Ferill 314. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 350  —  314. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (tryggingagjald o.fl.).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.I. KAFLI
Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 2. gr. skal almennt tryggingagjald vera 4,65% af gjaldstofni skv. III. kafla í staðgreiðslu á árinu 2021 og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2022 vegna tekna ársins 2021.

II. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.
2. gr.

    Í stað orðsins „lágmarksellilífeyrir“ í 4. málsl. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laganna kemur: lágmarksörorkulífeyrir.

3. gr.

    Í stað „600.000 kr.“ í 7. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: 1.500.000 kr.

4. gr.

    Við 1. mgr. 26. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Leiði skipting söluverðs, í sama hlutfalli og hinar seldu eignir eru metnar til fasteignamats, til verulega óeðlilegrar niðurstöðu sem ekki endurspeglar markaðsverð hinna seldu eigna skal miðað við markaðsverð þeirra á söludegi í stað fasteignamats.

5. gr.

    Við 28. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Styrkur í formi niðurgreiðslu frá ríkinu vegna greiðsluþátttöku í fargjöldum innan lands fyrir einstaklinga með búsetu utan höfuðborgarsvæðisins.

6. gr.

    Í stað orðsins „fasteignir“ í 1. málsl. a-liðar 1. mgr. 58. gr. a laganna kemur: íbúðir.

7. gr.

    Lokamálsliður 1. mgr. 101. gr. laganna orðast svo: Ríkisskattstjóri skal jafnframt birta reglur og ákvarðanir sem hann metur að hafi þýðingu fyrir skattaðila og er eftir atvikum heimilt að gefa út og hafa til sölu fyrir almenning yfirlit yfir skatta, tolla og gjöld á sviði ríkisskattstjóra eða láta í té sérþjónustu samkvæmt gjaldskrá sem staðfest skal af ráðherra og birta í B-deild Stjórnartíðinda.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða LXVI í lögunum:
     a.      Í stað orðsins „álagningarskrá“ kemur: álagningarskrár.
     b.      Í stað orðanna ,,árinu 2020“ kemur: á árunum 2020 og 2021.
     c.      Í stað orðanna „vegna tekna ársins 2019“ kemur: vegna tekjuáranna 2019 og 2020.
     d.      Við ákvæðið bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eftir atvikum gildir hið sama um framlagningu skattskráa á árinu 2020 og 2021.

III. KAFLI
Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
9. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 46. gr. er ríkisskattstjóra ekki skylt á árunum 2020 og 2021 að leggja fram virðisaukaskattsskrár.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996.
10. gr.

    Í stað orðanna „árs“ og „ára“ í 1. og 2. málsl. 3. mgr. 17. gr. laganna kemur: greiðslutímabils; og: greiðslutímabila.

11. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða III við lögin fellur brott.

V. KAFLI
Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993.
12. gr.

    Í stað orðanna „sem knúnar eru rafhreyfli að öllu leyti“ í r-lið 1. tölul. 4. gr. laganna kemur: og önnur ökutæki til vöruflutninga í atvinnuskyni sem eingöngu eru knúin metani, metanóli, rafmagni eða vetni.

13. gr.

    Í stað orðanna ,,árinu 2020“ í 1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða XVIII í lögunum kemur: á árunum 2020 og 2021.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988.
14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      F-liður fellur brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Vegna eftirfarandi ökutækja skal greiða lágmark bifreiðagjalds skv. 2. gr.:
              a.      Ökutækja sem framleidd eru og skráð með metan eða metanól sem aðalorkugjafa eða hefur verið breytt þannig að þau geti nýtt metan og breytingin hlotið vottun skoðunarstöðvar.
              b.      Ökutækja samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga sem knúin eru vetni eða rafhreyfli að öllu leyti.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Undanþága frá gjaldskyldu og lágmark bifreiðagjalds.

15. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Hafi bifreiðagjald ekki verið greitt á eindaga skal greiða dráttarvexti, sbr. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
16. gr.

    Við 32. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna bætist: iðnmeistara og hönnuða.

17. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir 1. mgr. gildir 5. gr. frá og með 1. september 2020 og 12. gr. öðlast gildi 1. janúar 2021.
    Ákvæði 3. gr. kemur til framkvæmda við álagningu 2021 vegna tekna ársins 2020.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og varðar ýmsar breytingar á lögum um skatta og gjöld, m.a. breytingar á tryggingagjaldi, tekjuskatti, vörugjaldi og bifreiðagjaldi auk breytingar og samræmingar vegna breytinga sem hafa orðið á öðrum lögum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni einstakra ákvæða frumvarpsins er mismunandi. Frumvarpið má meðal annars rekja til aðgerða ríkisstjórnarinnar sem ætlað er að stuðla að félagslegum og efnahagslegum stöðugleika í tengslum við lífskjarasamninginn. Í frumvarpinu er lögð til tímabundin lækkun á tryggingagjaldi auk nauðsynlegra leiðréttinga og annarra breytinga á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Einnig er um að ræða breytingar og samræmingu vegna breytinga sem hafa orðið á öðrum lögum, undanþágu ökutækja sem knúin eru metani, metanóli, rafmagni eða vetni til vöruflutninga frá vörugjaldi og greiðslu á lágmarksbifreiðagjaldi í tilfelli rafmagns- og vetnisbifreiða o.fl.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Tímabundin lækkun tryggingagjalds.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við forsendur lífskjarasamningsins er lagt til að almenna tryggingagjaldið verði lækkað tímabundið í eitt ár, eða í staðgreiðslu á árinu 2021 og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2022 vegna tekna ársins 2021, úr 4,90% í 4,65%. Mun lækkun tryggingagjalds jafngilda því að gjaldið verði ekki lagt á stofn sem nemur kjarasamningsbundnum launahækkunum sem koma til framkvæmda um komandi áramót. Heildartekjur af tryggingagjaldi munu dragast saman um 4 milljarða kr. sökum lækkunarinnar. Þar af lækka greiðslur ríkisins um 0,9 milljarða kr. og munu nettótekjuáhrif á ríkissjóð því verða 3,1 milljarður kr. til lækkunar. Jafnframt mun þessi aðgerð lækka útgjöld sveitarfélaga um 0,5 milljarða kr. á næsta ári.

3.2. Skattfrelsi meðlaga og framfærslulífeyris til maka.
    Í 4. málsl. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er fjallað um meðlög og framfærslulífeyri til maka eða fyrrverandi maka þar sem skattfrelsi teknanna takmarkast við sömu fjárhæð og lágmarksellilífeyrir (grunnlífeyrir). Á þeim tíma sem undanþágan var sett var fjárhæðarviðmiðið hið sama hjá ellilífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum. Samsetning ellilífeyris hefur tekið breytingum og er því lagt til að stuðst verði við fjárhæðarmörk örorkulífeyris þess í stað svo að haldið verði upphaflegu viðmiði.

3.3. Kaup á hlutabréfum samkvæmt kauprétti.
    Ákvæði 9. og 10. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, komu fyrst inn í eldri lög, nr. 75/1981, með lögum nr. 86/2000. Ákvæðin varða skattlagningu tekna vegna kaupa á hlutabréfum samkvæmt kauprétti starfsmanna. Samkvæmt meginreglu laganna eru allar tekjur skattskyldar, nema þær séu sérstaklega undanþegnar skattskyldu. Í 9. gr. er kveðið á um hvernig skattstofninn skuli ákveðinn þegar starfsmaður hefur tekjur vegna kaupréttar á hlutabréfum í félagi sem hann starfar fyrir. Í 10. gr. er lögð til undantekning frá meginreglu A-liðar 7. gr. þar sem lagt er til að tekjur starfsmanna af kaupum á hlutabréfum samkvæmt kauprétti og að uppfylltum tilteknum skilyrðum verði ekki skattlagðar sem launatekjur en komi til skattlagningar sem fjármagnstekjur skv. C-lið 7. gr. við sölu úr hendi starfsmannsins. Til þess að starfsmaður geti nýtt sér sérregluna sem er að finna í 10. gr. nefndra laga þurfa öll skilyrði greinarinnar að vera uppfyllt. Skilyrði 7. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna er að hámark kaupréttar hvers starfsmanns megi ekki vera hærra en 600.000 kr. á ári að kaupverði. Sé kaupverð bréfanna hærra en leyfilegt hámark fellur réttur til nýtingar á sérreglu niður og fer þá um skattlagningu skv. 9. gr. Fjárhæðin hefur ekki tekið breytingum frá því að ákvæðið kom fyrst inn í lögin og er því lagt til að hún hækki úr 600.000 kr. í 1.500.000 kr. Er það í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Ekki er gert ráð fyrir því að breytingin hafi mikil áhrif á ríkissjóð.

3.4. Skipting söluverðs sérgreindra fasteigna eða mannvirkja, ásamt lóð, landi eða réttindum tengdum þessum eignum.
    Í 26. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er mælt fyrir um að þegar fasteignir og land eru seld í einu lagi skuli skipta söluverðinu í sama hlutfalli og hinar seldu eignir eru metnar til fasteignamats á söludegi. Á undanförnum árum hafa stórar landareignir verið seldar þar sem landsvæðið hefur verið metið afar lágt í fasteignamati miðað við fasteignir á landinu. Sem dæmi má taka land með íbúðarhúsnæði sem selt er á 100 millj. kr. Fasteignamat íbúðarhúsnæðis er 90 millj. kr. en landið er metið á 10 millj. kr. Skipting söluverðs yrði þá þannig að 90 millj. kr. teldust tilheyra íbúðarhúsnæðinu og væru þar með skattfrjálsar en einungis 10 millj. kr. teldust til stofns skattskylds söluhagnaðar vegna sölu lands, jafnvel þó að landakaupin hefðu verið meginforsenda hins háa söluverðs. Þar sem fasteignamatið endurspeglar ekki þau markaðsverðmæti sem búa að baki viðskiptum er lagt til að í þeim tilvikum þegar skipting söluverðs, í sama hlutfalli og hinar seldu eignir eru metnar til fasteignamats, leiðir til verulega óeðlilegrar niðurstöðu sem ekki endurspeglar markaðsverð hinna seldu eigna skuli miða við markaðsverð þeirra á söludegi í stað fasteignamats.

3.5. Skattfrelsi styrkja í formi niðurgreiðslu frá ríkinu.
    Árið 2019, á 100 ára afmælisári flugs á Íslandi, lagði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fram flugstefnu fyrir Ísland, þá fyrstu sinnar tegundar, í samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 sem lögð var fyrir Alþingi á 150. löggjafarþingi 2019–2020.
    Markmið stefnunnar er meðal annars að efla innanlandsflug sem hefur átt undir högg að sækja á síðustu árum. Innanlandsflugið er hluti af almenningssamgöngukerfi landsins og gegnir því mikilvægu hlutverki fyrir byggðir þess.
    Eitt af því sem flugstefnan felur í sér er niðurgreiðsla flugferða íbúa á landsbyggðinni til og frá höfuðborgarsvæðinu þar sem mjög stór hluti þjónustu ríkisins hefur verið byggður upp. Hefur þessi leið verið nefnd skoska leiðin þar sem hún á fyrirmynd í vel heppnuðu kerfi sem komið hefur verið á í samstarfi skoska ríkisins og flugfélaga. Verkefnið loftbrú sem byggist á hugmyndafræði skosku leiðarinnar hóf formlega göngu sína í september sl. en það felur í sér að íbúar landsbyggðarinnar sem búa í tiltekinni fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu fá niðurgreiðslu flugfargjalda til og frá höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið er jafnframt hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að gera innanlandsflugið að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar og að áfram skuli byggja upp almenningssamgöngur um land allt.
    Til að taka af allan vafa um skattfrelsi niðurgreiðslunnar er í frumvarpinu lagt til að kveðið verði á um að styrkur fyrir einstaklinga með búsetu utan höfuðborgarsvæðisins í formi niðurgreiðslu vegna greiðsluþátttöku ríkisins í fargjöldum innan lands teljist ekki til tekna. Að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins er því ætlað að taka til fargjalda vegna hvers kyns samgangna innan lands, hvort heldur sem er í lofti, á landi eða sjó.

3.6. Útleiga manna á íbúðarhúsnæði.
    Í 58. gr. a laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er fjallað um útleigu á íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði eða öðru húsnæði auk skilgreiningar á því hvenær tekjur af slíkri útleigu teljast hafa myndast í atvinnurekstri eða í sjálfstæðri starfsemi einstaklings. Meginreglan um skattlagningu tekna af útleigu einstaklinga er sú að tekjur af útleigu á íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði eða öðru húsnæði teljist hafa myndast í atvinnurekstri eða í sjálfstæðri starfsemi einstaklings, þó með ákveðnum undantekningum. Í a-lið 1. mgr. 58. gr. a er mælt fyrir um að tekjur einstaklings af útleigu íbúðarhúsnæðis til varanlegrar búsetu leigjanda teljist utan atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi ef ekki eru leigðar út fleiri en tvær sérgreindar fasteignir í eigu viðkomandi. Ljóst er við lestur greinargerðar í frumvarpi því er varð að lögum um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld, nr. 59/2017, að með sérgreindum fasteignum er átt við sérgreindar íbúðir. Lögð er til lagfæring á orðalag til að taka af öll tvímæli um annað.

3.7. Reglur og ákvarðanir ríkisskattstjóra.
    Í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, er kveðið á um að ríkisskattstjóri skuli setja framkvæmdar- og starfsreglur ásamt leiðbeiningum og verklagsreglum. Þá skuli ríkisskattstjóri enn fremur birta reglur og ákvarðanir sem hann metur að hafi þýðingu fyrir skattaðila og eftir atvikum gefa út og hafa til sölu. Lagt er til að við ákvæðið verði aukið að ríkisskattstjóra sé jafnframt heimilt að gefa út og hafa til sölu fyrir almenning yfirlit yfir skatta, tolla og gjöld á sviði ríkisskattstjóra eða láta í té sérþjónustu samkvæmt gjaldskrá sem staðfest skal af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda.

3.8. Álagningarskrár, skattskrár og virðisaukaskattsskrár.
    Samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, er ríkisskattstjóra skylt að birta tvær skrár með álagningarupplýsingum skattaðila. Annars vegar álagningarskrá eigi síðar en 15 dögum fyrir lok kærufrests skv. 99. gr., sbr. 1. mgr. 98. gr., og hins vegar skattskrá þegar lokið er álagningu skatta og kærumeðferð, sbr. 2. mgr. 98. gr. laganna. Með lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 37/2020, var lögfest ákvæði til bráðabirgða þess efnis að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 98. gr. væri Skattinum ekki skylt að leggja fram álagningarskrá fyrir hvert sveitarfélag að lokinni álagningu skattaðila á árinu 2020 vegna tekna ársins 2019.
    Í ljósi þess að heimsfaraldur kórónuveiru geisar enn og að við framlagningu álagningarskrár skattaðila gerir fjöldi manns sér ferð í afgreiðslu Skattsins um land allt er lagt til að ákvæði til bráðabirgða LXVI við lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, verði framlengt um eitt ár og að eftir atvikum gildi hið sama um framlagningu skattskráa á árinu 2020 og 2021. Mikilvægt er að tryggja að embætti ríkisskattstjóra geti uppfyllt lögbundnar skyldur sínar en þó tekið tillit til reglna um takmarkanir á samkomum sem og gætt að almennum sóttvarnasjónarmiðum.
    Þá er jafnframt lagt til að sambærilegu ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, þess efnis að þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 46. gr. laganna sé ríkisskattstjóra ekki skylt á árunum 2020 og 2021 að leggja fram virðisaukaskattsskrár.

3.9. Breytingar á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.
    Lögð er til sú breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, að í stað þess að kveða á um ár þegar rætt er um samspil útreiknings á álagi og eindaga í 3. mgr. 17. gr. laganna verði kveðið á um greiðslutímabil. Er það gert í ljósi breytinga sem orðið hafa á greiðslutímabilum úr almanaksárinu í fjögur þriggja mánaða greiðslutímabil.
    Þá er lagt til að ákvæði til bráðabirgða III við lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur falli brott enda hefur hlutfalli staðgreiðslu verið breytt frá gildistöku þess, fyrst í 18%, síðan 20% og er nú 22%. Í ákvæðinu er kveðið á um að frá og með 1. júlí 2009 skuli skilaskyldum aðilum skylt að halda eftir 15% skatti af staðgreiðsluskyldum fjármagnstekjum skattskyldra aðila sem til falla eftir 1. júlí 2009 af eldri kröfum, sem og kröfum sem stofnað er til eftir það.

3.10. Undanþága ökutækja frá vörugjaldi.
    Lögð er til breyting á r-lið 1. tölul. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, en gildandi ákvæði felur í sér að sendibifreiðar samkvæmt skilgreiningu g-liðar 2. tölul. 4. gr. sömu laga, sem knúnar eru rafhreyfli að öllu leyti, eru undanþegnar vörugjaldi. Tillagan felur í sér rýmkun á ákvæðinu þess efnis að undanþágan nái einnig til annarra tegunda ökutækja til vöruflutninga í atvinnuskyni sem knúin eru metani, metanóli, rafmagni eða vetni að öllu leyti. Gildandi ákvæði var sett með lögum um breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um bifreiðagjald og lögum um virðisaukaskatt, nr. 117/2018. Þá má rekja ákvæðið til nefndarálits efnahags- og viðskiptanefndar á 149. löggjafarþingi 2018–2019 (162. mál, þskj. 359). Í nefndarálitinu kemur fram að athygli nefndarinnar hafi verið vakin á því að rafknúnar sendibifreiðar sem notaðar væru til vöruflutninga nytu ekki sömu ívilnunar og önnur rafknúin ökutæki á borð við bifhjól og golfbifreiðar, yrði frumvarpið óbreytt að lögum. Taldi nefndin rétt að rafknúnar sendibifreiðar nytu sömu kjara hvað vörugjöld varðar enda giltu um þær sömu sjónarmið um hvetjandi aðgerðir til að stuðla að orkuskiptum. Með tillögunni sem lögð er fram í frumvarpinu er lagt til að ekki sé gerður greinarmunur á gerð svokallaðra nýorkuökutækja sem knúin eru metani, metanóli, rafmagni eða vetni til vöruflutninga í atvinnuskyni en slíkt verður að teljast eðlilegt meðal annars út frá markmiðum stjórnvalda í orkuskiptum og loftslagsmálum.

3.11. Greiðsla á lágmarki bifreiðagjalds vegna þungra hreinorkuökutækja.
    Sú meginregla gildir í lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988, vegna ökutækja að eigin þyngd 3.500 kg eða minna, að greitt er lágmark bifreiðagjalds fyrir losun upp að ákveðinni skráðri losun koltvísýrings (CO2) viðkomandi ökutækis. Ákveðin fjárhæð bætist síðan við fyrir hvert gramm sem ökutækið losar umfram hámarkið en skráð losun er mæld í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Af þessu leiðir að greitt er lágmark bifreiðagjalds vegna hreinorkuökutækis sem gengur fyrir vetni eða rafmagni að eigin þyngd 3.500 kg eða minna. Af ökutækjum þar sem eigin þyngd er meiri en 3.500 kg er aftur á móti greidd föst krónutala, þ.e. ákveðið lágmark, að viðbættri tiltekinni fjárhæð fyrir hvert kíló skráðrar eigin þyngdar ökutækis umfram 3.500 kg. Í ljósi markmiða stjórnvalda um orkuskipti í samgöngu- og loftslagsmálum er talið rétt að leggja til að kveðið verði á um greiðslu lágmarks bifreiðagjalds hjá hreinorkuökutækjum sem ganga alfarið fyrir vetni eða rafmagni og eru 3.500 kg eða þyngri.

3.12. Vörugjald af húsbílum.
    Með lögum nr. 33/2020 var ákvæði til bráðabirgða XVIII bætt við lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með 32. gr. laganna. Í ákvæðinu er kveðið á um að á árinu 2020 skuli lækka skráða losun húsbíla um 40%, en þó að hámarki niður í 150 g/km, áður en til álagningar vörugjalds kemur ef losun er eingöngu skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni og að frekari skilyrðum uppfylltum. Ákvæðið kom inn í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar þar sem athygli nefndarinnar hafði verið vakin á því að breytt aðferðafræði við mælingu losunar sem lögfest var með lögum nr. 117/2018 hefði haft í för með sér ófyrirséðar afleiðingar varðandi húsbíla. Í ljós kom að útblástur þeirra margfaldaðist við notkun nýju aðferðarinnar samanborið við þá gömlu, en var ekki um 20% hærri samkvæmt nýju aðferðinni, líkt og almennt varð með uppgefna koltvísýringslosun ökutækja eftir breytinguna. Þetta olli því að húsbílar sem fluttir voru til landsins og höfðu skráða koltvísýringslosun samkvæmt nýju aðferðinni báru flestir hámarksvörugjald sem er 65% skv. 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993. Meiri hlutinn lagði til að vinna þyrfti að varanlegri lausn vegna þessarar stöðu en taldi þó rétt að bregðast við með því að leggja til, svo sem fram hefur komið, tímabundna lækkun á skráðri losun á húsbíla um 40% að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Endanleg lausn vegna þessa liggur ekki fyrir. Í því ljósi er nú lagt til að gildistími ákvæðisins verði framlengdur tímabundið til og með 31. desember 2021.

3.13. Gjaldtökuheimild vegna löggildingar iðnmeistara og hönnuða í lög um aukatekjur ríkissjóðs.
    Með lögum nr. 20/2007 var gerð breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, sem fól meðal annars í sér að gjaldtökuheimild vegna löggildingar rafverktaka var bætt við í upptalningu 1. mgr. 10. gr. laganna. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sér um löggildingar iðnmeistara og hönnuða á sviði byggingarmála samkvæmt lögum um mannvirki, nr. 160/2010, ásamt því að sjá um löggildingu rafverktaka. Samræmis vegna er því lagt til að gjaldtaka vegna löggildingar allra þessara starfsheita byggist á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Ekki er verið að leggja til nýjar gjaldtökuheimildir heldur einungis lagt til að flytja þær á einn stað í lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Í ljósi ákvæða 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar var þess gætt sérstaklega við undirbúning frumvarpsins að orðalag breytinganna væri skýrt og að öðru leyti í samræmi við kröfur sem leiða má af stjórnarskrárákvæðunum.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst skattskylda aðila, bæði einstaklinga og lögaðila. Við vinnslu þess var haft samráð við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Skattinn og Fjársýsluna. Áform um samningu frumvarpsins voru í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 6.–13. október sl. (mál nr. S-211/2020). Ein umsögn barst frá Samtökum atvinnulífsins þar sem fram kom að tímabundin lækkun tryggingagjalds væri jákvæð breyting og að samtökin styddu stefnu sem fælist í því að sporna gegn atvinnuleysi og skapa störf. Lækkun tryggingagjalds væri mikilvægur þáttur í því. Frumvarpsdrögin voru einnig kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda 29. október til 10. nóvember (mál nr. S-231/2020).
    Þrjár umsagnir bárust. Sameiginleg umsögn barst frá Bílgreinasambandinu og Samtökum ferðaþjónustunnar. Samtökin fagna þeim breytingum sem lagðar er til í frumvarpinu en vilja þó koma á framfæri þrenns konar breytingartillögum á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, er lúta að tímabundnum skattalegum ívilnunum vegna tengiltvinnbifreiða. Ráðuneytið telur ekki rétt að tekin sé afstaða til framangreindra tillagna í því frumvarpi sem hér um ræðir. Fyrir liggur að áformað er að leggja fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um virðisaukaskatt í nóvember á þessu ári. Ráðuneytið leggur því til að umræddar tillögur verði skoðaðar samhliða framlagningu þess frumvarps.
    Þá barst umsögn frá Samtökum ferðaþjónustunnar þar sem fagnað er tillögu frumvarpsins um tímabundna niðurfellingu vörugjalda af húsbílum. Þó leggja samtökin áherslu á mikilvægi þess að unnið verði að varanlegri lausn á vörugjöldum húsbíla fyrir lok árs 2021. Jafnframt leggja samtökin til nýtt ákvæði til bráðabirgða við lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, þess efnis að vörugjald á bílaleigubílum verði lækkað tímabundið vegna áranna 2021, 2022 og 2023. Ráðuneytið fellst ekki á framangreinda tillögu. Það er mat ráðuneytisins að tillagan gangi meðal annars gegn yfirlýstu markmiði laganna um innflutning á umhverfisvænum bifreiðum. Auk þess er tillagan í ósamræmi við markmið stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum.
    Jafnframt barst umsögn frá Samtökum verslunar og þjónustu þar sem því er fagnað að undanþiggja eigi ökutæki til vöruflutninga í atvinnuskyni, sem knúin eru rafhreyfli, vörugjaldi. Samtök verslunar og þjónustu leggja þó til að fleiri ökutæki verði felld undir tillöguna (undanþáguna), þ.e. ökutæki sem knúin eru vetni og metani. Ekki sé líklegt að slík breyting yrði ríkissjóði kostnaðarsöm. Hins vegar mundi hún senda skýr skilaboð og mögulega tryggja að undirbúningur innflutnings vetnis- og metanökutækja yrði fýsilegri en ella. Jafnframt taka Samtök verslunar og þjónustu undir þau sjónarmið, sem koma fram í sameiginlegri umsögn Bílgreinasambandsins og Samtaka ferðaþjónustunnar um frumvarpsdrögin. Fallist er á að fella ökutæki sem knúin eru vetni og metani undir ákvæði 12. gr. frumvarpsins og hafa verið gerðar breytingar í samræmi við það. Að öðru leyti vísast til svara við athugasemdum Bílgreinasambandsins og Samtaka ferðaþjónustunnar.

6. Mat á áhrifum.
    Tillögur frumvarpsins eru af margvíslegum toga og sama má segja um mat á áhrifum þeirra.
    Lækkun tryggingagjalds mun jafngilda því að gjaldið verði ekki lagt á þann hluta gjaldstofns sem nemur kjarasamningsbundnum launahækkunum sem koma til framkvæmda um komandi áramót. Heildartekjur af tryggingagjaldi munu dragast saman um 4 milljarða kr. sökum lækkunarinnar. Þar af lækka greiðslur ríkisins um 0,9 milljarða kr. og munu nettótekjuáhrif á ríkissjóð því verða 3,1 milljarður kr. til lækkunar. Jafnframt mun þessi aðgerð lækka útgjöld sveitarfélaga um 0,5 milljarða kr. á næsta ári. Verði breytingartillagan að lögum mun hún hafa jákvæð áhrif á atvinnurekendur.
    Aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu samanlagt ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs, einstaklinga og lögaðila verði frumvarpið óbreytt að lögum. Um er að ræða nauðsynlegar leiðréttingar og aðrar breytingar sem munu hins vegar leiða til þess að viðkomandi löggjöf á sviði skattamála verði skýrari.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lagt er til að almennt tryggingagjald verði lækkað tímabundið í eitt ár, eða í staðgreiðslu á árinu 2021 og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2022 vegna tekna ársins 2021, úr 4,90% í 4,65%.

Um 2. gr.

    Lagt er til að í stað þess að miða við fjárhæð lágmarksellilífeyris verði miðað við fjárhæð lágmarksörorkulífeyris en á þeim tíma sem undanþágan var sett var fjárhæðarviðmiðið hið sama hjá ellilífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum. Samsetning ellilífeyris hefur tekið breytingum og er því lagt til að stuðst verði við fjárhæðarmörk örorkulífeyris þess í stað svo að haldið verði upphaflegu viðmiði.

Um 3. gr.

    Lögð er til hækkun á fjárhæð þess skilyrðis 7. tölul. 1. mgr. 10. gr. tekjuskattslaga að hámark kaupréttar hvers starfsmanns megi ekki vera hærra en 600.000 kr. á ári að kaupverði. Lagt er til að fjárhæðin hækki úr 600.000 kr. á ári að kaupverði í 1.500.000 kr., sjá nánar umfjöllun í kafla 3.3.

Um 4. gr.

    Lagt er til að í þeim tilvikum þegar skipting söluverðs, í sama hlutfalli og hinar seldu eignir eru metnar til fasteignamats, leiðir til verulega óeðlilegrar niðurstöðu sem ekki endurspeglar markaðsverð hinna seldu eigna skuli miða við markaðsverð þeirra á söludegi í stað fasteignamats.

Um 5. gr.

    Gert er ráð fyrir að styrkur í formi niðurgreiðslu fargjalda innan lands fyrir einstaklinga með búsetu utan höfuðborgarsvæðisins vegna greiðsluþátttöku ríkisins teljist ekki til tekna. Að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins er því ætlað að taka til fargjalda vegna hvers kyns samgangna innan lands, hvort heldur sem er í lofti, á landi eða sjó.

Um 6. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til orðalagsbreyting til að taka af öll tvímæli um að með sérgreindum fasteignum við afmörkun tekna af útleigu utan atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi er átt við sérgreindar íbúðir. Er sú merking ljós við lestur greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld, nr. 59/2017.

Um 7. gr.

    Lagt er til að við ákvæðið verði aukið að ríkisskattstjóra sé jafnframt heimilt að gefa út og hafa til sölu fyrir almenning yfirlit yfir skatta, tolla og gjöld á sviði ríkisskattstjóra eða láta í té sérþjónustu samkvæmt gjaldskrá sem staðfest skal af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Um 8. og 9. gr.

    Í ljósi þess að við framlagningu álagningarskrár skattaðila gerir fjöldi manns sér ferð í afgreiðslu Skattsins um land allt er lagt til að ákvæði til bráðabirgða LXVI við lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, verði framlengt um eitt ár og að eftir atvikum gildi hið sama um framlagningu skattskráa á árinu 2020 og 2021. Mikilvægt er að tryggja að embætti ríkisskattstjóra geti uppfyllt lögbundnar skyldur sínar en þó tekið tillit til reglna um takmarkanir á samkomum sem og gætt að almennum sóttvarnasjónarmiðum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Þá er jafnframt lagt til að sambærilegu ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, þess efnis að þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 46. gr. laganna sé ríkisskattstjóra ekki skylt á árunum 2020 og 2021 að leggja fram virðisaukaskattsskrár.

Um 10. og 11. gr.

    Lögð er til sú leiðrétting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur að í stað þess að kveða á um ár þegar rætt er um samspil útreiknings á álagi og eindaga í 3. mgr. 17. gr. laganna verði því breytt og kveðið á um greiðslutímabil. Er það gert í ljósi breytinga sem orðið hafa á greiðslutímabilum úr almanaksárinu í fjögur þriggja mánaða greiðslutímabil.
Í ákvæði til bráðabirgða III við lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur er kveðið á um að frá og með 1. júlí 2009 skuli skilaskyldum aðilum skylt að halda eftir 15% skatti af staðgreiðsluskyldum fjármagnstekjum skattskyldra aðila sem til falla eftir 1. júlí 2009 af eldri kröfum, sem og kröfum sem stofnað er til eftir það. Lagt er til að ákvæðið falli brott enda hefur hlutfalli staðgreiðslu verið breytt frá gildistöku ákvæðisins, fyrst í 18%, síðan 20% og er nú 22%.

Um 12. gr.

    Lagt er til að í lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, verði ekki gerður greinarmunur á gerð sendibifreiða og annarra nýorkuökutækja til vöruflutninga í atvinnuskyni, sem knúin eru metani, metanóli, rafmagni eða vetni, hvað varðar undanþágu frá vörugjaldi. Ákvæðinu er þannig ætlað að greiða leið svokallaðra nýorkuökutækja í atvinnurekstri sem eru alfarið knúin þeim orkugjöfum sem tilteknir eru í ákvæðinu og ganga að engu leyti fyrir jarðefnaeldsneyti, þ.e. bensíni eða dísilolíu.

Um 13. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að í stað orðanna ,,árinu 2020“ komi „á árunum 2020 og 2021“. Af breytingunni leiðir að lækkun skráðrar losunar húsbíla um 40% mun gilda til og með 31. desember 2021, að þeim skilyrðum uppfylltum sem fram koma í ákvæðinu.

Um 14. gr.

    Í a-lið er lagt til að f-liður falli brott þar sem flytja þarf liðinn í nýja 2. mgr. 4. gr. laganna. Rétt þykir að kveða sérstaklega á um greiðslu á lágmarki bifreiðagjalds í nýrri málsgrein þar sem ekki er um undanþágu að ræða.
    Jafnframt því að flytja f-lið í 2. mgr. er lagt til að nýjum staflið verði bætt við um að ökutæki samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga, sem knúin eru vetni eða rafhreyfli að öllu leyti, skuli greiða lágmark bifreiðagjalds skv. 2. gr., líkt og gildir um ökutæki sem framleidd eru og skráð með metan eða metanól sem aðalorkugjafa eða hefur verið breytt þannig að þau geti nýtt metan og breytingin hlotið vottun skoðunarstöðvar. Undir ökutæki í b-lið nýrrar 2. mgr. falla ökutæki skv. 47. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, þ.e. tæki á hjólum, beltum, völtum, meiðum eða öðru sem ætlað er til aksturs á landi og eigi rennur á spori. Um er að ræða ökutæki sem eingöngu eru knúin metani, metanóli, rafmagni eða vetni.
    Að lokum er lögð til breyting á fyrirsögn greinarinnar þar sem kveðið verði á um undanþágu frá gjaldskyldu og greiðslu á lágmarki bifreiðagjalds.

Um 15. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að orðalag verði lagfært til samræmis við 1. mgr. 7. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019, án efnislegra breytinga.

Um 16. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að gjaldtökuheimildir vegna löggildingar iðnmeistara skv. 32. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010, og hönnuða á sviði byggingarmála skv. 25. gr. sömu laga verði bætt við 32. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.

Um 17. gr.

    Gert er ráð fyrir því að lögin öðlist þegar gildi en gildistaka 5. gr. verði afturvirk frá 1. september 2020. Greinin er ívilnandi og er eðlilegt að skattfrelsi samkvæmt henni taki mið af þeim degi sem niðurgreiðsla hófst formlega með verkefninu Loftbrú. Þá er lagt til að 12. gr. frumvarpsins öðlist gildi frá og með 1. janúar 2021. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringar.