Ferill 208. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 209  —  208. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til skipalaga.Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.I. KAFLI
Markmið, gildissvið o.fl.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega, efla varnir gegn mengun frá skipum og tryggja skilvirka skráningu, merkingu, mælingu og eftirlit með skipum.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um íslensk skip.
    Að því leyti sem reglur alþjóðalaga mæla ekki fyrir um annað gilda lög þessi um erlend skip þegar þau eru stödd innan landhelgi, innan efnahagslögsögu eða á landgrunni Íslands.

3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi orða sem hér segir:
     1.      Erlent skip er skip sem ekki telst íslenskt skip.
     2.      Farbann er þegar skip er kyrrsett í höfn.
     3.      Farþegaskip er skip sem má flytja fleiri en tólf farþega.
     4.      Fiskiskip er skip sem ætlað er til fiskveiða.
     5.      Flokkað skip er skip sem er flokkað af viðurkenndu flokkunarfélagi.
     6.      Hafnarríkiseftirlit er eftirlit og skoðun sem Samgöngustofa framkvæmir á erlendum skipum í íslenskum höfnum í samræmi við alþjóðalög.
     7.      Heimahöfn skráðs skips er þar sem eigandi eða leigutaki ætlar því heimilisfang.
     8.      Leiðarbréf er skírteini, gefið út af Samgöngustofu, sem veitir skipi heimild til að sigla án þess að gefið hafi verið út þjóðernis- og skrásetningarskírteini.
     9.      Íslenskt skip er skip sem skráð er á Íslandi og rétt hefur til að sigla undir íslenskum fána.
     10.      Mælibréf er skírteini sem sýnir mælda lengd skips og tonnatölu þess.
     11.      Skip er sérhvert fljótandi far nema annars sé getið.
     12.      Skyndiskoðun er fyrirvaralaus skoðun Samgöngustofu eða Landhelgisgæslu Íslands á skipi.
     13.      Viðurkennt flokkunarfélag er fyrirtæki, sem hlotið hefur viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu og hefur gert samstarfssamning við Samgöngustofu, sem annast flokkun skipa í samræmi við tæknilegar kröfur.
     14.      Þurrleiguskráning er tímabundin skráning skips, sem leigt hefur verið án áhafnar.

II. KAFLI
Skráning skipa.
4. gr.
Skipaskrá.

    Samgöngustofa heldur skipaskrá yfir öll skip sem skráð eru samkvæmt lögum þessum.
    Ráðherra skal með reglugerð mæla fyrir um þau atriði sem skráð skulu á skipaskrá, sem og með hvaða hætti för eða tæki, sem á sjó fljóta, en eru ekki knúin af hreyfiafli í þeim sjálfum, skuli skráð á skipaskrá.
    Skipaskrá skal vera rafræn. Samgöngustofu er heimilt að veita aðgang að og miðla upplýsingum úr skipaskrá, þar á meðal upplýsingum um eigendur, umráðamenn og útgerðaraðila skipa, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

5. gr.
Skráningarskylda.

    Sérhvert skip sem er 6 metrar á lengd eða stærra, mælt milli stafna, er skráningarskylt.
    Bráðabirgðaskráning má fara fram á skipum sem eru í smíðum eða ófullgerð að öðru leyti.
    Heimilt er að skrá skip hér á landi í eigu íslenskra ríkisborgara, íslenskra lögaðila með lögheimili hér á landi, ríkisborgara annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, ríkisborgara aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og færeyskra ríkisborgara.
    Ráðherra skal mæla nánar fyrir um skráningar með reglugerð.

6. gr.
Frumskráning.

    Ný skip sem smíðuð eru hér á landi og ætlað er að hafa heimahöfn á Íslandi skal tilkynna Samgöngustofu til skráningar áður en þau eru tekin til notkunar. Önnur skip sem eru skráningarskyld skal tilkynna um leið og þau komast í eign íslensks aðila sé ætlunin að skrá skipið hér á landi, enda hafi ekki farið fram bráðabirgðaskráning.
    Eigandi eða eigendur skips skulu senda Samgöngustofu beiðni um skráningu. Ráðherra skal með reglugerð mæla fyrir um hvaða upplýsingar um skip skuli koma fram í skráningarbeiðni.
    Með skráningarbeiðni skal fylgja skipasmíðaskírteini eða annað eignarheimildarbréf skráningarbeiðanda. Ef notað skip er flutt hingað til lands frá útlöndum skal fylgja vottorð hlutaðeigandi erlends skráningaryfirvalds um að skipið hafi annaðhvort ekki verið skráð þar eða að öðrum kosti afskráð þar af skipaskrá.

7. gr.
Skráning fiskiskipa.

    Aðeins má skrá fiskiskip á skipaskrá sem eru í eigu eftirtalinna aðila:
     1.      Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar.
     2.      Íslenskir lögaðilar sem að öllu leyti eru í eigu íslenskra aðila eða lögaðila sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
                  a.      Eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
                  b.      Eru ekki í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Fari eignarhlutur íslensks lögaðila í lögaðila, sem stundar veiðar eða vinnslu í fiskveiðilandhelgi Íslands, ekki yfir 5% má eignarhlutur erlendra aðila þó vera allt að 33%.
                  c.      Eru að öðru leyti í eigu íslenskra ríkisborgara eða íslenskra lögaðila sem eru undir yfirráðum íslenskra aðila.

8. gr.
Þurrleiguskráning erlendis.

    Samgöngustofa getur heimilað að skip sem skráð er á íslenska skipaskrá sé skráð þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá þegar skilyrðum 2. mgr. 5. gr. um eignarhald er fullnægt. Getur stofnunin ákveðið að heimild til þurrleiguskráningar takmarkist við skipaskrár tiltekinna ríkja. Heimilt er að skrá skip á þennan hátt til allt að fimm ára og framlengja þurrleiguskráningu í framhaldi af því um allt að eitt ár í senn.
    Ráðherra skal með reglugerð mæla fyrir um þær upplýsingar sem skulu fylgja umsókn um heimild til þurrleiguskráningar.
    Áður en Samgöngustofa veitir heimild til þurrleiguskráningar fiskiskips skal liggja fyrir staðfesting þess ráðuneytis er fer með málefni sjávarútvegs á því að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
     a.      skip sem sigla undir þjóðfána Íslendinga gætu ekki stundað þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur,
     b.      þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur grafa ekki undan alþjóðlegum stjórnunar- og verndunarráðstöfunum sem ákveðnar eru og beitt er í samræmi við reglur þjóðaréttar,
     c.      verndunarsjónarmið mæla ekki gegn þeim veiðum sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur,
     d.      þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur eru í samræmi við þær reglur sem viðeigandi alþjóðasamningar mæla fyrir um,
     e.      sýnt þykir að ríkið sem skipið mun verða skráð þurrleiguskráningu í muni virða skyldur sínar sem fánaríki,
     f.      þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur veiti ekki því ríki þar sem þurrleiguskráning fer fram veiðireynslu sem gæti nýst því síðar í samningum við íslenska ríkið um skiptingu aflaheimilda eða gangi að öðru leyti gegn hagsmunum Íslendinga,
     g.      önnur skilyrði sem sá ráðherra er fer með málefni sjávarútvegs getur kveðið á um í reglugerð.
    Skip sem skráð er á íslenska skipaskrá og skráð þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá siglir undir þjóðfána erlenda ríkisins og skal fylgja ákvæðum laga og reglna þess ríkis, þ.m.t. ákvæðum um eftirlit með skipum, búnað skipa og mönnun þeirra, meðan á þurrleiguskráningu stendur. Veðbönd skips sem skráð er með þessum hætti skulu skráð hjá hlutaðeigandi þinglýsingarstjóra hér á landi.
    Heimild til þurrleiguskráningar skv. 1. mgr. fellur niður þegar:
     a.      þurrleigusamningur fellur úr gildi,
     b.      forsendur heimildar til þurrleiguskráningar eru brostnar að mati Samgöngustofu,
     c.      skilyrði fyrir heimild til þurrleiguskráningar skv. 3. mgr. eru ekki lengur uppfyllt að mati þess ráðuneytis er fer með málefni sjávarútvegs,
     d.      leigutaki skipsins óskar þess,
     e.      1. mgr. 17. gr. á við um skipið.
    Þegar heimild skips til þurrleiguskráningar fellur niður skal Samgöngustofa fara fram á það við erlendu skipaskrána að skipið verði tafarlaust afskráð af henni. Uppfylli skipið ekki skilyrði íslenskra laga og reglna um eftirlit með skipum ber forráðamönnum þess að sjá til þess að úr því sé bætt innan þriggja sólarhringa frá því að tilkynning berst um að það hafi verið afskráð af hinni erlendu skipaskrá. Þegar skilyrði hafa verið uppfyllt skal tilkynna það til Samgöngustofu.
    Þurrleiguskráningu skips telst lokið þegar tilkynning berst frá erlendu skipaskránni um að það hafi verið afskráð af henni.

9. gr.
Þurrleiguskráning á Íslandi.

    Heimilt er að skrá skip þurrleiguskráningu á skipaskrá þegar aðilar skv. 2. mgr. 5. gr. hafa aðeins umráð skipsins með samningi og skilyrðum 2. mgr. 5. gr. um eignarhald er ekki fullnægt. Heimilt er að skrá skip á þennan hátt til allt að fimm ára og framlengja skráningu í framhaldi af því um eitt ár í senn.
    Skip sem skráð er þurrleiguskráningu skal sigla undir íslenskum fána og skal uppfylla skilyrði íslenskra laga og reglna um eftirlit með skipum, þ.m.t. ákvæði um búnað skipa og mönnun þeirra. Veðbönd skips sem skráð er með þessum hætti skulu skráð í frumskráningarríki.
    Ráðherra skal með reglugerð mæla nánar fyrir um skilyrði þess að skráning af þessu tagi fari fram.
    Skip skráð þurrleiguskráningu skal afskráð af skipaskrá þegar:
     a.      þurrleigusamningur fellur úr gildi,
     b.      skilyrðum skráningar er ekki lengur fullnægt,
     c.      leigutaki óskar afskráningar,
     d.      skip hefur ekki lengur heimild frumskráningarríkis til að sigla undir fána annars ríkis og
     e.      2.–5. tölul. 16. gr. á við um skipið.

10. gr.
Einkaréttur á skipsheitum og einkennum.

    Samgöngustofa getur veitt eiganda skips einkarétt til heitis á skipi sem skráð er á Íslandi. Sama gildir um einkarétt til reykháfsmerkja og annarra einkenna á skipinu, þar á meðal sérfána. Heimilt er að veita þennan rétt þó að skilyrði til skráningar séu ekki enn fyrir hendi.
    Hafi einkaréttur verið veittur skv. 1. mgr. er öðrum óheimilt að nota það skipaheiti eða einkenni svo lík heiti eða einkenni að villu geti valdið. Þó má heiti og einkenni skips sem skráð hefur verið fyrir veitingu á einkarétti haldast óbreytt meðan það helst í eigu sama aðila.
    Einkaréttur til heitis eða einkennis fellur úr gildi þremur árum eftir að skip hefur verið afskráð af skipaskrá ef eigandi heitisins eða einkennisins hefur ekki endurnýjað það á öðru skipi.
    Samgöngustofa heldur skrá yfir heiti og einkenni skipa sem einkaréttur hefur verið veittur á og birtir jafnóðum í skipaskrá.

11. gr.
Fáni.

    Skip, sem fullnægja skilyrðum 3. mgr. 5. gr. eða skráð hafa verið skv. 7. eða 9. gr., teljast íslensk skip og hafa rétt til að sigla undir þjóðfána Íslands. Er þeim óheimilt að sigla undir þjóðfána annars ríkis.
    Skip sem er skráð á íslenska skipaskrá og skráð þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá telst þó ekki vera íslenskt skip og hefur ekki rétt til að sigla undir þjóðfána Íslands meðan á þurrleiguskráningunni stendur.

12. gr.
Þjóðernis- og skrásetningarskírteini.

    Samgöngustofa gefur út þjóðernis- og skrásetningarskírteini handa skráðum skipum sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd og skrásetningarskírteini fyrir skip sem eru styttri en 15 metrar að mestu lengd. Fari skip sem er styttra en 15 metrar að mestu lengd milli Íslands og annarra landa skal gefið út þjóðernis- og skrásetningarskírteini handa því.
    Þjóðernis- og skrásetningarskírteini skal ávallt fylgja skipi. Skírteini skal framvísa yfirvöldum þegar þess er krafist.
    Öðrum en Samgöngustofu er óheimilt að rita nokkuð á skírteinin eða breyta nokkru í þeim.
    Óheimilt er að breyta þjóðernisskráningu skips á meðan það er í ferð eða viðkomuhöfn nema raunverulegt framsal eignarréttar hafi átt sér stað eða breyting á skráningu hafi farið fram meðan á siglingu skips stendur.
    Ráðherra mælir með reglugerð fyrir um efni þjóðernis- og skrásetningarskírteina.
    Samgöngustofu er heimilt er að gefa út ný þjóðernis- og skrásetningarskírteini við eftirfarandi aðstæður, og skal þá eldra skírteini skilað til stofnunarinnar nema það hafi glatast:
     1.      Ef breytt er heiti skips.
     2.      Ef heimilisfangi skips er breytt.
     3.      Ef skipi er breytt svo að það svarar ekki lengur til þess sem stendur í þjóðernis- og skrásetningarskírteini um gerð þess, aðalmál eða brúttótonn/rúmlestatölu.
     4.      Ef eigendaskipti verða á skipi.
     5.      Ef þjóðernis- og skrásetningarskírteini hefur glatast.

13. gr.
Þjóðernis- og skrásetningarskírteini til bráðabirgða.

    Nú er skip smíðað erlendis fyrir aðila sem hefur heimild til að skrá skip sitt á Íslandi eða hann verður með öðrum hætti eigandi að skipi erlendis og getur Samgöngustofa þá gefið út þjóðernis- og skrásetningarskírteini handa skipinu til bráðabirgða. Skal það ávallt fylgja skipi og framvísað yfirvöldum þegar þess er krafist.
    Ráðherra mælir með reglugerð fyrir um inntak þjóðernis- og skrásetningarskírteina til bráðabirgða. Beiðni um útgáfu þjóðernis- og skrásetningarskírteinis til bráðabirgða skulu fylgja fullnægjandi gögn um atriði þau sem greina skal í skírteininu, svo og vottorð hlutaðeigandi erlends skráningaryfirvalds um að skipið hafi annað hvort ekki verið skráð þar eða að öðrum kosti afskráð þar af skipaskrá.
    Bráðabirgðaþjóðernisskírteini skal gilda sem venjulegt þjóðernis- og skrásetningarskírteini en þó ekki lengur en einn almanaksmánuð frá útgáfudegi nema sérstök heimild Samgöngustofu komi til.
    Nú hefur skip sem statt er erlendis glatað þjóðernis- og skrásetningarskírteini sínu og getur þá Samgöngustofa gefið út þjóðernis- og skrásetningarskírteini til bráðabirgða, enda skal þá eftir því sem við verður komið farið eftir reglum 1.–4. mgr.
    Samgöngustofu er heimilt að fela fulltrúa utanríkisþjónustu Íslands að annast útgáfu þjóðernis- og skrásetningarskírteinis til bráðabirgða.

14. gr.
Nýr eigandi að skráðu skipi eða skipshluta.

    Þegar nýr eigandi að skráðu skipi eða skipshluta hefur látið þinglýsa eignarheimild sinni skal hann skila skráningarbeiðni hjá Samgöngustofu ásamt endurriti af hinni þinglesnu eignarheimild.
    Nýjum eiganda er óheimilt að láta lögskrá áhöfn á skipið í sínu nafni fyrr en skráningarbeiðnin hefur borist Samgöngustofu, skipið verið skráð á skipaskrá og lögbundin skjöl gefin út því til handa.
    Þegar eigendaskipti verða ber fyrri eigandi ábyrgð á gjöldum vegna skipsins þar til umskráning hefur farið fram.

15. gr.
Breytt heiti og heimilisfang skips.

    Ef eigandi skráðs skips vill fá því nýtt heiti eða nýtt heimilisfang skal hann senda Samgöngustofu tilkynningu um það, sbr. 2. mgr. 17. gr. Óheimilt er að breyta heiti eða heimilisfangi fyrr en Samgöngustofa hefur skráð hið nýja heiti eða heimilisfang á skipaskrá.
    Nú er heiti skips eða heimilisfangi breytt á skipaskrá og tilkynnir Samgöngustofa það þá þegar til þinglýsingarstjóra í því þinglýsingaumdæmi þar sem skip á eða átti heimilisfang, en þinglýsingarstjóri skal án tafar tilkynna breytinguna veðhöfum eða öðrum óbeinum rétthöfum í skipinu ef þeir eru kunnir.
    Nú veldur hið nýja heimilisfang því að skip er flutt á milli þinglýsingaumdæma. Verður þá aðgangur í skipabók þinglýsingarstjóra í því umdæmi sem skip er flutt til virkur eftir umskráningu skips í skipaskrá. Réttaráhrif þinglýsingar rofna ekki vegna flutningsins.

16. gr.
Afskráning.

    Afskrá skal skip af skipaskrá:
     1.      Þegar tilkynnt er um fyrirhugaða skráningu á skipaskrá annars ríkis.
     2.      Ef það fullnægir ekki lengur skilyrðum 5., 7. eða 9. gr.
     3.      Ef það hefur farist svo að um sé kunnugt, sömuleiðis ef það hefur horfið án þess að til þess hafi spurst í sex mánuði.
     4.      Ef það er rifið, metið ónýtt eða ekki talið þess virði að við það sé gert.
     5.      Ef skoðun hefur ekki farið fram á skipi í fimm ár samfleytt.
    Framangreind atriði skulu sönnuð með opinberu vottorði, skoðun eða á annan þann hátt sem Samgöngustofa telur fullnægjandi.
    Þegar eiganda skips verður kunnugt um einhver atriði sem eiga að valda afskráningu þess af skipaskrá skv. 1. mgr. skal hann þegar í stað tilkynna Samgöngustofu það. Ef skipið hefur fengið þjóðernis- og skrásetningarskírteini skal eigandi afhenda skírteinið Samgöngustofu nema glatað sé.
    Nú er skip afskráð af skipaskrá og tilkynnir Samgöngustofa það þá þegar í stað hlutaðeigandi þinglýsingarstjóra, en hann tilkynnir það án tafar þinglesnum rétthöfum í skipinu sem um er kunnugt. Ef skipið er ekki fellt úr þinglýsingabókum skal afskráningar af skipaskrá getið þar á blaði skips og einnig á veðbókarvottorðum um skipið.

17. gr.
Tilkynningar og beiðnir um breytingu á skráningu.

    Nú verður breyting á einhverjum atriðum sem skrá skal á skipaskrá samkvæmt stjórnvaldsfyrirmælum á grundvelli 4. gr. og ber þá eiganda eða eigendum skips að tilkynna Samgöngustofu breytinguna þegar í stað.
    Skráningarbeiðnir og tilkynningar. skulu vera rafrænar eða á viðeigandi eyðublöðum sem Samgöngustofa og þinglýsingarstjórar láta í té.

18. gr.
Leiðarbréf.

    Samgöngustofa getur, þegar sérstök ástæða er til, veitt skipi staðsettu á Íslandi, leiðarbréf til að sigla áður en það er skráð á skipaskrá. Hefur þá leiðarbréf sama gildi hér á landi sem þjóðernis- og skrásetningarskírteini.
    Samgöngustofa getur jafnframt veitt skipi leiðarbréf þegar það er smíðað hér á landi og ætlað til skráningar erlendis.
    Samgöngustofu er einnig heimilt, ef nauðsyn ber til að skip fari þegar til útlanda, að veita því þjóðernis- og skrásetningarskírteini til bráðabirgða til siglingar þangað.
    Ráðherra skal með reglugerð mæla nánar fyrir um skilyrði fyrir útgáfu leiðarbréfa.

III. KAFLI
Merking og mæling skipa.
19. gr.
Merking skipa.

    Merkja skal hvert skip með viðeigandi hætti í samræmi við reglugerð er ráðherra setur.
    Bannað er að leyna merkingum skv. 1. mgr. eða nema brott. Ekki má heldur merkja skip öðru heiti en það er skráð undir.

20. gr.
Mæling skipa.

    Hvert skip með skráningarlengd 24 metra eða lengra skal mælt og tonnatala þess reiknuð samkvæmt alþjóðasamþykkt um mælingu skipa sem undirrituð var í London 23. júní 1969, með síðari breytingum. Ráðherra skal mæla nánar fyrir um slíkar mælingar með reglugerð.
    Hvert skip með skráningarlengd allt að 24 metrum skal mælt og tonnatala þess reiknuð samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.
    Heimilt er að mæla hvert skip og reikna brúttórúmlestatölu samkvæmt alþjóðareglum um mælingu skipa, gefnum út af Þjóðabandalaginu 30. júní 1939, eins og mælt er fyrir í samningi, undirrituðum í Ósló 10. júní 1947, með síðari breytingum, eftir nánari reglum sem ráðherra ákveður með reglugerð.
    Þegar skip er skráð á íslenska skipaskrá ber eiganda þess að senda Samgöngustofu útreikninga á tonnatölum þess og teikningar og önnur nauðsynleg gögn til þess að ákveða mælingu þess. Heimilt er að taka útreikninga og mælingar sem samþykktar hafa verið af erlendu ríki gildar ef það ríki er aðili að alþjóðasamþykkt um mælingar skipa frá 1969.
    Samgöngustofa getur hvenær sem ástæða þykir til endurskoðað mælingu skipa. Einnig geta eigendur skipa fengið skip sín mæld að nýju óski þeir þess.

21. gr.
Mælibréf.

    Skip sem mælt hefur verið skv. 1. mgr. 20. gr. og reglum sem ráðherra hefur sett skal fá alþjóðlegt mælibréf.
    Skip sem mælt er samkvæmt reglum sem ráðherra hefur sett skv. 2. mgr. 20. gr. skal fá íslenskt mælibréf.
    Ráðherra skal með reglugerð mæla fyrir um form mælibréfa.
    Heimilt er að mæla erlent skip við komu hingað til lands hafi það ekki gilt mælibréf í samræmi við alþjóðasamþykkt um mælingar skipa frá 1969.

22. gr.
Tilkynning um smíði skips.

    Eigandi skips skal tilkynna Samgöngustofu um nýsmíði skips. Áður en smíði hefst skal skipasmiður eða fyrirsvarsmaður hans senda Samgöngustofu tilkynningu um smíði skips, sem ætlað er til skráningar hér á landi, smíðalýsingu, teikningar, útreikninga á tonnatölum og teikningum og önnur gögn sem Samgöngustofa telur nauðsynleg vegna mælingar og eftirlits skv. 26. gr. Enn fremur skal hinn sami tilkynna Samgöngustofu hvenær tímabært er að skoða og mæla skipið.

23. gr.
Breyting á skipi.

    Ef skipi er breytt þannig að tonnatala þess breytist er eiganda þess skylt að tilkynna það til Samgöngustofu og skal þá senda stofnuninni nýja útreikninga á tonnatölum, teikningar og önnur nauðsynleg gögn til að ákvarða mælingu þess. Að því loknu skal gefa út nýtt mælibréf.

IV. KAFLI
Eftirlit með skipum.
24. gr.
Smíði skipa, búnaður þeirra, mengunarvarnir o.fl.

    Hvert skip skal smíðað og útbúið á þann hátt að öryggi sé tryggt eins og kostur er með tilliti til notkunar og þeirra verkefna sem því eru ætluð á hverjum tíma.
    Til að tryggja öryggi skipverja, farþega, skips og farms sem og varnir gegn mengun, skal skip fullnægja skilyrðum á hverjum tíma um smíði, búnað og örugga starfsemi skips, þ.m.t. um burðarvirki þess, bol, vatnsþétta niðurhólfun, lagnakerfi, vélbúnað, rafbúnað, eldvarnir, siglingatæki, fjarskiptabúnað, björgunar- og öryggisbúnað, mengunarvarnabúnað, lyf og læknisáhöld, merkingar og annan búnað. Þá skal skip vera mannað með fullnægjandi hætti til tryggja öryggi. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um þessa þætti.
    Ráðherra ákveður í reglugerð hvaða lög, stjórnvaldsfyrirmæli, skírteini og skipsbækur skuli vera um borð í skipum.
    Skip skulu smíðuð og búin í samræmi við lög og reglur um varnir gegn mengun hafs og stranda.

25. gr.
Aðbúnaður og vinnuskilyrði.

    Vinnusvæði og vistarverur skipverja skal hanna og búa með hliðsjón af öryggi og velferð þeirra. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um vinnusvæði, vistarverur, aðbúnað og vinnuskilyrði skipverja, þ.m.t. um hönnun og merkingar vinnusvæða og vinnslubúnaðar, öryggisbúnað, notkun og viðhald vinnutækja og öryggisbúnaðar og heilbrigðis- og hollustuhætti í skipum.

26. gr.
Eftirlit með nýsmíði skips.

    Nýsmíði skipa er háð eftirliti Samgöngustofu í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Mæli reglugerðin ekki fyrir um tiltekin atriði skal fara eftir kröfum viðurkenndra flokkunarfélaga um smíði skipa af samsvarandi skipategund eða reglum sem Samgöngustofa samþykkir sem sambærilegar.
    Eiganda skips er heimilt að fela viðurkenndu flokkunarfélagi eftirlit með smíði skips, enda sé skipið smíðað eftir reglum sem gilda hér á landi eða reglum samþykktum af Samgöngustofu sem sambærilegar.

27. gr.
Eftirlit með breytingum á skipi.

    Engar meiri háttar breytingar má gera á skipi, svo sem stækkun farmrýmis eða yfirbyggingar, aðalvélarskipti eða breytingar sem hafa áhrif á mælingu skips, sjóhæfni og stöðugleika, öryggi og/eða aðbúnað áhafnar og farþega, án þess að fyrir liggi samþykki Samgöngustofu eða annars aðila sem stofnunin hefur veitt umboð. Breytingarnar skulu gerðar undir eftirliti Samgöngustofu og gilda þar sömu reglur um eftirlit og tilkynningarskyldu og um nýsmíði.
    Sömu reglur um tilkynningarskyldu og eftirlit skulu einnig gilda um meiri háttar viðgerðir sem áhrif geta haft á öryggi skips, sjóhæfni og stöðugleika skips og aðbúnað áhafnar og farþega.

28. gr.
Innflutningur skipa.

    Skip sem er keypt eða leigt frá útlöndum til skráningar hér á landi skal hafa verið smíðað í samræmi við reglur viðurkennds flokkunarfélags um flokkuð skip eða sambærilegar reglur. Einnig skal slíkt skip fullnægja skilyrðum íslenskra laga og reglugerða, sem ráðherra skal setja, um styrkleika, búnað og haffæri. Skal skoðun fara fram áður en skipið er flutt inn. Innflutningur skipa er háður samþykki Samgöngustofu.

29. gr.
Ábyrgð.

    Skipstjóra er skylt að sjá til þess að skip sé haffært þegar það leggur úr höfn og hafi gild lögboðin skírteini um borð. Eiganda skips, útgerðarmanni, skipstjóra og yfirvélstjóra er skylt að sjá til þess að lögskipaðar skoðunargerðir fari fram á skipi eftir því sem við á.
    Um starfsskyldur yfirmanna við skoðunargerð og verkaskiptingu fer skv. III. kafla sjómannalaga, nr. 35/1985.

30. gr.
Skoðun skipa.

    Öll skip sem notuð eru í atvinnuskyni skulu sæta skoðun Samgöngustofu í samræmi við ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur um umfang, tíðni og framkvæmd skoðana á skipum. Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða að undanskilja tilteknar tegundir skipa frá skoðunarskyldu. Ráðherra er jafnframt heimilt að ákveða að skip, sem ekki eru notuð í atvinnuskyni, skuli skoðuð af Samgöngustofu með reglulegu millibili.
    Við skoðun á skipum skal ganga úr skugga um að þau uppfylli ákvæði laga, reglna, og alþjóðasamninga um smíði, búnað og örugga starfsemi skips, þ.m.t. um burðarvirki þess, vatnsþétta niðurhólfun, lagnakerfi, bol, björgunar- og öryggisbúnað, vélbúnað, fjarskiptabúnað, rafbúnað, eldvarnabúnað, mengunarvarnabúnað, siglingatæki, merkingar, lyf og læknisáhöld og annan búnað og mönnun sem varðar öryggi skipsins til að tryggja öryggi skipverja, farþega, skips og farms og varnir gegn mengun frá skipum.
    Samgöngustofa hefur heimild til að fela öðrum að framkvæma skoðun og gefur út starfsleyfi þeim til handa. Ráðherra setur reglugerð um starfsemi viðurkenndra skoðunaraðila.
    Sé skip í flokki hjá viðurkenndu flokkunarfélagi og gildu flokkunarskírteini er framvísað skal sú skoðun sem fram fór á því til viðhalds á flokkuninni talin fullnægjandi um styrkleika bols, eimkatla, vél- og rafbúnaðar, enda fullnægi skipið jafnframt þeim ákvæðum sem sérstaklega er mælt fyrir um í íslenskum lögum eða reglum varðandi þau atriði sem flokkunin tekur til, svo og skuldbindingum samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland hefur fullgilt og öðlast hafa gildi.

31. gr.
Framkvæmd eftirlits.

    Þegar starfsmenn Samgöngustofu eða þeir sem stofnunin hefur veitt umboð eru að starfi hafa þeir rétt til þess að fara um borð í hvert skip sem statt er í íslenskri höfn, innan íslenskrar landhelgi eða í íslensk skip í erlendri höfn til þess að rannsaka það sem þeim ber samkvæmt stöðu sinni. Sama gildir um skip í smíðum.
    Komi í ljós að skip, búnaður eða starfsemi þess er ekki í samræmi við lög þessi, reglur eða önnur fyrirmæli getur Samgöngustofa fyrirskipað að úr því skuli bætt þegar í stað eða innan ákveðins frests.
    Starfsmenn Samgöngustofu og aðrir sem eftirliti sinna skulu gæta þess að valda hvorki óþarfa töfum á skipi né torvelda vinnu umfram nauðsyn. Þeir skulu framvísa starfsskírteinum sé þess óskað.
    Eigendur, útgerðarmenn, skipstjórar, vélstjórar og aðrir sem starfa í umboði þeirra skulu veita Samgöngustofu og öðrum sem sinna eftirliti alla aðstoð og upplýsingar sem óskað er vegna eftirlits og öryggis skips, svo og upplýsingar um ástand skips, sem varðar lög þessi og reglur sem settar eru samkvæmt þeim. Eigandi eða útgerðarmaður skal sjá til þess að skip sé aðgengilegt til skoðunar.

32. gr.
Aukaskoðun skipa.

    Aukaskoðun skal fara fram á skipi sem hér segir:
     1.      Þegar skip hefur verið til viðgerðar vegna atriða sem varða öryggi skips og/eða áhafnar.
     2.      Þegar gerðar hafa verið breytingar eða endurbætur á skipi sem varða eða hafa áhrif á öryggi skips og áhafnar eða hættu á mengun frá skipi.
     3.      Þegar skip hefur orðið fyrir tjóni þar sem ætla má að skemmdir kunni að hafa áhrif á öryggi skips og áhafnar eða hættu á mengun frá skipi.
     4.      Þegar eigandi skips, útgerðarmaður, skipstjóri, yfirvélstjóri, skipverji, stjórn stéttarfélags eða stofnun sem á réttmætra hagsmuna að gæta varðandi örugga starfsemi skips, aðbúnað og vinnuskilyrði um borð eða mengunarvarnir krefst skoðunar eða leggur fram kvörtun nema Samgöngustofa telji slíka kröfu eða kvörtun ekki á rökum reista. Samgöngustofu er óheimilt að veita upplýsingar um það hver hafi lagt fram slíka kröfu eða kvörtun.
     5.      Þegar Samgöngustofa telur annars ástæðu til að rannsaka öryggi tiltekinna hluta skips eða búnaðar þess eða atriði sem varða örugga starfsemi skips.

33. gr.
Hafnarríkiseftirlit.

    Samgöngustofa skal skoða erlend skip sem koma til hafnar á Íslandi í samræmi við reglur Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit frá 1982, með síðari breytingum, og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar. Ráðherra setur reglur um framkvæmd hafnarríkiseftirlits, eftirlit með komutilkynningum erlendra skipa og um hæfniskröfur þeirra skoðunarmanna Samgöngustofu sem annast eftirlitið.

34. gr.
Skyndiskoðun skipa.

    Samgöngustofu og Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að taka skip sem lög þessi gilda um til skyndiskoðunar án fyrirvara til að ganga úr skugga um hvort ástand skipsins og búnaður þess sé í samræmi við lög og reglur sem og önnur atriði sem varða örugga starfsemi skipsins, svo sem hvort gætt sé ákvæða laga og reglna um fjölda í áhöfn skipsins, skírteini þess, takmarkað farsvið og útivist, atvinnuréttindi áhafnar, lögskráningu og fjölda farþega á farþegaskipum.
    Samgöngustofa og Landhelgisgæsla Íslands gera með sér samstarfssamning um hvernig eftirliti skv. 1. mgr. skuli hagað.

35. gr.
Haffærisskírteini og önnur skírteini.

    Að skoðun lokinni ákveður Samgöngustofa hvort hún telji að fullnægt sé ákvæðum laga og reglna um smíði, búnað og örugga starfsemi skips og hvort útgáfa skírteina, áritun eða endurnýjun skírteina eigi sér stað.
    Viðeigandi skírteini skulu gefin út til skipa sem falla undir ákvæði alþjóðasamninga og reglugerðar sem ráðherra setur.
    Haffærisskírteini eða önnur jafngild skírteini skulu gefin út til skipa sem falla ekki undir alþjóðasamninga í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, þar sem m.a. skal kveðið á um form og gildistíma slíkra skírteina.

36. gr.
Óhaffær skip.

    Skip skal telja óhaffært:
     1.      Hafi það ekki gilt viðeigandi skírteini eða haffærisskírteini samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur eða ákvæðum alþjóðasamninga.
     2.      Liggi það dýpra en hleðslumerki þess leyfa samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur eða ákvæðum alþjóðasamninga.
     3.      Sé bol þess, búnaði, þar á meðal mengunarvarnabúnaði, vélum, tækjum eða áhöfn svo áfátt eða skipið er af öðrum ástæðum svo á sig komið með tilliti til öryggis skipsins og þeirra manna sem skipinu fylgja að telja verður vegna sjóferðar þeirrar er skipið skal fara að hættulegra sé að vera í förum með það en venjulegt er.

37. gr.
Skemmdir á skipi.

    Hafi skip lent í árekstri, tekið grunn eða annað að borið svo að ástæða sé til að ætla að skip sé óhaffært er skipstjóra skylt að láta skoða skipið á þeim stað er því verður fyrst við komið. Starfsmenn Samgöngustofu eða aðrir aðilar sem stofnunin hefur viðurkennt skulu framkvæma þá skoðun.
    Þurfi að færa skip sem er óhaffært af slysstað eða úr höfn til viðgerðar eða nánari skoðunar skal Samgöngustofa eða aðrir aðilar sem stofnunin hefur viðurkennt ákveða hvaða ráðstafanir skuli gerðar með tilliti til öryggis skipsins, þeirra manna sem skipinu fylgja og mengunarhættu frá skipinu.

38. gr.
Upplýsingaskylda.

    Löggæslumenn, hafnaryfirvöld, leiðsögu- og hafnsögumenn, tollgæslumenn, trúnaðarmenn skipverja eða starfsmenn tryggingafélaga, sem fá vitneskju um að lög þessi eða reglur settar samkvæmt þeim hafi verið brotin eða telja sig hafa ástæðu til að ætla að skip sé ekki haffært, skulu tafarlaust gera Samgöngustofu viðvart. Sama gildir um starfsmenn skipasmíðastöðva og verkstæða þegar þeir eru að starfi sínu, þó þannig að þeir skulu gera yfirmanni sínum viðvart sem tilkynnir það tafarlaust til Samgöngustofu.

39. gr.
Gömul skip.

    Ráðherra getur ákveðið að nýjar reglugerðir nái ekki til gamalla skipa og skipa sem kjölur hefur verið lagður að eða eru á hliðstæðu smíðastigi. Þó skal tekið tillit til varna gegn mengun, öryggis og aðbúnaðar um borð, enn fremur gerðar og fyrirhugaðrar notkunar skipanna. Sé gert ráð fyrir að ákvæði nýrra reglugerða nái til gamalla skipa skal þess getið sérstaklega. Þá skal að jafnaði veita eigendum slíkra skipa hæfilegan frest til að fara að nýjum ákvæðum.

40. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra getur ákveðið í reglugerð að eftirlit skuli haft með öryggi annarra skipa á sjó, ám og vötnum og hvernig því eftirliti skuli haga.
    Ráðherra er enn fremur heimilt að setja reglugerðir um eftirlit með skipum að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.

41. gr.
Farþegaflutningar í atvinnuskyni.

    Farþegaflutningar í atvinnuskyni, þ.m.t. skoðunar- og veiðiferðir ferðamanna, með skipum sem lög þessi gilda um eru háðir leyfi Samgöngustofu. Skal slíkt leyfi gefið út þegar leitt er í ljós að fullnægt er ákvæðum laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim, svo og ákvæðum annarra laga og reglugerða sem gilda um skip í farþegaflutningum. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um útgáfu og skilyrði leyfis samkvæmt þessari málsgrein, leyfilegan fjölda farþega um borð í farþegaskipum og farsvið farþegaskipa.

V. KAFLI
Farbann.
42. gr.
Farbann.

    Eigi að leggja skipi úr höfn án þess að það hafi haffærisskírteini eða gild viðeigandi skírteini samkvæmt lögum þessum og reglugerðum eða ákvæðum alþjóðasamninga eða skip er annars óhaffært á ferð skal Samgöngustofa leggja farbann á það.
    Enn fremur skal leggja farbann á skip ef starfsmenn Samgöngustofu eru hindraðir í störfum við framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum þessum.
    Ef ástæður farbanns eru ekki lengur fyrir hendi skal farbanni aflétt þegar í stað.

43. gr.
Tilkynning um farbann.

    Ákvörðun um farbann skal þegar í stað tilkynna skipstjóra og útgerðarmanni skriflega. Ástæður fyrir farbanni skulu tilgreindar, svo og skilyrði fyrir því að banni verði aflétt. Samgöngustofa getur óskað eftir því ef nauðsyn krefur að lögreglustjórar og hafnar- og tollyfirvöld á hverjum stað, svo og starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands, veiti þeim fulltingi við framkvæmd farbanns og ber þeim að verða við þeirri ósk.

VI. KAFLI
Gjöld og viðurlög.
44. gr.
Þjónustugjöld.

    Samgöngustofu er heimilt að innheimta þjónustugjöld vegna laga þessara í samræmi við 13. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.
    Þjónustugjöld Samgöngustofu eru aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar, sbr. 15. gr. sömu laga.

45. gr.
Stjórnvaldssektir.

    Samgöngustofa getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn eða uppfyllir ekki skilyrði eftirfarandi ákvæða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim:
     a.      1. mgr. 5. gr. um skráningarskyldu,
     b.      1. mgr. 11. gr. um notkun íslenska fánans,
     c.      19. gr. um merkingu skipa,
     d.      20. gr. um mælingu skipa,
     e.      22. gr. um tilkynningu um smíði skips,
     f.      24. gr. um smíði skipa, búnað þeirra, mengunarvarnir o.fl.,
     g.      25. gr. um aðbúnað og vinnuskilyrði,
     h.      26. gr. um eftirlit með nýsmíði skips,
     i.      27. gr. um breytingar á skipi,
     j.      1. mgr. 29. gr. um ábyrgð vegna haffæris og lögskipaðra skoðunargerða,
     k.      1. og 4. mgr. 31. gr. um framkvæmd skoðunar,
     l.      33. gr. um hafnarríkiseftirlit,
     m.      36. gr. um óhaffær skip,
     n.      1. mgr. 37. gr. um skemmdir á skipi,
     o.      38. gr. um upplýsingaskyldu,
     p.      41. gr. um farþegaflutninga í atvinnuskyni.
    Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100.000 kr. til 500.000 kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 200.000 kr. til 2.000.000 kr.
    Við ákvörðun sekta skal m.a. taka tillit til þess hvað brot hefur staðið lengi yfir, samstarfsvilja hins brotlega og hvort um ítrekað brot er að ræða. Samgöngustofu er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti. Skal upphæð stjórnvaldssektar þá ákveðin sem allt að tvöfalt margfeldi af þeim hagnaði sem aðili hefur aflað sér með broti gegn lögum þessum, þó innan ramma 2. mgr.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Ákvörðun Samgöngustofu um stjórnvaldssekt er aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar. Stjórnvaldssektir renna í ríkissjóð, að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu.
    Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Aðili máls getur skotið ákvörðun Samgöngustofu um stjórnvaldssekt til ráðherra innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málskot til ráðherra frestar aðför. Úrskurðir ráðherra um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfir.

46. gr.
Refsingar.

    Brot gegn lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Nú er brot framið með verknaði, svo sem skjalafalsi, sem refsiverður er samkvæmt almennum hegningarlögum og skal þá einnig beita viðeigandi ákvæðum þeirra. Tilraun og hlutdeild í brotum er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Nú er brot skv. 1. mgr. framið í starfsemi lögaðila og má þá gera lögaðilanum fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Lög þessi raska í engu ákvæðum áfengislaga að því er snertir viðurlög ef menn eru undir áhrifum áfengis við störf sín.

47. gr.
Kæra til lögreglu.

    Samgöngustofu og Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að kæra brot á lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim til lögreglu.
    Varði meint brot bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Samgöngustofa hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Samgöngustofu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Samgöngustofa á hvaða stigi málsins sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra til opinberrar rannsóknar. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
    Varði brot á lögum þessum bæði refsiábyrgð fyrir einstakling og lögaðila metur Samgöngustofa, með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða, hvort mál skuli kært til lögreglu að hluta eða í heild.
    Með kæru Samgöngustofu skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Samgöngustofu um að kæra mál til lögreglu.
    Samgöngustofu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast brotum sem til rannsóknar eru hjá lögreglu og ákæruvaldi og taka þátt í aðgerðum lögreglu að öðru leyti.
    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Samgöngustofu í té upplýsingar og gögn sem þau hafa aflað og tengjast brotum sem til meðferðar eru hjá stofnuninni og taka þátt í aðgerðum hennar að öðru leyti.
    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Samgöngustofu til meðferðar og ákvörðunar.

48. gr.
Réttur einstaklinga til að fella ekki á sig sök.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssektar eða kæru til lögreglu vegna brota gegn ákvæðum þessara laga eða stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra, hefur sá sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um brot rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Samgöngustofa og Landhelgisgæsla Íslands skulu leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

49. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um einkenning fiskiskipa, nr. 31/1925, lög um skráningu skipa, nr. 115/1985, lög um skipamælingar, nr. 146/2002, lög um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa hf. Olíumöl innflutning á olíupramma, nr. 4/1977, lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa Köfunarstöðinni hf., Dýpkunarfélaginu hf., Slysavarnafélagi Íslands og Íslenska úthafsútgerðarfélaginu hf. innflutning á skipum, nr. 27/1989, lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að leyfa Slysavarnafélagi Íslands að flytja inn björgunarbát, nr. 23/1993, og lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa Sveinbirni Runólfssyni sf. innflutning á gröfupramma, nr. 24/1993.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Í sáttmála ríkisstjórnar Íslands frá 2017 um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis segir að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings. Með frumvarpi þessu er stefnt að því að einfalda lagaumhverfi skipa og koma ákvæðum um þau í ein lög. Í lagasafni er að finna marga lagabálka sem varða þetta efni með einum eða öðrum hætti og eru margir þeirra komnir til ára sinna. Á grundvelli þeirra laga er svo að finna fjölmargar reglugerðir sem nánar útfæra kröfur sem lögin gera. Innan samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og Samgöngustofu er unnið að því að einfalda og uppfæra þetta víðtæka regluverk í heild þannig að það sé aðgengilegra fyrir þá sem starfa eftir þessum reglum. Er frumvarp þetta liður í því verkefni.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Um skip gilda fjölmargir lagabálkar. Má þar nefna lög um einkenning fiskiskipa, nr. 31/1925, lög um skráningu skipa, nr. 115/1985, lög um skipamælingar, nr. 146/2002 og lög um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, auk sértækra laga á borð við lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa hf. Olíumöl innflutning á olíupramma, nr. 4/1977, lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa Köfunarstöðinni hf., Dýpkunarfélaginu hf., Slysavarnafélagi Íslands og Íslenska úthafsútgerðarfélaginu hf. innflutning á skipum, nr. 27/1989, lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að leyfa Slysavarnafélagi Íslands að flytja inn björgunarbát, nr. 23/1993, og lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa Sveinbirni Runólfssyni sf. innflutning á gröfupramma, nr. 24/1993.
    Borið hefur á gagnrýni á hversu flókið og óaðgengilegt regluverk þetta er, einkum hvað varðar öryggiskröfur til skipa og eftirlit með þeim. Auk þeirra laga sem lagt er til að verði felld úr gildi með frumvarpi þessu er víðtækt regluverk í gildi með stjórnvaldsfyrirmælum sem innleiða meðal annars ákvæði gerða sem teknar hafa verið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og varða skip sem og ákvæði sem leiðir af öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, til að mynda samningum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (e. International Maritime Organization, IMO) og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (e. International Labour Organization, ILO).
    Markmið frumvarpsins er ekki að gera umfangsmiklar breytingar á þeim efnislegu reglum sem um skip gilda heldur að sameina lög í einn aðgengilegan lagabálk. Þá er ætlunin að færa tiltekin ákvæði úr lögum og í stjórnvaldsfyrirmæli. Er þar einkum átt við upptalningu á skilyrðum sem er að finna í gildandi lögum þar sem jafnframt er getið um að ráðherra geti bætt við skilyrðum í reglugerð. Dæmi um þetta er að finna í 1. og 2. mgr. 1. gr. a laga um skráningu skipa, nr. 115/1985. Í 1. mgr. 1. gr. a eru listuð upp í sjö stafliðum þau atriði sem skulu fylgja umsókn um heimild til þurrleiguskráningar. Í áttunda staflið segir síðan að jafnframt skuli fylgja aðrar upplýsingar sem ráðherra getur kveðið á um í reglugerð. Í 2. mgr. 1. gr. a sömu laga eru listuð upp í sex stafliðum þau skilyrði sem uppfyllt skulu vera til að þurrleiguskráning sé heimiluð af Samgöngustofu. Í sjöunda staflið segir að ráðherra er fer með málefni sjávarútvegs geti kveðið í reglugerð á um önnur skilyrði. Með frumvarpi þessu er lagt til að mælt verði fyrir um meginreglur á borð við þær sem gilda um þurrleiguskráningu í lögum en að ítarlegri ákvæði og skilyrði verði að finna í stjórnvaldsfyrirmælum. Með þessu móti eru skilyrði aðgengilegri fyrir notendur laganna sem þurfa þá ekki að leita bæði í lög og reglugerðir til að finna skilyrði. Fyrirkomulagið gerir að auki stjórnsýsluframkvæmd einfaldari, t.d. þegar gera þarf breytingar á tilteknum atriðum vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt alþjóðasamningum, þ.m.t. samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Markmið laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, er hið sama og þeirra laga sem frumvarpi þessu er ætlað að leysa af hólmi, þ.e. að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega, efla varnir gegn mengun frá skipum og tryggja skilvirka skráningu, merkingu, mælingu og eftirlit með skipum. Þá er þeim ætlað að veita stjórnvöldum nægilegar heimildir til að innleiða þær kröfur sem leiðir af skuldbindingum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði sjóréttar er lúta að skipum.
    Talin er þörf á því að hefja vinnu við einföldun regluverks með þeirri einföldun og sameiningu sem lögð er til með þessu frumvarpi. Með því er byrjað á réttum enda því öll vinnan við endurskoðun stjórnvaldsfyrirmæla munu miðast við þann ramma sem lög setja.
    Þá er í frumvarpi þessu lagt til að lögfest verði ákvæði um stjórnvaldssektir. Gildandi lög gera fyrst og fremst ráð fyrir því að brot gegn lögunum séu kærð til lögreglu til rannsóknar. Aðeins er að finna eina tegund stjórnsýsluviðurlaga í lögunum, farbann, sem eðli málsins samkvæmt kann að vera mjög þungbært úrræði fyrir útgerðir og aðila sem tengjast þeim, svo sem sjómenn. Málsmeðferð er almennt kostnaðarminni fyrir aðila þegar stjórnvöld beita stjórnsýsluviðurlögum en þegar dómstólar dæma menn eða lögaðila til refsingar. Kostnaður hins brotlega, t.d. vegna aðstoðar lögmanna, er oftast einnig minni þegar um stjórnsýsluviðurlög er að ræða. Þá tekur almennt mun skemmri tíma að rannsaka og beita stjórnvaldsviðurlögum en refsingu.
    Þá er það almennt skilvirkara úrræði að stjórnvöld beiti stjórnvaldsviðurlögum en að þau beri mál undir dómstóla. Þau stjórnvöld sem fara með eftirlit á ákveðnu sviði eru oft í lykilaðstöðu við að meta hvar þurfi að bregðast við á skilvirkan hátt til þess að halda uppi lögum. Þá verður ekki fram hjá því litið að mörg mál sem eftirlitsstofnanir fást við eru flókin og þarfnast sérþekkingar þeirra sem úr þeim leysa. Í sumum tilvikum hefur lögregla ekki á að skipa starfsmönnum með sérfræðiþekkingu á þeim málum sem til rannsóknar koma. Hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gert athugasemdir við það að íslensk löggjöf, þ.e. lög um eftirlit með skipum, fullnægi ekki kröfum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/16/EB um hafnarríkiseftirlit, sem kveður á um að ríki skuli koma á viðurlögum fyrir brot á ákvæðum sem innleiða efni tilskipunarinnar. Skulu viðurlögin vera skilvirk, í samræmi við meðalhóf og hafa forvarnaráhrif. ESA hefur sent íslenska ríkinu áminningarbréf sem segir að stofnunin telji að skortur sé á viðurlögum fyrir brot á ákvæðum tilskipunarinnar um tilkynningarskyldu. Núverandi kerfi tryggi ekki skilvirka útkomu þegar brotið sé gegn þessari reglu. Með frumvarpi þessu er brugðist við þessum niðurstöðum stofnunarinnar þannig að lagt er til að Samgöngustofa fái heimild til að leggja á stjórnvaldssekt fyrir brot gegn ákvæði um hafnarríkiseftirlit.
    Í gildandi lögum er ýmist fjallað um ákvarðanir Samgöngustofu eða um ákvarðanir forstjóra Samgöngustofu. Áður voru þessi verkefni í höndum Siglingastofnunar Íslands og siglingamálastjóra en því var breytt með lögum um breytingar á ýmsum lögum vegna nýrra samgöngustofnana, nr. 59/2013. Í lögunum, sbr. athugasemdir í frumvörpum til þeirra laga sem frumvarpi þessu er ætlað að leysa af hólmi, er að finna sérstakar tilvísanir til forstjóra Samgöngustofu (áður siglingamálastjóra) skýrðar. Í 2. mgr. 2. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012, segir að forstjóri beri ábyrgð á starfsemi og rekstri stofnunarinnar. Er talið rétt og í samræmi við nýrri lagasetningu að vísa til hlutverks Samgöngustofu í frumvarpi þessu.
    Í 28. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003 er mælt fyrir um gjöld, meðal annars skipagjald. Ákvæðið kveður á um að eigandi skips skuli greiða árlega í ríkissjóð sérstakt gjald af hverju skipi sem skráð er á aðalskipaskrá og miðast gjaldið við skráningarlengd skipsins. Jafnframt er kveðið á um þjónustugjöld fyrir eftirlit Samgöngustofu og innheimtu gjalda. Í frumvarpi þessu er ekki kveðið á um skipagjald. Þar sem um skattlagningu er að ræða er talið að ákvæði þess efnis eigi betur heima í lögum um aukatekjur, nr. 88/1991, með breyttu heiti og sem ný grein. Samráð hefur verið haft við fjármála- og efnahagsráðuneytið og er ætlunin að breyting verði gerð á lögum um aukatekjur.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í I. kafla er fjallað um markmið og gildissvið laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum. Þá er að finna ákvæði með orðskýringum. Frumvarpið nær til íslenskra skipa sem eru skilgreind sem hvert það skip sem skráð er hér á landi og hefur rétt til að sigla undir íslenskum fána. Jafnframt er gildissvið gagnvart erlendum skipum afmarkað. Nær frumvarp þetta til þeirra skipa sem eru stödd innan landhelgi, innan efnahagslögsögu og á landgrunni Íslands en ef reglur alþjóðalaga mæla fyrir um að lög einstakra ríkja nái ekki til erlendra skipa þá gilda þær.
    Í II. kafla er fjallað um skráningu skipa. Þar er að finna ákvæði um skipaskrá sem Samgöngustofa heldur úti, skyldu til að skrá skip sem eru 6 metrar eða lengri, frumskráningu, þurrleiguskráningu, einkarétt, fána, þjóðernis- og skráningarskírteini, afskráningu o.fl. Kaflinn byggir á ákvæðum laga um skráningu skipa, nr. 115/1985. Í frumvarpinu eru gerðar breytingar til að endurspegla verklag Samgöngustofu sem annast þessar skráningar. Skráning í skipaskrá og aðgengi að upplýsingum í skránni er nú jafnan með rafrænum hætti í gegnum vef Samgöngustofu. Í frumvarpinu er lagt til að Samgöngustofu sé heimilt að annast umrædd verkefni sín rafrænt en ákvæði um slíkt er ekki í gildandi lögum um skráningu skipa. Í IX. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið á um rafræna meðferð stjórnsýslumála en rétt þykir að leggja til ákvæði um rafræna skipaskrá.
    Með frumvarpinu er lagt til að fella brott ákvæði gildandi laga þess efnis að við frumskráningu skuli Samgöngustofa senda hlutaðeigandi þinglýsingastjóra tilkynningu um skráningu þegar hún hefur farið fram. Er talið að það eigi að vera á ábyrgð eigenda skipa að annast þinglýsingu og vernda þannig eignarrétt sinn. Ekki er talið rétt að það sé á ábyrgð ríkisstofnunar að senda slíkar tilkynningar.
    Fellt er brott ákvæði um að þegar skipstjóraskipti verða á íslensku skipi sem hefur hlotið þjóðernis- og skrásetningarskírteini beri að tilkynna Samgöngustofu um breytinguna. Þetta er gert í ljósi núverandi framkvæmdar en á þjóðernis- og skrásetningarskírteinum koma ekki fram upplýsingar um skipstjóra. Lög um lögskráningar sjómanna, nr. 35/2010, gilda enn um skráningu skipstjórnarmanna.
    Gerð er breyting á útgáfu þjóðernis- og skrásetningarskírteinis til bráðabirgða. Í lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985, segir að fulltrúi utanríkisþjónustu Íslands, sem til þess hefur heimild, geti gefið út skírteini af þessu tagi. Í framkvæmd reynir lítið á þetta en í ljósi tækniframfara sem orðið hafa frá gildistöku ákvæðisins í gildandi lögum er orðalagi breytt þannig að Samgöngustofa fær að meginstefnu til ábyrgð á þessari útgáfu. Hins vegar sé stofnuninni heimilað að fela fulltrúa utanríkisþjónustu Íslands að annast útgáfu þjóðernis- og skrásetningarskírteinis til bráðabirgða ef þörf krefur.
    Í III. kafla er mælt fyrir um merkingu og mælingu skipa. Efni laga um einkenning fiskiskipa, nr. 31/1925, er fært í eitt ákvæði, 19. gr., sem kveður á um að merkja skuli hvert skip með viðeigandi hætti samkvæmt reglugerð er ráðherra setur. Í gildandi lögum er kveðið á um að skip sem ætluð eru til fiskveiða skuli bera á sér glöggt heiti sitt og heimilisfang er þau koma í íslenska landhelgi og hafast þar við. Lögin voru upphaflega sett vegna þarfar á reglum um merkingar skipa sem stunda veiði innan íslenskrar landhelgi. Vitað var að skip sem stunduðu ólöglegar veiðar í landhelgi dyldu einatt merkin á skipum sínum til að koma sér undan ábyrgð. Var því talin ástæða til að gera skipum skylt að hafa einkennismerki sín í lagi og leggja refsingu við ef svo væri ekki. Lög þessi hafa haldist svo til óbreytt frá setningu þeirra og hafa einungis verið gerðar tvær smávægilegar breytingar á þeim, annars vegar með lögum um breytingu á sektarmörkum nokkurra laga o.fl., nr. 116/1990, og hins vegar með lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Telja má að ýmislegt í lögunum megi fella brott í dag, t.d. afmörkun við fiskiskip sem knúin eru eimorku, tilvísun til skipa sem eru merkt samkvæmt samningi frá 6. maí 1882 um fiskveiðar í Englandshafi eða samningi frá 24. júní 1901 um fiskveiðagæslu utan landhelgi við Ísland og Færeyjar. Er talið rétt að hafa meginreglu um merkingu skipa í lögum og útfæra kröfur nánar í reglugerð. Í gildandi ákvæði kemur fram að skipin skuli merkt með viðeigandi hætti í samræmi við reglugerð. Er þetta gert frekar en að telja sérstaklega upp heiti, heimili og einkennisbókstafi. Misjafnt er hvaða kröfur gera skal til skipa eftir því hver stærð þeirra er og notkun þeirra. Í sumum tilvikum þarf að horfa til alþjóðlegra krafna, til að mynda varðandi notkun á svokölluðu IMO-númeri (þ.e. númeri skips samkvæmt reglum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar) og jafnframt þarf að kveða á um kallmerki. Þá er bannað að leyna merkingum skv. 1. mgr. eða nema brott eða merkja skip öðru heiti en það er skráð undir. Hér er um grundvallarreglu sjóréttar að ræða. Í kaflanum er jafnframt fjallað um mælingar skipa. Nú eru í gildi lög um skipamælingar, nr. 146/2002, og eru ákvæði þessa kafla í samræmi við ákvæði þeirra. Mælt er fyrir um viðmið við mælingar skipa og skyldu til að upplýsa Samgöngustofu um útreikninga. Nær þetta til þess þegar skip er smíðað eða þegar því er breytt. Mælt er fyrir um eftirlit Samgöngustofu með því að upplýsingar um skip séu réttar sem og útgáfu mælibréfa.
    Í IV. kafla er fjallað um eftirlit með skipum. Nú er kveðið á um það í lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Byggist þetta frumvarp á ákvæðum þeirra laga en ákvæði þess eru uppfærð til samræmis við starfsemi Samgöngustofu og reglugerðarákvæði skýrð nánar. Byggt er áfram á því að skoðanir áskipum verði þrenns konar, þ.e. aðalskoðun, reglubundin skoðun að því loknu og skyndiskoðun. Reglunum er ætlað að vera í samræmi við ákvæði gerða sem grundvallast á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og annarra viðeigandi alþjóðasamninga, svo sem SOLAS-alþjóðasamþykktarinnar (e. Safety of Life at Sea) um öryggi mannslífa á hafinu.
    Í V. kafla er mælt fyrir um farbann. Sambærileg ákvæði er í dag að finna í lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Efnislega er um óbreyttar reglur að ræða en framsetning er endurskoðuð, t.d. með sameiningu sumra ákvæða.
    Í VI. kafla er mælt fyrir um gjöld og viðurlög. Mælt er fyrir um þjónustugjöld Samgöngustofu. Vísar ákvæðið til heimildar í 13. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012, um þjónustugjöld. Í 1. mgr. 13. gr. laganna eru listaðir upp í 16 töluliðum þeir þættir sem stofnuninni er heimilt að innheimta þjónustugjöld fyrir, þar á meðal vegna útgáfu skírteina, skráningar og afskráningar skipa og vegna útgáfu skipsskjala, skoðana á skipum og búnaði þeirra, eftirlits með viðgerðum og nýsmíði og breytinga þeirra. Í kaflanum er jafnframt fjallað um viðurlög við brotum gegn ákvæðum laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Í þeim lögum sem frumvarpi þessu er ætlað að leysa af hólmi er að finna ákvæði sem kveða á um sektir gegn brotum gegn lögunum. Í 45. gr. er að finna eitt heildstætt ákvæði sem kveður á um stjórnvaldssektir sem Samgöngustofa getur lagt á vegna tiltekinna brota gegn ákvæðum frumvarpsins. Eru þau tilvik talin upp í 16 stafliðum. Geta sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100.000 kr. til 500.000 kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 200.000 kr. til 2.000.000 kr.
    Þá er mælt fyrir um refsingar vegna brota gegn ákvæðum laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Varða brot sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Er sá refsirammi í samræmi við gildandi lög. Samgöngustofu er heimilt að kæra slík brot til lögreglu. Heimilt er að kæra fyrir brot að hluta eða í heild sinni. Er þess sérstaklega getið að það skuli gert ef brot er meiri háttar. Þá er fjallað um heimild einstaklinga til að varpa ekki sök á sjálfan sig.
    Í gildistökuákvæði er kveðið á um að verði frumvarpið að lögum skuli þau taka gildi 1. júlí 2021. Er þessum fresti ætlað að gefa samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu tækifæri til að vinna að endurskoðun reglugerða sem byggjast á gildandi lögum. Þá er lagt til að gildandi lög falli brott á sama tíma.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í þeim lögum sem frumvarpi þessu er ætlað að leysa af hólmi segir víða að uppfylla beri kröfur lagareglna en einnig reglur alþjóðasamninga, alþjóðasamþykkta og sérstaklega ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Í frumvarpi þessu er ekki að finna sams konar almennar tilvísanir og eru í gildandi lögum til ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sjá t.d. í 7. mgr. 1. gr., 1. og 3. mgr. 11. gr. og 14. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Með því er þó ekki verið að afnema skyldur sem leiðir af samningnum að því er varðar skip. Þær gerðir sem teknar eru upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar ber að innleiða í landsrétt. Þær reglur sem snúa að skipum hafa þannig verið innleiddar í landsrétt með stjórnvaldsfyrirmælum sem halda munu gildi sínu verði frumvarp þetta að lögum. Er því ekki þörf á því að vísa til ákvæða samningsins í lögum.
    Öðru máli gegnir um tilvísanir til alþjóðasamninga og alþjóðasamþykkta. Í lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun Samgöngumála, nr. 119/2012, er kveðið á um birtingu alþjóðlegra reglna á sviði siglinga í 9. gr. a, sem bættist við lögin með lögum nr. 25/2018. Í 1. mgr. segir að viðaukar og kóðar við alþjóðasamninga á sviði siglinga sem Ísland er aðili að skuli birtir á vef Samgöngustofu, enda hafi meginefni viðkomandi alþjóðasamninga verið birt í C-deild Stjórnartíðinda. Einnig skuli þar birta dreifibréf og leiðbeiningarreglur sem Alþjóðasiglingamálastofnunin eða önnur alþjóðastofnun gefur út til nánari skýringar á framkvæmd viðkomandi alþjóðasamninga. Heimilt er að birta eingöngu erlendan frumtexta af viðaukum, kóðum, dreifibréfum og leiðbeiningarreglum. Í 2. mgr. segir að fyrirmælum sem felast í viðaukum, kóðum, dreifibréfum og leiðbeiningarreglum skuli ekki beitt fyrr en birting hefur farið fram á vef Samgöngustofu nema þau geymi ákvæði algerlega einkamálaeðlis og aðilar hafi komið sér saman um að skipti þeirra fari eftir óbirtum fyrirmælum. Fyrirmælin skuli binda alla frá og með deginum eftir birtingu þeirra á vef Samgöngustofu ef þau geyma ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku sína. Þegar þessu ákvæði var bætt við lög um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, var Ísland aðili að 33 alþjóðasamningum á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar auk þess sem alþjóðasamningar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar geta náð til siglinga og skipa. Langan tíma tekur fyrir ríki að koma sér saman um meginefni þessara samninga og breytinga á þeim. Í ljósi þess að breytingar eru örar á þessu sviði hafa tæknileg atriði þessara samninga verið tekin úr meginefni og færð inn í viðbótargerninga. Þessir gerningar kallast yfirleitt kóðar eða viðaukar og er einfaldara að breyta þeim. 9. gr. a laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, var sett með hliðsjón af miklum fjölda gerninga af þessu tagi og örar breytingar þeirra. Var talin þörf á að regla af þessu tagi væri til staðar til að tryggja gilda birtingu og framkvæmd hér á landi.
    Í lögum þeim sem frumvarpi þessu er ætlað að leysa af hólmi er vísað til þess að skip, skírteini, skoðanir flokkunarfélaga o.fl. skuli uppfylla skilyrði alþjóðasamþykkta eða alþjóðasamninga. Er með þessu sett fram sú krafa löggjafans að auk íslenskra laga og reglna skuli í vissum tilvikum fara eftir alþjóðasamningum eða alþjóðasamþykktum. Sambærilegar kröfur eru gerðar í þessu frumvarpi.

5. Samráð.
    Áform um lagasetningu voru kynnt hagsmunaaðilum á fundi fagráðs um siglingamál, sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipar, í október 2019 og óskað eftir athugasemdum um þarfar breytingar. Bárust ekki athugasemdir. Skjölin um áform um lagasetningu fóru í innra samráð innan Stjórnarráðs Íslands. Ytra samráð fór svo fram með birtingu í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is frá 28. nóvember til 13. desember 2019 (mál nr. S-249/2019) þar sem hagsmunaaðilum og almenningi var gefinn kostur á að gera athugasemdir við áformin. Engar umsagnir bárust í þessu samráði.
    Drög að frumvarpi voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is frá 19. febrúar til 9. mars 2020 (mál nr. S-44/2020). Sex umsagnir bárust, frá Landhelgisgæslu Íslands, Félagi skipstjórnarmanna (FS), Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sameiginleg umsögn Samtaka iðnaðarins og Samtaka skipaiðnaðarins (SI og SSI) og loks frá tveimur einstaklingum.
    Í umsögnum er að finna nokkrar almennar athugasemdir sem rétt er að fjalla fyrst um. Félag skipstjórnarmanna og þeir tveir einstaklingar sem skiluðu umsögn gera athugasemd við tengsl þessa frumvarps við lög um íslenska alþjóðlega skipaskrá, nr. 38/2007. Í drögum að frumvarpi sem kynnt voru í samráðsgátt stjórnvalda voru lög um íslenska alþjóðlega skipaskrá talin upp meðal þeirra laga sem gilda í dag um skip. Í umsögnum birtist því sá skilningur umsagnaraðila að til hafi staðið að leysa þau lög af hólmi með frumvarpi þessu. Eins og 50. gr. frumvarpsins ber með sér var hins vegar ekki fyrirhugað að endurskoðun þeirra laga færi fram með þessu frumvarpi. Hins vegar er það ætlun ráðuneytisins að taka þau lög til endurskoðunar og er vinna hafin innan ráðuneytisins við undirbúning þess.
    Í umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir að þau telji að endurskoðun á þessum lagabálkum sé löngu tímabær. Kalla þau eftir því að áður en lengra er haldið verði settur á fót vinnuhópur fagaðila til að fara yfir lagabálkana, sérstaklega þá sem lúta að nýsmíði, eftirliti og skoðunum á skipum. Ráðuneytið bendir á í þessu sambandi að samráð hefur verið haft við fagaðila, fyrst innan fagráðs um siglingamál þar sem samtökin eiga fulltrúa og síðan í kynningu á áformum um lagasetningu. Í hvorugu tilviki bárust ráðuneytinu athugasemdir um breytingar sem taldar væru nauðsynlegar eða þörfnuðust sérstakrar skoðunar. Þá segir í umsögn SFS að taka megi undir það markmið að sameina lög í einn aðgengilegan lagabálk en samtökin telja að taka eigi alla framkvæmd um eftirlit með skipum til endurskoðunar. Öllum sem til þessara mála þekkja sé ljóst að takmarkaðar íslenskar reglur eru til um byggingu skipa og eftirliti með smíði þeirra. Notaðar verði reglur alþjóðasamtaka flokkunarfélaga (International Association of Classification Societies, IACS) og viðurkenndra flokkunarfélaga. Að mati samtakanna sé í í öllu lagaumhverfinu látið að því liggja að Samgöngustofa hafi á hendi allt nauðsynlegt regluverk sem til þarf. Því fari því miður fjarri. Afleiðingarnar geta orðið þær að þekkingu starfsmanna verði ábótavant að því er varðar reglur flokkunarfélaga. Slíkt getur valdið eigendum töfum, vandræðum og kostnaði. Taka má undir ábendingar samtakanna um að þörf sé á að fara yfir þær reglur sem um skip gilda. Í gildandi lögum og frumvarpi þessu er stefnt að því að mynda heildstæðan lagabálk sem inniheldur meginreglur og nauðsynlegar heimildir til nánari reglusetningar. Markmið stjórnvalda er að regluverk um skip sé í takt í við alþjóðlegar skuldbindingar og hafi að geyma sem fæst séríslensk ákvæði enda eru siglingar alþjóðlegt svið þar sem reglur þróast jafnt og þétt. Ljóst er að Samgöngustofa verður að hafa hlutverki að gegna við eftirlit og stjórnsýslu samkvæmt lögum þessum enda hefur hún þetta hlutverk innan íslensku stjórnsýslunnar samkvæmt lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.
    Verður nú vikið að athugasemdum er varða tiltekna efnisþætti frumvarpsins. Í umsögn Landhelgisgæslu Íslands er lögð til breyting á skilgreiningu hugtaksins „skyndiskoðun“ í 3. gr. þar sem hún þykir of þröngt skilgreind og þurfi að ná til fleiri atriða en könnunar á haffæri skips. Fallist var á tillögu Landhelgisgæslu Íslands um að skilgreiningin á skyndiskoðun verði „fyrirvaralaus skoðun á skipi“.
    Í umsögn SI og SSI er fjallað um II. kafla og greinargerð. Er því fagnað að lögð sé aukin áhersla á rafræna stjórnsýslu en samtökin telja óljóst hvaða verklag Samgöngustofu leiði til breytinga og óska eftir nánari umfjöllum um þessar breytingar að öðru leyti en á við um rafræna stjórnsýslu.
    Landhelgisgæsla Íslands leggur til að bætt verði við 5. gr. um skráningarskylduskilyrði um að þau skip sem stunda atvinnustarfsemi á Íslandi meginhluta ársins eigi að skrá á íslenska skipaskrá. Með slíkri breytingu væri unnt að auka eftirlit með þjónustubátum í fiskeldi. Ekki þykir rétt að gera breytingu í þessa átt. Það er á ábyrgð fánaríkis að tryggja að skip uppfylli alþjóðlegar kröfur til skipa. Þannig eigi íslensk skip, sem starfi í erlendum ríkjum, ekki að þurfa að undirgangast skráningarskyldu í þeim löndum.
    Í umsögn SI og SSI er því fagnað að í 6. gr. sé gert ráð fyrir því að skip sem framleidd séu á Íslandi til notkunar erlendis þurfi ekki að skrá í íslenska skipaskrá. Benda samtökin á að í 2. málsl. 1. mgr. ákvæðisins beri að skrá skip um leið og þau komast í eign íslensks aðila enda fari ekki fram bráðabirgðaskráning. Er bent á að mikilvægt sé að samræmis sé gætt varðandi eftirlit og skráningu skipa sem framleidd eru erlendis og flutt til Íslands, og að sömu kröfur séu gerðar til erlendra og innlendra framleiðenda. Ekki voru gerðar sérstakar breytingar á frumvarpinu vegna þessarar athugasemdar. Það er ljóst að skip sem er smíðað á að uppfylla kröfur þess ríkis þar sem því er ætlað að hafa fána. Íslensk stjórnvöld gera sömu kröfur til allra skipa sem skráð eru hér á landi.
    Landhelgisgæsla Íslands leggur til að bætt verði í 7. gr. um skráningu fiskiskipa að skip yfir 100 brúttótonnum skuli hafa sjö stafa númer frá Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) sem væri í samræmi við tilmæli Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) nr. 18:2017. Ekki er lagst gegn tillögunni um að tiltekin skip skuli merkt með slíkum hætti. Í 19. gr. er kveðið á um merkingu skipa þar sem segir að merkja skuli skip með viðeigandi hætti í samræmi við reglugerð er ráðherra setur. Eins og áður segir munu reglur þessar verða teknar til athugunar og mun þessi tillaga verða skoðuð í þeirri vinnu.
    Í umsögn Félags skipstjórnarmanna er bent á að ætla megi af orðalagi 8. gr. frumvarpsdraganna að ráðherra fari með vald til að ákveða hvort heimila skuli þurrleiguskráningu erlendis en ekki Samgöngustofa eins og það ætti að vera og sé samkvæmt gildandi lögum. Ekki var ætlunin með frumvarpsdrögum að færa þetta hlutverk frá Samgöngustofu enda einungis fjallað um aðkomu ráðherra með vísan til reglugerðarsetningar. Hefur orðalagi ákvæðisins þó verið breytt lítillega til að fyrirbyggja misskilning að þessu leyti.
    Landhelgisgæslan leggur til að mælt verði fyrir um í 11. eða 12. gr. að óheimilt sé að breyta þjóðernisskráningu skips meðan það er í ferð eða viðkomuhöfn nema raunverulegt framsal eignarréttar eða breyting á skráningu hafi farið fram meðan á siglingu þess stendur, sbr. 1. mgr. 92. gr. hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Fallist er á þessa athugasemd en Samgöngustofa starfar þegar eftir þessari alþjóðlegu reglu.
    Þá leggur Landhelgisgæsla Íslands til að 14. gr. um tilkynningu um skipstjóraskipti vegna þjóðernisskírteina verði felld brott. Ákvæðið sé úrelt þar sem ávallt sé tilkynnt um skipstjóraskipti, í samræmi við lög um lögskráningu sjómanna, nr. 35/2010. Fallist er á að fella ákvæðið brott enda er það í samræmi við verklag Samgöngustofu.
    Í umsögn SI og SSI segir að skýra þurfi kröfur til nýsmíðaðra skipa í 18 gr. frumvarpsdraganna (áður 19. gr.) um leiðarbréf, hugsanlega með reglugerð. Tekið skal undir að kveða megi nánar á um þetta í reglugerð. Samgöngustofa á að geta gefið út leiðarbréf vegna skipa sem smíðuð eru hér á landi til notkunar erlendis. Hefur verið bætt við ákvæði þess efnis í 2. mgr. 18. gr. og reglugerðarheimild sett í 4. mgr. sömu greinar um setningu skilyrða fyrir útgáfu leiðarbréfa. Bent er á að stjórnvöld ríkja þar sem skipi er ætlað að vera skráð, eða eftir atvikum einkareknar skoðunarstofur, sinna eftirliti gagnvart smíði skipa. Í undantekningartilvikum óska erlend yfirvöld eftir því að Samgöngustofa sinni eftirliti gagnvart smíði skips og er þar um sjálfstætt verkefni sem tengist ekki útgáfu leiðarbréfa.
    Í umsögnum annars einstaklingsins, sem skilaði umsögn, og Landhelgisgæslu Íslands eru gerðar athugasemdir við 19. gr. um merkingar (áður 20. gr.). Er bent á að orðalag eldra ákvæðis sem átti við fiskiskip sé látið ná til allra skipa. Merkingar fiskiskipa, farþega- og flutningaskipa séu ólíkar og ekki sé hægt að ramma það allt inn í einni setningu. Bendir hann á að notkun einkennisbókstafa sé úrelt og að öll kaupskip og í vaxandi mæli fiskiskip séu merkt með svokölluðu IMO-númeri. Þá hafi oft verið lagt til að í stað skipaskrárnúmera skuli þilfarsfiskiskip vera með kallmerki sýnilegt. Í umsögn Landhelgisgæslunnar er lagt til að breyting verði gerð þannig að talið verði fullnægjandi að skip séu merkt með einkennisbókstöfum, númeri og IMO-númeri þegar það á við. Einnig sé hugsanlega rétt að skip séu að auki merkt með kallmerki eða skipaskrárnúmeri. Rétt þykir að mælt sé nánar fyrir um merkingar í reglugerð. Hefur orðalagi 1. mgr. 19. gr. verið breytt þannig að merkja skuli hvert skip með viðeigandi hætti í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
    Í umsögn annars einstaklingsins, sem skilaði umsögn, segir að rétt sé að bæta tilvísun til samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 188, um vinnuskilyrði farmanna, við 25. gr. frumvarpsins (áður 26. gr.). Með lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnuskilyrði farmanna, nr. 82/2018, voru gerðar breytingar á sjómannalögum, nr. 35/1985, lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, og lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Í lögum um eftirlit með skipum var bætt við ákvæði um að ráðherra setji nánari reglur um vinnusvæði og vistarverur skipverja. Er sama orðalag að finna í 1. mgr. 25. gr. þessa frumvarps. Hefur Alþingi tekið afstöðu til innleiðingar á skuldbindingum á samþykkt þessari og er þetta ákvæði talið fullnægjandi ásamt reglum sem byggjast á þessu ákvæði til innleiðingar á skuldbindingum íslenska ríkisins vegna samþykktarinnar. Er ekki talin þörf á sérstakri tilvísun í frumvarpinu til alþjóðasamþykktarinnar um vinnuskilyrði farmanna.
    Í umsögnum SFS, annars einstaklingsins, sem skilaði umsögn og sameiginlegri umsögn SI og SSI eru gerðar athugasemdir við 30. gr. (áður 31. gr.) um skoðun skipa. Í umsögn Hilmars segir að ef hægt er að undanskilja ákveðnar tegundir skipa frá skoðunarskyldu sé verið að draga úr því öryggi sem skipaskoðun hefur skapað. Að hans mati sé ekki nægilegt að segja í greinargerð að þetta geti átt við litla báta og skemmtibáta. Í 1. mgr. 30. gr. kemur fram sú meginregla að öll skip sem notuð eru í atvinnuskyni skuli sæta skoðun Samgöngustofu. Síðan er heimild fyrir ráðherra að undanskilja tilteknar tegundir skipa skoðunarskyldu. Eins og ráða má af þessu orðalagi getur ráðherra ekki undanskilið skip sem eru notuð í atvinnuskyni frá skoðun. Í skýringum við 30. gr. er þetta skýrt nánar þannig að undanþágan geti gilt um litla báta og skemmtibáta eins og segir í umsögn. Með þessu ákvæði er ekki verið að skerða öryggi íslenskra sjómanna.
    Í umsögn SFS er vísað til þess að öll skip skuli sæta skoðun Samgöngustofu en að stofnunin hafi heimild til að fela öðrum að framkvæma skoðun og gefi út starfsleyfi þeim til handa. Telur SFS að útilokað sé að Samgöngustofa hafi bolmagn til að gera reglur um smíði skips, svo sem um burðarvirki þess, vatnsþétta niðurhólfun, lagnakerfi, bol, vélbúnað, rafbúnað o.fl. Eðlilegast sé að fela hinum alþjóðlega viðurkenndu flokkunarfélögum að annast allar skoðanir og eftirlit en að Samgöngustofa framkvæmi skyndiskoðanir. Ekki er talið unnt að mæla fyrir um fyrirkomulag af þessu tagi. Í fyrsta lagi er bent á að hér á landi er að finna fjölmörg skip sem eru ekki flokkuð og undir eftirliti flokkunarfélaga. Ekki er hægt að skylda skip til að vera flokkað af flokkunarfélagi. Í þeim tilvikum verður það að vera Samgöngustofa eða aðilar með starfsleyfi sem sinna því eftirliti. Í öðru lagi er bent á að samkvæmt ákvæðum gerða sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn er kveðið á um hlutverk stjórnvalda í eftirliti. Þannig segir í 6. gr. tilskipunar ráðsins 97/70/EB um að setja samræmdar reglur um öryggi fiskiskipa sem eru 24 metrar að lengd eða lengri um skoðanir og skírteini fiskiskipa: „Stjórnvald fánaríkisins skal gefa skírteinin út, eða viðurkennd stofnun fyrir hönd þess, eftir frumskoðun, sem sérstakir skoðunarmenn framkvæma, annaðhvort á vegum stjórnvalda fánaríkisins sjálfs eða viðurkenndrar stofnunar eða aðildarríkis sem fánaríkið heimilar að annist slíka skoðun í samræmi við […] Torremolinos-bókunina.“ Í 12. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/45/EB um öryggisreglur og staðla fyrir farþegaskip er kveðið á um skyldu stjórnvalda í fánaríkinu til að láta fara fram skoðun á hverju nýju og gömlu skipi. Einungis skoðunarmenn frá stjórnvaldi fánaríkisins, viðurkenndri stofnun eða því aðildarríki sem fánaríkið hefur veitt heimild til að sjá um skoðanir skulu annast skoðanir þannig að unnt sé að tryggja að allar gildandi kröfur tilskipunarinnar séu uppfylltar. Frumvarpið gengur út frá þeim möguleika að Samgöngustofa geti falið öðrum að framkvæma skoðun. Með þessu móti á að vera tryggt að eftirlit sé í samræmi við alþjóðlegar kröfur. Hins vegar er ljóst að Samgöngustofa hefur ávallt því hlutverki að gegna að veita slíkar heimildir og hafa þá eftirlit með starfsemi þeirra aðila sem fara með eftirlit fyrir hönd stofnunarinnar.
    Í umsögn SI og SSI segir að mikilvægt sé að taka afstöðu til þess hver aðkoma Samgöngustofu sé þegar hún hefur falið öðrum að framkvæma skoðun. Telja samtökin að eftir að heimild var veitt til útvistunar skipaskoðunar með lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, hafi tvöfalt eftirlit verið við lýði. Telja samtökin ekki rökrétt að tvo aðila þurfi í upphafsskoðun skipa sem kalli á tvöfalt skoðunargjald. Í gildi eru reglugerð nr. 142/2004 um viðurkenningu flokkunarfélaga og um reglur og staðla fyrir stofnanir sem sjá um skipaeftirlit og -skoðun, reglugerð nr. 870/2018 um þjónustuaðila skipsbúnaðar og reglugerð nr. 94/2004 um starfshætti faggiltra skoðunarstofa skipa og búnaðar. Í frumvarpi þessu er áfram kveðið á um að ráðherra skuli setja reglugerð um starfsemi viðurkenndra skoðunaraðila. Við yfirferð regluverks sem byggist á ákvæðum frumvarpsins verða athugasemdir SI og SSI skoðaðar.
    Í umsögn Landhelgisgæslu Íslands er bent á að skv. 2. mgr. 34 gr. (áður 35. gr.) sé gert ráð fyrir því að Landhelgisgæslan geri samstarfssamning um hvernig eftirliti skv. 1. mgr. skuli háttað. Telur stofnunin ekki nauðsynlegt að setja slíkt ákvæði enda geti stofnunin sinnt eftirliti án aðkomu Samgöngustofu. Betur fari á því að það sé ákvörðun stofnananna að ákveða hvort gera skuli slíkan samning. Talið er mikilvægt að samningur af þessu tagi sé til staðar til að tryggja að verkaskipting milli stofnananna sé skýr og að ekki verði tvöfalt eftirlit. Gert var samkomulag af þessu tagi 12. desember 2008 þar sem fjallað er m.a. um verkaskiptingu. Er talið æskilegt að samkomulag af þessu tagi sé áfram til staðar.
    Þá bendir Landhelgisgæslan á að rétt sé að fella brott tilvísun til lögskráningarstjóra þar sem hann er ekki lengur við lýði eftir að rafræn lögskráning var tekin upp. Hefur það verið gert.
    Í umsögn SI og SSI er gerð athugasemd við ákvæði 45. gr. um stjórnvaldssektir (áður 47. gr.). Telja samtökin að slíkt íþyngjandi ákvæði muni hafa töluverð áhrif. Gæta þurfi þess að ganga ekki lengra en þörf er á. Er tekið undir þau orð í skýringum við 45. gr. að ákvæðið þurfi að vera skýrt og óæskilegt að öll brot, sama hversu smávægileg þau eru, geti varðað stjórnvaldssektum heldur beri að meta hvaða brot það eru sem helst koma til álita þegar slíkum úrræðum er beitt. Þá benda samtökin á að það skorti með öllu að tekin sé afstaða til málsmeðferðar í aðdraganda álagningar stjórnvaldssektar. Enn fremur sé óskýrt í hvaða tilvikum hægt er að leggja sektir á einstaklinga, eftir atvikum starfsmenn lögaðila, sem gerast brotlegir. Auk þessa sé ekki gerð tilraun til að rökstyðja fjárhæðir stjórnvaldssekta í frumvarpsdrögunum og þess beri að geta að lægri mörk sektarrammans, sér í lagi hjá einstaklingum, séu há. Leggja samtökin til að ákvæðið verði endurskoðað og metið hvort þörf er á álagningu stjórnvaldssekta vegna þeirra brota sem um ræðir, sér í lagi þar sem í frumvarpsdrögunum er jafnframt að finna refsiákvæði vegna brota gegn ákvæðum laganna. Mikilvægt þykir að heimild af þessu tagi sé til staðar einmitt af þeirri ástæðu að Samgöngustofa hefur einungis yfir að ráða heimild til að kæra brot til lögreglu samkvæmt gildandi lögum. Í tilvikum þar sem Landhelgisgæslan sinnir eftirliti er um löggæslu að ræða og kærir stofnunin brot til lögreglu. Þegar Samgöngustofa sinnir stjórnsýslueftirliti getur kæra til lögreglu verið sérstaklega íþyngjandi aðgerð og er rétt að stofnunin hafi yfir að ráða vægara úrræði sem stuðlar að skilvirkara eftirliti. Sams konar ákvæði er til að mynda að finna í 13. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015. Er þar að finna sömu fjárhæðir og í frumvarpsdrögum þessum. Eigi að síður má fallast á að neðri mörk stjórnvaldssekta sem lagðar eru á lögaðila megi vera lægri og hafa þau verið lækkuð úr 500.000 kr. í 200.000 kr. Telur ráðuneytið að neðri sektarmörk á einstaklinga séu ekki of há. Í 2. mgr. 47. gr. segir að varði meint brot bæði stjórnvaldssektum og refsingu meti Samgöngustofa hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar beri stofnuninni að vísa þeim til lögreglu. Er nánar tilgreint hvað teljist meiri háttar brot. Um meðferð mála varðandi álagningu stjórnvaldssekta gilda reglur stjórnsýsluréttar.
    Landhelgisgæsla Íslands bendir á að í 1. mgr. 47. gr. (áður 49. gr.) komi fram að Samgöngustofu sé heimilt að kæra brot á lögum og reglugerðum sem sett eru með stoð í þeim til lögreglu. Megi túlka ákvæðið þannig að um tæmandi talningu sé að ræða en raunin sé sú að allir geti lagt inn kæru til lögreglu. Telur stofnunin rétt að fella brott málsgreinina eða leggja skyldu jafnframt á Landhelgisgæsluna í ljósi hlutverks stofnunarinnar og eðlis hennar sem löggæslustofnunar. Sömuleiðis bendir stofnunin á að hún hafi sömu skyldur og Samgöngustofa skv. 48. gr. frumvarpsins varðandi það að leiðbeina grunuðum aðila um að hann eigi rétt á að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Brugðist hefur verið við ábendingu þessari með því að bæta Landhelgisgæslu Íslands við í 1. mgr. 47. gr. og 1. mgr. 48. gr. frumvarpsins.

6. Mat á áhrifum.
    Ekki er gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi kostnaðarauka fyrir ríkissjóð í för með sér. Eins og lýst hefur verið verður regluverk sem byggist á þeim lögum sem þessu frumvarpi er ætlað að leysa af hólmi tekið til endurskoðunar verði frumvarpið að lögum, sem kallar á vinnu af hálfu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Samgöngustofu. Ber þó að líta á það verkefni óháð þessu frumvarpi, sem hefur ekki kostnað í för með sér. Hins vegar gætu lítils háttar breytingar orðið á eftirfylgni með tilkomu heimildar til beitingar stjórnvaldssekta en ekki er gert ráð fyrir að heimildinni verði beitt í miklum mæli. Þá er ekki talið að frumvarpið hafi áhrif á atvinnulífið þar sem frumvarp hefur ekki að geyma nýjar kröfur til einstaklinga eða fyrirtækja

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um gildissvið. Skv. 1. mgr. nær það yfir íslensk skip sem í orðskýringum í 3. gr. eru skilgreind sem hvert það skip sem skráð er hér á landi og rétt hefur til að sigla undir íslenskum fána. Í 1. mgr. 3. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985, segir að svifskip teljist til skipa samkvæmt þeim lögum. Þetta ákvæði er ekki í frumvarpi þessu þar sem ekki þykir rétt að nefna þau sérstaklega. Falla þau undir gildissvið þessa frumvarps. Í 2. mgr. er gildissvið gagnvart erlendum skipum sem eru stödd innan landhelgi, innan efnahagslögsögu og á landgrunni Íslands skýrt.

Um 3. gr.

    Í ákvæði þessu er að finna skilgreiningar á hugtökum sem finna má í frumvarpinu. Hluti skýringa er úr lögum um eftirlit skipa, nr. 47/2003, og lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985. Önnur hugtök hafa verið skýrð eftir þörfum.
    Í 2. tölul. er skýring á farbanni. Er þar átt við þegar skip er kyrrsett í höfn þegar það hefur ekki haffærisskírteini eða önnur gild skírteini eða skip er óhaffært á ferð. Er nánar kveðið á um þetta í 42. gr.
    Í 8. tölul. eru íslensk skip skilgreind. Þar segir að það sé hvert það skip sem skráð er á Íslandi og rétt hefur til að sigla undir íslenskum fána. Skip eru ávallt af tilteknu þjóðerni sem sést af þeim þjóðfána sem þau sigla undir. Að þjóðarétti fer Ísland að meginstefnu eitt með lögsögu yfir íslensku skipi, hvort sem það er í innanlandssiglingum eða siglir á úthafi. Um þessi skip gilda íslensk lög almennt en önnur ríki geta viðhaft hafnarríkiseftirlit með skipunum. Að sama skapi teljast skip, sem eru ekki íslensk og sigla undir fánum erlendra ríkja, sem erlend skip, sbr. skýringu í 1. tölul.
    Í 11. tölul. eru skip skilgreind sem sérhvert fljótandi far nema annars sé getið. Í þessu felst að för eða tæki, sem á sjó fljóta, en eru ekki knúin af hreyfiafli í þeim sjálfum, teljast vera skip. Til skipa falla þannig önnur skip en flutningaskip, farþegaskip, herskip og fiskiskip, til að mynda prammar, dráttarskip, kapallagnaskip, seglskip o.fl.
    Í 14. tölul. er að finna skilgreiningu á þurrleiguskráningu. Í þurrleigu felst að sá sem tekur skip á leigu tekur yfir siglingalega stjórnun skips, ræður skipstjóra og áhöfn og sér um að útbúa skipið þannig að það geti sinnt verkefnum sem eru samfara rekstri þess.
    Aðrir þættir ákvæðisins þarfnast ekki skýringar og vísast til viðeigandi ákvæða þar sem hugtök koma fyrir í frumvarpinu.

Um 4. gr.

    Ákvæði um skipaskrá er að finna í 4. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985. Þær breytingar hafa verið gerðar að ekki er að finna upptalningu á atriðum sem skulu skráð í skipaskrá heldur er lagt til að ráðherra verði gert að mæla fyrir um þau atriði með reglugerð. Í gildandi lögum segir að í aðalskipaskrá skuli greina skipaskrárnúmer, heiti, einkennisbókstafi, umdæmisbókstafi og tölu, heimilisfang, gerð og aðalmál o.fl. Er ætlunin að fella upptalningar af þessu tagi brott úr lögum eins og kostur er og mæla fyrir um efnið í reglugerð. Með því að telja upp þau atriði sem skráð skulu í skipaskrá með reglugerð í stað þess að gera það með lögum verður stjórnvöldum gert kleift að uppfæra þessi atriði með tilliti til þróunar alþjóðlegra krafna.
    Önnur breyting sem lögð er til er að ákvæðið vísi til skipaskrár í stað aðalskipaskrár. Er þetta í samræmi við núverandi verklag en sérstakri aðalskipaskrá er ekki haldið úti. Þá er lögð til uppfærsla á gildandi lögum með hliðsjón af breytingum sem hafa orðið á skipaskrá sem nú er rafræn og uppfærð jafnóðum. Skipaskrá hvers árs er birt á vef Samgöngustofu auk þess sem mögulegt er að fletta upp í henni. Er lagt til að orðalagi verði breytt til samræmis við það þannig að Samgöngustofa skuli birta skipaskrá rafrænt.
    Loks er lagt til að 2. og 3. mgr. 3. gr. laga um skráningu skipa um bráðabirgðaskráningu verði færð í ákvæði þetta. Þykir staðsetning ákvæðisins eiga betur við þar. Þá er lagt til að ráðherra mæli fyrir um bráðabirgðaskráningu með reglugerð í stað þess að forstjóri Samgöngustofu setji reglur um hana.

Um 5. gr.

    Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 1. mgr. 1. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985, að öðru leyti en því að lagt er til að krafa um að íslenskir ríkisborgarar skuli hafa lögheimili hér á landi til að skrá skip verði felld brott.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um skráningu skipa sem smíðuð eru hér á landi. Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. mgr. 6. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985, að öðru leyti en því að lagt er til að bætt verði við að skipum sem eru smíðuð hérlendis og ber að skrá hér á landi skuli vera ætlað að hafa heimahöfn hér á landi. Er það gert í ljósi þess að hérlendis eru smíðuð skip fyrir erlenda aðila sem er ekki ætlað að fara á íslenska skipaskrá.
    Í 2. mgr. er fjallað um skráningarbeiðnir sem kveðið er á um í 2. og 3. mgr. 6. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985. Sú breyting er lögð til að beiðnir geti verið sendar rafrænt. Þá er lagt til að ráðherra mæli fyrir um upplýsingar sem skulu vera í skráningarbeiðni en ekki forstjóri Samgöngustofu. Er talið eðlilegra að slíkar kröfur komi fram í reglugerð.
    3. mgr. er samhljóða 4. mgr. 6. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985.

Um 7. gr.

    Fjallað er um skilyrði fyrir skráningu fiskiskipa á skipaskrá. Í 5. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, segir að við veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni komi aðeins til greina þau fiskiskip sem hafa haffærisskírteini og skrásett eru á skipaskrá Samgöngustofu eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum. Skulu eigendur þeirra og útgerðir fullnægja skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998. Í 1. gr. síðarnefndu laganna eru þeir aðilar taldir upp sem mega stunda fiskveiðar og vinnslu sjávarafla um borð í skipum í fiskveiðilandhelgi Íslands. Er sömu aðilum heimilað að skrá fiskiskip á skipaskrá. Er rétt að geta þess að Samgöngustofa heldur ekki úti sérstakri skrá fyrir báta undir 6 metrum eins og vísað er til í 5. gr. laga um stjórnfiskveiða, nr. 116/2006. Hins vegar verður stofnunin við skráningarbeiðnum aðila sem vilja skrá skip sem eru af þessari stærðartegund í skipaskrá.

Um 8. gr.

    Fjallað um þurrleiguskráningu skips sem skráð er á íslenska skipaskrá á erlenda skipaskrá. Skv. 1. mgr. nær ákvæðið nær til allra íslenskra skipa sem falla undir lögin. Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra skuli mæla nánar fyrir um skilyrði þess að heimild til þurrleiguskráningar sé veitt. Í gildandi lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985, eru þau gögn og upplýsingar sem fylgja skulu umsókn til heimildar til þurrleiguskráningar talin upp í sjö stafliðum í 1. mgr. 1. gr. a en auk þess kemur fram í áttunda staflið ákvæðisins að ráðherra geti kveðið á um aðrar upplýsingar í reglugerð sem skuli fylgja umsókn um heimild til þurrleiguskráningar. Þykir þessi upptalning eiga betur heima í reglugerðarformi. Er það til einföldunar að skilyrði séu öll á einum stað.
    Í 2. mgr. 1. gr. a laga um skráningu skipa er kveðið á um skilyrði í sex stafliðum sem ráðuneytið, sem fer með málefni sjávarútvegs, skal staðfesta að séu uppfyllt auk heimildar fyrir ráðherra málaflokksins til að kveða á um önnur skilyrði í reglugerð sem skuli vera uppfyllt. Að höfðu samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að halda ákvæðinu í óbreyttri mynd.
    Þá eru tillögur um fánareglur skipa sem skráð eru með þessum hætti í 3. mgr. Skal skipið fylgja lögum og reglum sem gilda í ríkinu sem það er skráð þurrleiguskráningu. Þá er mælt fyrir um lok þurrleiguskráningar í 4.–6. mgr.

Um 9. gr.

    Kveðið er á um þurrleiguskráningu á Íslandi í 1. mgr. og mælt fyrir um kröfur sem gerðar eru til skipa sem skráðar eru með þessum hætti í 2. mgr. Þá segir að ráðherra skuli með reglugerð mæla fyrir um skilyrði þess að skráning af þessu tagi fari fram. Í 3. mgr. 1. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985, eru eftirfarandi atriði og upplýsingar nefndar sem leggja skuli fram við umsókn: Upplýsingar um skipið, skráðan eiganda í frumskráningarríki og fulltrúa hans, leigutaka og leigutíma, ásamt upplýsingum um hvar skipið er frumskráð og kenninúmer skipsins (IMO-númer). Þá skal með umsókn um þurrleiguskráningu fylgja afrit þurrleigusamnings á íslensku eða ensku, staðfesting frá skipaskrá frumskráningarríkis um að skipið megi sigla undir fána annars ríkis á leigutímanum og útskrift úr skipaskrá frumskráningarríkis sem sýnir hver er skráður eigandi skipsins. Rétt þykir að mælt sé fyrir um þessi atriði í reglugerð frekar en í lögum og að ráðherra geti auk þess sett frekari skilyrði ef þörf er talin á því. Loks er kveðið á um það hvenær skip, sem skráð er þurrleiguskráningu, skuli afskráð af skipaskrá. Eru þetta sambærileg skilyrði og talin eru upp í 3. mgr. 1. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985.

Um 10. gr.

    Í ákvæði þessu, sem byggist á 2. mgr. 5. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985, er kveðið á um heimild forstjóra Samgöngustofu til að veita eiganda skips einkarétt á heiti skips sem skráð er á Íslandi og á einkennum skipsins. Sú breyting er lögð til að í stað þess að mæla fyrir um að Samgöngustofa skuli birta einkaleyfisveitingar í Lögbirtingablaði og árlegri skipaskrá, eins og segir í 2. mgr. 5. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985, er í 4. mgr. þessarar greinar lagt til að Samgöngustofa birti þessar upplýsingar í skipaskrá. Er talið fullnægjandi að hægt sé að nálgast þessar upplýsingar rafrænt og ekki talin þörf á því að tilkynning fari fram í Lögbirtingablaði. Þá er kveðið á um að Samgöngustofa veiti þennan rétt en ekki forstjóri stofnunarinnar.

Um 11. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar. Byggist það á 2. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985.

Um 12. gr.

    Í ákvæði þessu er mælt fyrir um þjóðernis- og skráningarskírteini. Í 7. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985, eru upplýsingar þær sem eiga að vera í slíkum skírteinum talin upp, þ.e. aðalmál skips, brúttó- og nettó-rúmlestatala, gerð, heiti, heimahöfn, skráningarnúmer, einkennisbókstafir, nafn eiganda eða eigenda og hvenær eignarskilríki er gefið út, nafn skipstjóra og skipstjórnarheimild, hvenær hún er dagsett og hvar gefin út, svo og sé um fiskiskip að ræða umdæmisbókstafi og tölu. Með ákvæði þessu er lagt til að ráðherra mæli með reglugerð fyrir um þetta efni. Í 4. mgr. er kveðið á um að breytingar á þjóðernisskráningu á meðan skip er á siglingu. Þá er sú breyting gerð frá eldri lögum að það er Samgöngustofa en ekki forstjóri Samgöngustofu sem gefur út skírteini. Að öðru leyti hefur ákvæðið að geyma efnisreglur sem finna má í 2. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985.
    Í 1. mgr. 10. gr. laga um skráningu skipa segir að þegar skipstjóraskipti verða á íslensku skipi sem þjóðernis- og skrásetningarskírteini hefur hlotið riti lögskráningarstjóri nafn skipstjóra þess er við tekur á þjóðernis- og skrásetningarskírteini og geti jafnframt skipstjórnarheimildar hans. Sama gildir um fulltrúa Íslands erlendis, sbr. 9. gr., ef skipstjóraskipti verða í erlendri höfn. Sams konar ákvæði er ekki að finna í frumvarpinu eins og rakið hefur verið í 5. kafla greinargerðarinnar.

Um 13. gr.

    Í ákvæði þessu er kveðið á um þjóðernis- og skrásetningarskírteini til bráðabirgða en það byggist á 9. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985. Ráðherra er falið að kveða á um inntak þeirra í reglugerð. Þá er í 3. og 4. mgr. kveðið á um útgáfu þjóðernis- og skrásetningarskírteinis til bráðabirgða þegar skip sem er statt erlendis og þjóðernis- og skrásetningarskírteini hefur glatast. Sambærilega heimild er að finna í 2. málsl. 5. tölul. 11. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985. Er sú breyting gerð að í stað þess að fulltrúi Íslands gefi út skírteinið sé það Samgöngustofa sem geri það en geti falið fulltrúa utanríkisþjónustu Íslands að annast útgáfu ef þess er þörf.

Um 14. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um skráningu þegar nýr eigandi verður að skráðu skipi eða skipshluta. Kveðið er á um þetta í 12. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985. Í 1. mgr. þeirrar greinar segir að þegar nýr eigandi að skráðu skipi eða skipshluta lætur þinglýsa eignarheimild sinni skuli hann í viðurvist þinglýsingarstjóra birta beiðni um skráningu á viðeigandi eyðublaði. Þinglýsingarstjóri skuli innan þriggja virkra daga senda Samgöngustofu skráningarbeiðnina ásamt endurriti af hinni þinglesnu eignarheimild. Gerð er breyting að því leyti að hinn nýi eigandi ber ábyrgð á því að þinglýsing fari fram og skili skráningarbeiðni til Samgöngustofu ásamt endurriti af hinni þinglesnu eignarheimild í stað þinglýsingarstjóra. Í framkvæmd hefur þetta ekki verið gert og er talið að það eigi að vera á ábyrgð eigenda skips að annast breytingu á skráningu. Þá er í 2. mgr. kveðið á um að eigenda sé óheimilt að lögskrá áhöfn fyrr en skráningu er lokið og í 3. mgr. er kveðið á um að fyrri eigandi beri ábyrgð á gjöldum vegna skipsins þar til umskráning hefur farið fram.

Um 15. gr.

    Í ákvæði þessu er kveðið á um breytingu á skráningu þegar heiti eða heimilisfangi skips er breytt. Kveðið er á um þetta efni í 13. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985.

Um 16. gr.

    Ákvæði þetta byggist á 15. og 16. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985. Bætt er við nýjum tölulið, 1. tölul., sem kveður á um að afskrá skuli skip þegar tilkynnt er um fyrirhugaða skráningu á skipaskrá annars ríkis. Skýrist þetta af sjálfu sér þar sem eiganda skips er heimilt að skrá skip í öðrum löndum, t.d. ef það er selt úr landi. Í 4. tölul. 1. mgr. 15. gr. gildandi laga segir að afskrá skuli skip ef það hefur legið ónotað í höfn eða skipalægi eða staðið á landi í 3 ár samfleytt hérlendis eða erlendis. Í 5. tölulið segir að afskrá skuli skip ef um opinn bát er að ræða og aðalskoðun hefur ekki farið fram á honum í 5 ár samfleytt. Í frumvarpinu er lagt til að þessir töluliðir verði sameinaðir og einfaldaðir þannig að afskráning fari fram ef aðalskoðun hefur ekki farið fram á skipi í fimm ár samfleytt. Þetta er í samræmi við núverandi verklag Samgöngustofu sem hefur tíðkast um árabil. Erfitt er að hafa eftirlit með því hvort skip liggi ónotað í höfn eða hafi staðið í þrjú ár samfleytt þar sem upplýsingar um notkun skipa eru ekki vaktaðar af Samgöngustofu þó að þær geti verið að finna í gögnum Vaktstöðvar siglinga. Er því eðlilegast að afskráning sé miðuð við eftirlit Samgöngustofu á skipum.

Um 17. gr.

    Ákvæði þetta steypir saman 14. og 17. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985, í eina grein. Í frumvarpinu er kveðið á um að senda megi skráningarbeiðnir og tilkynningar rafrænt.

Um 18. gr.

    Í ákvæði þessu er mælt fyrir um leiðarbréf sem Samgöngustofa getur gefið út þegar sérstök ástæða er til. Orðalagi 19. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985, hefur verið breytt þannig að í stað þess að forstjóri Samgöngustofu veiti heimild til að fara hér hafna á milli er orðalag víkkað út þannig að heimild geti verið veitt fyrir skip til að sigla áður en það er skráð á skipaskrá. Endurspeglar það til að mynda framkvæmd sem nú tíðkast að skip sem eru nýsmíði geti fengið leiðarbréf til reynslusiglinga.

Um 19. gr.

    Í ákvæði þessu er kveðið á um merkingu skipa. Ákvæðið kemur í stað ákvæða í lögum um einkenning fiskiskipa, nr. 31/1925. Í 1. gr. laganna er kveðið á um merkingu skipa sem ætluð eru til fiskveiða en ekki almennt um skip. Í stað þessa ákvæðis er lagt til í 1. mgr. að merkja skuli skip í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. 2. mgr. er efnislega eins og 2. gr. laga um einkenning fiskiskipa, nr. 31/1925, en með einfölduðu orðalagi.

Um 20. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um mælingu skipa. Með ákvæðinu eru 2., 6. og 7. gr. laga um skipamælingar, nr. 146/2002, settar í eitt ákvæði.
    Í 1. mgr. er vísað til alþjóðasamþykktar um mælingu skipa, með síðari breytingum (e. International Convention on Tonnage Measurement of Ships). sem undirrituð var í London 23. júní 1969. Samningurinn hefur verið fullgiltur af Íslands hálfu og er birtur með auglýsingu nr. 11/1987 um gildistöku alþjóðasamnings um mælingar skipa. Með samningnum var í fyrsta skipti sett fram með árangursríkum hætti samræmt alþjóðlegt kerfi til að reikna út tonnatölu skipa. Tonnatöluútreikningar eru m.a. notaðir til að ákvarða mönnun og öryggisreglur fyrir skip.
    Í 2. mgr. er vísað til alþjóðareglna um mælingu skipa, gefnum út af Þjóðabandalaginu 30. júní 1939, eins og mælt er fyrir í samningi, undirrituðum í Ósló 10. júní 1947. Samningur þessi (e. Convention for a Uniform System of Tonnage Measurement of Ships – Oslo Convention) hefur verið fullgiltur hér á landi, sbr. auglýsing um fullgildingu samningsins nr. 80/1948 og auglýsingu um staðfestingu breytinga nr. 18/1967. Samningurinn mælir fyrir um samræmdar aðferðir við mælingar skipa og samkvæmt honum skal nota brúttórúmlestir, brl. (gross register tonnage GRT), við mælingar skipa. Ákvæðið þarfnast að öðru leyti ekki skýringar.

Um 21. gr.

    Ákvæði þetta byggist á 3. gr. laga um skipamælingar, nr. 146/2002. Það þarfnast ekki skýringar.

Um 22. gr.

    Ákvæði þetta varðar nýsmíði skipa. Fyrirmynd ákvæðisins er að finna í 4. gr. laga um skipamælingar, nr. 146/2002 og 6. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003 sem kveður á um eftirlit með nýsmíði skips. Er orðalagi 22. gr. hagað þannig að þar sé að finna ákvæði um tilkynningar vegna nýsmíði skipa sem varða bæði mælingu skips og eftirlit með smíði þess.

Um 23. gr.

    Ákvæði þetta er óbreytt frá 5. gr. laga um skipamælingar, nr. 146/2002. Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 24. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um smíði, búnað, mengunarvarnir skipa o.fl. Um þessa þætti er mikið og ítarlegt regluverk í samningum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og í gerðum sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Eru þessar reglur jafnframt endurskoðaðar með reglulegu millibili. Af þeim sökum er kveðið á um meginreglu um að skip skuli smíðað og búið út á þann hátt að öryggi sé tryggt eins og kostur er með tilliti til notkunar og þeirra verkefna sem því er ætlað á hverjum tíma. Í 2. mgr. eru taldir upp þeir þættir sem ráðherra er falið að setja nánari reglur um, sem skip skulu uppfylla til að tryggja öryggi skipverja, farþega, skips og farms sem og vernd gegn mengun. Er hér um sambærilegt ákvæði að ræða og í 2. mgr. 3. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, en með breyttu orðalagi. Í 3. mgr. er lagt til að ráðherra skuli mæla fyrir um hvaða gögn beri að hafa um borð í skipum. Í 4. mgr. er vísað til þess að skip skuli jafnframt smíðuð og búin í samræmi við lög um reglur um varnir gegn mengun hafs og stranda. Í dag gilda lög nr. 33/2004 um þessi efni.

Um 25. gr.

    Í ákvæði þessu er kveðið á um aðbúnað og vinnuskilyrði og byggist það á 4. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003 en sú grein hefur eingöngu að geyma reglugerðarheimild um þessi efni. Lagt er til að 1. málsl. hafi að geyma meginreglu um hönnun og útbúnað skipa. Í 2. málsl. er að finna reglugerðarheimild til að mæla fyrir um vinnusvæði, vistarverur, og hönnun og merkingar vinnslubúnaðar, til viðbótar við þá þætti sem taldir eru upp í 4. gr. laga um eftirlit með skipum.

Um 26. gr.

    Í ákvæði þessu er kveðið á um eftirlit með nýsmíði skips. Það byggist á 6. gr. um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Ákvæðin tvö eru sambærileg en í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar þannig að Samgöngustofa hefur heimild til að líta til annarra reglna þegar íslenskum reglum sleppir eða ef skipaeigandi kýs að láta smíða skip eftir reglum viðurkenndra flokkunarfélaga. 2. málsl. 6. gr. laga nr. 47/2003 er færður í 22. gr. frumvarpsins um tilkynningu um smíði skips.

Um 27. gr.

    Ákvæði þetta byggist á 7. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, um breytingar á skipi. Við 1. mgr. 7. gr. bætist við að ekki megi gera breytingar á skipi sem hefur áhrif á aðbúnað farþega án samþykkis Samgöngustofu. Er þetta gert til að tryggja að breytingar af þessu tagi séu til samræmis við reglur um öryggi farþegaskipa.

Um 28. gr.

    Ákvæði þetta byggist á 8. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 29. gr.

    Ákvæði þetta er óbreytt frá 9. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003.

Um 30. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um skoðun skipa. Skv. 1. mgr. eiga öll skip, sem notuð eru í atvinnuskyni, að sæta skoðun Samgöngustofu samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Þó er ráðherra heimilt að undanskilja tilteknar tegundir skipa frá skoðun. Getur hér verið um að ræða litla báta og skemmtibáta. Ráðherra er einnig heimilt að kveða á um skoðanir skipa sem eru ekki notuð í atvinnuskyni.
    Aðrir þættir ákvæðisins þarfnast ekki skýringar.

Um 31. gr.

    Í ákvæði þessu er kveðið á um framkvæmd skoðunar. Byggist ákvæðið á 12. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003.

Um 32. gr.

    Í ákvæði þessu er fjallað um aukaskoðun skipa og hvenær hún skuli fara fram. Ákvæðið er samhljóða 13. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, að öðru leyti en því að lokamálsliður 4. tölul. 13. gr. er ekki tekinn upp í frumvarpið. Í 4. tölul. segir að aukaskoðun skuli fara fram þegar tilteknir aðilar, þar á meðal skipverjar, krefjist skoðunar eða leggi fram kvörtun nema Samgöngustofa telji slíka kröfu eða kvörtun ekki á rökum reista. Samgöngustofu er óheimilt að veita upplýsingar um það hver hafi lagt fram slíka kröfu eða kvörtun. Í gildandi lögum segir síðan að útgerðarmaður eigi þó rétt á þessum upplýsingum hafi krafa eða kvörtun reynst ástæðulaus. Lagt er til að þessi málsliður verði ekki tekinn upp í frumvarpið. Verður ekki séð að þessi málsliður sé í anda markmiðs frumvarpsins að stuðla að öryggi íslenskra skipa og áhafna þeirra eða farþega. Þá gildir enn 63. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, um haffæri skips. Í 1. mgr. 63. gr. segir að ef meiri hluti skipshafnar ber sig upp við skipstjóra yfir því að skipið sé ekki haffært í ferð þá sem því er ætluð þá er skipstjóra skylt að láta fara fram aukaskoðun á skipinu samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum um eftirlit með skipum og reglugerðum sem settar kunna að vera samkvæmt þeim lögum. Í 3. mgr. sömu greinar segir að komi fram við skoðunina að umkvartanir um óhaffæri skipsins höfðu eigi við skynsamleg rök að styðjast skulu þeir sem kærðu greiða kostnaðinn við skoðunina og skaðabætur svo sem segir í 60. gr. laganna, nú 23. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, um bótaábyrgð starfsmanns.

Um 33. gr.

    Í þessu ákvæði er fjallað um hafnarríkiseftirlit. Eins og komið hefur fram gilda að meginstefnu til lög þess ríkis, hvers þjóðfána skip sigla undir, um skip. Önnur ríki á innri markaði Evrópu viðhafa hafnarríkiseftirlit til að tryggja að farið sé að alþjóðlegri löggjöf og viðeigandi löggjöf EES-svæðisins um siglingaöryggi, siglingavernd, verndun sjávarumhverfis og aðbúnað og vinnuskilyrði um borð í skipum, óháð því undir hvaða fána þau sigla.
    Samgöngustofa sinnir hafnarríkiseftirlit fyrir hönd íslenska ríkisins. Í 9. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012, segir að stofnunin skuli meðal annars annast eftirlit með skipum og mál er varða varnir gegn mengun sjávar að því leyti sem slíkt varðar skip og búnað þeirra.
    Í þessu ákvæði er vísað til Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit (e. Paris Memorandum of Understanding on Port State Control – Paris MOU) sem undirritað var í París 26. janúar 1982. Samkomulagið er samkomulag ríkja um hafnarríkiseftirlit og upplýsingaskipti. Tilgangur þess er að stemma stigu við siglingum skipa sem uppfylla ekki alþjóðakröfur um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti áhafna kaupskipa, atvinnuréttindi skipverja og mengun frá skipum. Samkvæmt samkomulaginu er aðildarríkjum gert að skoða a.m.k. 25% af öllum kaupskipum sem hafa viðkomu í höfnum aðildarlandanna. Aðild Íslands var samþykkt á aðalfundi Parísarsamkomulagsins í maí 2000. Ísland var 19. aðildarríkið frá og með 1. júlí 2000 en þau eru nú 27.

Um 34. gr.

    Ákvæði þetta byggist á 2. og 3. mgr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. 1. mgr. ákvæðisins er að finna í orðskýringum í 9. tölul. 3. gr. þessa frumvarps.

Um 35. gr.

    Í þessu ákvæði er fjallað um haffærisskírteini. Ákvæðið er samhljóða 16. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, að því undanskildu að í stað þess að fram komi að Samgöngustofa úrskurði segir að Samgöngustofa ákveði hvort skilyrðum laga og reglna um smíði, búnað og örugga starfsemi skips er fullnægt og hvort útgáfa skírteina, áritun eða endurnýjun skírteina eigi sér stað. Er það til samræmis við hugtakanotkun stjórnsýsluréttar.

Um 36. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um það hvenær skip skuli telja óhaffært. Í 1. tölul. 17. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, segir að það skuli gert hafi skip ekki gilt viðeigandi skírteini eða haffærisskírteini samkvæmt reglum settum samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykkta og/eða samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Í 2. tölul. er sambærileg tilvísun til alþjóðasamþykkta og EES-samningsins.
    Í 1. og 2. tölul. 36. gr. er orðalagi breytt þannig að vísað er til reglugerðar sem ráðherra setur eða ákvæða alþjóðasamninga. Líkt og fjallað er um í 4. kafla greinargerðarinnar að framan þá eru tilvísanir til EES-samningsins fjarlægðar og ráðgert að ákvæði samningsins er varðar skip séu innleidd með stjórnvaldsfyrirmælum en að tilvísanir til ákvæða annarra alþjóðasamþykkta eða – samninga séu áfram í lagatexta.

Um 37. gr.

    Ákvæði þetta er óbreytt frá 18. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 38. gr.

    Ákvæði þetta byggist á 19. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Með frumvarpi þessu eru gerðar breytingar að því leyti að ekki er talað um umdæmisstjóra Samgöngustofu heldur um Samgöngustofu. Þá er fellt brott að lögskráningarstjórar skuli tilkynna Samgöngustofu um hugsanlegt brot á reglum eða grun um að skip sé ekki haffært. Í lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, segir í 1. mgr. 3. gr. að tollstjórar séu lögskráningarstjórar. Í ákvæði þessu segir að tollgæslumenn skuli gera Samgöngustofu viðvart ef þeir hafa ástæðu til að ætla að skip sé ekki haffært. Þykir það fullnægjandi að nefna þá.

Um 39. gr.

    Ákvæði þetta er óbreytt frá 5. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 40. gr.

    Ákvæði þetta hefur að geyma reglugerðarheimild, sem áður var að finna í 3.–4. mgr. 1. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Með öðrum skipum er átt við skip sem eru ekki skráð á skipaskrá, til að mynda skemmtibáta eða skip sem eru styttri en 6 metrar.

Um 41. gr.

    Ákvæði þetta byggist á 5. mgr. 1. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Í frumvarpi þessu er reglugerðarheimild skýrð þannig að skýrt sé að ráðherra sé heimilt að setja í reglugerð ákvæði um leyfilegan fjölda farþega um borð í farþegaskipum og farsvið farþegaskipa. Ráðherra hefur í dag heimild til að setja reglugerðir um eftirlit með skipum að því leyti sem nauðsynlegt er samkvæmt samningi um Evrópskt efnahagssvæðið en reglur um þessi efni er að finna í slíkum gerðum. Hins vegar er talið rétt fyrir skýrleika sakir að þetta sé meðal þess sem nefnt er í ákvæði þessu.

Um 42. gr.

    1. og 2. mgr. eru efnislega samhljóða 20. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, en tilvísanir til reglugerða og alþjóðasamþykkta eru lagfærðar.
    3. mgr. er samhljóða 1. mgr. 23. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, um brottfall farbanns. Samgöngustofa tekur ákvörðun um afléttingu farbanns. Með orðalaginu „þegar í stað“ er gerð sú krafa að meðferð ákvörðunar um afléttingu farbanns sé í forgangi. 2. mgr. 23. gr. laga um eftirlit með skipum sem kveður á um að forstjóri Samgöngustofu og starfsmenn stofnunarinnar, sem til þess hafa umboð, geti lagt á farbann. Þetta ákvæði er ekki tekið upp í frumvarpið. Vísast til umfjöllunar hér að framan um að í frumvarpinu er almennt vísað til Samgöngustofu en ekki sérstaklega til forstjóra stofnunarinnar eða starfsmanna hennar.

Um 43. gr.

    Ákvæði þetta byggist á 22. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 44. gr.

    Í ákvæði þessu er kveðið á um þjónustugjöld Samgöngustofu. Er stofnuninni heimilað að innheimta þjónustugjöld vegna þessara laga í samræmi við 13. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012, um þjónustugjöld samkvæmt gjaldskrá. Í 1. mgr. 13. gr. eru listaðir upp í 16 töluliðum þeir þættir þar sem stofnuninni er heimilt að innheimta þjónustugjöld, þar á meðal vegna útgáfu skírteina, skráningar og afskráningar skipa og vegna útgáfu skipsskjala, skoðana á skipum og búnaði þeirra, eftirlits með viðgerðum og nýsmíði og breytinga þeirra. Í 2. mgr. sömu greinar er útskýrt hvað skuli liggja að baki þjónustugjöldum.
    Í 2. mgr. er vísað til ákvæðis 15. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála um að gjöld Samgöngustofu séu aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.
    Sú leið er farin í frumvarpi þessu að vísa til ákvæða í lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun sveitarfélaga, í stað þess að hafa sérákvæði í þessu frumvarpi um gjaldskrárheimildir stofnunarinnar. Er það gert til að ekki séu lagaákvæði um sama efni í tveimur mismunandi lagabálkum. Þá er talið að gjaldskrárákvæði laga nr. 119/2012 nái yfir alla þá þætti þar sem Samgöngustofa hefur hlutverki að gegna samkvæmt lögum þessum, verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Um 45. gr.

    Í þessu ákvæði segir að Samgöngustofa geti lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn nánar tilteknum ákvæðum þessa frumvarps. Mikilvægt er að í ákvæði sem heimilar álagningu stjórnvaldssekta komi skýrt fram hvaða athafnir eða athafnaleysi geta leitt til þeirra. Óæskilegt er að öll brot, sama hversu smávægileg þau eru, geti varðað stjórnvaldssektum, heldur ber að meta hvaða brot það eru sem helst koma til álita þegar beitt er slíkum úrræðum.
    Lagt er til að hægt verði að leggja stjórnvaldssektir á einstaklinga og lögaðila. Lagt er til að stjórnvaldssektir sem unnt er að leggja á einstaklinga geti numið frá 100.000 kr. til 500.000 kr. en sektir sem unnt er að leggja á lögaðila geti numið frá 200.000 kr. til 2.000.000 kr. Um er að ræða sömu sektarfjárhæðir og heimilt er að leggja á í lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja.
    Í 3. mgr. er að finna upptalningu þeirra sjónarmiða sem Samgöngustofa skal hafa í huga við ákvörðun sekta. Skal stofnunin m.a. taka tillit til þess hvað brot hefur staðið lengi yfir, samstarfsvilja hins brotlega og hvort um ítrekað brot er að ræða. Þá er einnig lagt til að heimilt sé að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti og skuli upphæð sektarinnar þá ákveðin sem allt að tvöfalt margfeldi af þeim hagnaði sem viðkomandi hefur aflað sér með broti gegn lögunum, þó innan ramma 2. mgr.
    Í 6. mgr. er mælt fyrir um að ákvörðun um beitingu stjórnvaldssekta skuli fara fram óháð því hvort lögbrot séu framin af ásetningi eða gáleysi. Ekki er gerð krafa um stórfellt gáleysi enda verður að telja það réttlætanlegt í ljósi þeirra hagsmuna sem lögunum er ætlað að vernda. Sjónarmið um ásetning eða gáleysi munu þó hafa áhrif á ákvörðun um upphæð stjórnvaldssektar.
    Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringar.

Um 46. gr.

    1. mgr. byggist á ákvæðum sem er að finna í þeim lögum sem frumvarpi þessu er ætlað að leysa af hólmi. Er refsiramminn, tvö ár, hinn sami og er að finna í 29. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Þá er þess getið að ef verknaður er refsiverður samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga eigi þau lög jafnframt við. Ákvæði almennra hegningarlaga um tilraun og hlutdeild eiga jafnframt við. Í 2. mgr. er bætt við heimild til að gera lögaðila fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga. Í 3. mgr. er vísað til þess að ákvæði áfengislaga, nr. 75/1998, eigi jafnframt við ef menn eru undir áhrifum áfengis við störf sín.

Um 47. gr.

    Í þessari grein er að finna almenna heimild Samgöngustofu til að kæra til lögreglu brot á lögunum, verði frumvarpið óbreytt að lögum, eða reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim. Byggist ákvæðið á sambærilegum ákvæðum í öðrum settum lögum. Rétt er að benda á að heimild Samgöngustofu til að deila gögnum með lögreglu og ákæruvaldi kunna að takmarkast af öðrum ákvæðum frumvarpsins.

Um 48. gr.

    Í þessari grein er fjallað um rétt einstaklinga til að varpa ekki sök á sjálfan sig. Það er talinn þáttur í réttlátri málsmeðferð skv. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, að þeim einstaklingi sem sakaður er um refsiverða háttsemi í skilningi þess ákvæðis, sé ekki skylt að tjá sig eða láta í té upplýsingar sem leitt geta til sakfellingar hans. Að svo miklu leyti sem slíkur réttur á við um meðferð stjórnsýslumála, er talið rétt að kveða á um slíkan rétt í lögum. Er átt við meðferð máls og rannsókn þess á stjórnsýslustigi. Þagnarréttur hins grunaða tekur aðeins til upplýsinga sem haft geta þýðingu fyrir ákvörðun um það brot sem honum er gefið að sök. Hann getur því ekki neitað að tjá sig um önnur atriði. Ákvæðið tekur ekki til lögaðila.

Um 49. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.