Ferill 775. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1354  —  775. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um fjarskipti.

Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.I. KAFLI

Markmið og gildissvið.

1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um fjarskipti, fjarskiptaþjónustu og fjarskiptanet hér á landi.
    Fjarskipti sem eingöngu eru boð eða sendingar með þræði innan húsakynna heimilis, fyrirtækis eða stofnunar, svo sem í sjúkrahúsum, gistihúsum, skólum og verksmiðjum, heyra ekki undir lög þessi.
    Lög þessi gilda ekki um efni sem sent er á fjarskiptanetum.

2. gr.

Markmið.

    Markmið laganna er að tryggja aðgengileg, greið, hagkvæm, skilvirk og örugg fjarskipti hér á landi. Enn fremur er markmið þeirra að auka vernd og valmöguleika neytenda og stuðla að virkri samkeppni, hagkvæmum fjárfestingum og nýsköpun á fjarskiptamarkaði.
    Íslenska ríkið skal stuðla að því, eftir því sem unnt er, að öllum landsmönnum og fyrirtækjum bjóðist aðgangur að fjarskiptaþjónustu og háhraðanetum, þ.m.t. föstum netum, farnetum og þráðlausum netum, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.

II. KAFLI

Umgjörð fjarskiptamála.

3. gr.

Stjórn fjarskiptamála.

    Ráðherra fer með yfirstjórn fjarskiptamála.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa umsjón með fjarskiptum innan lögsögu íslenska ríkisins, þar á meðal notkun fjarskiptatíðnirófs, og eftirlit með framkvæmd laga þessara.

4. gr.

Fjarskiptaáætlun og fjarskiptaráð.

    Ráðherra leggur fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun á að minnsta kosti þriggja ára fresti þar sem mörkuð skal stefna fyrir næstu fimmtán árin. Í fjarskiptaáætlun skal gera grein fyrir ástandi og horfum hvað varðar fjarskipti í landinu og meta og taka tillit til þarfa samfélagsins fyrir bætt fjarskipti. Skilgreina skal markmið stjórnvalda og leggja þannig grunn að framþróun íslensks samfélags. Heimilt skal í fjarskiptaáætlun að skoða fjarskipti heildstætt í tengslum við aðra þætti samskipta, svo sem rafræn samskipti og samskipti sem byggjast á póstþjónustu.
    Í fjarskiptaáætlun skal leggja áherslu á:
     1.      að ná fram víðtæku samstarfi markaðarins, neytenda, opinberra stofnana og ráðuneyta um stefnumótun er varðar fjarskipti og skyld svið,
     2.      að styrkja samkeppni á fjarskiptamarkaði og auka samkeppnishæfni Íslands,
     3.      að tryggja öryggi almennra fjarskiptaneta innan lands og tengingar Íslands við umheiminn,
     4.      að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og hámarka jákvæð áhrif fjarskipta á hagvöxt,
     5.      að ná fram samræmdri forgangsröðun og stefnumótun og skal forgangsröðun byggjast á mati á þörf fyrir úrbætur á landinu í heild og í einstökum landshlutum,
     6.      að stuðla að atvinnuuppbyggingu, eflingu lífsgæða og jákvæðri byggðaþróun.
    Í fjarskiptaáætlun skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára. Í aðgerðaáætlun skal gera grein fyrir fjáröflun og útgjöldum eftir einstökum verkefnum eins og við á. Áður en aðgerðaáætlun er unnin leggur ráðherra fram fjárhagsramma til fjarskiptaráðs.
    Ráðherra skipar fjarskiptaráð sem gerir tillögu til ráðherra að fjarskiptaáætlun og fimm ára aðgerðaáætlun, stefnu og forgangsröðun, að fengnum áherslum ráðherra. Í fjarskiptaráði sitja eftirtaldir sjö fulltrúar: einn fulltrúi atvinnulífsins, einn fulltrúi neytenda, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, forstjóri Þjóðskrár Íslands, fulltrúi þeirrar skrifstofu ráðuneytisins sem fer með fjarskiptamál og tveir fulltrúar ráðherra og skal annar þeirra vera formaður. Skipunartími fjarskiptaráðs takmarkast við embættistíma þess ráðherra sem skipar.
    Við gerð fjarskiptaáætlunar skal gæta að samráði við hagsmunaaðila. Jafnframt skal almenningi gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum og athugasemdum að í opnu samráðsferli.
    Ráðherra setur reglugerð um starfsemi fjarskiptaráðs.

III. KAFLI

Orðskýringar.

5. gr.

Orðskýringar.

    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     1.      Aðgangur: Að veita öðru fyrirtæki aðgang að aðstöðu eða þjónustu samkvæmt skilgreindum skilyrðum, hvort sem um er að ræða einkaaðgang eða ekki, í því skyni að veita rafræna fjarskiptaþjónustu, þ.m.t. þegar hún er notuð við afhendingu þjónustu í upplýsingasamfélaginu eða útsendingu efnis. Hann tekur m.a. til aðgangs að einstökum netþáttum og tengdri tilheyrandi aðstöðu sem getur falið í sér tengingu búnaðar, hvort sem hún er föst eða þráðlaus (þetta tekur einkum til aðgangs að heimtaug og aðstöðu og þjónustu sem nauðsynleg er til að veita þjónustu um heimtaugina), aðgangs að efnislegu grunnvirki, þ.m.t. byggingum, rörum og lagnaleiðum og möstrum, aðgangs að viðeigandi hugbúnaðarkerfum, þ.m.t. að rekstrarstuðningskerfum, upplýsingakerfum eða gagnagrunnum fyrir forpantanir, útvegun, pantanir, beiðnir um viðhald og viðgerðir og gerð reikninga, aðgangs að númerafærslum eða kerfum þar sem jafngild virkni er í boði, aðgangs að föstum netum og farnetum, einkum fyrir reiki, aðgangs að skilyrtum aðgangskerfum fyrir stafræna sjónvarpsþjónustu og aðgangs að sýndarnetsþjónustu.
     2.      Aðgangspunktur: Efnislegur staður inni í eða fyrir utan byggingu sem er aðgengilegur fjarskiptafyrirtækjum þar sem tenging við innanhússfjarskiptalögn sem er tilbúin fyrir háhraðatengingu er gerð aðgengileg.
     3.      Almenn heimild: Fyrirkomulag sem komið er á fót til að tryggja rétt aðila til að bjóða fram fjarskiptanet eða -þjónustu og til að mæla fyrir um skyldur sem eru sértækar fyrir fjarskipti sem geta gilt um allar eða tilteknar gerðir fjarskiptaneta og -þjónustu í samræmi við lög þessi.
     4.      Almennt fjarskiptanet: Fjarskiptanet sem notað er að öllu eða mestu leyti til að veita almenna fjarskiptaþjónustu og styður við flutning á upplýsingum milli nettengipunkta.
     5.      Alþjónusta: Afmarkaðir þættir fjarskipta af tilteknum lágmarksgæðum sem boðnir eru neytendum á viðráðanlegu verði í samræmi við ákvæði laga þessara.
     6.      Efnislegt grunnvirki: Netþáttur sem er ætlað að hýsa aðra netþætti án þess að verða sjálfur að virkum þætti í netinu, svo sem rör, möstur, lagnir, brunnar til að sinna eftirliti, mannop, tengikassar, byggingar eða inngangar að byggingum, loftnetsbúnaður, turnar og súlur. Hins vegar eru strengir, þar á meðal svartur ljósleiðari, sem og netþættir sem eru notaðir til að afhenda neysluvatn, eins og það er skilgreint í íslenskum reglum um neysluvatn, ekki efnisleg grunnvirki í skilningi þessara laga.
     7.      Endabúnaður: Búnaður sem beint eða óbeint er tengdur við skilfleti almenns fjarskiptanets til þess að senda, vinna úr eða taka við upplýsingum. Í báðum tilvikum, hvort sem um er að ræða beina eða óbeina tengingu, getur hún verið gerð með raftaug, ljósleiðara eða þráðlaust. Tenging telst óbein ef tæki er komið fyrir milli endabúnaðarins og skilflatar netsins. Með endabúnaði er enn fremur átt við búnað fyrir gervihnattajarðstöðvar.
     8.      Endanotandi: Notandi sem ekki býður almenn fjarskiptanet eða veitir almenna fjarskiptaþjónustu.
     9.      Evrópugjaldskrá: Gjaldskrá sem er ekki hærri en samræmist hámarksgjaldi samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 717/2007 um reiki á almennum farnetum og samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/2120 um millilandasímtöl innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     10.      Fjarskiptafyrirtæki: Lögaðili sem býður fram eða sem hefur heimild til að bjóða fram almennt fjarskiptanet eða tengda aðstöðu.
     11.      Fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk: Fjarskiptafyrirtæki sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur skilgreint með umtalsverðan markaðsstyrk á grundvelli markaðsgreiningar.
     12.      Fjarskiptanet: Merkjaflutningskerfi, óháð því hvort þau byggjast á föstum miðlægum innviðum eða hafi miðlægt stjórnkerfi. Í fjarskiptaneti getur eftir atvikum verið skipti- eða beinibúnaður ásamt öðrum björgum, þar á meðal neteiningar sem ekki eru virkar, sem leyfa flutning á merkjum yfir þræði, radíó, ljós eða með öðrum rafsegulfræðilegum aðferðum, þar á meðal yfir gervitungl, föst net og farnet, einnig rafmagnsdreifinet að því marki sem þau eru notuð til flutnings merkja. Með föstum netum er átt við rása- eða pakkaskipt net, þar á meðal internetið. Fjarskiptanet eru einnig kerfi sem nýtt eru til útvarps- og sjónvarpssendinga og kapalsjónvarpsnet án tillits til þeirra fjarskiptamerkja sem um þau fara.
     13.      Fjarskiptaþjónusta: Þjónusta sem að jafnaði er veitt gegn þóknun yfir fjarskiptanet. Hér er undanskilin þjónusta þar sem efni sem sent er um fjarskiptanet er meðhöndlað, t.d. með ritstýringu. Fjarskiptaþjónusta tekur til eftirfarandi tegunda þjónustu:
                  a.      netaðgangsþjónustu í skilningi laga þessara,
                  b.      fjarskiptaskiptaþjónustu milli einstaklinga í skilningi laga þessara og
                  c.      þjónustu sem felst að öllu eða mestu leyti í því að flytja merki, svo sem flutningsþjónusta sem er notuð milli tækja (M2M) og fyrir útvarp eða sjónvarp.
     14.      Fjarskiptaþjónusta milli einstaklinga: Þjónusta sem að jafnaði er veitt gegn þóknun og gerir bein, gagnvirk upplýsingaskipti milli tiltekins fjölda einstaklinga yfir fjarskiptanet möguleg. Einstaklingarnir sem hefja eða taka þátt í fjarskiptunum ákvarða hverjir viðtakendur eru. Þetta tekur ekki til þjónustu þar sem gagnvirk fjarskipti milli einstaklinga eru aðeins minni háttar viðbótarþáttur sem er órjúfanlega tengdur annarri þjónustu.
     15.      Fjarskiptaþjónusta milli einstaklinga sem er tengd númerum: Fjarskiptaþjónusta milli einstaklinga sem tengist númerum sem úthlutað er opinberlega, þ.e. númeri eða númerum í landsbundnu eða alþjóðlegu númeraskipulagi eða sem gerir fjarskipti möguleg við aðila með slík númer.
     16.      Fjarskiptaþjónusta milli einstaklinga sem er ótengd númerum: Fjarskiptaþjónusta milli einstaklinga sem tengist ekki númerum sem úthlutað er úr landsbundnu eða alþjóðlegu númeraskipulagi eða þar sem fjarskipti eru ekki möguleg við slík númer.
     17.      Fjarskipti: Hvers konar sending og móttaka tákna, merkja, skriftar, mynda og hljóða eða hvers konar boðmiðlun eftir leiðslum, með þráðlausri útbreiðslu eða öðrum rafsegulfræðilegum aðferðum.
     18.      Framboð á fjarskiptaneti: Uppsetning, rekstur, stjórnun eða það að gera slíkt net aðgengilegt.
     19.      Háhraðanet: Fjarskiptanet sem samanstendur eingöngu af ljósleiðaraþáttum, a.m.k. að dreifipunkti við þjónustustað, eða fjarskiptanet með svipaða frammistöðu við venjuleg álagstímaskilyrði, með tilliti til tiltækrar bandbreiddar aðgreina og útgreina, þanþols, villutengdra breyta og biðtíma og breytinga á honum. Frammistaða nets getur talist vera svipuð þótt upplifun endanotanda sé breytileg vegna eðlislægs mismunar á eiginleikum miðilsins sem netið tengist að lokum við nettengipunkt.
     20.      Heimtaug: Sú raunlæga leið sem ber fjarskiptamerki og tengir saman nettengipunkt við tengigrind eða sambærilegan búnað í fasta, almenna fjarskiptanetinu.
     21.      Hugbúnaðarskil: Hugbúnaðarskil (API) sem gerð eru aðgengileg af útsendingaraðila eða þjónustuveitu til að tengjast þróuðum stafrænum sjónvarpsbúnaði fyrir stafræna sjón- og hljóðvarpsþjónustu.
     22.      Innanhússfjarskiptalögn: Efnislegt grunnvirki eða búnaður, þ.m.t. þættir í sameiginlegu eignarhaldi, sem er á þeim stað endanlegs notanda sem ætlaður er til að hýsa fasttengd og/eða þráðlaus aðgangsnet þar sem slík aðgangsnet eru fær um að veita fjarskiptaþjónustu og tengja aðgangspunkt byggingar við nettengipunkt.
     23.      Innanhússfjarskiptalögn sem er tilbúin fyrir háhraðatengingu: Innanhússfjarskiptalögn sem ætluð er til að hýsa þætti háhraðafjarskiptaneta eða auðvelda afhendingu þeirra.
     24.      IP-fjarskiptaþjónusta: Fjarskiptaþjónusta sem veitt er yfir almenn IP-fjarskiptanet, svo sem tölvupóstþjónusta, vefþjónusta, nafnaþjónusta, skráaflutningur og spjallrásir. Enn fremur rekstrarþættir, t.d. vistun léna og skráning IP-neta.
     25.      Mikilvægir innviðir: Mikilvægir innviðir samkvæmt skilgreiningu laga um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.
     26.      Net- og upplýsingakerfi: Net- og upplýsingakerfi samkvæmt skilgreiningu laga um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.
     27.      Netaðgangsþjónusta: Almenn fjarskiptaþjónusta sem veitir aðgang að netinu og þar með tengingu við því sem næst alla endapunkta netsins, án tillits til þeirrar nettækni og endabúnaðar sem notaður er.
     28.      Nettengipunktur: Efnislegur tengipunktur þar sem endanotanda er veittur aðgangur að almennu fjarskiptaneti. Ef um er að ræða net þar sem skipting eða beining á sér stað er nettengipunkturinn auðkenndur með sérstöku vistfangi innan netsins sem hægt er að tengja númeri eða heiti endanotanda.
     29.      Netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar eða netöryggissveitin: Öryggis- og viðbragðsteymi samkvæmt lögum um Póst- og fjarskiptastofnun.
     30.      Neyðarfjarskipti: Fjarskipti milli endanotanda og opinberrar vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar sem hafa það markmið að óska eftir og fá neyðaraðstoð frá neyðarþjónustu.
     31.      Neyðarþjónusta: Þjónusta sem er viðurkennd sem slík af stjórnvöldum, sem veitir aðstoð tafarlaust og hratt við aðstæður þar sem bein hætta steðjar að lífi eða limum einstaklinga, lýðheilsu eða almannaöryggi, eignum í einkaeigu eða eigu hins opinbera eða umhverfinu, í samræmi við landslög.
     32.      Neytandi: Einstaklingur sem notar eða óskar eftir almennri fjarskiptaþjónustu í öðrum tilgangi en sem tengist atvinnugrein hans, viðskiptum eða starfi.
     33.      Notandi: Einstaklingur eða lögaðili sem notar eða óskar eftir almennri fjarskiptaþjónustu.
     34.      Nothæf internetþjónusta: Virkni, gæði og tæknilegir eiginleikar sem internetþjónusta skal að lágmarki búa yfir þannig að þjónustan geti komið notendum að gagni í daglegu lífi.
     35.      Númer og kóðar: Röð tákna sem eru notuð til að auðkenna einstaka notendur í fjarskiptavirkjum.
     36.      Ósvæðisbundið númer: Númer úr landsbundna númeraskipulaginu sem ekki er svæðisnúmer, svo sem farsímanúmer, frínúmer og yfirgjaldsnúmer.
     37.      Reikisímtal í farneti: Símtal úr farsíma sem reikiviðskiptavinur hringir frá farneti rekstraraðila hér á landi og lýkur í farneti rekstraraðila í öðru ríki eða er móttekið af reikiviðskiptavini með upphaf í almennu símaneti í öðru ríki og lýkur í farneti rekstraraðila hér á landi.
     38.      Reikiþjónusta: Símtalsþjónusta, SMS-þjónusta, MMS-þjónusta og önnur gagnaflutningsþjónusta í farneti sem á upphaf hjá viðskiptavini í farneti rekstraraðila hér á landi og lýkur í farneti rekstraraðila í öðru ríki eða er móttekið af viðskiptavini með upphaf í almennu símaneti í öðru ríki og lýkur í farneti rekstraraðila hér á landi.
     39.      Samhýsing: Aðgangur að rými og tækniþjónustu sem er nauðsynlegur til að koma viðeigandi búnaði aðgangsbeiðanda fyrir með góðu móti og tengja hann.
     40.      Samræmt tíðniróf: Tíðniróf þar sem samræmdum skilyrðum að því er varðar tiltækileika og skilvirka notkun hefur verið komið á með tæknilegum framkvæmdarráðstöfunum í samræmi við 4. gr. ákvörðunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 676/2002/EB.
     41.      Samtenging: Sérstök tegund aðgangs sem rekstraraðilar almennra fjarskiptaneta sameinast um að koma á með efnislegri og rökvísri tengingu almennra fjarskiptaneta sem eitt eða fleiri fyrirtæki nota til að gera notendum eins fjarskiptafyrirtækis kleift að hafa samskipti við notendur sama eða annars fyrirtækis eða nýta sér þjónustu sem önnur fyrirtæki veita, þar sem slík þjónusta er veitt af viðkomandi aðilum eða öðrum aðilum sem hafa aðgang að netinu.
     42.      Símaþjónusta: Almenn fjarskiptaþjónusta sem gerir kleift að hefja og taka við, beint eða óbeint, innanlandssímtölum og/eða millilandasímtölum með númeri eða númerum úr landsbundnu eða alþjóðlegu númeraskipulagi.
     43.      Símtal: Tenging sem komið er á með almennri fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga og leyfir tvíátta talfjarskipti.
     44.      Skaðleg truflun: Truflun sem hætta er á að trufli virkni þráðlausrar leiðsöguþjónustu eða annarrar öryggisþjónustu eða sem á annan hátt dregur úr, hindrar eða truflar ítrekað þráðlausa fjarskiptaþjónustu sem er starfrækt í samræmi við gildandi reglur landsréttar eða reglur á alþjóðavettvangi eða á EES.
     45.      Skilyrt aðgangskerfi: Sérhver tækniráðstöfun, auðkenningarkerfi og/eða tilhögun þar sem aðgangur að lokaðri hljóð- eða sjónvarpsþjónustu í skiljanlegri mynd er bundinn skilyrði um áskrift eða annars konar fyrirframheimild í hverju einstöku tilviki.
     46.      Skipting tíðnirófsins: Útnefning tiltekins tíðnibils til notkunar fyrir eina eða fleiri gerðir þráðlausrar fjarskiptaþjónustu, eftir því sem við á, með tilgreindum skilyrðum.
     47.      Staðsetningarupplýsingar: Í almennu farneti eru staðsetningarupplýsingar unnin gögn úr netgrunnvirki eða handtólum og gefa til kynna landfræðilega staðsetningu farstöðvaendabúnaðar endanotanda; í almennu föstu neti eru það gögn um raunvistfang tengipunktsins.
     48.      Svæðisnúmer: Númer úr landsbundnu númeraskipulagi þar sem hluti af talnasamsetningunni er landfræðileg vísun sem er notuð til að beina símtölum á hinn eiginlega nettengipunkt.
     49.      Tengd aðstaða: Tengd þjónusta, efnisleg grunnvirki og önnur aðstaða eða þættir í tengslum við fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu sem gerir kleift að veita eða styður veitingu þjónustu um það net eða í tengslum við þá þjónustu, eða hefur möguleika á að gera það. Slík aðstaða getur samanstaðið af byggingum eða inngöngum að byggingum, leiðslum í byggingum, loftnetum, turnum og öðrum burðarvirkjum, stokkum, leiðslum, möstrum, mannopum og skápum.
     50.      Tengd þjónusta: Þjónusta í tengslum við fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu sem gerir kleift að veita eða styður við veitingu þjónustu, sjálfsþjónustu eða sjálfvirkrar þjónustu um það net eða þjónustu eða hefur möguleika á að gera það. Slík þjónusta felur m.a. í sér númerafærslur eða kerfi þar sem jafngild virkni er í boði, skilyrt aðgangskerfi og rafræna dagskrárvísa auk annarrar þjónustu eins og auðkennis-, staðsetningar- og viðveruþjónustu.
     51.      Tíðnisamnýting: Aðgangur tveggja eða fleiri notenda að sama tíðnibili, samkvæmt skilgreindu samnýtingarfyrirkomulagi sem er heimilað á grundvelli almennrar heimildar, tíðniheimildar eða hvoru tveggja, þar á meðal stjórnsýslufyrirmæla um sameiginleg afnot af leyfi sem hafa að markmiði að greiða fyrir sameiginlegri notkun tíðnibils, með fyrirvara um bindandi samkomulag milli allra viðkomandi aðila, í samræmi við samnýtingarreglur sem kveðið er á um í tíðniheimild, til að tryggja öllum notendum fyrirsjáanlegt og áreiðanlegt samnýtingarfyrirkomulag, með fyrirvara um beitingu samkeppnislaga.
     52.      Yfirgjald: Gjald fyrir virðisaukandi þjónustu sem er hærra en almennt símtalagjald.
     53.      Þráðlaus aðgangspunktur sem þekur lítið svæði: Þráðlaus lágaflsbúnaður til netaðgangs sem er lítill að stærð og með lítið drægi, sem notar leyfisskylt tíðniróf eða tíðniróf sem ekki er leyfisskylt eða hvoru tveggja og sem nota má sem hluta af almennu fjarskiptaneti og má vera búinn einu eða fleiri loftnetum með lítil sjónræn áhrif og sem veitir notendum þráðlausan aðgang að fjarskiptanetum óháð undirliggjandi netuppbyggingu, hvort sem um er að ræða farsíma- eða fastlínu.
     54.      Þráðlaus fjarskiptabúnaður: Rafmagns- eða rafeindavara sem hefur þann tilgang að gefa frá sér eða taka við hátíðnibylgjum fyrir þráðlaus fjarskipti eða staðsetningarákvörðun eða rafmagns- eða rafeindavara sem verður að bæta við aukabúnaði, svo sem loftneti, til að geta gefið frá sér eða tekið við hátíðnibylgjum fyrir þráðlaus fjarskipti eða staðsetningarákvörðun.
     55.      Þráðlaust staðarnet: Þráðlaust lágaflsaðgangskerfi með lítið drægi sem notar samhæft tíðniróf án einkaréttinda og lítil hætta er á að valdi truflunum á öðrum sambærilegum kerfum sem aðrir nota.
     56.      Öryggi kerfa og þjónustu: Geta fjarskiptaneta og -þjónustu til að standast með tilteknu öryggisstigi allar aðgerðir sem stofna í hættu aðgengi, sannvottuðum uppruna, réttleika og leynd þessara kerfa og þjónustu, vistaðra eða sendra eða unninna gagna eða tengdrar þjónustu sem boðin er eða er aðgengileg um þessi fjarskiptanet eða þjónustu.
     57.      Öryggisatvik: Hver sá atburður sem hefur eða getur haft skaðleg áhrif á öryggi fjarskiptaneta eða -þjónustu.

IV. KAFLI

Heimild til fjarskiptastarfsemi.

6. gr.

Almenn heimild.

    Fjarskiptafyrirtæki hafa almenna heimild til reksturs fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu. Heimild þessi nær til lögaðila sem staðfestu hafa innan Evrópska efnahagssvæðisins og enn fremur í aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, eftir því sem ráðherra ákveður með reglugerð.
    Fjarskiptafyrirtæki sem býður fjarskiptanet, fjarskiptaþjónustu eða aðstöðu sem tengist fjarskiptanetum og -þjónustu skal tilkynna það Póst- og fjarskiptastofnun áður en starfsemi hefst og veita upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna skráningar á viðkomandi fjarskiptafyrirtæki og starfsemi þess. Í tilkynningu skal upplýsa um eftirfarandi:
     a.      heiti fjarskiptafyrirtækis,
     b.      rekstrarform og skráningarnúmer, kennitölu eða sambærilegar upplýsingar,
     c.      heimilisfang höfuðstöðva á Evrópska efnahagssvæðinu og útibús/starfsstöðvar, eftir því sem við á,
     d.      veffang, þegar boðið er fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónusta,
     e.      tengilið og samskiptaupplýsingar,
     f.      stutta lýsingu á fjarskiptanetum eða fjarskiptaþjónustu sem ætlunin er að veita,
     g.      ríki Evrópska efnahagssvæðisins sem þjónusta nær til, og
     h.      dagsetninguna sem áætlað er að starfsemi hefjist.
    Fjarskiptafyrirtæki sem aðeins veita fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er ótengd númerum eru undanþegin tilkynningaskyldu skv. 2. mgr.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal halda skrá yfir öll fjarskiptafyrirtæki sem hafa tilkynnt að þau muni starfa á grundvelli almennrar heimildar. Að beiðni fjarskiptafyrirtækis skal Póst- og fjarskiptastofnun innan viku frá því að tilkynning barst stofnuninni gefa út staðfestingu þess að fyrirtækið hafi tilkynnt sig til skráningar.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja nánari reglur um sniðmát tilkynninga skv. 2. mgr. og um staðfestingu skv. 4. mgr.

7. gr.

Lágmarksréttindi sem fylgja almennri heimild.

    Fjarskiptafyrirtæki sem hafa almenna heimild skv. 6. gr. eiga rétt á að reka fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu og að nota fjarskiptatíðniróf í samræmi við lög þessi. Þau eiga rétt á umfjöllun um umsóknir sínar um nauðsynleg réttindi í samræmi við 34. gr. og um nauðsynlegan afnotarétt af númeraforða í samræmi við 21. gr.
    Almenn heimild veitir fyrirtækjum sem bjóða eða hyggjast bjóða almenningi fjarskiptaþjónustu og fjarskiptanet rétt til að semja um samtengingu og þar sem það á við að fá aðgang að eða samtengingu við önnur fjarskiptafyrirtæki.
    Almenn heimild veitir sömuleiðis rétt til útnefningar til að veita alþjónustu í samræmi við lög þessi.
    Póst- og fjarskiptastofnun gefur út reglur um almenna heimild til að reka fjarskiptanet og fjarskiptaþjónustu til nánari fyllingar á réttindum og skyldum sem mælt er fyrir um í 7.–9. gr.

8. gr.

Skilyrði almennrar heimildar.

    Almenn heimild til reksturs fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu skal bundin eftirtöldum skilyrðum:
     a.      greiðslu rekstrargjalds í samræmi við ákvæði laga um Póst- og fjarskiptastofnun,
     b.      að uppfylltar séu kröfur XIII. kafla er lúta að persónuvernd í fjarskiptum,
     c.      veitingu upplýsinga vegna tilkynningar í samræmi við 6. gr. og önnur ákvæði laga,
     d.      að til þess bærum yfirvöldum sé kleift að hlera símtöl og afla annarra gagna í samræmi við ákvæði laga,
     e.      að uppfylltar séu kröfur XIV. kafla um almannaviðvörunarkerfi, neyðarfjarskipti og staðsetningu neyðarsímtala,
     f.      að uppfylltar séu aðgangsskyldur aðrar en þær sem kveðið er á um í þessum kafla og gilda um fyrirtæki sem bjóða fram almenn fjarskiptanet eða -þjónustu,
     g.      að fylgt sé ráðstöfunum sem eiga að tryggja að farið sé eftir stöðlum eða forskriftum sem um getur í 24. gr., og
     h.      að uppfylltar séu skyldur um gagnsæi og upplýsingagjöf sem miða að því að tryggja tengingu enda á milli í almennum fjarskiptanetum.

9. gr.

Sérstök skilyrði.

    Auk skilyrða skv. 8. gr. eru fjarskiptafyrirtæki sem bjóða fjarskiptanet bundin af eftirtöldum skilyrðum, eftir því sem við á:
     a.      samtenging neta skal vera í samræmi við lög þessi,
     b.      flutningsskyldur samkvæmt fjölmiðlalögum skulu uppfylltar að því er varðar net sem notuð eru fyrir dreifingu hljóð- og sjónvarps til almennings,
     c.      kröfur um ráðstafanir til verndar lýðheilsu gegn rafsegulsviðum af völdum fjarskiptaneta samkvæmt lögum þessum skulu uppfylltar,
     d.      kröfur um viðhald á heildstæði almennra fjarskiptaneta samkvæmt lögum þessum skulu uppfylltar, þ.m.t. að því er varðar skilyrði til að koma í veg fyrir rafsegultruflanir milli rafrænna fjarskiptaneta eða -þjónustu,
     e.      kröfur er stuðla eiga að öryggi almennra neta gagnvart óheimilum aðgangi samkvæmt lögum þessum skulu uppfylltar,
     f.      skilyrði fyrir notkun fjarskiptatíðnirófs samkvæmt lögum þessum skulu uppfylltar,
     g.      þjónusta skal uppfylla kröfur laga þessara um rekstrarsamhæfni,
     h.      tryggja skal aðgengi endanotenda að númerum úr landsbundna númeraskipulaginu, að almenna alþjóðlega frínúmerakerfinu (UIFN), og, þar sem það er tæknilega og efnahagslega hagkvæmt, úr númerakerfum annarra aðildarríkja, í samræmi við ákvæði laga þessara,
     i.      reglur um neytendavernd samkvæmt lögum þessum skulu uppfylltar, og
     j.      takmarkanir með tilliti til sendingar á ólöglegu efni í samræmi við ákvæði laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu skulu virtar, svo og takmarkanir með tilliti til sendinga á skaðlegu efni í samræmi við ákvæði laga um fjölmiðla.
    Fjarskiptafyrirtæki sem aðeins veita fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er ótengd númerum eru undanþegin skilyrðum samkvæmt liðum g–j í 1. mgr.

10. gr.

Aðskilnaður sérleyfisstarfsemi frá fjarskiptastarfsemi.

    Fjarskiptafyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður sem reka almenn fjarskiptanet eða veita almenna fjarskiptaþjónustu og njóta einka- eða sérréttinda á öðru sviði en fjarskiptum skulu halda fjarskiptastarfsemi sinni fjárhagslega aðskilinni frá annarri starfsemi eins og um óskyld fyrirtæki væri að ræða. Í því skyni skulu fyrirtækin skila árlegri skýrslu til Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem gerð er grein fyrir öllum kostnaði og tekjum fyrirtækisins, grundvelli útreikninga og nákvæmri sundurliðun á einstökum liðum, þ.m.t. fastafjármunum og stjórnunarkostnaði. Þess skal gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfisstarfsemi eða verndaðri starfsemi. Ákvæði þetta gildir án tillits til markaðsstyrks fyrirtækis.

11. gr.

Breytingar á réttindum.

    Þegar sérstaklega stendur á, svo sem vegna breytinga á löggjöf, er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að breyta skilyrðum í almennum heimildum og skilyrðum fyrir úthlutun réttinda.
    Fyrirhugaðar breytingar skulu kynntar ásamt rökstuðningi fyrir hagsmunaaðilum, þ.m.t. notendum, með hæfilegum fyrirvara sem þó skal ekki vera styttri en einn mánuður.
    Ef gildistími réttinda til notkunar á tíðnum eða númerum er framlengdur er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að gera breytingar á skilyrðum réttindanna eða bæta við skilyrðum.

V. KAFLI

Skipulag tíðnirófsins og úthlutun tíðna.

12. gr.

Skipulag tíðnirófsins.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal í samræmi við alþjóðlegar samþykktir sem Ísland er aðili að stuðla að skilvirkri og hagkvæmri nýtingu tíðnirófsins og að skaðlegar truflanir á viðtöku þráðlausra merkja verði sem minnstar.
    Póst- og fjarskiptastofnun skipuleggur notkun tíðnirófsins að teknu tilliti til þeirra ákvarðana um samræmda tíðninotkun sem gilda fyrir Evrópska efnahagssvæðið, þ.m.t. um samræmda tímasetningu á úthlutun tíðniréttinda. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að víkja frá ákvörðunum um samræmda tíðninotkun ef slík notkun hentar ekki fyrir íslenskar aðstæður og það hefur ekki hamlandi eða skaðlega truflandi áhrif á samræmda notkun tíðnisviðsins í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Slík ákvörðun skal vera rökstudd og tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA og sæta reglulegri endurskoðun.
    Að teknu tilliti til þeirra ákvarðana um samræmda tíðninotkun sem gilda fyrir Evrópska efnahagssvæðið tekur Póst- og fjarskiptastofnun ákvörðun um hvaða tíðniafnot séu heimil á grundvelli almennrar heimildar og hvaða tíðniafnot eru bundin sérstakri tíðniúthlutun vegna tiltekinna þarfa.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal skipuleggja notkun mismunandi hluta tíðnirófsins, skrá skipulagið og birta það opinberlega og veita upplýsingar um skipulagið eftir þörfum. Stofnunin getur ákveðið að ákvarðanir alþjóðastofnana sem Ísland á aðild að varðandi skipulag og nýtingu tíðnirófsins verði bindandi hér á landi og skal þá vísað til þeirra í tíðniskipulaginu sem stofnunin birtir á vef sínum.
    Úthlutun tíðniréttinda skal byggð á viðmiðum sem eru hlutlæg, gagnsæ, samkeppnishvetjandi, án mismununar og hófleg. Slík réttindi skulu að jafnaði vera bundin skilyrði um hlutleysi tækni og þjónustu nema hlutlæg skilyrði mæli gegn því.
    Ráðherra gefur út reglugerð um skipulagningu og úthlutun tíðna þar sem m.a. eru settar ítarlegri reglur um skipulag tíðnirófsins og umsjón Póst- og fjarskiptastofnunar með því, framkvæmd tíðniúthlutana, þau skilyrði sem hægt er binda tíðniréttindi og um önnur atriði er varða nánari útfærslu á réttindum og skyldum tíðnirétthafa.

13. gr.

Réttindi til að nota tíðnir.

    Fjarskiptatíðnir innan íslensks yfirráðasvæðis eru auðlindir undir stjórn íslenska ríkisins. Úthlutun á tíðnum felur í sér tímabundna heimild til skilyrtra afnota sem hvorki leiðir til beins eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðstöfunarréttar.
    Þegar réttindi til notkunar ákveðinna tíðna falla ekki undir 1. mgr. 7. gr., sbr. og f-lið 9. gr., skal Póst- og fjarskiptastofnun að fenginni umsókn úthluta slíkum réttindum til fjarskiptafyrirtækja sem reka eða nota fjarskiptanet eða -þjónustu samkvæmt almennri heimild. Einnig má úthluta réttindum fyrir notkun tíðna til útvarpsstöðva að lokinni opinni og gagnsærri málsmeðferð án mismununar enda þjóni slík úthlutun markmiðum stjórnvalda. Að auki má úthluta réttindum fyrir notkun tíðna til aðila sem starfrækja þráðlausan fjarskiptabúnað til eigin nota. Réttindi samkvæmt þessari grein eru bundin við nafn og kennitölu.
    Varanlegt framsal og lán eða leiga á tíðniréttindum til annarra fjarskiptafyrirtækja er heimil enda hafi slík ráðstöfun ekki skaðleg áhrif á samkeppni, sbr. 14. gr. Tilkynna skal til Póst- og fjarskiptastofnunar um slíka ráðstöfun með a.m.k. 30 daga fyrirvara áður en hún á að koma til framkvæmda og skal Póst- og fjarskiptastofnun samþykkja varanlegt framsal, lán eða leigu á tíðniréttindum ef eftirtalin skilyrði eru uppfyllt:
     a.      Viðtakandi réttindanna er skráð fjarskiptafyrirtæki hér á landi,
     b.      tilkynningu fylgir staðfesting frá viðtakanda réttindanna um að hann ábyrgist að uppfylla skilyrði og standa við skuldbindingar tíðnirétthafa sem mælt er fyrir um í tíðniheimildinni, og
     c.      Póst- og fjarskiptastofnun metur það líklegt að viðtakandi réttindanna geti staðið við skuldbindingar sem mælt er fyrir um í tíðniheimildinni.
    Ákvörðun um synjun um framsal, lán eða leigu á tíðniréttindum skal vera tekin innan þriggja mánaða frá móttöku tilkynningar skv. 3. mgr.
    Vanræki fyrirtæki tilkynningarskyldu skv. 3. mgr. getur Póst- og fjarskiptastofnun tekið málið til athugunar og ákvörðunar þegar stofnunin fær vitneskju um viðkomandi framsal, lán eða leigu tíðniréttinda.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal birta opinberlega upplýsingar um öll réttindi til notkunar á tíðnum og rétthafa þeirra, þ.m.t. þeirra tíðniréttinda sem hafa verið framseld, lánuð eða leigð. Tíðniheimildir sem veittar eru til eigin nota má undanskilja birtingu svo og upplýsingar um tíðniheimildir sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari vegna mikilvægra öryggis-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuna rétthafa.

14. gr.

Áhrif tíðniréttinda á samkeppnisskilyrði.

    Útgáfa tíðniréttinda skal stuðla að virkri samkeppni á markaði og koma í veg fyrir að handhöfn slíkra réttinda skapi samkeppnishindranir. Við úthlutun, breytingar, endurnýjun, framsal, lán eða leigu tíðniréttinda er Póst- og fjarskiptastofnun m.a. heimilt:
     a.      að takmarka stærð tíðnisviða sem afnotaréttur er veittur af til fyrirtækja eða, þegar aðstæður gefa nægilegt tilefni til, að láta skilyrði fylgja slíkum afnotarétti, svo sem að veittur sé heildsöluaðgangur, landsbundið eða svæðisbundið reiki á tilteknum tíðniböndum eða í flokkum tíðnibanda með svipaða eiginleika,
     b.      að taka frá, ef það er viðeigandi og réttlætanlegt með tilliti til sérstakra aðstæðna á landsbundna markaðnum, tiltekinn hluta tíðnibands fjarskiptatíðnirófs eða flokk tíðnibanda til úthlutunar til nýrra aðila,
     c.      að hafna að veita nýjan afnotarétt af fjarskiptatíðnirófi eða að heimila nýja notkun á fjarskiptatíðnirófi á tilteknum tíðniböndum eða láta skilyrði fylgja veitingu nýs afnotaréttar af fjarskiptatíðnirófi eða heimild fyrir nýrri notkun fjarskiptatíðnirófs til að koma í veg fyrir röskun á samkeppni með úthlutun, framsali, láni, leigu eða uppsöfnun afnotaréttar,
     d.      að láta skilyrði fylgja sem banna framsal afnotaréttar af fjarskiptatíðnirófi sem fellur ekki undir samrunaeftirlit á grundvelli samkeppnislaga eða setja skilyrði fyrir slíku framsali,
     e.      að breyta fyrirliggjandi réttindum í samræmi við lög þessi þar sem það er nauðsynlegt til að bæta á afturvirkan hátt röskun á samkeppni sem orðið hefur með framsali eða uppsöfnun á afnotarétti af fjarskiptatíðnirófi.

15. gr.

Takmarkanir á úthlutun réttinda.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur takmarkað fjölda úthlutana á réttindum til að nota ákveðnar tíðnir þegar það er nauðsynlegt til að:
     a.      tryggja skilvirka notkun tíðna, þ.m.t. með því að horfa til þeirra skilmála sem gilda um tíðniafnotin og þess verðs sem greitt hefur verið fyrir þau,
     b.      stuðla að útbreiðslu fjarskiptaþjónustu,
     c.      tryggja tiltekin gæði þjónustunnar, eða
     d.      stuðla að nýsköpun og markaðsþróun.
    Óski Póst- og fjarskiptastofnun eftir jafningjarýni Evrópsks stefnuhóps um fjarskiptatíðnirófið skal stofnunin jafnframt rökstyðja að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt. Takmörkun á úthlutun tíðniréttinda þarf þá að:
     a.      stuðla að þróun innri markaðarins, þjónustustarfsemi yfir landamæri sem og samkeppni, og hámarka ávinning neytenda, og
     b.      tryggja stöðug og fyrirsjáanleg fjárfestingarskilyrði fyrir núverandi og væntanlega notendur tíðnirófs til að setja upp fjarskiptaþjónustu sem notar tíðniróf.
    Gefi Evrópskur stefnuhópur um fjarskiptatíðnirófið út álit um fyrirhugaða ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um takmörkun á úthlutun tíðniréttinda skal stofnunin taka ýtrasta tillit til þess.
    Öllum hagsmunaaðilum, þ.m.t. notendum, skal gefið tækifæri til þess að tjá sig um takmarkanir á réttindum í opnu samráði áður en Póst- og fjarskiptastofnun tekur ákvörðun sína sem skal birt ásamt rökstuðningi.
    Eigi síðar en við upphaf opins samráðs við hagsmunaaðila og notendur um fyrirhugaða ákvörðun um takmörkun tíðniréttinda og val á aðferð við úthlutun þeirra skal Póst- og fjarskiptastofnun tilkynna um hana til Evrópsks stefnuhóps um fjarskiptatíðnirófið og jafnframt tiltaka hvort og þá hvenær sé óskað eftir jafningjarýni hópsins um hana. Í tilkynningunni eða í eftirfarandi rökstuðningi skal Póst- og fjarskiptastofnun rökstyðja hvernig fyrirhuguð takmörkun uppfyllir skilyrði sem tilgreind eru í 1. og 2. mgr.
    Við töku ákvarðana um að takmarka fjölda réttinda eða framlengja gildistíma réttinda á tíðnisviði þar sem fjöldi réttinda er takmarkaður skal leggja áherslu á hagsmuni notenda og að örva samkeppni auk þess sem tillit skal tekið til hvata og áhættu við fjárfestingar. Kynna skal aðferðina sem nota skal við úthlutun réttinda og auglýsa eftir umsóknum. Úthlutun takmarkaðra réttinda skal fara fram með opnum og hlutlægum hætti, að teknu tilliti til sjónarmiða um jafnræði og meðalhóf.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal með reglulegu millibili endurskoða takmarkanir sem settar hafa verið, m.a. að beiðni þeirra fjarskiptafyrirtækja sem hlut eiga að máli. Ef hægt er að veita frekari réttindi til notkunar tíðna skal auglýst eftir umsóknum.

16. gr.

Skilyrði fyrir notkun tíðna samkvæmt sérstakri tíðniheimild.

    Í samræmi við reglur sem gilda um skilyrði sem sett eru fyrir tíðniafnotum samkvæmt almennri heimild, sbr. 7. gr., er Póst- og fjarskiptastofnun jafnframt heimilt að binda tíðniréttindi samkvæmt sérstakri tíðniúthlutun skilyrðum sem stuðla að góðri, skilvirkri og markvissri notkun fjarskiptatíðnirófs. Skilyrðin skulu tilgreina viðeigandi þætti, þ.m.t. frestinn til að nýta afnotaréttinn, sem myndu veita Póst- og fjarskiptastofnun heimild til að afturkalla afnotaréttinn eða gera aðrar ráðstafanir ef ekki er farið eftir skilyrðunum. Helstu viðeigandi skilyrði eru:
     a.      skylda til að veita þjónustu eða nota gerð tækni innan marka 5. mgr. 12. gr., þ.m.t. kröfur um útbreiðslu og þjónustugæði, eftir því sem við á,
     b.      virk og skilvirk notkun fjarskiptatíðnirófs í samræmi við lög þessi,
     c.      að búnaður og rekstur fjarskiptafyrirtækis geri skaðlegar truflanir og rafsegulgeislun sem almenningur getur orðið fyrir sem minnstar,
     d.      hámarksgildistími í samræmi við 18. gr. með fyrirvara um hvers kyns breytingar á landsbundnum áætlunum um skiptingu tíðni,
     e.      varanlegt framsal, lán eða leiga réttinda að frumkvæði rétthafa og skilyrði fyrir slíku framsali í samræmi við lög þessi,
     f.      gjöld fyrir afnot séu greidd samkvæmt lögum um Póst- og fjarskiptastofnun,
     g.      hvers kyns skuldbindingar sem fyrirtæki, sem hafa fengið afnotarétt, hafa gengist undir innan ramma ferlisins við veitingu eða endurnýjun tíðniheimildar áður en heimildin var veitt eða eftir atvikum, samkvæmt umsókn um afnotarétt,
     h.      skyldur til að samnýta eða deila fjarskiptatíðnirófi eða heimila aðgang annarra notenda í tilgreindum landshlutum eða á landsvísu að fjarskiptatíðnirófi,
     i.      skyldur samkvæmt viðeigandi alþjóðasamningum sem varða notkun fjarskiptatíðnirófs eða
     j.      skyldur sem snerta sérstaklega notkun á fjarskiptatíðni í tilraunaskyni.
    Til að stuðla að markmiðum um útbreiðslu fjarskiptaþjónustu getur Póst- og fjarskiptastofnun einnig bundið tíðniheimild eftirfarandi skilyrðum:
     a.      samnýtingu óvirkra eða virkra grunnvirkja sem treysta á fjarskiptatíðniróf,
     b.      viðskiptasamninga um aðgang að reiki, eða
     c.      sameiginlega útbreiðslu grunnvirkja til að bjóða net eða þjónustu sem treystir á notkun fjarskiptatíðnirófs.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal viðhafa opið samráð við hagsmunaaðila um inntak og útfærslu skilyrða fyrir notkun tíðniréttinda þegar ætlunin er að binda notkun tíðna skilyrðum samkvæmt þessari grein.

17. gr.

Málsmeðferð við veitingu réttinda til að nota tíðnir og númer.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal taka ákvörðun um réttindi til þess að nota tíðnir eins fljótt og unnt er eftir móttöku umsóknar. Ákvörðun skal liggja fyrir innan sex vikna ef tíðnir eru ætlaðar til ákveðinnar notkunar í tíðniskipulaginu.
    Umsókn um réttindi til tíðninotkunar skal taka til afgreiðslu án tafar ef hún lýtur eingöngu að óverulegum hluta af skilgreindu tíðnisviði og úthlutun hefur þannig ekki teljandi áhrif á framboð þess eða neikvæð áhrif á samkeppni.
    Ef Póst- og fjarskiptastofnun berst umsókn um tíðnir til að veita almenna fjarskiptaþjónustu eða til útvarps, sem ekki fellur undir 2. mgr., skal stofnunin kanna með auglýsingu hugsanlegan vilja annarra til að fá úthlutun á umræddu tíðnisviði. Komi í ljós áhugi um að fá úthlutun á viðkomandi tíðnisviði er heimilt að taka ákvörðun um að úthlutun fari fram með útboði eða uppboði skv. 6. eða 7. mgr., eftir því sem við á.
    Krefjast má þess af umsækjendum um réttindi að þeir leggi fram fullnægjandi upplýsingar um eignaraðild, fjárhagsstöðu og fyrirhugaða starfsemi, svo og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar teljast til að leggja mat á umsóknir þeirra. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja sérstök skilyrði varðandi hæfi umsækjanda um fjarskipta- og útvarpstíðnir til að fá úthlutun, svo sem um fjárhagslega burði til uppbyggingar og reksturs fjarskiptanets sem ætlað er til að nota þær tíðnir sem sótt er um, tæknilega getu og reynslu umsækjanda til að reka almenna fjarskiptaþjónustu og að umsækjandi hafi ekki brotið alvarlega eða ítrekað gegn ákvæðum laga þessara eða vanefnt verulega skilmála fyrri úthlutana tíðniréttinda.
    Setja má skorður við úthlutun tíðna fyrir hljóðvarp og sjónvarp sem byggjast á menningarlegum sjónarmiðum, svo sem til þess að stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Einnig má setja skorður við úthlutun tíðna ef úthlutun getur orðið til þess að hindra virka samkeppni á fjölmiðlamarkaði.
    Viðhafa má útboð við úthlutun réttinda til að nota tíðnir. Útboð skal að jafnaði vera opið en heimilt er að hafa útboð lokað að undangengnu opnu forvali. Póst- og fjarskiptastofnun annast framkvæmd útboða og ákveður skilmála í útboðslýsingu. Útboðslýsing skal innihalda allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að bjóðanda sé unnt að leggja fram tilboð í réttindi. Í útboðslýsingu skulu m.a. koma fram upplýsingar um lágmarksþjónustusvæði, afmörkun þess tíðnisviðs sem boðið er út, hversu mörg réttindi eru í boði, gildistími réttinda, hvort réttindin verða bundin við tiltekna þjónustu eða tækni, hæfi bjóðenda, aðra skilmála varðandi útboðið sjálft og um notkun og nýtingu á því tíðnisviði sem boðið er út. Skýrar upplýsingar skulu koma fram um mat á tilboðum. Óheimilt er að leggja fram frávikstilboð nema það sé sérstaklega heimilað í útboðslýsingu. Heimilt er að takmarka fjölda tilboða frá hverjum bjóðanda eða tengdum aðilum og einnig er heimilt að takmarka þátttöku aðila sem þegar hafa réttindi á sambærilegu tíðnisviði.
    Ráðherra getur ákveðið að úthlutun fari fram samkvæmt uppboði. Í ákvörðun um uppboð skal koma fram hvort réttindi skuli bundin skilyrðum sem þjóna eiga samfélagslegum markmiðum, t.d. að ákveðin þjónusta verði boðin á tilteknu útbreiðslusvæði. Póst- og fjarskiptastofnun ákveður skilmála uppboðs að öðru leyti. Póst- og fjarskiptastofnun annast framkvæmd uppboða og úthlutun réttinda að loknu uppboði. Póst- og fjarskiptastofnun getur falið öðrum hæfum aðila að annast tiltekna þætti í framkvæmd uppboðs. Í uppboðsskilmálum skal tilgreina nákvæmlega þær tíðnir sem boðnar eru upp, gildistíma réttinda, hvort réttindin verða bundin við tiltekna þjónustu eða tækni, greiðslufyrirkomulag, lágmarkskröfur sem gerðar eru til bjóðenda, aðra skilmála varðandi uppboðið sjálft og um notkun og nýtingu á því tíðnisviði sem boðið er upp. Í skilmálum er m.a. heimilt að mæla fyrir um þátttökugjald sem standa skal straum af kostnaði við undirbúning og framkvæmd uppboðs. Ákveða má lágmarksboð sem skal ekki vera hærra en sem svarar fimmtánföldu árgjaldi fyrir viðkomandi tíðnir eins og það er ákveðið í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Ákveða má afslátt af lágmarksboði fyrir tíðniréttindi, til að mynda gegn kvöð um íþyngjandi skilyrði, svo sem um útbreiðslu og gæði þjónustu. Ákveða má brottvísun aðila frá uppboði og sektir ef ekki er staðið við tilboð eða brotið er gegn uppboðsskilmálum og geta þær numið allt að einföldu árgjaldi fyrir þau réttindi sem boðið er í eða þeim mismun sem er á tilboði sem ekki er staðið við og þeirri greiðslu sem fæst fyrir réttindin í lok uppboðs. Áskilja má að trygging sé sett fyrir greiðslu tilboða og sekta. Heimilt er að takmarka fjölda tilboða frá hverjum bjóðanda eða tengdum aðilum og einnig er heimilt að takmarka þátttöku aðila sem þegar hafa réttindi á sambærilegu tíðnisviði.
    Við úthlutun réttinda er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að ákveða fyrir fram fjárhæð og fyrirkomulag dagsekta sem leggjast á fjarskiptafyrirtæki sem ekki uppfyllir þær skuldbindingar sem réttindin kveða á um. Dagsektir samkvæmt þessu ákvæði geta numið allt að 500.000 kr. á dag.
    Ef ákveðið er að halda útboð eða uppboð við úthlutun tíðna er einnig heimilt að framlengja málsmeðferðarfrest skv. 1. mgr., þó ekki lengur en um átta mánuði.
    Nánar skal kveðið á um málsmeðferð við veitingu réttinda til að nota tíðnir í reglugerð sem ráðherra setur. Í reglugerðinni skal m.a. kveða nánar á um framkvæmd og skilmála útboða og uppboða, framsal tíðniheimilda og sameiginlegt úthlutunarferli tíðniréttinda.

18. gr.

Gildistími og endurnýjun tíðniréttinda.

    Póst- og fjarskiptastofnun ákvarðar hæfilegan gildistíma tíðniréttinda miðað við þau markmið um útbreiðslu og gæði fjarskiptaþjónustunnar sem stefnt er að með tíðniúthlutuninni, auk annarra íþyngjandi skilyrða sem tíðniréttindi kunna að vera bundin. Við mat á hæfilegum gildistíma tíðniréttinda skal jafnframt taka tillit til sjónarmiða um samkeppni og skilvirka nýtingu tíðnirófsins.
    Við ákvörðun gildistíma tíðniréttinda á tíðnisviðum sem bundin eru ákvörðunum um samræmda tíðninotkun innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 2. mgr. 12. gr., skal enn fremur ríkja fyrirsjáanleiki um ráðstöfun tíðniréttindanna til tuttugu ára. Póst- og fjarskiptastofnun er þó heimilt að ákvarða gildistíma slíkra tíðniréttinda til skemmri tíma, en þó að lágmarki til fimmtán ára. Í slíkum tilvikum skal gefa kost á mögulegri framlengingu á gildistíma tíðniréttindanna til fimm ára eða lengri tíma á grundvelli niðurstöðu markaðsmats tíðninotkunar skv. 5. mgr. Framkvæma skal slíkt markaðsmat eigi síðar en tveimur árum fyrir lok upphaflegs gildistíma viðkomandi tíðniréttinda.
    Heimilt er að víkja frá ákvæði um lágmarksgildistíma tíðniréttinda skv. 2. mgr. þegar tíðniréttindin er ætluð til:
     a.      notkunar á afmörkuðum landsvæðum þar sem aðgangi að háhraðanetum er verulega ábótavant eða er ekki til staðar,
     b.      sérstakra skammtímaverkefna,
     c.      nota í tilraunaskyni,
     d.      notkunar á fjarskiptatíðnirófi sem getur verið samhliða þráðlausri gagnaflutningsþjónustu, eða
     e.      annarrar notkunar á fjarskiptatíðnirófi en samræmingarákvörðun mælir fyrir um að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. 12. gr.
    Að fenginni umsókn frá tíðnirétthafa tekur Póst- og fjarskiptastofnun ákvörðun um endurnýjun tíðniréttinda á samræmdu fjarskiptatíðnirófi tímanlega áður en gildistími réttindanna rennur út eða eigi síðar en tólf mánuðum fyrir þann tíma, nema þar sem möguleikinn á endurnýjun hefur verið útilokaður við úthlutun. Póst- og fjarskiptastofnun skal að jafnaði endurnýja tíðniheimild tíðnirétthafa enda mæli málefnalegar ástæður ekki gegn því, t.d. neikvæð áhrif á samkeppni á fjarskiptamarkaði eða á skipulag og nýtingu tíðnirófsins. Við endurnýjun tíðniréttinda getur Póst- og fjarskiptastofnun endurskoðað skilyrði fyrir notkun viðkomandi tíðna, sbr. ákvæði 16. gr.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur í fyrsta lagi fimm árum fyrir lok ákvarðaðs gildistíma tíðniréttinda, sem stofnunin telur að ekki séu málefnalegar ástæður til að framlengja, sbr. 4. mgr., framkvæmt mat á því hvaða áhrif samþykki eða synjun á endurnýjun réttindanna hafi fyrir fjarskiptamarkaðinn og neytendur. Að teknu tilliti til skemmri fyrirvara um framkvæmd slíks markaðsmats gildir hið sama áður en tekin er ákvörðun um hvort framlengja skuli gildistíma tíðniréttinda sem bundin eru ákvörðun um samræmda tíðninotkun og hefur verið úthlutað til skemmri tíma en tuttugu ára skv. 2. mgr. Markaðsmat tíðninotkunar skal framkvæma að undangengnu opnu samráði við markaðsaðila um forsendur þess. Meðal þeirra þátta sem horfa skal til við matið, eftir því sem við á, eru eftirfarandi atriði:
     a.      virk og skilvirk notkun viðkomandi fjarskiptatíðnirófs,
     b.      möguleg áhrif tíðninotkunar af því að þjóna almannahagsmunum,
     c.      áhrif á samkeppnisstöðu á fjarskiptamarkaði,
     d.      alþjóðlegar samþykktir og skuldbindingar um nýtingu tíðnirófsins, og
     e.      skilvirkari nýting tíðnirófsins með tilliti til markaðsþróunar eða nýrrar tækni.
    Nánar skal mælt fyrir um ástæður fyrir mögulegri synjun á endurnýjun tíðniréttinda og inntak og framkvæmd markaðsmats tíðninotkunar í reglugerð um skipulag og úthlutun tíðna.

VI. KAFLI

Númer og kóðar.

19. gr.

Forræði yfir númerum og kóðum.

    Númer og kóðar úr íslenska númeraskipulaginu eru auðlindir undir stjórn íslenska ríkisins. Úthlutun á númerum felur í sér tímabundna heimild til skilyrtra afnota sem hvorki leiðir til beins eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðstöfunarréttar. Númer og kóðar eru réttindi sem skráð eru á nafn og kennitölu og eru eingöngu framseljanleg samkvæmt skilyrðum sem Póst- og fjarskiptastofnun setur.

20. gr.

Skipulag númera og kóða.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal viðhalda skipulagi númera sem nota má fyrir hvers konar fjarskiptaþjónustu, þ.m.t. númerakóða fyrir net, og sjá til þess að forði númera og kóða sé ávallt nægur og standi fjarskiptafyrirtækjum til boða á jafnréttisgrundvelli. Póst- og fjarskiptastofnun gerir ráðstafanir til að endanotendur geti tengst ósvæðisbundnum númerum án tillits til tækni og búnaðar fjarskiptafyrirtækis. Upplýsingar um númeraskipulag og allar breytingar á því skulu birtar opinberlega.
    Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með sameiginlegum númeragrunni til uppflettingar á númerum og framkvæmdar á númeraflutningum. Högun númeragrunnsins, svo sem skráningar á kóðum og merkingar á númeraröðum, uppflettingar- og miðlunarmöguleikar og gerð sameiginlegra verkferla um númeraflutninga, er háð samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal setja reglur um númer, númeraraðir og kóða þar sem m.a. er kveðið nánar á um:
     a.      skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að fá úthlutað númerum fyrir fjarskiptastarfsemi hér á landi,
     b.      kröfur til hæfni rétthafa, annarra en skráðra fjarskiptafyrirtækja, til að fá úthlutað númerum og skilmála sem gilda um notkun slíkra númera,
     c.      tilgreiningu á þjónustutegundum einstakra númeraraða,
     d.      tilgreiningu á þjónustutegundum stuttnúmera,
     e.      tilgreiningu á sérstakri númeraröð fyrir fjarskiptaþjónustu milli tækja innan Evrópska efnahagssvæðisins, auk skilyrða sem fylgja slíkri númeraúthlutun, þ.m.t. þjónustuflutning,
     f.      tilgreiningu á lands- og svæðisbundnum númerum ef þörf krefur,
     g.      framsal númeraraða og kóða, og
     h.      meginreglur um gjaldskrá og hámarksverð sem geta átt við í tilgreindri númeraröð til að unnt sé að tryggja neytendavernd.

21. gr.

Málsmeðferð við úthlutun númera og kóða.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal taka ákvörðun um réttindi til þess að nota númer eins fljótt og unnt er eftir móttöku umsóknar. Ákvörðun skal liggja fyrir innan þriggja vikna ef um er að ræða númer sem ætluð eru til ákveðinnar notkunar samkvæmt númeraskipulaginu. Úthlutun númera fer samkvæmt verklagsreglum sem eru opnar, hlutlægar, gagnsæjar, hóflegar og án mismununar.
    Krefjast má þess af umsækjendum um réttindi að þeir leggi fram fullnægjandi upplýsingar um eignaraðild, fjárhagsstöðu og fyrirhugaða starfsemi, svo og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar teljast til að leggja mat á umsóknir þeirra. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja skilyrði varðandi hæfi umsækjanda um númer til að fá úthlutun, svo sem um fjárhagslega burði til uppbyggingar og reksturs fjarskiptanets, tæknilega getu og reynslu umsækjanda til að reka almenna fjarskiptaþjónustu og að umsækjandi hafi ekki brotið alvarlega eða ítrekað gegn ákvæðum laga þessara eða vanefnt verulega skilmála fyrri númeraúthlutana.

22. gr.

Skilyrði fyrir notkun númera.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur sett eftirfarandi skilyrði við úthlutun númera:
     a.      að tilgreind sé sú þjónusta sem númerið skal nota fyrir, þ.m.t. hvers kyns kröfur sem tengjast veitingu þjónustunnar,
     b.      að framboð þjónustunnar sé í samræmi við tiltekin lágmarksviðmið,
     c.      að notkun númeranna sé skilvirk og hagkvæm,
     d.      að boðið sé upp á númeraflutning,
     e.      að veittar séu almennar símaskrárupplýsingar,
     f.      að gildistími réttindanna sé takmarkaður og skal gildistíminn vera með fyrirvara um breytingar á númeraplani,
     g.      að skilmálar númeraúthlutunar séu bindandi fyrir viðtakendur númera við framsal slíkra réttinda,
     h.      að leyfishafi greiði afnotagjöld,
     i.      að efndar séu skuldbindingar sem gengist er undir í útboði eða uppboði, eða
     j.      að tekið sé mið af kvöðum samkvæmt alþjóðlegum samþykktum um notkun númera.

23. gr.

Ráðstafanir til að bregðast við misnotkun númera og svikastarfsemi.

    Komi upp rökstuddur grunur um að númer sé misnotað í sviksamlegum tilgangi getur Póst- og fjarskiptastofnun gefið skráðu fjarskiptafyrirtæki hér á landi fyrirmæli um að loka fyrir aðgangi að slíku númeri og samtengiumferð þess ásamt því að krefja fjarskiptafyrirtækið um að halda eftir tekjum og/eða samtengigjöldum af slíkri ólögmætri þjónustu og þjónustum sem henni tengjast.

VII. KAFLI

Fjarskiptabúnaður.

24. gr.

Búnaður fjarskiptaneta.

    Tækjabúnaður almennra fjarskiptaneta skal að jafnaði vera í samræmi við tæknistaðla sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Póst- og fjarskiptastofnun getur í sérstökum tilvikum mælt fyrir um notkun annarra staðla svo og tilmæla frá Alþjóðafjarskiptasambandinu.
    Tæknilegir eiginleikar í nettengipunktum skulu ávallt vera í samræmi við staðla. Fjarskiptafyrirtæki sem reka almenn fjarskiptanet skulu birta upplýsingar um tæknilega eiginleika í nettengipunktum.
    Þráðlaus fjarskiptanet má einungis setja upp og nota að fengnu leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar. Stofnuninni er þó heimilt að gefa út almennt leyfi fyrir þráðlaus fjarskiptanet í ákveðnum tíðnisviðum þegar geislað afl senda er undir hámarki sem stofnunin setur.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um búnað fjarskiptaneta í reglugerð.

25. gr.

Innanhússfjarskiptalagnir.

    Innanhússfjarskiptalagnir í byggingum, þ.m.t. aðgangspunktur í fjarskiptainntaki, eru á ábyrgð eiganda byggingar. Staðsetning aðgangspunkts og allar innanhússfjarskiptalagnir skulu vera í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Í fjöleignarhúsum skal aðgangspunktur (húskassi) vera innsiglaður eða læstur og þannig gengið frá innanhússfjarskiptalögnum að óviðkomandi eigi ekki greiða leið að þeim. Fjarskiptafyrirtæki skal eiga rétt á aðgangi að aðgangspunkti viðkomandi byggingar til að tengja sig inn á innanhússfjarskiptalagnir byggingar og lagnir viðkomandi endanotanda, óháð því hvort innanhússfjarskiptalögnin sé tilbúin fyrir háhraðatengingu eða ekki. Fjarskiptafyrirtæki er óheimilt að tengjast við innanhússlagnir sem ekki eru í samræmi við lög og reglur um innanhússfjarskiptalagnir. Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um frágang aðgangspunkta (húskassa) og lagna í þeim tilgangi að tryggja vernd fjarskipta og skilgreina aðgangsheimild fjarskiptafyrirtækja.
    Öll fjarskiptafyrirtæki sem eru veitendur almennra fjarskiptaneta hafa rétt til að tengja net sitt að aðgangspunkti á eigin kostnað.

26. gr.

Grunnkröfur þráðlauss fjarskiptabúnaðar.

    Þráðlaus fjarskiptabúnaður skal vera þannig gerður að:
     a.      hann tryggi heilsuvernd og öryggi einstaklinga og húsdýra og friðhelgi eignarréttar,
     b.      hann sé rafsegulssamhæfur,
     c.      hann noti á skilvirkan hátt og styrki skilvirka notkun á fjarskiptatíðnirófi til að komast hjá skaðlegri truflun.
    Þráðlaus fjarskiptabúnaður innan tiltekinna flokka eða tegunda skal vera þannig gerður að hann sé í samræmi við eftirfarandi grunnkröfur:
     a.      búnaðurinn sé samvirkur við aukabúnað, einkum samræmd hleðslutæki,
     b.      búnaðurinn sé samvirkur um net við annan þráðlausan fjarskiptabúnað,
     c.      búnaðinn sé hægt að tengja við skilfleti viðeigandi tegundar á sameiginlegum innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins,
     d.      búnaðurinn valdi ekki skaða á netinu eða virkni þess né því að netbúnaður sé misnotaður og valdi með því óviðunandi skerðingu á þjónustu,
     e.      í búnaðinum séu innbyggðar öryggisráðstafanir til að sjá til þess að persónuupplýsingar og friðhelgi einkalífs notandans njóti verndar,
     f.      búnaðurinn sé gerður fyrir sérstakar aðgerðir sem tryggja vörn gegn svikum,
     g.      búnaðurinn sé gerður fyrir sérstakar aðgerðir sem tryggja aðgang að neyðarþjónustu,
     h.      búnaðurinn sé gerður fyrir sérstakar aðgerðir sem auðvelda fötluðu fólki að nota hann, og
     i.      búnaðurinn sé gerður fyrir sérstakar aðgerðir til að tryggja að aðeins sé hægt að hlaða hugbúnaði niður í þráðlausa fjarskiptabúnaðinn ef sýnt hefur verið fram á að samtenging þráðlausa fjarskiptabúnaðarins og hugbúnaðarins sé í samræmi við kröfur.
    Notendabúnaður fyrir stafrænt sjónvarp, keyptur eða leigður, skal uppfylla kröfur um samvirkni í samræmi við reglur sem Póst- og fjarskiptastofnun setur um:
     a.      sameiginlegt brenglunaralgrím og gjaldfrjálsa viðtöku, og
     b.      samvirkni hliðrænna og stafrænna sjónvarpstækja.
    Óheimilt er að framleiða og markaðssetja búnað eða hugbúnað sem er hannaður eða aðlagaður til að sniðganga réttindi þjónustuveitanda sem veitir þjónustu um skilyrt aðgangskerfi.

27. gr.

Þráðlaus sendibúnaður.

    Sendibúnað fyrir þráðlaus fjarskipti má aðeins hafa undir höndum, setja upp eða nota að fengnu leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar. Þó má starfrækja þráðlausan búnað án sérstaks leyfis þegar hann er eingöngu notaður við almenna fjarskiptaþjónustu á tilteknu tíðnisviði. Póst- og fjarskiptastofnun gefur út leyfisbréf fyrir notkun þráðlauss sendibúnaðar og skal leyfisbréfið að jafnaði vera tímabundið. Binda má leyfið skilyrðum, svo sem um sendiafl, staðsetningu, bandbreidd, útbreiðslusvæði og tengingu við almenn fjarskiptanet. Við útgáfu leyfisbréfa getur Póst- og fjarskiptastofnun, með vísan til 1. mgr. 87. gr., mælt fyrir um að einungis tiltekið hlutfall þráðlauss sendibúnaðar geti komið frá sama framleiðanda slíks búnaðar. Leyfisbréf skulu gefin út á nafn eiganda búnaðarins og eru þau ekki framseljanleg. Leyfishafi sem selur þráðlausan búnað, sem hann hefur fengið leyfisbréf fyrir, eða afhendir hann öðrum varanlega ber ábyrgð á því að tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um nýjan eiganda. Póst- og fjarskiptastofnun skal þegar í stað gera ráðstafanir til að stöðva starfrækslu þráðlausra senda, þ.m.t. útvarpssenda, sem ekki er leyfisbréf fyrir og ekki eru undanþegnir leyfisskyldu. Óheimilt er að hindra eftirlitsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar í slíkum aðgerðum, enda hafi þeir framvísað starfsskírteini sínu. Ekki þarf leyfisbréf fyrir lágaflsbúnaði sem vinnur á samræmdum tíðnisviðum sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur tilkynnt að nota megi fyrir slíkan búnað.
    Seljendum leyfisskylds þráðlauss búnaðar ber að tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun hver sé kaupandi búnaðarins á því formi og með þeim hætti sem stofnunin samþykkir.
    Þrátt fyrir leyfisskyldu vegna þráðlauss sendibúnaðar skv. 1. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að ákveða að þráðlaus sendibúnaður til tiltekinnar notkunar skuli eingöngu vera háður tilkynningarskyldu til stofnunarinnar. Heimild til notkunar slíks búnaðar er þá bundin því að Póst- og fjarskiptastofnun geri ekki athugasemd við staðsetningu búnaðarins eða eiginleika hans og virkni. Óheimilt er að nota tilkynningarskyldan sendibúnað sem ekki hefur verið tilkynntur. Póst- og fjarskiptastofnun getur sett reglur um tilkynningu þráðlauss sendibúnaðar, þ.m.t. um þær kröfur sem gerðar eru til tíðnirétthafa á þeim tíðnisviðum sem slíkur búnaður starfar á.
    Póst- og fjarskiptastofnun gefur út skírteini sem heimila einstaklingum að starfrækja ákveðnar tegundir þráðlauss búnaðar. Ekki er gerð krafa um sérstaka þjálfun þeirra sem starfrækja þráðlausan búnað nema í þeim tilfellum að búnaðurinn gegni öryggishlutverki eða þegar sendiafl er umfram 100 W. Heimilt er að gefa út skírteini talstöðvavarðar sem heimilar handhafa að starfrækja fjarskiptabúnað í skipum. Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um útgáfu skírteinis talstöðvavarðar og hæfniskröfur í reglugerð. Póst- og fjarskiptastofnun getur veitt útlendingum sem hér dvelja í takmarkaðan tíma undanþágu til að starfrækja fjarskiptabúnað, enda hafi þeir til þess réttindi í sínu heimalandi. Póst- og fjarskiptastofnun getur sett nánari reglur um heimildir einstaklinga til að starfrækja fjarskiptabúnað.
    Póst- og fjarskiptastofnun gefur út leyfi til radíóáhugamanna að fengnum umsóknum þeirra og umsögn hagsmunasamtaka áhugamanna. Erlendir ríkisborgarar geta sótt um leyfi til bráðabirgða eða til lengri tíma. Ráðherra setur reglugerð um starfsemi radíóáhugamanna.

28. gr.

Fjarskiptabúnaður í farartækjum.

    Íslensk skip, loftför og önnur farartæki skulu búin fjarskiptabúnaði sem uppfyllir kröfur samkvæmt alþjóðlegum samþykktum og regluverki á sviði fjarskipta og samgangna.
    Fjarskiptabúnað í erlendum skipum, flugvélum eða öðrum farartækjum sem eru innan íslenskrar land- eða lofthelgi má aðeins nota í samræmi við íslensk lög og reglugerðir.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur bannað notkun fjarskiptabúnaðar í erlendum farartækjum í íslenskri lögsögu ef notkunin telst andstæð íslenskum reglum.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. getur Póst- og fjarskiptastofnun heimilað notkun búnaðar sem viðurkenndur er til notkunar á alþjóðavettvangi.
    Ráðherra skal setja frekari reglur um fjarskiptabúnað og fjarskiptaþjónustu í farartækjum.

29. gr.

Takmörkun fjarskipta vegna truflana eða sérstakra aðgerða.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur látið innsigla fjarskiptavirki og rafföng eða hluta þeirra eða bannað notkun þeirra og eftir atvikum fyrirskipað að þau skuli afhent til geymslu undir innsigli ef fjarskiptavirkin eða rafföngin valda skaðlegum truflunum á fjarskiptum eða ef hætta er á því að þau valdi skaðlegum truflunum eða hætta er á að öryggi fjarskipta sé raskað.
    Ef fyrir liggur rökstuddur grunur um að rafföng, tæki, raflagnir, pípur, leiðslur, loftnet eða því um líkt valdi skaðlegri truflun á rekstri fjarskiptavirkis er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að beina fyrirmælum til eiganda slíks hlutar um að hann grípi án tafar til viðeigandi úrbóta á eigin kostnað, taki t.d. niður, færi eða fjarlægi viðkomandi hlut sem veldur skaðlegri truflun.
    Vanræki eigandi að framkvæma fyrirmæli um úrbætur getur Póst- og fjarskiptastofnun látið vinna verkið á kostnað eiganda. Krafa um kostnað vegna þessa er aðfararhæf skv. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.
    Ef þörf krefur er lögreglu skylt að aðstoða Póst- og fjarskiptastofnun við þær aðgerðir er greinir í 1. og 2. mgr.
    Að fenginni beiðni frá Fangelsismálastofnun getur Póst- og fjarskiptastofnun veitt heimild fyrir truflun þráðlausra fjarskipta innan sérstaklega afmarkaðs svæðis vegna framkvæmdar á öryggis- og refsigæslu. Áður en slík heimild er veitt skal stofnunin leita álits fjarskiptafyrirtækja sem veita þráðlausa fjarskiptaþjónustu á viðkomandi svæði.

30. gr.

Samræmi búnaðar.

    Óheimilt er að setja á markað eða bjóða á markaði annan þráðlausan fjarskiptabúnað en þann sem uppfyllir grunnkröfur 26. gr. og hefur CE-merkingu, á grundvelli samræmismats, því til staðfestingar.
    Óheimilt er að taka þráðlausan fjarskiptabúnað í notkun nema notkun hans sé í samræmi við fyrirhugaðan tilgang hans og hann uppfylli grunnkröfur 26. gr. og hafi CE-merkingu, á grundvelli samræmismats, því til staðfestingar.
    Innflutningur einstaklinga eða lögaðila á notendabúnaði til eigin nota eða í öðrum tilgangi telst markaðssetning í þessu sambandi.
    Aðili sem hyggst setja á markað þráðlausan fjarskiptabúnað á tíðnisviðum þar sem notkun hefur ekki verið samræmd á Evrópska efnahagssvæðinu skal tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um þessa fyrirætlun með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Einnig skal senda stofnuninni upplýsingar um eiginleika búnaðarins, þ.m.t. tíðnisvið hans, bil milli rása, mótunaraðferð og hátíðniafl. Telji Póst- og fjarskiptastofnun hættu á því að búnaðurinn geti truflað aðra þjónustu á viðkomandi tíðnisviði getur stofnunin bannað sölu og notkun hans.

31. gr.

Skyldur rekstraraðila.

    Framleiðendur þráðlauss búnaðar skulu tryggja að þráðlaus fjarskiptabúnaður sem þeir setja á markað fullnægi grunnkröfum 26. gr. og hafi CE-merkingu, á grundvelli samræmismats, því til staðfestingar. Framleiðendur bera ábyrgð á að framkvæmt sé samræmismat fyrir þráðlausa fjarskiptabúnaðinn, hvort sem er hjá faggiltri samræmismatsstofu eða, eftir atvikum, á grundvelli sjálfsmats. Þá skal framleiðandi þráðlauss fjarskiptabúnaðar sem settur er á markað hér á landi tryggja að honum fylgi upplýsingar fyrir notendur á íslensku um tilætlaða notkun, helstu eiginleika og öryggismál. Þá skulu fylgja upplýsingar um framleiðslunúmer, nafn framleiðanda og skráð viðskiptaheiti hans eða vörumerki. ESB-samræmisyfirlýsing og tæknigögn skulu einnig fylgja þráðlausa fjarskiptabúnaðinum. Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um að upplýsingar skv. 3. málsl. megi vera á ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku enda megi ætla að notendahópur viðkomandi vöru skilji hið erlenda mál vegna menntunar, starfa eða annarrar sérhæfingar. Framleiðandi þráðlauss fjarskiptabúnaðar getur kært niðurstöðu faggiltrar samræmismatsstofu um ósamræmi búnaðar til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.
    Innflutningsaðilum þráðlauss fjarskiptabúnaðar er einungis heimilt að setja á markað þráðlausan fjarskiptabúnað sem uppfyllir grunnkröfur 26. gr. og hefur CE-merkingu, á grundvelli samræmismats, því til staðfestingar. Skulu innflutningsaðilar ganga úr skugga um að búnaðinum fylgi þau gögn sem framleiðanda ber að láta fylgja, sbr. 1. mgr. og reglugerð sem ráðherra setur. Þá skulu innflutningsaðilar skrá nafn sitt og skráð viðskiptaheiti á þráðlausa fjarskiptabúnaðinn eða, ef slíkt er ekki hægt, á umbúðir hans.
    Dreifingaraðilar skulu gæta þess vandlega þegar þeir bjóða fram þráðlausan fjarskiptabúnað á markaði að hann sé í samræmi við grunnkröfur og hafi CE-merkingu því til staðfestingar. Dreifingaraðila ber að gæta þess að með búnaðinum fylgi þau gögn sem framleiðanda ber að láta fylgja, sbr. 1. mgr. og reglugerð sem ráðherra setur.

32. gr.

Markaðseftirlit með þráðlausum fjarskiptabúnaði og samræmi hans.

    Póst- og fjarskiptastofnun fer með markaðseftirlit með þráðlausum fjarskiptabúnaði og rekstraraðilum hans. Skal stofnunin að eigin frumkvæði eða eftir ábendingu taka til meðferðar mál er varða markaðseftirlit með þráðlausum fjarskiptabúnaði og skyldum rekstraraðila. Í því skyni getur stofnunin, hvenær sem er og án sérstakrar heimildar, krafist þess að fá aðgang að sölustöðum slíks búnaðar.
    Ef þráðlaus fjarskiptabúnaður, sem uppfyllir ekki grunnkröfur 26. gr. og reglugerðar sem ráðherra setur, er settur á markað, fluttur inn eða honum dreift, getur stofnunin krafist þess að sala hans og/eða notkun verði þegar í stað stöðvuð, búnaðurinn verði kyrrsettur eða haldlagður og að rekstraraðilar grípi til aðgerða til úrbóta. Póst- og fjarskiptastofnun getur einnig, að undangengnu mati, takmarkað að þráðlaus fjarskiptabúnaður sé settur á markað, fluttur inn eða honum dreift af ástæðum sem tengjast almannaöryggi, almannaheilbrigði og almannahagsmunum. Getur stofnunin jafnframt krafist aðgerða af hálfu rekstraraðila til úrbóta í slíkum tilvikum.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur gert kröfu um að rekstraraðilar afhendi stofnuninni sundurliðaðar upplýsingar og teikningar af búnaði sem settur hefur verið á markað eða ráðgert er að setja á markað. Með slíkar upplýsingar skal farið sem trúnaðarmál.

33. gr.

Reglugerð um eftirlit með markaðssetningu og samræmi þráðlauss fjarskiptabúnaðar.

    Ráðherra skal setja reglugerð um eftirlit með markaðssetningu og samræmi þráðlauss fjarskiptabúnaðar. Í reglugerðinni skal m.a. kveða á um kröfur sem gerðar eru til þráðlauss fjarskiptabúnaðar, heimildir til að bjóða þráðlausan búnað fram á markaði og notkun hans, frekari skyldur framleiðenda, innflutningsaðila og dreifingaraðila þráðlauss fjarskiptabúnaðar, samræmi þráðlauss fjarskiptabúnaðar, framkvæmd samræmismats og samræmismatsstofur, CE-merkingu, markaðseftirlit og samstarf yfirvalda.

VIII. KAFLI

Aðgangur og samtenging.

34. gr.

Aðgangur að landi og mannvirkjum.

    Ef fyrirtæki sem rekur fjarskiptanet eða þjónustu er nauðsynlegt að leggja leiðslur fjarskiptavirkja um land annars manns, yfir það eða í jörðu, yfir hús eða önnur mannvirki á landinu, á þeim, gegnum þau eða undir þeim, þá er eiganda viðkomandi fasteignar skylt að heimila slíkt, enda komi fullar bætur fyrir. Hafa skal samráð við eigendur eða umráðamenn slíkra fasteigna og mannvirkja um hvar leiðslur eru lagðar og skal þess gætt að sem minnst sé raskað hagsmunum eigandans. Starfsmenn við fjarskiptavirki skulu gæta þess að valda eigendum og íbúum ekki meiri óþægindum en brýnustu nauðsyn ber til.
    Ef tjón verður á landi manna, mannvirkjum eða öðrum eignum við lagningu fjarskiptavirkja eða viðhald þeirra, og ekki verður úr bætt, eða lagning fjarskiptavirkja leiðir til takmörkunar á afnotamöguleikum viðkomandi eignar, þá skal eigandi fjarskiptavirkis bæta tjónið. Náist ekki samkomulag um bótafjárhæð skal um ákvörðun bóta fara að lögum um framkvæmd eignarnáms.
    Þegar þar til bærir opinberir aðilar hafa til meðferðar umsókn um aðgang að eign skal viðhafa einfalda, skilvirka og gagnsæja málsmeðferð sem er öllum aðgengileg, án mismununar og án tafar, og taka í öllum tilvikum ákvörðun innan sex mánaða frá umsókn, nema ef um er að ræða eignarnám.
    Ef opinberir aðilar fara með eignarhald eða yfirráð yfir fyrirtækjum sem reka almenn fjarskiptanet og/eða almenna fjarskiptaþjónustu skal ákvörðun um aðgang að eign samkvæmt ákvæði þessu tekin í stofnun eða annarri einingu sem er algerlega aðskilin frá starfsemi sem tengist eignarhaldi eða yfirráðum yfir fjarskiptastarfsemi.
    Ef fjarskiptafyrirtæki er nauðsynlegt að tryggja sér land, lóð eða aðra eign í sambandi við lagningu eða rekstur almennra fjarskiptavirkja og samningum um kaup verður ekki við komið má ráðherra heimila, að fenginni umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar, að eign eða hluti hennar sé tekinn eignarnámi gegn endurgjaldi sem meta skal samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Samþykki ráðherra fyrir eignarnámi skal m.a. háð því að eignarnemi setji tryggingu fyrir greiðslu áætlaðra eignarnámsbóta og kostnaðar við matið. Ef eignarnámsbætur fást ekki greiddar hjá eignarnema þá skal ríkissjóður ábyrgjast greiðslu þeirra.

35. gr.

Aðgangur að aðstöðu.

    Ef fjarskiptafyrirtæki hefur nýtt rétt til að koma sér upp aðstöðu á, yfir eða undir eignum annars aðila, eða nýtir sér reglur um eignarnám eða afnot af eign, getur Póst- og fjarskiptastofnun fyrirskipað samhýsingu eða samnýtingu nethluta eða tengdrar aðstöðu í því skyni að vernda umhverfið, almannaheilbrigði, almannaöryggi eða til að uppfylla markmið um skipulag sveitarfélaga.
    Áður en ákvörðun er tekin um samhýsingu eða samnýtingu skv. 1. mgr. skal fara fram opið samráð um málið. Ákvörðun skal eingöngu ná til tilgreindra svæða þar sem slík samnýting er talin nauðsynleg til að ná þeim markmiðum sem kveðið er á um í 1. mgr.
    Ákvörðun skv. 1. mgr. getur náð til samnýtingar aðstöðu eða eigna, þ.m.t. lands, bygginga eða inngangs að byggingum, leiðslna í byggingum, loftneta, turna og annarra burðarvirkja, stokka, leiðslna, mastra, mannopa og skápa, eða falið í sér ráðstafanir til samræmingar við opinberar framkvæmdir.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja reglur um kostnaðarskiptingu við samnýtingu aðstöðu, eigna eða framkvæmda samkvæmt þessari grein.

36. gr.

Réttur til samtengingar og aðgangs.

    Fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja almenn fjarskiptanet eða almenna fjarskiptaþjónustu skulu eiga rétt á og þeim ber skylda til að semja um samtengingu neta og þjónustu með það fyrir augum að veita almenna fjarskiptaþjónustu og að tryggja framboð og rekstrarsamhæfi þjónustunnar hvarvetna á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Fjarskiptafyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu sem óska eftir að semja um aðgang eða samtengingu þurfa ekki að vera skráð hjá Póst- og fjarskiptastofnun ef þau reka hvorki fjarskiptanet né fjarskiptaþjónustu hér á landi.
    Rekstraraðilar skulu bjóða öðrum fyrirtækjum aðgang og samtengingu með skilmálum og skilyrðum sem samrýmast þeim skyldum sem Póst- og fjarskiptastofnun leggur á skv. 38., 39. og 46. gr.
    Í samtengisamningi og samningi um aðgang að netum skal geta um þá stýringu fjarskiptaumferðar sem aðilar áskilja sér rétt til að viðhafa í almennum fjarskiptanetum og skal stýringin uppfylla skilyrði um nauðsyn og meðalhóf. Slíka samninga um samtengingu og aðgang skal senda Póst- og fjarskiptastofnun eigi síðar en viku eftir undirritun þeirra.

37. gr.

Almennt hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar varðandi aðgang og samtengingu.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal leitast við að tryggja aðgang og samtengingu og gagnvirkni þjónustu á fullnægjandi og hagkvæman hátt.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir takmarkanir sem hindra fyrirtæki í að gera samtengisamninga sín á milli.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal veita leiðsögn og birta upplýsingar um verklag varðandi samninga um aðgang og samtengingu.

38. gr.

Kvaðir án undangenginnar markaðsgreiningar.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki og aðra aðila eftir því sem nánar er tiltekið í ákvæði þessu, án tillits til þess hvort viðkomandi fyrirtæki hafi verið útnefnt sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk skv. 45. gr.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur í rökstuddum tilvikum og eftir því sem þurfa þykir lagt eftirfarandi kvaðir á fjarskiptafyrirtæki í þeim tilgangi að tryggja tengingu endanotenda:
     a.      kvaðir á fjarskiptafyrirtæki sem stjórna aðgangi endanotenda og eru taldar nauðsynlegar til að tryggja tengingu enda á milli, þ.m.t. kvöð um að samtengja net,
     b.      kvaðir á fyrirtæki sem stjórna aðgangi endanotenda um að gera þjónustu sína rekstrarsamhæfða,
     c.      kvaðir á viðkomandi veitendur fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er ótengd númerum og sem hefur verulega útbreiðslu og fjölda notenda um að gera þjónustu sína rekstrarsamhæfða ef tengingu enda á milli er ógnað vegna skorts á rekstrarsamhæfi en kveða skal nánar á um skilyrði fyrir beitingu slíkra úrræða í reglugerð,
     d.      kvaðir um að veita aðgang að forritatengslum og rafrænum dagskrárvísum með skilmálum sem eru réttlátir, sanngjarnir og án mismununar til að tryggja aðgang endanotenda að stafrænu hljóð- og sjónvarpi og tengdri viðbótarþjónustu.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur að fenginni réttmætri beiðni, eða eftir atvikum að eigin frumkvæði, í sérstökum tilfellum lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki eða aðra eigendur aðstöðu um að veita aðgang að leiðslum og köplum og tilheyrandi aðstöðu í byggingum eða að fyrsta samantektar- eða dreifipunkti ef sá punktur er staðsettur utan byggingar. Skilyrði fyrir álagningu slíkra kvaða er að tvöföldun slíkra nethluta sé efnahagslega óhagstæð eða ómöguleg í framkvæmd. Kvaðir geta falið í sér skyldu til aðgangs, gagnsæis, jafnræðisskyldu og skiptingar kostnaðar.
    Komist Póst- og fjarskiptastofnun að þeirri niðurstöðu, eftir atvikum með tilliti til þeirra kvaða sem leiða af viðkomandi markaðsgreiningu, að kvaðir sem lagðar eru á í samræmi við 3. mgr. taki ekki nægjanlega á miklum og varanlegum efnahagslegum eða áþreifanlegum hindrunum í vegi fyrir tvöföldun nethluta þannig að samkeppni sé hamlað getur stofnunin látið kvaðir um aðgang ná lengra en til fyrsta samantektar- eða dreifipunktar eða að þeim punkti næst endanotendum sem getur hýst nægilegan fjölda tenginga til að hagkvæmt sé að fá aðgang að netinu á þeim stað. Ef réttlætanlegt þykir af tæknilegum eða efnahagslegum ástæðum geta kvaðir náð til virkra nethluta og sýndaraðgangs.
    Kvaðir skv. 3. mgr. skal ekki leggja á fyrirtæki sem uppfylla skilyrði 59. gr. og bjóða fram aðra raunhæfa leið til að ná til endanotenda með því að veita fyrirtækjum aðgang að háhraðaneti með réttmætum og sanngjörnum skilmálum og skilyrðum sem eru án mismununar, nema ef viðkomandi net er fjármagnað með opinberu fé. Póst- og fjarskiptastofnun getur undanþegið önnur fyrirtæki sem bjóða aðgang að háhraðaneti með réttmætum og sanngjörnum skilmálum og skilyrðum sem eru án mismununar. Kvöðum skv. 3. mgr. skal ekki beitt ef þær geta hamlað útbreiðslu nýrra neta.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki sem bjóða þráðlausa fjarskiptaþjónustu um að þau veiti aðgang að óvirkum nethlutum eða bjóði svæðisbundið reiki ef nauðsynlegt er að tryggja svæðisbundinn aðgang að þráðlausri þjónustu og að ekki sé til staðar önnur svipuð og raunhæf leið til að veita endanotendum aðgang. Aðeins má beita slíkum kvöðum ef skýrt er kveðið á um slíkan möguleika í viðkomandi tíðniheimildum með vísan til óyfirstíganlegra efnahagslegra eða áþreifanlegra hindrana í vegi markaðsdrifinnar útbreiðslu. Komi til ágreinings um aðgang getur Póst- og fjarskiptastofnun m.a. lagt þá skyldu á fjarskiptafyrirtæki sem óskar aðgangs að það heimili aðgangsveitanda samnýtingu á tíðniheimildum á viðkomandi svæði.
    Kvaðir samkvæmt þessari grein skulu vera hlutlægar, gagnsæjar, hóflegar og án mismununar. Meta skal árangur kvaða og taka ákvörðun um að viðhalda, afturkalla eða breyta þeim innan fimm ára frá gildistöku þeirra. Viðhafa skal samráð skv. 6. og 7. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun áður en ákvörðun er tekin eða hún endurskoðuð.
    Kveða skal nánar á um beitingu kvaða samkvæmt þessu ákvæði í reglugerð.

39. gr.

Skilyrt aðgangskerfi.

    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja reglur um skilyrt aðgangskerfi fyrir stafræna hljóð- og myndmiðlun og tengda þjónustu, svo sem forritaskil og rafræna dagskrárvísa. Í reglunum skal kveðið á um aðgang fjölmiðlaveita að slíkum kerfum og þjónustu og þá tæknilegu eiginleika sem kerfin og þjónustan skulu uppfylla.

40. gr.

Aðgangur að þráðlausum staðarnetum.

    Heimilt er að veita aðgang að almennum rafrænum fjarskiptanetum í gegnum þráðlaus staðarnet og nota til þess tíðnisvið sem ætlað er til slíkrar notkunar samkvæmt almennri heimild án sérstakrar tíðniúthlutunar.
    Ef veiting slíks aðgangs er ekki í atvinnuskyni er veitandi þjónustunnar hvorki bundinn af skilyrðum almennrar heimildar skv. IV. kafla né ákvæðum varðandi réttindi endanotenda og er ekki skylt að samtengja net sitt skv. 36. gr.
    Rekstraraðilum almennra fjarskiptaneta eða almennrar fjarskiptaþjónustu er heimilt að veita almenningi aðgang að netum sínum í gegnum þráðlaus staðarnet sem kunna að vera staðsett í húsnæði endanotanda, með fyrirvara um að farið sé að viðeigandi skilyrðum almennrar heimildar og að upplýst samþykki endanotanda sé fengið fyrirfram.
    Rekstraraðilum almennra fjarskiptaneta eða almennrar fjarskiptaþjónustu er óheimilt að takmarka einhliða eða koma í veg fyrir að endanotendur:
     a.      hafi aðgang að þráðlausum staðarnetum að eigin vali sem þriðju aðilar bjóða, eða
     b.      heimili öðrum endanotendum gagnkvæman, eða almennan, aðgang að kerfum þessara rekstraraðila í gegnum þráðlaus staðarnet, þ.m.t. að frumkvæði þriðju aðila sem safna saman þráðlausum staðarnetum mismunandi endanotenda og gera þau aðgengileg almenningi.
    Endanotendum er heimilt að veita öðrum endanotendum aðgang, gagnkvæman eða annars konar, að þráðlausum staðarnetum sínum, þ.m.t. að frumkvæði þriðju aðila sem safna saman þráðlausum staðarnetum mismunandi endanotenda og gera þau aðgengileg almenningi.
    Heimilt er að veita aðgang að þráðlausum staðarnetum af hálfu:
     a.      opinberra aðila eða í almenningsrýmum nálægt athafnasvæði slíkra opinberra aðila þegar aðgangurinn er viðbótarþjónusta við þá opinberu þjónustu sem veitt er á svæðinu, og
     b.      frjálsra félagasamtaka eða opinberra aðila sem safna saman þráðlausum staðarnetum mismunandi endanotenda og gera þau gagnkvæmt eða almennt aðgengileg, þ.m.t. þráðlaus staðarnet sem almenningi er veittur aðgangur að í samræmi við a-lið.

41. gr.

Útbreiðsla og starfsræksla þráðlausra aðgangspunkta sem þekja lítið svæði.

    Ekki þarf sérstakt leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar til uppsetningar á smáum fjarskiptasendum sem notaðir eru sem aðgangspunktar fyrir lítil svæði. Notkun tíðna í slíkum sendum getur þó eftir atvikum verið háð heimild skv. V. kafla.
    Opinber yfirvöld skulu veita aðgang að efnislegum grunnvirkjum sem þau hafa yfirráð yfir, sem henta tæknilega til að hýsa þráðlausa aðgangspunkta sem þekja lítið svæði eða sem eru nauðsynlegir til að tengja slíka aðgangspunkta við grunnnet, þ.m.t. ljósastaurum, götuskiltum, umferðarljósum, auglýsingaskiltum og stöðvum fyrir almenningssamgöngur. Opinber yfirvöld skulu sinna öllum réttmætum beiðnum um aðgang með sanngjörnum, réttmætum, gagnsæjum skilyrðum og skilmálum, án mismununar. Beiðni um slíkan aðgang skal afgreiða innan fjögurra mánaða frá því að hún er sett fram.
    Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur þar sem tilgreindar eru kröfur um eðlisfræðilega og tæknilega eiginleika, svo sem hámarksstærð, þyngd og, eftir því sem við á, sendiafl sem þráðlausir aðgangspunktar sem þekja lítið svæði þurfa að uppfylla.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal beita sér fyrir því að reglur sem gilda um útbreiðslu þráðlausra aðgangspunkta sem þekja lítið svæði séu samræmdar á landsvísu og birtar opinberlega á vef stofnunarinnar.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal veita hverjum sem þess óskar upplýsingar um reglur sem gilda um uppsetningu og starfrækslu fjarskiptasenda sem falla undir þessa grein.

42. gr.

Samskipti fjarskiptafyrirtækja.

    Fjarskiptafyrirtæki sem öðlast upplýsingar frá öðru fyrirtæki við gerð samninga um aðgang eða samtengingu eða að loknum samningum skulu eingöngu nota upplýsingarnar í þeim tilgangi sem þær voru veittar og skulu á öllum stigum halda trúnað. Óheimilt er að afhenda upplýsingarnar öðrum, þar á meðal öðrum deildum fyrirtækis, dótturfyrirtækjum eða samstarfsaðilum.

IX. KAFLI

Markaðir, markaðsgreiningar og álagning kvaða.

43. gr.

Skilgreining markaða o.fl.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal skilgreina þjónustu- eða vörumarkaði og landfræðilega markaði í samræmi við meginreglur samkeppnisréttar og skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Haft skal samráð við Samkeppniseftirlitið þegar við á.
    Við skilgreiningu markaða skal Póst- og fjarskiptastofnun taka ýtrasta tillit til tilmæla Eftirlitsstofnunar EFTA um viðkomandi þjónustumarkaði og viðmiðunarreglna Eftirlitsstofnunar EFTA um markaðsgreiningar og mat á umtalsverðum markaðsstyrk. Enn fremur skal, ef við á, taka tillit til niðurstaðna úr landfræðilegri könnun sem framkvæmd er í samræmi við 3. gr. b í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.
    Ráðherra skal setja reglugerð um nánari sundurliðun markaða samkvæmt ákvæði þessu, um markaðsgreiningar skv. 44. gr., um mælikvarða sem nota skal við mat á því hvort fyrirtæki, eitt eða fleiri saman, hafi umtalsverðan markaðsstyrk skv. 45. gr. og um kvaðir og aðrar skyldur og réttindi skv. 46.–61. gr.

44. gr.

Framkvæmd markaðsgreiningar.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal með hliðsjón af 43. gr. greina viðkomandi markaði með hliðsjón af skuldbindingum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þegar við á skal gera greininguna í samstarfi við Samkeppniseftirlitið. Greining skal leiða í ljós hvort aðstæður á viðkomandi markaði réttlæti að kvaðir verði lagðar á. Við greiningu skal taka ýtrasta tillit til viðmiðunarreglna Eftirlitsstofnunar EFTA um markaðsgreiningar og mat á umtalsverðum markaðsstyrk.
    Markaður getur talist réttlæta að lagðar séu á kvaðir samkvæmt þessum kafla ef öll eftirfarandi viðmið eru uppfyllt:
     a.      miklar og varanlegar kerfislægar aðgangshindranir, eða aðgangshindranir í lögum og reglugerðum, eru til staðar,
     b.      markaðsgerðin stefnir ekki í átt að virkri samkeppni innan þess tímaramma sem á við, með hliðsjón af stöðu samkeppni í grunnvirkjum og öðrum upptökum samkeppni sem liggja að baki aðgangshindrununum,
     c.      samkeppnislög ein og sér nægja ekki til að bregðast við þeim markaðsbresti sem auðkenndur hefur verið.
    Þegar Póst- og fjarskiptastofnun framkvæmir greiningu á markaði sem er að finna í tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA um viðkomandi markaði skal líta svo á að ákvæði a-, b- og c-liðar 2. mgr. hafi verið uppfyllt nema að Póst- og fjarskiptastofnun komist að þeirri niðurstöðu að eitt eða fleiri af þessum viðmiðum séu ekki uppfyllt við viðkomandi landsbundnar aðstæður.
    Við framkvæmd markaðsgreiningar skal Póst- og fjarskiptastofnun með framsýnum hætti leggja mat á það hvernig þróun viðkomandi markaða yrði ef ekki væru til staðar kvaðir samkvæmt þessum kafla og taka tillit til allra eftirfarandi þátta:
     a.      markaðsþróunar sem hefur áhrif á líkur þess að viðkomandi markaður stefni í átt að virkri samkeppni,
     b.      allra viðkomandi samkeppnishamla á heildsölu- og smásölustigi,
     c.      annarra reglna eða ráðstafana sem hafa áhrif á viðkomandi markað eða tengdan smásölumarkað, og
     d.      kvaða sem komið er á á öðrum viðkomandi mörkuðum á grundvelli þessar greinar.
    Markaðsgreiningin skal vera grundvöllur ákvörðunar skv. 46. gr. um hvort Póst- og fjarskiptastofnun skuli leggja á, viðhalda, breyta eða fella niður kvaðir á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk. Ef samkeppni telst virk skulu ekki lagðar kvaðir á fyrirtæki á þeim mörkuðum. Ef virk samkeppni ríkir ekki á viðkomandi markaði skal útnefna fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á þeim markaði í samræmi við 45. gr. Leggja má á þau kvaðir samkvæmt lögum þessum eða viðhalda eða breyta kvöðum sem þegar hafa verið lagðar á.
    Við framkvæmd markaðsgreiningar á markaði á heildsölustigi skal leggja mat á samkeppnisstöðu á tengdum smásölumörkuðum.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal framkvæma markaðsgreiningu og birta drög að ákvörðun sem byggð er á greiningunni innan eftirtalinna tímamarka:
     a.      innan fimm ára frá fyrri ákvörðun um viðkomandi markað eða innan sex ára ef Eftirlitsstofnun EFTA hefur ekki andmælt rökstuddri tillögu Póst- og fjarskiptastofnunar um árs framlengingu en slíka tillögu þarf að setja fram eigi síðar en fjórum mánuðum fyrir lok fimm ára tímabilsins,
     b.      innan þriggja ára frá útgáfu endurskoðaðra tilmæla Eftirlitsstofnunar EFTA um viðkomandi markaði að því er varða markaði þar sem markaðsgreining hefur ekki áður farið fram, eða
     c.      innan sex mánaða frá lokum frests skv. a- eða b-lið í tilvikum þar sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekki lokið eða telur sig ekki geta lokið greiningu innan tímamarka og hefur óskað eftir aðstoð Evrópsks hóps eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC) við að ljúka greiningu.

45. gr.

Umtalsverður markaðsstyrkur.

    Fyrirtæki telst hafa umtalsverðan markaðsstyrk ef það eitt sér eða með öðrum hefur þann efnahagslega styrkleika á ákveðnum markaði að geta hindrað virka samkeppni og það getur að verulega leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda.
    Þegar fyrirtæki eitt sér eða með öðrum hefur umtalsverðan markaðsstyrk á tilteknum markaði getur það einnig talist hafa umtalsverðan markaðsstyrk á tengdum markaði ef tengsl milli markaðanna eru slík að fyrirtæki getur beitt markaðsstyrk sínum á öðrum markaðinum til að auka markaðsstyrk sinn á hinum.

46. gr.

Kvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk.

    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtæki í samræmi við ákvæði þessa kafla.
    Ef fjarskiptafyrirtæki telst, í kjölfar markaðsgreiningar, hafa umtalsverðan markaðsstyrk á tilteknum markaði skal Póst- og fjarskiptastofnun leggja á kvaðir skv. 47.–52. gr., 55. og 59. gr. eins og við á. Velja skal þá aðferð sem veldur minnstri röskun til að fást við vandamál sem auðkennd eru í markaðsgreiningu.
    Ef umtalsverður markaðsstyrkur fjarskiptafyrirtækis á tilteknum markaði er talinn valda umtalsverðum markaðsstyrk á tengdum markaði skv. 2. mgr. 45. gr. má aðeins leggja á kvaðir um gagnsæi, jafnræði, aðskilið bókhald og eftirlit með gjaldskrá á hinum síðarnefnda tengda markaði.
    Ef Póst- og fjarskiptastofnun hefur í hyggju, í undantekningartilvikum, að leggja aðrar kvaðir á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk varðandi aðgang eða samtengingu en þær sem settar eru fram í 47.–52. gr., 55. og 59. gr. skal stofnunin leita samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Kvaðir sem lagðar eru á samkvæmt þessari grein skulu vera:
     a.      í samræmi við eðli vandamálsins sem tilgreint er í markaðsgreiningu og taka, eftir því sem við á, tilliti til millilandaeftirspurnar,
     b.      hóflegar og hafa hliðsjón, þar sem hægt er, af kostnaði og ávinningi,
     c.      réttlætanlegar í ljósi markmiða laga þessara, og
     d.      lagðar á að viðhöfðu samráði í samræmi við 6. og 7. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um ákvarðanir um að leggja á, breyta eða afturkalla kvaðir á fyrirtæki í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 7. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal fylgjast með markaðsþróun, svo sem í tengslum við viðskiptasamninga, þ.m.t. samninga um sameiginlegar fjárfestingar, sem hafa áhrif á samkeppnishæfni, með tilliti til kvaða á markaðnum. Ef þessi þróun er ekki nægilega mikilvæg til að þörf sé á annarri markaðsgreiningu skal Póst- og fjarskiptastofnun meta án tafar hvort nauðsynlegt sé að endurskoða kvaðir sem lagðar hafa verið á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk og breyta fyrri ákvörðunum, þ.m.t. með því að afturkalla kvaðir eða leggja nýjar kvaðir á til að tryggja að slíkar kvaðir uppfylli áfram skilyrðin sem sett eru fram í 5. mgr. Slíkar breytingar skulu aðeins gerðar að loknu samráði í samræmi við 6. og 7. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

47. gr.

Aðgangur að mannvirkjum.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk um að verða við réttmætum beiðnum um aðgang að og notkun mannvirkja, þar á meðal en ekki einvörðungu bygginga eða innganga að byggingum, kapla í byggingum, þ.m.t. leiðslna, loftneta, turna og annarra burðarvirkja, staura, mastra, pípa, stokka, brunna til að sinna eftirliti, mannopa og skápa ef markaðsgreining bendir til þess að synjun aðgangs eða setning óréttmætra skilyrða fyrir aðgangi myndi hindra sjálfbæra samkeppni og ganga gegn hagsmunum neytenda.
    Leggja má kvaðir á fyrirtæki um að veita aðgang samkvæmt þessari grein án tillits til þess hvort þær eignir sem veittur er aðgangur að eru hluti af viðkomandi markaði í samræmi við markaðsgreiningu, að því tilskyldu að kvöðin sé hófleg og nauðsynleg til að uppfylla markmið laga þessara.

48. gr.

Aðgangur að netum og þjónustu.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur mælt fyrir um að fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk verði við réttmætum beiðnum um aðgang að og notkun á tilteknum nethlutum og tengdri aðstöðu ef talið er að synjun um aðgang eða óréttmætir skilmálar og skilyrði, sem hafa svipuð áhrif, muni hamla því að til verði sjálfbær samkeppnismarkaður á smásölustigi eða verði ekki til hagsbóta fyrir endanotendur.
    Meðal annars má krefjast af fjarskiptafyrirtækjum að þau:
     a.      veiti aðgang að einstökum hlutum neta eða aðstöðu, þ.m.t. aðgreindan aðgang að heimtaugum og heimtaugagreinum,
     b.      veiti aðgang að tilteknum virkum nethlutum eða sýndarnethlutum og sýndarnetþjónustu,
     c.      semji í góðri trú við fyrirtæki sem óska eftir aðgangi,
     d.      afturkalli ekki aðgang að aðstöðu sem þegar hefur verið veittur,
     e.      bjóði ákveðna þjónustu í heildsölu sem þriðji aðili endurselur,
     f.      heimili opinn aðgang að tæknisniðflötum, samskiptareglum eða annarri tækni sem er nauðsynleg til að tryggja rekstrarsamhæfi þjónustu eða sýndarnetþjónustu,
     g.      hýsi eða samnýti tengda aðstöðu með öðrum hætti,
     h.      bjóði þjónustu sem tryggir rekstrarsamhæfi enda á milli til notenda, eða reiki í farnetum,
     i.      bjóði aðgang að rekstrarkerfum eða hliðstæðum hugbúnaði til þess að tryggja samkeppni í framboði þjónustu,
     j.      samtengi net eða netaðstöðu, eða
     k.      veiti aðgang að tengdri þjónustu eins og auðkennis-, staðsetningar- og viðveruþjónustu.
    Heimilt er að bæta við þessar kvaðir skilyrðum sem taka til sanngirni, réttmæti og tímasetningar.
    Áður en tekin er ákvörðun um beitingu kvaða skv. 1. og 2. mgr. skal leggja mat á hvort annars konar aðgangur að heildsöluaðföngum, annað hvort á sama eða tengdum heildsölumarkaði, geti verið nægjanlegur til að takast á við viðkomandi samkeppnisvandamál með tilliti til:
     a.      hvort tæknilega og fjárhagslega raunhæft er að nota eða setja upp eigin aðstöðu í samkeppni með hliðsjón af markaðsþróun og eðli og gerð samtengingar eða aðgangs sem um ræðir, þ.m.t. hvort raunhæft er að notast við aðliggjandi aðgang, svo sem með aðgengi að stokkum,
     b.      væntanlegrar tækniþróunar sem hefur áhrif á kerfishönnun og -stjórnun,
     c.      þarfar á að tryggja tæknilegt hlutleysi til að gera aðilum kleift að hanna og stjórna sínum eigin netum,
     d.      hvort gerlegt er að veita þann aðgang sem í boði er, miðað við þá getu sem er fyrir hendi,
     e.      upphaflegrar fjárfestingar eiganda aðstöðunnar, að teknu tilliti til fjárfestinga sem opinberir aðilar hafa gert og áhættunnar sem fylgir fjárfestingunni, einkum að því er varðar fjárfestingar í og áhættu sem tengist háhraðanetum,
     f.      nauðsynjar þess að standa vörð um samkeppni þegar til lengri tíma er litið með sérstaka áherslu á efnahagslega skilvirka samkeppni sem byggir á grunnvirkjum og framsæknum viðskiptalíkönum sem styðja sjálfbæra samkeppni, eins og þeim sem byggja á sameiginlegri fjárfestingu í netum,
     g.      hvers kyns viðeigandi hugverkaréttinda, eftir því sem við á, og
     h.      framboðs samevrópskrar þjónustu.
    Áður en tekin er ákvörðun um beitingu þessarar greinar skal meta hvort kvaðir um aðgang að mannvirkjum skv. 47. gr. geti dugað sem hófleg leið til að stuðla að samkeppni og tryggja hagsmuni endanotenda.
    Þegar kvaðir eru lagðar á fyrirtæki um að veita aðgang í samræmi við þessa grein er heimilt að mæla fyrir um tæknileg eða rekstrarleg skilyrði sem veitandi og/eða notandi slíks aðgangs þarf að uppfylla ef það er nauðsynlegt til að tryggja að netið starfi eðlilega. Skuldbindingar um að fylgja tilteknum tæknistöðlum eða forskriftum skulu vera í samræmi við staðla og forskriftir sem mælt er fyrir um í samræmi við 24. gr.

49. gr.

Gagnsæi.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur lagt kvaðir um gagnsæi á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk, í tengslum við samtengingu eða aðgang, sem fela það í sér að fyrirtæki birti opinberlega tilteknar upplýsingar, svo sem bókhaldsupplýsingar, verð, tækniforskriftir, upplýsingar um eiginleika neta og væntanlega þróun þeirra, auk skilmála og skilyrða fyrir framboði og notkun, þ.m.t. skilyrði varðandi breytingar á aðgangi að eða notkun á þjónustu og hugbúnaði, m.a. að því er varðar flutning úr eldri fjarskiptanetum. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að tilgreina nákvæmlega hvaða upplýsingar skal gera aðgengilegar, hversu nákvæmar þær þurfi að vera og með hvaða hætti þær skuli birtar.
    Þegar fjarskiptafyrirtæki er gert að gæta jafnræðis getur Póst- og fjarskiptastofnun skyldað það til að gefa út viðmiðunartilboð sem skal vera nægilega sundurgreint til að tryggja að fyrirtæki séu ekki krafin um að greiða fyrir aðstöðu sem ekki er nauðsynleg fyrir þjónustuna sem óskað er eftir. Tilboðið skal innihalda lýsingu á framboði aðgangs og þjónustu, sundurliðuðu samkvæmt þörfum markaðarins, og tengdum skilmálum og skilyrðum, þ.m.t. verði. Póst- og fjarskiptastofnun getur mælt fyrir um breytingar á viðmiðunartilboðum.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja reglur sem kveða nánar á um innihald viðmiðunartilboða að teknu tilliti til viðmiðunarreglna Evrópsks hóps eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC) um lágmarksviðmiðanir fyrir viðmiðunartilboð.

50. gr.

Jafnræði.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur lagt þær kvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk að það gæti jafnræðis með tilliti til samtengingar eða aðgangs. Kvaðir um jafnræði skulu einkum tryggja að fyrirtæki beiti sambærilegum skilyrðum við sambærilegar aðstæður gagnvart öðrum veitendum sambærilegrar þjónustu og láti öðrum í té þjónustu og upplýsingar með sömu skilyrðum og af sömu gæðum og það veitir vegna eigin þjónustu eða þjónustu dótturfyrirtækja sinna eða samstarfsaðila. Kvaðir um jafnræði geta falið í sér skyldu fyrirtækis til að bjóða öllum fyrirtækjum vörur og þjónustu sem tengjast aðgangi, þ.m.t. sjálfu sér, með sömu tímamörkum, skilmálum og skilyrðum, þ.m.t. þeim sem tengjast verði og þjónustustigi, og í gegnum sömu kerfi og ferla til að tryggja jafnan aðgang.

51. gr.

Bókhaldslegur aðskilnaður.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk um bókhaldslegan aðskilnað milli starfsemi sem tengist samtengingu eða aðgangi og annarrar starfsemi þannig að hægt verði að skipta öllum tekjum og kostnaði niður á rekstrareiningar sem tengja má mismunandi þjónustu. Að auki getur stofnunin krafist þess af fyrirtæki sem rekur bæði fjarskiptanet og fjarskiptaþjónustu að heildsöluverð þess og verð innan fyrirtækisins sé gagnsætt, m.a. til að tryggja jafnræði og koma í veg fyrir óréttmætar niðurgreiðslur. Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið hvaða bókhaldsaðferðir skal nota.
    Til að tryggja gagnsæi og jafnræði getur Póst- og fjarskiptastofnun krafist þess að fá afhent bókhaldsgögn, þ.m.t. upplýsingar um tekjur frá þriðja aðila. Stofnuninni er heimilt að birta upplýsingar varðandi bókhald viðkomandi fyrirtækja ef það stuðlar að opnum og frjálsum samkeppnismarkaði, að teknu tilliti til reglna um leynd viðskiptaupplýsinga.

52. gr.

Eftirlit með gjaldskrá.

    Þegar markaðsgreining gefur til kynna að skortur á virkri samkeppni hafi í för með sér að fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk geti krafist of hárra gjalda eða að óeðlilega lítill munur sé á heildsölu- og smásöluverði getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki um kostnaðarviðmiðun gjaldskrár og kvaðir um kostnaðarbókhald á ákveðnum tegundum samtengingar eða aðgangs.
    Við ákvarðanir samkvæmt ákvæði þessu skal taka tillit til þarfarinnar á því að stuðla að samkeppni og þeim langtímahagsmunum endanotenda sem tengjast útbreiðslu nýrra háhraðaneta. Taka skal tillit til og hvetja til fjárfestinga. Gera skal ráð fyrir hæfilegri arðsemi af fjárfestingum að teknu tilliti til áhættu. Enn fremur skal taka mið af hagræði af fyrirsjáanlegu og stöðugu heildsöluverði.
    Taka skal til athugunar hvort hægt er að sleppa kvöðum samkvæmt ákvæði þessu ef samkeppnisþrýstingur er þegar til staðar varðandi smásöluverð og að kvaðir um gagnsæi, jafnræði, bókhaldslegan aðskilnað og aðgang tryggi skilvirkan aðgang án mismununar.
    Aðferðir við endurheimt kostnaðar eða aðferðafræði við verðlagningu skulu stuðla að útbreiðslu nýrra og öflugri neta, skilvirkni og sjálfbærri samkeppni og vera til sem mestra hagsbóta fyrir endanotendur. Í þessu tilliti er heimilt að taka tillit til þess verðs sem er í boði á sambærilegum samkeppnismörkuðum.
    Sönnunarbyrði fyrir því að gjöld séu byggð á raunverulegum kostnaði, þ.m.t. sanngjörnum hagnaðarhlut af fjárfestingu, hvílir á hlutaðeigandi fyrirtæki. Stofnunin getur krafið fyrirtæki um fullan rökstuðning fyrir verði sínu og krafist þess að verðið sé leiðrétt þegar það á við. Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að fjarskiptafyrirtæki geri kostnaðarlíkan til útreiknings á verði. Póst- og fjarskiptastofnun getur við útreikninga á kostnaði tekið mið af rekstri sambærilegrar þjónustu sem telst hagkvæmt rekin og notað kostnaðargreiningaraðferðir sem eru óháðar aðferðum fjarskiptafyrirtækisins.
    Ef kvöð felur í sér gerð kostnaðarbókhaldskerfis skal tryggja opinn aðgang að lýsingu á kostnaðarbókhaldskerfinu þar sem fram koma a.m.k. helstu flokkar kostnaðar og reglur sem notaðar eru við skiptingu kostnaðar. Óháður þar til bær aðili skal sannreyna að farið sé að reglum um kostnaðarbókhaldskerfið og árlega skal birta yfirlýsingu um hvort farið er eftir reglunum.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um útfærslu bókhaldslegs aðskilnaðar í rekstri fjarskiptafyrirtækja skv. 51. gr., þ.m.t. skiptingu eftir netum og þjónustu, og um nánara fyrirkomulag kostnaðargreiningar samkvæmt þessari grein, m.a. um aðferðir við eignamat, afskriftir, ávöxtunarkröfu og gerð kostnaðarlíkana.

53. gr.

Verð fyrir lúkningu símtala.

    Fjarskiptafyrirtæki sem veita lúkningu símtala skulu ekki taka hærra gjald fyrir en nemur hámarksverði fyrir lúkningu sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Ráðherra setur reglugerð um hámarksverð fyrir lúkningu símtala þar sem m.a. er heimilt að kveða á um:
     a.      hámarksverð í heildsölu fyrir lúkningu símtala í farnetum,
     b.      hámarksverð í heildsölu fyrir lúkningu símtala í fastanetum,
     c.      viðmiðunargengi og uppgjörsaðferðir sem fjarskiptafyrirtækjum er skylt að nota við myntbreytingar vegna reikiþjónustu í farnetum.
    Ef ekkert hámarksverð er í gildi á Evrópska efnahagssvæðinu þá er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að gera markaðsgreiningu á mörkuðum fyrir lúkningu símtala til að meta hvort nauðsynlegt sé að leggja á kvaðir.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að farið sé að ákvæðum um hámarksverð og getur krafist þessi að fjarskiptafyrirtæki breyti verði ef verð þeirra er hærra en hámarksverð.

54. gr.

Hámarksverð fyrir reikisímtöl í farnetum og millilandafjarskipti.

    Fjarskiptafyrirtæki sem veita reikiþjónustu hér á landi skulu sjá til þess að heild- og smásöluverð fyrir reikiþjónustu í farneti, sem á sér upphaf eða lýkur innan Evrópska efnahagssvæðisins, sé ekki hærra en hámarksverð sem þar gildir.
    Ráðherra setur reglugerð um reikiþjónustu í almennum farnetum þar sem m.a. er heimilt að kveða á um eftirfarandi:
     a.      hámarksverð í heildsölu fyrir reikisímtöl í farnetum,
     b.      hámarksverð í smásölu fyrir reikisímtöl í farnetum,
     c.      hámarksverð í heild- og smásölu fyrir SMS-þjónustu, MMS-þjónustu og aðra gagnaflutningsþjónustu í farnetum,
     d.      Evrópugjaldskrá,
     e.      gagnsæi smásölu- og Evrópugjaldskrár,
     f.      viðmiðunargengi og uppgjörsaðferðir sem fjarskiptafyrirtækjum er skylt að nota við myntbreytingar vegna reikiþjónustu í farnetum,
     g.      skyldur fjarskiptafyrirtækja til þess að verða við óskum reikiviðskiptavina um skipti milli reikigjaldskráa,
     h.      upplýsingaskyldu fjarskiptafyrirtækja um viðeigandi reikigjöld,
     i.      reglur um tímamælingar og gjaldfærslur reikisímtala,
     j.      gjaldtöku fyrir móttöku talhólfsskilaboða í reikiþjónustu,
     k.      skyldu fjarskiptafyrirtækja til að veita reikiviðskiptavinum sínum persónubundnar upplýsingar um verð og annað tengt gagnaflutningsþjónustu í reiki, og
     l.      skyldu fjarskiptafyrirtækja til að gera reikiviðskiptavinum sínum kleift að fylgjast með gagnaflutningsnotkun sinni á grundvelli verðs og magns og veita þeim kost á að velja efstu mörk fyrir slíka þjónustu yfir ákveðið tímabil.
    Fjarskiptafyrirtæki sem veita fjarskiptaþjónusta milli einstaklinga sem er tengd númerum, hvort sem fjarskiptin eiga sér stað um fastlínunet eða farnet, skulu ekki taka hærra smásöluverð fyrir slík magnmæld fjarskipti milli landa en það hámarksverð sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Ráðherra setur reglugerð um hámarksverð fyrir fjarskipti sem tilgreind eru í 3. mgr. þar sem m.a. er heimilt að kveða á um:
     a.      hámarksmínútuverð í smásölu,
     b.      hámarksverð fyrir SMS í smásölu,
     c.      val neytenda á áskriftaleiðum,
     d.      viðmiðunargengi og uppgjörsaðferðir sem fjarskiptafyrirtækjum er skylt að nota við myntbreytingar, og
     e.      undanþágur og skilyrði fyrir þeim.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa eftirlit með framfylgni við ákvæði um hámarksverð og getur krafist þess að fjarskiptafyrirtæki breyti verði ef verðlagning þeirra er hærri en sem nemur hámarksverði.

55. gr.

Ný háhraðanet.

    Fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk geta boðið fram skuldbindingu um sameiginlega fjárfestingu í uppbyggingu nýrra háhraðaneta. Skuldbinding skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:
     a.      Nýtt háhraðanet skal vera opið öllum fyrirtækjum sem bjóða fjarskiptanet eða -þjónustu hvenær sem er á meðan netið er starfrækt,
     b.      skuldbinding skal gera öðrum meðfjárfestum kleift að keppa með skilvirkum og sjálfbærum hætti til langs tíma á fráliggjandi mörkuðum þar sem fyrirtækið sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk er virkt og
     c.      umsækjendum um aðgang sem taka ekki þátt í sameiginlegu fjárfestingunni skal gefast kostur á aðgangi með viðunandi hætti.
    Ef Póst- og fjarskiptastofnun kemst að þeirri niðurstöðu, að undangenginni málsmeðferð skv. 58. gr., að skuldbinding uppfylli skilyrði 1. mgr. og a.m.k. einn meðfjárfestir hefur gert samning við viðkomandi fyrirtæki, skal gera skuldbindinguna bindandi og ekki leggja á neinar viðbótarkvaðir í samræmi við 46. gr. varðandi þá hluta háhraðaneta sem skuldbindingin nær til.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt, í rökstuddum tilvikum, að leggja á, viðhalda eða aðlaga kvaðir í samræmi við 46.–52. gr. að því er varðar ný háhraðanet til þess að takast á við veruleg samkeppnisvandamál á tilteknum mörkuðum þar sem staðfest er að vegna sértækra eiginleika þessara markaða sé ekki hægt að takast á við þessi samkeppnisvandamál með öðrum hætti.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal fylgjast með því að farið sé að skilyrðunum sem sett eru fram í 1. mgr. með viðvarandi hætti og getur krafist þess að viðkomandi fyrirtæki leggi í té árlegar yfirlýsingar varðandi reglufylgni. Póst- og fjarskiptastofnun getur skorið úr ágreiningi sem kemur upp á milli aðila samnings um sameiginlega fjárfestingu.
    Ráðherra setur reglugerð þar sem nánar er kveðið á um skilyrði varðandi skuldbindingar og málsmeðferð samkvæmt ákvæði þessu, þar á meðal ný skilyrði.

56. gr.

Aðskilin starfsemi.

    Ef Póst- og fjarskiptastofnun kemst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi tekist að tryggja virka samkeppni með álagningu kvaða skv. 47.–52. gr., og að fyrir hendi séu mikil og viðvarandi samkeppnisvandamál eða markaðsbrestir í tengslum við heildsöluframboð aðgangs á tilteknum mörkuðum, þá getur stofnunin í undantekningartilvikum, í samræmi við 4. mgr. 46. gr., lagt þá kvöð á lóðrétt samþætt fyrirtæki að setja starfsemi sem tengist framboði viðeigandi aðgangsneta í heildsölu undir sjálfstætt starfandi rekstrareiningu.
    Aðskilin rekstrareining skv. 1. mgr. skal afhenda öllum fyrirtækjum, þ.m.t. öðrum rekstrareiningum innan samstæðunnar, vörur og þjónustu í tengslum við aðgang með sömu tímamörkum, skilmálum og skilyrðum, að meðtöldum þeim sem varða verðlagningu og þjónustustig, og um sömu kerfi og ferli.
    Ef Póst- og fjarskiptastofnun áformar að leggja á markaðsaðila kvöð varðandi aðskilda starfsemi skal fyrirhuguð ákvörðun borin undir Eftirlitsstofnun EFTA. Með slíku erindi skal leggja fram:
     a.      gögn sem renna stoðum undir niðurstöður eins og um getur í 1. mgr.,
     b.      rökstutt mat sem bendir til engrar eða lítillar virkrar og varanlegrar samkeppni í grunnvirkjum innan hæfilegs frests,
     c.      greiningu á væntanlegum áhrifum ákvörðunar á hagsmunaaðila og markaðinn, og
     d.      greiningu á ástæðum þess að þessi ráðstöfun væri skilvirkust til að ráða bót á þeim samkeppnisvandamálum eða markaðsbrestum sem komið hafa í ljós.
    Í drögum að ákvörðun skulu koma fram eftirfarandi þættir:
     a.      nákvæmar upplýsingar um eðli og umfang aðgreiningar þar sem einkum er tilgreind réttarstaða rekstrareiningarinnar,
     b.      lýsing á eignum aðskildu rekstrareiningarinnar og vörum eða þjónustu sem sú eining mun veita,
     c.      fyrirkomulag stjórnunarhátta í því skyni að tryggja sjálfstæði starfsfólks sem ráðið er af aðskildu rekstrareiningunni og samsvarandi hvatakerfi,
     d.      reglur til að tryggja að farið sé að skuldbindingunum,
     e.      reglur til að tryggja gagnsæjar verklagsreglur, einkum gagnvart öðrum hagsmunaaðilum, og
     f.      vöktunaráætlun til að tryggja að farið sé að kröfum, þ.m.t. útgáfa ársskýrslu.
    Ef Eftirlitsstofnun EFTA samþykkir áform um aðskilnað skal Póst- og fjarskiptastofnun framkvæma greiningu á mörkuðum sem tengjast viðkomandi aðgangsneti. Á grundvelli greiningarinnar skal leggja á, viðhalda, breyta eða afturkalla kvaðir á viðkomandi markaði. Á fyrirtæki sem gert hefur verið að aðskilja þætti í starfsemi sinni samkvæmt ákvæði þessu er heimilt að leggja kvaðir skv. 46.–52. gr. ef það hefur umtalsverðan markaðsstyrk á tilteknum markaði.

57. gr.

Aðgreining lóðrétt samþætts fyrirtækis að eigin frumkvæði.

    Fjarskiptafyrirtæki sem hefur verið útnefnt með umtalsverðan markaðsstyrk á einum eða fleiri mikilvægum mörkuðum skal upplýsa Póst- og fjarskiptastofnun með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara ef það hyggst yfirfæra aðgangsnet sín eða umtalsverðan hluta þeirra til aðskilins lögaðila í annarri eigu eða stofna sérstaka rekstrareiningu í því skyni að veita öllum smásölubirgjum, þ.m.t. eigin smásöludeildum, fullkomlega jafngildan aðgang. Fyrirtæki skulu einnig upplýsa stofnunina um hvers konar breytingu sem verður á þeirri fyrirætlun ásamt lokaniðurstöðu aðskilnaðarferlisins.
    Fjarskiptafyrirtæki geta einnig boðið skuldbindingar að því er varðar aðgangsskilyrði sem gilda um net þeirra, eftir að aðskilnaðurinn kemur til framkvæmda, með það fyrir augum að tryggja skilvirkan aðgang án mismununar fyrir þriðju aðila. Boð um skuldbindingu skal innihalda nægilegar upplýsingar, þ.m.t. varðandi tímasetningu og tímalengd.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal meta áhrifin af fyrirhugaðri aðgreiningu ásamt skuldbindingunum sem boðnar eru, eftir atvikum, á þær kvaðir sem kunna að gilda á viðkomandi markaði. Í þeim tilgangi skal gera greiningu á þeim mörkuðum sem tengjast viðkomandi aðgangsneti.
    Á grundvelli mats síns skal Póst- og fjarskiptastofnun leggja á, viðhalda, breyta eða afturkalla kvaðir á viðkomandi markaði og beita 59. gr. ef við á. Stofnunin getur ákveðið að gera skuldbindingarnar skv. 2. mgr. bindandi í heild sinni eða að hluta.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal fylgjast með framkvæmd þeirra skuldbindinga sem gerðar eru bindandi og skal taka til athugunar framlengingu þeirra þegar tímabilið sem þær eru upphaflega boðnar á er runnið út.

58. gr.

Skuldbindingarferli.

    Fjarskiptafyrirtæki sem teljast hafa umtalsverðan markaðsstyrk geta boðið Póst- og fjarskiptastofnun skuldbindingar varðandi aðgangsskilyrði, sameiginlega fjárfestingu, eða bæði, sem gildir um net þeirra að því er varðar m.a.:
     a.      samvinnufyrirkomulag sem varðar mat á viðeigandi og hóflegum skuldbindingum skv. 46. gr.,
     b.      sameiginlega fjárfestingu í háhraðanetum skv. 55. gr., eða
     c.      skilvirkan aðgang þriðju aðila án mismununar skv. 57. gr.
    Boð um skuldbindingar skal vera nægilega ítarlegt og taka til tímasetningar, gildissviðs þeirra og tímalengdar.
    Til að meta skuldbindingar sem fyrirtæki býður skv. 1. mgr. skal Póst- og fjarskiptastofnun framkvæma markaðsprófun, einkum á skilmálunum sem í boði eru, með því að standa fyrir opnu samráði við hagsmunaaðila, einkum við þriðju aðila sem verða fyrir beinum áhrifum. Þetta á þó ekki við í tilvikum þar sem skuldbindingar sem fyrirtæki býður skv. 1. mgr. uppfylla greinilega ekki eitt eða fleiri nauðsynleg skilyrði eða viðmiðanir.
    Að teknu tilliti til allra þeirra skoðana sem fram koma í samráðsferlinu skal Póst- og fjarskiptastofnun tilkynna fyrirtækinu sem telst hafa umtalsverðan markaðsstyrk bráðabirgðaniðurstöður sínar um það hvort skuldbindingarnar sem boðnar eru uppfylli markmiðin, viðmiðanirnar og málsmeðferðarreglurnar sem settar eru fram í ákvæði þessu og, eftir því sem við á, í 46., 55. eða 57. gr., og við hvaða skilyrði það kann að íhuga að gera skuldbindingarnar bindandi. Fyrirtækið getur endurskoðað upphaflegt boð sitt svo það taki til greina bráðabirgðaniðurstöður Póst- og fjarskiptastofnunar og með það fyrir augum að uppfylla viðmiðanir.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur birt ákvörðun um að gera skuldbindingar bindandi samkvæmt ákvæði þessu í heild sinni eða að hluta. Í slíkri ákvörðun getur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið gildistíma bindandi skuldbindinga.
    Þegar Póst- og fjarskiptastofnun hefur gert skuldbindingar bindandi samkvæmt ákvæði þessu skal stofnunin meta afleiðingarnar af þeirri ákvörðun á markaðsþróun og hvaða kvaðir er viðeigandi að leggja á eða viðhalda á viðkomandi markaði.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa eftirlit með og tryggja að farið sé að skuldbindingum sem það hefur gert bindandi. Taka skal til athugunar að framlengja tímabilið sem skuldbindingar hafa verið gerðar bindandi þegar upphaflega tímabilinu lýkur.

59. gr.

Heildsölufyrirtæki.

    Ef Póst- og fjarskiptastofnun útnefnir fjarskiptafyrirtæki sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk og það starfar ekki á neinum smásölumarkaði fjarskiptaþjónustu skal stofnunin taka til athugunar hvort fyrirtækið hafi eftirfarandi einkenni:
     a.      öll fyrirtæki og rekstrareiningar innan fyrirtækisins, öll fyrirtæki sem eru undir stjórn en ekki nauðsynlega að öllu leyti í eigu sama endanlega eiganda, og hluthafar sem geta beitt stjórnunarvaldi yfir fyrirtækinu, hafi aðeins starfsemi, nú og fyrirhugaða í framtíðinni, á heildsölumörkuðum fyrir fjarskiptaþjónustu og hafi því ekki starfsemi á smásölumörkuðum fyrir fjarskiptaþjónustu sem veitt er endanotendum, og
     b.      fyrirtækið er ekki bundið til að stunda viðskipti við eitt aðskilið fyrirtæki sem starfar á fráliggjandi markaði sem er virkt á smásölumarkaði fyrir fjarskiptaþjónustu sem veitt er endanotendum, vegna einkaréttarsamnings eða samnings sem í reynd jafngildir einkaréttarsamningi.
    Komist Póst- og fjarskiptastofnun að þeirri niðurstöðu að skilyrðin sem mælt er fyrir um í 1. mgr. séu uppfyllt getur stofnunin aðeins lagt á fyrirtækið kvaðir skv. 48. og 50. gr. og um réttláta og sanngjarna verðlagningu ef það er talið réttlætanlegt á grundvelli markaðsgreiningar.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal endurskoða kvaðir sem lagðar eru á fyrirtæki í samræmi við ákvæði þetta hvenær sem er ef það kemst að þeirri niðurstöðu að skilyrðin sem mælt er fyrir um í 1. mgr. séu ekki lengur uppfyllt. Viðkomandi fyrirtækin skulu, án ástæðulausrar tafar, tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um allar breytingar á aðstæðum sem tengjast skilyrðum skv. 1. mgr.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal einnig endurskoða skyldur sem lagðar eru á fyrirtæki í samræmi við ákvæði þetta ef stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu, á grundvelli upplýsinga um skilmála og skilyrði sem fyrirtækið býður viðskiptavinum sínum á fráliggjandi mörkuðum, að samkeppnisvandamál séu til staðar eða séu líkleg til að koma upp og skaða endanotendur og þörf geti verið á að leggja á kvaðir um gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað, aðgang að mannvirkjum eða eftirlit með gjaldskrá eða að gera breytingar á kvöðum sem lagðar hafa verið á í samræmi við 2. mgr.

60. gr.

Flutningur úr eldri fjarskiptanetum.

    Fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk skal tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun fyrir fram og tímanlega um það þegar fyrirhugað er að leggja niður eða skipta út hluta nets sem fellur undir kvaðir sem lagðar hafa verið á fyrirtækið samkvæmt ákvæðum þessara laga.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að ferlið við niðurlagningu eða útskipti hafi skýra tímaáætlun og skilyrði, þ.m.t. að tilkynnt sé um framkvæmdina með hæfilegum fyrirvara og ef nauðsyn krefur, til að vernda samkeppni og réttindi endanotenda, að séð sé til þess að aðrir kostir verði tiltækir, a.m.k. af sambærilegum gæðum, sem veita aðgang að nýja netinu.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur afturkallað kvaðir sem gilda varðandi netið sem leggja á niður eða skipta út þegar gengið hefur verið úr skugga um að aðgangsveitandinn:
     a.      hafi komið á viðeigandi skilyrðum fyrir flutningnum, þ.m.t. að annar aðgangskostur sé tiltækur af a.m.k. sambærilegum gæðum og voru tiltæk í gegnum eldra netið sem gerir umsækjendum um aðgang kleift að ná til sömu endanotenda, og
     b.      hafi fylgt skilyrðunum og ferlinu sem tilkynnt var í samræmi við þessa grein.
    Slík afturköllun skal samþykkt í samræmi við málsmeðferðarreglurnar sem um getur í 6. og 7. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

61. gr.

Eftirlit með smásöluþjónustu.

    Ef Póst- og fjarskiptastofnun kemst að þeirri niðurstöðu, í kjölfar markaðsgreiningar, að á tilteknum smásölumarkaði ríki ekki virk samkeppni og að kvaðir á heildsölustigi muni ekki leiða til þess að markmið laganna náist getur stofnunin lagt viðeigandi kvaðir á fyrirtæki sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumarkaðnum.
    Kvaðir sem lagðar eru á skv. 1. mgr. skulu byggðar á eðli vandamálsins sem greint hefur verið og vera hóflegar og málefnalegar í ljósi markmiða laganna. Kvaðirnar geta innihaldið kröfur um að fyrirtæki innheimti ekki óhófleg gjöld, hindri ekki markaðsaðgang eða takmarki samkeppni með undirverðlagningu, veiti tilteknum endanotendum ekki ótilhlýðilegan forgang eða setji saman óeðlilega þjónustupakka. Enn fremur er heimilt að kveða á um verðþak á smásöluverð, ráðstafanir til að stjórna einstökum gjaldskrám, eða ráðstafanir til að beina gjaldskrám í átt að kostnaðarverði eða verði á sambærilegum mörkuðum.
    Fyrirtæki sem háð eru eftirliti með smásölugjaldskrá, eða öðru viðeigandi eftirliti með smásölu, skulu nota nauðsynleg og viðeigandi kostnaðarbókhaldskerfi. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að tilgreina þá framsetningu og aðferðafræði sem nota skal við bókhaldið. Óháður þar til bær aðili skal staðfesta að farið sé að reglum kostnaðarbókhaldskerfisins. Póst- og fjarskiptastofnun skal sjá til þess að árlega sé birt yfirlýsing um það hvort reglum kerfisins sé fylgt.

X. KAFLI

Alþjónusta.

62. gr.

Réttur til alþjónustu á viðráðanlegu verði.

    Neytendum skal á viðráðanlegu verði tryggður aðgangur að gagnaflutningsþjónustu sem tryggir nothæfa internetþjónustu og símaþjónustu með tilgreindum gæðum, þ.m.t. tenging sem liggur að baki, á lögheimili eða aðsetri samkvæmt skráningu hjá Þjóðskrá Íslands.
    Þjónustutegundir innan alþjónustu eru ekki bundnar tiltekinni tækni.
    Neytandi getur óskað eftir að tenging skv. 1. mgr. verði takmörkuð við stuðning við símaþjónustu.
    Réttur til alþjónustu skv. 1. mgr. er ekki fortakslaus og getur verið háður takmörkunum vegna kostnaðar, landfræðilegra aðstæðna eða annars óhagræðis. Ágreiningur um synjun þjónustu skal borinn undir Póst- og fjarskiptastofnun til ákvörðunar.
    Réttur til alþjónustu á viðráðanlegu verði samkvæmt lögum þessum skal einnig ná til örfélaga í skilningi ársreikningalaga.
    Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um þá þjónustu og aðgerðir sem neytendum skal standa til boða í gegnum viðkomandi tengingu.

63. gr.

Eftirlit með gjaldskrá innan alþjónustu og aðgengi að alþjónustu.

    Upplýsingar um verð og viðskiptaskilmála vegna veitingar alþjónustu skulu birtar opinberlega, m.a. á vef fjarskiptafyrirtækis. Póst- og fjarskiptastofnun skal fylgjast með þróun og verðlagi alþjónustu skv. 62. gr. í smásölu, einkum með tilliti til landsbundins verðlags og tekna neytenda.
    Ef það er mat Póst- og fjarskiptastofnunar að smásöluverð fyrir alþjónustu skv. 62. gr. sé ekki viðráðanlegt fyrir tekjulága eða neytendur með sérstakar félagslegar þarfir eru útilokaðir frá aðgangi að þjónustunni getur stofnunin ákveðið að fjarskiptafyrirtæki sem veita alþjónustu bjóði upp á sérstaka gjaldskrá fyrir þessa tilteknu hópa eða grípi til annarra þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru til að aðgengi að alþjónustu sé tryggt.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um skilyrði og útfærslu ráðstafana samkvæmt ákvæði þessu.

64. gr.

Aðgengi að alþjónustu.

    Ef markaðskönnun og viðbótarsannanir, ef þörf krefur, leiða í ljós að neytendur hafi ekki, vegna viðskiptasjónarmiða fjarskiptafyrirtækja, aðgang að alþjónustu eins og hún er skilgreind á hverjum tíma getur Póst- og fjarskiptastofnun útnefnt fjarskiptafyrirtæki, eitt eða fleiri, með alþjónustuskyldur til að öllum landsmönnum sé tryggð fullnægjandi alþjónusta skv. 62. gr. Við útnefningu samkvæmt ákvæði þessu skal gæta jafnræðis, hlutleysis og gagnsæis. Kveða má á um skyldu til að veita þjónustu á ákveðnum svæðum eða eftir þjónustutegundum.
    Við útnefningu skal jafnframt leitast við að lágmarka markaðsröskun, einkum veitingu þjónustu á verði eða með fyrirvara um aðra skilmála og skilyrði sem víkja frá eðlilegum viðskiptakjörum, en standa jafnframt vörð um almannahagsmuni.
    Tilkynna ber Póst- og fjarskiptastofnun um fyrirhugaða sölu staðaraðgangsnets, eða umtalsverðs hluta þess, af hálfu fjarskiptafyrirtækis sem útnefnt hefur verið til veitingar alþjónustu samkvæmt ákvæði þessu með nægum fyrirvara, enda kunna breyttar aðstæður að kalla á endurmat ráðstafana stofnunarinnar.
    Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði og útfærslu ráðstafana samkvæmt ákvæði þessu.

65. gr.

Kostnaður við alþjónustu.

    Ef fjarskiptafyrirtæki telur að alþjónusta sem því er gert skylt að veita, sbr. 1. mgr. 64. gr., sé rekin með tapi og því ósanngjörn byrði á fyrirtækinu getur það sótt um til Póst- og fjarskiptastofnunar að því verði með fjárframlögum tryggt eðlilegt endurgjald fyrir þá starfsemi sem um ræðir.
    Við útreikninga á hreinum kostnaði í tengslum við alþjónustuskyldu skal m.a. taka mið af öllum markaðsávinningi þess þjónustuveitanda sem veitir gagnaflutningsþjónustu sem tryggir nothæfa internetþjónustu eða símaþjónustu af tilteknum gæðum.
    Ef Póst- og fjarskiptastofnun berst beiðni um fjárframlög skv. 1. mgr., og ekki verður talið að þjónustan verði tryggð með öðrum hagkvæmari hætti en jafnframt talið að þjónustan sé óhjákvæmileg og verði ekki aflögð, þá skal stofnunin ákvarða kostnað vegna alþjónustukvaða.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal krefjast þess að alþjónustuveitandi upplýsi nákvæmlega hvert rekstrartapið af starfseminni er og hvernig það sundurliðast.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur við mat á fjárframlögum krafist skýrslna löggiltra endurskoðenda eða falið slíkum aðila að gera úttekt á rekstrarafkomu á viðkomandi rekstrarsviði. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að krefjast aðgangs að bókhaldi fjarskiptafyrirtækisins við mat á kostnaði við alþjónustu.
    Fjárframlög skulu að jafnaði miðuð við eitt ár í senn. Nú telur annar hvor aðila að forsendur fyrir ákvörðun fjárframlaga hafi breyst verulega og getur hvor um sig þá krafist endurskoðunar á framlaginu á gildistíma þess.
    Ef hluti af starfsemi fjarskiptafyrirtækis er háður fjárframlögum samkvæmt ákvæði þessu þá skal sá þáttur starfseminnar vera bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi fjarskiptafyrirtækisins. Ef slíkur aðskilnaður er ekki fyrir hendi skal Póst- og fjarskiptastofnun hafna umsókn fjarskiptafyrirtækis um fjárframlag.
    Ráðherra getur í reglugerð kveða nánar á um útreikninga á kostnaði við alþjónustu samkvæmt aðferðafræði um hreinan kostnað.

66. gr.

Fjármögnun alþjónustu.

    Til að standa straum af greiðslu fjárframlaga samkvæmt þessum kafla skal innheimta jöfnunargjald sem rennur í ríkissjóð.
    Skal jöfnunargjaldið lagt á fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja fjarskiptanet eða þjónustu í hlutfalli við bókfærða veltu þessarar starfsemi. Með bókfærðri veltu er átt við rekstrartekjur sem fjarskiptafyrirtæki hefur af umræddri starfsemi hér á landi.
    Jöfnunargjald skal ákveðið með lögum. Skal fjárþörf vegna alþjónustu endurskoðuð árlega af Póst- og fjarskiptastofnun og niðurstaða þeirrar endurskoðunar ásamt tillögu um breytt gjaldhlutfall, ef þörf þykir, lögð fyrir ráðherra. Verði útgjöld hærri en nemur jöfnunargjöldum á árinu skal gjaldfæra þann mismun á skuldbindingar næsta árs. Verði fjárhæð jöfnunargjalda hærri en nemur útgjöldum á gjaldárinu skal afgangur fluttur til næsta árs.
    Jöfnunargjald má draga frá tekjum á því rekstrarári þegar stofn þess myndaðist.
    Jöfnunargjald skal ekki leggja á fjarskiptafyrirtæki sem eru með bókfærða ársveltu undir 30.000.000 kr.
    Um álagningu og innheimtu jöfnunargjalds, þ.m.t. fyrirframgreiðslu, fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, en um viðurlög fer skv. XII. kafla þeirra laga.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal árlega birta upplýsingar um útreikning kostnaðar vegna alþjónustukvaða og sundurliðaðan lista yfir einstakar greiðslur fyrirtækja á jöfnunargjaldi.

XI. KAFLI

Skilmálar, gjaldskrár, gæði og neytendavernd.

67. gr.

Undanþága frá gildissviði og upplýsingaskylda.

    Ákvæði 69.–77. gr. skulu ekki gilda um fyrirtæki sem veita fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er ótengd númerum og teljast örfélög í skilningi laga um ársreikninga, nema þau veiti einnig aðra fjarskiptaþjónustu.
    Fyrirtæki sem ákvæði 69.–77. gr. gilda ekki um skv. 1. mgr. skulu upplýsa endanotendur um að undanþága eigi við með sannanlegum hætti áður en gengið er til samninga um þjónustu.

68. gr.

Jafnræði.

    Fjarskiptafyrirtæki er óheimilt að gera ólíkar kröfur eða setja ólík skilyrði fyrir aðgangi að eða notkun á netum eða þjónustu fyrir endanotendur af ástæðum sem tengjast þjóðerni, búsetu eða staðfestu þeirra, nema slík meðferð sé rökstudd á hlutlægan hátt.

69. gr.

Upplýsingakröfur vegna samninga.

    Áður en neytandi er bundinn af samningi eða tilboði skal fyrirtæki sem býður fjarskiptaþjónustu veita á skýran og sannanlegan hátt eftirtaldar upplýsingar sem skulu vera óaðskiljanlegur hluti samnings:
     a.      Upplýsingar í samræmi við ákvæði II. og III. kafla laga um neytendasamninga, nr. 16/2016, og
     b.      samantekt yfir meginefni samnings skv. 2. mgr.
    Í samantekt yfir meginefni samnings um fjarskiptaþjónustu skal að minnsta kosti greina eftirtaldar upplýsingar:
     a.      Nafn, heimilisfang og tengiliðaupplýsingar þjónustuveitanda,
     b.      megineinkenni þjónustu sem veitt skal, svo sem gæðastig og tímann sem upphafleg tenging mun taka,
     c.      verð fyrir að virkja þjónustu og áskriftar- eða notkunartengd gjöld, þar sem þjónusta er veitt gegn beinni greiðslu,
     d.      gildistíma samnings og skilyrði fyrir endurnýjun og uppsögn,
     e.      að hvaða marki vörur og/eða þjónusta er hönnuð fyrir endanotendur með fötlun, og
     f.      hvernig hefja megi mál til lausnar á deilum neytanda og fjarskiptafyrirtækis.
    Ákvæði 1.–2. mgr. gilda ekki um flutningsþjónustu sem notuð er til að veita þjónustu tækis í tæki.
    Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um upplýsingakröfur vegna samninga, meðal annars um megineinkenni þjónustu og um sniðmát samantektar yfir meginefni samnings. Heimilt er að gera greinarmun á kröfum um upplýsingaskyldu eftir eðli fjarskiptaþjónustu sem samningur lýtur að, svo sem netaðgangsþjónustu. Í reglugerð má kveða nánar á um hvernig upplýsingum skal miðlað samkvæmt ákvæði þessu þannig að þær teljist uppfylla kröfur 1. mgr. um veitingu á skýran og sannanlegan hátt, t.d. í tilviki endanotenda með fötlun.

70. gr.

Gæði þjónustu og samanburður.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal sjá til þess að starfrækt sé samanburðarþjónusta sem gerir endanotendum, sér að kostnaðarlausu, kleift að bera saman og meta mismunandi netaðgangsþjónustu, fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er tengd númerum og, eftir atvikum, fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er ótengd númerum að því er varðar:
     a.      verð og gjaldskrár fyrir veitta þjónustu og áskriftar- eða notkunartengd gjöld, og
     b.      gæði þjónustunnar, þar sem boðið er upp á lágmarksþjónustugæði.
    Samanburðarþjónustan skal vera sjálfstæð og óháð þeim fyrirtækjum sem kunna að selja fjarskiptaþjónustu.
    Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um gæði fjarskiptaþjónustu og framsetningu upplýsinga sem birtar skulu svo að endanotendur hafi aðgang að ítarlegum, samanburðarhæfum og auðskiljanlegum upplýsingum.

71. gr.

Nethlutleysi.

    Fjarskiptafyrirtæki skulu viðhafa ráðstafanir til að stuðla að bættri vernd, virkni og gæðum IP-fjarskiptaþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja reglur um slíkar ráðstafanir þar sem nánar er mælt fyrir um:
     a.      lágmarksgrunnþjónustu og mismunandi þjónustustig,
     b.      tæknileg skilyrði þjónustunnar og lágmarksgæði hennar,
     c.      kröfur um upplýsingagjöf af hálfu fjarskiptafyrirtækja, mæliaðferðir og prófanir á gæðum þjónustu,
     d.      ákvæði í þjónustusamningum,
     e.      leiðir er auðvelda mat á gæðum þjónustunnar og verðsamanburð,
     f.      viðeigandi ráðstafanir í tölvupóstþjónustu og annarri IP-fjarskiptaþjónustu,
     g.      vernd og stjórnun IP-fjarskiptaneta og IP-umferðar,
     h.      vernd notendatenginga, og
     i.      ferli við meðhöndlun öryggisatvika og umbætur.
    Notendur skulu eiga rétt á því að fá aðgang að upplýsingum og efni, miðla því, nota og bjóða fram þjónustu, með því að nota búnað að eigin vali, óháð staðsetningu sinni eða fjarskiptafyrirtækis eða uppruna eða áfangastað upplýsinganna, efnisins og þjónustunnar sem fer um netaðganginn. Ákvæði 1. málsl. gildir þó ekki um notkun eða aðgang að efni eða þjónustu sem brýtur gegn öðrum lögum eða dómi.
    Fjarskiptafyrirtæki sem veitir netaðgangsþjónustu skal meðhöndla alla fjarskiptaumferð jafnt, án mismununar, takmarkana eða truflunar og óháð sendanda eða móttakanda, því efni sem sótt er eða miðlað, þeirri þjónustu sem notuð er eða boðin fram og þeim búnaði sem er notaður.
    Þrátt fyrir 3. mgr. er fjarskiptafyrirtæki heimilt að beita umferðarstýringu á netumferð ef stýringin er nauðsynleg, gagnsæ, hófleg og án mismununar.
    Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd nethlutleysis, m.a. um eftirfarandi:
     a.      leyfilegan tilgang umferðarstýringar,
     b.      skilyrði fyrir beitingu umferðarstýringar,
     c.      skilyrði fyrir framboði á sérþjónustu sem styðst við ákveðna nethögun,
     d.      vernd persónuupplýsinga við beitingu umferðarstýringar,
     e.      upplýsingagjöf fjarskiptafyrirtækja til notenda í viðskiptaskilmálum, og
     f.      upplýsingagjöf fjarskiptafyrirtækja til Póst- og fjarskiptastofnunar og eftirlitsúrræði hennar, m.a. um úttektir á framkvæmd nethlutleysis.

72. gr.

Gildistími, uppsögn og breytingar á samningum.

    Óheimilt er í samningi að kveða á um lengri binditíma neytenda en tólf mánuði. Eftir þann tíma er neytanda heimilt að segja upp samningi með eins mánaðar fyrirvara. Ákvæði 1. málsl. á þó ekki við um samninga sem neytandi gerir um uppsetningu á fjarskiptatengingu, einkum að því er tengingu við háhraðanet varðar.
    Endanotendur skulu eiga rétt á því að segja samningum fyrirvaralaust upp án greiðslu skaðabóta í eftirtöldum tilvikum:
     a.      þegar þeir fá tilkynningu um fyrirhugaða breytingu á samningsskilmálum og í henni felst ekki ávinningur fyrir endanotandann, eða
     b.      þegar marktækt eða endurtekið misræmi er á milli raunafkasta umsaminnar fjarskiptaþjónustu, annarrar en netaðgangsþjónustu, og afkasta sem gefin eru upp í samningi.
    Í tilviki a-liðar 2. mgr. skal endanotanda veittur a.m.k. eins mánaðar fyrirvari áður en breytingarnar taka gildi og skulu þeir jafnframt upplýstir um rétt sinn samkvæmt þessari málsgrein vilji þeir ekki samþykkja breytinguna.
    Þegar samningur um fjarskiptaþjónustu með ákveðinn binditíma framlengist sjálfkrafa skal fjarskiptafyrirtæki upplýsa endanotanda með eins mánaðar fyrirvara um fyrirhuguð samningslok. Á sama tíma og/eða við breytingar á samningi skal endanotandi upplýstur um hvernig hann geti sagt upp þjónustunni og hvar hann geti fundið upplýsingar um bestu gjaldskrár.
    Við lögmæta uppsögn endanotanda á samningi um fjarskiptaþjónustu getur aðeins komið til greiðslu skaðabóta ef endanotandi kýs að halda endabúnaði við samningslok. Bætur til fjarskiptafyrirtækis skulu að hámarki nema virði búnaðarins í réttu hlutfalli við tímalengd eins og samþykkt er við samningslok, eða það sem eftir stendur af þjónustugjaldi við samningslok, eftir því hvort nemur lægri fjárhæð. Fjarskiptafyrirtæki skal aflétta öllum skilyrðum fyrir notkun endabúnaðar á öðrum netum endurgjaldslaust í síðasta lagi þegar bótagreiðsla skv. 2. málsl. er innt af hendi.

73. gr.

Birting skilmála og gjaldskrár.

    Fjarskiptafyrirtæki skulu birta viðskiptaskilmála og gjaldskrá fyrir alla þjónustu sína á aðgengilegan hátt. Notendum alþjónustu skal gert kleift að fylgjast með og stjórna útgjöldum vegna hennar.
    Þar sem netaðgangs- eða símaþjónusta er gjaldfærð samkvæmt tímagjaldi eða neyslumagni skal þjónustuveitandi sjá til þess að neytanda sé gert kleift að fylgjast með og stjórna notkun sinni. Jafnframt skal þjónustuveitandi tilkynna neytanda áður en inniföldu tíma- eða neyslumagni þjónustuleiða er náð.
    Í skilmálum um símaþjónustu og gagnaflutningsþjónustu sem tryggir nothæfa internetþjónustu skal berum orðum koma fram að endanotanda sé ekki skylt að borga fyrir aðstöðu eða þjónustu sem ekki er nauðsynleg eða umbeðin vegna þjónustunnar sem óskað var eftir.
    Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um kröfur samkvæmt ákvæði þessu, þar á meðal um gagnsæi vegna útgjaldastjórnunar.

74. gr.

Reikningar o.fl.

    Notendur símaþjónustu eiga rétt á að fá reikninga fyrir fjarskiptanotkun sína sundurliðaða og skulu neytendur að því er varðar alþjónustu eiga rétt á slíkum reikningum án þess að greiðsla komi fyrir.
    Upplýsingar sem geta falið í sér viðkvæmar persónuupplýsingar, svo sem vegna símtala til félagsþjónustu og hjálparlína ýmiss konar, skulu ekki birtar á sundurliðun reikninga enda hafi þeir sem veita slíka ráðgjöf eða aðstoð tilkynnt fjarskiptafyrirtækjum um starfsemi sína fyrir fram. Við gerð sundurliðaðra reikninga skal hafa hliðsjón af lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Ef símtöl bera yfirgjald skal þjónustuaðili ávallt geta þess í upphafi símtals hver fjárhæð gjaldsins sé. Notandi skal eiga þess kost að læsa fyrir símtöl í númer þar sem tekið er yfirgjald. Nánar skal kveðið á um símtöl og aðra virðisaukandi þjónustu í tal- og farnetum með yfirgjaldi í reglugerð. Fjarskiptafyrirtæki er heimilt að senda notendum sérstakan reikning fyrir yfirgjaldsþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að veita undanþágu frá upplýsingaskyldu um yfirgjald.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um meðferð upplýsinga sem nauðsynlegar eru fyrir gerð reikninga, um sundurliðun reikninga, lokun yfirgjaldsnúmera og málsmeðferð vegna kvartana.

75. gr.

Vanskil.

    Heimilt er að loka fyrir símaþjónustu vegna vanskila fyrir símtöl, önnur en þau sem bera yfirgjald, enda hafi notanda verið gefin skrifleg aðvörun a.m.k. mánuði fyrir lokun.
    Fyrsta mánuð eftir lokun skal þó vera mögulegt að hringja í notandann.
    Ef gerð hefur verið tilraun til að komast hjá gjaldtöku á ólögmætan hátt eða reynt að koma gjaldskyldu yfir á óskyldan aðila er fjarskiptafyrirtæki heimilt að loka viðkomandi þjónustu án viðvörunar.

76. gr.

Númeraflutningur og flutningur netaðgangsþjónustu milli fjarskiptafyrirtækja.

    Notendum símaþjónustu skal vera unnt að halda símanúmerum sínum óháð því hvaða fjarskiptafyrirtæki veitir þjónustuna. Þetta gildir þó ekki um númeraflutning milli fastaneta og farneta.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að gjöld fyrir númeraflutning taki mið af kostnaði ásamt hæfilegri álagningu. Ekki er heimilt að leggja það gjald á notanda.
    Við flutning á milli fjarskiptafyrirtækja sem veita síma- og netaðgangsþjónustu skal halda endanotanda upplýstum fyrir og meðan á flutningi stendur og tryggja samfellu í þjónustunni, nema það sé ekki tæknilega mögulegt. Fjarskiptafyrirtæki skulu vinna saman að flutningsferli í góðri trú. Móttakandi þjónustuveitandi skal tryggja að virkjun þjónustu fari fram eins skjótt og auðið er og í samræmi við samning um þjónustuna. Fráfarandi þjónustuveitandi skal veita sína þjónustu með sömu skilmálum þar til móttakandi þjónustuveitandi virkjar þjónustu sína við endanotanda. Þjónustutap meðan á flutningsferli stendur skal ekki vara lengur en í einn virkan dag. Lok flutningsferlis jafngildir uppsögn samnings við fráfarandi þjónustuveitanda. Mistakist flutningsferli símaþjónustu ber fjarskiptafyrirtæki að endurvirkja númer og tengda þjónustu endanotanda þar til flutningurinn tekst.
    Fjarskiptafyrirtæki skal, að ósk neytanda sem flutt hefur símaþjónustu skv. 3. mgr., endurgreiða ónýtta inneign fyrirframgreiddrar þjónustu. Slík endurgreiðsla getur því aðeins verið háð þóknun ef kveðið er á um hana í samningi, hún er hófleg og í réttu hlutfalli við raunkostnað fyrirtækisins af flutningsferlinu.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur sett nánari reglur um númera- og þjónustuflutning og tímasetningar í því sambandi og sker úr ágreiningi um framkvæmd hans.
    Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um bætur til endanotenda í tilvikum þar sem mistök verða í flutningsferli síma- eða netaðgangsþjónustu, tafir eða misbeiting verður í flutningsferli og vegna glataðrar þjónustu- og uppsetningartíma.

77. gr.

Pakkatilboð.

    Í samningi við neytanda um þjónustupakka, sem innihalda a.m.k. síma- eða netaðgangsþjónustu, með eða án endabúnaðar, skulu neðangreindar kröfur laga þessara gilda um alla þætti pakkans:
     a.      upplýsingakröfur vegna samninga skv. 70. gr.,
     b.      gildistíma, breytingar á og uppsögn samninga skv. 73. gr., og
     c.      númeraflutning og flutning netaðgangsþjónustu milli þjónustuveitenda skv. 77. gr.
    Ef neytandi á skv. 73. gr. rétt til uppsagnar fyrir lok samningstíma vegna vanefnda eða afhendingarskorts að því er varðar tiltekinn þátt þjónustupakka skal sá réttur teljast ná til allra þátta pakkans.
    Gildistíma samnings neytanda við fjarskiptafyrirtæki um síma- eða netaðgangsþjónustu verður ekki breytt, að því er þá þjónustu varðar, með nýrri áskrift að viðbótarþjónustu eða endabúnaði nema neytandi samþykki slíka breytingu sérstaklega.
    Ákvæði 1. og 3. mgr. skulu gilda um örfélög í skilningi laga um ársreikninga og samtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni nema þau afsali sér þeim rétti með skýrum hætti.

XII. KAFLI

Öryggi upplýsinga, fjarskiptaneta og -þjónustu. Netöryggissveit.

78. gr.

Skipulag upplýsingaöryggis og áhættustýringarumgjörð.

    Fjarskiptafyrirtæki sem veita almenna fjarskiptaþjónustu eða reka almenn fjarskiptanet skulu verja upplýsingar sem fara um fjarskiptanet gegn því að þær glatist, skemmist eða breytist fyrir slysni eða að óviðkomandi fái aðgang að þeim.
    Fjarskiptafyrirtæki sem veita almenna fjarskiptaþjónustu eða reka almenn fjarskiptanet skulu skjalfesta skipulag upplýsingaöryggis með því að setja sér öryggisstefnu, gera áhættumat og ákveða öryggisráðstafanir á grundvelli þess. Gerðar skulu sérstakar ráðstafanir til að tryggja öryggi upplýsinga og samfelldan og órofinn rekstur almennra fjarskiptaneta og almennrar fjarskiptaþjónustu. Fjarskiptafyrirtæki sem veitir almenna fjarskiptaþjónustu skal viðhafa samráð við rekstraraðila almenns fjarskiptanets ef við á.
    Öryggisskipulag og áhættustýring skal taka mið af alþjóðlegum stöðlum og alþjóðlegum viðmiðum um bestu framkvæmd. Skal það ná til tæknilegra og skipulagslegra ráðstafana, eftir því sem við kann að eiga, og varða að lágmarki:
     a.      öryggi neta og aðstöðu, svo sem raunlægt og umhverfislegt öryggi, öryggi aðfanga, þ.m.t. við uppbyggingu nýrra neta, aðgangsstýringar að netum og réttleika þeirra,
     b.      meðhöndlun atvika, svo sem viðbragðsáætlanir, getu til vöktunar öryggisatvika, skýrslugerð vegna atvika og samskiptaáforma,
     c.      samfellda virkni neta og þjónustu, svo sem stefnu fyrir samfellu þjónustu, viðbragðsáætlun, getu til endurreisnar neta og þjónustu, og
     d.      innra eftirlit í formi úttekta og prófana, svo sem stefnugerð um innra eftirlit og atburðaskráningar, prófanir viðbragðsáætlana, prófanir á kerfum og þjónustu, áhættumat og öryggisráðstafanir ásamt eftirliti með hlítingu.
    Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um hvort tveggja vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum og virkni almennra fjarskiptaneta og almennrar fjarskiptaþjónustu. Skulu reglurnar fjalla um ráðstafanir skv. 3. mgr. Auk þess skulu reglurnar, eftir atvikum, fjalla um:
     a.      hvernig skjalfesta skuli skipulags upplýsingaöryggis,
     b.      öryggisstefnu, almenn og sértæk áhættumöt og skriflegar öryggisráðstafanir
     c.      hlítingu við tiltekna staðla og alþjóðleg viðmið um bestu framkvæmd,
     d.      leynd, réttleika og tiltækileika upplýsinga sem og dulkóðun,
     e.      stjórn almennra fjarskiptaneta og almennrar fjarskiptaþjónustu,
     f.      afkastagetu og flæði umferðar um almenn fjarskiptanet,
     g.      virkni tölvupóstkerfa,
     h.      viðbúnaðaræfingar, og
     i.      eftirlitsúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur farið fram á að fjarskiptafyrirtæki framkvæmi sértækt áhættumat á einstökum rekstrar- og kerfisþáttum fjarskiptaneta og/eða fjarskiptaþjónustu eða sérstökum ógnum sem geta steðjað að upplýsingum, fjarskiptanetum og -þjónustu. Skulu þau, eftir atvikum, setja sér sértækar öryggisráðstafanir á grundvelli niðurstöðu slíks mats sem m.a. byggja á alþjóðlegum viðmiðum um bestu framkvæmd.

79. gr.

Úttektir og bindandi fyrirmæli.

    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að gera úttektir og prófanir á því hvort fjarskiptafyrirtæki uppfylli kröfur er varðar upplýsingaöryggi og virkni almennrar fjarskiptaþjónustu og almennra fjarskiptaneta. Póst- og fjarskiptastofnun getur jafnframt gert kröfu um að til þess bær utanaðkomandi aðili geri úttektir og prófanir og kveðið á um framvísun skjalfestra niðurstaðna hlutaðeigandi. Kostnaður vegna úttekta og prófana skal greiddur af viðkomandi fjarskiptafyrirtæki.
    Póst- og fjarskiptastofnun er enn fremur heimilt að framkvæma mat á heildstæði, öryggi og virkni almennra fjarskiptaneta og almennrar fjarskiptaþjónustu með tilliti til áhættu, í heild eða að hluta.
    Komi í ljós að fjarskiptafyrirtæki fylgi ekki kröfum 78. gr. getur Póst- og fjarskiptastofnun gefið bindandi fyrirmæli um að úr verði bætt innan hæfilegs frest, svo sem um tilteknar lágmarksöryggisráðstafanir. Vanræki fjarskiptafyrirtæki að fara að fyrirmælum Póst- og fjarskiptastofnunar um úrbætur getur stofnunin látið vinna verkið á kostnað hlutaðeigandi. Krafa um kostnað vegna þessa er aðfararhæf skv. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.

80. gr.

Tilkynningar vegna öryggisatvika.

    Fjarskiptafyrirtæki sem reka almennt fjarskiptanet eða veita almenna fjarskiptaþjónustu skulu án tafar tilkynna til Póst- og fjarskiptastofnunar öll alvarleg öryggisatvik eða áhættu sem ógnar virkni almennra fjarskiptaneta eða veitingu almennrar fjarskiptaþjónustu.
    Við mat á alvarleika atviks eða áhættu skv. 1. mgr. skal einkum horft til:
     a.      fjölda notenda sem atvik hefur áhrif á,
     b.      hversu lengi atvik stendur yfir,
     c.      landfræðilegrar útbreiðslu og umfangs áhrifa atviks,
     d.      að hvaða marki virkni netsins eða veiting þjónustunnar verður fyrir áhrifum, og
     e.      umfang áhrifa atviksins á efnahagslega og samfélagslega starfsemi.
    Tilkynna skal til Póst- og fjarskiptastofnunar án tafar ef hætta er á að öryggi eða leynd upplýsinga á fjarskiptanetum verði rofin.
    Í tilkynningu skal m.a. upplýst um mögulegt útvistunarfyrirkomulag og hugsanleg smitáhrif, jafnvel yfir landamæri. Umfang tilkynningar ræðst að öðru leyti af efni og aðstæðum.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur sett reglur um nánari útfærslu og framkvæmd tilkynningarskyldu samkvæmt ákvæði þessu, þ.m.t. tilkynningar til netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar.

81. gr.

Upplýsingagjöf.

    Ef sérstök eða umfangsmikil ógn steðjar að fjarskiptaneti eða fjarskiptaþjónustu skulu fjarskiptafyrirtæki einnig upplýsa þá notendur sem geta orðið fyrir áhrifum af þeirri ógn. Þau skulu jafnframt upplýsa um mögulegar verndarráðstafanir og úrræði sem hægt er að grípa til. Ef við á skulu þau veita upplýsingar um hina meintu ógn. Ef hætta er á að öryggi eða leynd fjarskipta á tilteknu neti verði rofin skal þjónustuveitandinn upplýsa notendur um hættuna. Upplýsingagjöfin skal vera án endurgjalds.
    Ef almenningsvitundar er þörf til að koma í veg fyrir eða takast á við atvik og þegar upplýsingagjöf um atvik er af öðrum ástæðum nauðsynleg í þágu almannahagsmuna er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að upplýsa almenning um atvikið eða kveða á um að fjarskiptafyrirtæki geri slíkt. Þá er stofnuninni heimilt að tilkynna almenningi um veikleika og almennar hættur ef það er nauðsynlegt í þágu almannahagsmuna. Eftir atvikum skal samráð viðhaft um slíkar tilkynningar við lögreglu.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal, ef þörf krefur, upplýsa eftirlitsstjórnvöld í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og Netöryggisstofnun Evrópu (ENISA) um öryggisatvik.

82. gr.

Viðbúnaður og hlutverk netöryggissveitar.

    Netöryggissveit skal aðstoða fjarskiptafyrirtæki við forvarnir, leiðbeina þeim og styðja við skjót viðbrögð gegn aðsteðjandi hættu. Við útbreitt öryggisatvik samhæfir netöryggissveit aðgerðir viðeigandi aðila gegn aðsteðjandi hættu til að lágmarka tjón og reisa við óvirk kerfi.
    Netöryggissveit skal greina og meðhöndla ógnir, hættur og atvik í net- og upplýsingakerfum fjarskiptafyrirtækja og fyrirbyggja og draga úr hættu á öryggisatvikum eins og kostur er og sporna við og lágmarka tjón aðila sem af slíku kann að hljótast.
    Fjarskiptafyrirtækjum er skylt að bregðast án tafar við tilmælum netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar um aðgerðir gegn bráðri aðsteðjandi netógn, hvort sem sú ógn steðjar að net- og upplýsingakerfum eins eða fleiri fjarskiptafyrirtækja. Hið sama á við í tilviki mjög alvarlegrar hættu sem steðjar að net- og upplýsingakerfum mikilvægra innviða eða opinberra stofnana, almannahagsmunum eða þjóðaröryggi, enda yfirgnæfandi líkur á að fjarskiptafyrirtæki geti átt hlutdeild í að sporna við ógn, áhættu eða atviki eða lágmarka mögulegt tjón af völdum þess.
    Netöryggissveit skal leitast við að greina netógnir, áhættu og öryggisatvik á sviði fjarskipta á frumstigi og skal hún senda út snemmviðvaranir í þeim tilgangi að styðja við skjót viðbrögð gegn aðsteðjandi hættu. Skal netöryggissveit tilkynna og miðla upplýsingum til viðeigandi hagsmunaaðila um ógnir, áhættu og öryggisatvik. Netöryggissveit veitir ráðgjöf um varnir og viðbúnað og kemur upplýsingum á framfæri við almenning ef þurfa þykir, eftir atvikum í samráði við önnur stjórnvöld.
    Netöryggissveit skal setja á laggirnar samstarfshóp með fjarskiptafyrirtækjum fyrir tæknilegt samráð og upplýsingaskipti á sviði net- og upplýsingaöryggis, m.a. til að greina ógnir og samræma viðbrögð.
    Netöryggissveit er heimilt að tilkynna ríkislögreglustjóra um alvarleg eða útbreidd atvik og áhættu sem ógnar öryggi net- og upplýsingakerfa og skal, eftir því sem við kann að eiga, hafa samstarf við embættið um varnir og viðbrögð. Netöryggissveit skal án tafar hvetja fjarskiptafyrirtæki til að tilkynna lögreglu um öryggisatvik leiki grunur á um refsiverða háttsemi.

83. gr.

Samningar netöryggissveitar og fjarskiptafyrirtækja.

    Ef Póst- og fjarskiptastofnun metur það nauðsynlegt skulu fjarskiptafyrirtæki og netöryggissveit gera með sér samning um uppsetningu og rekstur tæknilegrar vöktunarþjónustu fyrir net- og upplýsingakerfi fjarskiptafyrirtækisins í þeim tilgangi að greina hættur og ummerki um árásir, spillikóða og aðrar vísbendingar um aðstæður sem gætu skapað hættu fyrir öryggi net- og upplýsingakerfa fjarskiptafyrirtækja.
    Samningar skv. 1. mgr. skulu a.m.k. innihalda ákvæði er varða:
     a.      búnað og netkerfi sem tengist vöktun netöryggissveitar,
     b.      tæknilegar lausnir sem beitt er við vöktun, og
     c.      tegund og vinnslu þeirra gagna, þ.m.t. persónuupplýsinga, sem safnað er, meðferð þeirra, vistun og eyðingu.
    Fjarskiptafyrirtækjum er skylt að hýsa og samtengjast þeim búnaði netöryggissveitar sem Póst- og fjarskiptastofnun metur nauðsynlegan skv. 1. mgr. vegna tæknilegrar vöktunarþjónustu endurgjaldslaust. Netöryggissveit er heimilt að taka við upplýsingum á grundvelli samnings um vöktunarþjónustu án dómsúrskurðar.
    Hvorki er heimilt að persónugreina netumferð né skima einstaka netpakka eða flæði sem netöryggissveitin kann að nema í almennum netkerfum fjarskiptafyrirtækja. Netöryggissveit er þó heimilt að taka við upplýsingum um almenna netumferð án dómsúrskurðar, þ.m.t. á samtengipunktum og í útlandagáttum, enda séu þær upplýsingar ópersónugreinanlegar.

84. gr.

Aðgangur að upplýsingum, þagnarskylda og vinnsla persónuupplýsinga.

    Um aðgang netöryggissveitar að gögnum og upplýsingum, um sértæka þagnarskyldu og undanþágur frá slíkri skyldu og um meðferð persónuupplýsinga skal fara eftir ákvæðum 17. og 19.–21. gr. laga um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, nr. 78/2019.

85. gr.

Reglugerðarheimild er varðar netöryggissveit.

    Ráðherra setur, að viðhöfðu samráði við Póst- og fjarskiptastofnun og að fenginni umsögn frá Persónuvernd og ríkislögreglustjóra, nánari fyrirmæli í reglugerð um starfsemi netöryggissveitar samkvæmt lögum þessum. Í henni skal meðal annars fjalla um meðferð tilkynninga og flokkunarkerfi fyrir atvik, áhættu, upplýsingar og framsetningu tilmæla, svo og samstarf við lögreglu.

86. gr.

Vernd fjarskiptavirkja.

    Þar sem fjarskiptavirki eru má ekki reisa mannvirki, setja upp tæki, leggja pípur, raflagnir, leiðslur og því um líkt, gera jarðrask eða aðrar ráðstafanir er af geta hlotist skemmdir á fjarskiptavirkjum eða truflanir á rekstri þeirra nema áður hafi verið aflað upplýsinga um legu þeirra og samráð verið haft við eiganda fjarskiptavirkisins um tilhögun framkvæmdanna.
    Ef nauðsynlegt reynist vegna verklegra framkvæmda að flytja til eða breyta legu fjarskiptavirkja þá ber sá sem slíka framkvæmd annast allan kostnað sem af því kann að leiða, beinan og óbeinan, nema annað hafi orðið að samkomulagi.
    Ef jarðrask eða aðrar framkvæmdir hafa leitt til skemmda á fjarskiptavirkjum eða truflana á rekstri þeirra skal sá sem þeim hefur valdið þegar í stað tilkynna það til eiganda fjarskiptavirkisins. Er tjónvaldi jafnframt skylt að bæta allt tjón sem af skemmdunum leiðir, bæði beint og óbeint, þar á meðal viðskiptatap, nema hann sýni fram á að ekki hafi verið komist hjá tjóni þó að fyllstu aðgæslu hafi verið gætt. Bótaábyrgð skv. 2. málslið gildir ekki um jarðstrengi sem lagðir eru á minna en 20 cm dýpi innan marka fasteigna.
    Þar sem fjarskiptastrengir liggja í sjó skulu sjófarendur sýna aðgæslu og gæta varúðar. Bannað er að veiða með veiðarfærum, sem fest eru í botni eða eru dregin eftir honum, svo sem netum, botnvörpum og þess háttar, á svæðum þar sem fjarskiptastrengir liggja. Svæði þetta skal vera mílufjórðungs belti hvorum megin við fjarskiptastrenginn. Þá er skipum einnig bannað að leggjast við akkeri innan sömu fjarlægða frá fjarskiptastrengjum. Ef tjón verður á fjarskiptastreng, sem valdið er af ásetningi eða gáleysi, skal sá sem tjóni hefur valdið bæta beint og óbeint fjártjón sem af því hlýst nema hann sýni fram á að hann hafi gert allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir til þess að komast hjá tjóni.
    Þegar skip er innan eða utan landhelgi við lagningu eða viðgerð á fjarskiptastrengjum og ber til sýnis alþjóðamerki eða önnur merki er gefa það til kynna skulu önnur skip sem sjá eða eiga að geta séð þessi merki halda sig eigi skemmra en mílufjórðung frá skipinu. Net og önnur veiðarfæri skal hafa í sömu fjarlægð. Fiskiskip skulu þó hafa tólf stunda frest til þess að fjarlægja veiðarfæri sem liggja í sjó.
    Ef dufl hefur verið lagt út vegna lagningar eða viðgerðar á fjarskiptastreng skulu skip halda sig og veiðarfærum sínum eigi skemmra en mílufjórðung frá duflinu.
    Ef skip hefur orðið að sleppa akkeri eða leggja net eða önnur veiðarfæri í sölurnar til þess að komast hjá því að skemma fjarskiptastrengi á það kröfu um skaðabætur frá eiganda strengjanna, enda hafi stjórnendur skipsins ekki stofnað til hættunnar af gáleysi.
    Ef unnt er skulu skipverjar þegar skjalfesta skýrslu um tjónið sem staðfest skal af stjórnanda skipsins. Að auki skal eiganda fjarskiptastrengsins eða forsvarsmanni eiganda tilkynnt um atburðinn eins fljótt og kostur er.

87. gr.

Öryggishagsmunir vegna uppbyggingar farneta.

    Við þróun og uppbyggingu farneta í íslenskri lögsögu skal grípa til ráðstafana til að bregðast við áhættuþáttum er varða brýna almannahagsmuni og öryggi.
    Telji Póst- og fjarskiptastofnun hættu á að farnetskerfi á landsvísu séu eða geti orðið mjög háð búnaði frá einum framleiðanda er stofnuninni, á grundvelli öryggishagsmuna, heimilt að binda leyfi skv. 27. gr. skilyrðum er stuðla að fjölbreytni í gerð búnaðar eða að grípa til annarra viðeigandi ráðstafana.
    Að fengnum umsögnum ráðherra sem fara með utanríkis- og varnarmál, almannavarnir og löggæslu getur ráðherra kveðið á um í reglugerð að búnaður í tilteknum hlutum innlendra farneta, sem teljast viðkvæmir með tilliti til almannahagsmuna og öryggis ríkisins, skuli í heild sinni eða að ákveðnu hlutfalli búnaðar vera frá framleiðanda í ríki sem Ísland á öryggissamstarf við eða ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Umsögn skv. 3. mgr. er undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum og upplýsingarétti aðila máls samkvæmt stjórnsýslulögum eða öðrum lögum. Ráðherra sem veitir umsögn getur aflétt trúnaði af umsögn teljist öryggishagsmunir ekki lengur standa trúnaði í vegi.

XIII. KAFLI

Friðhelgi einkalífs, fjarskiptaleynd, aðstoð við rannsókn sakamála o.fl.

88. gr.

Leynd fjarskipta.

    Óheimil er sérhver vinnsla fjarskipta, þ.m.t. geymsla, hlustun, upptaka eða hlerun, nema hún fari fram með upplýstu samþykki notanda eða samkvæmt heimild í lögum.
    Notkun njósnahugbúnaðar, vefhlerunarbúnaðar eða annars slíks búnaðar sem safnar og/eða geymir upplýsingar í endabúnaði notenda, veitir aðgang að upplýsingum sem geymdar eru í endabúnaði eða fylgist með athöfnum notenda er óheimil nema að fengnu upplýstu samþykki viðkomandi. Þrátt fyrir þetta er notkun slíks búnaðar heimil til að fá aðgang að upplýsingum og/eða til tæknilegrar geymslu í lögmætum tilgangi og með vitund hlutaðeigandi notanda.
    Öllum sem starfa við fjarskiptavirki, hvort sem um er að ræða starfsmenn fjarskiptafyrirtækja eða aðra, er skylt, bæði meðan þeir gegna starfi og eftir að þeir hafa látið af því, að halda leyndu fyrir óviðkomandi aðilum öllu því sem um fjarskiptavirkin fer, hvort sem um er að ræða efni skeyta eða samtala eða hvort fjarskipti hafa átt sér stað og á milli hverra. Enginn sem starfar við fjarskiptavirki, -net eða -þjónustu má skjóta undan skeytum, gögnum, myndum eða öðrum merkjum sem afhent eru til fjarskiptaflutnings eða liðsinna öðrum við þess konar athæfi.
    Sá sem fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar tekur við símskeytum, myndum eða öðrum fjarskiptamerkjum og táknum eða hlustar á símtöl má ekki skrá neitt slíkt hjá sér eða notfæra sér það á nokkurn hátt. Jafnframt ber honum að tilkynna sendanda að upplýsingar hafi ranglega borist sér. Skylt er að gæta fyllsta trúnaðar í slíkum tilfellum.

89. gr.

Gögn um fjarskipti.

    Gögnum um fjarskiptaumferð notenda sem geymd eru og fjarskiptafyrirtæki vinnur úr skal eyða eða gera nafnlaus þegar þeirra er ekki lengur þörf við afgreiðslu ákveðinnar fjarskiptasendingar.
    Gögn um fjarskiptanotkun sem nauðsynleg eru til reikningsgerðar fyrir notendur og uppgjörs fyrir samtengingu má geyma þar til ekki er lengur hægt að vefengja reikning eða hann fyrnist.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skulu fjarskiptafyrirtæki, í þágu rannsókna sakamála og almannaöryggis, varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í sex mánuði. Lágmarksskráningin skal tryggja að fjarskiptafyrirtæki geti upplýst hver af viðskiptavinum þess var notandi tiltekins símanúmers, IP-tölu eða notandanafns, jafnframt því að upplýsa um allar tengingar sem notandinn hefur gert, dagsetningar þeirra, hverjum var tengst og magn gagnaflutnings til viðkomandi notanda. Fjarskiptafyrirtæki skal tryggja vörslu framangreindra gagna og er óheimilt að nota eða afhenda umræddar upplýsingar öðrum en lögreglu eða ákæruvaldi í samræmi við ákvæði 92. gr. Eyða ber umferðargögnunum að þessum tíma liðnum enda sé ekki þörf fyrir þau á grundvelli 2. mgr.
    Með upplýstu samþykki notanda er fjarskiptafyrirtæki heimilt að vinna úr gögnum skv. 1. mgr. vegna markaðssetningar fjarskiptaþjónustu eða framboðs á virðisaukandi þjónustu að því leyti sem nauðsynlegt er fyrir slíka þjónustu eða markaðssetningu. Samþykki má afturkalla hvenær sem er.
    Þjónustuveitandi skal upplýsa notendur fyrir fram um hvaða gögn um fjarskiptanotkun eru tekin til úrvinnslu og hversu lengi úrvinnsla mun standa.
    Úrvinnslu gagna samkvæmt þessari grein skulu þeir einir sinna sem eru undir stjórn fjarskiptafyrirtækja og sjá um gerð reikninga eða stjórnun fjarskiptaumferðar, fyrirspurnir notenda, uppljóstrun misferlis, markaðssetningu fjarskiptaþjónustu eða virðisaukandi þjónustu og skal úrvinnslan einskorðast við það sem er nauðsynlegt í þágu slíkrar starfsemi.

90. gr.

Upplýsingar um staðsetningu búnaðar.

    Því aðeins má vinna úr upplýsingum um staðsetningu búnaðar í almennum fjarskiptanetum eða almennri fjarskiptaþjónustu að ekki sé hægt að tengja þær við einstaka notendur eða að fengnu upplýstu samþykki þeirra, sbr. þó 97. gr.

91. gr.

Hljóðritun símtala.

    Sá aðili að símtali sem vill hljóðrita símtal skal í upphafi þess tilkynna viðmælanda sínum um fyrirætlun sína.
    Aðili þarf þó ekki að tilkynna sérstaklega um upptöku símtals þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er opinberum stofnunum, eða fyrirtækjum sem veita þeim þjónustu, heimilt að hljóðrita samtöl er þeim berast þegar slík hljóðritun er eðlilegur þáttur í starfsemi stjórnvalds og nauðsynleg vegna þjóðar- og almannaöryggis.
    Um fyrirkomulag hljóðritunar og kynningu hennar fyrir almenningi og starfsmönnum stofnunar skal fara eftir skilyrðum sem Persónuvernd kann að setja.
    Úrvinnsla hljóðritana samkvæmt þessari grein skal vera í samræmi við lagaákvæði um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

92. gr.

Rannsókn sakamála.

    Þeim sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet er skylt að verða við tilmælum lögreglu um aðstoð við rannsókn sakamáls, enda styðjist þau tilmæli við dómsúrskurð eða lagaheimild. Fjarskiptafyrirtæki skulu setja sér verklagsreglur um viðbrögð við beiðnum um aðgang lögreglu að persónuupplýsingum notenda.
    Ekki má án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá skeyti, önnur skjöl eða annála um sendingar sem um fjarskiptavirkin fara eða hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau. Fjarskiptafyrirtæki er þó rétt og skylt að veita lögreglu, í þágu rannsóknar sakamáls, upplýsingar um hver sé skráður notandi ákveðins símanúmers og/eða notandi vistfangs (IP-tölu). Um aðgang lögreglu að upplýsingum um fjarskipti skal að öðru leyti fara samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
    Í þágu rannsóknar máls er lögreglu heimilt að leggja fyrir fjarskiptafyrirtæki að varðveita þegar í stað tölvugögn, þ.m.t. gögn um tölvusamskipti. Fyrirmæli lögreglu geta eingöngu tekið til gagna sem þegar eru fyrir hendi. Í fyrirmælunum á að koma fram hvaða gögn eigi að varðveita og hve lengi en sá tími má þó ekki vera lengri en 90 dagar.
    Starfsmenn fjarskiptafyrirtækis eru bundnir þagnarskyldu um allar aðgerðir sem gripið er til samkvæmt þessari grein. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi. Fjarskiptafyrirtæki skal óska eftir öryggisvottun lögreglu vegna þeirra starfsmanna fjarskiptafyrirtækis er annast tengingar á símhlustun fyrir lögreglu. Lögreglu er í því sambandi heimilt, að fengnu skriflegu samþykki viðkomandi einstaklings, að afla upplýsinga um bakgrunn og sakaferil viðkomandi starfsmanns fjarskiptafyrirtækis, svo sem úr skrám lögreglu, sakaskrá eða öðrum opinberum skrám. Áður en lögregla lýkur athugun sinni skal þeim sem athugun beinist að gert kleift að koma sjónarmiðum sínum að. Hann á jafnframt rétt á rökstuðningi ákvarði lögregla að synja honum um öryggisvottun. Ákvörðun lögreglu um synjun öryggisvottunar sætir kæru til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
    Ráðherra getur sett reglugerð um skyldur fjarskiptafyrirtækja varðandi varðveislu upplýsinga og aðgang lögreglu að fjarskiptasendingum og upplýsingum samkvæmt þessari grein.

93. gr.

Símaskrárupplýsingar.

    Endanotandi númeratengdrar fjarskiptaþjónustu á rétt á að ákveða hvort persónuupplýsingar um hann séu skráðar í númera- og vistfangaskrá fjarskiptafyrirtækis sem nýtt er fyrir opinberar prentaðar eða rafrænar símaskrár eða fyrir upplýsingaþjónustu um símanúmer. Fjarskiptafyrirtæki sem úthluta númerum skulu upplýsa endanotendur um þennan rétt sinn, hvaða persónuupplýsingar um ræðir og um vinnslu þeirra.
    Þær persónuupplýsingar sem fjarskiptafyrirtæki skal skrá í þessum tilgangi takmarkast við þær upplýsingar sem þarf til að bera kennsl á endanotanda nema endanotandinn hafi veitt upplýst samþykki til annars. Fjarskiptafyrirtæki ber að verða við kröfu endanotanda um að gefið sé til kynna í prentaðri eða rafrænni símaskrá eða í upplýsingaþjónustu um símanúmer að upplýsingar skráðar um hann megi ekki nota í tilgangi beinnar markaðssetningar eða um að heimilisfangi sé sleppt að einhverju eða öllu leyti. Áður en persónulegar upplýsingar um endanotanda eru skráðar í opinberum símaskrám eða notaðar fyrir upplýsingaþjónustu um símanúmer skal hann eiga aðgang að upplýsingunum. Óheimilt er að innheimta kostnað vegna réttar endanotanda skv. 1. og 2. mgr.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur skyldað öll fjarskiptafyrirtæki sem úthluta endanotendum símanúmerum til að verða við beiðnum um að láta í té viðkomandi upplýsingar í númera- og vistfangaskrám þeirra í formi sem aðilar koma sér saman um, þ.m.t. tölvutæku formi, og með skilmálum sem eru sanngjarnir, tryggja jafnræði og eru byggðir á kostnaði ásamt hæfilegri álagningu. Óheimilt er að nota upplýsingarnar í öðrum tilgangi en að gefa út prentaðar eða rafrænar símaskrár eða fyrir upplýsingaþjónustu um símanúmer.
    Póst- og fjarskiptastofnun setur að öðru leyti reglur um skráningu endanotenda sem úthlutað hefur verið númerum í fastlínu- og farsímakerfum. Að því er varðar farsímakort sem ekki eru skráð á nafn er stofnuninni heimilt að setja reglur um skráningu þeirra í samstarfi við Neyðarlínu, lögreglu og farsímafyrirtæki í því skyni að stuðla að auknu öryggi við notkun farsíma.

94. gr.

Óumbeðin fjarskipti.

    Notkun sjálfvirkra uppkallskerfa, símbréfa, tölvupósts og hvers konar rafrænna skilaboða fyrir beina markaðssetningu er einungis heimil þegar endanotandi hefur veitt upplýst samþykki sitt fyrirfram.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að nota tölvupóstfang fyrir beina markaðssetningu á eigin vörum eða þjónustu ef viðskiptavinum er gefinn kostur á að andmæla slíkri notkun tölvupóstfanga þeim að kostnaðarlausu þegar skráning á sér stað og sömuleiðis í hvert sinn sem skilaboð eru send, hafi viðskiptavinurinn ekki þegar í upphafi hafnað slíkri notkun.
    Að öðru leyti en mælt er fyrir í 1. og 2. mgr. eru óumbeðin fjarskipti í formi beinnar markaðssetningar óheimil til þeirra áskrifenda sem óska ekki eftir að taka á móti þeim.
    Þrátt fyrir ákvæði 1.–3. mgr. er heimilt að nota almenn tölvupóstföng fyrirtækja og stofnana, séu þau fyrir hendi, fyrir beina markaðssetningu á vörum og þjónustu.
    Óheimilt er að senda tölvupóst sem þátt í beinni markaðssetningu þar sem nafn og heimilisfang þess sem stendur að markaðssetningu kemur ekki skýrt fram.
    Þeir sem nota almenna tal- og farsímaþjónustu sem lið í markaðssetningu skulu virða merkingu í símaskrá sem gefur til kynna að viðkomandi áskrifandi vilji ekki slíkar símhringingar í símanúmer sitt. Endanotandi á rétt á að fá vitneskju um hvaðan þær upplýsingar koma sem liggja úthringingu til grundvallar.

XIV. KAFLI

Aðgangur að neyðarþjónustu. Fjarskipti á hættutímum.

95. gr.

Neyðarfjarskipti.

    Stuttnúmerið 112 skal notað fyrir neyðar- og öryggisþjónustu og er óheimilt að nota það í öðrum tilgangi. Óheimilt er að gjaldfæra símtöl í neyðarnúmerið 112, þ.m.t. staðsetningarupplýsingar. Fjarskiptafyrirtækjum er skylt að flytja símtal í númerið 112, ásamt viðeigandi fjarskiptaumferðarupplýsingum, óháð fjarskiptanetum, reikisamningum milli fjarskiptafyrirtækja og inneign notanda.

96. gr.

Ábendingalína vegna barna sem er saknað og hjálparsími fyrir börn.

    Stuttnúmerið 116000 skal notað fyrir ábendingalínu vegna tilkynninga um börn sem er saknað og stuttnúmerið 116111 skal notað fyrir hjálparsíma barna. Óheimilt er að gjaldfæra símtöl í númerin 116000 og 116111, þ.m.t. staðsetningarupplýsingar. Fjarskiptafyrirtækjum er skylt að flytja símtöl í númerin 116000 og 116111, ásamt viðeigandi fjarskiptaumferðarupplýsingum, óháð fjarskiptanetum, reikisamningum milli fjarskiptafyrirtækja og inneign notanda.

97. gr.

Upplýsingar um staðsetningu búnaðar í neyðartilvikum.

    Þrátt fyrir ákvæði 90. gr. skulu fjarskiptafyrirtæki án samþykkis notanda senda, án endurgjalds, upplýsingar um staðsetningu notanda, að því marki sem er tæknilega gerlegt, til aðila sem annast neyðarþjónustu og eru opinberlega viðurkenndir sem slíkir, þ.m.t. löggæslu-, sjúkraflutninga- og slökkvilið. Notkun upplýsinganna er einungis heimil í þeim tilgangi að staðsetja neyðarsímtöl eða búnað notanda í tilvikum þar sem lögregla telur að líf hans eða annarra sé í bráðri hættu og upplýsingarnar eru nauðsynlegar til að afstýra hættunni.

98. gr.

Almannaviðvörunarkerfi.

    Fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja farnet og/eða veita farnetsþjónustu skulu að beiðni almannavarna, eða annarra þar til bærra opinberra viðbragðsaðila, senda viðvaranir um yfirvofandi eða yfirstandandi neyðarástand í farsíma eða annan nettengdan búnað án endurgjalds. Fjarskiptaumferð slíkra viðvarana skal njóta forgangs í almennum fjarskiptanetum.

99. gr.

Fjarskipti á hættutímum og í neyðartilvikum.

    Á ófriðartímum getur ráðherra samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar mælt fyrir um stöðvun eða takmörkun fjarskipta sem teljast hættuleg öryggi ríkisins.
    Í neyðartilvikum, svo sem við náttúruhamfarir, getur ráðherra að beiðni ríkislögreglustjóra mælt fyrir um takmörkun fjarskipta sem truflað geta neyðar- og öryggisfjarskipti. Á sama hátt skal heimilt að mæla fyrir um að tiltekin fjarskiptavirki skuli notuð í þágu björgunaraðgerða og að sett skuli upp ný fjarskiptavirki.
    Við yfirvofandi eða yfirstandandi þjónusturof á fjarskiptum sem nær til stórs landsvæðis eða til umtalsverðs fjölda notenda, þannig að neyðarástand geti eða hafi skapast, getur ráðherra mælt fyrir um aðgerðir til að viðhalda rekstrarsamfellu þjónustunnar uns komist hefur verið hjá neyðarástandinu.
    Komi endurgjald til greina vegna aðgerða sem gripið er til vegna 2. og 3. mgr. greiðist það úr ríkissjóði samkvæmt mati Póst- og fjarskiptastofnunar.

XV. KAFLI

Fyrirmæli og afturköllun réttinda. Stjórnvaldssektir og viðurlög.

100. gr.

Fyrirmæli um úrbætur, afturköllun réttinda og heimild til rekstrarstöðvunar.

    Fjarskiptafyrirtæki sem reka fjarskiptanet eða þjónustu samkvæmt almennri heimild eða hafa réttindi til að nota tíðnir og númer skulu að beiðni Póst- og fjarskiptastofnunar veita stofnuninni upplýsingar samkvæmt lögum um Póst- og fjarskiptastofnun sem nauðsynlegar eru til þess að ganga úr skugga um að farið sé eftir skilyrðum almennra heimilda eða sérstakra kvaða, sbr. 5. mgr. 6. gr.
    Komist Póst- og fjarskiptastofnun að þeirri niðurstöðu að fjarskiptafyrirtæki fari ekki að skilmálum almennra heimilda, skilyrðum sem tengjast réttindum eða ákvörðunum stofnunarinnar skal hún tilkynna fjarskiptafyrirtækinu um þessa niðurstöðu og gefa fyrirtækinu tækifæri að koma skoðun sinni á framfæri eða lagfæra brot sitt innan eins mánaðar frá dagsetningu tilkynningar, skemmri tíma sem fyrirtækið samþykkir eða Póst- og fjarskiptastofnun kveður á um þegar um endurtekið brot er að ræða eða lengri tíma sem Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir.
    Láti fjarskiptafyrirtæki ekki af broti sínu innan settra tímamarka getur Póst- og fjarskiptastofnun grípið til viðeigandi ráðstafana skv. 101. gr., 5. mgr. 102. gr. laga þessara eða lagt á dagsektir í samræmi við 12. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003. Tilkynna skal fjarskiptafyrirtæki um ákvörðun stofnunarinnar ásamt rökstuðningi við hana og skal veita því hæfilegan frest til þess að verða við ákvörðun.
    Við alvarleg og endurtekin brot á skilmálum almennrar heimildar eða skilyrðum sem tengjast réttindum eða sérstökum kvöðum þegar ráðstafanir til að tryggja að farið verði að lögum hafa mistekist getur Póst- og fjarskiptastofnun stöðvað netrekstur eða þjónustu fjarskiptafyrirtækis eða afturkallað réttindi tímabundið eða varanlega.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur, ef sannanir liggja fyrir um brot á skilmálum almennrar heimildar eða skilyrðum sem tengjast réttindum eða ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar sem leiðir til yfirvofandi hættu fyrir öryggi og heilsu almennings eða getur skapað alvarleg fjárhagsleg eða rekstrarleg vandamál fyrir önnur fjarskiptafyrirtæki eða notendur fjarskiptaneta eða -þjónustu, tekið bráðabirgðaákvarðanir til að bæta úr ástandinu áður en endanleg ákvörðun er tekin. Fjarskiptafyrirtækinu sem í hlut á skal að lokinni bráðabirgðaákvörðun veitt tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri og leggja til úrbætur. Þegar við á getur Póst- og fjarskiptastofnun staðfest bráðabirgðaákvörðun sína.

101. gr.

Framfylgdarheimildir vegna óumbeðinna fjarskipta.

    Ef brotið er gegn 94. gr. gilda ákvæði 20. gr. a–b, 2. mgr. 21. gr. c, 22.–25. gr. a og 27. gr. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, um málsmeðferð og heimildir Póst- og fjarskiptastofnunar til að framkvæma vettvangskönnun og prufukaup, grípa til aðgerða, leggja á sektir og dagsektir og krefjast lögbanns.
    Ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar skv. 1. mgr. verður skotið til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.

102. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur lagt stjórnvaldssektir á fjarskiptafyrirtæki, lögaðila eða einstaklinga sem brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra:
     a.      skilyrðum almennrar heimildar skv. 8. og. 9. gr.,
     b.      skilyrðum fyrir notkun tíðna og númera skv. 16. og 22. gr.,
     c.      réttindum og skyldum um aðgang að aðstöðu, netum eða þjónustu eða samtengingu og rekstrarsamhæfingu neta, skv. 34.–36. og 38.–41. gr.,
     d.      trúnaðarskyldum skv. 42. gr.,
     e.      kvöðum sem lagðar hafa verið á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk skv. 46.–52. gr., 56. gr. og 61. gr.,
     f.      skuldbindingum sem fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk hafa gengist undir í tengslum við sameiginlega fjárfestingu skv. 55. gr., aðskilnað starfsemi skv. 57. gr., almennar kvaðir skv. 46. gr. og skuldbindingarferli skv. 58. gr.,
     g.      tilkynningaskyldu heildsölufyrirtækis varðandi breytingar á aðstæðum skv. 3. mgr. 59. gr.,
     h.      tilkynningaskyldu og öðrum réttindum og skyldum varðandi flutning úr eldri fjarskiptavirkjum, skv. 60. gr.,
     i.      ákvæðum um hámarksverð og önnur réttindi og skyldur er varða lúkningu símtala, reiki og millilandafjarskipti skv. 53. og 54. gr.,
     j.      skilyrðum um fjárhagslegan aðskilnað fjarskiptastarfsemi frá sérleyfisbundinni starfsemi skv. 10. gr.,
     k.      ákvæðum sem varða rétt neytenda skv. 68., 69., 71.–74., 76. og 77. gr.,
     l.      ákvæðum sem varða öryggi upplýsinga, fjarskiptaneta og -þjónustu skv. 78., 80. og 1. mgr. 81. gr.,
     m.      friðhelgi einkalífs, fjarskiptaleynd og aðstoð við rannsókn sakamála skv. XIII. kafla,
     n.      reglum sem gilda um frágang innanhússfjarskiptalagna skv. 25. gr.,
     o.      ákvæði er varðar búnað fjarskiptaneta skv. 24. gr., þráðlausan sendabúnað skv. 27. gr. og fjarskiptabúnað í farartækjum skv. 28. gr.,
     p.      grunnkröfum til þráðlauss búnaðar skv. 26. gr., samræmi búnaðar skv. 30. gr., skyldum rekstraraðila skv. 31. gr. og reglum um markaðseftirlit með slíkum búnaði skv. 33. gr.,
     q.      vernd fjarskiptavirkja skv. 86. gr.,
     r.      skyldu til að afhenda fullnægjandi og réttar upplýsingar um uppbyggingaráform skv. 3. gr. b í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, enda hafi þær verið afhentar fyrir stórkostlegt gáleysi eða af ásetningi, eða
     s.      skyldu til að afhenda Póst- og fjarskiptastofnun réttar, fullnægjandi og uppfærðar upplýsingar skv. 1.–2. mgr. 5. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.
    Stjórnvaldssektir geta numið allt að 4% af heildarveltu síðasta rekstrarárs hjá hverju því fjarskiptafyrirtæki eða öðru fyrirtæki sem aðild eiga að broti. Hvað varðar einstaklinga geta sektir numið frá 10.000 kr. til 10.000.000 kr. Við ákvörðun á fjárhæð sekta skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota, hvað brot hafa staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðaðar stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar og renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Sé stjórnvaldssekt ekki greidd innan mánaðar frá ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi. Falla má frá sektarákvörðun teljist brot óverulegt eða af öðrum ástæðum sé ekki talin þörf á slíkum sektum til að stuðla að framgangi á markmiðum fjarskiptalaga.
    Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um sektir má skjóta til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.
    Heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Frestur skv. 1. málsl. rofnar þegar Póst- og fjarskiptastofnun tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

103. gr.

Refsingar.

    Brot sem framið er af ásetningi á ákvæðum í lögum þessum sem tilgreind eru í d-, e-, f-, m- og q-liðum 1. mgr. 102. gr. og reglum settum á grundvelli þeirra varða sektum, en fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar eða brot ítrekuð. Gáleysisbrot skulu eingöngu varða sektum.
    Ef brot gegn ákvæðum í lögum þessum sem tilgreind eru í m-lið 1. mgr. 102. gr. er framið í ávinningsskyni, hvort sem er í eigin þágu eða annarra, má refsa með fangelsi allt að þremur árum.
    Ef brot skv. 1. og 2. mgr. er framið í starfsemi lögaðila þá má gera lögaðilanum fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Tilraun og hlutdeild í brotum skv. 1. og 2. mgr. eru refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Fjarskiptabúnað sem hefur verið starfræktur í heimildarleysi má gera upptækan, sbr. 69. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Þegar fjarskiptafyrirtæki fer ekki að ákvæðum laga, skilyrðum almennrar heimildar, skilyrðum sérstakra réttinda eða einstökum ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar getur stofnunin ákveðið í samræmi við ákvæði 100. gr. að fella niður skráningu fyrirtækisins, afturkalla réttindi eða bæta við skilyrðum.

104. gr.

Kæra mála til lögreglu.

    Brot gegn lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Póst- og fjarskiptastofnunar eða brotaþola.
    Ef brot eru meiri háttar er Póst- og fjarskiptastofnun skylt að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiriháttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Póst- og fjarskiptastofnun á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
    Varði brot á lögum þessum bæði refsiábyrgð fyrir einstakling og lögaðila metur Póst- og fjarskiptastofnun, með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða, hvort mál skuli kært til lögreglu að hluta eða í heild.
    Með kæru stjórnvalds skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda ekki um ákvörðun um að kæra mál til lögreglu.
    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent mál sem varðar brot á lögum þessum og gögn því tengd til Póst- og fjarskiptastofnunar til meðferðar og ákvörðunar.

105. gr.

Réttur manna til að fella ekki á sig sök.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur sá sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Póst- og fjarskiptastofnun skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

XVI. KAFLI

Gildistaka o.fl.

106. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

107. gr.

Innleiðing.

    Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 frá 11. desember 2018 um setningu evrópskra reglna um fjarskipti og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1971 frá 11. desember 2018 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC) og stofnun til að styðja við BEREC-hópinn (BEREC-skrifstofu), með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XI. viðauka við EES-samninginn, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins.

108. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021. Samhliða falla úr gildi lög um fjarskipti, nr. 81/2003.

109. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003:
     a.      Í stað orðanna „og stjórnar hann rekstri hennar“ í 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Hann skal hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi og búa yfir viðeigandi þekkingu og reynslu. Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi og rekstri Póst- og fjarskiptastofnunar, mótar áherslur, skipulag, verkefni og starfshætti og annast daglega stjórn stofnunarinnar.
     b.      Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
                  1.      Við 2. tölul. 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: leggja aðeins kvaðir á aðila fyrir fram að því marki sem nauðsynlegt er til að tryggja virka og varanlega samkeppni í þágu endanotenda og draga úr eða aflétta slíkum kvöðum um leið og það skilyrði er uppfyllt.
                  2.      Við 3. tölul. 1. mgr. bætast þrír nýir stafliðir, svohljóðandi:
                      g.      gæta að tæknilegu hlutleysi fjarskiptavirkja og fjarskiptaþjónustu,
                      h.      stuðla að hagkvæmum fjárfestingum og nýsköpun í nýjum og endurbættum grunnvirkjum; þar á meðal með því að tryggja að við álagningu kvaða um aðgang sé tekið viðeigandi tillit til þeirrar áhættu sem tekin er með fjárfestingu og stuðla að samstarfi við útbreiðslu neta, án þess að raska samkeppni,
                      i.      taka hæfilegt tillit til hugsanlegra mismunandi skilyrða til innviðasamkeppni og aðstöðu neytenda á ólíkum landsvæðum.
                  3.      Í stað orðsins „neytenda“ í b-lið 4. tölul. 1. mgr. kemur: réttinda endanotenda.
                  4.      Við 6. tölul. 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Póst- og fjarskiptastofnun skal í rekstraráætlun vegna hvers starfsárs gera ráð fyrir fullnægjandi fjármagni og mannauði til virkrar þátttöku í alþjóðasamstarfi.
                  5.      Í stað orðsins „Samkeppnisstofnun“ í 2. mgr. kemur: Samkeppniseftirlitið.
     c.      Á eftir 3. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 3. gr. a og 3. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
                  1.      (3. gr. a.)

Gagnagrunnur almennra fjarskiptaneta.

                      Póst- og fjarskiptastofnun skal halda stafrænan gagnagrunn um almenn fjarskiptanet. Í gagnagrunninn skal skrá upplýsingar um staðsetningu og tæknilega eiginleika almennra fjarskiptaneta, bæði um virka og óvirka kerfishluta. Trúnaður skal ríkja um upplýsingar sem skráðar eru í gagnagrunninn, sbr. þó 4.–5. mgr.
                      Skylt er að veita Póst- og fjarskiptastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til skráningar í gagnagrunninn og gerð útbreiðsluspár á því formi sem stofnunin ákveður. Póst- og fjarskiptastofnun getur sett reglur um samræmda skráningu upplýsinga af hálfu fjarskiptafyrirtækja og búið til sniðmát fyrir upplýsingasöfnun sem þau skulu notast við.
                      Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að hagnýta upplýsingar í gagnagrunninum í starfsemi sinni, m.a. vegna:
                      a.      eftirlits með virkni, öryggi og heildstæði fjarskiptaneta,
                      b.      aðgerða til að finna og koma í veg fyrir skaðlegar fjarskiptatruflanir,
                      c.      gerðar korta um útbreiðslu og útbreiðsluspár fjarskiptaneta og -þjónustu,
                      d.      greiningar á markaðsbresti vegna ríkisaðstoðar,
                      e.      greiningar á samkeppni á fjarskiptamörkuðum,
                      f.      athugunar á samlegðartækifærum og samnýtingu fjarskiptainnviða.
                      Heimilt er að nýta upplýsingar í gagnagrunninum í stefnumótun á sviði fjarskipta. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að veita öðrum viðeigandi stjórnvöldum aðgang að gagnagrunninum, að hluta eða öllu leyti, til þess að vinna að verkefnum og uppfylla skyldur sínar á sviði almannavarna, lýðheilsu, skipulags- og umhverfismála. Falli til kostnaður við að koma slíkum aðgangi á skal hann borinn af því stjórnvaldi sem hans óskar.
                      Heimilt er að opna fyrir takmarkaðan aðgang almennings að gagnagrunninum, t.a.m. um tengingar á mismunandi svæðum. Þó skal takmarka aðgengi að upplýsingum ef það er nauðsynlegt í ljósi öryggis neta og áreiðanleika þeirra, þjóðaröryggis, lýðheilsu eða öryggis almennings, trúnaðarkvaða, réttmætra samkeppnishagsmuna og rekstrar- og viðskiptaleyndarmála. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um aðgengi og birtingu upplýsinga í gagnagrunninum og takmarkanir á aðgengi.
                      Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt á grundvelli sérstaks þjónustusamnings að fela óháðum aðila að hýsa og reka gagnagrunninn séu viðeigandi kröfur um öryggi upplýsinga uppfylltar.
                  2.      (3. gr. b.)

Gerð útbreiðsluspár háhraðaneta.

                      Póst- og fjarskiptastofnun skal vinna heildstætt útbreiðslukort fyrir háhraðanet á a.m.k. þriggja ára fresti. Þá getur stofnunin unnið svæðisbundna útbreiðsluspá fyrir háhraðanet. Leiði útbreiðsluspá í ljós að ekkert fjarskiptafyrirtæki eða opinber aðili hyggist leggja slíkt net, eða uppfæra net sín, á tilteknu svæði innan ákveðinna tímamarka skal stofnunin birta þær niðurstöður.
                      Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að bjóða aðilum að lýsa yfir áformum um uppbyggingu eða uppfærslu neta skv. 1. mgr. á viðkomandi svæði innan umræddra tímamarka. Berist Póst- og fjarskiptastofnun slík yfirlýsing getur stofnunin kannað hvort aðrir aðilar hafi áform um slíka uppbyggingu á viðkomandi svæði. Stofnunin skal í boðum sínu tilgreina þær upplýsingar sem fylgja skulu yfirlýsingum aðila.
                      Póst- og fjarskiptastofnun skal afhenda, að gættum trúnaði, hlutaðeigandi stjórnvöldum sem fara með úthlutun opinbers fjármagns til útbreiðslu háhraðaneta og gerð svæðisbundinna áætlana yfirlýsingar um áform skv. 2. mgr. enda ber þeim að taka tillit til upplýsinga skv. 3. gr. a og ákvæði þessu. Þá skal Póst- og fjarskiptastofnun taka mið af ákvæði þessu við framkvæmd verkefna sinna á sviði tíðniúthlutana og alþjónustu.
     d.      Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
                  1.      Við c-lið 2. mgr. bætist: svo og í því skyni að stuðla að skilvirkri notkun og stýringu á fjarskiptatíðnirófi og númeraforða í samræmi við ákvæði laga um fjarskipti.
                  2.      Við e-lið 2. mgr. bætist: eða vegna þátttöku í alþjóðasamstarfi, t.d. í samanburðarrannsóknum eða úttektum.
                  3.      Við f-lið 2. mgr. bætist: og.
                  4.      Við 2. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: í tengslum við landfræðilegar kannanir á útbreiðslu fjarskiptaneta.
                  5.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Upplýsingar sem afhentar eru Póst- og fjarskiptastofnun skv. 1. og 2. mgr. skulu vera réttar, fullnægjandi og uppfærðar.
                  6.      Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Sem hluta af eftirliti er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að krefjast upplýsinga og gagna um skipulag net- og upplýsingaöryggis sem að mati stofnunarinnar eru nauðsynleg vegna framkvæmdar eftirlits, þ.m.t. reglubundinnar skýrslugjafar. Póst- og fjarskiptastofnun getur kallað til skýrslugjafar einstaklinga sem það telur búa yfir upplýsingum um tiltekið mál.
     e.      Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
                  1.      Á eftir orðunum „rétt til umsagnar“ í 1. málsl. kemur: innan hæfilegra tímamarka sem skal ekki vera skemmri en 30 dagar, nema í undantekningartilvikum. Niðurstöður samráðsferlis skulu vera aðgengilegar öllum að því marki sem ekki er um upplýsingar að ræða sem háðar eru þagnarskyldu lögum samkvæmt.
                  2.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Tilhlýðilegt tillit skal taka til neytenda, ekki síst fatlaðs fólks, við ákvarðanir um málefni sem tengjast réttindum endanotenda að því er varðar fjarskiptaþjónustu sem skal vera aðgengileg öllum. Í reglum skv. 1. mgr. má kveða á um samráðsfyrirkomulag sem er aðgengilegt endanotendum með fötlun.
     f.      Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
                  1.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Póst- og fjarskiptastofnun skal haga eftirliti sínu með tilliti til fyrirsjáanleika með því að tryggja samræmdar eftirlitsaðferðir og endurmeta þær reglubundið að teknu tilliti til þróunar viðurkenndra viðmiða um bestu framkvæmd.
                  2.      Á eftir 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Póst- og fjarskiptastofnun skal árlega senda yfirlitsskýrslu til Eftirlitsstofnunar EFTA og Netöryggisstofnunar Evrópu (ENISA) um tilkynnt öryggisatvik og meðhöndlun þeirra, skv. 80. gr. laga um fjarskipti.
                      Ráðherra skal í reglugerðum kveða nánar á um aðild Póst- og fjarskiptastofnunar að Evrópskum hópi eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC) og Netöryggisstofnun Evrópu (ENISA).
     g.      Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
                  1.      Á eftir orðunum „sem reka almenn fjarskiptanet eða veita almenna fjarskiptaþjónustu eða“ í 1. mgr. kemur: aðstöðu eða.
                  2.      3. mgr. verður svohljóðandi:
                      Ef deila milli fjarskiptafyrirtækis á Íslandi og fjarskiptafyrirtækis í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, um annað en úthlutun tíðniréttinda, hefur áhrif á viðskipti milli ríkja, skal Póst- og fjarskiptastofnun viðhafa samráð um lausn deilunnar í samræmi við skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Póst- og fjarskiptastofnun getur samþykkt tímabundnar ráðstafanir í undantekningartilvikum, hvort heldur að beiðni aðila eða að eigin frumkvæði, þar sem nauðsynlegt er að bregðast við með skjótum hætti til að standa vörð um samkeppni eða vernda hagsmuni endanotenda. Málsmeðferð samkvæmt þessari grein skal ekki koma í veg fyrir að deila verði borin undir dómstóla.
     h.      Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
                  1.      Í stað orðanna „eða póstrekandi“ í 1. málsl. kemur: póstrekandi, annar lögaðili eða einstaklingur.
                  2.      Á eftir orðunum „skilyrðum sérstakra réttinda“ í 1. málsl. kemur: bindandi fyrirmælum.
     i.      Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
                  1.      Í stað orðanna „fullnægja hæfisskilyrðum hæstaréttardómara“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: hafa lögmannsréttindi og búa yfir reynslu sem nýtist við úrlausn kærumála í fjarskipta- og póstmálum.
                  2.      Orðin „enda liggi fyrir samþykki ráðherra“ í 2. málsl. 3. mgr. falla brott.
                  3.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Reglubundið og að minnsta kosti einu sinni á ári skal Póst- og fjarskiptastofnun birta samantekt um fjölda og almennt inntak kæra skv. 1. mgr., lengd málsmeðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og fjölda úrskurða sem heimila tímabundnar ráðstafanir. Samantektina má birta í ársskýrslu skv. 15. gr.
     j.      Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
                  1.      Á eftir 1. málsl. 4. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Rekstrargjald skal standa straum af kostnaði við eftirlit með starfsemi á sviði fjarskipta og póstþjónustu og samanlagt taka til kostnaðar sem hlýst af stjórnun, eftirliti og framkvæmd laga um fjarskipti og póstþjónustu.
                  2.      Í stað orðsins „starfsheimild“ í 9. mgr. kemur: skráningu.
                  3.      Á eftir orðunum „samkvæmt þessari grein“ í 13. mgr. kemur: og skv. 14. gr. a.
     k.      Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
                  1.      Á eftir orðunum „um starfsemi sína“ í 1. málsl. kemur: þar á meðal ákvarðanir og málsmeðferðartíma, mönnun, nýtingu fjárheimilda, ráðstöfun rekstrargjalda og framtíðarsýn.
                  2.      Á eftir orðunum „Í skýrslunni skal“ í 2. málsl. kemur: fjallað um stöðu póst- og fjarskiptamarkaðar á hverjum tíma.

Ákvæði til bráðabirgða

I.

    Reglur og reglugerðir samkvæmt lögum þessum skal setja svo fljótt sem kostur er. Þar til þær hafa verið staðfestar skulu þær reglur og reglugerðir, sem nú gilda um þau mál er lög þessi taka til, vera í fullu gildi, enda brjóti ákvæði þeirra eigi í bága við ákvæði laga þessara.

II.

    Fjarskiptafyrirtæki sem hafa verið tilkynnt til Póst- og fjarskiptastofnunar og skráð í tíð eldri laga um fjarskipti skulu halda skráningu sinni við gildistöku laga þessara.

III.

    Öllum kvöðum, sem lagðar hafa verið á fjarskiptafyrirtæki skv. VII. kafla laga um fjarskipti nr. 81/2003 og eru í gildi við gildistöku laga þessara, skal viðhaldið þar til endurskoðun kvaðanna hefur farið fram að lokinni markaðsgreiningu.

IV.

    Við úthlutun eða endurnýjun tíðniréttinda fram til 1. júlí 2023 skal taka eftirfarandi gjöld:
     a.      3.500.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz af tíðnisviði á 880–915 og 925–960 MHz-tíðnisviðunum,
     b.      1.000.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz af tíðnisviði á 1710–1785/1805–1880 MHz og 1920–1980/2110–2170 MHz-tíðnisviðunum,
     c.      350.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz af tíðnisviði á 3,4–3,8 GHz-tíðnisviðinu.
    Gjaldið miðast við að tíðniréttindin séu gefin út til 20 ára. Sé tíðniréttindum úthlutað til skemmri tíma skal greiða hlutfallslega í samræmi við það. Gjaldið greiðist í fjarskiptasjóð.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta var samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í samstarfi við Póst- og fjarskiptastofnun. Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði hér á landi efnisákvæði tilskipunar (ESB) 2018/1972 frá 11. desember 2018 um setningu evrópskra reglna um fjarskipti (e. European Electronic Communications Code Directive eða EECC-tilskipunin), sem stundum er vísað til sem „Kóðans“. Um er að ræða nýja grunngerð, þ.e. uppfærðar meginefnisreglur á fjarskiptamarkaði (e. recast), sem leysir af hólmi fjórar eldri gerðir. Gildistaka tilskipunarinnar miðast við desember 2020 í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að lögfest verði heimild til að innleiða reglugerð (ESB) nr. 2018/1971 frá 11. desember 2018 um Evrópskan hóp eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (e. Body of European Regulators for Electronic Communications eða BEREC) og skrifstofu honum til stuðnings (e. Agency for Support for BEREC eða BEREC Office). Stoð verði með öðrum orðum sett fyrir setningu reglugerðar af hálfu ráðherra á grundvelli nýrra fjarskiptalaga, verði frumvarp þetta samþykkt, til innleiðingar á BEREC-reglugerðinni. BEREC-reglugerðin leysir af hólmi gildandi reglur um hóp evrópskra eftirlitsaðila á sviði fjarskipta, auk þess sem hún felur í sér breytingar á svonefndri TSM-reglugerð (ESB) nr. 2015/2120 (e. Telecom Single Market Regulation). BEREC er ráðgefandi og stefnumótandi samstarfsvettvangur sem ætlað er að stuðla að samræmdri innleiðingu og framkvæmd samevrópsks regluverks á fjarskiptamarkaði, svo sem með útgáfu leiðbeininga og ráðgjöf. Reglugerðin hefur þegar öðlast gildi í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Í daglegu tali er vitnað til EECC-tilskipunarinnar og BEREC-reglugerðarinnar sem fjarskiptapakka Evrópusambandsins frá 2018.
    Samhliða samningu þessa frumvarps hefur verið unnið að undirbúningi upptöku tilskipunarinnar (ESB) 2018/1972 og reglugerðar (ESB) 2018/1972, um Evrópskan hóp eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC), þ.e. á svonefndum fjarskiptapakka ESB frá 2018. Samningaviðræður EFTA-ríkjanna innan EES við Evrópusambandið um útfærslu aðlögunar vegna upptöku fjarskiptapakkans í samninginn, einkum vegna valdheimilda stjórnar BEREC, eru langt komnar og yfirstandandi samráðsferli gagnvart Alþingi í samræmi við 5. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála. Vísast jafnframt til skýringa í köflum 2 og 3.8 í greinargerðinni.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að ný lög um fjarskipti öðlist gildi 1. janúar 2021 og að samhliða falli lög um fjarskipti, nr. 81/2003, úr gildi. Vegna innleiðingar EECC-tilskipunarinnar reyndist jafnframt þörf á að endurskoða ákvæði gildandi laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, og eru því lagðar til breytingar á þeim með frumvarpinu.
    Heildarendurskoðun fjarskiptalöggjafar kallar á endurmat gildandi reglna og reglugerða svo og setningu nýrra reglna og reglugerða. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu svo fljótt sem kostur er, fyrir gildistöku nýrra laga. Ljóst má vera að nánari leiðbeiningar og viðmið um bestu framkvæmd regluverks á sviði fjarskipta munu þróast áfram, samhliða frekari tækniþróun. Brýnt er að tryggja virka þátttöku af Íslands hálfu á vettvangi BEREC og Evrópsks stefnuhóps um fjarskiptatíðniróf (e. Radio Spectrum Policy Group eða RSPG), svo og á vettvangi EFTA og framkvæmdastjórnar ESB, eftir því sem við á, ef vel á að takast til í virkri og viðeigandi stefnumótun og framkvæmd á hverjum tíma.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Gildandi íslensk fjarskiptalöggjöf byggir á samevrópsku regluverki, einkum tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2002/19/EB (aðgangs- og samtengingartilskipunin), 2002/20/EB (heimildatilskipunin), 2002/21/EB (rammatilskipunin), 2002/22/EB (alþjónustutilskipunin) og 2002/58/EB (tilskipun um persónuvernd í fjarskiptum), svo og ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 676/2002 um tíðnimál. Tilskipun (ESB) 2018/1972 leysir fjórar fyrstnefndu tilskipanirnar af hólmi. Stofnanir Evrópusambandsins hafa unnið að endurnýjun tilskipunar 2002/58/EB og liggur fyrir tillaga að reglugerð þar um en hún er enn ósamþykkt.
    Á sameiginlegum innri markaði Evrópu er rík áhersla lögð á einsleitni og samræmingu af hálfu bæði stofnana Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna sem aðild eiga að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Því er brýnt að uppfæra gildandi efnisreglur á sviði fjarskipta og tryggja viðeigandi framkvæmd þeirra hér á landi. Allverulegar breytingar urðu á evrópsku fjarskiptaregluverki (þ.m.t. framangreindum tilskipunum) árið 2009 en þær breytingar voru ekki teknar upp í EES-samninginn eða innleiddar að fullu efnislega hér á landi. Skýrist sú staða einkum af ágreiningi um útfærslu tveggja stoða aðlögunar gagnvart EFTA-ríkjunum innan EES vegna valdheimilda stjórnar BEREC, en nú er unnið að undirbúningi upptöku nýja fjarskiptapakkans í EES-samninginn og þar með farsælli úrlausn tveggja stoða álitaefnisins (sjá nánari umfjöllun í kafla 3.8.).
    Með frumvarpinu er lagt til að löggjöf hér á landi verði til færð til samræmis við nýendurnýjað samevrópskt regluverk á sviði fjarskipta og að fyrirsjáanlegar skuldbindingar íslenska ríkisins að þjóðarétti verði þar með uppfylltar tímanlega. Gildandi íslensk fjarskiptalöggjöf er komin nokkuð til ára sinna, með vísan til framfara tækni og þjónustu, en mikilvægt er að gildandi löggjöf á hverjum tíma fylgi þróuninni. Að einhverju leyti gefa ákvæði tilskipunar (ESB) 2018/1972 svigrúm til útfærslu við innleiðingu í landsrétt, en það er þó mjög takmarkað.
    Meginmarkmið EECC-tilskipunarinnar eru skv. 1. gr. hennar tvíþætt: a) að hrinda í framkvæmd innri markaði fyrir fjarskiptanet og -þjónustu sem mun leiða til útbreiðslu og upptöku neta með mjög mikla flutningsgetu (þ.e. háhraðaneta), sjálfbærrar samkeppni, rekstrarsamhæfi fjarskiptaþjónustu, aðgengileika, öryggis neta og þjónustu og ávinnings fyrir endanotendur, og b) að tryggja að í Evrópu sé framboð af hágæðaþjónustu sem er öllum aðgengileg á viðráðanlegu verði fyrir tilstuðlan virkrar samkeppni og valkosta og bregðast við aðstæðum þar sem markaðurinn uppfyllir ekki þarfir endanotenda með fullnægjandi hætti, þ.m.t. fatlaðs fólks, svo það hafi aðgang að þjónustu til jafns við aðra, og mæla fyrir um nauðsynleg réttindi endanotenda.
    Í þingsályktun nr. 31/149 um fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019–2023 (sjá þskj. 1687, 403. mál á 149. lögþ. 2018–2019) og þingsályktun nr. 32/149 um stefnu í fjarskiptum fyrir árin 2019–2033 (þskj. 1688, 404. mál á 149. lögþ. 2018–2019) eru sett fram skýr markmið um aðgengileg, greið, örugg, hagkvæm og skilvirk fjarskipti. Á meðal skilgreindra verkefna fimm ára fjarskiptaáætlunar, til að ná markmiði um hagkvæmni og skilvirkni í fjarskiptum, er að innleiða nýtt heildarregluverk í fjarskiptum svo fljótt sem kostur er. Enn fremur er áhersla lögð á að uppfærsla regluverks á fjarskiptamarkaði stuðli að framförum, fjárfestingum, samkeppni, hagkvæmni, samnýtingu og neytendavernd. Þá má þess geta að markmið íslenskra stjórnvalda er að fjarskiptaregluverk styðji m.a. við skynsamlega og hagkvæma uppbyggingu innviða fyrir 5G-net og -þjónustu á Íslandi (sjá nánari umfjöllun í kafla 3.1.).

3. Meginefni frumvarpsins.
    Verði frumvarpið að lögum leysir það af hólmi gildandi fjarskiptalög, nr. 81/2003. Tilskipun (ESB) 2018/1972 geymir ýmis nýmæli og er þar að auki mun ítarlegri en eldri gerðir, þar af leiðandi þótti hagkvæmast og skilvirkast að leggja til heildarendurskoðun laganna. Kaflaskipting frumvarpsins er sem hér segir, en gert er ráð fyrir að ákvæði þess verði útfærð nánar í reglugerðum:
        I. kafli – Markmið og gildissvið.
        II. kafli – Stjórn fjarskiptamála.
        III. kafli – Orðskýringar.
        IV. kafli – Heimild til fjarskiptastarfsemi.
        V. kafli – Skipulag tíðnirófsins og úthlutun tíðna.
        VI. kafli – Númer og kóðar.
        VII. kafli – Fjarskiptabúnaður.
        VIII. kafli – Aðgangur og samtenging.
        IX. kafli – Markaðir, markaðsgreiningar og álagning kvaða.
        X. kafli – Alþjónusta.
        XI. kafli – Skilmálar, gjaldskrár, gæði og neytendavernd.
        XII. kafli – Öryggi upplýsinga, fjarskiptaneta og -þjónustu, netöryggissveit.
        XIII. kafli – Friðhelgi einkalífs, fjarskiptaleynd, aðstoð við rannsókn sakamála o.fl.
        XIV. kafli – Aðgangur að neyðarþjónustu, fjarskipti á hættutímum.
        XV. kafli – Fyrirmæli og afturköllun, stjórnvaldssektir og viðurlög.
        XVI. kafli – Gildistaka, breytingar á öðrum lögum o.fl.
        Fjögur ákvæði til bráðabirgða (I–IV).
    Taka ber fram að ýmis ákvæði gildandi fjarskiptalaga, nr. 81/2003, eiga rætur að rekja til annarra gerða ESB á sviði fjarskipta sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn og gilda munu samhliða nýja fjarskiptapakkanum. Í greinargerð með ákvæðum frumvarpsins er uppruna einstakra ákvæða gerð skil.
    Tilskipun (ESB) 2018/1972 er uppfærsla (e. recast) á eldri gerðum. Hún leysir með öðrum orðum af hólmi eldri grundvallartilskipanir um fjarskipti og felur í sér allnokkrar breytingar á gildandi efnisreglum. Eitt meginmarkmið tilskipunarinnar, til viðbótar markmiðum um virka samkeppni og aðgengi notenda að fjarskiptaþjónustu á viðráðanlegu verði og fullnægjandi gæðum, er að stuðla að útbreiðslu háhraðaneta. Undirliggjandi eru markmið um skjóta og hagkvæma uppbyggingu á 5G-kerfum í Evrópu sem verða grunnstoðin fyrir fjórðu iðnbyltinguna og hlutanetið (e. Internet of Things, IoT). Til viðbótar nýlegum lögum um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta (CRD), nr. 125/2019, sem ná aðeins til grunnvirkja sem eru hluti af einhver konar neti, gerir frumvarp þetta ráð fyrir frekari nýmælum sem tengjast aðgangsúrræðum fyrir háhraðanet. Sjá nánari umfjöllun í kafla 3.2. Áhersla er lögð á að auðvelda og tryggja aðgengi að farnetstíðnum til uppbyggingar 5G-farneta. Fyrirhugað er að setja nánari reglur, á grundvelli tilskipunar (ESB) 2018/1972, til að einfalda aðgengi að aðstöðu til að setja upp senda enda fyrirséð að fjölga þurfi sendastöðum vegna 5G-væðingar til muna.
    Hvatt er til samstarfs markaðsaðila og sameiginlegra fjárfestinga við uppbyggingu innviða og tilteknum ívilnunum heitið þeim sem byggja upp innviði. Fyrirtækjum sem eingöngu selja aðgang að innviðum í heildsölu og starfa ekki á smásölustigi má segja að sé ívilnað á þann hátt að á slík fyrirtæki er ekki unnt að leggja eins íþyngjandi kvaðir og á lóðrétt samþætt fjarskiptafyrirtæki.
    Aðferðafræði við skilgreiningu markaða og greiningu á samkeppnisstöðu á þeim er í grundvallaratriðum óbreytt og byggir að verulegu leyti á aðferðafræði samkeppnisréttar og dómaframkvæmd á því sviði. Af nýjum áherslum tilskipunar (EBS) 2018/1972 má nefna að aukin áhersla er á að skoða tengda smásölumarkaði; horfa ber til stöðu á smásölumörkuðum áður en ákvörðun er tekin um beitingu heildsölukvaða. Nýmæli er að kveða á um tímafresti til að ljúka markaðsgreiningum. Efnisákvæði er varða álagningu kvaða eru meiri að umfangi en í gildandi fjarskiptalögum en mörg þeirra snúast þó um einföldun og er ætlað að draga úr fjölda álagðra kvaða og flækjustigi við málsmeðferð. Ný kvöð bætist við sem felst í því að Póst- og fjarskiptastofnun getur, ef aðrar kvaðir hafa ekki reynst fullnægjandi (svo sem um aðgang að mannvirkjum/lagnaleiðum, netum/þjónustu), kveðið á um aðskilnað rekstrareininga lóðrétt starfandi fyrirtækis sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk. Þá skal fjarskiptafyrirtækjum með umtalsverðan markaðsstyrk samkvæmt tilskipun (EBS) 2018/1972 gefast kostur á að leggja fram tilboð um skuldbindingar varðandi sameiginlegar fjárfestingar, aðskilnað starfsemi og almennar kvaðir og geta slík tilboð leitt til þess að kvöðum verði létt af fyrirtækjunum að einhverju leyti.
    Tilskipunin gerir ráð fyrir að heildsöluverð fyrir lúkningu símtala og SMS verði ákveðið fyrir allt Evrópska efnahagssvæðið og því verður óþarft fyrir Póst- og fjarskiptastofnun að framkvæma greiningu á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu og taka ákvörðun um verð sem mun einfalda stjórnsýslu á þessu sviði verulega.
    Þessu tengt er vert að nefna að BEREC-reglugerðin kveður á um hámarks smásöluverð á millilandasímtölum og SMS innan EES, þ.e. viðbót við þegar gildandi ákvæði um hámarksverð fyrir reiki á EES.
    Allnokkur ákvæði tilskipunarinnar fjalla um samræmingu milli ríkja á EES við skipulag fjarskiptatíðnirófs og stjórnun tíðnimála. Áhersla er lögð á að öll ríki innan EES vinni með samræmdum hætti og á sama tíma að úthlutun farnetstíðna. Tilskipun (ESB) 2018/1972 gerir ráð fyrir fyrirsjáanleika til 20 ára að því er gildistíma tíðniréttinda varðar, þó má úthluta til skemmri tíma en að lágmarki til 15 ára. Með frumvarpinu er lagt til að opnað verði á framsal og leigu tíðniheimilda milli markaðsaðila.
    Tilskipunin geymir ný ákvæði um eftirlit og stofnanafyrirkomulag á fjarskiptamarkaði. Hér á landi verður einkum nýjung í því samhengi ítarleg viðurlagaákvæði og -heimildir til Póst- og fjarskiptastofnunar en samkvæmt gildandi lögum getur stofnunin einungis lagt á dagsektir en hefur ekki almenna heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á fjarskiptalögum.
    Loks má nefna að neytendavernd er í brennidepli í tilskipuninni. Áhersla er t.d. lögð á aukið aðgengi að upplýsingum og samanburði á verði og gæðum fjarskiptaþjónustu, svo og stöðlun viðskiptaskilmála.
    Tilskipun (ESB) 2018/1972 mun koma til framkvæmda innan ESB í desember 2020 og þurfa aðildarríkin að hafa innleitt hana fyrir þann tíma. Með frumvarpi þessu er lagt til að gildistaka nýrra fjarskiptalaga verði í ársbyrjun 2021 en undirbúningur fyrir upptöku nýja fjarskiptapakkans í EES-samninginn stendur nú yfir.
    Ítarlega er fjallað um einstök ákvæði frumvarpsins í greinargerð þessari. Hér verður auk þess vikið nánar að eftirtöldum atriðum: 5G-þjónustu (3.1.), hvötum til uppbyggingar á háhraðanetum (3.2.), eftirliti með samkeppni á fjarskiptamarkaði (3.3.), nýjum áherslum við framkvæmd markaðsgreininga (3.4.), fjarskiptaleynd og friðhelgi einkalífs á sviði fjarskipta (3.5.), viðurlögum (3.6.), gjaldtöku fyrir tíðniafnot (3.7.) og tveggja stoða aðlögun (3.8.).

3.1. 5G-þjónusta.
    5G er fimmta kynslóð farsímakerfa og fylgir í kjölfar 2G, 3G og 4G og þeirri tækni sem þær kynslóðir byggðu á (þ.e. GSM, UMTS, LTE, LTE Advanced og fleiri). Bæði 5G og 4G eru IP-tækni sem gerir það að verkum að hefðbundin rásatengd símtöl munu heyra sögunni til og verða eingöngu flutt sem IP-símtöl. Megintilgangur 5G-neta er að þjóna hlutanetinu auk þess að bjóða enn hraðvirkari internetþjónustu fyrir snjalltæki. Helstu nýjungar í 5G-tækninni eru enn meiri gagnaflutningshraði, aukin flutningsgeta kerfanna ásamt mun styttri tengitíma. Önnur tækni sem notuð er í 5G til að auka gagnahraðann er svokölluð fjölvun (e. Multiple Input, Multiple Output eða MIMO). Hver sendir verður með mörg loftnet í samskiptum við endabúnaðinn sem einnig er með mörg loftnet innbyggð til móttöku og sendingar á gagnastraumum. Þannig eru margir gagnastraumar sendir samtímis og samhliða og þannig næst mun meiri gagnahraði. 5G mun einnig nota stefnumiðað merki (e. beamforming), tækni sem er stefnumiðuð sending til endanotenda (nokkurs konar ljósleiðari í lofti). Þannig verður merkið fyrir minni truflunum og tapar minni orku á leiðinni. 5G mun geta stutt allt að milljón tæki á km 2 en til samanburðar styður 4G 100 þúsund tæki á km2.
    5G mun í byrjun nýta tíðnisvið sem þegar hefur verið úthlutað og ný tíðnisvið undir 6 GHz. Til lengri tíma litið verður tíðnum á mun hærri tíðnisviðum ráðstafað, t.d. á 26 GHz og enn ofar. Eiginleikar senda á háum tíðnisviðum eru með þeim hætti að afköstin eru mjög mikil (vegna meiri bandbreiddar) en drægnin afar takmörkuð, tugir eða nokkur hundruð metrar. Á móti kemur að sendarnir verða minni um sig, nota minni straum og geta nýst fyrir áðurnefndar lausnir eins og MIMO og stefnumiðuð merki.
    Farnetskerfi á háum tíðnisviðum eru því aðallega ætluð í byggð og þar sem búast má við atvinnustarfsemi eða mannaferðum í einhverjum mæli, t.d. á þjóðvegakerfinu (þar sem nettengd tæki eru til staðar og ná þarf verulegum afköstum í kerfunum). Til að ná útbreiðslu með hárri tíðni þarf mjög þétt sendanet tiltölulega lítilla senda.
    Mikilvægt er að hið opinbera hugi að aðgerðum til að styðja viðleitni markaðsaðila um að þróa nýja þjónustu og þá grunninnviði sem þarf til að veita nýja þjónustu, helst á landsvísu. Helstu verkefni stjórnvalda eru að skilgreina í hverju markaðsbrestur felst í samhengi við 5G og fjórðu iðnbyltinguna, setja nauðsynlegt regluverk og stuðla að skynsamlegri uppbyggingu innviða fyrir 5G, þ.m.t. að huga að samnýtingu sendastaða og sendabúnaðar eftir atvikum þar sem við á.
    Flest heimili og vinnustaðir landsins hafa aðgang að hraðvirkum tengingum í dag og fyrirséð er að Ísland verði gígabita-samfélag um miðjan næsta áratug. Jaðar ljósleiðaranetanna teygir sig nær alls staðar þar sem fólk býr eða atvinna er stunduð. Þetta gefur kost á að tengja háhraða farnet, t.d. 5G, við mjög hraðvirkt stofnnet víða um landið.
    Með nýrri tækni opnast nýir möguleikar á þjónustu. Með innleiðingu 4G/LTE-tækninnar og áfram í 5G opnuðust möguleikar á að bjóða einangruð net (sýndarnet) í kerfum netrekenda með svokölluðum netsneiðum (e. network slicing). Talið er að mikil þörf verði fyrir slíkar lausnir, sérstaklega vegna fjórðu iðnbyltingarinnar og þeirrar þjónustu sem þar verður til, t.d. iðntæknistýring, sjálfkeyrandi bílar, öryggisfjarskipti o.fl. Þá eru einnig að ryðja sér til rúms víða um heim svokölluð LTE-einkanet (e. private LTE networks) sem nýta sér m.a. opin tíðnisvið (ekki leyfisskyld, t.d. 5GHz) og samnýtingu/deilingu leyfisskyldrar tíðni.

3.2. Hvatar til uppbyggingar á háhraðanetum.
    Nýtt samevrópskt fjarskiptaregluverk hefur það sem eitt meginmarkmið sitt að stuðla að útbreiðslu háhraðaneta. Bætist þetta meginmarkmið við markmið um að skapa og viðhalda virku samkeppnisumhverfi í fjarskiptum á Evrópska efnahagssvæðinu og tryggja notendum aðgengi að fjarskiptaþjónustu á viðráðanlegu verði og fullnægjandi gæðum. Markmið um uppbyggingu háhraðaneta er ekki síst til komið til að greiða fyrir hraðri og hagkvæmri uppbyggingu á 5G-kerfum í Evrópu, sem verður grunnstoðin fyrir fjórðu iðnbyltinguna og hlutanetið. Sú tækni mun óhjákvæmilega kalla á umtalsverðar fjárfestingar á komandi árum, bæði í farnetum og ljósleiðaranetum. Enn er margt óljóst varðandi uppbyggingu 5G, viðskiptalíkön þjónustunnar og hvaða kröfur verða gerðar til útbreiðslu og gæða.
    Í regluverkinu er áhersla lögð á sjálfbæra samkeppni og hvata fyrir markaðsaðila til að byggja upp fjarskiptainnviði og þá sérstaklega ljósleiðara og 5G-farnet. Ýmis ný ákvæði regluverksins lúta beinlínis að þessu. Nýjar áherslur eru mótaðar varðandi ferli markaðsgreininga. Horfa ber til stöðu á smásölumörkuðum áður en ákvörðun er tekin um beitingu heildsölukvaða. Umræddum heildsölukvöðum er þá ætlað að leysa samkeppnisvandamál á undirliggjandi smásölumarkaði. Greinist ekki samkeppnisvandamál á smásölumarkaði kemur ekki til álagningar kvaða á tengdum heildsölumörkuðum. Jafnframt er lögð áhersla á aðgang að efnislegum grunnvirkjum fjarskiptafélaga til að greiða fyrir innviðasamkeppni. Hvatt er til samstarfs markaðsaðila og sameiginlegra fjárfestinga við uppbyggingu innviða og tilteknum ívilnunum heitið þeim sem byggja upp innviði. Fyrirtækjum sem eingöngu selja aðgang að innviðum í heildsölu og starfa ekki á smásölustigi má segja að sé ívilnað á þann hátt að á slík fyrirtæki er ekki unnt að leggja eins íþyngjandi kvaðir og á lóðrétt samþætt fjarskiptafyrirtæki. Ef ofangreind úrræði duga ekki er áfram stuðst við markaðsgreiningar samkvæmt hefðbundinni aðferðafræði fjarskiptaregluverksins.
    Með samþykkt laga um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta, nr. 125/2019, hefur verið greitt fyrir aðgangi að ýmiss konar grunnvirkjum veitufyrirtækja, þ.m.t. fjarskiptafyrirtækja, í þeim tilgangi að auðvelda uppbyggingu háhraðaneta. Með frumvarpi þessu eru lögð til frekari nýmæli er tengjast aðgangsúrræðum fyrir háhraðanet. Í fyrsta lagi er hægt að kveða á um samnýtingu aðstöðu í ákveðnum tilvikum þegar fjarskiptafyrirtæki hefur nýtt sér rétt til að fá aðgang að eign þriðja aðila og eru heimildir í þeim efnum nokkuð auknar. Þá er Póst- og fjarskiptastofnun heimilað að leggja kvaðir á eigendur innanhússlagna án tillits til markaðsstyrks þeirra um að veita aðgang að þeim við fyrsta samantektarpunkt utan byggingar eða jafnvel lengra í átt að miðlægum kerfum í sérstökum tilvikum. Heimilt verður að kveða á um samnýtingu óvirkra hluta farnets og svæðisbundið reiki án tillits til markaðsstyrks ef nauðsynlegt er til að tryggja svæðisbundinn aðgang en þetta ákvæði getur verið mjög gagnlegt þegar farið verður í umfangsmikla útbreiðslu háhraða farneta. Opinberum aðilum verður gert skylt að veita aðgang að efnislegum grunnvirkjum á borð við ljósastaura sem henta til að hýsa þráðlausa senda en slíkt getur verið nauðsyn þegar útbreiðsla 5G eykst og þjónustan verður t.d. farin að ná til stýringar á ökutækjum. Lög nr. 125/2019 ná aðeins til grunnvirkja sem eru hluti af einhvers konar neti og er því nauðsynlegt að útvíkka aðgangsskyldur opinberra aðila með þessum hætti. Póst- og fjarskiptastofnun ber í framhaldi af markaðsgreiningum að skoða sem fyrsta kost að leggja kvaðir á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk, um aðgang að mannvirkjum. Þetta atriði á að ýta undir samkeppni í uppbyggingu háhraðaneta með því að veita fyrirtækjum aðgang að aðstöðu til þess að byggja upp ný net, svo sem lagnaleiðum, en ákvæðið getur einnig náð til strengja og leiðslna og gengur þar með lengra en lög nr. 125/2019. Verði hins vegar ekki talið fýsilegt að leggja nýtt net í viðkomandi tilviki verður litið til annarra leiða, svo sem að veita heildsöluaðgang að neti eða þjónustu fyrirtækis sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk. Annað atriði varðandi kvaðir sem stuðla á að uppbyggingu háhraðaneta felur í sér að fyrirtæki sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk og hyggst byggja upp nýtt háhraðanet getur lagt fram tilboð um að veita öðrum fyrirtækjum möguleika á sameiginlegri fjárfestingu og/eða aðgangi að netinu og getur að tilteknum skilyrðum uppfylltum losnað undan öðrum kvöðum hvað varðar hið nýja net.
    Áhersla er lögð á að auðvelda og tryggja aðgengi að farnetstíðnum til að byggja upp 5G-farnet. Lágmarkstímalengd tíðniheimilda farneta verður nú 20 ár til að auka fyrirsjáanleika og hagkvæmni uppbyggingar. Opnað er á viðskipti og framsal tíðniheimilda milli markaðsaðila. Áhersla er lögð á að öll lönd innan EES vinni með samræmdum hætti og á sama tíma að úthlutun farnetstíðna. Fyrirhugað er að setja reglur til að einfalda aðgengi að aðstöðu til að setja upp senda enda er fyrirséð að fjölga þurfi sendastöðum til mikilla muna.

3.3. Um eftirlit með samkeppni á fjarskiptamarkaði.
    Víðast hvar í Evrópu var fjarskiptastarfsemi áður fyrr í höndum ríkisrekinna fyrirtækja eða stofnana. Fjarskiptastarfsemi laut þá einkarétti hins opinbera. Í skjóli einkaréttar ríkisins voru byggðir upp umfangsmiklir fjarskiptainnviðir hér landi. Þegar leið á tuttugustu öldina var búið að tengja nánast hvert einasta heimili og vinnustað við almenna fjarskiptanetið. Eðli starfseminnar var með þeim hætti að skilyrði fyrir samkeppni voru ekki góð, þ.e. ekki var hægt að leggja annað fjarskiptanet og virkja þannig samkeppni. Afleiðingin varð sú að í velflestum ríkjum urðu til stór og öflug ríkisrekin fjarskiptafyrirtæki, eins og raunin varð hér landi með Póst- og símamálastofnun og svo Landssíma Íslands.
    Við lok tuttugustu aldar voru aðstæður farnar að breytast. Með tæknibreytingum og þróun á markaðsháttum var það orðinn raunhæfur möguleiki fyrir önnur fyrirtæki að hefja fjarskiptastarfsemi á þeim forsendum að fá aðgang að fjarskiptainnviðum hins ríkisrekna fjarskiptafyrirtækis. Má í þessu sambandi nefna þá tækniþróun að hægt var að veita skiptan aðgang að heimtaug sem gerði það að verkum að talsímaþjónusta og gagnaflutningsþjónusta, sem þá var farin að ryðja sér til rúms, þurfti ekki að vera á hendi sama þjónustuveitanda.
    Þessi þróun leiddi til breytinga á evrópsku fjarskiptaregluverki í þá átt að einkarétti ríkisins á fjarskiptastarfsemi var aflétt, sbr. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/19/EB. Þessi tilskipun var innleidd með fjarskiptalögum nr. 143/1996 og síðan með enn frekari ráðstöfunum sem fólust í innleiðingu á tilteknum Evróputilskipunum með fjarskiptalögum nr. 107/1999. Með innleiðingu á samkeppni á fjarskiptamarkaði var talin þörf á að gera tvenns konar grundvallarráðstafanir. Annars vegar að koma á fót sérstakri fjarskiptaeftirlitsstofnun sem væri ætlað það hlutverk að innleiða virka samkeppni á markaði þar sem ekki var fyrir nein samkeppni. Í þeim efnum myndu almenn samkeppnislög ekki duga til heldur þyrfti að gera frekari ráðstafanir til opna markaðinn og styðja við samkeppni. Hins vegar var það vilji stjórnmálamanna að almenningur ætti eftir sem áður að njóta þeirrar fjarskiptaþjónustu sem hin ríkisreknu fjarskiptafyrirtæki höfðu veitt þegnunum á jafnræðisgrundvelli með heildstæðum hætti á landinu öllu. Sú fjarskiptaþjónusta var nefnd alþjónusta í fjarskiptum og um hana hafa gilt sérstakar lagareglur frá afnámi á einkarétti ríkisins.
    Að því er fyrra atriðið varðar, sérstakar og sjálfstæðar fjarskiptaeftirlitsstofnanir, var ljóst að beita þyrfti sértækum markaðsmótandi úrræðum til að skapa aðstæður þar sem ný fjarskiptafyrirtæki gætu rutt sér til rúms við hlið hinna rótgrónu fyrirtækja sem notið höfðu einkaréttar. Sumar af þessum ráðstöfunum eru mjög tæknilegs eðlis og varða aðgang nýrra markaðsaðila að fjarskiptainnviðum sem þegar eru til staðar, t.d. varðandi form aðgangs, tæknilega skilfleti, kröfur um gæði og öryggi, skiptingu kostnaðar o.s.frv. Við þessar aðstæður væri jafnframt þörf á því að tryggja jafnræði og gagnsæi þar sem lóðrétt samþætt starfsemi rótgróinna aðila væri haldið áfram í hinu nýja samkeppnisumhverfi og þá í beinni samkeppni við þá aðila sem þyrftu að treysta á aðgang að fjarskiptainnviðum þess. Til að ná þessu markmiði var farin sú leið að gera hinu markaðsráðandi fjarskiptafyrirtæki að birta viðmiðunartilboð gagnvart öðrum markaðsaðilum varðandi samningskjör og viðskiptaskilmála.
    Ljóst var að slík markaðsmótandi reglusetning kallaði á tilkomu sérhæfðs fjarskiptaeftirlitsstjórnvalds. Því væri falið að greina markaðinn og koma auga á leiðir til að opna markaði og grípa til ráðstafana til með það að markmiði. Kvaðir sem lagðar eru á markaðsráðandi aðila og horfa fram á veginn og er ætlað að opna markaði er á sviði lögfræðinnar kallað ex ante-eftirlit, þ.e. eftirlit sem horfir fram á við. Það er frábrugðið eftirliti á markaði sem í meginatriðum er ætlað að stöðva brot á samkeppnislögum en slíkt eftirlit er kallað ex post-eftirlit. Hér á landi og víðast í Evrópu er þessu eðlisólíka eftirliti komið fyrir hjá sitthvorri eftirlitstofnuninni, þ.e. Póst- og fjarskiptastofnun hvað varðar eftirlit fram á við og Samkeppniseftirlitinu hvað varðar eftirlit sem horfir til baka og tekur á einstökum brotum.
    Lög og reglur sem Póst- og fjarskiptastofnun starfar eftir grundvallast á ESB-/EES-rétti, líkt og samkeppnislöggjöf. Við úrlausn mála styðjast báðar stofnanir því við lagaframkvæmd í þeim rétti, m.a. varðandi samspil annars vegar framkvæmdar samkeppnisyfirvalda á samkeppnisreglum og hins vegar eftirlits póst- og fjarskiptaeftirlitsstofnana á grundvelli sérreglna á viðkomandi mörkuðum sem tengjast samkeppni.
    Í ESB-/EES-rétti er þannig byggt á því að samhliða lagaframkvæmd (e. concurrent enforcement), annars vegar almennra samkeppnisreglna og hins vegar fjarskipta- og póstreglna, sé bæði heimil og mjög mikilvæg. 1 Fræðimenn hafa litið svo á að samhliða eftirlit samkeppnisyfirvalda og fjarskiptaeftirlitsstofnana sé til þess fallið að efla samkeppni. Þessar tvær tegundir af stofnunum veiti hvor annarri ákveðið aðhald og tilvist þeirra beggja gefi færi á ákveðinni leiðréttingu fyrir markaðinn ef önnur skyldi leggja rangt mat til grundvallar í sinni lagaframkvæmd.
    Þar sem þessar tvær eftirlitsstofnanir hafa eftirlit með samkeppni á fjarskiptamarkaði hvor með sínum hætti hefur borið á gagnrýni um óskýr valdmörk á milli þeirra. Þegar eðli eftirlitsins er skoðað m.t.t. framangreindra sjónarmiða veldur það sjaldnast vafa undir verksvið hvorrar stofnunarinnar tiltekin mál falla. Markaðsgreiningar og álagning kvaða, sem er eitt helsta eftirlitsverkefni á sviði samkeppni, eru til að mynda frumkvæðismál sem unnin eru eftir ítarlegum ákvæðum reglugerðar og leiðbeininga sem um það gilda. Inngrip Samkeppniseftirlitsins á fjarskiptamarkaði er aftur á móti aðallega tilkomið vegna kvartana um tiltekin brot á samkeppnislögum. Hér á landi hafa fyrirtæki oft látið reyna á valdmörk þessara stofnana fyrir úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála annars vegar og áfrýjunarnefnd samkeppnismála hins vegar. Í öllum eða nær öllum tilvikum hefur skilgreining stofnananna á valdmörkum þeirra á milli verið staðfest. Til að taka af allan vafa um mögulega óljós valdmörk á milli Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppniseftirlitsins hafa þessar tvær stofnanir einnig sett sér leiðbeinandi reglur um verkaskiptingu á milli þeirra sem eiga að geta leyst úr einstaka markatilvikum. Þessar reglur hafa nýlega verið endurskoðaðar og uppfærðar. 2
    Nú eru hartnær tuttugu ár liðin frá því að núverandi stofnanafyrirkomulag vegna eftirlits á fjarskiptamarkaði var komið á fót á framangreindum forsendum. Margt hefur breyst á þeim tíma og á sumum undirmörkuðum fjarskipta ríkir nú hörð samkeppni, t.d. á sviði farneta. Hins vegar hefur ekki verið talið tímabært að fella eftirlit með samkeppni á fjarskiptamarkaði undir almenn samkeppnislög. Ástæða þess er m.a. sú breytta áhersla sem fylgir nýja fjarskiptaregluverkinu um að stuðla að uppbyggingu á háhraðanetum til að þjóna 5G-tækninni við innleiðingu á því sem nefnt hefur verið hlutanetið. Ætlunin er að nota samkeppnishvata og samnýtingu á innviðum til að stuðla að hagkvæmri uppbyggingu á þessum netum. Því þarf að móta þær kvaðir sem kunna að verða lagðar á markaðsráðandi aðila með þeim hætti að þær dragi ekki úr hvata til fjárfestinga um leið og búið sé svo um hnútana að ný net og nýjar tegundir af þjónustu hamli ekki virkri samkeppni. Af ákvæðum hins nýlega uppfærða evrópska fjarskiptaregluverks má draga þá ályktun að enn sé þörf á sjálfstæðri og öflugri fjarskiptaeftirlitsstofnun til að sinna þessu verkefni á komandi árum.

3.4. Nýjar áherslur við framkvæmd markaðsgreininga.
    Aðferðafræði við skilgreiningu markaða og greiningu á samkeppnisstöðu á þeim er í grundvallaratriðum sú sama og áður og byggir að stærstum hluta til á aðferðafræði samkeppnisréttar og dómaframkvæmd á því sviði.
    Þó að þeir markaðir sem teknir eru til skoðunar samkvæmt núgildandi tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um viðkomandi markaði séu allir á heildsölustigi þá er aukin áhersla á að skoða tengda smásölumarkaði. Ef greining, þar sem litið er til framtíðar, leiðir til þeirrar niðurstöðu að samkeppni verði virk á smásölumörkuðum þó að engar kvaðir giltu á aðliggjandi heildsölumörkuðum er ekki talin ástæða til þess að beita kvöðum á viðkomandi heildsölumarkaði. Því er ætlast til þess að staðan á tengdum smásölumörkuðum sé skoðuð áður en lengra er haldið.
    Málsmeðferð við markaðsgreiningar verður að mörgu leyti óbreytt frá því sem verið hefur. Nýmæli er að kveðið er á um tímafresti til að ljúka markaðsgreiningum. Niðurstöður markaðsgreininga hafa verið tilkynningarskyldar af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar til ESA og síðarnefnd stofnun hefur getað krafist þess að drög að ákvörðun verði dregin til baka ef hún er ekki í samræmi við skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum. Þessi tilkynningarskylda verður áfram til staðar en við meðferð á því stigi bætist möguleg ráðgefandi álitsgjöf Evrópsks hóps eftirlitsaðila á sviði fjarskipta. Þá er gert ráð fyrir að ESA geti í afmörkuðum undantekningartilvikum haft afskipti af ákvörðun um álagningu kvaða. Fjallað er um þennan hluta málsmeðferðarinnar í skýringum með 7. gr. frumvarpsins sem varð að lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003 (þskj. 961, 600. mál á 128. lögþ. 2002–2003).
    Ákvæðum er varða álagningu kvaða fjölgar töluvert en mörg þeirra snúast þó um einföldun og er ætlað að draga úr fjölda álagðra kvaða og flækjustigi við málsmeðferð. Gert er ráð fyrir því að ef ástæða er til að leggja á kvaðir þá verði fyrst skoðað hvort það gæti dugað að leggja á kvöð um aðgang að mannvirkjum, svo sem lagnaleiðum, og gera þannig samkeppnisaðilum kleift að leggja sín eigin net áður en aðgangur að netum og þjónustu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk er skoðaður.
    Fjarskiptafyrirtækjum með umtalsverðan markaðsstyrk gefst nú kostur á að leggja fram tilboð um skuldbindingar varðandi sameiginlegar fjárfestingar, aðskilnað starfsemi og almennar kvaðir og geta slík tilboð leitt til þess að kvöðum verði létt af fyrirtækjunum að einhverju leyti.
    Ný kvöð sem bætist við felst í því að Póst- og fjarskiptastofnun getur, ef aðrar kvaðir hafa ekki reynst fullnægjandi, kveðið á um aðskilnað rekstrareininga lóðrétt starfandi fyrirtækis sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk.
    Gert er ráð fyrir að sérstök ákvæði um aðgang að leigulínum og heimtaugum sem er að finna í 33. gr. og 34. gr. núgildandi fjarskiptalaga falli brott en mögulegt er að kveða á um slíkan aðgang með ákvörðun í kjölfar markaðsgreiningar eftir því sem þurfa þykir.
    Nýi fjarskiptapakkinn gerir ráð fyrir að skilgreint sé hámarksverð á tiltekinni þjónustu. Dæmi um það varðar hámarksverð fyrir reiki á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), sem er einnig að finna í gildandi fjarskiptalögum. Nýmæli er að heildsöluverð fyrir lúkningu símtala og SMS verður ákveðið fyrir allt EES. Mun það gilda gagnvart öllum símafyrirtækjum. Ákvæðið gerir það óþarft að Póst- og fjarskiptastofnun framkvæmi greiningu á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu og taki ákvörðun um verð og mun þetta einfalda stjórnsýslu á þessu sviði verulega. Í þriðja lagi er nýtt ákvæði um hámarkssmásöluverð á millilandasímtölum innan EES.

3.5. Fjarskiptaleynd og friðhelgi einkalífs á sviði fjarskipta.
    Í XIII. kafla frumvarpsins er fjallað um fjarskiptaleynd og friðhelgi einkalífs á sviði fjarskipta. Fjarskiptaleynd er ein af þeim grundvallarreglum sem eiga að tryggja friðhelgi einkalífsins. Fjarskiptaleynd felur í sér að efnisinnihald fjarskipta, svo sem efni símtala, skilaboða og því um líku skuli ávallt eytt þegar því hefur verið komið til móttakanda. Þetta er ólíkt gögnum um fjarskipti, þ.e. svokölluðum fjarskiptaumferðarupplýsingum, sem eru upplýsingar um sendingu eða símtal. Slík gögn getur verið nauðsynlegt að geyma til reikningagerðar, vegna rannsóknar sakamála o.fl. Hugtakið fjarskiptaleynd er samofið ákvæðum um öryggi upplýsinga á fjarskiptanetum enda ljóst að fjarskiptaleynd, sem og leynd um fjarskiptaumferðarupplýsingar, getur rofnað komi til öryggisatviks hjá fjarskiptafyrirtæki.
    Með tilskipun 2002/58/EB og forvera hennar voru meginreglur sem settar voru fram í tilskipun 95/46/EB, um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga, yfirfærðar í sértækar reglur fyrir fjarskiptasviðið og eru ákvæði hennar viðbót og nánari umfjöllun um ákvæði síðarnefndu tilskipunarinnar, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 4. lið inngangsorða tilskipunar 2002/58/EB. Ákvæði umræddrar tilskipunar er varða fjarskiptaleynd voru innleidd í 42. og 47. gr. gildandi fjarskiptalaga og gera þá kröfu að innihald fjarskiptasendinga sé ekki geymt og upplýsingum um fjarskiptaumferð skuli eytt.
    Hin nýja tilskipun á sviði fjarskipta sem innleiða á með þessu frumvarpi tekur ekki til fjarskiptaleyndar og friðhelgi einkalífs á sviði fjarskipta. Því eru ekki lagðar til miklar efnisbreytingar á ákvæðum þessa kafla frá gildandi fjarskiptalögum. Aftur á móti hefur framsetning ákvæða breyst nokkuð. Ástæða þess er sú að í gildandi fjarskiptalögum eru samtvinnuð ákvæði um fjarskiptaleynd og öryggi fjarskipta. Fjarskiptaleynd byggir aftur á móti, líkt og áður segir, á tilskipun sem tilskipun (ESB) 2018/1972 breytir ekki. Aftur á móti er kveðið á um öryggi fjarskipta í hinni nýju tilskipun. Því þykir rétt að aðgreina þessi efnisákvæði í fyrirhuguðum nýjum fjarskiptalögum. Þá er jafnframt von á nýrri reglugerð frá Evrópusambandinu sem leysir af hólmi persónuverndartilskipunina á sviði fjarskipta ( 2002/58/EB). Fyrirséð innleiðing þeirrar reglugerðar ætti því að verða einfaldari en ella með þeirri uppskiptingu sem lögð er til í þessu frumvarpi.

3.6. Viðurlög.
    Samkvæmt 29. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 ber aðildarríkjum skylda til þess að setja reglur um viðurlög vegna brota á ákvæðum landsréttar til innleiðingar á henni, þ.m.t. stjórnvaldssektir og dagsektarheimildir. Þá segir í 2. málsl. 1. tölul. 29. gr. að landsbundin stjórnvöld og önnur lögbær yfirvöld skuli hafa vald til að leggja á slík viðurlög. Samkvæmt gildandi lögum getur Póst- og fjarskiptastofnun eingöngu lagt á dagsektir en hún hefur ekki haft almenna heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á fjarskiptalögum.
    Beiting viðurlaga vegna brota á fjarskiptalögum hefur verið á hendi dómstóla að undangenginni kærumeðferð af hálfu ákæruvaldsins. Ljóst er að það fyrirkomulag uppfyllir ekki kröfu tilskipunarinnar um að eftirlitsstjórnvaldið skuli hafa vald til að beita viðurlögum. Þá sýnir reynslan að það er nánast óþekkt að brot á fjarskiptalögum hafi komið til ákærumeðferðar og úrlausnar fyrir dómstólum þrátt fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun hafi tekið fjölmargar ákvarðanir um brot á fjarskiptalögum á umliðnum árum. Ætla má að fjarskiptalög séu of sérhæfð til þess að það sé raunhæfur kostur að beiting viðurlaga sæti eingöngu ákærumeðferð og úrlausn dómstóla. Leggja verður til grundvallar að það feli í sér skilvirkara fyrirkomulag að beiting viðurlaga sé einnig á hendi þess sérfræðistjórnvalds sem hefur eftirlit með framkvæmd laganna. Á sama tíma verður jafnframt að gera ráð fyrir að brot geti verið svo alvarleg og umfangsmikil að þau eigi frekar heima hjá dómstólum. Í frumvarpinu er lagt til að slík mál fari til dómstóla en það verði hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar að meta hvort slík skilyrði séu uppfyllt. Með þeirri reglu er jafnframt kveðið á um að mál geti ekki farið í ákærumeðferð án undangenginnar skoðunar Póst- og fjarskiptastofnunar. Ákvæði frumvarpsins hvað þetta varðar er sama efnis og sams konar ákvæði í 57. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að í viðurlagakafla bætist ákvæði um stjórnvaldssektir sem Póst- og fjarskiptastofnun getur beitt vegna brota á fjarskiptalögum. Til að uppfylla kröfu um skýrleika refsiheimilda er farin sú leið að tilgreina sérstaklega þau ákvæða laganna sem geta verið andlag sektar ásamt því að orða stutta verknaðarlýsingu fyrir hvert ákvæði fyrir sig, þ.e. í hverju hin brotlega háttsemi gæti verið falin. Við smíði þessa ákvæðis var leitað fyrirmyndar í ákvæði um heimild Persónuverndar til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 90/2018, að því er varðar fjárhæð sekta. Enn fremur var horft til samkeppnislaga að því er framsetningu varðar.
    Við mat á því hvaða ákvæði frumvarpsins ættu að varða mögulegum stjórnvaldssektum var horft til verndarhagsmuna ákvæðanna, mögulegra áhrifa og afleiðinga af brotum gegn þeim. Þá var einnig horft til eðlis mögulegra brota, þ.e. hvort um væri að ræða líkleg einskiptisbrot ex post (sem átt hefur sér stað) fremur en ástandsbrot sem vara þangað til látið er af háttseminni. Fyrri tegundin kallar frekar á stjórnvaldssektir á meðan hin síðari fellur betur að beitingu dagsektarheimilda. Þó verður að gera ráð fyrir að brot sem í eðli sínu eru ástandsbrot, t.d. ólögmæt synjun um að veita aðgang að netum eða aðstöðu, geta verið svo langvarandi og alvarleg að rétt sé að leggja á stjórnvaldssekt.
    Ákvæði kaflans sem lýtur að refsingum, þ.e. viðurlögum sem beitt er af dómstólum að undangenginni ákærumeðferð, er að mestu óbreytt frá gildandi lögum. Þó er búið að herða á skýrleika refsiheimildarinnar með því að tilgreina þau ákvæði sem geta verið andlag refsinga en þau eru þau sömu og geta varðað stjórnvaldssektum.

3.7. Um gjaldtöku fyrir tíðniafnot.
    Tíðnirófið innan lögsögu Íslands er eftirsótt og takmörkuð auðlind. Fjarskiptatíðnir eru undir stjórn íslenska ríkisins og tímabundin heimild til afnota af þeim leiðir hvorki til eignarréttar né varanlegs nýtingar- eða ráðstöfunarréttar, sbr. 1. mgr. 7. gr. gildandi laga um fjarskipti, nr. 81/2003.
    Notkun tíðna er undirstaðan í þráðlausum fjarskiptum af öllum toga, hvort sem um er að ræða sjónvarps- og útvarpssendingar eða farnetsþjónustu. Í ljósi þess hversu fjarskiptaþjónusta er mikilvæg og almennt útbreidd hefur skapast um hana mikilvæg og ört vaxandi atvinnugrein. Hinn 1. janúar 1998 var fjarskiptastarfsemi gefin frjáls hér á landi og frá sölunni á Símanum hf. í ágúst 2005 hefur almenn farsímaþjónusta eingöngu verið á hendi einkaaðila og að jafnaði skilað hagnaði, a.m.k. þegar til lengri tíma er litið.
    Þegar fjarskiptastarfsemi var á hendi ríkisins hér á landi, eins og í flestum ríkjum Evrópu, tíðkaðist ekki að innheimta sérstök gjöld fyrir afnot af tíðnirófinu enda skiluðu tekjur af fjarskiptastarfsemi sér annaðhvort beint í ríkissjóð eða óbeint með vaxandi verðmæti hins ríkisrekna fjarskiptafyrirtækis. Þegar einkaréttur ríkisins var afnuminn var talið rétt og sanngjarnt að skattleggja afnot af auðlindinni, þ.e. að ríkissjóður fyrir hönd þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar, fengi sanngjarnt endurgjald fyrir afnotin sem eru grundvöllurinn að verðmætasköpuninni. Því hefur verið farin sú leið víðast hvar í Evrópu að innheimta gjöld fyrir afnot af verðmætum tíðnum og hafa ýmsar leiðir verið farnar í því sambandi. Í flestum tilvikum eru tíðniheimildir boðnar upp og seldar hæstbjóðanda og hafa umtalsverðar tekjur skilað sér í ríkissjóð viðkomandi landa með þeim hætti. Undanfarin ár hafa tekjur vegna tíðniúthlutana runnið í fjarskiptasjóð í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga um fjarskiptasjóð, nr. 132/2005.
    Hér á landi greiða notendur tíðna jafnframt árlegt gjald fyrir notkun þeirra en það grundvallast á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003. Tekjum af gjaldinu hefur frá upphafi verið ætlað að renna til Póst- og fjarskiptastofnunar og standa undir kostnaði við stjórnsýslu og eftirlit, svo sem vegna truflana en þær aukast í hlutfalli við úthlutun og notkun fjarskiptatíðna.

3.7.1. Gjaldtökuheimildir.
    Á grundvelli 7. mgr. 11. gr. gildandi laga um fjarskipti, nr. 81/2003, hefur Póst- og fjarskiptastofnun heimild til að viðhafa uppboð við úthlutun réttinda til notkunar á tíðnum, að fengnu samþykki frá ráðherra. Samkvæmt ákvæðinu getur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið tiltekið lágmarksboð í tíðnirnar. Lágmarksboð samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en fimmtánföldu árgjaldi fyrir nýtingu á viðkomandi tíðnum. Árgjöld fyrir nýtingu tíðna eru skilgreind í 14. gr. a í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.
    Með öðrum orðum hefur Póst- og fjarskiptastofnun heimild til að innheimta árgjald og jafnframt gjöld við úthlutun tíðna í upphafi, ef efnt er til uppboðs. Taki stofnunin ákvörðun um að endurnýja tíðniheimildir, samkvæmt annarri aðferð, er heimild til gjaldtöku vegna afnota af tíðniauðlindinni ekki til staðar. Aðstæður eru ekki alltaf með þeim hætti að rétt þyki að viðhafa uppboð við úthlutun tíðna. Í þeim tilvikum þegar gildistími tíðna er að renna út, en þær eru enn í fullri notkun fjarskiptafyrirtækja, sem hafa jafnvel byggt upp fjarskiptanet á viðkomandi tíðnisviði, getur verið réttlætanlegt og sanngjarnt að endurnýja tíðniheimildir án undangengins uppboðs. Í slíkum tilvikum skortir hins vegar heimild til að innheimta gjöld við endurnýjun heimildarinnar líkt og eðlilegt væri ef um almenna úthlutun væri að ræða. Skv. 32. gr. gildandi reglugerðar nr. 1047/2011, um skipulag og úthlutun tíðna í fjarskiptum, er meginreglan sú að endurnýja skuli tíðniheimildir við lok gildistíma enda hafi það ekki skaðleg áhrif á samkeppni eða skipulag tíðnirófsins.
    Á árunum 2022–2023 mun gildistími fjölmargra tíðniheimilda renna út. Þetta eru tíðnir sem í dag notaðar eru til að veita GSM-, 3G- og 4G-þjónustu. Búast má við því að hluti þeirra verði notaðar fyrir 5G-þjónustu þegar sú tækni hefur að fullu rutt sér til rúms. Umræddar tíðniheimildir liggja á nokkrum tíðnisviðum og eru af mismunandi stærð:

Flokkur Tíðnisvið til endurúthlutunar
Stærð (MHz) Samt. (MHz)
800 MHz 796–806/837– 847 + 811– 821/852– 862 MHz 2x20 40
900 MHz 880– 915 / 925– 960 MHz 2x34,8 69,6
1800 MHz 1710– 1785 / 1805– 1880 MHz 2x73,8 147,6
2100 MHz 1920– 1980 / 2110– 2170 MHz 2x60 120
3600 MHz 3400– 3800 MHz 300 300
Samtals 677,2 677,2

    Þegar tíðniheimildir eru ekki boðnar upp er ekki fyrir hendi almenn og gild gjaldtökuheimild. Þegar þessi staða hefur komið upp hefur löggjafinn sett sérstaka gjaldtökuheimild sem gildir fyrir tilteknar tíðniúthlutanir. Þetta var t.d. gert við úthlutun á 2100 MHz-tíðnisviðinu samkvæmt lögum um þriðju kynslóð farsíma, nr. 8/2005, og með sérstökum gjaldtökuákvæðum í formi bráðabirgðaákvæða við endurnýjun tíðniheimilda á 900 og 1800 MHz-tíðnisviðunum árið 2012, sbr. lög um breytingu á fjarskiptalögum, nr. 2010/, og við úthlutun á 800 MHz-tíðnisviðinu árið 2013, sbr. lög um breytingu á fjarskiptalögum, nr. 2011/.
    Samkvæmt framangreindu eru nokkur ár þar til framangreindar tíðniheimildir renna út og því liggur ekki fyrir hvernig staðið verður að endurúthlutun þeirra. Hins vegar þykir rétt að gera ráð fyrir þeim möguleika að þær kunni að verða endurnýjaðar til umráða fyrir núverandi tíðnirétthafa. Í bráðabirgðaákvæði IV í frumvarpinu er fyrirhugað að lögfesta slíka gjaldtökuheimild vegna mögulegrar endurnýjunar á framangreindum tíðniheimildum til núverandi tíðnirétthafa. Hér er um að ræða nokkurs konar varúðarráðstöfun og rétt að taka fram að með henni er ekki verið að binda hendur Póst- og fjarskiptastofnun um að endurnýja tíðniheimildirnar til umráða núverandi tíðnirétthafa ef stofnunin kemst að niðurstöðu um að æskilegra sé að endurúthluta þeim á annan hátt.

3.7.2. Ákvörðun upphæðar gjalds vegna endurúthlutunar.
    Sanngjörn og hæfileg gjöld fyrir tíðniafnot ráðast af ýmsum þáttum, t.d. stærð þess tíðnisviðs sem um ræðir og til hversu langs tíma tíðninni er úthlutað. Til viðbótar þessu eru ýmsar breytur sem hafa áhrif á verðlagninguna, t.d. hvort tíðnin sé til frjálsra afnota (tæknilega hlutlaus) eða hvort afnot hennar eru bundin íþyngjandi kvöðum, t.d. um útbreiðslu og gæði þjónustu.
    Almennt má segja að fjárhagslegt verðgildi tíðniheimildar minnki eftir því sem fleiri kvaðir hvíla á henni. Verðgildið felst þá í þeim skuldbindingum sem lagðar eru á tíðnirétthafann, oftast um að byggja upp fjarskiptanet innan tilskilins tíma og ná tilteknum útbreiðslumarkmiðum sem hafa ákveðið samfélagslegt gildi. Þá eru kröfur um gæði fjarskipta æ mikilvægari þáttur í nútímafjarskiptum og eru álitnar íþyngjandi kvaðir. Ef lagðar eru slíkar íþyngjandi kvaðir á tíðnirétthafann minnkar svigrúm til þess að afla fjárhagslegs endurgjalds fyrir afnotin.
    Þá hefur það verið viðtekið að taka hærra gjald fyrir tíðnir sem liggja neðar í tíðnirófinu, t.d. fyrir neðan 1000 MHz. Þær eru langdrægari og gefa því möguleika á góðri útbreiðslu á hagkvæman hátt. Þau tíðnisvið sem ofar liggja í tíðnirófinu eru ekki eins langdræg en eru bandvíðari og bera þar af leiðandi meira gagnamagn sem er kostur við útbreiðslu á þéttbýlum stöðum og/eða þar sem fjarskiptanotkun er mikil. Flokkun á verðgildi tíðna eftir því hvar þær liggja í tíðnirófinu endurspeglast einnig í árgjöldum fyrir tíðniréttindi skv. 14. gr. a í gildandi fjarskiptalögum.
    Við ákvörðun um grundvöll verðlagningar fyrir endurúthlutun þeirra tíðniheimilda sem vikið er að í ákvæði IV til bráðabirgða er gagnlegt að horfa til þess hvernig þessar tíðnir hafa áður verið verðlagðar í sérstökum gjaldtökuákvæðum sem Alþingi hefur samþykkt. Við endurúthlutun tíðniheimilda á 900 og 1800 MHz-tíðnisviðunum, sbr. gjaldtökuákvæði í lögum nr. 146/2010 um breytingar á fjarskiptalögum, var tekin 1,5 millj. kr. fyrir hvert MHz af 900 MHz-tíðnisviðinu og 500.000 kr. fyrir hvert MHz á 1800 MHz-tíðnisviðinu. Á þeim tíma voru tíðnirnar notaðar fyrir GSM- og 3G-þjónustu. Þegar lögfest var sérstakt gjaldtökuákvæði fyrir 800 MHz-tíðnisviðið, sbr. lög nr. 163/2011 til breytinga á fjarskiptalögum, var fyrirséð að þær tíðnir yrðu notaðar fyrir 4G og því verðgildi þeirra talið meira, en teknar voru 3 millj. kr. fyrir hvert úthlutað MHz.
    Nú liggur fyrir að tíðniheimildir sem verður endurúthlutað á árunum 2022–2023 verða notaðar fyrir 5G-þjónustu. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að tilteknum tíðniréttindum sé úthlutað með fyrirsjáanleika til tuttugu ára en það er lengri úthlutunartími en ákvarðaður hefur verið til þessa. Með tilliti vaxandi nýtingarmöguleika og verðmætasköpunar í fjarskiptum með tilkomu 5G-þjónustu, lengri gildistíma tíðniúthlutunar og að teknu tilliti til verðlagsbóta þykir hæfilegt að gera ráð fyrir 3.500.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz fyrir tíðniheimildir á 800 og 900 MHz-tíðnisviðunum og 1.000.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz á 1800 og 2100 MHz-tíðnisviðunum. Með tilliti til hversu stórt 3,6 GHz-tíðnisviðið er þykir hæfilegt að greiddar verði 350.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz en það er 1/10 af verði tíðniheimildar á tíðnisviði undir 1000 MHz. Ef tíðniheimildir á umræddum tíðnisviðum yrðu allar endurnýjaðar til núverandi tíðnirétthafa myndi gjaldtakan skiptast með eftirfarandi hætti:

Rétthafi MHz Endurúthl.gj. (millj. kr.)
Nova 200 185
Sýn 240 325
Síminn 229,6 238,6
Landhg. 0,8 0,8
IMC 6,8 6,8
Samtals 677,2 756,2
<1 GHz = 3,5 (millj. kr.) / MHz
1–3 GHz = 1 (millj. kr.) / MHz
>3 GHz = 0,35 (millj. kr.) / MHz

    Eins og ráða má af þessari töflu er gert ráð fyrir því að gjaldtaka samkvæmt ákvæðinu geti skilað rúmlega 651 millj. króna í tekjur fyrir ríkið, þ.e. ef öllum tíðniheimildunum verður endurúthlutað við lok núgildandi gildistíma þeirra. Gert er ráð fyrir því að umræddar tekjur renni í ríkissjóð, þ.e. í fjarskiptasjóð, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um fjarskiptasjóð, nr. 132/2005.

3.8. Um þörf á aðlögun í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins.
    Með reglugerð (ESB) 2018/1971 er kveðið á um hlutverk og umgjörð Evrópsks hóps eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC). Markmið BEREC-reglugerðarinnar er einkum að stuðla að samræmdri innleiðingu og framkvæmd fjarskiptaregluverks. BEREC samanstendur af stjórn (e. board of regulators) og vinnuhópum (e. working groups). Með BEREC-reglugerðinni er jafnframt sett á fót BEREC-skrifstofa (e. Agency for Support for BEREC eða The BEREC Office) sem skal veita BEREC þjónustu og aðstoð.
    Verkefni BEREC eru meðal annars að aðstoða og veita ráðgjöf um hvers konar tæknileg atriði tengd fjarskiptum, gagnvart evrópskum fjarskiptaeftirlitsstofnunum, Evrópuþinginu, ráðinu og framkvæmdastjórn ESB og vera stofnunum ESB til aðstoðar við undirbúning löggjafar og leggja mat á þörf fyrir þróun hennar. Enn fremur að gefa út nánari leiðbeiningar sem stuðla eiga að samræmdri framkvæmd fjarskiptaregluverks í Evrópu, að eigin frumkvæði eða beiðni fjarskiptaeftirlitsstofnana eða stofnana ESB; að fylgjast með, safna og (eftir því sem við á) birta upplýsingar; gefa út tilmæli og sameiginlegt mat og miðla viðmiðum um bestu framkvæmd regluverksins og eftirlits. Síðast en ekki síst er það hlutverk BEREC að gefa út álit (e. opinions). Ef upp kemur álitaefni þvert á landamæri aðildarríkja ESB eru lögbær stjórnvöld (fjarskiptaeftirlitsstofnanir ESB-ríkja) skuldbundin til að leita álits hjá BEREC og til að taka ýtrasta tillit til þess. Álit BEREC geta einnig lotið að fyrirhuguðum aðgerðum lögbærra stjórnvalda sem gefa þarf framkvæmdastjórninni kost á að gefa umsögn um.
    Síðastnefnda atriðið, um valdheimildir stjórnar BEREC, kallar á aðlögun fyrir EFTA-ríkin innan EES, í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Í samningaviðræðum um aðlögun, vegna upptöku BEREC-reglugerðarinnar og EECC-tilskipunarinnar í EES-samninginn, hafa EFTA-ríkin innan EES leitast í fyrsta lagi við að tryggja Eftirlitsstofnun EFTA sambærilegt hlutverk gagnvart EFTA-ríkjunum og framkvæmdastjórnin gegnir gagnvart aðildarríkjum ESB. Í öðru lagi hefur verið unnið að því að búa svo um hnútana að EFTA-ríkin innan EES taki sjálf afstöðu til álita í afmörkuðum málum (skv. 27., 32. og 33. gr. EECC-tilskipunarinnar). Hafa verður í huga að BEREC er ætlað ráðgefandi hlutverk og mun ekki taka bindandi ákvarðanir gagnvart ríkjum. Eftirlit með framkvæmd fjarskiptalöggjafar skal falin lögbæru stjórnvaldi í hverju ríki en að því marki sem regluverkið gerir ráð fyrir að ákvörðunarvald verði í höndum framkvæmdastjórnar ESB gagnvart ESB-ríkjum verður það í höndum Eftirlitsstofnunar EFTA að því er EFTA-ríkin varðar, nái samningaviðræður um aðlögun í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins fram að ganga.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að BEREC-reglugerðin verði innleidd í reglugerð á grundvelli laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, með vísan til breytingatillagna, sbr. 109. gr. frumvarpsins.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Með frumvarpinu er lagt til að uppfylltar verði tímanlega þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með vísan í kafla 2 um tilefni og nauðsyn lagasetningar. Unnið er að upptöku tilskipunar (ESB) 2018/1972 og reglugerðar (ESB) 2018/1971 í EES-samninginn. Við samningu frumvarpsins kom til skoðunar hvort ákvæði þess færu í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Mat ráðuneytisins er að svo sé ekki.

5. Samráð.
    Frumvarpið varðar einkum hagsmuni markaðsaðila (fjarskiptafyrirtækja), neytendur og Póst- og fjarskiptastofnun. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti birti áform um endurskoðun löggjafar um fjarskipti í Samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is síðastliðið sumar og voru þau til umsagnar frá 5. júlí til 12. ágúst 2019, sjá mál nr. S-176/2019. Umsagnar var óskað frá haghöfum um þau en aðeins barst ein umsögn. Ráðuneytið og Póst- og fjarskiptastofnun efndu til opins kynningarfundar um nýja fjarskiptapakkann í lok ágúst og voru drög að frumvarpi þessu birt til umsagnar í Samráðsgáttinni í árslok 2019, þ.e. frá 9. desember 2019 til 9. janúar 2020, sjá mál nr. S-304/2019. Fjórtán umsagnir bárust og hefur við lokafrágang frumvarpsins meðal annars verið tekið mið af þeim. Ákvæði um gildissvið, markmið og orðskýringar hafa tekið nokkrum breytingum. Samþykkt var tillaga um að gera ráð fyrir einum fulltrúa atvinnulífs í fjarskiptaráði svo og einum fulltrúa neytenda. Fallist var á ábendingu um að kveða berum orðum á um það að fjarskiptafyrirtæki sé óheimilt að tengjast innanhússfjarskiptalögnum sem ekki uppfylla kröfur laga og reglna, sem er í samræmi við nýlegan úrskurð úrskurðarnefndar í fjarskipta- og póstmálum (mál nr. 4/2019). Veigamestu breytingarnar hafa orðið á efnisákvæðum IX. kafla frumvarpsins um markaði, markaðsgreiningar og álagningu kvaða. Komið hefur verið til móts við athugasemdir umsagnaraðila með því að setja meira af texta tilskipunar (ESB) 2018/1972 í ákvæðin sjálf en upphafleg frumvarpsdrög gerðu ráð fyrir að nánari útfærsluatriði samkvæmt tilskipuninni og afleiddri löggjöf yrðu sett fram í reglugerð í ríkari mæli. Þá hefur nú verið bætt við ákvæði til bráðabirgða III um að kvöðum sem lagðar hafa verið á samkvæmt gildandi fjarskiptalögum og eru í gildi við gildistöku fyrirhugaðra laga skuli viðhaldið þar til endurskoðun kvaðanna hefur farið fram að lokinni markaðsgreiningu. Nú er kveðið berum orðum á um að samanburðarþjónusta sem gerir endanotendum sér að kostnaðarlausu kleift að bera saman og meta mismunandi fjarskiptaþjónustu skuli vera sjálfstæð og óháð þeim fyrirtækjum sem selja fjarskiptaþjónustu. Þá gerir frumvarpið nú ráð fyrir að hámarksbinditími samninga sem neytendur gera um fjarskiptaþjónustu verði lengdur í 12 mánuði. Gert er ráð fyrir að fjarskiptafyrirtækjum verði heimilt að senda notendum sérstakan reikning fyrir svonefnda yfirgjaldsþjónustu. Lagt er til að undanþága frá bótaábyrgð skv. 3. mgr. 86. gr., vegna skemmda á fjarskiptavirkjum eða truflana á rekstri þeirra í kjölfar jarðrasks eða annarra framkvæmda, skuli takmörkuð við jarðstrengi sem lagðir eru á minna en 20 cm dýpi innan lóðarmarka fasteigna. Nú er gert ráð fyrir undanþágu frá ákvæði um beina markaðssetningu á vörum og þjónustu þegar um ræðir almenn tölvupóstföng fyrirtækja og stofnana, ef þau eru fyrir hendi. Í ákvæði um staðsetningarupplýsingar í 96. gr. er nú gert ráð fyrir heimild til opinberra aðila sem annast neyðarþjónustu til að afla slíkra upplýsinga í þeim tilgangi að staðsetja neyðarsímtöl og búnað notanda í tilvikum þar sem lögregla telur að líf hlutaðeigandi eða annarra sé í bráðri hættu og upplýsingarnar eru nauðsynlegar til að afstýra hættunni. Breyting þessi er tilkomin að tillögu dómsmálaráðuneytis og felur í sér undantekningu frá 80. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, þar sem ekki er krafist dómsúrskurðar áður en upplýsingar eru sendar lögreglu. Ber því að túlka ákvæðið þröngt. Nýtt ákvæði er nú að finna í XV. kafla um framfylgdarheimildir Póst- og fjarskiptastofnunar vegna óumbeðinna fjarskipta, í samræmi við samevrópska neytendalöggjöf. Lagt er til að hámark stjórnvaldssekta verði 4% af heildarveltu síðasta rekstrarárs hjá hverju því fyrirtæki sem aðild á að broti gegn fyrirhuguðum lögum. Þá er nú lagt til að færri brot varði refsingum en upphafleg frumvarpsdrög gerðu ráð fyrir. Felld var brott tillaga um ákvæði um opinn heildsöluaðgang ríkisstyrktra fjarskiptaneta enda byggði það ekki á EECC-tilskipuninni heldur leiðbeiningum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um ríkisaðstoð við uppbyggingu háhraðaneta. Ekki er vísað til fjölmiðlahluta fjarskiptastarfsemi í ákvæði frumvarpsins um rekstrargjald. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir breyttri nálgun að því er varðar gjaldtöku við endurnýjun tíðna og geymir ákvæði til bráðabirgða IV nú tillögu að fjárhæðum gjalda vegna úthlutunar á fleiri tíðnisviðum en upphafleg drög gerðu ráð fyrir, sem gilda skal til 1. júlí 2023. Framangreint eru helstu áorðnar breytingar frá því sem birt frumvarpsdrög gerðu ráð fyrir en athugasemdir hafa jafnframt leitt til ítarlegri skýringa við einstök ákvæði frumvarpsins í greinargerð.

6. Mat á áhrifum.
    Tilskipun (ESB) 2018/1972 geymir ýmis nýmæli sem eru til þess fallin að auðvelda og bæta enn frekar aðstöðu stjórnvalda til að leggja mat á árangur umbóta í lagaumgjörð fjarskipta og framkvæmd hennar á hverjum tíma.
    Gera verður ráð fyrir útgjöldum af hálfu Íslands vegna aðildar að BEREC og rekstri BEREC-skrifstofunnar. Innleiðing ákvæða 109.–110. gr. EECC-tilskipunarinnar um samevrópskt neyðarnúmer og opinber viðvörunarkerfi hafa snertifleti við starfsemi Neyðarlínunnar (112) og kann fjárþörf vegna eflingar búnaðar að nema allt að 35 millj. kr. á ári og rekstrarkostnaður að aukast um allt að 20 millj. kr. Vegna ákvæðis 50. gr. BEREC-reglugerðarinnar um hámarksgjaldtöku gagnvart neytendum vegna símtala innan Evrópu og fyrir smáskilaboð (e. Intra EU calls) kunna markaðsaðilar að verða fyrir tekjumissi en neytendur njóta á móti góðs af.
    Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að útgjöld Póst- og fjarskiptastofnunar verði um 169 millj. kr. á árinu 2021 vegna eftirlitsverkefna vegna tíðninotkunar. Á móti útgjöldum er gert er ráð fyrir tekjum að fjárhæð 115 millj. kr. vegna tíðnigjalda á árinu 2021. Má því segja að nettó útgjaldaaukning fyrir ríkissjóð verði um 54 millj. kr. sem er ófjármagnað. Gert er ráð fyrir að stofnunin fái fjárheimild í fjárlögum sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um tekjur af árlegum tíðnigjöldum í samræmi við 14. gr. a í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003. Áhrifamat þetta byggir á kostnaðargreiningu frá Póst- og fjarskiptastofnun. Stofnunin gerir hins vegar fyrirvara um kostnaðarmatið er varðar 87. grein frumvarpsins og telur að ótalin séu útgjöld stofnunarinnar sem leiða muni af stjórnsýslu og eftirliti. Helstu ástæður fyrir auknum varanlegum kostnaði eru fjölgun starfsmanna ásamt kostnaði vegna þátttöku í BEREC. Starfsmenn koma til með að sinna verkefnum er snúa m.a. að markaðsgreiningum, eftirliti með ljósvakanum og viðhaldi kerfiseininga á gagnagrunni almennra fjarskiptaneta (GAF).
    Áætlaður varanlegur árlegur kostnaður er vegna fjölgunar stöðugilda hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Tímabundinn stofnkostnaður er áætlaður um 50 millj. kr. á árinu 2021 og 34 millj. kr. árið 2022. Stofnkostnaður nær til almennrar endurmenntunar starfsmanna, mæli- og tækjabúnaðar fyrir ljósvakaeftirlit með 5G, gagnagrunns almennra fjarskiptaneta (GAF) og fyrir samanburðartól á fjarskiptaáskriftarleiðum (reiknivél).
    Ef tekin eru saman heildaráhrif frumvarpsins á afkomu ríkissjóð fyrir árin 2021–2025 er gert ráð fyrir að útgjöld verði um 738 millj. kr. yfir allt tímabilið. Á móti er gert ráð fyrir tekjum að fjárhæð rúmlega 600 millj. kr. vegna árgjalda af tíðnum. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að ófjármagnaður viðbótarkostnaður vegna aukins umfangs hjá Póst- og fjarskiptastofnun verði tekinn til skoðunar við endurskoðun fjármálaáætlunar.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ekki er um efnislegar breytingar að ræða frá því sem gildandi lög, nr. 81/2003, gera ráð fyrir. Hins vegar er með frumvarpinu lagt til að markmiðsákvæði verði flutt í 2. gr.

Um 2. gr.

    Lagt er til að markmið verði skilgreind í samræmi við 3. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Ákvæðið er ítarlegra en gildandi fjarskiptalög kveða á um. Þannig er í 1. mgr. lögð áhersla á tryggja á Íslandi aðgengileg, greið, hagkvæm, skilvirk og örugg fjarskipti. Enn fremur er markmið laganna að stuðla að virkri samkeppni, hagkvæmum fjárfestingum og nýsköpun á fjarskiptamarkaði, í samræmi við áherslur EECC-tilskipunarinnar, svo og að vernda neytendur og auka valmöguleika þeirra. Þannig gerir frumvarpið t.d. ráð fyrir ríkri upplýsingaskyldu fjarskiptafyrirtækja að því er varðar áskriftarsamninga við neytendur. Slík skylda nær bæði til upplýsinga sem þurfa að liggja fyrir áður en samningur kemst á sem og á gildistíma samnings.
    Í 2. mgr. er lagt til, að fyrirmynd tilskipunarinnar, að fyrirtæki verði nefnd samhliða landsmönnum að því er varðar skyldu ríkisins til að stuðla að því að aðgangur bjóðist að fjarskiptaþjónustu og háhraðanetum, eftir því sem unnt er. Vísað er til fastra neta, farneta og þráðlausra neta, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í öðrum efnisákvæðum frumvarpsins.

Um 3. gr.

Ákvæðið er að fyrirmynd 2. gr. gildandi fjarskiptalaga. Ráðherra fer með yfirstjórn fjarskiptamála, nú samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, með vísan til gildandi forsetaúrskurðar nr. 119/2018 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa umsjón með fjarskiptum innan lögsögu íslenska ríkisins, þar á meðal notkun fjarskiptatíðnirófs og er nýmæli að vísa sérstaklega til þess í ákvæði um stjórn fjarskiptamála. Stofnuninni er enn fremur falið að hafa eftirlit með framkvæmd laganna.

Um 4. gr.

    Lagt er til fjallað verði um fjarskiptaáætlun og fjarskiptaráð í sjálfstæðu ákvæði II. kafla fyrirhugaðra laga. Ekki er um efnislegar breytingar að ræða frá því sem er í 3.–7. mgr. 2. gr. gildandi fjarskiptalaga nema að því leyti að frumvarpið gerir ráð fyrir að í fjarskiptaráði sitji að auki einn fulltrúi atvinnulífsins og einn fulltrúi neytenda. Fjarskiptafyrirtæki, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins hafa í umsögnum um upphafleg drög að frumvarpi þessu lagt áherslu á aðkomu atvinnulífsins að fjarskiptaráði. Að mati ráðuneytisins er rétt að bregðast við þeirri ábendingu og í því skyni að gæta jafnvægis er einnig lagt til að fulltrúi neytenda skuli eiga sæti í ráðinu. Þó er lagt til að 4. málsl. 3. mgr. gildandi laga falli brott enda með frumvarpinu gert ráð fyrir að markmiðum verði gerð skil í sjálfstæðu ákvæði (sjá um 2. gr.). Í samræmi við gildandi lög lagði ráðherra á 149. löggjafarþingi (2018–2019) fyrir Alþingi þingsályktunartillögur um annars vegar stefnu í fjarskiptum fyrir árin 2019–2033 og hins vegar um fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019–2023. Voru þær samþykktar í júní 2019 sem þingsályktanir nr. 32/149 (þskj. 1688, 404. mál á 149. lögþ.) og nr. 31/149 (þskj. 1687, 403. mál á 149. lögþ.).

Um 5. gr.

    Efni tilskipunar (ESB) 2018/1972 gefur tilefni til ýmissa breytinga á orðskýringum frá því sem er í gildandi lögum um fjarskipti auk þess sem nokkuð er um ný hugtök sem m.a. tengjast nýjum áhersluatriðum tilskipunarinnar, svo sem markmiði um að stuðla að uppbyggingu háhraðaneta, bæði fastra og þráðlausra. Þá er töluvert af hugtökum er snúa að skipan tíðnimála, m.a. vegna 5G-tækni. Ýmis hugtök sem skilgreind eru í gildandi fjarskiptalögum halda sér, þar á meðal hugtök sem rætur eiga að rekja til annarra ESB-gerða, t.d. að því er varðar netöryggismál, nethlutleysi, fjarskiptabúnað, alþjóðlegt reiki o.fl.
    Mikilvægt er að skilgreiningar hugtaka taki mið af meginreglunni um tæknilegt hlutleysi og megi aðlaga að tækniþróun, þ.m.t. að nýjum netstjórnunarleiðum eins og hermihugbúnaði (e. emulation software).
    Fjarskiptanet hafa verið að þróast í átt að IP-tækni sem m.a. gerir endanotendum kleift að velja á milli fjölda veitenda símaþjónustu. Hugtakið almenn talsímaþjónusta (e. publicly available telephone service) var á sínum tíma fyrst og fremst hugsað fyrir hliðræna talsímaþjónustu sem nú er á útleið. Því hugtaki verður því skipt út fyrir hugtakið símaþjónusta í 42. tölul. (e. voice communications service) sem verður tæknilega óháð og felur m.a. í sér IP-lausnir. Meginþáttur slíkrar þjónustu verður að hún styðst við númer úr innlendu eða alþjóðlegu númeraskipulagi og er tvíátta, þ.e. býður upp á að báðir aðilar geti haft samskipti samtímis. Þjónusta á borð við hnapp á vef þjónustuveitanda uppfyllir ekki skilyrði þess að teljast símaþjónusta. Það gera hins vegar samskipti sem ætluð eru fötluðum einstaklingum sem nota textasímaþjónustu (e. text relay services) eða heildarsamtalsþjónustu (e. total conversation service) eða margmiðlunarsamtalsþjónusta í rauntíma sem býður upp á tvíátta samhverfan rauntímaflutning á hreyfimynd, textaskilaboðum og tali milli notenda á tveimur eða fleiri stöðum.
    Mikil þróun hefur átt sér stað að því er varðar þjónustu sem nýtt er til rafrænna samskipta og tæknilegra leiða til að koma slíkum samskiptum til skila. Endanotendur eru í síauknum mæli farnir að skipta út hefðbundinni talsímaþjónustu, textaskilaboðum (SMS) og tölvupósti fyrir IP-talsímaþjónustu (VoIP), skilaboðaþjónustu og tölvupóstþjónustu er byggist á veflausnum. Til að tryggja hag og réttindi endanotenda þegar þeir nýta sér ólíka miðla til samskipta er mikilvægt að skilgreiningar á slíkum rafrænum samskiptaþjónustum séu fremur byggðar á notagildi umræddra þjónustna en beinum tæknilegum viðmiðum eins og áður var.
    Gildissvið fjarskiptalaga ætti að vera slíkt að umfangi að unnt sé að ná þeim markmiðum um almannahag sem að er stefnt. Þó að flutningur fjarskiptamerkis (e. conveyance of signals) sé mikilvægt viðmið varðandi mat á því það hvaða tegundir þjónustu falli undir gildissvið fyrirhugaðra laga ættu þau einnig að ná til þjónustu sem gerir rafræn samskipti möguleg. Frá bæjardyrum endanotanda séð skiptir það ekki máli hvort þjónustuveitandi sem hann á viðskipti við flytur fjarskiptamerkið sjálfur eða hvort samskiptin eru flutt um netaðgangsþjónustu (e. internet access service) sbr. 27. tölul. Skilgreining 13. tölul. á hugtakinu fjarskiptaþjónustu ætti því, að fyrirmynd tilskipunar (ESB) 2018/1972, að vera þríþætt og þjónustutegundirnar sem um ræðir geta að hluta til skarast. Í fyrsta lagi telst netaðgangsþjónusta fjarskiptaþjónusta, í skilningi frumvarpsins, í öðru lagi fjarskiptaþjónusta á milli einstaklinga (e. interpersonal communication services) og í þriðja lagi þjónusta sem felst að öllu eða mestu leyti í því að flytja merki, svo sem flutningsþjónusta sem er notuð til að veita þjónustu milli tækja (e. machine-to-machine eða M2M) eða fyrir útsendingu (e. broadcast). Uppfærð skilgreining á hugtakinu fjarskiptaþjónusta ætti að afnema óskýrleika sem fram hefur komið við beitingu hugtaksins í tíð gildandi fjarskiptalaga og gera það mögulegt að hin ýmsu réttindi og skyldur laganna gildi aðeins um tilteknar tegundir þjónustu.
    Til að þjónusta geti talist falla undir hugtakið fjarskiptaþjónusta, eins og það er skilgreint í frumvarpinu, þarf hún almennt að vera veitt gegn endurgjaldi. Í stafrænu hagkerfi telja fyrirtæki í auknum mæli að upplýsingar um notendur hafi verðgildi. Fjarskiptaþjónusta er í auknum mæli veitt gegn samþykki endanotenda um að þjónustuveitandi geti nýtt sér persónuupplýsingar eða aðrar upplýsingar um endanotandann í stað beins endurgjalds í formi peninga. Slíkt samþykki getur bæði verið beint og óbeint. Það sama á við um þær aðstæður þegar endanotandi heimilar aðgang að upplýsingum án þess að veita þær beinlínis sjálfur. Það gæti t.d. átt við um upplýsingar um vistföng eða aðrar sjálfvirkar upplýsingar sem t.d. er safnað saman eða fluttar með vefkökum (e. cookies). Þess má geta að dómstóll ESB hefur komist að þeirri niðurstöðu að endurgjald geti falist í því að þriðji aðili, en ekki endanotandi sjálfur, greiði þjónustuveitanda, t.d. í formi auglýsinga. Vísast til máls C-281/06 (Jundt v. Finanzamt Offenburg), enn fremur máls E-6/16 fyrir EFTA-dómstólnum (Fjarskipti hf. gegn Póst- og fjarskiptastofnun).
     Fjarskiptaþjónusta milli einstaklinga (e. interpersonal communications services) er skv. 14. tölul. öll sú þjónusta sem veitir möguleika á beinum, gagnvirkum upplýsingaskiptum milli einstaklinga, þ.m.t. hefðbundin símaþjónusta milli tveggja einstaklinga, tölvupóstþjónusta, skilaboðaþjónusta og hópspjall. Hugtakið nær eingöngu til samskipta milli ákveðins fjölda einstaklinga sem tilgreindir eru af sendanda en ekki til samskipta á milli ótilgreinds hóps. Hugtakið tekur einnig til samskipta þegar lögaðili á í hlut þar sem einstaklingar koma fram fyrir hönd slíkra aðila. Það teljast gagnvirk upplýsingaskipti þegar þjónusta gerir móttakanda upplýsinga tækifæri á að bregðast við þeim. Hugtakið nær því ekki til þjónustu á borð við línulegra sjónvarpsútsendinga, myndmiðlunar eftir pöntun, vefsíðna, samfélagsmiðla, blogg-síðna eða upplýsingamiðlunar milli tækja. Þá tekur hugtakið ekki til þjónustu sem gerir gagnvirk fjarskipti milli einstaklinga möguleg en aðeins sem minni háttar viðbótarþátt sem er órjúfanlega tengdur annarri þjónustu. Túlka ber „minni háttar viðbótarþátt“ þröngt og frá sjónarhóli endanotenda. Þetta gæti t.d. átt við um samskiptaþræði í nettölvuleikjum sem gerði það þá að verkum að tölvuleikurinn teldist ekki vera fjarskiptaþjónusta á milli einstaklinga.
     Fjarskiptaþjónusta milli einstaklinga sem er tengd númerum er skilgreind í 15. tölul. og nær bæði til númera sem úthlutað er úr landsbundnu eða alþjóðlegu númeraskipulagi eða þjónusta sem gerir fjarskipti möguleg við aðila með slík númer. Óveruleg notkun númers sem auðkennis ætti ekki að jafngilda slíkri notkun á númeri.
    Í gildandi samevrópsku regluverki er litið svo á að fjarskiptaþjónusta milli einstaklinga sem er ótengd númerum, sbr. 16. tölul., skuli því aðeins lúta reglum að því marki sem almannahagsmunir krefjast. Á hinn bóginn þykir réttlætanlegt að reglubyrði sé meiri gagnvart fjarskiptaþjónustu sem tengd er númerum þar sem slík þjónusta tekur þátt í og getur hagnast á opinberu, tryggðu og gagnvirku vistkerfi (númerakerfi).
    Í frumvarpinu er í 4. tölul. að finna skilgreiningu á hugtakinu almennt fjarskiptanet. Sambærilega skilgreiningu er að finna í gildandi lögum en nú er sérstaklega tiltekið að fjarskiptanetið styðji við flutning á upplýsingum milli nettengipunkta. Enn er gerð sú krafa að fjarskiptanetið sé að öllu eða mestu leyti notað til að veita almenna fjarskiptaþjónustu. Með almennri fjarskiptaþjónustu er átt við fjarskiptaþjónustu sem er öllum aðgengileg.
    Í frumvarpinu er í 7. tölul. lagt til að hugtakið endabúnaður verði skilgreint í samræmi við 1. tölul. 1. gr. tilskipunar framkvæmdastjórnarinnar 2008/63/EB um samkeppni á mörkuðum fyrir endabúnað til fjarskipta.
     Nettengipunktur (e. network termination point) markar skil að því er reglusetningu varðar um fjarskiptanet og fjarskiptaþjónustu annars vegar og fjarskiptabúnað hins vegar. Lagt er til að hugtakið verði skilgreint í 28. tölul. Það er í verkahring fjarskiptaeftirlitsstofnana á Evrópska efnahagssvæðinu að staðsetja nettengipunkta bæði í fastanetum og þráðlausum netum en nethögun getur verið með ýmsum hætti. Það er svo í verkahring Evrópsks hóps eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC), í nánu samstarfi við framkvæmdastjórn ESB, að gefa út leiðbeiningar í þessu sambandi um ólíkar sviðsmyndir sem upp geta komið varðandi staðsetningu nettengipunkta.
    Tækniþróun hefur gert endanotendum kleift að njóta aðgangs að neyðarþjónustu (e. emergency service), sbr. 31. tölul., ekki aðeins með símaþjónustu heldur einnig í gegnum aðra fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga. Hugtakið neyðarfjarskipti (e. emergency communications), sem skilgreint er í 30. tölul., ætti því að ná til allrar fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga. Það byggir á þáttum sem annað samevrópskt regluverk gildir um, einkum „opinber neyðarsímsvörunarstöð“ (e. public safety answering point eða PSAP) og „opinber neyðarsímsvörunarstöð sem hentar best“ (e. most appropriate PSAP), eins og hugtök þessi eru skilgreind í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/758 og í framseldri reglugerð framkvæmdarstjórnarinnar (ESB) nr. 305/2013. Í efnisákvæðum frumvarpsins er þó vísað til stofnana sem annast neyðarþjónustu og eru opinberlega viðurkennd sem slík í stað framangreindra hugtaka. Byggir það á orðalagi sem notast hefur verið við hér á landi hvað þetta varðar, sjá og ákvæði laga um samræmda neyðarsvörun, nr. 40/2008 (vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar), og laga um almannavarnir, nr. 82/2008 (samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna). Skal túlkun á neyðarfjarskiptum taka mið af þessu.
    Í orðskýringarákvæði frumvarpsins er lagt til að skilgreind verði nokkur hugtök sem varða stöðu notenda fjarskiptaþjónustu með einum eða öðrum hætti. Ólík hugtök fela í sér mismunandi aðstæður í samskiptum notenda (einstaklinga eða lögaðila) við fjarskiptafyrirtæki sem hefur áhrif á réttarstöðu aðila og er þessi hugtakanotkun að fyrirmynd tilskipunarinnar. Í gildandi lögum er hugtakið notandi notað sem samheiti yfir áskrifendur almennt, þ.e. ekki er verið að vísa til tiltekins áskrifanda. Í 33. tölul. er lagt til að hugtakið notandi (e. user) fái nokkuð víðtækari merkingu, að fyrirmynd tilskipunarinnar, þannig að nái einnig til einstaklings eða lögaðila sem óskar eftir fjarskiptaþjónustu frá fjarskiptafyrirtæki sem mögulega hyggjast endurselja hana til annarra. Þessi merking hugtaksins er ljós þegar hugtakið er borið saman við skilgreiningu 8. tölul. á hugtakinu endanotandi (e. end-user) en það er notandi sem ekki býður almenn fjarskiptanet eða veitir almenna fjarskiptaþjónustu. Þannig má í raun segja að hugtakið endanotandi eins og það er skilgreint í frumvarpi þessu hafi sama inntak og hugtakið notandi samkvæmt gildandi lögum um fjarskipti og notandi komi í stað hugtaksins áskrifandi samkvæmt gildandi lögum um fjarskipti.
    Þá er lagt til að í 32. tölul. skilgreint verði hugtakið neytandi (e. consumer) sem merkir einstakling sem notar eða óskar eftir almennri fjarskiptaþjónustu í öðrum tilgangi en sem tengist atvinnugrein hans, viðskiptum eða starfi. Þetta hugtak er notað þegar fjallað er um réttarstöðu neytenda á einstaklingsmarkaði. Í þessu felst að notandi fjarskiptaþjónustu sem er neytandi getur notið réttinda sem ekki standa til boða fyrir lögaðila sem eru notendur á fyrirtækjamarkaði.
    Eins ber að árétta að þau hugtök frumvarpsins sem varða öryggi kerfa og þjónustu (56. tölul.) sem og öryggisatvik (57. tölul.) taka einnig til öryggis upplýsinga og fjarskiptaleyndar.
    Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 6. gr.

    Ákvæðið byggir á 4. gr. gildandi fjarskiptalaga. Áður en fyrirtæki hefur starfsemi á sviði fjarskipta skal tilkynning þar um send til Póst- og fjarskiptastofnunar með nánar tilgreindum lykilupplýsingum. Að fyrirmynd tilskipunar (ESB) 2018/1972 er í frumvarpinu þó gert ráð fyrir að fyrirtæki sem aðeins veita fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er ótengd númerum séu undanskilin tilkynningaskyldu. Ekki er um veigamiklar breytingar að ræða frá gildandi lögum og felur ákvæðið í sér innleiðingu á 12.–14. gr. tilskipunarinnar. Póst- og fjarskiptastofnun heldur á vef sinni skrá yfir fjarskiptafyrirtæki sem tilkynnt hafa um að þau muni starfa á grundvelli almennrar heimildar. Þess má geta að samevrópskt regluverk gerir ráð fyrir að framvegis verði uppfærðum listum yfir þau miðlað reglubundið til Evrópsks hóps eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC). Gera má ráð fyrir að nánari reglur verði settar um samræmt sniðmát tilkynninga.

Um 7. gr.

    Ákvæðið byggir á 5. gr. gildandi fjarskiptalaga og felur í sér innleiðingu á 15. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Fyrirtæki með almenna heimild skulu eiga rétt á að reka fjarskiptanet og fjarskiptaþjónustu og til að nota fjarskiptatíðniróf í samræmi við nánari efnisákvæði þar um. Þau skulu jafnframt eiga rétt á umfjöllun um umsóknir sínar um nauðsynleg réttindi til að koma upp aðstöðu í samræmi við 34. gr. og um nauðsynlegan afnotarétt af númeraforða í samræmi við 21. gr. Réttur til að semja um samtengingu og/eða fá aðgang að eða samtengingu við önnur fjarskiptafyrirtæki skal einnig tryggður. Loks er, að fyrirmynd gildandi laga, áréttað að til að koma til greina við útnefningu til að veita alþjónustu í samræmi við nánari efnisákvæði þar um þarf fyrirtæki að hafa almenna heimild til reksturs fjarskiptaneta og -þjónustu.

Um 8. gr.

    Lagt er til að í ákvæðinu verði tilgreind skilyrði almennrar heimildar í nokkuð breyttri mynd frá því sem er í 6. gr. gildandi fjarskiptalaga. Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 13. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972, sjá og A-hluta viðauka I við hana. Ákvæðið felur í sér þau skilyrði sem að aðili þarf að uppfylla þegar hann rekur fjarskiptanet eða veitir fjarskiptaþjónustu. Upptalningin byggir á A-hluta áðurnefnds viðauka I tilskipunarinnar.

Um 9. gr.

    Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 2. mgr. 13. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972, sjá og B-hluta viðauka I við hana. Lagt er til að útlistuð verði sérstök skilyrði sem fjarskiptafyrirtæki sem bjóða fjarskiptanet skulu bundin af. Hin sérstöku skilyrði eru talin upp í stafliðum a–j og kveða á um skilyrði er varða samtengingu, flutningsskyldur sem hér á landi er að finna í ákvæðum fjölmiðlalaga, nr. 38/2011, ákveðnar ráðstafanir til verndar lýðheilsu, kröfur er varðar viðhald á heildstæði almennra fjarskiptaneta, kröfur er varða vernd og öryggi almennra fjarskiptaneta, að þau skilyrði sem kveðið er á um í frumvarpinu og varða notkun fjarskiptatíðnirófs séu virt, kröfur varðandi rekstrarsamhæfni, aðgengi endanotenda að númerum, að farið sé að kröfum frumvarpsins er varða neytendavernd og að takmarkanir með tilliti til sendingar á ólöglegu efni í samræmi við ákvæði annarra laga. Rétt er að taka fram að skilyrði skv. b-lið 1. mgr. um flutningsskyldu vísar til línulegra sjónvarpsútsendinga í skilningi fjölmiðlalaga.
    Að fyrirmynd tilskipunarinnar er í 2. mgr. gert ráð fyrir að fyrirtæki sem aðeins veita fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er ótengd númerum séu undanskilin tilteknum skilyrðum í 1. mgr.

Um 10. gr.

    Ákvæðið byggir á 1.–2. mgr. 36. gr. gildandi fjarskiptalaga og felur í sér innleiðingu á 17. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Ákvæðið felur í sér að fjarskiptafyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður sem reka almenn fjarskiptanet eða veita almenna fjarskiptaþjónustu og njóta jafnframt einka- eða sérréttinda á öðru sviði en fjarskiptum skulu halda fjarskiptastarfsemi sinni fjárhagslega aðskilinni frá annarri starfsemi líkt og um óskyld fyrirtæki væri að ræða. Póst- og fjarskiptastofnun hefur túlkað þetta ákvæði í framkvæmd í fjölmörgum ákvörðunum sínum. Þá hefur úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála jafnframt úrskurðað í málum er varða þessa kröfu. Í nýlegum úrskurði nefndarinnar, í máli nr. 2/2019, má ráða að leggja beri rúma merkingu í ráðstafanir sem Póst- og fjarskiptastofnun getur gripið til við framkvæmd og útfærslu á fjárhagslegum aðskilnaði í skilningi ákvæðisins. Ákvæðið er efnislega það sama og í gildandi lögum en með þeirri breytingu að gert er ráð fyrir að eftirlitsskyldur aðili sem ákvæðið tekur til skili Póst- og fjarskiptastofnun árlega skýrslu með sundurliðun á tekjum og gjöldum. Stofnunin hefur í reynd framkvæmt eftirlitið með þessum hætti til þessa, a.m.k. hvað varðar Gagnaveitu Reykjavíkur ehf., sbr. ákvörðun nr. 39/2010, en rétt þykir að lögfesta þessa framkvæmd og gera hana að almennri reglu.

Um 11. gr.

    Ákvæðið byggir á 12. gr. gildandi fjarskiptalaga og felur í sér innleiðingu á 18. gr. tilskipunarinnar. Sú breyting er þó lögð til að aðeins verði fjallað um breytingar á réttindum en ekki jöfnum höndum breytingar og afturköllun. Um afturköllun réttinda vísast til ákvæða XV. kafla.

Um 12. gr.

    Allnokkur ákvæði tilskipunar (ESB) 2018/1972 fjalla um samræmingu milli ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins við skipulag fjarskiptatíðnirófsins og stjórnun tíðnimála, sbr. einkum 4., 28., 36., 45., 46. og 53. gr. Annars vegar er um að ræða ákvæði sem lúta að samræmingu við skipulag tíðnirófsins almennt. Hins vegar eru ákvæði sem lúta að samræmingu í sérstökum tilvikum, svo sem milli einstakra ríkja, til að koma í veg fyrir fjarskiptatruflanir yfir landamæri, um samræmda úthlutun tiltekinna tíðna fyrir ákveðin tímamörk eða um samræmda tímasetningu og framkvæmd slíkra úthlutana. Rétt þykir að fjalla um hlutverk og valdheimildir Póst- og fjarskiptastofnunar til að skipuleggja íslenska tíðnirófið og stjórna tíðnimálum á einum stað í frumvarpinu. Þá er gengið út frá því að verkefni stofnunarinnar við samræmingu tíðniskipulagsins og tíðniúthlutana vegna sérstakra þarfa eða tilvika fái rúmast innan almennrar heimildar hennar til að skipuleggja og stjórna tíðnirófinu, sjá og 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Með öðrum orðum ber að túlka ákvæðið á þann veg að Póst- og fjarskiptastofnun geti uppfyllt þau skilyrði og markmið sem kveðið er á um í tilvitnuðum ákvæðum tilskipunarinnar hér að framan. Inntak og uppbygging þessa ákvæðis er þannig ekki ósvipað ákvæði 14. gr. núgildandi fjarskiptalaga sem fjallar um skipulag tíðnirófsins.
    Í 2. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að skipulagi íslenska tíðnirófsins skuli hagað til samræmis við ákvarðanir um samræmda tíðninotkun sem gilda fyrir Evrópska efnahagssvæðið. Hér er um að ræða ákvarðanir sem framkvæmdastjórn ESB tekur um afnot einstakra tíðnisviða og þeirra skilyrða sem slík afnot kunna að vera bundin. Eins og ákvæðið ber með sér eru slíkar samræmingarákvarðanir framkvæmdastjórnar ESB ekki skilyrðislaust bindandi hér á landi heldur er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að víkja frá ákvörðunum um samræmda tíðninotkun ef slík notkun hentar ekki fyrir íslenskar aðstæður og hefur ekki hamlandi eða skaðlega truflandi áhrif á samræmda notkun tíðnisviðsins í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Eftirspurn eftir tiltekinni tíðninotkun getur t.d. verið lítil eða ekki fyrir hendi hér á landi eða önnur tíðninotkun talin henta íslenskum aðstæðum mun betur og frávik ekki talið fara í bága við þau markmið sem evrópskt fjarskiptaregluverk byggir á, sbr. 3. gr. tilskipunarinnar. Slík ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar skal vera rökstudd og hún tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA, svo og sæta reglulegri endurskoðun.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að Póst- og fjarskiptastofnun meti og taki ákvörðun um hvaða tíðnisvið eru notuð á grundvelli almennrar heimildar, sbr. 7 gr., sbr. og f-lið 9. gr. frumvarpsins, og hvaða tíðnisvið eru nýtt samkvæmt sérstakri tíðniúthlutun (e. individual rights). Meginreglan er sú að tíðniafnot séu heimil samkvæmt almennri heimild. Ef mat Póst- og fjarskiptastofnunar er að slíkt fyrirkomulag geti verið óæskilegt getur stofnunin ákveðið að tíðniafnot séu bundin sérstakri úthlutun. Við slíkt mat ber stofnuninni m.a. að horfa til: a) sérstakra eiginleika þess tíðnirófs sem um er að ræða, b) þarfarinnar á vernd gegn skaðlegum truflunum, c) þróunar áreiðanlegra skilyrða fyrir samnýtingu tíðnirófs, eftir því sem við á, og d) þarfarinnar á að tryggja tæknileg gæði fjarskipta eða þjónustu.
    Póst- og fjarskiptastofnun ber jafnframt að horfa til alþjóðlegra skuldbindinga varðandi skipulag tíðnirófsins, svo sem ákvarðana Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU) og Fjarskiptaráðs evrópskra eftirlitsaðila (ECC). Í 4. mgr. er fjallað um slíkar alþjóðlegar ákvarðanir og samþykktir og mælt fyrir um að Póst- og fjarskiptastofnun geti gert þær skuldbindandi hér á landi með því að vísa til þeirra í tíðniskipulagi stofnunarinnar sem er birt opinberlega á vef stofnunarinnar og endurskoðað reglulega. Opinber birting á ákvörðun eða samþykkt þar til bærs erlends aðila í íslenska tíðniskipulaginu jafngildir birtingu slíkrar gerðar í Stjórnartíðindum, enda um að ræða gjörðir sem eru tæknilegs eðlis og beinast að afmörkuðum hópi manna sem hefur sérfræðiþekkingu á þessu sviði.
    Í 5. mgr. er fjallað um þær meginreglur sem almennt gilda þegar kemur að úthlutun tíðna og hagnýtingu þeirra. Úthlutun tíðniréttinda skal byggð á viðmiðum sem eru hlutlæg, gagnsæ, samkeppnishvetjandi, án mismununar og hófleg. Í þessu felst að ekki skal binda tíðniúthlutanir óþarfa skilyrðum eða kröfum sem eru meira íþyngjandi en þörf er á til að ná því markmiði sem að er stefnt. Enn fremur felst í þessu krafa um að skilyrði tíðniheimilda þurfi að vera skýr og framkvæmanleg. Jafnframt er vísað til meginreglna um tækni- og þjónustuhlutleysi. Af þeim leiðir að almennt skal ekki úthluta tíðnum sem bundnar eru við tiltekna tækni eða eru einskorðaðar við ákveðna tegund fjarskiptaþjónustu. Talið er að það fari best á því að mat um það hvað teljast vera bestu og hagkvæmustu tækni- og þjónustulausnirnar sé í höndum markaðsaðila hverju sinni. Hins vegar geta verið ástæður fyrir því að Póst- fjarskiptastofnun ákveði að víkja frá þessum meginreglum ef gild rök hníga til þess. Slík rök geta t.d. verið: a) að koma í veg fyrir skaðlegar fjarskiptatruflanir, b) að takmarka rafsegulgeislun við ákveðin gildi, c) að tryggja tiltekin gæði fjarskiptaþjónustunnar, d) að hámarka samnýtingarmöguleika tíðna og e) að tryggja skilvirka nýtingu tíðnirófsins. Til viðbótar þessum sjónarmiðum getur ákvörðun um að binda notkun tiltekinna tíðna við ákveðna tegund fjarskiptaþjónustu byggst á: a) öryggi mannslífa, b) því að stuðla að félagslegri og svæðisbundinni samheldni og samheldni milli svæða og c) því að stuðla að menningarlegri fjölbreytni, margbreytileika tungumála og fjölhyggju fjölmiðla, t.d. með hljóðvarps- og sjónvarpsútsendingum.
    Eins og ákvæðið ber með sér felur skipulag tíðnirófsins í sér talsverða samræmingu á nýtingu tíðnisviða innan Evrópu og á alþjóðavettvangi auk þess sem huga þarf að aðstæðum hér á landi þegar kemur að ráðstöfun á tíðnum. Um er að ræða auðlindanýtingu sem á sér stað í flóknu og síbreytilegu tækniumhverfi. Af þessum ástæðum krefst stjórnun tíðnimála nokkurs sveigjanleika. Því er í 6. mgr. gert ráð fyrir því að ráðherra gefi út reglugerð til nánari útfærslu á skipulagi og úthlutun tíðna hér á landi.

Um 13. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. mgr. 7. gr. gildandi fjarskiptalaga. Tíðniréttindi eru takmörkuð og verðmæt auðlind sem lýtur forræði íslenska ríkisins innan lögsögu þess. Úthlutun tíðniréttinda, hvort heldur til einstaklinga eða lögaðila, felur í sér heimild til skilyrtra afnota sem hvorki leiðir til beins eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðstöfunarréttar.
    Þetta ákvæði og önnur ákvæði þessa kafla, fyrir utan 12. gr. sem lýtur að skipulagi tíðnirófsins almennt, varða tíðniréttindi samkvæmt sérstakri úthlutun. Af þessum sökum er tekið fram að ákvæðið gildi um tíðniréttindi sem ekki falla undir almenna heimild með tilvísun í 7 gr., sbr. og f-lið 9. gr. frumvarpsins. Með sérstakri úthlutun er átt við að tíðniréttindunum sé úthlutað samkvæmt sérstöku ferli og að réttindin séu formbundin. Þannig er gert ráð fyrir að slíkum tíðniréttindum sé úthlutað með útgáfu tíðniheimildar sem kveður á um réttindi og skyldur tíðnirétthafa. Inntak hugtaksins rétthafi ræðst af hefðbundinni lögfræðilegri skilgreiningu á því.
    Í grunninn er þetta sama ákvæði og er að finna í 7. gr. gildandi laga með orðalagi um að tíðniréttindi séu bundin við nafn og kennitölu. Í gildandi fjarskiptalögum er tekið fram að framsal tíðniréttinda sé óheimilt. Meginbreytingin, verði frumvarp þetta að lögum, er sú að almennt verður heimilt að framselja varanlega, lána og leigja tíðniréttindi, í samræmi við 51. gr. tilskipunarinnar. Hugsunin er sú að frjálst framsal tíðniréttinda sé meginreglan, sbr. orðalag ákvæðisins um að Póst- og fjarskiptastofnun skuli almennt ekki synja um framsal, lán eða leigu á tíðniréttindum. Þessi framsals- og lánsréttur er þannig ekki skilyrðislaus þar sem viðtakandi rétthafi þarf að vera fær um að yfirtaka þær skyldur og skuldbindingar sem kveðið er á um í viðkomandi tíðniheimild og eftir atvikum í skilmálum fyrir úthlutun heimildarinnar, auk þess að vera skráður sem fjarskiptafyrirtæki hér á landi. Það er Póst- og fjarskiptastofnun sem leggur mat á hæfni fyrirhugaðs viðtakanda réttindanna. Þannig er ekki nóg að hann leggi fram skriflega og staðfesta yfirlýsingu um að hann yfirtaki umræddar skyldur og/eða skuldbindingar skv. b-lið 3. mgr. ef skilyrði skv. c-lið ákvæðisins er ekki uppfyllt að áliti Póst- og fjarskiptastofnunar. Telji Póst- og fjarskiptastofnun að ólíklegt sé að fyrirhugaður viðtakandi tíðniréttinda geti uppfyllt skilyrði viðkomandi tíðniheimildar eða staðið við skuldbindingar sem bundnar eru við hana, t.d. um útbreiðslu og gæði fjarskiptaþjónustunnar, er stofnuninni heimilt að synja um framsal, lán eða leigu á tíðniréttindum. Slík ákvörðun skal vera rökstudd og hún er kæranleg. Jafnframt ber að hafa í huga sem valkost við mögulega synjun á framsali, láni eða leigu tíðniréttinda að gera breytingar á skilmálum viðkomandi tíðniheimildar, sbr. heimild skv. 14. gr. frumvarpsins. Hér er ekki endilega um það að ræða að Póst- og fjarskiptastofnun slaki á skilyrðum eða skuldbindingum tíðniheimildar, þótt það kunni að koma til greina ef mat stofnunarinnar er að umrædd skilyrði eða skuldbindingar séu ekki lengur við hæfi eða þeirra ekki lengur þörf. Fremur kemur til álita að aðlaga skilyrði og skuldbindingar að nýjum viðtakanda réttindanna, jafnvel með því að setja ný skilyrði í heimildina. Slík ráðstöfun getur einnig verið tímabundin þar til reynsla hefur fengist af nýjum rétthafa tíðniréttindanna.
    Skylt er að tilkynna til Póst- og fjarskiptastofnunar um fyrirhugað framsal, lán eða leigu tíðniréttinda með a.m.k. 30 daga fyrirvara áður en fyrirhuguð ráðstöfun á að taka gildi. Slíkri tilkynningu skulu fylgja allar nauðsynlegar upplýsingar um nýjan viðtakanda réttindanna og upplýsingar um ástæður og forsendur framsals, láns eða leigu á réttindunum. Á grundvelli heimildar sinnar til gagnaöflunar vegna rannsókna á einstökum málum getur Póst- og fjarskiptastofnun kallað eftir þeim gögnum sem hún telur nauðsynleg til að leggja mat á hæfi nýs viðtakanda réttindanna og um lögmæti framsals, láns eða leigu réttindanna að öðru leyti. Ef gleymist eða ferst fyrir af einhverjum ástæðum að tilkynna um fyrirhugað framsal, lán eða leigu á tíðniréttindum er í 5. mgr. gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun geti tekið ákvörðun á grundvelli þessa ákvæðis þegar stofnunin fær vitneskju um viðkomandi framsal, lán eða leigu. Með vitneskju um fyrirhugað framsal, lán eða leigu tíðniréttinda er átt við að Póst- og fjarskiptastofnun hafi fengið sannanlegar upplýsingar um löggerninginn eða ráðstöfunina. Ekki dugar að leggja til grundvallar að stofnunin hafi mátt vera ljóst að framsal, lán eða leiga tíðniréttinda hafi átt sér stað.
    Ríkja skal gagnsæi um framsal, lán eða leigu tíðniréttinda. Því er í lokamálsgrein ákvæðisins gert ráð fyrir því að Póst- og fjarskiptastofnun uppfæri skrá sína um útgefnar tíðniheimildir og rétthafa þeirra þegar framsali, láni eða leigu á tíðniréttindum hefur verið samþykkt.

Um 14. gr.

    Með þessu ákvæði frumvarpsins er lagt til að innleidd verði 52. gr. tilskipunarinnar. Ljóst er að aðgangur að tíðniréttindum getur haft veruleg áhrif á samkeppnisstöðu aðila sem starfa á mörkuðum fyrir þráðlausa fjarskiptaþjónustu. Sífelld aukning á gagnamagni í umferð á farnetum kallar á meiri og stærri úthlutanir á tíðnisviðum. Ef stærð tíðnisviða er ekki aukin þrátt fyrir aukið gagnamagn getur það farið að hafa áhrif á gagnaflutningshraða í viðkomandi farneti og þar með þjónustuupplifun viðskiptavina fjarskiptafyrirtækja. Þannig er aðgangur að tíðnum eftirsótt og verðmæt auðlind og kappsmál fyrir markaðsaðila í farnetsþjónustu að hafa aðgang að nægu tíðnisviði fyrir hana. Þegar tíðniúthlutun á tilteknu tíðnisviði hefur verið takmörkuð, sbr. 15. gr. frumvarpsins, og eftirspurn er meiri en framboð getur reynt á samkeppnissjónarmið við nýja úthlutun á slíku tíðnisviði, endurnýjun þegar útgefinna tíðniréttinda, endurskoðun á skilmálum slíkrar úthlutunar eða við framsal á slíkum réttindum.
    Með frjálsu framsali á tíðniréttindum (sbr. 13. gr. frumvarpsins), ásamt þeirri breytingu að skapa aukinn fyrirsjáanleika við ráðstöfun tíðniréttinda sem bundin eru samræmingarákvörðun innan Evrópska efnahagssvæðisins til 20 ára eða með lágmarksgildistíma slíkra réttinda til a.m.k. 15 ára (sbr. 18. gr. frumvarpsins), er nauðsynlegt að grípa til mótvægisaðgerða til að koma í veg fyrir möguleg samkeppnisvandamál sem kunna að koma upp á gildistíma réttindanna, t.d. við framsal á slíkum réttindum eða við nýja úthlutun eða endurnýjaða úthlutun á öðrum tíðnisviðum sem hafa samkeppnisleg áhrif á viðkomandi réttindi. Meginhugsunin felst í því að koma í veg fyrir að tíðniréttindi safnist fyrir á fárra hendur sem skapar samkeppnishindranir á markaði eða erfiðleika fyrir innkomu nýrra aðila á markaðinn. Sömuleiðis ef mikið ójafnvægi skapast varðandi aðgang að tíðnum sem hafa í för með sér aðstöðumun og skekkta samkeppnisstöðu. Með þessu er ekki verið að létta ábyrgð af fjarskiptafyrirtækjum um að gera eðlilegar ráðstafanir til að tryggja sér aðgang að tíðniréttindum við úthlutun þeirra, t.d. í útboði eða uppboði, heldur fremur að taka á aðstæðum sem upp kunna að koma, eru ekki fyrirséðar og e.t.v. ekki á valdi þeirra fjarskiptafyrirtækja sem verða fyrir neikvæðum samkeppnislegum áhrifum. Því ber Póst- og fjarskiptastofnun ávallt að meta hvaða samkeppnislegu áhrif tiltekin ráðstöfun tíðniréttinda muni hafa, hvort sem um er að ræða nýja úthlutun, endurnýjun á úthlutun eða framsal, lán eða leigu á tíðniréttindum. Einnig getur verið um að ræða aðrar forsendubreytingar sem hafa áhrif á samkeppni á markaði og kalla á inngrip af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar hvað varðar handhöfn tíðniréttinda eða breytingu á skilyrðum sem við þau eru bundin.
    Þær ráðstafanir sem Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að grípa til í þeim tilgangi að koma í veg fyrir samkeppnisvandamál tengdum tíðniréttindum eru talin upp í stafliðum ákvæðisins. Ekki þykir þörf á að útskýra efni þeirra sérstaklega. Hins vegar er rétt að geta þess að ekki er um ræða tæmandi upptalningu á mögulegum ráðstöfunum sem Póst- og fjarskiptastofnun getur gripið til en aðrar ráðstafanir skulu vera málefnalegar og ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til að ná því lögmæta markmiði sem að er stefnt, sbr. 1. málsl. ákvæðisins. Það sama á að sjálfsögðu einnig við um þær ráðstafanir sem sérstaklega eru taldar upp í ákvæðinu.

Um 15. gr.

    Með þessu ákvæði er lagt til að innleiddar verði 35. og 55. gr. tilskipunarinnar. Efni ákvæðisins varðar heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að takmarka tíðniúthlutanir á tilteknu tíðnisviði. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að úthlutuð tíðnisvið þurfa oft að vera af tiltekinni stærð þannig að unnt sé að veita tiltekna tegund af fjarskiptaþjónustu. Þegar svo háttar til er einungis hægt að úthluta tilteknum fjölda tíðniréttinda miðað við heildarstærð viðkomandi tíðnisviðs. Við slíkar aðstæður er mögulegt að framboð reynist vera minna en eftirspurn. Fleira getur haft áhrif á fjölda og stærð einstakra tíðniúthlutana, t.d. markmið um gæði þjónustunnar og hagkvæma uppbyggingu hennar en með stærra tíðnisviði gefst kostur á að fækka sendastöðum og gera uppbyggingu þannig ódýrari en ella. Ríkar kröfur til útbreiðslu fjarskiptaþjónustu geta því leitt til ákvörðunar um að úthluta stærra tíðnisviði en nauðsynlegt er til að veita þjónustuna eingöngu út frá tæknilegum forsendum. Sams konar heimild er að finna í 9. gr. núgildandi fjarskiptalaga.
    Ljóst er að ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar um skiptingu tíðnisviða og takmörkun á fjölda og stærð tíðniúthlutana hafa mikil áhrif á fjarskiptamarkaðinn enda er ekki ólíklegt að við slíkar aðstæður sé framboð af tíðnum minna en eftirspurn eftir þeim. Því er gert ráð fyrir að stofnunin viðhafi almennt og opið samráð um fyrirætlanir sínar í þessum efnum og taki á endanum rökstudda ákvörðun um skiptingu tíðnisviðs, fjölda og stærð tíðniréttinda. Í slíkri ákvörðun felst jafnframt niðurstaða um hvaða aðferð verður notuð til úthlutunar á réttindunum, t.d. uppboð, útboð eða annars konar aðferð. Það er því mikilvægt þegar efnt er til samráðs um takmarkanir á tíðniréttindum að fyrir liggi upplýsingar um þá aðferðafræði tíðniúthlutunar sem stuðst verður við auk þeirra viðmiða sem ráða munu vali á tíðnirétthöfum, ef um er að ræða úthlutun samkvæmt samkeppnisaðferð. Við samráð um takmörkun á tíðniréttindum samkvæmt þessu ákvæði þurfa ekki að koma fram ítarlegar eða tæmandi upplýsingar um úthlutunarferlið enda er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun viðhafi sérstakt samráð um drög að útboðs- eða uppboðsskilmálum eða aðra aðferð sem notuð verður. Upplýsingagjöf um þessi atriði í samráði um takmörkun tíðniréttinda þarf þó að vera nægjanleg til að markaðsaðilar geti í megindráttum metið mögulegar fjárhagslegar skuldbindingar sem tíðniúthlutunin gæti haft í för með sér fyrir þá.
    Í ljósi þess að ákvörðun um takmörkun tíðniúthlutunar hefur mótandi áhrif á markaðsaðstæður og markmið samstarfsins um Evrópska efnahagssvæðið er lýtur að einsleitu markaðsumhverfi er nú brugðið á það ráð að aðildarríkjum ber að tilkynna um fyrirhugaðar ákvarðanir um takmörkun á tíðniúthlutunum, samkvæmt þessu ákvæði, til Evrópsks stefnuhóps um fjarskiptatíðnirófið (e. Radio Spectrum Policy Group eða RSPG). Í tilkynningunni eða í eftirfarandi rökstuðningi skal Póst- og fjarskiptastofnun rökstyðja hvernig takmörkunin sé í samræmi við eitt eða fleiri skilyrði sem talin eru upp í 1. mgr. ákvæðisins. Hin svokallaða jafningjarýni hópsins felst í því að yfirfara þessar forsendur og meta hvort fyrirætluð ráðstöfun eftirlitsstjórnvaldsins sé líkleg til að uppfylla þessi markmið. Jafningjarýni um tilkynnta takmörkun á sér ekki stað nema Póst- og fjarskiptastofnun óski eftir slíkri málsmeðferð. Ef jafningjarýni fer fram um tilkynnta takmörkun Póst- og fjarskiptastofnunar þarf rökstuðningur stofnunarinnar jafnframt að sýna fram á að skilyrði skv. 2. mgr. séu uppfyllt en það eru skilyrði sem horfa til evrópsks fjarskiptamarkaðar í víðara samhengi. Að lokinni mögulegri jafningjarýni getur stefnuhópurinn gefið frá sér álit um tilkynnta takmörkun á tíðniúthlutun. Póst- og fjarskiptastofnun ber að taka ýtrasta tillit til þeirra sjónarmiða sem þar koma fram og rökstyðja í endanlegri ákvörðun um takmörkun á tíðniúthlutun ef mat hennar er að ekki verði fallist á sjónarmið stefnuhópsins, hvort heldur að hluta eða öllu leyti. Í ljósi þess að jafningjarýni skv. 35. gr. tilskipunarinnar varðar ráðstöfun sem fjallað er um í 55. gr. hennar þykir hagkvæmt að innleiða þessi tvö ákvæði í einu og sama ákvæði.

Um 16. gr.

    Með þessu ákvæði frumvarpsins er lagt til að innleidd verði 47. gr. tilskipunarinnar. Hér er um að ræða þau skilyrði sem Póst- og fjarskiptastofnun má binda tíðniréttindi sem gefin eru út samkvæmt sérstakri úthlutun. Ekki þykir þörf á að fjalla um tiltekin skilyrði skv. 1. mgr. ákvæðisins, að undanskildu skilyrði skv. g-lið, þ.e. hvers kyns skuldbindingar sem fyrirtæki, sem hafa fengið afnotarétt, hafa gengist undir innan ramma ferlisins við veitingu eða endurnýjun heimildar áður en heimildin var veitt eða, eftir atvikum, samkvæmt umsókn um afnotarétt. Ljóst er að það er nokkuð opið hvað getur fallið hér undir. Telja verður að skilyrði sem sett eru samkvæmt þessum staflið 1. mgr. þurfi að vera í samræmi við markmið fjarskiptalaga og/eða hafa tengingu við framkvæmd viðkomandi tíðniúthlutunar, svo sem ákvæði tíðniheimildar um dagsektir, skýrslugjöf um áfanga uppbyggingar, úrræði til að bregðast við skaðlegum truflunum o.s.frv.
    Í 2. mgr. eru talin upp skilyrði sem lagt er til að Póst- og fjarskiptastofnun geti sett í því skyni að stuðla að markmiðum um útbreiðslu fjarskiptaþjónustu. Eðli málsins samkvæmt geta skilyrði um uppbyggingu og útbreiðslu fjarskiptaþjónustu verið íþyngjandi fyrir tíðnirétthafa og verið hlutaðeigandi kostnaðarsöm. Þegar sett eru íþyngjandi skilyrði samkvæmt þessari málsgrein verður að ætla að það hafi áhrif á ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um lágmarksboð í tíðnir, ef þau eru boðin upp, og gildistíma viðkomandi réttinda. Almennt er rétt að verð fyrir tíðniheimildir lækki eftir því sem skuldbindingar sem fylgja þeim eru kostnaðarsamari og að gildistími þeirra lengist að sama skapi.

Um 17. gr.

    Með þessu ákvæði frumvarpsins er lagt til að innleidd verði 48. gr. tilskipunarinnar um málsmeðferð við úthlutun tíðniréttinda. Ákvæði tilskipunarinnar er nokkuð opið hvað þetta varðar og gefur talsvert svigrúm um hvaða reglur um málsmeðferð aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins setja sér varðandi úthlutun tíðna. Ákvæði 11. gr. gildandi fjarskiptalaga er nokkuð nýlegt hvað þetta varðar, sbr. lög nr. 34/2011 um breytingu á fjarskiptalögum. Ekki þykir þörf nú, við innleiðingu á endurnýjuðu evrópsku fjarskiptaregluverki, að hrófla við gildandi málsmeðferðarreglum.
    Við úthlutun tíðna má fyrst og fremst notast við fjórar aðferðir. Í fyrsta lagi er hægt að úthluta tíðnum með almennri úthlutun sem kemur til greina þegar engin umframeftirspurn er eftir tíðnum á viðkomandi tíðnisviði. Í öðru lagi er hægt að úthluta tíðnum samkvæmt opnu samráðsferli við markaðsaðila. Í þriðja lagi með útboði og í fjórða lagi má úthluta tíðnum með uppboði, samkvæmt ákvörðun ráðherra. Útboð og uppboð eru úthlutunaraðferðir sem koma til skoðunar fyrst og fremst þegar eftirspurn er meiri en framboð og eru við þær aðstæður nauðsynlegar svo gæta megi jafnræðis við úthlutun. Forsenda fyrir vali á úthlutunaraðferð er því að fyrir liggi hvort eftirspurn sé eftir viðkomandi tíðnisviði eða ekki.
    Líkt og að gildandi lögum er í 1. mgr. gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun taki ákvörðun um réttindi til að nota tíðnir eins fljótt og unnt er eftir móttöku umsóknar. Gert er ráð fyrir tafarlausri afgreiðslu í 2. mgr. ef sótt er um óverulegan hluta tíðnisviðs og ekki er hætta á að úthlutun geti skert framboð á tíðnum á umræddu sviði eða hamlað samkeppni. Undir þetta ákvæði geta t.d. fallið umsóknir um einstakar tíðnir fyrir fastasambönd og talstöðvar og umsóknir um minniháttar úthlutanir á fjarskipta- og útvarpstíðnum.
    Samkvæmt 3. mgr. skal Póst- og fjarskiptastofnun kanna áhuga á afnotum af tíðnisviðum fyrir almenna fjarskiptaþjónustu og útvarp ef umsókn fellur ekki undir 2. mgr. Ef mikill áhugi kemur í ljós skal viðkomandi tíðnisviði úthlutað með útboði eða uppboði, nema að sérstakar aðstæður mæli gegn því og er þá úthlutað með samráðsaðferð. Ef áhugi reynist lítill er fyrirliggjandi umsókn að jafnaði tekin til afgreiðslu án frekari tafar og úthlutað samkvæmt henni ef öllum viðeigandi kröfum um hæfi umsækjanda og notkun tíðnisviðsins er fullnægt.
    Í 4. mgr. er greint frá almennum kröfum sem gera má til umsækjenda um réttindi til að nota tíðnir. Annars vegar er fjallað um þær upplýsingar sem umsækjandi þarf að veita áður en umsókn hans er afgreidd og hins vegar er heimild til að setja almenn hæfisskilyrði sem stuðla eiga að því að notkun á réttindum verði skilvirk og í samræmi við ákvæði laganna.
    Í 5. mgr. er fjallað um takmarkanir sem hægt er að setja varðandi úthlutun útvarpstíðna vegna menningarlegra sjónarmiða, svo sem til þess að stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Einnig er gert ráð fyrir að setja megi skorður við úthlutun tíðna ef úthlutun getur orðið til þess að hindra virka samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Hér er einkum átt við að komið verði í veg fyrir að tíðniheimildir fyrir útvarp safnist á fárra hendur. Við beitingu þessa ákvæðis er eðlilegt að hafa samráð við þá stofnun sem fer með eftirlit með fjölmiðlum.
    Í 6. mgr. er nánar fjallað um framkvæmd útboða á tíðnum og númerum og í 7. mgr. um uppboð. Gert er ráð fyrir nánari útfærslu í reglugerð, sbr. 10. mgr., með vísan til gildandi reglugerðar nr. 1047/2011 um skipulag og úthlutun tíðna í fjarskiptum.
    Í 8. mgr. er fjallað um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til álagningar dagsekta og gert ráð fyrir óbreyttum fjárhæðarmörkum, þ.e. allt að 500.000 kr. á dag. Ákvæðið er einkum mikilvægt til þess að fylgja eftir kröfum um uppbyggingu og útbreiðslu fjarskiptaþjónustu sem gengist er undir í útboði eða uppboði. Algengt er að uppbygging fjarskiptaneta taki lengri tíma en lofað er í tilboði og það kemur fyrir að engin uppbygging eigi sér stað. Í slíkum tilvikum er þörf fyrir skýrt og fljótvirkt úrræði til þess að bregðast við vanefndum.
    Ef ákveðið er að úthluta tíðniréttindum á grundvelli samkeppnisaðferðar er í 9. mgr., líkt og að gildandi lögum, gert ráð fyrir að heimild til að framlengja málsmeðferðartíma skv. 1. mgr. miðist við átta mánuði að hámarki.
    Í 10. mgr. er gert ráð fyrir að nánar sé kveðið á um málsmeðferð við úthlutun tíðniréttinda í reglugerð. Í lokamálsgrein er lagt til að vísað verði til sameiginlegs úthlutunarferlis sem byggir á því að Póst- og fjarskiptastofnun geti tekið þátt í samstarfi ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu um tiltekna úthlutun, með vísan til 37. gr. tilskipunarinnar.

Um 18. gr.

    Lagt er til að með ákvæðinu verði innleiddar 49. og 50. gr. tilskipunarinnar sem varða gildistíma tíðniréttinda og endurnýjun þeirra. Þar sem um er að ræða skyld atriði þykir haganlegt að fjalla um þetta í einu og sama ákvæði fyrirhugaðra laga.
    Í 1. mgr. er fjallað um ákvörðun á gildistíma tíðniréttinda almennt. Hér um að ræða sérstaka úthlutun tíðniréttinda sem ekki eru bundin ákvörðunum um samræmda tíðninotkun innan Evrópska efnahagssvæðisins. Tekið er fram að við afmörkun gildistíma tíðniréttinda þurfi að horfa til atriða sem geta haft áhrif á verðmæti tíðnanna og/eða kostnað við efna skuldbindingar sem við þær eru bundnar, t.d. um útbreiðslu og gæði fjarskiptaþjónustunnar. Því meiri sem áætlaður kostnaður er við að uppfylla skuldbindingar því lengri tíma þarf að áætla til fyrningar og eðlilegrar endurheimtu á fjárfestingunni. Ýmis önnur atriði þarf að hafa í huga við ákvörðun á gildistíma tíðniréttinda, t.d. hvaða áhrif slík ákvörðun hefur á samkeppni, möguleika á innkomu nýrra aðila á markað og hvaða áhrif gildistími tíðniréttinda getur haft á skilvirka nýtingu tíðnirófsins.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er fjallað um tíðniréttindi sem bundin eru ákvörðunum um samræmda tíðninotkun innan Evrópska efnahagssvæðisins. Til viðbótar við almenn skilyrði sem horfa þarf til skv. 1. mgr. eru gerðar viðbótarkröfur sem eru til þess fallnar að skapa aukinn fyrirsjáanleika fyrir rétthafa þeirra. Gerð er krafa um fyrirsjáanleika ráðstöfunar tíðniréttinda til a.m.k. tuttugu ára. Með ráðstöfun er í þessu sambandi átt við atriði sem varða lagalega umgjörð réttindanna, þ.e. hvaða réttindi og skyldur þeim fylgja, sem getur haft áhrif á rekstrarumhverfi tíðnirétthafa. Heimilt er að úthluta tíðniréttindum sem falla undir þessa málsgrein til skemmri tíma, eða til fimmtán ára, en þá er skylt að gefa kost á mögulegri framlengingu til fimm ára að undangengnu sérstöku markaðsmati. Um er að ræða sams konar markaðsmat og gert er ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun framkvæmi við endurnýjun á tíðniréttindum ef stofnunin telur þörf á nánari greiningu á forsendum fyrir endurnýjum tíðniréttinda. Rétt er að taka fram að ekki er þörf á markaðsmati að fimmtán árum liðnum hafi tíðniréttindunum verið úthlutað til tuttugu ára eða lengri tíma. Í slíkum tilvikum fer fram markaðsmat í framhaldi af ósk rétthafa um endurnýjun tíðniréttindanna, ef Póst- og fjarskiptastofnun telur þörf á slíku mati.
    Í 3. mgr. ákvæðisins er lagt til að mælt verði fyrir um skilyrði sem heimila að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um tuttugu ára fyrirsjáanleika á ráðstöfun tíðniréttinda. Ekki þykir tilefni til að fjalla nánar um einstök skilyrði. Þó má segja að ef eitt eða fleiri skilyrði eru uppfyllt gilda engin sérstök neðri mörk á gildistíma þeirra tíðniréttinda sem í hlut eiga.
    Í 4. mgr. er að finna meginefni þeirrar reglu sem gildir um endurnýjun tíðniréttinda. Endurnýjun á sér ekki stað ef við úthlutun tíðniréttinda hefur verið ákveðið að þau verði ekki endurnýjuð og sérstakur skilmáli settur um það í tíðniheimild. Að öðru leyti skal Póst- og fjarskiptastofnun huga að endurnýjun tíðniréttinda á samræmdu fjarskiptatíðnirófi tímanlega áður en gildistími réttinda rennur út. Til þessa hefur gilt sú regla hér á landi að réttindi til tíðna sem eru í fullri og skilvirkri notkun fyrir fjarskiptaþjónustu sem eftirspurn er eftir skulu að jafnaði endurnýjuð við lok gildistíma þeirra. Endurnýjun er þó ekki sjálfgefin ef slík ráðstöfun er talin hafa möguleg neikvæð áhrif á samkeppni eða skilvirka nýtingu tíðnirófsins eða aðrar málefnalegar ástæður mæla gegn slíkri ráðstöfun. Gert er ráð fyrir að mælt sé nánar fyrir um þær ástæður sem geta leitt til þess að ekki sé rétt að endurnýja eða hafna endurnýjun nema að undangengnu markaðsmati. Það fer því ávallt fram mat af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar á því hvort rétt sé og í þágu markmiða fjarskiptalaga að endurnýja tíðniréttindi. Það sem bætist nú við með innleiðingu á 50. gr. tilskipunarinnar er framkvæmd svokallaðs markaðsmats, ef Póst- og fjarskiptastofnun kemst að þeirri niðurstöðu að loknu frummati að fyrir hendi séu rök sem kunni að mæla gegn endurnýjun tiltekinna tíðniréttinda. Við þær aðstæður þykir rétt að framkvæma ítarlegra mat og horfa til þeirra sjónarmiða sem talin eru upp í 5. mgr. ákvæðisins. Tekið skal fram að með almannahagsmunum, sem getið er um í b-lið, er m.a. átt við þætti sem lúta að því að tryggja öryggi mannslífa, allsherjarreglu, almannaöryggi eða landvarnir. Við framkvæmd markaðsmats ber Póst- og fjarskiptastofnun ekki eingöngu að meta markaðsaðstæður eins og þær eru á hverjum tíma heldur er einnig þörf á að horfa fram á við og meta þá þróun sem er líkleg til að eiga sér stað.
    Í 6. mgr. er lagt til að nánar verði mælt fyrir um ástæður fyrir mögulegri synjun á endurnýjun tíðniréttinda og inntak og framkvæmd markaðsmats tíðninotkunar í reglugerð. Varðandi ástæður sem mælt geta gegn endurnýjun tíðniréttinda verður að leggja til grundvallar að þau séu hin sömu eða sambærileg þeim sem tiltekin eru í gildandi reglugerð nr. 1047/2011, um skipulag og úthlutun tíðna.

Um 19. gr.

    Ákvæðið er sambærilegt 7. gr. í gildandi fjarskiptalögum þar sem tekið er fram að númer og kóðar séu auðlindir undir stjórn íslenska ríkisins. Um er að ræða réttindi sem skráð eru á nafn og kennitölu rétthafa. Líkt og gert er ráð fyrir í 13. gr. frumvarpsins, að því er varðar tíðniréttindi, segir í 2. málsl. ákvæðisins að úthlutun á númerum feli í sér tímabundna heimild til skilyrtra afnota sem hvorki leiðir til eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðstöfunarréttar. Að gildandi lögum er hvers konar framsal númera og kóða óheimilt. Með ákvæðinu er nú lögð til sú breyting að framsal verður heimilt með þeim skilyrðum sem Póst- og fjarskiptastofnun mælir fyrir um í reglum.
    Með hugtökunum númer og kóðar er átt við talnarunur sem notaðar eru til stýringar á fjarskiptaumferð og eru samsettar samkvæmt tilmælum frá Alþjóðafjarskiptasambandinu (ITU).

Um 20. gr.

    Með þessu ákvæði er lagt til að innleiddur verði hluti 93. og fyrri málsgrein 97. gr. tilskipunarinnar. Þá er ráðgert að ákvæði 96. og að hluta til 109. gr. tilskipunarinnar verði innleiddar með setningu reglna af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar á grundvelli 3. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt ákvæðinu er skipulag númera og kóða vegna fjarskiptastarfsemi á hendi Póst- og fjarskiptastofnunar. Stofnunin skal gera ráðstafanir til að forði númera og kóða sé ávallt nægur og standi fjarskiptafyrirtækjum til boða á jafnréttisgrundvelli. Henni ber að sjá til þess að ekki séu fyrir hendi tæknileg vandkvæði fyrir endanotendur við að ná sambandi við ósvæðisbundin númer óháð tækni og búnaði þess fjarskiptafyrirtækis sem þjónar endanotandanum. Efnislega er ákvæðið að mestu leyti sambærilegt við 15. gr. gildandi fjarskiptalaga. Hins vegar er ætlunin að innleiða meginefni 93. gr. tilskipunarinnar með nánari reglum sem Póst- og fjarskiptastofnun gefur út á grundvelli viðeigandi lagastoðar.
    Ákvæði 2. mgr. varðar heildstæðan og sameiginlegan gagnagrunn til uppflettingar á númerum við beiningu símtala er óbreytt frá gildandi ákvæði 15. gr. gildandi laga þar að lútandi og þarfnast ekki nánari skýringa.
    Samkvæmt a-lið 3. mgr. mælir Póst- og fjarskiptastofnun fyrir um hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að númerum sé úthlutað fyrir fjarskiptastarfsemi hér á landi. Í dag er sjö tölustafa símanúmerum úthlutað fyrir fjarskiptastarfsemi hér á landi. Miðað við fólksfjölda er forði númera nægur til að anna eðlilegri eftirspurn. Gert er ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun setji skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til þess að númer teljist vera notuð fyrir fjarskiptastarfsemi, t.d. að númer sé skráð í símstöð hér á landi með íslenskum netkóða og að lúkning símtals fari fram hér á landi. Einnig getur verið að Póst- og fjarskiptastofnun geri kröfu um að fjarskiptafyrirtæki eigi eða hafi umráð yfir viðeigandi búnaði til að geta þjónustað númer og boðið fram fjarskiptaþjónustu. Skilyrði samkvæmt þessum staflið felur ekki í sér að eingöngu íslensk fjarskiptafyrirtæki geti fengið úthlutað sjö tölustafa númerum úr íslenska númeraskipulaginu en erlend fjarskiptafyrirtæki sem sækja um slíka úthlutun þurfa að vera skráð hér á landi og veita fjarskiptaþjónustu á Íslandi, sbr. þau skilyrði sem sett verða á grundvelli þessa ákvæðis.
    Í samræmi við 2. mgr. 93. gr. tilskipunarinnar er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun sé heimilt að úthluta símanúmerum til annarra aðila en skráðra fjarskiptafyrirtækja. Þetta er háð því skilyrði að nægur forði númera sé til staðar og viðkomandi aðilar séu metnir hæfir til að hýsa og þjónusta númerin. Gert er ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun útfæri skilyrði fyrir úthlutun númera til annarra aðila en fjarskiptafyrirtækja, sbr. b-lið.
    Samkvæmt c-lið er það hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar að tilgreina fyrir hvaða tegundir fjarskiptaþjónustu einstaka númeraraðir skulu notaðar. Hér er t.d. um að ræða hvaða númer skulu vera til afnota fyrir farsíma og talsíma, gjaldfrjáls númer og yfirgjaldsnúmer.
    Samkvæmt d-lið ákveður Póst- og fjarskiptastofnun hvers konar þjónustur eru tengdar stuttnúmerum. Með þessu ákvæði frumvarpsins er ráðgert að Póst- og fjarskiptastofnun geri viðeigandi ráðstafanir til að innleiða stuttnúmerin 116000 og 116111, þ.e. ábendingarlínu vegna barna sem er saknað og hjálparsíma fyrir börn, og neyðarnúmerið 112, sbr. 109. gr. tilskipunarinnar.
    Samkvæmt e-lið skal Póst- og fjarskiptastofnun kveða nánar á um tilgreiningu sérstakra númeraraða fyrir fjarskiptaþjónustu milli tækja innan Evrópska efnahagssvæðisins. Umræddur stafliður er til innleiðingar á 4. mgr. 93. gr. tilskipunarinnar. Hér er ekki um að ræða númer sem ætluð eru til að þjónusta íslenskan fjarskiptamarkað heldur ósvæðisbundið innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta eru númer sem eru ætluð fyrir fjarskipti milli tækja (e. machine-to-machine eða M2M). Eftir sem áður er gert ráð fyrir að umsækjendur um slík númer hafi fengið skráningu sem fjarskiptafyrirtæki hér á landi.
    Í f-lið er að finna heimild fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til að tilgreina hluta af tilteknum númeraröðum til svæðisbundinna nota hér á landi. Töluvert er síðan sérstök svæðisnúmer voru aflögð hér á landi en eðlilegt þykir að stofnunin geti gripið til slíkrar ráðstöfunar ef þess gerist þörf.
    Í g-lið er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun geti útfært nánar reglur og málsmeðferð við framsal á númerum og kóðum, sbr. þau skilyrði sem hægt er að binda notkun númera skv. g-lið 22. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt h-lið getur Póst- og fjarskiptastofnun sett meginreglur um gjaldskrá og hámarksverð sem geta átt við í tilgreindri númeraröð til að unnt sé að tryggja neytendavernd. Hér á landi hefur ekki verið farin sú leið að útfæra neytendavernd sem bundin er við tiltekna númeraröð, að undanskildum ákvæðum í reglugerð um yfirgjaldsnúmer sem veita skal í 900-númeraröðinni. Með þróun tækni og viðskipta er hins vegar ekki útilokað að slíkar reglur verði útfærðar fyrir tilteknar númeraraðir í framtíðinni.

Um 21. gr.

    Með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir breytingum á málsmeðferð vegna úthlutunar númera, sbr. 11. gr. gildandi fjarskiptalaga. Þó er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun setji verklagsreglur um málsmeðferð númeraúthlutana og birti þær opinberlega, þ.e. geri þær aðgengilegar á vef stofnunarinnar.

Um 22. gr.

    Ákvæði frumvarpsins um skilyrði fyrir notkun númera er að mestu óbreytt frá því sem greinir í 1. mgr. 10 gr. gildandi fjarskiptalaga. Þetta eru þau skilyrði sem talin eru upp í E-hluta viðauka I við tilskipun (ESB) 2018/1972. Rétt er að benda á að þó svo að orðalag ákvæðisins kveði á um skilyrði fyrir notkun númera (e. right of use) getur verið um að ræða skilyrði sem fjarskiptafyrirtæki þurfa að sýna fram á að þau uppfylli áður en kemur til úthlutunar númeranna, t.d. að þau hafi gert ráðstafanir til að geta boðið viðskiptavinum númeraflutning og veitt símaskrárupplýsingar um viðskiptavini, sé þess óskað af þeirra hálfu.
    Hvað varðar f-lið, þegar númeraúthlutun er markaður ákveðinn gildistími, skal lengd tímabilsins vera viðeigandi fyrir þá þjónustu sem um er að ræða og markmiðið sem stefnt er að, að teknu tilhlýðilegu tilliti til þess að gera þarf ráð fyrir viðeigandi tíma til afskrifta fjárfestinga.

Um 23. gr.

    Með þessu ákvæði er lagt til að innleidd verði seinni málsgrein 97. gr. tilskipunarinnar. Markmið ákvæðisins er að sporna við svikastarfsemi í fjarskiptum. Misnotkun númera í fjarskiptum er þekkt leið til að svíkja út fé. Þá er t.d. um að ræða notkun sjálfvirkra upphringivéla til að búa til falska fjarskiptaumferð (ekki eiginleg samskipti milli manna) í þeim tilgangi að heimta lúkningar- eða samtengigjöld frá því fjarskiptafyrirtæki sem verður fyrir barðinu á svikunum. Til að bregðast við þessu er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun geti gefið út fyrirmæli til fjarskiptafyrirtækja, þegar uppi er rökstuddur grunur um svik, um að loka fyrir aðgang að slíkum númerum og samtengiumferð þeirra. Með rökstuddum grun er átt við að fjarskiptafyrirtæki, sem telur á sér brotið, leggi fram gögn sem sýni óeðlilegt flæði fjarskiptaumferðar, t.d. reglubundnar og stuttar hringingar yfir allan sólarhringinn yfir tiltekið tímabil sem bent gæti til þess að um væri að ræða sjálfvirkar upphringivélar. Enn fremur er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun geti krafið fjarskiptafyrirtæki sem stendur frammi fyrir ólögmætum kröfum um greiðslu lúkningar- eða samtengigjalda um að halda eftir greiðslum þar til mál hefur verið fullrannsakað. Við slíkar aðstæður ber viðkomandi fjarskiptafyrirtæki að kæra mál til lögreglu. Hafi endanotendur orðið fyrir tjóni vegna svika ber, eftir því sem kostur er, að nota greiðslur sem haldið hefur verið eftir til að bæta þeim tjónið.

Um 24. gr.

    Ákvæðið er efnislega óbreytt frá gildandi 59. gr. fjarskiptalaga, en með frumvarpinu er lagt til að því verði skipt upp í fleiri málsgreinar til að auka skýrleika þess. Í 39. gr. EECC- tilskipunarinnar er kveðið á um að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skuli birta lista yfir staðla eða forskriftir til að hvetja til aukinnar samleitni við rekstur fjarskiptaneta, veitingu fjarskiptaþjónustu, tengda aðstöðu og þjónustu. Fjarskiptafyrirtæki skulu samkvæmt tilskipuninni hvött til að nota umrædda staðla og forskriftir, einkum á vegum evrópsku staðlastofnananna Staðlasamtaka Evrópu (CEN), Rafstaðlasamtaka Evrópu (Cenelec) og Fjarskiptastaðlastofnunar Evrópu (ETSI). Enn fremur verði horft til staðla sem Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU), Samtök póst- og fjarskiptastjórna í Evrópu (CEPT), Alþjóðlegu staðlasamtakanna (ISO) og Alþjóðaraftækninefndin (IEC) hafa samþykkt. Í 4. mgr. er gert ráð fyrir almennri reglugerðarheimild ráðherra.

Um 25. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um innanhússfjarskiptalagnir. Nýverið voru samþykkt lög á Alþingi um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta, nr. 125/2019. Þau lög voru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2014/61 frá 15. maí 2014 um ráðstafanir til að lækka kostnað við uppbyggingu á háhraða rafrænum fjarskiptanetum. Hin nýju lög tóku gildi þann 1. janúar 2020. Með lögunum voru gerðar breytingar á gildandi ákvæði 60. gr. fjarskiptalaga um innanhússfjarskiptalagnir, sbr. c-lið 1. tölul. 15. gr. laganna. Ekki er því lögð til breyting á umræddu ákvæði í þessu frumvarpi. Vísast til skýringa við ákvæðið í frumvarpi er varð að framangreindum lögum, sbr. þskj. 122, 122. mál á 150. lögþ. 2019–2020.

Um 26. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um grunnkröfur til þráðlauss fjarskiptabúnaðar. Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum (61. gr.) og innleiðir í 1. og 2. mgr. þær grunnkröfur, sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2014/53 frá 16. apríl 2014, um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða þráðlausan fjarskiptabúnað fram á markaði, svokölluð RED-tilskipun, sem þráðlauss fjarskiptabúnaðar þarf að uppfylla svo markaðssetja megi hann og taka í notkun á Evrópska efnahagssvæðinu. Gildandi ákvæði 61. gr. var breytt með lögum um breytingu á fjarskiptalögum, nr. 2018/
    Ákvæði 3. mgr. greinarinnar er efnislega óbreytt frá gildandi lögum og fjallar um notendabúnað fyrir stafrænt sjónvarp. Ákvæðið innleiðir jafnframt hluta 113. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 og 1. og 2. mgr. viðauka XI við hana en gert er ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun muni setja reglur sem kveða á um ítarlegri skilyrði sem fram koma í umræddu ákvæði og viðauka. Hins vegar þykir rétt að árétta sérstaklega í lagaákvæðinu að það nái til alls búnaðar, hvort sem hann er boðinn til sölu eða leigu á innri markaðinum, enda er það sérstaklega tilgreint í tilskipuninni. Ákvæði 4. mgr. er efnislega óbreytt frá 4. mgr. 61. gr. gildandi fjarskiptalaga. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki nánari skýringa.

Um 27. gr.

    Í ákvæðinu (1.–3. mgr.) er fjallað um þráðlausan sendibúnað, sem er ýmist háður leyfi eða tilkynningu til Póst- og fjarskiptastofnunar. Seljendur leyfisskylds þráðlauss búnaðar eru jafnframt tilkynningaskyldir um kaupendur slíks búnaðar til stofnunarinnar. Enn fremur er í ákvæðinu að finna ákvæði um heimildir einstaklinga til að starfrækja ákveðnar tegundir þráðlauss búnaðar (4.–5. mgr.)
    Ákvæði 1.–3. mgr. er óbreytt frá gildandi 62. gr. fjarskiptalaga, nr. 81/2003, fyrir utan nýjan 5. málsl. 1. mgr. Vísast til athugasemda um 87. gr. frumvarpsins að því er það nýmæli varðar. Ákvæði 62. gr. gildandi laga hefur verið breytt í tvígang. Fyrst með lögum nr. 78/2005, um breytingu á fjarskiptalögum, og vísast til skýringa við 10. gr. frumvarpsins er varð að þeim lögum (þskj. 1102, 738. mál á 131. lögþ. 2004–2005. Einnig voru gerðar breytingar á 62. gr. gildandi fjarskiptalaga með lögum nr. 34/2011, um breytingu á sömu lögum, og vísast til skýringa við 7. gr. frumvarpsins er varð að þeim lögum (þskj. 149, 136. mál á 139. lögþ. 2010–2011).
    Í 4. og 5. mgr. er fjallað um heimildir einstaklinga til starfrækslu þráðlauss búnaðar og eru þær efnislega óbreyttar frá því sem greinir í 68. gr. gildandi fjarskiptalaga. Vísast til skýringa við 11. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 118/2008, um breytingu á fjarskiptalögum (þskj. 824, 523. mál á 135. lögþ. 2007–2008), að því er 2.–4. málsl. 4. mgr. varðar. Að fyrirmynd gildandi laga er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun geti sett nánari reglur um heimildir einstaklinga til að starfrækja fjarskiptabúnað. Í gildi er reglugerð nr. 348/2004, um starfsemi radíóáhugamanna, með áorðnum breytingum. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki nánari skýringa.

Um 28. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 63. gr. gildandi fjarskiptalaga. Þó hefur reglugerðarheimild ráðherra verið færð í sjálfstæða málsgrein, þ.e. nýja 5. mgr. Í 3. mgr. viðauka XI við tilskipun (ESB) 2018/1972 er kveðið á um að útvarpsviðtæki í ákveðinni tegund bifreiða, svokallaðar M-gerðir, sem settar eru á markað innan Evrópska efnahagssvæðisins frá 21. desember 2020 skuli búa yfir þeim möguleika að taka á móti og endurvarpa útvarpsþjónustu sem er veitt í gegnum svæðisbundið stafrænt útvarp. Þá er Evrópusambandið að gefa út og vinna að gerðum er varða fjarskipti beint úr bifreiðum, t.a.m. skyldu um sjálfvirkar hringingar í neyðaraðstoð 112. Mikilvægt má telja að slíkar gerðir verði innleiddar hér á landi og viðeigandi að ákvæði sem þetta, sem og ákvæði er varða endurvarp útvarpsþjónustu, verði útfærð nánar í reglugerð á grundvelli 5. mgr. ákvæðisins. Þannig reynist ekki þörf á breytingum á umræddu ákvæði frá gildandi lögum.

Um 29. gr.

    Ákvæðið er að mestu leyti óbreytt frá 64. gr. gildandi fjarskiptalaga og fjallar um heimildir Póst- og fjarskiptastofnunar til að takmarka fjarskipti vegna truflana eða sérstakra aðgerða. Með frumvarpinu er þó lagt til að orðalag 2. mgr. endurspegli með skýrari hætti að ef rökstuddur grunur liggur fyrir um að rafföng, tæki eða því um líkt valdi skaðlegri truflun á rekstri fjarskiptavirkis sé Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að beina fyrirmælum til eiganda slíks hlutar um að hann grípi án tafar til viðeigandi úrbóta á eigin kostnað. Einnig er lagt til að ákvæðið taki til fjarskiptavirkja og raffanga sem hætta er á að valdi skaðlegum fjarskiptatruflunum. Í því felst að Póst- og fjarskiptastofnun þarf ekki að sýna fram á að skaðleg truflun sé komin fram heldur dugar að tiltekið fjarskiptavirki eða raffang sé líklegt til að valda skaðlegri fjarskiptatruflun síðar meir, t.d. vegna bilunar. Mat Póst- og fjarskiptastofnunar um líklega truflunarvalda byggir m.a. á reynslu af því að tiltekinn búnaður sé líklegur til að bila síðar meir og valda skaðlegum fjarskiptatruflunum. Þessar aðstæður eiga t.d. við um örbylgjuloftnet sem ætluð voru til að taka á móti sjónvarpsmerki í MMDS-sjónvarpsdreifikerfinu, sem nú hefur verið aflagt. Reynslan sýnir að slík loftnet valda skaðlegum truflunum á háhraða farnetsþjónustu. Hér er um að ræða umfangsmikinn og alvarlegan truflanavanda sem bregðast þarf við óháð því hvort truflunin er komin fram í búnaði eða ekki. Þykir því vera þörf á því að taka af allan vafa um að þær valdheimildir sem Póst- og fjarskiptastofnun eru fengnar að lögum til að fyrirbyggja og uppræta fjarskiptatruflanir eigi við um þessi tilvik og önnur sambærileg. Samhliða þessari breytingu er orðinu „loftnet“ bætt við upptalningu á rafföngum í dæmaskyni í 2. mgr.
    Ákvæði 64. gr. gildandi fjarskiptalaga var breytt með breytingalögum nr. 34/2011. Vísast til skýringa við 10. gr. í frumvarpinu er varð að þeim lögum (þskj. 149, 136. mál á 139. lögþ. 2010-2011).

Um 30. gr.

    Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum. Um er að ræða grundvallarákvæði um heimild aðila til að setja þráðlausan fjarskiptabúnað á markað og taka hann í notkun hér á landi. Ákvæðinu var breytt við innleiðingu RED-tilskipunarinnar, sbr. 5. gr. laga nr. 41/2018 um breytingar á gildandi fjarskiptalögum. Vísast til skýringa við frumvarpið er varð að þeim lögum.

Um 31. gr.

    Ákvæðið er efnislega óbreytt frá 65. gr. a í gildandi lögum. Líkt og sum önnur ákvæði þessa kafla á það rætur að rekja til innleiðingar RED-tilskipunarinnar í íslenskan rétt. Það lýtur að skyldum rekstraraðila þráðlauss búnaðar, þ.e. framleiðendum hans, innflytjendum og dreifingaraðilum. Vísast til skýringa við 6. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 41/2018, um breytingar á fjarskiptalögum (þskj. 540, 390. mál á 148. lögþ. 2017–2018). Til frekari skýrleika er þó bætt við í 2. málsl. 1. mgr. að samræmismat geti ýmist verið hjá samræmismatsstofu eða á grundvelli sjálfsmats. RED-tilskipunin hefur að geyma nokkuð ítarleg ákvæði um hvenær framleiðandi geti framkvæmt sjálfsmat á þráðlausum búnaði sínum. Ákvæðið fjallar líka um upplýsingar sem skuli fylgja þráðlausum fjarskiptabúnaði. Þessi upptalning byggir jafnframt á RED-tilskipuninni og kveður t.a.m. á um að ESB-samræmismatsyfirlýsing og tæknigögn skuli fylgja. Um ESB-samræmisyfirlýsingu er fjallað í 18. gr. RED-tilskipunarinnar og er í raun yfirlýsing um að sýnt hafi verið fram á búnaðurinn uppfylli þær grunnkröfur sem kveðið er á um í tilskipuninni. Gerð er breyting á 1. mgr. ákvæðisins þar sem bætt er við nýjum lokamálslið þar sem er tiltekinn er sérstaklega réttur framleiðanda til að kæra niðurstöður faggiltrar samræmismatsstofu á ósamræmi búnaðar, þ.e. þegar samræmismatsstofan telur að umræddur þráðlauss fjarskiptabúnaðar uppfylli ekki grunnkröfur sem til hans eru gerðar, til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.

Um 32. gr.

    Ekki er gert ráð fyrir breytingum á þessu ákvæði, sem er óbreytt frá 66. gr. gildandi laga og var hluti af innleiðingu á áðurnefndri RED-tilskipun, sbr. lög nr. 41/2018, um breytingar á gildandi fjarskiptalögum. Vísast til skýringa við frumvarpið sem varð að lögum nr. 41/2018 (þskj. 540, 390. mál á 148. lögþ. 2017–2018).

Um 33. gr.

    Ákvæðið er nánast óbreytt frá 66. gr. a í gildandi lögum. Reglugerðarákvæðið er nokkuð ítarlegt og er ætlað að ná með heildstæðum hætti yfir ákvæði RED-tilskipunarinnar. Þannig mun reglugerð sem setja skal samkvæmt ákvæðinu meðal annars kveða á um samræmismatsstofur, kröfur til þeirra og eftirlit með þeim, mismunandi tegundir samræmismats, krafna til samræmismatsstofa, faggildingu þeirra og niðurstöðu samræmismats, gerð tæknigagna, CE-merki og áfestingu þess, hlutverk tilkynningaryfirvalda, samstarf við önnur ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnun EFTA. Þá er reglugerðinni einnig ætlað að kveða með ítarlegri hætti á um skyldur rekstraraðila, markaðseftirlit og valdheimildir Póst- og fjarskiptastofnunar, t.d. ákvörðun stjórnvaldssekta.

Um 34. gr.

    Ákvæðið er hliðstætt 69. og 70. gr. gildandi laga um fjarskipti og felur í sér innleiðingu á 43. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Ákvæðið er ætlað til þess að tryggja aðilum sem reka almenn eða lokuð fjarskiptanet eða -þjónustu aðgang til þess að leggja fjarskiptalagnir og koma upp annarri fjarskiptaaðstöðu, á landi eða öðrum eignum annarra, ef nauðsyn krefur. Gert er ráð fyrir að algengasta leiðin sé að semja um aðgang og greiðslur fyrir hann en ef ekki nást samningar þá er hægt að óska eftir heimild ráðherra til eignarnáms, eins og verið hefur. Rétt er að geta þess að með orðalaginu „fullar bætur“ er átt við einskiptisgreiðslu bóta fyrir fjárhagslegt tjón, beint eða óbeint, sem framkvæmd hefur í för með sér en ekki viðvarandi leigu- og/eða aðstöðugjald fyrir aðgang og afnot af umræddu landi.
    Nýmæli í ákvæðinu eru þau að skv. 3. mgr. er opinberum aðilum settar ákveðnar viðmiðanir um málsmeðferð og ákveðinn frestur til að afgreiða beiðnir um aðgang. Þessi málsgrein snýr einkum að tilvikum þar eignir sem óskað er eftir aðgangi að eru í eign eða yfirráðum opinberra aðila. Almennt er ekki þörf á samþykki opinberra aðila í öðrum tilvikum.
    Annað nýmæli er í 4. mgr. þar sem gerð er krafa um að þegar opinberir aðilar sem reka sjálfir almenn fjarskiptanet eða -þjónustu þurfa að taka afstöðu til aðgangsbeiðna þá verði ákvörðun hvað það varðar tekin af stofnun eða einingu sem er algerlega ótengd fjarskiptastarfsemi hins opinbera aðila.

Um 35. gr.

    Ákvæði þetta felur í sér innleiðingu á 44. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Það er að mörgu leyti hliðstætt 25. gr. gildandi laga og fjallar um samnýtingu á aðstöðu sem fengin er í samræmi við 34. gr. frumvarpsins. Þau tilfelli sem geta leitt til ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar eru nokkuð víðtækari en í gildandi ákvæði, t.d. getur skipulag sveitarfélaga verið ástæða til ákvörðunar. Þá er ekki lengur skilyrði fyrir ákvörðun að öðrum fjarskiptafyrirtækjum sé ómögulegt að fá aðgang. Upptalning í dæmaskyni á þeim eignum sem samnýting getur náð til er margþættari en áður.

Um 36. gr.

    Ákvæði þetta samsvarar 1. og 6. mgr. 24. gr. gildandi laga um fjarskipti. Efnisatriðum sem nú eru í 24. gr. er í frumvarpi þessu skipt upp í ákvæði um réttindi og skyldur fjarskiptafyrirtækja varðandi aðgang og samtengingu í 36. gr. og skyldur Póst- og fjarskiptastofnunar í 37. gr. Ákvæði 36. gr. er ætlað til innleiðingar á 59. og 60. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972.
    Engin breyting er á því gerð að fjarskiptafyrirtæki eiga rétt á og ber skylda til að samtengja net sín. Til áréttingar er bætt við texta um að tilgangurinn sé að tryggja framboð og rekstrarsamhæfi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og að ekki er skilyrði fyrir samtengingu fyrirtækja í öðrum löndum á svæðinu að þau séu skráð hjá Póst- og fjarskiptastofnun ef þau bjóða ekki fjarskiptaþjónustu eða -net hér á landi.
    Þá er áréttað í 3. mgr. að aðgangur og samtenging skuli vera í samræmi við sérstakar kvaðir sem kunna að hvíla á viðkomandi fyrirtæki samkvæmt sérstökum ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Ákvæði 4. mgr. er samhljóða 6. mgr. 24. gr. gildandi laga og fjallar um skilmála umferðarstýringar í samtengi- og aðgangssamningum. Ákvæði þetta á rætur að rekja til reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2120 um nethlutleysi, sem innleidd var hér á landi með reglugerð nr. 1128/2018, um framkvæmd nethlutleysis. Sjá einnig reglugerð nr. 1174/2012, um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan Evrópska efnahagssvæðisins, með áorðnum breytingum.

Um 37. gr.

    Ákvæði 1. og 2. mgr. eru samhljóða 2. og 3. mgr. 24. gr. gildandi laga varðandi hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar við að stuðla að samtengingu og aðgangi.
    Í 3. mgr. er nýtt ákvæði um leiðbeiningaskyldu Póst- og fjarskiptastofnunar í þessum málaflokki sem er m.a. hugsað til þess að koma til móts við lítil og staðbundin fyrirtæki sem þurfa á samtengingu við önnur net að halda.
    Ákvæði 37. gr. er til innleiðingar á 1. málsl. 1. mgr. 59. gr. og 1. mgr. 61. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972.

Um 38. gr.

    Í greininni er fjallað um kvaðir sem Póst- og fjarskiptastofnun getur lagt á, án tillits til markaðsstyrks viðkomandi fyrirtækja. Tilgangur ákvæðisins er að tryggja tengingu milli endanotenda fjarskiptaþjónustu, m.a. með því að fyrirskipa samtengingu neta, rekstrarsamhæfingu og aðgang að aðstöðu í tilteknum tilvikum. Ákvæðið byggir á 61. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972.
    Gert er ráð fyrir að sett verði nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þessa ákvæðis, t.d. um hvaða atriða skuli líta til við mat á nauðsyn þess að beita ákvæðinu, sbr. upptalningar sem er að finna í ofangreindu ákvæði tilskipunarinnar. Þar að auki verða gefnar út leiðbeiningar og hugsanlega framkvæmdagerðir á EES-vettvangi um frekari útfærslu og skilyrði fyrir beitingu kvaða innan ramma ákvæðisins sem gæti verið ástæða til að setja í reglugerð þegar að því kemur.
    Samkvæmt 2. mgr. er mögulegt að leggja á nokkrar tegundir kvaða. Í fyrsta lagi er, skv. a-lið, hægt að skylda fyrirtæki til að samtengja net sín ef það hefur ekki verið gert að frumkvæði netrekenda. Í öðru lagi er, skv. b-lið, hægt að leggja á kröfur um rekstrarsamhæfi á fyrirtæki sem stjórna aðgangi endanotenda en það á eðli máls samkvæmt fyrst og fremst við um netrekendur og aðila sem reka númeraháða þjónustu. Þessir tveir fyrstu liðir eru ekki alveg nýir af nálinni en ákvæði um þetta hafa verið í eldri tilskipunum um fjarskipti og Póst- og fjarskiptastofnun hefur haft ákveðið hlutverk að þessu leyti þótt e.t.v. hafi orðalag núgildandi laga um fjarskipti ekki verið mjög skýrt hvað varðar heimildir í þessu sambandi. Mál af þessu tagi hafa ekki verið algeng hér á landi fram til þessa. Í þriðja lagi, er skv. c-lið, heimilt undir ákveðnum kringumstæðum að leggja kvaðir um rekstrarsamhæfi á þjónustuveitendur sem bjóða þjónustu sem ekki notar símanúmer. Þessi liður er nýmæli og er hann ætlaður til þess að hægt sé að tryggja tengingu milli endanotenda hjá mismunandi þjónustuveitendum ef til þess kemur að vefþjónustur sem bjóða samskipti án símanúmera, t.d. spjallforrit með möguleika á tal- og myndsambandi, nái verulega mikilli útbreiðslu og fjölda notenda og að það verði farið að hafa áhrif á möguleika notenda í mismunandi þjónustum til þess að hafa samband hver við annan. Ákvæði þessu verður þó ekki beitt nema sett verði sérstök EES-framkvæmdagerð um beitingu þess en gert er ráð fyrir að nánari ákvæði verði sett um þetta ákvæði í innlendri reglugerð. Í fjórða lagi er, skv. d-lið, heimilt að setja kvaðir um aðgang að forritatengslum og rafrænum dagskrárvísum. Ákvæði d-liðar er ekki nýmæli en kveðið hefur verið á um slíkan aðgang í reglum sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur sett í samræmi við 56. gr. gildandi laga. Ekki hefur reynt á þær reglur svo vitað sé síðan þær voru settar árið 2006.
    Samkvæmt 3. mgr. getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki eða aðra aðila sem kunna að eiga innanhússlagnir um að veita aðgang að þeim án þess að viðkomandi aðili hafi áður verið útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk. Aðgangurinn nær til leiðslna og kapla og tilheyrandi aðstöðu. Í lögum um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta, nr. 125/2019, er kveðið á um aðgang að efnislegum grunnvirkjum, svo sem rörum, möstrum, lögnum, brunnum, mannopum, tengikössum, byggingum eða inngöngum að byggingum, loftnetsbúnaði, turnum og súlum, en í þeim lögum eru fjarskiptalagnirnar undanskildar. Í ákvæði 3. mgr. 38. gr. þessa frumvarps er hins vegar gefinn möguleiki á að kveða á um aðgang að lögnum. Aðgangur þessi nær að meginstefnu til lagna inni í byggingu eða að fyrsta samantektarpunkti utan byggingar. Þó eru möguleikar á að útvíkka aðganginn þannig að hann nái dýpra inn í fjarskiptakerfi eða allt að þeim punkti sem tengir nægilega marga endanotendur til þess að tenging teljist hagkvæm í ljósi aðstæðna. Tilskipun (ESB) 2018/1972 gerir ráð fyrir að Evrópskur hópur eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC) gefi út leiðbeiningar um hugsanlega beitingu þessa ákvæðis utan fyrsta samantektarpunkts. Samkvæmt aðfararorðum tilskipunar (ESB) 2018/1972 þarf að gæta að því að draga ekki úr hvata til nýrra fjárfestinga í háhraðanetum þegar þessari kvöð er beitt og jafnframt þarf að gæta þess að beiting hennar styrki ekki umtalsverðan markaðsstyrk fyrirtækis á viðkomandi markaði. Til greina kemur í undantekningartilfellum að leggja á kvaðir um aðgang að virkum nethlutum eða sýndaraðgang ef ekki er hagkvæmt eða mögulegt að notast við aðgang að óvirkum nethlutum.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að við tilteknar aðstæður sé Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að láta kvaðir um aðgang ganga lengra en til fyrsta samantektar- eða dreifipunktar, öðrum punkti eða jafnvel virkra nethluta og sýndaraðgang.
    Í 5. mgr. er fjallað um fyrirtæki sem eru eða geta verið undanþegin kvöðum skv. 3. mgr. á grundvelli þess að þau bjóði aðrar fullnægjandi leiðir til aðgangs á heildsölustigi.
    Í 6. mgr. er heimilað að kveða á um aðgang að nethlutum þráðlausra fjarskiptaneta ef nauðsynlegt er til að tryggja svæðisbundinn aðgang. Hægt er að mæla fyrir um aðgang að óvirkum nethlutum, svo sem sendastöðum og möstrum, en einnig kemur til álita að kveða á um svæðisbundið reiki milli neta. Aðeins má beita slíkum kvöðum ef skýrt er kveðið á um slíkan möguleika í viðkomandi tíðniheimildum. Þetta ákvæði getur t.d. haft mikla þýðingu þegar farið verður í uppbyggingu háhraðaneta, svo sem 5G á strjálbýlum svæðum og meðfram þjóðvegum.
    Í 7. mgr. er kveðið á um málsmeðferð, almennar kröfur til álagningar kvaða samkvæmt ákvæðinu, mat á þeim og endurskoðun.
    Loks er í 8. mgr. gert ráð fyrir nánari útfærslu ákvæðisins í reglugerð.

Um 39. gr.

    Ákvæði þetta er hliðstætt 56. gr. núgildandi laga og er til innleiðingar á d-lið 2. mgr. 61. gr. og 62. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Ákvæðið varðar kerfi sem stýra aðgangi notenda að hljóð- og myndefni sem sent er um fjarskiptanet. Nánar verður kveðið á um tæknilegar kröfur til slíkra kerfa og aðgang fjölmiðlaveita að þeim í reglum sem settar eru af Póst- og fjarskiptastofnun. Reglurnar munu byggja á fyrrgreindum ákvæðum tilskipunarinnar og II. viðauka hennar. Hliðstæðar reglur voru settar af Póst- og fjarskiptastofnun árið 2006 með stoð í núgildandi lögum um fjarskipti, en lítið sem ekkert hefur reynt á beitingu þeirra.

Um 40. gr.

    Ákvæði 40. gr. er ætlað að koma í veg fyrir hömlur á veitingu aðgangs að almennum fjarskiptanetum í gegnum þráðlaus staðarnet, svo sem WiFi. Ákvæðið er til innleiðingar á 56. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Með ákvæðinu er endanotendum heimilað að veita almennan aðgang að staðarneti sínu og fjarskiptafyrirtækjum er enn fremur heimilað að veita almennan aðgang að netum sínum í gegnum staðarnet sem staðsett eru í húsnæði endanotanda að fengnu upplýstu samþykki endanotandans.
    Aðili sem veitir aðgang að staðarneti sínu án þess að það sé í atvinnuskyni er ekki bundinn af ýmsum skilyrðum sem gilda um starfsemi fjarskiptafyrirtækja, þar á meðal skilyrði almennrar heimildar til fjarskiptastarfsemi, ákvæðum um neytendavernd og er ekki skylt að samtengja net sín. Staðarnet sem þessi nota samræmd opin tíðnisvið og er því ekki þörf á að sækja um sérstaka tíðniheimild.
    Ákvæðið gerir ráð fyrir því að aðilar geti safnað saman þráðlausum staðarnetum mismunandi endanotenda og gert þau aðgengileg í einu lagi. Enn fremur er gert ráð fyrir að opinberir aðilar sem reka þráðlaus staðarnet í afmörkuðum tilgangi geti veitt almennan aðgang að staðarnetinu sem viðbót við þá opinberu þjónustu sem veitt er á svæðinu.
    Ákvæðinu er ætlað að koma til móts við síaukna þörf á þráðlausum gagnaflutningi og létta þannig álag á almennum þráðlausum farnetum.

Um 41. gr.

    Ákvæðinu er ætlað að greiða fyrir uppsetningu smárra þráðlausra senda sem mun fyrirsjáanlega fjölga með útbreiðslu nýrra þráðlausra háhraðaneta, svo sem 5G-farneta. Ákvæðið er til innleiðingar á 57. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972.
    Ekki þarf sérstaka heimild frá Póst- og fjarskiptastofnun til að setja upp senda af slíku tagi en heimild til tíðninotkunar þarf ef sendirinn starfar ekki á opnu tíðnisviði.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu opinberra aðila sem fara með yfirráð yfir grunnvirkjum að heimila uppsetningu senda, t.d. í ljósastaurum og stöðvum fyrir almenningssamgöngur. Að einhverju leyti er hægt að fá aðgang á grundvelli laga um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta, nr. 125/2019, en þau lög taka ekki til opinberra grunnvirkja nema þau séu hluti af einhvers konar neti og því kemur ákvæði 2. mgr. til fyllingar.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal setja reglur skv. 3. mgr. um tæknilega eiginleika sem slíkir sendar skulu uppfylla og munu þær reglur byggja á framkvæmdagerð sem framkvæmdastjórn ESB er ætlað að gefa út samkvæmt tilskipun (ESB) 2018/1972.
    Póst- og fjarskiptastofnun er ætlað hlutverk við samræmingu reglna um aðgang á landsvísu og miðlun upplýsinga skv. 4. og 5. mgr.

Um 42. gr.

    Ákvæði 42. gr. er samhljóða ákvæði 26. gr. gildandi laga. Ákvæðið samsvarar 2. mgr. 60. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Ákvæðið fjallar um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að nota ekki upplýsingar sem ganga á milli fyrirtækja þegar sótt er um aðgang eða samtengingu í öðrum tilgangi en þeim er ætlað við samningagerðina og framkvæmd samnings.

Um 43. gr.

    Ákvæði 1. mgr. 43. gr. er samhljóða 16. gr. núgildandi laga um fjarskipti. Ákvæðið er til innleiðingar á 3. mgr. 64. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Það fjallar um fyrstu aðgerðir Póst- og fjarskiptastofnunar í því ferli að meta hvort þörf er á að beita kvöðum gagnvart fyrirtækjum með umtalsverðan markaðsstyrk. Þetta fyrsta skref felst í því að skilgreina og afmarka þá markaði sem taka á til skoðunar, bæði hvað varðar tegundir þjónustu sem undir hann geta fallið og landfræðilega afmörkun.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að taka skuli ýtrasta tillit til viðeigandi tilmæla og leiðbeininga Eftirlitsstofnunar EFTA. Eftirlitsstofnun EFTA gefur út tilmæli þar sem tilgreindir eru þeir þjónustumarkaðir sem taka ber til skoðunar og eru þau tilmæli útgangspunkturinn en Póst- og fjarskiptastofnun þarf að taka afstöðu til þess hvernig viðkomandi þjónustumarkaður er nánar afmarkaður miðað við innlendar aðstæður. Til þess kann að koma að Póst- og fjarskiptastofnun telji þörf á að taka til greiningar aðra þjónustumarkaði en þá sem tilgreindir eru í tilmælunum og þarf stofnunin þá að bera það undir Eftirlitsstofnun EFTA skv. 7. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun. Gert er ráð fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA gefi út leiðbeiningar um markaðsgreiningar og mat á umtalsverðum markaðsstyrk enda hefur framkvæmdastjórn ESB nýlega gefið út nýjar leiðbeiningar þess efnis (e. Communication from the Commission, Guidelines on market analysis and the assessment of significant market power under the EU regulatory framework for electronic communications networks and services, 2018/C 159/01). Í þeim leiðbeiningum er að finna umfjöllun um skilgreiningu markaða sem taka þarf tillit til. Nánari útlistun á aðferðafræði við afmörkun markaða mun koma fram í reglugerð.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að setja skuli reglugerð til nánari útfærslu á efni IX. kafla um skilgreiningu markaða, markaðsgreiningar og kvaðir. Reglugerð þessi, ein eða fleiri, munu að stórum hluta byggja á þeim hlutum viðkomandi ákvæða tilskipunarinnar sem fela í sér nánari útfærsluatriði og enn fremur á þeim framkvæmdagerðum, viðmiðunarreglum og leiðbeiningum sem tilskipunin gerir ráð fyrir að gefnar verði út um þennan málaflokk.

Um. 44. gr.

    Ákvæðið samsvarar að nokkru 17. gr. núgildandi laga en er þó mun ítarlegra. Ákvæðið í heild sinni er til innleiðingar á 67. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Engin grundvallarbreyting er orðin á aðferðafræði við markaðsgreiningu sem felst í því að meta hvort virk samkeppni er á viðkomandi markaði eða hvort eitthvert fyrirtæki hefur umtalsverðan markaðsstyrk. Þó er aukin áhersla lögð á það í aðfararorðum tilskipunarinnar og í leiðbeiningum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um mat á umtalsverðum markaðsstyrk að byrja skal á því að líta til tengdra smásölumarkaða og skoða hvort þar er að finna samkeppnisvandamál. Ef vandamál eru ekki til staðar á smásölumarkaði er ekki ástæða til að beita kvöðum um aðgang að netum og þjónustu á heildsölumarkaði.
    Í 1. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun falið að framkvæma markaðsgreiningar í samræmi við skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum
    Í 2. mgr. er lýst þeim einkennum sem markaður þarf að hafa til þess að réttlætanlegt sé að beita kvöðum. Eftirlitsstofnun EFTA gefur út tilmæli með fyrirframskilgreindum mörkuðum og ber Póst- og fjarskiptastofnun skv. 3. mgr. að ganga út frá því að þeir markaðir sem þar eru tilgreindir uppfylli skilyrði ákvæðisins, nema til staðar séu sérstakar landsbundnar aðstæður sem geri stöðu á viðkomandi markaði hér á landi frábrugðnar á þann hátt að eitthvert skilyrðanna sé ekki uppfyllt.
    Í 4. mgr. er lagt fyrir Póst- og fjarskiptastofnun að skoða markaði með framsýnum hætti og leggja mat á hvernig þeir myndu þróast ef kvaðir væru ekki lagðar á.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að markaðsgreining skuli vera grundvöllur ákvörðunar um hvort kvaðir verði lagðar á, þeim viðhaldið, breytt eða þær felldar niður.
    Í 6. mgr. er gert skylt að leggja sérstakt mat á stöðu á smásölumarkaði.
    Í 7. mgr. eru tilteknir frestir Póst- og fjarskiptastofnunar til þess að framkvæma greiningar á nýjum mörkuðum og endurskoða fyrri greiningar. Frestur eru á bilinu þrjú til sex og hálft ár eftir atvikum. Slíkir frestir hafa ekki áður verið lögbundnir.
    Markaðsgreining er flókið ferli og er þörf á að útfæra það nánar í reglugerð þar sem byggt verður á nánari ákvæðum tilskipunarinnar og leiðbeiningum um mat á umtalsverðum markaðsstyrk sem gefnar eru út af Eftirlitsstofnun EFTA.

Um 45. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 1. og 2. mgr. 18. gr. núgildandi laga og fjallar um viðmið við ákvörðun um hvort fyrirtæki hefur umtalsverðan markaðsstyrk. Ákvæðið er ætlað til innleiðingar á 63. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Eins og áður kemur til greina að fleiri en eitt fyrirtæki verði skilgreind með sameiginlegan umtalsverðan markaðsstyrk og skv. 2. mgr. getur styrkur á einum markaði leitt til þess að fyrirtæki verði talið hafa umtalsverðan markaðsstyrk á tengdum markaði. Nánari leiðbeiningar um framkvæmd munu koma fram í reglugerð sem mun byggja á leiðbeiningum um mat á umtalsverðum markaðsstyrk sem gefnar eru út af Eftirlitsstofnun EFTA.

Um 46. gr.

    Ákvæði þetta á sér hliðstæðu í 1. mgr. 27. gr. gildandi laga og fjallar almennt um kvaðir sem hægt er að leggja á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk. Ákvæðið er til innleiðingar á 68. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Ákvæðið er mun ítarlegra en núgildandi ákvæði en felur ekki í sér grundvallarbreytingu. Orðalag ákvæðisins er að mestu í samræmi við þá framkvæmd sem hefur verið viðhöfð fram til þessa en ástæða þykir til að fjalla um viðmið við beitingu kvaða með ítarlegri hætti í lagatexta heldur en gert var áður. Helsta breytingin í raun er sú að nú vísar ákvæðið til fleiri úrræða en áður en um þau úrræði er fjallað í eftirfarandi ákvæðum og eru sum þeirra ný af nálinni.
    Í 1. mgr. er að finna almenna heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til þess að beita eftir atvikum þeim úrræðum sem er að finna í IX. kafla.
    Í 2. mgr. er tekið fram að ef fyrirtæki er útnefnt með umtalsverðan markaðsstyrk þá skuli beita ákveðnum kvöðum eins og við á. Lögð er áhersla á meðalhóf við beitingu úrræðanna.
    Í 3. mgr. er nýtt ákvæði sem takmarkar þær kvaðir sem hægt er að leggja á fyrirtæki á markaði sem er tengdur þeim markaði sem það er útnefnt með umtalsverðan markaðsstyrk á með þeim hætti að markaðsstyrkur yfirfærist á tengda markaðinn. Ákvæðið á rætur að rekja til 3. mgr. 63. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972.
    Í 4. mgr. er fjallað um þann möguleika að Póst- og fjarskiptastofnun telji að leggja þurfi á aðrar kvaðir en þær sem eru sérstaklega tilgreindar í eftirfarandi ákvæðum. Í slíkum tilvikum þarf að bera slík áform undir Eftirlitsstofnun EFTA í samræmi við 7. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun og skuldbindingar samkvæmt EES- samningnum.
    Í 5. mgr. eru talin upp nokkur þeirra viðmiða sem hafa skal í huga þegar metið er hvaða kvaðir eru viðeigandi í hverju tilviki.
    Í 6. gr. er fjallað um skyldu Póst- og fjarskiptastofnunar til þess að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um þær kvaðir sem stofnunin ákveður að leggja á.
    Í 7. mgr. er fjallað um skyldu Póst- og fjarskiptastofnunar til þess að fylgjast með þróun á mörkuðum þar sem kvaðir hafa verið lagðar á. Ef verulegar breytingar verða á aðstæðum á markaði getur slíkt kallað á nýja markaðsgreiningu en ef breytingarnar eru minni þá getur verið ástæða til þess að gera breytingar á álögðum kvöðum án þess að leggja í alla þá vinnu sem ný markaðsgreining felur í sér.

Um 47. gr.

    Ákvæði þetta er nýmæli og er til innleiðingar á 72. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Með því verður heimilað að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk um að veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðgang að mannvirkjum eða hluta mannvirkja sem hið fyrrnefnda hefur yfir að ráða. Þannig yrði smærri fjarskiptafyrirtækjum gert kleift að leggja sín eigin net án þess að þurfa að fara í sérstaka mannvirkjagerð. Til dæmis getur aðgangur að lagnaleiðum, svo sem rörum og stokkum, verið mjög gagnlegur við uppbyggingu nýrra neta þar sem það sparar fjarskiptafyrirtæki vinnu við skurðgröft og dregur jafnframt úr þeim óþægindum sem síendurteknar framkvæmdir geta valdið. Gert er ráð fyrir skv. 5. mgr. 48. gr. frumvarpsins að þetta úrræði verði skoðað fyrst og ef það er talið duga þá þurfi jafnvel ekki að koma til setningar fleiri aðgangskvaða á viðkomandi markaði. Áhersla á að skoða þessa kvöð á undan öðrum er í samræmi við þau markmið frumvarpsins að stuðla að uppbyggingu nýrra háhraðaneta og auka samkeppni milli neta.
    Mannvirki sem hægt er að veita aðgang að samkvæmt þessu ákvæði eru að mörgu leyti þau sömu og kveðið er á um í lögum um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta, nr. 125/2019. Þetta ákvæði nær þó lengra að því leyti að það getur náð til kapla og leiðslna. Þessu ákvæði er beitt með öðrum hætti en lögum nr. 125/2019. Ákvæðið á aðeins við gagnvart fyrirtækjum með umtalsverðan markaðsstyrk og er beitt sem fyrirfram ákveðinni kvöð gagnvart þeim, eftir atvikum með öðrum kvöðum, t.d. um gagnsæi, jafnræði, bókhaldslegan aðskilnað og eftirlit með gjaldskrá. Það getur verið nauðsynlegt þegar um er að ræða fyrirtæki umtalsverðan markaðsstyrk að hafa fyrirfram ákveðna og skýra skilmála um aðgang keppinauta þeirra á markaði. Lög nr. 125/2009 gera hins vegar að meginstefnu ráð fyrir að samið sé um aðgang við netrekendur á ýmsum sviðum og að skorið sé úr ágreiningi eftir á ef hann kemur upp.

Um 48. gr.

    Ákvæði þetta samsvarar að miklu leyti 28. gr. núgildandi laga. Helsti munurinn er sá að Póst- og fjarskiptastofnun ber að kanna aðra valkosti áður en ákveðið er að beita kvöðum um aðgang fjarskiptanetum og þjónustu. Ákvæðið er til innleiðingar á 73. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972.
    Í 1. mgr. er fjallað almennt um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til þess að beita kvöðum um aðgang að netum og þjónustu.
    Í 2. mgr. og 3. mgr. eru talin upp dæmi um aðgang og skilmála tengda aðgangi sem hægt er að kveða á um. Upptalningin er nokkuð ítarlegri en í gildandi ákvæði en ekki er líklegt að þetta breytta orðalag eitt og sér leiði til grundvallarbreytinga á framkvæmd varðandi álagningu kvaða af þessu tagi. Nýmæli er að finna í d-lið, þ.e. að kvaðir geti falið í sér að fjarskiptafyrirtæki megi ekki afturkalla aðgang að aðstöðu sem þegar hefur verið veittur. Þetta á þó ekki við ef rekstri viðkomandi aðstöðu er hætt en þá getur eftir atvikum komið til beitingar 60. gr.
    Í 4. mgr. er lagt fyrir Póst- og fjarskiptastofnun að meta hvort aðrir aðgangsmöguleikar á markaðnum eða tengdum markaði, annað hvort í formi kvaða eða framboðs að eigin frumkvæði fyrirtækja, geti verið nægjanlegir til þess að takast á við samkeppnisvandamál á markaðnum. Í því sambandi eru talin upp atriði sem stofnuninni ber að líta til.
    Samkvæmt 5. mgr. er skylt að skoða hvort kvaðir um aðgang að mannvirkjum skv. 47. gr. geti dugað til að tryggja nægilegan aðgang áður en lögð er á kvöð um aðgang að netum eða þjónustu. Ákvæði þetta er bæði ætlað til þess að stuðla að því að kvaðir verði ekki meira íþyngjandi en nauðsyn ber til og til þess að stuðla að samkeppni í uppbyggingu neta.
    Að lokum er í 6. mgr. veitt heimild til þess að setja skilyrði varðandi tæknilega eiginleika neta og þjónustu, bæði hjá aðgangsveitanda og þiggjanda. Það getur verið nauðsynlegt til þess að tryggja eðlilega virkni neta og þjónustu.

Um 49. gr.

    Ákvæði þetta samsvarar 29. gr. núgildandi laga. Ákvæðið er nokkuð ítarlegra en verið hefur en felur ekki sér grundvallarbreytingu. Ákvæðið er til innleiðingar á 69. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972.
    Samkvæmt 1. mgr. er hægt að skylda fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk til þess að birta ýmsar upplýsingar, svo sem bókhaldsupplýsingar, verð, tækniforskriftir, upplýsingar um eiginleika neta og væntanlega þróun þeirra, auk skilmála og skilyrða fyrir framboði og notkun, þ.m.t. skilyrði varðandi breytingar á aðgangi að eða notkun á þjónustu og hugbúnaði, m.a. að því er varðar flutning úr eldri fjarskiptanetum.
    Samkvæmt 2. mgr. er hægt að skylda fyrirtæki til þess að gefa út viðmiðunartilboð varðandi þær aðgangsþjónustur sem eru í boði hjá fyrirtækinu samkvæmt ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar. Í slíku tilboði er gerð grein fyrir öllum skilmálum slíks aðgangs og hann sundurliðaður þannig að fyrirtæki sem óska aðgangs þurfi ekki að kaupa aðra þjónustuþætti en þá sem það þarf á að halda. Slík tilboð hafa verið til staðar hér á landi í mörg ár.
    Samkvæmt 3. mgr. er heimilt að setja nánari reglur um innihald tilboða. Slíkar reglur munu byggja á viðmiðunarreglum BEREC. Núgildandi reglur, nr. 993/2009, voru settar af Póst- og fjarskiptastofnun en gera má ráð fyrir að þær þurfi að endurskoða þegar nýjar viðmiðunarreglur BEREC liggja fyrir.

Um 50. gr.

    Ákvæðið er nokkuð ítarlegra en samsvarandi ákvæði 30. gr. núgildandi laga en ekki er gert ráð fyrir að nein grundvallarbreyting verði á beitingu þess. Það er til innleiðingar á 70. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972.
    Ákvæðið heimilar að lögð verði skylda á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk um að það gæti jafnræðis við veitingu aðgangs, þ.m.t. að það veiti ekki eigin rekstrareiningum betri þjónustu en samkeppnisaðilum sem sækja um aðgang.

Um 51. gr.

    Ákvæðið er að mestu samhljóða 31. gr. núgildandi laga og er það ætlað til innleiðingar á 71. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972.
    Ákvæðið fjallar um kvaðir varðandi aðskilnað bókhalds fyrir þá starfsemi sem fellur undir aðgang og samtengingu. Tilgangurinn er að tryggja gagnsæi í verðlagningu og að tryggja jafnræði.
    Í 2. mgr. er bætt við heimild til þess að birta upplýsingar varðandi bókhald viðkomandi fyrirtækja, að teknu tilliti til reglna um leynd viðskiptaupplýsinga. Samsvarandi heimildir er nú að finna í reglugerð um bókhald og kostnaðargreiningu í rekstri fjarskiptafyrirtækja, nr. 564/2011, en rétt þykir að kveða skýrt á um þetta atriði í lögum.

Um 52. gr.

    Ákvæði þetta samsvarar að nokkru ákvæði 32. gr. núgildandi laga varðandi kvöð um eftirlit með gjaldskrá fyrirtækja sem útnefnd hafa verið með umtalsverðan markaðsstyrk. Ákvæði frumvarpsins er þó mun ítarlegra og er í því kveðið á um atriði sem Póst- og fjarskiptastofnun þarf að taka tillit til áður en tekin er ákvörðun um beitingu kvaðarinnar. Þar á meðal er tillit til þarfar á því að stuðla að uppbyggingu nýrra háhraðaneta. Að öðru leyti er ekki talið að breytingar á orðalagi muni leiða til stórra breytinga í framkvæmd, t.d. hvað varðar kostnaðargreiningaraðferðir og birtingu upplýsinga.
    Áfram er gert ráð fyrir að nánari útfærsla verði í reglugerð eins og verið hefur, sbr. núgildandi reglugerð um bókhald og kostnaðargreiningu í rekstri fjarskiptafyrirtækja, nr. 564/2011.
    Ákvæði 52. gr. eru til innleiðingar á 74. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972.

Um 53. gr.

    Í greininni er að finna finna nýmæli sem byggt er á 75. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Ákvæðið fjallar um hámarksverð fyrir lúkningu símtala, þ.e. að segja það heildsöluverð sem netrekandi tekur fyrir að tengja endanotanda í sínu neti við endanotanda í öðru neti sem efnir til símtals. Um getur verið að ræða gjald fyrir tengingu og gjald fyrir hverja mínútu símtals. Ákvæðið á bæði við um lúkningu símtala í farneti og fastaneti.
    Ákvæðið gerir ráð fyrir að framvegis gildi samræmd lúkningarverð á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Sett verður framkvæmdagerð að höfðu samráði við BEREC þar sem ákveðið verður hámarksverð fyrir lúkningu. Þessu heildsöluverði er ætlað að gilda hér á landi og er gert ráð fyrir að hámarksverð verði birt í reglugerð sem ráðherra setur á svipaðan hátt og gert hefur verið varðandi reikiverð.
    EES-gerð um hámarksverð verður byggð á vegnu meðaltali kostnaðar í netum í Evrópu sem teljast rekin á hagkvæman hátt. Það er svipuð aðferðafræði og Póst- og fjarskiptastofnun hefur beitt við ákvörðun lúkningarverðs samkvæmt gildandi lögum og er því ekki víst að mikil verðbreyting verði í bráð.
    Að öllu jöfnu verður ekki þörf á því lengur að Póst- og fjarskiptastofnun greini markaði fyrir lúkningu símtala og taki sérstakar ákvarðanir um verð fyrir lúkningu. Að því leyti léttir þetta ákvæði á eftirliti stofnunarinnar með markaðsaðilum.
    Samkvæmt 3. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun heimilað að framkvæma markaðsgreiningu á lúkningarmörkuðum og taka ákvörðun um kvaðir ef ekkert hámarksverð er gefið út á vettvangi EES.
    Samkvæmt 4. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun gert skylt að fylgjast með verðlagningu og tryggja að hún sé ekki umfram það hámark sem gildir.

Um 54. gr.

    Ákvæði 1. og 2. mgr. 54. gr. er samhljóða ákvæði 35. gr. gildandi laga um hámarksverð í heild- og smásölu fyrir reikisímtöl í farsímanetum. Þar er kveðið á um að verð fyrir reikiþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins skuli að hámarki vera það verð sem fram kemur í svokallaðri Evrópugjaldskrá. Umrædd reikiverð eru reglulega endurskoðuð af framkvæmdastjórn ESB og ný Evrópugjaldskrá sett með reglugerð. Breytingar á Evrópugjaldskrá eru síðan innleiddar með reglugerð ráðherra.
    Ákvæði 3.–5. mgr. eru nýmæli og varða hámarkssmásöluverð fyrir mínútur símtala og SMS-sendingar sem fara fram milli landa Evrópska efnahagssvæðisins. Þannig mun gilda Evrópugjaldskrá um þessi símtöl líkt og um reikisímtöl. Ákvæðið er innleiðing á 50. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1971, svokallaðrar BEREC-reglugerðar, sem breytir reglugerð (ESB) 2015/2120. Hámarksverð án virðisaukaskatts fyrir mínútu símtals verður samkvæmt þessum gerðum 0,19 evrur og 0,06 evrur fyrir SMS og miðast við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni. Þetta er nokkur lækkun ef miðað er við almennar gjaldskrár fjarskiptafyrirtækja en ekki er ljóst nákvæmlega hver áhrifin verða með tilliti til sérstakra áskriftaleiða og magns símaumferðar milli Íslands og annarra EES-ríkja.
    Gert er ráð fyrir að verð ásamt nánari útfærslu, í samræmi við viðeigandi EES- reglugerð, verði birt í reglugerð sem ráðherra setur, á sama hátt og lagt er til að gert verði varðandi verð fyrir lúkningu símtala og reikiverð.

Um 55. gr.

    Í greininni er að finna nýtt ákvæði sem byggir á 76. gr. tilskipunar (EBS) 2018/1972. Ákvæði þetta er eitt af þeim atriðum sem eiga að styðja við það markmið að auka útbreiðslu háhraðaneta.
    Samkvæmt ákvæðinu getur fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk boðið öðrum fyrirtækjum að taka þátt í fjárfestingum í háhraðanetum og fengið þannig undanþágu frá öðrum kvöðum hvað viðkomandi nethluta varðar, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skilyrðin varða meðal annars innihald fjárfestingatilboða og aðgang þriðju aðila sem ekki taka þátt í fjárfestingunni.
    Ef Póst- og fjarskiptastofnun telur tilboð uppfylla skilyrði þá getur stofnunin gert skuldbindingar samkvæmt tilboðinu bindandi og sleppt öðrum kvöðum. Ef sérstaklega stendur á getur Póst- og fjarskiptastofnun þó beitt öðrum kvöðum samhliða skv. 3. mgr. ef veruleg samkeppnisvandamál eru til staðar sem ekki er hægt að takast á við með öðrum hætti.

Um 56. gr.

    Ákvæði þetta er nýmæli og er til innleiðingar á 77. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Ákvæðið veitir heimild til þess, í undantekningartilfellum, þar sem hefðbundnar kvaðir um aðgang, jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað og eftirlit með gjaldskrá duga ekki til að leysa mikil og viðvarandi samkeppnisvandamál, að taka stjórnsýsluákvörðun um að aðskilja ákveðnar rekstrareiningar lóðrétt samþætts fyrirtækis. Ákvæði þessu yrði aðeins beitt ef önnur úrræði laganna yrðu talin fullreynd og ekki hefur tekist með þeim að leysa alvarleg samkeppnisvandamál á markaðnum.
    Í 2. mgr. er lýst skyldum, sem hvíla á aðskilinni rekstrareiningu, sem stuðla að jafnræði á milli hins lóðrétt starfandi fyrirtækis og keppinauta þess á markaði.
    Ef Póst- og fjarskiptastofnun hefur í hyggju að beita þessu úrræði þá skal leita samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA, sbr. 3. mgr., sbr. og 7. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003. Í 3. og 4. mgr. eru talin upp atriði sem eiga að vera til staðar í erindi til Eftirlitsstofnunar ESA og í drögum að ákvörðun sem lögð er fram með erindinu. Gert er ráð fyrir að nákvæmari útfærsla á nokkrum þessara atriða verði í reglugerð.
    Ef framkvæma á slíkan aðskilnað skal Póst- og fjarskiptastofnun gera nýja greiningu á viðkomandi markaði og meta þörf á endurskoðun kvaða.

Um 57. gr.

    Ákvæðið er nýmæli og byggir það á 78. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Í ákvæðinu er fjallað um tilvik þar sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk aðskilur aðgangsnet sín frá annarri starfsemi að eigin frumkvæði.
    Samkvæmt 3. og 4. mgr. skal Póst- og fjarskiptastofnun meta áhrif aðskilnaðar ásamt öðrum skuldbindingum sem fyrirtækið kann að bjóða samhliða aðskilnaði og meta hvort ástæða er til að endurskoða kvaðir á viðkomandi markaði með tilliti til aðskilnaðarins.
    Samkvæmt 5. mgr. kemur til greina að framlengja skuldbindingar sem gerðar eru á grundvelli ákvæðisins.

Um 58. gr.

    Í greininni er kveðið á um málsmeðferð varðandi skuldbindingar sem fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk gera tilboð um í sambandi við sameiginlegar fjárfestingar í háhraðanetum skv. 55. gr., aðgang þriðju aðila í tengslum við aðskilnað skv. 57. gr. og í sambandi við kvaðir sem lagðar eru á í samræmi við 46. gr. Ákvæðið er ætlað til innleiðingar á 79. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972.
    Póst- og fjarskiptastofnun ber að viðhafa opið samráð þegar slíkt tilboð kemur fram í þeim tilgangi að meta hugsanleg áhrif skuldbindinganna á viðkomandi markað.
    Telji Póst- og fjarskiptastofnun rétt að gera umræddar skuldbindingar bindandi skal jafnframt meta áhrif þess á markaðsþróun og endurskoða þörf á kvöðum á markaðnum.

Um 59. gr.

    Í ákvæðinu er að finna nýmæli varðandi fyrirtæki sem starfa eingöngu á heildsölumarkaði. Ákvæðið byggir á 80. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972.
    Ef fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk starfar eingöngu á heildsölumarkaði og hefur engin tengsl eða sérsamninga við smásölufyrirtæki getur Póst- og fjarskiptastofnun að öllu jöfnu aðeins lagt á það kvaðir um aðgang að netum og þjónustu, jafnræði og um réttláta og sanngjarna verðlagningu.
    Samkvæmt 3. og 4. mgr. skal Póst- og fjarskiptastofnun fylgjast með þróun starfseminnar og ef skilyrði eru ekki lengur uppfyllt eða samkeppnismál leysast ekki þá er stofnuninni heimilt að leggja á fleiri kvaðir eftir atvikum.

Um 60. gr.

    Í greininni er fjallað um flutning úr eldri netum yfir í ný. Ákvæði byggir á 81. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Ákvæðið myndi t.d. geta átt við ef fyrirtæki ákveður að hætta starfrækslu koparnets eða hluta þess og flytja notendur yfir í ljósleiðaranet. Ef net sem taka á úr notkun er bundið kvöðum vegna umtalsverðs markaðsstyrks eiganda þess þá ber að tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um slík áform með hæfilegum fyrirvara.
    Póst- og fjarskiptastofnun á að hafa umsjón með því að unnið verði eftir skýrri tímaáætlun, viðkomandi aðilum verði tilkynnt um framkvæmdina með tilhlýðilegum fyrirvara og að fullnægjandi aðgangur verði í boði á nýja netinu.
    Þegar viðkomandi skilyrði eru uppfyllt getur Póst- og fjarskiptastofnun afturkallað þær kvaðir sem hvíla á eldra netinu.

Um 61. gr.

    Í greininni er fjallað um undantekningartilvik sem getur komið upp ef kvaðir á heildsölustigi duga ekki til þess að ná fram virkri samkeppni á smásölustigi.
    Í slíkum tilvikum getur Póst- og fjarskiptastofnun verið heimilt að leggja á kvaðir á smásölustigi, svo sem varðandi verðlagningu, jafnræði notenda og samsetningu þjónustupakka.
    Ákvæði þetta byggir á 83. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Ákvæðið er hliðstætt 2. mgr. 27. gr. gildandi laga en er nokkuð ítarlegra.

Um 62. gr.

    Ákvæðið kemur í staðinn fyrir 19. gr. gildandi fjarskiptalaga, nr. 81/2003, þar sem vikið er að rétti notenda um land allt til alþjónustu. Gert er ráð fyrir að þjónustutegundum innan alþjónustu fækki, til samræmis við þróun samevrópskra reglna, sem ekki fellir lengur undir alþjónustu aðgang að almenningssímum, upplýsingaþjónustu um símanúmer og aðgang að símaskrá. Þetta kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að fyrirtæki geti veitt framangreinda þjónustu á viðskiptalegum forsendum kjósi þau svo.
    Í 1. mgr. er lagt til að réttur til alþjónustu taki til neytenda, í samræmi við 84. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Með þessu er gildissviðið lítillega þrengt frá því sem gildandi fjarskiptalög gera ráð fyrir en í 19. gr. þeirra er vísað til notenda. Tilskipunin gefur kost á rýmkun þannig að réttur til alþjónustu nái einnig til svokallaðra örfyrirtækja, lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem og samtaka sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, sbr. vísun til örfélaga í 5. mgr. Ekki er gert ráð fyrir að breytingin hafi teljandi áhrif á markaðnum enda engin dæmi um að framangreindum aðilum hafi verið neitað um þjónustu hér á landi. Lagt er til að hugtakið alþjónusta verði skilgreint í orðskýringum, að fyrirmynd gildandi laga, að teknu tilliti til framangreindrar breytingar.
    Að fyrirmynd gildandi laga er áfram gert ráð fyrir að nota hugtakið símaþjónusta þegar vísað er til réttar neytenda til þeirrar tegundar alþjónustu en hugtakið felur í sér munnlegt samtal yfir almennt fjarskiptanet, óháð tækni (sjá orðskýringarákvæði). Neytendur skulu, skv. 1. mgr., eiga rétt á aðgangi að gagnaflutningsþjónustu sem tryggir nothæfa internetþjónustu og símaþjónustu með tilgreindum gæðum á lögheimili eða aðsetri samkvæmt skráningu hjá Þjóðskrá Íslands. Um lögheimili og aðsetur gilda lög nr. 80/2018. Lögheimili er sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra laga. Hugtakið föst búseta er skilgreint nánar í 2. mgr. ákvæðisins, þ.e. staðurinn þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Lögheimili skal skráð í íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, sbr. nánari ákvæði laganna þar um. Með aðsetri er samkvæmt lögum nr. 80/2018 átt við tímabundna búsetu í húsnæði sem uppfyllir skilyrði lögheimilis. Um skráningu aðseturs innan lands fer skv. 8. gr. laga nr. 80/2018. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að skráning skv. 3. gr. laga um um lögheimili og aðsetur veiti sjálfstæðan rétt til að fá aðgang að alþjónustu enda er þá ekki um að ræða skráð íbúðarhúsnæði samkvæmt fasteignaskrá.
    Í 2. mgr. er, að fyrirmynd laga nr. 72/2018 um breytingar á gildandi fjarskiptalögum, gert ráð fyrir að veiting skilgreindrar lágmarksþjónustu innan alþjónustu verði ekki bundin við tiltekna tækni. Gæði og öryggi farnetsþjónustu hefur aukist mjög hér á landi á undanförnum árum. Ekki er því lengur gert ráð fyrir að binda síma- og gagnaflutningsþjónustu innan alþjónustu við fastanetið. Við ákveðnar aðstæður getur jafnvel verið ódýrara og hagkvæmara að nýta farnetstækni. Ef neytandi á tilteknum stað hefur aðgang að farnetsþjónustu sem uppfyllir skilgreind gæðaviðmið á hann ekki rétt á því til viðbótar að fá einnig aðgang að fastanetsþjónustu undir merkjum alþjónustu.
    Í 3. mgr. er lagt til að kveðið verði á um rétt neytenda til að óska eftir að tenging skv. 1. mgr. verði takmörkuð við símaþjónustu, með vísan til 4. mgr. 84. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972.
    Í 4. mgr., sem byggir í grunninn á 4. mgr. 19. gr. gildandi fjarskiptalaga, er lagt til að kveðið verði á um að réttur til alþjónustu sé ekki fortakslaus. Í dag gildir sú regla að alþjónustuveitandi getur hafnað að útvega tengingu ef kostnaður við að útvega hana fer yfir 650.000 kr., sbr. ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 31/2017 um útnefningu Mílu ehf. með skyldu til að útvega tengingu við almenna fjarskiptanetið, innan reglna um alþjónustu. Eðli máls samkvæmt verður að gera ráð fyrir að kostnaður við að þjóna einstökum stöðum geti reynst svo hár fyrir fjarskiptafyrirtæki á markaði að ekki þyki réttlætanlegt að skylda þau til að koma upp viðunandi búnaði.
    Í 5. mgr. er lagt til að nýtt verði valkvætt ákvæði 6. mgr. 85. gr. tilskipunarinnar og réttur til alþjónustu á viðráðanlegu útvíkkaður þannig að nái ekki einungis til neytenda, sbr. 1. mgr., heldur og til örfélaga í skilningi laga um ársreikninga, nr. 3/2006. Þannig má, að teknu tilliti til annarra ákvæða laganna, styðja við t.d. árstíðabundna atvinnustarfsemi í dreifbýli.
    Loks er í 6. mgr. gert ráð fyrir að ráðherra kveði í reglugerð nánar á um þá þjónustuþætti (þjónustu og aðgerðir) sem neytendur eiga að geta framkvæmt í gegnum þá tengingu sem þeir hafa aðgang að. Gert er ráð fyrir að mat á því hvort landsmenn hafi aðgang að fullnægjandi fjarskiptaþjónustu fari fram í tengslum við þá markaðskönnun sem vitnað er til í 64. gr. Við það mat þarf m.a. að líta til aðstæðna hér á landi, t.d. útbreiðslu farneta og fastaneta, sem og til þess hvaða gagnaflutningshraði meirihluta landsmanna stendur almennt til boða. Við setningu reglugerðarinnar skal tekið mið af þeim þjónustuþáttum sem fram koma í viðauka V með tilskipuninni. Samkvæmt honum skal gagnaflutningsþjónusta geta stutt við að minnsta kosti eftirfarandi aðgerðir eða notkun:
     a.      tölvupóst,
     b.      leitarvélar sem gera kleift að leita að og finna allar gerðir upplýsinga,
     c.      tæki til undirstöðuþjálfunar og menntunar á netinu,
     d.      vef- eða fréttablöð,
     e.      pantanir og kaup á vörum eða þjónustu á netinu,
     f.      atvinnuleit og atvinnuleitartæki,
     g.      bankaviðskipti á netinu,
     h.      rafræna stjórnsýslu,
     i.      samfélagsmiðla og snarboð,
     j.      símtöl og myndsímtöl (af staðalgæðum).
    Við setningu nánari reglna samkvæmt ákvæðum þessa kafla ber jafnframt að horfa til skýrslna og samantekta sem Evrópskur hópur eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC) mun taka saman reglulega. Kröfur til fjarskiptaþjónustu skulu því endurspegla tækniframfarir og breytingar á notkunarmynstri neytenda frá einum tíma til annars.

Um 63. gr.

    Einn af þeim þáttum sem falinn er í alþjónustuhugtakinu skv. 85. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 er að þjónustan sé veitt neytendum á viðráðanlegu verði, sbr. 62. gr. Gert er ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun fylgist með þróun og verðlagi alþjónustu í smásölu, sbr. 1. mgr. Með lögum nr. 72/2018, um breytingar á gildandi fjarskiptalögum, var felld niður heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að ákveða hámarksverð á þjónustu innan alþjónustu, með vísan til þess að þar sem búið væri að gera þjónustuþætti innan alþjónustu tæknilega hlutlausa væru brostnar forsendur fyrir því að ein gjaldskrá gilti um land allt, enda þjónustan veitt með mismunandi tækni. Ekki er með frumvarpi þessu lagt til að horfið verði frá þessu fyrirkomulagi.
    Eftirlit með gjaldskrám á fjarskiptamarkaði er forsenda þess að Póst- og fjarskiptastofnun geti lagt mat á hvort ákveðnir hópar neytenda séu útilokaðir frá aðgengi að skilgreindri lágmarksþjónustu innan alþjónustu, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Ef niðurstaða stofnunarinnar bendir til útilokunar má gera ráð fyrir að útnefna þurfi fjarskiptafyrirtæki með nánar útfærða skyldu til að veita alþjónustu, sbr. ákvæði 64. gr. frumvarpsins. Eins og staðan er í dag er ólíklegt að koma muni til þess að skylda verði lögð á fjarskiptafyrirtæki til að bjóða ákveðnum hópum lægri gjaldskrá en almennt er í gildi á markaðnum. Samkvæmt Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) er Ísland í 1. sæti þegar kemur að verðlagningu á fjarskiptaþjónustu.
    Í 3. mgr. er kveðið á um reglugerðarheimild ráðherra.

Um 64. gr.

    Ákvæðið byggir á 86. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Í 1. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að áður en ákvörðun er tekin um hvort ástæða sé til að leggja á fjarskiptamarkaðinn einstakar alþjónustuskyldur skuli Póst- og fjarskiptastofnun gera markaðskönnun. Tilgangur hennar er fyrst og fremst að meta hvort markaðurinn sjálfur um land allt hafi leyst eftirspurn eftir alþjónustu eins og hún er skilgreind á hverjum tíma. Ef niðurstaða markaðskönnunar er á þá leið að neytendur hafi ekki aðgang að skilgreindri lágmarksþjónustu er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun geti útnefnt fjarskiptafyrirtæki með skyldu til að veita alþjónustu. Við málsmeðferð gilda almennar stjórnsýslureglur.
    Í 2. mgr. greinir þá vísireglu að við útnefningu skuli lágmarka röskun á markaði. Þetta á einkum við í þeim tilfellum þegar nauðsynlegt þykir að kveða á um verð eða viðskiptaskilmála sem færu gegn eðlilegum viðskiptakjörum. Á hinn bóginn er í ákvæðinu gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun standi jafnframt vörð um almannahagsmuni við útnefninguna.
    Í 3 mgr. er lagt til að kveðið verði á um skyldu fjarskiptafyrirtækis sem útnefnt hefur verið með alþjónustuskyldur til að tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun, með hæfilegum fyrirvara, um það ef ætlunin er að selja staðaraðgangsnet. Hér á landi hafa verið byggð upp staðaraðgangsnet víðsvegar um landið, m.a. með aðstoð fjarskiptasjóðs sem starfar samkvæmt lögum nr. 132/2005. Ef alþjónustuskyldur hafa verið lagðar á eigendur slíkra neta getur verið mikilvægt að stofnunin fái upplýsingar í tíma ef til stendur að selja slík net.
    Loks er í 4. mgr. gert ráð fyrir heimild til ráðherra um setningu nánari reglna í þessum efnum, um skilyrði og útfærslu ráðstafana.

Um 65. gr.

    Ákvæðið byggir á 89 gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 þar sem fjallað er um þá aðferðafræði sem viðhafa skal við útreikninga á alþjónustukostnaði og kemur í stað 21. gr. gildandi fjarskiptalaga. Aðferðafræðin gengur að meginstefnu út á að einangra þann kostnað sem alþjónustuveitandi myndi ekki leggja út í nema vegna þeirrar kvaðar sem hvílir á honum. Þetta þýðir m.a. að meta þarf viðskiptastefnu alþjónustuveitanda með og án kvaðarinnar og einangra þar með þann kostað sem tilkominn er vegna kvaðarinnar. Þegar kostnaðurinn/tapið liggur fyrir þarf sjálfstætt mat að fara fram á því hvort umrætt tap sé ósanngjörn byrði á viðkomandi alþjónustuveitanda.
    Samkvæmt 1. mgr. á alþjónustuveitandi rétt á að sækja um framlag vegna kvaða sem hvíla á fyrirtækinu ef þjónusta er talin rekin með tapi og metin ósanngjörn byrði á fyrirtækinu. Með alþjónustu er átt við þær tegundir fjarskiptaþjónustu sem tilgreindar eru í 1. mgr. 62. gr., þ.e. gagnaflutningsþjónustu sem tryggir nothæfa internetþjónustu og símaþjónustu.
    Ákvæði 3.–7. mgr. eru samhljóða ákvæðum 2.–5. mgr. gildandi laga.
    Í 8. mgr. er gert ráð fyrir heimild ráðherra til að setja reglugerð um útreikninga á kostnaði vegna alþjónustu samkvæmt aðferðafræði um hreinan kostnað. Þær reglur sem hér er vísað til eru í viðauka VII með tilskipun (ESB) 2018/1972 en þar er að finna þau sjónarmið sem taka ber mið af við útreikningana sem og hvaða stjórnvald skal sannreyna kostnaðinn.
    Á undanförnum árum hefur nokkrum sinnum reynt á það álitaefni hvort útnefndir alþjónustuveitendur eigi rétt á framlagi úr jöfnunarsjóði vegna kvaða sem hvíla á þeim samkvæmt reglum um alþjónustu. Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 35/2012, vegna umsóknar Símans hf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna áranna 2007–2011, var því hafnað að tap af rekstri almenningssíma væri ósanngjörn byrði á félaginu í skilningi 1. mgr. 21. gr. fjarskiptalaga, nr. 81/2003. Í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 25/2018 komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Míla myndi mögulega loka fyrir aðgang á alls 97 símstöðvum ef ekki væri fyrir hendi kvöð um að útvega tengingar í samræmi við ákvæði fjarskiptalaga um alþjónustu. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Míla hefði borið tiltekið tap vegna þessarar tilteknu þjónustu. Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 19/2019 komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að þetta tap væri ekki ósanngjörn byrði á Símasamstæðunni í skilningi 1. mgr. 21. gr. fjarskiptalaga.
    Gera má ráð fyrir að sú ákvörðun að gera þjónustutegundir undir alþjónustu tæknilega hlutlausar, þ.e. að horfa eigi til þjónustunnar sem veitt er og neytendur hafa aðgang að, í stað þess að einskorða þjónustuframboðið við fastanetstengingar, muni hafa þau áhrif almennt að kostnaður vegna alþjónustu fari minnkandi á komandi árum. Í þessu sambandi má jafnframt hafa í huga að íslenska ríkið hefur í gegnum fjarskiptasjóð, sem starfar samkvæmt lögum nr. 132/2005, staðið fyrir ljósleiðaravæðingu í dreifbýli í gegnum verkefnið Ísland ljóstengt sem ætlað er að stuðla að uppbyggingu fjarskiptainnviða í dreifbýli utan markaðssvæða.

Um 66. gr.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi við fjármögnun kvaða vegna alþjónustu, sjá og 90. gr. tilskipunarinnar. Miðað við þá stöðu sem er á íslenskum fjarskiptamarkaði í dag, með hliðsjón af þeim þjónustuþáttum sem taldir eru upp í viðauka VII í tilskipun (ESB) 2018/1972 og breytingunni sem fólst í að gera alþjónustu tæknilega hlutlausa, er að mati Póst- og fjarskiptastofnunar ekki fyrirséð að til fjármögnunar hugsanlegra alþjónustukvaða þurfti að koma.
    Með frumvarpinu er ekki lagt til að efnislegar breytingar verði gerðar á ákvæðum gildandi fjarskiptalaga um framkvæmd við útreikning og álagningu á jöfnunargjaldi sem lagt er á fjarskiptafyrirtækin. Ákvæði 1.–4. mgr. eru í samræmi við ákvæði 1.–4. mgr. 22. gr. gildandi laga.
    Í 5. mgr. er kveðið á um tiltekinn þröskuld fyrir álagningu jöfnunargjalds. Gert er ráð fyrir því að jöfnunargjald sé ekki lagt á fjarskiptafyrirtæki með veltu undir 30.000.000 kr. á ársgrundvelli. Þessi upphæð svarar til þess að lægsti hundraðshluti (1%) þeirra fjarskiptafyrirtækja sem mynda heildarveltu á fjarskiptamarkaði greiði ekki jöfnunargjald.
    Ákvæði 6. mgr. er sambærilegt 5. mgr. 22. gr. gildandi fjarskiptalaga.
    Í 7. mgr. er kveðið á um skyldu Póst- og fjarskiptastofnunar til að birta skýrslu um þær kvaðir sem hvíla á markaðnum vegna alþjónustu, kostnað við þær sem og yfirlit yfir framlög fjarskiptafyrirtækja í jöfnunarsjóð. Á vef stofnunarinnar, www.pfs.is, er hægt að finna skýrslur þessa efnis frá árinu 2000.

Um 67. gr.

    Í þessum kafla frumvarpsins er að finna ákvæði um skilmála og gjaldskrár, gæði og neytendavernd. Ef annað er ekki tekið fram berum orðum er með frumvarpinu lagt til að ákvæði hans skuli ekki gilda um fyrirtæki sem veita fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er ótengd númerum og teljast örfélög í skilningi laga um ársreikninga, nema þau veiti einnig aðra fjarskiptaþjónustu. Er sú tillaga í samræmi við ákvæði 98. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Á hinn bóginn gerir 2. mgr. ráð fyrir að endanotendur séu upplýstir um það sérstaklega og með sannanlegum hætti, áður en gengið er til samninga um þjónustu, að undanþága eigi við.

Um 68. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að innleidd verði 99. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 69. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að innleidd verði 102. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Í 1. mgr. eru útlistaðar kröfur til fjarskiptafyrirtækis um upplýsingamiðlun gagnvart neytendum áður en þeir eru bundnir af samningi eða tilboði um þjónustu. Upplýsingar sem veittar eru samkvæmt ákvæðinu, á skýran og sannanlegan hátt, skulu teljast óaðskiljanlegur hluti samnings. Rétt þykir að taka fram að eftirlit með framkvæmd laga um neytendasamninga, nr. 16/2016, er í höndum Neytendastofu skv. 27. gr. þeirra laga.
    Í 2. mgr. eru tíundaðar lágmarkskröfur til samantektar yfir meginefni samnings (e. contract summary). Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um þær í reglugerð skv. 4. mgr., með vísan til viðauka VIII við tilskipunina. Lagt er til að ráðherra fái enn fremur kveðið nánar á um upplýsingakröfur að því er varðar megineinkenni þjónustu og um sniðmát samantektar skv. 2. mgr., með vísan til viðauka IX við tilskipunina.
    Í 3. mgr. er með flutningsþjónustu sem notuð er til að veita þjónustu tækis í tæki átt við þjónustu milli véla (e. machine to machine eða M2M).

Um 70. gr.

    Lagt er til að með ákvæðinu, sem lýtur að gæðum og samanburði þjónustu, verði innleiddar 103. og 104. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Ákvæði 2. mgr. á rætur að rekja til 41. gr. gildandi fjarskiptalaga en með frumvarpinu er lagt til að nethlutleysi verði gerð skil í sérákvæði, sbr. 71. gr.
    Í samræmi við tilskipunina er með 1. mgr. gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun sjái til þess að starfrækt sé samanburðarþjónusta sem gerir endanotendum, sér að kostnaðarlausu, kleift að bera saman verð og gæði á fjarskiptamarkaði í samræmi við 2. mgr. 103. gr. tilskipunarinnar. Í tilskipuninni er talað um samanburðarþjónustu (e. comparison tool) sem geri neytendum kleift að bera saman verð og gjaldskrár og gæði þjónustu þar sem boðið er upp á lágmarksþjónustu. Með orðalaginu samanburðarþjónusta er ljóst að um ákveðið tæki eða þjónustu er að ræða og því séu samræmdir og/eða staðlaðir samningsskilmálar og/eða verðskrár ekki nægjanleg. Póst- og fjarskiptastofnun skal sjá til þess að slík samanburðarþjónusta sé tiltæk á íslenskum fjarskiptamarkaði og skal hún vera óháð fjarskiptafyrirtækjum og taka til netaðgangsþjónustu og fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem tengd er númerum, svo og eftir atvikum fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er ótengd númerum. Með ákvæðinu er ekki verið að kveða á um skyldu stofnunarinnar til að halda slíkri þjónustu úti heldur að stofnunin skuli tryggja það að a.m.k. ein slík þjónusta sé fyrir hendi, neytendum til hagsbóta.
    Gert er ráð fyrir nánari reglusetningarheimild til Póst- og fjarskiptastofnunar um gæði þjónustu og framsetningu upplýsinga en tilgangurinn er sá að endanotendur hafi aðgang að ítarlegum samanburðarhæfum og skiljanlegum upplýsingum.

Um 71. gr.

    Ákvæðið um nethlutleysi er efnislega óbreytt frá því sem er í 41. gr. gildandi fjarskiptalaga. Vísast til skýringa við 3. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 41/2018, um breytingar á gildandi fjarskiptalögum (sjá þskj. 540, 390. mál á 148. lögþ. 2017–2018).

Um 72. gr.

    Ákvæði 1.–3. mgr. eru að grunni til samhljóða 2.–3. mgr. 37. gr. gildandi fjarskiptalaga. Tilgangur ákvæðisins er að tryggja að skilmálar og verklag fjarskiptafyrirtækja við uppsögn samninga hindri ekki flutning neytenda milli fjarskiptafyrirtækja og þar með virka samkeppni á markaði. Ákvæði 105 gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 kveður á um að óheimilt sé að kveða á um lengri binditíma neytenda en 24 mánuði en það sé hins vegar heimilt að viðhalda styttri hámarksbinditíma. Með ákvæðinu er leitast við að tryggja réttarvernd fyrir neytendur. Í 2. mgr. 37. gr. gildandi fjarskiptalaga er kveðið á um 6 mánaða hámarksbinditíma og hefur það ákvæði verið í fjarskiptalögum síðan 2007, sbr. 4. gr. laga nr. 39/2007 um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003. Aukin réttarvernd til neytenda er á meðal helstu markmiða tilskipunarinnar. Með hliðsjón af breyttum samkeppnisaðstæðum er þó lagt til að hámarksbinditími verði lengdur í tólf mánuði. Aukið svigrúm í þessum efnum getur orðið neytendum í hag með tilliti til vöru-/þjónustuframboðs og verðlagningar. Ákvæði 3. málsl. 1. mgr. er nýmæli og felur í sér að tólf mánaða hámarksbinditími eigi ekki við um sérstaka afborgunarsamninga sem neytandi gerir vegna uppsetningar á fjarskiptanetum, sérstaklega á háhraðanetum. Slíkir afborgunarsamningar skulu ekki taka til endabúnaðar, svo sem beinis eða mótalds, og skulu ekki koma í veg fyrir að neytandi geti nýtt réttindi sín samkvæmt ákvæðinu. Nýr b-liður 2. mgr., svo og 4.–5. mgr., fela í sér innleiðingu á 105. gr. tilskipunarinnar. Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu neytendur, með breytingunni á 2. mgr., öðlast rétt til fyrirvaralausrar uppsagnar án greiðslu bóta ef marktækt eða endurtekið misræmi er á milli raunafkasta umsaminnar fjarskiptaþjónustu, annarrar en netaðgangsþjónustu, og umsaminna afkasta.
    Í 4. mgr. er lagt til það nýmæli að þegar samningar um fjarskiptaþjónustu kveða á um ákveðinn binditíma og þeir framlengjast sjálfkrafa skuli fjarskiptafyrirtæki verða gert skylt upplýsa endanotendur með eins mánaðar fyrirvara um fyrirhuguð samningslok. Á sama tíma og þegar til stendur að gera breytingar á slíkum samningi skal endanotandi upplýstur um hvernig hann geti sagt upp þjónustunni og hvar hann geti fundið upplýsingar um bestu gjaldskrár í samræmi við ákvæði 3. mgr. 105 gr. tilskipunarinnar. Slíka upplýsingagjöf er hægt að uppfylla með margvíslegum hætti, m.a. rafrænum.
    Þá er í 5. mgr. gert ráð fyrir takmörkun bótagreiðslna við lögmæta uppsögn, þ.e. þær aðstæður ef endanotandi kýs að halda endabúnaði við samningslok, svo og tilgreind viðmið sem liggja skulu til grundvallar ákvörðunar bótafjárhæðar. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 73. gr.

    Ákvæðið lýtur að birtingu skilmála og gjaldskrár, sbr. 5. mgr. 37. gr. gildandi fjarskiptalaga. Markmið 1. mgr. er að gera notendum kleift að fylgjast með og stjórna útgjöldum vegna þjónustu, ekki síst alþjónustu. Í 2. mgr. er að finna þá skyldu fjarskiptafyrirtækja vegna þjónustuleiða sem eru gjaldfærðar eftir tíma- eða neyslumagni að sjá til þess að neytendum sé gert kleift að fylgjast með og stjórna notkun sinni í rauntíma. Jafnframt er kveðið á um skyldu þjónustuveitenda til að senda tilkynningar til neytenda áður en inniföldu tíma- eða neyslumagni þjónustuleiða er náð. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 74. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að efni 38. gr. gildandi fjarskiptalaga haldi sér, svo til óbreytt. Þó er lagt til að notað verði hugtakið notandi í stað áskrifanda á einstaklingsmarkaði og neytandi alþjónustu í samræmi við hugtakanotkun tilskipunar (ESB) 2018/1972. Þá þykir jafnframt rétt að taka fram að nægjanlegt er að fjarskiptafyrirtæki uppfylli skyldu sína varðandi sundurliðun reikninga, fyrir notendur sína og neytendur að því er varðar alþjónustu, með rafrænum hætti.
    Lagt er til að lögfest verði heimild til fjarskiptafyrirtækja um að senda notendum sérstakan reikning fyrir yfirgjaldsþjónustu, m.a. með vísan til þess að aukið gagnsæi í þeim efnum væri neytendum í hag. Hugtakið yfirgjald er skilgreint í 52. tölul. 5. gr. frumvarpsins. Brýnt er að hafa skil við önnur lög í huga, að því er yfirgjald varðar, einkum innheimtulög, nr. 95/2008, sem gilda um frum- og milliinnheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi. Aðrir en lögmenn, opinberir aðilar og fjármálafyrirtæki mega ekki stunda innheimtu án innheimtuleyfis. Þannig er fjarskiptafyrirtækjum ekki heimilt að stunda innheimtu, í skilningi innheimtulaga nr. 95/2008, án innheimtuleyfis. Fjármálaeftirliti/Seðlabanka Íslands er falið eftirlit með starfsemi innheimtuaðila. Þá vísast til uppfærðrar greiðsluþjónustutilskipunar (ESB) 2015/2366, PSD2, sem verður fyrirsjáanlega tekin upp í EES-samninginn, en PSD1 var innleidd hér á landi með lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Í PSD2 greinir nú skýrari undanþágu frá gildissviði hennar en í PSD1 að því er greiðslur með skuldfærslu á símreikning varðar, sjá l-lið 3. gr. Þannig gildir PSD2 ekki um greiðslur framkvæmdar fyrir milligöngu rekstraraðila fjarskiptaneta eða -þjónustu sem veitt er til viðbótar við fjarskiptaþjónustu fyrir áskrifanda að netinu eða þjónustunni: (i) fyrir kaup á stafrænu efni og talþjónustu, án tillits til búnaðarins sem notaður er til að kaupa eða nota stafrænt efni, og skuldfærðar eru á viðkomandi reikning eða (ii) framkvæmdar fyrir milligöngu rafræns búnaðar og skuldfærðar á viðkomandi reikning innan ramma góðgerðastarfsemi eða fyrir kaup á miðum, að því tilskildu að fjárhæð hverrar stakrar greiðslu sem um getur í i- og ii-lið sé ekki hærri en 50 evrur og uppsöfnuð fjárhæð greiðslna fyrir hvern og einn áskrifanda er ekki hærri en 300 evrur á mánuði eða, ef áskrifandi greiðir fyrirfram inn á reikning sinn hjá rekstraraðila fjarskiptanets eða -þjónustu, uppsöfnuð fjárhæð greiðslna sé ekki hærri en 300 evrur á mánuði.

Um 75. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að efni 39. gr. gildandi fjarskiptalaga, um vanskil greiðslna vegna símaþjónustu, haldi sér svo til óbreytt. Þó er lagt til að notað verði hugtakið notandi í stað orðsins áskrifandi Í þeim tilvikum sem notandi símanúmers og greiðandi þess eru ekki einn og sami aðili er æskilegt að báðum aðilum sé tilkynnt um fyrirhugaða lokun með a.m.k. mánaðar fyrirvara, en hér á landi er nokkuð algengt að þetta sé ekki einn og sami aðilinn. Sem dæmi má nefna starfsmann sem nýtir sér fjarskiptaþjónustu með sínu eigin símanúmeri en vinnuveitandi hefur tekið að sér að greiða fyrir þjónustuna að hluta eða öllu leyti. Í slíku tilviki er ljóst að þó að vinnuveitandi greiði fyrir fjarskiptaþjónustuna getur hann ekki virkjað réttindi notanda sem við hana eru bundin, t.d. að óska eftir sundurliðuðum upplýsingum um fjarskiptanotkun, nema notandi samþykki slíkt fyrirkomulag sérstaklega. Á hinn bóginn getur það varðað greiðanda jafn miklu og notanda að fá tilkynningu um fyrirhugaða lokun þjónustu. Þessu tengt er mikilvægt, þegar um er að ræða fjarskiptaþjónustu sem styðst við símanúmer, að tekinn sé af allur vafi um að notandi er jafnframt rétthafi símanúmers sem skráð er á nafn og kennitölu hans hjá fjarskiptafyrirtæki. Inntak hugtaksins rétthafi ræðst af hefðbundinni lögfræðilegri skilgreiningu á því.
    Skrifleg aðvörun telst einnig vera uppfyllt ef hún er sannarlega send með rafrænum hætti. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 76. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að ákvæði um númeraflutning og flutning netaðgangsþjónustu milli fjarskiptafyrirtækja verði ítarlegri en nú er, sbr. 52. gr. gildandi fjarskiptalaga, til samræmis við ákvæði 106. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Mikilvægustu nýmæli greinir í 3.–4. mgr. og varða flutningsferli. Með fyrirframgreiddri þjónustu í 4. mgr. er átt við fyrirframgreidd símanúmer eða frelsisnúmer svokölluð.

Um 77. gr.

    Lagt er til að 107. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 verði innleidd með ákvæðinu og er um nýmæli að ræða, þ.e. allítarleg skilyrði um pakkatilboð. Slíkir þjónustupakkar (vöndlar) hafa orðið æ algengari á undanförnum árum og kaupa margir neytendur þjónustur sem hluta af slíkum pökkum. Með ákvæðinu er leitast við að takmarka erfiðleika neytenda við að skipta um þjónustuveitendur og þjónustuleiðir og þannig koma í veg fyrir samningsbundna „innilokun“ (e. lock-in) neytenda. Í 1. mgr. er kveðið á um að í samningi við neytanda um þjónustupakka, sem inniheldur a.m.k. fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er tengd númerum (símaþjónustu) eða netaðgangsþjónustu, skulu nánar tilgreind ákvæði fyrirhugaðra laga gilda um alla þætti pakkans. Með 2. mgr. er neytanda tryggður uppsagnarréttur vegna vanefnda eða afhendingarskorts að því er alla þætti pakka varðar, ef slíkur réttur er til staðar fyrir lok samningstíma að því er tiltekinn þjónustuþátt hans varðar. Ákvæði 3. mgr. tekur enn fremur af skarið um að gildistími samnings neytanda um netaðgangsþjónustu eða fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem tengd er númerum verður ekki breytt, að því er þá þjónustu varðar, með nýrri áskrift hjá sama þjónustuveitanda að viðbótarþjónustu eða endabúnaði nema neytandinn samþykki slíka breytingu sérstaklega.
    Í 4. mgr. er lagt til að 1. og 3. mgr. ákvæðisins skuli gilda um örfélög í skilningi laga um ársreikninga og samtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, eins og tilskipunin heimilar, nema þau afsali sér þeim rétti með skýrum hætti.

Um 78. gr.

    Í 1. mgr. ákvæðisins er að finna kröfu til aðila sem veita almenna fjarskiptaþjónustu eða reka almenn fjarskiptanet um að verja þær upplýsingar sem fara um fjarskiptanet. Hér er um að ræða ótvíræða skyldu á fjarskiptafyrirtæki um að verja upplýsingar gegn t.d. glötun, skemmdum og aðgengi óviðkomandi aðila. Þessi grunnkrafa ákvæðisins er óbreytt frá 2. málsl. 1. mgr. 47. gr. gildandi laga en ákvæðinu hefur verið skipt upp til að auka samræmi við framsetningu tilskipunar (ESB) 2018/1972. Þessi krafa kom fyrst inn með breytingu á gildandi fjarskiptalögum með lögum nr. 39/2007 en um er að ræða mikilvægan þátt til að tryggja fjarskiptaleynd. Í þessu sambandi er rétt að leggja til grundvallar rúma skilgreiningu á hugtakinu upplýsingar. Er því ekki eingöngu átt við persónuupplýsingar heldur einnig þau gögn sem teljast til fjarskipta, þ.e. hvers konar sendingu og móttöku tákna, merkja, skriftar, mynda og hljóða eða hvers konar boðmiðlun eftir leiðslum, með þráðlausri útbreiðslu eða öðrum rafsegulkerfum. Eins er eðlilegt að gögn er varða reikningagerð og gögn um fjarskipti sem liggja þeim til grundvallar séu hér meðtalin.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er að finna þá almennu skyldu að fjarskiptafyrirtæki sem veita almenna fjarskiptaþjónustu eða reka almenn fjarskiptanet skulu skjalfesta skipulag upplýsingaöryggis. Hér er verið að gera þá kröfu á fjarskiptafyrirtækin að þau setji sér öryggisstefnu, framkvæmi áhættumat og ákveði öryggisráðstafanir á grundvelli þess. Þá er sett sú skylda á félögin að þau geri sérstakar ráðstafanir til að tryggja öryggi upplýsinga og samfelldan og órofinn rekstur almennra fjarskiptaneta og almennrar fjarskiptaþjónustu. Hér er í raun sett fram sú krafa að tryggja skuli rekstur þjónustunnar með sem bestum hætti, t.d. með gerð viðbragðsáætlunar og öðrum lágmarksráðstöfunum sem nauðsynlegar eru í áhættustýringu vegna rekstrar og til verndar upplýsingum. Þá er eðlileg krafa um að þau félög sem einungis veita almenna fjarskiptaþjónustu hafi samráð við rekstraraðila viðkomandi fjarskiptanets, eftir því sem við á. Ákvæðið byggir á orðalagi í gildandi 1.–3. mgr. 47. gr. fjarskiptalaga sem komu inn með áðurnefndum breytingarlögum nr. 39/2007. Vísast til skýringa við þau ákvæði. Hins vegar er mikilvægt að árétta að uppbygging á ákvæðinu er nú breytt til að samræmast betur tilskipuninni. Þá er nauðsynlegt að fram komi að ákvæði 2. mgr. verður að skýra með hliðsjón af ákvæði 3. mgr. þar sem sett er fram sú krafa að öryggisskipulag og áhættustýring skulu taka mið af alþjóðlegum stöðlum og viðmiðum um bestu framkvæmd. Hér er þessi krafa í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar sjálfrar, sbr. 40. gr. hennar. Þá er í 3. mgr. tilgreindar þær tæknilegu og skipulagslegu ráðstafanir sem að lágmarki þurfa að vera til staðar í öryggisskipulagi og áhættustýringarumgjörð fjarskiptafyrirtækjanna. Eru talin upp ákveðin atriði í a–d-lið málsgreinarinnar. Byggir þessi upptalning á 94. lið formálsorða tilskipunarinnar en mikilvægt er að hafa í huga að í 5. mgr. 40. gr. hennar er gert ráð fyrir heimild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að fengnu áliti frá Netöryggisstofnun Evrópu (ENISA), til að setja auknar kröfur hvað öryggisskipulag og lágmarkskröfur varðar. Þá er einnig sett fram sú krafa í 40. gr. tilskipunarinnar að ENISA skuli leitast við að tryggja að samræmi verði í framkvæmd ákvæðisins. Það er því eðlilegt að við túlkun og framfylgd ákvæðisins verði að taka mið af leiðbeiningum ENISA.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að Póst- og fjarskiptastofnun setji reglur um hvort tveggja vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum og virkni almennra fjarskiptaneta og almennrar fjarskiptaþjónustu. Reglur stofnunarinnar skulu taka til 3. mgr. ákvæðisins sem og þeirra atriða sem talin eru upp í stafliðum a–i í 4. mgr. Í 4. mgr. er að finna sambærilega upptalningu og í tveimur aðskildum málsgreinum gildandi laga þar sem önnur málsgreinin varðar almennt öryggi upplýsinga en hin fjallar um virkni fjarskiptaneta. Í gildandi reglum Póst- og fjarskiptastofnunar, nr. 1221/2007, um vernd upplýsinga á almennum fjarskiptanetum, og nr. 1222/2007, um virkni almennra fjarskiptaneta, er með tilvísun gert ráð fyrir ákveðinni hliðrun þar sem skyldur varðandi skipulag upplýsingaöryggis, sem fjallað er um í reglum nr. 1221/2007, nái til kröfu um virkni almennra fjarskiptaneta sem fjallað er um í reglum nr. 1222/2007. Nú er því í 3. og 4. mgr. að finna upptalningu á ráðstöfunum og heimildum Póst- og fjarskiptastofnunar sem geta varðað öryggisskipulagið með heildstæðari hætti, þ.e. vernd upplýsinga, virkni fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu. Þannig er í a- og b-liðum fjallað um hvernig skjalfesta skuli skipulag upplýsingaöryggis og gerð öryggisstefnu, framkvæmd áhættumats og val á öryggisráðstöfunum. Hér er verið að veita stoð fyrir því að stofnunin geti sett fram ákveðna lýsingu á því hvað skal að lágmarki felast í gerð öryggisstefnu, aðferðafræði áhættumats almennt og framkvæmd sértækara áhættumats m.t.t. tiltekinnar ógnar. Hér gæti verið um hvort tveggja að ræða kerfislegar eða raunlægar og umhverfislægar ógnir. Þá er sett fram krafa um að öryggisráðstafanir, sem valdar eru til mótvægis við þær áhættur sem niðurstaða áhættumats sýnir, skuli vera skriflegar. Er það mikilvæg forsenda fyrir því að talist geti verið ákveðið grundvallarskipulag á öryggi og virkni neta og þjónustu.
    Í c-lið er fjallað um hlítingu við tiltekna staðla og alþjóðleg viðmið um bestu framkvæmd. Er þetta sambærilegt og í gildandi lögum. Í áðurnefndum reglum Póst- og fjarskiptastofnunar er byggt á ISO-staðli 27001:2005, Upplýsingatækni – öryggistækni – stjórnkerfi upplýsingaöryggis – kröfur. Ljóst er að staðlar þróast áfram og nauðsynlegt að miða við útgáfu nýjustu viðeigandi staðla hverju sinni, sbr. t.a.m. 94. lið formálsorða tilskipunarinnar, sem og áherslu á alþjóðlega bestu framkvæmd. Í d-lið er sérstaklega fjallað um leynd, réttleika og tiltækileika upplýsinga sem og dulkóðun. Hér er vísað til þekktra hugtaka er varðar fjarskiptaleynd og öryggi og virkni þjónustu. Þá er sérstaklega tilgreint að Póst- og fjarskiptastofnun geti sett kröfur er varðar dulkóðun í reglunum. Er það í samræmi við 1. mgr. 40. gr. tilskipunarinnar, sbr. 97. lið formálsorða tilskipunarinnar. Þykir rétt að hafa þessa heimild skýra fyrir stofnunina til tryggja samræmi við bestu framkvæmd hverju sinni. Í e-lið er fjallað um stjórn almennra fjarskiptaneta og almennrar fjarskiptaþjónustu og er hér t.a.m. átt við stýringu þjónustugæða, stjórnun umferðarstýringar og viðhald fjarskiptakerfa. Í f-lið er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun setji reglur um afkastagetu og flæði umferðar um almenn fjarskiptanet. Er hér um að ræða ráðstafanir er lúta að vara- og aukaleiðum og burðargetu neta. Í g-lið er gert ráð fyrir að settar verði reglur um virkni tölvupóstkerfa. Um er að ræða ýmsar ráðstafanir til að tryggja greiða og örugga umferð tölvupósts. Í h-lið er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun setji reglur um viðbúnaðaræfingar og i-liður lýtur að nánari reglusetningu um eftirlitsúrræði stofnunarinnar, að fyrirmynd gildandi laga og reglna.
    Í 5. mgr. er lagt til að kveðið verði á um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að fara fram á að fjarskiptafyrirtæki framkvæmi sértækt áhættumat. Annars vegar að því er einstaka rekstrar- eða kerfisþætti fjarskiptaneta og/eða -þjónustu varðar og hins vegar að því er sérstakar ógnir varðar sem steðjað geta að upplýsingum, fjarskiptanetum eða -þjónustu. Á grundvelli niðurstöðu áhættumats skulu fjarskiptafyrirtæki ákvarða öryggisráðstafanir í starfsemi sinni, m.a. í samræmi við alþjóðleg viðmið um bestu framkvæmd.

Um 79. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um ákveðin eftirlitsúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 41. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Almenn ákvæði um eftirlitsheimildir og -úrræði er að finna í lögum nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Tilskipunin sem innleidd er með þessu frumvarpi gerir ráð fyrir ákveðnum heimildum til framfylgdar á ákvæðum um öryggi neta og þjónustu. Það þykir hins vegar rétt að setja inn ákvæði er þetta varðar í framhaldi af þeim kröfum sem gerðar eru til fjarskiptafyrirtækja, enda er um nokkuð ítarleg og sértæk úrræði að ræða hvað þessar kröfur varðar. Þá er talið rétt að láta ákvæðið ná til upplýsingaöryggis líka.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er að finna heimild fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til að gera úttektir og prófanir á því hvort fjarskiptafyrirtæki, þ.e. hvort tveggja þau sem reka almennt fjarskiptanet og/eða veita almenna fjarskiptaþjónustu, uppfylli kröfur laganna er varðar upplýsingaöryggi og virkni almennra fjarskiptaneta og almennrar fjarskiptaþjónustu. Ekki er um efnisbreytingu að ræða frá gildandi lögum en stofnunin hefur nokkuð víðtækar heimildir til eftirlits með fjarskiptafyrirtækjum samkvæmt tilgreindum lögum um stofnunina og í afleiddum réttarheimildum. Þannig hefur stofnunin á undanförnum áratug framkvæmt fjöldamargar úttektir er varða t.a.m. meðferð og eyðingu gagna um fjarskiptaumferð, raunlæga vernd mikilvægra tækjarýma, hýsingarrými landtökustaða fjarskiptasæstrengja sem og varaafl farnetssenda á náttúruvársvæðum. Hins vegar er sérstaklega kveðið á um að kostnaður vegna úttekta og prófana skuli greiddur af viðkomandi fjarskiptafyrirtæki.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir lögfestingu heimildar til Póst- og fjarskiptastofnunar um framkvæmd áhættumats, eftir atvikum heildstætt eða um sértæka þætti.
    Í 3. mgr. er sett inn sérstakt ákvæði sem kveður á um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að gefa út bindandi fyrirmæli um úrbætur komi í ljós að fjarskiptafyrirtæki hafi ekki uppfyllt kröfur skv. 78. gr., svo sem um tilteknar lágmarksöryggisráðstafanir. Almennt hefur stofnunin heimild til að leggja mat á hlítni við lagakröfur í stjórnsýsluákvörðun, svo sem að því er varðar öryggi upplýsinga og fjarskiptaneta. Ákvæði þetta mun ekki hafa áhrif á hefðbundna málsmeðferð og stjórnsýsluákvarðanir. Hér er hins vegar komin inn bein sérstök heimild til að gefa fyrirmæli um tilteknar ráðstafanir sem þörf er á til að ráða bót á öryggisatviki eða koma í veg fyrir að það eigi sér stað þegar veruleg ógn eða áhætta hefur verið greind. Hér má til að mynda nefna einstaka atriði sem komið hafa í ljós og varða hvort tveggja raunlæga og kerfislæga vernd, svo sem skort á læsingu, þar sem mikilvægir fjarskiptainnviðir eru til staðar, eða skort á aðgangsstýringum, eða ef aðgangur inn í mikilvæg kerfi er mögulega of opinn. Ákvæðinu er ætlað er að innleiða 1. mgr. 41. gr. tilskipunarinnar.

Um 80. gr.

    Í ákvæðinu er sett fram skýr lagakrafa um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun án tafar um öll alvarleg atvik eða áhættu sem ógnar virkni almennra fjarskiptaneta og/eða veitingu almennrar fjarskiptaþjónustu. Ákvæðinu er ætla að innleiða 2. mgr. 40. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Þessi skylda er ekki ný af nálinni og kom t.a.m. inn í evrópska fjarskiptalöggjöf árið 2009. Hér á landi er kveðið á um upplýsingagjöf vegna atvika í reglum Póst- og fjarskiptaskiptastofnunar, sbr. einnig gildandi e-lið 2. mgr. 47. gr. og g-lið 3. mgr. 47. gr. gildandi fjarskiptalaga. Þetta ákvæði er jafnframt mikilvægur liður í að uppfylla skyldu aðildarríkja til að gefa Eftirlitsstofnun EFTA og Netöryggisstofnun Evrópu (ENISA) stöðuskýrslu varðandi tilkynningar, sbr. 2. mgr. 40. gr. tilskipunarinnar en hún er innleidd með beinum hætti í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun.
    Í 2. mgr. ákvæðisins eru sett fram þau viðmið sem eiga að liggja til grundvallar mati á umfangi og alvarleika tilkynningarskylds atviks eða áhættu. Ákvæðið innleiðir 2. mgr. 40. gr. tilskipunarinnar. Ljóst er að horfa verður til ýmissa þátta og við mat á hverjum þætti er eðlilegt að horfa til skýringa og leiðbeininga frá Evrópu, t.a.m. hópum sem settir voru á stofn með netöryggistilskipun (ESB) 2016/1148 (NIS-tilskipuninni), sem og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Netöryggisstofnun Evrópu (ENISA).
    Í 3. mgr. er að finna ákvæði er varðar fjarskiptaleyndina sérstaklega. Þykir rétt að hafa það í sérstöku ákvæði þar sem þeir matskenndu þættir sem tilgreindir eru í 2. mgr. og varða virkni neta og þjónustu eiga ekki við þegar kemur að öryggi upplýsinganna sjálfra. Ljóst er að kveðið er á um fjarskiptaleynd og persónuvernd í fjarskiptum í sérlöggjöf frá Evrópusambandinu, þ.e. áðurnefndri tilskipun 2002/58/EB, og er því rétt að kveða skýrt á um tilkynningarskyldu ef hætta er á að fjarskiptaleynd verði rofin.
    Í 4. mgr. er sérstaklega gert ráð fyrir að upplýst sé um mögulegt útvistunarfyrirkomulag og hugsanleg smitáhrif, jafnvel yfir landamæri. Slíkar upplýsingar geta verið forsenda skilvirkra viðbragða gegn aðsteðjandi hættu og stuðlað að lágmörkun tjóns.
    Í 5. mgr. er kveðið á um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að setja reglur um frekari útfærslu og framkvæmd tilkynningarskyldu. Er þetta ákvæði mikilvægt svo að stofnunin geti sett skýrari fyrirmæli um hvenær atvik skulu tilkynnt til netöryggissveitar eða hvenær skuli tilkynna til Póst- og fjarskiptastofnunar. Hér getur verið mikilvægt að aðgreina tilkynningar um t.d. raunlæga vernd eða þjónusturof vegna raunlægs atviks, svo sem náttúruhamförum, og svo vegna t.d. netógnar eða atviks.

Um 81. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um kröfu til upplýsingagjafar. Í 1. mgr. er kveðið á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að upplýsa þá notendur sem geta orðið fyrir áhrifum af ógn sem steðjar að almennum fjarskiptanetum eða almennri fjarskiptaþjónustu. Skulu þau enn fremur veita upplýsingar um mögulegar verndarráðstafanir og úrræði sem hægt er að grípa til gegn umræddri ógn. Hér getur t.d. verið um að ræða ráðstafanir sem lúta að því að nota sérstaka tegund hugbúnaðar eða ákveðna dulkóðunartækni. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 3. mgr. 40. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972, sbr. einnig 96. lið formálsorða hennar. Í þessu sambandi er mikilvægt að árétta að upplýsinga- og leiðbeiningarskylda ákvæðisins leysir fyrirtæki ekki undan þeirri skyldu að grípa strax til viðeigandi öryggisráðstafana til að bregðast sjálft við öryggisógninni og koma á eðlilegu öryggisástandi í rekstri netsins og/eða þjónustunnar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimildir Póst- og fjarskiptastofnunar til að upplýsa almenning um atvik þegar slík upplýsingagjöf er í þágu almannahagsmuna, svo sem til að koma í veg fyrir atvikið eða takast á við það. Eins getur stofnunin krafist þess að fjarskiptafyrirtæki upplýsi um atvik enda sé það í þágu almannahagsmuna. Ákvæðið innleiðir hluta 2. mgr. 40. gr. tilskipunarinnar. Þá er jafnframt kveðið á um að stofnunin geti tilkynnt almenningi um veikleika og almennar hættur. Póst- og fjarskiptastofnun rekur nú þegar vefsvæðið netoryggi.is þar sem finna má leiðbeiningar og fræðsluefni sem tengist notkun internetsins. Vefsvæðið er fyrst og fremst ætlað almenningi en á því er jafnframt efni sem getur nýst litlum fyrirtækjum. Hefur stofnunin nýtt þetta svæði sem vettvang upplýsingamiðlunar í þessum tilgangi. Lokamálsliður málsgreinarinnar kveður á um að Póst- og fjarskiptastofnunar skuli, eftir atvikum, eiga samráð við lögreglu vegna tilkynninga á grundvelli ákvæðisins. Getur þetta samráð verið mikilvægt vegna almannavarnarhlutverks ríkislögreglustjóra. Í þessu samhengi er rétt að leggja til grundvallar að samráð skuli viðhaft þegar alvarleiki veikleika eða áhættu er slíkur að framangreint hlutverk ríkislögreglustjóra gæti virkjast.
    Í 3. mgr. er sett inn skylda um að Póst- og fjarskiptastofnun upplýsi eftirlitsstjórnvöld í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og Netöryggisstofnun Evrópu (ENISA) ef þörf krefur. Ákvæðinu er ætlað að innleiða hluta af 2. mgr. 40. gr. tilskipunarinnar. Við framkvæmd ákvæðisins er það í höndum Póst- og fjarskiptastofnunar að meta hvenær eðlilegt er að láta sambærilegar eftirlitsstofnanir og Netöryggisstofnun Evrópu vita þegar öryggisatvik á sér stað. Verður eðlilega að taka mið af eðli atviksins og umfangi þess.

Um 82.–85. gr.

    Í ákvæðunum er fjallað um hlutverk netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar þegar kemur að öryggi net- og upplýsingakerfa fjarskiptafyrirtækja. Alþingi samþykkti lög nr. 78/2019, um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, þann 11. júní sl. en þau öðlast ekki gildi fyrr en 1. september 2020. Með lögunum voru samþykktar breytingar á 47. gr. a í gildandi lögum um fjarskipti, nr. 81/2003. Í stað þessarar einu greinar koma inn fjórar nýjar greinar sem taka sérstaklega til mikilvægis fjarskiptaneta í nútímasamfélagi og samræmis var gætt við hin nýju lög sem gilda um mikilvæga innviði á öðrum sviðum samfélagsins, t.a.m. um meðferð upplýsinga. Með frumvarpi þessu, til nýrra heildarlaga um fjarskipti, er ekki gerð tillaga um efnislegar breytingar á ákvæðum um netöryggissveit frá því sem Alþingi samþykkti með lögum nr. 78/2019.
    Í 82. gr. frumvarpsins er fjallað um viðbúnað og hlutverk netöryggissveitarinnar og er ákvæðið óbreytt frá framangreindum breytingarlögum að því undanskildu að tekin er út tilkynningarskyldan enda er hana nú að finna í 80. gr. frumvarpsins. Aðrar greinar, þ.e. greinar 83. gr. um samninga netöryggissveitar og fjarskiptafyrirtækja, 84. gr. um aðgang að upplýsingum, þagnarskyldu og vinnslu persónuupplýsinga og 85. gr. um reglugerðarheimild ráðherra eru óbreyttar frá lögum nr. 78/2019. Vísast til skýringa við frumvarp er varð að þeim lögum, sbr. sér í lagi b-lið 2. tölul. 27. gr. (sjá þskj. 557, 416. mál á 149. lögþ. 2018–2019).

Um 86. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um vernd fjarskiptavirkja. Ákvæðið á sér nokkuð langa sögu í íslenskum fjarskiptarétti og er efnislega óbreytt frá 71. gr. gildandi fjarskiptalaga, að undanskildum lokamálslið 3. mgr.
    Í 3. mgr. er fjallað um bótaskyldu ef jarðrask eða aðrar framkvæmdir hafa leitt til skemmda á fjarskiptavirkjum eða truflana á rekstri þeirra. Ákvæði 2. málsl. kveður á um mjög ríka bótaábyrgðarskyldu þar sem tjónvaldi er skylt að bæta allt tjón sem af skemmdunum leiðir, bæði beint og óbeint, þar á meðal viðskiptatap, nema hann sýni fram á að ekki hafi verið komist hjá tjóni þó að fyllstu aðgæslu hafi verið gætt. Komið hafa upp tilvik þar sem þessi bótaskylda hefur þótt of afdráttarlaus og ekki verið tekið nægjanlegt tillit til þess hvernig frágangi jarðstrengja, svo sem ljósleiðarastrengja, er háttað. Á þetta sérstaklega við í þéttbýli þar sem jarðstrengir eru oft á tíðum plægðir lítt varðir nokkuð grunnt í jörðu, t.a.m. í görðum. Eðlilegt má telja að sá sem leggur og rekur jarðstreng geri lágmarksráðstafanir til að verja strenginn að ákveðnu dýpi til að forða eigendum garða frá tjóni við eðlilega umgengni um lóðir og garðstörf. Póst- og fjarskiptastofnun hefur gefið út leiðbeiningar vegna lagningar ljósleiðarastrengja í dreifbýli þar sem fram kemur að ljósleiðararör og -strengir skulu almennt lagðir (grafnir eða plægðir) á sem næst 70 cm dýpi, en þó aldrei grynnra en á 50 cm dýpi. Þurfi hins vegar að leggja ljósleiðararör eða -strengi á minna dýpi en nemur 50 cm, t.d. vegna klappar eða grýtts jarðvegs, skal verja rör og strengi með plasthlífðarrörum. Framangreindar leiðbeiningar voru bornar undir hagsmunaaðila í opnu samráði áður en til útgáfu kom og bárust ekki athugasemdir. Að mati ráðuneytisins er eðlilegt að líta til þessara leiðbeininga þegar metið er hvar takmarka skuli bótaábyrgð tjónvalds í ákveðnum tilvikum. Er því lögð til sú breyting á 3. mgr. 86. gr. frumvarpsins, sem samsvarar 3. mgr. 71. gr. gildandi fjarskiptalaga, að hin víðtæka bótaábyrgð skv. 2. málsl. skuli ekki gilda um jarðstrengi sem lagðir eru óvarðir á minna en 20 cm dýpi innan lóðarmarka, þ.e. innan marka fasteigna. Sé jarðstrengur lagður svo grunnt, þar sem búast má við minniháttar jarðraski (t.d. í húsgörðum), verður að ætla fjarskiptafyrirtæki grípi til ráðstafana til að verja strenginn, t.d. með því að leggja hann í rör eða klæða hann hlífðarkápu. Að öðrum kosti þykir rétt að fjarskiptafyrirtæki beri tjón sem af getur hlotist þegar strengur er rofinn við slíkar aðstæður nema fyrirtækinu takist að sýna fram á að tjónvaldur uppfylli almenn skilyrði bótaábyrgðar. Með tilliti til þessara sjónarmiða þykir rétt að binda þessa takmörkun á hlutlægu bótaábyrgðinni við jarðstrengi sem lagðir eru innan lóðarmarka fasteigna.
    Vert þykir að benda á að sá hluti 4. mgr. sem varðar bann við notkun ákveðinna veiðarfæra kom inn nýr með lögum nr. 78/2005 um breytingu á gildandi fjarskiptalögum. Vísast sérstaklega varðandi 4. mgr. til skýringa við 11. gr. frumvarpsins er varð að þeim lögum (sjá þskj. 1102, 738. mál á 131. lögþ. 2004–2005). Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki nánari skýringa.

Um 87. gr.

    Í ákvæðinu er tekið mið af þeim vaxandi kröfum sem mörg ríki telja sig nú knúin til að gera til að efla öryggi innviða sinna, þar á meðal 5G-farnetsþjónustu. Ljóst er að 5G-fjarskipti verða miðtaugakerfi samfélags framtíðar. Alþjóðlega er í þessu sambandi lögð áhersla á áhættugreiningu og að þjónustan megi ekki verða of háð einum birgi eða framleiðanda búnaðar og að gera þurfi sérstakar öryggiskröfur vegna afmarkaðra hluta fjarskiptakerfa. Er þá annars vegar átt við þætti í miðlægum stjórnhluta kerfis og hins vegar þætti er varða öryggismál og varnir. Ríki hafa farið mismunandi leiðir að þessu marki og kallað hefur verið eftir meiri samhæfingu þvert á landamæri. Stjórnvöld á Íslandi hafa fylgst með þessari þróun og sérstaklega nálgun grannríkja á borð við Noreg. Starfshópur með fulltrúum þriggja ráðuneyta var skipaður þann 29. janúar sl. til að meta þörf á regluverki vegna öryggishagsmuna og ráðstöfunum sem til þess eru fallnar að auka öryggi 5G-kerfa á Íslandi og tryggja traust og trúverðugleika erlendra sem innlendra aðila á íslenska farnetskerfinu. Þann sama dag gaf Evrópusambandið út rit með ráðleggingum um hvernig standa beri að því að bæta öryggi 5G-farneta, Cybersecurity of 5G networks – EU Toolbox of risk mitigating measures. Árið 2019 stóð sambandið fyrir könnun meðal aðildarríkja á aðferðafræði við að stuðla að öryggi 5G-farneta og gaf út skýrslu um niðurstöðurnar. Eftir áður tilvitnuðu riti hafði því verið beðið, enda um að ræða afrakstur ítarlegs samráðs og fyrsta grunn samhæfðrar nálgunar á þessu sviði. Starfshópur ráðuneytanna skilaði skýrslu sinni 11. febrúar sl. og tók að verulegu leyti mið af ráðleggingum framangreindrar verkfærakistu ESB, auk þess sem horft var til þess sem grannríki hafa verið að gera varðandi öryggi 5G-kerfa.
    Við útfærslu þessa ákvæðis frumvarpsins var tekið mið af tillögum starfshópsins. Markmiðið með ákvæðinu er að stuðla að öryggi 5G-farnetsþjónustu á Íslandi og gagnsæi um stefnu stjórnvalda á þessu sviði að svo miklu leyti sem unnt er að móta hana nú, því öryggismál farnetskerfa eru enn í mótun alþjóðlega. Það er því ekki að fullu fyrirséð hvaða kröfur kunni að vera gerðar á því sviði í framtíðinni.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er almennu markmiði ákvæðisins lýst. Við þróun og uppbyggingu farneta skuli á hverjum tíma horft til þess að bregðast við áhættuþáttum er varðað geta almannahagsmuni og öryggi.
    Í 2. mgr. er lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun verði falið að leggja mat á hlutdeild mismunandi framleiðenda í búnaði farnetskerfa á landsvísu. Telji stofnunin hættu á að farnetskerfi á landsvísu séu eða geti orðið háð búnaði frá einum framleiðanda verði stofnuninni á grundvelli öryggishagsmuna heimilt að binda leyfi skv. 27. gr. (um þráðlausan sendibúnað) skilyrðum er stuðla að fjölbreytni í gerð búnaðar eða að grípa til annarra viðeigandi ráðstafana. Viðmið stjórnvalda varðandi þennan þátt er almennt og beinist ekki að einum framleiðanda frekar en öðrum. Í íslenskum farnetskerfum er ákveðin fjölbreytni búnaðar og fjarskiptafyrirtæki munu hugsanlega sjálf tryggja áfram ákveðinn fjölbreytileika á þessu sviði. Ákvæði 2. mgr. hróflar því ekki við þeim kerfishlutum sem nú þegar er búið að byggja upp en til takmarkana gæti komið við leyfisveitingu vegna uppsetningar þráðlauss sendabúnaðar við frekari uppbyggingu ef hætta er talin á að farnetskerfi landsins séu eða geti orðið um of háð búnaði frá einum framleiðanda.
    Í 3. mgr. er lagt til að ráðherra sem fer með fjarskiptamál samkvæmt forsetaúrskurði nr. 119/2018 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands geti, að fengnum umsögnum ráðherra sem fara með utanríkis- og varnarmál, almannavarnir og löggæslu, kveðið í reglugerð á um að búnaður í tilteknum hlutum innlendra farneta, sem teljast viðkvæmir með tilliti til almannahagsmuna og öryggis ríkisins, skuli í heild sinni eða að ákveðnu hlutfalli vera frá framleiðanda í ríki sem Ísland á öryggissamstarf við eða ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þeir viðkvæmu hlutar innlendra farneta sem einkum koma til skoðunar í þessu sambandi eru tvenns konar:
     a.      Annars vegar koma til skoðunar hlutar sem tengjast öryggissamstarfi Íslands við önnur ríki. Samstarfsríki geta gert réttmætar kröfur um traust til búnaðar sem trúnaðarsamskipti eiga að fara um og í sumum tilvikum getur verið um beinar skuldbindingar að ræða af Íslands hálfu. Til viðbótar geta komið innlendar öryggiskröfur, t.d. vegna neyðarfjarskipta. Afmarkaður hluti farnetsþjónustu og -búnaðar getur fallið undir framangreindar kröfur. Lagt er til að ráðuneyti fjarskiptamála meti og útfæri þetta í reglugerð, að fengnum umsögnum ráðuneyta sem fara með utanríkis- og varnarmál, almannavarnir og löggæslu.
     b.      Hins vegar er um að ræða viðkvæma hluta miðlægs stjórnbúnaðar farnetskerfa. Þróun í fjarskiptatækni er ör og skilin á milli miðlægs hluta og sendahluta fjarskiptakerfa geta verið óljós. Mikilvægt er fyrir fjarskiptafyrirtæki að hafa sem skýrasta mynd af öryggiskröfum á hverjum tíma, svo og þróun þeirra. Að sama skapi þurfa stjórnvöld að fylgjast með og taka mið af stefnu samstarfsríkja á þessu sviði, sérstaklega ef viðmið formgerast í samevrópskum kröfum og reglugerðum. Í framangreindri skýrslu starfshóps ráðuneytanna sem falið var að meta þörf á regluverki með vísan til öryggishagsmuna er m.a. vísað til þess að bresk stjórnvöld birtu þann 28. janúar sl. upplýsingar um sína nálgun í þessum málum. Í skýrslunni, NCSC advice on the use of equipment from high risk vendors in UK telecoms networks, er nefnt að vegna örrar þróunar hafi stjórnvöld beðið bresku netöryggisstofnunina NCSC um að setja viðmið um hvað teljist viðkvæmir hlutar 5G-kerfa og jafnframt hvaða öryggiskröfur ætti að gera til birgja/framleiðenda búnaðar. Í skýrslunni eru fjarskiptafyrirtæki hvött til að taka mið af ráðleggingum og viðmiðum hennar því svipaðar kröfur kunni að formgerast síðar af hálfu stjórnvalda í Bretlandi. Ljóst er að við álagningu kvaða eða takmarkana er varða miðlæga hluta farnetskerfa verður að gæta meðalhófs. Íslensk stjórnvöld þurfa að geta brugðist við hertum kröfum á þessu sviði alþjóðlega en þó með þeim hætti að svigrúm fjarskiptafyrirtækja sé ekki takmarkað meira en nauðsynlegt er. Fjarskiptafyrirtæki hér á landi sem annars staðar þurfa jafnframt að taka mið af þróun evrópskra öryggiskrafna við uppbyggingu farnetskerfa sinna og áhættumati vegna birgja og búnaðar.
    Í ákvæðinu er gerð sú krafa að á stöðum í farnetskerfinu sem skilgreindir hafa verið sem viðkvæmir með tilliti til almannahagsmuna og öryggis ríkisins skuli búnaður vera frá framleiðanda í ríki sem Ísland á öryggissamstarf við eða ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta eru svipuð skilyrði og hafa verið sett í Noregi. Í fyrrnefndum ráðleggingum Evrópusambandsins sem voru gefnar út 29. janúar sl. er takmörkuninni beint að birgjum sem teljast áhættusamir og ýmis ríki hafa farið þá leið. Iðulega eru öryggisstofnanir ríkja leiðandi í slíku mati enda er það einungis að hluta til tæknilegt. Sambærilegar stofnanir eru ekki til hérlendis og þar sem rót þessara krafna er einkum öryggissamstarf Íslands við önnur ríki og það traust sem þarf að vera til íslenskra innviða þótti raunhæfast að fara þessa leið.
    Í 4. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að umsögn skv. 3. mgr. skuli vera undanþegin upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum eða öðrum lögum. Um sérákvæði væri því að ræða gagnvart upplýsingalögum enda geta hagsmunir tengdir almanna- og þjóðaröryggi verið í húfi, auk öryggis ríkisins og varnarmála. Ráðherra fjarskiptamála geti þó létt trúnaði af umsögn að fengnu samþykki þess ráðherra er hana veitti, svo fremi að öryggishagsmunir teljist ekki lengur standa trúnaði í vegi.

Um 88. gr.

    Í ákvæðinu er að finna grundvallarreglu um fjarskiptaleynd, þ.e. að öll vinnsla fjarskipta, þ.m.t. geymsla, hlustun, upptaka eða hlerun, er óheimil nema með upplýstu samþykki notanda eða á grundvelli lagaheimildar. Ákvæðið er efnislega óbreytt frá gildandi fjarskiptalögum, þ.e. 4., 5., 6., 8., og 11. mgr. 47. gr. sem fjallar um öryggi og þagnarskyldu. Ákvæðið byggir á 5. gr. tilskipunar 2002/58/EB um persónuvernd í fjarskiptum sem er ætlað að tryggja fjarskiptaleynd og leynd fjarskiptaumferðarupplýsinga, sbr. 1. og 2. mgr. greinarinnar. Nú þykir rétt að kljúfa ákvæði 47. gr. í tvö ákvæði þar sem fjarskiptaleynd byggir jafnframt að mestu á ákvæðum tilskipunar 2002/58/EB en öryggi fjarskipta á hinni nýju tilskipun (ESB) 2018/1972 á sviði fjarskipta. Um skilyrði samþykkis og upplýsingaskyldu fer eftir ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er fjallað um vefkökur eða smygildi (e. cookies), þ.e. um notkun njósnahugbúnaðar, vefhlerunarbúnaðar eða annars slíks búnaðar sem komið er fyrir í nettengdum endabúnaði notanda, svo sem snjalltækjum, tölvum o.þ.u.l., til að fá aðgang að upplýsingum, safna földum upplýsingum eða fylgjast með athöfnum hans. Afmarkar þetta jafnframt gildissvið ákvæðisins. Ákvæði þetta byggir á 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 2002/58/EB en ákvæði hennar var síðar breytt árið 2009, sbr. tilskipun 2009/136/EB. Í ljósi breytinga á Evrópulöggjöf og tækniframfara á þessu sviði þykir því rétt að bæta réttarstöðu notenda almennrar fjarskiptaþjónustu nú með því að uppfæra ákvæðið og einungis heimila notkun hugbúnaðar í þessum tilgangi að fengnu upplýstu samþykki notenda. Með upplýstu samþykki er átt við að upplýsingaskylda samkvæmt persónuverndarlögum sé uppfyllt gagnvart notanda áður en samþykkis er aflað. Hér er almennt um að ræða vefkökur frá öllum aðilum sem ætlaðar eru í öðrum tilgangi en lögmætum. Ákvæðið hefur að geyma ákveðna undanþágu frá framangreindri kröfu um upplýst samþykki þegar notkunin er í lögmætum tilgangi. Slíkur lögmætur tilgangur skal túlkaður þröngt og getur eingöngu átt við í tveimur tilfellum. Í fyrsta lagi þegar um er að ræða tæknilega geymslu eða aðgang að upplýsingum í þeim eina tilgangi að framkvæma fjarskiptin yfir fjarskiptanet, þ.e. að auðkenna endapunkta fjarskiptanna, til að skiptast á gagnapökkum í réttri röð og til að uppgötva sendingarvillur eða gagnatap. Hér er um að ræða upplýsingar sem eru í raun nauðsynlegar til að tryggja virkni viðkomandi síðu o.s.frv. Hér þarf í raun að meta hvað sé nauðsynlegt til að tryggja virknina og svo hvað er einungis gert til að auðvelda notkun síðunnar en mögulega þarf samþykki fyrir hinu síðarnefnda. Í öðru lagi þegar notkunin er nauðsynleg forsenda þess að unnt sé að veita ákveðna þjónustu sem sérstaklega hefur verið óskað eftir. Þannig verður að vera ómögulegt að veita viðkomandi þjónustu, sem notandi óskar eftir, án þess að viðkomandi upplýsingar séu fyrir hendi.
    Í 3. mgr. ákvæðisins er að finna efnislega óbreytt ákvæði frá 6. og 8. mgr. 47. gr. fjarskiptalaga. Rétt þykir að færa ákvæðin og setja saman í eina málsgrein og færa í ákvæði um fjarskiptaleynd til að halda samfellu varðandi aðila er starfa við fjarskiptavirki, net eða þjónustu.
    Ákvæði 4. mgr. er óbreytt frá 9. mgr. 47. gr. gildandi fjarskiptalaga. Hefur ákvæðið einungis verið flutt í ákvæði er varðar fjarskiptaleynd.

Um 89. gr.

    Ákvæðið er efnislega óbreytt frá 42. gr. gildandi laga og fjallar um gögn um fjarskipti, svokallaðar fjarskiptaumferðarupplýsingar. Ákvæðið felur í sér mikilvægan hluta fjarskiptaleyndar, þ.e. eyðingu gagna um fjarskiptaumferð en fjarskiptafyrirtækjum ber, samkvæmt meginreglu greinarinnar, að eyða þeim eða gera nafnlaus þegar þeirra er ekki lengur þörf við afgreiðslu ákveðinnar fjarskiptasendingar. Hins vegar er þeim heimilt skv. 2. mgr. að geyma gögn um fjarskiptanotkun sem eru nauðsynleg fyrir reikningagerð og vegna uppgjörs fyrir samtengingu þar til ekki er lengur hægt að vefengja reikning eða hann fyrnist. Almennt hefur verið talið að ekki sé þörf á að geyma þessar upplýsingar lengur en í sex mánuði. Vísast til skýringa við gildandi ákvæði.
    Í 3. mgr. ákvæðisins er að finna ákvæði sem kveður á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að varðveita ákveðna lágmarksskráningu gagna í sex mánuði á grundvelli almannaöryggis og meðferð sakamála. Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum en það kom inn í núgildandi fjarskiptalög með lögum nr. 78/2005, um breytingu á lögum um fjarskipti. Vísast til skýringa um 7. gr. frumvarpsins sem varð að þeim lögum (þskj. 1102, 738. mál á 131. lögþ. 2004–2005).
    Ákvæði 4.–6. mgr. ákvæðisins eru óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en að bætt hefur verið við skilyrði um upplýst samþykki notenda vegna vinnslu gagna. Felur það í sér að áður en samþykkis er aflað þarf þjónustuveitandi að sinna upplýsingaskyldu sinni samkvæmt skilyrðum persónuverndarlaga, þ.e. að notandi þarf að hafa fengið viðeigandi og greinargóðar upplýsingar áður en hann veitir samþykki sitt. Að öðru leyti vísast til skýringa við gildandi lög.

Um 90. gr.

    Ákvæðið kveður á um að einungis megi vinna úr upplýsingum um staðsetningu búnaðar í almennum fjarskiptanetum eða almennri fjarskiptaþjónustu að ekki sé hægt að tengja þær við einstaka notendur eða þá að fengnu samþykki þeirra. Ákvæðið er óbreytt frá 1. mgr. 43. gr. gildandi fjarskiptalaga, að því undanskildu að nú er gerð krafa um upplýst samþykki notenda

Um 91. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um hljóðritun símtala og er það efnislega óbreytt frá 48. gr. gildandi fjarskiptalaga. Ákvæði 1. mgr. felur í sér almenna skyldu aðila sem hljóðrita símtöl til að tilkynna um slíka hljóðritun í upphafi símtals. Það er því ekki í samræmi við ákvæðið að tilkynna einungis um að símtalið kunni að vera hljóðritað en nokkuð hefur verið um slíka framkvæmd. Taka verður af alla óvissu, viðmælendum í hag.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er hins vegar að finna undanþágu frá framangreindri skyldu 1. mgr. en samkvæmt ákvæðinu þarf aðili ekki að tilkynna um upptöku símtals þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina. Ljóst er að hér er um undanþágu að ræða frá almennri meginreglu sem ætlað er að vernda friðhelgi eikalífs. Því ber að túlka undanþáguákvæðið þröngt og verður að vera ótvírætt að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina. Með þessu ákvæði er komið til móts við þarfir atvinnulífsins sem í vaxandi mæli byggir samband sitt við viðskiptavini á samningum í gegnum síma enda sé það eðlilegur þáttur í starfsemi viðkomandi. Við mat á því hvort og hvernig tilkynning um hljóðritun er nauðsynleg verður að líta til þarfa og aðstæðna á þeim markaði sem um ræðir, sér í lagi fjármálamarkaðar, en ætla má að ákvæðið eigi m.a. við í fjárfestingabankastarfsemi.
    Í 3. mgr. ákvæðisins er að finna aðra undanþágu frá meginreglu 1. mgr. og lýtur hún að opinberum stofnunum þegar hljóðritun er eðlilegur þáttur í starfsemi stjórnvalds. Sem dæmi um símtöl sem ótvírætt má ætla að séu hljóðrituð eru símtöl til viðbragðsaðila, svo sem Neyðarlínunnar, lögreglu og slíkra aðila.
    Ákvæði 4. og 5. mgr. ákvæðisins kveða á um samspil ákvæðisins við persónuverndarlög en við fyrirkomulag hljóðritunarinnar og kynningu hennar skal fara eftir skilyrðum sem Persónuvernd kann að setja sem og að úrvinnsla hljóðritananna skuli vera í samræmi við persónuverndarlög.

Um 92. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um aðstoð fjarskiptafyrirtækja við aðgerðir lögreglu í tengslum við rannsókn sakamála. Með ákvæðinu eru teknar saman málsgreinar í núgildandi 47. gr. fjarskiptalaga og þær settar í sérstakt ákvæði. Fyrsta málsgrein ákvæðisins var áður 10. mgr. 47. gr. og kveður á um skyldu aðila sem reka fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet að verða við tilmælum lögreglu um aðstoð við rannsókn sakamáls, enda styðjist þau tilmæli við dómsúrskurð eða lagaheimild. Þá er jafnframt kveðið á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að setja sér verklagsreglur um viðbrögð við beiðnum um aðgang lögreglu að persónuupplýsingum notenda fjarskiptaþjónustu.
    Í 2. mgr. er að finna efnislega óbreytt ákvæði frá 7. mgr. 47. gr. gildandi fjarskiptalaga. Þar er að finna meginreglu um bann við aðgangi óviðkomandi aðila að gögnum eða að hlusta á eða hljóðrita fjarskiptasamtöl nema á grundvelli dómsúrskurðar. Þrátt fyrir þetta bann þá skal fjarskiptafyrirtæki veita lögreglu, í þágu rannsóknar sakamáls, ákveðnar upplýsingar, þ.e. upplýsingar um hver sé skráður notandi ákveðins símanúmers, hver sé notandi vistfangs (IP-tölu). Að öðru leyti fer um aðgang lögreglu að upplýsingum um fjarskipti samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
    Í 3. mgr. er að finna ákvæði sem er óbreytt frá 12. mgr. 47. gr. gildandi laga. Ákvæði 4. mgr. 92. gr. frumvarpsins samsvarar 11. mgr. 47. gr. gildandi laga og 5. mgr. 92. gr. samsvarar 13. mgr. 47. gr. gildandi fjarskiptalaga.

Um 93. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um skrár yfir notendur, þ.e. númera- og vistfangaskrár fjarskiptafyrirtækja og símaskrár, hvort sem er á prenti, með rafrænum hætti eða í upplýsingaþjónustu um símanúmer. Með símaskrá er átt við samsafn þessara númera- og vistfangaskráa fjarskiptafyrirtækja sem úthluta símanúmerum. Ákvæðið er nokkuð breytt frá því sem nú er í 45. gr., sbr. 3. mgr. 19. gr., gildandi fjarskiptalaga. Ekki er lengur talin þörf á að leggja alþjónustuskyldu á aðila til að viðhalda heildstæðri símaskrá yfir notendur þar sem nú ríkir samkeppni á þeim markaði, þ.e. fyrir upplýsingaþjónustur um símanúmer. Áður fólst í ákvæðinu tvíþættur tilgangur. Í fyrsta lagi að tryggja að mögulegt væri að fyrirtæki, sem lagðar höfðu verið á þær alþjónustukvaðir að gefa út símaskrá og reka upplýsingaþjónustu um símanúmer, gæti uppfyllt kvaðir þessu tengdar. Í þessu sambandi var grundvallaratriði að gera hlutaðeigandi fyrirtæki kleift að afla upplýsinga um notendur allra fjarskiptafyrirtækja sem úthluta símanúmerum. Í öðru lagi hafði ákvæðið þann tilgang tryggja að samkeppni gæti skapast á jafnræðisgrundvelli á markaði fyrir útgáfu símaskrár og rekstur upplýsingaþjónustu um símanúmer. Nú er staðan á hinn bóginn sú að hin nýja tilskipun (ESB) 2018/1972 fellir ekki þessa tegund þjónustu undir alþjónustu nema þörf teljist vera á slíku í viðkomandi ríki. Í Evrópu virðist því samkeppni hafa skapast á markaði fyrir upplýsingaþjónustuveitur líkt og hér á landi. Aftur á móti er gríðarlega mikilvægt að áfram séu til staðar forsendur fyrir virkri samkeppni, þ.e. að aðilar á markaði fyrir upplýsingaþjónustuveitur og útgefendur símaskráa, eða nýir aðilar, hafi jafnan aðgang að sömu grunnupplýsingum um notendur sem eru forsenda slíkrar starfsemi, þ.e. að númera- og vistfangaskrám fjarskiptafyrirtækja. Því er áfram mælt fyrir um skyldu fjarskiptafyrirtækja sem úthluta númerum að halda númera- og vistfangaskrár sem eru ætlaðar fyrir aðila sem starfa á markaði fyrir símaskrár og upplýsingaþjónustuveitur.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um rétt endanotanda í númeratengdri fjarskiptaþjónustu til að ákveða hvort persónuupplýsingar um hann skuli birtar í opinberri símaskrá, hvort sem er prentaðri eða rafrænni, eða notaðar fyrir upplýsingaþjónustur um símanúmer. Notendur hafa ávallt haft þann rétt að ákveða sjálfir hvort þeir verða skráðir í skrám sem þessum. Nú er tekinn af allur vafi um að fjarskiptafyrirtæki sem úthlutar endanotanda símanúmeri skuli upplýsa hann um þennan rétt sinn, hvaða persónuupplýsingar um ræðir og um vinnslu þeirra, t.a.m. miðlun þeirra, áður en hann er skráður í númera- og vistfangaskrá félagsins. Ákvæðið gerir því þá kröfu til fjarskiptafyrirtækja að halda sérstaka númera- og vistfangaskrá í þessum tilgangi. Hér er ekki um að ræða hefðbundna viðskiptamannaskrá fyrirtækjanna heldur skrá sem er sérstaklega ætluð til miðlunar á upplýsingum notenda til aðila sem starfa á markaði fyrir opinberar símaskrár og upplýsingaþjónustuveitur.
    Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að þær persónuupplýsingar sem um ræðir takmarkist við þær upplýsingar sem þarf til að bera kennsl á notanda. Þær upplýsingar teljast vera nafn hans og heimilisfang, ef við á, ásamt póstnúmeri sem og upplýsingum um hvort viðkomandi óskar eftir að símanúmer séu ekki nýtt fyrir beina markaðssetningu aðila, þ.e. að hann sé merktur svokallaðri bannmerkingu símaskrár. Þannig er óheimilt að hringja í slík bannmerkt númer í markaðslegum tilgangi, sbr. 6. mgr. 94. gr. frumvarpsins. Fjarskiptafyrirtækjum er heimilt, að fengnu upplýstu samþykki viðkomandi endanotanda, að skrá viðbótarupplýsingar sem hann vill að jafnframt birtist í opinberum símaskrám eða séu notaðar í upplýsingaþjónustu fyrir símanúmer. Hér er ekki um að ræða sjálfstæðan rétt til endanotanda heldur getur fjarskiptafyrirtækið boðið upp á slíka skráningu, t.d. á grundvelli samninga við fyrirtæki sem starfar á markaði fyrir upplýsingaþjónustu. Skráning og miðlun slíkra viðbótarupplýsinga skal fara eftir lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Að fyrirmynd 2. mgr. 45. gr. gildandi fjarskiptalaga er í 2. mgr. ákvæðisins lagt til að endanotendur skuli hafa aðgang að upplýsingum um sig áður en þær eru skráðar í símaskrár eða notaðar fyrir upplýsingaþjónustur um símanúmer. Í þessu felst krafa á fjarskiptafyrirtæki að veita endanotanda möguleika á að sjá og yfirfara upplýsingar um sig áður en fjarskiptafyrirtæki miðlar upplýsingum úr númera- og vistfangaskrá sinni til aðila sem starfa á markaði fyrir upplýsingaþjónustuveitur eða gefa út símaskrár, prentaðar eða rafrænar. Þessi krafa getur verið uppfyllt með því að endanotandi geti yfirfarið upplýsingar sínar við skráningu í númera- og vistfangaskrána sjálfa. Þá er jafnframt tilgreint að fjarskiptafyrirtækjum sé óheimilt að taka gjald fyrir þennan rétt endanotenda. Undir þjónustuna, sem snýr að rétti endanotanda varðandi grunnupplýsingar hans í númera- og vistfangaskrá, fellur skráning grunnupplýsinga eða afskráning úr númera- og vistfangaskrá.
    Í 3. mgr. ákvæðisins er að finna efnislega óbreytt ákvæði frá 4. mgr. 45. gr. gildandi fjarskiptalaga um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að kveða á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að verða við öllum réttmætum beiðnum um miðlun grunnupplýsinga úr númera- og vistfangaskrá þeirra til aðila er starfar á markaði upplýsingaþjónustuveita á því formi sem aðilar koma sér saman um og með skilmálum sem eru sanngjarnir, tryggja jafnræði og eru byggðir á kostnaði ásamt hæfilegri álagningu. Hér er um að ræða grundvallarákvæði sem tryggja á að virk samkeppni geti ríkt á markaði fyrir upplýsingaþjónustuveitur, sbr. fyrri umfjöllun. Byggir ákvæðið á 112. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Rísi ágreiningur á milli aðila um form afhendingar eða kostnað geta aðilar, á grundvelli ákvæðisins, leitað til Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Fjórða málsgrein ákvæðisins er óbreytt frá 5. mgr. 45. gr. gildandi fjarskiptalaga.

Um 94. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um mikla réttarvernd fyrir endanotendur fjarskiptaþjónustu gegn markaðsstarfsemi aðila. Ákvæðið er efnislega óbreytt frá 46. gr. gildandi laga að undanskilinni nýrri 4. mgr. Það varðar vernd friðhelgi einkalífs og leggur bann við óumbeðnum fjarskiptum í formi markaðssetningar með notkun sjálfvirkra uppkallskerfa, símbréfa, tölvupósts og hvers konar rafrænna skilaboða, nema viðkomandi einstaklingur hafi veitt upplýst samþykki fyrir öðru eða að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. varðandi tölvupóstsendingar þegar um er að ræða markaðssetningu til viðskiptavina. Þannig hefur einstaklingur rétt samkvæmt þessu ákvæði til að samþykkja markaðssetningu frá ákveðnum aðilum með upplýstu samþykki skv. 1. mgr. eða að tölvupóstfang hans sé notað, skv. 2. mgr. Ákvæði þetta er sérlagaákvæði gagnvart ákvæði persónuverndarlaga, nr. 90/2018, og laga um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019, sbr. sér í lagi 3. mgr. 15. gr. þeirra. Þá ber að nefna að sá aðili er stendur að markaðssetningu ber sönnunarbyrði þess að uppfylla skilyrði ákvæðisins um upplýst samþykki skv. 1. mgr. eða að viðkomandi hafi verið boðið að hafna notkun tölvupósts skv. 2. mgr.
    Skapast hefur mikil reynsla af framkvæmd gildandi ákvæðis 46. gr. fjarskiptalaga í gegnum ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar. Þannig má nefna að hugtakið bein markaðssetning hefur verið túlkað rúmt af hálfu stofnunarinnar enda er ákvæðið sett til að vernda friðhelgi einkalífs notenda fjarskiptaþjónustu. Er þetta m.a. í samræmi við álit starfshóps um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga sem settur var á fót á grundvelli 29. gr. tilskipunar 95/46/EB um að hugtakið ætti að ná yfir hvers kyns markaðsátak, þar á meðal beina markaðssetningu hjálparstofnana og stjórnmálaflokka. Þá þurfa fjarskiptin ekki heldur að vera framkvæmd í hagnaðarskyni til þess að teljast bein markaðssetning heldur hefur verið miðað við að ef markmið þess aðila sem stendur fyrir óumbeðnum fjarskiptum er að fá móttakanda til þess að aðhafast eitthvað eða skuldbinda sig með einhverjum hætti þá falli tilvikið undir ákvæðið.
    Orðalagsbreyting er lögð til á 1. mgr. ákvæðisins, frá því sem er í 1. mgr. 46. gr. gildandi fjarskiptalaga, þar sem hugtakið rafræn skilaboð (e. electronic mail) er sett inn með sjálfstæðari hætti. Ekki er um efnisbreytingu að ræða þar sem SMS og MMS eru vissulega rafræn skilaboð í skilningi ákvæðisins. Hins vegar þykir rétt að gera þessa breytingu svo áhersla ákvæðisins nái til hvers kyns rafrænna skilaboða í formi óumbeðinna fjarskipta. Hugtakið rafræn skilaboð er skilgreint í h-lið 2. gr. tilskipunar 2002/58/EB og telst vera „texta-, radd-, hljóð- eða myndskilaboð sem send eru á almennu fjarskiptaneti, sem er öllum aðgengilegt, sem hægt er að geyma á netinu eða í endabúnaði viðtakandi þar til þau eru sótt af viðtakanda“. Þá er jafnframt gerð sú breyting að samþykki notenda samkvæmt málsgreininni þarf að vera upplýst samþykki. Er það til samræmis við ákvæði nýrra persónuverndarlaga nr. 90/2018.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er að finna ákveðna heimild til að nota tölvupóst fyrir beina markaðssetningu. Slík heimild er undanþága frá banni frá óumbeðnum fjarskiptum og skal túlkast þröngt. Er undanþágan einungis heimil til viðskiptavina fyrirtækis/söluaðila vegna markaðssetningar á eigin vörum eða þjónustu fyrirtækisins ef viðskiptavinum er gefinn kostur á að andmæla slíkri notkun tölvupóstfanga þeim að kostnaðarlausu þegar skráning á sér stað og sömuleiðis í hvert sinn sem skilaboð eru send, hafi viðskiptavinurinn ekki þegar í upphafi hafnað slíkri notkun. Árétta ber að ákvæðið nær einungis til tölvupóstsendinga. Ákvæðið er óbreytt frá gildandi 2. mgr. 46. gr. fjarskiptalaga.
    Í 3. mgr. ákvæðisins er að finna almennt bann við óumbeðnum fjarskiptum í formi beinnar markaðsgreiningar en sem um getur í 1. og 2. mgr. ákvæðisins. Hér er því að finna meginreglu ákvæðisins um verndun friðhelgi einkalífs, þ.e. því skal ekki raskað nema að fengnu upplýstu samþykki þegar um er að ræða sjálfvirk uppkallskerfi, símbréf, tölvupóst og önnur rafræn skilaboð eða þegar um er að ræða tölvupóst til viðskiptavinar fyrirtækis, enda hafi hann ekki hafnað slíkri notkun tölvupóstsins þegar honum var gefinn skýr kostur um að gera slíkt. Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum.
    Í 4. mgr. er að finna nýmæli er varðar almenn tölvupóstföng fyrirtækja og stofnana. Þannig er gert heimilt fyrir fyrirtæki/söluaðila að nálgast fyrirtæki í markaðslegum tilgangi með sendingu tölvupósta á slík almenn tölvupóstföng fyrirtækis eða stofnunar. Afmörkun ákvæðisins er því skýr og veitir ákvæðið ekki heimild til að senda senda tölvupóst í markaðslegum tilgangi á tölvupóstföng sem fyrirtæki eða stofnun úthlutar einstaka starfsmönnum sínum.
    Í 5. mgr. ákvæðisins er sett sú skylda á aðila sem nota tölvupóst í markaðssetningu sinni að það komi skýrt fram hver standi að markaðssetningunni og heimilisfang hans. Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum en nær nú jafnframt til nýrrar 4. mgr.
    Ákvæði 6. mgr. er óbreytt frá 5. mgr. 46. gr. gildandi fjarskiptalaga. Fjallar það um svokallaða bannskrá símaskráa en samkvæmt því er óheimilt að hringja í endanotanda í markaðslegum tilgangi sé hann merktur með þeim hætti í símaskrá að hann vilji ekki fá slíkar hringingar. Þetta ákvæði helst í hendur við ákvæði 93. gr. með þeim hætti að bannmerkingin er ein þeirra grunnupplýsinga sem fjarskiptafyrirtæki skal skrá í númera- og vistfangaskrá sinni sem er grunnur opinberra símaskráa og fyrir upplýsingaþjónustur um símanúmer, kjósi viðkomandi það.

Um 95. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að innleidd verði 109. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 um samræmda evrópska neyðarnúmerið 112. Þetta ákvæði frumvarpsins er að mestu leyti sambærilegt gildandi ákvæði 49. gr. gildandi fjarskiptalaga. Hins vegar er nú tekið fram að símtali skuli fylgja fjarskiptaumferðarupplýsingar sem eru nauðsynlegar eru til að staðsetja þann sem hringir neyðarsímtal. Eins og verið hefur er ekki heimilt að gjaldfæra fyrir neyðarsímtöl og neikvæð staða inneignar getur ekki verið hindrun þess að slíkt símtal sé flutt. Með neikvæðri stöðu inneignar er einnig átt við að lokun á fjarskiptaþjónustu vegna vanskila notanda á ekki að koma í veg fyrir flutning á neyðarsímtali.
    Hér á landi hefur framkvæmdin verið sú að neyðarsímtal er móttekið og flutt í farnetum óháð því hvort notandinn sé staðsettur inni á þjónustuvæði síns fjarskiptafyrirtækis. Nú er ætlunin að lögfesta framkvæmdina hvað þetta varðar.
    Þá er mikilvægt að hafa í huga, hvað varðar hluta af þeim skyldum sem lagðar eru stjórnvöld skv. 109. gr. tilskipunarinnar, svo sem að tryggja að neyðarsímtali sé svarað, að sérstök lög gilda um samræmda neyðarsímsvörun, nr. 40/2008.

Um 96. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að innleidd verði 96. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 um samræmdu evrópsku númerin 116000 og 116111. Annars vegar er um að ræða númerið 116000 fyrir ábendingalínu vegna tilkynninga um börn sem er saknað. Í framkvæmd hefur þessu verkefni verið sinnt af Neyðarlínunni og viðbúið að verði svo áfram. Hins vegar er um að ræða númerið 116111 sem er hugsað sem hjálparlína fyrir börn sem þurfa umhyggju og vernd við tilteknar aðstæður. Gert er ráð fyrir að símsvörun fyrir þessa þjónustu verði sömuleiðis í höndum neyðarvarða sem hafa hlotið þjálfun í samskiptum við fólk í erfiðum aðstæðum, þ.m.t. börn. Eftir atvikum verður hins vegar að gera ráð fyrir því að verkefnið sé í framhaldinu unnið með aðkomu annarra þar til bærra opinberra aðila sem vinna að hagsmunum og heilbrigði barna.

Um 97. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að senda upplýsingar um staðsetningu notenda til aðila sem annast neyðarþjónustu og eru opinberlega viðurkenndir sem slíkir. Þessar upplýsingar skulu sendar án endurgjalds og er ekki gerð krafa um samþykki notanda fyrir þessari miðlun upplýsinga. Ákvæðið er að mestu efnislega samhljóða 2. mgr. 43. gr. gildandi fjarskiptalaga en það kom inn með breytingarlögum nr. 39/2007. Vísast til skýringa með frumvarpi er varð að þeim lögum (þskj. 547, 436. mál á 133. lögþ. 2006–2007).
    Í ákvæðinu er lagt til að kveðið verði á um það nýmæli að fjarskiptafyrirtæki sé ekki aðeins skylt að senda upplýsingar um staðsetningu notanda í þeim tilvikum sem lögregla telur að líf hans sé í bráðri hættu heldur jafnframt ef mat lögreglu er að líf annarra sé í bráðri hættu og upplýsingarnar eru nauðsynlegar til að afstýra hættunni. Tekið skal fram að fjarskiptafyrirtæki verða almennt við slíkum neyðarbeiðnum lögreglu á grundvelli eins konar neyðarréttar en viðeigandi þykir að festa núverandi framkvæmd í lög með skýrum hætti. Neyðarbeiðnir sem þessar eru aðeins sendar af hálfu lögreglu þegar staðfest hefur verið að slík hætta sé til staðar og gilda skýrar verklagsreglur um hvernig ber að undirbúa og framkvæma slíkar beiðnir. Ákvæðið felur í sér undantekningu frá 80. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, þar sem ekki er krafist dómsúrskurðar áður en upplýsingar eru sendar lögreglu. Ber því að túlka ákvæðið þröngt og ljóst að ekki er heimilt að beita því í neinum öðrum tilgangi en kveðið er á um í ákvæðinu.
    Í þessu samhengi er mikilvægt að árétta að þótt skyldan lúti einungis að því sem er tæknilega gerlegt er ljóst að staðsetningarupplýsingarnar skulu innihalda upplýsingar úr netkerfum (e. network based) og, þar sem það er mögulegt, til upplýsinga sem fengnar eru úr endabúnaði (e. handset-derived). Vísast til dóms Evrópudómstólsins frá 5. september 2019 í máli C-418/18 í þessu samhengi þar sem því var slegið föstu að skylda fjarskiptafyrirtækja til að veita staðsetningarupplýsinga nái til símtala úr farsímum sem eru án SIM-korta, auk þess sem dómstóllinn lagði áherslu á að upplýsingarnar sem veittar eru þurfi að vera nægjanlega áreiðanlegar og nákvæmar svo þær komið neyðaraðilum að notum. Samræmist þetta einnig hinni nýju 6. mgr. 109. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 þar sérstaklega er kveðið á um heimildir viðeigandi eftirlitsstjórnvalda að setja lágmarkskröfur um gæði upplýsinganna. Í þessu samhengi ber að árétta að þessi skylda fjarskiptafyrirtækja skal vera án endurgjalds.

Um 98. gr.

    Um almannavarnir og skipulag þeirra fer samkvæmt lögum nr. 82/2008. Ákvæði þetta fjallar um boðkerfi almannavarna (e. reverse 112) sem gefur almannavarnayfirvöldum tækifæri til þess að senda smáskilaboð með viðvörun um neyðarástand til almennings, þ.e. allra notenda sem staðsettir eru innan útbreiðslusvæðis tiltekinna farnetssenda. Um er að ræða innleiðingu á 110. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972.
    Það er fyrst og fremst í höndum Neyðarlínunnar að vera í samskiptum við fjarskiptafyrirtæki um slík neyðarboð en skilaboð geta átt rætur að rekja til lögreglu, slökkviliðs eða annarra opinberra viðbragðsaðila. Ekki ber að leggja þröngan skilning í hugtakið neyðarástand. Þannig fellur náttúruvá ekki einungis undir ákvæðið heldur getur einnig verið um ræða stórfelldan húsbruna, leka eiturefna eða önnur atvik sem geta stefnt líf og heilsu fólks í hættu.
    Framangreind skilaboð eru fyrst og fremst móttekin í farsímum en ekki er hægt að útiloka að þau séu móttekin í annars konar nettengdum búnaði, t.d. spjaldtölvum eða snjallúrum.
    Þegar talað er um fjarskiptafyrirtæki í þessu sambandi er átt við þau fyrirtæki sem eiga og reka farnet en einnig sýndarnetsaðila og endursöluaðila farnetsþjónustu sem veita þjónustu á farnetum. Þá er gert ráð fyrir að fjarskiptafyrirtækjum sé skylt að veita þessa þjónustu endurgjaldslaust og láta hana njóta forgangs í almennum fjarskiptanetum.

Um 99. gr.

    Umrætt ákvæði byggir á 72. gr. í gildandi fjarskiptalögum og er í samræmi við kröfur 108. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 um að aðildarríki skuli gera ráðstafanir til að tryggja mesta mögulega tiltækileika talfjarskiptaþjónustu og netaðgangsþjónustu sem veitt er um almenn fjarskiptanet við aðstæður eins og stórfellt nethrun eða við óviðráðanlegar aðstæður. Í gildandi lögum er eingöngu gert ráð fyrir að neyðarástand geti skapast vegna náttúruhamfara. Í ljósi ákvæðis 108. gr. tilskipunarinnar þykir rétt að gera forsendur fyrir neyðarráðstöfununum almennari en skilyrði um alvarleika þurfa þó að vera uppfyllt, þ.e. að rof fjarskipta taki til stórs landsvæðis eða til umtalsverðs fjölda notenda. Slíkar aðstæður gætu mögulega skapast vegna stórfelldrar netárásar, bilunar, rekstrarstöðvunar o.s.frv. Séu aðstæður með þeim hætti að viðbrögð fjarskiptafyrirtækis við yfirvofandi eða yfirstandandi fjarskiptarofi reynast því ofviða gæti ríkisvaldið þurft að grípa inn í.

Um 100. gr.

    Ákvæðið er að mestu óbreytt frá gildandi fjarskiptalögum og þarfnast ekki skýringar.

Um 101. gr.

    Lagt er til að Póst- og fjarskiptastofnun hafi samkvæmt ákvæðinu heimild til að framkvæma vettvangskönnun og prufukaup, grípa til aðgerða, leggja á sektir og dagsektir og krefjast lögbanns skv. 20. gr. a–b, 2. mgr. 21. gr. c, 22.–25. gr. a og 27. gr. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005. Heimildirnar eru ætlaðar til viðbótar við aðrar heimildir og viðurlög sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir og lög um Póst- og fjarskiptastofnun. Til áréttingar er lagt til að kveðið verði á um að ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar verði skotið til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála en ekki úrskurðarnefndar neytendamála. Ákvæði laga um Póst- og fjarskiptastofnun um úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála skulu gilda að öðru leyti um málsmeðferð.
    Ákvæðið á rætur að rekja til reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2394 um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd o.fl. Samkvæmt reglugerðinni fellur ákvæði 13. gr. tilskipunar (ESB) 2002/58 um persónuvernd í fjarskiptum undir reglugerðina en það lýtur að óumbeðnum fjarskiptum. Reglugerð (ESB) 2017/2394 var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2019. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur á yfirstandandi löggjafarþingi lagt fram frumvarp til laga um breytingu á ýmsum gildandi lögum vegna samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd (heimildir til rannsókna og framfylgdar, sjá þskj. 374, 330. mál á 150. lögþ. 2019–2020), þar á meðal lögum um fjarskipti, nr. 81/2003. Þetta ákvæði byggir á 11. gr. þess og er til komið vegna athugasemdar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis við drög að frumvarpi þessu sem voru til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda frá 9. desember 2019 til 9. janúar 2020.

Um 102. gr.

    Lagt er til að í ákvæðinu verði kveðið á um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til álagningar stjórnvaldssekta vegna brota gegn ákvæðum laganna. Vísað er til skýringa í kafla 3.6. í greinargerð við frumvarp þetta.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að ákvörðun um stjórnvaldssekt megi skjóta til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, með vísan til 13. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.
    Í 5. mgr. er lagt til að heimild til að leggja á stjórnvaldssekt falli niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Er það sami fyrningarfrestur og gilda mun um refsiábyrgð einstaklinga og lögaðila vegna brota á lögunum. Í 103. gr. frumvarpsins er lagt til að hámarksrefsing vegna brota gegn lögunum skuli vera sektir eða fangelsi allt að tveimur árum. Því er fyrningarfrestur gagnvart einstaklingum fimm ár skv. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Sami fyrningarfrestur gildir gagnvart lögaðilum, sbr. 5. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Ef um samfellda brotastarfsemi eða ástandsbrot er að ræða telst broti ekki lokið fyrr en hinu ólögmæta ástandi linnir og upphaf fyrningarfrests telst þá einnig frá þeim tíma, með vísan til meginreglna refsiréttar. Í 2. málsl. 5. mgr. er kveðið á um að tilkynning Póst- og fjarskiptastofnunar til aðila um rannsókn á meintu broti rjúfi fyrningu. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti. Þó svo að réttur til álagningar stjórnvaldssekta sé fyrndur kemur ákvæðið ekki í veg fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun fjalli efnislega um mál og kveði upp úr um það hvort tiltekin háttsemi hafi falið í sér brot gegn lögunum.

Um 103. gr.

    Lagt er til að í ákvæðinu verði kveðið á um refsingar vegna brota gegn ákvæðum laganna, sbr. 1. mgr. 102. gr. Þau varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar eða brot ítrekuð. Í 2. mgr. er, að fyrirmynd 3. mgr. 74. gr. gildandi laga um fjarskipti, gert ráð fyrir að brot gegn ákvæðum XIII. kafla laganna er lúta að vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs geti varðað allt að þriggja ára fangelsi ef brot er framið í ávinningsskyni, hvort sem er í eigin þágu hins brotlega eða annarra. Vísast jafnframt til skýringa í kafla 3.6. í greinargerð við frumvarp þetta.

Um 104. gr.

    Lagt er til að í ákvæðinu verði kveðið á um málsmeðferð vegna kæru mála til lögreglu, í samræmi við viðtekin viðmið þar um. Ákvæðið þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 105. gr.

    Lagt er til að með ákvæðinu verði kveðið á um rétt manna til að fella ekki á sig sök með vísan til meginreglna refsiréttar þar um. Ákvæðið þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 106. gr.

    Gert er ráð fyrir almennri heimild til ráðherra um setningu reglugerðar um nánari framkvæmd laga þessara. Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 107. gr.

    Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði hér á landi efnisákvæði tilskipunar (ESB) 2018/1972, sem er ný grunngerð á sviði fjarskipta. Tilskipunin öðlast gildi í aðildarríkjum Evrópusambandsins í árslok 2020 og er lagt til að gildistaka laganna hér á landi, verði frumvarpið samþykkt, miðist við upphaf árs 2021. Á sameiginlegum innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins er rík áhersla lögð á einsleitni og samræmingu. Því er brýnt að uppfæra gildandi efnisreglur á sviði fjarskipta og tryggja viðeigandi framkvæmd þeirra hér á landi. Samhliða frumvarpssmíðinni hefur verið unnið að undirbúningi á upptöku tilskipunarinnar (ESB) 2018/1972 og reglugerðar (ESB) 2018/1972, um Evrópskan hóp eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC), þ.e. svonefndum fjarskiptapakka ESB frá 2018. Samningaviðræður EFTA-ríkjanna innan EES við Evrópusambandið um útfærslu aðlögunar vegna upptöku fjarskiptapakkans í samninginn, einkum vegna valdheimilda stjórnar BEREC, eru langt komnar og yfirstandandi samráðsferli í samræmi við 5. gr. reglna Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Vísast jafnframt til skýringa í köflum 1, 2 og 3.8 greinargerðar við frumvarp þetta.

Um 108. gr.

    Lagt er til að gildistaka nýrra heildarlaga um fjarskipti, verði frumvarpið samþykkt, miðist við ársbyrjun 2021.

Um 109. gr.

    Tilskipun (ESB) 2018/1972 er ítarleg og geymir ýmis nýmæli, þar á meðal ákvæði sem hafa þann tilgang að styrkja eftirlit á fjarskiptamarkaði og tryggja sjálfstæði og getu eftirlitsstjórnvaldsins sem falið er það hlutverk. Ýmissa breytinga er því þörf á gildandi lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, vegna innleiðingar tilskipunarinnar í íslenskan rétt.
Um a-lið.
    Lagt er til að skerpt verði á kröfum til forstjóra stofnunarinnar í 2. gr. laganna, í samræmi við 7. gr. tilskipunarinnar, og að fyrirmynd 2. gr. laga um Þjóðskrá Íslands, nr. 70/2018. Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, uppfylla að öðru leyti kröfur tilskipunarinnar til skipunarferlis, þar á meðal um opið og gagnsætt valferli.
Um b-lið.
    Í b-lið eru lagðar til breytingar á 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna, um verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar. Þær eru í anda meginmarkmiða tilskipunarinnar um að stuðla að virkri samkeppni á fjarskiptamarkaði, útbreiðslu háhraðaneta, öryggi og aðgengi að þjónustu, svo og áherslu á að við framkvæmd samevrópsks fjarskiptaregluverks séu höfð að leiðarljósi sjónarmið um meðalhóf, óhlutdrægni, jafnræðisreglu og gagnsæi. Brýnt er t.d. að Póst- og fjarskiptastofnun taki virkan þátt í starfi á vegum Evrópsks hóps eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC) sem ætlað er mikilvægt hlutverk svo tryggja megi samræmda framkvæmd regluverksins innan Evrópska efnahagssvæðisins, með vísan til afdráttarlausrar kröfu þar um í 3. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar. Að öðru leyti þarfnast breytingartillögur b-liðar ekki nánari skýringa.
Um c-lið.
    Í c-lið greinir tillögur að tveimur nýjum ákvæðum, sem verða 3. gr. a og 3. gr. b.
    Lagt er til að í nýrri 3. gr. a verði fjallað um gagnagrunn almennra fjarskiptaneta. Ákvæði um slíkan gagnagrunn hefur verið í gildandi fjarskiptalögum, sbr. 62. gr. a sem kom inn með lögum nr. 34/2011 um breytingar á þeim. Vísast til skýringa með frumvarpinu er varð að þeim lögum (þskj. 149, 136. mál á 139. lögþ. 2010–2011). Hins vegar voru nýverið samþykkt lög á Alþingi um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta, nr. 125/2019, sem tóku gildi 1. janúar 2020. Með þeim lögum var umræddu ákvæði 62. gr. a breytt. Ekki eru lagðar til miklar efnisbreytingar á ákvæðinu í þessu frumvarpi en þó ber að geta tilgreiningar á gerð útbreiðsluspár en kveðið er á um slíkar spár í ákvæði 22. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972, sbr. tillögu að nýrri 3. gr. b með frumvarpi þessu. Að öðru leyti má telja að ákvæði 22. gr. tilskipunarinnar séu í raun fullinnleidd með núgildandi ákvæði, sbr. hin nýsamþykktu lög.
    Gert er ráð fyrir að skylt sé að afhenda upplýsingar á því formi sem Póst- og fjarskiptastofnun ákveður. Þetta er ekki breyting á gildandi ákvæði varðandi þráðlausan sendabúnað. Hins vegar þykir tilefni til að hnykkja á þessu mikilvæga atriði með því að mæla fyrir um sérstaka heimild fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til að setja reglur um samræmda skráningu á upplýsingum um almenn fjarskiptanet og búa til stöðluð sniðmát til skráningar á þeim. Söfnun upplýsinga getur verið ómarkviss og ekki þjónað tilgangi sínum ef upplýsingarnar eru ósamstæðar eða ónákvæmar. Mikilvægt er að öll fjarskiptafyrirtæki afhendi upplýsingar um almenna fjarskiptainnviði á samræmdu formi sem geri úrvinnslu þeirra tæknilega mögulega, eða a.m.k. ekki tímafreka og óhagkvæma. Í 3. málsl. 1. mgr. er gert ráð fyrir að trúnaður skuli ríkja um upplýsingar sem skráðar eru í gagnagrunninn, sbr. þó 4.–5. mgr.
    Í 5. mgr. nýrrar 3. gr. a er lagt til að kveðið verði á um heimild er varðar aðgang almennings að gagnagrunninum, þess efnis að Póst- og fjarskiptastofnun getur komið upp svæði þar sem endanotendur fái nægjanlega ítarlegar upplýsingar um hvaða tengingar eru fáanlegar á mismunandi svæðum, til að aðstoða við val á rekstraraðila eða þjónustuveitanda. Er þessu ætlað að innleiða 6. mgr. 22. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Póst- og fjarskiptastofnun, sem ábyrgðar- og rekstraraðili gagnagrunnsins, tekur ákvörðun um aðgengi að upplýsingum úr honum. Um beiðnir um aðgang að gögnum og upplýsingum hjá stjórnvöldum fer samkvæmt upplýsingalögum, nr. 140/2012. Ef á reynir er gert ráð fyrir að um kæruleið fari samkvæmt upplýsingalögum, þ.e. til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
    Rétt er að benda á ósamræmi í tilvísun í 3. tölul. d-liðar 1. tölul. 15. gr. hinna nýju laga, nr. 125/2019, þar sem vísað er til þess að málsgreinin verði ný 6. mgr. Verði þetta frumvarp að lögum að óbreyttri tillögu þess að nýrri 3. gr. a verður þetta ósamræmi leiðrétt. Vísast að öðru leyti til skýringa við ákvæðið í frumvarpinu er varð að lögum nr. 125/2019 (þskj. 122, 122. mál á 150. lögþ. 2019–2020).
    Lagt er til að í nýrri 3. gr. b verði kveðið á um skyldu Póst- og fjarskiptastofnunar til að vinna heildstætt útbreiðslukort fyrir háhraðanet á a.m.k. þriggja ára fresti. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 1. og 2. mgr. 22. gr. tilskipunarinnar þar sem gerð er sú krafa að mat á útbreiðslu fari fram á a.m.k. þriggja ára fresti. Rétt er að geta þess að sá gagnagrunnur sem Póst- og fjarskiptastofnun vinnur að uppsetningu á mun að lokum ávallt byggja á nýjustu upplýsingum fjarskiptafyrirtækja. Þegar sú virkni er komin verður að telja að þessi krafa um þriggja ára útbreiðslukort sé uppfyllt enda ávallt hægt að kalla fram nýjustu upplýsingar í gagnagrunninum. Þá er í málsgreininni einnig kveðið á um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að vinna svæðisbundnar útbreiðsluspár fyrir háhraðafarnet. Markmið slíkrar spár er að greina svæði þar sem ekki eru slík net til staðar og að undirbyggja ferli til aukinnar útbreiðslu. Þannig er stofnuninni gert skylt að birta niðurstöður slíkrar svæðisbundinnar og tímabundinnar útbreiðsluspár. Ákveði Póst- og fjarskiptastofnun að nýta sér þessa heimild skulu spárnar innihalda allar viðeigandi upplýsingar, þ.m.t. upplýsingar um áætlaða útbreiðslu fyrirtækja eða opinberra yfirvalda á háhraðanetum eða verulegar uppfærslur eða stækkanir á netum.
    Í 2. mgr. nýrrar 3. gr. b er lagt til að fjallað verði um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að bjóða aðilum, t.d. fjarskiptafyrirtækjum eða opinberum aðilum, að lýsa yfir áformum um uppbyggingu eða uppfærslu neta skv. 2. málsl. 1. mgr. Komi fram yfirlýsing um slík áform getur stofnunin óskað eftir upplýsingum um hvort aðrir aðilar vilji setja fram slík áform. Hér er um að ræða ákvæði sem á að stuðla að aukinni uppbyggingu og útbreiðslu háhraðaneta á svæðum þar sem slík net eru ekki til staðar. Við framkvæmd ákvæðisins er mikilvægt að réttar og nákvæmar upplýsingar liggi til grundvallar og skal Póst- og fjarskiptastofnun tilgreina upplýsingar sem skulu fylgja yfirlýsingum aðila sem og upplýsa þá aðila sem senda inn yfirlýsingu um áform uppbyggingar eða uppfærslu neta um það hvort aðgangsnet af næstu kynslóð nái til, eða líklegt sé að muni ná til, viðkomandi svæðis á grunni þeirra upplýsinga sem finna má í gangagrunni stofnunarinnar samkvæmt nýrri 3. gr. a. Póst- og fjarskiptastofnun skal við framkvæmd ákvæðisins ávallt gæta að almennum meginreglum stjórnsýsluréttar um skilvirka, hlutlæga og gagnsæja málsmeðferð og tryggja jafnræði aðila. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 3. og 4. mgr. 22. gr. tilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. 3. gr. b er lagt til að kveðið verði á um skyldu Póst- og fjarskiptastofnunar til að afhenda hlutaðeigandi stjórnvöldum þær yfirlýsingar sem stofnunni berast skv. 2. mgr. ákvæðisins. Hér er um að ræða stjórnvöld sem fara með úthlutun opinbers fjármagns til útbreiðslu neta, svo sem fjarskiptasjóður og sveitarfélög, sem og aðila sem fara með svæðisbundnar áætlanir um uppbyggingu neta. Þetta ákvæði verður að lesa til samræmis við 4. og 5. mgr. nýrrar 3. gr. a og skal ávallt gæta að trúnaði um þær upplýsingar sem fram koma í gögnunum. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 5. mgr. 22. gr. tilskipunarinnar en þar er jafnframt kveðið á um að þau stjórnvöld sem koma að úthlutun tíðniréttinda og fara með framkvæmd alþjónustu taki tillit til niðurstöðu þessarar útbreiðsluspár og inn kominna yfirlýsinga en þau verkefni eru á höndum Póst- og fjarskiptastofnunar.
Um d-lið.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 5. gr. laga nr. 69/2003, í tengslum við innleiðingu á 5. og 21. gr. tilskipunarinnar. Þær þarfnast ekki nánari skýringar.
Um e-lið.
    Breytingartillögur á 6. gr. laga nr. 69/2003 fela í sér innleiðingu á 23. og 24. gr. tilskipunarinnar. Lagt er til að kveðið verði á um hæfilegan umsagnarfrest hagsmunaaðila í aðdraganda ákvarðanatöku Póst- og fjarskiptastofnunar sem hefur veruleg áhrif á fjarskiptamarkað. Fresturinn skuli ekki vera skemmri en 30 dagar, nema í undantekningartilvikum. Þá er lagt til að í ákvæðinu segi berum orðum að niðurstöður samráðsferlis skuli vera aðgengilegar öllum, að því marki sem ekki er um trúnaðarskyldar upplýsingar að ræða í skilningi laga. Í reynd hefur Póst- og fjarskiptastofnun hagað opnu samráði sínu í samræmi við þessar kröfur en rétt þykir að gera þær bindandi að lögum. Í 2. mgr. 6. gr. er lagt til að áréttuð verði skylda Póst- og fjarskiptastofnunar til að gæta tillitssemi við neytendur, ekki síst fatlað fólk, við ákvarðanir um málefni sem sem tengjast réttindum endanotenda að því er fjarskiptaþjónustu varðar sem ákvæði frumvarpsins gera ráð fyrir að skuli vera aðgengileg öllum. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.
Um f-lið.
    Með nýrri 3. mgr. 7. gr. er lagt til að kveðið verði á um að Póst- og fjarskiptastofnun skuli stuðla að fyrirsjáanleika í framkvæmd eftirlits og reglubundins endurmats eftirlitsaðferða til samræmis við þróun viðurkenndra viðmiða um bestu framkvæmd. Þannig beri stofnuninni til að mynda að horfa til starfa Evrópsks hóps evrópskra eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (e. Body of European Regulators for Electronic Communications eða BEREC), sem er ráðgefandi og stefnumótandi samstarfsvettvangur sem ætlað er að stuðla að samræmdri innleiðingu og framkvæmd samevrópsks regluverks á fjarskiptamarkaði, svo sem með útgáfu leiðbeininga og ráðgjöf.
    Með nýrri 6. mgr. 7. gr. er lagt til að lögfest verði heimild til innleiðingar á BEREC-reglugerð (ESB) 2018/1971 í reglugerð. BEREC-reglugerðin, ásamt tilskipun (ESB) 2018/1972, er hluti af fjarskiptapakka ESB frá 2018, með vísan til kafla 1, 2 og 3.8 í greinargerð með frumvarpi þessu. Þá vísast til skýringa við ákvæði 107. gr. frumvarpsins, svo og 54. gr. þess að því er 50. gr. BEREC-reglugerðarinnar um hámarksverð gagnvart neytendum vegna símtala innan Evrópu og fyrir smáskilaboð varðar (svonefnt Intra EU calls-ákvæði).
    Lagt er til að samhliða reglugerðarsetningarheimild um BEREC verði í nýrri 6. mgr. 7. gr. lögfest heimild til ráðherra um að kveða í reglugerð nánar á um aðild að Netöryggisstofnun Evrópu (e. the European Union Agency for Cybersecurity eða ENISA). Til þessa hafa reglugerðir Evrópusambandsins um Netöryggisstofnunina verið innleiddar hér á landi í reglugerðum, á grundvelli almennrar reglugerðarsetningarheimildar í 16. gr. gildandi laga um Póst- og fjarskiptastofnun, sbr. reglugerð nr. 1265/2014, um Net- og upplýsingaöryggisstofnun Evrópu. Ný reglugerð (ESB) 2019/881 um Netöryggisstofnunina var samþykkt 17. apríl sl. og með henni m.a. gerð breyting á heiti stofnunarinnar (áður var enskt heiti hennar the European Union Agency for Network and Information Security). Með nýju reglugerðinni var ENISA gerð að varanlegri stofnun og sérstaklega horft til þess að efla viðbragðsgetu stofnunarinnar sem stuðningsaðila við aðrar stofnanir ESB og ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Sem dæmi er stofnuninni ætlað að stuðla að hærra viðbúnaðarstigi með framkvæmd reglubundinna æfinga vegna netógna, taka á móti tilkynningum frá ríkjum um öryggisatvik, hýsa samráðsvettvang landstengiliða netöryggissveita, veita ráðgjöf og gefa út leiðbeiningar. ENISA á að verða þekkingarmiðstöð um netöryggismál, beita sér fyrir almennri fræðslu á því sviði og aðstoða ríki á Evrópska efnahagssvæðinu við að stuðla að vitund borgara um netöryggi. Reglugerð (ESB) 2019/881 geymir einnig ákvæði um valkvætt samræmt vottunarkerfi fyrir upplýsinga- og samskiptatæki sem m.a. er ætlað að stuðla að viðeigandi prófunum á nettengdum hlutum sem fyrirhugað er að markaðssetja í Evrópu. Innleiðing reglugerðarinnar þykir ekki kalla á nýja lagasetningu að öðru leyti en felst í tillögu þessa frumvarps að nýrri 6. mgr. 7. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003. Athygli er vakin á að reglugerð (ESB) 2019/881 verður endurskoðuð fyrir 31. desember 2023, einkum í því skyni að endurmeta hvort gera skuli að skyldu að undirgangast vottun. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birti til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda áform um upptöku reglugerðar (ESB) 2019/881 í EES-samninginn (18. september.4. október 2019, mál nr. S-229/2019), en engar umsagnir bárust.
    Á meðal nýmæla f-liðar er tillaga að nýrri 5. mgr. sem mælir fyrir um að árlega skuli Póst- og fjarskiptastofnun miðla yfirlitsskýrslu til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og Netöryggisstofnunar Evrópu (ENISA) um tilkynnt öryggisatvik og meðhöndlun þeirra, með vísan til 40. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 og athugasemda við 80. gr. þessa frumvarps.
Um g-lið.
    Evrópskum hópi eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC) er ætlað ráðgefandi hlutverk, m.a. í tilviki ágreiningsmála þvert á landamæri, með vísan til athugasemda um f-lið. Aðlögunar er þörf hvað þetta varðar fyrir EFTA-ríkin innan Evrópska efnahagssvæðisins, í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins, að því er valdheimildir stjórnar BEREC varðar. Búa þarf svo um hnúta að EFTA-ríkin taki sjálf afstöðu til álita í afmörkuðum málum skv. 27. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 um deilur yfir landamæri. Frumvarpið gerir ráð fyrir nýrri 3. mgr., í 9. gr. laga nr. 69/2003, sem kveður á um að við úrlausn deilumála yfir landamæri beri Póst- og fjarskiptastofnun að viðhafa samráð um lausn deilunnar í samræmi við skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þó má samþykkja tímabundnar ráðstafanir í undantekningartilvikum, hvort heldur að eigin frumkvæði stofnunarinnar eða að beiðni aðila, ef nauðsynlegt er að bregðast við með skjótum hætti til að standa vörð um samkeppni eða vernda hagsmuni endanotenda. Málsmeðferð samkvæmt ákvæðinu skal ekki koma í veg fyrir að deila verði borin undir dómstóla.
Um h-lið.
    Lagðar eru til breytingar á 12. gr., um sektir og innheimtu, að fenginni reynslu af framkvæmd gildandi laga. Þær eiga því ekki rætur að rekja til EECC-tilskipunarinnar.
Um i-lið.
    Sú breyting er lögð til á gildandi 13. gr. laga nr. 69/2003 að slakað verði á formskilyrðum til setu í úrskurðarnefnd um fjarskipta- og póstmál. Í stað þess að miðað sé við hæfisskilyrði hæstaréttardómara skv. 13. gr. dómstólalaga, nr. 50/2016, verði krafa um lögmannsréttindi og reynslu sem nýtist við úrlausn kærumála í fjarskipta- og póstmálum látin nægja. Þá er lögð til sú breyting á 3. mgr. 13. gr. að ekki þurfi samþykki ráðherra fyrir málskoti af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar um fjarskipta- og póstmál. Ákvæðið í núverandi mynd þykir ekki samræmast 1. mgr. 8. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 um sjálfstæði fjarskiptaeftirlitsstofnunar. Loks er lagt til að innleidd verði 31. gr. tilskipunarinnar með lögfestingu nýrrar 8. mgr., um birtingu samantektar um fjölda og inntak kærumála til úrskurðarnefndarinnar, lengd málsmeðferðar fyrir henni og fjölda úrskurða sem heimila tímabundnar ráðstafanir. Rétt þykir að taka fram, til að fyrirbyggja mögulegan vafa, að upphaf málsmeðferðartíma ber að miða við móttökudag stjórnsýslukæru af hálfu úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Þessi samantekt má vera hluti ársskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar.
Um j-lið.
    Lagðar eru til breytingar á gildandi 14. gr. laga nr. 69/2003, um svonefnt rekstrargjald, sem samanlagt skal taka til kostnaðar sem hlýst af stjórnun, eftirliti og framkvæmd laga um fjarskipti og póstþjónustu. Ekki er gert ráð fyrir hækkun hlutfallstölu rekstrargjalds í tilviki fjarskiptafyrirtækja. Með frumvarpinu er lagt til að í lokamálsgrein ákvæðisins verði horfið frá breytingu með lögum nr. 47/2018, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur, en með þeim var kveðið á um að gjöld fyrir tíðninotkun skv. 14. gr. a skyldu renna í ríkissjóð en ekki til að standa undir umsýslukostnaði Póst- og fjarskiptastofnunar vegna umsýslu sem óhjákvæmilega fylgir skipulagi tíðninotkunar og eftirliti með sendibúnaði. Lagt er til að áætlun fjárlaga um tekjur af gjaldi fyrir tíðninotkun skv. 14. gr. a í gildandi lögum skuli ásamt áætlun um tekjur af eftirlitsgjaldi liggja til grundvallar ákvörðun fjárveitinga til reksturs starfsemi Póst- og fjarskiptastofnunar. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.
Um k-lið.
    Tillögur að breytingum á 15. gr. laga nr. 69/2003 eiga rætur að rekja til ákvæða 6., 8. og 16. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði I til bráðabirgða.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði II til bráðabirgða.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði III til bráðabirgða.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði IV til bráðabirgða.

    Sjá skýringar í kafla 3.7 í greinargerð við frumvarp þetta.

1    Vísa má í þessu sambandi m.a. til dóms dómstóls ESB frá 14. október 2010 í máli nr. C-280/08 (Deutsche Telecom), ákvörðunar framkvæmdastjórnar ESB frá 22. júní 2011 í máli nr. COMP/39.525 og dóms undirréttar ESB frá 29. mars 2012 í máli nr. T-336/07 (Telefónica).
2    Sjá reglur Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppniseftirlitsins, nr. 1001/2019, um meðferð og úrlausn fjarskipta- og póstmála (B-deild Stjórnartíðinda, útgáfud. 20. nóvember 2019).