Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 581. máls.

Þskj. 981  —  581. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010
um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XII. viðauka
(Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010, frá 30. apríl 2010, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB frá 6. maí 2009 um breytingu á tilskipun 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðsluuppgjörskerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf og tilskipun 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir að því er varðar tengd kerfi og skuldaviðurkenningar.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010, frá 30. apríl 2010, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB frá 6. maí 2009 um breytingu á tilskipun 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðsluuppgjörskerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf og tilskipun 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir að því er varðar tengd kerfi og skuldaviðurkenningar.
    Með tilskipun 2009/44/EB er ákvæðum tveggja eldri tilskipana breytt, þ.e. annars vegar tilskipun 98/26/EB, sem ætlað er að tryggja skilvirkari og öruggari fjármálaviðskipti á hinum sameiginlega innri markaði, og hins vegar tilskipun 2002/47/EB, sem ætlað er að stuðla að opnari og hagkvæmari fjármagnsmörkuðum og stöðugleika fjármálakerfisins.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB frá 6. maí 2009 um breytingu á tilskipun 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðsluuppgjörskerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf og tilskipun 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir að því er varðar tengd kerfi og skuldaviðurkenningar.
    Með tilskipuninni er sem áður segir ákvæðum tveggja eldri tilskipana breytt, þ.e. annars vegar tilskipun 98/26/EB og hins vegar tilskipun 2002/47/EB. Hér á eftir verður gerð grein fyrir efni þessara tilskipana og breytingum sem af tilskipun 2009/44/EB leiða.
    Markmið tilskipunar 98/26/EB, um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf, er að tryggja eins og unnt er skilvirk og örugg fjármálaviðskipti á hinum sameiginlega innri markaði. Öryggi í uppgjöri viðskipta milli fjármálastofnana og trygging þess með lögum er talið stuðla að frjálsu fjármagnsflæði og frelsi til að veita fjármálaþjónustu á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. M.a. skal tryggja að uppgjöri viðskipta í greiðslukerfum verði í engu raskað þrátt fyrir að gjaldþrotameðferð sé hafin á hendur einum þátttakenda í viðskiptunum.
    Markmið tilskipunar 2002/47/EB, um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir að því er varðar tengd kerfi og skuldaviðurkenningar, er að stuðla að opnari og hagkvæmari fjármagnsmörkuðum og stöðugleika fjármálakerfisins, og efla þannig frelsi og þjónustu og fjármagnsflutninga á sameiginlega markaðnum fyrir fjármálaþjónustu. Tilskipuninni er einnig ætlað að greiða fyrir framkvæmd sameiginlegrar peningamálastefnu innan ramma efnahags- og myntbandalagsins með því að stuðla að skilvirkni í starfsemi evrópska seðlabankakerfisins yfir landamæri og auknum sveigjanleika í lausafjárstýringu á peningamarkaði. Fjárhagslegar tryggingarráðstafanir felast í tvíhliða samningum um veðsetningu eða framsal verðbréfa eða reiðufjár til tryggingar fjárhagslegum skuldbindingum. Tilskipunin gerir ráð fyrir að aðilar að slíkum samningum séu einkum stofnanir á fjármálamarkaði.
    Með tilskipun 2009/44/EB er tilskipunum 98/26/EB og 2002/47/EB breytt talsvert. Meginbreytingarnar sem felast í henni eru til komnar vegna aukinna tenginga milli greiðslukerfa yfir landamæri (áður voru kerfin meira og minna landsbundin og sjálfstæð). Um er að ræða breytingar á skilgreiningum og þar með gildissviði, svo og efnislegar breytingar á ákvæðum um greiðslujöfnun og greiðslufyrirmæli, gjaldþrotaskipti og upplýsingagjöf vegna þátttöku í greiðslukerfi. Að nokkru leyti er um tæknilegar breytingar að ræða auk þess sem smávægilegar breytingar eru jafnframt gerðar. Þrátt fyrir það er ljóst að innleiðing tilskipunarinnar í innlendan rétt kallar á lagabreytingar hér á landi.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Tilskipun 98/26/EB, um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf, var innleidd hér á landi í lögum nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum, en þau lög heyra undir efnahags- og viðskiptaráðherra. Tilskipun 2002/47/EB, um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir að því er varðar tengd kerfi og skuldaviðurkenningar, var innleidd hér á landi með lögum nr. 46/2005, um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, en þau lög heyra undir innanríkisráðherra. Innleiðing hér á landi á þeim breytingum sem urðu á umræddum tilskipunum með gildistöku tilskipunar 2009/44/EB kallar á breytingu á bæði lögum nr. 90/1999 og lögum nr. 46/2005.
    Reiknað er með að efnahags- og viðskiptaráðherra muni á yfirstandandi löggjafarþingi leggja fram frumvarp til breytingar á lögum nr. 90/1999 til innleiðingar á tilskipuninni, en þó er ekki enn víst að af þeirri framlagningu verði. Hvað varðar breytingar á lögum nr. 46/2005 er gert ráð fyrir að lagafrumvarp verði lagt fram nú á vorþingi, þar sem kveðið verði á um að ráðstafanir samkvæmt lögunum nái einnig yfir svokallaðar skuldakröfur.
    Ekki gert ráð fyrir því að fyrirhugaðar lagabreytingar hafi í för með sér umtalsverðan kostnað hér á landi. Sama á við um stjórnsýslulegar afleiðingar.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 50/2010

frá 30. apríl 2010

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn.


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2010 frá 29. janúar 2010 ( 1 ).

2)        XII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 43/2005 frá 11. mars 2005 ( 2 ).

3)        Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB frá 6. maí 2009 um breytingu á tilskipun 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðsluuppgjörskerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf og tilskipun 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir að því er varðar tengd kerfi og skuldaviðurkenningar ( 3 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Eftirfarandi bætist við í lið 16b (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/26/EB) í IX. viðauka við samninginn:

„eins og henni var breytt með:

–     32009 L 0044: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB frá 6. maí 2009 (Stjtíð. ESB L 146, 10.6.2009, bls. 37).“

2. gr.


Eftirfarandi bætist við í 4. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/47/EB) í XII. viðauka við samninginn:

„eins og henni var breytt með:

–     32009 L 0044: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB frá 6. maí 2009 (Stjtíð. ESB L 146, 10.6.2009, bls. 37).

Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

Orðin „í skilningi 1. gr. og 2. og 3. mgr. 2. gr. viðaukans við tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2003/361/EB frá 6. maí 2003 um skilgreiningu á örfyrirtækjum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum“ í stafl. c) í 4. mgr. 1. gr. gilda ekki.“

3. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2009/44/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

4. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 1. maí 2010, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

5. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 30. apríl 2010.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
A. Seatter
formaður.


Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2009/44/EB
frá 6. maí 2009
um breytingu á tilskipun 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf og tilskipun 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir að því er varðar tengd kerfi og skuldakröfur
(Texti sem varðar EES)

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti Seðlabanka Evrópu ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/26/EB ( 4 ) var komið á kerfi sem bæði tryggir innlendum og erlendum þátttakendum í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf, endanleg greiðslufyrirmæli og greiðslujöfnun, ásamt fullnustuhæfi veðtryggingar.
2)          Í matsskýrslu framkvæmdastjórnarinnar frá 7. apríl 2006 um tilskipunina um endanlegt uppgjör 98/26/EB var niðurstaðan sú að tilskipun 98/26/EB virki almennt vel. Í skýrslunni er lögð áhersla á að mikilvægra breytinga kunni að vera að vænta á sviði greiðslukerfa og uppgjörskerfa fyrir verðbréf og einnig að nokkur þörf sé á að skýra og einfalda tilskipun 98/26/EB.
3)          Helsta breytingin er þó aukin tenging milli kerfa sem voru nær eingöngu starfrækt á landsbundnum og sjálfstæðum grunni þegar drög voru lögð að tilskipun 98/26/EB. Þessi breyting er ein af niðurstöðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði með fjármögnunargerninga ( 5 ) og evrópskar siðareglur um greiðslujöfnun og uppgjör. Til að fylgja þessari þróun eftir skal gerð grein fyrir hugtakinu um rekstrarsamhæft kerfi og ábyrgð kerfisstjóra.
4)          Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/47/EB ( 6 ) varð til samræmdur lagarammi á vettvangi Bandalagsins til að nota fjárhagstryggingar yfir landamæri og afnema þannig flestar formlegar kröfur sem gerðar eru til samninga um tryggingarráðstafanir.
5)          Seðlabanki Evrópu ákvað að innleiða skuldakröfur sem hæfa gerð trygginga fyrir lánaaðgerðir á evrusvæðinu frá 1. janúar 2007. Til að hámarka efnahagsleg áhrif þess að beita skuldakröfum hefur Seðlabanki Evrópu mælt með því að gildissvið tilskipunar 2002/47/EB verði víkkað út. Í matsskýrslu framkvæmdastjórnarinnar frá 20. desember 2006 um tilskipunina um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir (2002/47/EB) er fjallað um málið og fallist á álit Seðlabanka Evrópu. Notkun á skuldakröfum mun fjölga tiltækum tryggingum. Hér við bætist að frekari samhæfing greiðslukerfa og uppgjörskerfa fyrir verðbréf mun stuðla enn frekar að jöfnum samkeppnisskilyrðum lánastofnana í öllum aðildarríkjunum. Ef notkun á skuldakröfum sem tryggingum yrði auðvelduð frekar kæmi það neytendum og skuldurum einnig til góða þar sem notkun á skuldakröfum sem tryggingum gæti að lokum haft í för með sér harðari samkeppni og greiðari aðgang að lánsfé.
6)          Til að greiða fyrir notkun á skuldakröfum er mikilvægt að afnema eða banna allar stjórnsýslureglur, s.s. tilkynningar- og skráningarskyldu, sem gerðu framsal á skuldakröfum óraunhæfa. Eins skulu skuldarar, til að stofna stöðu tryggingarhafa ekki í hættu, geta fallið frá rétti sínum til jöfnunar gagnvart lánveitendum svo að gilt sé. Sömu grunnforsendur skulu einnig gilda um nauðsyn þess að skuldari geti fallið frá reglum um bankaleynd þar sem tryggingarhafi kann að öðrum kosti að hafa ófullnægjandi upplýsingar til að meta rétt verðgildi þeirra skuldakrafna sem liggja til grundvallar. Þessi ákvæði skulu ekki hafa áhrif á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB frá 23. apríl 2008 um lánssamninga fyrir neytendur ( 1 ).
7)          Aðildarríkin hafa ekki notfært sér möguleikann í 3. mgr. 4. gr. tilskipunar 2002/47/EB að hafna eignaupptökurétti tryggingarhafans. Því skal fella það ákvæði brott.
8)          Því ber að breyta tilskipunum 98/26/EB og 2002/47/EB til samræmis við það.
9)          Í samræmi við 34. lið samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 2 ) eru aðildarríkin hvött til að taka saman, fyrir sig og í þágu Bandalagsins, eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafananna til að lögleiða hana og að birta þær,
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Breytingar á tilskipun 98/26/EB
Eftirfarandi breytingar eru hér með gerðar á tilskipun 98/26/EB:
1)     Ákvæði 8. forsendu falla brott.
2)     Eftirfarandi forsenda bætist við:
    „14a)    Lögbær landsyfirvöld eða eftirlitsyfirvöld skulu tryggja að rekstraraðilar kerfanna, sem mynda í sameiningu rekstrarsamhæfðu kerfin, komi sér saman um sameiginlegar reglur um innfærslutíma í rekstrarsamhæfðu kerfunum, að því marki sem unnt er. Lögbær landsyfirvöld eða eftirlitsyfirvöld skulu tryggja að reglur um innfærslutíma í rekstrarsamhæfðu kerfi séu samræmdar, að því marki sem unnt er og nauðsynlegt, til að komast hjá réttaróvissu, komi til vanskila af hálfu þátttökukerfis.“
3)     Eftirfarandi forsenda bætist við:
    „22a)    Ef um er að ræða rekstrarsamhæfð kerfi getur skortur á samræmingu á því hvaða reglur gilda um innfærslutíma og óafturkallanleika gert þátttakendur í einu kerfi, eða jafnvel kerfisstjórann, berskjaldaða gagnvart smitáhrifum af vanskilum í öðru kerfi. Til að takmarka kerfisáhættu er æskilegt að kveða á um að kerfisstjórar rekstrarsamhæfðra kerfa samræmi reglur um innfærslutíma og óafturkallanleika í kerfum þeim sem þeir stjórna.“
4)     Ákvæðum 1. gr. er breytt sem hér segir:
    a)     í a-lið komi orðið „evra“ í stað orðsins „ecu“,
    b)    í stað annars undirliðar í c-lið komi eftirfarandi:
        „–    aðgerðir seðlabanka aðildarríkjanna eða Seðlabanka Evrópu sem varða starfsemi þeirra sem seðlabankar."
5)     Ákvæðum 2. gr. er breytt sem hér segir:
    a)     Eftirfarandi breytingar eru gerðar á a-lið:
         i.     Í stað fyrsta undirliðar komi eftirfarandi:
              „–    milli þriggja eða fleiri þátttakenda að undanskildum kerfisstjóra þess kerfis, hugsanlegum uppgjörsaðila, hugsanlegum milligönguaðila, hugsanlegri greiðslujöfnunarstöð eða hugsanlegum óbeinum þátttakanda, með sameiginlegar reglur og staðlað fyrirkomulag að því er varðar greiðslujöfnun, einnig fyrir tilstilli milligönguaðila eða framkvæmd greiðslufyrirmæla milli þátttakenda,“
        ii.     eftirfarandi undirlið er bætt við:
            „Tilhögun sem rekstrarsamhæfð kerfi taka upp telst ekki vera kerfi.“
    b)    Í stað fyrsta og annars undirliðar í b-lið komi eftirfarandi:
         „–    lánastofnun: fyrirtæki, eins og skilgreint er í 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB frá 14. júní 2006 um stofnun og rekstur lánastofnana (endurútgefin) ( *) þar með taldar stofnanirnar sem taldar eru upp í 2. gr. þeirrar tilskipunar,
         –    fjárfestingarfyrirtæki: fyrirtæki eins og skilgreint er í 1. lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga ( **), að undanskildum þeim stofnunum sem settar eru fram í 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar,
             

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. ESB L 177, 30.6.2006, bls. 1
              ( **) Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1.“,
    c)    Eftirfarandi breytingar eru gerðar á f-lið:
         i.     í stað fyrsta undirliðar komi eftirfarandi:
              „f)    „þátttakandi“: stofnun, milligönguaðili, uppgjörsaðili, greiðslujöfnunarstöð eða kerfisstjóri.“
        ii.    Í stað þriðju undirgreinar komi eftirfarandi:
            Við beitingu þessarar tilskipunar getur aðildarríki ákveðið að óbeinn þátttakandi teljist þátttakandi ef færð eru rök fyrir því að um kerfisáhættu geti verið að ræða. Ef óbeinn þátttakandi telst vegna kerfisáhættu vera þátttakandi takmarkar það ekki ábyrgð þátttakandans sem sendir greiðslufyrirmæli til kerfisins fyrir hönd óbeina þátttakandans.“
    d)     eftirfarandi komi í stað g-liðar:
         „g)    „óbeinn þátttakandi“: stofnun, milligönguaðili, uppgjörsaðili, greiðslujöfnunarstöð eða kerfisstjóri með samningssamband við þátttakanda í kerfi sem gefur greiðslufyrirmæli, sem gerir óbeinum þátttakanda kleift að senda greiðslufyrirmæli gegnum kerfið, að því tilskildu að kerfisstjórinn þekki óbeina þátttakandann.“
    e)     eftirfarandi komi í stað h-liðar:
         „h)    „verðbréf“: öll skjöl sem um getur í C- þætti í 1. viðauka við tilskipun 2004/39/EB,“,
    f)    í stað i-liðar fyrsta undirliðar komi eftirfarandi:
         „–    fyrirmæli þátttakanda um að fá viðtakanda til ráðstöfunar fjárhæð með færslu í reikninga lánastofnunar, seðlabanka, milligönguaðila eða uppgjörsaðila, eða fyrirmæli sem valda yfirtöku eða niðurfellingu á greiðsluskuldbindingu eins og skilgreint er í reglum kerfisins eða“,
    g)    Í stað l-liðar komi eftirfarandi:
         „l)    „uppgjörsreikningur“: reikningur í seðlabanka, hjá uppgjörsaðila eða milligönguaðila sem venjulega geyma eignir eða verðbréf og gera upp færslur milli þátttakenda í kerfi,“,
    h)     eftirfarandi komi í stað m-liðar:
         „m)    „veðtrygging“: allar seljanlegar eignir, þ.m.t., án takmarkana, fjárhagsleg trygging, sem um getur í a-lið 4. mgr. 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/47EB frá 6. júní 2002 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir ( *), sem veitt er við veðsetningu (þ.m.t. peningar sem afhentir eru við veðsetningu), endurkaupasamningi eða sambærilegum samningi eða á annan hátt til að tryggja réttindi og skyldur sem kunna verða til í tengslum við kerfi eða eru settar sem trygging hjá seðlabönkum aðildarríkjanna eða Seðlabanka Evrópu,
             

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. EB L 168, 27.6.2002, bls. 43.“,
    i)     Eftirfarandi liðir bætast við:
        „n) „viðskiptadagur“: á við um uppgjör jafnt     á nóttu sem degi og skal taka til allra atburða innan viðskiptalotu kerfis,
         o)    „rekstrarsamhæfð kerfi“: tvö eða fleiri kerfi þar sem kerfisstjórarnir hafa komið á fyrirkomulagi sín á milli sem felur í sér fullnustu greiðslufyrirmæla milli kerfa,
         p)    „kerfisstjóri“: Einingin eða einingarnar sem bera lagalega ábyrgð á rekstri kerfis.“ „Kerfisstjóri getur einnig verið uppgjörsaðili, milligönguaðili eða greiðslujöfnunarstöð.“.
6)    Ákvæðum 3. gr. er breytt sem hér segir:
    a)     Í stað 1. mgr. komi eftirfarandi:
        „1.     Greiðslufyrirmæli og greiðslujöfnun skulu vera fullnustuhæf samkvæmt lögum og bindandi gagnvart þriðja aðila, jafnvel þótt þátttakandi sæti gjaldþrotameðferð, að því tilskildu að greiðslufyrirmæli hafi verið færð inn í kerfið áður en slík gjaldþrotameðferð, eins og hún er skilgreind í 1. mgr. 6.gr., hófst. Þetta gildir jafnvel um gjaldþrotameðferð þátttakanda (í kerfi því sem um er að ræða eða rekstrarsamhæfðu kerfi) eða gegn kerfisstjóra í rekstrarsamhæfðu kerfi sem er ekki þátttakandi.
        Ef greiðslufyrirmæli eru færð inn í kerfið eftir að gjaldþrotameðferð hefst og eru framkvæmd þann viðskiptadag, eins og hann er skilgreindur í reglum kerfisins, sem slík málsmeðferð hefst, skulu þau því aðeins vera fullnustuhæf samkvæmt lögum og bindandi fyrir þriðja aðila að kerfisstjóri geti sannað að hann hvorki gerði sér ljóst né hefði getað verið ljóst, þegar slík greiðslufyrirmæli urðu óafturkallanleg, að málshöfðun væri að hefjast.“,
    b)    eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „4. Þegar rekstrarsamhæfð kerfi eiga í hlut ákvarðar hvert kerfi í eigin reglum innfærslutíma eigin kerfis á þann hátt að tryggt verði, eftir því sem framast er unnt, að reglur allra rekstrarsamhæfðra kerfa séu samræmdar að þessu leyti. Sé ekki skýrt kveðið á um það í reglum allra kerfanna, sem eru aðilar að rekstrarsamhæfðu kerfunum, skulu reglur eins kerfis við gildistöku ekki verða fyrir neinum áhrifum af reglum hinna kerfanna sem það er rekstrarsamhæft.“.
7)     Í stað 4. gr. komi eftirfarandi:
    „ 4. gr.
    Aðildarríki geta kveðið á um að gjaldþrotameðferð þátttakanda eða kerfisstjóra rekstrarsamhæfðs kerfis komi ekki í veg fyrir að fjármunir eða verðbréf, sem eru tiltæk á uppgjörsreikningi þátttakandans, verði notuð til að uppfylla skyldur þátttakandans í kerfinu, eða í rekstrarsamhæfðu kerfi, þann viðskiptadag sem gjaldþrotameðferð hefst. Aðildarríki geta einnig kveðið á um að lánafyrirgreiðsla slíks þátttakanda, sem tengist kerfinu, sé notuð til að uppfylla fyrirliggjandi, gildandi veðtryggingu til að uppfylla skyldur þess þátttakanda í kerfinu eða í rekstrarsamhæfðu kerfi.“.
8)    Eftirfarandi málsgrein bætist við í 5. gr.:
    „Þegar rekstrarsamhæfð kerfi eiga í hlut ákveður hvert kerfi í eigin reglum hvenær innfærslur í eigið kerfi verða óafturkallanlegar, á þann hátt að tryggt verði, eftir því sem framast er unnt, að reglur allra rekstrarsamhæfðra kerfa séu samræmdar að þessu leyti. Sé ekki skýrt kveðið á um það í reglum allra kerfanna, sem eru aðilar að rekstrarsamhæfðu kerfunum, skulu reglur eins kerfis við gildistöku ekki verða fyrir neinum áhrifum af reglum hinna kerfanna sem það er rekstrarsamhæft.“.
9)     Í stað 7. gr. komi eftirfarandi:
    „ 7. gr.
    Gjaldþrotameðferð hefur ekki afturvirk áhrif á réttindi og skyldur þátttakanda sem leiða af. eða er í tengslum við, þátttöku hans í kerfi áður en slík málsmeðferð, eins og hún er skilgreind í 1. mgr. 6.gr., hefst. Þetta gildir m.a. um réttindi og skyldur þátttakanda í rekstrarsamhæfðu kerfi, eða rekstrarstjóra í rekstrarsamhæfðu kerfi sem ekki er þátttakandi.“.
10)    Í stað 9. gr. komi eftirfarandi:
    „ 9. gr.
    1. Gjaldþrotameðferð eftirfarandi aðila hefur ekki áhrif á rétt kerfisstjóra eða þátttakanda til fullnustu í veðtryggingu, sem honum er veitt í tengslum við kerfi eða rekstrarsamhæft kerfi, eða rétt seðlabanka aðildarríkjanna eða Seðlabanka Evrópu til fullnustu í veðtryggingu, sem þeim er veitt:
    a)    þátttakanda (í viðkomandi kerfi eða rekstrarsamhæfðu kerfi),
    b)    rekstrarstjóra rekstrarsamhæfðs kerfis sem er ekki þátttakandi,
    c)    mótaðila seðlabanka aðildarríkjanna eða Seðlabanka Evrópu eða
    d)    þriðja aðila sem veitti veðtrygginguna.
    Slíkri veðtryggingu er hægt að koma í kring til fullnustu þessa réttar.
    2. Ef verðbréf, þ.m.t. réttindi í verðbréfum, eru lögð fram sem veðtrygging fyrir þátttakendur, kerfisstjóra, seðlabanka aðildarríkjanna eða Seðlabanka Evrópu, eins og lýst er í 1.gr., og réttindi þeirra eða réttindi tilnefnds aðila, umboðsmanns eða þriðja aðila, sem kemur fram fyrir þeirra hönd að því er viðkemur verðbréfunum, eru löglega skráð í embættisbók, reikning eða miðlægt vörslukerfi, sem er í aðildarríki, skal ákvörðun um réttindi eininganna, sem eiga veðtryggingu í tengslum við þessi réttindi, falla undir gildissvið þess aðildarríkis.“.
11)    Í stað 10. gr. komi eftirfarandi:
    „ 10. gr.
    1.     Aðildarríki skulu tilgreina kerfin og viðkomandi kerfisstjóra sem falla undir gildissvið þessarar tilskipunar og tilkynna framkvæmdastjórninni um þau, og upplýsa framkvæmdastjórnina um þau yfirvöld sem þau hafa valið í samræmi við 2. mgr. 6. gr.
    Kerfisstjórinn skal tilkynna því aðildarríki, þar sem viðeigandi lög gilda, um þátttakendur í kerfinu, þ.m.t. allir hugsanlegir, óbeinir þátttakendur, og greina frá breytingum sem kunna að verða á hópi þeirra.
    Aðildarríki geta, auk þess sem kveðið er á um í öðrum undirlið, ákveðið að kerfi, sem falla undir lögsögu þeirra, sæti eftirliti eða séu háð leyfi.
    Sé þess óskað skal stofnun veita öllum, sem lögmætra hagsmuna eiga að gæta, upplýsingar um kerfin, sem hún tekur þátt í, og veita upplýsingar um þær meginreglur sem stýra því hvernig kerfin starfa.
    2.     Kerfi, sem varð til fyrir gildistöku innlendra ákvæða um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB frá 6. maí 2009 um breytingu á tilskipun 98/26/EB um endanlegt uppgjör á greiðslum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf og tilskipunar 2002/47/EB um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir að því er varðar tengd kerfi og skuldakröfur ( *) skal áfram vera til sem kerfi að því er varðar þessa tilskipun.
    Greiðslufyrirmæli, sem bókfærð eru í kerfi áður en framkvæmdartilskipun innlendra ákvæða 2009/44/EB öðlast gildi, skal teljast greiðslufyrirmæli að því er varðar þessa tilskipun.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. EB L 146, 10.6.2009, bls. 37“.

2. gr.
Breytingar á tilskipun 2002/47/EB

Eftirfarandi breytingar eru hér með gerðar á tilskipun 2002/47/EB:
1)     Í stað 9. forsendu komi eftirfarandi:
    „9)    Í því skyni að takmarka stjórnsýsluálag á aðila, sem nota fjárhagslegar tryggingar innan gildissviðs þessarar tilskipunar, skal eina krafan varðandi aðila, sem heimilt er að gera um gildi fjárhagslegra trygginga að landslögum, vera að tryggingin skuli vera undir yfirráðum tryggingarhafa eða aðila, sem er í fyrirsvari fyrir hann, sem útilokar þó ekki tryggingaraðferðir sem veita tryggingarveitanda heimild til að skipta út tryggingu eða draga umframtryggingu til baka. Þessi tilskipun kemur ekki í veg fyrir að aðildarríkin geti krafist þess að skuldakröfur séu afhentar sem viðbót á skrá yfir kröfur.“.
2)     Í stað 20. forsendu komi eftirfarandi:
    „20)    Þessi tilskipun er með fyrirvara um beitingu eða áhrif samningsskilmála fjármálagerninga eða skuldakrafna, sem eru sett sem fjárhagsleg trygging, s.s. réttindi og skyldur eða önnur skilyrði sem er að finna í útgáfuskilmálum slíkra gerninga, eða önnur réttindi, aðrar skyldur og önnur skilyrði sem gilda milli útgefanda og handhafa slíkra gerninga eða milli skuldara og skuldareiganda slíkra skuldakrafna.“.
3)    Eftirfarandi forsenda bætist við:
    „23)    Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á rétt aðildarríkjanna til að setja reglur til að tryggja skilvirkni fjárhagslegra tryggingarráðstafana með tilliti til þriðja aðila, að því er varðar skuldakröfur,“.
4)     Ákvæðum 1. gr. er breytt sem hér segir:
    a)     Eftirfarandi komi í stað b-liðar 2. mgr.:
         „b)    seðlabanki, Seðlabanki Evrópu, Alþjóðagreiðslubankinn, fjölþjóðlegur þróunarbanki, eins og um getur í 4. lið. 1. hluta 6. viðauka tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB frá 14. júní 2006 um stofnun og rekstur lánastofnana (endurútgáfa) ( *), Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Fjárfestingabanki Evrópu,
              

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)     Stjtíð. EB L 177, 30.6.2006, bls. 1.“,
    b)    Í stað i.–iv. liðar í c-lið 2. mgr. komi eftirfarandi:
         „i.    lánastofnun, eins og hún er skilgreind í 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2006/48/EB, þ.m.t. þær stofnanir sem eru tilgreindar í 2. gr. þeirrar tilskipunar,
         ii.    fjárfestingarfyrirtæki, eins og það er skilgreint í 1. lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga ( *),
         iii.    fjármálastofnun, eins og hún er skilgreind í 5. mgr. 4. gr. tilskipunar 2006/48/EB,
         iv.    vátryggingafélag, eins og það er skilgreint í a-lið 1. gr. tilskipunar ráðsins 92/49/EBE frá 18. júní 1992 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi frumtryggingar, aðrar en líftryggingar (þriðja tilskipun um skaðatryggingar) ( **) og líftryggingafyrirtæki, eins og það er skilgreint í a-lið 1. mgr. 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/83/EB frá 5. nóvember 2002 um líftryggingar ( ***),
        

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1.
         ( **) Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 1
         ( ***) Stjtíð. EB L 345, 19.12.2002, bls. 1.“,
    c)     Eftirfarandi komi í stað a-liðar 4. mgr.:
         „a)    Fjárhagslega tryggingin, sem á að veita, skal vera í reiðufé, fjármálagerningar eða skuldakröfur,“,
    d)     eftirfarandi liður bætist við í 4. mgr.:
         „c)    Aðildarríki geta ákveðið að skuldakröfur falli ekki undir gildissvið þessarar tilskipunar ef skuldarinn er neytandi eins og hann er skilgreindur í a-lið 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB frá 23. apríl 2008 um lánssamninga fyrir neytendur ( *) eða örfyrirtæki eða litið fyrirtæki eins og þau eru skilgreind í 1. gr., 2. mgr. 2. gr. og 3.gr. viðaukans við tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2003/361/EB frá 6. maí 2003 um skilgreininguna á örfyrirtækjum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum ( **), nema tryggingarhafi eða tryggingarveitandi slíkra skuldakrafna sé ein þeirra stofnana sem um getur í b-lið 2. mgr. 1. gr. þessarar tilskipunar.“
        

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. ESB L 133, 22.5.2008, bls. 66.
         ( **)Stjtíð. ESB L 124, 20.5.2003, bls. 36.“,

    e)    ákvæðum 5. mgr. er breytt sem hér segir:
         i.    eftirfarandi málslið er bætt við í öðrum undirlið:
            „Að því er varðar skuldakröfur er fullnægjandi að þær séu færðar á skrá, skriflega, eða með þeim hætti sem sambærilegur er í lagalegu tilliti, og lagðar fyrir tryggingarhafann, til að auðkenna skuldakröfuna og færa sönnur á hana sem fjárhagslega tryggingu milli aðila.“,
         ii.    eftirfarandi undirliður bætist aftan við annan undirlið:
            Það hefur ekki áhrif á annan undirlið að aðildarríki geta kveðið á um að einnig sé fullnægjandi, að því er varðar skuldakröfur, að þær séu færðar á skrá, skriflega, eða með þeim hætti sem sambærilegur er í lagalegu tilliti, og lagðar fyrir tryggingarhafann, til að auðkenna skuldakröfuna og færa sönnur á hana sem fjárhagslega tryggingu gegn skuldaranum eða þriðja aðila.“.
5)     Ákvæðum 2. gr. er breytt sem hér segir:
    a)     Ákvæðum 1. mgr. er breytt sem hér segir:
         i.     Eftirfarandi komi í stað b- og c-liðar:
         „b)    „samningur um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu“: samningur, þ.m.t. endurhverf verðbréfakaup, þar sem tryggingarveitandi framselur fullan eignarrétt yfir, eða fullan rétt til fjárhagslegrar tryggingar, til tryggingarhafa til að tryggja, eða ná fram með öðrum hætti, efndum á viðkomandi fjárskuldbindingum,
              c)    „samningur um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu": samningur þar sem tryggingarveitandi leggur fram fjárhagslega tryggingu sem veð til handa tryggingarhafanum eða í þágu hans, og eignarréttur eða réttindi yfir fjárhagslegu tryggingunni helst að fullu eða að hluta til hjá tryggingarveitanda þegar veðréttur er stofnaður,“,
         ii.     eftirfarandi liður bætist við:
          „o)    „skuldakrafa“: peningakrafa á grundvelli samnings þar sem lánastofnun, eins og hún er skilgreind í 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2006/48/EB, þ.m.t. stofnanir þær sem taldar eru upp í 2. gr. þeirrar tilskipunar, veitir fyrirgreiðslu í formi láns.“,
    b)    í stað annars málsliðar 2. mgr. komi eftirfarandi:
        „Réttur tryggingarveitanda til staðgöngutryggingar, til að draga umframtryggingu til baka eða, ef um skuldakröfur er að ræða, innheimta afrakstur af tryggingunni þar til annað verður ákveðið, hefur ekki áhrif á fjárhagslega tryggingu sem tryggingarhafi hefur fengið samkvæmt þessari tilskipun.“.
6)     Ákvæðum 3. gr. er breytt sem hér segir:
    a)     við 1. mgr. bætast eftirfarandi undirgreinar:
        „Með fyrirvara um 5. mgr. 1. gr., skulu aðildarríki ekki krefjast þess, þegar skuldakröfur eru lagðar fram sem trygging, að stofnun, lögmæti, fullgilding, forgangur, fullnustuhæfi eða sönnunarhæfi gagna um slíkar fjárhagslegar tryggingar ráðist ekki af einhverjum formlegum gerningi, s.s. skráningu eða tilkynningu skuldara skuldakröfunnar sem sett er fram sem trygging. Aðildarríkin geta þó krafist formlegs gernings, s.s. skráningar eða tilkynningar, vegna fullgildingar, forgangs, fullnustuhæfis eða sönnunarhæfis gagna gagnvart skuldaranum eða þriðja aðila.
        Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 30. júní 2014, veita Evrópuþinginu og ráðinu upplýsingar um hvort þessi liður eigi ennþá við.“,
    b)     Eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „3.     Með fyrirvara um tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum ( *) og innlend ákvæði varðandi óréttmæta samningsskilmála skulu aðildarríkin tryggja að skuldarar skuldakrafnanna geti, svo gilt sé, skriflega eða með þeim hætti sem sambærilegur er í lagalegu tilliti, fellt niður:
        i.    rétt sinn til jöfnunar gagnvart lánveitendum skuldakröfunnar og gagnvart aðilum sem lánveitandinn hefur framselt, veðsett eða með öðrum hætti veitt skuldakröfuna sem tryggingu og
        ii.    rétt sinn sem leiðir af reglum um bankaleynd, sem að öðrum kosti myndi hindra lánveitanda skuldakröfunnar í eða draga úr möguleikum hans á að veita upplýsingar um skuldarann í þeim tilgangi að nota skuldakröfuna sem tryggingu.
        

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. EB L 95, 21.4.1993, bls. 29.“.
7)     Ákvæðum 4. gr. er breytt sem hér segir:
    a)     eftirfarandi liður bætist við í 1. mgr.:
     „c)    skuldakröfur með sölu eða töku þeirra til eignar og með því að jafna verðgildi þeirra á móti, eða til að standa skil á, viðkomandi fjárskuldbindingum.“
    b)    eftirfarandi komi í stað b-liðar 2. mgr.:
     „b)    aðilar hafa náð samkomulagi um mat á fjármálagerningum og skuldakröfum í samningi um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu.“,
    c)     Ákvæði 3. mgr. falli brott.
8)     Eftirfarandi málsgrein bætist við í 5. gr.:
    „6.     Þessi grein gildir ekki um skuldakröfur.“.
9)     Eftirfarandi grein bætist við á eftir 9. gr.:
    „Grein 9a
    Tilskipun 2008/48/EB
    Ákvæði þessarar tilskipunar gilda með fyrirvara um ákvæði tilskipunar 2008/48/EB.“.

3. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 30. desember 2010. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þau skulu beita þessum ákvæðum frá 30. júní 2011.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi tekur til.

4. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.


5. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Strassborg 6. maí 2009.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. PÖTTERING J. KOHOUT
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 101, 22.4.2010, bls. 19, og EES-viðbætir nr. 19, 22.4.2010, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 198, 28.7.2005, bls. 45, og EES-viðbætir nr. 38, 28.7.2005, bls. 26.
Neðanmálsgrein: 3
(3) Stjtíð. ESB L 146, 10.6.2009, bls. 37.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. ESB C 216, 23.8 2008, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Álit frá 3. desember 2008 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB).
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 18. desember 2008 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 27. apríl 2009.
Neðanmálsgrein: 8
(4)    Stjtíð. EB L 166, 11.6.1998, bls. 45.
Neðanmálsgrein: 9
(5)    Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(6)    Stjtíð. EB L 168, 27. 6. 2002, bls. 43.
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. ESB L 133, 22.5.2008, bls. 66.
Neðanmálsgrein: 12
(2)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12 2003, bls. 1.