Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 438. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 644  —  438. mál.
Tillaga til þingsályktunarum staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 110/2004, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 110/2004 frá 9. júlí 2004, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    
Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 110/2004 frá 9. júlí 2004, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES-samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB fjallar um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.
    Í tilskipuninni er kveðið á um að höfundum og rétthöfum svokallaðra skyldra réttinda (listflytjendum, framleiðendum hljóðrita, kvikmyndaframleiðendum og útvarpsfyrirtækjum) skuli tryggður einkaréttur til hvers konar eftirgerðar verka sinna og nánar tiltekins efnis. Skal einkarétturinn þannig ekki aðeins ná til áþreifanlegra eintaka heldur einnig t.d. til afrita í rafrænu formi. Höfundum skal einnig tryggður einkaréttur til hvers konar svokallaðrar „miðlunar verka sinna til almennings“ (e. „communication to the public“). Þessi réttur er skilgreindur svo að hann taki til allrar miðlunar til almennings sem er ekki staddur á þeim stað þar sem miðlunin fer fram. Undir þetta fellur m.a. gagnvirk pöntunarþjónusta á netinu. Jafnframt skal höfundum tryggður einkaréttur til dreifingar til almennings á verkum sínum með sölu eða á annan hátt.
    Rétthöfum skyldra réttinda (svo sem listflytjendum, framleiðendum og útvarpsfyrirtækjum) skal tryggður einkaréttur til þess að nánar tiltekið efni þeirra verði gert aðgengilegt almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs. Samkvæmt þessu geta t.d. rétthafar hljóðrita og kvikmynda heimilað eða bannað miðlun efnis síns um netið og sett skilyrði fyrir notkun þess.
    Í tilskipuninni er að finna tæmandi upptalningu á heimilum undantekningum og takmörkunum á einkaréttinum til eftirgerðar og/eða miðlunar til almennings, sem og á dreifingarréttinum. Aðeins eina þeirra er skylt að taka upp í landslög, en tuttugu þeirra eru valfrjálsar.
    Skylt er að kveða á um fullnægjandi lögvernd gegn sniðgöngu tæknilegra ráðstafana sem ætlað er að vernda verk og annað efni sem fellur undir höfundarétt og skyld réttindi, sem og lögvernd gegn því að rafrænar upplýsingar um réttindaumsýslu séu fjarlægðar eða þeim breytt.
    Unnið er að innleiðingu gerðarinnar í menntamálaráðuneytinu.Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 110/2004

frá 9. júlí 2004

um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XVII. viðauka við samninginn var breytt með samningnum um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu, sem undirritaður var 14. október 2003 í Lúxemborg ( 1 ).

2)        Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu ( 2 ), með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. EB L 6, 10.1.2002, bls. 70, skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

XVII. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.    Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunarákvæðunum í 7. lið (tilskipun ráðsins 92/100/EBE) og 9. lið (tilskipun ráðsins 93/98/EBE):

    „ , eins og henni var breytt með:

    -             32001 L 0029: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 (Stjtíð. EB L 167, 22.6.2001, bls. 10), með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. EB L 6, 10.1.2002, bls. 70.“

2.    Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 9d (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/44/EB):

    „9e.     32001 L 0029: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu (Stjtíð. EB L 167, 22.6.2001, bls. 10), með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. EB L 6, 10.1.2002, bls. 70.

                Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                EFTA-ríkjunum skal boðið að senda fulltrúa á fundi tengslanefndarinnar.“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2001/29/EB, með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. EB L 6, 10.1.2002, bls. 70, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 10. júlí 2004 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 9. júlí 2004.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Kjartan Jóhannsson


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2001/29/EB
frá 22. maí 2001
um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagins, einkum 2. mgr. 47. gr., 55. gr. og 95. gr.
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
     1)      Sáttmálinn kveður á um stofnun innri markaðar og innleiðingu kerfis sem tryggir að samkeppni á innri markaðinum raskist ekki. Samræming laga aðildarríkjanna um höfundarétt og skyld réttindi stuðlar að því að þessum markmiðum verði náð.
     2)      Á fundi sínum á Korfu, dagana 24. og 25. júní 1994, lagði leiðtogaráðið áherslu á nauðsyn þess að móta almennan og sveigjanlegan lagaramma á vettvangi bandalagsins með það fyrir augum að stuðla að þróun upplýsingasamfélagsins í Evrópu. Ein af forsendum þessa er að fyrir hendi sé innri markaður fyrir nýjar vörur og þjónustu. Mikilvæg bandalagslöggjöf til að tryggja slíkan lagaramma hefur þegar verið sett eða er í þann mund að verða samþykkt. Höfundaréttur og skyld réttindi gegna veigamiklu hlutverki í þessu samhengi þar eð þau vernda og ýta undir þróun og markaðssetningu nýrra vara og þjónustu sem og sköpun og hagnýtingu frumlegs inntaks þeirra.
     3)      Fyrirhuguð samræming greiðir fyrir því að fjórfrelsi innri markaðarins verði komið á og tengist því að farið sé að meginreglum laga og þá sérstaklega að því er varðar eignarrétt, þar á meðal á hugverkum, tjáningarfrelsi og almannaheill.
     4)      Samræmdur lagarammi um höfundarétt og skyld réttindi mun, í krafti aukins réttaröryggis og víðtækrar hugverkaverndar, ýta undir verulegar fjárfestingar í hugviti og nýsköpun, þar á meðal í netgrunnvirkjum, og hafa í för með sér vöxt og aukna samkeppnishæfni evrópsks iðnaðar, bæði á sviði efnisframboðs og upplýsingatækni og almennt á ýmsum sviðum iðnaðar og menningar. Þetta mun tryggja atvinnu og hvetja til sköpunar nýrra starfa.
     5)      Tækniþróunin hefur margfaldað og aukið fjölbreytni þeirra þátta sem stuðla að sköpun, framleiðslu og hagnýtingu. Þótt ekki sé þörf á nýjum hugtökum er varða vernd hugverka er rétt að aðlaga og auka við gildandi lög um höfundarétt og skyld réttindi til að þau samsvari á fullnægjandi hátt hinum efnahagslega veruleika, svo sem nýjum formum hagnýtingar.
     6)      Án samhæfingar innan bandalagsins gæti lagasetning á innlendum vettvangi, en hún er þegar hafin í mörgum aðildarríkjanna til að koma til móts við þróun tækninnar, leitt til verulegs munar á réttarvernd og takmarkað þar með frjálsa þjónustustarfsemi og vöruflutninga sem fela í sér hugverk eða byggjast á hugverki en það gæti aftur leitt til skiptingar innri markaðarins og ósamræmis í lagasetningu. Áhrif þessa lagaósamræmis og réttaróvissu verða veigameiri eftir því sem upplýsingasamfélagið þróast en sú þróun hefur þegar aukið að mun hagnýtingu hugverka yfir landamæri. Þessi þróun heldur áfram og er ástæða til að efla hana. Veigamikill munur á löggjöf og óvissa í réttarvernd getur komið í veg fyrir að unnt sé að nýta hagkvæmni stórreksturs að því er varðar nýjar vörur og þjónustu með inntaki sem heyrir undir höfundarétt og skyld réttindi.
     7)      Því verður að aðlaga og auka við lagaramma bandalagsins um vernd höfundaréttar og skyldra réttinda í þeim mæli sem nauðsynlegt er fyrir snurðulausa starfsemi innri markaðarins. Í þessu skyni er því rétt að breyta þeim ákvæðum landslaga um höfundarétt og skyld réttindi sem eru mjög ólík milli aðildarríkja eða valda réttaróvissu sem hindrar snurðulausa starfsemi innri markaðarins og eðlilega þróun upplýsingasamfélagsins í Evrópu og forðast ber ósamræmi í því hvernig aðildarríkin bregðast við þróun tækninnar en hins vegar er ekki ástæða til að afnema eða koma í veg fyrir þann mun sem hefur ekki skaðleg áhrif á starfsemi innri markaðarins.
     8)      Mismunandi félagslegir, samfélagslegir og menningarlegir þættir upplýsingasamfélagsins útheimta að tekið sé mið af sérkennum í inntaki vara og þjónustu.
     9)      Öll samræming höfundaréttar og skyldra réttinda verður að byggjast á víðtækri vernd þar eð slík réttindi eru afar mikilvæg fyrir sköpun hugverka. Vernd þeirra stuðlar að því að tryggja framhald og þróun sköpunarstarfs en það kemur höfundum, listflytjendum, framleiðendum, neytendum, menningarstarfsemi, iðnaði og öllum almenningi til góða. Hugverkaréttur hefur því verið viðurkenndur sem órjúfanlegur hluti eignarréttar.
     10)      Eigi höfundar og listflytjendur að halda áfram skapandi og listrænu starfi sínu verða þeir að fá viðeigandi þóknun fyrir afnot af verkum sínum og sama máli gegnir um framleiðendur til að þeir geti fjármagnað þetta starf. Verulegrar fjárfestingar er þörf við framleiðslu á vörum, eins og hljóðritum, kvikmyndum eða margmiðlunarvörum, og við þjónustu eins og pöntunarþjónustu. Fullnægjandi lögvernd hugverkaréttinda er nauðsynleg til að tryggja slíka þóknun og gefa kost á viðunandi arði af fjárfestingunum.
     11)      Nákvæmt, skilvirkt kerfi til að vernda höfundarétt og skyld réttindi er ein helsta leiðin til að tryggja að sköpun og framleiðsla menningarverka í Evrópu fái nægilegt fjármagn og til að standa vörð um sjálfstæði og reisn listrænna höfunda og listflytjenda.
     12)      Einnig er mjög mikilvægt frá menningarlegu sjónarmiði að vernda á fullnægjandi hátt verk, sem njóta höfundaréttar, og efni sem nýtur skyldrar verndar. Skv. 151. gr. sáttmálans skal bandalagið í aðgerðum sínum taka tillit til menningarlegra þátta.
     13)      Það hefur grundvallarþýðingu að leitað sé í sameiningu að tæknilegum ráðstöfunum sem beitt skal á samræmdan hátt á evrópskum vettvangi og miða að því að vernda verk og annað efni og tryggja nauðsynlegar upplýsingar um réttindi á þessu sviði, svo fremi að lokamarkmiðið með þessum ráðstöfunum sé að tryggja raunverulega framkvæmd þeirra meginreglna og ábyrgða sem mælt er fyrir um í lögunum.
     14)      Með þessari tilskipun er stefnt að því að efla menntun og menningu með því að vernda verk og annað efni en gefa um leið kost á undanþágum eða takmörkunum í þágu almennings með nám og kennslu fyrir augum.
     15)      Á ráðstefnu sendierindreka, sem haldin var á vegum Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) í desember 1996, voru samþykktir tveir nýir samningar: samningur Alþjóðahugverkastofnunarinnar um höfundarétt og samningur Alþjóðahugverkastofnunarinnar um flutning og hljóðritun og fjallar sá fyrri um vernd höfunda og sá seinni um vernd listflytjenda og framleiðenda hljóðrita. Í sáttmálum þessum er vernd höfundaréttar og skyldra réttinda uppfærð umtalsvert, ekki síst að því er varðar hina svokölluðu stafrænu verkaskrá, auk þess sem gefinn er kostur á fleiri úrræðum til að berjast gegn stuldi á vernduðu efni um heim allan. Bandalagið og meirihluti aðildarríkjanna hafa þegar undirritað sáttmálana og hafið undirbúning að fullgildingu þeirra. Tilskipunin miðar einnig að því að koma í framkvæmd ýmsum nýjum, alþjóðlegum skuldbindingum.
     16)      Skaðabótaskylda fyrir starfsemi í netumhverfi varðar ekki einungis höfundarétt og skyld réttindi heldur einnig önnur málefni, svo sem ærumeiðingar, villandi auglýsingar eða brot á vörumerkjarétti, og því er fjallað um hana á breiðum grundvelli í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum („tilskipun um rafræn viðskipti“) ( 1 ) en þar eru útskýrð og samræmd ýmis lögfræðileg úrlausnarefni sem varða þjónustu í upplýsingasamfélaginu, þar á meðal rafræn viðskipti. Ákvæði þessarar tilskipunar ber að framkvæma samkvæmt svipaðri tímaáætlun og tilskipunina um rafræn viðskipti enda er í þeirri tilskipun mótaður rammi meginreglna og ákvæða sem varða m.a. mikilvæga hluta þessarar tilskipunar. Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á ákvæði um skaðabótaskyldu í fyrrnefndu tilskipuninni.
     17)      Nauðsynlegt er, einkum með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar eru í hinu stafrænu umhverfi, að ná fram meiri hagræðingu og gagnsæi hjá innheimtusamtökum að því er varðar samræmi við samkeppnisreglur.
     18)      Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á fyrirkomulag í aðildarríkjunum er varðar umsýslu réttinda, svo sem með samningskvöðum.
     19)      Siðferðileg réttindi rétthafa skulu sótt í samræmi við löggjöf aðildarríkjanna og ákvæði Bernarsáttmálans til verndar bókmenntum og listaverkum og samninga Alþjóðahugverkastofnunarinnar um höfundarétt og um flutning og hljóðritanir. Slík siðferðileg réttindi falla utan gildissviðs þessarar tilskipunar.
     20)      Þessi tilskipun byggist á meginreglum og öðrum reglum sem hafa þegar verið settar í tilskipunum sem nú eru í gildi á þessu sviði, einkum í tilskipunum 91/250/EBE ( 2 ), 92/100/ EBE ( 3 ), 93/83/EBE ( 4 ), 93/98/EBE ( 5 ) og 96/9/EB ( 6 ), og í henni eru þessar reglur mótaðar frekar og tengdar upplýsingasamfélaginu. Ákvæði þessarar tilskipunar skulu ekki hafa áhrif á ákvæði framangreindra tilskipana nema kveðið sé á um annað í þessari tilskipun.
     21)      Í þessari tilskipun ber að skilgreina gildissvið aðgerða, sem falla undir réttinn til eftirgerðar, með tilliti til mismunandi rétthafa. Þetta skal gert í samræmi við réttarreglur bandalagsins. Aðgerðirnar þarf að skilgreina á víðtækan hátt til að tryggja réttaröryggi á innri markaðinum.
     22)      Því markmiði, að veita tilhlýðilegan stuðning við útbreiðslu menningar, má ekki ná með tilslökunum á strangri vernd réttinda eða með því að umbera ólögleg viðskipti með fölsuð listaverk eða ólöglegar eftirgerðir.
     23)      Með þessari tilskipun skal samræmdur frekar réttur höfundar til miðlunar til almennings. Þennan rétt ber að skilja á almennan hátt þannig að hann taki til allrar miðlunar til almennings sem er ekki staddur á þeim stað þar sem miðlunin fer fram. Þessi réttur skal ná yfir hvers kyns útsendingar eða endurvarp á verkum til almennings um þráð eða þráðlaust, þar á meðal útvarp (hljóðvarp og sjónvarp). Þessi réttur skal ekki ná yfir neinar aðrar aðgerðir.
     24)      Réttinn til að gera efnið, sem um getur í 2. mgr. 3. gr., aðgengilegt almenningi skal skilja með þeim hætti að hann nái yfir allar aðgerðir sem felast í að gera slíkt efni aðgengilegt almenningi sem er ekki staddur á þeim stað þar sem efnið er gert aðgengilegt, en að hann nái ekki yfir neinar aðrar aðgerðir.
     25)      Með því að kveða á um samræmda vernd innan bandalagins skal eytt réttaróvissu um eðli og stig verndar á aðgerðum á borð við útsendingar um net eftir pöntun á verkum sem njóta höfundaréttar og efni sem nýtur skyldrar verndar. Það skal koma skýrt fram að allir, sem eru viðurkenndir sem rétthafar samkvæmt þessari tilskipun, skulu njóta einkaréttar til að gera verk, sem njóta höfundaréttar, eða annað efni aðgengilegt almenningi með gagnvirkum útsendingum eftir pöntun. Einkenni slíkra gagnvirkra útsendinga eftir pöntun eru þau að hver og einn getur fengið aðgang að þeim á þeim stað og á þeirri stund sem hann sjálfur kýs.
     26)      Þegar útvarpsrekendur bjóða pöntunarþjónustu fyrir hljóðvarps- eða sjónvarpsefni sem tónlist, hljóðrituð í hagnaðarskyni, er órjúfanlegur hluti af skal hvetja til heildarsamninga um nytjaleyfi til að auðvelda afgreiðslu réttindamála.
     27)      Það eitt, að útvega aðstöðu þar sem miðlun fer fram eða getur farið fram, telst ekki í sjálfu sér miðlun í skilningi þessarar tilskipunar.
     28)      Samkvæmt þessari tilskipun felur höfundaréttarvernd einnig í sér einkarétt til að stjórna dreifingu verks sem er hluti af efnislegri vöru. Eftir fyrstu sölu í bandalaginu á frumverki eða afritum þess af hálfu rétthafa eða með leyfi hans er rétturinn til að stjórna endursölu þessa verks í bandalaginu tæmdur. Ekki kemur til réttindaþurrðar að því er varðar frumrit verks og afrit þess sem rétthafi selur eða eru seld með samþykki hans utan bandalagsins. Leigu- og útlánsréttur höfunda hefur verið ákveðinn með tilskipun 92/100/EBE. Dreifingarrétturinn, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, hefur ekki áhrif á ákvæði um leigu- og útlánsrétt í I. kafla þeirrar tilskipunar.
     29)      Réttindaþurrð kemur ekki til álita þegar um þjónustu er að ræða og þá einkum beinlínuþjónustu. Þetta á einnig við um afrit verks eða annars efnis sem notandi slíkrar þjónustu hefur tekið með samþykki rétthafa. Það sama gildir því um útlán og leigu á frumriti og afritum verka eða öðru efni en hvorttveggja er í eðli sínu þjónusta. Ólíkt því sem gildir um geisladiska eða gagnvirka geisladiska, þar sem hugverkaréttur er fólginn í efnislegum hlut, með öðrum orðum vöru, er beinlínutengd þjónustustarfsemi í raun aðgerð sem skal háð leyfi enda sé gert ráð fyrir því í höfundaréttinum eða skyldum réttindum.
     30)      Heimilt er að framselja réttindin, sem um getur í þessari tilskipun, ánafna þeim eða veita öðrum samkvæmt samningsleyfi án þess að það hafi áhrif á viðeigandi innlenda löggjöf um höfundarétt og skyld réttindi.
     31)      Nauðsynlegt er að viðhalda réttlátu jafnvægi, að því er varðar réttindi og hagsmuni, milli mismunandi flokka rétthafa og einnig milli mismunandi flokka rétthafa og notenda verndaðs efnis. Endurmeta þarf gildandi undanþágur frá réttindum og takmarkanir á þeim í aðildarríkjunum með hliðsjón af hinu nýja, rafræna umhverfi. Sá munur, sem er á undanþágum og takmörkunum að því er varðar tilteknar aðgerðir sem heyra undir einkaréttindi, hefur bein, neikvæð áhrif á starfsemi innri markaðarins fyrir höfundarétt og skyld réttindi. Slíkur munur gæti hæglega aukist við frekari þróun í hagnýtingu verka yfir landamæri og starfsemi yfir landamæri. Til að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins ber að skilgreina slíkar undanþágur og takmarkanir á samræmdari hátt. Hversu langt skal gengið í að samræma þær skal miðast við áhrif þeirra á snurðulausa starfsemi innri markaðarins.
     32)      Í þessari tilskipun er tæmandi skrá yfir undanþágur og takmarkanir er varða réttinn til eftirgerðar og réttinn til miðlunar til almennings. Sumar af þessum undanþágum og takmörkunum gilda eingöngu um réttinn til eftirgerðar eftir því sem við á. Í skránni er tekið tilhlýðilegt tillit til mismunandi lagahefða í aðildarríkjunum og um leið stefnt að því að tryggja starfhæfan innri markað. Aðildarríkjunum ber að beita þessum undanþágum og takmörkunum á samræmdan hátt og það verður metið þegar kemur að endurskoðun framkvæmdarlöggjafarinnar.
     33)      Einkaréttur til eftirgerðar skal háður undanþágu sem heimilar tilteknar tímabundnar aðgerðir til eftirgerðar sem eru til skamms tíma eða tilfallandi og eru órjúfanlegur og mikilvægur liður í tækniferli og eiga sér einungis stað í þeim tilgangi að gera mögulega annaðhvort skilvirka útsendingu af hálfu milliliðs í neti milli þriðju aðila eða löglega notkun verks eða annars efnis. Sjálfar aðgerðirnar skulu ekki hafa sjálfstætt efnahagslegt gildi. Svo fremi að aðgerðir til eftirgerðar uppfylli þessi skilyrði skal undanþágan taka til aðgerða sem gera það kleift að rápa á vefnum og skyndivista, þar á meðal aðgerðir til að tryggja að útsendingarkerfi starfi á skilvirkan hátt, að því tilskildu að milliliðurinn breyti ekki upplýsingunum og grípi ekki inn í löglega notkun tækni, sem er viðurkennd og notuð í atvinnugreininni, í þeim tilgangi að afla sér gagna um notkun upplýsinganna. Notkun telst lögleg ef hún er heimiluð af rétthafa eða ekki takmörkuð með lögum.
     34)      Aðildarríkjunum skal gefinn kostur á að kveða á um tilteknar undanþágur eða takmarkanir, t.d. vegna fræðslu- eða vísindastarfsemi, í þágu opinberra stofnana, svo sem bóka- og skjalasafna, vegna fréttamennsku, vegna tilvitnana, til notkunar fyrir fatlað fólk, vegna almannaöryggis og vegna stjórnsýslumeðferðar eða málareksturs fyrir dómi.
     35)      Þegar um er að ræða ákveðnar undanþágur eða takmarkanir ber rétthöfum sanngjarnar bætur til að þeim verði bætt afnot af vernduðum verkum sínum eða öðru efni með fullnægjandi hætti. Við ákvörðun á formi þessara sanngjörnu bóta og nánara fyrirkomulagi varðandi þær og hugsanlegri fjárhæð þeirra skal tekið mið af sérstökum aðstæðum í hverju tilviki. Við mat á þessum aðstæðum er við hæfi að hafa sem viðmiðun þann skaða sem viðkomandi aðgerð gæti hugsanlega valdið rétthafa. Í tilvikum, þar sem rétthafar hafa þegar fengið greiðslu með öðrum hætti, t.d. sem hluta af höfundarþóknun, er ekki víst að þeim beri tiltekin eða sérstök greiðsla. Við ákvörðun á fjárhæð sanngjarnra bóta skal tekið fullt tillit til þess í hve miklum mæli beitt hefur verið þeim tæknilegu verndarráðstöfunum sem um getur í þessari tilskipun. Í ákveðnum tilvikum, þar sem skaði rétthafa er óverulegur, kann að vera að ekki liggi fyrir greiðsluskylda.
     36)      Aðildarríkin geta einnig kveðið á um sanngjarnar bætur til rétthafa þegar þau beita valfrjálsum ákvæðum um undanþágur eða takmarkanir sem innihalda ekki kröfur um slíkar bætur.
     37)      Innlendar reglur um ljósritun, sem kunna að vera fyrir hendi, valda ekki miklum hindrunum fyrir innri markaðinn. Aðildarríkjunum skal vera heimilt að kveða á um undanþágu eða takmörkun að því er varðar ljósritun.
     38)      Aðildarríkjunum skal vera heimilt að kveða á um undanþágu eða takmörkun á réttinum til eftirgerðar fyrir tilteknar tegundir eftirgerðar á hljóðefni, myndefni og hljóð- og myndefni til einkanota gegn sanngjörnum bótum. Þetta getur falið í sér að tekin verði upp þóknunarkerfi eða að núverandi kerfum verði haldið til að bæta skaða rétthafa. Þótt munurinn á þessum þóknunarkerfum hafi áhrif á starfsemi innri markaðarins ætti hann ekki að hafa marktæk áhrif á þróun upplýsingasamfélagsins að því er viðvíkur hliðrænni eftirgerð til einkanota. Líklegt er að stafræn afritun til einkanota verði almennari og hafi meiri áhrif í efnahagslegu tilliti. Því ber að taka tilhlýðilegt tillit til þess munar sem er á stafrænni og hliðrænni afritun til einkanota og í tilteknum tilvikum skal gerður greinarmunur á þeim.
     39)      Þegar aðildarríkin beita undanþágu eða takmörkun viðvíkjandi afritun til einkanota ber þeim að taka tilhlýðilegt tillit til tæknilegrar og efnahagslegrar þróunar, einkum að því er varðar stafræna afritun til einkanota og þóknunarkerfi, ef völ er á skilvirkum tæknilegum verndarráðstöfunum. Slíkar undanþágur eða takmarkanir skulu hvorki hindra að tæknilegum ráðstöfunum sé beitt né að komið sé í veg fyrir að farið sé fram hjá þeim.
     40)      Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um undanþágu eða takmörkun í þágu tiltekinna stofnana sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni, svo sem almenningsbókasafna og sambærilegra stofnana sem og skjalasafna. Það skal þó takmarkað við tiltekin sértilvik sem falla undir réttinn til eftirgerðar. Slík undanþága eða takmörkun skal ekki ná til afnota í tengslum við beinlínuafhendingu á vernduðum verkum eða öðru efni. Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á möguleika aðildarríkjanna til að víkja frá ákvæðum um einkarétt til útlána til almennings í samræmi við 5. gr. tilskipunar 92/100/ EBE. Því er rétt að hvetja til að gerðir verðir sérstakir samningar eða veitt sérstök nytjaleyfi sem eru hagstæð þessum stofnunum og miðlunarhlutverki þeirra án þess þó að skapa misvægi.
     41)      Þegar undanþágu eða takmörkun er beitt gagnvart upptökum til skamms tíma hjá útvarpsfyrirtæki telst eigin búnaður útvarpsfyrirtækisins einnig ná yfir búnað aðila sem kemur fram fyrir hönd útvarpsfyrirtækisins og á þess ábyrgð.
     42)      Þegar undanþágu eða takmörkun er beitt vegna fræðslu eða vísindarannsókna sem fara ekki fram í hagnaðarskyni, þar með talið fjarnám, skal það ákvarðast af starfseminni sem slíkri hvort hún er í hagnaðarskyni. Stjórnskipulag og fjármögnunarleiðir viðkomandi stofnunar eru ekki úrslitaþættir í þessum efnum.
     43)      Í öllum tilvikum er mikilvægt fyrir aðildarríkin að samþykkja allar nauðsynlegar ráðstafanir til að auðvelda aðgang að verkunum fyrir einstaklinga, sem eru fatlaðir á þann hátt að það geri þeim erfitt um vik að njóta verkanna sjálfra, og gefa sérstakan gaum að aðgengilegum framsetningarhætti.
     44)      Þegar beitt er undanþágum og takmörkunum sem kveðið er á um í þessari tilskipun skal það gert í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Þessum undanþágum og takmörkunum skal ekki beitt á neinn þann hátt sem skaðar lögmæta hagsmuni rétthafa eða brýtur í bága við eðlilega hagnýtingu verka hans eða annars efnis. Ákvæði aðildarríkjanna um slíkar undanþágur eða takmarkanir skulu einkum endurspegla á tilhlýðilegan hátt aukin efnahagsleg áhrif sem undanþágurnar eða takmarkanirnar geta haft í tengslum við hið nýja rafræna umhverfi. Því verður gildissvið tiltekinna undanþágna eða takmarkana að vera jafnvel enn takmarkaðra að því er viðvíkur tiltekinni, nýrri notkun verka, sem njóta höfundaréttar, og annars efnis.
     45)      Undanþágurnar og takmarkanirnar, sem um getur í 2., 3. og 4. mgr. 5. gr., skulu þó ekki koma í veg fyrir skilgreiningu á samningsbundnum tengslum sem ætlað er að tryggja rétthöfum sanngjarnar bætur að því marki sem það er heimilt samkvæmt landslögum.
     46)      Sáttaumleitanir gætu komið að gagni við lausn ágreiningsmála milli notenda og rétthafa. Framkvæmdastjórninni ber, í samvinnu við aðildarríkin, að kanna ný lagaúrræði innan tengslanefndarinnar í því skyni að leysa ágreiningsmál um höfundarétt og skyld réttindi.
     47)      Tækniþróunin mun einnig gera rétthöfum kleift að nýta sér tæknilegar ráðstafanir sem ætlað er að koma í veg fyrir eða takmarka aðgerðir sem eru ekki heimilaðar af rétthafa höfundaréttar, rétthafa réttinda, sem eru skyld höfundarétti, eða rétthafa sinnar tegundar réttar ( sui generis) að gagnagrunni. Þó er sú hætta fyrir hendi að fram fari ólögleg starfsemi til að gera það kleift eða auðveldara að fara fram hjá þeirri tæknilegu vernd sem þessar ráðstafanir veita. Til að koma í veg fyrir að settar verði samhengislausar réttarreglur sem hindrað gætu starfsemi innri markaðarins þarf því að kveða á um samræmda lögvernd gegn því að farið sé fram hjá skilvirkum, tæknilegum ráðstöfunum og gegn sölu tækja og vara eða þjónustu í sama tilgangi.
     48)      Kveða ber á um slíka lögvernd að því er varðar tæknilegar ráðstafanir sem takmarka, á skilvirkan hátt, aðgerðir sem eru ekki heimilaðar af rétthafa höfundaréttar, rétthafa réttinda, sem eru skyld höfundarétti, eða rétthafa sinnar tegundar réttar að gagnagrunni, án þess þó að hindra eðlilega notkun rafeindabúnaðar og tæknilega þróun hans. Slík lögvernd felur ekki í sér skyldur til að hanna tæki, vörur, íhluti eða þjónustu sem samsvara hinum tæknilegu ráðstöfunum, svo framarlega sem þessi tæki, vörur, íhlutir eða þjónusta falla ekki á annan hátt undir bannákvæði 6. gr. Í slíkri réttarvernd ber að virða meðalhófsregluna og ekki má banna tæki eða starfsemi sem hafa annan efnahagslega mikilvægan tilgang eða eru notuð til annars en að fara fram hjá hinni tæknilegu vernd. Einkum má þessi vernd ekki hindra rannsóknir á dulkóðun.
     49)      Lögvernd tæknilegra ráðstafana hefur ekki áhrif á beitingu ákvæða landslaga sem kunna að banna einkaeign tækja, vara eða íhluta sem gera það kleift að fara fram hjá tæknilegum ráðstöfunum.
     50)      Þessi samræmda lögvernd hefur ekki áhrif á sérákvæði um vernd í tilskipun 91/250/EBE. Einkum skal hún ekki taka til verndar tæknilegra ráðstafana sem er beitt í tengslum við tölvuforrit sem fjallað er eingöngu um í þeirri tilskipun. Hún skal hvorki hamla né koma í veg fyrir þróun eða notkun neins konar úrræða til að fara fram hjá tæknilegri ráðstöfun ef slíkt er nauðsynlegt til að framkvæma aðgerðir í samræmi við skilmála 3. mgr. 5. gr. eða 6. gr. tilskipunar 91/250/EBE. Í ákvæðum 5. og 6. gr. þeirrar tilskipunar eru eingöngu tilgreindar undanþágur frá einkarétti að tölvuforritum.
     51)      Lögvernd tæknilegra ráðstafana gildir með fyrirvara um allsherjarreglu, í samræmi við ákvæði 5. gr., eða almannaöryggi. Aðildarríkin skulu hvetja til þess að gripið verði til valfrjálsra ráðstafana af hálfu rétthafa, þar á meðal gerð og framkvæmd samninga milli rétthafa og annarra hagsmunaaðila, til að unnt sé að ná markmiðunum með tilteknum undanþágum eða takmörkunum sem kveðið er á um í landslögum í samræmi við þessa tilskipun. Hafi ekki verið gerðar slíkar valfrjálsar ráðstafanir eða samningar innan eðlilegs tíma skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að rétthafar, með því að breyta tæknilegri ráðstöfun sem hefur verið gerð eða með öðrum hætti, veiti þeim sem eiga rétt á slíkum undanþágum eða takmörkunum viðeigandi tækifæri til að nýta þær. Til að koma í veg fyrir misnotkun á slíkum ráðstöfunum sem rétthafar gera, m.a. innan ramma samninga, eða sem aðildarríki gerir skulu þó allar tæknilegar ráðstafanir njóta lögverndar ef þeim er beitt til framkvæmdar slíkum ráðstöfunum.
     52)      Þegar undanþága eða takmörkun vegna afritunar til einkanota, í samræmi við b-lið 2. mgr. 5. gr., kemur til framkvæmda skulu aðildarríkin með sama hætti hvetja til notkunar valfrjálsra ráðstafana til að unnt sé að ná markmiðunum með undanþágunni eða takmörkuninni. Ef ekki hafa verið gerðar slíkar valfrjálsar ráðstafanir innan sanngjarns tíma til að gera eftirgerð til einkanota mögulega geta aðildarríkin gert ráðstafanir til að gera þeim sem eiga rétt á undanþágunni eða takmörkuninni kleift að nýta sér hana. Valfrjálsar ráðstafanir rétthafa, þar á meðal samningar milli rétthafa og annarra hagsmunaaðila, og ráðstafanir aðildarríkjanna koma ekki í veg fyrir að rétthafar geti gripið til tæknilegra ráðstafana sem samrýmast þeim undanþágum eða takmörkunum í landslögum, viðvíkjandi afritun til einkanota, sem eru í samræmi við ákvæði b-liðar 2. mgr 5. gr., að teknu tilliti til skilyrðis um sanngjarnar bætur samkvæmt því ákvæði og hugsanlegs greinarmunar sem gerður er á mismunandi skilyrðum um notkun í samræmi við 5. mgr. 5. gr., svo sem eftirliti með fjölda eftirgerða. Til að koma í veg fyrir að slíkar ráðstafanir verði misnotaðar skulu allar tæknilegar ráðstafanir til framkvæmdar þeim njóta lögverndar.
     53)      Vernd tæknilegra ráðstafana skal tryggja öruggt umhverfi fyrir veitingu gagnvirkrar pöntunarþjónustu með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkum eða öðru efni á þeim stað og á þeirri stund sem hann sjálfur kýs. Ef slík þjónusta fellur undir samningsbundin tengsl gildir fyrsta og önnur undirgrein 4. mgr. 6. gr. ekki. Beinlínunotkun, sem er ekki gagnvirk, skal áfram heyra undir þessi ákvæði.
     54)      Miklar framfarir hafa orðið í alþjóðlegri stöðlun tæknikerfa til að auðkenna verk og verndað efni sem er með stafrænu sniði. Í umhverfi, sem verður sífellt netvæddara, getur munur á tæknilegum ráðstöfunum leitt til ósamrýmanleika milli kerfa í bandalaginu. Hvetja skal til samræmis og rekstrarsamhæfis milli mismunandi kerfa. Mjög æskilegt væri að stuðlað yrði að þróun hnattrænna kerfa.
     55)      Tækniþróunin mun auðvelda dreifingu verka, einkum um netkerfi, en það hefur í för með sér að rétthafar verða að auðkenna betur verkin eða annað efni og höfundinn eða annan rétthafa og veita upplýsingar um skilyrði og skilmála fyrir notkun verkanna eða annars efnis með það fyrir augum að auðvelda umsýslu réttindanna sem fylgja þeim. Rétthafar skulu hvattir til að nota merkingar, þegar verk eða annað efni er sett á netin, þar sem fram kemur heimild þeirra ásamt upplýsingunum sem um getur hér að framan.
     56)      Sú hætta er þó fyrir hendi að fram fari ólögleg starfsemi í þeim tilgangi að fjarlægja eða breyta rafrænum upplýsingum um umsýslu höfundaréttinda eða til að dreifa með öðrum hætti, flytja inn til dreifingar, útvarpa, miðla til almennings eða gera aðgengileg almenningi verk eða annað verndað efni sem slíkar upplýsingar hafa verið fjarlægðar úr í heimildarleysi. Til að koma í veg fyrir að settar verði samhengislausar réttarreglur sem hindrað gætu starfsemi innri markaðarins þarf því að kveða á um samræmda lögvernd gegn hvers konar starfsemi af þessu tagi.
     57)      Öll slík kerfi upplýsinga um réttindaumsýslu, sem um getur hér að framan, geta um leið unnið persónuupplýsingar um neyslumynstur einstaklinga í tengslum við verndað efni, ef þau eru hönnuð þannig, og gert það kleift að kortleggja hegðun þessara einstaklinga á netum. Þessi tæknibúnaður skal m.a. innihalda tæknilega tálma til að vernda friðhelgi einkalífsins í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 1 ).
     58)      Aðildarríkin skulu kveða á um skilvirk viðurlög og úrræði að því er varðar brot á réttindum og skyldum sem kveðið er á um í þessari tilskipun. Þau skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þessum viðurlögum og úrræðum sé beitt. Viðurlögin, sem kveðið er á um, skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi og í þeim skal kveðið á um möguleika á því að fara fram á skaðabætur og/eða lögbann og, þar sem það á við, að ólöglega efnið verði gert upptækt.
     59)      Þriðju aðilar geta í auknum mæli nýtt sér þjónustu milliliða til brotlegrar háttsemi, einkum í hinu stafræna umhverfi. Í mörgum tilvikum eru slíkir milliliðir í bestri aðstöðu til að binda enda á brotlega háttsemi af þessu tagi. Með fyrirvara um önnur viðurlög og úrræði sem bjóðast skulu rétthafar eiga þess kost að fara fram á lögbann gegn millilið sem miðlar um net afrakstri af broti þriðja aðila á rétti að vernduðu verki eða öðru efni. Þessi kostur skal einnig vera fyrir hendi þótt aðgerðir milliliðarins séu undanþegnar skv. 5. gr. Aðildarríkin skulu setja skilyrði og nánari ákvæði um slíkt lögbann í landslög sín.
     60)      Verndin, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, skal ekki hafa áhrif á ákvæði í landslögum eða bandalagslögum á öðrum sviðum, svo sem ákvæði um hugverkarétt á sviði iðnaðar, gagnavernd, skilyrtan aðgang, aðgang að opinberum skjölum og regluna um tímaröðun á nýtingu miðla, sem geta haft áhrif á höfundarétt eða skyld réttindi.
     61)      Til að fara að ákvæðum samnings Alþjóðahugverkastofnunarinnar um flutning og hljóðritun ber að breyta tilskipunum 92/100/EBE og 93/98/EBE.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI
MARKMIÐ OG GILDISSVIÐ
1. gr.
Gildissvið

1.     Þessi tilskipun varðar lögvernd höfundaréttar og skyldra réttinda innan ramma innri markaðarins með sérstakri áherslu á upplýsingasamfélagið.
2.     Ef ekki er um að ræða tilvik sem um getur í 11. gr. skal þessi tilskipun ekki skerða eða hafa á neinn hátt áhrif á núverandi bandalagsákvæði er varða:
a)    lögvernd tölvuforrita;
b)    leigurétt, útlánsrétt og tiltekin réttindi, sem eru skyld höfundarétti, á sviði hugverkaréttar;
c)    höfundarétt og skyld réttindi vegna útsendinga um gervihnött og endurvarps um kapal;
d)    verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda;
e)    lögvernd gagnagrunna.

II. KAFLI
RÉTTINDI OG UNDANÞÁGUR
2. gr.
Réttur til eftirgerðar

Aðildarríkin skulu kveða á um einkarétt til að heimila eða banna, með beinum eða óbeinum hætti, tímabundna eða varanlega eftirgerð með hvaða hætti sem er og í hvaða formi sem er, í heild eða að hluta:
a)    til handa höfundum vegna verka þeirra;
b)    til handa listflytjendum vegna upptakna á flutningi þeirra;
c)    til handa framleiðendum hljóðrita vegna hljóðrita þeirra;
d)    til handa framleiðendum frumupptakna kvikmyndaverka þegar um er að ræða frumrit og afritanir verka þeirra;
e)    til handa útvarpsfyrirtækjum að því er varðar upptökur á útsendingum þeirra, hvort sem útsendingar eru um þráð eða þráðlaust, þar með taldar útsendingar um kapal eða gervihnött.

3. gr.
Réttur til miðlunar verka til almennings og réttur til að gera annað efni aðgengilegt almenningi

1.     Aðildarríkin skulu kveða á um einkarétt til handa höfundum til að heimila eða banna hvers konar miðlun verka sinna til almennings, um þráð eða þráðlaust, þar með talið að gera verk sín aðgengileg almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og á þeirri stund sem hann sjálfur kýs.
2.     Aðildarríkin skulu kveða á um einkarétt til handa eftirtöldum aðilum til að heimila eða banna að eftirtalin verk verði gerð aðgengileg almenningi, um þráð eða þráðlaust, með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og á þeirri stund sem hann sjálfur kýs:
a)    til handa listflytjendum vegna upptakna á flutningi þeirra;
b)    til handa framleiðendum hljóðrita vegna hljóðrita þeirra;
c)    til handa framleiðendum frumupptakna kvikmyndaverka þegar um er að ræða frumrit og afritanir verka þeirra;
d)    til handa útvarpsfyrirtækjum að því er varðar upptökur á útsendingum þeirra, hvort sem útsendingar eru um þráð eða þráðlaust, þar með taldar útsendingar um kapal eða gervihnött.
3.     Réttindi, sem um getur í 1. og 2. mgr., tæmast ekki við neins konar miðlun til almennings eða við það að almenningi sé veitt aðgengi eins og kveðið er á um í þessari grein.

4. gr.
Dreifingarréttur

1.     Aðildarríkin skulu kveða á um einkarétt til handa höfundum til að heimila eða banna hvers konar dreifingu til almennings með sölu eða á annan hátt að því er varðar frumrit eða afrit verka þeirra.
2.     Dreifingarréttur tæmist ekki innan bandalagsins að því er varðar frumrit eða afrit verks nema rétthafi annist fyrstu sölu á viðkomandi eintaki eða annað framsal eignarréttar innan bandalagsins eða það sé gert með leyfi hans.

5. gr.
Undanþágur og takmarkanir

1.     Tímabundnar aðgerðir til eftirgerðar, sem um getur í 2. gr., sem eru til skamms tíma eða tilfallandi og eru órjúfanlegur og mikilvægur liður í tækniferli í þeim tilgangi einum að gera mögulega:
a)    sendingu af hálfu milliliðar í neti milli þriðju aðila, eða
b)    löglega notkun
á verki eða öðru efni en hafa ekkert sjálfstætt efnahagslegt vægi, skulu undanþegnar réttinum til eftirgerðar sem kveðið er á um í 2. gr.
2.     Aðildarríkin geta kveðið á um undanþágur eða takmarkanir á réttinum til eftirgerðar, sem kveðið er á um í 2. gr., í eftirfarandi tilvikum:
a)    þegar um er að ræða eftirgerð á pappír, eða svipaðan miðil, með hvers konar ljósmyndatækni eða öðru vinnsluferli sem gefur svipaðan árangur, að hljóðfæranótum undanskildum, svo fremi að rétthafar fái sanngjarnar bætur;
b)    þegar um er að ræða eftirgerð einstaklings með hvers konar miðli til einkanota og í tilgangi sem er ekki viðskiptalegs eðlis, hvorki beint né óbeint, með því skilyrði að rétthafar fái sanngjarnar bætur þar sem tekið er mið af því hvort þeim tæknilegu ráðstöfunum, sem um getur í 6. gr., hafi verið beitt vegna viðkomandi verks eða efnis eða ekki;
c)    þegar um er að ræða tilteknar eftirgerðir af hálfu almenningsbókasafna, menntastofnana eða safna eða skjalasafna sem eru hvorki gerðar vegna beins eða óbeins efnahagslegs eða viðskiptalegs ávinnings;
d)    þegar um er að ræða upptökur til skamms tíma á verkum hjá útvarpsfyrirtæki með eigin búnaði og til eigin útsendinga; heimilt er að leyfa varðveislu á þessum upptökum í opinberum skjalasöfnum vegna sérstaks heimildargildis þeirra;
e)    þegar um er að ræða eftirgerðir félagslegra stofnana á útvarpssendingum, með því skilyrði að rétthafar fái sanngjarnar bætur, enda séu þessar stofnanir, svo sem sjúkrahús eða fangelsi, ekki reknar í hagnaðarskyni.
3.     Aðildarríkin geta kveðið á um undanþágur eða takmarkanir á réttindunum, sem kveðið er á um í 2. og 3. gr., í eftirfarandi tilvikum:
a)    ef um er að ræða notkun sem einungis er til skýringar við kennslu eða við vísindarannsóknir, að því tilskildu að heimildar sé getið, þar á meðal nafns höfundar, nema það reynist ógerlegt, og að því marki sem telja má réttlætanlegt miðað við tilgang sem ekki er viðskiptalegs eðlis;
b)    ef um er að ræða notkun í þágu fólks sem er fatlað og notkunin er í beinu sambandi við fötlunina og ekki viðskiptalegs eðlis og að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er vegna þessarar tilteknu fötlunar;
c)    ef um er að ræða að birtar dægurgreinar um hagfræðileg efni, stjórnmál eða trúmál eða útvarpsefni eða annað efni af sama toga sé tekið upp í fréttamiðlum, miðlað til almennings eða gert aðgengilegt almenningi í tilvikum þar sem slík notkun er ekki bönnuð berum orðum og að því tilskildu að heimildar sé getið, þar á meðal nafns höfundar, eða, ef um er að ræða notkun verka eða annars efnis í tengslum við fréttir af dægurmálum, að því marki sem eðlilegt er í upplýsingaskyni og að því tilskildu að heimildar sé getið, þar á meðal nafns höfundar, nema það reynist ógerlegt;
d)    ef um er að ræða tilvitnanir vegna gagnrýni eða ritdóma, að því tilskildu að þær tengist verki eða öðru efni sem hefur verið gert aðgengilegt almenningi á löglegan hátt og að því tilskildu að heimildar sé getið, þar á meðal nafns höfundar, nema það reynist ógerlegt, og notkun þeirra sé í samræmi við góðar starfsvenjur og að því marki sem nauðsynlegt er í þessum sérstaka tilgangi;
e)    ef um er að ræða notkun vegna almannaöryggis eða til að tryggja rétta framkvæmd eða skýrslugjöf varðandi málsmeðferð í stjórnsýslu, fyrir þingi eða fyrir dómstólum;
f)    ef um er að ræða notkun á pólitískum ræðum og útdráttum úr opinberum fyrirlestrum eða svipuðum verkum eða efni, að því marki sem eðlilegt er í upplýsingaskyni og að því tilskildu að heimildar sé getið, þar á meðal nafns höfundar, nema það reynist ógerlegt;
g)    ef um er að ræða notkun við trúarhátíðir eða opinber hátíðahöld sem opinbert yfirvald skipuleggur;
h)    ef um er að ræða notkun verka, svo sem byggingarlistaverka eða höggmyndaverka, sem gerð eru með það fyrir augum að vera til frambúðar á almannafæri;
i)    ef um er að ræða að verk eða annað efni sé tilfallandi tekið með í enn annað efni;
j)    ef um er að ræða notkun í því skyni að auglýsa opinbera sýningu eða sölu á listaverkum, að því marki sem nauðsynlegt er til að kynna atburðinn og að undanskilinni hvers konar annarri notkun í viðskiptaskyni;
k)    ef um er að ræða notkun vegna skopmyndar, skopstælingar eða annarrar stælingar;
l)    ef um er að ræða notkun í tengslum við sýningu eða viðgerð á búnaði;
m)    ef um er að ræða notkun listaverks í formi byggingar eða teikningar eða uppdráttar af byggingu í því skyni að endurgera bygginguna;
n)    ef um er að ræða að verkum eða öðru efni í söfnum stofnananna, sem um getur í c-lið 2. mgr., sé miðlað til almennings eða þau gerð aðgengileg almenningi, til fræðistarfa eða einkarannsókna, með til þess gerðum endabúnaði á athafnasvæði stofnananna enda falli verkin og efnið ekki undir kaup- eða nytjaleyfisskilmála;
o)    ef um er að ræða notkun í ákveðnum öðrum tilvikum sem hafa óverulega þýðingu og þar sem landslög kveða þegar á um undanþágur og takmarkanir, að því tilskildu að aðeins sé um að ræða hliðræna notkun og þetta hafi ekki áhrif á frjálsa dreifingu vara og þjónustu í bandalaginu, sbr. þó aðrar undanþágur og takmarkanir samkvæmt þessari grein.
4.     Í tilvikum þar sem aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um undanþágu eða takmörkun vegna réttar til eftirgerðar, skv. 2. og 3. mgr., er þeim á sama hátt heimilt að kveða á um undanþágu eða takmörkun vegna dreifingarréttar, eins og kveðið er á um í 4. gr., að því marki sem réttlætanlegt er miðað við tilganginn með hinni leyfilegu eftirgerð.
5.     Undanþágum og takmörkunum, sem kveðið er á um í 1., 2., 3. og 4. mgr., skal aðeins beitt í tilteknum sértilvikum sem stríða ekki gegn eðlilegri hagnýtingu verks eða annars efnis og skerða ekki með ósanngjörnum hætti lögmæta hagsmuni rétthafa.

III. KAFLI
VERNDUN TÆKNILEGRA RÁÐSTAFANA OG UPPLÝSINGA FYRIR RÉTTINDAUMSÝSLU
6. gr.
Skyldur að því er varðar tæknilegar ráðstafanir

1.     Aðildarríkin skulu kveða á um fullnægjandi lögvernd gegn því að farið sé fram hjá hvers konar skilvirkum, tæknilegum ráðstöfunum enda viti viðkomandi aðili eða hafi fulla ástæðu til að vita að hann stefnir að því marki.
2.     Aðildarríkin skulu kveða á um fullnægjandi lögvernd gegn framleiðslu, innflutningi, dreifingu, sölu, leigu, auglýsingum um sölu eða leigu eða eign, í viðskiptaskyni, tækja, vara eða íhluta eða veitingu þjónustu:
a)    sem eru kynnt eða auglýst sem leið til að fara fram hjá hvers konar skilvirkum, tæknilegum ráðstöfunum, eða
b)    hafa aðeins takmarkað viðskiptalegt gildi eða notkunarmöguleika nema sem leið til að fara fram hjá hvers konar skilvirkum, tæknilegum ráðstöfunum, eða
c)    eru fyrst og fremst hönnuð, framleidd, aðlöguð eða veitt í því skyni að gera kleift eða auðveldara að fara fram hjá hvers konar skilvirkum, tæknilegum ráðstöfunum.
3.     Í þessari tilskipun er merking hugtaksins „tæknilegar ráðstafanir“ sem hér segir: hvers konar tækni, tæki eða íhlutur sem er hannaður með það fyrir augum að koma, við eðlilega notkun, í veg fyrir eða takmarka aðgerðir sem varða verk eða annað efni og hafa ekki fengið samþykki rétthafa höfundaréttar eða annarra réttinda, sem eru skyld höfundarétti, eins og kveðið er á um í lögum, eða rétthafa sinnar tegundar réttar ( sui generis) eins og kveðið er á um í III. kafla tilskipunar 96/9/EB. Tæknilegar ráðstafanir teljast „skilvirkar“ ef rétthafa tekst að ná verndarmarkmiðinu með því að stýra notkun verndaðs verks eða annars efnis með aðgangsstjórn, verndaraðgerð, svo sem dulkóðun, brenglun eða annarri breytingu á verkinu eða öðru efni, eða með afritunarstjórn.
4.     Þrátt fyrir lögverndina, sem kveðið er á um í 1. mgr., og hafi rétthafar ekki gripið til valfrjálsra ráðstafana, svo sem samninga milli rétthafa og annarra hagsmunaaðila, skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að rétthafar gefi þeim sem eiga rétt á undanþágu eða takmörkun, sem kveðið er á um í landslögum í samræmi við a-, c-, d- eða e-lið 2. mgr. 5. gr. eða a-, b- eða e-lið 3. mgr. 5. gr., kost á að nýta þessa undanþágu eða takmörkun í þeim mæli sem nauðsynlegt er til að nýta undanþáguna eða takmörkunina, að því tilskildu að sá sem nýtir hana hafi löglegan aðgang að viðkomandi verki eða efni.
Aðildarríkjunum er einnig heimilt að gera slíkar ráðstafanir með tilliti til undanþágu eða takmörkunar sem kveðið er á um í samræmi við b-lið 2. mgr. 5. gr. nema rétthafi hafi þegar gert eftirgerð til einkanota mögulega að því marki sem nauðsynlegt er til að nýta viðkomandi undanþágu eða takmörkun og í samræmi við ákvæði b-liðar 2. mgr. 5. gr. og 5. mgr. 5. gr. en án þess að koma í veg fyrir að rétthafar beiti fullnægjandi ráðstöfunum að því er varðar fjölda eftirgerða í samræmi við þessi ákvæði.
Tæknilegar ráðstafanir, sem rétthafar beita af frjálsum vilja, þar á meðal ráðstafanir vegna framkvæmdar valfrjálsra samninga, og tæknilegar ráðstafanir vegna framkvæmdar ráðstafana, sem aðildarríkin hafa gripið til, skulu njóta lögverndar sem kveðið er á um í 1. mgr.
Ákvæði fyrstu og annarrar undirgreinar gilda ekki um verk eða annað efni sem gert er aðgengilegt almenningi samkvæmt samningsskilmálum á þann hátt að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og á þeirri stund sem hann sjálfur kýs.
Þegar þessari grein er beitt með skírskotun til tilskipana 92/100/EBE og 96/9/EB gildir þessi málsgrein að breyttu breytanda.

7. gr.
Skyldur að því er varðar upplýsingar vegna réttindaumsýslu

1.     Aðildarríkin skulu kveða á um fullnægjandi lögvernd gegn hverjum þeim sem vitandi vits og án heimildar grípur til eftirfarandi aðgerða:
a)    fjarlægir eða breytir rafrænum upplýsingum um réttindaumsýslu;
b)    dreifir, flytur inn til dreifingar, útvarpar, miðlar eða gerir aðgengilegt almenningi verk eða annað efni sem nýtur verndar samkvæmt þessari tilskipun eða skv. III. kafla tilskipunar 96/9/EB þar sem rafrænar upplýsingar um réttindaumsýslu hafa verið fjarlægðar eða þeim breytt án heimildar,
ef viðkomandi veit eða hefur fulla ástæðu til að vita að með þessum aðgerðum hvetur hann til brota á höfundarétti samkvæmt lögum eða hvers konar réttindum, sem eru skyld höfundarétti, samkvæmt lögum eða til brota á sinnar tegundar rétti, sem kveðið er á um í III. kafla tilskipunar 96/9/EB, eða gerir brotin möguleg, auðveldar þau eða leynir þeim.
2.     Í þessari tilskipun er merking hugtaksins „upplýsingar um réttindaumsýslu“ sem hér segir: upplýsingar, sem rétthafar veita og sem auðkenna verkið eða annað efni, sem um getur í þessari tilskipun eða sem fellur undir sinnar tegundar rétt sem kveðið er á um í III. kafla tilskipunar 96/9/EB, og sem auðkenna höfundinn eða aðra rétthafa, eða upplýsingar um skilyrði og skilmála fyrir notkun verkanna eða annars efnis og um allar tölur og kóða sem tákna slíkar upplýsingar.
Fyrsta undirgrein gildir ef eitthvert þessara upplýsingaratriða tengist afriti af verkinu eða efninu eða birtist í tengslum við miðlun til almennings á verkinu eða öðru efni sem um getur í þessari tilskipun eða sem fellur undir sinnar tegundar rétt sem kveðið er á um í III. kafla tilskipunar 96/9/EB.

IV. KAFLI
SAMEIGINLEG ÁKVÆÐI
8. gr.
Viðurlög og úrræði

1.     Aðildarríkin skulu kveða á um viðeigandi viðurlög og úrræði að því er varðar brot á réttindum og skyldum samkvæmt þessari tilskipun og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þessum viðurlögum og úrræðum sé beitt. Viðurlögin skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi.
2.     Hvert aðildarríki skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að rétthafar geti höfðað skaðabótamál og/eða krafist lögbanns, ef brotleg háttsemi á yfirráðasvæði þess skaðar hagsmuni þeirra, og krafist þess, þar sem það á við, að ólöglega efnið, sem og tæki, vörur eða íhlutir, sem um getur í 2. mgr. 6. gr., verði gert upptækt.
3.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að rétthafar séu í aðstöðu til að krefjast lögbanns gegn milliliðum ef þriðji aðili notar þjónustu þeirra til að brjóta gegn höfundarétti eða skyldum rétti.

9. gr.
Áframhaldandi beiting annarra lagaákvæða

Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á ákvæði sem varða einkum einkaleyfisréttindi, vörumerki, hönnunarréttindi, nytjamynstur, svæðislýsingar hálfleiðara, leturgerð, skilyrtan aðgang, aðgang að kapli til útvarpsútsendinga, vernd þjóðarverðmæta, skilaskyldu, lög um samkeppnishömlur og óréttmæta samkeppni, viðskiptaleyndarmál, öryggi, trúnaðarskyldu, gagnavernd og friðhelgi einkalífsins, aðgang að opinberum skjölum og samningalög.

10. gr.
Tímamörk

1.     Ákvæði þessarar tilskipunar skulu gilda að því er varðar öll verk og annað efni sem um getur í þessari tilskipun og njóta verndar 22. desember 2002 samkvæmt löggjöf aðildarríkjanna á sviði höfundaréttar og skyldra réttinda eða sem fullnægja viðmiðunum fyrir vernd samkvæmt ákvæðum þessarar tilskipunar eða ákvæðunum sem um getur í 2. mgr. 1. gr.
2.     Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á aðgerðir sem hafa verið samþykktar fyrir 22. desember 2002 og réttindi sem hefur verið aflað fyrir framangreindan dag.

11. gr.
Tæknileg aðlögun

1.     Tilskipun 92/100/EBE er breytt sem hér segir:
a)    7. gr. falli brott.
b)    Í stað 3. mgr. 10. gr. komi eftirfarandi:
    „3.     Takmörkununum skal aðeins beitt í tilteknum sértilvikum sem stríða ekki gegn eðlilegri hagnýtingu efnisins og skerða ekki með ósanngjörnum hætti lögmæta hagsmuni rétthafa.“
2.     Í stað 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 93/98/EBE komi eftirfarandi:
    „2.     Réttindi framleiðenda hljóðrita falla niður 50 árum eftir að upptaka fer fram. Ef hljóðritið er gefið út á löglegan hátt á þessu tímabili falla réttindin þó niður 50 árum eftir fyrsta dag löglegrar útgáfu. Ef ekki á sér stað lögleg útgáfa á tímabilinu sem nefnt er í fyrsta málslið og ef hljóðritinu hefur verið miðlað til almennings á löglegan hátt á þessu tímabili falla réttindin niður 50 árum eftir fyrsta dag löglegrar miðlunar til almennings.
    Ef réttindi framleiðenda hljóðrita eru ekki lengur vernduð 22. desember 2002, vegna þess að þá er runninn út verndartíminn sem veittur var samkvæmt þeirri útgáfu þessarar málsgreinar sem er í gildi fyrir samþykkt tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu ( *), felur þessi málsgrein þó ekki í sér að hljóðritið njóti verndar á ný.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *) Stjtíð. EB L 167, 22.6.2001, bls. 10.

12. gr.
Lokaákvæði

1.     Eigi síðar en 22. desember 2004 og á þriggja ára fresti eftir það skal framkvæmdastjórnin leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið, ráðið og efnahags- og félagsmálanefndina um beitingu þessarar tilskipunar þar sem hún fjallar sérstaklega, m.a. á grundvelli tiltekinna upplýsinga sem aðildarríkin veita, um beitingu 5., 6., og 8. gr. í ljósi þróunarinnar á stafræna markaðinum. Að því er varðar 6. gr. skoðar framkvæmdastjórnin sérstaklega hvort sú grein veiti nægilega vernd og hvort aðgerðir, sem eru leyfðar samkvæmt lögum, verði fyrir skaðlegum áhrifum vegna notkunar skilvirkra tæknilegra ráðstafana. Ef nauðsyn krefur, einkum til að tryggja starfsemi innri markaðarins skv. 14. gr. sáttmálans, skal hún leggja fram tillögur að breytingum á þessari tilskipun.
2.     Vernd réttinda, sem eru skyld höfundarétti, samkvæmt þessari tilskipun skal ekki skerða eða hafa á neinn hátt áhrif á vernd höfundaréttar.
3.     Tengslanefnd er hér með komið á fót. Hún skal skipuð fulltrúum lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna. Fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar skal gegna formennsku í nefndinni og skal nefndin funda að frumkvæði formanns hennar eða að beiðni sendinefndar aðildarríkis.
4.     Hlutverk nefndarinnar er sem hér segir:
a)    að rannsaka áhrif þessarar tilskipunar á starfsemi innri markaðarins og vekja athygli á öllum vandkvæðum;
b)    að skipuleggja samráð um öll álitamál sem rísa vegna beitingar þessarar tilskipunar;
c)    að greiða fyrir skiptum á upplýsingum um viðeigandi þróun á sviði löggjafar og dómaframkvæmdar og um viðeigandi þróun á sviði efnahags-, félags-, menningar- og tæknimála;
d)    að vera vettvangur mats á stafræna markaðinum fyrir verk og annað efni, þar með talið afritun til einkanota og notkun tæknilegra ráðstafana.

13. gr.
Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 22. desember 2002. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær verða birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni þau ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

14. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

15. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel 22. maí 2001.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
N. FONTAINE M. WINBERG
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 130, 29.4.2003, bls. 3 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 23, 29.4.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 167, 22.6.2001, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 108, 7.4.1998, bls. 6 og Stjtíð. EB C 180, 25.6.1999, bls. 6.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 407, 28.12.1998, bls. 30.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 10. febrúar 1999 (Stjtíð. EB C 150, 28.5.1999, bls. 171), sameiginleg afstaða ráðsins frá 28. september 2000 (Stjtíð. EB C 344, 1.12.2000, bls. 1) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 14. febrúar 2001 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun ráðsins frá 9. apríl 2001.
Neðanmálsgrein: 7
(1)    Stjtíð. EB L 178, 17.7.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 8
(2)    Tilskipun ráðsins 91/250/EBE frá 14. maí 1991 um lögvernd fyrir tölvuforrit (Stjtíð. EB L 122, 17.5.1991, bls. 42). Tilskipuninni var breytt með tilskipun 93/98/EBE.
Neðanmálsgrein: 9
(3)    Tilskipun ráðsins 92/100/EBE frá 19. nóvember 1992 um leigu- og útlánsrétt og önnur réttindi tengd höfundarétti á sviði hugverkaréttar (Stjtíð. EB L 346, 27.11.1992, bls. 61). Tilskipuninni var breytt með tilskipun 93/98/EBE.
Neðanmálsgrein: 10
(4)    Tilskipun ráðsins 93/83/EBE frá 27. september 1993 um samræmingu á tilteknum reglum varðandi höfundarétt og réttindi tengd höfundarétti vegna útsendingar um gervihnött og endurvarps um kapal (Stjtíð. EB L 248, 6.10.1993, bls. 15).
Neðanmálsgrein: 11
(5)    Tilskipun ráðsins 93/98/EBE frá 29. október 1993 um samhæfingu á [verndartíma] höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda (Stjtíð. EB L 290, 24.11.1993, bls. 9).
Neðanmálsgrein: 12
(6)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/9/EB frá 11. mars 1996 um lögverndun gagnagrunna (Stjtíð. EB L 77, 27.3.1996, bls. 20).
Neðanmálsgrein: 13
(1)    Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31.