Tilkynningar

Til hamingju Vigdís!

15.4.2020

21281-0458Fyrir hönd Alþingis færi ég frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, innilegar hamingjuóskir í tilefni af níræðisafmæli hennar í dag. Þessar heillaóskir flyt ég fyrir hönd allra þingmanna, núverandi og fyrrverandi, sem og starfsfólks Alþingis.

Leiðir forseta lýðveldisins og Alþingis liggja saman með margvíslegum reglubundnum hætti svo sem við þingsetningu, á þjóðhátíðardaginn og fullveldisdaginn en einnig í tengslum við ýmsa innlenda og alþjóðlega stóratburði. Ég vil sérstaklega færa Vigdísi þakkir fyrir framlag hennar til hátíðarsamkomu við Alþingishúsið 19. júní 2015 í tilefni af aldarafmæli kosningarréttar kvenna og fyrir stuðning hennar undanfarin ár við alþjóðlega ráðstefnu kvenleiðtoga í Reykjavík með virkri þátttöku sinni á þeim vettvangi, en Alþingi og ríkisstjórn eru sameiginlega í gestgjafahlutverki á þeirri ráðstefnu. Fyrir þessi margvíslegu samskipti og samstarf Vigdísar og Alþingis gegnum tíðina er hér með þakkað.

Í tilefni afmælis Vigdísar er í undirbúningi sýning um störf og hugðarefni Vigdísar sem fyrirhuguð er í sumar á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. Að sýningunni standa Alþingi, Norðurbryggja, Veröld, hús Vigdísar, og sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn. Enn eru bundnar vonir við að af þessu geti orðið þrátt fyrir hinar óvenjulegu aðstæður um þessar mundir.

Steingrímur J. Sigfússon
forseti Alþingis