Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1284, 150. löggjafarþing 722. mál: breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru (meðferð mála hjá sýslumönnum og dómstólum o.fl.).
Lög nr. 32 30. apríl 2020.

Lög um breytingu á ýmsum lögum til að heimila framlengingu fresta og rafræna meðferð mála hjá sýslumönnum og dómstólum o.fl.


I. KAFLI
Breyting á lögum um dánarvottorð, krufningar o.fl., nr. 61/1998, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Heimilt er að miðla upplýsingum sem fram koma í dánarvottorði rafrænt í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Í reglugerð skal mælt fyrir um almenn skilyrði varðandi vinnslu og tegund gagna og upplýsinga, til hvaða stofnana sé heimilt að miðla persónuupplýsingum og í hvaða tilgangi, auk fyrirmæla um öryggi og verklag við vinnslu.

II. KAFLI
Breyting á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum.

2. gr.

     Við 1. mgr. 4. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í þeim tilvikum þegar yfirlýsing er gefin bréflega er heimilt að leggja hana fram á rafrænu eyðublaði ef það er undirritað með fullgildum rafrænum skilríkjum. Við þær aðstæður er ekki þörf á sérstakri staðfestingu lögmanns eða tveggja vitundarvotta.

III. KAFLI
Breyting á lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999, með síðari breytingum.

3. gr.

     Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sýslumanni er í undantekningartilvikum heimilt að afla samþykkis viðkomandi rafrænt og veita leiðbeiningar í síma eða á fjarfundi.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.

4. gr.

     Orðin „eigin hendi“ í 2. málsl. 1. mgr. 52. gr. laganna falla brott.

V. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.

5. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 61. gr. og 1. mgr. 62. gr. getur lögregla ákveðið fram til 1. október 2020 að skýrslugjöf sakbornings og vitna fari fram á fjarfundi. Skýrslugjöf sakbornings og lykilvitna skal fara fram á fjarfundi með hljóði og mynd.
     Þrátt fyrir ákvæði þessara laga getur dómari ákveðið fram til 1. október 2020 að aðalmeðferð og önnur þinghöld, þ.m.t. skýrslugjöf sakbornings, ákærða og vitna, fari fram á fjarfundi, enda verði þinghaldi háttað þannig að allir viðkomandi aðilar heyri þau orðaskipti sem fara fram. Telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila. Skýrslugjöf sakbornings, ákærða og lykilvitna skulu þó fara fram á fjarfundi með hljóði og mynd.
     Skjöl og sýnileg sönnunargögn sem leggja skal fram vegna reksturs máls samkvæmt lögum þessum teljast fram til 1. október 2020 afhent dómstól berist þau honum sannanlega rafrænt innan tilskilins frests, enda verði dómstól sendur í pósti og án ástæðulauss dráttar tilskilinn fjöldi eintaka skjalanna og annarra sýnilegra sönnunargagna. Málsaðila er skylt að afhenda gagnaðila samtímis og með sama hætti skjöl og sýnileg sönnunargögn sem þannig eru afhent dómstól.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.

6. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði þessara laga getur dómari ákveðið fram til 1. október 2020 að aðalmeðferð og önnur þinghöld en þingfesting almennra einkamála fari fram á fjarfundi, enda verði þinghaldi háttað þannig að allir viðkomandi aðilar heyri þau orðaskipti sem fara fram. Telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila. Skýrslugjöf málsaðila og vitna skal fara fram á fjarfundi með hljóði og mynd ef þess er kostur.
     Skjöl og sýnileg sönnunargögn sem leggja skal fram vegna reksturs máls samkvæmt lögum þessum teljast fram til 1. október 2020 afhent dómstól berist þau honum sannanlega rafrænt innan tilskilins frests, enda verði dómstól sendur í pósti og án ástæðulauss dráttar tilskilinn fjöldi eintaka skjalanna og annarra sýnilegra sönnunargagna. Málsaðila er skylt að afhenda gagnaðila samtímis og með sama hætti skjöl og sýnileg sönnunargögn sem þannig eru afhent dómstól.
     Ákvæði þetta tekur einnig til þinghalda og framlagningar skjala og sýnilegra sönnunargagna í einkamálum sem rekin eru fyrir dómstólum samkvæmt heimild í öðrum lögum að því leyti sem þar er vísað til ákvæða um þinghöld og sönnunarfærslu í lögum um meðferð einkamála.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, með síðari breytingum.

7. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Fram til 1. október 2020 er heimilt að taka mál fyrir í síma eða á fjarfundi, enda verði fyrirtöku málsins háttað þannig að allir viðkomandi aðilar heyri þau orðaskipti sem fram fara.
     Heimilt er að fylgja ákvæðum IX. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og bjóða upp á rafræna meðferð mála fram til 1. október 2020.

VIII. KAFLI
Breyting á erfðalögum, nr. 8/1962, með síðari breytingum.

8. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Fram til 1. október 2020 er heimilt að fylgja ákvæðum IX. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, við miðlun upplýsinga og gagna í tengslum við umsókn eftirlifandi maka um leyfi til setu í óskiptu búi.

IX. KAFLI
Breyting á áfengislögum, nr. 75/1998, með síðari breytingum.

9. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 6. gr., 3. mgr. 8. gr., 3. mgr. 9. gr. og 3. mgr. 10. gr. skal gildistími leyfis sem rennur út á tímabilinu fram til 1. október 2020 og ekki reynist unnt að framlengja sökum hindrunar sem ekki byggist á atvikum er varða málsaðila sjálfan framlengjast til 1. desember 2020.

X. KAFLI
Breyting á lögum um aðför, nr. 90/1989, með síðari breytingum.

10. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Heimilt er að fylgja ákvæðum IX. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og bjóða upp á rafræna meðferð mála fram til 1. október 2020.

XI. KAFLI
Breyting á lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, með síðari breytingum.

11. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Heimilt er að fylgja ákvæðum IX. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og bjóða upp á rafræna meðferð mála fram til 1. október 2020.

XII. KAFLI
Breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum.

12. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Heimilt er að fylgja ákvæðum IX. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og bjóða upp á rafræna meðferð mála fram til 1. október 2020.
     Ljúki fresti skv. 2. mgr. 27. gr., 1. mgr. 35. gr. og 3. mgr. 66. gr. og ekki reynist unnt að halda áfram aðgerðum í tengslum við nauðungarsölu sökum hindrunar sem ekki byggist á atvikum er varða málsaðila framlengist fresturinn um 60 daga frá þeim degi er hindruninni lauk.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 28. apríl 2020.