Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 723. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1825  —  723. mál.
Breytingartillagavið till. til þál. um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar (ÁÞS, ÁI, BirgJ, BjörgvS, SDG, VBj).    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að skipa nefnd tíu þingmanna til að vinna tillögur að þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Nefndin verði skipuð tveimur þingmönnum tilnefndum frá þingflokkum sérhvers eftirtalinna stjórnmálaflokka: Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Framsóknarflokks, auk eins tilnefnds af Hreyfingunni. Ráðherra skipi formann án tilnefningar.
    Hlutverk nefndarinnar verði að fjalla um og gera tillögur um stefnu sem tryggi þjóðaröryggi Íslands á grundvelli her- og vopnleysis. Við mótun stefnunnar taki nefndin mið af áhættumatsskýrslu fyrir Ísland frá árinu 2009, stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, m.a. um bann við kjarnorkuvopnum, samþykktum Alþingis um stefnu Íslands í afvopnunarmálum og frumvarpi til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja (sbr. 18. mál 139. þings). Nefndin skilgreini meginforsendur stefnunnar og setji fram tillögur um markmið og leiðir til að ná þeim.
    Nefnd þingmanna um mótun þjóðaröryggisstefnu skili tillögu til utanríkisráðherra svo fljótt sem verða má og eigi síðar en í júní 2012. Ráðherra leggi að því búnu tillögu að þjóðaröryggisstefnu Íslands fyrir Alþingi.