Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 629. máls.

Þskj. 1104  —  629. mál.Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 35/2010 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 35/2010, frá 12. mars 2010, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/22/EB frá 23. apríl 2009 um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 35/2010, frá 12. mars 2010, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/22/EB frá 23. apríl 2009 um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda.
    Með tilskipuninni er verið að endurútgefa tilskipun 98/27/EB um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda, sem er felld niður með nýju tilskipuninni. Tilskipun 98/27/EB hefur verið talsvert breytt nokkrum sinnum og með hliðsjón af skýrleika og til hagræðingar var hún gefin aftur út. Auk þess var einni tilskipun bætt við lista yfir tilskipanir í viðauka I, þ.e. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/122/EB um neytendavernd að því er varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, langtímasamninga um orlofstilboð, endursölu- og skiptasamninga.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/22/EB frá 23. apríl 2009 um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda.
    Með tilskipuninni er eins og áður segir verið að endurútgefa tilskipun 98/27/EB um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda, sem er felld niður með tilskipun 2009/22/EB. Tilskipun 98/27/EB hefur verið talsvert breytt nokkrum sinnum og með hliðsjón af skýrleika og til hagræðingar var hún gefin aftur út. Auk þess er í uppfærslunni einni tilskipun bætt við lista í viðauka I, þ.e. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/122/EB um neytendavernd að því er varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, langtímasamninga um orlofstilboð, endursölu- og skiptasamninga.
    Megintilgangur tilskipunar 98/27/EB og nú tilskipunar 2009/22/EB er að koma í veg fyrir ólögmætar athafnir sem áhrif hafa á hagsmuni neytenda þegar viðskipti eru stunduð yfir landamæri. Lagt er til grundvallar að í öllum aðildarríkjum séu til réttarúrræði til að stöðva ólögmæta markaðsfærslu (viðskiptahætti) sem eru í andstöðu við þær tilskipanir á sviði neytendaverndar sem taldar eru upp í viðauka hennar. Þau atriði sem tilskipunin tekur einkum til eru neytendalán, orlofsferðir, ósanngjörn skilyrði í samningum við neytendur, fjarsölusamningar og ósanngjarnir viðskiptahættir. Með tilskipuninni og forvera hennar er ekki lagt upp með að samræma réttarúrræði eða réttarfar aðildarríkjanna heldur að auðvelda hlutaðeigandi yfirvöldum í öðrum aðildarríkjum að krefjast dómsúrskurðar eða lögbanns gegn ólögmætum athöfnum í því ríki þar sem varnarþing fremjanda brots er.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Tilskipunin krefst breytinga á lögum nr. 141/2001, um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Bæta þarf tveimur tilskipunum við í upptalningu 1. gr. laganna á tilskipunum Evrópusambandsins. Í þeirri grein er tilteknum stjórnvöldum og samtökum heimilað að leita lögbanns eða höfða dómsmál til að vernda hagsmuni neytenda þótt hvorki þau sjálf né félagsmenn í samtökum hafi orðið fyrir röskun réttinda, enda snúi beiðnin að því að stöðva eða koma í veg fyrir háttsemi sem hefur afleiðingar hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og þykir stríða gegn þeim tilskipunum sem taldar eru upp í greininni.
    Þær tilskipanir sem bæta þarf í upptalningu greinarinnar eru annars vegar tilskipun 2008/ 122/EB um neytendavernd að því er varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, langtímasamninga um orlofstilboð, endursölu- og skiptasamninga en henni var eins og áður segir bætt við í upptalningu tilskipana í viðauka I við útgáfu tilskipunarinnar sem hér um ræðir. Hins vegar er um að ræða tilskipun 2006/123/EB um þjónustu á innri markaðnum (þjónustutilskipunin). Í 42. gr. hennar var kveðið á um að hún skyldi bætast við í upptalningu í viðauka I við tilskipun 98/27/EB. Þar sem þjónustutilskipunin hefur enn ekki verið innleidd í innlenda löggjöf á enn eftir að bæta henni við í upptalningu 1. gr. framangreindra laga.
    Ekki er gert ráð fyrir að framangreindar lagabreytingar hafi í för með sér neinn umtalsverðan kostnað hér á landi né stjórnsýslulegar afleiðingar.Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 35/2010

frá 12. mars 2010

um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         XIX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2009 frá 3. júlí 2009 ( 1 ).

2)         Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/22/EB frá 23. apríl 2009 um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda ( 2 ).

3)         Samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2009/22/EB fellur úr gildi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/27/EB ( 3 ), en sú gerð hefur verið felld inn í samninginn og ber því að fella hana úr samningnum.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Liður 7d (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/27/EB) í XIX. viðauka við samninginn hljóði svo:

32009 L 0022: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/22/EB frá 23. apríl 2009 um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda (Stjtíð. ESB L 110, 1.5.2009, bls. 30).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2009/22/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 13. mars 2010, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 12. mars 2010.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
A. Seatter
formaður.

Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2009/22/EB
frá 23. apríl 2009
um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda
(Kerfisbundin útgáfa)
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/27/EB frá 19. maí 1998 um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda ( 3 ) hefur nokkrum sinnum verið breytt í veigamiklum atriðum ( 4 ). Til glöggvunar og hagræðingar ber því að kerfisbinda þessa tilskipun.
2)          Í ákveðnum tilskipunum, sem taldar eru upp í I. viðauka við þessa tilskipun, eru settar reglur um neytendavernd.
3)          Ekki er alltaf unnt að stöðva nógu fljótt brot gegn sameiginlegum hagsmunum neytenda með þeim aðferðum sem nú eru tiltækar, hvort heldur er á landsvísu eða á bandalagsvísu, til þess að tryggja að farið sé að þessum tilskipunum. Sameiginlegir hagsmunir eru þeir hagsmunir sem ekki eru uppsafnaðir hagsmunir einstaklinga sem hafa orðið fyrir skaða vegna brots. Þetta hefur ekki áhrif á lögsókn af hálfu einstaklinga sem hafa orðið fyrir skaða vegna brots.
4)          Áhrifin af innlendum ráðstöfunum til að leiða í lög umræddar tilskipanir, sem er ætlað að binda enda á viðskiptahætti sem eru ólöglegir samkvæmt gildandi landslögum, að meðtöldum verndarráðstöfunum sem ganga lengra en krafist er í þessum tilskipunum, að því tilskildu að þessar ráðstafanir samrýmist stofnsáttmálanum og séu leyfilegar samkvæmt tilskipununum, geta orðið að engu þegar slíkir viðskiptahættir hafa áhrif í öðru aðildarríki en þar sem þeir eru upprunnir.
5)          Þessi vandkvæði geta raskað snurðulausri starfsemi innri markaðarins vegna þess að þetta hefur í för með sér að ekki þarf annað en að flytja ólöglega viðskiptahætti til annars lands til þess að komast undan hvers konar réttaraðför. Veldur þetta röskun á samkeppni.
6)          Þessi vandkvæði eru líkleg til að rýra traust neytenda á innri markaðinum og geta takmarkað svigrúm til aðgerða af hálfu þeirra samtaka, sem gæta sameiginlegra hagsmuna neytenda, eða óháðra opinberra aðila sem bera ábyrgð á því að gæta sameiginlegra hagsmuna neytenda sem verða fyrir skaða vegna viðskiptahátta er brjóta gegn lögum Bandalagsins.
7)          Þessir viðskiptahættir ná oft út yfir landamæri milli aðildarríkjanna. Því er áríðandi að samræma að einhverju leyti sem fyrst innlend ákvæði sem myndu binda enda á þetta form ólöglegs athæfis, án tillits til þess í hvaða aðildarríki hið ólöglega athæfi hefur áhrif. Að því er varðar lögsögu hefur þetta ekki áhrif á ákvæði í reglum alþjóðlegs einkamálaréttar eða samninga sem í gildi eru milli aðildarríkjanna, en taka ber tillit til almennra skuldbindinga aðildarríkjanna sem af sáttmálanum leiðir, einkum skuldbindinga er varða snurðulausa starfsemi innri markaðarins.
8)          Einungis Bandalagið getur náð fram fyrirhuguðum markmiðum þessara aðgerða. Bandalaginu ber því skylda til að bregðast við.
9)          Þriðja málsgrein 5. gr. í sáttmálanum leggur þær kvaðir á Bandalagið að ganga ekki lengra en nauðsynlegt er til að ná fram markmiðum sáttmálans. Í samræmi við þá grein verður að taka tillit til sérstakra einkenna innlendrar löggjafar að því marki sem unnt er með því að eftirláta aðildarríkjunum valið á milli mismunandi möguleika sem hafa samsvarandi áhrif. Dómstólar og yfirvöld á sviði stjórnsýslu, sem eru til þess bær að taka ákvörðun um þá málsmeðferð sem vísað er til í þessari tilskipun, skulu hafa rétt til að rannsaka áhrif fyrri ákvarðana.
10)          Einn þessara möguleika skal felast í því að krefjast þess að einn eða fleiri óháðir opinberir aðilar, sem eru sérstaklega ábyrgir fyrir því að gæta sameiginlegra hagsmuna neytenda, framfylgi réttinum til lögsóknar sem greint er frá í þessari tilskipun. Annar möguleiki skal felast í því að veita samtökum, sem gæta sameiginlegra hagsmuna neytenda, þennan rétt í samræmi við skilyrði sem mælt er fyrir um í landslögum.
11)          Aðildarríkin skulu geta valið á milli þessara möguleika eða notað þá báða við tilnefningu innlendra stofnana og/eða samtaka sem eru viðurkennd að því er þessa tilskipun varðar.
12)          Við brot innan Bandalagsins skal meginreglan um gagnkvæma viðurkenningu gilda um þessar stofnanir og/eða samtök. Aðildarríkin skulu, að beiðni innlendu stofnananna/samtakanna, tilkynna framkvæmdastjórninni nöfn og markmið þeirra stofnana/samtaka sem eru til þess bær að hefja lögsókn í eigin landi í samræmi við ákvæði þessarar tilskipunar.
13)          Það er framkvæmdastjórnarinnar að tryggja að birt verði skrá yfir þessar viðurkenndu stofnanir/samtök í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Þar til tilkynning hefur verið birt um annað er gert ráð fyrir að viðurkennd stofnun/samtök hafi rétthæfi ef nafn þeirra er í þeirri skrá.
14)          Aðildarríki skulu geta farið þess á leit að málsaðili, sem hyggst hefja málsókn vegna brota, geti haft fyrirframsamráð við stefnda til að gefa honum tækifæri til að binda enda á brotið sem um er deilt. Aðildarríki skulu geta farið þess á leit að fyrirframsamráðið eigi sér stað sameiginlega með óháðri opinberri stofnun sem þau tilnefna.
15)          Ef aðildarríkin hafa ákveðið slíkt fyrirframsamráð skal veita tveggja vikna frest eftir að beiðni um samráð berst en sé ekki bundinn endir á hið brotlega athæfi getur stefnandi hafið málsókn á vettvangi dómstóls eða yfirvalds á sviði stjórnsýslu án frekari tafa.
16)          Rétt er að framkvæmdastjórnin leggi fram skýrslu um beitingu þessarar tilskipunar, einkum um gildissvið hennar og fyrirframsamráð.
17)          Beiting þessarar tilskipunar skal ekki hafa áhrif á beitingu samkeppnisreglna Bandalagsins.
18)          Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á skuldbindingar aðildarríkjanna að því er varðar fresti til lögleiðingar og beitingar tilskipananna sem eru tilgreindar í B-hluta II. viðauka.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Gildissvið

1.     Tilgangurinn með þessari tilskipun er að samræma lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna er varða lögbannsaðgerðir sem um getur í 2. gr. og miða að verndun sameiginlegra hagsmuna þeirra neytenda sem fjallað er um í þeim tilskipunum sem skráðar eru í I. viðauka, með það fyrir augum að tryggja snurðulausa starfsemi innri markaðarins.
2.     Í þessari tilskipun merkir brot hvers konar verknað sem brýtur gegn þeim tilskipunum, sem taldar eru upp í viðaukanum eins og þær eru teknar upp í landsrétt aðildarríkjanna, og skaðar þá sameiginlegu hagsmuni sem um getur 1. mgr.

2. gr.
Lögbannsaðgerðir

1.     Aðildarríkin skulu tilnefna dómstóla og yfirvöld á sviði stjórnsýslu sem eru til þess bær að úrskurða um dómsmál, sem stofnað er til af viðurkenndum stofnunum/samtökum í skilningi 3. gr., og leita eftir:
a)    skjótum úrskurði, með einfaldaðri málsmeðferð ef það á við, þar sem krafist er stöðvunar eða banns við hvers konar broti,
b)    aðgerðum, ef það á við, s.s. birtingu ákvörðunarinnar, í heild eða að hluta, með því sniði sem sýnist fullnægjandi og/eða birtingu á tilkynningu um leiðréttingu með það fyrir augum að koma í veg fyrir áframhaldandi áhrif brotsins,
c)    að því marki sem löggjöf aðildarríkisins leyfir, úrskurði um sektargreiðslu stefnda, ef hann tapar málinu, í ríkissjóð eða til hvers þess rétthafa sem skilgreindur hefur verið í eða samkvæmt innlendri löggjöf, ef viðkomandi hlítir ekki úrskurði innan þeirra tímamarka sem sett hafa verið fyrir dómstólum eða af stjórnsýsluyfirvöldum, er nemi tilteknum dagsektum eða annarri fjárhæð sem kveðið er á um í innlendri löggjöf, með það fyrir augum að tryggja að úrskurði sé hlítt.
2.     Tilskipun þessi skal ekki hafa áhrif á reglur alþjóðlegs einkamálaréttar, með tilliti til gildandi laga, sem eru að öllu jöfnu annaðhvort lög þess aðildarríkis þar sem brotið á sér stað eða lög þess aðildarríkis þar sem brotið hefur áhrif.

3. gr.
Aðilar sem geta hafið málsókn

Í þessari tilskipun merkir „viðurkennd stofnun/samtök“ hverja þá stofnun eða samtök, sem eru stofnuð formlega í samræmi við lög aðildarríkisins og hafa lögmætra hagsmuna að gæta við að tryggja að þeim ákvæðum, sem vísað er til í 1. gr., sé fylgt, einkum þegar um er að ræða:
a)    eina eða fleiri óháðar opinberar stofnanir, sérstaklega ábyrgar fyrir því að verja þá hagsmuni, sem um getur í 1. gr., í þeim aðildarríkjum þar sem slíkar stofnanir eru til og/eða
b)    samtök sem hafa þann tilgang að verja þá hagsmuni, sem um getur í 1. gr., í samræmi við þær viðmiðanir sem mælt er fyrir um í landslögum.

4. gr.
Brot innan Bandalagsins

1.     Hvert aðildarríki skal, ef brot á sér stað í því aðildarríki, gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að tryggja að hver viðurkennd stofnun eða samtök frá öðru aðildarríki, þar sem brotið hefur áhrif á hagsmuni sem stofnunin eða samtökin eiga að verja, geti vísað málinu til dómstóls eða stjórnsýsluyfirvalds, sem um getur í 2. gr., með því að framvísa skránni sem kveðið er á um í 3. mgr. þessarar greinar. Dómstólar eða stjórnvöld skulu viðurkenna skrána sem sönnun á rétthæfi stofnunarinnar eða samtakanna án þess að það hafi áhrif á rétt þeirra til að rannsaka hvort tilgangur viðurkenndu stofnunarinnar/samtakanna réttlæti að þau grípi til aðgerða í tilteknu tilviki.
2.     Varðandi brot innan Bandalagsins, og án þess að það hafi áhrif á réttindi annarra aðila samkvæmt landslögum, skulu aðildarríkin, að beiðni viðurkenndrar stofnunar/samtaka, tilkynna framkvæmdastjórninni að þessi stofnun/samtök séu viðurkennd til að hefja málsókn skv. 2. gr. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni nöfn og markmið þessarar viðurkenndu stofnunar/samtaka.
3.     Framkvæmdastjórnin skal semja skrá yfir viðurkenndar stofnanir/samtök, sem um getur í 2. mgr., ásamt lýsingu á markmiðum þeirra. Birta skal skrána í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins; breytingar skal birta án tafar og uppfærða skrána á sex mánaða fresti.

5. gr.
Fyrirframsamráð

1.     Aðildarríki geta samþykkt eða haldið í gildi ákvæðum um að sá aðili, sem hyggst krefjast lögbanns, geti því aðeins hafið það ferli að hann hafi áður reynt að stöðva hið brotlega athæfi með samráði, annaðhvort við stefnda eða bæði stefnda og viðurkennda stofnun/samtök í skilningi 3. gr. a, í því aðildarríki þar sem leitað er eftir lögbanni. Það er aðildarríkisins að ákveða hvort sá málsaðili, sem krefst lögbannsins, verði að hafa samráð við viðurkennda stofnun/samtök. Ef ekki tekst að stöðva hið brotlega athæfi innan tveggja vikna frá því að beiðni um samráð berst getur viðkomandi málsaðili hafið lögbannsaðgerðir.
2.     Þær reglur sem gilda um fyrirframsamráð ber að tilkynna til framkvæmdastjórnarinnar og skal birta þær í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

6. gr.
Skýrslur

1.     Á þriggja ára fresti, og í fyrsta sinn eigi síðar en 2. júlí 2003, skal framkvæmdastjórnin leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið um beitingu þessarar tilskipunar.
2.     Í fyrstu skýrslu sinni skal framkvæmdastjórnin einkum rannsaka:
a)    gildissvið þessarar tilskipunar með tilliti til verndunar á sameiginlegum hagsmunum einstaklinga sem stunda verslunar-, iðnaðar-, listiðnaðar- eða atvinnustarfsemi,
b)    gildissvið þessarar tilskipunar eins og það er ákvarðað í þeim tilskipunum sem skráðar eru í I. viðauka,
c)    hvort fyrirframsamráðið, sem kveðið er á um í 5. gr., hafi stuðlað að skilvirkri verndun neytenda.
Þessari skýrslu skulu fylgja tillögur með það í huga að breyta þessari tilskipun, eftir því sem við á.

7. gr.
Ákvæði um frekari aðgerðir

Þessi tilskipun skal ekki hindra aðildarríkin í að setja eða halda í gildi ákvæðum sem veita viðurkenndum stofnunum/samtökum og hverjum þeim öðrum sem málið varðar víðtækari réttindi til að hefja málsókn innanlands.

8. gr.
Framkvæmd

Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja á því sviði sem þessi tilskipun tekur til.

9. gr.
Niðurfelling

Tilskipun 98/27/EB, eins og henni var breytt með tilskipunum sem eru tilgreindar í A-hluta II. viðauka, er felld úr gildi með fyrirvara um skuldbindingar aðildarríkjanna að því er varðar þá fresti til lögleiðingar og beitingar tilskipananna sem eru tilgreindar í B-hluta II. viðauka.
Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu tilskipunina sem tilvísanir í þessa tilskipun og skulu þær lesnar með hliðsjón af samsvörunartöflunni í III. viðauka.

10. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi 29. desember 2009.

11. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Strassborg 23. apríl 2009.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. PÖTTERING P. NECAS
forseti. forseti.


I. VIÐAUKI
SKRÁ YFIR TILSKIPANIR SEM UM GETUR Í 1. GR. ( 1 )

1.    Tilskipun ráðsins 85/577/EBE frá 20. desember 1985 um að vernda neytendur þegar samningar eru gerðir utan fastra starfsstöðva (Stjtíð. EB L 372, 31.12.1985, bls. 31).
2.    Tilskipun ráðsins 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán (Stjtíð. EB L 42, 12.2.1987, bls. 48) ( 2 ).
3.    Tilskipun ráðsins 89/552/EBE frá 3. október 1989 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur: 10.–21. gr. (Stjtíð. EB L 298, 17.10.1989, bls. 23).
4.    Tilskipun ráðsins 90/314/EBE frá 13. júní 1990 um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðapakka (Stjtíð. EB L 158, 23.6.1990, bls. 59).
5.    Tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum (Stjtíð. EB L 95, 21.4.1993, bls. 29).
6.    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997 um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga (Stjtíð. EB L 144, 4.6.1997, bls. 19).
7.    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/44/EB frá 25. maí 1999 um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi (Stjtíð. EB L 171, 7.7.1999, bls. 12).
8.    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum (tilskipun um rafræn viðskipti) (Stjtíð. EB L 178, 17.7.2000, bls. 1).
9.    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/83/EB frá 6. nóvember 2001 um Bandalagsreglur um lyf sem ætluð eru mönnum: 86.–100. gr. (Stjtíð. EB L 311, 28.11.2001, bls. 67).
10.    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september 2002 varðandi fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur (Stjtíð. EB L 271, 9.10.2002, bls. 16).
11.    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/EB frá 11. maí 2005 um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum (Stjtíð. ESB L 149, 11.6.2005, bls. 22).
12.    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006 um þjónustu á innri markaðnum (Stjtíð. ESB L 376, 27.12.2006, bls. 36).
13.    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/122/EB frá 14. janúar 2009 um neytendavernd að því er varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, langtímasamninga um orlofstilboð, endursölu- og skiptasamninga (Stjtíð. ESB L 33, 3.2.2009, bls. 10).

II. VIÐAUKI
A-HLUTI
Niðurfelld tilskipun með áorðnum breytingum
(sem um getur í 9. gr.)

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/27/EB (Stjtíð. EB L 166, 11.6. 1998, bls. 51).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/44/EB (Stjtíð. EB L 171, 7.7. 1999, bls. 12). Eingöngu 10. gr.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB (Stjtíð. EB L 178, 17.7. 2000, bls. 1). Eingöngu 2. mgr. 18. gr.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB (Stjtíð. EB L 271, 9.10. 2002, bls. 16). Eingöngu 19. gr.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/EB (Stjtíð. ESB L 149, 11.6. 2005, bls. 22). Eingöngu 1. mgr. 16. gr.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB (Stjtíð. ESB L 376, 27.12. 2006, bls. 36). Eingöngu 42. gr.

B-HLUTI
Skrá yfir fresti til lögleiðingar og beitingar
(sem um getur í 9. gr.)

Tilskipun Frestur til lögleiðingar Gildistökudagur
98/27/EB 1. janúar 2001
1999/44/EB 1. janúar 2002
2000/31/EB 16. janúar 2002
2002/65/EB 9. október 2004
2005/29/EB 12. júní 2007 12. desember 2007
2006/123/EB 28. desember 2009

III. VIÐAUKI
SAMSVÖRUNARTAFLA

Tilskipun 98/27/EB Þessi tilskipun
1.–5. gr. 1.–5. gr.
1. mgr. 6. gr. 1. mgr. 6. gr.
Fyrsti undirliður fyrstu undirgreinar 2. mgr. 6. gr. a-liður fyrstu undirgreinar 2. mgr. 6. gr.
Annar undirliður fyrstu undirgreinar 2. mgr. 6. gr. b-liður fyrstu undirgreinar 2. mgr. 6. gr.
Þriðji undirliður fyrstu undirgreinar 2. mgr. 6. gr. c-liður fyrstu undirgreinar 2. mgr. 6. gr.
Önnur undirgrein 2. mgr. 6. gr. Önnur undirgrein 2. mgr. 6. gr.
7. gr. 7. gr.
1. mgr. 8. gr.
2. mgr. 8. gr. 8. gr.
9. gr.
9. gr. 10. gr.
10. gr. 11. gr.
Viðauki I. viðauki
II. viðauki
III. viðauki
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 277, 22.10.2009, bls. 38, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 56, 22.10.2009, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 110, 1.5.2009, bls. 30.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 166, 11.6.1998, bls. 51.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Engin stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. ESB L 161, 13.7 2007, bls. 39.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 19. júní 2007 (Stjtíð. ESB C 146 E, 12.6.2008, bls. 73) og ákvörðun ráðsins frá 23. mars 2009.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Stjtíð. EB L 166, 11.6. 1998, bls. 51.
Neðanmálsgrein: 8
(4)    Sjá A-hluta II. viðauka.
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Í þeim tilskipunum, sem um getur í 5., 6., 9. og 11. lið, eru sértæk ákvæði um lögbann.
Neðanmálsgrein: 10
(2)    Umrædd tilskipun var felld úr gildi frá og með 12. maí 2010 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB frá 23. apríl 2008 um lánssamninga fyrir neytendur (Stjtíð. ESB L 133, 22.5.2008, bls. 66) kom í hennar stað.