Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 348. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 652  —  348. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um mótmæli gegn ofsóknum gegn samkynhneigðum í Úganda.


Flm.: Össur Skarphéðinsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Árni Þór Sigurðsson,
Silja Dögg Gunnarsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Óttarr Proppé.


    Alþingi fordæmir harðlega nýlega samþykkt þingsins í Úganda og staðfestingu forseta landsins á lögum sem heimila ofsóknir gegn samkynhneigðum.
    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að setja fram hörð mótmæli íslenskra stjórnvalda gagnvart stjórnvöldum í Úganda vegna þeirra mannréttindabrota sem í löggjöfinni felast, og jafnframt að hagræða þróunaraðstoð við Úganda með það fyrir augum að stórauka fjárframlög til samtaka samkynhneigðra í landinu án þess að draga úr heildarframlögum til landsins að sinni.
    Jafnframt felur Alþingi utanríkisráðherra að kynna afstöðu þingsins þeim ríkjum sem eiga í þróunarsamvinnu við Úganda, einkum Norðurlöndunum, og leita samstöðu um að fleiri ríki hagi viðbrögðum sínum með sama hætti.
    

Greinargerð.

    Þing Úganda hefur samþykkt lög sem banna samkynhneigð og heimila að varpa samkynhneigðum í lífstíðarfangelsi. Þrýstingur ríkja, eins og Íslands, sem eiga í þróunarsamvinnu við Úganda hefur hingað til komið í veg fyrir að forseti landsins, Yoweri Kaguta Museveni, staðfesti lögin. Hann hefur eigi að síður gefið neikvæðar yfirlýsingar um samkynhneigða, sagt þá sjúkt fólk og að þá megi „lækna“ með öðrum aðferðum. Nú hafa þau tíðindi borist að forsetinn hefur staðfest löggjöfina. Hún, og yfirlýsingar forseta Úganda, hafa ýtt undir ofsóknir gegn samkynhneigðum.
    Ofbeldi á hendur samkynhneigðu fólki hefur náð nýjum hæðum í landinu á síðustu árum, eftir að barátta gegn þeim hófst á vettvangi þingsins. Dagblöð hafa birt myndir af samkynhneigðu fólki og hvatt til ofsókna á hendur því.
    Lögin banna m.a. að talað sé um samkynhneigð öðruvísi en fordæma hana, og sú skylda er jafnframt lögð á borgara að upplýsa um samkynhneigt fólk. Lögin, sem flutt voru sem þingmannafrumvarp, en ekki af stjórninni sjálfri, voru afgreidd með hraði gegnum úgandska þingið fyrir síðustu jól. Þau bætast við ríkjandi lög sem banna ástir karlmanna og nýju lögin ná einnig til lesbía. Hart er tekið á þeim sem taka svari samkynhneigðra. Einn af biskupum landsins, Christopher Senyonjo, var þannig sviptur kjóli, kalli og eftirlaunum fyrir að berjast gegn ofsóknum á hendur þeim.
    Ísland á í formlegu þróunarsamstarfi við Úganda og veitir þangað háar fjárhæðir árlega í þróunarmál. Ísland hefur átt í samstarfi við svipað þenkjandi þjóðir sem einnig eiga í þróunarsamvinnu við Úganda. Þessi ríki eiga reglulega fundi með fulltrúum sínum í landinu til að fylgjast með aðgerðum stjórnvalda gegn samkynhneigðum. Þau hafa margsinnis mótmælt sameiginlega þegar stjórnvöld hafa gert sig líkleg til að herða róðurinn gegn samkynhneigðum þar í landi.
    Fyrri ríkisstjórn gerði baráttu fyrir réttindum samkynhneigðra á alþjóðlega vísu að forgangsmáli í alþjóðlegri mannréttindabaráttu. Sú afstaða er enn óbreytt af hálfu Íslands. Þó vissulega komi til greina að grípa til þess að segja formlega upp samningum um þróunarsamvinnu við Úganda er á þessu stigi ekki talið rétt að grípa til þess að Ísland dragi sig út úr þróunarsamvinnu við landið. Það kann þó að reynast nauðsynlegt að tjá mótmæli Íslands með formlegum slitum á þróunarsamvinnu ef stjórnvöld láta ekki af ofsóknum sínum gegn samkynhneigðum.