Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 479. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 774  —  479. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um eflingu samgangna milli Vestur-Norðurlanda.

Flm.: Ólína Þorvarðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Atli Gíslason,


Árni Johnsen, Sigurður Ingi Jóhannsson, Þráinn Bertelsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stofna vinnuhóp, í samvinnu við Færeyjar og Grænland og með mögulegri þátttöku Norrænu Atlantsnefndarinnar (NORA), til að vinna tillögur til eflingar innviða flug- og sjósamgangna á milli Vestur-Norðurlandanna í þágu aukins samtarfs á sviði ýmiss konar viðskipta og þjónustu auk vöru- og farþegaflutninga á milli landanna. Byggt verði á þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram hjá ýmsum stofnunum á svæðinu. Skoðaðar verði sérstaklega í þessu sambandi forsendur fyrir auknum tengslum á sviði þjónustu og viðskipta á milli Vestfjarða og Austur-Grænlands.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2010 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 24. ágúst 2010 í Tasiilaq á Grænlandi.
    Samstarf Vestur-Norðurlandanna hefur aukist verulega undanfarin ár samhliða auknu sjálfsforræði Færeyinga og Grænlendinga innan ríkjasambands þeirra við Danmörku. Markmið Vestnorræna ráðsins, sem var stofnað 1985, er einkum að efla samráð og samvinnu ríkis- og landstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg hagsmunamál. Sjó- og flugsamgöngur gegna lykilhlutverki þegar kemur að eflingu vestnorræns samstarfs. Sem dæmi hafa Færeyingar í auknum mæli sótt sér heilbrigðisþjónustu á Íslandi á grundvelli fríverslunarsamningsins, sem Ísland og Færeyjar gerðu með sér árið 2006, og nýtt sér þar með nálægð landanna.
    Skilvirkar samgöngur á milli Vestur-Norðurlandanna eru þannig forsenda aukinna þjónustuviðskipta og vöruflutninga milli landanna og það sama gildir um ferðamennsku. Nokkur samvinna hefur verið á milli Vestur-Norðurlandanna á sviði ferðamála síðan 1995 þar sem m.a. hefur verið unnið að sameiginlegri markaðssetningu svæðisins. Betri flugsamgöngur milli Íslands og Grænlands hafa m.a. stuðlað að aukinni ferðamennsku á Grænlandi. Loftferðasamningar, sem Ísland stefnir á að gera við Færeyjar og Grænland, samhliða aukinni samvinnu vestnorrænna flugfélaga og ferðaskrifstofa gæti orðið til þess að hægt yrði að bjóða upp á „vestnorræna hringinn“, flug- eða sjóleiðina milli Íslands, Færeyja og Grænlands.

Vestfirðir og Austur-Grænland.
    Nokkur áhugi hefur verið á því að auka sérstaklega tengslin á milli Vestfjarða og austurstrandar Grænlands vegna landfræðilegrar nálægðar. Til dæmis liggur bærinn Ittoqqortoormiit eða Scoresbysund mun nær Ísafirði en Nuuk þaðan sem vörum er dreift til austurstrandar Grænlands. Svæðunum tveimur, austurströnd Grænlands og Vestfjörðum, má lýsa á eftirfarandi hátt:
          Ísafjarðabær samanstendur af sex sveitafélögum á norðanverðum Vestfjörðum sem voru sameinuð. Um 4.000 manns búa samtals í sveitarfélaginu sem er alls um 2.400 km 2 að stærð og með fimm þéttbýliskjarna: Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Ísafjörð og Hnífsdal.
          Austurströnd Grænlands er 2.600 km löng og skiptist annars vegar í þjóðgarð og hins vegar í svæði þar sem finna má tvo bæi og nokkrar smærri byggðir. Bæirnir tveir er hluti af austur-vestur sveitarfélaginu sem heitir í dag Kommuneqarfik Sermersooq. Austurströndin samanstendur af Ittoqqortoormiit eða bænum Scoresbysund (sem er vinabær Dalvíkurbyggðar) annars vegar og bænum Tasiilaq en undir hann falla einnig fimm þorp, þ.e. Kulusuk, Sermiligaaq, Kuummiut, Tiniteqilaaq og Isortoq. 1. júní 2008 bjuggu 3.045 manns í Tasiilaq, þar af 1.908 í Tasiilaqbæ og 1.137 í þorpunum fimm. Íbúar Ittoqqortoormiit voru á sama tíma um 500. Alls búa því um 3.500 manns á svæðinu sem er alls 1.457.000 km² að stærð með þjóðgarðinum norðan við Scorebysund meðtöldum. Hann hefur aðdráttarafl fyrir ferðamenn og vísindamenn sem fara í rannsóknarleiðangra á svæðið.
    Hugmyndir sem hafa verið settar fram um aukin tengsl Ísafjarðar og austurstrandar Grænlands lúta að þjónustu, þar með talið heilbrigðisþjónustu, við fyrirhugaða námavinnslu á austurströnd Grænlands og við rannsóknarleiðangra og ferðamennsku þar sem t.d. yrði mynduð tengsl á milli friðlandsins á Hornströndum og þjóðgarðsins á Austur-Grænlandi, samvinna á sviði menningar- og menntamála og fleira mætti telja. Í kjölfar áhugans um að efla tengslin á milli Vestfjarða og austurstrandar Grænlands hefur farið fram þó nokkur vinna við að kanna möguleikana á auknum tengslum, sbr. yfirlitið hér á eftir, og ljóst er að það eru tvær meginforsendur aukinna tengsla.
    Í fyrsta lagi að millilandaflug verði heimilað á Ísafjarðarflugvelli annaðhvort með því að uppfylla skilyrði þar um eða fá undanþágu frá þeim. Austurströnd Grænlands er aðeins aðgengileg sjóleiðina um 5–8 mánuði ársins vegna hafíss. Flugsamgöngur gegna því mikilvægu hlutverki fyrir austurströnd Grænlands. Constable Point (Nerlerit Inaat (Konstabel Pynt)) flugvöllurinn á austurströnd Grænlands nálægt Scoresbysundi er alþjóðaflugvöllur þaðan sem hægt er að fara með þyrluflugi til einstakra staða á austurströndinni. Hins vegar er ekki heimilt að fljúga beint á milli Constable Point og Ísafjarðar þar sem flugvöllurinn á Ísafirði uppfyllir ekki skilyrði um millilandaflug. Það yrði því alltaf að millilenda á alþjóðaflugvelli (t.d. á Akureyri) á Íslandi og fara þaðan til Ísafjarðar sem er ekki til þess fallið að efla bein tengsl á milli svæðanna. Eins og er „stranda“ því aukin tengsl á milli Ísafjarðar og austurstrandar Grænlands á Ísafjarðarflugvelli. Því er við að bæta að flugvöllurinn er heldur ekki í stakk búinn til að taka á móti stórum birgðaflutningavélum eins og Hercules-vélum sem að öllum líkindum yrðu notaðar til birgðaflutninga vegna námavinnslu á austurströnd Grænlands. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að vera með beint farþegaflug á milli Ísafjarðar og austurstrandarinnar að því gefnu að millilandaflug yrði heimilað á Ísafirði og loftferðasamningur milli Íslands og Grænlands tæki gildi, en slíkur samningur léttir alla stjórnsýslu í tengslum við millilandaflug.
    Í öðru lagi þarf að vinna að samkomulagi um aðgang að höfnum á Grænlandi við heimastjórnina en eins og er hefur grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line einkaleyfi á siglingum með vörur til allra hafna í Grænlandi. Í því sambandi má benda á að möguleg lausn er samkomulag svipað því sem Norðmenn og Rússar eru að vinna að um gerð nokkurs konar frísvæðis milli landamærahéraða Noregs og Rússlands sem mun heimila um 40 þúsund Rússum og 9.000 Norðmönnum að fara á milli landanna án vegabréfs.
    Í ljósi þeirrar samvinnu sem þegar er á milli Vestur-Norðurlandanna og áhuga á að efla þá samvinnu enn frekar leggur Vestnorræna ráðið til við ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands að stofnaður verði vinnuhópur með mögulegri þátttöku Norrænu Atlantsnefndarinnar (NORA) til að kortleggja flug- og sjósamgöngur á milli Vestur-Norðurlandanna með hliðsjón af þeim skýrslum sem þegar hafa verið gerðar og vinna að tillögum um eflingu innviða flug- og sjósamgangna á milli Vestur-Norðurlandanna. Í þeirri vinnu er mikilvægt, að mati Vestnorræna ráðsins, að horfa til framtíðar landanna með hliðsjón af samstarfi á sviði ferðamennsku, fræðslu- og menningarstarfsemi, auk samstarfs á sviði viðskipta og þjónustu ýmiss konar m.a. í tengslum við fyrirhugaðan námaiðnað á Grænlandi, og aukinna siglinga á norðurslóðum, bæði vöru- og farþegaflutninga.

Yfirlit yfir greinargerðir og skýrslur sem unnar hafa verið um möguleika á auknum tengslum milli Vestur-Norðurlandanna almennt og Vestfjarða og austurstrandar Grænlands sérstaklega:
    1999 og 2004: Ísland fór með formennsku í Norðurlandaráði. Í formennskuáætlun sagði að markmiðið væri að beita sér m.a. fyrir bættum samgöngum á Vestur-Norðurlöndum, einkum á sviði flugsamgangna. Það hefur gengið eftir enda hafa flugsamgöngur milli landanna batnað mikið undanfarin ár en spurning hvort ekki megi betur ef duga skal.
    2003: Skýrsla norræns starfshóps um „Vestur-Norðurlönd í norrænu samstarfi“.
    2004: Skýrsla Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri (HA) fyrir samgönguráðuneytið í tengslum við formennsku Íslands í Norðurlandaráði um „Flug og sjóflutninga á Vestur- Norðurlöndum. Greining og framtíðarspá“. Höfundar Jón Þorvaldur Heiðarsson og Hjalti Jóhannesson. Í skýrslunni kemur m.a. fram að starfshópur Norðurlandaráðs, sem gaf út skýrsluna sem getið er um hér að framan, hafi beint því til Norrænu ráðherranefndarinnar að gera víðtæka úttekt á stöðu flug- og skipasamganga innan vestnorræna svæðisins og milli Vestur-Norðurlandanna og annarra ríkja, auk þess að kanna hvort unnt væri að veita styrk til þess að koma á nýrri flugleið milli Færeyja, Grænlands og Íslands. Hugmyndinni um fjárstuðning við nýja flugleið var hafnað, m.a. með þeim rökum að flugumferð milli Vestur- Norðurlandanna yrði að tengjast annarri flugumferð á svæðinu. Í kjölfarið lagði samstarfshópurinn til að kannaður yrði möguleikinn á því að gera óháða úttekt á sjó- og flugsamgöngum og innviðum vegna þeirra á svæðinu sem gæti komið til viðbótar t.d. evrópskum áætlunum um samgöngumál. Var þeim tilmælum komið á framfæri við samgönguráðherra landanna. Skýrsla HA auk vefritsins sem getið er um hér á eftir er það sem samgönguráðuneytið lét gera í kjölfarið.
    2004: Ráðstefna haldin á siglingadögum á Ísafirði um siglingaleiðina milli Íslands og Austur-Grænlands og möguleika á auknum samskiptum í tengslum við ferðamál, viðskipti, heilsugæslu og skólamál. Samhliða var haldinn fundur hagsmunahópa með fulltrúum Ísafjarðarbæjar og grænlensku heimastjórnarinnar. Á þeim fundi kom m.a. fram sú hugmynd að sorp frá Austurströnd Grænlands yrði brennt á Ísafirði.
    2005: Vefrit samgönguráðuneytis, 4. útgáfa, um „Flugsamgöngur á Vestur-Norðurlöndum“.
    2007: Tillaga til þingsályktunar lögð fram á 133. löggjafarþingi, 2006–2007, um þjónustumiðstöð fyrir útgerð og siglingar í Norðurhöfum af Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, núverandi varaformanni Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Steingrími J. Sigfússyni og Kolbrúnu Halldórsdóttur. Þar segir m.a. eftirfarandi: „Á Ísafirði er lífhöfn frá náttúrunnar hendi og þar eru mikil mannvirki. Höfnin er stór og góð aðstaða fyrir allar stærðir skipa. Ísafjörður liggur mjög vel við þegar skip sem eru að veiðum við Austur-Grænland þurfa að sækja sér þjónustu og hafa útgerðir frá Noregi og Færeyjum helst nýtt sér þjónustuna undanfarin ár. Þjónustugetan er þó miklu meiri og því vannýttir möguleikar á að þjónusta útgerð, fiskvinnslu og flutninga til Austur-Grænlands. Mikilvægt er því að koma á tengslum og samvinnu milli Vestfjarða og byggðarlaga á Austur- Grænlandi.“
     2007: Skýrslan „Vestfirðir og Austur-Grænland. Úttekt á mögulegum samstarfsflötum milli Vestfjarða/Ísafjarðar og Austur-Grænlands“. Skýrslugerðin var styrkt af Ísafjarðarbæ og fleirum. Höfundur Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir. Í niðurlagi skýrslunnar segir m.a.: „Næstu skref gætu [ ] falist í stofnun þverfaglegs vinnuhóps þeirra sem hagsmuna eiga að gæta. Vinnuhópurinn þyrfti að skilgreina þau verkefni sem vinna þarf, gera kostnaðaráætlun fyrir verkefnin, finna fjármagn og setja verkefnin í framkvæmd.“ Í fundargerð Ísafjarðarbæjar nr. 70 dags. 31. janúar 2007 er gerð grein fyrir skýrslunni og sagt í lokin að nefndin sem stóð að útgáfu skýrslunnar muni kanna leiðir til að koma slíkum vinnuhóp á laggirnar.
    2008: Viljayfirlýsing milli utanríkisráðuneytisins og Ísafjarðarbæjar 11. ágúst undirrituð af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra og Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra og staðfest af bæjarráði um samstarf um úttekt á möguleikum þess að koma á auknum samskiptum og viðskiptum milli Grænlands og Ísafjarðarbæjar með sérstakri áherslu á Austur-Grænland. Ákveðið var að Ísafjarðarbær legði til 500.000 kr. vegna úttektarinnar á móti 500.000 kr. frá utanríkisráðuneytinu. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða tók að sér úttektina.
    2008–2009: Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða skilar af sér þremur minnisblöðum um hvernig fyrirhuguð námavinnsla á Austur-Grænlandi, auk þjóðfélagsbreytinga, gætu skapað forsendur fyrir því að Ísafjörður yrði þjónustumiðstöð fyrir Austur-Grænland. Niðurstaðan er sú að Ísafjarðarhöfn komi til greina sem þjónustuhöfn. Siglingaleiðin milli Ísafjarðar og Scoresbysunds, þar sem námavinnsla er fyrirhuguð, er einum degi styttri en til Reykjavíkur (1–2 dagar í stað 2–3). Ef íslensk skip eiga að geta séð um þjónustuna þarf hins vegar að skoða aðgang að höfnum í Grænlandi en eins og er hefur grænlenska félagið Royal Artic Line sérleyfi á öllum siglingum á allar hafnir í Grænlandi. Í tengslum við námavinnslu getur flugvöllurinn á Ísafirði ekki þjónustað stórar birgðaflutningavélar, svo sem Hercules-vélar sem yrðu notaðar í tengslum við námavinnslu. Flugvöllurinn getur hins vegar tekið á móti farþegaflugi frá austurströndinni en það er háð því að Ísafjarðarflugvöllur hafi tilskilin leyfi og skilyrði til millilandaflugs. Þar sem bættar flug- og sjósamgöngur auk hafnaraðgangs á Grænlandi eru forsenda frekara samstarfs, hvort sem það er á sviði þjónustu við námavinnslu, ferðamennsku, menntamála, menningarmála eða heilbrigðisþjónustu, er ljóst að stuðningur ríkisstjórnarinnar (utanríkis- og samgönguráðuneytis) er forsenda þess að hægt sé að efla samstarf milli Ísafjarðar og austurstrandar Grænlands.
    2009: Fjórðungsþing Vestfirðinga sendi frá sér ályktun þar sem skorað er á samgönguyfirvöld „að opna á ný möguleika á flugi frá Ísafjarðarflugvelli til Austur-Grænlands, með loftferðarsamningi milli Íslands og Grænlands“. Í niðurlagi segir að möguleikar Vestfirðinga á auknum samskiptum við næstu nágranna okkar í vestri séu bundnir því að flugsamgöngur verði tryggar.
    2010: Í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál, sem lögð var fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010, segir m.a. að stefnt sé að undirritun norræns loftferðasamnings milli Íslands, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar á næstunni. Í tengslum við það sé ríkur áhugi á að leita eftir sams konar samningum við Færeyjar og Grænland.
    Að lokum kemur fram á vef Norðurlandaskrifstofu hérlendis í umfjöllun um Norðurlöndin og Evrópusamruna að í samvinnu Norðurlandaþjóða ætti m.a. að sinna tengslum Noregs, Íslands, Færeyja og Grænlands annars vegar og Evrópusambandsins (ESB) hins vegar. Sjá nánar www.forsaetisraduneyti.is/nordurlandaskrifstofa/Norraen_utgafa/nr/917.