Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1304, 135. löggjafarþing 517. mál: Veðurstofa Íslands (heildarlög).
Lög nr. 70 11. júní 2008.

Lög um Veðurstofu Íslands.


1. gr.

Yfirstjórn.
     Starfrækja skal Veðurstofu Íslands undir yfirstjórn umhverfisráðherra.

2. gr.

Forstjóri.
     Við Veðurstofu Íslands skal starfa forstjóri skipaður af ráðherra til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi.
     Forstjóri ber ábyrgð á stjórn, rekstri og starfsskipulagi Veðurstofu Íslands gagnvart ráðherra og gerir rekstraráætlanir fyrir hana. Forstjóri ræður annað starfsfólk stofnunarinnar.

3. gr.

Verkefni.
     Verkefni Veðurstofu Íslands skulu vera sem hér segir:
 1. að annast vöktun vegna náttúruvár og gefa út viðvaranir og spár um yfirvofandi hættu af völdum veðurs og veðurtengdra þátta, jarðskjálfta, eldgosa, hlaupa, vatnsflóða og ofanflóða;
 2. að sjá um rekstur veðurfræðilegra grunnkerfa og annast veðurþjónustu, sbr. lög um veðurþjónustu;
 3. að annast almennar kerfisbundnar vatnamælingar í ám, stöðuvötnum, lónum, strandlónum, strandsjó og grunnvatni, þ.m.t. mælingar á rennsli, vatnshæð, vatnshita, aurburði og öðrum eðlis- og efnafræðilegum eiginleikum vatns;
 4. að annast mælingar á snjóalögum og jöklabúskap og kortlagningu á ísalögum fallvatna og stöðuvatna;
 5. að annast mælingar á hvers kyns jarðhræringum, jarðspennu, kvikuhreyfingum og hægum jarðskorpuhreyfingum, auk þess að safna upplýsingum um eldgos og öskufall;
 6. að gera athuganir og mælingar á mengun í lofti, úrkomu og vatni;
 7. að annast langtímarannsóknir á vatnsauðlindinni, eðli hennar og skilyrðum til nýtingar samkvæmt samningi við viðeigandi stjórnvöld;
 8. að annast skráningu, varðveislu og miðlun gagna á starfssviði stofnunarinnar;
 9. að kortleggja veðurfar landsins og fylgjast með loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á þá þætti náttúrunnar sem stofnunin á að vakta;
 10. að kortleggja stöðuvötn og vatnsfarvegi landsins og gera vatnafars- og flóðakort;
 11. að kortleggja jarðskjálftavirkni landsins og fylgjast með breytingum á jarðskjálftavirkni;
 12. að sinna verkefnum á sviði ofanflóðavarna, sbr. lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum;
 13. að vinna hættumat vegna náttúruhamfara að beiðni almannavarnayfirvalda eða annarra stjórnvalda;
 14. að vinna að rannsóknum á starfssviðum stofnunarinnar er hafi það að höfuðmarkmiði að auka þekkingu á ýmsum eðlisþáttum lofts, láðs og lagar, auka þekkingu á vatnafari, veðurfari og jarðskjálftavirkni landsins, bæta þjónustuna og auka hæfni stofnunarinnar til að láta í té upplýsingar í þágu atvinnulífs, öryggismála, sjálfbærrar nýtingar auðlinda og annarra þarfa landsmanna;
 15. að annast samskipti við Alþjóðaveðurfræðistofnunina og önnur milliríkjasamskipti innan verkahrings stofnunarinnar;
 16. að vera ráðuneytinu og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni á verksviði stofnunarinnar;
 17. önnur verkefni sem ráðherra felur stofnuninni sérstaklega.


4. gr.

Fjármögnun og kostnaðargreining.
     Kostnaður við starfrækslu Veðurstofu Íslands greiðist af fjárveitingum úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum. Veðurstofan aflar sér enn fremur tekna með sölu á þjónustu á verksviði stofnunarinnar, sbr. 3. gr., og með þjónustugjöldum fyrir afgreiðslu gagna, svo sem ljósritun eða aðra afritun, fjölföldun, úrvinnslu og dreifingu. Gjaldtaka skal taka mið af kostnaði og byggjast á kostnaðargreiningu, sbr. 3. mgr. Ráðherra setur, að fengnum tillögum Veðurstofunnar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og afgreiðslu gagna samkvæmt þessari málsgrein og skal hún birt í B-deild Stjórnartíðinda.
     Þann hluta starfsemi Veðurstofu Íslands sem rekinn er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði skal skilja fjárhagslega frá öðrum þáttum rekstrarins og skal endurgjald vegna hans taka mið af markaðsverði. Veðurstofan skal setja viðmiðunargjaldskrá um þessi verkefni og gefa hana út. Sala á þjónustu samkvæmt þessari málsgrein skal byggjast á samningum.
     Veðurstofa Íslands skal greina kostnað allra verkefna, hvort sem fjármögnun byggist á sértekjum eða framlögum úr ríkissjóði. Kostnaðargreining tekur til alls kostnaðar, þ.m.t. kostnaðar vegna yfirstjórnar, sameiginlegrar þjónustu, húsnæðis, afskrifta og þróunar.

5. gr.

Afhending gagna.
     Gögn sem Veðurstofa Íslands aflar fyrir opinbert fé af fjárlögum skulu vera aðgengileg öllum án gjaldtöku enda brjóti afhending þeirra ekki gegn lögvernduðum rétti þriðja aðila eða fari gegn reglum um gjaldtöku sem settar eru af eiganda gagna. Þó er heimilt að innheimta afgreiðslukostnað, sbr. 1. mgr. 4. gr.
     Heimilt er að semja svo um að gögn sem aflað er á grunni samninga skv. 2. mgr. 4. gr. verði ekki gerð opinber eða afhent þriðja aðila nema í samráði við kaupanda þjónustunnar.

6. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009. Frá sama tíma tekur til starfa ný stofnun, Veðurstofa Íslands. Við gildistöku laga þessara er lögð niður stofnun með sama nafni sem starfrækt hefur verið samkvæmt lögum nr. 30/1985, um Veðurstofu Íslands. Einnig er lögð niður starfsemi vatnamælinga Orkustofnunar, sbr. 3. gr. laga nr. 87/2003, um Orkustofnun.
     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 30/1985, um Veðurstofu Íslands.

7. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
 1. 3. gr. laga nr. 87/2003, um Orkustofnun, fellur brott.
 2. Í stað orðsins „veðurstofustjóri“ í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1962, um almannavarnir, kemur: forstjóri Veðurstofu Íslands.

Ákvæði til bráðabirgða.
 1. Starfsmönnum vatnamælinga Orkustofnunar og Veðurstofu Íslands sem eru í starfi við gildistöku laga þessara skal boðið starf hjá hinni nýju stofnun með sömu ráðningarkjörum og áður giltu. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessum tölulið.
 2. Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. skal forstjóri Veðurstofu Íslands skipaður frá 1. ágúst 2008 og skal hann frá þeim tíma vinna að undirbúningi gildistöku laga þessara í samráði við umhverfisráðherra.
 3. Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 4. gr. hefur Veðurstofa Íslands frest til 1. júní 2011 til að kostnaðargreina að fullu alla starfsemi stofnunarinnar.

Samþykkt á Alþingi 30. maí 2008.