Ferill 23. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 23  —  23. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um að efla samstarf Íslands og Grænlands.


Flm.: Össur Skarphéðinsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Katrín Jakobsdóttir,
Óttarr Proppé, Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hjörvar, Valgerður Bjarnadóttir,
Kristján L. Möller, Páll Valur Björnsson.


    Alþingi lýsir stuðningi við söguleg skref sem vina- og nágrannaþjóð Íslendinga á Grænlandi hefur á síðustu áratugum tekið til aukinnar sjálfstjórnar og felur ríkisstjórninni að efla tengsl og samvinnu við Grænland með því að:
     a.      vinna að gerð samkomulags sem tryggi fullt tollfrelsi varðandi sölu varnings og þjónustu og jafnhliða verði unnið að því að ryðja öðrum hindrunum úr vegi greiðra viðskipta og þátttöku í atvinnulífi,
     b.      örva tengsl milli yngstu kynslóða þjóðanna, m.a. með sameiginlegum verkefnum á leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólastigi; slíkt samstarf verði stutt af Grænlandssjóði og ríkisstjórninni falið að efla hann með viðeigandi hætti,
     c.      auka samstarf háskóla landanna, m.a. með því að tryggja að háskólanemar geti fengið námskeið metin milli háskóla beggja landa til lokaprófs, stofna íslenskan samkeppnissjóð sem veiti árlega örvunarstyrki til sameiginlegra rannsóknarverkefna ungra fræðimanna á sviði norðurslóða og samhliða verði starfsmönnum háskólanna gert kleift að stunda gestakennslu eða starfsþjálfun við samstarfsskóla eða -stofnanir,
     d.      koma á öflugu rannsóknasamstarfi milli Pinngortitaleriffik, umhverfisstofnunar Grænlands, og íslenskra stofnana á sviði jökla, hafs, veðurfars, fiskistofna, umhverfis og annarra fræðasviða sem tengjast norðurslóðum,
     e.      bjóða til samstarfs á sviði sjávarútvegs í því augnamiði að auka afrakstur af sjávarauðlindum landanna,
     f.      beita sér fyrir formlegu samkomulagi milli samtaka atvinnulífs landanna um tímabundið starfsnám hjá fyrirtækjum sem hafa hlutverki að gegna í þróun viðskipta milli þjóðanna,
     g.      taka frumkvæði að úttekt á mögulegri samvinnu á sviði læknis- og heilbrigðisþjónustu sem verði undirstaða rammasamnings um stóreflt samstarf á þeim sviðum,
     h.      efla samstarf um ferðaþjónustu, m.a. um að auka aðdráttarafl beggja landanna með því að gera Grænland að áfangastað ferðamanna sem koma til Íslands,
     i.      efla samstarf og ráðgjöf á sviði vatnsaflsverkefna á Grænlandi,
     j.      undirbúa samkomulag um þjónustu við hugsanlega starfsemi á austurströnd Grænlands í tengslum við sjálfbæra auðlindanýtingu,
     k.      vinna að sameiginlegri framtíðarsýn um nýjar skipaleiðir á norðurslóðum og úttekt á ávinningum Grænlands og Íslands af miðleiðinni um norðurskautið,
     l.      efla samvinnu gegn loftslagsvá og taka upp formlegt samstarf á sviði umhverfisverndar samhliða auknum umsvifum á hafinu milli Íslands og Grænlands. Sérstaklega verði hugað að áhrifum aukinna vöruflutninga um Norður-Íshafið og vaxandi skipaumferðar á norðurslóðum,
     m.      efla á alla lund starfsemi Vestnorræna ráðsins í því skyni að styrkja enn frekar pólitísk, menningarleg og viðskiptaleg tengsl Íslands, Færeyja og Grænlands, og vinna að því að formfesta árlega fundi æðstu manna þjóðanna,
     n.      tryggja að aukið samstarf við Grænland verði þáttur í að efla samstarf milli íbúa á vesturhluta vestnorræna svæðisins,
     o.      leggja fyrir Alþingi stefnumótun um málefni frumbyggja á heimskautasvæðum þar sem áhersla verði lögð á að styðja aðkomu þeirra og áhrif varðandi málefni sem snerta þá með beinum og óbeinum hætti.

Greinargerð.

    Íslendingar hafa margar og ríkar ástæður til að styrkja sambandið við Grænland. Þær eru bæði landfræðilegar og sögulegar, en ekki síst pólitískar og efnahagslegar. Grænland er næsti nágranni Íslands og aðeins 290 km á milli austurstrandar þess og Bjargtanga, ysta odda Látrabjargs. Sögulega má rekja tengslin til fyrstu aldar Íslandsbyggðar þegar Eiríkur rauði fór til Grænlands í útlegð og byggði Brattahlíð. Grænland skipti í öndverðu miklu meira máli fyrir menningarsögu Íslands en er á almanna vitorði. Helgi Guðmundsson sýndi fram á í bókinni Um haf innan (1997) að milliríkjaverslun með grænlenskt tannfé, fálka og feldi, jafnvel tamda ísbirni, skapaði auðinn sem stóð undir handritagerð á fyrstu öldum Íslandssögunnar. Þegar íslensku nýlendurnar á Grænlandi hurfu inn í myrkur sögunnar féllu samskiptin niður þangað til á síðustu öld. Nú eru Íslendingar og Grænlendingar nánar vina- og samstarfsþjóðir með vaxandi tengsl á öllum sviðum og eiga ríka sameiginlega hagsmuni varðandi loftslagsbreytingar, vernd norðurslóða og nýtingu auðlinda. Í kjölfar hlýnunar andrúmsloftsins munu breytingar á umhverfi og atvinnuháttum í norðri kalla á aukið samstarf þjóðanna á fjölmörgum sviðum.

Auðlindir og sjálfstjórn.
    Danmörk og Noregur gerðu öldum saman tilkall til Grænlands en frá 1814 varð það formlega nýlenda Danmerkur. Árið 1953 varð landið svo formlega hluti af danska konungsríkinu samkvæmt stjórnarskrá Danmerkur. Vilji til aukinnar sjálfstjórnar hefur jafnan vakað í vitund Grænlendinga. Baráttan fyrir henni hófst á seinni hluta síðustu aldar. Hún leiddi til heimastjórnar árið 1979 og sjálfstjórnar 30 árum síðar. Grænlenska varð þá eina opinbera tungumál landsins og Grænlendingar fengu í sínar hendur um 85% af málefnum landsins. Einu málin sem þeir fara ekki með sjálfir eru utanríkismál, varnarmál og dóms- og réttarkerfið. Afstaðan til sjálfstjórnar birtist skýrt í allsherjaratkvæðagreiðslu um sjálfstjórnarlögin 2009. Um 3/ 4 Grænlendinga guldu jáyrði við þeim.
    Með sjálfstjórn fengu Grænlendingar í hendur langþráða stjórn á auðlindum sínum. Þó að enn sé ósamið um hvernig hagnaði af þeim skuli skipt milli Danmerkur og Grænlands gegna þær lykilhlutverki við frekari þróun sjálfstjórnar. Grænlensku auðlindirnar eru gríðarmiklar. Í jörðu er að finna sjaldgæfa málma, auk úrans og sinks, en einnig hefðbundna eins og járn, kopar og nikkel. Hlýnandi veðrátta er líkleg til að auka fiskgengd innan efnahagslögsögunnar eins og vesturgöngur makríls sýna. Bandaríska jarðfræðistofnunin telur að miklar olíu- og gaslindir séu fyrir norðausturströndinni. Auðlindum Grænlands eru gerð ítarleg skil í nýútkominni skýrslu Til gavn for Grønland sem grænlenski háskólinn Ilisimatusarfik og Hafnarháskóli gáfu nýlega út. Guðmundur Alfreðsson prófessor var einn höfunda hennar. Fæstar þessara auðlinda eru hins vegar auðunnar sökum víðfeðmis landsins, fámennis og erfiðrar veðráttu.

Sameiginlegir hagsmunir.
    Stefnuskrár stjórnmálaflokka á Grænlandi benda til að vilji Grænlendinga standi til að taka enn frekari skref til sjálfstjórnar. Það mun helgast af því hversu vel þeim tekst að nýta auðlindir sínar. Úr þeim þurfa Grænlendingar að vinna nægileg verðmæti til að standa á eigin fótum og byggja samhliða velferðarsamfélag sem stenst kröfur nútímans. Íslendingar hafa sjálfir brotist til sjálfstæðis, þekkja slíka baráttu af eigin raun og sjálfsákvörðunarréttur þjóða hefur langa hríð verið eitt meginstefið í utanríkisstefnu Íslands. Við höfum því jafnan stutt þau skref sem Grænlendingar hafa sameiginlega tekið til aukinnar sjálfstjórnar.
    Breytingar á norðurslóðum í kjölfar hlýnunar munu skapa bæði ógnir og ný tækifæri fyrir báðar þjóðirnar. Margvíslegir sameiginlegir hagsmunir, bæði varðandi vernd umhverfis og nýtingu auðlinda, jafnvel nýjar skipaleiðir, kalla því á aukna samvinnu milli þeirra. Aukið samstarf á öllum sviðum, jafnt hinum menningarlegu, pólitísku og viðskiptalegu, mun auka styrkleika beggja.
    Íslendingar stigu mikilvægt skref til að treysta samstarfið við Grænland þegar þeir, fyrstir þjóða, settu upp varanlega ræðisskrifstofu í Nuuk. Grænland er ekki sjálfstætt ríki og því ekki hægt að stofna hefðbundið sendiráð á Grænlandi. Hugur Íslands var undirstrikaður með því að við skipun fyrsta aðalræðismanns Íslands hlaut hann samhliða titil sendiherra innan íslensku utanríkisþjónustunnar. Stutt reynsla af ræðisskrifstofunni sýnir að með henni var stigið mikilvægt skref.
    Þó að íslenska þjóðin og sú grænlenska hafi um langt skeið átt í margvíslegum jákvæðum samskiptum er tímabært að efla þau að miklum mun. Ísland á að sýna í verki að það vill ljá Grænlandi framtíðarinnar bæði ráð og dáð.

Efnisatriði tillögunnar.
    Besta leiðin til að efla tengsl milli þjóða er að örva samskipti á sviði viðskipta og menningar. Í þeim anda eru tíu af fimmtán liðum tillögunnar. Flestir skýra sig sjálfir. Nokkur áhersluatriði eru þó dregin sérstaklega fram hér að aftan og í sumum tilvikum er bakgrunnur einstakra liða skýrður.

Fríverslun.
    Íslendingar hafa um langan aldur tekið þátt í margháttuðum verkefnum á Grænlandi, einkum ýmiss konar mannvirkjagerð. Sú mikla uppbygging sem Grænlendingar áforma á næstu áratugum er líkleg til að skapa aukin samskipti á viðskiptasviðinu. Nú þegar er gróin milliríkjaverslun í gangi. Íslendingar fluttu árið 2012 inn vörur, einkum fisk, frá Grænlandi fyrir ríflega 1,4 milljarða kr. og út til Grænlands vörur fyrir tæplega 2,7 milljarða kr. Engum blandast hugur um að þessi viðskipti munu margfaldast. Miklir og gagnkvæmir framtíðarhagsmunir felast því í að koma sem fyrst á fríverslun milli landanna.
    Hoyvíkursamningurinn við Færeyjar er víðtækasti samningur sem Íslendingar hafa gert um fríverslun. Þótt ekki sé minnst á Grænland í samningnum heimilar 11. gr. hans aðild Grænlendinga, eins og bæði Íslendingar og Færeyingar hafa lagt áherslu á. Samningurinn var hins vegar gerður út frá hagsmunum samningsþjóðanna tveggja en ekki með sérstöku tilliti til sérgrænlenskra þarfa. Grænlendingar þyrftu að öllum líkindum að semja sérstaklega um ýmsa þætti og má nefna sjóflutninga sem dæmi. Þeir hafa því fremur hallast að samstarfi um fríverslun á tvíhliða grunni, a.m.k. í upphafi. Fyrsta skref ríkisstjórnarinnar ætti því að vera að kanna vilja Grænlendinga og vinna út frá honum.

Samstarf á sviði mennta.
    Samskipti á milli æskufólks eru árangursrík leið til að þróa sterk tengsl þjóða til langframa. 40 heimsóknir skákfélagsins Hróksins til Grænlands til að kenna grænlenskri æsku manntafl og árlegar heimsóknir grænlenskra skólabarna til sundnáms á Íslandi á vegum Kalaks, vinafélags Grænlands og Íslands, eru dæmi um það. Á það benti einmitt aðalræðismaður Íslands á Grænlandi, Pétur Ásgeirsson, á opnum fundi um samskipti þjóðanna í júlí sl.
    Í þeim anda felur tillagan í sér að samskipti milli ungra Grænlendinga og Íslendinga séu skipulega örvuð frá yngsta skólastigi til loka háskólanáms. Því er m.a. lagt til að breyta samstarfi háskóla landanna á þann hátt að nemar beggja geti nýtt sér háskólanámskeið í hinu landinu til lokaprófs heima fyrir. Farsælast væri að slíkt samstarf á milli háskólans í Nuuk og íslensku háskólanna væri hluti af vestnorrænu samstarfi á milli Íslands, Grænlands og Færeyja á sviði háskólanáms. Efalítið yrði það ómetanleg lyftistöng fyrir framtíðartengsl þjóðanna þriggja. Hjá Háskólanum á Akureyri hefur slíkt kerfi verið í undirbúningi.
    Frumkvæði ræðisskrifstofu Íslands í Nuuk að starfsnámi hjá fyrirtækjum í hinu landinu er af sama meiði. Í tillögunni er lagt til að slíkum skiptum verði komið í fastan farveg með formlegu samkomulagi milli samtaka atvinnulífsins í löndunum tveimur.

Viðskipti og atvinnulíf.
    Hagsmunir Íslands og Grænlands fléttast víða saman með margvíslegum og ólíkum hætti. Grænlenskar hagtölur sýna að sjávarútvegur er mikilvæg uppspretta atvinnu og tekna fyrir grænlenska hagkerfið. Úttekt Íslenska sjávarklasans á grænlenskum sjávarútvegi sýnir hins vegar að fyrir hvert kíló af sjávarafurðum, sem Grænlendingar selja á markaði, fá þeir minna en Íslendingar fyrir sams konar afurðir. Munurinn á þorski nemur 123%, grálúðu 78% og úthafsrækju 50%. Tækist í anda e-liðar tillögunnar að auka virði grænlensks sjávarfangs til jafns við hið íslenska með samstarfi um afurðaþróun, markaðssetningu og bætta meðferð á afla mundi það leiða til aukinna tekna fyrir grænlenskan sjávarútveg sem næmi tæplega 2.600 milljónum danskra króna.
    Norðausturströnd Grænlands er erfitt að sinna nema frá Íslandi. Gagnkvæmur hagur þjóðanna felst því í að byggja upp á Íslandi þjónustu við nýtingu Grænlendinga á auðlindum sínum við austurströndina. Allt bendir til þess að fiskveiðar aukist í hafinu milli Íslands og Grænlands. Rannsóknir frá síðasta sumri benda til aukningar makríls í grænlensku efnahagslögsögunni, og aukinn sjávarhiti er líklegur til að efla viðgang staðbundinna tegunda. Grænlendingar áforma aukna leit og jafnvel vinnslu auðlinda undir hafsbotni og hafa óformlega óskað samstarfs um þjónustu frá Íslandi á því sviði. Í því gætu falist miklir efnahagslegir hagsmunir beggja þjóðanna.
    Í gerólíkri grein, flug- og ferðaþjónustu tengjast líka hagsmunir þjóðanna. Grænlandsflug er um fimmtungur af veltu Flugfélags Íslands og því með óbeinum hætti burðarstoð innanlandsflugs á Íslandi. Grænlendingar hafa einnig haft margháttaðan hag af auknum umsvifum félagsins á Grænlandi. Þau hafa leitt til þess að ferðamönnum til Grænlands hefur fjölgað umtalsvert, t.d. verulega á Ilulissat-svæðinu að sögn ferðaþjónustunnar þar. Þróunin í ferðaþjónustu til Grænlands er þannig að stór hluti ferðalanga sem þangað halda í afþreyingarskyni koma gegnum Ísland. Þannig er landið og Flugfélag Íslands orðið að hliði umheimsins að Grænlandi fyrir almenna ferðamenn. Það skiptir því grænlenska ferðaþjónustu miklu máli að Grænland sé gert að áfangastað ferðalanga til Íslands í eins ríkum mæli og hægt er. Jafnframt opnar það ferðaþjónustu á Íslandi tækifæri til að örva þá sem hafa Grænland að endanlegum áfangastað til að lengja ferðina með dvöl á Íslandi. Hvort tveggja styrkir svo innanlandsflug á Íslandi með því að efla flugfélög sem því sinna.

Heilbrigðisþjónusta.
    Þó að Grænlendingar hafi ötullega byggt upp heilbrigðisþjónustu þurfa grænlenskir sjúklingar að leita til Danmerkur um ýmsar flóknari aðgerðir og sérfræðilega aðstoð. Heilbrigðisstofnanir hér á landi hafa tekið að sér sértækar aðgerðir á grundvelli útboða og sinnt bráðaþjónustu, m.a. fyrir sjúklinga á austurströndinni. Sérfræðilæknar og tannlæknar frá Íslandi hafa líka veitt þjónustu á Grænlandi í nokkrum mæli. Í gildi er samningur um samstarf í þessum efnum frá 2009 en hægt er að eiga mun meiri samvinnu á heilbrigðissviði. Fyrir grænlenska sjúklinga er hagkvæmt bæði með tilliti til kostnaðar og tímasparnaðar að sækja þjónustu hingað fremur en til Danmerkur. Á þetta hefur ítrekað verið lögð áhersla í ályktunum Vestnorræna ráðsins.
    Íslendingar hafa enn fremur þróað góðar forvarnir á ýmsum sviðum sem gætu gagnast Grænlendingum vel. Báðar þjóðirnar hafa glímt við böl alkóhólismans sem Grænlendingar sjálfir hafa skilgreint sem eitt helsta heilbrigðisvandamál sitt. Löng reynsla Íslendinga af meðhöndlun sjúkdómsins jafnt sem forvörnum gæti reynst Grænlendingum mikilvæg. Vanlíðan barna, m.a. vegna misnotkunar, er einnig vandamál á Grænlandi sem Íslendingar hafa sjálfir horfst í augu við. Forvarnir á því sviði og íslensk reynsla af vernd barna gæti því einnig nýst Grænlendingum.
    Heilbrigðisþjónusta varðar mikilvæga grunnþætti samfélaga og stóraukið samstarf á því sviði er vel fallið til að efla tengsl þjóðanna.