Ferill 451. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 686  —  451. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um fullgildingu samnings hafnríkja um aðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar.

(Lögð fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning hafnríkja um aðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar sem undirritaður var í Róm 22. nóvember 2009.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi hafnríkja um aðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar (hér á eftir nefndur „samningurinn um hafnríkisaðgerðir“ eða „samningurinn“) sem undirritaður var í Róm 22. nóvember 2009. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Samningurinn um hafnríkisaðgerðir var undirritaður af fulltrúa Íslands, ásamt fulltrúum átta annarra þjóðríkja og Evrópusambandsins, 22. nóvember 2009. Tillaga um gerð samningsins kom fram á ríkjaráðstefnu um endurskoðun úthafsveiðisamningsins sem haldin var í New York 22.–26. maí 2006. Þá um haustið beindi allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York því til FAO að hefja viðræðurnar, sem hófust síðan árið 2007. Sem stendur hafa 11 ríki fullgilt samninginn, en 25 ríki þurfa að fullgilda hann svo að hann öðlist gildi. Meðal ríkja, eða ríkjasambanda, sem hafa fullgilt hann eru Evrópusambandið, Nýja-Sjáland og Noregur.
    Samningurinn um hafnríkisaðgerðir er fyrsti bindandi alþjóðasamningur á sviði fiskveiða síðan úthafsveiðsamningurinn var gerður árið 1995 (samningur um framkvæmd ákvæða hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982 um verndun deilistofna og víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim, sjá Stjórnartíðindi C-deild, nr. 8/1997). Samningurinn er nátengdur efni úthafsveiðisamningsins, en í 23. gr. þess samnings er ríkjum játuð heimild og lögð á þau skylda til að beita hafnríkisreglum í lögsögu sinni til að stuðla að virkni alþjóðlegrar verndunar og stjórnunarráðstafana.
    Við gerð samningsins var tekið mið af og litið til óbindandi leiðbeininga FAO um hafnríkisaðgerðir, sem voru helsta fyrirmynd hafnríkisreglna NEAFC (Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar) og NAFO (Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar) sem Ísland, ásamt öðrum strandríkjum við Norður-Atlantshaf, hefur innleitt, sbr. lög nr. 22/2007, um breytingu á lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Ísland hefur verið í fararbroddi ábyrgra strandríkja, ásamt öðrum þjóðum við Norður-Atlantshaf. Hér á landi er löng reynsla af beitingu hafnríkisaðgerða í því skyni að torvelda ólöglegar veiðar.
    Í samningnum er mælt fyrir um skyldu ríkja til að beita ólíkum stjórntækjum í því skyni að ýta undir ábyrgar fiskveiðar, svo sem með lokun hafna gagnvart skipum sem eru „svartlistuð“ af svæðisbundnum fiskveiðistjórnarstofnunum, málsmeðferð til að knýja fánaríki til ábyrgðar í erlendum höfnum, setningu tiltekinna lágmarkskrafna um upplýsingamiðlun, eftirlitsaðgerðir, fyrirbyggjandi ráðstafanir, stuðning við þróunarríki og samvinnu. Samningurinn gildir um fiskveiðar, meðferð eða vinnslu afla og tengda starfsemi. Það er meginregla samningsins að upplýsingar um fiskiskip og afla skuli berast hafnríki áður en skip fánaríkis fær aðgang að höfn. Upplýsingarnar nýtast síðan hafnríki til að ganga úr skugga hvort hlutaðeigandi fiskiskip hafi tekið þátt í ólögmætum veiðum. Með fiski í þessu sambandi er átt við fisk, eða fiskafurðir, sem ekki hefur áður verið landað. Hér á eftir er yfirlit um einstaka hluta samningsins:
    Í aðfaraorðum samningsins er m.a. gerð grein fyrir aðdraganda að gerð samningsins og þeim aðstæðum sem við er að glíma við að tryggja ábyrga fiskveiðistjórn.
    Í 1. gr. eru skilgreind helstu hugtök sem notuð eru í samningnum.
    Í 2.–5. gr. samningsins er mælt fyrir um að markmið hans sé að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar (ólögmætar veiðar). Aðilar að samningnum eru hlutaðeigandi hafnríki en samningurinn gildir gagnvart skipum sem ekki sigla undir fána hafnríkisins, að því undanskildu að hann gildir ekki m.a. gagnvart „gámaskipum“ sem flytja fisk sem hefur verið landað annars staðar.
    Samkvæmt 6. gr. samningsins skal vera fyrir hendi virk miðlun upplýsinga milli ríkja og FAO í því skyni að framkvæma samninginn. Með því að samningurinn hefur ekki verið fullgiltur af nægilegum fjölda ríkja til að hann öðlist gildi hefur þetta ákvæði ekki haft mikla þýðingu, en athuga skal að FAO hefur verið bæði fánaríkjum og hafnríkjum til ráðuneytis um framkvæmd ákvæða samningsins í þeim tilvikum að ríki hafa fullgilt hann og tekist á hendur þær skuldbindingar sem í honum felast. Hér má t.d. benda á þær breytingar sem Evrópusambandið gerði á hafnríkisreglum í aðildarríkjum sínum, sbr. II. kafla reglugerðar ráðsins nr. 1005/2008 „establishing a Community system to prevent, deter and eliminate illegal, unreported and unregulated fishing […]“.
    Samkvæmt 7.–9. gr. er ríkjum skylt að tilnefna tilteknar hafnir sem heimilt er að taka við erlendum skipum til löndunar á afla. Erlendum skipum er skylt að óska með tilteknum fyrirvara um aðgang að hlutaðeigandi höfn ásamt því að láta í té upplýsingar um skipið og veiðar þess sem nauðsynlegar eru til framkvæmdar hafnríkiseftirlits. Hafnríki er heimilt að synja um aðgang að höfn telji það sýnt að afli hafi verið veiddur með ólögmætum hætti. Með því er skipi neitað um þjónustu.
    Í 10. gr. er mælt fyrir um takmarkaða heimild skipa til að koma til hafnar vegna neyðaraðstæðna til samræmis við hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Í 11. gr. er kveðið á um að komi skip til hafnar skuli hafnríki synja um heimild til löndunar á afla og aðgangs að þjónustu uns sýnt er fram á með fullnægjandi hætti, eins og ítarlega er lýst í greininni, að skipið hafi ekki stundað ólögmætar veiðar. Ef fánaríki getur ekki staðfest að veiðar hafi verið ábyrgar og í samræmi við heimildir, eða ef hafnríki telur ella fullnægjandi líkindi til að aðgerðir séu nauðsynlegar til verndar lifandi auðlindum hafsins, skal synja um þjónustu.
    Í 12.–19. gr. er mælt fyrir um hvernig standa skuli að eftirlitsaðgerðum og miðlun upplýsinga um þær þegar skip koma til hafnar.
    Í 20. gr. er mælt fyrir um skyldur fánaríkja til að vinna með hafnríkjum við framkvæmd eftirlitsaðgerða og eftir atvikum eiga frumkvæði að þeim ef grunsemdir vakna um ólögmætar veiðar skipa sem sigla undir fána þeirra.
    Í 21. gr. eru settar sérreglur um stuðning við þróunarríki.
    Í 22. gr. er fjallað um lausn ágreiningsmála.
    Samhliða framlagningu þingsályktunartillögu þessarar leggur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum (hafnríkisaðgerðir), en með frumvarpinu eru gerðar nauðsynlegar lagabreytingar svo að Ísland geti fullgilt samninginn.
Fylgiskjal.


SAMNINGUR HAFNRÍKJA UM AÐGERÐIR TIL AÐ FYRIRBYGGJA, HINDRA OG UPPRÆTA ÓLÖGLEGAR, ÓTILKYNNTAR OG EFTIRLITSLAUSAR VEIÐAR

FORMÁLSORÐ


Aðilar samnings þessa,

hafa miklar áhyggjur af áframhaldi á ólöglegum, ótilkynntum og eftirlitslausum veiðum og skaðlegum áhrifum þeirra á fiskistofna, vistkerfi sjávar og lífsviðurværi fiskimanna, sem stunda lögmætar veiðar, og vaxandi þörf fyrir fæðuöryggi í heiminum,

gera sér ljóst að það er hlutverk hafnríkja að samþykkja virkar aðgerðir til að stuðla að sjálfbærri nýtingu og varðveislu lifandi sjávarauðlinda til langs tíma,

viðurkenna að aðgerðir til að sporna gegn ólöglegum, ótilkynntum og eftirlitslausum veiðum ættu að byggja á meginábyrgð fánaríkja og gilda í öllum lögsagnarumdæmum skv. alþjóðalögum, þ.á m. hafnríkisaðgerðir, strandríkisaðgerðir, markaðstengdar aðgerðir og aðgerðir sem tryggja að innlendir aðilar styðji hvorki né stundi ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar,

viðurkenna að hafnríkisaðgerðir eru öflug og hagkvæm tæki til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar,


hafa skilning á þörfinni fyrir aukinni samræmingu innan svæða og milli svæða til að sporna gegn ólöglegum, ótilkynntum og eftirlitslausum veiðum með hafnríkisaðgerðum,

hafa hugfasta öra þróun samskiptatækni, gagnagrunna, netkerfa og alþjóðlegra skráninga sem styðja við hafnríkisaðgerðir,

gera sér ljósa þörf þróunarríkja fyrir aðstoð við upptöku og framkvæmd hafnríkisaðgerða,


taka mið af ákalli alþjóðasamfélagsins í stofnunum Sameinuðu þjóðanna, þ.á m. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, fiskimálanefnd Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, hér eftir nefnd „FAO“, eftir bindandi alþjóðlegum samningi um lágmarksstaðla varðandi hafnríkisaðgerðir, sem byggja á alþjóðlegri aðgerðaáætlun FAO frá 2001 um að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar og fyrirmynd FAO að kerfi um aðgerðir hafnríkja til að sporna gegn ólöglegum, ótilkynntum og eftirlitslausum veiðum,


hafa í huga að í krafti fullveldisréttar yfir höfnum á yfirráðasvæði sínu geta ríki gripið til hertra aðgerða í samræmi við alþjóðalög,


minna á gildandi ákvæði hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982, hér eftir nefndur „hafréttarsamningurinn“,


minna á samninginn um framkvæmd ákvæða hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982 um verndun deilistofna og víðförulla fiskistofna og stjórnun veiða úr þeim frá 4. desember 1995, samninginn um að stuðla að því að fiskiskip á úthöfum fylgi alþjóðlegum ráðstöfunum um verndun og stjórnun frá 24. nóvember 1993 og siðareglur FAO um ábyrgar veiðar frá 1995,



gera sér ljósa þörfina á því að koma á alþjóðlegum samningi innan ramma FAO, samkvæmt XIV. gr. stofnskrár FAO,

og hafa orðið ásáttir um eftirfarandi:

1. Hluti
ALMENN ÁKVÆÐI
1. gr.
Hugtök

    Í samningi þessum:
(a)      merkir „verndunar- og stjórnunarráðstafanir“ ráðstafanir til verndunar og stjórnunar á lifandi sjávarauðlindum. sem samþykktar eru og beitt er í samræmi við gildandi reglur alþjóðalaga, þ.á m. þær sem felast í hafréttarsamningnum;

(b)      merkir „fiskur“ allar tegundir lifandi sjávarauðlinda, hvort sem þær eru nýttar eða ekki;
(c)      merkja „fiskveiðar“ að leita að, laða að, finna, veiða, taka eða nýta fisk og allar athafnir sem ætla má að feli í sér að laða að, finna, veiða, taka eða nýta fisk;

(d)      merkir „fiskveiðitengd starfsemi“ allan rekstur til stuðnings eða undirbúnings fiskveiða, þ.á m. löndun, pökkun, vinnslu, umskipun eða flutning á fiski, sem ekki hefur áður verið landað í höfn, sem og útvegun starfsliðs, eldsneytis, búnaðar og annarra aðfanga á sjó;

(e)      vísa „ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar fiskveiðar“ til þess athæfis sem tiltekið er í 3. mgr. alþjóðlegu aðgerðaáætlunar FAO frá 2001 til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar, hér eftir nefndar „veiðar utan laga“ (e. IUU fishing);
(f)      merkir „samningsaðili“ ríki eða svæðisbundin samtök um efnahagslegan samruna sem hafa samþykkt að lúta samningi þessum og sem samningurinn gildir um;
(g)      „höfn“ tekur einnig til afgreiðslustöðva á hafi úti og önnur mannvirki til löndunar, umskipunar, pökkunar, vinnslu, eldsneytistöku eða endurnýjunar á birgðum;
(h)      merkja „svæðisbundin samtök um efnahagslegan samruna“ svæðisbundin samtök um efnahagslegan samruna sem aðildarríki hafa fært valdheimildir til í málum sem samningur þessi tekur til, þ.m.t. heimildir til að taka ákvarðanir sem eru bindandi fyrir aðildarríki þeirra að því er varðar þau mál;
(i)      merkir „svæðisbundin veiðistjórnarstofnun“ fjölþjóðlega stofnun eða fyrirkomulag, eftir því sem á við, sem hefur heimild til að ákvarða verndunar- og stjórnunarráðstafanir; og

(j)      merkir „skip“ hvers kyns sjófar eða bát sem er notað, útbúið eða ætlað til fiskveiða eða fiskveiðitengdrar starfsemi.


2. gr.
Markmið

    Markmið samnings þessa er að fyrirbyggja, hindra og uppræta veiðar utan laga með því að innleiða virkar aðgerðir af hálfu strandríkja og tryggja þannig verndun og sjálfbæra nýtingu lifandi sjávarauðlinda og sjávarvistkerfa til langs tíma.


3. gr.
Beiting

1.     Hver samningsaðili skal, sem hafnríki, beita ákvæðum samnings þessa gagnvart skipum sem ekki hafa heimild til að sigla undir fána þess og sækjast eftir að komast í hafnir hans eða eru stödd í einum af höfnum hans, að undanskildum:
(a)      skipum nágrannaríkis sem stunda óvélvæddar sjálfsþurftarveiðar, enda vinni hafnríkið og fánaríkið saman að því að tryggja að slík skip stundi ekki veiðar utan laga eða fiskveiðitengda starfsemi til stuðnings við slíkar veiðar; og

(b)      gámaskipum sem ekki flytja fisk eða, ef þau flytja fisk, þá aðeins fisk sem áður hefur verið landað, enda sé engin augljós ástæða til að gruna að slík skip hafi verið við fiskveiðitengda starfsemi til stuðnings við veiðar utan laga.

2.     Samningsaðila er heimilt, sem hafnríki, að ákveða að beita ekki ákvæðum samnings þessa gagnvart skipum sem ríkisborgarar hans hafa á leigu einungis til nota við fiskveiðar innan lögsögu ríkisins og gera þar út með heimild ríkisins. Slík skip skulu háð aðgerðum af hálfu samningsaðilans sem eru jafnvirkar og aðgerðir sem beitt er varðandi skip sem hafa rétt til að sigla undir fána hans.
3.     Samningur þessi skal gilda um fiskveiðar á hafsvæðum sem eru ólöglegar, ótilkynntar eða eftirlitslausar, samkvæmt skilgreiningu í e-lið 1. gr. samnings þessa, og um fiskveiðitengda starfsemi til stuðnings við slíkar veiðar.
4.     Ákvæðum samnings þessa skal beita af sanngirni, gagnsæi og án mismununar, í samræmi við alþjóðalög.
5.     Þar sem gildissvið samnings þessa er altækt og hann gildir um allar hafnir, skulu samningsaðilar hvetja alla aðra aðila til að beita aðgerðum til samræmis við ákvæði hans. Þeir sem ekki gerast að öðru leyti aðilar að samningi þessum geta lýst sig skuldbundna til að fylgja ákvæðum hans.

4. gr.
Tengsl við alþjóðalög og aðra alþjóðlega samninga

1.     Ekkert í samningi þessum skal skerða réttindi, lögsögu og skyldur samningsaðila að þjóðarétti. Sér í lagi ber ekki að skilja neitt í samningi þessum á þann veg að það hafi áhrif á:
(a)      fullveldi samningsaðila yfir innsævi, eyjahafsvæðum og landhelgi eða fullveldisrétt yfir landgrunni og efnahagslögsögu;

(b)      beitingu samningsaðila á fullveldisrétti sínum yfir höfnum á landsvæði þeirra í samræmi við alþjóðalög, þ.á m. rétt þeirra til að synja um aðgang að höfnum, sem og að beita strangari aðgerðum en þeim sem kveðið er á um í samningi þessum, þ.á m. aðgerðum sem gripið er til samkvæmt ákvörðun svæðisbundinnar veiðistjórnarstofnunar.
2.     Þótt samningsaðili beiti ákvæðum samnings þessa verður hann ekki þar með bundinn af aðgerðum eða ákvörðunum svæðisbundinnar veiðistjórnarstofnunar, sem hann er ekki aðili, né leiðir af því nein skylda til að viðurkenna hana.
3.     Samningsaðili er ekki í neinu tilviki skyldugur samkvæmt samningi þessum til að framkvæma aðgerðir eða ákvarðanir svæðisbundinnar veiðistjórnarstofnunar ef þær aðgerðir eða ákvarðanir eru ekki samþykktar skv. alþjóðalögum.
4.     Samning þennan ber að túlka og beita í samræmi við alþjóðalög og taka mið af gildandi alþjóðlegum reglum og stöðlum, þ.m.t. þeim sem settir eru fyrir tilstilli Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, sem og öðrum alþjóðlegum samningum.

5.     Samningsaðilar skulu uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningi þessum í góðri trú og beita þeim heimildum sem hér eru viðurkenndar með þeim hætti að ekki sé um að ræða misbeitingu réttar.

5. gr.
Samþætting og samræming að landsrétti

    Hver samningsaðili skal, eftir því sem honum frekast er unnt:
(a)      samþætta eða samræma fiskveiðitengdar hafnríkisaðgerðir við hið víðara kerfi hafnríkiseftirlits;
(b)      samþætta hafnríkisaðgerðir við aðrar aðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta veiðar utan laga og fiskveiðitengda starfsemi til stuðnings við slíkar veiðar, að teknu tilliti til alþjóðlegu aðgerðaáætlunar FAO frá 2001 um að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar, eftir því sem við á; og
(c)      gera ráðstafanir um upplýsingaskipti milli viðeigandi landsbundinna stofnana og samræma starfsemi þessara stofnana við framkvæmd samnings þessa.

6. gr.
Samvinna og upplýsingaskipti

1.     Til að stuðla að virkri framkvæmd samnings þessa, og að teknu eðlilegu tilliti til viðeigandi trúnaðarskyldna, skulu samningsaðilar vinna saman og skiptast á upplýsingum við ríki sem málið varðar, FAO, aðrar alþjóðlegar stofnanir og svæðisbundnar fiskveiðistjórnunarstofnanir, þ.á m. upplýsingum um aðgerðir sem samþykktar hafa verið af þessum svæðisbundnum veiðistjórnarstofnunum og tengjast markmiðum samnings þessa.
2.     Hver samningsaðili skal, eftir því sem honum frekast er unnt, gera ráðstafanir til að styðja við verndunar- og stjórnunarráðstafanir annarra ríkja og annarra viðeigandi alþjóðlegra stofnana.
3.     Samningsaðilar skulu vinna saman innan undirsvæða, innan svæða og á alþjóðlegum vettvangi að virkri framkvæmd samnings þessa, þ.á m., eftir því sem við á, með milligöngu FAO eða svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana og kerfa.

2. Hluti
AÐGANGUR AÐ HÖFN
7. gr.
Tilgreining hafna

1.     Hver samningsaðili skal tilgreina og tilkynna um hafnir sem skipum er heimilt að biðja um aðgang að samkvæmt samningi þessum. Hver samningsaðili skal afhenda skrá yfir tilgreindar hafnir til FAO, sem skal birta hana með viðeigandi hætti.
2.     Hver samningsaðili skal, eftir því sem honum er frekast unnt, tryggja að hver tilgreind tilkynnt höfn samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar sé til þess búin að sinna eftirliti samkvæmt samningi þessum.


8. gr.
Fyrirfram beiðni um aðgang að höfn

1.     Hver samningsaðili skal að lágmarki krefjast þess að upplýsingar sem beðið er um samkvæmt viðauka A séu veittar áður en aðgangsheimild skips að höfn er veitt.
2.     Hver samningsaðili skal krefjast þess að upplýsingarnar sem vísað er til í 1. mgr. þessarar greinar séu veittar með nægilega tímanlegum hætti til þess hafnríkið hafi nægan tíma til að fara yfir þær.

9. gr.
Aðgangur að höfn, heimild eða synjun

1.     Þegar samningsaðili hefur fengið þær upplýsingar sem krafist er samkvæmt 8. gr., sem og aðrar upplýsingar sem krafist er til að ákvarða hvort skipið sem biður um aðgang að höfn hans hafi verið við veiðar utan laga eða stundað fiskveiðitengda starfsemi til stuðnings við slíkar veiðar, skal hann ákveða hvort veita skuli eða synja um leyfi til aðgangs að höfn hans og tilkynna ákvörðun þar um til skipsins eða umboðsaðila þess.
2.     Í þeim tilvikum sem heimild er veitt, skal skipstjóri eða umboðsaðili skipsins framvísa heimildinni til lögbærs stjórnvalds samningsaðilans þegar skipið kemur í höfn.

3.     Í þeim tilvikum sem synjað er um aðgang, skal samningsaðili tilkynna þá ákvörðun, sem tekin er samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar, til fánaríkis skipsins og, eftir því sem við á og unnt er, til viðkomandi strandríkja, svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana og annarra alþjóðlegra stofnana.
4.     Með fyrirvara um 1. mgr. þessarar greinar, þegar samningsaðili hefur fullnægjandi sannanir um að skip sem biður um aðgang að höfn hafi stundað veiðar utan laga eða fiskveiðitengda starfsemi til stuðnings við slíkar veiðar, sér í lagi ef skipið er á skrá yfir skip sem stundað hafa slíkar veiðar eða fiskveiðitengda starfsemi hjá viðkomandi svæðisbundnum veiðistjórnarstofnunum, samkvæmt reglum og málsmeðferð slíkra stofnana og í samræmi við alþjóðalög, skal samningsaðili synja skipinu um aðgang að höfnum sínum, að teknu tilliti til 2. og 3. mgr. 4. gr.
5.     Þrátt fyrir 3. og 4. mgr. þessarar greinar, má samningsaðili heimila aðgang að höfnum sínum skipum, sem getið er í þessum málsgreinum, í þeim tilgangi einum að skoða það og grípa til viðeigandi aðgerða í samræmi við alþjóðalög sem eru í það minnsta jafn skilvirkar og synjun um aðgang að höfn til þess að fyrirbyggja, hindra og uppræta veiðar utan laga og fiskveiðitengda starfsemi til stuðnings við slíkar veiðar.
6.     Þegar skip, sem getið er um í 4. og 5. mgr. þessarar greinar, er í höfn, af hvaða ástæðu sem er, skal samningsaðili synja því um afnot af höfninni til löndunar, umskipunar, pökkunar, fiskvinnslu og til annarrar hafnarþjónustu, eldsneytistöku og birgðaendurnýjunar, viðhalds og aðgangs að þurrkví. 2. og 3. mgr. 11. gr. gilda í slíkum tilvikum að breyttu breytanda. Synjun um slík afnot af höfn skal vera í samræmi við alþjóðalög.

10. gr.
Óviðráðanleg atvik eða neyð

    Ekkert í samningi þessum hefur áhrif á aðgang skipa að höfnum samkvæmt alþjóðalögum vegna óviðráðanlegra atvika eða neyðar, eða hindrar ríki í að heimila skipi aðgang að höfn í þeim tilgangi einum að koma fólki, skipum eða loftförum í hættu eða neyð til hjálpar.


3. Hluti
AFNOT AF HÖFNUM
11. gr.
Afnot af höfnum

1.     Þegar skip er komið í höfn samningsaðila, skal hann, samkvæmt eigin lögum og reglum og í samræmi við alþjóðalög, þ.á m. þennan samning, synja viðkomandi skipi um afnot af höfninni til löndunar, umskipunar, pökkunar og vinnslu á fiski sem ekki hefur áður verið landað og um aðra hafnarþjónustu, þ.m.t. eldsneytistöku og birgðaendurnýjun, viðhald og aðgang að þurrkví, ef:
(a)      samningsaðili kemst að því að skipið hefur ekki gilda og viðeigandi heimild til að stunda fiskveiðar eða fiskveiðitengda starfsemi sem krafist er af hálfu fánaríkis þess;
(b)      samningsaðili telur að skipið hafi ekki gilda og viðeigandi heimild til að stunda veiðar eða fiskveiðitengda starfsemi samkvæmt kröfum strandríkis varðandi svæði sem heyra undir lögsögu þess ríkis;
(c)      samningsaðili fær gildar vísbendingar um að fiskurinn um borð hafi verið tekinn í andstöðu við gildandi kröfur strandríkis varðandi svæði sem heyra undir lögsögu þess ríkis;

(d)      fánaríkið staðfestir ekki innan hæfilegs frests, að beiðni hafnríkisins, að fiskurinn um borð hafi verið tekinn í samræmi við gildandi kröfur viðkomandi svæðisbundinnar veiðistjórnarstofnunar, að teknu tilliti til 2. og 3. mgr. 4. gr.; eða

(e)      samningsaðilinn hefur réttmæta ástæðu til að ætla að skipið hafi með öðrum hætti stundað veiðar utan laga eða fiskveiðitengda starfsemi til stuðnings við slíkar veiðar, þ.m.t. til stuðnings við skip sem getið er í 4. mgr. 9. gr., nema skipið geti sýnt fram á:
  (i)      að það hafi hagað sér í samræmi við viðeigandi verndunar- og stjórnunarráðstafanir; eða
  (ii)      þegar um er að ræða útvegun mannafla, eldsneytis, búnaðar og annarra aðfanga á sjó, að það skip sem var þjónustað hafi ekki á þeim tíma fallið undir 4. mgr. 9. gr.

2.     Þrátt fyrir 1. mgr. þessarar greinar skal samningsaðili ekki synja skipi sem getið er um í þeirri málsgrein um notkun á hafnarþjónustu:
(a)      sem er nauðsynleg öryggi eða heilsu áhafnarinnar eða öryggi skipsins, enda séu færðar sönnur á þeirri nauðsyn, eða
(b)      eftir því sem við á, þegar skip er tekið til úreldingar.
3.     Þegar samningsaðili hefur synjað um hafnarafnot samkvæmt þessari grein skal hann tilkynna fánaríkinu um ákvörðun sína án tafar og, eftir því sem við á, viðkomandi strandríkjum, svæðisbundnum veiðistjórnarstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum.

4.     Samningsaðili skal því aðeins draga til baka synjun um hafnarafnot skips skv. 1. mgr. þessarar greinar að nægar sannanir séu fyrir því að ástæður synjunarinnar hafi verið ófullnægjandi eða rangar eða að þær ástæður eigi ekki lengur við.
5.     Ef samningsaðili hefur dregið til baka synjun skv. 4. mgr. þessarar greinar skal hann tilkynna um það til þeirra sem tilkynningu fengu skv. 3. mgr. þessarar greinar.

4. Hluti
EFTIRLIT OG EFTIRFYLGNIAÐGERÐIR
12. gr.
Umfang eftirlits og forgangsmál

1.     Hver samningsaðili skal skoða þann fjölda skipa í höfnum sínum sem nægir til þess að árlegt umfang eftirlits dugi til þess að ná markmiðum samnings þessa.
2.     Samningsaðilar skulu leitast við að ná samkomulagi um lágmarksumfang eftirlits með skipum með milligöngu svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana, FAO eða með öðrum hætti, eftir því sem við á.
3.     Við ákvörðun á því hvaða skip skuli tekið til eftirlits skal samningsaðili setja í forgang:
(a)      skip sem hefur verið synjað um aðgang eða afnot af höfn samkvæmt samningi þessum;
(b)      óskir frá öðrum viðkomandi samningsaðilum, ríkjum eða svæðisbundnum veiðistjórnarstofnunum um að tiltekin skip skuli skoðuð, sérstaklega þegar slíkar óskir eru studdar gögnum um að skip hafi verið við veiðar utan laga eða fiskveiðitengda starfsemi til stuðnings við slíkar veiðar; og
(c)      önnur skip sem rökstuddur grunur er um að hafi stundað veiðar utan laga eða fiskveiðitengda starfsemi til stuðnings við slíkar veiðar.


13. gr.
Framkvæmd eftirlits

1.     Hver samningsaðili skal tryggja að eftirlitsmenn hans sinni að lágmarki þeim verkefnum sem sett eru fram í viðauka B.
2.     Hver samningsaðili skal, við framkvæmd eftirlits í höfnum sínum:
(a)      tryggja að eftirlit sé í höndum eftirlitsmanna með tilskilin réttindi, með sérstakri hliðsjón af 17. gr.;

(b)      tryggja, áður en eftirlit fer fram, að eftirlitsmönnum sé gert að framvísa skipstjóra skipsins viðeigandi skilríkjum sem auðkenna eftirlitsmennina sem slíka;
(c)      tryggja að eftirlitsmenn rannsaki öll rými skipsins sem máli skipta, fiskinn um borð, net og önnur veiðarfæri, búnað og hvers kyns skjöl eða skrár um borð sem máli skipta við sannprófun á því hvort farið sé að gildandi reglum um verndunar- og stjórnunarráðstafanir
(d)      krefjast þess að skipstjóri skipsins veiti eftirlitsmönnum alla nauðsynlega aðstoð og upplýsingar og framvísi viðeigandi gögnum og skjölum sem krafist er, eða staðfestum afritum þeirra;
(e)      í þeim tilvikum sem viðeigandi samkomulag er í gildi við fánaríki skipsins þar um, bjóða því ríki að taka þátt í eftirlitinu;
(f)      forðast eftir fremsta megni að tefja skipið að ástæðulausu til að lágmarka truflanir og óþægindi, þ.á m. óþarfa dvöl eftirlitsmanna um borð, og forðast aðgerðir sem hafa skaðleg áhrif á gæði fisksins um borð;

(g)      gera allt sem mögulegt er til að greiða fyrir samskiptum við skipstjóra eða yfirmenn skipsins, þ.m.t., ef hægt er og nauðsyn krefur, að túlkur sé í fylgd með eftirlitsmanni;

(h)      tryggja að eftirlit fari fram með sanngjörnum og gagnsæjum hætti og án mismununar eða áreitni gagnvart skipi; og

(i)      ekki hindra að skipstjóri hafi sambandi við yfirvöld í fánaríkinu í samræmi við alþjóðalög.


14. gr.
Niðurstöður eftirlits

    Hver samningsaðili skal að lágmarki skrá þær upplýsingar sem tilteknar eru í viðauka C í skriflegu skýrslunni um niðurstöður hverrar eftirlitsskoðunar.

15. gr.
Sending eftirlitsniðurstaðna

    Samningsaðili skal senda niðurstöður hverrar eftirlitsskoðunar til fánaríkis skipsins að skoðun lokinni og, eftir því sem við á, til:
(a)      viðkomandi samningsaðila og ríkja, þ.á m.:
  (i)      þeirra ríkja þar sem eftirlit hefur leitt í ljós vísbendingar um að skipið hafi stundað veiðar utan laga eða fiskveiðitengda starfsemi til stuðnings við slíkar veiðar á hafsvæðum sem heyra undir lögsögu þess; og

  (ii)      þess ríkis þar sem skipstjórinn er ríkisborgari;
(b)      viðkomandi svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana; og
(c)      FAO og annarra viðkomandi alþjóðlegra stofnana.

16. gr.
Rafræn upplýsingaskipti

1.     Til að greiða fyrir framkvæmd samnings þessa, skal hver samningsaðili eftir föngum koma á fót samskiptakerfi sem þar sem gert er ráð fyrir beinum rafrænum upplýsingaskiptum, að teknu tilliti til trúnaðarskyldu eftir því sem við á.
2.     Að því marki sem unnt er, og að teknu tilliti til trúnaðarskyldu eftir því sem við á, skulu samningsaðilar vinna saman að því að koma á fót upplýsingaskiptakerfi, sem æskilegt væri að yrði samræmt af FAO, í tengslum við annað fjölþjóðlegt og alþjóðlegt frumkvæði og greiða fyrir upplýsingaskiptum við gagnagrunna sem fyrir eru og samningur þessi varðar.
3.     Hver samningsaðili skal tilnefna stjórnvald sem gegna skal hlutverki tengiliðar fyrir upplýsingaskipti samkvæmt samningi þessum. Hver samningsaðili skal tilkynna um tilnefningu sína til FAO.
4.     Hver samningsaðili skal fara með upplýsingar, sem afhenda ber í gegnum kerfi sem komið hefur verið á fót samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar, í samræmi við viðauka D.
5.     FAO skal fara fram á það við viðkomandi svæðisbundnar fiskveiðistjórnunarstofnanir að þær veiti upplýsingar um aðgerðir eða ákvarðanir sem þær hafa samþykkt og innleitt og tengjast efni samnings þessa, til að fella þær, að því marki unnt er og að teknu tilliti til viðeigandi trúnaðarskyldu, inn í upplýsingaskiptakerfið sem getið er í 2. mgr. þessarar greinar.

17. gr.
Þjálfun eftirlitsmanna

    Hver samningsaðili skal tryggja að eftirlitsmenn hans fái viðeigandi þjálfun með hlíðsjón af leiðbeiningunum um þjálfun eftirlitsmanna í viðauka E. Samningsaðilar skulu leitast við að vinna saman í þessu efni.

18. gr.
Hafnríkisaðgerðir í kjölfar eftirlits

1.     Þegar gild ástæða er til að ætla að skip hafi verið við veiðar utan laga eða stundað fiskveiðitengda starfsemi til stuðnings við slíkar veiðar, skal samningsaðilinn sem stóð fyrir eftirlitinu:
(a)      tilkynna fánaríkinu án tafar og, eftir því sem við á, viðkomandi strandríkjum, svæðisbundnum veiðistjórnarstofnunum, öðrum alþjóðlegum stofnunum og ríkinu þar sem skipstjórinn er ríkisborgari, um niðurstöður sínar; og
(b)      synja skipinu um afnot af höfninni til löndunar, umskipunar, pökkunar og vinnslu á fiski, sem ekki hefur áður verið landað, og aðra hafnarþjónustu, þ.m.t. eldsneytistöku og vistun, viðhald og aðgang að þurrkví, hafi ekki þegar verið gripið til þessara aðgerða gagnvart skipinu í samræmi við samning þennan, þ.á m. 4. gr.


2.     Þrátt fyrir 1. mgr. þessarar greinar, skal samningsaðili ekki synja skipi sem vísað er til í þeirri málsgrein um hafnarþjónustu sem er nauðsynleg öryggi eða heilsu áhafnarinnar eða öryggi skipsins.
3.     Ekkert í samningi þessum kemur í veg fyrir að samningsaðili grípi til aðgerða sem eru í samræmi við alþjóðalög og koma til viðbótar við þær sem tilgreindar eru í 1. og 2. mgr. þessarar greinar, þ.m.t. aðgerða sem fánaríki skipsins hefur farið sérstaklega fram á eða samþykkt.

19. gr.
Upplýsingar um úrræði í hafnríkinu

1.     Samningsaðili skal hafa viðeigandi upplýsingar aðgengilegar almenningi og veita þær, gegn skriflegri beiðni, til eiganda, útgerðar, skipstjóra eða umboðsaðila skips varðandi hvers kyns úrræði sem fyrir hendi eru samkvæmt innlendum lögum og reglum í tengslum við hafnríkisaðgerðir, sem viðkomandi samningsaðili hefur gripið til skv. 9., 11., 13. eða 18. gr., þ.á m. upplýsingar um opinbera þjónustu eða dómstóla sem sem unnt er að leita til í þessum efnum, svo og upplýsingar um hugsanlegan bótarétt skv. innlendum lögum og reglum ef tjón eða skaði hefur hlotist af meintum ólögmætum aðgerðum samningsaðila.

2.     Samningsaðilinn skal upplýsa fánaríkið, eigandann, útgerðina, skipstjórann eða umboðsaðilann, eftir því sem við á, um niðurstöðu ef slíku úrræði er beitt. Þegar aðrir samningsaðilar, ríki eða alþjóðlegar stofnanir hafa verið upplýstar um fyrri ákvörðun skv. 9., 11., 13. eða 18. gr., skal samningsaðilinn tilkynna þeim um sérhverja breytingu á ákvörðun sinni.

5. Hluti
HLUTVERK FÁNARÍKJA
20. gr.
Hlutverk fánaríkja

1.     Hver samningsaðili skal gera skipum sem hafa rétt á að sigla undir fána hans að sýna samvinnu við hafnríkið vegna eftirlits sem haldið er uppi samkvæmt samningi þessum.
2.     Þegar samningsaðili hefur gilda ástæðu til að ætla að skip sem hefur rétt á að sigla undir fána hans hafi verið við veiðar utan laga eða stundað fiskveiðitengda starfsemi til stuðnings við slíkar veiðar og leitar eftir aðgangi að höfn annars ríkis eða er í höfn annars ríkis, skal hann, eftir því sem við á, biðja viðkomandi ríki um að skoða skipið eða grípa til annarra aðgerða samkvæmt samningi þessum.
3.     Hver samningsaðili skal hvetja skip, sem hafa rétt á að sigla undir fána hans, til að landa, umskipa, pakka og vinna fisk, og nota aðra hafnarþjónustu, í höfnum ríkja sem fara eftir samningi þessum eða haga málum símum í samræmi við hann. Samningsaðilar eru hvattir til að þróa, m.a. með milligöngu svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana og FAO, sanngjarnar og gagnsæjar málsmeðferðarreglur án mismununar, til að greina hvort ríki fari eftir samningi þessum eða hagi málum sínum i samræmi við hann.
4.     Þegar fánaríki sem er samningsaðili fær afhenta skoðunarskýrslu í kjölfar eftirlitsskoðunar af hálfu hafnríkis, sem bendir til þess að gildar ástæður séu til að ætla að skip sem hefur rétt á að sigla undir fána þess hafi verið við veiðar utan laga eða stundað fiskveiðitengda starfsemi til stuðnings við slíkar veiðar, skal það rannsaka málið án tafar og til hlítar og, ef nægar sannanir eru fyrir hendi, grípa til viðeigandi stjórnvaldsaðgerða án tafar í samræmi við lög þess og reglur.
5.     Samningsaðili skal, sem fánaríki, tilkynna öðrum samningsaðilum, viðkomandi hafnríkjum og, eftir því sem við á, öðrum viðkomandi ríkjum, svæðisbundnum veiðistjórnarstofnunum og FAO, um aðgerðir sem hann hefur gripið til gagnvart skipi sem hefur rétt á að sigla undir fána hans og hefur vegna hafnríkisaðgerða samkvæmt samningi þessum, verið staðið að veiðum utan laga eða fiskveiðitengdri starfsemi til stuðnings við slíkar veiðar.
6.     Samningsaðili skal tryggja að aðgerðir sem gripið er til gagnvart skipum sem hafa rétt á að sigla undir fána hans séu í það minnsta jafnárangursríkar til þess að fyrirbyggja, hindra og uppræta veiðar utan laga og fiskveiðitengda starfsemi til stuðnings við slíkar veiðar og þær aðgerðir gagnvart skipum sem vísað er til í 1. mgr. 3. gr.

6. Hluti
ÞARFIR ÞRÓUNARRÍKJA

21. gr.
Þarfir þróunarríkja

1.     Samningsaðilar skulu að fullu viðurkenna sérstakar þarfir samningsaðila sem eru þróunarríki varðandi framkvæmd hafnríkisaðgerða samkvæmt samningi þessum. Í því augnamiði skulu samningsaðilar, annað hvort með beinum hætti eða með milligöngu FAO, annarra sérhæfða stofnana Sameinuðu þjóðanna eða annarra viðeigandi alþjóðastofnana og aðila, þ.á m. svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana veita þróunarríkjum aðstoð til þess, m.a., að:
(a)      bæta hæfni þeirra, einkum þeirra sem skemmst eru á veg komin í þróun og þróunarlanda sem eru lítil eyríki, til að þróa lagagrunn og getu til þess að innleiða virkar hafnríkisaðgerðir;

(b)      auðvelda þátttöku þeirra í alþjóðlegum stofnunum sem standa fyrir virkri þróun og innleiðingu hafnríkisaðgerða; og

(c)      greiða fyrir tæknilegri aðstoð til að styrkja þróun og innleiðingu hafnríkisaðgerða af þeirra hálfu, í samræmi við við viðeigandi alþjóðleg kerfi.
2.     Samningsaðilar skulu taka viðeigandi tillit til sérstakra þarfa samningsaðila sem eru þróunarríki, einkum þeirra sem skemmst eru á veg komin í þróun og þróunarlanda sem eru lítil eyríki, til að tryggja að óhóflegar byrðar séu ekki lagðar á þá, með beinum eða óbeinum hætti, sem leiða af framkvæmd samnings þessa. Í þeim tilvikum þar sem sýnt er fram á að á samningsaðila sem er þróunarríki hafi verið lagðar óhóflegar byrðar, skulu samningsaðilar vinna saman að því að greiða fyrir framkvæmd viðkomandi samningsaðila sem er þróunarríki á tilteknum skyldum samkvæmt samningi þessum.
3.     Samningsaðilar skulu, annað hvort með beinum hætti eða með milligöngu FAO, meta sérstakar þarfir samningsaðila sem eru þróunarríki að því er varðar framkvæmd samnings þessa.
4.     Samningsaðilar skulu vinna saman að því að koma á fót viðeigandi fjármögnunarkerfum til að aðstoða þróunarríki við að framkvæma samning þennan. Þessi kerfi skulu m.a. beinast sérstaklega að:

(a)      þróun innlendra og alþjóðlegra hafnríkisaðgerða;
(b)      þróun og aukningu á getu, þ.á m. til vöktunar, eftirlits og gæslu, og til þjálfunar hafnarstjóra, eftirlitsmanna og löggæslumanna og löglærðra starfsmanna, á landsvísu og svæðisbundið,

(c)      vöktun, eftirliti, gæslu og regluvörslu sem varða hafnríkisaðgerðir, þ.á m. aðgangi að tækni og búnaði; og

(d)      aðstoð við samningsaðila sem eru þróunarríki vegna útgjalda sem fylgja hvers kyns málsmeðferð við lausn deilumála sem rísa vegna aðgerða sem þeir hafa gripið til samkvæmt samningi þessum.
5.     Samvinna við og á milli samningsaðila sem eru þróunarríki að því er varðar efni þessarar greinar getur m.a. falist í að veita tæknilega og fjárhagslega aðstoð í tvíhliða, marghliða og svæðisbundnu samstarfi, einnig á milli þróunarríkja.
6.     Samningsaðilar skulu koma á fót sérstökum starfshóp sem skilar reglubundnum skýrslum og sendir tillögur til samningsaðila um uppsetningu fjármögnunarkerfa, þ.m.t. um tilhögun framlaga, bókun og nýtingu fjármuna, þróun viðmiða og verklagsreglna til leiðbeiningar um innleiðingu, og framgang mála við innleiðingu fjármögnunarkerfanna. Til viðbótar við þau atriði sem þessi grein fjallar um, skal hinn sérstaki starfshópur m.a. hafa eftirfarandi atriði að leiðarljósi:
(a)      mat á þörfum samningsaðila sem eru þróunarríki, sérstaklega þeirra sem skemmst eru á veg komin og vanþróaðra þróunarlanda sem eru lítil eyríki;
(b)      tiltækileika og tímanlegar greiðslur fjármuna;

(c)      gagnsæi í ákvarðanatöku- og stjórnunarferlum sem varða fjáröflun og fjárveitingar; og

(d)      ábyrgðarskyldu viðtakandi samningsaðila sem eru þróunarríki að því er varðar samþykkta notkun fjármuna.
Samningsaðilar skulu taka mið af skýrslum og tillögum hins sérstaka starfshóps og grípa til viðeigandi aðgerða.

7. Hluti
LAUSN DEILUMÁLA
22. gr.
Friðsamleg lausn deilumála

1.     Samningsaðila er heimilt ráðfæra sig við annan eða aðra samningsaðila um hvers kyns ágreining sem varðar túlkun eða beitingu á ákvæðum samnings þessa með það fyrir augum að komast að niðurstöðu sem gagnkvæm sátt er um eins fljótt og mögulegt er.
2.     Ef ágreiningur samningsaðila er ekki leystur með viðræðum innan hæfilegs tíma, skulu viðkomandi samningsaðilar eins fljótt og mögulegt er koma sér saman um að leysa ágreininginn með samningum, rannsókn, miðlun, sáttaumleitun, gerðardómi, dómsúrskurði eða öðrum friðsamlegum aðferðum að eigin vali.
3.     Verði ágreiningur af þessu tagi ekki leystur með þessum hætti skal með samþykki allra aðila vísa deilunni til Alþjóðadómstólsins, Alþjóðlega hafréttardómsins eða gerðardóms. Ef ekki tekst samkomulag um að vísa máli til Alþjóðadómstólsins, Alþjóðlega hafréttardómsins eða gerðardóms, skulu samningsaðilar halda áfram viðræðum og samvinnu með það fyrir augum að leysa ágreininginn samkvæmt þjóðréttarreglum um verndun lifandi sjávarauðlinda.



8. Hluti
AÐILAR SEM EKKI ERU SAMNINGSAÐILAR
23. gr.
Aðilar sem ekki eru aðilar að samningi þessum

1.     Samningsaðilar skulu hvetja aðila sem ekki eru aðilar að samningi þessum að gerast aðilar að honum og/eða samþykkja lög og reglur og innleiða aðgerðir í samræmi við ákvæði samningsins.
2.     Samningsaðilar skulu gera ráðstafanir sem eru sanngjarnar, án mismununar, gagnsæjar og í samræmi við þennan samning og önnur gildandi alþjóðalög til að hindra athæfi aðila utan samnings þessa sem eru til þess fallnar að grafa undan virkri framkvæmd samnings þessa.

9. Hluti
VÖKTUN, ENDURSKOÐUN OG MAT
24. gr.
Vöktun, endurskoðun og mat

1.     Samningsaðilar skulu innan ramma FAO og viðeigandi stofnana FAO tryggja reglulega og kerfisbundna vöktun og endurskoðun á framkvæmd samnings þessa, auk þess að meta árangur við að ná markmiðum hans.
2.     Fjórum árum eftir gildistöku samnings þessa skal FAO boða samningsaðila til fundar til að endurskoða og meta árangur við að ná markmiðum samnings þessa. Samningsaðilar skulu taka ákvörðun um frekari slíka fundi eftir þörfum.

10. Hluti
LOKAÁKVÆÐI
25. gr.
Undirritun

    Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar hjá FAO frá tuttugasta og öðrum degi nóvembermánaðar 2009 til tuttugasta og fyrsta dags nóvembermánaðar 2010 fyrir öll ríki og svæðisbundin samtök um efnahagslegan samruna.

26. gr.
Fullgilding, samþykki eða viðurkenning

1.     Þessi samningur er háður fullgildingu, samþykki eða viðurkenningu undirritunaraðila.
2.     Skjöl um fullgildingu, samþykki eða viðurkenningu skal afhenda vörsluaðila.

27. gr.
Síðari aðild

1.     Eftir að tíminn, sem samningur þessi liggur frammi til undirritunar, er liðinn, skal aðild að honum opin öllum ríkjum eða svæðisbundum samtökum um efnahagslegan samruna.
2.     Aðildarskjöl skulu afhent vörsluaðila.


28. gr.
Þátttaka svæðisbundinna samtaka um efnahagslegan samruna

1.     Í tilvikum þegar valdsvið svæðisbundinna samtaka um efnahagslegan samruna, sem teljast vera alþjóðastofnun skv. 1. gr. IX. viðauka við hafréttarsamninginn, nær ekki yfir öll þau málefni sem falla undir gildissvið samnings þessa, skal IX. viðauki við hafréttarsamninginn, að breyttu breytanda, eiga við um aðild slíkra svæðisbundinna samtaka um efnahagslegan samruna að samningi þessum, nema að eftirfarandi ákvæði umrædds viðauka skulu ekki gilda:
(a)      1. málsliður 2. gr. og
(b)      1. mgr. 3 gr.
2.     Í tilvikum þegar valdsvið svæðisbundinna samtaka um efnahagslegan samruna, sem teljast vera alþjóðastofnun skv. 1. gr. IX. viðauka við hafréttarsamninginn, nær yfir öll þau málefni sem falla undir gildissvið samnings þessa, skulu eftirfarandi ákvæði gilda um aðild svæðisbundinna samtaka um efnahagslegan samruna að samningi þessum:
(a)      við undirritun eða síðari aðild, skulu samtökin gefa út yfirlýsingu þar sem fram kemur:
  (i)      að valdsvið þeirra nái til allra þeirra málefna sem heyra undir gildissvið samnings þessa;
  (ii)      að, af þeirri ástæðu, skulu aðildarríki þeirra ekki verða aðildarríki samnings þessa, nema að því er varðar yfirráðasvæði þeirra sem samtökin bera ekki ábyrgð á; og
  (iii)      að þau samþykki réttindi og skyldur skv. samningi þessum;
(b)      þátttaka slíkra samtaka skal ekki í neinu tilviki færa réttindi, sem samningur þessi kveður á um, til aðildarríkja samtakanna;
(c)      Í tilviki árekstra milli skuldbindinga slíkra samtaka samkvæmt samningi þessum og skuldbindinga þeirra samkvæmt stofnsamningi þeirra eða gerðum sem tengjast honum, skulu skuldbindingar samkvæmt samningi þessum ganga framar.

29. gr.
Gildistaka

1.     Samningur þessi skal taka gildi 30 dögum eftir þann dag er tuttugasta og fimmta fullgildingar-, samþykktar-, viðurkenningar- eða aðildarskjal hefur verið afhent til vörsluaðila samkvæmt 26. eða 27. gr.

2.     Fyrir sérhvern undirritunaraðila, sem fullgildir, samþykkir eða viðurkennir samning þennan eftir gildistöku hans, skal samningur þessi öðlast gildi þrjátíu dögum eftir þann dag sem skjal hans um fullgildingu, samþykki eða viðurkenningu er er afhent til vörslu.
3.     Fyrir sérhvert ríki eða svæðisbundin samtök um efnahagslegan samruna sem gerast aðili að samningi þessum eftir gildistöku hans, skal hann öðlast gildi þrjátíu dögum eftir þann dag sem aðildarskjal þeirra er afhent til vörslu.
4.     Að því er þessa grein varðar skal ekki telja skjöl, sem svæðisbundin samtök um efnahagslegan samruna afhenda til vörslu, sem viðbót við þau sem aðildarríki þeirra hafa afhent til vörslu.

30. gr.
Fyrirvarar og undantekningar

    Enga fyrirvara eða undantekningar má gera frá samningi þessum.

31. gr.
Yfirlýsingar og athugasemdir

    Ákvæði 30. gr. eru því ekki til fyrirstöðu að ríki eða svæðisbundin samtök um efnahagslegan samruna, þegar þau undirrita, fullgilda, samþykkja, viðurkenna eða gerast aðilar að samningi þessum, gefi yfirlýsingu eða geri athugasemd, hversu svo sem þær eru orðaðar eða kallaðar, m.a. í því skyni að samræma lög sín og reglur ákvæðum samnings þessa, enda sé þessum yfirlýsingum eða athugasemdum ekki ætlað að girða fyrir eða breyta réttaráhrifum ákvæða samnings þessa þegar þeim er beitt gagnvart því ríki eða þeim svæðisbundnu samtökum um efnahagslegan samruna.

32. gr.
Beiting til bráðabirgða

1.     Samningi þessum skal beitt til bráðabirgða af ríkjum eða svæðisbundnum samtökum um efnahagslegan samruna sem samþykkja beitingu hans til bráðabirgða með skriflegri tilkynningu til vörsluaðila. Beiting til bráðabirgða skal öðlast gildi frá þeim degi sem tilkynningin er móttekin.
2.     Beitingu til bráðabirgða af hálfu ríkis eða svæðisbundinna samtaka um efnahagslegan samruna skal hætt við gildistöku samnings þessa fyrir viðkomandi ríki eða svæðisbundin samtök um efnahagslegan samruna eða þegar skrifleg tilkynning frá viðkomandi ríki eða svæðisbundnu samtökum um efnahagslegan samruna er send til vörsluaðila um þá fyrirætlun að hætta beitingu hans til bráðabirgða.

33. gr.
Breytingar

1.     Sérhverjum samningsaðila er heimilt að gera tillögur að breytingum við samning þennan að liðnum tveimur árum frá gildistökudegi samnings þessa.
2.     Tillögu að breytingum við samning þennan skal afhenda vörsluaðila með skriflegri tilkynningu ásamt beiðni um að boðað verði til fundar samningsaðila til að fjalla um hana. Vörsluaðili skal dreifa tilkynningunni til allra samningsaðila sem og öllum svörum við beiðninni sem berast frá samningsaðilum. Hafi helmingur samningsaðila ekki hafnað beiðninni innan sex mánaða frá þeim degi sem tilkynningunni var dreift, skal vörsluaðilinn boða til fundar til að fjalla um breytingartillöguna.

3.     Með fyrirvara um 34. grein, verður tillaga um breytingu á samningi þessum aðeins samþykkt með einróma samþykki þeirra samningsaðila sem sækja fundinn þar sem hún lögð fram til samþykktar.
4.     Með fyrirvara um 34. grein, skal tillaga sem samþykkt er á fundi samningsaðila öðlast gildi milli þeirra samningsaðila sem hafa fullgilt, samþykkt eða viðurkennt hana, á nítugasta degi eftir að skjölum um fullgildingu, samþykki eða viðurkenningu hefur verið afhent til vörslu af tveimur þriðju aðila samnings þessa miðað við fjölda samningsaðila þann dag sem breytingartillagan var samþykkt. Eftir það skal breytingin taka gildi fyrir hvern samningsaðila á nítugasta degi eftir að sá samningsaðili afhendir skjöl um fullgildingu, samþykki eða viðurkenningu breytingartillögunnar.
5.     Að því er varðar þessa grein, skal ekki telja skjöl sem svæðisbundin samtök um efnahagslegan samruna afhenda til vörslu sem viðbótarskjöl við þau sem aðildarríki þeirra hafa afhent til vörslu.

34. gr.
Viðaukar

1.     Viðaukarnir eru óaðskiljanlegur hluti samnings þessa og teljast tilvísanir til samnings þessa fela í sér tilvísun til viðaukanna.
2.     Tillögu um breytingu á viðauka við samning þennan má samþykkja með tveimur þriðju hlutum samningsaðila sem sækja fundinn þar sem breytingartillagan að viðaukanum er til umræðu. Reynt skal eftir fremsta megni að komast að samkomulagi um hverja breytingartillögu að viðauka með einróma samþykki. Breyting á viðauka skal felld inn í samning þennan og öðlast gildi fyrir þá samningsaðila sem hafa lýst yfir samþykki sínu frá þeim degi sem vörsluaðila berst tilkynning um samþykki frá einum þriðju hluta samningsaðila, miðað við fjölda samningsaðila þann dag sem breytingin var samþykkt. Breytingartillagan skal eftir það taka gildi fyrir hvern samningsaðila sem eftir er þegar vörsluaðila berst staðfesting.

35. gr.
Uppsögn

    Hverjum samningsaðila er heimilt að segja upp samningi þessum hvenær sem er að liðnu einu ári frá þeim degi sem samningurinn öðlaðist gildi fyrir þann samningsaðila, með því að afhenda skriflega tilkynningu um uppsögnina til vörsluaðila. Uppsögn skal öðlast gildi einu ári eftir að vörsluaðila berst tilkynning um uppsögn.

36. gr.
Vörsluaðili

    Aðalframkvæmdastjóri FAO skal vera vörsluaðili samnings þessa. Vörsluaðilinn skal:
(a)      senda staðfest afrit af samningi þessum til sérhvers undirritunaraðila og samningsaðila;
(b)      skrá samning þennan við gildistöku hans hjá skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í samræmi við 102. grein sáttmála Sameinuðu þjóðanna;

(c)      tilkynna sérhverjum undirritunaraðila og samningsaðila án tafar um:
  (i)      undirritanir og skjöl um fullgildingu, staðfestingu, samþykki og aðild sem afhent eru skv. 25., 26. og 27. gr.;
  (ii)      gildistökudag samnings þessa skv. 29. gr.;

  (iii)      tillögur að breytingum á samningi þessum, samþykki þeirra og gildistöku skv. 33. gr.;

  (iv)      tillögur að breytingum á viðaukum, samþykki þeirra og gildistöku skv. 34. gr.; og

  (v)      uppsagnir á samningi þessum skv. 35. gr.


37. gr.
Fullgildir textar

    Hinn arabíski, enski, franski, kínverski, rússneski og spænski texti samnings þessa eru jafngildir.


ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir sendifulltrúar, sem til þess hafa fengið fullt umboð, undirritað samning þennan.

GERT í Róm tuttugasta og annan dag nóvembermánaðar, 2009.

AGREEMENT ON PORT STATE MEASURES TO PREVENT, DETER AND ELIMINATE ILLEGAL, UNREPORTED AND UNREGULATED FISHING

PREAMBLE


The Parties to this Agreement,

Deeply concerned
about the continuation of illegal, unreported and unregulated fishing and its detrimental effect upon fish stocks, marine ecosystems and the livelihoods of legitimate fishers, and the increasing need for food security on a global basis,

Conscious of the role of the port State in the adoption of effective measures to promote the sustainable use and the long-term conservation of living marine resources,

Recognizing that measures to combat illegal, unreported and unregulated fishing should build on the primary responsibility of flag States and use all available jurisdiction in accordance with international law, including port State measures, coastal State measures, market related measures and measures to ensure that nationals do not support or engage in illegal, unreported and unregulated fishing,

Recognizing that port State measures provide a powerful and cost-effective means of preventing, deterring and eliminating illegal, unreported and unregulated fishing,

Aware of the need for increasing coordination at the regional and interregional levels to combat illegal, unreported and unregulated fishing through port State measures,

Acknowledging the rapidly developing communications technology, databases, networks and global records that support port State measures,

Recognizing the need for assistance to developing countries to adopt and implement port State measures,

Taking note of the calls by the international community through the United Nations System, including the United Nations General Assembly and the Committee on Fisheries of the Food and Agriculture Organization of the United Nations, hereinafter referred to as 'FAO', for a binding international instrument on minimum standards for port State measures, based on the 2001 FAO International Plan of Action to Prevent, Deter and Eliminate Illegal, Unreported and Unregulated Fishing and the 2005 FAO Model Scheme on Port State Measures to Combat Illegal, Unreported and Unregulated Fishing,

Bearing in mind that, in the exercise of their sovereignty over ports located in their territory, States may adopt more stringent measures, in accordance with international law,

Recalling the relevant provisions of the United Nations Convention on the Law of the Sea of 10 December 1982, hereinafter referred to as the 'Convention',

Recalling the Agreement for the Implementation of the Provisions of the United Nations Convention on the Law of the Sea of 10 December 1982 relating to the Conservation and Management of Straddling Fish Stocks and Highly Migratory Fish Stocks of 4 December 1995, the Agreement to Promote Compliance with International Conservation and Management Measures by Fishing Vessels on the High Seas of 24 November 1993 and the 1995 FAO Code of Conduct for Responsible Fisheries,

Recognizing the need to conclude an international agreement within the framework of FAO, under Article XIV of the FAO Constitution,

Have agreed as follows:

PART 1
GENERAL PROVISIONS
Article 1
Use of terms

    For the purposes of this Agreement:
(a)      “conservation and management measures” means measures to conserve and manage living marine resources that are adopted and applied consistently with the relevant rules of international law including those reflected in the Convention;
(b)      “fish” means all species of living marine resources, whether processed or not;
(c)      “fishing” means searching for, attracting, locating, catching, taking or harvesting fish or any activity which can reasonably be expected to result in the attracting, locating, catching, taking or harvesting of fish;
(d)      “fishing related activities” means any operation in support of, or in preparation for, fishing, including the landing, packaging, processing, transshipping or transporting of fish that have not been previously landed at a port, as well as the provisioning of personnel, fuel, gear and other supplies at sea;
(e)      “illegal, unreported and unregulated fishing” refers to the activities set out in paragraph 3 of the 2001 FAO International Plan of Action to Prevent, Deter and Eliminate Illegal, Unreported and Unregulated Fishing, hereinafter referred to as 'IUU fishing';
(f)      “Party” means a State or regional economic integration organization that has consented to be bound by this Agreement and for which this Agreement is in force;
(g)      “port” includes offshore terminals and other installations for landing, transshipping, packaging, processing, refuelling or resupplying;

(h)      “regional economic integration organization” means a regional economic integration organization to which its member States have transferred competence over matters covered by this Agreement, including the authority to make decisions binding on its member States in respect of those matters;
(i)      “regional fisheries management organization” means an intergovernmental fisheries organization or arrangement, as appropriate, that has the competence to establish conservation and management measures; and
(j)      “vessel” means any vessel, ship of another type or boat used for, equipped to be used for, or intended to be used for, fishing or fishing related activities.

Article 2
Objective

    The objective of this Agreement is to prevent, deter and eliminate IUU fishing through the implementation of effective port State measures, and thereby to ensure the long-term conservation and sustainable use of living marine resources and marine ecosystems.

Article 3
Application

1.     Each Party shall, in its capacity as a port State, apply this Agreement in respect of vessels not entitled to fly its flag that are seeking entry to its ports or are in one of its ports, except for:

(a)      vessels of a neighbouring State that are engaged in artisanal fishing for subsistence, provided that the port State and the flag State cooperate to ensure that such vessels do not engage in IUU fishing or fishing related activities in support of such fishing ; and
(b)      container vessels that are not carrying fish or, if carrying fish, only fish that have been previously landed, provided that there are no clear grounds for suspecting that such vessels have engaged in fishing related activities in support of IUU fishing.
2.     A Party may, in its capacity as a port State, decide not to apply this Agreement to vessels chartered by its nationals exclusively for fishing in areas under its national jurisdiction and operating under its authority therein. Such vessels shall be subject to measures by the Party which are as effective as measures applied in relation to vessels entitled to fly its flag.

3.     This Agreement shall apply to fishing conducted in marine areas that is illegal, unreported or unregulated, as defined in Article 1(e) of this Agreement, and to fishing related activities in support of such fishing.
4.     This Agreement shall be applied in a fair, transparent and non-discriminatory manner, consistent with international law.
5.     As this Agreement is global in scope and applies to all ports, the Parties shall encourage all other entities to apply measures consistent with its provisions. Those that may not otherwise become Parties to this Agreement may express their commitment to act consistently with its provisions.

Article 4
Relationship with international law and other international instruments

1.     Nothing in this Agreement shall prejudice the rights, jurisdiction and duties of Parties under international law. In particular, nothing in this Agreement shall be construed to affect:
(a)      the sovereignty of Parties over their internal, archipelagic and territorial waters or their sovereign rights over their continental shelf and in their exclusive economic zones;
(b)      the exercise by Parties of their sovereignty over ports in their territory in accordance with international law, including their right to deny entry thereto as well as to adopt more stringent port State measures than those provided for in this Agreement, including such measures adopted pursuant to a decision of a regional fisheries management organization.
2.     In applying this Agreement, a Party does not thereby become bound by measures or decisions of, or recognize, any regional fisheries management organization of which it is not a member.
3.     In no case is a Party obliged under this Agreement to give effect to measures or decisions of a regional fisheries management organization if those measures or decisions have not been adopted in conformity with international law.
4.     This Agreement shall be interpreted and applied in conformity with international law taking into account applicable international rules and standards, including those established through the International Maritime Organization, as well as other international instruments.
5.     Parties shall fulfil in good faith the obligations assumed pursuant to this Agreement and shall exercise the rights recognized herein in a manner that would not constitute an abuse of right.

Article 5
Integration and coordination at the national level

    Each Party shall, to the greatest extent possible:

(a)      integrate or coordinate fisheries related port State measures with the broader system of port State controls;
(b)      integrate port State measures with other measures to prevent, deter and eliminate IUU fishing and fishing related activities in support of such fishing, taking into account as appropriate the 2001 FAO International Plan of Action to Prevent, Deter and Eliminate Illegal, Unreported and Unregulated Fishing; and

(c)      take measures to exchange information among relevant national agencies and to coordinate the activities of such agencies in the implementation of this Agreement.

Article 6
Cooperation and exchange of information

1.     In order to promote the effective implementation of this Agreement and with due regard to appropriate confidentiality requirements, Parties shall cooperate and exchange information with relevant States, FAO, other international organizations and regional fisheries management organizations, including on the measures adopted by such regional fisheries management organizations in relation to the objective of this Agreement.
2.     Each Party shall, to the greatest extent possible, take measures in support of conservation and management measures adopted by other States and other relevant international organizations.
3.     Parties shall cooperate, at the subregional, re gional and global levels, in the effective implementation of this Agreement including, where appropriate, through FAO or regional fisheries management organizations and arrangements.

PART 2
ENTRY INTO PORT
Article 7
Designation of ports

1.     Each Party shall designate and publicize the ports to which vessels may request entry pursuant to this Agreement. Each Party shall provide a list of its designated ports to FAO, which shall give it due publicity.
2.     Each Party shall, to the greatest extent possible, ensure that every port designated and publicized in accordance with paragraph 1 of this Article has sufficient capacity to conduct inspections pursuant to this Agreement.

Article 8
Advance request for port entry

1.     Each Party shall require, as a minimum standard, the information requested in Annex A to be provided before granting entry to a vessel to its port.

2.     Each Party shall require the information referred to in paragraph 1 of this Article to be provided sufficiently in advance to allow adequate time for the port State to examine such information.

Article 9
Port entry, authorization or denial

1.     After receiving the relevant information required pursuant to Article 8, as well as such other information as it may require to determine whether the vessel requesting entry into its port has engaged in IUU fishing or fishing related activities in support of such fishing, each Party shall decide whether to authorize or deny the entry of the vessel into its port and shall communicate this decision to the vessel or to its representative.
2.     In the case of authorization of entry, the master of the vessel or the vessel's representative shall be required to present the authorization for entry to the competent authorities of the Party upon the vessel's arrival at port.
3.     In the case of denial of entry, each Party shall communicate its decision taken pursuant to paragraph 1 of this Article to the flag State of the vessel and, as appropriate and to the extent possible, relevant coastal States, regional fisheries management organizations and other international organizations.
4.     Without prejudice to paragraph 1 of this Article, when a Party has sufficient proof that a vessel seek ing entry into its port has engaged in IUU fishing or fishing related activities in support of such fishing, in particular the inclusion of a vessel on a list of vessels having engaged in such fishing or fishing related activities adopted by a relevant regional fisheries management organization in accordance with the rules and procedures of such organization and in conformity with international law, the Party shall deny that vessel entry into its ports, taking into due account paragraphs 2 and 3 of Article 4.
5.     Notwithstanding paragraphs 3 and 4 of this Article, a Party may allow entry into its ports of a vessel referred to in those paragraphs exclusively for the purpose of inspecting it and taking other appropriate actions in conformity with international law which are at least as effective as denial of port entry in preventing, deterring and eliminating IUU fishing and fishing related activities in support of such fishing.
6.     Where a vessel referred to in paragraph 4 or 5 of this Article is in port for any reason, a Party shall deny such vessel the use of its ports for landing, transshipping, packaging, and processing of fish and for other port services including, inter alia, refuelling and resupplying, maintenance and drydocking. Paragraphs 2 and 3 of Article 11 apply mutatis mutandis in such cases. Denial of such use of ports shall be in conformity with international law.

Article 10
Force majeure or distress

    Nothing in this Agreement affects the entry of vessels to port in accordance with international law for reasons of force majeure or distress, or prevents a port State from permitting entry into port to a vessel exclusively for the purpose of rendering assistance to persons, ships or aircraft in danger or distress.

PART 3
USE OF PORTS
Article 11
Use of ports

1.     Where a vessel has entered one of its ports, a Party shall deny, pursuant to its laws and regulations and consistent with international law, including this Agreement, that vessel the use of the port for landing, transshipping, packaging and processing of fish that have not been previously landed and for other port services, including, inter alia, refuelling and resupplying, maintenance and drydocking, if:
(a)      the Party finds that the vessel does not have a valid and applicable authorization to engage in fishing or fishing related activities required by its flag State;
(b)      the Party finds that the vessel does not have a valid and applicable authorization to engage in fishing or fishing related activities required by a coastal State in respect of areas under the national jurisdiction of that State;
(c)      the Party receives clear evidence that the fish on board was taken in contravention of applicable requirements of a coastal State in respect of areas under the national jurisdiction of that State;
(d)      the flag State does not confirm within a reasonable period of time, on the request of the port State, that the fish on board was taken in accordance with applicable requirements of a relevant regional fisheries management organization taking into due account paragraphs 2 and 3 of Article 4; or
(e)      the Party has reasonable grounds to believe that the vessel was otherwise engaged in IUU fishing or fishing related activities in support of such fishing, including in support of a vessel referred to in paragraph 4 of Article 9, unless the vessel can establish:
  (i)      that it was acting in a manner consistent with relevant conservation and management measures; or
  (ii)      in the case of provision of personnel, fuel, gear and other supplies at sea, that the vessel that was provisioned was not, at the time of provisioning, a vessel referred to in paragraph 4 of Article 9.
2.     Notwithstanding paragraph 1 of this Article, a Party shall not deny a vessel referred to in that paragraph the use of port services:
(a)      essential to the safety or health of the crew or the safety of the vessel, provided these needs are duly proven, or
(b)      where appropriate, for the scrapping of the vessel.
3.     Where a Party has denied the use of its port in accordance with this Article, it shall promptly notify the flag State and, as appropriate, relevant coastal States, regional fisheries management organizations and other relevant international organizations of its decision.
4.     A Party shall withdraw its denial of the use of its port pursuant to paragraph 1 of this Article in respect of a vessel only if there is sufficient proof that the grounds on which use was denied were inadequate or erroneous or that such grounds no longer apply.
5.     Where a Party has withdrawn its denial pursuant to paragraph 4 of this Article, it shall promptly notify those to whom a notification was issued pursuant to paragraph 3 of this Article.

PART 4
INSPECTIONS AND FOLLOW-UP ACTIONS
Article 12
Levels and priorities for inspection

1.     Each Party shall inspect the number of vessels in its ports required to reach an annual level of inspections sufficient to achieve the objective of this Agreement.
2.     Parties shall seek to agree on the minimum levels for inspection of vessels through, as appropriate, regional fisheries management organizations, FAO or otherwise.
3.     In determining which vessels to inspect, a Party shall give priority to:
(a)      vessels that have been denied entry or use of a port in accordance with this Agreement;
(b)      requests from other relevant Parties, States or regional fisheries management organizations that particular vessels be inspected, particularly where such requests are supported by evidence of IUU fishing or fishing related activities in support of such fishing by the vessel in question; and
(c)      other vessels for which there are clear grounds for suspecting that they have engaged in IUU fishing or fishing related activities in support of such fishing.

Article 13
Conduct of inspections

1.     Each Party shall ensure that its inspectors carry out the functions set forth in Annex B as a minimum standard.
2.     Each Party shall, in carrying out inspections in its ports:
(a)      ensure that inspections are carried out by properly qualified inspectors authorized for that purpose, having regard in particular to Article 17;
(b)      ensure that, prior to an inspection, inspectors are required to present to the master of the vessel an appropriate document identifying the inspectors as such;
(c)      ensure that inspectors examine all relevant areas of the vessel, the fish on board, the nets and any other gear, equipment, and any document or record on board that is relevant to verifying compliance with relevant conservation and management measures;
(d)      require the master of the vessel to give inspectors all necessary assistance and information, and to present relevant material and documents as may be required, or certified copies thereof;
(e)      in case of appropriate arrangements with the flag State of the vessel, invite that State to participate in the inspection;
(f)      make all possible efforts to avoid unduly delaying the vessel to minimize interference and inconvenience, including any unnecessary presence of inspectors on board, and to avoid action that would adversely affect the quality of the fish on board;
(g)      make all possible efforts to facilitate communication with the master or senior crew members of the vessel, including where possible and where needed that the inspector is accompanied by an interpreter;
(h)      ensure that inspections are conducted in a fair, transparent and nondiscriminatory manner and would not constitute harassment of any vessel; and
(i)      not interfere with the master's ability, in conformity with international law, to communicate with the authorities of the flag State.

Article 14
Results of inspections

    Each Party shall, as a minimum standard, include the information set out in Annex C in the written report of the results of each inspection.

Article 15
Transmittal of inspection results

    Each Party shall transmit the results of each inspection to the flag State of the inspected vessel and, as appropriate, to:
(a)      relevant Parties and States, including:
  (i)      those States for which there is evidence through inspection that the vessel has engaged in IUU fishing or fishing related activities in support of such fishing within waters under their national jurisdiction; and
  (ii)      the State of which the vessel's master is a national;
(b)      relevant regional fisheries management organizations; and
(c)      FAO and other relevant international organizations.

Article 16
Electronic exchange of information

1.     To facilitate implementation of this Agreement, each Party shall, where possible, establish a communication mechanism that allows for direct electronic exchange of information, with due regard to appropriate confidentiality requirements.
2.     To the extent possible and with due regard to appropriate confidentiality requirements, Parties should cooperate to establish an information-sharing mechanism, preferably coordinated by FAO, in conjunction with other relevant multilateral and intergovernmental initiatives, and to facilitate the exchange of information with existing databases relevant to this Agreement.
3.     Each Party shall designate an authority that shall act as a contact point for the exchange of information under this Agreement. Each Party shall notify the pertinent designation to FAO.
4.     Each Party shall handle information to be transmitted through any mechanism established under paragraph 1 of this Article consistent with Annex D.

5. FAO shall request relevant regional fisheries management organizations to provide information concerning the measures or decisions they have adopted and implemented which relate to this Agreement for their integration, to the extent possible and taking due account of the appropriate confidentiality requirements, into the information-sharing mechanism referred to in paragraph 2 of this Article.

Article 17
Training of inspectors

    Each Party shall ensure that its inspectors are properly trained taking into account the guidelines for the training of inspectors in Annex E. Parties shall seek to cooperate in this regard.


Article 18
Port State actions following inspection

1.     Where, following an inspection, there are clear grounds for believing that a vessel has engaged in IUU fishing or fishing related activities in support of such fishing, the inspecting Party shall:
(a)      promptly notify the flag State and, as appropriate, relevant coastal States, regional fisheries management organizations and other international organizations, and the State of which the vessel's master is a national of its findings; and
(b)      deny the vessel the use of its port for landing, transshipping, packaging and processing of fish that have not been previously landed and for other port services, including, inter alia, refuelling and resupplying, maintenance and drydocking, if these actions have not already been taken in respect of the vessel, in a manner consistent with this Agreement, including Article 4.
2.     Notwithstanding paragraph 1 of this Article, a Party shall not deny a vessel referred to in that paragraph the use of port services essential for the safety or health of the crew or the safety of the vessel.
3.     Nothing in this Agreement prevents a Party from taking measures that are in conformity with international law in addition to those specified in paragraphs 1 and 2 of this Article, including such measures as the flag State of the vessel has expressly requested or to which it has consented.

Article 19
Information on recourse in the port State

1.     A Party shall maintain the relevant information available to the public and provide such information, upon written request, to the owner, operator, master or representative of a vessel with regard to any recourse established in accordance with its national laws and regulations concerning port State measures taken by that Party pursuant to Articles 9, 11, 13 or 18, including information pertaining to the public services or judicial institutions available for this purpose, as well as information on whether there is any right to seek compensation in accordance with its national laws and regulations in the event of any loss or damage suffered as a consequence of any alleged unlawful action by the Party.
2.     The Party shall inform the flag State, the owner, operator, master or representative, as appropriate, of the outcome of any such recourse. Where other Parties, States or international organizations have been informed of the prior decision pursuant to Articles 9, 11, 13 or 18, the Party shall inform them of any change in its decision.

PART 5
ROLE OF FLAG STATES
Article 20
Role of flag States

1.     Each Party shall require the vessels entitled to fly its flag to cooperate with the port State in inspections carried out pursuant to this Agreement.

2.     When a Party has clear grounds to believe that a vessel entitled to fly its flag has engaged in IUU fishing or fishing related activities in support of such fishing and is seeking entry to or is in the port of another State, it shall, as appropriate, request that State to inspect the vessel or to take other measures consistent with this Agreement.

3.     Each Party shall encourage vessels entitled to fly its flag to land, transship, package and process fish, and use other port services, in ports of States that are acting in accordance with, or in a manner consistent with this Agreement. Parties are encouraged to develop, including through regional fisheries management organizations and FAO, fair, transparent and non-discriminatory procedures for identifying any State that may not be acting in accordance with, or in a manner consistent with, this Agreement.

4.     Where, following port State inspection, a flag State Party receives an inspection report indicating that there are clear grounds to believe that a vessel entitled to fly its flag has engaged in IUU fishing or fishing related activities in support of such fishing, it shall immediately and fully investigate the matter and shall, upon sufficient evidence, take enforcement action without delay in accordance with its laws and regulations.

5.     Each Party shall, in its capacity as a flag State, report to other Parties, relevant port States and, as appropriate, other relevant States, regional fisheries management organizations and FAO on actions it has taken in respect of vessels entitled to fly its flag that, as a result of port State measures taken pursuant to this Agreement, have been determined to have engaged in IUU fishing or fishing related activities in support of such fishing.
6.     Each Party shall ensure that measures applied to vessels entitled to fly its flag are at least as effective in preventing, deterring, and eliminating IUU fishing and fishing related activities in support of such fishing as measures applied to vessels referred to in paragraph 1 of Article 3.


PART 6
REQUIREMENTS OF DEVELOPING STATES
Article 21
Requirements of developing States

1.     Parties shall give full recognition to the special requirements of developing States Parties in relation to the implementation of port State measures consistent with this Agreement. To this end, Parties shall, either directly or through FAO, other specialized agencies of the United Nations or other appropriate international organizations and bodies, including regional fisheries management organizations, provide assistance to developing States Parties in order to, inter alia:
(a)      enhance their ability, in particular the least- developed among them and small island developing States, to develop a legal basis and capacity for the implementation of effective port State measures;
(b)      facilitate their participation in any international organizations that promote the effective development and implementation of port State measures; and
(c)      facilitate technical assistance to strengthen the development and implementation of port State measures by them, in coordination with relevant international mechanisms.
2.     Parties shall give due regard to the special requirements of developing port States Parties, in particular the least-developed among them and small island developing States, to ensure that a disproportionate burden resulting from the implementation of this Agreement is not transferred directly or indirectly to them. In cases where the transfer of a disproportionate burden has been demonstrated, Parties shall cooperate to facilitate the implementation by the relevant developing States Parties of specific obligations under this Agreement.

3.     Parties shall, either directly or through FAO, assess the special requirements of developing States Parties concerning the implementation of this Agreement.
4.     Parties shall cooperate to establish appropriate funding mechanisms to assist developing States in the implementation of this Agreement. These mechanisms shall, inter alia, be directed specifically towards:
(a)      developing national and international port State measures;
(b)      developing and enhancing capacity, including for monitoring, control and surveillance and for training at the national and regional levels of port managers, inspectors, and enforcement and legal personnel;
(c)      monitoring, control, surveillance and compliance activities relevant to port State measures, including access to technology and equipment; and
(d)      assisting developing States Parties with the costs involved in any proceedings for the settlement of disputes that result from actions they have taken pursuant to this Agreement.

5.     Cooperation with and among developing States Parties for the purposes set out in this Article may include the provision of technical and financial assistance through bilateral, multilateral and regional channels, including South-South cooperation.
6.     Parties shall establish an ad hoc working group to periodically report and make recommendations to the Parties on the establishment of funding mechanisms including a scheme for contributions, identification and mobilization of funds, the development of criteria and procedures to guide implementation, and progress in the implementation of the funding mechanisms. In addition to the considerations provided in this Article, the ad hoc working group shall take into account, inter alia:
(a)      the assessment of the needs of developing States Parties, in particular the least-developed among them and small island developing States;
(b)      the availability and timely disbursement of funds;
(c)      transparency of decision-making and management processes concerning fundraising and allocations; and
(d)      accountability of the recipient developing States Parties in the agreed use of funds.

Parties shall take into account the reports and any recommendations of the ad hoc working group and take appropriate action.

PART 7
DISPUTE SETTLEMENT
Article 22
Peaceful settlement of disputes

1.     Any Party may seek consultations with any other Party or Parties on any dispute with regard to the interpretation or application of the provisions of this Agreement with a view to reaching a mutually satisfactory solution as soon as possible.
2.     In the event that the dispute is not resolved through these consultations within a reasonable period of time, the Parties in question shall consult among themselves as soon as possible with a view to having the dispute settled by negotiation, inquiry, mediation, conciliation, arbitration, judicial settlement or other peaceful means of their own choice.
3.     Any dispute of this character not so resolved shall, with the consent of all Parties to the dispute, be referred for settlement to the International Court of Justice, to the International Tribunal for the Law of the Sea or to arbitration. In the case of failure to reach agreement on referral to the International Court of Justice, to the International Tribunal for the Law of the Sea or to arbitration, the Parties shall continue to consult and cooperate with a view to reaching settlement of the dispute in accordance with the rules of international law relating to the conservation of living marine resources.

PART 8
NON-PARTIES

Article 23
Non-Parties to this Agreement

1.     Parties shall encourage non-Parties to this Agreement to become Parties thereto and/or to adopt laws and regulations and implement measures consistent with its provisions.
2.     Parties shall take fair, non-discriminatory and transparent measures consistent with this Agreement and other applicable international law to deter the activities of non-Parties which undermine the effective implementation of this Agreement.


PART 9
MONITORING, REVIEW AND ASSESSMENT
Article 24
Monitoring, review and assessment

1.     Parties shall, within the framework of FAO and its relevant bodies, ensure the regular and systematic monitoring and review of the implementation of this Agreement as well as the assessment of progress made towards achieving its objective.
2.     Four years after the entry into force of this Agreement, FAO shall convene a meeting of the Parties to review and assess the effectiveness of this Agreement in achieving its objective. The Parties shall decide on further such meetings as necessary.

PART 10
FINAL PROVISIONS
Article 25
Signature

    This Agreement shall be open for signature at FAO from the Twenty-second day of November 2009 until the Twenty-first day of November 2010 by all States and regional economic integration organizations.

Article 26
Ratification, acceptance or approval

1.     This Agreement shall be subject to ratification, acceptance or approval by the signatories.
2.     Instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Depositary.

Article 27
Accession

1.     After the period in which this Agreement is open for signature, it shall be open for accession by any State or regional economic integration organization.

2.     Instruments of accession shall be deposited with the Depositary.

Article 28
Participation by Regional Economic Integration Organizations

1.     In cases where a regional economic integration organization that is an international organization referred to in Annex IX, Article 1, of the Convention does not have competence over all the matters governed by this Agreement, Annex IX to the Convention shall apply mutatis mutandis to participation by such regional economic integration organization in this Agreement, except that the following provisions of that Annex shall not apply:

(a)      Article 2, first sentence; and
(b)      Article 3, paragraph 1.
2.     In cases where a regional economic integration organization that is an international organization referred to in Annex IX, Article 1, of the Convention has competence over all the matters governed by this Agreement, the following provisions shall apply to participation by the regional economic integration organization in this Agreement:
(a)      at the time of signature or accession, such organization shall make a declaration stating:
  (i)      that it has competence over all the matters governed by this Agreement;

  (ii)      that, for this reason, its member States shall not become States Parties, except in respect of their territories for which the organization has no responsibility; and

  (iii)      that it accepts the rights and obligations of States under this Agreement;
(b)      participation of such an organization shall in no case confer any rights under this Agreement on member States of the organization;
(c)      in the event of a conflict between the obligations of such organization under this Agreement and its obligations under the Agreement establishing the organization or any acts relating to it, the obligations under this Agreement shall prevail.

Article 29
Entry into force

1.     This Agreement shall enter into force thirty days after the date of deposit with the Depositary of the twenty-fifth instrument of ratification, acceptance, approval or accession in accordance with Article 26 or 27.
2.     For each signatory which ratifies, accepts or approves this Agreement after its entry into force, this Agreement shall enter into force thirty days after the date of the deposit of its instrument of ratification, acceptance or approval.

3.     For each State or regional economic integration organization which accedes to this Agreement after its entry into force, this Agreement shall enter into force thirty days after the date of the deposit of its instrument of accession.
4.     For the purposes of this Article, any instrument deposited by a regional economic integration organization shall not be counted as additional to those deposited by its Member States.

Article 30
Reservations and exceptions

    No reservations or exceptions may be made to this Agreement.

Article 31
Declarations and statements

    Article 30 does not preclude a State or regional economic integration organization, when signing, ratifying, accepting, approving or acceding to this Agreement, from making a declaration or statement, however phrased or named, with a view to, inter alia, the harmonization of its laws and regulations with the provisions of this Agreement, provided that such declaration or statement does not purport to exclude or to modify the legal effect of the provisions of this Agreement in their application to that State or regional economic integration organization.


Article 32
Provisional application

1.     This Agreement shall be applied provisionally by States or regional economic integration organizations which consent to its provisional application by so notifying the Depositary in writing. Such provisional application shall become effective from the date of receipt of the notification.
2.     Provisional application by a State or regional economic integration organization shall terminate upon the entry into force of this Agreement for that State or regional economic integration organization or upon notification by that State or regional economic integration organization to the Depositary in writing of its intention to terminate provisional application.

Article 33
Amendments

1.     Any Party may propose amendments to this Agreement after the expiry of a period of two years from the date of entry into force of this Agreement.
2.     Any proposed amendment to this Agreement shall be transmitted by written communication to the Depositary along with a request for the convening of a meeting of the Parties to consider it. The Depositary shall circulate to all Parties such communication as well as all replies to the request received from Parties. Unless within six months from the date of circulation of the communication one half of the Parties object to the request, the Depositary shall convene a meeting of the Parties to consider the proposed amendment.
3.     Subject to Article 34, any amendment to this Agreement shall only be adopted by consensus of the Parties present at the meeting at which it is proposed for adoption.
4.     Subject to Article 34, any amendment adopted by the meeting of the Parties shall come into force among the Parties having ratified, accepted or approved it on the ninetieth day after the deposit of instruments of ratification, acceptance or approval by two-thirds of the Parties to this Agreement based on the number of Parties on the date of adoption of the amendment. Thereafter the amendment shall enter into force for any other Party on the ninetieth day after that Party deposits its instrument of ratification, acceptance or approval of the amendment.

5.     For the purposes of this Article, an instrument deposited by a regional economic integration organization shall not be counted as additional to those deposited by its Member States.

Article 34
Annexes

1.     The Annexes form an integral part of this Agreement and a reference to this Agreement shall constitute a reference to the Annexes.
2.     An amendment to an Annex to this Agreement may be adopted by two-thirds of the Parties to this Agreement present at a meeting where the proposed amendment to the Annex is considered. Every effort shall however be made to reach agreement on any amendment to an Annex by way of consensus. An amendment to an Annex shall be incorporated in this Agreement and enter into force for those Parties that have expressed their acceptance from the date on which the Depositary receives notification of acceptance from one-third of the Parties to this Agreement, based on the number of Parties on the date of adoption of the amendment. The amendment shall thereafter enter into force for each remaining Party upon receipt by the Depositary of its acceptance.

Article 35
Withdrawal

    Any Party may withdraw from this Agreement at any time after the expiry of one year from the date upon which the Agreement entered into force with respect to that Party, by giving written notice of such withdrawal to the Depositary. Withdrawal shall be come effective one year after receipt of the notice of withdrawal by the Depositary.

Article 36
The Depositary

    The Director-General of FAO shall be the Depositary of this Agreement. The Depositary shall:
(a)      transmit certified copies of this Agreement to each signatory and Party;
(b)      register this Agreement, upon its entry into force, with the Secretariat of the United Nations in accordance with Article 102 of the Charter of the United Nations;
(c)      promptly inform each signatory and Party to this Agreement of all:
  (i)      signatures and instruments of ratification, acceptance, approval and accession deposited under Articles 25, 26 and 27;
  (ii)      the date of entry into force of this Agreement in accordance with Article 29;
  (iii)      proposals for amendment to this Agreement and their adoption and entry into force in accordance with Article 33;
  (iv)      proposals for amendment to the Annexes and their adoption and entry into force in accordance with Article 34; and
  (v)      withdrawals from this Agreement in accordance with Article 35.

Article 37
Authentic texts

    The Arabic, Chinese, English, French, Russian and Spanish texts of this Agreement are equally authentic.

IN WITNESS WHEREOF, the undersigned Plenipotentiaries, being duly authorized, have signed this Agreement.

DONE in Rome on this Twenty-second day of November, 2009.
                 VIÐAUKI A

                Upplýsingar sem skip er biðja um aðgang að höfn skulu veita fyrir fram


1. Fyrirhuguð viðkomuhöfn
2. Hafnríki
3. Áætlaður komudagur og -tími
4. Erindi
5. Síðasta viðkomuhöfn og dagsetning viðkomu
6. Nafn skips
7. Fánaríki
8. Tegund skips
9. Alþjóðlegt fjarskiptakallmerki
10. Tengslaupplýsingar skips
11. Eigandi skips
12. Skráningarskírteini
13. IMO-númer skips, ef tiltækt
14. Ytra auðkenni, ef tiltækt
15. RFMO, ef við á
16. VMS Nei Já: Landsbundið Já: RFMO Gerð:
17. Mál skips Lengd Breidd Djúprista
18. Nafn og þjóðerni skipstjóra
19. Viðeigandi veiðileyfi
Kennimerki Útgefið af Gildistími Veiðisvæði Tegundir Veiðarfæri
20. Viðeigandi umskipunarleyfi
Kennimerki Útgefið af Gildistími
Kennimerki Útgefið af Gildistími
21. Umskipunarupplýsingar um affermd veiðiskip
Dagsetning Staðsetning Nafn Fánaríki Kenninúmer Tegundir Form afla Veiðisvæði Magn
22. Heildarafli um borð 23. Afli til affermingar
Tegundir Form afla Veiðisvæði Magn Magn
ANNEX A

Information to be provided in advance by vessels requesting port entry


1. Intended port of call
2. Port State
3. Estimated date and time of arrival
4. Purpose(s)
5. Port and date of last port call
6. Name of the vessel
7. Flag State
8. Type of vessel
9. International Radio Call Sign
10. Vessel contact information
11. Vessel owner(s)
12. Certificate of registry ID
13. IMO ship ID, if available
14. External ID, if available
15. RFMO ID, if applicable
16. VMS No Yes: National Yes: RFMO(s) Type:
17. Vessel dimensions Length Beam Draft
18. Vessel master name and nationality
19. Relevant fishing authorization(s)
Identifier Issued by Validity Fishing area(s) Species Gear
20. Relevant transshipment authorization(s)
Identifier Issued by Validity
Identifier Issued by Validity
21. Transshipment information concerning donor vessels
Date Location Name Flag State ID number Species Product form Catch area Quantity
22. Total catch onboard 23. Catch to be offloaded
Species Product form Catch area Quantity Quantity
VIÐAUKI B

Reglur um eftirlit hafnríkja

Eftirlitsmenn skulu:

a)    sannreyna, að því marki sem unnt er, að auðkennisskírteini skipsins um borð og upplýsingar um eiganda skipsins séu sannar, tæmandi og réttar, m.a. með því að hafa samband við viðeigandi tengiliði í fánaríkinu og alþjóðlegar skipaskrár ef þörf krefur;

b)    sannreyna að fáni og auðkenni, (s.s. nafn, ytra skráningarnúmer, auðkennisnúmer Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO), alþjóðlegt fjarskiptakallmerki og önnur auðkenni, helstu mál) séu í samræmi við uppgefnar upplýsingar í skrám skipsins;

c)    sannreyna, að því marki sem unnt er, að heimildir til að stunda veiðar og aðra fiskveiðitengda starfsemi séu sannar, tæmandi, réttar og í samræmi við uppgefnar upplýsingar samkvæmt viðauka A;

d)    yfirfara öll skjöl og skrár um borð, þ.m.t., að því marki sem unnt er, þær sem eru á rafrænu formi og gögn úr fjareftirlitskerfi skipa (VMS) frá fánaríkinu eða viðeigandi svæðisbundinni veiðistjórnarstofnun (RFMO). Þessi skjöl geta verið skipsdagbækur, aflabækur, umskipunar- og viðskiptaskjöl, áhafnarskrár, áætlanir og uppdrættir um frágang farms, lýsingar á fiskilestum og skjöl sem krafist er samkvæmt samningi um alþjóðaviðskipti með villt dýr og plöntur í útrýmingarhættu;


e)    athuga, að því marki sem unnt er, öll viðeigandi veiðarfæri og tengdan búnað um borð, þ.m.t. þau veiðarfæri og tengdan búnað sem geymd eru úr augsýn, og sannreyna, að því marki sem unnt er, að þessir hlutir standist skilyrðin sem getið er í leyfunum. Veiðarfærin skal yfirfara, að því marki sem unnt er, til að tryggja að atriði eins og möskvastærð og sverleiki garns, búnaður og fylgibúnaður, mál og samsetning neta, körfur, plógar, stærðir og fjöldi króka, séu í samræmi við gildandi reglur og að merkingar þeirra svari til búnaðar sem skipið hefur leyfi fyrir;

f)    ákvarða, að því marki sem unnt er, hvort fiskurinn um borð hafi verið veiddur í samræmi við gildandi leyfi;

g)    skoða fiskinn, þ.m.t. með sýnatöku, til þess að ákvarða magn og samsetningu. Í því skyni er eftirlitsmönnum heimilt að opna gáma þar sem fiski hefur verið forpakkað og færa aflann eða gáma til þess að ganga úr skugga um heildstæði fiskilesta. Slík athugun getur falið í sér skoðun á vörutegund og ákvörðun á nafnþyngd;


h)    meta hvort gildar vísbendingar séu um að skipið hafi stundað veiðar utan laga eða fiskveiðitengdra starfsemi til stuðnings við slíkar veiðar;


i)    afhenda skipstjóra skipsins skýrsluna með niðurstöðu skoðunarinnar, auk hugsanlegra aðgerða sem gripið gæti verið til, og skal hún undirrituð af eftirlitsmanni og skipstjóra. Undirritun skipstjóra á skýrsluna er aðeins til staðfestingar á móttöku afrits af skýrslunni. Veita skal skipstjóranum tækifæri til að bæta athugasemdum eða andmælum við skýrsluna og, eftir því sem við á, að hafa samband við viðkomandi stjórnvöld fánaríkisins, sérstaklega þegar skipstjórinn á í verulegum erfiðleikum með að skilja efni skýrslunnar. Afrit af skýrslunni skal afhenda skipstjóranum; og

j)    gera ráðstafanir, eftir þörfum og föngum, til þess að láta þýða viðkomandi gögn.

ANNEX B


Port State inspection procedures


Inspectors shall:

a)    verify, to the extent possible, that the vessel identification documentation onboard and information relating to the owner of the vessel is true, complete and correct, including through appropriate contacts with the flag State or international records of vessels if necessary;

b)    verify that the vessel's flag and markings (e.g. name, external registration number, International Maritime Organization (IMO) ship identification number, international radio call sign and other markings, main dimensions) are consistent with information contained in the documentation;

c)    verify, to the extent possible, that the authorizations for fishing and fishing related activities are true, complete, correct and consistent with the information provided in accordance with Annex A;

d)    review all other relevant documentation and records held onboard, including, to the extent possible, those in electronic format and vessel monitoring system (VMS) data from the flag State or relevant regional fisheries management organizations (RFMOs). Relevant documentation may include logbooks, catch, transshipment and trade documents, crew lists, stowage plans and drawings, descriptions of fish holds, and documents required pursuant to the Convention on International Trade in Endangered Species of Wild Fauna and Flora;

e)    examine, to the extent possible, all relevant fishing gear onboard, including any gear stowed out of sight as well as related devices, and to the extent possible, verify that they are in conformity with the conditions of the authorizations. The fishing gear shall, to the extent possible, also be checked to ensure that features such as the mesh and twine size, devices and attachments, dimensions and configuration of nets, pots, dredges, hook sizes and numbers are in conformity with applicable regulations and that the markings correspond to those authorized for the vessel;

f)    determine, to the extent possible, whether the fish on board was harvested in accordance with the applicable authorizations;

g)    examine the fish, including by sampling, to determine its quantity and composition. In doing so, inspectors may open containers where the fish has been pre-packed and move the catch or containers to ascertain the integrity of fish holds. Such examination may include inspections of product type and determination of nominal weight;

h)    evaluate whether there is clear evidence for believing that a vessel has engaged in IUU fishing or fishing related activities in support of such fishing;

i)    provide the master of the vessel with the report containing the result of the inspection, including possible measures that could be taken, to be signed by the inspector and the master. The master's signature on the report shall serve only as acknowledgment of the receipt of a copy of the report. The master shall be given the opportunity to add any comments or objection to the report, and, as appropriate, to contact the relevant authorities of the flag State in particular where the master has serious difficulties in understanding the content of the report. A copy of the report shall be provided to the master; and

j)    arrange, where necessary and possible, for translation of relevant documentation.

VIÐAUKI C

Skýrsla um niðurstöður eftirlitsskoðunar


1. Skoðunarskýrslunr. 2. Hafnríki
3. Skoðunaryfirvald
4. Nafn yfireftirlitsmanns Skilríki
5. Skoðunarhöfn
6. Skoðun hófst ÁÁÁÁ MM DD TT
7. Skoðun lauk ÁÁÁÁ MM DD TT
8. Fyrirfram tilkynning móttekin Nei
9. Erindi LÖN UMS VIS ANN (tiltaka)
10. Höfn og ríki síðustu viðkomuhafnar ÁÁÁÁ MM DD
11. Nafn skips
12. Fánaríki
13. Tegund skips
14. Alþjóðlegt fjarskiptakallmerki
15. Skráningarskírteini
16. IMO-númer skips, ef tiltækt
17. Ytra auðkenni, ef tiltækt
18. Heimahöfn
19. Eigandi skips
20. Endanlegt eignarhald skips, ef þekkt og annað en skráð eignarhald
21. Útgerðaraðili/ar, ef annar/aðrir en eigandi skips
22. Undirritun eftirlitsmanns
23. Nafn og þjóðerni skipstjóra
24. Umboðsaðili skips
25. VMS Nei Já: Landsbundið Já: RMFO Gerð:
26. Staða skips innan fiskveiðistjórnunarsvæða (RFMO-svæða) þar sem fiskveiðar og fiskveiðitengd starfsemi hefur verið stunduð, þ.á m. á listum yfir lögleysuveiðar
Kennimerki skips RMFO Staða fánaríkis Skip á leyfislista Skip á lista yfir veiðar utan laga
27. Viðeigandi veiðileyfi
Kennimerki Útgefið af Gildistími Veiðisvæði Tegundir Veiðarfæri
28. Viðeigandi umskipunarleyfi
Kennimerki Útgefið af Gildistími
Kennimerki Útgefið af Gildistími
29. Umskipunarupplýsingar um affermd veiðiskip
Nafn Fánaríki Kenninr. Tegundir Form vöru Veiðisvæði Magn
30. Mat á affermdum afla (magn)
Tegundir Form vöru Veiðisvæði Uppgefið magn Affermt magn Munur á uppgefnu magni og ákvörðuðu magni, ef nokkur
31. Afli eftir um borð (magn)
Tegundir Form vöru Veiðisvæði Uppgefið magn Affermt magn Munur á uppgefnu magni og ákvörðuðu magni, ef nokkur
32. Athugun afladagbóka og annarra skjala Nei Athugasemdir
33. Fylgni við gildandi aflaskráningarkerfi Nei Athugasemdir
34. Fylgni við gildandi viðskiptaskráningarkerfi Nei Athugasemdir
35. Gerð veiðarfæra sem notuð voru
36. Veiðarfæri athuguð í samræmi við málsgrein e) í viðauka B Nei Athugasemdir
37. Niðurstöður eftirlitsmanna
38. Meint brot og auk vísunar til viðkomandi lagagerninga
39. Athugasemdir skipstjóra
40. Ráðstafanir
41. Undirritun skipstjóra
42. Undirritun eftirlitsmanns
ANNEX C

Report of the results of the inspection


1. Inspection report no 2. Port State
3. Inspecting authority
4. Name of principal inspector ID
5. Port of inspection
6. Commencement of inspection YYYY MM DD HH
7. Completion of inspection YYYY MM DD HH
8. Advanced notification received Yes No
9. Purpose(s) LAN TRX PRO OTH (specify)
10. Port and State and date of last port call YYYY MM DD
11. Vessel name
12. Flag State
13. Flag State
14. International Radio Call Sign
15. Certificate of registry ID
16. IMO ship ID, if available
17. External ID, if available
18. Port of registry
19. Vessel owner(s)
20. Vessel beneficial owner(s), if known and different from vessel owner
21. Vessel operator(s), if different from vessel owner
22. Vessel master name and nationality
23. Fishing master name and nationality
24. Vessel agent
25. VMS No Yes: National Yes: RFMOs Type:
26. Status in RFMO areas where fishing or fishing related activities have been undertaken, including any IUU vessel listing
Vessel identifier RFMO Flag State status Vessel on authorized vessel list Vessel on IUU vessel list
27. Relevant fishing authorization(s)
Identifier Issued by Validity Fishing area(s) Species Gear
28. Relevant transshipment authorization(s)
Identifier Issued by Validity
Identifier Issued by Validity
29. Transshipment information concerning donor vessels
Name Flag State ID no. Species Product form Catch area(s) Quantity
30. Evaluation of offloaded catch (quantity)
Species Product form Catch area(s) Quantity declared Quantity offloaded Difference between quantity declared and quantity determined, if any
31. Catch retained onboard (quantity)
Species Product form Catch area(s) Quantity declared Quantity offloaded Difference between quantity declared and quantity determined, if any
32. Examination of logbook(s) and other documentation Yes No Comments
33. Compliance with applicable catch documentation scheme(s) Yes No Comments
34. Compliance with applicable trade information scheme(s) Yes No Comments
35. Type of gear used
36. Gear examined in accordance with paragraph e) of Annex B Yes No Comments
37. Findings by inspector(s)
38. Apparent infringement(s) noted including reference to relevant legal instrument(s)
39. Comments by the master
40. Action taken
41. Master's signature
42. Inspector's signature
VIÐAUKI D

Upplýsingakerfi um hafnríkisaðgerðir


Við innleiðingu samnings þessa, skal hver samningsaðili:

a)    leitast við að koma á tölvusamskiptum skv. 16. gr.;

b)    setja upp, að því marki sem unnt er, vefsíður þar sem listi tilgreindra hafna er birtur, sbr. 7. gr., svo og aðgerðir sem gripið hefur verið til skv. viðeigandi ákvæðum samnings þessa;


c)    auðkenna, að því marki sem mögulega er unnt, hverja eftirlitsskýrslu með einkvæmu tilvísunarnúmeri sem hefst á þriggja stafa kóða hafnríkisins og auðkenni útgáfustofnunar;

d)    nýta, eins og unnt er, alþjóðlega kóðunarkerfið hér að neðan í viðaukum A og C og þýða önnur kóðunarkerfi yfir á alþjóðlega kerfið.


ríki/svæði:    ISO-3166 þriggja stafa ríkiskóði

tegundir:    ASFIS þriggja stafa kóði (þekktur sem FAO þriggja stafa kóði)
gerð skipa:    ISSCFV-kóði (þekktur sem FAO alfakóði)
gerð veiðarfæra:    ISSCFG-kóði (þekktur sem FAO alfakóði)

ANNEX D

Information systems on port State measures


In implementing this Agreement, each Party shall:


a)    seek to establish computerized communication in accordance with Article 16;

b)    establish, to the extent possible, websites to publicize the list of ports designated in accordance with Article 7 and the actions taken in accordance with the relevant provisions of this Agreement;

c)    identify, to the greatest extent possible, each inspection report by a unique reference number starting with 3-alpha code of the port State and identification of the issuing agency;

d)    utilize, to the extent possible, the international coding system below in Annexes A and C and translate any other coding system into the international system.

countries/territories:    ISO-3166 3-alpha Country Code
species:    ASFIS 3-alpha code (known as FAO 3-alpha code)
vessel types:    ISSCFV code (known as FAO alpha code)
gear types:    ISSCFG code (known as FAO alpha code)

VIÐAUKI E

Leiðbeiningar um þjálfun eftirlitsmanna


Þjálfunarnámskeið eftirlitsmanna hafnríkja ætti að lágmarki að fjalla um eftirtalda þætti:

1.    siðareglur;

2.    heilsu-, öryggis- og gæslumál;

3.    gildandi landslög og reglur, valdsvið og verndunar- og stjórnunarráðstafanir viðeigandi svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana og gildandi alþjóðalög;

4.    öflun, mat og varðveislu sönnunargagna;


5.    almennar eftirlitsaðferðir á borð við skýrslugerð og viðtalstækni;

6.    greiningu á gögnum á borð við afladagbækur, rafræn skjöl og sögu skips (nafn, eignarhald og fánaríki), sem þarf til að sannreyna upplýsingarnar sem skipstjórinn veitir;


7.    uppgöngu á skip og eftirlit, þ.m.t. skoðun á lestum og útreikning á rúmmáli lesta;


8.    sannprófun og staðfestingu upplýsinga varðandi landanir, umskipanir, vinnslu og fisk sem eftir er um borð, svo og notkun breytistuðla fyrir mismunandi tegundir og vörur;

9.    auðkenningu fisktegunda, mælingu lengdar og annarra líffræðilegra breyta;

10.    auðkenningu skipa og veiðarfæra, og tækni við athugun og mælingu veiðarfæra;

11.    búnað og virkni VMS og annars rafræns staðsetningarbúnaðar; and

12.    aðgerðir að lokinni eftirlitsskoðun.

STAÐFEST AFRIT af enskri útgáfu samningsins um aðgerðir hafnríkja til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar fiskveiðar sem samþykkt var 22. nóvember 2009 á þrítugasta og sjötta fundi FAO-ráðstefnunnar. Í samræmi við ákvæði 7. mgr. XIV gr. stofnskrár FAO, hefur þetta verið staðfest af aðalframkvæmdastjóra stofnunarinnar og forseta ráðstefnunnar.


Jacques Diouf Kathleen Merrigan
Aðalframkvæmdastjóri
Matvæla- og Landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna
Formaður ráðstefnunnar

ANNEX E


Guidelines for the training of inspectors


Elements of a training programme for port State inspectors should include at least the following areas:

1.    Ethics;

2.    Health, safety and security issues;

3.    Applicable national laws and regulations, areas of competence and conservation and management measures of relevant RFMOs, and applicable international law;

4.    Collection, evaluation and preservation of evidence;

5.    General inspection procedures such as report writing and interview techniques;

6.    Analysis of information, such as logbooks, electronic documentation and vessel history (name, ownership and flag State), required for the validation of information given by the master of the vessel;

7.    Vessel boarding and inspection, including hold inspections and calculation of vessel hold volumes;

8.    Verification and validation of information related to landings, transshipments, processing and fish remaining onboard, including utilizing conversion factors for the various species and products;

9.    Identification of fish species, and the measurement of length and other biological parameters;

10.    Identification of vessels and gear, and techniques for the inspection and measurement of gear;

11.    Equipment and operation of VMS and other electronic tracking systems; and

12.    Actions to be taken following an inspection.

CERTIFIED TRUE COPY of the English version of the Agreement on Port State Measures to Prevent, Deter and Eliminate Illegal, Unreported and Unregulated Fishing which was approved on 22 November 2009 at the Thirty-sixth Session of the FAO Conference. In accordance with the provisions of paragraph 7 of Article XIV of the FAO Constitution, this has been certified by the Director-General of the Organization and the Chairperson of the Conference.

Jacques Diouf Kathleen Merrigan
Director-General
Food and Agriculture Organization of
the United Nations
Chairperson of the Conference