Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 434  —  340. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um Útflutningsráð Íslands, nr. 114/1990, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.


    Við 1. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi:
    Útflutningsráði ber að stofna til samstarfs við þá aðila sem vinna að markaðssetningu á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta og skal ráðstafa 14% af tekjum af markaðsgjaldi skv. 1. tölul. 3. gr. til verkefna af þeim toga.

2. gr.


    3. gr. laganna orðast svo:
    Tekjur Útflutningsráðs eru:
     1.      Markaðsgjald, 0,05%, sem lagt er á gjaldstofn til greiðslu tryggingagjalds eins og hann er skilgreindur í III. kafla laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Um álagningu og inn­heimtu markaðsgjalds fer eftir ákvæðum þeirra laga.
     2.      Þóknun fyrir veitta þjónustu.
     3.      Sérstök framlög og aðrar tekjur.

3. gr.


    5. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn Útflutningsráðs skipa sjö menn sem valdir eru til tveggja ára í senn. Utanríkisráð­herra skipar fimm stjórnarmenn eftir tilnefningu fulltrúa atvinnulífsins í samráðsnefnd, sbr. ákvæði 6. gr., og tvo án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Stjórnin kýs sér formann og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Stjórnin skipuleggur og ákveður verkefni Útflutningsráðs.

4. gr.


    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist númeraröð annarra greina samkvæmt því:
    Í samráðsnefnd Útflutningsráðs sitja fulltrúar samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda. Af hálfu atvinnulífsins sitja í nefndinni fulltrúar Vinnuveitendasambands Íslands, Vinnumála­sambandsins, Félags íslenskra stórkaupmanna, Verslunarráðs Íslands, Samtaka iðnaðarins, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Samtaka fiskvinnslustöðva, Bændasamtakanna, Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja. Af opinberri hálfu sitja í nefndinni fulltrúi utanríkisráðherra, sem er formaður, og fulltrúar iðnaðar- og við­skiptaráðherra, sjávarútvegsráðherra og samgönguráðherra. Þá eiga sæti í nefndinni fulltrúar Byggðastofnunar, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Iðntæknistofnunar. Utanríkisráðherra skipar í nefndina samkvæmt tilnefningu framangreindra aðila til tveggja ára í senn. Honum er jafnframt heimilt í reglugerð að veita öðrum samtökum eða stofnunum aðild að samráðs­nefndinni að fenginni umsögn hennar.
    Samráðsnefnd Útflutningsráðs er vettvangur til samráðs og skoðanaskipta um stefnu og starfsemi ráðsins og staðfestir hún reikninga þess. Nefndin fundar ekki sjaldnar en tvisvar sinnum á ári.
    Fulltrúar atvinnulífsins í samráðsnefnd velja fimm aðalmenn og fimm varamenn til setu í stjórn Útflutningsráðs.

5. gr.


    8. gr. laganna, sem verður 9. gr., orðast svo:
    Utanríkisráðherra er heimilt, að fenginni umsögn stjórnar Útflutningsráðs, að kveða nánar á í reglugerð um starfsemi Útflutningsráðs og um verkaskiptingu milli þess og utanríkisráðu­neytisins.

6. gr.


    Í stað ákvæða til bráðabirgða I–IV í lögunum kemur nýtt ákvæði til bráðabirgða, svo­hljóðandi:
    Verði ekki annað ákveðið með lögum fellur markaðsgjald skv. 1. tölul. 3. gr. laga þessara niður frá og með 1. janúar 2001, þó þannig að álagning gjaldsins fari fram árið 2001 vegna gjaldstofns ársins 2000.

7. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999. Ákvæði 2. gr. koma til framkvæmda við álagningu tryggingagjalds á árinu 2000 og við staðgreiðslu þess á árinu 1999.
    Við álagningu á árinu 1999 skal markaðsgjald lagt á virðisaukaskattsskylda veltu ársins 1998 í samræmi við 1. tölul. 3. gr. laga nr. 114/1990, eins og henni var breytt með 51. gr. laga nr. 122/1993.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt ákvæði IV til bráðabirgða við lög um Útflutningsráð Íslands, nr. 114/1990, sbr. 52. gr. laga nr. 122/1993, ber að endurskoða lögin á árinu 1998 og fellur markaðsgjald­ið, helsti tekjustofn Útflutningsráðs, niður í lok árs 1998 fari sú endurskoðun ekki fram.
    Hinn 29. júní 1998 skipaði utanríkisráðherra því nefnd til að fjalla um og gera tillögur að endurskoðun laga um Útflutningsráð Íslands. Í nefndinni áttu sæti Þorsteinn Ólafsson, fyrr­verandi forstjóri Norræna verkefnaútflutningssjóðsins (NOPEF), formaður, Jón Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vinnumálasambandsins, Stefán S. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna, Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, og Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands.
    Nefndin skilaði niðurstöðu í nóvember 1998. Almenn samstaða var í nefndinni um mikil­vægi þess að áfram yrði stutt við útflutningsstarfsemi af opinberri hálfu. Nefndin var sam­mála um að markaðsgjaldið yrði lagt af í núverandi mynd og að eðlilegast væri að fé til starf­seminnar kæmi að stærstum hluta af fjárlögum. Einnig var samstaða um aukin tengsl ráðsins við atvinnulífið og utanríkisráðuneytið og um að æskilegt væri að halda nánu samstarfi milli Fjárfestingarskrifstofu Íslands og Útflutningsráðs. Þá var samstaða um að fækka í stjórn ráðsins til að gera hana skilvirkari.
    Hins vegar var ágreiningur í nefndinni um skipulagslega hlið málsins og verkaskiptingu Útflutningsráðs og Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins. Í áliti meiri hluta nefndar­manna er lagt til að starfsemi Útflutningsráðs Íslands og Viðskiptaþjónustu utanríkisráðu­neytisins haldi áfram, en í nokkuð breyttri mynd hvað Útflutningsráð varðar. Viðskiptaþjón­ustan hefði ekki hafið starfsemi fyrr en 1. september 1997 og því hefði gefist stuttur tími til að fá reynslu af starfi hennar. Meiri hlutinn taldi hins vegar rétt að gera verkaskiptingu þess­ara aðila skýrari og koma á auknu samráði þeirra í milli, en taka ætti starfsemi beggja til endurskoðunar eftir þrjú ár. Þá var það jafnframt mat meiri hluta nefndarmanna að Útflutn­ingsráð Íslands ætti fyrst og fremst að veita þjónustu innan lands en Viðskiptaþjónustan ætti að sinna þjónustu erlendis. Í ljósi almennra samkeppnissjónarmiða væri óeðlilegt að Útflutn­ingsráð Íslands hefði markaðsráðgjafa erlendis og markaðsstjóra til leigu á eigin vegum, en ráðið ætti þess í stað að hafa milligöngu um útvegun þessarar þjónustu hjá sjálfstætt starf­andi ráðgjöfum. Það var hins vegar mat Þórarins V. Þórarinssonar að sameina ætti Útflutn­ingsráð og Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins og að viðskiptafulltrúar erlendis ættu að sækja þjónustu, tengsl og stefnumótun til Útflutningsráðs.
    Þá lagði meiri hlutinn til að lögin um Útflutningsráð yrðu felld úr gildi og ráðið gert að sjálfseignarstofnun með skipulagsskrá er félli undir utanríkisráðuneytið. Gerður yrði þjón­ustusamningur milli Útflutningsráðs og utanríkisráðuneytisins til fimm ára í senn þar sem kveðið yrði á um þá þjónustu sem ráðið veitti opinberum aðilum og útflytjendum. Í sérálitinu er ekki gerður ágreiningur við meiri hlutann um þessa skipan enda yrði tryggt að atvinnulífið hefði ráðandi áhrif innan stjórnar.
    Ljóst er að skiptar skoðanir eru um niðurstöðu nefndarinnar. Þá er ljóst að þörf er á fjöl­þættum breytingum á rekstrarformi ráðsins ef hrinda á tillögum meiri hlutans í framkvæmd, auk þess sem taka þyrfti ákvörðun um ráðstöfun a.m.k. 600 milljóna kr. af fjárlögum til þessa verkefnis á næstu fimm árum. Slíkar aðgerðir er ekki hægt að ráðast í áður en tengsl Útflutningsráðs við utanríkisráðuneytið eru frágengin, þjónustuþörfin skilgreind og heildar­skipulag starfseminnar ákveðið að öðru leyti. Rétt þykir hins vegar að koma til móts við ábendingar nefndarinnar svo sem kostur er að óbreyttu rekstrarformi.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sett verði á fót samráðsnefnd Útflutningsráðs þar sem fulltrúar samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda eigi sæti. Með samráðsnefndinni er reynt að endurspegla þær breytingar sem orðið hafa á samtökum atvinnulífsins á undanförnum árum. Þá verður stjórn Útflutningsráðs fámennari en nú er til að auka skilvirkni í störfum þess í samræmi við tillögur nefndarinnar. Lagt er til að utanríkisráðherra fái rýmri heimild til setn­ingar reglugerðar þar sem m.a. er ætlunin að kveða betur á um samráð milli opinberra stofn­ana á sviði þjónustu við útflutning og um aukin tengsl og skýrari verkaskiptingu milli Út­flutningsráðs og Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins.
    Í samræmi við niðurstöður nefndarinnar er lagt til að álagning markaðsgjaldsins með nú­verandi hætti verði lögð af. Gjaldið skilar Útflutningsráði á árinu 1998 um 117 milljónum kr. Það leggst hins vegar m.a. óeðlilega þungt á verslunina, sem greiðir hátt í 40% markaðs­gjaldsins, þar sem það leggst á veltu gjaldenda. Því er skynsamlegra að leggja á sérstakt gjald sem lagt er á og innheimt með tryggingagjaldi og rennur til Útflutningsráðs. Markaðs­gjald sem lagt er á með slíkum hætti leggst jafnar á gjaldendur og má nefna að hlutur verslun­arinnar yrði um 11% samkvæmt frumvarpinu en hlutur hins opinbera um 20%. Gert er ráð fyrir að markaðsgjald að hlutfalli 0,043% af tryggingagjaldsstofni skili Útflutningsráði áþekkum tekjum og markaðsgjaldið mundi að óbreyttu gera á árinu 1999, eða um 125 milljónum kr.
    Í tengslum við þessar breytingar hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra lýst þeim vilja sínum að Fjárfestingarstofan verði áfram í nánu samstarfi við Útflutningsráð. Gert er ráð fyrir að stofunni verði sett sérstök stjórn og að fulltrúar atvinnulífsins muni tilnefna hluta stjórnar­manna á svipaðan hátt og í stjórn Útflutningsráðs samkvæmt frumvarpi þessu. Stofnanirnar yrðu þannig áfram í mjög nánu samráði og undir sama þaki og auðveldara yrði að sameina krafta þeirra í margháttuðu kynningarstarfi erlendis. Þá gefur þessi skipan einnig möguleika til að þróa frekar samstarf stofnananna í samræmi við breyttar þarfir.
    Gert er ráð fyrir nokkurri útgjaldaaukningu til markaðssetningar vegna erlendra fjárfest­inga í kjölfar breytinganna. Í frumvarpi til fjárlaga sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir 25 milljóna kr. framlagi til Fjárfestingarstofu. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra áætlar að sú upphæð haldist óbreytt, en því til viðbótar er í frumvarpinu gert ráð fyrir að stjórn Út­flutningsráðs muni veita hluta af tekjum af hinu nýja markaðsgjaldi til samvinnuverkefna með Fjárfestingarstofu. Er því gert ráð fyrir að markaðsgjaldið nemi 0,05% af trygginga­gjaldsstofni, en ætla má að það gæfi um 20 milljóna kr. tekjur, til viðbótar þeim 125 milljón­um kr. sem gert er ráð fyrir að Útflutningsráð fái til hefðbundinnar starfsemi sinnar á næsta ári. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að hið nýja markaðsgjald skili meiri heildartekjum til Út­flutningsráðs en markaðsgjaldið gerir nú lækka framlög atvinnulífsins til starfseminnar frá því sem nú er þar sem hið opinbera greiðir 20% hins nýja markaðsgjalds en var ekki meðal greiðenda þess eldra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um að Útflutningsráð skuli stofna til formlegs samstarfs við
þá aðila sem vinna að markaðssetningu á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta, þ.e. Fjárfestingar­stofu og/eða iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti. Jafnframt er ráðinu ætlað að verja ákveðnum hluta tekna af markaðsgjaldinu til þessa verkefnis.

Um 2. gr.


    Hér er kveðið á um þá breytingu á tekjum Útflutningsráðs að markaðsgjald verði miðað við tryggingagjaldsstofn en ekki veltu eins og nú er. Hlutfallstalan 0,05% á að skila Útflutn­ingsráði sambærilegum tekjum og markaðsgjald samkvæmt núgildandi reglum hefði gert á árinu 1999, að viðbættum u.þ.b. 20 milljónum kr. sem verður varið til að efla frekar erlenda fjárfestingu hér á landi.

Um 3. gr.


    Gert er ráð fyrir að stjórn Útflutningsráðs verði skipuð sjö mönnum. Fulltrúar atvinnulífs­ins hafa þar meiri hluta en utanríkisráðherra skipar tvo stjórnarmenn. Skipulag þetta á rætur að rekja til tillagna meiri hluta nefndar þeirrar sem utanríkisráðherra skipaði. Ætlunin er að tryggja aukna skilvirkni í stjórn Útflutningsráðs og auka tengsl þess og utanríkisráðuneytisins.

Um 4. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um stofnun samráðsnefndar sem tryggir aðild fleiri hagsmuna­samtaka að samráði um stefnu og starfsemi Útflutningsráðs en verið hefur. Fyrirmynd að þessu skipulagi er einnig í tillögum nefndar þeirrar sem utanríkisráðherra skipaði. Gert er ráð fyrir að samráðsnefndin verði mikilvægur vettvangur til samráðs milli opinberra aðila og fulltrúa atvinnulífsins um starfsemi Útflutningsráðs.

Um 5. gr.


    Með greininni er núgildandi ákvæði um heimild til setningar reglugerðar rýmkað. Með því er ætlunin að skapa svigrúm til að bregðast við athugasemdum nefndarinnar um verka­skiptingu Útflutningsráðs og utanríkisráðuneytisins og skort á skipulegu samráði þeirra á milli.

Um 6. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að markaðsgjaldið falli niður frá og með 1. janúar 2001, nema annað verði ákveðið í lögum. Ákvæðið kemur í stað fyrra bráðabirgðaákvæðis sem kvað á um að markaðsgjaldið félli niður nú um áramót.

Um 7. gr.


    Í greininni er kveðið á um að innheimta markaðsgjalds af tryggingagjaldsstofni hefjist í staðgreiðslu í ársbyrjun 1999. Þá er tekið fram til skýringar að álagning markaðsgjalds vegna veltu ársins 1998 fari fram á árinu 1999 í samræmi við eldri reglur.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um
Útflutningsráð Íslands, nr. 114/1990, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru m.a. gerðar breytingar á markaðsgjaldi sem er tekjustofn Útflutningsráðs Íslands. Lagt er til að framlag til Útflutningsráðs verði ekki bundið við 0,015% af veltu fyrirtækja eins og nú heldur renni 0,05% af tryggingagjaldsstofni til ráðsins. Gert er ráð fyrir að þetta leiði til um 20 m.kr. hærri tekna en af markaðsgjaldi samkvæmt núgildandi lögum.
    Talið er að kostnaður ríkisins af hækkun tryggingagjalds verði óverulegur. Þess ber að geta að á tímabilinu 1996–1999 mun tryggingagjald ríkisins og sveitarfélaga hafa lækkað úr 6,93% í 5,48% og fyrirhugað er að það lækki í 5,18% árið 2000. Hækkun tryggingagjalds um 0,05% mun því hafa óveruleg áhrif á afkomu opinberra aðila.