Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 723. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1824  —  723. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hermann Örn Ingólfsson, Auðun Atlason og Þórð Bjarna Guðjónsson frá utanríkisráðuneyti. Umsagnir bárust nefndinni frá Landhelgisgæslu Íslands, Nexus – Rannsóknarvettvangi og ríkislögreglustjóra.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi feli utanríkisráðherra að skipa nefnd tíu þingmanna til að móta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Ráðherra leiti tilnefningar tveggja þingmanna frá þingflokkum sérhvers eftirtalinna stjórnmálaflokka, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Framsóknarflokks, auk eins frá Hreyfingunni. Ráðherra skipi formann án tilnefningar. Tillagan kveður á um hlutverk nefndarinnar sem verði að fjalla um og gera tillögur um stefnu sem tryggi þjóðaröryggi Íslands á grundvelli herleysis. Við mótun stefnunnar taki nefndin mið af áhættumatsskýrslu fyrir Ísland frá árinu 2009, stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Nefndin skilgreini meginforsendur stefnunnar og setji fram tillögur um markmið og leiðir til að ná þeim. Hún skili tillögu til utanríkisráðherra svo fljótt sem verða má og eigi síðar en í júní 2012. Ráðherra leggi að því búnu tillögu að þjóðaröryggisstefnu Íslands fyrir Alþingi.
    Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að með breyttu öryggisumhverfi hafi öryggisþarfir breyst frá því að íslensk stjórnvöld tóku upphaflega ákvörðun um þátttöku í vestrænu varnarsamstarfi. Í meginatriðum er um að ræða sex þætti: i) Varnarsamstarfið við Bandaríkin er gjörbreytt frá því sem áður var; ii) öryggis- og varnarsamstarf á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hefur verið í örri þróun undanfarin ár; iii) grannríkjasamningar um öryggissamstarf á friðartímum hafa breikkað grundvöll íslenskra öryggismála auk þess sem öryggis- og varnarmál eru nú viðfangsefni norrænnar samvinnu; iv) öryggissamstarf Íslands og Evrópusambandsins hefur farið vaxandi; v) öryggisumhverfi Íslands hefur gjörbreyst; vi) brýn þörf hefur skapast um verndun öryggishagsmuna á hafsvæðum kringum og norður af Íslandi í kjölfar hraðrar bráðnunar ísþekju Norðurhafa.
    Meiri hlutinn telur rétt að sú nefnd sem skipuð verður vinni tillögur að þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland á grundvelli her- og vopnleysis. Lögð er til orðalagsbreyting á 1. mgr. þar sem ráðherra er falið að skipa nefndina samkvæmt tilnefningu þingflokka eins og þar er mælt fyrir um. Við mat á alþjóðlegum skuldbindingum Íslands komi til skoðunar og áréttingar 30 ára samfelld stefna íslenskra stjórnvalda um bann við staðsetningu kjarnavopna hér á landi, samþykktir Alþingis um stefnu Íslands í afvopnunarmálum og enn fremur frumvarp til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja (18. mál yfirstandandi þings) sem meiri hluti utanríkismálanefndar leggur til að vísað verði til ríkisstjórnarinnar.
    Í ljósi þess hve umhverfi öryggishugtaksins hefur breyst mikið á undanförnum árum, sbr. þá þætti sem áður hafa verið nefndir, leggur meiri hlutinn áherslu á að öryggishugtakið verði skoðað á breiðum grunni. Þannig verði við starf nefndarinnar meðal annarra atriða horft til: umhverfisvár, svo sem vegna náttúruhamfara og áhrifa loftslagsbreytinga, heilsufarslegrar vár, svo sem vegna farsótta, öryggis mengunarvarna, fæðuöryggis, siglingaöryggis, netöryggis, fjarskiptaöryggis, þeirrar vár sem stafar af alþjóðlegri glæpastarfsemi o.s.frv.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingu sem gerð er grein fyrir hér að framan og lögð er til í sérstöku þingskjali.
    Helgi Hjörvar var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. ágúst 2011.Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Birgitta Jónsdóttir.Björgvin G. Sigurðsson.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


Valgerður Bjarnadóttir.