Ferill 222. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 234  —  222. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

Frá dómsmálaráðherra.I. KAFLI

Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

1. gr.

    84. og 85. gr. laganna falla brott.

II. KAFLI

Breyting á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, með síðari breytingum.

2. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem hlotið hefur dóm fyrir refsivert brot og refsing er óskilorðsbundið fangelsi, frá þeim degi sem dómur er upp kveðinn og þar til afplánun er að fullu lokið.

III. KAFLI

Breyting á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „hefur óflekkað mannorð“ í 1. mgr. kemur: afplánar ekki óskilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir refsivert brot.
     b.      2. og 3. mgr. falla brott.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um dómstóla, nr. 50/2016, með síðari breytingum.

4. gr.

    Í stað orðanna „gerst sekur um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti“ í 5. tölul. 2. mgr. 13. gr. laganna kemur: hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára.

5. gr.

    Í stað orðanna „gerst sekur um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti“ í 5. tölul. 2. mgr. 21. gr. laganna kemur: hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára.

6. gr.

    Í stað orðanna „gerst sekur um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti“ í 5. tölul. 2. mgr. 29. gr. laganna kemur: hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára.

7. gr.

    Í stað orðanna „gerst sekir um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti“ í 3. mgr. 39. gr. laganna kemur: hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að þeir urðu fullra 18 ára.

V. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.

8. gr.

    Í stað orðanna „gerst sekir um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti“ í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að þeir urðu fullra 18 ára.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 81. gr. laganna:
     a.      Orðin „hafi óflekkað mannorð“ falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hann má ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.

10. gr.

    Í stað orðanna „gerst sekir um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti“ í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að þeir urðu fullra 18 ára.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um landsdóm, nr. 3/1963, með síðari breytingum.

11. gr.

    3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Hafi hvorki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um samningsbundna gerðardóma, nr. 53/1989, með síðari breytingum.

12. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: Þeir mega ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

IX. KAFLI

Breyting á lögum um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, með síðari breytingum.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 18. gr. laganna:
     a.      Orðin „óflekkað mannorð“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá mega þeir ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

14. gr.

    Í stað orðanna „hafi ekki orðið sannur að refsiverðu athæfi sem verður talið svívirðilegt að almenningsáliti eða“ í 4. tölul. 2. mgr. 46. gr. laganna kemur: hafi hvorki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára né orðið sannur að.

X. KAFLI

Breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum.

15. gr.

    Í stað orðanna „hafi ekki orðið sannur að refsiverðu athæfi sem verður talið svívirðilegt að almenningsáliti eða“ í 4. tölul. 2. mgr. 75. gr. laganna kemur: hafi hvorki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára né orðið sannur að.

XI. KAFLI

Breyting á lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, nr. 50/2014, með síðari breytingum.

16. gr.

    Í stað orðanna „Hefur hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti“ í e-lið 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: Hefur hvorki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára.

XII. KAFLI

Breyting á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum.

17. gr.

    Í stað orðanna „hafa hvorki gerst sekir um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti“ í e-lið 2. mgr. 28. gr. laganna kemur: hafa hvorki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að þeir urðu fullra 18 ára.

18. gr.

    Í stað orðanna „gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti“ í 28. gr. a laganna kemur: hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára.

XIII. KAFLI

Breyting á lögum um lögmenn, nr. 77/1998, með síðari breytingum.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      3. tölul. 1. mgr. orðast svo: hefur aldrei hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára.
     b.      Í stað orðanna „fengnum meðmælum“ í 2. mgr. kemur: fenginni umsögn.
     c.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Víkja má frá skilyrði 3. tölul. 1. mgr. að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands þegar fimm ár eru liðin frá því að afplánun lauk að fullu en þó ekki ef eðli brotsins og háttsemi umsækjanda er til þess fallin að rýra það traust sem lögmenn þurfa að njóta. Við matið skal líta til eðlis og alvarleika brotsins, m.a. þeirra hagsmuna sem brotið var gegn, ásetnings og aldurs umsækjanda þegar brot var framið, hvort brotið hafi verið framið í tengslum við atvinnurekstur og þess tjóns sem brotið olli. Þá skal einnig meta háttsemi umsækjanda frá því að afplánun lauk, þá einkum hvort umsækjandi hafi ólokin mál í refsivörslukerfinu.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „fengnum meðmælum“ í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur: fenginni umsögn.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Hafi lögmaður verið sviptur réttindum ótímabundið með dómi skv. 68. gr. almennra hegningarlaga er honum heimilt þegar fimm ár eru liðin frá því að afplánun lauk að fullu að bera undir dómstóla samkvæmt reglum um meðferð sakamála hvort fella skuli niður réttindasviptinguna. Við mat á því hvort fella skuli niður sviptingu réttinda skal dómari líta til þess hvort eðli brotsins og háttsemi umsækjanda sé til þess fallin að rýra það traust sem lögmenn þurfa að njóta, sbr. 3. mgr. 6. gr.

XIV. KAFLI

Breyting á lögum um almennar íbúðir, nr. 52/2016, með síðari breytingum.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 22. gr. laganna:
     a.      Orðin „skulu hafa óflekkað mannorð og“ falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þeir mega ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XV. KAFLI

Breyting á lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, nr. 60/2012, með síðari breytingum.

22. gr.

    Orðin „hafa óflekkað mannorð“ í 1. málsl. 4. mgr. 16. gr. laganna falla brott.

XVI. KAFLI

Breyting á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 8. gr. a laganna:
     a.      Orðin „hafa óflekkað mannorð auk þess sem“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá mega þeir ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XVII. KAFLI

Breyting á lögum um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003, með síðari breytingum.

24. gr.

    Orðin „hafa óflekkað mannorð“ í 5. mgr. 6. gr. laganna falla brott.

XVIII. KAFLI

Breyting á lögum um endurskoðendur, nr. 79/2008, með síðari breytingum.

25. gr.

    3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo: hafa ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XIX. KAFLI

Breyting á innheimtulögum, nr. 95/2008, með síðari breytingum.

26. gr.

    B-liður 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: hefur ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XX. KAFLI

Breyting á lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 41/2015, með síðari breytingum.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á n-lið 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „hafi óflekkað mannorð og“ kemur: og hafi.
     b.      Við bætist: þeir mega ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XXI. KAFLI

Breyting á samkeppnislögum, nr. 44/2005, með síðari breytingum.

28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 7. gr. laganna:
     a.      Orðin „skulu hafa óflekkað mannorð og“ falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá mega þeir ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XXII. KAFLI

Breyting á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, með síðari breytingum.

29. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 8. gr. laganna:
     a.      Orðin „skulu hafa óflekkað mannorð og“ falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá mega þeir ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XXIII. KAFLI

Breyting á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, með síðari breytingum.

30. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 4. gr. laganna:
     a.      Orðin „skulu hafa óflekkað mannorð og“ í 2. málsl. Falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá mega þeir ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XXIV. KAFLI

Breyting á lögum um kauphallir, nr. 110/2007, með síðari breytingum.

31. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 11. gr. laganna:
     a.      Orðin „og hafa óflekkað mannorð“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá mega þeir ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XXV. KAFLI

Breyting á lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983, með síðari breytingum.

32. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „þeir skulu hafa óflekkað mannorð og“ í 1. málsl. kemur: og þeir.
     b.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá mega þeir ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XXVI. KAFLI

Breyting á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, með síðari breytingum.

33. gr.

    Í stað 2. málsl. 3. mgr. 6. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þeir mega ekki hafa hlotið dóm á næstliðnum tíu árum fyrir fjármunabrot samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum á sviði fjármálamarkaðar eða öðrum lögum sem varða starfsemi félaga, eða sætt íþyngjandi stjórnvaldsviðurlögum sem einstaklingar eða fyrirsvarsmenn lögaðila á framangreindum sviðum. Þá mega þeir ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XXVII. KAFLI

Breyting á lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, með síðari breytingum.

34. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 4. gr. laganna:
     a.      Orðin „hafa óflekkað mannorð“ falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá mega þeir ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XXVIII. KAFLI

Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum.

35. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 31. gr. laganna:
     a.      Orðin „hafa óflekkað mannorð“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá mega þeir ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XXIX. KAFLI

Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

36. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. tölul. 1. mgr. 85. gr. laganna:
     a.      Orðin „óflekkað mannorð eða hafi“ falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá má hann ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XXX. KAFLI

Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

37. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. tölul. 2. mgr. 48. gr. laganna:
     a.      Orðin „hafa óflekkað mannorð“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þeir mega ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

38. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. tölul. 1. mgr. 91. gr. laganna:
     a.      Orðin „hafa óflekkað mannorð“ í 2. málsl. falla brott.
     b.      Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá mega þeir ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XXXI. KAFLI

Breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, með síðari breytingum.

39. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 135. gr. laganna:
     a.      Orðin „hafa óflekkað mannorð“ í 2. málsl. falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá má hann ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XXXII. KAFLI

Breyting á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, með síðari breytingum.

40. gr.

    Í stað orðanna „hafa óflekkað mannorð“ í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: hann má ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

41. gr.

    Í stað orðanna „og hafa óflekkað mannorð“ í 1. málsl. í 42. gr. laganna kemur: og mega ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

42. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
     a.      Orðin „sem eru fjár síns ráðandi og hafa óflekkað mannorð“ falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þeir þurfa að vera fjár síns ráðandi og þeir mega ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

XXXIII. KAFLI

Gildistaka

43. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu þar sem unnið hefur verið að heildarendurskoðun á því fyrirkomulagi sem falist hefur í uppreist æru, sbr. lög nr. 80/2017, um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Með fyrrnefndum lögum og þeirri heildarendurskoðun sem fram fer nú er horfið endanlega frá þeirri framkvæmd að stjórnvöld taki ákvarðanir um uppreist æru. Þá er með frumvarpi þessu einnig lagt til að horfið verði frá því að gera að skilyrði fyrir starfi eða embætti að viðkomandi hafi óflekkað mannorð eða hafi ekki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti, en þessi skilyrði eru tilvísun til skilgreiningar í 5. gr. laga um kosningar til Alþingis á óflekkuðu mannorði. Í staðinn verði þær kröfur sem gerðar eru til ýmissa starfsstétta að þessu leyti skilgreindar í lögum sem um þær gilda. Hugtakið óflekkað mannorð verður þó ekki numið úr lögum um kosningar til Alþingis þar sem 34. gr. stjórnarskrárinnar mælir um fyrir um að óflekkað mannorð sé eitt skilyrða kjörgengis til Alþingis.
    Viðhorf til refsinga og réttinda fanga hafa tekið umtalsverðum breytingum með þróun mannréttinda og alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum. Almennt má segja að þróunin sé í þá átt að hverfa frá því að menn missi borgaraleg réttindi þegar þeir eru dæmdir til fangelsisrefsingar. Jafnframt hefur þróunin orðið sú að réttindatakmörkunin verði eingöngu sú sem óhjákvæmilega leiðir af frelsissviptingunni. Ef takmarka á borgaraleg réttindi einstaklinga verður það ekki gert nema sérstaklega sé mælt fyrir um það með lögum. Svo sem fram kemur í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp sem varð að lögum nr. 80/2017, um breytingu á almennum hegningarlögum ( þskj. 136), er nauðsynlegt að lagt sé heildstætt mat á lagareglur sem eiga að gilda um borgaraleg réttindi manna, kjörgengi og atvinnufrelsi og þær skorður sem slíkum réttindum eru settar. Brýnt er að meta m.a. saman hagsmuni samfélagsins og hagsmuni einstaklinga og tryggja að þegar stjórnarskrárvörðum réttindum eru settar skorður sé það gert með lögum, í skýrum tilgangi, það sé nauðsynlegt í lýðræðisríki og að meðalhófs sé gætt.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að fallið sé frá því að kveða almennt á um missi borgaralegra réttinda og í stað þess verði tekið upp það fyrirkomulag að mælt sé fyrir um það í viðkomandi lagabálkum í hvaða tilvikum sakaferill skuli leiða til missis á tilteknum borgaralegum réttindum, svo sem kjörgengi, embættisgengi eða tilteknum starfsréttindum. Þannig má taka eðlilegt tillit til ólíkra hagsmuna sem eru í húfi varðandi mismunandi störf og réttindi. Því má halda fram að frá refsipólitísku sjónarhorni, og að teknu tilliti til atvinnufrelsis einstaklinga, sé æskilegt að þeir sem gerst hafi brotlegir við refsilög og missa þar með borgaraleg réttindi sín hljóti þau að nýju að einhverjum tíma liðnum nema sérstök rök standi til annars. Því þarf að taka til skoðunar, í hverju tilviki fyrir sig, hvaða skilyrði er rétt að setja fyrir því að einstaklingar öðlist tiltekin starfsréttindi, embætti og kjörgengi að nýju, þ.e. hvers konar brot og refsingar séu þess eðlis að rétt sé að þau girði fyrir slíkt og hve langur tími skuli líða frá því að refsing var að fullu tekin út. Eingöngu eru lagðar til breytingar á þeim lögum sem vísa til núgildandi skilgreiningar í 5. gr. laga um kosningar til Alþingis á óflekkuðu mannorði og refsiverðu athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti. Nái þær fram að ganga kann að verða tilefni til þess að gera frekari breytingar á öðrum lögum sem fjalla um hæfisskilyrði til ýmissa starfa og stjórnarsetu.
    Þess má geta að nú þegar hafa víðs vegar í löggjöfinni verið skilgreind hæfisskilyrði starfsstétta og handhafa ýmissa réttinda án þess að þar sé vísað til 5. gr. laga um kosningar til Alþingis með tilvísun til óflekkaðs mannorðs eða refsiverðs athæfis sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti. Til dæmis má nefna kröfur sem gerðar eru til þeirra sem óska eftir skotvopnaleyfi samkvæmt vopnalögum, nr. 16/1998, sbr. b-lið 1. mgr. 13. gr. laganna, þar sem gert er að skilyrði að umsækjandi um skotvopnaleyfi hafi ekki gerst brotlegur við ákvæði almennra hegningarlaga, áfengislaga, laga um ávana- og fíkniefni, laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eða vopnalaga. Þar sem ekki er gerð krafa um óflekkað mannorð í þessum lögum hefði uppreist æru ekki leitt til þess að einstaklingar sem gerst hefðu sekir um áðurgreind brot gætu fengið skotvopnaleyfi. Annað dæmi sem nefna má er 10. gr. æskulýðslaga, nr. 70/2007, en samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að ráða til starfa hjá aðilum sem 2. gr. laganna tekur til og sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri í æskulýðsstarfi einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Sama gildir um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Ákvæðið nær einnig til þeirra sem falin er umsjón með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri á grundvelli sjálfboðaliðastarfs. Þessi tvö dæmi eru valin af handahófi úr löggjöfinni en einnig má t.d. nefna 5. gr. laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017.
    Enn standa þó eftir einhverjar starfstéttir þar sem ekki hefur verið tekin afstaða með lögum til þess hvort líta beri til sakaferils við ráðningar eða skipanir í störf. Þess má geta að starfsmenn hins opinbera, m.a. stór hluti heilbrigðisstarfsmanna, heyra undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, en í 2. mgr. 6. gr. þeirra laga kemur fram að umsækjandi um opinbert starf teljist ekki fullnægja starfsskilyrðum hafi hann hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað, slíkan sem um ræðir í 1. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga. Í því ákvæði kemur fram að fremji opinber starfsmaður refsiverðan verknað megi í sakamáli á hendur honum svipta hann heimild til að rækja starfann, ef hann telst ekki lengur verður eða hæfur til þess. Þá er í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, gerð krafa um að kandídat til skipunar eða setningar í prestsembætti hafi ekki gerst sekur um athæfi sem ætla má að rýri álit hans og sé ósamboðið manni í prestsstarfi, sbr. 38. gr. laganna, en ekki er skýrt nánar hvað í þessu felst.
    Sú breyting sem varð á framkvæmd á veitingu uppreistar æru með lögum nr. 80/2017 er tímabundin til 1. janúar 2019. Því er brýnt að heildarendurskoðun laganna ljúki fyrir þann tíma.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 361/2017, upp kveðnum 15. júní 2017, var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjaness þar sem svipting réttinda manns til að vera héraðsdómslögmaður var felld niður, en hann hafði verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn fjórum ungum stúlkum og sviptur starfsréttindum sínum með dómi. Vísaði Hæstiréttur m.a. til þess að maðurinn hefði áður hlotið uppreist æru og þar með öðlast óflekkað mannorð, sbr. 2. mgr. 85. gr. almennra hegningarlaga. Niðurstaða Hæstaréttar leiddi til umræðu um uppreist æru og þá stjórnsýsluframkvæmd sem tíðkast hefur síðustu áratugi við afgreiðslu slíkra mála. Þá hefur Alþingi einnig tekið þetta mál til umfjöllunar, m.a. á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og allsherjar- og menntamálanefndar. Fram hefur komið mjög víðtækur vilji innan þings og utan til að hverfa frá reglum og framkvæmd varðandi uppreist æru. Gagnrýnt hefur verið að menn sem dæmdir hafa verið fyrir mjög alvarleg afbrot geti endurheimt borgaraleg réttindi sem þeir hafa misst með refsidómi svo skömmu eftir að afplánun er lokið. Enn fremur hefur þótt skjóta skökku við að það gerist með þeim hætti að viðkomandi einstaklingur fái uppreist æru með sérstakri ákvörðun forseta Íslands um að æra hans sé uppreist. Hægt er að breyta þessari framkvæmd með því að fella 85. gr. almennra hegningarlaga úr gildi eins og hér er lagt til, og þannig festa þá breytingu í sessi sem komið var á tímabundið með lögum nr. 80/2017. Þá er einnig lagt til að 84. gr. almennra hegningarlaga sem fjallar um endurreisn borgaralegra réttinda að tilteknum skilyrðum uppfylltum verði felld úr gildi.
    Þess í stað er lagt til að tekið verði á missi og endurreisn borgaralegra réttinda í sérlögum þar sem kveðið er á um hver réttindi fyrir sig enda felur framangreind breyting á almennum hegningarlögum óhjákvæmilega í sér að horfið verði frá því að einstaklingur geti verið með flekkað mannorð þar til æra hans hefur verið uppreist, annaðhvort samkvæmt tilteknum tímaskilyrðum í hegningarlögum eða með stjórnvaldsákvörðun með þátttöku forseta Íslands.
    Núgildandi skilgreiningu á flekkun mannorðs má finna í 5. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000. Þar kemur fram að enginn hafi óflekkað mannorð sem hefur gerst sekur eftir dómi fyrir verk sem telst vera svívirðilegt að almenningsáliti. Slíkur verknaður er síðan skilgreindur og felur í sér að sakborningur þarf að hafa verið fullra 18 ára að aldri þegar brot var framið og refsing ákveðin fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla. Öryggisgæsla getur verið ákveðin þegar sakborningur er ósakhæfur sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða annars þess háttar.
    Samspil hefur verið með framangreindri skilgreiningu í 5. gr. laga um kosningar til Alþingis og 84. og 85. gr. almennra hegningarlaga. Í 84. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að einstaklingur öðlist öll réttindi sem fást með uppreist æru sjálfkrafa að liðnum fimm árum frá því að refsing er að fullu úttekin, fyrnd eða uppgefin. Það gildir hafi hann aðeins einu sinni hlotið dóm sem hefur skerðingu borgaralegra réttinda í för með sér og refsingin fer ekki fram úr eins árs fangelsi. Í 1. mgr. 85. gr. var forseta síðan veitt heimild til að veita manni uppreist æru að tveimur árum liðnum frá fullnustu refsingar, séu skilyrði 84. gr. að öðru leyti uppfyllt, ef dómfelldi hefur hegðað sér vel á þessu tímabili. Í 2. mgr. 85. gr. var forseta veitt heimild til að veita manni uppreist æru þegar a.m.k. fimm ár eru liðin frá því að refsing hans er að fullu úttekin, fyrnd eða gefin upp, enda færi umsækjandi sönnur sem gildar séu metnar á það að hegðun hans hafi verið góð umræddan tíma. Skv. 3. mgr. 85. gr. gat forseti, þegar sérstaklega stóð á, veitt manni uppreist æru að liðnum tveimur árum frá fullnustu refsingar hans, óháð lengd refsivistar. Síðastgreindu ákvæði var í áratugalangri framkvæmd beitt sem meginreglu, þ.e. uppreist æra var veitt eftir að tvö ár og áður en fimm ár voru liðin frá því að refsing var að fullu út tekin.
    Með þessu frumvarpi er lagt til að allar tilvísanir til óflekkaðs mannorðs verði felldar úr lögum fyrir utan lög um kosningar til Alþingis. Í lögum um kosningar til Alþingis verði óflekkað mannorð skilgreint rúmt en fyrir því eru einkum lýðræðisleg sjónarmið þannig að langflestum þjóðfélagsþegnum verði unnt að bjóða sig fram og það falli þannig í skaut stjórnmálahreyfinga og síðar kjósenda að velja fulltrúa sína til Alþingis. Þannig er lagt til að eingöngu þeir sem hlotið hafa fangelsisdóm hafi flekkað mannorð í skilningi laganna frá því að héraðsdómur er upp kveðinn og þangað til afplánun þeirra er að fullu lokið. Slíkt samrýmist einnig nútímahugmyndum í refsipólitík um að einstaklingur geti orðið virkur þjóðfélagsþegn að afplánun lokinni og hafi gert upp skuld sína við samfélagið eftir að hafa tekið út refsingu sína.
    Í löggjöf á forræði dómsmálaráðuneytisins varðandi hæfisskilyrði ýmissa þeirra sem starfa í réttarvörslukerfinu er tilvísun til þess að ekki megi skipa í embætti einstaklinga sem gerst hafa sekir um brot sem má telja svívirðileg að almenningsáliti eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem einstaklingur í slíkri stöðu verður almennt að njóta. Tilvísun þessi til brota sem þykja svívirðileg að almenningsáliti vísar aftur til skilgreiningar í 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Verður hún því skýrð þannig að viðkomandi verði að vera með óflekkað mannorð. Að auki er bætt við matskenndu skilyrði um að viðkomandi megi ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem einstaklingur í slíkri stöðu verður almennt að njóta. Þess skal getið að uppreist æru breytti engu um það hvort viðkomandi taldist hafa framið brot sem þótti svívirðilegt að almenningsáliti. Uppreist æru hafði eingöngu áhrif á óflekkað mannorð þótt sama skilgreining hafi gilt um bæði hugtökin.
    Yfirlit yfir lagaákvæði sem vísa til brota sem þykja svívirðileg að almenningsáliti má finna í kafla 3.4 hér á eftir. Þau varða m.a. dómara, sýslumenn, skiptastjóra, lögreglustjóra og lögreglu. Með frumvarpi þessu er lagt til að tilvísun til brota sem þykja svívirðileg að almenningsáliti verði aflögð þar sem 5. gr. laga um kosningar til Alþingis mun taka töluverðum breytingum og felld verður út skilgreining á slíkum brotum, svo sem lýst er hér að framan. Þá er lagt til að í flestum þeim tilvikum verði skilyrði til þess að hljóta embætti að hafa ekki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað ef umsækjandi var fullra 18 ára þegar brotið var framið. Um er að ræða mikilvæg embætti í réttarkerfinu sem er einn hornsteina réttarríkisins og fara viðkomandi með ríkar valdheimildir gagnvart borgurunum. Því þykir eðlilegt að strangar kröfur séu gerðar til þess að þeir sem t.d. fari með rannsókn og saksókn mála á hendur einstaklingum og lögaðilum njóti trausts og hafi sem dæmi ekki hlotið fangelsisrefsingu.
    Í lögum um lögmenn, nr. 77/1998, er gert að skilyrði þess að hljóta málflutningsréttindi fyrir dómstólum að umsækjandi sé með óflekkað mannorð, svo sem áskilið er til kjörgengis við kosningar til Alþingis. Við heildarendurskoðun þessa er litið til þess að lögmenn gegna einnig mikilvægu hlutverki í réttarkerfinu. Þá er horft til eðlis starfa lögmanna og þess trausts sem samfélagið og skjólstæðingar þurfa að bera til þeirra. Lögmenn gæta viðkvæmra hagsmuna fólks og fjármuna þeirra og eru skipaðir verjendur og réttargæslumenn. Því þykir eðlilegt að ströng skilyrði séu sett varðandi brotaferil umsækjenda um málflutningsréttindi. Lagt er til að ákvæði um slík skilyrði í 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um lögmenn verði gert sambærilegt því skilyrði sem gildir um fjármál þeirra í 2. tölul. Umsækjandi um lögmannsréttindi má aldrei hafa orðið að sæta því að bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta, en tiltekin undanþága er síðan veitt í 2. mgr. ákvæðisins. Þannig er í frumvarpinu lagt til að umsækjandi um lögmannsréttindi megi aldrei hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað. Þá er gert ráð fyrir því að víkja megi frá því skilyrði að fimm árum liðnum frá afplánun að undangengnu tilteknu mati á heilindum hjá Lögmannafélagi Íslands og sýslumannsembætti því sem tekur stjórnvaldsákvörðun um endurveitingu málflutningsréttinda.
    Loks er lagt til að tilvísanir til óflekkaðs mannorðs í lögum séu felldar brott. Samkvæmt núgildandi réttarástandi ber einstaklingi að hafa óflekkað mannorð eftir atvikum til viðbótar við frekari skilyrði sem varða dóma fyrir refsiverð brot. Í stað þess er lagt til að kveðið verði á um að einstaklingur geti ekki notið réttinda sem um getur eða sinnt starfi eða embætti sem um ræðir hverju sinni nema fimm ár hafi liðið frá því afplánun hefur lokið að fullu ef hann hefur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið.
    Með þessu móti er leitast við að halda að sem mestu leyti í óbreytt réttarástand í þeim tilvikum sem löggjafinn hefur metið óflekkað mannorð sem nægjanlegt skilyrði fyrir þeim réttindum, starfi eða embætti sem um ræðir. Yfirlit yfir lagaákvæði sem gera óflekkað mannorð að skilyrði er í kafla 3.6 hér á eftir. Í flestum tilvikum hefur löggjafinn sett viðbótarskilyrði og útilokað að einstaklingur sem hefur hlotið dóm fyrir tiltekin brot í atvinnustarfsemi geti sinnt embætti eða stjórnarsetu, til viðbótar við tilvísun til óflekkaðs mannorðs. Í þeim tilvikum má vera að sú breyting sem hér er lögð til þyki nægjanleg.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1 Gildistaka.
    Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2019. Ákvæði b-liðar 1. gr. laga nr. 87/2017, um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (uppreist æru) sem kveður á um brottfall 85. gr. almennra hegningarlaga var markaður gildistími til 1. janúar 2019 og því þurfa þessi lög að taka gildi eigi síðar en þann dag.

3.2 Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.
    Lagt er til með 1. gr. frumvarpsins að 84. og 85. gr. almennra hegningarlaga sem fjalla um uppreist æru verði felldar brott úr lögunum. Þannig verður horfið frá því að fjalla um missi æru einstaklinga í íslenskri löggjöf og endurveitingu æru með stjórnvaldsákvörðun. Slíkt fyrirkomulag þykir úrelt og ekki í takt við nútímahugmyndir í refsipólitík. Þá ber hugtakið æra gildishlaðna merkingu og því þykir skjóta skökku við að einstaklingur geti hlotið æru sína með sérstakri yfirlýsingu frá forseta Íslands að uppfylltum mjög takmörkuðum skilyrðum í löggjöf og framkvæmd.
    Eðlilegra þykir að einstaklingar missi ekki borgaraleg réttindi en kveðið sé á um það í sérlögum hverju sinni hver hæfisskilyrðin séu til þess að gegna megi tilteknum störfum eða njóta tiltekinna réttinda. Þá verður ekki hróflað við 68. gr. almennra hegningarlaga sem veitir heimild til þess að svipta opinberan starfsmann heimild til að rækja starfann með dómi í sakamáli ef hann hefur framið refsverðan verknað og telst ekki lengur verður eða hæfur til þess. Þá er einnig til staðar heimild í 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga til þess að svipta mann heimild sem hann hefur öðlast til að stunda starfsemi sem opinbert leyfi, löggildingu, skipun eða próf þarf til að gegna með dómi í sakamáli, enda gefi brotið til kynna að veruleg hætta sé á því að hann muni fremja brot í stöðu sinni eða starfsemi.
    Uppreist æru hafði þau réttaráhrif að viðkomandi taldist ekki lengur hafa óflekkað mannorð. Hann uppfyllti því ekki kjörgengisskilyrði til kosninga og þau hæfisskilyrði í lögum sem gerðu óflekkað mannorð að skilyrði til þess að njóta tiltekinna réttinda. Þegar einstaklingi var veitt uppreist æru kom það fram í athugasemd í sakavottorði en annars hafði það ekki áhrif á sakavottorð manna. Sakaferill birtist eftir sem áður á sakavottorðinu samkvæmt reglum um Sakaskrá ríkisins, sbr. 225. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Skv. 84. gr. almennra hegningarlaga getur einstaklingur öðlast öll réttindi sem fást með uppreist æru sjálfkrafa að liðnum fimm árum frá því að refsing er að fullu úttekin, fyrnd eða uppgefin, ef hann hefur aðeins einu sinni hlotið dóm sem hefur skerðingu borgaralegra réttinda í för með sér og refsingin fór ekki fram úr eins árs fangelsi. Fyrir gildistöku laga nr. 80/2017, um breytingu á almennum hegningarlögum, var forseta Íslands síðan veitt heimild til að veita manni uppreist æru að tveimur árum liðnum frá fullnustu refsingar, ef skilyrði 84. gr. voru að öðru leyti uppfyllt, ef dómfelldi hafði hegðað sér vel á tímabilinu. Í 2. mgr. 85. gr. var forseta veitt heimild til að veita manni uppreist æru þegar a.m.k. fimm ár voru liðin frá því að refsing hans var að fullu úttekin, fyrnd eða gefin upp, enda færði umsækjandi sönnur sem gildar væru metnar á það að hegðun hans hefði verið góð umræddan tíma. Skv. 3. mgr. 85. gr. gat forseti, þegar sérstaklega stóð á, veitt manni uppreist æru að liðnum tveimur árum frá fullnustu refsingar hans, óháð lengd refsivistar.
    Síðastgreindu ákvæði var í áratugalangri framkvæmd beitt sem meginreglu, þ.e. að veitt var uppreist æru eftir að tvö ár og áður en fimm ár voru liðin frá því að refsing var að fullu út tekin. Í dómsmálaráðuneytinu hafði venja myndast um að þeir sem uppfylltu tímaskilyrði og skilyrði um góða hegðun hlutu uppreist æru. Skilyrði um góða hegðun var sannreynt með athugun á því hvort viðkomandi hafði ólokin mál í refsivörslukerfinu eða mál á sakaskrá sem vörðuðu fangelsi eftir þann dóm sem óskað var uppreist æru fyrir. Ítrekað var farið yfir það innan ráðuneytisins hvort þessi venja væri í raun bindandi, þrátt fyrir orðalag ákvæðisins, þannig að lögmætis- og jafnréttisreglur stjórnsýsluréttar stæðu í vegi fyrir að unnt væri að synja umsækjanda sem uppfyllti skilyrðin um uppreist æru. Afstaða ráðherra varð alltaf sú að án lagabreytingar væri líklegt að slík ákvörðun, þvert á eldri framkvæmd, yrði talin ólögmæt og ógildanleg.

Sögulegt yfirlit og umfjöllun um norrænan rétt.
    Frá miðöldum að minnsta kosti virðist hafa verið gerður almennur greinarmunur á brotamönnum sem misst höfðu æruna með brotum sínum og hinum sem höfðu brotið af sér og verið dæmdir til refsingar, án þess að það hefði í för með sér að þeir yrðu þar með ærulausir. Meðal annars var gerður greinarmunur á meðhöndlun fanga sem voru ærulausir og öðrum föngum. Virðast þannig djúpar sögulegar rætur að baki því að greina á milli brota sem teljast „svívirðileg að almenningsáliti“ eins og það er orðað í núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis og þeirra sem síður kalla á fyrirlitningu samfélagsins. Síðari þróun hefur verið í þá átt að leggja meiri rækt við betrun og aðlögun brotamanna að samfélaginu á nýjan leik, um leið og horfið hefur verið frá því í nágrannalöndum okkar að tengja réttindasviptingar og endurveitingar við hugmyndir um æru og heiður. Virðist íslensk hugtakanotkun og réttarframkvæmd á þessu sviði hafa setið eftir og orðið fornleg að því marki að óhjákvæmilegt þykir að hverfa nú þegar frá henni.
    Hér á eftir er samantekt á stöðunni annar staðar á Norðurlöndum. Vakin er athygli á að löggjöf um þetta efni hefur þróast á mismunandi hátt og á mismunandi tímum eftir löndum sem gerir samanburð flóknari en ella.
     Danmörk: Lög um uppreist æru (Lov om Æreoprejsning) voru felld úr gildi árið 1930 með dönsku hegningarlögunum (Borgerlig Straffelov nr. 126 frá 15. apríl 1930). Á grundvelli þeirra var þó áfram hægt að svipta menn réttindum og veita þeim uppreist æru. Var þannig kveðið á um það í 97. gr. að sá sem misst hefði borgaraleg réttindi sín skv. 78. gr. laganna gæti að fimm árum liðnum sótt um uppreist æru hjá dómsmálaráðuneytinu eða dómstólum. Í skýrslu nefndar sem fjallaði um missi/sviptingu og endurheimt á borgaralegum réttindum árið 1938, sem skipuð var af dómsmálaráðuneytinu, kom fram að nefndin legði til að afnema ætti ákvæði 78. gr. hegningarlaga um afnám á tilteknum réttindum. Var sú tillaga samþykkt en með breytingalögum nr. 88/1939 voru ákvæði 78. gr. og 97. gr. felld úr gildi.
    Ekki er að finna ákvæði í núgildandi hegningarlögum Dana um uppreist æru. Hugtakið æra kemur ekki fyrir í hegningarlögunum nema í tengslum við ákvæði sem lúta að ærumeiðingum. Í 78. gr. hegningarlaganna, sem kom inn í lögin árið 1951, er hins vegar kveðið á um áhrif refsiverðs verknaðar á borgaraleg réttindi. Er þar meginreglan sú að refsiverður verknaður hefur ekki í för með sér missi borgaralegra réttinda. Samkvæmt því verði borgaraleg réttindi einungis skert á grundvelli sérstakrar lagaheimildar. Í athugasemdum með ákvæðinu kemur fram að ákvæðið miði að því að veita þeim sem dæmdir hafa verið fyrir refsivert athæfi tækifæri til að öðlast aftur eðlilegt líf í samfélaginu eftir að þeir hafi tekið út refsingu sína. Í 78. gr. er þó einnig að finna undantekningar frá meginreglunni en þar er t.d. kveðið á um að einstaklingur geti fyrirgert sér réttinum til að gegna ákveðnum störfum, svo sem þeim sem krefjast opinbers leyfis eða ef brotið er þess eðlis að það rýri það traust sem til viðkomandi þarf að ríkja. Þá er að finna sérákvæði um réttindasviptingu víðs vegar í dönskum lögum, svo sem í 121. gr. dómstólalaga sem kveður á um sviptingu lögmannsréttinda.
     Noregur: Frá fornu fari tíðkaðist í Noregi að svipta menn réttindum í kjölfar refsidóma. Ákvæði um réttindasviptingu voru fyrirferðarmikil í refsilöggjöfinni, sbr. m.a. lög um ærumissi (Lov om æretap) sem í gildi voru á 17. öld. Samkvæmt þeim hafði svipting æru í för með sér að viðkomandi naut ekki ýmiss konar réttinda og var unnt að beita sviptingu borgaralegra réttinda sem refsingu. Lögin voru afnumin árið 1842.
    Frá 19. öld í það minnsta virðist hafa verið mögulegt samkvæmt norskum lögum að endurheimta borgaraleg réttindi sem dómfelldi hafði verið sviptur með dómi. Í hegningarlögum (Straffeloven) frá upphafi 20. aldar var kveðið á um að maður gæti glatað tilteknum borgaralegum réttindum til ákveðins tíma. Sá tími gat verið breytilegur eftir eðli brotsins.
    Í núgildandi hegningarlögum er ekki kveðið á um uppreist æru. Hins vegar er að finna í 10. kafla laganna ákvæði um missi tiltekinna réttinda (Rettighetstap). Þar er kveðið á um að unnt sé að svipta brotamenn tilteknum réttindum til allt að fimm ára eða við sérstakar aðstæður til frambúðar og ræður eðli brots því. Þó má þess geta að leita má til dómstóla um endurskoðun á slíkri réttindasviptingu að þremur árum liðnum.
     Svíþjóð: Svíar afnámu heimildir til að svipta menn borgaralegum réttindum á 19. öld. Ekki er að finna ákvæði um uppreist æru í núgildandi hegningarlögum.

3.3 Breyting á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, og lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998.
    Í 34. gr. stjórnarskrárinnar er fjallað um kjörgengi við kosningar til Alþingis þar sem kveðið er á um að kjörgengur sé hver sá ríkisborgari sem kosningarrétt á til Alþingis og hefur óflekkað mannorð. Í þessu frumvarpi er lagt til að allar tilvísanir til óflekkaðs mannorðs verði felldar úr lögum en vegna 34. gr. stjórnarskrárinnar er ómögulegt að fella hugtakið úr lögum um kosningar til Alþingis. Með frumvarpi þessu er lagt til að óflekkað mannorð verði skilgreint rúmt en fyrir því eru einkum lýðræðisleg sjónarmið þannig að langflestum þjóðfélagsþegnum verði unnt að bjóða sig fram. Það falli þannig í skaut stjórnmálahreyfinga og síðar kjósenda að velja fulltrúa sína til Alþingis og sveitarstjórna. Með 2. gr. þessa frumvarps er því lagt til að eingöngu þeir sem afplána fangelsisrefsingu hafi flekkað mannorð í skilningi 34. gr. stjórnarskrárinnar, frá því að dómur er upp kveðinn og þangað til afplánun þeirra er að fullu lokið, þ.m.t. reynslulausn. Tillaga þessi þykir samrýmast nútímahugmyndum í refsipólitík um að einstaklingur geti orðið virkur þjóðfélagsþegn að afplánun lokinni og hafi gert upp skuld sína við samfélagið eftir að hafa tekið út refsingu sína. Þá er lagt til með 3. gr. frumvarpsins að sams konar skilyrði verði fyrir kjörgengi til sveitarstjórnakosninga en horfið verði þó frá því að skilgreina það sem óflekkað mannorð.

Yfirlit yfir norrænan rétt og sjónarmið Evrópuráðsins um kjörgengi.
     Danmörk: Samkvæmt dönsku stjórnarskránni og lögum um kosningar til danska þingsins eru allir kjörgengir sem einnig hafa kosningarrétt, nema þeir hafi framið refsivert brot sem að almenningsáliti gerir þá óverðuga þeirri stöðu að vera þingmaður. Samkvæmt dönsku kosningalögunum eru þó allir kjörgengir. Ef vafi vaknar um hæfi einstaklings til þess að vera þingmaður er endanleg ákvörðun í höndum þingsins og þá er metið hvort brotið sem viðkomandi hefur hlotið dóm fyrir sé slíks eðlis. Almenningsálit um hæfi til þingmennsku þykir vera breytilegt eftir tíðaranda og því meta þingmenn á danska þinginu slíkt hæfi í hverju tilviki. Þeir eru þó bundnir af lögmætum sjónarmiðum.
     Noregur: Meginreglan í Noregi er sú að hver sem hefur kosningarrétt er einnig kjörgengur. Hins vegar gegna sumir einstaklingar þannig embættum að ekki þykir viðeigandi að þeir þjóni einnig sem kjörnir fulltrúar. Það eru m.a. starfsmenn ráðuneyta að undanskildum ráðherra, dómarar Hæstaréttar og starfsfólk sendiráða. Þá er skv. 53. gr. stjórnarskrárinnar hægt að svipta einstakling kosningarrétti, og þar með kjörgengi, með dómi fyrir tiltekin refsiverð brot. Slík brot eru t.d. brot gegn sjálfstæði og öryggi ríkisins og gegn stjórnarskránni.
     Svíþjóð: Samkvæmt sænsku stjórnarskránni eru allir sem hafa kosningarrétt til þingsins einnig kjörgengir. Í Finnlandi, Tékklandi, Slóveníu og Sviss hafa öll takmörk á kjörgengi vegna refsiverðra brota einnig verði felld niður.
     Evrópuráðið: Feneyjanefnd Evrópuráðsins hefur sett saman reglur um góðar starfsvenjur við kosningar (e. Code of good practice in electoral matters; guidelines and explanatory report) og voru þær samþykktar árið 2002. Þar er sett fram sú meginregla að ef takmarka á kjörgengi þarf að gera það með lögum og að teknu tilliti til meðalhófs. Þá eru ekki gerðar jafn strangar kröfur til takmörkunar kjörgengis og til takmörkunar kosningaréttar. Slík takmörkun verði þó að vera byggð á refsidómi fyrir alvarleg brot og afturköllun á stjórnmálalegum réttindum geti eingöngu átt sér stað með skýrri ákvörðun dómstóls.
    Þá samþykkti Feneyjanefndin skýrslu um útilokun kjörgengis brotamanna (e. exclusion of offenders from parliament) árið 2015. Í skýrslunni má finna ítarlega samantekt á skilyrðum kjörgengis víðs vegar í heiminum og þar má sjá hvaða ríki hafa þann háttinn á að takmarka kjörgengi við afplánun refsidóms, svo sem lagt er til með þessu frumvarpi. Samkvæmt skýrslunni er hægt að skipta ríkjum í tvo hópa eftir því hvort þau byggi kjörgengisskilyrði á eðli brota eða á eðli viðurlaga við brotum. Samkvæmt kanadískum lögum er einstaklingur sem afplánar fangelsisrefsingu ekki kjörgengur meðan á afplánun stendur. Undanskildir kjörgengi eru einnig einstaklingar sem hafa framið tiltekin brot í tiltekinn tíma eftir sakfellingu eins og nánar er lýst í kanadískum lögum um kosningar. Á Spáni missa einstaklingar sem dæmdir hafa verið til fangelsisrefsingar kjörgengi sitt meðan á afplánun stendur auk þess sem svipta má menn kjörgengi eða embættisgengi vegna brota gegn ríkinu. Í Þýskalandi og Bretlandi hefur fangelsisrefsing sömu áhrif ef refsing er ákveðin eins árs fangelsi eða meira. Í Litháen eru einstaklingar sem sakfelldir hafa verið fyrir brot kjörgengir þegar þeir hafa tekið út refsingu sína en sú skylda er lögð á þá að upplýsa um sakaferil með opinberum hætti þegar þeir kynna framboð sín.

3.4 Afnám tilvísunar til brota sem þykja svívirðileg að almenningsáliti.
    Í eftirfarandi lögum má finna tilvísun til þess að ekki megi skipa í embætti eða ráða til starfa einstaklinga sem gerst hafa sekir um brot sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem einstaklingur í slíkri stöðu verður almennt að njóta.
     1.      Lög um dómstóla, nr. 50/2016 – 5. tölul. 2. mgr. 13. gr., 5. tölul. 2. mgr. 21. gr., 5. tölul. 2. mgr. 29. gr., og 3. mgr. 39. gr.
     2.      Lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991 – 1. mgr. 3. gr.
     3.      Lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008 – 1. mgr. 4. gr.
     4.      Lög um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991 – 4. tölul. 2. mgr. 46. gr.
     5.      Lög um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, nr. 50/2014 – e-liður 2. mgr. 3. gr.
     6.      Lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 – 4. tölul. 2. mgr. 75. gr.
     7.      Lögreglulög, nr. 90/1996 – e-liður 2. mgr. 28. gr. og 28. gr. a.
    Tilvísun þessi til brota sem þykja svívirðileg að almenningsáliti vísar til skilgreiningar í 5. gr. laga um kosningar til Alþingis um óflekkað mannorð. Því má skýra hana sem svo að viðkomandi megi ekki vera með flekkað mannorð en að auki er bætt við matskenndu skilyrði um að viðkomandi megi ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem einstaklingur í slíkri stöðu verður almennt að njóta. Löggjöf sú sem um ræðir varðar hæfisskilyrði ýmissa þeirra sem starfa í réttarvörslukerfinu, þ.e. dómara, meðdómenda, skiptastjóra, sýslumanna, lögreglustjóra og starfsmanna lögreglu. Þá er um hæfi saksóknara vísað til hæfisskilyrða dómara. Þess skal getið að uppreist æru breytti engu um það hvort viðkomandi taldist hafa framið brot sem þótti svívirðilegt að almenningsáliti. Uppreist æru hafði eingöngu áhrif á óflekkað mannorð þótt sama skilgreining hafi gilt um bæði hugtökin.
    Í þessu frumvarpi er lagt til að tilvísun til brota sem þykja svívirðileg að almenningsáliti verði aflögð þar sem 5. gr. laga um kosningar til Alþingis mun taka töluverðum breytingum eins og lýst er hér að framan. Þannig verði ekki lengur vísað til hennar varðandi skilgreiningu á hugtakinu. Lagt er til að í staðinn verði sett það skilyrði að viðkomandi megi ekki hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað en því matskennda skilyrði að viðkomandi megi ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem einstaklingur í slíkri stöðu verður almennt að njóta haldið óbreyttu. Skilyrði þetta er töluvert strangara en skilgreining á óflekkuðu mannorði í núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Það varðar skipun í störf/embætti sem ríkt traust þarf að ríkja til vegna þeirra valdheimilda sem störfin fela í sér og þeirrar stöðu sem þeir sem þeim gegna eru í gagnvart borgurum í landinu. Þess vegna er einnig talið mikilvægt að halda þeim varnagla inni að meta megi háttsemi sem viðkomandi hefur sýnt af sér sem slíka að hún rýri það traust sem um viðkomandi stöðu þarf að ríkja. Svo sem sjá má á yfirliti yfir norrænan rétt hér á eftir er ekki að finna afgerandi skilgreiningu í lögum viðkomandi ríkja um refsiverða háttsemi sem er til þess fallin að útiloka einstakling frá því að geta gegnt stöðu dómara.

Yfirlit yfir norrænan rétt.
     Danmörk: Í Danmörku er gerð krafa um að dómarar hafi óflekkað mannorð og séu traustsins verðir. Dómarar er valdir á grundvelli heildarmats á hæfi umsækjanda um dómarastöðu. Við heildarmatið er litið til lögfræðilegrar hæfni og reynslu auk persónulegra þátta og m.a. er stuðst við sakavottorð.
     Noregur: Við mat á umsækjendum um dómarastöður er m.a. lagt mat á umsagnir fyrrverandi vinnuveitenda og ferill umsækjanda kannaður, m.a. með hliðsjón af því hvort viðkomandi hafi fengið dóma eða sektarákvarðanir fyrir refsiverða háttsemi, eða hvort þeir hafi orðið fyrir agaviðurlögum eða athugunum í störfum sínum sem lögmenn eða dómarar.
     Svíþjóð: Við mat á umsækjendum um dómarastöður er m.a. lagt mat á umsagnir frá fyrrverandi vinnuveitendum. Þá hefur hæfisnefnd heimild til að afla athugasemda frá öðrum stofnunum, svo sem lögmannafélagi eða embætti saksóknara. Loks er sakaskrá athuguð.

3.5 Skilyrði til öflunar málflutningsréttinda fyrir dómstólum, lög um lögmenn, nr. 77/1998.
    Umsækjandi um málflutningsréttindi má aldrei hafa þurft að sæta því að bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta skv. 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um lögmenn, en undanþága er heimiluð í 2. mgr. þar sem fram kemur að víkja megi frá skilyrði 2. tölul. 1. mgr. að fengnum meðmælum Lögmannafélags Íslands ef umsækjandi hefur haft forræði á fé sínu að minnsta kosti þrjú undanfarin ár. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um lögmenn kemur fram að þetta þyki sjálfsagður varnagli í ljósi þeirrar mikilvægu umsýslu með fjármuni manna sem lögmenn hafa einatt með höndum. Í þessu samhengi er lagt til í 19. gr. frumvarpsins að 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna verði breytt á þá leið að umsækjandi megi aldrei hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað, enda mikilvægt að lögmenn séu þess trausts verðir sem skjólstæðingar þeirra og samfélagið þurfa að bera til þeirra.
    Þó er í 19. gr. einnig lagt til að heimiluð verði undanþága í 3. mgr. ákvæðisins þegar fimm ár eru liðin frá því að afplánun lauk að fullu. Það gildir ekki ef eðli brotsins og háttsemi umsækjanda er til þess fallin að rýra það traust sem lögmenn þurfa að njóta. Mikilvægt þykir að setja tímamörk og lengd afplánunar bætist við þau fimm ár sem líða þurfa frá því að afplánun er lokið. Þá er lagt til að gerð verði krafa um umsögn Lögmannafélags Íslands sem undanfara stjórnvaldsákvörðunar um veitingu réttinda á þessum grundvelli og þau sjónarmið reifuð sem hafa ber í huga við matið. Þannig ber skv. 19. gr. frumvarpsins að líta til eðlis og alvarleika brotsins, m.a. þeirra hagsmuna sem brotið var gegn, ásetnings og aldurs umsækjanda, hvort brotið hafi verið framið í tengslum við atvinnurekstur og þess tjóns sem brotið olli. Þá skal einnig meta háttsemi umsækjanda frá því að afplánun lauk, einkum hvort hann hafi ólokin mál í refsivörslukerfinu. Þau sjónarmið sem líta ber til við matið eru ekki tæmandi talin í ákvæðinu og þau eru nánar útfærð í sérstökum athugasemdum með ákvæðinu.
    Eðlilegt þykir að Lögmannafélag Íslands eigi aðkomu að mati sem þessu enda öllum lögmönnum skylt að vera þar félagsmenn skv. 1. mgr. 3. gr. laga um lögmenn. Núgildandi lög um lögmenn gera einnig ráð fyrir aðkomu félagsins við veitingu málflutningsréttinda, t.d. þegar umsækjandi um slík réttindi hefur orðið gjaldþrota en þar er gerð krafa um meðmæli félagsins áður en málflutningsréttindi eru veitt. Einnig er gert ráð fyrir aðkomu Lögmannafélags Íslands við endurveitingu málflutningsréttinda aðila sem sviptur hefur verið réttindum að tillögu úrskurðarnefndar lögmanna að fimm árum liðnum og í þeim tilvikum er gerð krafa um meðmæli Lögmannafélags Íslands áður en sýslumaður getur endurveitt réttindin. Þá starfar sjálfstæð stjórnsýslunefnd á grundvelli laga um lögmenn, úrskurðarnefnd lögmanna, sem hefur heimild til þess að leggja til tímabundnar niðurfellingar eða sviptingu málflutningsréttinda lögmanns. Rétt þykir að leggja til að umsögn Lögmannafélags Íslands skuli liggja fyrir áður en sýslumaður tekur ákvörðun um veitingu málflutningsréttinda til þeirra sem hlotið hafa fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað. Í ljósi þess að um atvinnuréttindi einstaklinga er að ræða þykir þó of víðtækt framsal að félagasamtökum sé falið bindandi ákvörðunarvald um það hvort tiltekinn einstaklingur fái málflutningsréttindi, svo sem fælist í því að gera kröfu um meðmæli Lögmannafélags Íslands, enda er framkvæmdarvaldið veitingarvaldshafinn. Í þessu ljósi og til þess að gæta samræmis innan laganna er einnig lagt til að kröfu um meðmæli Lögmannafélagsins í 2. mgr. 6. gr. laganna um endurveitingu réttinda þremur árum eftir gjaldþrot og í 2. mgr. 16. gr. um heimild einstaklings sem sviptur var réttindum að tillögu úrskurðarnefndar lögmanna til að sækjast eftir réttindum að nýju verði breytt í skyldu til að leita umsagnar Lögmannafélags Íslands sem undanfara stjórnvaldsákvörðunar sýslumanns.
    Lögð er til lögbundin álitsumleitan til Lögmannafélags Íslands áður en sýslumaður tekur ákvörðun um veitingu málflutningsréttinda til þeirra sem hlotið hafa fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað og því þykir rétt að útfæra með lögunum þau sjónarmið sem líta ber til. Mikilvægt er að litið sé bæði til andlags brotsins, alvarleika þessi og eðlis sem og háttsemi umsækjanda. Þessi atriði ber að meta með tilliti til þeirra hagsmuna sem lögmenn fara með í störfum sínum, m.a. sem verjendur og réttargæslumenn í sakamálum, fjárvörslur, hagsmunagæslu og ráðgjöf. Við ákvörðun um veitingu málflutningsréttinda ber sýslumanni að taka mið af lögbundinni umsögn Lögmannafélags Íslands sem eðli málsins samkvæmt hefur mikið vægi. Ákvörðun sýslumanns er kæranleg til dómsmálaráðuneytisins, sbr. 4. mgr. 29. gr. laganna.
    Þá er lagt til með 21. gr. frumvarpsins að dómara verði gert að líta til sambærilegra sjónarmiða ef borið verði undir dómstóla hvort fella skuli niður réttindasviptingu skv. 68. gr. almennra hegningarlaga.

Yfirlit yfir norrænan rétt.
    Í Finnlandi er eitt skilyrða til öflunar lögmannsréttinda að umsækjandi sé heiðarlegur og ekki augljóslega óhæfur til þess að starfa við málflutning og lögfræðiráðgjöf. Einstaklingur er ekki talinn heiðarlegur í skilningi ákvæðisins ef hann hefur fengið fangelsisdóm á síðustu fimm árum eða fengið sekt fyrir brot sem sýnir óhæfi til lögmannsstarfa á síðustu þremur árum. Í Danmörku og Noregi eru svipuð hæfisskilyrði hvað þetta varðar og má synja einstaklingi um lögmannsréttindi ef hann hefur gerst sekur um brot sem getur rýrt það traust sem lögmenn verða almennt að njóta. Sænska lögmannafélagið metur heilindi umsækjanda um aðild að félaginu og hvort viðkomandi þykir að öllu leyti hæfur til þess að vera lögmaður. Matið er strangt og ber umsækjendum að skila meðmælum og umsögnum með umsókn sinni. Þó verður að geta þess að ekki er skylduaðild að sænska lögmannafélaginu og aðilar að félaginu eru ekki þeir einu sem hafa rétt til að flytja mál fyrir dómstólum.

3.6 Afnám tilvísunar til óflekkaðs mannorðs
    Þau lög sem gera óflekkað mannorð að skilyrði til þess að sinna tilteknum störfum eða embættum eru eftirtalin:
     1.      Lög um lögmenn, nr. 77/1998 – 6. gr.
     2.      Lög um landsdóm, nr. 3/1963 – 3. gr.
     3.      Lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991 – 81. gr.
     4.      Lög um samningsbundna gerðardóma, nr. 53/1989 – 6. gr.
     5.      Lög um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991 – 3. mgr. 18. gr.
     6.      Lög um almennar íbúðir, nr. 52/2016 – 3. mgr. 22. gr.
     7.      Lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, nr. 60/2012 – 1. málsl. 4. mgr. 16. gr.
     8.      Lög um húsnæðismál, nr. 44/1998 – 1. mgr. 8. gr. a.
     9.      Lög um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003 – 5. mgr. 6. gr.
     10.      Lög um endurskoðendur, nr. 79/2008 – 3. tölul. 1. mgr. 2. gr.
     11.      Innheimtulög, nr. 95/2008 – b-liður 1. mgr. 4. gr.
     12.      Lög um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 41/2015 – n-liður 5. gr.
     13.      Samkeppnislög, nr. 44/2005 – 3. mgr. 7. gr.
     14.      Lög um fjölmiðla, nr. 38/2011 – 2. mgr. 8. gr.
     15.      Lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999 – 3. mgr. 4. gr.
     16.      Lög um kauphallir, nr. 110/2007 – 2. mgr. 11. gr.
     17.      Lög um Landsvirkjun, nr. 42/1983 – 2. mgr. 5. gr.
     18.      Lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998 – 2. málsl. 3. mgr. 6. gr.
     19.      Lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997 – 1. mgr. 4. gr.
     20.      Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 – 1. mgr. 31. gr.
     21.      Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003 – 1. mgr. 85. gr.
     22.      Tollalög, nr. 88/2005 – 2. tölul. 2. mgr. 48. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 91. gr.
     23.      Lög um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016 – 1. mgr. 135. gr.
     24.      Lög um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938 – 1. mgr. 20. gr. og 42. og 46. gr.
    Í stað tilvísana í lögum til óflekkaðs mannorðs er lagt til að kveðið verði á um að einstaklingar, sem samkvæmt núgildandi lögum ber að hafa óflekkað mannorð til að njóta tiltekinna atvinnuréttinda, geti ekki notið réttinda sem um getur eða sinnt því starfi eða embætti sem um ræðir hverju sinni, nema fimm ár hafi liðið frá því afplánun hefur lokið að fullu, ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Athuga ber þó að efnislegar breytingar eru gerðar á hæfisskilyrðum í lögum um lögmenn og lögum um landsdóm.
    Með þessu móti er leitast við að halda að sem mestu leyti í óbreytt réttarástand í þeim tilvikum sem löggjafinn hefur metið óflekkað mannorð sem nægjanlegt skilyrði fyrir þeim réttindum, starfi eða embætti sem um ræðir. Í flestum tilvikum hefur löggjafinn sett viðbótarskilyrði við kröfu um óflekkað mannorð og útilokað að einstaklingur sem hefur hlotið dóm innan tiltekins tímaramma fyrir tiltekin brot í atvinnustarfsemi geti sinnt embætti eða starfi. Í þeim tilvikum má vera að sú breyting sem hér er lögð til þyki nægjanleg. Ef frumvarp þetta verður að lögum gefst tækifæri til þess að endurskoða einstök lagaákvæði í samráði við viðeigandi aðila ef vilji er til. Til dæmis má velta því upp hvort tilefni sé til þess að herða þær kröfur sem gerðar eru til stétta og embætta, svo sem endurskoðenda, embættis ríkisskattstjóra og dómara við félagsdóm.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarp þetta gaf tilefni til þess að skoða samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar og hefur verið fjallað um það í almennum athugasemdum hér að framan. Svo sem rakið var í inngangi að athugasemdum með frumvarpi þessu er lagt til að fallið sé frá því að kveða almennt á um missi borgaralegra réttinda í ljósi breytinga á viðhorfi til refsinga og réttinda fanga með þróun mannréttinda og alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum. Í stað þess verði tekið upp það fyrirkomulag að mælt sé fyrir um það í viðkomandi lagabálkum í hvaða tilvikum sakaferill skuli leiða til missis á borgaralegum réttindum, svo sem kjörgengi, embættisgengi eða tilteknum starfsréttindum, og hvaða tímamörk eigi um slíkan missi að gilda. Ef takmarka á borgaraleg réttindi einstaklinga verður það ekki gert nema sérstaklega sé mælt fyrir um það með lögum.
    Við vinnslu þessa frumvarps þar sem lagðar eru til efnislegar breytingar á réttarástandi var leitast við að leggja heildstætt mat á lagareglur sem gilda um borgaraleg réttindi manna, kjörgengi og atvinnufrelsi og skorður sem slíkum réttindum eru settar. Leitast var við að tryggja að þegar stjórnarskrárvörðum réttindum eru settar skorður með lögum þessum sé það í skýrum tilgangi, þyki nauðsynlegt í lýðræðisríki og að meðalhófs sé gætt.
    Þá hefur verið fjallað um ákvæði 34. gr. stjórnarskrárinnar um að kjörgengur við kosningar til Alþingis sé hver sá ríkisborgari sem kosningarrétt á til þeirra og hefur óflekkað mannorð. Með þessu frumvarpi er lögð til ný skýring á hugtakinu óflekkuðu mannorði vegna kjörgengis í lögum um kosningar til Alþingis en hugtakið er fjarlægt úr annarri löggjöf. Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið fjallað um rétt einstaklinga til að bjóða sig fram í kosningum. Dómarnir veita leiðbeiningar um að heimilt sé að mæla fyrir um vissar takmarkanir á þeim rétti, en að miklu skipti að gætt sé meðalhófs við slíkar takmarkanir og að þær séu ekki ótímabundnar, sbr. til dæmis dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Zdanoka gegn Lettlandi frá 16. mars 2006. Við vinnslu frumvarpsins var litið til skýrslu Feneyjanefndar Evrópuráðsins um góðar starfsvenjur við kosningar og skýrslu nefndarinnar um útilokun kjörgengis brotamanna, svo sem fjallað er um í kafla 3.3 um meginefni frumvarpsins.
    Þá hefur verið tilefni til þess að vega og meta atvinnufrelsi skv. 75. gr. stjórnarskrárinnar með hliðsjón af almannahagsmunum við undirbúning þessa frumvarps. Í þeim tilvikum þar sem efnislegar breytingar á réttarástandi eru lagðar til með frumvarpinu hefur til dæmis verið leitast við að leggja mat á hagsmuni einstaklinga gagnvart þeim sem fara með valdheimildir í réttarkerfinu og hvers konar skorður málefnalegt þyki að setja við tilteknum starfsréttindum með hliðsjón af því.
    Varðandi málflutningsréttindi þótti rétt að mæla fyrir um heimild til handa Lögmannafélagi Íslands og því sýslumannsembætti sem fer með málefni lögmanna til að meta hvort rétt sé að veita umsækjanda sem hlotið hefur fangelsisrefsingu málflutningsréttindi að nýju að fimm árum liðnum frá afplánun dóms. Þannig verður einstaklingur ekki sviptur atvinnuréttindum svo sem málflutningsréttindum ótímabundið nema eðli brotsins eða háttsemi viðkomandi sé svo alvarleg að hún komi í veg fyrir að hann geti notið þess trausts sem borgarar og samfélagið þurfa að geta borið til hans, m.a. með hliðsjón af dómum Mannréttindadómstóls Evrópu (t.d. Jankauskas gegn Litháen og Lekaviciene gegn Litháen frá 27. júní 2017).

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir ýmsar starfsstéttir og almenning allan og var unnið í kjölfar þess að Alþingi samþykkti lög nr. 80/2017 27. september 2017. Samráð var haft við Lögmannafélag Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og velferðarráðuneyti. Þá var frumvarpið birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins áður en það var lagt fram á Alþingi og leitast við að vekja athygli hlutaðeigandi ráðuneyta, stofnana og fagfélaga á því. Umsagnir bárust frá Lögmannafélagi Íslands og Afstöðu, félagi fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, og hefur verið tekið tillit til framangreindra umsagna við vinnslu frumvarpsins.

6. Mat á áhrifum.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að endanlega verði hætt að veita mönnum uppreist æru. Undanfarin ár hefur uppreist æru að jafnaði verið veitt einu sinni til tvisvar á ári. Fjöldi umsókna er þó meiri. Fjárhagsleg langtímaáhrif frumvarpsins eru því hverfandi. Verði frumvarp þetta að lögum getur hver sá sem hefur lokið afplánun fangelsisrefsingar boðið sig fram í kosningum, en hæfisskilyrði í tiltekin embætti réttarvörslukerfisins og til veitingar málflutningsréttinda verða þyngd. Þá verður að öllum líkindum tilefni til þess að endurskoða í kjölfarið þær kröfur sem gerðar eru til ýmissa annarra stétta og embætta, svo sem endurskoðenda, ríkisskattstjóra og félagsdóms, auk þess sem rétt er að huga að því hvort rétt sé að skilgreina nánar í lögum hæfisskilyrði til dæmis heilbrigðisstarfsmanna eða presta.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs muni aukast.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að 84. og 85. gr. almennra hegningarlaga, með síðari breytingum, verði felldar úr gildi í heild sinni. Eftir gildistöku breytinganna mun stjórnvöldum því ekki vera heimilt að veita uppreist æru og borgaraleg réttindi verða ekki endurreist á grundvelli skilyrða í almennum hegningarlögum, heldur verður tekið á slíku í löggjöf sem varðar þau réttindi sem um ræðir.

Um 2. gr.

    Lagt er til að eingöngu einstaklingar sem ekki afplána fangelsisdóm hafi óflekkað mannorð. Mannorð telst því ekki óflekkað í skilningi 34. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. laga um kosningar til Alþingis frá þeim degi sem héraðsdómur gengur þar sem viðkomandi er dæmdur til fangelsisrefsingar og þar til afplánun er lokið að fullu. Afplánun telst lokið að fullu í skilningi þessa ákvæðis þegar einstaklingur hefur lokið reynslulausn, sbr. VIII. kafla laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016. Þegar um skilorðsbundna dóma er að ræða er miðað við að einstaklingur verði kjörgengur að nýju þegar skilorðstíma er lokið.

Um 3. gr.

    Lagt er til að sambærilegt kjörgengisskilyrði gildi við kosningar til sveitarstjórna og til Alþingis, sbr. 2. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Í 13. gr. laga um dómstóla er fjallað um almenn hæfisskilyrði dómara við Hæstarétt Íslands. Í 5. tölul. 2. mgr. er kveðið á um að þann einn megi skipa í embætti hæstaréttardómara sem hafi hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
    Lagt er til að tilvísun til refsiverðs athæfis sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti verði felld brott en í staðinn komi fram að dómarar megi ekki hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta. Þetta er sama hæfisskilyrði og lagt er til varðandi starfsmenn lögreglu, lögreglustjóra, sýslumenn og skiptastjóra. Ekki þykir ásættanlegt að einstaklingur verði skipaður hæstaréttardómari ef hann hefur hlotið fangelsisdóm fyrir refsivert athæfi í ljósi þess trausts sem til dómara þarf að ríkja og valdheimilda sem þeir fara með gagnvart almennum borgurum.

Um 5. gr.

    Í 21. gr. laga um dómstóla er fjallað um almenn hæfisskilyrði dómara við Landsrétt. Í 5. tölul. 2. mgr. er gerð krafa um að þann einn megi skipa í embætti landsréttardómara sem hafi hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
    Lagt er til að tilvísun til refsiverðs athæfis sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti verði felld brott en í staðinn komi fram að dómarar megi ekki hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta. Þetta er sama hæfisskilyrði og lagt er til varðandi starfsmenn lögreglu, lögreglustjóra, sýslumenn og skiptastjóra. Sjá skýringar með 4. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Í 29. gr. laga um dómstóla er fjallað um almenn hæfisskilyrði dómara við héraðsdóm. Í 5. tölul. 2. mgr. er gerð krafa um að þann einn megi skipa í embætti héraðsdómara sem hafi hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
    Lagt er til að tilvísun til refsiverðs athæfis sem telja á svívirðilegt að almenningsáliti verði felld brott en í staðinn komi fram að dómarar megi ekki hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta. Þetta er sama hæfisskilyrði og lagt er til varðandi starfsmenn lögreglu, lögreglustjóra, sýslumenn og skiptastjóra. Sjá skýringar með 4. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.

    Í 39. gr. laga um dómstóla er fjallað um hæfi til að vera kvaddur til setu í dómi sem sérfróður meðdómsmaður. Gert er að skilyrði að viðkomandi hafi hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
    Lagt er til að tilvísun til refsiverðs athæfis sem telja á svívirðilegt að almenningsáliti verði felld brott en í staðinn komi fram að sérfróðir meðdómsmenn megi ekki hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta. Þetta er sama hæfisskilyrði og lagt er til varðandi starfsmenn lögreglu, lögreglustjóra, dómara, sýslumenn og skiptastjóra. Sjá skýringar með 4. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.

    Í 3. gr. laga um meðferð einkamála er fjallað um hæfi til að vera kvaddur til setu í dómi sem sérfróður meðdómsmaður. Gert er að skilyrði að viðkomandi hafi hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
    Lagt er til að tilvísun til refsiverðs athæfis sem telja á svívirðilegt að almenningsáliti verði felld brott en í staðinn komi fram að sérfróðir meðdómsmenn megi ekki hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta. Þetta er sama hæfisskilyrði og lagt er til varðandi starfsmenn lögreglu, lögreglustjóra, dómara, sýslumenn og skiptastjóra. Sjá skýringar með 4. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Í 81. gr. laga um meðferð einkamála er fjallað um stefnuvotta og 2. mgr. kemur fram sú krafa að stefnuvottur hafi óflekkað mannorð. Með þessu frumvarpi er lagt til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott og í staðinn bætist við ákvæði þar sem sú krafa er gerð til stefnuvotta að fimm ár þurfi að hafa liðið frá því að afplánun er að fullu lokið ef sá sem um ræðir hefur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Ekki var metin þörf á því að gera strangari kröfur til stefnuvotta en nú er gert. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 10. gr.

    Í 4. gr. laga um meðferð sakamála er fjallað hæfi til að vera kvaddur til setu í dómi sem sérfróður meðdómsmaður. Gert er að skilyrði að viðkomandi hafi hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
    Lagt er til að tilvísun til refsiverðs athæfis sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti verði felld brott en í staðinn komi fram að sérfróðir meðdómsmenn megi ekki hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta. Þetta er sama hæfisskilyrði og lagt er til varðandi starfsmenn lögreglu, lögreglustjóra, dómara, sýslumenn og skiptastjóra. Sjá skýringar með 4. gr. frumvarpsins.

Um 11. gr.

    Í 3. gr. laga um landsdóm er fjallað um kjörgengisskilyrði átta manna sem kosnir eru af Alþingi í landsdóm. Í 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. kemur fram skilyrði um óflekkað mannorð en hér er lagt til að í stað þess verði hæfisskilyrðið þyngt og gert sambærilegt þeim skilyrðum sem lagt er til að lögð verði til grundvallar við skipun dómara. Þannig er lagt til að dómarar í landsdómi megi ekki hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta. Sjá skýringar með 4. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.

    Í 6. gr. laga um samningsbundna gerðardóma er fjallað um hæfi gerðarmanna. Þar kemur fyrir krafa um að þeir skuli hafa óflekkað mannorð. Í skýringum með 6. gr. í frumvarpi til laga um samningsbundna gerðardóma er lögð áhersla á að störf gerðarmanna byggist á samningi þeirra við aðila og að gerðarmenn hafi frjálst val um það hvort þeir taka gerðarstarf að sér eða ekki. Þá er gengið út frá því að aðilar eigi frjálst val um það hverjum þeir treysta til að útkljá mál þeirra með gerð. Þá kemur fram í 3. mgr. 6. gr. að formaður gerðardóms skeri úr um hvort hæfisskilyrðum sé fullnægt.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott en í staðinn bætist við ákvæði þar sem fram komi að fimm ár þurfi að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Ekki var metin þörf á því að gera strangari kröfur til gerðarmanna en nú er gert. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 13. gr.

    Í 18. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. er fjallað um tilnefningu á matsmönnum til mats á eignum dánarbús. Í 2. mgr. kemur fram að sýslumaður skuli tilnefna matsmann sé þess krafist að eignir verði að einhverju leyti eða öllu metnar til verðs. Hafi hlutaðeigandi ekki áður gegnt hlutverki matsmanns skal hann undirrita heit um að hann muni gegna starfinu af samviskusemi og óhlutdrægni. Í 3. mgr. er gert að skilyrði tilnefningar að viðkomandi hafi óflekkað mannorð.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott en í staðinn bætist við ákvæði þar sem fram komi að fimm ár þurfi að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Ekki var metin þörf á því að gera strangari kröfur til matsmanna en nú er gert. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 14. gr.

    Í 46. gr. laga um skipti á dánarbúum er fjallað um skipun skiptastjóra til þess að fara með opinber skipti dánarbúa. Héraðsdómari skipar skiptastjóra. Í 3. tölul. 2. mgr. er gert að skilyrði að skiptastjóri hafi ekki orðið sannur að refsiverðu athæfi sem verður talið svívirðilegt að almenningsáliti eða athæfi sem gerir hann óverðugan nauðsynlegs trausts til að geta gegnt starfanum.
    Lagt er til að tilvísun til refsiverðs athæfis sem verður talið svívirðilegt að almenningsáliti verði felld brott en í staðinn komi fram að skiptastjóri megi ekki hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað ef hann voru fullra 18 ára þegar brotið var framið né orðið sannur að athæfi sem gerir hann óverðugan nauðsynlegs trausts til að geta gegnt starfanum. Þetta er sama hæfisskilyrði og lagt er til varðandi starfsmenn lögreglu, lögreglustjóra, dómara og sýslumenn. Sjá skýringar með 4. gr. frumvarpsins.

Um 15. gr.

    Í 75. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er fjallað um skipun á skiptastjóra til þess að fara með gjaldþrotaskipti. Héraðsdómari skipar skiptastjóra. Í 4. tölul. 2. mgr. er gert að skilyrði að skiptastjóri hafi ekki orðið sannur að refsiverðu athæfi sem verður talið svívirðilegt að almenningsáliti eða athæfi sem gerir hann óverðugan nauðsynlegs trausts til að geta gegnt starfanum.
    Lagt er til að tilvísun til refsiverðs athæfis sem verður talið svívirðilegt að almenningsáliti verði felld brott en í staðinn komi fram að skiptastjóri megi ekki hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið eða orðið sannur að athæfi sem gerir hann óverðugan nauðsynlegs trausts til að geta gegnt starfanum. Þetta er sama hæfisskilyrði og lagt er til varðandi starfsmenn lögreglu, lögreglustjóra, dómara og sýslumenn. Sjá skýringar með 4. gr. frumvarpsins.

Um 16. gr.

    Í 3. gr. laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði er fjallað um hæfisskilyrði til þess að hljóta skipun í embætti sýslumanns. Í e-lið 2. mgr. er gert að skilyrði að viðkomandi hafi hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem sýslumenn verða almennt að njóta. Fram kemur í skýringum með ákvæðinu í greinargerð að litið sé til þeirra hæfisskilyrða sem héraðsdómarar þurfa að uppfylla til skipunar í embætti samkvæmt dómstólalögum.
    Lagt er til að tilvísun til refsiverðs athæfis sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti verði felld brott en í staðinn komi fram að sýslumenn megi ekki hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem sýslumenn verða almennt að njóta. Þetta er sama hæfisskilyrði og lagt er til varðandi starfsmenn lögreglu, lögreglustjóra, dómara og skiptastjóra. Sjá skýringar með 4. gr. frumvarpsins.

Um 17. gr.

    Í 28. gr. lögreglulaga er fjallað um hæfisskilyrði ríkislögreglustjóra, aðstoðarríkislögreglustjóra, lögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra sem eru staðgenglar lögreglustjóra. Í e-lið 2. mgr. er kveðið á um að þeir megi hvorki hafa gerst sekir um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem geti rýrt það traust sem lögreglustjórar verða almennt að njóta.
    Lagt er til að tilvísun til refsiverðs athæfis sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti verði felld brott en í staðinn komi fram að lögreglustjórar megi ekki hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglustjórar verða almennt að njóta. Þetta er sama hæfisskilyrði og lagt er til varðandi starfsmenn lögreglu, sýslumenn, dómara og skiptastjóra. Sjá skýringar með 4. gr. frumvarpsins.

Um 18. gr.

    Í 28. gr. a lögreglulaga er fjallað um heimild til að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu við skipun, setningu eða ráðningu til starfa hjá lögreglu. Þar kemur fram að engan megi skipa, setja eða ráða til starfa hjá lögreglu sem hefur gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta. Til þess að staðreyna þetta er lögreglu heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu. Í skýringum með ákvæðinu er um túlkun á því sem telst refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti vísað til 5. gr. laga um kosningar til Alþingis.
    Lagt er til að tilvísun til refsiverðs athæfis sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti verði felld brott en í staðinn komi fram að engan megi skipa, setja eða ráða til starfa hjá lögreglu sem hefur hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta. Þetta er sama hæfisskilyrði og lagt er til varðandi lögreglustjóra, sýslumenn, dómara og skiptastjóra. Sjá skýringar með 4. gr. frumvarpsins.

Um 19. gr.

    Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um lögmenn er óflekkað mannorð eitt skilyrða til öflunar málflutningsréttinda. Lagt er til að í stað kröfu um óflekkað mannorð verði gert að skilyrði að umsækjandi um málflutningsréttindi hafi aldrei hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið. Frá þessu verði þó heimilt að víkja að fimm árum liðnum frá því að afplánun var að fullu lokið. Mikilvægt þykir að lögmenn séu þess trausts verðir sem skjólstæðingar þeirra og samfélagið þurfi að bera til þeirra.
    Í 1. mgr. 13. gr. laganna er Lögmannafélagi Íslands lögð sú skylda á herðar að hafa eftirlit með því að lögmaður uppfylli ávallt skilyrði fyrir lögmannsréttindum skv. 6., 9. og 12. gr. laganna. Komi í ljós að lögmaður fullnægi ekki þeim skilyrðum sem þar greinir ber Lögmannafélaginu að leggja til við sýslumann að réttindi hans skuli felld niður, sbr. 3. mgr. 13. gr. Þá ber að geta heimildar í 68. gr. almennra hegningarlaga til þess að svipta mann starfsréttindum með dómi í sakamáli. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt hvað þetta varðar má gera ráð fyrir því að ákæruvaldið geri kröfu um sviptingu starfsréttinda ásamt kröfu um fangelsisrefsingu yfir lögmanni með málflutningsréttindi. Þá fær embætti ríkissaksóknara dóma til fullnustu og má ætlast til þess að embættið tilkynni það Lögmannafélagi Íslands og sýslumanni komi í ljós að lögmaður hafi verið dæmdur til fangelsisrefsingar án réttindasviptingar.
    Lagt er til að kröfu um meðmæli Lögmannafélags Íslands sem undanfara stjórnvaldsákvörðunar um endurveitingu eða synjun á endurveitingu málflutningsréttinda á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laganna verði breytt í skyldu til þess að leita umsagnar Lögmannafélags Íslands áður en stjórnvaldsákvörðun er tekin og ber sýslumanni að taka mið af umsögn félagsins þrátt fyrir að vera ekki bundinn af henni. Aðkoma Lögmannafélags Íslands er mikilvæg en í ljósi þess að um atvinnuréttindi einstaklinga er að ræða þykir of víðtækt framsal að félagasamtökum sé falið bindandi ákvörðunarvald um það hvort tiltekinn einstaklingur fái málflutningsréttindi, enda er framkvæmdarvaldið veitingarvaldshafinn.
    Lagt er til að í 3. mgr. 6. gr. laga um lögmenn verði að finna undanþáguheimild frá hæfisskilyrði 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. Þannig verði heimil undanþága frá skilyrðinu um að umsækjandi um lögmannsréttindi hafi aldrei hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað að liðnum fimm árum frá því afplánun lauk að fullu, en þó ekki ef eðli brotsins og háttsemi umsækjanda sé til þess fallin að rýra það traust sem lögmenn þurfa að njóta. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið. Þá er gerð krafa um umsögn Lögmannafélags Íslands sem undanfara stjórnvaldsákvörðunar um veitingu réttinda á þessum grundvelli, eða synjun á veitingu réttinda og ber sýslumanni að taka mið af umsögn félagsins þrátt fyrir að vera ekki bundinn af henni. Ákvörðun sýslumanns er kæranleg til ráðuneytisins, sbr. 5. mgr. 29. gr. laganna.
    Við mat Lögmannafélags Íslands, sýslumanns, ráðuneytisins á kærustigi eða dómstóla á því hvort eðli brotsins og háttsemi umsækjanda sé til þess fallin að rýra það traust sem lögmenn þurfa að njóta ber að leggja heildstætt mat á umsækjanda. Í ákvæðinu má finna upptalningu á helstu sjónarmiðum sem líta ber til við matið en þau eru ekki tæmandi talin. Við matið skal líta til eðlis og alvarleika þess brots sem umsækjandi var dæmdur fyrir, hversu langur tími er liðinn frá því að afplánun lauk, aldurs umsækjanda þegar brotið var framið, hvaða ásetning hann hafði með brotinu, hvort það hafi verið framið í atvinnustarfsemi og þess tjóns sem brotið olli. Líta ber til eðlis brotsins einkum í því ljósi að lögmenn hafa trúnaðarskyldum að gegna auk þess að hafa með höndum umsýslu fjármuna skjólstæðinga sinna. Í því sambandi er rétt að líta til þess hvort í verknaðinum fólst einhvers konar misnotkun á trúnaðarstöðu, trausti, sviksemi eða ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að rýra traust gagnvart umsækjanda til að gegna lögmannsstörfum. Þá skal einnig meta hvernig háttsemi hans hefur verið frá eftir að afplánun lauk, einkum hvort umsækjandi eigi mál til meðferðar í refsivörslukerfinu og hafi t.d. þannig á ný verið sakborningur við rannsókn á sakamáli eða hlotið dóm.

Um 20. gr.

    Til þess að gæta samræmis og í ljósi sjónarmiða sem reifuð eru um breytingar á 2. mgr. 6. gr. laganna, sbr. athugasemdir með 19. gr. frumvarpsins, er lagt til að sýslumanni verði gert skylt að afla umsagnar Lögmannafélags Íslands, í stað meðmæla, áður en tekin er ákvörðun um heimild til handa umsækjanda til að gangast undir prófraun og sækja í kjölfarið á ný um lögmannsréttindi.
    Lagt er til að ný málsgrein bætist við 16. gr. laga um lögmenn þess efnis að hafi lögmaður verið sviptur réttindum ótímabundið með dómi skv. 68. gr. almennra hegningarlaga sé honum heimilt þegar fimm ár eru liðin frá því að afplánun lauk að fullu að bera undir dómstóla samkvæmt reglum um meðferð sakamála hvort fella skuli niður réttindasviptinguna. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.
    Við mat á því hvort fella skuli niður réttindasviptinguna skal dómari líta til þess hvort eðli brotsins og háttsemi umsækjanda sé til þess fallin að rýra það traust sem lögmenn þurfa að njóta, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Mikilvægt þykir að í dómaframkvæmd verði litið til sömu atriða við mat á því hvort eðli brotsins og háttsemi umsækjanda sé til þess fallin að rýra það traust sem lögmenn þurfa að njóta og við endurveitingu réttinda hjá stjórnvöldum. Í 68. og 68. gr. a almennra hegningarlaga er þess sérstaklega getið að sérákvæði í lögum um sviptingu réttinda og brottfall réttindasviptingar haldi gildi sínu og því halda lögmannalög gildi sínu gagnvart almennum hegningarlögum hvað þetta varðar.

Um 21. gr.

    Í 22. gr. laga um almennar íbúðir er fjallað um Húsnæðismálasjóð og skipun stjórnarmanna. Ráðherra skipar í stjórn sjóðsins. Í 3. mgr. er kveðið á um að stjórnarmenn skuli hafa óflekkað mannorð og megi ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða staðgreiðslu opinberra gjalda. Í skýringum með ákvæðinu kemur fram að ákvæði um hæfi stjórnarmanna og varamanna sé í samræmi við það sem almennt gildir um hæfi stjórnarmanna, sbr. t.d. 1. mgr. 8. gr. a laga um húsnæðismál um hæfi stjórnarmanna Íbúðalánasjóðs, en lagðar eru til breytingar á því ákvæði í 24. gr. frumvarpsins.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott en í staðinn bætist við ákvæði þar sem fram komi að til viðbótar við skilyrðið um að hafa ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur þurfi fimm ár að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 22. gr.

    Í 16. gr. laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða er fjallað um stjórn, stjórnarmenn og framkvæmdastjóra starfsendurhæfingarsjóða. Starfsendurhæfingarsjóðir eru sjálfseignarstofnanir skv. 13. gr. laganna og veitir ráðherra þeim viðurkenningu að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í 4. mgr. 16. gr. koma fram hæfisskilyrði stjórnarmanna í stjórn starfsendurhæfingarsjóðum og skv. 8. mgr. fer um hæfi framkvæmdastjóra skv. 4. mgr. Skv. 4. mgr. skulu þeir bæði hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld. Þó ber að geta þess að í lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, nr. 33/1999, er ekki að finna hæfisskilyrði um óflekkað mannorð.
    Er því lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott þar sem ekki þykir tilefni til að gera ríkari kröfur en samkvæmt þeim lögum.

Um 23. gr.

    Í 8. gr. a laga um húsnæðismál er fjallað um hæfisskilyrði stjórnarmanna og forstjóra Íbúðalánasjóðs. Í 7. gr. laganna kemur fram að ráðherra skipi fulltrúa í stjórn Íbúðalánasjóðs og stjórnin ræður forstjóra, sbr. 8. gr. Í 8. gr. a er kveðið á um að stjórnarmenn og forstjóri Íbúðalánasjóðs skuli hafa óflekkað mannorð auk þess sem þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, svo og sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Íbúðalánasjóði ber að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á stjórn og forstjóra og ber þeim að leggja fram fullnægjandi upplýsingar til að unnt sé að meta hvort skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt, sbr. 5. mgr. 8. gr. a. Í skýringum með ákvæðinu í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál (lög nr. 84/2012) kemur fram að ákvæðið sé efnislega samhljóða 1., 2., 3., 4. og 7. mgr. 52. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott og í staðinn bætist við ákvæði þar sem fram komi að til viðbótar við skilyrðið um að hafa ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur þurfi fimm ár að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 24. gr.

    Í 6. gr. laga um húsnæðissamvinnufélög er fjallað um stjórn, stjórnarmenn og framkvæmdastjóra húsnæðissamvinnufélaga. Húsnæðissamvinnufélög eru félög sem rekin eru að hætti samvinnufélaga og hafa að markmiði að byggja, kaupa, eiga og hafa yfirumsjón með búsetuíbúðum sem félagsmenn þeirra fá búseturétt í gegn greiðslu búseturéttargjalds og búsetugjalds samkvæmt samþykktum hvers félags, sbr. 1. gr. laganna. Skv. 5. mgr. 6. gr. skulu stjórnarmenn og framkvæmdastjóri húsnæðissamvinnufélags hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld.
    Í athugasemdum í greinargerð með 6. gr. laganna kemur fram að kveðið sé á um almennt hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra sem sé efnislega samhljóða 2. mgr. 27. gr. laga um samvinnufélög, 66. gr. laga um hlutafélög, með síðari breytingum, og 42. gr. laga um einkahlutafélög, með síðari breytingum. Þó er ekki gerð krafa um óflekkað mannorð í 66. gr. laga um hlutafélög og ekki heldur í 42. gr. laga um einkahlutafélög. Í 2. mgr. 27. gr. um samvinnufélög er vísað til refsiverðs verknaðar, slíks sem um ræðir í 1. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga, en þar er dómara í sakamáli veitt heimild til þess að svipta opinberan starfsmann sem fremur refsiverðan verknað heimild til að rækja starfann ef hann telst ekki lengur verður eða hæfur til þess.
    Samkvæmt framansögðu er lagt til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott.

Um 25. gr.

    Í 2. gr. laga um endurskoðendur koma fram skilyrði fyrir því að öðlast löggildingu til endurskoðunarstarfa. Í 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. kemur fram að viðkomandi skuli hafa óflekkað mannorð, svo sem áskilið er til kjörgengis til Alþingis. Krafan um óflekkað mannorð var tekin upp úr 2. gr. eldri laga um endurskoðendur nr. 18/1997 þar sem krafan var nýmæli. Í skýringum með ákvæðinu kemur fram að sambærilegt ákvæði megi finna víða í löggjöf, m.a. lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði nr. 92/1989 og eðlilegt þyki að gera sömu kröfur til endurskoðenda og gerðar eru til dómara og fleiri aðila að þessu leyti í lögum.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott en í staðinn komi það skilyrði að fimm ár þurfi að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef hann hefur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið. Með þessari breytingu verður óbreyttu réttarástandi að mestu viðhaldið frá núgildandi lögum, en líklegt er að æskilegt muni þykja í kjölfarið að endurskoða skilyrði til að öðlast löggildingu til endurskoðunarstarfa svo sambærilegar kröfur verði gerðar til endurskoðenda og annarra stétta sem fara með sambærileg trúnaðarstörf, t.d. lögmanna.

Um 26. gr.

    Í 4. gr. innheimtulaga er fjallað um veitingu innheimtuleyfis. Fjármálaeftirlitið fer með leyfisveitingu samkvæmt lögunum en gagnvart lögmönnum fer úrskurðarnefnd lögmanna með eftirlit samkvæmt lögunum og lögum um lögmenn, sbr. 15. gr. innheimtulaga. Innheimtuleyfi er veitt á grundvelli umsóknar frá einstaklingi sem skv. b-lið 1. mgr. hefur óflekkað mannorð svo sem áskilið er til kjörgengis við kosningar til Alþingis. Í skýringum með ákvæðinu er skilgreining 5. gr. laga um kosningar til Alþingis tekin upp.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott en í staðinn komi það skilyrði að fimm ár þurfi að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef hann hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 27. gr.

    Í 5. gr. laga um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi er fjallað um skilyrði fyrir veitingu ívilnana samkvæmt lögunum, en sérstök þriggja manna nefnd fer yfir umsóknir og gerir tillögur til ráðherra um afgreiðslu. Í n-lið 1. mgr. 5. gr. kemur fram skilyrði um að eigendur sem fara með virkan eignarhlut og framkvæmdastjóri viðkomandi félags hafi óflekkað mannorð og orðspor sem samrýmist reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Þá mega þeir ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu fimm árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Engar skýringar er að finna í greinargerð með n-lið 5. gr. Ákvæðið er byggt á 5. gr. laga nr. 99/2010, um ívilnanir til nýfjárfestinga, en þar er ekki að finna hæfisskilyrði eigenda og framkvæmdastjóra.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott en eftir standi „hafi orðspor sem samrýmist reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti“. Þá bætist við ákvæði þar sem fram kemur að til viðbótar við skilyrðið um að hafa ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur þurfi fimm ár að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 28. gr.

    Í 7. gr. samkeppnislaga er fjallað um þær kröfur sem gerðar eru til stjórnarmanna Samkeppniseftirlitsins. Skv. 2. mgr. 5. gr. laganna skipar ráðherra þriggja manna stjórn til fjögurra ára í senn og skipar ráðherra formann stjórnar. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins skal ráðinn af stjórn stofnunarinnar skv. 6. gr. laganna. Skv. 3. mgr. 7. gr. skulu stjórnarmenn og forstjóri hafa óflekkað mannorð og mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga eða gjaldþrot eða samkeppnislögum. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að samkeppnislögum segir í skýringum með 7. gr. að ákvæðið sé nýmæli, en slíkar reglur þyki nauðsynlegar til að tryggja trúverðugleika stofnunarinnar. Varðandi almennt hæfi í 3. mgr. ákvæðisins kemur fram að nauðsynlegt þyki að hafa ákvæði um almennt hæfi í lögum þar sem mikilvægt sé að stjórnarmenn og forstjóri njóti trausts og séu hlutlægir.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott. Þá bætist við ákvæði þar sem fram kemur að til viðbótar við skilyrðið um að hafa ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur þurfi fimm ár að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 29. gr.

    Í 8. gr. laga um fjölmiðla er fjallað um skipan fjölmiðlanefndar. Ráðherra skipar í fjölmiðlanefnd. Skv. 2. mgr. 8. gr. skulu nefndarmenn hafa óflekkað mannorð og mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða sérrefsilagaákvæðum. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um fjölmiðla segir um 2. mgr. 8. gr. að þar sé að finna hefðbundin fyrirmæli um almennt hæfi stjórnarmanna.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott. Þá bætist við ákvæði þar sem fram kemur að til viðbótar við skilyrðið um að hafa ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur þurfi fimm ár að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 30. gr.

    Í 4. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta er fjallað um hæfi stjórnar og framkvæmdastjóra Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og aðilar að sjóðnum sbr. 3. gr. laganna eru aðilar sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti og hafa staðfestu hér á landi. Skv. 4. gr. skal stjórn sjóðsins skipuð sex mönnum og stjórn sjóðsins er heimilt að ráða framkvæmdastjóra við sjóðinn eða semja við lögaðila um rekstur og vörslu hans. Í 3. mgr. 4. gr. eru þær kröfur gerðar til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra að þeir skulu hafa óflekkað mannorð og mega ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld. Í athugasemdum í greinargerð með 3. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að hæfisskilyrðin séu hin sömu og fram komi í 3. mgr. 6. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott. Þá bætist við ákvæði þar sem fram kemur að til viðbótar við skilyrðið um að hafa ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur þurfi fimm ár að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 31. gr.

    Í 11. gr. laga um Kauphallir er fjallað um stjórn og framkvæmdastjóra kauphallar. Í 2 mgr. kemur fram að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu hafa óflekkað mannorð. Þá mega þeir ekki á síðustu fimm árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um kauphallir, eða löggjöf um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Skv. 4. mgr. leggur Fjármálaeftirlitið mat á hæfi nýs stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra. Í greinargerð með ákvæðinu kemur fram að kveðið sé á um hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra kauphallar. Þessi hæfisskilyrði séu að mestu leyti þau sömu og áður voru gerð til stjórnarmanna í kauphöll. Þó sé samkeppnislögum og kauphallarlögum bætt í upptalninguna á þeim lögum sem menn mega ekki hafa hlotið dóm fyrir að brjóta gegn síðustu fimm ár. Eðlilegt þyki að gera þessar kröfur til þeirra er gegna þessum ábyrgðarmiklu störfum.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott. Þá bætist við ákvæði þar sem fram kemur að til viðbótar við skilyrðið um að hafa ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur þurfi fimm ár að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 32. gr.

    Í 5. gr. laga um Landsvirkjun er fjallað um stjórn Landsvirkjunar. Ráðherra skipar stjórn Landsvirkjunar. Skv. 2. mgr. skulu stjórnarmenn hafa óflekkað mannorð. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 154/2006, um breyting á lögum um Landsvirkjun, segir um þessa grein að um hæfisreglu sé að ræða sem tengd sé almennum neikvæðum hæfisreglum hvað varðar stjórnarsetu. Þannig verði almennt að telja að einstaklingar, sem beint eða óbeint inna af hendi störf, taka við greiðslum eða hafa hagsmuna að gæta í öðrum orkufyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum orkustarfsemi en Landsvirkjun, geti ekki gætt hagsmuna félagsins í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á skipulagi raforkumála.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott. Þá bætist við ákvæði þar sem fram kemur að fimm ár þurfi að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 33. gr.

    Í 6. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er fjallað um stjórnarmenn og forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Ráðherra skipar stjórn stofnunarinnar og stjórn stofnunarinnar ræður forstjóra. Skv. 3. mgr. 6. gr. skulu stjórnarmenn og forstjóri hafa óflekkað mannorð og mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða þeim sérlögum sem gilda um eftirlitsskylda aðila. Í skýringum með 3. mgr. 6. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi kemur fram að nauðsynlegt þyki að ferill stjórnenda sé með þeim hætti að hægt sé að bera til þeirra traust og að þeir geti metið mismunandi tilvik á hlutlægum forsendum.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott. Þá bætist við ákvæði þar sem fram kemur að til viðbótar við skilyrðið um að hafa ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur þurfi fimm ár að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði samkvæmt núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 34. gr.

    Í 4. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa er fjallað um stjórnarmenn í verðbréfamiðstöð. Skv. 3. gr. veitir ráðherra verðbréfamiðstöð starfsleyfi að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitisins. Í 1. mgr. 4. gr. er gerð krafa um að stjórnarmenn í verðbréfamiðstöð hafi óflekkað mannorð og megi ekki á síðustu fimm árum í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld. Í greinargerð með ákvæðinu kemur fram að sett séu fram ítarleg hæfisskilyrði sem gilda um stjórnarmenn verðbréfamiðstöðvar og að ákvæði þessa töluliðar sé samhljóða sambærilegu ákvæði í 3. tölul. 3. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, sem var í gildi þegar lögin voru sett. Nú hafa þau verið felld úr gildi með lögum nr. 33/2003 en þau voru síðan felld úr gildi með lögum nr. 108/2007. Þá kemur fram að þau hæfisskilyrði sem hér eru sett fram verði að telja eðlileg um stjórnendur fyrirtækja á fjármálamarkaði.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott. Þá bætist við ákvæði þar sem fram kemur að til viðbótar við skilyrðið um að hafa ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur þurfi fimm ár að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 35. gr.

    Í 31. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er fjallað um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra lífeyrissjóða. Skv. 8. mgr. 31. gr. metur Fjármálaeftirlitið hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Skv. 1. mgr. 31. gr. skulu þeir hafa óflekkað mannorð og mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld, svo og sérlögum um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Í skýringum með núgildandi 1. mgr. 31. gr. laganna með frumvarpi því um breytingar á lögunum sem varð að lögum nr. 122/2011 kemur fram að lagt sé til að þeir sem taka sæti í stjórn lífeyrissjóðs og framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs megi ekki hafa hlotið dóm vegna brota á samkeppnislögum eða sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Er í ákvæðinu lögð til sú breyting að menn mega ekki hafa hlotið dóm fyrir brot í atvinnurekstri á síðastliðnum tíu árum í stað fimm áður. Tekið er fram í athugasemdum að ákvæðið eigi samsvörun í löggjöf um aðra eftirlitsskylda aðila á fjármálamarkaði.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott. Þá bætist við ákvæði þar sem fram kemur að til viðbótar við skilyrðið um að hafa ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur þurfi fimm ár að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 36. gr.

    Í 1. mgr. 85. gr. laga um tekjuskatt er fjallað um hæfisskilyrði ríkisskattstjóra. Ráðherra skipar ríkisskattstjóra og skv. 1. tölul. 1. mgr. 85. gr. laganna má engan skipa í það embætti nema hann hafi óflekkað mannorð eða hafi ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað, slíkan sem um ræðir í 1. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt núgildandi 1. mgr. 68. gr. má í sakamáli á hendur opinberum starfsmanni sem fremur refsiverðan verknað svipta hann heimild til að rækja starfann teljist hann ekki lengur verður eða hæfur til þess. Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs í tekjuskattslögunum verði felld brott. Þá er lagt til að við bætist nýr málsliður þar sem tekið er fram það skilyrði fyrir skipan í embætti ríkisskattstjóra að fimm ár þurfi að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef hann hefur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 37. gr.

    Í 48. gr. tollalaga er fjallað um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis til tollmiðlunar. Tollstjóri veitir slíkt starfsleyfi til lögaðila. Skv. 2. tölul. 2. mgr. skulu stjórnarmenn lögaðilans hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Þá mega stjórnarmenn ekki hafa gengist undir sátt eða hlotið dóm vegna brota á tollalögum eða hlotið dóm fyrir fíkniefnabrot. Í greinargerð með ákvæðinu kemur fram að sett séu fram ítarleg almenn hæfisskilyrði um stjórnarmenn í samræmi við ákvæði um stjórnarmenn hlutafélaga og einkahlutafélaga samkvæmt gildandi lögum um það efni. Til viðbótar þyki rétt að gera þá kröfu til stjórnarmanna að þeir hafi ekki gerst sekir um brot á tollalögum og fíkniefnalöggjöf. Þá kemur fram að telja verði þau hæfisskilyrði sem hér séu sett fram eðlileg um stjórnendur tollmiðlara sem annast mikilvægt hlutverk við tollafgreiðslu vöru.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs í tollalögum verði felld brott. Þá er lagt til að við bætist nýr málsliður þar sem tekið er fram skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis til tollmiðlunar, sem kemur til viðbótar við skilyrðið um að stjórnarmenn lögaðilans hafi ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur, þ.e. að fimm ár þurfi að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 38. gr.

    Í 91. gr. tollalaga er fjallað um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis til reksturs tollvörugeymslu fyrir ótollafgreiddar vörur í tollhöfn. Tollstjóri veitir slíkt starfsleyfi til lögaðila. Skv. 2. tölul. 1. mgr. skulu stjórnarmenn lögaðilans hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Þá mega stjórnarmenn ekki hafa gengist undir sátt eða hlotið dóm vegna brota á tollalögum eða hlotið dóm fyrir fíkniefnabrot. Í greinargerð með ákvæðinu kemur fram að sett séu fram ítarleg almenn hæfisskilyrði um stjórnarmenn og að fyrirmynd ákvæðisins sé að hluta til sótt í ákvæði um stjórnarmenn hlutafélaga og einkahlutafélaga samkvæmt gildandi lögum um það efni. Að auki var talið rétt að gera þá kröfu til stjórnarmanna að þeir hafi ekki gerst sekir um brot á tollalögum og fíkniefnalöggjöf. Þá kemur fram að rétt verði að telja þau hæfisskilyrði sem hér eru sett fram eðlileg um stjórnendur tollvörugeymslu, sem annast mikilvægt hlutverk við vörslu og meðferð ótollafgreiddra vara.
    Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs í tollalögum verði felld brott. Þá er lagt til að við bætist nýr málsliður þar sem tekið er fram skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis til reksturs tollvörugeymslu, sem kemur til viðbótar við skilyrðið um að stjórnarmenn lögaðilans hafi ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur, þ.e. fimm ár þurfi að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 39. gr.

    Í 135. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi er fjallað um aðalumboðsmann útibús vátryggingafélags sem hefur höfuðstöðvar utan aðildarríkja ESB og stofnar hér útibú. Samkvæmt 1. mgr. 135. gr. skal slíkur umboðsmaður vera með óflekkað mannorð og má ekki á síðustu fimm árum í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað skv. almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot, opinber gjöld eða lögum um vátryggingastarfsemi. Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott. Þá bætist við ákvæði þar sem fram kemur að til viðbótar við skilyrðið um að hafa ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur þurfi fimm ár að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef hann hefur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 40. gr.

    Í 1. mgr. 20. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur er kveðið á um skipun ríkissáttasemjara og skv. 2. mgr. 20. gr. skal vararíkissáttasemjari fullnægja sömu skilyrðum og ríkissáttasemjari. Samkvæmt ákvæðinu skulu þeir hafa óflekkað mannorð en hér er lagt til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott. Þá bætist við ákvæði þar sem fram kemur að fimm ár þurfi að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 41. gr.

    Í 42. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur er fjallað um dómara við Félagsdóm og skulu þeir hafa óflekkað mannorð. Dómarar eru skipaðir til þriggja ára og eru skipaðir skv. reglum í 39. og 40. gr. Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott. Þá bætist við ákvæði þar sem fram kemur að fimm ár þurfi að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 42. gr.

    Í 46. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur er málsaðilum fyrir félagsdómi veitt heimild til þess að gefa einstaklingum umboð til að reka mál sín fyrir dómnum. Gert er að skilyrði að umboðshafi hafi óflekkað mannorð. Lagt er til að tilvísun til óflekkaðs mannorðs verði felld brott. Þá bætist við ákvæði þar sem fram kemur að fimm ár þurfi að hafa liðið frá því afplánun lauk að fullu ef hann hefur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið. Þetta er efnislega sama skilyrði og samkvæmt núgildandi lögum sem vísa til skilgreiningar á flekkuðu mannorði, sbr. núgildandi 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Fimm ár frá því að afplánun er að fullu lokið í skilningi þessa ákvæðis byrja að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið.

Um 43. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.