Ferill 403. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Nr. 31/149.

Þingskjal 1687  —  403. mál.


Þingsályktun

um fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019–2023.


    Alþingi ályktar, sbr. lög um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum, að á árunum 2019–2023 skuli unnið að fjarskiptum, netöryggi, póstmálum og málefnum Þjóðskrár Íslands í samræmi við eftirfarandi aðgerðaáætlun sem er hluti af og innan ramma fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2019–2033 þar sem mörkuð er stefna og markmið sett fyrir framangreind málefni á gildistíma áætlunarinnar. Aðgerðaáætlunin tekur mið af ramma fjármálaáætlunar fyrir árin 2019–2023.
    Fjárhæðir eru á verðlagi frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2019 og eru í milljónum króna.

Tafla 1. Fjármálaáætlun 2019–2023.
Fjárhæðir fyrir 2022 og 2023 eru áætlaðar. Áætlaðar fjárveitingar vegna Farice eru undanskildar.
Fjarskiptaáætlun 2019–2023 2019 2020 2021 2022 2023 Samtals
Fjarskipti og póstmál og málefni Þjóðskrár Íslands samtals 2.913 2.901 2.867 2.867 2.867 14.414
10-512 Póst- og fjarskiptastofnun 484 509 509 509 509 2.520
10-513 Jöfnunarsjóður alþjónustu 48 48 48 48 48 239
10-521 Fjarskiptasjóður 495 482 482 482 482 2.423
10-601 Þjóðskrá Íslands 1.886 1.862 1.828 1.828 1.828 9.232
Verðlag fjárlagafrumvarps 2019.

MARKMIÐ OG VERKEFNI
    Einkum verði unnið að eftirtöldum verkefnum og markmiðum í samræmi við settar áherslur 15 ára áætlunarinnar.

1. Markmið um aðgengileg og greið fjarskipti.
Verkefni til að ná þessu markmiði verði m.a.:
     1.      Síðustu samningar ríkis og sveitarfélaga um ljósleiðaravæðingu landsins um verkefnið Ísland ljóstengt verði undirritaðir 2020, með hliðsjón af aðgerð 51 í sáttmála ríkisstjórnarinnar.
     2.      Uppbyggingu á grundvelli verkefnisins Ísland ljóstengt ljúki fyrir árslok 2021.
     3.      Lokið verði við hringtengingu ljósleiðara á Austfjörðum, milli Seyðisfjarðar og Neskaupstaðar um Mjóafjörð.
     4.      Áætlanir verði mótaðar um ljósleiðaravæðingu og uppbyggingu fjarskiptaaðstöðu gagnvart helstu samgöngumannvirkjum og vegna örrar tækniþróunar.
     5.      Uppbyggingarþörf fastaneta og sendastaða í tengslum við 5G-innviði, einkum gagnvart samgöngum og tækniþróun, verði metin.
     6.      Forsendur krafna um útbreiðslu farneta verði endurskoðaðar í ljósi meðal annars nettengdra tækja, notkunar hárra fjarskiptatíðna og þjónustu á 5G-netum.

2. Markmið um örugg fjarskipti.
Verkefni til að ná þessu markmiði verði m.a.:
     1.      Mótuð verði úttektarstefna og áætlun til að stuðla að viðunandi öryggi fjarskiptaneta.
     2.      Greining og viðbragðsgeta vegna netógna standist alþjóðlegan samanburð.
     3.      Lög verði sett um íslenska landslénið .is.
     4.      Við innkaup, þróun, rekstur og viðhald á opinberum kerfum og netum verði öryggiskröfur í forgangi. Netöryggisráð verði nýtt sem samvinnuvettvangur stjórnvalda vegna netöryggismála eftir því sem við á og leitað verði samstarfs við fyrirtæki og stofnanir. Fjölbreytt menntun á sviði netöryggis standi til boða, allt frá einföldum námskeiðum til framhaldsnáms á háskólastigi, hérlendis eða í samstarfi við erlenda aðila. Netöryggisvitund verði efld með fræðslu, viðburðum og keppnum hérlendis og með þátttöku í alþjóðlegum viðburðum.
     5.      Vernd mikilvægra innviða verði aukin með fræðslu, löggjöf, samvinnu um skipulag netöryggis, úttektum, æfingum og prófunum. Tekið verði mið af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, þar á meðal á sviði varnarmála. Árangur verði metinn reglulega og nauðsynlegum umbótum fylgt eftir.
     6.      Brugðist verði við ráðleggingum í skýrslu Oxford-háskóla um stöðu netöryggis hérlendis og staða endurmetin.

3. Markmið um hagkvæmni og skilvirkni í fjarskiptum.
Verkefni til að ná þessu markmiði verði m.a.:
     1.      Greindar verði leiðir til að auka öryggi og hagkvæmni í gagnaflutningum til og frá landinu.
     2.      Allir fjarskiptainnviðir verði kortlagðir á heildstæðan hátt.
     3.      Gerðar verði leiðbeiningar um frágang og öryggi ljósleiðarastrengja í þéttbýli.
     4.      Hvatar til fjárfestinga í fjarskiptainnviðum á grundvelli samkeppni og samvinnu, svo sem vegna 5G, verði metnir og tillögur útfærðar eftir atvikum.
     5.      Greining fari fram á helstu fjarskiptainnviðum í opinberri eigu. einkum með tilliti til öryggis og samkeppnissjónarmiða eftir atvikum.
     6.      Nýtt heildarregluverk í fjarskiptum verði innleitt svo fljótt sem kostur er.
     7.      Samræmd stafræn grunngerð fjarskipta og samgangna verði skilgreind og kortlögð.
     8.      Greindar verði ógnir og tækifæri sem tengjast örum tæknibreytingum sem kenndar eru við fjórðu iðnbyltinguna. Gerðar verði nauðsynlegar skipulags- og lagabreytingar og áherslum breytt þannig að stjórnsýslan og löggjöfin styðji og, eftir því sem við getur átt, hafi áhrif á þróun hér á landi.
     9.      Mótað verði framtíðarfyrirkomulag fjarskiptatíðnimála og gervihnattaþjónustu, þ.m.t. gervihnattaleiðsögu, á Íslandi og norðurslóðum í samvinnu við samgönguyfirvöld.
     10.      Gæðaviðmið verði sett og fjarskiptaþjónusta mæld samkvæmt þeim. Einnig verði upplýsingar um gæði gerðar aðgengilegar neytendum.
     11.      Tækifæri til að auka fjarskiptarannsóknir og kennslu í fjarskiptafræðum á háskólastigi verði metin.
     12.      Gagnagrunnur þjóðskrárinnar verði endurbættur kerfisbundið í áföngum til að koma til móts við breytingar í löggjöf og aukna sjálfvirkni tilkynninga í þjóðskrá, og til að uppræta bótasvik og mæta auknum kröfum samfélagsins um upplýsingar um réttindi og stöðu einstaklinga.
     13.      Skilgreindir verði hvatar sem stuðli að gjaldfrjálsu flæði opinberra upplýsinga milli stofnana, til að mynda úr þjóðskrá og fasteignaskrá.
     14.      Endurskoðuð verði aðferðafræði við fasteignamat til að tryggja betra samræmi í fasteignamati og auka jafnræði skatta og gjalda sem á því grundvallast.
     15.      Sameiginleg innkaup á gögnum sem nýtast mörgum ríkisstofnunum verði aukin.
     16.      Unnið verði að öruggum og rekjanlegum aðferðum við afhendingu persónugreinanlegra upplýsinga úr þjóðskrá, svo sem með vefþjónustu og vefuppfletti.
     17.      Nýtt heildarregluverk í póstþjónustu verði innleitt í upphafi árs 2020.

4. Markmið um umhverfisvæn fjarskipti.
Verkefni til að ná þessu markmiði verði m.a.:
     1.      Tækifæri til jákvæðari áhrifa á umhverfið við uppbyggingu og rekstur fjarskipta og póstþjónustu verði metin meðal annars með hliðsjón af hagrænum þáttum.
     2.      Unnið verði í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.

Tafla 2. Árangursmælikvarðar markmiða og aðgerða.
Nr. Markmið HM Mælikvarðar Staða 2017 Viðmið 2019 Viðmið 2023
1 Aðgengileg og greið fjarskipti. 9.c Aðgengi lögheimila og fyrirtækja að 100 Mb/s. 80% 90% 99,9%
Aðgengi lögheimila og fyrirtækja að 1 Gb/s. 30% 60% 90%
Aðgengi lögheimila og fyrirtækja að ljósleiðaratengingu. 64% 78% 95%
Aðgengi lögheimila að farsíma og farneti. 99,95% 99,95% 99,95%
2 Örugg fjarskipti. Öryggisvísitala. Grunnmat verður gert 2018. 20% aukning. Staða svipuð og hjá norrænu viðmiðunarríki.
Talsamband/háhraðanet á vegum utan þéttbýlis. 95,6/82,7% 95,8/85% 97/90%
Talsamband/háhraðanet á vegum í yfir 200 m hæð yfir sjávarmáli. 90,1/66,2% 90,1/66,5% 93/70%
3 Hagkvæm og skilvirk fjarskipti. Verð á fjarskiptaþjónustu í samanburði við önnur OECD-ríki.
Fjöldi þjónustuþátta í flokki 25% landa með hagkvæmasta verð.
80% 80% 100%
4 Umhverfisvæn fjarskipti. 9.c Aðgengi lögheimila og fyrirtækja að ljósleiðaratengingu. 64% 78% 95%
Aðgengi lögheimila að farsíma og farneti. 99,95% 99,95% 99,95%

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2019.