Tilkynningar

Ungmennavefur Alþingis

28.9.2001

Samhliða endurgerð Alþingisvefsins hefur skrifstofa Alþingis látið vinna ungmennavef sem er undirvefur á Alþingisvefnum og sem sérstaklega er ætlaður til að auðvelda ungu fólki að öðlast innsýn í störf og hlutverk Alþingis. Vonir standa til að kennarar geti nýtt vefinn við kennslu nemenda á aldrinum 10 til 15 ára. Rammi ungmennavefsins er hús sem minnir um margt á Alþingishúsið og er skírskotun til þess. Í hverju herbergi þess er gerð grein fyrir atriðum sem snerta sögu eða störf Alþingis. Upplýsingarnar eru settar fram með skýringarmyndum af ýmsu tagi auk þess sem megintextar eru allir vistaðir í bókahillum í sérstöku bókaherbergi. Tillögur að verkefnum fyrir nemendur er að finna á vefnum. Við opnun vefsins er boðið upp á ákveðið grunnefni og umgjörð en ætlunin er að þróa hann og bæta smám saman við fjölbreyttari upplýsingum, verkefnum og þrautum.
 

Hönnuður ungmennavefsins er Bragi Halldórsson en auk hans eru höfundar vefsins þær Guðbjörg Pálsdóttir og Þórdís Sigurðardóttir. Umsjón með gerð ungmennavefsins hefur verið á hendi starfsmanna Alþingis.