Tilkynningar

Traust til Alþingis vaxandi

23.2.2021

Traust almennings til Alþingis fer vaxandi, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups sem mælir árlega traust til helstu stofnana samfélagsins. Traustið mælist nú 34% og hefur aukist um ellefu prósentustig frá síðasta ári, þegar það var 23%, en árið 2019 mældist traustið 18%.

Traust til Alþingis hríðféll eftir efnahagshrunið. Þegar Gallup mældi traust til Alþingis skömmu fyrir það, árið 2008, var traustið 42% en hrundi niður í 13% árið 2009 og 9% 2010.

„Þetta er ánægjuleg niðurstaða og er í takt við þá tilfinningu sem ég hef haft að okkur sé að miða í rétta átt í þessum efnum. Mér finnst líka Alþingi eiga inni fyrir þessu þegar horft er til ágætrar frammistöðu þess undanfarin misseri við mjög krefjandi aðstæður,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.

Traust_linurit