Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 639  —  385. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lagaákvæðum er varða samgönguáætlun o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


I. KAFLI
Breytingar á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað orðsins „flugmálaáætlun“ í 4. mgr. 7. gr. laganna kemur: samgönguáætlun.

2. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Flugráð er skipað sex mönnum og jafnmörgum til vara. Varamenn taka sæti í forföllum aðalmanna.
    Samgönguráðherra skipar sex menn í ráðið, tvo samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og einn samkvæmt tilnefningu Samtaka ferðaþjónustunnar og jafnmarga til vara. Skulu fulltrúar þessir hafa þekkingu á flugmálum og skal sú þekking a.m.k. ná til innanlandsflugs, millilandaflugs og almenns flugs. Þrír fulltrúar skulu skipaðir án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði falla jöfn. Fulltrúar skipaðir af samgönguráðherra skulu vera formaður og varaformaður flugráðs.
    Skipunartími flugráðs er fjögur ár, en skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipar.
    Flugráð er samgönguráðherra og flugmálastjóra til ráðuneytis um flugmál.
    Verkefni flugráðs eru að:
     a.      fjalla um stefnumótun í flugmálum,
     b.      veita samgönguráðherra umsögn um tillögu samgönguráðs að samgönguáætlun, sbr. lög um samgönguáætlun,
     c.      fjalla um rekstraráætlanir Flugmálastjórnar,
     d.      fjalla um gjaldskrártillögur,
     e.      veita umsögn um lög og reglur er varða flugmál,
     f.      fjalla um málefni sem samgönguráðherra eða Alþingi sendir flugráði til umfjöllunar,
     g.      fjalla um mál sem flugmálastjóri eða einstakir flugráðsmenn óska að fjallað verði um.
    Flugmálastjóri situr fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt ásamt þeim starfsmönnum Flugmálastjórnar sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir. Flugráð getur óskað eftir áliti flugmálastjóra ef þörf þykir. Nánar skal kveðið á um hlutverk flugráðs í reglugerð.

II. KAFLI
Breytingar á lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda
í flugmálum, nr. 31/1987, með síðari breytingum.
3. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Flugmálaáætlun skal gerð samkvæmt lögum um samgönguáætlun. Með flugmálaáætlun samkvæmt lögum þessum er átt við flugmálaáætlunarkafla samgönguáætlunar, sbr. lög um samgönguáætlun.
    Í flugmálaáætlun skal gerð grein fyrir allri fjáröflun til flugmála og útgjöld sundurliðuð eftir helstu rekstrar- og framkvæmdaflokkum. Sé fé veitt á annan hátt til framkvæmda í flugmálum skal farið með það innan flugmálaáætlunar.

4. gr.

    2. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Verkefnum skal skipað í flokka samkvæmt nánari skilgreiningu í samgönguáætlun.

6. gr.

    4. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

    Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Fjáröflun til flugmála.

III. KAFLI
Breytingar á lögum um Siglingastofnun Íslands,
nr. 6/1996, með síðari breytingum.

8. gr.

    Í stað orðanna „Forstjóri Siglingastofnunar Íslands“ og „Forstjóri Siglingastofnunar“ í 2. mgr. 2. gr., 3. mgr. 5. gr. og 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna kemur í viðeigandi falli: Siglingamálastjóri.

9. gr.


    Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Að annast gerð áætlana samkvæmt lögum um samgönguáætlun.

10. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Samgönguráðherra skipar hafnaráð. Í hafnaráði skulu eiga sæti sex fulltrúar og jafnmargir varamenn. Þar af skulu tveir tilnefndir af Hafnasambandi sveitarfélaga til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Einn skal tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins að loknum alþingiskosningum. Þrír fulltrúar skulu skipaðir án tilnefningar að loknum alþingiskosningum og skal einn þeirra vera formaður ráðsins. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði falla jöfn.

11. gr.

    1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Verkefni hafnaráðs eru eftirfarandi:
     a.      Hafnaráð veitir samgönguráðherra umsögn um tillögu samgönguráðs að samgönguáætlun, sbr. lög um samgönguáætlun.
     b.      Hafnaráð gefur ráðherra umsögn um breytingar á lögum og reglum er varða hafnamál og sjóvarnir.
     c.      Hafnaráð er stjórn Hafnabótasjóðs samkvæmt hafnalögum. Hafnaráð hefur umsjón með greiðsluþátttöku ríkisins við hafna- og sjóvarnaframkvæmdir og afgreiðir umsóknir um tjónabætur sem sendar eru til sjóðsins.
     d.      Hafnaráð er Siglingastofnun til ráðgjafar um framkvæmd áætlana í hafna- og sjóvarnaframkvæmdum.

IV. KAFLI
Breytingar á lögum um sjóvarnir, 28/1997.

12. gr.


    2. gr. laganna orðast svo:
    Hafnaráð er Siglingastofnun Íslands til ráðgjafar um framkvæmd áætlana í sjóvörnum.

13. gr.


    3. gr. laganna orðast svo:
    Siglingastofnun Íslands skal sjá um að áætlun um sjóvarnir sé gerð samkvæmt lögum um samgönguáætlun. Áætlun um sjóvarnir samkvæmt lögum þessum skal tilgreind í siglingamálaáætlunarkafla samgönguáætlunar, sbr. lög um samgönguáætlun.
    Við gerð áætlana um sjóvarnir skal stofnunin hafa samvinnu og samráð við hlutaðeigandi sveitarstjórn, landeigendur og aðra aðila sem að málinu koma. Umsóknir um framlag úr ríkissjóði til sjóvarna skulu sveitarfélög senda Siglingastofnun.
    Í áætluninni skal meta nauðsyn framkvæmda, með hliðsjón af hættu á sjávarflóðum og landbroti af völdum ágangs sjávar, og áætlaðan kostnað. Jafnframt skal leggja mat á hagrænt gildi þeirra aðgerða sem lagðar eru til á hverju svæði og gera tillögu um flokkun framkvæmda í forgangsröð. Þá skal koma fram umsögn um fyrirkomulag framkvæmda og gerð þeirra mannvirkja sem reisa þarf við ströndina.

14. gr.

    4. gr. laganna fellur brott.

15. gr.

    Í stað orðanna „fjögurra ára áætlunar, sbr. 2. mgr. 4. gr.“ í 1. málsl. 5. gr. laganna kemur: áætlunar skv. 3. gr.

V. KAFLI
Breyting á vegalögum, nr. 45/1994, með síðari breytingum.
16. gr.

    18. gr. laganna orðast svo:
    Í vegáætlun skal gerð grein fyrir fjáröflun til vegamála og útgjöld sundurliðuð á einstakar framkvæmdir, rekstur, þjónustu og viðhald eftir því sem við á í samræmi við uppsetningu samgönguáætlunar. Við skiptingu fjárveitinga skal höfð hliðsjón af gerð vega, ástandi þeirra, notkun eða lengd eftir því sem við getur átt hverju sinni.
    Sé fé veitt til þjóðvegagerðar eftir öðrum leiðum en getið er um í vegáætlun, svo sem í landshlutaáætlunum, með sérstakri fjáröflun eða á annan slíkan hátt, skal fjalla um skiptingu þess innan ramma samgönguáætlunar á sama hátt og að framan getur.
    Vegáætlun skal gerð samkvæmt lögum um samgönguáætlun. Með vegáætlun samkvæmt lögum þessum er átt við vegáætlunarkafla samgönguáætlunar, sbr. lög um samgönguáætlun.

17. gr.

    27. og 28. gr. laganna falla brott.

18. gr.

    Fyrirsögn V. kafla laganna verður: Vegáætlun.

19. gr.

    Í stað orðanna „skipulagsstjórn ríkisins“ í 3. málsl. 31. gr. laganna kemur: Skipulagsstofnun.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um skipamælingar, nr. 50/1970, með síðari breytingum.
20. gr.

    Í stað orðanna „forstjóra Siglingastofnunar Íslands“ í 1.–3. mgr. 2. gr., 4. gr., 8. gr., 9. gr. og 15. gr. laganna kemur í viðeigandi falli: siglingamálastjóri.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum.
21. gr.

    Í stað orðanna „forstjóri Siglingastofnunar Íslands“ í 2. og 3. mgr. 3. gr., 2. mgr. 5. gr., 3. og 6. mgr. 6. gr., 7. gr., 6. mgr. 9. gr., 2. mgr. 15. gr., 1. og 2. mgr. 18. gr. og 1. og 2. mgr. 19. gr. laganna kemur í viðeigandi falli: siglingamálastjóri.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um eftirlit með skipum, nr. 35/1993,
með síðari breytingum.

22. gr.

    Í stað orðanna „forstjóri Siglingastofnunar Íslands“ í 1. mgr. 6. gr., 8. gr., 2. mgr. 10. gr., 2. mgr. 11. gr., 14. gr., 1. mgr. 15. gr., 21. gr., 2. mgr. 23. gr. og 2. mgr. 26. gr. laganna kemur í viðeigandi falli: siglingamálastjóri.

IX. KAFLI
Breyting á hafnalögum, nr. 23/1994, með síðari breytingum.
23. gr.

    Í stað orðanna „forstjóra Siglingastofnunar Íslands“ í 3. mgr. 19. gr., 3. tölul. 20. gr. og 4. mgr. 24. gr. laganna kemur í viðeigandi falli: siglingamálastjóri.

24. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var samið í samgönguráðuneytinu. Samgönguráðherra hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um samgönguáætlun sem ætlað er að fjalla með heildstæðum hætti um áætlanagerð í samgöngumálum og tekur til flugmála, siglingamála og vegamála. Er þar kveðið á um breytingar á málsmeðferð og vinnuaðferðum við gerð áætlana um flugmál, siglingamál og vegamál frá því sem nú er. Af þessum sökum er nauðsynlegt að breyta ákvæðum þeirra laga sem fjalla um flugmálaáætlun, hafnaáætlun, sjóvarnaáætlun og vegáætlun. Það er fyrst og fremst verið að breyta því hvernig staðið er að gerð og endurskoðun áætlana, og vísað er til laga um samgönguáætlun, en ekki er haggað við öðrum ákvæðum þessara laga fyrir utan orðalagsbreytingar vegna breyttrar yfirstjórnar skipulags- og byggingarmála og breytingu á starfsheiti forstöðumanns Siglingastofnunar Íslands á þann veg að í stað þess að vera nefndur forstjóri Siglingastofnunar Íslands eins og nú er í lögum er um hann fjalla verði hann nefndur siglingamálastjóri.
    Ákvæði vegalaga um langtímaáætlun falla brott með frumvarpi þessu. Langtímaáætlun var lögfest í vegalögum við heildarendurskoðun laganna árið 1994 og var þá nýmæli. Með framangreindu frumvarpi til laga um samgönguáætlun er gert ráð fyrir heildstæðri samgönguáætlun sem tekur til jafnlangs tíma og langtímaáætlun í vegagerð. Vísað er í greinargerð með lögum um samgönguáætlun um frekari skýringar.
    Þá er lagt til að gerð verði orðalagsbreyting á 31. gr. laganna sem leiðir af áorðnum breytingum á yfirstjórn skipulags- og byggingarmála samkvæmt ákvæðum núgildandi skipulags- og byggingarlaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er orðinu flugmálaáætlun skipt út fyrir samgönguáætlun í samræmi við ný lög um samgönguáætlun.

Um 2. gr.

    Hér er gert ráð fyrir breyttu fyrirkomulagi við skipan flugráðs. Samkvæmt gildandi lögum er það skipað fimm fulltrúum en hér er lagt til að þeim verði fjölgað í sex. Í stað fulltrúa Alþingis skipar samgönguráðherra þrjá fulltrúa, tvo samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og einn samkvæmt tilnefningu Samtaka ferðaþjónustunnar og er honum ætlað að vera fulltrúi notenda flugþjónustu. Markmið þessara breytinga er að tryggja aðkomu sérþekkingar hagsmunaaðila að flugmálum. Litið er svo á að málefni flugráðs komi mörg til kasta Alþingis og það sé kostur að hagsmunaaðilar hafi vettvang fyrir sín sjónarmið áður en til þess kemur. Verkefni flugráðs breytast að nokkru leyti, m.a. þannig að nú gefur flugráð samgönguráðherra skriflega umsögn um tillögur samgönguráðs en kemur ekki að áætlanagerðinni sjálfri. Þá er það nýmæli að lögbinda heimild flugráðs til að óska eftir áliti flugmálastjóra þegar þörf krefur.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að 1. gr. laga um flugmálaáætlun verði breytt til samræmis við lög um samgönguáætlun sem tekur yfir ákvæði um meðferð áætlunarinnar.

Um 4. gr.

    2. mgr. 2. gr. núgildandi laga er felld brott með frumvarpi þessu til samræmis við lög um samgönguáætlun.

Um 5. gr.

    Hér er 3. gr. gildandi laga felld brott. Ákvæðið ber merki frá gamalli tíð þegar alþjóðlegir staðlar og kröfur voru komnir styttra á veg, m.a. um gerð flugvalla. Þetta ákvæði þykir óþarflega bundið í dag með vísan til breytinga á alþjóðlegum reglum og stöðlum. Ekki þykir æskilegt að binda slíkar skilgreiningar í lög þar sem þær verða settar fram í samgönguáætlun.

Um 6. gr.

    4. gr. laganna er felld brott þar sem gert er ráð fyrir einni sameiginlegri framkvæmdaskýrslu stofnana.

Um 7. gr.

    Lögum um flugmálaáætlun var breytt með lögum nr. 56/1998, og er nú heimilt að verja tekjum af flugvallagjaldi til flugmála almennt. Því er kaflaheitinu breytt til samræmis við það.

Um 8. gr.

    Í lögum er víða vísað til forstjóra Siglingastofnunar Íslands til samræmis við breytingu sem leiddi af lögum nr. 7/1996. Með frumvarpi þessu er öllum gildandi ákvæðum laga sem tiltaka forstjóra Siglingastofnunar Íslands breytt á þann veg að í staðinn verði hann nefndur siglingamálastjóri.

Um 9. gr.


    Hér er lagt til að bætt verði ákvæði við 3. gr. laga um um Siglingastofnun Íslands, nr. 6/1996, þannig að stofnunin annist gerð áætlana á sviði siglingamála samkvæmt lögum um samgönguáætlun.

Um 10. gr.

    Hér er lögð til breyting á skipan hafnaráðs. Samkvæmt gildandi lögum er það skipað fimm fulltrúum. Lagt er til að í hafnaráði verði sex fulltrúar og þar af skipi Samtök atvinnulífsins einn fulltrúa í ráðið sem ætlað er að vera fulltrúi notenda hafna. Með þessu geta þeir sem nýta hafnirnar og greiða gjöld fyrir afnot af þeim komið sjónarmiðum sínum að innan hafnaráðs. Þessi breyting er m.a. tilkomin vegna umræðu sem orðið hefur við undirbúning að framlagningu frumvarps til nýrra hafnalaga sem lagt verður fram samhliða þessu frumvarpi. Þá er það nýmæli að kveðið er á um að atkvæði formanns hafnaráðs ráði úrslitum ef atkvæði falla jöfn.

Um 11. gr.

    Hér er fjallað um verkefni og hlutverk hafnaráðs. Hlutverki þess er breytt til þess að falla betur að frumvarpi að nýjum hafnalögum og lögum um gerð samgönguáætlunar. Verkefni hafnaráðs eru m.a. að gefa samgönguráðherra umsögn um tillögu samgönguráðs að samgönguáætlun og að veita umsögn um breytingar á lögum og reglum er varða hafnamál og sjóvarnir. Þá myndar hafnaráð stjórn Hafnabótasjóðs sem gegnir breyttu hluverki samkvæmt frumvarpi til nýrra hafnalaga. Breytingar frá núverandi lögum eru að hafnaráð fjallar ekki lengur um gjaldskrá hafna. Þá kemur hafnaráð ekki lengur að áætlunargerð Siglingastofnunar, heldur gefur samgönguráðherra sjálfstæða umsögn um tillögur samgönguráðs í samræmi við lög um samgönguáætlun. Hlutverk hafnaráðs við framkvæmd áætlana verður viðameira.

Um 12. gr.

    Hér er lögð til breyting á 2. gr. laga um sjóvarnir. Þessi breyting felur það í sér að kveðið er á um að hafnaráð skuli vera Siglingastofnun til ráðgjafar um framkvæmd áætlunar um sjóvarnaframkvæmdir. Er það í samræmi við breytt hlutverk hafnaráðs samkvæmt lögum um samgönguáætlun.

Um 13. gr.

    Með þessari grein frumvarpins er kveðið á um að Siglingastofnun Íslands skuli sjá um gerð áætlana um sjóvarnir í samræmi við lög um samgönguáætlun. Tekið er fram að áætlun um sjóvarnir er hluti af siglingamálaáætlunarkafla samgönguáætlunar. Við gerð áætlana um sjóvarnir skal stofnunin hafa samvinnu og samráð við hlutaðeigandi sveitarstjórn, landeigendur og aðra aðila sem að málinu koma.

Um 14. gr.

    4. gr. núgildandi laga er felld brott þar sem um þetta er fjallað í lögum um samgönguáætlun.Gert er ráð fyrir að hafnaráð gefi umsögn um tillögur samgönguráðs og komi það í staðinn fyrir þetta samráðsferli.

Um 15. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 16. gr.

    Hér er lögð til breyting á 18. gr. laganna. Breytingin felur í sér að felld eru niður ákvæði sem varða meðferð vegáætlunar þar sem lög um samgönguáætlun fjalla um þessi atriði. Hér er m.a. um að ræða ákvæði um gildistöku, gildistíma og endurskoðun vegáætlunar.

Um 17. gr.

    Hér eru felld niður ákvæði 27. og 28. gr. laganna um langtímaáætlun. Eins og áður er komið fram verður langtímaáætlun í vegagerð hluti samgönguáætlunar.

Um 18. gr.

    Með ákvæði þessu er verið að breyta fyrirsögn V. kafla þannig að nú er vísað til þess að kaflinn fjallar um vegáætlun en tilvísun í langtímaáætlun felld niður.

Um 19. gr.

    Í ákvæði þessu er lögð til breyting til samræmis við skipulags- og byggingarlög. Með lögum nr. 73/1997 var breytt ákvæðum um stjórn skipulagsmála. Skipulagsstjórn ríkisins var lögð niður og Skipulagsstofnun falið það hlutverk að vera ráðherra til aðstoðar við yfirstjórn skipulagsmála og framkvæmd laganna.

Um 20.–23. gr.


    Um skýringar vísast til athugasemdar við 8. gr.

Um 24. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum
er varða samgönguáætlun o.fl.

    Tilgangur frumvarpsins er að breyta nokkrum lögum er fjalla um áætlanir í flugmálum, siglingamálum og vegamálum til að koma á heildstæðri samgönguáætlun. Frumvarpið nær til laga um loftferðir, nr. 60/1998, laga um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum, nr. 31/1987, laga um Siglingastofnun Íslands, nr. 6/1996, laga um sjóvarnir, nr. 28/1997, og vegalaga, nr. 45/1994. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um samgönguáætlun þar sem lagt er til að áætlanagerð í samgöngumálum verði samræmd. Í frumvarpinu er lagt til að fjölgað verði um einn í flugráði og að samgönguráðherra skipi alla fulltrúa ráðsins. Einnig er lagt til að hafnaráð verði skipað sex fulltrúum og þar af skipi Samtök atvinnulífsins einn fulltrúa. Hlutverk hafnaráðs breytist einnig og myndar ráðið m.a. stjórn Hafnabótasjóðs sem fær nýtt hlutverk samkvæmt frumvarpi til laga um hafnalög. Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði vegna fjölgunar í hafnaráði og flugráði.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á starfsheiti forstöðumanns Siglingastofnunar á þann veg að hann verði nefndur siglingamálastjóri. Í því augnamiði nær frumvarpið til laga um skipamælingar, nr. 50/1970, laga um skráningu skipa, nr. 115/1970, laga um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, og hafnalaga, nr. 23/1994.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.