Tilkynningar

Nýr ungmennavefur Alþingis

21.4.2021

Nýr ungmennavefur Alþingis hefur verið opnaður. Vefurinn er ætlaður nemendum í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum – og auðvitað er öllum öðrum einnig velkomið að nýta sér hann til að afla upplýsinga um starfsemi Alþingis.

Í hugtakasafni er hægt er fletta upp helstu hugtökum sem gagnlegt er að þekkja til að skilja betur störf Alþingis. Sýnt er á myndrænan hátt hvernig frumvarp verður að lögum, með sýnidæmum úr þrennum mismunandi lögum. Hægt er að velja lagafrumvarp til að máta við ferlið, sjá hvernig það hefur farið í gegnum þingið og hvaða breytingum það hefur tekið á leiðinni. Á söguás er stiklað á helstu tímamótum í sögu Alþingis og raktar mikilvægustu breytingar sem orðið hafa á Alþingi og umhverfi þess frá stofnun til samtíma. Sögu Alþingishússins og Alþingisgarðsins er einnig gerð skil og bent er á ýmsar leiðir til að fylgjast með störfum Alþingis og hafa áhrif á gang mála. Loks eru á vefnum þrautir og verkefni fyrir nemendur til að spreyta sig á, til stuðnings við kennslu í samfélagsfræði, sögu og stjórnmálafræði.

Teikningar á vefnum eru eftir Rán Flygenring, Kosmos og kaos sá um hönnun útlits og forritun og starfsfólk á skrifstofu Alþingis sá um ritstjórn og efnisskrif.