beinist ótti aðalpersónunnar við hið óþekkta og þau eyðingaröfl sem reynast ekki alltaf koma utan frá heldur geta einnig búið innra með okkur. Í þessari bók tekst höfundinum fagurlega að sameina þekkingu, skemmtun og listrænt gildi.

Auk Garðsins voru tilnefndar barnabækurnar Várferðin til Brúnna frá Færeyjum eftir Rakel Helmsdal og Sila frá Grænlandi eftir Lana Hansen.

Árið 2002 hlaut bókin Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason verðlaunin, árið 2004 bókin Engill í vesturbænum eftir Kristínu Steinsdóttur og Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur, árið 2006 hlaut færeyska bókin Hundurinn, kötturinn og músin eftir Bárð Oskarsson verðlaunin og árið 2008 bókin Draugaslóð eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur.