Ferill 586. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 994  —  586. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um loftferðir.

Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.



I. KAFLI

Markmið, gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að og tryggja öruggar, greiðar og skilvirkar flugsamgöngur að teknu tilliti til neytendaverndar, umhverfissjónarmiða og þjóðréttarlegra skuldbindinga.

2. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda á íslensku yfirráðasvæði, þ.e. íslensku landsvæði, innsævi, landhelgi og lofthelgi og um:
     a.      loftför skráð á Íslandi og um borð í þeim, hvar sem þau eru stödd, nema samningar við önnur ríki eða lög þess ríkis sem loftfarið fer um leiði til annars,
     b.      óskráð loftför, þ.m.t. ómönnuð loftför, í för til og frá og á íslensku yfirráðasvæði,
     c.      loftför skráð í þriðja ríki, í för til og frá og á íslensku yfirráðasvæði,
     d.      hluti og tæki sem ferðast um loftið en eru ekki loftför, í för til og frá og á íslensku yfirráðasvæði,
     e.      þá einstaklinga og lögaðila, með aðalaðsetur eða höfuðstöðvar hér á landi eða utan íslensks yfirráðasvæðis, sem eru eftirlitsskyldir samkvæmt lögum þessum,
     f.      þá aðila og loftför sem falla undir samning um tilfærslu eftirlits að hluta eða öllu leyti frá lögbæru landsyfirvaldi erlends ríkis eða Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins til Samgöngustofu,
     g.      verkefni, eftirlit, réttindi og skyldur lögbærra stjórnvalda og Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði flugmála.
    Tilvísun til loftfara, hluta og tækja og aðila skv. 1. mgr. tekur einnig til þeirrar þjónustu sem veitt er.
    Kaflar XVI og XVII skulu gilda óháð 1. mgr.
    Ráðherra ákveður að hve miklu leyti lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt heimild í lögum þessum gilda utan íslensks yfirráðasvæðis og um loftfar skráð í þriðja ríki sem starfrækt er af aðila sem er með höfuðstöðvar eða aðalaðsetur á Íslandi og lýtur eftirliti Samgöngustofu að hluta eða öllu leyti á grundvelli samnings við skráningarríki. Sama á við hvað varðar loftfar skráð hér á landi sem starfrækt er af aðila sem er með höfuðstöðvar eða aðalaðsetur í erlendu ríki og lýtur eftirliti erlends stjórnvalds að hluta eða öllu leyti á grundvelli samnings við Samgöngustofu.

3. gr.

Orðskýringar.

    Merking orða og hugtaka í lögum þessum, að undanskildum XVII. kafla laganna, er sem hér segir:
     1.      Almannaflug: Borgaralegt flug loftfars annað en flutningaflug og sérstök starfræksla í ábataskyni, hvort sem er reglubundið eða óreglubundið.
     2.      Almenningsflug: Allt flug annað en ríkisflug, þ.m.t. almannaflug og starfræksla í ábataskyni.
     3.      Alþjóðlegar kröfur og ráðlagðar starfsvenjur: Alþjóðlegar kröfur og ráðlagðar starfsvenjur sem Alþjóðaflugmálastofnunin hefur samþykkt í samræmi við 37. gr. Chicago-samningsins.
     4.      Áframhaldandi lofthæfi: Allt ferlið sem tryggir að loftfar uppfylli ávallt, á þeim tíma sem það er starfrækt, gildandi kröfur um lofthæfi og sé öruggt í starfrækslu.
     5.      Búnaður til að fjarstýra ómönnuðu loftfari: Hvers konar mælar, búnaður, kerfi, tækjabúnaður, fylgihlutir, hugbúnaður eða aukabúnaður sem er nauðsynlegur fyrir örugga starfrækslu ómannaðs loftfars og er ekki hluti af eða hafður um borð í ómannaða loftfarinu.
     6.      EASA-loftfar: Loftfar sem fellur undir gildissvið EASA-reglugerðarinnar.
     7.      EASA-reglugerðin: Reglugerð (ESB) 2018/1139 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins og um breytingu á reglugerðum (EB) 2111/2005, (EB) 1008/2008, (ESB) 996/2010, (ESB) 376/2014 og tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB og 2014/53/ESB og um niðurfellingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) 552/2004 og (EB) 216/2008 og reglugerð ráðsins (EBE) 3922/91, eins og hún er tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, með þeim aðlögunum sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og bókun 1 um altæka aðlögun, með síðari breytingum.
     8.      EASA-ríki: Aðildarríki Evrópusambandsins og þau Evrópuríki sem taka þátt í starfsemi EASA á grundvelli 129. gr. EASA-reglugerðarinnar.
     9.      Eftirlit: Sannprófun, sem lögbært stjórnvald eða einhver fyrir þess hönd framkvæmir með samfelldum hætti, á því hvort kröfur laga þessara og reglugerða settra á grundvelli þeirra og kröfur sem liggja til grundvallar útgáfu vottorðs eða útgáfu yfirlýsingar séu áfram uppfylltar.
     10.      Fjarflugmaður: Einstaklingur sem ber ábyrgð á öruggu flugi ómannaðs loftfars með því að stjórna stýrikerfi loftfarsins, annaðhvort handvirkt eða, ef ómannaða loftfarið flýgur sjálfvirkt, með því að fylgjast með stefnu þess og vera reiðubúinn að grípa inn í og breyta stefnunni hvenær sem er.
     11.      Flugleiðsöguþjónusta: Flugumferðarþjónusta, fjarskipta-, leiðsögu- og kögunarþjónusta, veðurþjónusta fyrir flugleiðsögu og upplýsingaþjónusta flugmála.
     12.      Flugrekandi/umráðandi loftfars: Einstaklingur eða lögaðili sem starfrækir eða hefur í hyggju að starfrækja loftfar.
     13.      Flugverji: Einstaklingur sem flugrekandi tilnefnir til að gegna skyldustörfum um borð í loftfari.
     14.      Flugvöllur: Tiltekið svæði á landi eða á vatni, á föstu eða fljótandi mannvirki á landi eða úti fyrir strönd, þ.m.t. allar byggingar, mannvirki og búnaður, sem ætlað er að nokkru eða öllu leyti til afnota við komur og brottfarir loftfara og hreyfingar þeirra á jörðu niðri.
     15.      Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins: Stofnun Evrópusambandsins, stofnuð á grundvelli EASA-reglugerðarinnar, sem Ísland á aðild að í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
     16.      Flutningaflug: Starfræksla loftfars sem felur í sér flutninga á farþegum, vörum eða pósti gegn greiðslu eða annars konar gjaldi.
     17.      Framleiðsluvara: Loftfar, hreyfill eða loftskrúfa.
     18.      Fyrirtæki: Einstaklingur eða lögaðili, hvort sem hann stundar viðskipti í ábataskyni eða ekki, eða hvers konar opinber stofnun, hvort heldur hún hefur réttarstöðu lögaðila eða ekki.
     19.      Geðvirk efni: Alkóhól, ópíumefni, kannabisefni, róandi lyf og svefnlyf, kókaín, önnur geðörvandi lyf, ofskynjunarlyf og rokgjörn leysiefni en að undanskildu koffíni og tóbaki.
     20.      Hindrun: Allir fastir, hvort heldur til bráðabirgða eða frambúðar, og hreyfanlegir hlutir, eða hlutar þeirra sem:
                  a.      eru staðsettir á svæði ætluðu til hreyfinga loftfara á jörðu niðri,
                  b.      ná hærra en skilgreindur flötur sem er ætlaður til að vernda loftför á flugi, eða
                  c.      eru utan þessara skilgreindu flata og hafa verið metnir hættulegir flugumferð.
     21.      Hæfur aðili: Vottaður lögaðili eða einstaklingur sem Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins eða lögbært landsyfirvald kann að fela tiltekin verkefni sem tengjast vottun og eftirliti samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra, undir eftirliti og á ábyrgð Flugöryggisstofnunarinnar eða hins lögbæra landsyfirvalds.
     22.      Hættulegur varningur: Hlutir eða efni sem geta stofnað heilbrigði, öryggi, eignum eða umhverfinu í hættu og er að finna í skránni yfir hættulegan varning í tæknilegu fyrirmælunum eða eru flokkuð í samræmi við þessi fyrirmæli. Með tæknilegum fyrirmælum er átt við síðustu gildu útgáfu fyrirmæla Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um öruggan flutning hættulegs varnings með flugi, þar á meðal viðbótarefni og breytingar sem samþykktar hafa verið af stofnuninni.
     23.      Höfuðstöðvar: Aðalskrifstofa eða skráð skrifstofa fyrirtækis þar sem aðalfjármálastarfsemi og rekstrarstjórnun fer fram.
     24.      Kerfi rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu: Safn af kerfishlutum í lofti og á jörðu niðri svo og búnaður í geimnum sem styður flugleiðsöguþjónustu á öllum stigum flugs.
     25.      Kerfishlutar rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu: Áþreifanlegir hlutir eins og vélbúnaður og óáþreifanlegir þættir eins og hugbúnaður sem rekstrarsamhæfi evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar byggist á.
     26.      Loftfar: Loftfar samkvæmt lögum þessum telst sérhvert tæki sem haldist getur á flugi vegna verkana loftsins, annarra en loftpúðaáhrifa við yfirborð jarðar.
     27.      Lögbær stjórnvöld: Lögbært landsyfirvald í ríki og Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, hvort um sig eða saman, eftir atvikum.
     28.      Lögbært landsyfirvald: Einn eða fleiri aðilar sem tilnefndir eru af ríki og hafa nauðsynlegar heimildir og er falin ábyrgð á vottun, eftirliti og framfylgd í samræmi við lög og reglugerðir. Lögbært landsyfirvald hér á landi er Samgöngustofa nema annað sé tekið fram.
     29.      Ómannað loftfar: Hvers kyns loftfar sem er starfrækt eða hannað fyrir flug með sjálfstýringu eða fjarstýribúnaði án flugmanns um borð og, ef við á, búnaðurinn til að fjarstýra því.
     30.      Óuppsettur búnaður: Hvers konar mælar, búnaður, kerfi, tækjabúnaður, fylgihlutir, hugbúnaður eða aukahlutir sem flugrekandi tekur með um borð í loftfar og er ekki hlutur sem er notaður eða ætlaður til notkunar við starfrækslu eða stjórn loftfars, sem eykur líkurnar á því að farþegar komist lífs af eða gæti haft áhrif á örugga starfrækslu loftfarsins.
     31.      Rekstraraðili flugvallar: Lögaðili eða einstaklingur sem starfrækir eða hefur í hyggju að starfrækja einn flugvöll eða fleiri.
     32.      Rekstrarstjórnun flugumferðar: Samstillt stjórn í lofti og á jörðu niðri, svo sem flugumferðarþjónusta, loftrýmisstjórnun og flæðisstjórnun flugumferðar, sem krafist er til að tryggja örugga og skilvirka hreyfingu loftfars á öllum stigum starfrækslu.
     33.      Rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsöguþjónusta: Nær yfir bæði rekstrarstjórnun flugumferðar og flugleiðsöguþjónustu eins og þau hugtök eru skilgreind í lögum þessum og að auki tiltekin netstjórnunarverkefni og -þjónustu, hönnun leiðarnets innan Evrópu og samhæfing tíðnisviða fyrir flugumferð, þjónustu sem styrkir merki frá gervihnöttum í grunnklösum GNSS-kerfisins í tengslum við flugleiðsögu, flugferlahönnun sem og þjónustu sem samanstendur af því að búa til og vinna gögn ásamt því að sníða þau og afhenda þau til notkunar fyrir almenna flugumferð í tengslum við flugleiðsögu.
     34.      Sérstök starfræksla: Öll starfræksla önnur en flutningaflug þar sem loftfarið er notað fyrir sérstaka starfsemi eins og landbúnað, byggingastarfsemi, ljósmyndun, landmælingar, athuganir, eftirlit og eftirlit úr lofti, auglýsingaflug og viðhaldsprófunarflug.
     35.      Starfræksla í ábataskyni: Hvers konar starfræksla loftfars gegn greiðslu eða annars konar gjaldi fyrir almenning eða samkvæmt samningi milli flugrekanda/umráðanda loftfars og viðskiptavinar þar sem sá síðarnefndi stjórnar flugrekanda/umráðanda ekki með neinum hætti.
     36.      Viðhald: Hvert eftirfarandi atriða eitt sér eða sambland þeirra: grannskoðun, viðgerð, skoðun, endurnýjun, breyting eða lagfæring á galla í loftfari eða íhlut, að undanskilinni fyrirflugsskoðun.
     37.      Vottorð: Hvers konar vottorð, samþykki, skírteini, heimild, staðfestingarvottorð eða annað skjal sem gefið er út í framhaldi af vottun sem staðfestir samræmi við viðeigandi kröfur.
     38.      Vottun: Hvers konar viðurkenning í samræmi við lög þessi sem byggist á viðeigandi mati á því hvort andlag vottunar uppfyllir viðeigandi kröfur með útgáfu viðeigandi vottorðs til staðfestingar á því.
     39.      Vottunarforskriftir: Tæknistaðlar, sem aðili má nota vegna vottunar og Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins hefur samþykkt, þar sem tilgreindar eru aðferðir til að staðfesta samræmi við stjórnvaldsfyrirmæli og kröfur í lögum.
     40.      Yfirlýsing: Hvers konar skrifleg yfirlýsing sem er gerð í samræmi við lög þessi og er alfarið á ábyrgð lögaðila eða einstaklings sem staðfestir að viðeigandi kröfur er varða andlag yfirlýsingarinnar séu uppfylltar.

II. KAFLI

Stjórn flugmála.

4. gr.

Stjórnun og verkefni.

    Ráðherra fer með yfirstjórn flugmála á íslensku yfirráðasvæði. Samgöngustofa, og eftir atvikum Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, annast tiltekin verkefni og eftirlit í samræmi við lög þessi, lög um Samgöngustofu og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið.
    Eftirlitsstofnun EFTA fer með afmarkað vald vegna eftirlits með flugstarfsemi í samræmi við lög þessi, samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
    Neytendastofa, Vinnueftirlit ríkisins, lögregla, tollyfirvöld og önnur stjórnvöld eftir atvikum eru Samgöngustofu til aðstoðar á sviði eftirlits eftir því sem við á. Hugverkastofa annast faggildingu, mat og vöktun í samræmi við ákvæði laga um faggildingu o.fl.

5. gr.

Lögbært landsyfirvald.

    Samgöngustofa fer með verkefni og eftirlit samkvæmt lögum þessum með:
     a.      loftförum sem skráð eru hér á landi eða starfrækt á íslensku yfirráðasvæði, hlutum og tækjum sem ferðast um loftið en eru ekki loftför, þ.m.t. geimhlutum,
     b.      eigendum og flugrekendum/umráðendum loftfara, hlutum og tækjum sem ferðast um loftið en eru ekki loftför, þ.m.t. geimhlutum, flugverjum og ef við á fjarflugmönnum,
     c.      einstaklingum sem eru handhafar vottorðs, skírteinis, annarra réttinda eða fullgildingar útgefnum af Samgöngustofu eða hafa gefið út yfirlýsingu til stofnunarinnar, auk vottorða sem útgefin eru af fluglæknasetrum eða læknum skv. VII. kafla laga þessara,
     d.      handhöfum staðfestingarvottorða sem gefin eru út af aðila sem fellur undir e-lið,
     e.      aðilum sem hafa höfuðstöðvar hér á landi eða aðalaðsetur og eru handhafar vottorðs eða annarra útgefinna réttinda af Samgöngustofu eða hafa gefið út yfirlýsingu til stofnunarinnar,
     f.      flugvöllum, rekstraraðilum flugvalla, aðilum sem veita flugafgreiðslu, aðilum sem veita hlaðstjórnunarþjónustu á flugvöllum og aðilum sem veita rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu á íslensku yfirráðasvæði, sbr. þó d-lið 1. mgr. 7. gr.,
     g.      aðilum sem skylt er samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim að tilkynna sig fyrir fram, gefa út yfirlýsingu til Samgöngustofu eða sækja um útgáfu vottorðs, skráningu eða viðurkenningu til stofnunarinnar til að starfrækja, veita þjónustu eða setja vöru, sem fellur undir lög þessi, á markað á íslensku yfirráðasvæði,
     h.      aðilum sem sæta eftirliti stofnunarinnar á grundvelli tilfærslu eftirlits,
     i.      öryggi og opinbera markaðsgæslu vara, þ.m.t. ómannaðra loftfara sem ekki eru leikföng, búnaðar og kerfa og kerfishluta sem falla undir lög þessi,
     j.      vinnuumhverfi flugverja í áhöfn loftfara,
     k.      önnur þau verkefni, stjórnsýslu og eftirlit sem lög þessi og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim áskilja.
    Tilvísun skv. 1. mgr. til aðila felur einnig í sér tilnefnda stjórnendur, þar sem við á, og starfsfólk og verktaka, þ.m.t. starfsfólk og verktaka eftirlitsskyldra aðila, sem hafa á hendi starf sem mikilsvert er fyrir öryggi loftferða. Þriðja ríki samkvæmt þessu ákvæði merkir önnur ríki en EASA-ríki.

6. gr.

Kröfur til lögbærs landsyfirvalds.

    Samgöngustofa skal koma á og viðhalda virku stjórnunarkerfi og skjalfestum verklagsreglum sem taka til þeirra verkefna, stjórnsýslu og eftirlits sem stofnuninni er falið samkvæmt lögum þessum. Þá skal stofnunin koma á kerfisbundnu skráahaldi sem gefur möguleika á viðunandi geymslu, aðgengi og rekjanleika allra gagna sem verða til í starfsemi stofnunarinnar á því sviði sem lög þessi taka til.
    Samgöngustofa skal gera ráðstafanir til að tryggja öryggi gagna og upplýsinga sem stofnunin aflar í þágu eftirlits og sem eftirlitsskyldir aðilar veita stofnuninni í trúnaði. Í því skyni skal stofnunin grípa til nauðsynlegra öryggisráðstafana.
    Starfsfólk sem kemur að framkvæmd laga þessara og eftirliti skal búa yfir nauðsynlegri kunnáttu, reynslu og, ef við á, réttindum og hafa hlotið viðeigandi þjálfun til að vinna þau verkefni sem því eru falin.
    Starfsfólk sem fer með beitingu valdheimilda á sviði eftirlits í umboði stofnunarinnar skal hafa skilríki útgefin af stofnuninni því til staðfestu. Samgöngustofa skal setja reglur um slík skilríki.
    Samgöngustofu er heimilt að leggja til eftirlitsfólk í samlag eftirlitsfólks sem Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins veitir forstöðu og jafnframt óska eftir eftirlitsfólki frá samlaginu til starfa á vegum stofnunarinnar. Eftirlitsfólk á vegum samlagsins, sem Samgöngustofa kann að taka í þjónustu sína, skal vinna á ábyrgð og undir stjórn stofnunarinnar.

7. gr.

Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins.

    Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins fer með verkefni og eftirlit samkvæmt lögum þessum með:
     a.      aðilum sem eru handhafar útgefinna vottorða af Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins eða hafa gefið út yfirlýsingar til stofnunarinnar, þ.m.t. um hönnun framleiðsluvara, hluta og óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra loftförum, öryggistengdum flugvallarbúnaði og hæfum aðilum,
     b.      yfirlýsingum aðila varðandi samræmi hönnunar framleiðsluvöru, hluta og óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra loftförum,
     c.      aðilum sem hafa höfuðstöðvar í þriðja ríki og eru handhafar vottorðs sem Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins hefur gefið út eða hafa gefið út yfirlýsingu til stofnunarinnar,
     d.      aðilum sem sinna samevrópskri rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu og aðilum sem hanna, framleiða og viðhalda kerfum og kerfishlutum fyrir samevrópska rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu,
     e.      aðilum sem sæta eftirliti Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins á grundvelli tilfærslu eftirlits,
     f.      þeirri starfsemi, loftförum og flugverjum í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
    Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins skal annast fyrir hönd íslenska ríkisins störf og verkefni hönnunar-, framleiðslu- og skráningarríkis samkvæmt Chicago-samningnum að því er varðar framleiðsluvörur, hluti, óuppsettan búnað og búnað til að fjarstýra ómönnuðum loftförum sem falla undir gildissvið EASA-reglugerðarinnar er lúta að vottun hönnunar og upplýsingum um áframhaldandi lofthæfi.
    Jafnframt veitir Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins Eftirlitsstofnun EFTA aðstoð við úttektir og vöktun á lögbæru landsyfirvaldi, veitir álit sitt hvað varðar tilkynningar og beiðnir lögbærra landsyfirvalda og annast önnur verkefni í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
    Tilvísun til aðila skv. 1. mgr. felur einnig í sér tilnefnda stjórnendur þar sem við á og starfsfólk og verktaka, þ.m.t. starfsfólk og verktaka eftirlitsskyldra aðila sem hafa á hendi starf sem mikilsvert er fyrir öryggi loftferða. Þriðja ríki samkvæmt þessu ákvæði merkir önnur ríki en EASA-ríki.

8. gr.

Eftirlit.

    Lögbær stjórnvöld skulu vakta og meta öryggisframmistöðu þeirra aðila sem þau hafa eftirlit með. Eftirlit skal vera samfellt, skjalfest og grundvallast á forgangsatriðum sem eru ákveðin í ljósi áhættu fyrir almenningsflug eftir því sem við á. Annað eftirlit skal vera í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem ráðherra setur.

9. gr.

Ráð og nefndir.

    Ráðherra skipar annars vegar flugverndarráð og hins vegar ráð um ráðstafanir til að greiða fyrir flugstarfsemi, samhæfingu opinberra aðila og annarra á því sviði. Nánar skal kveðið á um ráðin, hlutverk, verkefni og samsetningu fulltrúa hagsmunaaðila og opinberra aðila og skipunartíma í reglugerð sem ráðherra setur.
    Samgöngustofa setur reglur um skipan, hlutverk og verkefni vinnuverndarráðs vegna flugstarfsemi og flugverndarnefnda á flugvöllum. Samgöngustofa skal tryggja eftir því sem við á að samræmingarnefnd flugvallar sé skipuð.

10. gr.

Söfnun, greining og skipti á upplýsingum og gögnum.

    Lögbær stjórnvöld skulu safna, skiptast á og greina upplýsingar og gögn er varða framkvæmd laga þessara og reglugerða sem sett eru á grundvelli þeirra í þágu aukins flugöryggis.
    Lögbær stjórnvöld skulu grípa til nauðsynlegra og skilvirkra aðgerða til að efla og stuðla að vitundarvakningu um öryggi í flugi og miðla öryggistengdum upplýsingum sem skipta máli vegna forvarna gegn slysum og atvikum í flugi.
    Gögn sem geyma upplýsingar er varða 129. gr., þ.m.t. tilkynningar, kvartanir og nafn þess er kvartar og kvörtun beinist gegn, eru undanþegin upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum.

11. gr.

Vinnsla persónuupplýsinga og samstarf um samevrópsk gagnasöfn.

    Samgöngustofa er heimil vinnsla persónuupplýsinga og upplýsinga er varða framkvæmd og eftirlit, þar á meðal upplýsinga um eftirlitsskylda aðila, upplýsinga um heilbrigði og fjárhagsleg málefni, upplýsinga um neyslu geðvirkra efna, refsiverða háttsemi og annarra upplýsinga sem hinn skráði lætur í té, stofnunin aflar, fær aðsendar eða verða til í starfsemi hennar í þeim tilgangi að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim. Um meðferð persónuupplýsinga fer samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    Samgöngustofa tekur þátt í samstarfi um miðlæg samevrópsk gagnasöfn og skal flytja í þau viðeigandi upplýsingar og gögn er varða flugöryggi, vottun, eftirlit og framfylgd að því marki sem mælt er fyrir um slíka miðlun og flutning í reglugerð sem ráðherra setur. Skal rannsóknarnefnd samgönguslysa hafa aðgang að þessum upplýsingunum til að sinna skyldum sínum.
    Samgöngustofa, rannsóknarnefnd samgönguslysa og eftir atvikum aðrir aðilar, sem skylt er að miðla upplýsingum í samevrópsku gagnasöfnin, skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja nauðsynlega vernd viðkvæmra öryggistengdra upplýsinga og persónuupplýsinga í gagnagrunnum og gagnasöfnum sínum og við miðlun og flutning slíkra upplýsinga í samevrópsku gagnasöfnin. Ávallt skal tryggja að persónulegar upplýsingar sem skráðar eru í samevrópsk gagnasöfn, þ.m.t. heilbrigðisupplýsingar, séu ekki geymdar lengur en þörf krefur.

12. gr.

Upplýsingamiðlun til stofnana.

    Samgöngustofu og öðrum stjórnvöldum hér á landi er skylt að láta Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, Eftirlitsstofnun EFTA eða, eftir atvikum, öðrum stofnunum innan EASA-ríkjanna í té allar þær upplýsingar og gögn sem stofnunum þessum eru nauðsynleg til að þeim sé unnt að sinna eftirlitshlutverki sínu samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim og þjóðréttarlegum skuldbindingum.
    Skyldan skv. 1. mgr. nær einnig til gagna sem háð eru þagnarskyldu á grundvelli annarra laga.

13. gr.

Eftirlitsskyldur aðili með aðsetur í fleiri en einu ríki.

    Ef eftirlitsskyldur aðili hefur höfuðstöðvar eða aðalaðsetur hér á landi en er með starfsemi í fleiri en einu ríki skal Samgöngustofu heimilt hafa samstarf um eftirlit við þau lögbæru landsyfirvöld, eitt eða fleiri, í því ríki eða ríkjum þar sem aðili er með starfsemi. Sama á við hafi Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins tekið við verkefnum og eftirliti lögbærs landsyfirvalds.

14. gr.

Tilfærsla eftirlits.

    Samgöngustofu, að undangengnu samráði við ráðherra, er heimilt að færa til verkefni og eftirlit sem heyrir undir stofnunina með samningi við:
     a.      lögbært landsyfirvald erlends ríkis,
     b.      Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins,
     c.      hæfan aðila, enda sé hann vottaður og metinn hæfur til þeirra verkefna og eftirlits sem um ræðir skv. 15. gr.
    Tilfærsla skv. 1. mgr. getur tekið til afmarkaðra verkefna, þ.m.t. vottunar og útgáfu vottorða, að veita yfirlýsingum móttöku og eftirlits og framfylgdar til lengri eða skemmri tíma. Tilfærslu er almennt ekki ætlað að vera varanleg og er afturkræf ráðstöfun.
    Með tilfærslu er Samgöngustofa leyst undan skyldum sínum að því marki sem þær færast til viðtakanda.

15. gr.

Hæfur aðili.

    Einstaklingur eða lögaðili sem sækist eftir vottun sem hæfur aðili skal vottaður af Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, Samgöngustofu eða sameiginlega af tveimur eða fleiri lögbærum landsyfirvöldum EASA-ríkja eða Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins og einu eða fleiri lögbærum landsyfirvöldum EASA-ríkja.
    Lögbærum stjórnvöldum skv. 1. mgr. er heimilt, eftir því sem við á, að breyta, takmarka, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla vottorð ef aðili uppfyllir ekki lengur þær kröfur sem gerðar eru til vottunar.
    Vottorð hæfs aðila útgefið skv. 1. mgr. hefur fullt gildi hér á landi. Gilt vottorð hæfs aðila er forsenda þess að aðili geti tekið að sér verkefni er tengjast vottun eða eftirliti sem fellur undir gildissvið EASA-reglugerðarinnar. Lögbærum stjórnvöldum er í sjálfsvald sett að hve miklu leyti þau vilja færa sér í nyt vottun hæfs aðila og þeirra réttinda sem honum kunna að hafa verið veitt af öðrum lögbærum landsyfirvöldum eða af Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins. Hæfur aðili skal taka og halda við ábyrgðartryggingu vegna þeirra verkefna sem hann tekst á hendur nema það lögbæra landsyfirvald sem felur honum verkefni undirgangist ábyrgðina.

16. gr.

Viðurkenndur aðili.

    Samgöngustofu, að undangengnu samráði við ráðherra, er heimilt að færa verkefni og eftirlit á sviði almannaflugs, vegna efnisatriða er falla utan gildissviðs EASA-reglugerðarinnar, sem undir stofnunina heyrir til aðila sem stofnunin viðurkennir. Um nánari afmörkun, skilyrði fyrir viðurkenningu, ábyrgð og réttaráhrif fer samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.

17. gr.

Tilfærsla eftirlits að beiðni eftirlitsskylds fyrirtækis.

    Fyrirtæki sem er með höfuðstöðvar hér á landi og er handhafi vottorðs eða býr yfir hæfi til að sækja um vottorð getur lagt fram beiðni þess efnis að verkefni og eftirlit Samgöngustofu færist til Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins ef það er með eða hyggst hafa verulegan hluta starfsstöðva, sem falla undir vottorðið, og starfsfólk í einu eða fleiri EASA-ríki. Tvö eða fleiri fyrirtæki sem eru hluti af sama fyrirtækjahópi, sem hvert og eitt hafa höfuðstöðvar í mismunandi EASA-ríkjum, geta einnig lagt fram beiðni skv. 1. mgr. enda séu fyrirtækin handhafar vottorðs eða hafa hæfi til að sækja um vottorð fyrir sams konar flugstarfsemi.
    Ef Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins eða þau lögbæru landsyfirvöld sem málið varðar telja að beiðni skv. 1. mgr. kunni að hafa neikvæð áhrif á getu þeirra hvers um sig til að sinna verkefnum, eftirliti og framfylgd samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim, eða myndi á annan hátt hafa neikvæð áhrif á skilvirka starfsemi þess, skal beiðninni synjað.
    Ef beiðni skv. 1. mgr. er samþykkt gilda ákvæði 2. og 3. mgr. 14. gr. eftir því sem við á.

18. gr.

Landsáætlun og aðgerðaáætlun á sviði flugöryggis.

    Ráðherra skal koma á og viðhalda landsáætlun um flugöryggi í samráði við hagsmunaaðila. Landsáætlun um flugöryggi skal vera í samræmi við umfang og margbreytileika flugstarfsemi hér á landi og Flugöryggisáætlun Evrópu og svæðisbundnar áherslur innan Norður-Atlantshafssvæðisins hvað Ísland varðar.
    Landsáætlunin skal að lágmarki taka til þeirra þátta sem tengjast ábyrgð ríkisins á stjórnun öryggis í flugi sem byggist á alþjóðlegum kröfum og ráðlögðum starfsvenjum. Þá skal áætlunin tilgreina með hliðsjón af opinberri stefnu og markmiðum ríkisins á sviði flugmála stig öryggisframmistöðu og það stig sem stefnt er að á landsvísu.
    Aðgerðaáætlun á sviði flugöryggis skal fylgja landsáætlun um flugöryggi eða vera hluti hennar. Aðgerðaáætlunin skal gerð í samráði við hagsmunaaðila og í henni skulu tilgreindar helstu öryggisáhættur sem áhrif hafa á öryggiskerfi á landsvísu, á grundvelli mats á viðeigandi öryggisupplýsingum, og gera grein fyrir nauðsynlegum aðgerðum til að draga úr hverri þeirra. Þá skal aðgerðaáætlunin taka mið af svæðisbundnum áætlunum og skilgreina þær öryggisáhættur og aðgerðir sem tilgreindar eru í flugöryggisáætlun Evrópu og skipta máli fyrir Ísland. Ráðherra er heimilt að fela Samgöngustofu gerð, viðhald og framkvæmd áætlana.

19. gr.

Viðbragðsáætlun vegna flugslysa.

    Ráðherra skal koma á og viðhalda áætlun um viðbrögð við flugslysi á landsvísu vegna loftfars sem skráð er hér á landi eða vegna flugslyss sem verður á íslensku yfirráðasvæði eða á alþjóðlegu hafsvæði þar sem Ísland fer með leit og björgun í samræmi við þjóðréttarskuldbindingar. Ráðherra er heimilt að fela öðrum aðilum gerð, samræmingarhlutverk, viðhald og framkvæmd áætlunar.

20. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra skal heimilt að innleiða með reglugerð EASA-reglugerðina eins og hún er tekin upp í viðauka XIII. við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Enn fremur er ráðherra heimilt að setja í reglugerðir nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þ.m.t. um:
     a.      kröfur til lögbærs landsyfirvalds, þ.m.t. stjórnkerfis; verklagsreglna; upplýsingaöryggis; tilfanga; aðstöðu og búnaðar; starfsfólks; þjálfunar; um skráahald; framkvæmd og tilhögun eftirlits; vöktunar og vottunar eftirlitsskyldra aðila; flokkun og meðhöndlun frávika og framfylgdarráðstafanir og skýrslugjöf um starfsemi sína,
     b.      verkefni, eftirlit og samstarf Samgöngustofu, Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnunar EFTA, þ.m.t. um miðlun upplýsinga og gagna; tilkynningar; tilhögun og afmörkun eftirlits; upplýsingaöryggis og varnir gegn hvers kyns áhættu sem ógna kynni öryggi upplýsingakerfa,
     c.      ráð sem ráðherra skipar skv. 9. gr.,
     d.      samevrópsk gagnasöfn og gagnagrunna, þ.m.t. þær upplýsingar sem skylt er að skrá; afmörkun þeirra aðila sem skylt er að miðla upplýsingum til skráningar í gagnasöfnin; upplýsingaöryggi og vernd persónuupplýsinga; geymslutíma; rétt til aðgangs og takmarkanir á rétti til að leiðrétta eða eyða upplýsingum úr gagnasafni eða gagnagrunni,
     e.      þá aðstoð sem Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins veitir Eftirlitsstofnun EFTA, þar á meðal á sviði úttekta og vöktunar á lögbærum landsyfirvöldum; við meðhöndlun frávika og úrræði til framfylgdar,
     f.      þá aðstoð sem Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins veitir lögbærum landsyfirvöldum, þ.m.t. á sviði framkvæmdar samninga við þriðja ríki,
     g.      samlag evrópsks eftirlitsfólks, þ.m.t. kröfur er lúta að hæfni og reynslu eftirlitsfólks til þátttöku; verklag við að óska eftir eða leggja samlagi til eftirlitsfólk og ákvörðun um endurgjald eða þóknun,
     h.      þóknanir og gjöld Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins; kærunefndar stofnunarinnar og málsmeðferð,
     i.      framkvæmd tilfærslu eftirlits, þ.m.t. skilyrði fyrir tilfærslu verkefna og eftirlits og afmörkun og umfang þeirra verkefna og eftirlits sem heimilt er að færa; málsmeðferð; samráð og upplýsingagjöf; hæfnismat; ráðstafanir; samkomulag eða samning um tilfærslu verkefna og eftirlits, skráningu samnings um tilfærslu verkefna og eftirlits og önnur skilyrði sem uppfylla þarf og leiða af alþjóðlegum kröfum,
     j.      vottun hæfra og viðurkenndra aðila, þar á meðal kröfur til hæfni, færni og óhlutdrægni; fjárhagslega hagsmuni; gildissvið vottunar og réttindi samfara vottun; aðstöðu; búnað og samstarf og upplýsingaskipti milli lögbærra landsyfirvalda og Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins vegna tilfærslu verkefna og eftirlits með hæfum aðilum,
     k.      efnisþætti landsáætlunar um flugöryggi, aðgerðaáætlunar á sviði flugöryggis og viðbragðsáætlunar vegna flugslysa; mat á hverri öryggisáhættu; markmiðssetningu, samráð við hagsmunaaðila; birtingu og upplýsingamiðlun og samstarf við Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, þ.m.t. tilkynningar til stofnunarinnar.

III. KAFLI

Aðgangur að íslensku yfirráðasvæði.

21. gr.

Ferð um íslenskt yfirráðasvæði.

    Loftfari er aðeins heimil för um íslenskt yfirráðasvæði að uppfylltu einhverju af eftirfarandi skilyrðum:
     a.      það hefur íslenskt þjóðerni og viðeigandi gilt lofthæfivottorð, þjóðarlofthæfivottorð, takmarkað lofthæfi- eða þjóðarlofthæfivottorð, flugleyfi eða heimild í samræmi við VI. kafla,
     b.      það hefur þjóðerni EASA-ríkis sem hefur með samningi verður veittur réttur til loftferða um íslenskt yfirráðasvæði og hefur gilt lofthæfivottorð, takmarkað lofthæfivottorð eða flugleyfi,
     c.      það hefur þjóðerni ríkis sem er ekki EASA-ríki en hefur með samningi verið veittur réttur til loftferða um íslenskt yfirráðasvæði og hefur gilt lofthæfivottorð,
     d.      það er ríkisloftfar erlends ríkis, loftfar skráð í erlendu ríki þar sem yfirlýstur tilgangur flugsins er í þágu erlends ríkis, ómannað ríkisloftfar erlends ríkis eða hlutur og tæki sem ferðast um loftið en er ekki loftfar sem telst vera í eigu eða undir yfirráðum erlends ríkis, með formlega heimild þess ráðherra sem fer með utanríkismál,
     e.      það er óskráð loftfar í tilteknum flokki eða af tiltekinni tegund og/eða undir tiltekinni hámarksflugtaksþyngd, sem ráðherra ákvarðar, og er ekki starfrækt í ábataskyni og uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru í reglugerð sem ráðherra setur til skráningar flugrekanda/umráðanda, búnaðar og starfrækslu,
     f.      það hefur heimild ráðherra eða Samgöngustofu til ferðar um íslenskt yfirráðasvæði.
    Hlutur og tæki sem ætlað er að ferðast um loftið en telst ekki loftfar, þ.m.t. geimhlutur, er aðeins heimilt að hefja á loft eða skjóta upp frá íslensku yfirráðasvæði og/eða heimila endurkomu að fyrir liggi leyfi ráðherra eða þess sem hann felur leyfisveitingu. Við meðhöndlun umsóknar skal heimilt að krefjast viðeigandi upplýsinga og gagna, svo sem áhættumats og staðfestingar á vátryggingu eða tryggingu til greiðslu skaðabóta.
    Sé fyrirhuguð ferð, flug- eða fallslóð eða braut hlutar eða tækis í borgaralegri eigu sem ætlað er að ferðast um loftið en telst ekki vera loftfar, þ.m.t. geimhluta, um íslenska lofthelgi og/eða það loftrými þar sem veitt er flugleiðsöguþjónustu í nafni íslenska ríkisins, skal Samgöngustofu og veitanda rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu tilkynnt fyrir fram um feril hlutar eða tækis.
    Heimild skv. 1. og 2. mgr. má binda þeim skilyrðum sem nauðsynleg teljast og er hún afturkallanleg án fyrirvara.
    Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um ferð loftfars og starfrækslu þess um og á íslensku yfirráðasvæði, sem og hluta og tækja sem ferðast um loftið en eru ekki loftför, um komu og brottför; framkvæmd heimildarveitinga og nánari afmörkun hvað útgáfu heimildar varðar; þær kröfur sem slíkir hlutir, tæki, og loftför kunna að þurfa uppfylla með tilliti til lofthæfi, búnaðar, umhverfissamræmis og mengunarvarna, flugöryggis, verndar, vátrygginga og ráðstafana til að tryggja öryggi á jörðu niðri og, ef við á, gagnvart annarri flugumferð.

22. gr.

Vottun borgaralegra loftfara frá þriðju ríkjum til flugs.

    Þriðja ríki samkvæmt þessu ákvæði merkir önnur ríki en EASA-ríki.
    Borgaralegt loftfar skráð í þriðja ríki, eða skráð í EASA-ríki og starfrækt af flugrekanda/umráðanda í þriðja ríki og lýtur eftirliti þess ríkis samkvæmt samningi þeirra ríkja sem í hlut eiga, sem hyggst fljúga til, frá og á íslensku yfirráðasvæði skal vottað af viðeigandi lögbæru stjórnvaldi með tilliti til flugöryggis, verndar og flugverja.
    Vottorð skal gefið út að fenginni beiðni þegar umsækjandi hefur sýnt fram á hæfni sína og getu til að rækja skyldur sínar sem tengjast starfrækslu loftfarsins í samræmi við viðeigandi alþjóðlegar kröfur og ráðlagðar starfsvenjur og reglugerðir á grundvelli laga þessara sem ráðherra setur. Vottorð skal tilgreina réttindi og umfang starfrækslu.
    Flugrekanda/umráðanda loftfars skv. 2. mgr. sem hyggst starfrækja annað flug en flutningaflug er heimilt að lýsa yfir hæfni og getu til að starfrækja flugið í samræmi við þær kröfur sem getið er í 3. mgr. þessarar greinar og skal tilkynna viðeigandi lögbærum stjórnvöldum yfirlýsingu sína.
    Ef eingöngu er um að ræða yfirflug borgaralegs loftfars, annars en ómannaðs loftfars, yfir íslenskt yfirráðasvæði er ekki þörf á vottorði eða yfirlýsingu skv. 2. og 4. mgr. enda sé loftfarið skráð í aðildarríki að Chicago-samningnum.
    Ráðherra er heimilt að kveða á um undanþágu frá vottun eða yfirlýsingu skv. 2. mgr. í reglugerð enda sé slíku flugi ætlað að ráða bót á ófyrirsjáanlegri og brýnni þörf og flugrekandi/umráðandi tilkynnir lögbærum stjórnvöldum fyrir fram um fyrirhugað flug og sækir um vottun.
    Grein þessi gildir ekki um loftför sem sæta banni eða eru skráð í ríkjum sem sæta banni til flugs, sbr. 228. gr.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um kröfur til umsóknar, innleiðingar alþjóðlegra krafna og ráðlagðra starfsvenja sem fylgja ber, mats, úttekta og eftirlits lögbærra stjórnvalda, málsmeðferðar sem og um heimildir til útgáfu, viðhalds heimilda, takmörkun, tímabundna niðurfellingu eða afturköllun heimilda og vöktunar á flugrekendum/umráðendum.

23. gr.

Flugréttindi og heimild til flugs í ábataskyni.

    Aðeins er heimilt að starfrækja flug í ábataskyni til, frá og á íslensku yfirráðasvæði að fyrir liggi heimild ráðherra eða þess sem hann felur heimildarveitinguna.
    Undanþegnir slíkri skyldu eru:
     a.      aðilar með útgefið flugrekstrarleyfi í EASA-ríki eða gilda útgefna yfirlýsingu um flugrekstur í ábataskyni enda falli fyrirhugað flug í ábataskyni undir þau réttindi sem viðkomandi EASA-ríki nýtur samkvæmt þeim samningi eða samningum Íslands sem viðkomandi ríki varðar, og
     b.      þeir aðilar sem falla undir c-lið 2. mgr. 84. gr.
    Ef aðili skv. 1. mgr. og a-lið 2. mgr. hyggst færa sér í nyt flugréttindi umfram þau réttindi sem samningar Íslands taka til skal jafnframt óska eftir heimild ráðherra eða þess sem hann felur heimildarveitingu til flugsins og eftir atvikum lögbærra landsyfirvalda í þriðju ríkjum.
    Ef flugrekandi með höfuðstöðvar eða aðalaðsetur í erlendu ríki hyggur á flug til eða frá eða á íslensku yfirráðasvæði í ábataskyni, hyggst gera samning við annan flugrekanda um tómaleigu loftfars, starfrækslu flugs á sameiginlegu flugnúmeri eða starfrækslu loftfars sem er skráð í öðru erlendu ríki en því sem eftirlit hefur með flugrekandanum skal óska eftir heimild ráðherra eða þess sem hann felur heimildarveitingu áður en fyrirhugað flug hefst.

24. gr.

Erlend ríkisloftför.

    Ráðherra samkvæmt þessari grein er sá ráðherra sem fer með utanríkismál.
    Óheimil er för erlendra ríkisloftfara um íslenskt yfirráðasvæði, loftfara sem skráð eru í erlendu ríki þar sem yfirlýstur tilgangur flugsins er í þágu erlends ríkis, ómannaðra ríkisloftfara erlends ríkis og hluta og tækja sem ferðast um loftið en eru ekki loftför sem teljast vera í eigu eða undir yfirráðum erlends ríkis nema með heimild ráðherra eða þess sem hann felur heimildarveitinguna.
    Ráðherra ákveður hvernig ferðum loftfara, hluta og tækja skv. 1. mgr. skuli háttað á íslensku yfirráðasvæði og veitir heimild til yfirflugs, viðkomu, komu og brottfarar. Ráðherra getur hvenær sem er ákveðið að afturkalla heimild sem og ákveðið að erlent ríkisloftfar, hlutur eða tæki skuli yfirgefa íslenskt yfirráðasvæði fyrirvaralaust.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um yfirflug, komur og ferðir erlendra ríkisloftfara, hluta og tækja sem ferðast um loftið en eru ekki loftför sem teljast vera í eigu eða undir yfirráðum erlends ríkis, svo sem um framkvæmd heimildaveitinga, leyfilegan búnað, hvaða starfsemi þau megi stunda og tilkynningarskyldu þeirra, svo og komur og dvöl flugverja ríkisloftfara og fjarflugmanna.

25. gr.

Aðgengi að flugvelli.

    Flugvelli og önnur mannvirki í þágu loftferða sem eru opin almenningi er erlendum loftförum einnig heimilt að nýta með sömu skilyrðum og íslenskum loftförum enda sé fyrir hendi samningur þess efnis við það erlenda ríki sem í hlut á.
    Við komu til eða brottför frá landinu er skylt að nota landamærastöð. Samgöngustofa getur heimilað að vikið sé frá framangreindu skilyrði hvað varðar flug sem ekki er starfrækt í ábataskyni enda styðji sérstakar aðstæður veitingu slíkrar heimildar.

26. gr.

Sérstök leyfi vegna viðburða.

    Sérstaks fyrirframleyfis Samgöngustofu er þörf þegar:
     a.      halda á flugsýningu eða flugkeppni sem auglýst er og opin almenningi,
     b.      fyrirhugað er fallhlífarstökk, eitt stökk eða fleiri, eða sem hluti sýningar/samkomu,
     c.      halda á sýningu/samkomu í nágrenni flugvallar sem opinn er almenningi þar sem skoteldum og flugeldavörum, þ.m.t. sérútbúnum skoteldum, er skotið upp og/eða þar sem leysigeisla eða ljósgeisla er beint út í loftið,
     d.      fyrirhugað er að dreifa/láta falla til jarðar hluti, efni eða annað sem valdið getur flugumferð, fólki eða mannvirkjum á jörðu niðri hættu,
     e.      fyrirhugað er að nota loftfar, eitt sér eða með öðrum, til að mynda texta eða merki sem sýnileg eru frá jörðu, með útblæstri reyks eða dreifingu annarra efna.
    Samgöngustofu er heimilt að krefjast viðeigandi gagna og upplýsinga vegna umsóknar um leyfi hverju sinni, þ.m.t. áhættumats.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um frekari leyfisskyldu vegna viðburða í því skyni að vernda fólk og eignir auk þess að kveða nánar á um framangreindar heimildir, umsókn, skilyrði, þ.m.t. kröfur til ábyrgðartryggingar, fjárhæða slíkra trygginga og skilmála og/eða áhættumats ef við á, öryggiskröfur og eftirlit.

IV. KAFLI

Almenn ákvæði.

27. gr.

Gildi vottorða o.fl.

    Hvers konar vottorð, réttindi, leyfi og fullgilding, útgefin af lögbærum stjórnvöldum í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra, skulu halda gildi sínu svo fremi að:
     a.      eftirlitsskyldur aðili uppfylli ávallt þær kröfur sem gerðar eru til starfans og/eða starfseminnar og skilyrði til starfrækslu, ef við á, þ.m.t. kröfur er varða meðhöndlun frávika, og viðeigandi lögbært stjórnvald geti ákvarðað að svo sé,
     b.      þau hafi ekki verið lögð inn, felld tímabundið úr gildi, eru útrunninn eða afturkölluð.

28. gr.

Yfirlýsingar.

    Hvers konar yfirlýsingar sem aðilar leggja fram í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra skulu halda gildi sínu svo fremi að:
     a.      útgefandi yfirlýsingar uppfylli ávallt þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar og skilyrði til starfrækslu, ef við á, þ.m.t. kröfur er varða meðhöndlun frávika, og viðeigandi lögbært stjórnvald geti ákvarðað að svo sé,
     b.      yfirlýsing sé ekki útrunnin, hafi ekki verið afturkölluð eða afskráð,
     c.      lögbær stjórnvöld hafi ekki lagt bann við starfsemi útgefanda yfirlýsingar.

29. gr.

Gagnkvæm viðurkenning.

    Erlend vottorð, réttindi, leyfi, fullgilding og yfirlýsingar, sbr. 27. og 28. gr., skulu njóta gagnkvæmrar viðurkenningar hér á landi í samræmi við þá samninga sem Ísland er aðili að enda séu uppfyllt þau skilyrði sem viðkomandi samningur mælir fyrir um.
    Lögbærum stjórnvöldum er heimilt að gefa út vottorð eða viðurkenna vottorð og önnur viðeigandi gögn sem staðfesta samræmi við lög þriðja ríkis, sem ekki telst EASA-ríki, ef kveðið er á um slíkt í lögum þessum, reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim eða samningum sem Ísland er aðili að.
    Ef um er að ræða vottorð og önnur viðeigandi gögn sem staðfesta samræmi við lög þriðja ríkis, sem falla utan gildissviðs EASA-reglugerðarinnar, er Samgöngustofu heimilt að meta þau gild enda uppfylli viðkomandi vottorð og önnur gögn þær kröfur sem lög þessi og reglugerðir áskilja.

30. gr.

Ábyrgðarskylda.

    Eftirlitsskyldir aðilar skulu ávallt geta sýnt fram á að þeir uppfylli þær kröfur og skilyrði sem lög þessi og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra áskilja.
    Eftirlitsskyldir aðilar skulu virða þau réttindi sem skilgreind eru í þeim vottorðum og öðrum réttindum sem útgefin eru af lögbærum stjórnvöldum og fara að öllum skilyrðum og takmörkunum sem tengd eru handhöfn þeirra.

31. gr.

Sönnun kunnáttu eða hæfni.

    Lögbærum stjórnvöldum er heimilt að krefjast þess að tilnefnt fyrirsvars- og ábyrgðarfólk eftirlitsskyldra aðila sanni kunnáttu sína og hæfni með próftöku eða annarri viðurkenndri aðferð samkvæmt ákvörðun viðkomandi stjórnvalds.

32. gr.

Skylda til að fara að fyrirmælum.

    Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að fara eftir og framfylgja skyldubundnum fyrirmælum sem lögbær stjórnvöld gefa út, svo sem lofthæfifyrirmælum, rekstrarfyrirmælum, fyrirmælum um áframhaldandi lofthæfi loftfara og fyrirmælum um ráðstafanir til að bregðast tafarlaust við öryggisvanda.

33. gr.

Samvinna.

    Eftirlitsskyldur aðili skal greiða fyrir eftirliti, skoðunum og úttektum lögbærs stjórnvalds eða eftir atvikum hæfs aðila og vinna með eftirlitsaðila eins og þörf krefur til að valdheimildir lögbæra stjórnvaldsins geti nýst sem skyldi og séu árangursríkar og skilvirkar.

34. gr.

Útvistuð starfsemi.

    Eftirlitsskyldur aðili skal ávallt tryggja að þjónusta sem er útvistað eða aðkeypt vara uppfylli viðeigandi kröfur um vottun að svo miklu leyti sem slíkrar vottunar er krafist. Ef aðili útvistar hluta af starfsemi sinni til annars fyrirtækis, sem ekki hefur vottun fyrir þeirri starfsemi, skal fyrirtækið sem samið er við starfa innan ramma vottunar hins vottaða aðila. Eftirlitsskyldur aðili skal tryggja lögbæru stjórnvaldi aðgengi til eftirlits með því fyrirtæki sem samið er við.

35. gr.

Aðferðir til að uppfylla skilyrði og kröfur.

    Á afmörkuðum sviðum gefa lögbær stjórnvöld út viðurkenndar aðferðir til að uppfylla skilyrði og kröfur samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim sem nota má til að staðfesta samræmi. Hafi viðurkenndum aðferðum verið beitt til að uppfylla kröfur skal litið svo á að gildandi kröfur hafi verið uppfylltar.
    Sé stuðst við aðrar aðferðir til að uppfylla kröfur, til að staðfesta samræmi við kröfur eða skilyrði samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim, skal óska eftir fyrirframsamþykki viðeigandi lögbærs stjórnvalds áður en slíkar aðferðir eru nýttar.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um notkun viðurkenndra aðferða og annarra aðferða til að uppfylla kröfur auk leiðbeiningarefnis í reglugerð, þ.m.t. heimildir lögbærra stjórnvalda til að takmarka, afturkalla eða breyta viðurkenndum aðferðum og öðrum aðferðum til að uppfylla kröfur.

36. gr.

Mælieiningar sem nota skal í flugi.

    Við starfrækslu flugs í lofti sem og á jörðu niðri skal nota alþjóðlega SI-mælieiningakerfið og samræmdan heimstíma í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um notkun SI-mælieiningakerfisins og notkun þeirra mælieininga sem ekki teljast SI-mælieiningar tímabundið eða samhliða notkun SI-mælieiningakerfisins; breytur; samhæfingu og framsetningu samræmds heimstíma.

37. gr.

Tölfræðiupplýsingar.

    Samgöngustofu er heimilt að krefja eftirlitsskylda aðila um gögn og upplýsingar sem hún þarfnast til að taka saman tölfræðilegar upplýsingar um flugstarfsemi og flugsamgöngur og er þeim skylt að veita henni upplýsingarnar á því formi sem hún óskar eða um er samið og innan þeirra tímamarka sem hún ákveður. Samgöngustofa skal jafnan upplýsa í hvaða tilgangi gagna er aflað, hvernig úrvinnslu verði háttað, gögn varðveitt, niðurstöður birtar og upplýsingum miðlað. Gagnasöfnun skal hagað á þann hátt að fyrirhöfn eftirlitsskyldra aðila við að láta í té gögn sé hófleg.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um söfnun, úrvinnslu og miðlun tölfræðiupplýsinga á sviði flugstarfsemi og flugsamgangna í reglugerð.

38. gr.

Ráðstafanir til að tryggja greiðar flugsamgöngur.

    Í því skyni að tryggja greiðar flugsamgöngur, auðvelt aðgengi, miðlun upplýsinga og lágmörkun hvers konar tafa og hindrana skulu stjórnvöld hafa samráð og samstarf sín á milli og við eftirlitsskylda aðila og hagaðila.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um:
     a.      komu og brottför loftfara, farþega, farms, flugvista og pósts, þ.m.t. meðhöndlun farþega, viðkomu- og skiptifarþega og farþega sem synjað er um landgöngu,
     b.      viðbrögð við neyð og hættuástandi og aðstoð til farþega og áhafnar,
     c.      sóttvarnir loftfara, sóttvarnaráðstafanir vegna flugsamgangna og ráðstafanir til að koma í veg fyrir aðflutning ágengra framandi tegunda,
     d.      aðstöðu, aðbúnað og þjónustu á flugvöllum og í flugstöðvum með tilliti til flæðis farþega, farms og pósts,
     e.      samræmingu og samþættingu aðgerða og ráðstafana stjórnvalda.

39. gr.

Tilkynning frávika og útgáfa upplýsinga um flugmál.

    Samgöngustofa skal, í samráði við ráðherra, annast tilkynningu frávika frá alþjóðlegum kröfum og ráðlögðum starfsvenjum sem fram koma í viðaukum við Chicago-samninginn til Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og annast miðlun annarra upplýsinga til og frá stofnuninni eftir þörfum.
    Samgöngustofa annast útgáfu flugmálahandbókar, upplýsingabréfs um flugmál og tilkynningar til flugliða og ber ábyrgð á að form og efni sé í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar, lög þessi og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim. Framangreindum flugmálaupplýsingum skal miðlað gjaldfrjálst á rafrænu formi. Samgöngustofu er heimilt að fela öðrum aðila útgáfu.

V. KAFLI

Skráning loftfara o.fl.

40. gr.

Skrár.

    Samgöngustofa skal halda skrá um íslensk loftför, skrá um flugrekendur/umráðendur ómannaðra loftfara og skrá um hluti og tæki sem ferðast um loftið en eru ekki loftför, þ.m.t. geimhluti, sem skylt er að skrá.
    Samgöngustofa skal miðla afmörkuðum upplýsingum úr skrám skv. 1. mgr., þar á meðal upplýsingum um eigendur og flugrekendur/umráðendur í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

41. gr.

Þjóðerni.

    Hafi loftfar verið skráð samkvæmt ákvæðum laga þessara hlýtur það íslenskt þjóðerni. Samgöngustofa gefur út númerað þjóðernis- og skrásetningarskírteini handa loftfarinu. Loftfarið hefur íslenskt þjóðerni meðan skírteinið heldur gildi sínu.
    Þegar loftfarið er skráð skal merkja það íslensku þjóðernismerki og skráningarmerki og gefa því skráningarnúmer. Þjóðernis- og skráningarmerki skal loftfarið bera meðan skrásetning þess er í gildi. Skráningarnúmeri má ekki breyta.

42. gr.

Eignarhald og umráð.

    Heimilt er að skrá hér á landi loftfar sem er í eigu:
     a.      íslenska ríkisins, sveitarfélaga eða opinberra stofnana hér á landi eða erlendra ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa,
     b.      íslenskra ríkisborgara og ríkisborgara ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa,
     c.      lögaðila sem hafa höfuðstöðvar eða aðalaðsetur hér á landi eða í ríki sem Ísland hefur samið við vegna þessa.
    Ef loftfar er tómaleigt til lögaðila eða einstaklings sem hefur höfuðstöðvar eða aðalaðsetur hér á landi skv. 1. mgr. er Samgöngustofu heimilt að skrá loftfarið í nafni leigutaka enda séu önnur skilyrði fyrir skráningu loftfarsins fyrir hendi að mati stofnunarinnar. Heimilt er að skilyrða slíka skráningu við starfrækslu í almannaflugi enda sé fyrirhuguð starfræksla loftfarsins ekki í ábataskyni.
    Samgöngustofa getur heimilað skráningu loftfars hér á landi þótt eigi sé fullnægt skilyrðum 1. og 2. mgr. enda sé eftirlit með loftfarinu fullnægjandi að mati stofnunarinnar og sérstakar ástæður mæli með því.
    Loftfar sem skráð er erlendis verður eigi skráð hér á landi fyrr en það hefur verið tekið af erlendri skrá.

43. gr.

Skráning loftfara.

    Umsókn um skráningu loftfars skal geyma þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til skrásetningar og henni skulu fylgja skilríki fyrir því að umsækjandi sé eigandi loftfarsins og hver fari með umráð þess. Ef eignarréttur umsækjanda er bundinn skilyrðum eða takmörkunum sem geta leitt til þess að eignarrétturinn flytjist til annars aðila skal geta þess í umsókn.
    Loftfar skal eigi skrá nema það hafi gilt tegundarvottorð, takmarkað tegundarvottorð eða flugleyfi sem Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins hefur gefið út eða Samgöngustofa metið gilt.
    Þrátt fyrir 2. mgr. er heimilt að skrá loftför sem ekki eru EASA-loftför, heimasmíðuð loftför og létt loftför sem talin eru áhættulítil enda uppfylli slík loftför þær kröfur til lofthæfi sem lög þessi og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim áskilja og að öðru leyti sé hægt að tryggja örugga starfrækslu þeirra.
    Ef á loftfari hvíla skráð réttindi sem meta skal gild hér á landi samkvæmt þjóðréttarlegum skuldbindingum verður loftfarið eigi tekið á íslenska skrá nema rétthöfum hafi verið gerð full skil, þeir samþykki flutninginn eða réttindin séu niður fallin við nauðungarsölu.
    Ef skilyrði eru til skrásetningar að mati Samgöngustofu skrásetur hún loftfar í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur og lætur því í té þjóðernis- og skrásetningarmerki og skráningarnúmer.
    Ef hönnun borgaralegs ómannaðs loftfars er háð vottun skv. 56. gr. skal eiganda þess skylt að skrá ómannaða loftfarið í loftfaraskrá. Við skráningu skulu skráningarskyld ómönnuð loftför fá úthlutað einkvæmu stafrænu skrásetningarnúmeri. Að öðru leyti gilda 1. og 2. mgr. 41. gr. um þjóðernis- og skrásetningarmerki ómannaða loftfarsins sem háð er vottun.

44. gr.

Eigendaskipti.

    Ef eigendaskipti verða á loftfari eftir skrásetningu, að nokkru eða öllu leyti, eigandi þess breytir ríkisfangi sínu eða gerð er breyting á loftfarinu sem máli skiptir um kennsl á því skal eigandi tafarlaust tilkynna Samgöngustofu breytinguna og leggja fram nauðsynlegar skýrslur og skilríki. Á sama hátt skal fara með þegar eigandi fullnægir eigi lengur skilyrðum 43. gr.
    Verði eigendaskipti að loftfari að nokkru eða öllu leyti með samningi hvílir tilkynningarskylda einnig á afsalsgjafa. Fari eigendaskipti á loftfari fram fyrir nauðungarsölu, gjaldþrot eða opinber skipti hvílir slík skylda á þeim sem gefur út afsal og kaupanda.
    Samgöngustofa skal að uppfylltum skilyrðum skrá breytingu og gæta ákvæða 43. gr. eftir því sem þörf er á.

45. gr.

Tilkynning samninga.

    Ef skráð loftfar er selt gegn afborgun og eignarréttarfyrirvara eða samningur gerður um kaup- eða fjármögnunarleigu skal tilkynna samninginn tafarlaust til Samgöngustofu. Tilkynningarskylda hvílir bæði á eiganda og umráðanda.
    Samgöngustofa skal skrá málavexti og fá afrit viðkomandi samninga.
    Ef loftfar sem skráð er hér á landi er látið í forræði leigutaka, eða annars sem notar það á eigin kostnað, er leigutaka eða þeim sem notar það skylt að afla samþykkis Samgöngustofu áður en notkun hefst.

46. gr.

Loftfar tekið af skrá.

    Loftfar skal taka af skrá þegar:
     a.      skráður eigandi krefst þess,
     b.      skilyrðum 42. gr. er eigi lengur fullnægt enda veiti Samgöngustofa eigi leyfi til að skráning loftfarsins haldist,
     c.      loftfar er rifið eða það hefur eyðilagst,
     d.      loftfar er horfið, enda séu þegar liðnir eru þrír mánuðir frá því að síðasta flug hófst og eigi er vitað að það sé enn óskaddað.
    Skilyrði er að skráður eigandi og/eða umráðandi loftfars sé skilum við Samgöngustofu vegna áfallinna og gjaldfallinna gjalda vegna loftfarsins og eftirlits vegna þess, um gjöldin hafi verið samið eða trygging sett fyrir greiðslu þeirra.
    Hafi eitthvert þeirra tilvika fyrir borið sem nefnd eru í b–d-liðum 1. mgr. skal eigandi loftfars tafarlaust tilkynna það skráningaryfirvöldum enda hafi það eigi þegar verið gert skv. 45. gr.
    Hafi loftfar eigi haft gilt vottorð um lofthæfi, takmarkað lofthæfi- eða þjóðarlofthæfivottorð, flugleyfi eða heimild í þrjú ár má taka það af skrá enda afli eigandi eigi vottorðs, leyfis eða heimildar áður en liðinn er frestur sem Samgöngustofa setur.
    Ef skráð eru réttindi í loftfari skal ekki taka það af loftfaraskrá nema rétthafi samþykki það. Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir samþykki rétthafa má fella loftfar af loftfaraskrá ef ákvæði b-, c- eða d-liðar 1. mgr. eiga við og fyrir liggur fullnægjandi staðfesting þess að loftfarið verði ekki lofthæft á ný eða verðmæti réttindanna eru óveruleg í ljósi þeirra atvika og hagsmuna sem í húfi eru.

47. gr.

Beiðni um afskráningu og útflutning loftfars.

    Samgöngustofu er heimilt að verða við beiðni um afskráningu loftfars og útflutning, enda sé það í samræmi við gildandi löggjöf á sviði flugöryggis, ef:
     a.      beiðni er framvísað af þar til bærum aðila á grundvelli óafturkræfrar heimildar til að biðja um afskráningu og útflutning sem skráð er af Samgöngustofu, og
     b.      þar til bær aðili vottar að fyrir liggi skriflegt samþykki handhafa skráðra tryggingarréttinda sem ganga framar tryggingarréttindum kröfuhafans til afskráningar loftfarsins eða að slík tryggingarréttindi séu niður fallin.

48. gr.

Breyting á skráningu eða afskráning loftfars.

    Ef loftfar er fellt niður af skrá skal eigandi þess, eða fyrri eigandi sé það komið í eigu erlends aðila, tafarlaust senda Samgöngustofu þjóðernis- og skrásetningarskírteinið.
    Ef færð er í skrána einhver breyting á þeim atriðum sem getur í skírteininu skal eigandinn án tafar senda Samgöngustofu skírteinið og skráir hún breytingarnar á skírteinið eða gefur út nýtt skírteini í stað hins.

49. gr.

Skráningarskylda flugrekanda/umráðanda ómannaðs loftfars.

    Flugrekanda/umráðanda ómannaðs loftfars sem hefur höfuðstöðvar eða aðalaðsetur sitt hér á landi er skylt að skrá upplýsingar um sig og loftfarið í skrá um flugrekendur/umráðendur ómannaðra loftfara sem Samgöngustofa heldur ef einn eða fleiri eftirtaldir liðir eiga við:
     a.      ómannað loftfar er starfrækt í opna flokknum:
                  1.      ómannað loftfarið hefur hámarksflugtaksmassa yfir 250 g, að meðtöldu eldsneyti/ orkugjafa, farmþunga og búnaði sem er áfestur loftfarinu í upphafi flugs, eða getur yfirfært meira en 80 júl af hreyfiorku á manneskju ef um árekstur er að ræða,
                  2.      ómannað loftfar er búið nema sem getur fangað persónuupplýsingar, nema um sé að ræða ómannað loftfar sem telst vera leikfang,
     b.      ómannað loftfar er starfrækt í sérstökum flokki óháð massa.
    Flugrekandi/umráðandi ómannaðs loftfars skal ábyrgjast réttmæti þeirra upplýsinga sem hann skráir.
    Við skráningu skal skráningarskyldur flugrekandi/umráðandi ómannaðs loftfars fá úthlutað einkvæmu stafrænu skráningarnúmeri. Merkja skal ómannað loftfar skv. 1. mgr. skráningarnúmeri flugrekanda/umráðanda og setja skráningarnúmer í viðbótarbúnað fyrir fjarauðkenningu, ef við á.

50. gr.

Afskráning flugrekanda/umráðanda ómannaðs loftfars.

    Flugrekanda/umráðanda ómannaðs loftfars sem fellur undir 49. gr. er heimilt að óska eftir afskráningu úr skrá yfir flugrekendur/umráðendur ómannaðra loftfara ef c- eða d-liður 1. mgr. 46. gr. á við eða ef fyrir liggur fullnægjandi staðfesting þess að loftfarið verði ekki flughæft á ný.
    Verði breyting á umráðum ómannaðs loftfars sem fellur undir 49. gr. skal ákvæði 44. gr. gilda eftir því sem við á.

51. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þ.m.t. að kveða nánar á um:
     a.      þær skrár sem tilteknar eru í 40. gr. og miðlun og birtingu upplýsinga úr þeim skrám,
     b.      skilyrði til skráningar og afskráningar loftfara og útflutningsbeiðni,
     c.      upplýsingar sem skrá skal í loftfaraskrá, skráningarskírteini loftfara, þjóðernis- og skrásetningarmerki, kennispjald og útflutningsbeiðni,
     d.      merkingu loftfara, staðsetningu þeirra, einkennisplötu og eiginleika hennar og merkingar tækja og búnaðar,
     e.      flokkun ómannaðra loftfara, þ.m.t. undirflokkun með tilliti til hámarksflugtaksmassa, starfrækslu og skráningarskyldu,
     f.      skrá yfir flugrekendur/umráðendur ómannaðra loftfara, þ.m.t. um upplýsingar sem skylt er að skrá, skrásetningarnúmer, fjarauðkenningu flugrekenda/umráðenda, rýmisvitund, varðveislu upplýsinga, aðgengi og upplýsingaskipti og afskráningu flugrekanda/umráðanda.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um afmörkun þeirra hluta og tækja sem ferðast um loftið en eru ekki loftför sem háð eru skráningarskyldu; skráningu geimhluta og eigenda og/eða flugrekenda/umráðenda þeirra; skilyrði til skráningar, þ.m.t. með tilliti til eignarhalds, staðfesturéttar og stefnu stjórnvalda og skilyrði til afskráningar; miðlun upplýsinga um skráningu og afskráningu; skilyrði til útgáfu leyfis til að hefja á loft eða skjóta upp og/eða endurkomu slíkra hluta eða tækja; starfrækslu; ábyrgð eiganda eða umráðanda slíks hlutar eða tækis; skaðabótaábyrgð; skyldu til að vátryggja og/eða leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu, bankaábyrgð eða tryggingu til greiðslu skaðabóta sem nægjanlegar teljast til að halda íslenska ríkinu skaðlausu komi til tjóns, sem og bæta tjón gagnvart þriðja manni, og lágmarksfjárhæðir slíkra vátrygginga eða annarra trygginga.

VI. KAFLI

Hönnun, framleiðsla, lofthæfi og viðhald.

52. gr.

Vottun hönnunar.

    Hönnun framleiðsluvöru, að undanskildum ómönnuðu loftfari, hlut og óuppsettum búnaði, breyting á hönnun framleiðsluvöru, hönnun viðgerðar og gögn er varða örugga starfrækslu í tengslum við tegundarhönnun er háð vottun lögbærs stjórnvalds.
    Falli vottun skv. 1. mgr. undir gildissvið EASA-reglugerðarinnar er Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins lögbært stjórnvald til útgáfu vottorðs. Falli vottun skv. 1. mgr. utan gildissviðs reglugerðarinnar er Samgöngustofa lögbært landsyfirvald við útgáfu vottorðs eða við mat á gildi erlends vottorðs.

53. gr.

Tegundarvottorð o.fl.

    Vottorð skv. 52. gr. skal gefa út þegar umsækjandi sýnir fram á að hönnun framleiðsluvöru, hlutar, óuppsetts búnaðar, breyting á hönnun, hönnun viðgerðar eða gögn um örugga starfrækslu sem tengjast tegundarhönnun eru í samræmi við viðeigandi vottunargrunn að mati lögbærs stjórnvalds og að hönnun vörunnar búi ekki yfir sérkennum eða eiginleikum sem samrýmast ekki umhverfissjónarmiðum eða geri notkun hennar ótrygga.
    Ef hönnun loftfars uppfyllir ekki að öllu leyti þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt vottunargrunni er heimilt að gefa út takmarkað tegundarvottorð enda sé sýnt fram á að hönnun loftfarsins samræmist vottunargrunni og er fullnægjandi að því er varðar lofthæfi og umhverfissamræmi í ljósi áætlaðrar notkunar þess.
    Samþykki gagna um örugga starfrækslu sem tengjast tegundarhönnun skal koma fram í tegundarvottorðinu eða takmarkaða tegundarvottorðinu eftir því sem við á. Ekki er þörf á aðskildu tegundarvottorði fyrir hönnun hreyfla og loftskrúfna sem vottaðar er sem hluti af hönnun loftfars. Þá er ekki þörf á aðskildu vottorði fyrir hönnun hluta sem eru vottaðir sem hluti af hönnun framleiðsluvöru.
    Þrátt fyrir ákvæði 1.–3. mgr. er ráðherra heimilt að ákvarða í reglugerð að:
     a.      heimilt sé að meta án þess að gefa út vottorð hvort hönnun framleiðsluvara, hluta og óuppsetts búnaðar uppfylli viðeigandi kröfur enda séu skilyrði og kröfur til verklags, sem ráðherra kveður á um í reglugerð, að öðru leyti uppfylltar,
     b.      fyrirtæki sem ber ábyrgð á hönnun og framleiðslu á framleiðsluvörum, hlutum og óuppsettum búnaði sé heimilt að lýsa því yfir að hönnun þess uppfylli þær kröfur sem ráðherra setur í reglugerð,
     c.      tilteknar framleiðsluvörur, hlutir og óuppsettur búnaður sé undanþeginn kröfum um vottun.
    Aðila sem hlotið hefur vottun skv. a- og b-lið 1. mgr. 54. gr. og hefur samþykki lögbærs stjórnvalds til vottunar skv. 1.–3. mgr. er heimilt að gefa út vottorð skv. 3. mgr. ef aðilinn hefur ákvarðað að hönnun eða gögn uppfylli nefnd skilyrði.

54. gr.

Hönnun, framleiðsla, viðhald og stjórnun á áframhaldandi lofthæfi.

    Eftirtalin starfsemi er háð vottun:
     a.      hönnun framleiðsluvara, hluta, óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra ómönnuðum loftförum,
     b.      framleiðsla framleiðsluvara, hluta, óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra ómönnuðum loftförum,
     c.      viðhald og stjórnun á áframhaldandi lofthæfi framleiðsluvara, hluta, óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra ómönnuðum loftförum.
    Vottorð skal gefa út þegar umsækjandi uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Í vottun skal tilgreina þau réttindi sem veitt eru umsækjanda, skilyrði vottunar, ef við á, og gildissvið. Heimilt er lögbæru stjórnvaldi að breyta vottorði til að bæta við eða fjarlægja réttindi.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal ráðherra heimilt að ákvarða með reglugerð að í stað vottunar geti aðili gefið út yfirlýsingu þess efnis að starfsemin uppfylli viðeigandi kröfur eða hann hafi getu og tilföng til að uppfylla viðeigandi kröfur í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra.
    Þrátt fyrir 1. mgr., sbr. 3. mgr., er ráðherra heimilt að ákvarða í reglugerð að hönnun, framleiðsla, viðhald og stjórnun á áframhaldandi lofthæfi tiltekinna framleiðsluvara, hluta, óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra ómönnuðum loftförum sé undanþegin kröfu um vottun.
    Þá er ráðherra heimilt að setja reglugerð um hvernig skuli sýna fram á að framleiðsluvara, hlutir og óuppsettur búnaður sem fyrirhugað er að framleiða án þess að starfsemi hafi hlotið vottun sé í samræmi við viðeigandi hönnunargögn, að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
    Lögbært stjórnvald við veitingu vottunar eða viðtöku yfirlýsingar skv. a-lið 1. mgr. er Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins. Sama á við um starfsemi skv. b- og c-lið 1. mgr. enda séu höfuðstöðvar fyrirtækis utan EASA-ríkjanna.

55. gr.

Viðurkenning á vottun erlendra fyrirtækja.

    Hafi fyrirtæki sem er með höfuðstöðvar í ríki utan EASA-ríkja og hefur með höndum starfsemi skv. a- og/eða b-lið 1. mgr. 54. gr. hlotið vottun af þar til bærum landsyfirvöldum er heimilt að viðurkenna vottunina enda sé slík vottun metin jafngild og öðrum skilyrðum sem ráðherra kveður á um í reglugerð er fullnægt.

56. gr.

Vottun ómannaðra borgaralegra loftfara.

    Hönnun, framleiðsla og viðhald ómannaðra borgaralegra loftfara og hreyfla þeirra, loftskrúfna, hluta, óuppsetts búnaðar, viðbótarbúnaðar til fjarauðkenningar og búnaðar til að fjarstýra þeim skal vottað í samræmi við 52. og 54. gr. ef ómannaða loftfarið uppfyllir eitt af eftirfarandi skilyrðum:
     a.      stærðarmál þess eru 3 metrar eða meira og það er hannað til að fljúga yfir mannfjölda,
     b.      það er hannað til fólksflutninga,
     c.      það er hannað í þeim tilgangi að flytja hættulegan varning og þarf að hafa traustleika til að lágmarka áhættu fyrir þriðju aðila ef slys ber að höndum,
     d.      það er ætlað til starfrækslu í sérstökum flokki og heimild Samgöngustofu til starfrækslu þess í kjölfar niðurstöðu áhættumats er á þá leið að áhættu af starfrækslu sé ekki hægt að lágmarka á fullnægjandi hátt án vottunar ómannaða loftfarsins.

57. gr.

Vottun lofthæfi EASA-loftfara.

    Sérhvert EASA-loftfar, að undanskildum ómönnuðum loftförum, skal vottað með tilliti til lofthæfis. Á grundvelli vottunar skal gefa út lofthæfivottorð og, ef við á, hljóðstigsvottorð. Vottorðið skal gefa út þegar umsækjandi sýnir fram á að loftfarið sé í samræmi við þá hönnun sem vottuð er og að unnt sé að starfrækja loftfarið á öruggan hátt og í samræmi við umhverfissjónarmið enda staðfesti Samgöngustofa að svo sé.
    Takmarkað lofthæfivottorð og, ef við á, takmarkað hljóðstigsvottorð skal gefa út fyrir loftfar þar sem annað hvort hefur verið gefin út yfirlýsing um hönnun í samræmi við a- og b-lið 4. mgr. 53. gr. eða þar sem hönnun loftfarsins hefur fengið útgefið takmarkað tegundarvottorð. Vottorðið skal gefa út þegar umsækjandi sýnir fram á að loftfarið sé í samræmi við þá hönnun sem vottuð er og að unnt sé að starfrækja loftfarið á öruggan hátt og í samræmi við umhverfissjónarmið enda geti Samgöngustofa staðfest að svo sé. Heimilt er, eins og nauðsynlegt þykir hverju sinni, að setja takmarkanir við starfrækslu loftfars sem hefur takmarkað lofthæfivottorð.
    Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er heimilt að gefa út flugleyfi og heimila starfrækslu loftfars sem ekki er með gilt lofthæfivottorð eða gilt takmarkað lofthæfivottorð. Í því tilviki skal slíkt flugleyfi gefið út að fenginni beiðni þegar umsækjandinn hefur sýnt fram á að unnt sé að fljúga loftfarinu á öruggan hátt við eðlilegar aðstæður. Flugleyfi skal háð viðeigandi takmörkunum.

58. gr.

Þjóðarvottorð um lofthæfi.

    Borgaralegt loftfar, sem er hvorki EASA-loftfar né ómannað loftfar, skal vottað með tilliti til lofthæfis og skal fá útgefið þjóðarvottorð um lofthæfi og, þegar á við, þjóðarvottorð um hljóðstig enda uppfylli loftfarið þær kröfur til lofthæfis, umhverfissamræmis, mengunar og starfrækslu sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur.
    Þrátt fyrir 1. mgr. má gefa út heimild til flugs loftfars sem ekki fullnægir skilyrðum til útgáfu þjóðarlofthæfivottorðs enda uppfylli loftfarið þær kröfur sem skilgreindar eru í reglugerð sem ráðherra setur. Slík heimild skal háð viðeigandi takmörkunum.

59. gr.

Vottun ríkisloftfara.

    Ríkisloftfar, sem er skráð sem slíkt í loftfaraskrá, hreyflar þess, loftskrúfur, hlutir, óuppsettur búnaður og búnaður til að fjarstýra því skal uppfylla þær kröfur til lofthæfis, umhverfissamræmis, mengunar og starfrækslu sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur. Heimilt skal að gefa út þjóðarlofthæfivottorð fyrir ríkisloftfar enda uppfylli loftfarið þær kröfur sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur.
    Þrátt fyrir 1. mgr. má gefa út heimild til flugs loftfars sem ekki fullnægir skilyrðum til útgáfu þjóðarlofthæfivottorðs, enda uppfylli loftfarið þær kröfur sem skilgreindar eru í reglugerð sem ráðherra setur. Slík heimild skal háð viðeigandi takmörkunum.

60. gr.

Vottun loftfara sem starfrækt eru af opinberum aðilum.

    Loftfar sem starfrækt er af opinberum aðila til að sinna þjónustu í almannaþágu eða skyldum á ábyrgð ríkisins, hreyflar þess, loftskrúfur, hlutir, óuppsettur búnaður og búnaður til að fjarstýra loftfarinu skal uppfylla þær kröfur til lofthæfis, umhverfissamræmis, mengunar og starfrækslu sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur. Heimilt er að gefa út þjóðarlofthæfivottorð fyrir loftfar sem starfrækt er af opinberum aðilum enda uppfylli loftfarið þær kröfur sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur.
    Þrátt fyrir 1. mgr. má gefa út heimild til flugs loftfars sem ekki fullnægir skilyrðum til útgáfu þjóðarlofthæfivottorðs enda uppfylli loftfarið þær kröfur sem skilgreindar eru í reglugerð sem ráðherra setur. Slík heimild skal háð viðeigandi takmörkunum.

61. gr.

Lofthæfi ómannaðra borgaralegra loftfara sem háð eru vottun.

    Ómannað borgaralegt loftfar sem háð er vottun og búnaður til að fjarstýra því skal uppfylla þær kröfur til hollustuhátta, öryggis, lofthæfis, umhverfissamræmis, mengunar og starfrækslu sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur.
    Einungis má starfrækja ómannað loftfar sem háð er vottun ef það er í lofthæfu ástandi og nauðsynlegur búnaður, aðrir íhlutir og þjónusta fyrir fyrirhugaða starfrækslu er til taks og starfhæf.

62. gr.

Almennt um lofthæfi loftfars.

    Eigandi loftfars ber ábyrgð á áframhaldandi lofthæfi þess og skal tryggja að því verði ekki flogið nema:
     a.      loftfarið sé í lofthæfu ástandi,
     b.      neyðarbúnaður og öll rekstrartæki séu rétt ísett og nothæf eða skýrt auðkennd sem ónothæf,
     c.      vottorð um lofthæfi sé í gildi,
     d.      viðhald á loftfarinu sé í samræmi við viðhaldsáætlun,
     e.      loftfarið uppfylli viðeigandi kröfur um mengunarvarnir,
     f.      loftfarið sé vátryggt í samræmi við lög þessi og stjórnvaldsfyrirmæli.
    Ábyrgð á lofthæfi flyst til leigutaka ef hann er tilgreindur á skrásetningarskírteini loftfars eða það er tekið fram í leigusamningi.

63. gr.

Viðhald framleiðsluvara, hluta og óuppsetts búnaðar.

    Starfsfólk með viðeigandi réttindi skal annast viðhald framleiðsluvara, hluta og óuppsetts búnaðar í samræmi við viðhaldsgögn. Að loknu viðhaldi skal gefa út viðhaldsvottorð.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er flugmanni sem jafnframt er eigandi loftfars heimilt að annast tiltekið viðhald þess og gefa að því loknu út viðhaldsvottorð fyrir loftfarið.
    Viðhald skal fara fram samkvæmt þeim aðferðum, tækni, stöðlum og leiðbeiningum sem tilgreind eru í viðeigandi viðhaldsgögnum og með þeim verkfærum, búnaði og efnum sem þar eru tilgreind. Prófa skal og kvarða verkfæri og búnað til samræmis við viðurkennda staðla.

64. gr.

Viðhaldsvottar.

    Handhöfum vottunar skv. c-lið 1. mgr. 54. gr. er heimilt að veita handhöfum skírteinis flugvéltæknis og öðru starfsfólki með viðeigandi starfsréttindi heimild til að skrifa undir viðhaldsvottorð fyrir hönd hins vottaða fyrirtækis. Vottunarheimild skal takmarka eftir því sem nauðsynlegt þykir.

65. gr.

Áframhaldandi lofthæfi.

    Tryggja ber áframhaldandi lofthæfi loftfara. Skipuleggja skal viðhald allra loftfara í samræmi við viðhaldsáætlun. Viðhaldsáætlun skal háð reglulegri endurskoðun.

66. gr.

Gildi lofthæfivottorðs.

    Lofthæfivottorð skal gefið út með ótakmarkaðan gildistíma hvað varðar EASA-loftför en önnur vottorð um lofthæfi skulu hafa takmarkaðan gildistíma í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
    Lofthæfivottorð skal halda gildi sínu svo framarlega sem loftfarið og tilheyrandi hreyflar, loftskrúfur, hlutar og óuppsettur búnaður fær viðhald í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim.
    Lofthæfivottorð fellur úr gildi ef:
     a.      tegundarvottorð sem lá til grundvallar útgáfu þess er tímabundið fellt úr gildi eða afturkallað eða ef um er að ræða loftfar sem ekki hefur tegundarvottorð eða loftfarið er ekki lengur í samræmi við vottaða tegundarhönnun,
     b.      loftfarið hefur orðið fyrir spjöllum sem einsýnt er að skipti máli varðandi lofthæfi og fullnægjandi aðgerðir til að endurheimta lofthæfi hafa ekki verið viðhafðar,
     c.      loftfar uppfyllir ekki kröfur til áframhaldandi lofthæfis, ekki er fylgt skyldubundinni viðhaldsstjórn eða viðhald hefur ekki farið fram á loftfarinu,
     d.      gert hefur verið við loftfarið, því breytt eða hlutum, íhlutum og búnaði þess breytt án þess að viðhaldsvottorð hafi verið gefið út,
     e.      loftfar hefur verið starfrækt utan takmarkana í samþykktri flughandbók eða lofthæfivottorði án þess að gerðar hafa verið viðeigandi ráðstafanir.
    Verði lofthæfivottorð ógilt getur Samgöngustofa krafist afhendingar þess. Ógildingin helst uns bætt hefur verið úr þeim ágöllum sem um ræðir.
    Samgöngustofa getur kveðið á um að taka skuli upp leiðbeiningar um notkun loftfarsins í lofthæfivottorð eða sérstakt skjal sem fylgir vottorðinu enda teljist það þá lofthæft þegar leiðbeiningunum er fylgt.
    Óheimilt er að fljúga loftfari ef lofthæfivottorð er ekki í gildi.

67. gr.

Lofthæfistaðfestingarvottorð.

    Flugrekandi/umráðandi loftfars skal reglulega láta staðfesta lofthæfi loftfars og endurskoða skrár yfir áframhaldandi lofthæfi til að tryggja gildi lofthæfivottorðs.
    Lofthæfistaðfestingarvottorð skal gefa út að lokinni fullnægjandi staðfestingu á lofthæfi. Lofthæfistaðfestingarvottorð gildir í eitt ár.
    Hvorki er hægt að gefa út lofthæfistaðfestingarvottorð né heldur framlengja það ef eitthvað bendir til þess eða ástæða er til að ætla að loftfarið sé ekki lofthæft.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um útgáfu og gildi lofthæfistaðfestingarvottorðs, aðstæður þegar heimilt er að framlengja lofthæfistaðfestingarvottorð, þá aðila sem heimild hafa til að staðfesta lofthæfi, gefa út eða framlengja lofthæfistaðfestingarvottorð, atvik er leiða til þess að vottorðið fellur úr gildi, ógildingu þess eða afturköllun.
    Óheimilt er að fljúga loftfari ef lofthæfistaðfestingarvottorð er útrunnið og hefur ekki verið framlengt, það hefur verið fellt tímabundið úr gildi eða afturkallað eða ef lofthæfivottorð er fallið úr gildi skv. 3. mgr. 66. gr.

68. gr.

Almenn undanþáguheimild.

    Samgöngustofu er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum þessa kafla og reglugerðum settum samkvæmt lögum þessum enda sé ekki um að ræða loftfar eða starfsemi sem fellur undir gildissvið EASA-reglugerðarinnar og nauðsynlegt þykir að prófa kosti loftfars eða aðrar sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

69. gr.

Ómönnuð borgaraleg loftför sem fyrirhugað er að starfrækja í opnum eða sérstökum flokki.

    Ómannað borgaralegt loftfar og búnaður til að fjarstýra því sem fyrirhugað er að starfrækja í opnum eða sérstökum flokki skal vera þannig úr garði gert, starfrækt, því haldið við og eftir því litið að ekki stafi hætta af fyrir heilsu eða öryggi manna, dýra, umhverfi og mannvirki.
    Framleiðendur, viðurkenndir fulltrúar, innflytjendur og dreifingaraðilar ómannaðra borgaralegra loftfara skulu tryggja að þau ómönnuðu loftför sem sett eru á markað uppfylli kröfur laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra og laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.
    Áður en ómannað borgaralegt loftfar sem fyrirhugað er að starfrækja í opnum flokki er sett á markað skal framleiðandi útbúa viðeigandi tæknigögn og framkvæma eða láta fara fram samræmismat á því hvort loftfarið uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru. Á grundvelli samræmismats skal framleiðandi gefa út samræmisyfirlýsingu og festa CE-merki á loftfarið.
    Óheimilt er að setja á markað eða bjóða á markaði ómannað loftfar, sem fyrirhugað er að starfrækja í opnum flokki á grundvelli samræmismats, og búnað til að fjarstýra því ef loftfarið hefur ekki CE-merkingu.
    Framleiðendur skulu tryggja að ómönnuð loftför, búnaður til að fjarstýra þeim og fjarauðkennibúnaðar sé merktur og auðkenndur í samræmi við þær kröfur sem ráðherra kveður á um í reglugerð. Framleiðendur skulu einnig tryggja að ómönnuðu loftfari fylgi upplýsingar fyrir notendur um tilætlaða notkun, helstu eiginleika og öryggi á tungumáli sem ætla má að notendur skilji. Dreifingaraðila ber að gæta þess að með loftfarinu fylgi þau gögn og upplýsingar sem framleiðanda ber að láta fylgja vöru.
    Ómannað borgaralegt loftfar sem fyrirhugað er að starfrækja í sérstökum flokki og búnaður til að fjarstýra því skal uppfylla þær kröfur til öryggis og starfrækslu sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur.

70. gr.

Fyrirframætlað samræmi.

    Ómannað borgaralegt loftfar, sem fyrirhugað er að starfrækja í opnum flokki, og búnaður til að fjarstýra því er álitið uppfylla viðeigandi kröfur um öryggi ef ástand þess er í samræmi við ákvæði samhæfðra evrópskra staðla eða hluta slíkra staðla sem staðfestir hafa verið af Staðlaráði Íslands sem íslenskir staðlar fyrir slíka vöru. Samgöngustofa birtir á vef sínum yfirlit yfir staðla fyrir ómönnuð loftför.

71. gr.

Tilkynntir aðilar.

    Ráðherra tilkynnir viðeigandi stjórnvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu um þá aðila hér á landi sem hafa heimild til að annast samræmismat skv. 69. gr. laga þessara. Ráðherra annast einnig eftirlit með tilkynntum aðilum en getur falið Samgöngustofu að annast það fyrir sína hönd.
    Tilkynntur aðili skal hafa faggildingu og faglega þekkingu til að sjá um samræmismat. Um faggildinguna fer samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. og ákvæðum laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.
    Sé tilkynntur aðili ekki opinber stofnun eða ríkisfyrirtæki skal hann hafa ábyrgðartryggingu sem nær til skaðabótaábyrgðar gagnvart öllum þeim sem hann kann að valda tjóni með starfsemi sinni.

72. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þ.m.t. að kveða nánar á um:
     a.      vottun hönnunar og framleiðslu framleiðsluvara, hluta, óuppsetts búnaðar, ómannaðra loftfara og búnaðar til að fjarstýra þeim; breytingu á hönnun framleiðsluvöru; hönnun viðgerðar og gögn er varða örugga starfrækslu í tengslum við tegundarhönnun, þ.m.t. skilyrði vottunar; vottunargrunna; vottunarforskriftir; sérstök skilyrði (tækniforskriftir); staðla og kröfur er varða umhverfisvernd og umhverfissamræmi og verklagsreglur vottunar er varða framangreint,
     b.      skilyrði fyrir útgáfu, breytingum og takmörkunum á tegundarvottorði, takmörkuðu tegundarvottorði, viðbótartegundarvottorði, evrópskri tækniforskriftarheimild; breytingu og samþykki fyrir hönnun viðgerðar; samræmingu hönnunar og framleiðslu,
     c.      þær kröfur sem starfsemi skal uppfylla skv. 54. gr., svo sem varðandi aðstöðu, starfsemislýsingu; skipulag; kunnáttu; reynslu og hæfni fyrirsvars- og ábyrgðarfólks og starfsfólks; fjárhag og verklag; tilkynningakerfi og gæðastjórnun; upplýsingaöryggi og varnir gegn áhættu sem ógna kunna öryggi net- og upplýsingakerfa,
     d.      þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja skv. a- og b-lið 1. mgr. 54. gr. sem sækjast eftir vottun til þess að gefa út vottorð skv. 1.–3. mgr. 52. gr.,
     e.      kröfur til lofthæfi og áframhaldandi lofthæfi loftfara, umhverfisverndar og umhverfissamræmis loftfara, þ.m.t. ómannaðra loftfara og búnaðar til að fjarstýra þeim; útgáfu vottorða vegna lofthæfi og hljóðstigs og kröfur til einstakra flokka loftfara,
     f.      framkvæmd flugprófana; flokka reynsluflugs og réttindi flugliða í flugprófunum,
     g.      viðhald loftfara, þ.m.t. ómannaðra loftfara; stjórnun á áframhaldandi lofthæfi; vottun vegna viðhalds; viðhaldsvottorð; staðfestingu á lofthæfi loftfara; viðbótarlofthæfikröfur og úrræði sem ætlað er að styðja við áframhaldandi lofthæfi- og öryggisumbætur; réttindi og skyldur viðhaldsvotta og annars starfsfólks eða verktaka sem sinna verkefnum tengdum viðhaldi eða áframhaldandi lofthæfi loftfara,
     h.      heimildir flugmanns til viðhalds og skilyrði og kröfur um hæfni flugmanns,
     i.      réttindi og skyldur handhafa vottorða og þeirra sem gefa út yfirlýsingar samkvæmt þessum kafla, þ.m.t. skilyrði áframhaldandi gildi vottunar; flokka og réttindi varðandi verksvið; útgáfu vottorða; viðhalds; breytinga, takmörkunar, tímabundna niðurfellingu eða afturköllun samkvæmt þessum kafla,
     j.      um skilyrði fyrir útgáfu heimildar til vottunar viðhalds, takmörkun á heimild, viðhaldi slíkrar heimildar; breytingu, tímabundinni ógildingu eða afturköllun, sem og um skrár sem halda skal um útgefnar heimildir, starfsréttindi, skírteini og áritanir, þjálfun, lágmarksaldur og reynslu viðhaldsvotta,
     k.      viðhaldsáætlun loftfars, þ.m.t. efnisatriði, í hvaða tilvikum votta þarf viðhaldsáætlun loftfars og breytingar á viðhaldsáætlun; hverjir geta vottað og verklag við vottun,
     l.      skilgreiningu ómannaðra loftfara, flokka þeirra og heimildir til að bjóða á markaði ómönnuð loftför og búnað til að fjarstýra þeim,
     m.      kröfur sem gerðar eru til ómannaðra loftfara, búnaðar til að fjarstýra þeim, viðbótarbúnaðar fyrir beina fjarauðkenningu, rýmisvitundar, þ.m.t. umhverfiskrafna, og kröfur um virkni kerfa og stjórnunar,
     n.      merkingar ómannaðra loftfara; skyldur framleiðenda, innflytjenda og dreifingaraðila; markaðseftirlit, samræmismat og framkvæmd þess; samræmismatsstofur; CE-merkið; samræmisyfirlýsingu og -merkingu; upplýsingaskyldu, þau gögn og upplýsingar sem skulu fylgja ómönnuðu loftfari, þ.m.t. tungumálakröfur, aðgengi og framsetningu upplýsinga.

VII. KAFLI

Vottun einstaklinga og aðila sem annast þjálfun.

73. gr.

Vottorð einstaklinga.

    Einstaklingar sem sækja um eftirfarandi vottorð skulu uppfylla þær kröfur um menntun og þjálfun, hæfni og færni, aldur, líkamlegt og andlegt hæfi, reglusemi og reynslu sem ráðherra kveður á um í reglugerð:
     a.      vottorð, þ.m.t. skírteini, og/eða áritanir flugmanna, fjarflugmanna, flugnema, flugvélstjóra, flugumferðarstjóra, nema í flugumferðarstjórn, flugumsjónarmanna, flugvéltækna og annarra sem votta viðhald eða áframhaldandi lofthæfi framleiðsluvara, hluta, óuppsetts búnaðar, ómannaðra loftfara og búnaðar til að fjarstýra loftförum,
     b.      staðfestingarvottorð öryggis- og þjónustuliða,
     c.      vottorð og/eða réttindi til að:
                  1.      þjálfa eða annast mat eða prófun á hæfni/færni umsækjanda skv. a- og b-lið, þ.m.t. þjálfun sem veitt er í flughermisþjálfa,
                  2.      taka þátt í heilbrigðismati á umsækjendum skv. a- og b-lið,
                  3.      starfa á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. tæknifólk sem sinnir öryggistengdum verkefnum,
                  4.      hafa á hendi störf er tengjast öryggi flugsamgangna.
    Vottorð, þ.m.t. skírteini einstaklings, tekur til þeirra réttinda, áritana og takmarkana sem í því felast, t.d. útgáfu viðeigandi heilbrigðisvottorðs. Vottorð, þ.m.t. skírteini og öll réttindi sem veitt eru, skulu gefin út þegar umsækjandi hefur sýnt fram á að uppfylla kröfur sem gerðar eru í reglugerð sem ráðherra setur. Heimilt er að takmarka vottorð og réttindi eins og nauðsynlegt er og skal hvers konar takmarkana eða viðbóta við þau réttindi sem veitt eru getið með skýrum hætti í skjalinu sjálfu eða viðbótarskjali.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er ráðherra heimilt að ákvarða með reglugerð að ekki sé krafist vottorðs á afmörkuðum sviðum enda sé tekið tillit til eðlis viðkomandi starfsemi og áhættunnar sem í henni felst.

74. gr.

Kröfur til aldurs.

    Ráðherra er heimilt að kveða á um aldurslágmark við útgáfu vottorðs, þ.m.t. skírteina einstaklinga og staðfestingarvottorða í reglugerð. Aldurshámark flugmanna í flutningaflugi skal vera 60 ár en ráðherra er heimilt að kveða á um með reglugerð að framlengja megi þessi mörk til allt að 65 ára aldurs, að fullnægðum skilyrðum sem hann setur. Þá er ráðherra heimilt að framlengja aldurshámark flugmanna í flutningaflugi loftbelgja eða svifflugna til allt að 70 ára aldurs, að fullnægðum skilyrðum sem hann setur.

75. gr.

Vottorð um heilbrigði.

    Flugliðar, öryggis- og þjónustuliðar og flugumferðarstjórar skulu reglulega undirgangast mat á því hvort heilbrigði þeirra geri þeim kleift að gegna störfum sínum á öruggan hátt. Aðeins skal gefa út, framlengja eða endurnýja vottorð um heilbrigði ef umsækjandi uppfyllir þær kröfur sem felast í því vottorði sem sótt er um. Umsækjanda um heilbrigðisvottorð skal skylt að undirgangast skoðanir og rannsóknir sem þörf er á til að hægt sé að leggja mat á heilbrigði hans.
    Heimilt er að takmarka vottorð um heilbrigði. Skrá skal takmarkanir í vottorðið sem fara skal eftir þegar réttindi skírteinis eða staðfestingarvottorðs eru nýtt.
    Vottorð um heilbrigði skal gefa út áður en viðkomandi skírteini eða staðfestingarvottorð er gefið út. Fyrir einflug skal flugnemi vera handhafi viðeigandi heilbrigðisvottorðs fyrir þá tegund skírteinis sem fyrirhugað er að fá útgefið. Nemi í flugumferðarstjórn skal vera handhafi heilbrigðisvottorðs áður en skírteini flugumferðarstjóranema er gefið út.

76. gr.

Synjun útgáfu.

    Samgöngustofu er heimilt að synja einstaklingi um útgáfu vottorðs eða annarra réttinda skv. 73. gr. hafi viðkomandi verið dæmdur til fangelsisvistar fyrir refsivert brot og ástæða er til að ætla að hann misfari með skírteinið, vottorðið eða réttindin.

77. gr.

Sérstakar skyldur handhafa vottorða og annarra réttinda.

    Handhafi vottorðs, þ.m.t. heilbrigðisvottorðs, áritunar og annarra réttinda sem Samgöngustofa hefur gefið út eða metið gild skal:
     a.      ekki nýta réttindi sín sé honum kunnugt um skerta líkamlega eða andlega getu sem gæti gert hann óhæfan til að nýta réttindin af öryggi,
     b.      óheimilt að nýta réttindi sín undir áhrifum geðvirkra efna, og
     c.      svo fljótt sem verða má tilkynna stofnuninni um atriði sem máli skipta þegar meta skal hvort hann fullnægir áfram skilyrðum til þeirra starfa sem vottorð, áritanir og önnur réttindi lúta að.
    Handhöfum vottorða er skylt hvenær sem er að gangast undir þá rannsókn og þau próf sem Samgöngustofa telur nauðsynleg til að viðhalda vottorði.

78. gr.

Erlend vottorð.

    Samgöngustofu er heimilt að fullgilda, umbreyta eða viðurkenna erlent vottorð aðila, þ.m.t. skírteini, áritanir og önnur réttindi og heilbrigðisvottorð sem gefin eru út af þriðja ríki eða fyrir þess hönd enda séu þau skilyrði uppfyllt sem ráðherra kveður á um í reglugerð eða kveðið er á um í samningi Íslands við hið erlenda ríki sem í hlut á.

79. gr.

Starfsemi háð vottun.

    Eftirtalin starfsemi er háð vottun samkvæmt lögum þessum:
     a.      bókleg kennsla og verkleg þjálfun til:
                  1.      útgáfu skírteinis flugmanns, fjarflugmanns, flugvélstjóra, flugumferðarstjóra, flugvéltæknis og annarra sem votta viðhald eða áframhaldandi lofthæfi framleiðsluvara, hluta, óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra loftförum,
                  2.      útgáfu staðfestingarvottorðs öryggis- og þjónustuliða,
                  3.      annarra réttinda á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu, rekstri flugvalla og á öðrum sviðum er lúta að flugöryggi í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur,
     b.      starfræksla og notkun flughermisþjálfa,
     c.      starfræksla fluglæknaseturs.
    Starfsemi sem háð er vottun skv. 1. mgr. tekur einnig til endurmenntunar og síþjálfunar, hvers konar áritana og réttinda sem bundin eru við handhöfn viðkomandi vottorðs og réttinda sem og takmarkaðra heimilda sem gefnar eru út til nemenda.
    Vottorð skal gefa út þegar umsækjandi sýnir fram á að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar. Lögbæru stjórnvaldi er heimilt að breyta þessum vottorðum til að bæta við eða fjarlægja réttindi.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er ráðherra heimilt að ákvarða með reglugerð að:
     a.      í stað vottunar geti aðili gefið út yfirlýsingu þess efnis að starfsemi viðkomandi uppfylli viðeigandi kröfur og hann hafi getu og tilföng til að uppfylla þær kröfur í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra,
     b.      undanþiggja starfsemi frá vottun með tilliti til eðlis viðkomandi starfsemi og áhættu sem í henni felst.
    Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins er lögbært stjórnvald til að veita vottun eða viðtöku yfirlýsingar frá fyrirtækjum skv. 1. mgr enda séu höfuðstöðvar fyrirtækis eða aðalstarfsstöð í þriðja ríki utan EASA-ríkjanna.
    Óheimilt er aðilum sem háðir eru vottun eða útgáfu yfirlýsingar fyrir starfsemi sinni skv. 1. mgr. og 73. gr. að taka til starfa og neyta þeirra réttinda sem háð er vottun eða útgáfu yfirlýsingar nema þeir hafi hlotið vottun lögbærra stjórnvalda eða yfirlýsingu hafi verið veitt viðtaka án athugasemda.

80. gr.

Vottun flughermisþjálfa.

    Votta skal flughermisþjálfa sem notaðir eru til þjálfunar, prófunar og við mat á hæfni og færni.
    Vottorð skal gefa út þegar umsækjandi sýnir fram á að flughermisþjálfinn uppfyllir þær kröfur og vottunarforskriftir sem ráðherra mælir fyrir um í reglugerð. Í vottorði skal tilgreina virkni flughermisþjálfa.
    Ráðherra er heimilt að ákvarða í reglugerð að:
     a.      í stað vottunar skv. 1. mgr. sé aðila sem starfrækir og notar flughermisþjálfa skv. b-lið 1. mgr. 79. skylt að gefa út yfirlýsingu þess efnis að flughermisþjálfinn uppfylli viðeigandi kröfur samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra,
     b.      vottun flughermisþjálfa teljist hluti vottunar fyrirtækis sem starfrækir flughermisþjálfa,
     c.      við tilteknar aðstæður séu flughermisþjálfar undanþegnir kröfu um vottun vegna eðlis viðkomandi starfsemi og áhættu sem í henni felst.
    Lögbæru stjórnvaldi er heimilt að takmarka, ógilda tímabundið eða afturkalla vottorð ef ekki er sýnt fram á að flughermisþjálfinn samræmist forsendum vottunar eða ef fyrirtækið sem starfrækir flughermisþjálfann fer ekki að þeim kröfum sem ráðherra setur í reglugerð. Að öðru leyti fer með takmörkun, tímabundna ógildingu eða afturköllun vottorðs og afturköllun eða afskráningu yfirlýsingar skv. 236. gr.
    Lögbært stjórnvald samkvæmt þessari grein er Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins enda séu höfuðstöðvar eða aðalstarfsstöð fyrirtækis sem starfrækir flughermisþjálfa í þriðja ríki utan EASA-ríkjanna eða flughermisþjálfi er staðsettur utan EASA-ríkja.

81. gr.

Tilkynningarskylda lækna.

    Lækni sem er vottaður til mats á heilbrigði skv. 73. og 79. gr. er skylt að tilkynna Samgöngustofu eftirfarandi breytingar sem geta haft áhrif á gildi heilbrigðisvottorðs:
     a.      ef breytingar hafa orðið á þeim forsendum sem útgáfa heilbrigðisvottorðs byggðist á, þ.m.t. efni yfirlýsinga í umsókn,
     b.      ef kröfur og skilyrði fyrir útgáfu heilbrigðisvottorðs eru ekki lengur uppfyllt,
     c.      ef læknir uppfyllir ekki lengur kröfur til vottunar eða útgáfu yfirlýsingar,
     d.      ef læknir sætir rannsókn heilbrigðisyfirvalda vegna starfs síns.
    Verði læknir þess vís að flugliði sé haldinn slíkri heilsubilun að hætta stafi af starfa hans í loftfari ber lækninum að vara hann við og tilkynna Samgöngustofu tafarlaust vitneskju sína.
    Læknir sem kemst að því eða fær grun um að flugliði og öryggis- og þjónustuliði hafi atvinnusjúkdóm, atvinnutengdan sjúkdóm eða hafi orðið fyrir öðrum skaðlegum áhrifum vegna starfa sinna skal án ástæðulausrar tafar tilkynna það til Samgöngustofu.

82. gr.

Heilbrigðisskrár og heilbrigðisskýrslur.

    Læknum sem hafa starfsstöð hér á landi skal skylt að framsenda allar heilbrigðisskrár og -skýrslur og aðrar viðeigandi upplýsingar til Samgöngustofu sé þess óskað í þágu heilbrigðisvottunar einstaklings og/eða eftirlits Samgöngustofu.

83. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þ.m.t. að kveða nánar á um útgáfu vottorða, áritana og annarra réttinda skv. 73. gr., þar á meðal kröfur um:
     a.      bóklega þekkingu og verklega færni, þ.m.t. tungumálakunnáttu, reynslu, þjálfun, prófanir og reglubundið mat á hæfni/færni, svo og skilyrði fyrir veitingu réttinda þeirra sem þjálfa eða annast mat eða prófun á hæfni/færni,
     b.      lágmarksaldur við útgáfu, endurnýjun eða framlengingu skírteinis, vottorðs eða annarra réttinda,
     c.      skilyrði fyrir útgáfu og gildistíma, takmarkanir, tímabundna ógildingu og afturköllun vottorðs, áritunar og annarra réttinda,
     d.      líkamlegt og andlegt heilbrigði fyrir hverja tegund heilbrigðisvottorðs og yfirlýsingar um heilbrigði sem og þau atriði sem skert geta heilbrigði með vísan til tegundar heilbrigðisvottorðs og yfirlýsingar um heilbrigði,
     e.      skilyrði fyrir útgáfu og gildistíma, takmarkanir, tímabundna ógildingu og afturköllun heilbrigðisvottorðs eða yfirlýsingar um heilbrigði,
     f.      fullgildingu, umbreytingu eða viðurkenningu erlendra vottorða, áritana og annarra réttinda,
     g.      skipulag, ábyrgðarskiptingu og verklag við útgáfu vottorða eða þegar yfirlýsingu er veitt viðtaka.
    Ráðherra er með reglugerð heimilt að kveða nánar á um skilyrði fyrir vottun, útgáfu yfirlýsingar og starfrækslu:
     a.      flughermisþjálfa og þjálfun í flughermisþjálfa,
     b.      fyrirtækja sem sjá um þjálfun, þ.m.t. um þann búnað sem nýttur er til þjálfunar og prófunar og vottun hans, sem og þá sem gefa út yfirlýsingu um starfsemi sína,
     c.      fluglæknasetra, þ.m.t. um vottun fluglækna og annarra lækna sem meta heilbrigði, þ.m.t. skilyrða til útgáfu heimilda til útgáfu vottorða, og
     d.      eftirlitsskyldra aðila við upplýsinga- og skýrslugjöf og við eftirlit með upplýsingaöryggi og vörnum gegn áhættu sem kynni að ógna öryggi upplýsingakerfa.
    Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð á um að aðeins handhöfum vottorða, þ.m.t. tiltekinna skírteina, áritana eða réttinda, sem útgefin eru í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim verði falin tiltekin störf um borð í loftförum, við stjórn loftferða, veitingu þjónustu í þágu flugöryggis og/eða til verndar á íslensku yfirráðasvæði.

VIII. KAFLI

Flugrekstrarleyfi.

84. gr.

Flugrekstrarleyfi.

    Leyfi Samgöngustofu þarf til að starfrækja loftfar í ábataskyni á íslensku yfirráðasvæði. Aðeins handhöfum flugrekstrarleyfis er heimilt að flytja farþega, farm og/eða póst í ábataskyni til, frá og á íslensku yfirráðasvæði.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er ráðherra heimilt að ákvarða í reglugerð að:
     a.      nánar tiltekin flugstarfsemi skuli háð vottun lögbærs stjórnvalds eða útgáfu yfirlýsingar af hálfu eiganda eða flugrekanda/umráðanda loftfars um hæfni sína og getu til að rækja skyldur sem tengjast starfrækslu loftfars þótt hún sé ekki í ábataskyni,
     b.      nánar tiltekin starfræksla loftfars í ábataskyni, að undanskildu flutningaflugi, skuli háð útgáfu yfirlýsingar af hálfu flugrekanda/umráðanda loftfars eða rekstraraðila um hæfni sína og getu til að rækja skyldur sem tengjast starfrækslu loftfars eða rekstri,
     c.      tiltekin starfræksla loftfars í ábataskyni skuli undanþegin kröfum um flugrekstrarleyfi enda taki slíkur rekstur aðeins til loftfars sem ekki er vélknúið og/eða vélknúins loftfars sem er mjög létt og loftfars sem eingöngu stundar staðbundið flug.
    Um skilyrði fyrir starfrækslu skv. a- og b-lið 2. mgr. fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum þessa kafla.

85. gr.

Skilyrði flugrekstrarleyfis.

    Skilyrði fyrir útgáfu flugrekstrarleyfis eru eftirfarandi:
     a.      að höfuðstöðvar fyrirtækis umsækjanda séu hér á landi,
     b.      að umsækjandi sé handhafi gilds flugrekandaskírteinis sem gefið er út af Samgöngustofu, lögbæru landsyfirvaldi í ríki sem Ísland hefur samið við vegna þessa eða af Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins,
     c.      að umsækjandi hafi yfir einu eða fleiri loftförum að ráða í gegnum eignarhald eða tómaleigu,
     d.      að aðalstarfsemi umsækjanda sé eingöngu bundin við rekstur flugþjónustu eða í tengslum við hvers konar aðra atvinnustarfsemi tengda loftförum eða viðgerðum eða viðhaldi á þeim,
     e.      að íslenska ríkið og/eða íslenskir ríkisborgarar eigi 51% eða meira af fyrirtækinu og fari með eiginlega stjórn þess, hvort sem er beint eða óbeint, fyrir tilstilli eins eða fleiri aðila.
     f.      að umsækjandi uppfylli önnur skilyrði um fjármögnun rekstrar, stjórnun, skipulag, vátryggingar og góðan orðstír í samræmi við lög þessi og reglugerð sem ráðherra setur.
    Erlend ríki sem hafa vikið frá sambærilegu skilyrði með samningi við Ísland og ríkisborgarar þeirra eru undanþegnir kröfu um íslenskt ríkisfang skv. e-lið 1. mgr.

86. gr.

Tilkynningar.

    Handhafi flugrekstrarleyfis skal tilkynna viðeigandi lögbæru stjórnvaldi fyrir fram um hvers konar fyrirhugaða sameiningu eða yfirtöku og innan 14 daga um hvers konar breytingar á eignarhaldi sem nemur meira en 10% af heildarhlutafjáreign flugrekanda eða móðurfyrirtækis þess eða endanlegs eignarhaldsfélags.

87. gr.

Flugrekandaskírteini.

    Gefa skal út flugrekandaskírteini þegar umsækjandi sýnir fram á að hann uppfylli þær kröfur sem settar eru fram í lögum þessum og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra.
    Flugrekandaskírteini skal tilgreina þau réttindi sem handhafa þess eru veitt. Lögbæru landsyfirvaldi er heimilt að ákvarða sérstakar rekstrarforskriftir sem skulu vera hluti flugrekandaskírteinis.
    Allar breytingar sem hafa áhrif á gildissvið flugrekandaskírteinis, leyfða starfrækslu og/eða rekstrarforskriftir, öryggisstefnu flugrekanda eða breytingar á tilnefndu fyrirsvars- og ábyrgðarfólki rekstrar skulu samþykktar fyrir fram af lögbæru landsyfirvaldi. Við allar breytingar sem falla ekki undir upphaflegt áhættumat skal leggja fram uppfært áhættumat og breyttar staðlaðar verklagsreglur.
    Séu breytingar gerðar á flugrekandaskírteini skal, eftir því sem við á, gera samsvarandi breytingar á flugrekstrarleyfi.

88. gr.

Tóma- og þjónustuleiga loftfara.

    Samningur þar sem flugrekandi/umráðandi er leigutaki loftfars samkvæmt samningi um tómaleigu loftfars er háður fyrirframsamþykki lögbærs landsyfirvalds með tilliti til flugöryggis. Sama á við um þjónustuleigu loftfars sem skráð er í þriðja ríki.
    Lögbæru landsyfirvaldi er heimilt að setja skilyrði fyrir samþykki sínu skv. 1. mgr.

89. gr.

Sérstök starfræksla.

    Starfræksla loftfars við tiltekin skilyrði eða aðstæður sem teljast áhættusamar, svo sem flutningur hættulegs varnings, notkun tiltekins tækjabúnaðar í flugi eða í sérstökum tilgangi, er háð fyrirframsamþykki lögbærs landsyfirvalds.
    Umfang starfsemi flugrekanda sem hefur samþykki til sérstakrar starfrækslu skal tilgreint í rekstrarforskriftum flugrekandaskírteinis.

90. gr.

Samstarf lögbærra stjórnvalda.

    Sé lögbært landsyfirvald flugrekandaskírteinis annað en það stjórnvald sem gefur út flugrekstrarleyfi skal það fyrrnefnda upplýsa hið síðarnefnda um hvers konar breytingar sem til stendur að gera á flugrekandaskírteini.
    Samgöngustofu er heimilt að skiptast á upplýsingum við önnur lögbær landsyfirvöld er varða mat og afturköllun flugrekandaskírteinis og flugrekstrarleyfis, þ.m.t. upplýsingar er lúta að fjárhag, vátryggingum og skipulagi sem kann að hafa áhrif á öryggi eða gjaldfærni aðila og aðrar upplýsingar sem geta gagnast lögbærum landsyfirvöldum við eftirlit með flugöryggi. Sé um að ræða trúnaðarupplýsingar eða aðrar viðkvæmar upplýsingar skal Samgöngustofa grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja öryggi slíkra upplýsinga.
    Ákvæðið tekur eftir því sem við á einnig til þeirra aðstæðna þar sem verkefni og eftirlit lögbærs landsyfirvalds hafa verið færð til Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins.

91. gr.

Útleiga loftfara til almannaflugs.

    Leyfi Samgöngustofu þarf til útleigu loftfara í ábataskyni án flugliða til almannaflugs á íslensku yfirráðasvæði. Undanþegin leyfisskyldu eru kaupleigu- og fjármögnunarfyrirtæki, flugrekendur með höfuðstöðvar innan EASA-ríkjanna með útgefið flugrekstrarleyfi til flutningaflugs og/eða sérstakrar starfrækslu.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um skilyrði fyrir leyfisveitingu, þ.m.t. stjórnunar, fjármögnunar, tilfanga, þjónustu, viðhalds loftfara, framkvæmd útleigu og kröfur til leigutaka.

92. gr.

Starfræksla loftfara opinberra aðila.

    Starfræksla loftfara opinberra aðila sem sinna þjónustu í almannaþágu eða skyldum á ábyrgð ríkisins sem tekur til eftirfarandi þjónustuþátta, eins eða fleiri, skal vera í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur:
     a.      lög- og tollgæslu,
     b.      landamæraeftirlits,
     c.      leitar og björgunar,
     d.      slökkvistarfa,
     e.      landamæragæslu,
     f.      strandgæslu eða svipaðrar starfsemi,
     g.      þjónustu undir stjórn, eftirliti og á ábyrgð ríkisins.

93. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þ.m.t. að kveða nánar á um:
     a.      starfrækslu í ábataskyni, þ.m.t. skilyrði fyrir vottun; skipulagi; eignarhaldi og stjórnun; fjármögnun; þjónustu; framkvæmd og starfrækslu; kröfur til starfsfólks og verktaka og þjálfun þeirra,
     b.      réttindi og skyldur handhafa flugrekandaskírteinis og flugrekstrarleyfis, þ.m.t. skilyrði þess að banna, takmarka eða skilyrða flugrekstur í þágu flugöryggis eða vegna umhverfissjónarmiða,
     c.      fjárhagskröfur til flugreksturs og upplýsingamiðlun til lögbærs landsyfirvalds eða lögbærra stjórnvalda,
     d.      handbækur, verklag, áætlanir, þ.m.t. vegna þjálfunar, flugöryggis, flugverndar og upplýsingaöryggis ásamt kerfi flugrekanda, svo sem stjórnunar-, tilkynninga-, öryggisstjórnunar- og gæðakerfi; tilföngum flugrekanda, meðal annars loftför, aðstöðu, búnað; skráahald; aðgengi að gögnum og verklag við starfrækslu loftfara,
     e.      sértækar kröfur þegar flugrekandi/umráðandi gerir samninga um sameiginleg flugnúmer, leigu loftfars (þjónustu- og tómaleigu) og þegar starfrækt eru loftför sem skráð eru í þriðja ríki,
     f.      markaðsaðgang og frelsi til að ákvarða flutningsmagn, tíðni og verð flugþjónustu,
     g.      sértækar kröfur til áhættumikillar starfrækslu,
     h.      réttindi og skyldur opinberra aðila sem sinna opinberri þjónustu í almannaþágu eða skyldum á ábyrgð ríkisins,
     i.      starfrækslu ómannaðra loftfara, hvort sem slík loftför eru starfrækt í ábataskyni eða ekki; áhættumat og viðmið. Ráðherra er enn fremur heimilt að kveða á um sérstök skilyrði fyrir starfrækslu ómannaðra loftfara, meðal annars vegna almannaöryggis, verndar umhverfis, friðhelgi einkalífs og persónuupplýsinga.

IX. KAFLI

Starfræksla loftfara.

94. gr.

Fyrirflugsskoðun og undirbúningur flugs.

    Flugstjóri skal tryggja að fyrir hvert flug eða röð samfelldra fluga fari fram fyrirflugsskoðun á loftfarinu til að ákvarða hvort það sé nothæft fyrir fyrirhugað flug.
    Flugstjóri skal fullvissa sig um að loftfarið sé lofthæft, skráð á viðeigandi hátt, að vottorð og skírteini þess efnis séu um borð, að massi loftfarsins og þungamiðja séu á þann veg að flugið geti farið fram innan þeirra takmarkana sem mælt er fyrir um í lofthæfiskjölum, að öllum handfarangri, lestarfarangri og farmi sé rétt hlaðið og hann vel skorðaður, að loftfarið sé tilhlýðilega búið og mannað og að ekki verði farið út fyrir starfrækslutakmarkanir og afkastagetu loftfarsins skv. 95. og 96. gr. í flugi og að flug sé að öðru leyti undirbúið og framkvæmt í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.

95. gr.

Starfrækslumörk loftfars.

    Loftfar skal ávallt starfrækt í samræmi við vottorð um lofthæfi, flugleyfi eða heimildir, hljóðstigsvottorð og innan starfrækslu- og massamarka.
    Þrátt fyrir 1. mgr. geta lögbær landsyfirvöld í ríki þar sem fyrirhugað er að lenda loftfari heimilað undanþágu frá massamörkum hljóðstigsvottorðs.

96. gr.

Afkastageta loftfara.

    Ekki má hefja flug eða halda því áfram nema áætluð afköst loftfars, að teknu tilliti til allra þátta sem hafa veruleg áhrif á afkastagetu þess, geri kleift að öll stig flugs séu framkvæmd innan gildandi vegalengda/svæða og hindranabila með fyrirhuguðum starfrækslumassa.

97. gr.

Lágmarksbúnaður.

    Loftfar skal búið búnaði, kerfum, mælum og tækjum, þ.m.t. fjarskipta- og leiðsögutækjum, auk neyðar- og björgunarbúnaðar, í samræmi við lofthæfivottun þess, fyrirhugað flug og þær aðstæður sem fljúga skal við samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.

98. gr.

Mönnun.

    Flugrekandi/umráðandi loftfars er ábyrgur fyrir því að framfylgt sé ákvæðum laganna um flugverja.
    Ákvarða skal fjölda og samsetningu flugverja loftfars að teknu tillit til:
     a.      vottunartakmarkana loftfarsins,
     b.      útfærslu loftfarsins, og
     c.      tegundar og tímalengdar starfrækslu.
    Óheimilt er að starfrækja loftfar sem ekki er mannað í samræmi við flughandbók eða vottun loftfars.
    Þrátt fyrir 3. mgr. getur Samgöngustofu heimilað notkun loftfars í æfingaskyni eða öðrum tilgangi enda séu sérstakar ástæður sem standi til þess að heimila slíka notkun.

99. gr.

Fartíma- og vinnutímamörk og hvíld.

    Flugrekandi/umráðandi loftfars skal tilnefna heimahöfn fyrir hvern flugverja.
    Flugrekandi/umráðandi loftfars skal sjá til þess að fartíma- og vinnutímamörk flugverja og áætlun um hvíldartíma sé í samræmi við lög þessi og reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli laganna.

100. gr.

Flug samkvæmt sjónflugs- og blindflugsreglum.

    Ef fyrirhugað er flug samkvæmt sjónflugsreglum verða veðurskilyrði á áætlaðri flugleið að vera þannig að mögulegt sé að fljúga í samræmi við slíkar reglur.
    Ef fyrirhugað er flug samkvæmt blindflugsreglum skal velja ákvörðunarflugvöll og varaflugvöll eða varaflugvelli, eftir því sem við á, þar sem loftfarið getur lent, að teknu tilliti til þeirra veðurskilyrða sem spáð er. Einnig skal ganga úr skugga um að flugleiðsöguþjónusta sé tiltæk, hver aðstaðan á jörðu niðri er og hvort ríkið sem í hlut á samþykki blindflug þar sem ákvörðunarstaður og/eða varaflugvöllurinn er staðsettur.

101. gr.

Skjöl, handbækur og upplýsingar um borð.

    Öll gögn sem eru nauðsynleg til að flugverjar geti sinnt störfum um borð í loftfari verða að vera uppfærð og tiltæk um borð í loftfarinu, að teknu tilliti til gildandi reglna um flugumferð, flugreglna, flughæðar og starfrækslusviðs.
    Gögn skv. 1. mgr. skulu geymd fyrir hvert flug, þau höfð tiltæk og varin í lágmarkstíma fyrir óheimilum breytingum í samræmi við tegund starfrækslunnar.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um þau skjöl, handbækur og upplýsingar sem skulu vera um borð í loftfari í hverri flugferð eða ef við á geymd á jörðu niðri þegar flug hefst og því lýkur á sama flugvelli eða innan staðbundins svæðis.
    Í erlendu loftfari á íslensku yfirráðasvæði skulu vera samsvarandi vottorð og skírteini frá viðkomandi erlendu ríki eða ríkjum sem rétt hafa til flugs um íslenskt yfirráðasvæði.
    Sá sem hefur hagsmuna að gæta að lögum hefur rétt til að kynna sér efni dagbóka og annarra loftfarsskjala.

102. gr.

Aðgæsluskylda, geðvirk efni og rafeindatæki.

    Flugrekandi/umráðandi skal gera viðeigandi ráðstafanir til að varna því að nokkur aðhafist af gáleysi eða kæruleysi varðandi nokkuð það sem:
     a.      stofnar loftfari eða einstaklingum um borð eða á jörðu niðri í hættu,
     b.      veldur því eða láti viðgangast að loftfar stofni fólki eða eignum í hættu.
    Flugrekandi/umráðandi skal gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að enginn undir áhrifum geðvirkra efna fari inn í eða dvelji í loftfarinu, að því marki að það stofni öryggi loftfarsins eða fólki um borð í hættu. Í því skyni skal flugrekandi meðal annars móta og innleiða stefnu um forvarnir og skimun á misnotkun geðvirkra efna af hálfu þeirra sem hann hefur í þjónustu sinni um borð og þeim sem veita öryggisþjónustu vegna loftferða.
    Flugrekandi/umráðandi skal ekki heimila neinum um borð í flugvél að nota handrafeindatæki sem gætu haft truflandi áhrif á nothæfi kerfa og búnaðar loftfarsins og skal hann gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að þau séu ekki notuð.

103. gr.

Starfræksla ómannaðs loftfars.

    Flugrekandi/umráðandi ómannaðs loftfars ber ábyrgð á starfrækslu þess og skal gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja öryggi þess ásamt öryggi fólks, dýra og mannvirkja á jörðu niðri og annarra loftrýmisnotenda. Sérstaka aðgæsluskyldu hefur flugrekandi/umráðandi ómannaðs loftfars og fjarflugmaður gagnvart friðhelgi einkalífs.
    Flugrekandi/umráðandi ómannaðs loftfars verður að tryggja að loftfarið sé búið nauðsynlegum búnaði fyrir öryggi fyrirhugaðs flugs, að teknu tilliti til þess hvers eðlis starfrækslan er, til flugreglna og til reglna um það loftrými sem flogið er um.
    Allir sem taka þátt í starfrækslu ómannaðs loftfars, þ.m.t. fjarflugmaður, skulu búa yfir tilskilinni þekkingu og nauðsynlegri færni til að tryggja örugga starfrækslu í samræmi við þá áhættu sem tengist tegund starfrækslu.

104. gr.

Örugg starfræksla.

    Flugrekandi/umráðandi skal setja verklagsreglur og gefa út fyrirmæli um örugga starfrækslu fyrir hverja tegund loftfars þar sem kemur fram hver skyldu- og ábyrgðarstörf þeirra í þjónustu hans á jörðu niðri eru og flugverja við hvers konar starf á jörðu niðri eða í lofti.
    Flugrekandi/umráðandi skal tryggja að öllum sem starfa í hans þágu sé ljóst að þeim ber að fara að lögum, reglugerðum og verklagsreglum þeirra ríkja þar sem starfsemin fer fram og lúta að framkvæmd skyldustarfa þess.

105. gr.

Starfræksla loftfars við sérstök skilyrði.

    Starfræksla loftfars við tiltekin skilyrði er háð fyrirframheimild Samgöngustofu í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Samgöngustofu er jafnframt heimilt að setja slíkum heimildum skilyrði ef þörf krefur í þágu flugöryggis.

106. gr.

Flugstjóri.

    Flugrekandi/umráðandi skal tilnefna einn af flugliðum sem flugstjóra, enda uppfylli hann þær kröfur sem ráðherra mælir fyrir um í reglugerð hvað varðar nám, þekkingu og reynslu.
    Flugstjóri fer með æðsta vald í loftfari.
    Flugstjóri hefur undir sinni forsjá loftfar, áhöfn, farþega og farm. Honum er heimilt, þegar hann telur það nauðsynlegt, að setja flugverja um stundarsakir til annarrar þjónustu en þeirrar sem þeir eru ráðnir til.
    Flugstjóra er heimilt, þegar nauðsyn ber til, að synja viðtöku í loftfar eða vísa úr því flugverjum, farþegum, farangri eða farmi.
    Flugstjóri ber ábyrgð á að lögmæltar dagbækur og önnur flugskjöl séu í loftfari og skráð sé í bækur þessar og skjöl eins og lög þessi og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim kveða á um.

107. gr.

Upplýsingar og aðstoð til farþega.

    Flugstjóri skal tryggja að fyrir flug eða, ef við á, meðan á flugi stendur fái farþegar upplýsingar um staðsetningu og notkun öryggis- og neyðarbúnaðar.
    Farþegum er skylt að fara eftir fyrirmælum flugstjóra eða annarra flugverja er varða öryggi um borð og góða hegðun og reglu í loftfari.
    Farþegar sem þarfnast sérstakra skilyrða, aðstoðar og/eða búnaðar þegar þeir ferðast með flugi skulu fluttir við skilyrði sem miða að því að tryggja öryggi loftfarsins og allra um borð samkvæmt verklagsreglum sem flugrekandi/umráðandi setur.

108. gr.

Valdheimildir flugstjóra.

    Flugstjóra er heimilt að þröngva einstaklingi með valdi til hlýðni við sig ef fyrir hendi er rökstuddur grunur um að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru og eða verknað sem stofnar eða getur stofnað öryggi loftfarsins, manna eða eigna í hættu, enda sé það nauðsynlegt til að vernda öryggi loftfarsins, manna eða eigna eða til að halda uppi góðri hegðun og reglu í loftfari eða til að tryggja öryggi meints brotamanns svo hægt sé að afhenda hann stjórnvöldum eða koma honum frá borði. Í því skyni er flugstjóra meðal annars heimilt að skerða frelsi þess eða þeirra sem ógna öryggi eða góðri hegðun og reglu um borð. Frelsisskerðingu skal ekki beitt lengur en þörf krefur nema sá sem beittur er slíkum ráðstöfunum veiti samþykki sitt.
    Ef loftfar er í hættu statt eða annars konar neyðarástand er fyrir hendi eða yfirvofandi er flugstjóra heimilt að beita hverri þeirri aðferð sem nauðsynleg er til að koma á reglu og gera allt sem honum er unnt til bjargar loftfari, fólki og farmi sem í því er.
    Við beitingu ráðstafana skv. 1. og 2. mgr. er hverjum flugverja skylt, án þess að á hann sé skorað, að veita flugstjóra aðstoð. Flugstjóri getur jafnframt óskað eftir aðstoð farþega. Ef rökstudd ástæða er til að ætla að nauðsynlegt sé að vernda öryggi loftfars, fólks eða eigna er sérhverjum flugverja og farþega heimilt að grípa til ráðstafana til að varna vá og tjóni.
    Ef nauðsyn ber til að yfirgefa loftfarið skal flugstjóri eftir því sem frekast er unnt sjá svo um að flugskjölum sé komið á óhultan stað.

109. gr.

Viðbrögð við lögbroti o.fl.

    Ef lögbrot er framið um borð í loftfari ber flugstjóra að gera þær ráðstafanir sem hann getur og nauðsynlegar eru til að afla vitneskju um málið og sem eigi má að meinalausu fresta.
    Flugstjóri skal eins og kostur er sjá um að hinn grunaði komist eigi undan og er flugstjóra heimilt, ef nauðsyn ber til, að setja hann í gæslu uns hann verður afhentur lögreglu á Íslandi eða þar til bærum yfirvöldum erlendis.
    Flugstjóra er heimilt að taka í sína umsjá hluti sem ætla má að séu sönnunargögn uns þeir verða afhentir lögreglu eða yfirvöldum.

110. gr.

Verndun viðkvæmra upplýsinga er varða öryggi.

    Flugrekandi/umráðandi skal gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja starfhæfi flugrita, þ.e. ferð- og hljóðrita, og gagnatengla og vernd viðkvæmra upplýsinga.
    Ráðherra er heimilt að ákvarða með reglugerð hvaða loftför skuli útbúin flugrita og gagnatengli, hvaða fjarskipti, gögn og upplýsingar skuli tekin upp og hvernig og að hvaða marki skuli skrá og varðveita gögn og upptökur. Jafnframt skal ráðherra heimilt að kveða á um kröfur til öryggis, verndar, geymslu og notkunar upptaka og gagna og aðgengi að slíkum gögnum í þágu aukins flugöryggis.

111. gr.

Flutningur hættulegs varnings.

    Ekki má flytja hluti eða efni sem stofnað geta heilbrigði, öryggi, eignum eða umhverfinu í verulega hættu, svo sem hættulegan varning, með loftfari nema framfylgja öryggisreglum og fyrirmælum til að draga úr þeirri áhættu samfara flutningi.
    Flugrekandi/umráðandi skal koma á og viðhalda verklagi í rekstrarhandbók vegna flutnings hættulegs varnings. Enn fremur skal flugrekandi/umráðandi koma á og viðhalda þjálfunaráætlun á sviði flutnings hættulegs varnings fyrir starfsfólk í samræmi við tæknileg fyrirmæli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um flutning hættulegs varnings, þar á meðal hvenær þörf er á sérstakri heimild, vottun eða yfirlýsingu lögbærra stjórnvalda fyrir flutningi hættulegs varnings, hvaða hættulega varning er óheimilt að flytja, takmarkanir á flutningsmagni, ef við á, skyldu flugrekanda/umráðanda til að setja sér verklag um flutning hættulegs varnings og geymslu, fyrirmæli til flugverja og þjálfun starfsfólks, frágang, pökkun og merkingu varnings, flutningsskjöl og hleðslu og tilkynningar og upplýsingaskyldu til stjórnvalda vegna flutnings hættulegs varnings.

112. gr.

Hergögn og hervopn.

    För loftfara með hergögn og hervopn um íslenskt yfirráðasvæði er óheimil nema með heimild ráðherra sem fer með varnarmál eða þess sem hann felur heimildarveitinguna.
    Loftförum skráðum hér á landi og ómönnuðum loftförum sem starfrækt eru á íslensku yfirráðasvæði er óheimilt að flytja hergögn og hervopn nema með heimild ráðherra sem fer með varnarmál eða þess sem hann felur heimildarveitinguna.
    Þrátt fyrir 2. og 3. mgr. er ríkisloftförum sem skráð eru hér á landi, óskráðum ómönnuðum ríkisloftförum og loftförum opinberra aðila sem sinna þjónustu í almannaþágu eða skyldum á ábyrgð íslenska ríkisins í ríkisflugi heimil för og flutningur hergagna og hervopna um íslenskt yfirráðasvæði, sbr. þó 111. gr.
    Ráðherra sem fer með varnarmál er heimilt að veita undanþágu frá 2. og 3. mgr. enda sé þeim skilyrðum fullnægt sem ráðherra sem fer með varnarmál kveður á um í reglugerð, sbr. þó 111. gr.

113. gr.

Vopnaðir verðir.

    Óheimil er för loftfara með vopnaða verði í almenningsflugi um íslenskt yfirráðasvæði nema með heimild ráðherra eða þess sem hann felur heimildarveitinguna enda liggi fyrir jákvæð umsögn þess ráðherra sem fer með varnarmál, sbr. 2. mgr. 112. gr., og ríkislögreglustjóra. Sama á við um erlend ríkisloftför.
    Óheimil er för loftfara sem skráð eru hér á landi með vopnaða verði nema með heimild ráðherra skv. 1. mgr.

114. gr.

Upplýsingar um farþega.

    Flugrekendur með útgefið flugrekstrarleyfi innan EASA-ríkja í flutningaflugi til og frá Íslandi og flugrekendur með staðfestu í þriðja ríki sem fljúga frá Íslandi skulu gera farþegum kleift að gefa upp nafn og samskiptaupplýsingar þeirra einstaklinga sem hafa skal samband við ef slys ber að höndum. Slíkar upplýsingar skal einungis heimilt að nota ef slys ber að höndum og óheimilt er að miðla þeim til þriðja aðila eða nota í viðskiptalegum tilgangi.

115. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þ.m.t. að kveða nánar á um:
     a.      örugga starfrækslu; undirbúning flugs og verklag í flugi, þ.m.t. stjórnunarkerfi flugrekanda/umráðanda, verklagsreglur og handbækur og tæki, gögn og skjöl sem skulu vera um borð í loftfari; afkastagetu og starfrækslulágmörk loftfara,
     b.      kröfur um lista eða skjal yfir lágmarksbúnað þar sem kveðið er á um starfrækslu loftfars við tilgreind skilyrði; nauðsynlegan öryggistengdan búnað loftfars og annað sem lýtur að öryggi loftfars,
     c.      almennar og sértækar kröfur um lágmarksbúnað með tilliti til gerðar loftfars og fyrirhugaðs flugs, þ.m.t. mælitæki og búnað, fjarskipta- og leiðsögutæki og öryggis-, neyðar-, viðbúnaðar- og björgunarbúnað,
     d.      fyrirflugsskoðun; starfrækslu og verklag í flugi,
     e.      mönnun og samsetningu flugverja í áhöfn,
     f.      utanumhald, varðveislu og skráningu far-, vinnu- og hvíldartíma; skilgreiningu heimahafnar og skráningu; áætlanir um flugtímaforskriftir og þreytuáhættustjórnun, þ.m.t. málsmeðferð, hvíldaraðstöðu og svefnaðstöðu um borð,
     g.      kröfur til sérhæfðra flugverja, þ.m.t. kröfur til lágmarksaldurs, líkamlegs og andlegs heilbrigðis, þjálfunar og mats á því hvort þeir séu færir um að sinna þeim skyldustörfum sem þeim eru falin í samræmi við verklagsreglur flugrekanda/umráðanda,
     h.      þjálfun flugliða, öryggis- og þjónustuliða og sérhæfðra flugverja og fyrirkomulag þjálfunar,
     i.      starfsskyldur flugverja, verklag og leiðbeiningar,
     j.      varðveislu skráa, skjala og gagna er varða loftfarið,
     k.      upplýsingaöryggi og varnir gegn áhættu sem kynni að ógna öryggi upplýsingakerfa,
     l.      meðhöndlun gagna og upptaka úr búnaði, kerfum og gagnatengingum loftfars, þ.m.t. kröfur til búnaðar, kerfa og gagnatenginga, notkunar, geymslutíma og varðveislu,
     m.      kröfur um súrefnisbirgðir og notkun súrefnis,
     n.      gæðakröfur varðandi eldsneyti, meðferð, geymslu og afhendingu eldsneytis og verklag við eldsneytisáfyllingu,
     o.      veitingu áfengis um borð og meðferð rafeindatækja um borð,
     p.      kröfur er snúa að flutningi farþega, t.d. um öryggisbúnað flugfarþega, og verklag þar að lútandi,
     q.      sértækar kröfur vegna flutnings farms og pósts, meðhöndlunar og eftirlits, þ.m.t. flutnings hættulegs varnings, hergagna, hervopna, meðal annars um skilyrði fyrir vottun, heimild eða undanþágu,
     r.      sérstakar heimildir til starfrækslu loftfars við tiltekin skilyrði,
     s.      skilgreiningu hergagna og hervopna og skilyrði fyrir heimild, framkvæmd flutnings, geymslu og eftirlits,
     t.      vopnaða verði, kröfur til hæfni og þjálfunar, fyrirkomulag við vopnaburð, framkvæmd og eftirlit og skilyrði fyrir heimild,
     u.      sérstök skilyrði/kröfur er varða starfrækslu ómannaðra loftfara, svo sem vegna sjónarmiða um almannaöryggi og verndun einkalífs og persónuupplýsinga.

X. KAFLI

Vinnuumhverfi flugverja.

116. gr.

Gildissvið kafla.

    Ákvæði þessa kafla gilda um alla flugverja, þ.m.t. sérhæfða flugverja, sem starfa um borð í loftfari flugrekanda/umráðanda sem er handhafi vottorðs, leyfis eða hefur gefið út yfirlýsingu til starfrækslu loftfars í ábataskyni, fellur undir a- eða c-lið 1. mgr. 84. gr., og um opinbera aðila sem sinna þjónustu í almannaþágu eða skyldum á ábyrgð ríkisins, þ.m.t. starfræksla loftfara sem ekki eru rekin í ábataskyni, og aðila sem sinna verklegri þjálfun flugmanna skv. 79. gr. Nefnast framangreindir aðilar flugrekendur í kaflanum.
    Með ákvæðum þessa kafla er leitast við að tryggja öryggi og heilsusamlegt vinnuumhverfi og að flugrekendur og flugverjar geti í sameiningu leyst úr öryggis- og heilbrigðisvanda um borð í loftförum.

117. gr.

Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi flugverja.

    Flugrekandi skal stuðla að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi um borð í loftförum og að virkt eftirlit sé með því að vinnuumhverfi þar fullnægi kröfum laga og reglugerða. Í því skyni skal flugrekandi gera nauðsynlegar ráðstafanir er lúta að öryggi og heilsuvernd flugverja, þ.m.t. ráðstafanir í forvarnarskyni, og annast fræðslu og þjálfun svo og nauðsynlega skipulagningu og viðbúnað. Flugrekandi skal vera vakandi fyrir því að laga þessar ráðstafanir að breyttum kringumstæðum og hafa umbætur að markmiði.
    Flugverjar skulu taka þátt í samstarfi er miðar að auknu öryggi og betri aðbúnaði og hollustuháttum um borð í loftfari og einnig stuðla að því að þeim ráðstöfunum sem gerðar eru til að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti sé framfylgt.

118. gr.

Öryggistrúnaðarmaður og öryggisnefnd.

    Hjá flugrekanda þar sem starfa allt að fjórir flugverjar skulu úrbætur á vinnuumhverfi gerðar í nánu samstarfi flugrekanda og flugverja.
    Hjá flugrekanda þar sem starfa fimm flugverjar eða fleiri skulu flugverjar tilnefna eða kjósa öryggistrúnaðarmann til að vera fulltrúi þeirra í málum sem varða vinnuumhverfi um borð í loftförum. Öryggistrúnaðarmaður skal hafa rétt til þess að fara fram á viðeigandi ráðstafanir og til að leggja fram tillögur þar að lútandi til að draga úr hættu sem flugverjum er búin og/eða komast fyrir orsakir hennar.
    Hjá flugrekanda þar sem starfa fimm flugverjar eða fleiri skal stofna öryggisnefnd vinnuverndar. Í öryggisnefnd vinnuverndar skulu eiga sæti tveir fulltrúar flugverja, þar af annar fulltrúi flugliða að jafnaði, og tveir fulltrúar flugrekanda. Skipuleggur nefndin aðgerðir varðandi bætt vinnuumhverfi um borð í loftförum og annast fræðslu starfsmanna um þessi efni. Sé starfandi öryggisnefnd með víðtækara starfssvið innan fyrirtækis er heimilt að flytja málefni vinnuverndar undir slíka nefnd enda sé tryggt að fulltrúar flugverja og flugrekanda eigi þess kost að sækja fundi nefndarinnar.
    Öryggistrúnaðarmaður flugverja og fulltrúar flugverja í öryggisnefnd vinnuverndar skulu njóta þeirrar verndar trúnaðarmanns sem kveðið er á um í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

119. gr.

Skyldur flugrekanda.

    Flugrekandi skal stuðla að samstarfi þeirra sem valdir eða kjörnir eru til þess að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi um borð í loftförum og þeirra sem annast vernd og forvarnir fyrir hans hönd. Enn fremur skal hann sjá til þess að þeir sem eru valdir eða kjörnir til að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað og þeir sem sitja í öryggisnefnd vinnuverndar fyrir hans hönd fái hæfilegan tíma til þess að gegna skyldum sínum við eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi, fái tækifæri til þess að afla sér nauðsynlegrar þekkingar og menntunar varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi um borð í loftförum, hafi aðgang að þeim gögnum og upplýsingum er varða störf flugverja, svo sem áhættumati, verndarráðstöfunum, tilkynningum um vinnuslys, skýrslum og öðru tilsvarandi.
    Flugrekandi ber kostnað vegna starfs að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi og bætir þeim sem að því vinna tekjutap sem af kann að hljótast.
    Flugrekandi skal án ástæðulausrar tafar tilkynna til Samgöngustofu öll vinnuslys þar sem flugverji við störf um borð í loftfari deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri sólarhringa auk þess dags sem slysið var. Sama á við um slys þar sem líkur eru á að flugverji hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni.

120. gr.

Skyldur flugverja.

    Flugverji skal hlýða skipunum yfirmanna sinna í störfum sínum, bera umhyggju fyrir loftfari, fólki og farmi sem í því er og rækja starfsskyldur sínar af samviskusemi.
    Sérhver flugverji er ábyrgur fyrir því að gæta eigin öryggis og heilsu eftir því sem hann hefur tök á svo og annarra einstaklinga sem aðgerðir hans eða aðgerðaleysi í loftfari snertir í samræmi við þjálfun hans og fyrirmæli þau er flugrekandi hefur gefið honum.
    Flugverji sem verður var við ágalla eða vanbúnað sem leitt gæti til skerts öryggis vinnuumhverfis eða lakari aðbúnaðar eða hollustuhátta skal umsvifalaust tilkynna það öryggistrúnaðarmanni, fulltrúum í öryggisnefnd eða flugrekanda.

121. gr.

Fartíma- og vinnutímamörk, hvíld og orlof.

    Hámarksvinnustundir flugverja á hverju almanaksári, þ.m.t. bakvaktir, skulu vera 2000 klukkustundir og þar af takmarkast fartími við 900 klukkustundir. Hámarksvinnustundir skulu dreifast eins jafnt yfir árið og kostur er.
    Frídagar þar sem flugverjar eru lausir við alla vinnuskyldu og bakvaktir skulu tilkynntir fyrir fram. Frídagar skulu vera a.m.k. 7 staðardagar í hverjum almanaksmánuði og að minnsta kosti 96 staðardagar á hverju almanaksári sem geta falið í sér hvíldartímabil, í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
    Um rétt flugverja til orlofs fer samkvæmt lögum um orlof.

122. gr.

Heilsuvernd og heilsufarsskoðanir.

    Flugrekandi skal gera og fylgja eftir áætlun um heilsuvernd, þar á meðal áætlun um forvarnir.
    Flugrekandi skal gera einstaklingum í þjónustu sinni ljósa slysa- og sjúkdómshættu sem kann að vera bundin við starf þeirra.
    Flugverjar skulu eiga kost á heilsufarsskoðun á kostnað flugrekanda áður en þeir eru ráðnir til starfa og með reglulegu millibili þaðan í frá meðan þeir eru í starfi.
    Flugverjar sem eiga við heilsufarsvanda að stríða sem rekja má til þess að þeir vinna einnig næturvinnu skulu þegar þess er kostur eiga rétt á að vera færðir til í dagvinnustörf eða störf á jörðu niðri.
    Ef flugverji veikist eða slasast fjarri heimahöfn og fjarvistin er vegna starfs hans ber flugrekanda að greiða allan kostnað við læknishjálp, sjúkrahúsvist og flutning sjúklings til heimahafnar.

123. gr.

Rannsókn vinnuslysa, eftirlit o.fl.

    Samgöngustofa annast rannsókn vinnuslysa flugverja um borð í loftförum skráðum hér á landi í þeim tilgangi að stuðla að því að komið sé í veg fyrir að slíkt endurtaki sig, að svo miklu leyti sem slík rannsókn fer ekki fram af hálfu Rannsóknarnefndar samgönguslysa eða erlends ríkis. Samgöngustofu er heimilt að taka til rannsóknar að eigin frumkvæði vinnuslys eða atvik sem varða heilbrigði flugverja ef talið er að draga megi lærdóm af slíkri rannsókn sem stuðli að auknu heilbrigði og betri aðbúnaði flugverja.
    Samgöngustofa skal halda skrá um vinnuslys, atvinnusjúkdóma og eitranir flugverja.
    Við eftirlit með vinnuumhverfi flugverja, skráningu og rannsókn vinnuslysa er Samgöngustofu heimilt að eiga samstarf og samvinnu við önnur stjórnvöld, innlend sem erlend.
    Samgöngustofa skal, þegar öryggi og heilbrigði flugverja krefst þess, hafa milligöngu um, að viðkomandi flugrekendum standi til boða sérfræðiþjónusta við störf að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi.
    Öryggistrúnaðarmaður flugverja og fulltrúar flugverja í öryggisnefnd vinnuverndar er heimilt að skjóta málum til Samgöngustofu telji þeir að ráðstafanir þær sem gerðar hafa verið og þau úrræði sem flugrekandi notast við tryggi ekki aðbúnað, hollustu og öryggi um borð í loftförum svo viðunandi sé.

124. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þ.m.t. að kveða nánar á um:
     a.      aðbúnað, hollustuhætti og öryggi um borð í loftförum, þ.m.t. skipulag og framkvæmd ráðstafana er miða að auknu öryggi og heilbrigði um borð og bættu vinnuumhverfi,
     b.      samstarf og þátttöku flugverja, þ.m.t. störf öryggistrúnaðarmanns og öryggisnefndar vinnuverndar,
     c.      réttindi og skyldur flugrekenda og aðila sem sinna verklegri þjálfun flugmanna,
     d.      fartíma- og vinnutímamörk og reglur um hvíldartíma og frídaga, þ.m.t. hámarksflugvakt og lágmarkshvíldartíma og hámarks samanlagða fartíma yfir árið eða á hverju afmörkuðu tímabili,
     e.      heilsuvernd, heilsufarsskoðun og heilsuverndareftirlit og vernd sérstakra áhættuhópa,
     f.      starfsaðferðir og heilsuvá,
     g.      rannsókn vinnuslysa um borð í loftförum; skrá flugrekanda um tilkynningaskyld vinnuslys, atvinnusjúkdóma og eitranir; hvenær flugrekanda skuli skylt að tilkynna Samgöngustofu um vinnuslys eða atvik þar sem líkur eru á að flugverji hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni; meðhöndlun tilkynninga, vinnslu og greiningu upplýsinga og meðhöndlun og vernd persónuupplýsinga,
     h.      gerð og notkun hlífðarbúnaðar, svo sem hentugan fatnað, öryggishjálma, hlífðarbúnað gegn hávaða og geislun, hlífðargleraugu, vinnuskó, rykgrímur, gasgrímur, annan búnað til að verjast loftmengun og annan búnað ótalinn,
     i.      aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum og aðgerðir gegn heilsuvá og sjúkdómum,
     j.      framkvæmd eftirlits með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi um borð í loftförum, þ.m.t. samstarfi Samgöngustofu við önnur stjórnvöld.

XI. KAFLI

Tilkynning atvika í flugi.

125. gr.

Tilkynningaskylda.

    Öll atvik í flugi sem geta stofnað flugöryggi í umtalsverða hættu, þ.m.t. þau atvik sem tilkynna ber til rannsóknarnefndar samgönguslysa, sbr. lög um rannsókn samgönguslysa, skulu tilkynnt:
     a.      í gegnum tilkynningakerfi þess fyrirtækis, skv. 3. mgr., sem tilkynnandi vinnur hjá, semur við eða nýtir sér þjónustu hans, eða
     b.      til Samgöngustofu enda sé Samgöngustofa lögbært landsyfirvald viðkomandi fyrirtækis, sbr. 3. mgr., eða útgefandi vottunar hlutaðeigandi flugmanns, eða til Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins.
    Tilkynningarskylda skv. 1. mgr. hvílir á:
     a.      flugstjóra eða, í þeim tilvikum þar sem flugstjóri getur ekki tilkynnt atvikið, flugverja sem er næstráðandi um borð í loftfari eða á flugrekanda/umráðanda,
     b.      fjarflugmanni eða flugrekanda/umráðanda ómannaðs loftfars,
     c.      einstaklingi sem kemur að hönnun, framleiðslu, vöktun á áframhaldandi lofthæfi, viðhaldi eða breytingu loftfars, hluta þess eða búnaðar,
     d.      einstaklingi sem skrifar undir lofthæfistaðfestingarvottorð eða afhendingarvottorð fyrir loftfar, hluta þess eða búnað,
     e.      einstaklingi sem sinnir starfi þar sem krafist er að hann sé vottaður til starfa á sviði flugumferðarþjónustu eða til veitingar flugupplýsingaþjónustu,
     f.      einstaklingi sem sinnir öryggistengdu starfi á flugvelli,
     g.      einstaklingi sem sinnir starfi sem tengist uppsetningu, breytingu, viðhaldi, viðgerð, grannskoðun, flugeftirliti eða skoðun flugleiðsöguvirkja,
     h.      einstaklingi sem sinnir starfi sem tengist afgreiðslu loftfars á jörðu niðri, þ.m.t. eldsneytisáfyllingu, undirbúningi hleðsluskrár, hleðslu, afísun og drætti loftfars á flugvelli.
    Einstaklingar skulu tilkynna atvik eins fljótt og verða má en ekki seinna en innan 72 klst. frá því að þeir urðu atviks varir nema sérstakar aðstæður komi í veg fyrir það. Fyrirtæki sem móttekur tilkynningu um atvik skal tilkynna lögbæru stjórnvaldi um atvikið eins fljótt og verða má en ekki seinna en innan 72 klst. frá því að það varð þess vart.
    Fyrirtæki skulu koma á tilkynningakerfi til að auðvelda söfnun upplýsinga um slík tilkynningaskyld atvik. Fyrirtæki samkvæmt þessum kafla merkir hvert það fyrirtæki sem afhendir flugtengdar framleiðsluvörur og/eða sem ræður til sín, semur við eða notar þjónustu einstaklinga sem skylt er að tilkynna atvik í samræmi við 2. mgr.

126. gr.

Valfrjálsar tilkynningar.

    Til að auðvelda söfnun upplýsinga um atvik sem ekki er skylt að tilkynna, annarra öryggistengdra upplýsinga sem tilkynnandi álítur að stofni flugöryggi raunverulega eða hugsanlega í hættu og um atvik sem tilkynnt eru af einstaklingum sem ekki eru tilkynningarskyldir skv. 125. gr. skulu fyrirtæki skv. 3. mgr. 125. gr. og lögbær stjórnvöld setja á stofn og viðhalda kerfi fyrir valfrjálsar tilkynningar.
    Fyrirtæki skulu greina viðeigandi lögbæru stjórnvaldi tímanlega frá atviki og öllum upplýsingum tengdum því og öðrum öryggistengdum upplýsingum sem safnað hefur verið skv. 1. mgr. og geta falið í sér raunverulega eða hugsanlega áhættu fyrir flugöryggi.

127. gr.

Gagnagrunnur, miðlægt samevrópskt gagnasafn og skráning upplýsinga.

    Tilkynningar og upplýsingar um atvik sem safnað er af Samgöngustofu skal varðveita í sérstökum gagnagrunni til að auðvelda úrvinnslu upplýsinga með það að markmiði að efla flugöryggi. Óheimilt er að veita þriðja aðila aðgang að upplýsingunum eða tilkynningum. Þetta á þó ekki við um upplýsingar sem veittar eru:
     a.      erlendum ríkjum, stofnunum eða samtökum á grundvelli þjóðréttarlega skuldbindinga ef tilgangurinn er að vinna að auknu flugöryggi,
     b.      rannsóknarnefnd samgönguslysa,
     c.      hagsmunaaðilum sem eru í þeirri stöðu að geta unnið að bættu flugöryggi.
    Lögbær stjórnvöld skulu annast söfnun, mat, greiningu, úrvinnslu, og varðveislu upplýsinga um atvik sem tilkynnt eru skv. 125. og 126. gr. hvað varðar þá einstaklinga og fyrirtæki sem falla undir eftirlit þeirra. Sama á við um endurgjöf vegna tilkynninga.
    Samgöngustofa tekur þátt í samstarfi um miðlægt samevrópskt gagnasafn á sviði flugöryggis og skal stofnunin flytja í gagnasafnið upplýsingar og gögn er varða tilkynningu atvika og greiningu slíkra upplýsinga auk upplýsinga um flugslys og alvarleg flugatvik.
    Við meðhöndlun og skráningu tilkynninga í gagnagrunn Samgöngustofu og hið samevrópska gagnasafn skal Samgöngustofa gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja nafnleynd tilkynnanda og einstaklinga sem tilgreindir eru í tilkynningu sem og upplýsingar, þ.m.t. heiti fyrirtækis eða fyrirtækja sem tengjast atvikinu, sem gætu afhjúpað deili á tilkynnanda eða þriðja aðila eða haft í för með sér að rekja megi þær upplýsingar út frá tilkynningunni um atvik. Sama á við hvað varðar tilkynningar um flugslys eða alvarlegt flugatvik. Ekki skal skrá persónuupplýsingar í þann hluta gagnagrunns Samgöngustofu og miðlæga samevrópska gagnasafnsins s sem þessi kafli tekur til.

128. gr.

Vinnsla upplýsinga.

    Fyrirtæki skv. 3. mgr. 125. gr. skulu greina upplýsingar um atvik í því skyni að greina áhættu. Á grundvelli greiningarinnar ákveða fyrirtæki, ef við á, aðgerðir til úrbóta og hrinda þeim í framkvæmd.
    Fyrirtæki sem auðkennir í kjölfar greiningar skv. 1. mgr. raunverulega eða hugsanlega áhættu í tengslum við flugöryggi skal tilkynna viðeigandi lögbæru stjórnvaldi um bráðabirgðaniðurstöður greiningarinnar og hugsanlegar aðgerðir sem fyrirtækið hyggst grípa til. Fyrirtæki skulu tilkynna viðeigandi lögbæru stjórnvaldi um lokaniðurstöður greiningar um leið og þær liggja fyrir.
    Fyrirtæki skulu meðhöndla tilkynningar með sama hætti og greint er í 4. mgr. 127. gr., eftir því sem við á. Fyrirtæki skulu geyma tilkynningar um atvik sem safnað er samkvæmt þessum kafla í sérstökum gagnagrunni, einum eða fleiri eftir því sem við á.
    Lögbær stjórnvöld geta heimilað smærri fyrirtækjum að koma á einföldu fyrirkomulagi við söfnun, vinnslu og varðveislu upplýsinga.

129. gr.

Sanngirnismenning.

    Tilkynning atvika miðar að því að bæta flugöryggi með það að markmiði að koma í veg fyrir flugslys og flugatvik en ekki að upplýsa hver eigi sök eða beri ábyrgð. Óheimilt er að nota upplýsingar í öðrum tilgangi en þeim sem að framan greinir. Í því skyni að stuðla að sanngirnismenningu skulu tilkynningar meðhöndlaðar þannig að komið verði í veg fyrir að þær verði notaðar í öðrum tilgangi en að viðhalda öryggi og viðeigandi ráðstafanir gerðar til að tryggja nafnleynd og trúnað um nafn þess sem tilkynnir og þeirra einstaklinga sem tilgreindir eru í tilkynningu um atvik.
    Fyrirtækjum skv. 3. mgr. 125. gr. er óheimilt að láta starfsfólk sitt eða einstaklinga í þjónustu sinni samkvæmt samningi, sem tilkynna um atvik eða eru tilgreindir í tilkynningu, sæta óréttmætri meðferð eða viðurlögum á grundvelli tilkynningar og/eða upplýsinga, nema 3. mgr. 130. gr. eigi við. Sama á við ef starfsfólk eða einstaklingar í þjónustu fyrirtækis samkvæmt samningi beina kvörtun til lögbærra stjórnvalda vegna meintra brota fyrirtækis. Til óréttmætrar meðferðar eða viðurlaga telst t.d. að rýra réttindi, segja upp samningi, slíta honum eða láta hvern þann sem látið hefur lögbærum stjórnvöldum í té upplýsingar gjalda þess á annan hátt. Séu leiddar líkur að slíku skal gagnaðili sýna fram á að ákvörðun sé reist á öðrum forsendum en þeim að lögbærum stjórnvöldum hafi verið tilkynnt um atvik.
    Fyrirtæki skulu í samráði við fulltrúa starfsmanna samþykkja innri reglur sem lýsa því hvernig fyrirtækið tryggir meginreglur um sanngirnismenningu innan þess. Samgöngustofu er heimilt að óska eftir því að yfirfara slíkar reglur áður en þær verða endanlega samþykktar.
    Telji starfsmaður eða einstaklingur í þjónustu fyrirtækis samkvæmt samningi að brotið hafi verið gegn 1.–3. mgr. og 130. gr. getur hlutaðeigandi tilkynnt lögbærum stjórnvöldum um meint brot og upplýst Eftirlitsstofnun EFTA. Lögbær stjórnvöld skulu veita tilkynnanda ráðgjöf um úrræði.

130. gr.

Vernd tilkynnanda.

    Einstaklingur sem tilkynnir í samræmi við ákvæði þessa kafla tilkynningarskyld eða valfrjáls atvik verður ekki sóttur til saka eða beittur viðurlögum samkvæmt lögum þessum vegna brota á lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra.
    Tilkynningu um atvik og upplýsingar úr slíkum tilkynningum, þ.m.t. nöfn tilkynnanda eða einstaklinga sem tilgreindir eru í tilkynningum um atvik, skal ekki beitt sem sönnunargagni í sakamáli, í einkamáli þar sem gerð er krafa um refsingu eða notuð í máli sem kann að varða stjórnsýsluviðurlögum.
    Sú vernd sem um getur í 1. og 2. mgr. gildir þó ekki ef um er að ræða:
     a.      vísvitandi misgerð,
     b.      greinilega, grófa og alvarlega vanrækslu í tengslum við augljósa áhættu og algera vanrækslu varðandi þá faglegu ábyrgð að grípa ekki til aðgerða sem augljóslega er þörf á við aðstæður sem valda einstaklingum eða eignum fyrirsjáanlegum skaða eða stofnar flugöryggi í alvarlega hættu.

131. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þ.m.t. að kveða nánar á um:
     a.      atvik sem skylt er að tilkynna, til hvaða aðila tilkynningaskyldan nær og að skyldan nái til fleiri aðila en taldir eru upp í 125. gr.,
     b.      valfrjálsar tilkynningar og útfærslu slíks tilkynningakerfis,
     c.      eyðublöð, rafrænt form tilkynninga og tilkynningagátt,
     d.      greiningu atvika, áhættuflokkun og eftirfylgni og annað er máli skiptir til að rekja megi orsakir atvika,
     e.      vinnslu og greiningu upplýsinga,
     f.      meðhöndlun og vernd persónuupplýsinga,
     g.      gæðaeftirlit fyrirtækja og lögbærra stjórnvalda,
     h.      skýrslugjöf og miðlun upplýsinga í þágu aukins flugöryggis, þ.m.t. upplýsingamiðlun til annarra lögbærra landsyfirvalda og rannsakenda flugslysa og alvarlegra flugatvika, hagsmunaaðila og almennings; gagnagrunna fyrirtækja, Samgöngustofu og miðlæga samevrópska gagnasafnið; flutning upplýsinga milli gagnagrunna fyrirtækja til Samgöngustofu eða, ef við á, í miðlæga samevrópska gagnasafnið sem og um flutning upplýsinga milli gagnagrunns Samgöngustofu og miðlæga samevrópska gagnasafnsins; aðgengi að upplýsingum úr gagnagrunnum fyrirtækja, Samgöngustofu og miðlæga samevrópska gagnasafninu og takmarkanir á miðlun upplýsinga.

XII. KAFLI

Flugvellir.

132. gr.

Vottun flugvalla.

    Flugvöllur sem er opinn almenningi skal vottaður af Samgöngustofu með tilliti til fyrirhugaðrar notkunar. Sama á við um starfrækslu öryggistengds flugvallarbúnaðar sem notaður er eða ætlaður er til notkunar á flugvellinum.
    Aðili sem starfrækir eða hyggst starfrækja flugvöll skv. 1. mgr. skal sækja um vottun. Heimilt er að sækja um vottun flugvallar sem ekki er opinn almenningi.
    Flugvöllur skv. 1. mgr. skal einnig vottaður hvað varðar starfrækslu og flugafgreiðslu og hlaðstjórnunarþjónustu ef hann veitir þjónustu fyrir flutningaflug eða er ætlaður til notkunar fyrir flutningaflug og er með flugbraut lagða malbikuðu eða steyptu slitlagi sem er a.m.k. 800 metrar að lengd eða þjónar eingöngu þyrlum, sem notast við ferla um blindaðflug eða blindbrottflug.
    Vottorð flugvallar skal gefið út að fenginni beiðni þar að lútandi þegar umsækjandi hefur sýnt fram á að flugvöllurinn:
     a.      uppfylli þær kröfur sem ráðherra setur í reglugerð til hönnunar, viðhalds og starfrækslu og vottunargrunn flugvallar sem Samgöngustofa ákvarðar, og
     b.      búi ekki yfir sérkennum eða eiginleikum sem gera notkun hans ótrygga.
    Vottorðið skal taka til flugvallarins og öryggistengds flugvallarbúnaðar, sbr. þó 134. gr. Vottorð flugvallar telst innihalda vottunargrunn flugvallar, handbók flugvallar og öll önnur starfræksluskilyrði eða takmarkanir, ef við á. Samgöngustofu er heimilt að fara fram á hvers kyns skoðun, prófun, öryggismat eða æfingu í vottunarferli.
    Óheimilt er að starfrækja flugvöll sem opinn er fyrir almenning sem ekki er vottaður.

133. gr.

Vottun rekstraraðila flugvallar.

    Rekstraraðili flugvallar ber ábyrgð á starfrækslu flugvallar. Rekstraraðili flugvallar sem fellur undir 132. gr. skal háður vottun. Vottorð rekstraraðila flugvallar skal gefið út að fenginni beiðni þar að lútandi þegar umsækjandi hefur sýnt fram á að hann uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til rekstraraðila flugvallar samkvæmt lögum þessum og reglugerð sem ráðherra setur.
    Vottorð rekstraraðila flugvallar skal tilgreina réttindi og umfang heimilaðs rekstrar.
    Heimilt skal að gefa út eitt vottorð fyrir vottun flugvallar skv. 132. gr. og rekstraraðila flugvallar skv. 1. mgr., ellegar tvö aðskilin vottorð, eitt fyrir flugvöllinn og annað fyrir rekstraraðila flugvallarins.

134. gr.

Vottun öryggistengds flugvallarbúnaðar.

    Öryggistengdur flugvallarbúnaður sem notaður er eða ætlaður er til notkunar á flugvöllum skv. 3. mgr. 132. gr. skal vottaður í samræmi við vottunarforskriftir. Vottorðið skal tilgreina virkni búnaðarins.
    Þrátt fyrir 1. mgr. geta fyrirtæki sem taka þátt í hönnun, framleiðslu og viðhaldi á öryggistengdum flugvallarbúnaði, sem er notaður eða ætlaður til notkunar á flugvöllum sem falla undir 3. mgr. 132. gr., gefið út yfirlýsingu þess efnis að búnaðurinn samrýmist vottunarforskriftum.
    Ráðherra er heimilt að ákvarða með reglugerð hvaða búnaður er háður kröfu um vottun eða yfirlýsingu og um aðstæður þar sem slíkrar vottunar eða yfirlýsingar er ekki þörf.

135. gr.

Flugafgreiðsla og hlaðstjórnunarþjónusta.

    Fyrirtæki sem bera ábyrgð á flugafgreiðslu og hlaðstjórnunarþjónustu á flugvöllum skv. 3. mgr. 132. gr. skulu gefa út yfirlýsingu um hæfni sína og getu til að rækja þær skyldur sem tengjast þjónustunni sem veitt er í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
    Ráðherra er heimilt að ákvarða að þeir sem sinna flugafgreiðslu á öðrum flugvöllum en þeim sem falla undir 3. mgr. 132. gr. skuli einnig gefa út yfirlýsingu um hæfni sína og getu til að rækja þær skyldur sem tengjast þjónustunni.
    Samgöngustofa skal staðfesta móttöku yfirlýsinga skv. 1. og 2. mgr. og ganga úr skugga um að yfirlýsingarnar innihaldi þær upplýsingar sem krafist er.

136. gr.

Breytingar á vottun.

    Allar breytingar sem hafa áhrif á skilmála vottorðs, vottunargrunn þess og öryggistengdan flugvallarbúnað eða hafa umtalsverð áhrif á stjórnunarkerfi rekstraraðila flugvallar eru háðar fyrirframsamþykki Samgöngustofu áður en þeim verður hrint í framkvæmd.
    Ef rekstraraðili flugvallar hyggst gera breytingar á rekstri flugvallar, aðrar en þær sem krefjast fyrirframsamþykkis skv. 1. mgr., eða hætta rekstri flugvallar skal hann tilkynna fyrirætlun sína til Samgöngustofu eins fljótt og unnt er.
    Þann dag sem rekstraraðili lokar flugvelli skal hann afhenda Samgöngustofu vottorð sín. Jafnframt skal rekstraraðili tryggja að viðeigandi ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir að loftför noti flugvöllinn af vangá.

137. gr.

Stöðvun starfrækslu og lokun flugvallar.

    Ef flugvöllur sem opinn er almenningi er starfræktur án vottunar eða ekki hefur verið sótt um vottun fyrir honum eða rekstraraðila hans getur Samgöngustofa krafist þess að viðeigandi ráðstafanir verði gerðar til að loka flugvellinum.
    Sinni eigandi eða umráðandi lands, vatns, fasts eða fljótandi mannvirkis á landi eða úti fyrir strönd ekki þeirri kröfu að stöðva starfrækslu flugvallarins er Samgöngustofu heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir til þess á hans kostnað. Ef þörf krefur er lögreglu skylt að aðstoða Samgöngustofu við þær aðgerðir sem greinir í 1. mgr. Samgöngustofa á endurkröfu á eiganda/umráðanda vegna þess kostnaðar sem stofnunin hefur haft af framangreindum aðgerðum.

138. gr.

Flugvallargögn.

    Rekstraraðili flugvallar skal útbúa gögn er varða flugvöllinn og þá þjónustu sem boðið er upp á og skulu þau uppfærð reglulega og við hverja breytingu á innviðum, búnaði eða starfrækslu. Gögnin skulu vera nákvæm, læsileg, ítarleg og ótvíræð. Tryggja skal uppruna og viðeigandi stig heilleika gagnanna. Gögnin skulu tímanlega vera aðgengileg notendum og veitanda flugleiðsöguþjónustu.

139. gr.

Flugvallarhandbók og þjálfunaráætlun.

    Rekstraraðili flugvallar skal gefa út og viðhalda flugvallarhandbók og starfrækja flugvöllinn í samræmi við hana. Slík handbók skal hafa að geyma öll nauðsynleg fyrirmæli, upplýsingar og verklagsreglur um flugvöllinn, öryggistengdan flugvallarbúnað, stjórnunarkerfi, rekstur hans, viðhald og þjónustu.
    Öryggisstjórnunarkerfi flugvallar skal vera hluti af flugvallarhandbók.
    Rekstraraðili flugvallar skal gefa út og viðhalda þjálfunaráætlun fyrir alla sem tengjast öryggismálum flugvallar.

140. gr.

Neyðaráætlun.

    Rekstraraðili flugvallar skal koma á neyðaráætlun flugvallar sem tekur til þeirra neyðaraðstæðna sem skapast geta á flugvelli og í nágrenni hans. Áætlunin skal samrýmast neyðaráætlun viðkomandi sveitarfélags og viðbragðsáætlun almannavarna, eins og við á. Æfa skal neyðaráætlun reglulega til prófunar og betrumbóta.

141. gr.

Björgunar- og slökkviþjónusta.

    Björgunar- og slökkviþjónusta á flugvelli skal bregðast skjótt við flugatvikum eða slysum og skal a.m.k. fela í sér búnað, slökkviefni og nægilegan fjölda starfsfólks. Rekstraraðili flugvallar skal tryggja, beint eða fyrir tilstuðlan samninga við þriðja aðila, að veitt sé viðunandi þjónusta í tengslum við björgunar- og slökkvistarf á flugvelli.

142. gr.

Eldsneyti og knúningsorka.

    Rekstraraðili flugvallar skal sannreyna að aðilar sem sjá um að geyma og sjá loftförum fyrir eldsneyti eða annars konar orku hafi í gildi verklagsreglur til að tryggja að loftförum sé útvegað ómengað eldsneyti eða ómenguð orka og af réttri tegund.

143. gr.

Rekstrartakmarkanir vegna hávaða.

    Í því skyni að bæta hljóðvist í nágrenni flugvalla er ráðherra eða þeim sem hann felur ábyrgð heimilt að kveða á um sérstakar ráðstafanir til að draga úr hávaða á flugvöllum. Fyrirhugaðar ráðstafanir skulu tilkynntar í samræmi við 234. gr.

144. gr.

Verndun flugvallarumhverfis.

    Rekstraraðili flugvallar skal vakta starfsemi og þróun sem gæti haft í för með sér óviðunandi öryggisáhættu fyrir flug í nágrenni við flugvöllinn. Vakta þarf svæði þar sem áhætta kann að skapast vegna starfsemi manna og skipulagningar landsvæðis, svo sem hvers konar byggingarstarfsemi eða breytingar á skipulagi landsvæðis, möguleika á því að hindranir valdi ókyrrð í lofti, notkun hættulegra, truflandi og villandi ljósa og leysigeisla, blindu frá stórum flötum sem valda miklu endurvarpi, uppbyggingu svæða sem gæti leitt til aukinnar virkni villtra lífvera í nágrenni við athafnasvæði flugvallarins og uppruna geislunar sem er ekki sýnileg eða tilfærslu færanlegra eða fastra hluta sem geta haft truflandi eða skaðleg áhrif á flug og/eða nothæfi fjarskipta-, leiðsögu- og kögunarkerfa í flugi.
    Rekstraraðili skal grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að draga úr áhættu að því marki sem slíkt er á valdi hans og vekja athygli Samgöngustofu og hlutaðeigandi sveitarfélaga á slíkum áhættum.

145. gr.

Samráð.

    Rekstraraðili flugvallar skal hafa samráð við það sveitarfélag eða þau sveitarfélög þar sem flugvöllur er staðsettur og eru í nágrenni við hann um vöktun og verndun flugvallarumhverfis skv. 144. gr.
    Sveitarfélag eða ef við á sveitarfélög skv. 1. mgr. skulu hafa samráð við rekstraraðila flugvallar að því er varðar mannvirki og annað sem fyrirhugað er að reisa í nágrenni við flugvöll og kunna að hafa áhrif á öryggi.
    Rekstraraðili flugvallar skal tilkynna hlutaðeigandi sveitarfélögum og Samgöngustofu um allar hindranir sem hættulegar teljast flugumferð í nágrenni flugvallar.

146. gr.

Skipulagsreglur flugvallar.

    Ráðherra er heimilt að setja skipulagsreglur fyrir flugvöll sem opinn er almenningi. Þá er ráðherra einnig heimilt að setja skipulagsreglur um landsvæði þar sem fyrirhugað er að byggja flugvöll sem opinn verður almenningi.
    Skipulagsreglur skulu innihalda upplýsingar um:
     a.      afmörkun flugvallarsvæðis, hindranaflata sem og annarra flata sem tengjast flugvellinum og áhrif kunna að hafa á öryggi flugvallar og flugumferðar þar sem nauðsynlegt er að setja takmarkanir á athafnir fólks og á hæð mannvirkja og annarra hluta, svo sem trjáa og stanga, eða takmörkun á meðferð mannvirkja eða hluta, t.d. að því er varðar veitukerfi eða atvinnurekstur, enda séu slíkar kvaðir nauðsynlegar í þágu almenns öryggis,
     b.      hnattstöðu og mestu hæð hindrana á aðflugs- og flugtakssvæðum, hringflugssvæði og annars staðar sem við á í nágrenni flugvallar,
     c.      skipulag, starfsemi og umferð innan flugvallarsvæðis.
    Sveitarfélög eru bundin af skipulagsreglum flugvallar frá gildistöku þeirra og skulu við gerð eða breytingu skipulagsáætlana samræma gildandi svæðis-, aðal- og deiliskipulag eftir því sem við á að skipulagsreglum flugvallar innan fjögurra ára frá samþykkt viðkomandi skipulagsreglna.
    Við frumathugun að gerð nýrra skipulagsreglna flugvallar skal haft samráð við hlutaðeigandi sveitarfélög með hæfilegum fyrirvara með það að markmiði að tryggja sem best samræmi milli skipulagsáætlana sveitarfélaga og skipulagsreglna flugvallar.

147. gr.

Setning skipulagsreglna.

    Auglýsa skal tillögu að skipulagsreglum flugvallar með áberandi hætti og skora á eigendur mannvirkja og aðra sem hlut eiga að máli að gera athugasemdir. Auglýsing að tillögu skal jafnframt kynnt í opnu samráði í a.m.k. sex vikur frá birtingu auglýsingar. Sérstaklega skal leita eftir umsögn þeirra sveitarfélaga sem í hlut eiga og Samgöngustofu. Taka skal rökstudda afstöðu til þeirra umsagna sem fram kunna að koma. Sé fyrirhugað að gera breytingar á þeirri tillögu sem lögð var fram til umsagnar skal gefa þeim sem í hlut eiga færi á því að kynna sér breytta tillögu áður en hún er lögð fyrir ráðherra til staðfestingar. Skal frestur til athugasemda við breytta tillögu vera að lágmarki tvær vikur.
    Skipulagsreglur flugvallar taka gildi þegar þær hafa verið staðfestar af ráðherra og birtar. Staðfestar skipulagsreglur flugvallar skal birta í B-deild Stjórnartíðinda og á vefsíðu rekstraraðila flugvallar. Ef gildandi skipulagsreglum flugvallar er breytt skal beita sömu aðferð og við setningu nýrra.

148. gr.

Frávik frá hæðartakmörkunum o.fl. við setningu skipulagsreglna.

    Óheimilt er að víkja frá hæðartakmörkunum eða öðrum takmörkunum á eignarrétti, afnotum og nýtingu eigna sem kveðið er á um í skipulagsreglum flugvallar án samþykkis Samgöngustofu. Ef hindrun er fyrir hendi sem fer í bága við skipulagsreglur flugvallar þegar þær taka gildi skal fjarlægja hana, enda samþykki Samgöngustofa eigi að hún haldist.
    Samgöngustofu er heimilt að setja skilyrði fyrir samþykki sínu skv. 1. mgr., svo sem um breytingar, merkingu eða lýsingu mannvirkja. Heimilt er að óska eftir sérstöku áhættumati vegna slíkra beiðna á kostnað umsækjanda.
    Eigandi mannvirkis, hlutar eða annars sem jafna má til hindrunar sem Samgöngustofa samþykkir að haldist skal tryggja gæði gagna í samræmi við ákvæði laga þessara og bera ábyrgð og kostnað af því að framfylgja þeim skilyrðum sem Samgöngustofa kann að setja.
    Samgöngustofa skal tilkynna hlutaðeigandi sveitarfélögum um ákvarðanir skv. 1. mgr.

149. gr.

Framfylgni með skipulagsreglum flugvallar.

    Sveitarstjórnum skal heimilt að beita valdheimildum sínum samkvæmt skipulags- og mannvirkjalögum til að tryggja framfylgni við skipulagsreglur flugvallar sem tekið hafa gildi. Þar sem eftirliti sveitarstjórna á grundvelli skipulags- og mannvirkjalaga sleppir skal Samgöngustofa hlutast til um framfylgni við skipulagsreglur flugvallar.
    Ef takmörkun samkvæmt skipulagsreglum er ekki hlýtt án þess að fyrir liggi samþykki Samgöngustofu skv. 2. mgr. 148. gr. skal Samgöngustofa setja þeim er í hlut á frest til að ganga löglega frá málum. Sama gildir ef ekki er framfylgt skilyrðum fyrir samþykki skv. 148. gr. Ef frestur líður án þess að úr sé bætt er Samgöngustofu heimilt að framkvæma nauðsynlegar aðgerðir með atbeina lögreglu.

150. gr.

Kvaðir og nauðsynlegar úrbætur í þágu flugöryggis.

    Ráðherra er heimilt að leggja kvaðir í þágu flugöryggis á fasteign og mannvirki vegna flugvalla og flugleiðsögu, svo sem í því skyni að tryggja aðgengi, uppsetningu, starfrækslu og viðhald búnaðar, til merkingar eða til að lýsa upp hindrun.
    Samgöngustofu er heimilt að krefjast þess að hindrun utan svæðis sem skipulagsreglur flugvallar tekur yfir sem vegna hæðar eða annarra eiginleika teljast hættulegar flugumferð séu fjarlægðar eða ef við á merktar í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
    Samgöngustofu er heimilt að kveða á um að merki, ljós, fjarskipti eða annan búnað og tæki sem telja má að flugumferð stafi hætt af skuli ekki setja upp og nota og, ef því er að skipta, nema brott eða færa í annað horf.
    Telji Samgöngustofa verulega hættu stafa af hindrun eða öðru því sem 2. og 3. mgr. taka til er henni heimilt að bregðast við án tafar og með atbeina lögreglu ef þörf krefur.
    Telji eigandi eða rétthafi að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna aðgerða Samgöngustofu skv. 2.–4. mgr. og geti fært á það sönnur skal tjón bætt eftir almennum reglum. Náist ekki samkomulag um bætur getur ráðherra beitt eignarnámi í samræmi við lög um eignarnám.

151. gr.

Skaðabætur og eignarnám.

    Ef kvöð skv. 1. mgr. 150. gr. eða gildistöku skipulagsreglna flugvallar leiða til verulegra takmarkana á eignarrétti, afnotum eða nýtingu, umfram það sem við á um sambærilegar eignir, á eigandi hennar eða réttindahafi kröfu til skaðabóta enda hafi kvöð eða forræðisskerðing í för með sér að eignin verði eigi hagnýtt til fulls miðað við stærð hennar, legu og allar aðstæður eða eigandi hennar verður fyrir fjárhagstjóni sem hann á að fá bætt samkvæmt almennum reglum.
    Skaðabóta má krefjast úr hendi rekstraraðila flugvallar vegna gildistöku skipulagsreglna flugvallar. Mats skal óskað innan þess frests sem ákveðinn er í skipulagsreglum flugvallar. Frestur má eigi vera styttri en tvö ár frá birtingu skipulagsreglna. Ráðherra er heimilt að framlengja frest um sex mánuði frá lokum frests. Ríkið ábyrgist að skaðabætur séu inntar af hendi. Skaðabætur skal ákveða eftir reglum laga um framkvæmd eignarnáms.
    Ef nauðsynlegt er í tengslum við uppbyggingu nýs flugvallar sem opinn verður almenningi, vegna flugvallar sem þegar er í rekstri og opinn er almenningi eða vegna flugleiðsögubúnaðar að afla lands, lóðar eða annarrar eignar og samningum um kaup eða afnot verður ekki við komið má ráðherra heimila, að fenginni umsögn Samgöngustofu, að eign eða hluti hennar sé tekin eignarnámi gegn endurgjaldi sem meta skal samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Samþykki ráðherra fyrir eignarnámi skal meðal annars háð því að eignarnemi setji tryggingu fyrir greiðslu áætlaðra eignarnámsbóta og kostnaðar við matið. Ef eignarnámsbætur fást ekki greiddar hjá eignarnema skal ríkið ábyrgjast greiðslu þeirra.

152. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þ.m.t. að kveða nánar á um:
     a.      flokkun flugvalla með vísan til grunnvirkja, búnaðar og þjónustu,
     b.      eðliseiginleika, hönnun, grunnvirki og búnað flugvalla, hindranabil, aðflugs- og brottflugsleiðir flugvalla, stjórnun og starfrækslu flugvalla, þjónustu, afköst, rekstur og viðhald,
     c.      eiginleika öryggistengds flugvallarbúnaðar og upplýsingar um starfrækslu og notkun,
     d.      vottun flugvalla og öryggistengds flugvallarbúnaðar, þ.m.t. ákvörðun vottunargrunns, tilvísun og birtingu vottunarforskrifta og ítarlegra tækniforskrifta, svo sem hönnun, viðhald og starfrækslu og meðhöndlun frávika og breytinga,
     e.      kröfur til flugvalla, svo sem hvað varðar öryggi, umhverfisvernd, flugvernd, villt dýr, fólk og ökutæki og samhæfingu og samþættingu við aðra aðila,
     f.      vottun rekstraraðila flugvalla, þ.m.t. skilyrði fyrir vottun, kröfur um skipulag, stjórnun, fjármögnun, bókhald og reikningsskil, ábyrgðarsvið, framkvæmd og starfrækslu, verklag, handbækur; áætlanir, svo sem vegna þjálfunar, flugöryggis, viðhalds, viðbúnaðarástands og neyðar, flugverndar, meðhöndlunar hættulegs varnings og upplýsingaöryggis; um kerfi rekstraraðila flugvallar, meðal annars stjórnunar-, tilkynningar-, öryggisstjórnunar- og gæðakerfi; tilföng; aðstöðu; búnað; skráahald og aðgengi að gögnum,
     g.      veitingu þjónustu, þ.m.t. björgunar- og slökkviþjónustu, flugumferðarþjónustu, flugafgreiðslu og hlaðstjórnunarþjónustu; kröfur til hæfni og getu til að veita þjónustu, meðal annars með vísan til þeirra krafna og verklagsreglna sem rekstraraðili flugvallar setur; gerð yfirlýsinga; tilföng þjónustuaðila; þjálfun og hæfni starfsmanna; stjórnunar-, öryggisstjórnunar- og tilkynningarkerfi; verklag og handbækur til starfrækslu; skjalavörslu og viðhald búnaðar sem notaður er til flugafgreiðslu,
     h.      kröfur til starfsfólks og annarra sem veita þjónustu á flugvellinum, svo sem hvað varðar réttindi og þjálfun, hæfni og mat á hæfni, mönnun og, ef við á, heilbrigði,
     i.      flugvallargögn, þ.m.t. uppdrætti og upplýsingar, gæði þeirra og samhæfingu við upplýsingaþjónustu flugmála,
     j.      sérstakar ráðstafanir til að bæta hljóðvist á flugvöllum og í nágrenni flugvalla, þ.m.t. aðferðarfræði, ráðstafanir og takmarkanir,
     k.      samráð sveitarfélaga og rekstraraðila flugvalla,
     l.      hindranir og annað sem jafna má til hindrana, meðal annars krafna um sýnileika, lýsingu, gerðar, viðhalds og eftirlits með merkingum; áhættumat og viðmið óviðunandi áhættu,
     m.      notkun staða sem ekki teljast flugvellir til flugtaks og lendinga loftfara og til að hefja á loft eða skjóta á loft hlutum og tækjum sem ferðast geta um loftið en eru ekki loftför.

XIII. KAFLI

Flugvernd.

153. gr.

Vottun vegna flugverndar.

    Eftirtaldir aðilar eru háðir vottun Samgöngustofu vegna flugverndar í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur:
     a.      rekstraraðili flugvallar hér á landi,
     b.      flugrekandi,
     c.      aðili sem beitir eða hyggst beita flugverndarráðstöfunum og starfrækir rekstur innan sem utan flugvallar og veitir þjónustu og/eða vörur til eða á flugvelli og/eða til flugrekenda/umráðenda loftfara,
     d.      aðili sem veitir þjálfun á sviði flugverndar,
     e.      matsaðilar á sviði flugverndar.
    Vottorð skal gefa út þegar umsækjandi uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem ráðherra setur. Í vottorði skal tilgreina þau réttindi sem veitt eru umsækjanda, skilyrði, ef við á, gildissvið og gildistíma. Samgöngustofu er heimilt að breyta vottorði til að bæta við eða fjarlægja réttindi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er ráðherra heimilt að ákvarða í reglugerð að:
     a.      í stað vottunar geti aðili gefið út yfirlýsingu þess efnis að starfsemin uppfylli viðeigandi kröfur eða hann hafi getu og tilföng til að uppfylla viðeigandi kröfur í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra.
     b.      tiltekinn flugvöllur og/eða aðgreindir hlutar flugvallar, á grundvelli sértæks áhættumats og að teknu tilliti til þeirrar flugumferðar sem um viðkomandi flugvöll fer, sé undanþeginn kröfu um vottun eða lúti öðrum viðeigandi kröfum.
    Aðilum sem háðir eru vottun, tilnefningu eða útgáfu yfirlýsingar fyrir starfsemi sinni samkvæmt þessari grein eða 154. gr. er óheimilt að taka til starfa og neyta þeirra réttinda sem vottun, tilnefning eða útgáfa yfirlýsingar áskilur nema þeir hafi hlotið vottun eða tilnefningu Samgöngustofu, þess til bærs aðila, lögbærs landsyfirvalds eða að yfirlýsingu hafi verið veitt viðtaka af þar til bærum yfirvöldum án athugasemda.
    Samgöngustofu er heimilt að birta lista yfir vottaða og tilnefnda aðila vegna flugverndar og, ef við á, skrá þá í gagnagrunn Evrópusambandsins á sviði flugverndar.

154. gr.

Flutningur farms og pósts frá þriðju ríkjum.

    Flugrekandi/umráðandi loftfars sem hyggist flytja farm og/eða póst frá þriðja ríki með viðkomu, til umflutnings eða til flugvallar á íslensku yfirráðasvæði eða til ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa skal óska tilnefningar þess lögbæra landsyfirvalds sem ábyrgð ber á tilnefningu og eftirliti með viðkomandi flugrekanda/umráðanda í samræmi við þau skilyrði í reglugerð sem ráðherra setur. Tilnefning skal tilgreina þau réttindi sem veitt eru umsækjanda, skilyrði vottunar, ef við á, gildissvið og gildistíma. Samgöngustofu er heimilt að breyta tilnefningu til að bæta við eða fjarlægja réttindi þeirra flugrekenda/umráðenda loftfars sem stofnunin tilnefnir.
    Aðili sem er eða hyggst verða hluti af aðfangakeðju flugrekanda skv. 1. mgr. skal háður tilnefningu og vottun í samræmi við þau skilyrði sem ráðherra setur í reglugerð.

155. gr.

Matsaðilar á sviði flugverndar.

    Samgöngustofu er heimilt að veita matsaðilum á sviði flugverndar, sem hlotið hafa vottun stofnunarinnar eða annars lögbærs landsyfirvalds innan Evrópusambandsins, Sviss eða Noregs, heimild til að votta flugverndarráðstafanir annarra eftirlitsskyldra aðila í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.

156. gr.

Áhættumat og vástig vegna flugverndar.

    Ríkislögreglustjóri ákvarðar vástig á hverjum tíma og annast, í samvinnu við Samgöngustofu, gerð áhættumats á sviði flugverndar. Um gerð og endurskoðun áhættumats á sviði flugverndar og samstarfs opinberra aðila og eftirlitsskyldra aðila við gerð þess fer samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.
    Upplýsingum um vástig og aðrar viðeigandi upplýsingar vegna flugverndar skal á hverjum tíma miðlað til eftirlitsskyldra aðila og annarra stjórnvalda á grundvelli vitneskjuþarfar.

157. gr.

Aðgangsstýring að flugsvæði og haftasvæði flugverndar.

    Aðgangur að flugsvæði flugvalla sem hlotið hafa vottun skv. 153. gr., haftasvæðum flugverndar og, ef við á, aðgreindum svæðum, er aðeins heimill einstaklingum og ökutækjum og vinnuvélum sem hafa til þess lögmætt erindi og gilda aðgangsheimild.
    Ákvörðun og afmörkun haftasvæða flugverndar, viðkvæmasta hluta haftasvæðis flugverndar og, ef við á, aðgreindra svæða, skal háð fyrirframsamþykki Samgöngustofu. Mörk milli almenningssvæðis og flugsvæðis skulu vera þannig úr garði gerð að þau komi í veg fyrir óviðkomandi aðgang. Haftasvæði flugverndar og aðgreind svæði skulu merkt eða auðkennd eftir þörfum.

158. gr.

Athugun á bakgrunni.

    Einstaklingur skal undirgangast athugun á bakgrunni ef hann:
     a.      hyggst beita flugverndarráðstöfunum,
     b.      hyggst bera ábyrgð á framkvæmd flugverndarráðstafana,
     c.      þarf starfs síns vegna aðgang að haftasvæði flugverndar,
     d.      þarf starfs síns vegna aðgang að trúnaðarflokkuðum upplýsingum á sviði flugverndar, mikilvægum upplýsingum, upplýsingatæknikerfum og gögnum í þágu flugverndar,
     e.      hyggst sækja eða veita flugverndarþjálfun,
     f.      hyggst sinna eftirliti á sviði flugverndar.
    Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á athugun á bakgrunni einstaklinga og getur ákveðið að önnur lögregluembætti fari með framkvæmd athugunarinnar.
    Athugun á bakgrunni skal framkvæmd í samræmi við umsókn einstaklings, tilgang og það stig aðgangs að trúnaðarflokkuðum upplýsingum sem sótt er um og í samræmi við þær kröfur sem ráðherra setur í reglugerð.
    Lagt skal mat á öryggishæfi umsækjanda, áreiðanleika og hvort öryggi flugsamgangna og flugstarfsemi kunni að stafa hætta af umsækjanda. Athugun á bakgrunni skal að lágmarki fela í sér:
     a.      að sanna deili á einstaklingi,
     b.      ná yfir menntun og fyrri störf, þ.m.t. hvers konar rof þar á, næstliðin fimm ár,
     c.      ná yfir sakarferil í öllum ríkjum þar sem umsækjandi hefur haft búsetu, næstliðin fimm ár. Við athugun á sakarferli skal meðal annars kanna hvort umsækjandi eigi afbrotaferil að baki, sé grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi eða bíði dóms.
    Veiti umsækjandi villandi eða rangar upplýsingar í umsókn er lögreglu heimilt að veita neikvæða umsögn eða vísa umsókn frá án afgreiðslu.

159. gr.

Framkvæmd athugunar á bakgrunni.

    Í athugun á bakgrunni felst skoðun lögreglu á upplýsingum um einstakling sem veitt hefur heimild sína eða staðfestingu til framkvæmdarinnar. Upplýsingaöflun felur meðal annars í sér skoðanir úr:
     a.      skrám lögreglu, þ.m.t. málaskrá lögreglu,
     b.      sakaskrá og skrám dómstóla,
     c.      upplýsingakerfi Alþjóðalögreglunnar, Löggæslusamvinnustofnunar Evrópusambandsins eða annarra erlendra yfirvalda og stofnana,
     d.      upplýsingakerfum tollyfirvalda,
     e.      upplýsingakerfi þjóðskrár.
    Ef um er að ræða herta bakgrunnsathugun þá felur upplýsingaöflun einnig í sér önnur gögn og viðeigandi upplýsingar sem eru tiltækar og má telja að skipt geti máli til að ákvarða hæfi umsækjanda.
    Bakgrunnsathugun skal fara fram með reglulegu millibili. Aldrei má þó ganga lengra við könnun á bakgrunni og sakaferli en þörf krefur hverju sinni.
    Lögreglu er heimilt að kalla umsækjanda til viðtals telji hún það nauðsynlegt til að upplýsa nánar um atriði sem koma fram í umsókn eða í upplýsingum skv. 1. mgr. Ef upplýsingar skv. 1. mgr. gefa ástæðu til að ætla að viðkomandi neyti geðvirkra efna er lögreglu heimilt að óska eftir því að umsækjandi undirgangist skimun á eigin kostnað, þ.m.t. blóð- og þvagrannsókn, enda telji lögregla niðurstöðu slíkrar rannsóknar geta haft áhrif á niðurstöðu athugunar lögreglu.
    Synjun umsækjanda á því að veita upplýsingar um persónu sína eða undirgangast skimun vegna geðvirkra efna að ósk lögreglu skal leiða til neikvæðrar umsagnar.
    Neikvæð umsögn skal leiða til synjunar á umsókn og afturköllunar á gildandi áhafnarskírteini og aðgangsheimild.
    Heimilt er lögreglu að vísa til upplýsinga úr skrám skv. 1. mgr. sem varða einstakling með beinum hætti til rökstuðnings neikvæðri umsögn enda gefi þær rökstudda ástæðu til að draga í efa hæfi einstaklingsins til að fara með málefni flugverndar lögum samkvæmt. Takmarka má efni rökstuðnings að því leyti sem vísa þarf til trúnaðarflokkaðra gagna sem umsækjanda er ekki heimill aðgangur að. Að öðru leyti gilda ákvæði stjórnsýslulaga um málsmeðferðina. Sé umsögn lögreglu neikvæð getur viðkomandi einstaklingur á því stigi dregið til baka samþykki sitt fyrir miðlun niðurstöðu athugunar til Samgöngustofu, ef við á, eða til annarra aðila.
    Ákvæði 236. og 237. gr. gilda eftir því sem við á um umsögn lögreglu.
    Jákvæð umsögn lögreglu vegna bakgrunnsathugunar skal liggja fyrir áður en þjálfun á sviði flugverndar hefst, áhafnarskírteini er gefið út af flugrekanda með höfuðstöðvar sínar eða aðalaðsetur hér á landi, aðgangsheimild er gefin út af rekstraraðila flugvallar hér á landi og aðgangur er veittur að trúnaðarflokkuðum upplýsingum á sviði flugverndar.

160. gr.

Skimun og leit.

    Samgöngustofu er heimilt að veita aðila með gilt vottorð skv. 153. gr. heimild til að skima og leita á mönnum, í farangri, farmi, pósti, rekstrarvörum og öðrum varningi áður en aðgangur er veittur eða flutningur um borð í loftfar, haftasvæði flugverndar eða aðgreind svæði.
    Handleit skal ætíð framkvæmd af einstaklingi af sama kyni nema sá sem undirgengst leit samþykki annað. Einstaklingum með hlutlausa kynskráningu skal boðið að velja hvort kona eða karl framkvæmir handleit á þeim. Líkamsleit skal aðeins framkvæmd af lögreglu. Skimun og leit skal framkvæmd með eins mikilli tillitssemi og unnt er og hún má aldrei verða víðtækari en nauðsynlegt er.
    Synja skal þeim um aðgang að haftasvæði flugverndar, aðgreindu svæði og um brottför og komu sem neita að undirgangast skimun eða leit.
    Þeim aðilum sem synjað er um aðgang að haftasvæði flugverndar, aðgreindu svæði eða um brottför eða komu er heimilt að vísa frá flugvallarsvæði.

161. gr.

Vernd gagna og upplýsinga á sviði flugverndar.

    Aðgangur einstaklings að gögnum og upplýsingum sem falla undir trúnaðarflokkaðar upplýsingar vegna flugverndar er háður gildri jákvæðri umsögn vegna athugunar á bakgrunni skv. 158. og 159. gr. eða gildri öryggisvottun í samræmi við ákvæði varnarmálalaga.
    Samgöngustofa miðlar gögnum og upplýsingum á sviði flugverndar og ákvarðar aðgengi í samræmi við þarfir viðkomandi umsækjanda og, ef við á, stig trúnaðarflokkunar enda uppfylli umsækjandi skilyrði 1. mgr., hefur hlotið fræðslu um meðferð upplýsinga og gagna á sviði flugverndar og, ef við á, trúnaðarflokkaðra upplýsinga og undirritað yfirlýsingu um trúnað og staðfest ábyrgð sína og skyldur til meðhöndlunar og varðveislu gagnanna og upplýsinganna.
    Vernd, varðveisla, meðferð, merking og miðlun trúnaðarflokkaðra upplýsinga skal vera í samræmi við reglugerð sem ráðherra sem fer með varnarmál setur. Um vernd og meðhöndlun annarra upplýsinga og gagna er varða flugvernd fer eftir reglugerð sem ráðherra sem fer með samgöngumál setur.

162. gr.

Bannaðir hlutir.

    Óheimilt er að flytja hvers kyns hluti, efni, tæki eða tól inn á haftasvæði flugverndar eða um borð í loftfar ef af getur stafað ógn eða hætta fyrir öryggi flugsamgangna, flugs og/eða farþega nema þeir teljist nauðsynlegir fyrir starfrækslu loftfarsins, vegna skyldustarfa um borð eða starfrækslu flugvallar.

163. gr.

Vottun búnaðar, tækja og dýra.

    Búnaður, tæki og dýr sem notuð eru við skimun, aðgangseftirlit og framkvæmd flugverndar skulu uppfylla þær kröfur um vottun og, ef við á, þá staðla sem ráðherra ákveður í reglugerð. Búnaður og tæki skulu starfrækt, staðsett, uppsett, viðhaldið og prófuð í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.

164. gr.

Tilkynningaskylda vegna flugverndar.

    Hver sá sem verður þess áskynja að einstaklingur, hlutur eða efni sem talið er að hætta geti stafað af sé staðsett á flugsvæði flugvallar, í flugstöð eða um borð í loftfari, verður á annan hátt var við ólögmæt afskipti af flugi, tilraun til slíkra afskipta eða ásetning um slíkt, skal þegar í stað tilkynna um slíkt til lögreglu eða eftir atvikum flugstjóra, flugrekanda eða rekstraraðila flugvallar.
    Eftirlitsskyldir aðilar skulu án tafar gera Samgöngustofu viðvart um tilkynningar skv. 1. mgr. og greina frá atvikum.

165. gr.

Hlutverk Samgöngustofu á sviði flugverndar.

    Hlutverk Samgöngustofu á sviði flugverndar er meðal annars að:
     a.      viðhalda, í samráði við ráðherra, og annast innleiðingu flugverndaráætlunar Íslands þar sem ábyrgð varðandi framkvæmd sameiginlegra grunnkrafna á sviði flugverndar er skilgreind og ráðstöfunum um framkvæmd flugverndar er lýst, þ.m.t. gæða- og þjálfunaráætlunar á sviði flugverndar,
     b.      vera stjórnvöldum og eftirlitsskyldum aðilum til ráðgjafar um framkvæmd flugverndar, mat á áhættu og ógn gegn flugsamgöngum og
     c.      tryggja almenningi og eftirlitsskyldum aðilum viðeigandi upplýsingar á sviði flugverndar eftir því sem við á.

166. gr.

Þagnarskylda.

    Hver sá sem starfar að flugvernd, veitir þjálfun á sviði flugverndar eða sinnir störfum vegna flugsamgangna er bundinn þagnarskyldu um atvik sem honum verða kunn í starfi sínu eða vegna starfa sinna, hvort sem það er fyrir tilviljun eða ekki, og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna eða hagsmuna í þágu flugverndar. Tekur þagnarskylda til þess að óheimilt er að miðla eða notfæra sér í eigin þágu eða annarra upplýsingar um einkahagi manna, sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsinga sem varða framkvæmd flugverndar og verklag, fyrirhugaðar aðgerðir vegna flugverndar og annarra upplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, reglugerðum, fyrirmælum eða eðli máls.
    Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

167. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þ.m.t. að kveða nánar á um:
     a.      hverjir teljist eftirlitsskyldir aðilar á sviði flugverndar, þ.m.t. aðilar með höfuðstöðvar sínar eða aðalaðsetur utan Íslands, þær kröfur sem eftirlitsskyldir aðilar skulu uppfylla til vottunar, svo sem varðandi aðstöðu, búnað, skipulag, kunnáttu, hæfni og þjálfun starfsfólks, verktaka, fyrirsvars- og ábyrgðarfólks, þ.m.t. viðmiðanir fyrir ráðningu, aðferðir og verklag, gæðakerfi, tilkynningarkerfi, viðbúnaðaráætlanir, upplýsingaöryggi og varnir gegn áhættu sem ógna kunna öryggi net- og upplýsingakerfa,
     b.      kröfur til sjálfstæðra matsaðila og tilfærsla eftirlits og vottana til sjálfstæðra matsaðila á sviði flugverndar,
     c.      efni og útgáfu flugverndaráætlunar, þ.m.t. takmörkun á birtingu efnis að hluta eða í heild,
     d.      framkvæmd flugverndar, ábyrgð á framkvæmd, verklag, aðferðir og ráðstafanir til að vernda mannslíf, loftför, farm, póst, mannvirki, þ.m.t. leiðsögumannvirki, og sérstakar verndarráðstafanir,
     e.      aðferðir, framkvæmd skimunar, leitar og gæðaeftirlits, þ.m.t. staðla og kröfur til búnaðar og dýra sem notuð eru til skimunar og leitar eða annarra flugverndarráðstafana og prófanir á slíkum búnaði,
     f.      áhættumat og ákvörðun vástigs vegna flugverndar, kröfur til aðferða og verklags sé vástig hækkað,
     g.      viðmiðunarskrá yfir bannaða hluti, efni, tæki og tól og í hvaða tilvikum heimilt er að víkja frá banni 162. gr., meðferð, geymslu og eyðingu þeirra og um miðlun upplýsinga þar að lútandi,
     h.      skipulag og skilgreiningu svæða innan flugvallar með tilliti til flugverndar, ákvörðun og afmörkun haftasvæða flugverndar utan flugvallar,
     i.      aðgangsstýring að flugsvæði flugvallar og öðrum skilgreindum svæðum flugvallar, haftasvæðum flugverndar og afmörkun á hvað telst gild aðgangsheimild, skilyrði og kröfur til útgáfu aðgangsheimildar, form og efni, skilyrði til að breyta, takmarka, fella tímabundið niður eða afturkalla aðgangsheimild,
     j.      athugun á bakgrunni vegna flugverndar, umsóknareyðublað, almenn og sértæk viðmið við mat á bakgrunni, áhrif dæmdra brota gegn lögum og reglugerðum og tímafresti í tengslum við þau, áhrif opinna mála lögreglu og handhafa ákæruvalds með tilliti til réttarstöðu umsækjanda, áhrif niðurstöðu skimunar á geðvirkum efnum, frekari upplýsingaöflun, skráningu umsagnar lögreglu og eftirlit með einstaklingum í skrám lögreglu sem hlotið hafa jákvæða umsögn, endurmat á athugun á bakgrunni, afturköllun jákvæðrar umsagnar, miðlun upplýsinga um niðurstöðu athugunar á bakgrunni til viðeigandi aðila og gagnkvæm viðurkenning athugunar á bakgrunni sem útgefin eru af stjórnvöldum ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa,
     k.      hæfnikröfur við ráðningu, þjálfun og vottun þeirra er starfa að flugvernd, kröfur til sí- og endurmenntunar, hæfnikröfur til þeirra og vottun er annast þjálfun á sviði flugverndar og hæfnikröfur til þeirra er annast eftirlit á sviði flugverndar,
     l.      flugverndarkröfur til loftfara, svo sem loftfars, þjálfunar, verklags um borð, vöktunar og aðgengis,
     m.      jafngilda viðurkenningu krafna um flugvernd í þriðju ríkjum, gagnkvæma viðurkenningu á sviði flugverndar, verklag og réttaráhrif falli gagnkvæm viðurkenning niður eða sé afturkölluð,
     n.      vernd, miðlun og varðveislu upplýsinga og gagna á sviði flugverndar sem ekki eru trúnaðarflokkaðar,
     o.      eftirlit Samgöngustofu og Eftirlitsstofnunar EFTA með framkvæmd flugverndar og eftirlitsskyldum aðilum, athuganir og sannprófanir og meðhöndlun frávika,
     p.      upplýsingamiðlun um flugvernd og samstarf og samvinnu á sviði flugverndar við erlend ríki og alþjóðlegar og svæðisbundnar stofnanir.
    Ráðherra er heimilt að birta aðeins að hluta eða öllu leyti efni reglugerða skv. d- og e-liðum 1. mgr. þeim einstaklingum sem starfs síns vegna þurfa að hafa vitneskju um efni hennar enda varði efni reglugerðarinnar beina flugverndarhagsmuni og öryggi og trúnaðarflokkun leiði af lögum, eðli máls eða þjóðréttarlegum skuldbindingum. Miðlun upplýsinga sem háðar eru trúnaðarflokkun skal tryggð með sannanlegum hætti.
    Rekstraraðilum flugvalla og rekstraraðilum rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu er heimilt að setja reglur um aðgangsstýringu, útgáfu aðgangsheimilda og afmörkun haftasvæða vegna flugverndar og aðgreindra svæða og, ef við á, bannsvæða og svæða þar sem öll umferð er takmörkuð.

XIV. KAFLI

Loftrýmið og þjónusta við flugumferð.

168. gr.

Rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsöguþjónusta.

    Rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsöguþjónusta skal veitt til að tryggja flugöryggi og greiða fyrir almennri flugumferð, að teknu tilliti til öryggissjónarmiða og flutningsþarfar.

169. gr.

Umferð í lofti.

    Loftför sem starfrækt eru á íslensku yfirráðasvæði eða á athafnasvæði flugvallar og loftför sem skráð eru í loftfaraskrá, hvar sem þau eru stödd, skulu á öllum stigum flugs fara að flugreglum sem ráðherra setur í reglugerð sem og þeim reglum og starfsaðferðum sem gilda um notkun loftrýmisins nema samningar við erlend ríki eða lög þess ríkis sem loftfarið fer um leiði til annars. Framangreind loftför skulu búin tilskildum tækjabúnaði og skal sá búnaður starfræktur á tilskilinn máta.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal Samgöngustofu heimilt, að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni þar að lútandi, að undanþiggja einstaka aðila eða hóp aðila frá einstökum flugreglum.
    Yfir úthöfum og í loftrými þar sem engu ríki hefur verið ákvarðaður fullveldisréttur gilda flugreglur í viðauka 2 við Chicago-samninginn án undantekninga.

170. gr.

Tilnefning þjónustuveitanda.

    Ráðherra skal tilnefna veitanda flugumferðarþjónustu sem veittur er einkaréttur til flugumferðarþjónustu innan tiltekins loftrýmisumdæmis á íslensku yfirráðasvæði og innan þess loftrýmis sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að veita flugumferðarþjónustu.
    Ráðherra er heimilt að tilnefna veitanda veðurþjónustu sem veittur er einkaréttur á afhendingu veðurfræðilegra gagna, að hluta til eða í heild, innan alls eða hluta af loftrými íslensks yfirráðasvæðis, að teknu tilliti til öryggissjónarmiða.
    Ráðherra er heimilt að fela Samgöngustofu að tilnefna veitendur samkvæmt þessari grein.
    Tilnefndir aðilar skulu vera handhafar vottunar til að veita þá þjónustu sem þeir eru tilnefndir til og uppfylla þær kröfur sem lög þessi og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra tilgreina.

171. gr.

Vottun rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu.

    Eftirtalin starfsemi, annað hvort ein og sér eða samsett, sem veitt er á íslensku yfirráðasvæði er háð vottun samkvæmt lögum þessum:
     a.      veiting eftirfarandi þjónustu á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsögu:
                  1.      fjarskiptaþjónusta,
                  2.      flugumferðarþjónusta,
                  3.      flæðistýring flugumferðar (staðbundin/miðlæg),
                  4.      flugferlahönnun,
                  5.      kögunarþjónusta,
                  6.      leiðsöguþjónusta,
                  7.      loftrýmisstjórnun á úrlausnarstigi,
                  8.      netstjórnandi,
                  9.      upplýsingaþjónusta flugmála,
                  10.      veðurþjónusta,
                  11.      gagnaþjónusta,
     b.      veiting samevrópskrar rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu.
    Vottorð geta verið gefin út fyrir hverja einstaka tegund þjónustu skv. a- og b-lið eða fyrir fleiri þjónustur saman. Í vottorðinu skal tilgreina réttindi og skyldur þjónustuveitanda sem og hvaða skilyrði og/eða takmarkanir gilda um þjónustuna.
    Umsækjandi með höfuðstöðvar eða aðalaðsetur hér á landi skal sækja um vottun skv. a-lið 1. mgr. til Samgöngustofu, nema hvað varðar miðlæga flæðistýringu flugumferðar, þjónustu netstjórnanda og gagnaþjónustu skv. 3., 8. og 11. tölul. a-liðar 1. mgr., og veitingu samevrópskrar rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu skv. b-lið 1. mgr. sem beint skal til Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins. Stofnunin er einnig lögbært stjórnvald hvað varðar hönnun, framleiðslu, viðhald og rekstur kerfa og kerfishluta fyrir veitingu samevrópskrar rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu skv. 172. og 173. gr.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal þeim sem sjá um flugupplýsingaþjónustu heimilt að lýsa því yfir að þeir búi yfir getu og aðgengi að tilföngum til að leysa af hendi þau skyldustörf sem tengjast þjónustunni.
    Ráðherra er heimilt að kveða á um tímabundna undanþágu frá vottun skv. 1. mgr. fyrir rekstraraðila flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu í reglugerð enda séu höfuðstöðvar eða aðalaðsetur veitanda þjónustunnar utan yfirráðasvæðis EASA-ríkjanna og þjónustan taki aðeins til lítils hluta flugumferðar í takmörkuðum hluta þess loftrýmis sem íslenska ríkið ber ábyrgð á að veita þjónustu og öðrum skilyrðum sem ráðherra setur sé fullnægt.

172. gr.

Kerfi og kerfishlutar rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu.

    Kerfi og kerfishlutar rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu sem miðla upplýsingum til loftfara og frá þeim og á jörðu niðri skulu hönnuð, framleidd, sett upp, þeim viðhaldið, þau varin gegn óheimilum aðgangi og starfrækt með tilhlýðilegum hætti til að tryggja að þau henti til fyrirhugaðra nota.
    Ráðherra er heimilt að ákvarða í reglugerð að:
     a.      veitendum rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu sé skylt að lýsa því yfir að kerfin og kerfishlutarnir sem þeir taka í notkun uppfylli viðeigandi vottunarforskriftir sem tilteknar eru í reglugerð, eða
     b.      að kerfin og kerfishlutarnir séu háðir vottun í samræmi við vottunarforskriftir.
    Þrátt fyrir 2. mgr. er fyrirtækjum sem hanna, framleiða eða viðhalda kerfi og kerfishluta fyrir veitingu rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu heimilt að gefa út yfirlýsingu þess efnis að þessi kerfi og kerfishlutar samrýmist viðeigandi forskriftum og að þau henti til notkunar.
    Séu kerfi- eða kerfishlutar háðir vottun samkvæmt þessari grein fer með slíka vottun skv. 2. mgr. 173. gr. eftir því sem við á.

173. gr.

Hönnun, framleiðsla og viðhald kerfa eða kerfishluta.

    Ráðherra er heimilt að ákvarða með reglugerð að fyrirtæki sem taka þátt í hönnun, framleiðslu eða viðhaldi á kerfum eða kerfishlutum fyrir veitingu rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu:
     a.      gefi út yfirlýsingu þess efnis að þau hafi getu og úrræði til þess að rækja skyldur sínar í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, eða
     b.      séu handhafar vottorðs.
    Vottorð skv. b-lið 1. mgr. skal gefið út að fenginni beiðni þar um enda hafi umsækjandi sýnt fram á að hann uppfylli þær kröfur sem ráðherra ákvarðar í reglugerð. Vottorðið skal tilgreina þau réttindi sem veitt eru. Lögbæru stjórnvaldi er heimilt að breyta vottorði til að auka eða minnka réttindi.

174. gr.

Almennar kröfur til veitanda rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu.

    Veitandi rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu skal tryggja að hann sé fær um að veita þjónustuna á öruggan, skilvirkan, samfelldan og varanlegan hátt í samræmi við fyrirsjáanlega heildareftirspurn í tilteknu loftrými. Veitandinn skal meðal annars viðhalda fullnægjandi tækni- og rekstrarlegu hæfi og sérþekkingu, innleiða og viðhalda stjórnunarkerfi, útbúa og viðhalda rekstrarhandbókum og verklagsreglum um starfsemi sína og geta sýnt fram á að starfsaðferðir hans og verklagsreglur samrýmist þeim kröfum sem ráðherra setur í reglugerð. Þjónustuveitandi skal enn fremur sjá til þess að fyrir hendi sé viðunandi og fullnægjandi aðstaða fyrir starfsemina og að hann hafi yfir að ráða hæfu starfsfólki, þ.m.t. tæknifólki sem sinnir öryggistengdum verkefnum sem hlotið hefur viðeigandi þjálfun til að sinna störfum sínum.
    Veitandi rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu skal vera fær um að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar og gera viðeigandi ráðstafanir til að standa undir þeirri hugsanlegu bótaábyrgð sem tengist framkvæmd þjónustunnar. Þjónustuveitandi skal hafa og viðhalda viðbragðsáætlun í samræmi við þá þjónustu sem hann veitir til að bregðast við atburðum sem hafa í för með sér verulega skerðingu eða truflun á starfsemi hans.
    Þjónusta rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsögu og hönnun, framleiðsla, viðhald og rekstur kerfa og kerfishluta sem tengjast þjónustunni skal vera í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.

175. gr.

Opin og gagnsæ þjónusta.

    Veitandi rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu skal veita þjónustu sína á opinn og gagnsæjan hátt. Hann skal birta skilyrði fyrir aðgangi að þjónustunni og breytingum þar á sem og koma á reglulegu samráðsferli með notendum þjónustunnar eftir þörfum, t.d. vegna sértækra breytinga á þjónustu, annað hvort á einstaklingsmiðuðu eða á sameiginlegum grundvelli.
    Veitanda þjónustu er óheimilt að mismuna þjónustunotendum á grundvelli þjóðernis eða annarra einkenna eða hópi notenda.

176. gr.

Upptökur og varðveisla gagna.

    Veitandi rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu skal taka upp hvers konar fjarskipti vegna þjónustu sinnar og skrá gögn sem berast vegna hennar. Ráðherra er heimilt að ákvarða með reglugerð hvaða fjarskipti og gögn rekstraraðilar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu skulu taka upp, skrá og varðveita. Óviðkomandi aðilum skal ekki veittur aðgangur að gögnum þessum nema samkvæmt sérstakri lagaheimild eða dómsúrskurði.

177. gr.

Skipulag og hönnun loftrýmis.

    Ráðherra fer með skipulag loftrýmis á íslensku yfirráðasvæði og í því loftrými sem þar sem Ísland er skuldbundið til að veita þjónustu á grundvelli þjóðréttarsamninga. Ráðherra til aðstoðar er Samgöngustofa sem ber ábyrgð á gerð loftrýmisskipulags.
    Í loftrýmisskipulagi skal meðal annars kveðið á um:
     a.      stefnu um skipulag loftrýmis,
     b.      afmörkun þjónustusvæða,
     c.      flokkun loftrýmis,
     d.      svæði sem skilgreind eru ótímabundið,
     e.      annað sem máli skiptir um nýtingu loftrýmisins.
    Við gerð loftrýmisskipulags skal meðal annars lýsa umhverfi og aðstæðum í skipulagssvæðinu og forsendum þeirrar stefnu sem það felur í sér og gera grein fyrir áhrifum þess og einstakra stefnumiða. Þá skal leitast við að taka tillit til öryggis, skilvirkni og umhverfissjónarmiða í samræmi við stefnu stjórnvalda, önnur lög og stjórnvaldsfyrirmæli þar sem flugtak, lending og/eða flug loftfara er háð takmörkunum eða banni.
    Við gerð loftrýmisskipulags skal leita eftir sjónarmiðum og tillögum viðkomandi stjórnvalda, loftrýmisnotenda, almennings og annarra hagaðila um mótun stefnu. Sérstakt samráð skal haft við sveitarfélög, rekstraraðila flugvalla og rekstraraðila rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu.
    Loftrýmisnotendum, stjórnvöldum og öðrum hagaðilum er heimilt að koma á framfæri tillögum til Samgöngustofu um breytingar á skipulagi og hönnun loftrýmis í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
    Skipulag loftrýmis og allar breytingar á skipulagi og hönnun loftrýmis skal birta fyrir tilstilli upplýsingaþjónustu flugmála í flugmálahandbók, með upplýsingabréfi flugmála og/eða með tilkynningu til flugliða.

178. gr.

Tímabundið skipulag.

    Samgöngustofu er heimilt að kveða á um tímabundið skipulag loftrýmis skv. c-, d- og e-lið 2. mgr. 177. gr. enda vari slíkt skipulag ekki lengur en þörf krefur. Stofnuninni er heimilt að fela veitanda flugleiðsöguþjónustu umsýslu beiðna og úrlausn í rauntíma.

179. gr.

Upplýsingaþjónusta um loftrýmismál.

    Samgöngustofa skal starfrækja upplýsingaþjónustu og stafræna miðlæga gátt og annast milligöngu við önnur innlend stjórnvöld og opinbera aðila um beiðni almennings og hagaðila um nýtingu loftrýmisins, flug loftfara og lendingu eða flugtak í loftrými sem háð er takmörkunum eða banni samkvæmt loftrýmisskipulagi. Samgöngustofu er heimilt að hafa samstarf og samvinnu við önnur stjórnvöld og hagaðila um starfrækslu slíkrar gáttar.
    Samgöngustofa skal birta almennar og sértækar upplýsingar er varða umferð loftfara, hluta og tækja sem ferðast um loftið en eru ekki loftför og skipulag og hönnun loftrýmis og varða almenning almennt.

180. gr.

Fjarskipta-, leiðsögu- og kögunarþjónusta.

    Veitandi fjarskipta-, leiðsögu- eða kögunarþjónustu skal tryggja að þjónustan sé aðgengileg, samfelld, nákvæm og heildstæð. Hann skal staðfesta gæði þjónustunnar og sýna fram á að búnaði sé reglulega viðhaldið og hann kvarðaður þegar þess er krafist.
    Fjarskiptaþjónusta skal skila og viðhalda fullnægjandi afköstum með tillit til aðgengis, heilleika, samfellu og tíma upplýsinga. Hún skal vera skilvirk og varin gegn gagnabrenglun og truflun.
    Leiðsöguþjónusta skal ná og viðhalda fullnægjandi afkastastigi með tilliti til leiðsögu, upplýsinga og staðsetningar og tímasetningar þegar hún er látin í té. Viðmiðin fyrir þessar upplýsingar eru hversu nákvæm, heilleg, aðgengileg og samfelld þjónustan er og hversu lögmætar heimildir hennar eru.
    Með kögunarþjónustu skal ákvarða viðkomandi staðsetningu loftfars í lofti og annarra loftfara og, eftir atvikum, ökutækja á flugvallarsvæði með nægilega góðum árangri að því er varðar nákvæmni, heilleika, lögmæti heimilda, samfellu og líkur á rekjanleika.

181. gr.

Veðurþjónusta.

    Veitandi veðurþjónustu skal veita nauðsynlegar veðurupplýsingar í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur um flugveðurþjónustu.
    Að því marki sem unnt er skulu veðurupplýsingar fyrir flug vera nákvæmar, ítarlegar, uppfærðar af nægilegum heilleika og ótvíræðar til að uppfylla þarfir loftrýmisnotenda. Veðurupplýsingar fyrir flug skulu byggjast á lögmætum heimildum. Gögn sem eru notuð sem grunnur fyrir veðurupplýsingar fyrir flug skulu vera af nægilegum gæðum, ítarleg og uppfærð.
    Miðlun slíkra veðurupplýsinga í tengslum við flug til loftrýmisnotenda skal fara fram tímanlega og nota skal nægilega áreiðanlegan og hraðvirkan samskiptamiðil sem er varinn gegn truflun og gagnabrenglun.

182. gr.

Upplýsingaþjónusta flugmála.

    Veitandi upplýsingaþjónustu flugmála skal tryggja gæði þjónustunnar, þ.m.t. áreiðanleika, reglufestu og heilleika upplýsinga til notenda loftrýmis og veitenda flugstjórnarþjónustu.
    Ráðherra er heimilt að ákvarða í reglugerð hvaða aðilum er skylt að veita upplýsingar og gögn til veitanda upplýsingaþjónustu flugmála og til hvaða upplýsinga skyldan nái.

183. gr.

Flugmálaupplýsingar og gögn.

    Flugmálaupplýsingar skulu vera nákvæmar, ítarlegar, uppfærðar og ótvíræðar, byggjast á lögmætum heimildum, vera af nægilegum heilleika sem og á nothæfu sniði fyrir notendur.
    Gögn, sem notuð eru sem heimild fyrir flugmálaupplýsingar, skulu vera af nægilegum gæðum, ítarleg og uppfærð og látin í té tímanlega.
    Gæði upplýsinga og gagna hvað varðar nákvæmni, upplausn og heilleika skulu vera í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
    Miðlun flugmálaupplýsinga til loftrýmisnotenda skal fara fram tímanlega, nota skal nægilega áreiðanlegan og hraðvirkan samskiptamiðil sem er varinn gegn vísvitandi og óvísvitandi truflun og gagnabrenglun.

184. gr.

Hönnun flugferla.

    Flugferlar skulu vera tilhlýðilega hannaðir í samræmi við hönnunarviðmið til að tryggja örugga starfrækslu loftfara. Hönnun flugferla skal yfirfarin og staðfest áður en ferlarnir eru birtir og notaðir fyrir loftför.

185. gr.

Tilkynningarskylda um hindranir og truflanir vegna umferðar í lofti.

    Sveitarfélög og skipulags- og byggingaryfirvöld skulu tilkynna Samgöngustofu um mannvirki, hluti eða annað sem jafna má til hindrunar sem er 50 metra há eða hærri og ætlað er að standa varanlega. Hindranir skulu merktar í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
    Eigandi mannvirkis, hlutar eða annars sem jafna má við hindrun fyrir flugumferð skal tryggja gæði gagna í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Veitandi rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu skal tilkynna Samgöngustofu um hvers konar truflanir, merki, ljós eða annað sem telja má að flugumferð stafi hætta af.

186. gr.

Frammistöðuáætlun á sviði flugleiðsögu.

    Koma skal á og viðhalda áætlun um frammistöðu á sviði flugleiðsögu í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Frammistaða veitenda flugleiðsöguþjónustu skal háð eftirliti af hálfu lögbærra stjórnvalda. Ef reglubundin vöktun og eftirlit leiðir í ljós að markmiðum áætlunar er ekki náð á viðmiðunartímabili skal gripið til viðeigandi ráðstafana.

187. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þ.m.t. að kveða nánar á um:
     a.      flugreglur og búnað loftfara með tilliti til kerfishluta sem notaðir eru í kerfi fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu og auðkenningu loftfara varðandi kögun,
     b.      þjónustustig rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu sem veitt er og ákvörðun þess,
     c.      þjónustu á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsögu, þ.m.t. skilyrði fyrir vottun, skipulag, stjórnun, fjármögnun, bókhald og reikningsskil, framkvæmd og starfrækslu; skráahald og aðgengi að gögnum,
     d.      handbækur, verklag við þjónustu og áætlanir, þ.m.t. vegna þjálfunar, frammistöðu, verndar, viðbragðs og upplýsingaöryggis og kerfis þjónustuveitanda, svo sem stjórnunar-, tilkynninga-, öryggisstjórnunar- og gæðakerfis,
     e.      tilföng þjónustuveitanda, þ.m.t. aðstöðu og búnað,
     f.      vernd rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. verndarkröfur sem gerðar eru til veitenda þjónustu, kerfa, aðstöðu, búnaðar og mannvirkja,
     g.      afköst og áreiðanleika þjónustu og þjónustustig,
     h.      hæfni og þjálfun starfsmanna og/eða verktaka og vinnutímamörk og lágmarkshvíldartíma flugumferðarstjóra,
     i.      hönnun, framleiðslu, starfrækslu og viðhald kerfa og kerfishluta rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. skilyrði vottunar; markaðseftirlit; verklag; heilleika, afköst og áreiðanleika kerfa og kerfishluta,
     j.      tíðni notkunar, truflanir og notkun hvers konar fjarskiptaþjónustu, samskiptakerfa og samskiptaaðferða vegna veitingar fjarskiptaþjónustu fyrir flug,
     k.      tilnefningu veitanda rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu, tilkynningar þar að lútandi; gildistíma tilnefningar; breytingar á tilnefningu og afturköllun,
     l.      bókhaldslegar kröfur til veitenda rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu og reikningsskila,
     m.      starfræn loftrýmisumdæmi,
     n.      samvinnu á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. samstarf við erlend ríki og alþjóðlegar og svæðisbundnar stofnanir,
     o.      upptökur, vistun og geymslu fjarskipta vegna rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu; afspilun og skráningu á notkun,
     p.      skipulag og hönnun loftrýmis, þ.m.t. viðmið fyrir tæknilega hönnun og sameiginlegar verklagsreglur fyrir notkun loftrýmis, stjórnun loftrýmis og hönnun flugferla; kynningu breytinga og verklagsreglna sem geta haft áhrif á skipulag og hönnun loftrýmis; breytingar á skipulagi, meðhöndlun tillagna til breytinga, samráð og samþykki breytinga; ferli; birtingu og miðlun upplýsinga um skipulag loftrýmis og meðhöndlun undanþága,
     q.      varðveislu flugmálaupplýsinga, gagnaskipti, gagnagæði og kröfur til gæða-, öryggis- og verndarstjórnunar, tækja, hugbúnaðar og gagnaverndar
     r.      kröfur til hönnunarviðmiða flugferla, nákvæmni, tæknilega og rekstrarlega getu og hæfni veitanda þjónustunnar og flugprófanir,
     s.      frammistöðuáætlun á sviði flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. verklag, markmiðssetningu, upplýsingar og gögn sem rekstraraðilum flugleiðsöguþjónustu skal skylt að leggja fram; efni og framsetningu áætlunar, markmiða og frammistöðuviðmiðana; vöktun og eftirlit og viðeigandi ráðstafanir þegar frammistöðumarkmiðum er ekki náð.

XV. KAFLI

Aðgangur að markaði, þjónustugjöld o.fl.

188. gr.

Heimild ráðherra til samningagerðar.

    Ráðherra er heimilt að gera samninga um markaðsaðgang flugrekenda og annarra er annast flugtengda starfsemi, gagnkvæma viðurkenningu vottana, réttinda, heimilda og úttekta, og aðra samninga í þágu loftferða, þ.m.t. á sviði flugöryggis og verndar við erlend ríki og alþjóðlegar og svæðisbundnar stofnanir.

189. gr.

Úthlutun takmarkaðra flugréttinda.

    Í þeim tilvikum þar sem samningur Íslands við erlent ríki hefur að geyma takmarkaðan rétt til markaðsaðgangs handa tilnefndum flugrekendum skal Samgöngustofa, að höfðu samráði við ráðherra, annast úthlutun þeirra flugréttinda sem samningurinn tekur til. Þeir flugrekendur sem óska tilnefningar skulu uppfylla þau skilyrði sem viðkomandi samningur áskilur auk þeirra almennu krafna og viðmiða sem ráðherra tiltekur í reglugerð.
    Úthlutun markaðsaðgangs skal gerð á grundvelli jafnræðis og gagnsærrar málsmeðferðar. Upplýsingar og gögn sem flugrekendur afhenda í umsóknarferli skal farið með sem trúnaðarupplýsingar.
    Ef forsendur til úthlutunar takmarkaðra flugréttinda breytast skal Samgöngustofa sérstaklega auglýsa á heimasíðu sinni þær flugleiðir sem ekki lengur lúta takmörkunum.

190. gr.

Dreifing flugumferðar á milli flugvalla.

    Ráðherra er heimilt, að höfðu samráði við hagaðila, að ákvarða hvernig flugumferð er dreift á milli flugvalla sem þjóna sömu borg eða borgarþyrpingu í samræmi við þau skilyrði sem ráðherra tiltekur í reglugerð enda sé gagnsæi og meðalhófs gætt. Fyrirhuguð breyting á tilhögun dreifingar flugumferðar skal tilkynnt Eftirlitsstofnun EFTA, sbr. 234. gr.

191. gr.

Skyldur um opinbera þjónustu.

    Ráðherra eða þeim sem hann felur ábyrgð er heimilt að leggja á skyldur um að veita opinbera þjónustu í áætlunarflugi milli flugvallar innan Evrópska efnahagssvæðisins og flugvallar sem þjónar jaðar- eða þróunarsvæði eða á flugleið á íslensku yfirráðasvæði þar sem flugumferð er lítil enda sé talið að slík flugleið skipti sköpum fyrir efnahags- og félagslega þróun á því svæði sem flugvöllurinn þjónar. Aðeins skal kveðið á um skyldur um að veita opinbera þjónustu að því marki sem slíkt er nauðsynlegt til að tryggja lágmarksþjónustu sem ella stæði ekki undir sér á viðskiptagrundvelli.
    Aðgangur að flugleið sem á hefur verið lögð kvöð um opinbera þjónustu verður aðeins takmarkaður við einn flugrekanda í takmarkaðan tíma í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Að slíkum tíma liðnum skal endurmeta stöðu flugleiðar.

192. gr.

Veiting flugafgreiðslu.

    Á flugvöllum sem eru opnir fyrir flugumferð í ábataskyni og þar sem fjöldi farþega og magn farms er yfir nánar tilgreindum mörkum skal heimilt að gera hlutaðeigandi rekstraraðila flugvallar skylt að tryggja jafnt aðgengi að flugafgreiðslu í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Aðgengi að rými á flugvelli skal deilt meðal þeirra sem veita flugafgreiðslu, þ.m.t. þeirra sem eru að hasla sér völl á þessu sviði, að því marki sem nauðsynlegt er svo þeir geti sinnt starfsemi sinni. Ef skilyrði eru sett fyrir aðgengi skulu þau byggð á viðmiðum sem eru viðeigandi, hlutlæg, gagnsæ og án mismununar. Sama á við um skilyrði fyrir aðgengi að búnaði flugvalla og gjaldtöku vegna aðgengi, ef við á.
    Ef flugvöllur sem opinn er fyrir flugumferð í ábataskyni er undir tilgreindum viðmiðunarmörkum er varðar fjölda farþega og magn farms er rekstraraðila flugvallar heimilt, að fengnu samþykki Samgöngustofu og að þeim skilyrðum fullnægðum sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur, að takmarka fjölda þeirra aðila sem heimilt er að veita flugafgreiðslu á viðkomandi flugvelli.
    Ráðherra eða þeim sem hann felur ábyrgð er heimilt að kveða á um skyldur til að veita opinbera flugafgreiðsluþjónustu á flugvöllum að uppfylltum tilteknum skilyrðum enda liggi fyrir samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Rekstraraðila flugvallar er heimilt að afhenda þriðja aðila stjórn sérstakra mannvirkja á flugvelli sem notuð eru við flugafgreiðslu og getur hann skyldað þá sem sjá um flugafgreiðslu og flugvallanotendur sem sjá um eigin afgreiðslu til að nota slík mannvirki. Þetta á við um mannvirki sem eru svo flókin eða kostnaðarsöm eða hafa svo mikil umhverfisáhrif að ekki er unnt að skipta þeim niður eða hafa fleiri en eitt slíkt mannvirki, t.d. stjórn farangursflokkunar, afísingar, vatnshreinsunar og eldsneytisdreifingar. Sé aðgengi að sérstökum mannvirkjum háð skilyrðum skal stuðst við sömu viðmið og reifuð eru í 1. mgr.
    Rekstraraðila flugvallar er óheimilt að niðurgreiða flugafgreiðsluþjónustu sem hann veitir af tekjum sem til hans renna af annarri starfsemi. Sama gildir um aðra veitendur flugafgreiðslu sem veita þriðju aðilum þjónustu.
    Samráð skal haft við notendur flugvallar um málefni flugafgreiðslu í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
    Heimilt er að kæra til Samgöngustofu, án þess að það hafi áhrif á möguleika málsaðila til að vísa málinu til dómstóla, ákvörðun rekstraraðila flugvallar um:
     a.      val á flugafgreiðsluaðila, sbr. 2. mgr.,
     b.      synjun um aðgang og rými á flugvelli eða að búnaði flugvallar til að veita flugafgreiðslu,
     c.      synjun um aðgang að sérstöku mannvirki,
     d.      afturköllun aðgengis skv. b- og/eða c-lið,
     e.      að hlutast ekki til um samráð í notendanefnd flugvallar, sbr. 194. gr. og 6. mgr.

193. gr.

Tilnefning flugvalla með tilliti til afkastagetu hvað varðar afgreiðslutíma.

    Ráðherra eða þeim sem hann felur ábyrgð er heimilt að tilnefna flugvöll með afgreiðslutíma samkvæmt samráði enda sé meginreglum um gagnsæi, hlutleysi og jafnræði framfylgt. Samráðsstjóri skal sinna þeim verkefnum og eftirliti sem ráðherra ákvarðar í reglugerð.
    Aðeins skal tilnefna flugvöll sem flugvöll með skammtaðan afgreiðslutíma að uppfylltum ákvæðum 3.–5. mgr.
    Taka skal til athugunar afkastagetu flugvallar ef um er að ræða flugvöll sem ekki hefur hlotið tilnefningu eða flugvöll sem er tilnefndur með afgreiðslutíma eftir samráði:
     a.      ef tilmæli hafa borist frá flugrekendum sem annast meira en helming af flugumferð um flugvöllinn, eða rekstraraðila flugvallar, þess efnis að afkastagetan sé ófullnægjandi fyrir núverandi og áætlaða flugumferð fyrir tiltekin tímabil, eða
     b.      að beiðni frá Eftirlitsstofnun EFTA, einkum þegar flugvöllur er aðeins aðgengilegur flugrekendum sem þegar hafa afgreiðslutíma eða þar sem flugrekendur og þá einkum nýir aðilar eiga í erfiðleikum að fá afgreiðslutíma á þeim flugvelli.
    Sé það talið nauðsynlegt skal greining á afkastagetu unnin af rekstraraðila flugvallar eða öðrum hæfum aðila. Á grundvelli greiningarinnar skal víðtækt samráð haft um afkastagetu flugvallar við hagsmunaaðila.
    Ef talið er að afkastagetu flugvallar sé verulega áfátt getur ráðherra eða þeim sem hann felur ábyrgð tilnefnt flugvöllinn sem flugvöll með skammtaðan afgreiðslutíma til skemmri eða lengri tíma í samræmi við þau skilyrði sem ráðherra setur í reglugerð. Sé flugvöllur tilnefndur sem flugvöllur með skammtaðan afgreiðslutíma skal honum skipaður samræmingarstjóri sem annast úthlutun afgreiðslutíma og skal hlutleysi hans og sjálfstæði tryggt. Einnig skal tryggt að samræmingarnefnd flugvallar með skammtaðan afgreiðslutíma sé skipuð. Samræmingarstjóri og samræmingarnefnd flugvallar skulu sinna þeim verkefnum og eftirliti sem ráðherra ákvarðar í reglugerð.
    Samræmingarstjóri verður ekki gerður bótaábyrgur vegna þeirra ráðstafana sem grípa þarf til og tengist störfum hans nema ef um stórkostlegt gáleysi eða ásetning er að ræða.
    Þegar afkastageta flugvallar sem er tilnefndur með skammtaðan afgreiðslutíma er talin nægileg og getur mætt raunverulegri eða áætlaðri flugumferð skal tilnefning hans afturkölluð.

194. gr.

Notendanefnd.

    Rekstraraðili flugvallar eða flugvallakerfis þar sem farþegar eru fleiri en ein milljón á ári skal setja á stofn notendanefnd sem er vettvangur skoðanaskipta milli hans og notenda um málefni flugvallar. Fjöldi fulltrúa notenda og samsetning í notendanefnd skal ráðast af stærð og umsvifum flugvallar. Fundir í notendanefnd flugvallar skulu haldnir eigi sjaldnar en einu sinni á ári.
    Á notendanefndarfundi skal notendum veitt tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en teknar eru mikilvægar ákvarðanir um rekstur, þjónustu, gjaldtöku eða önnur atriði sem snerta mikilvæga hagsmuni þeirra.

195. gr.

Gjaldtaka flugvalla og gagnsæi gjalda.

    Rekstraraðila flugvallar er heimilt að innheimta gjöld til að standa undir rekstri flugvallar og fyrir þeirri aðstöðu, búnaði og mannvirkjum sem starfsemi tengd flugsamgöngum nýtir á flugvellinum. Gjöld skulu lögð á flugvallarnotendur án mismununar. Gjaldskrá skal birt með tryggum hætti þar sem meðal annars er kveðið nánar á um fjárhæð gjalds, sundurliðun þess ef við á og innheimtu. Ráðherra er heimilt að kveða á um heimild rekstraraðila flugvallar til að innleiða sameiginlegt gjaldtökukerfi sem nær yfir kerfi flugvalla að þeim skilyrðum uppfylltum sem kveðið er á um í reglugerð.
    Rekstraraðili flugvallar eða flugvallakerfis skal eigi sjaldnar en árlega leggja fram sundurliðun kostnaðar sem lagður er til grundvallar gjaldtöku. Aðgreina skal í bókhaldi einstaka kostnaðarliði sem lagðir eru til grundvallar gjaldi. Við sundurliðunina skal a.m.k. leggja til grundvallar:
     a.      þá þjónustu og innviði sem gjald er tekið fyrir,
     b.      aðferðina við útreikning gjalds,
     c.      heildarsamsetningu kostnaðar á flugvelli eða innan flugvallakerfis,
     d.      tekjur af mismunandi gjöldum og heildarkostnað að baki gjaldtöku,
     e.      fjármögnun ríkis, sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila til þeirrar þjónustu sem gjald er tekið fyrir,
     f.      spá um þróun á viðkomandi flugvelli eða flugvöllum varðandi gjaldtöku og flugumferð. Séu fjárfestingar í innviðum hluti af kostnaðargrunni gjalda skulu áætlanir þar um einnig sundurliðaðar,
     g.      nýtingu stofninnviða og búnaðar yfir tiltekið tímabil, og
     h.      áætlun um framlegð einstakra fyrirhugaðra fjárfestinga og áhrif þeirra á afkastagetu flugvallarins og gæði þjónustu.
    Flugrekendum sem nýta aðstöðu flugvalla hér á landi ber að upplýsa rekstraraðila flugvallar reglulega um áætlanir sínar, meðal annars varðandi tíðni flugs á hverri flugleið, fjölda farþega, samsetningu flugvélaflotans, fyrirhuguð verkefni á flugvelli og þarfir fyrir aðstöðu á honum. Rekstraraðili flugvallar skal meðhöndla upplýsingar sem veittar eru samkvæmt þessari grein sem trúnaðarupplýsingar.

196. gr.

Breytingar á gjaldtöku o.fl.

    Ef rekstraraðili flugvallar vill leggja fram tillögu að ákvörðun um eftirfarandi atriði skal slík tillaga lögð fram í notendanefnd flugvallar með rökstuðningi a.m.k. fjórum mánuðum fyrir áætlaða gildistöku ákvörðunar nema í undantekningartilvikum sem réttlætanleg eru fyrir flugvallarnotendum:
     a.      hækkun gjalds,
     b.      breytingu gjalds,
     c.      nýtt gjald, eða
     d.      aðrar mikilvægar ráðstafanir sem snerta beint hagsmuni notenda.
    Notendum skulu veittar fullnægjandi upplýsingar með áherslu á gagnsæi svo að þeir geti tekið upplýsta afstöðu til þeirra breytinga og nýmæla sem fyrirhuguð eru.
    Notendanefnd skal leitast við að ná samkomulagi um fyrirhugaðar ákvarðanir. Rekstraraðili flugvallar skal tilkynna um endanlega ákvörðun sína að öllu jöfnu með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara fyrir gildistöku. Niðurstaða rekstraraðila flugvallar skal rökstudd að teknu tilliti til sjónarmiða flugvallarnotenda.
    Ef fyrirhuguð breyting á gjaldtöku sætir kæru til Samgöngustofu skal ákvörðun rekstraraðila flugvallar þar að lútandi ekki taka gildi fyrr en stofnunin hefur tekið ákvörðun. Innan fjögurra vikna frá því að kæra berst skal Samgöngustofa taka bráðabirgðaákvörðun um gildistöku breytinga á flugvallargjöldum nema endanleg ákvörðun liggi fyrir innan sama frests. Bráðabirgðaákvörðun skal gilda í tiltekinn tíma og má endurnýja hana ef það er talið nauðsynlegt. Ákvörðun Samgöngustofu er endanleg á stjórnsýslustigi. Samgöngustofa getur ákveðið að sá aðili sem kæra beinist gegn greiði kæranda málskostnað við að hafa kæruna uppi enda sé úrskurður stofnunarinnar kæranda í hag. Ef kæra er bersýnilega tilefnislaus að mati Samgöngustofu getur stofnunin úrskurðað að kærandi skuli greiða gagnaðila þann málskostnað sem hann hefur orðið fyrir vegna málsins.

197. gr.

Gjaldtaka rekstraraðila rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu.

    Rekstraraðila rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu er heimilt að innheimta gjöld til að standa undir kostnaði við rekstur þjónustunnar, þar sem slík þjónusta er veitt, og notkun á þeim búnaði og mannvirkjum sem starfsemin nýtir. Gjaldtaka skal vera í samræmi við þau viðmið sem kveðið er á um í þjóðréttarlegum skuldbindingum. Ráðherra staðfestir gjaldskrá þjónustunnar.
    Gjaldskrá skal birt með tryggum hætti þar sem meðal annars er kveðið nánar á um fjárhæð gjalds, sundurliðun þess, ef við á, og innheimtu.
    Rekstraraðili rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu skal a.m.k. árlega hafa samráð við notendur þjónustunnar og hagaðila um gjaldtöku vegna þjónustunnar.

198. gr.

Stöðvun loftfars vegna ógreiddra gjalda.

    Eigandi loftfars og flugrekandi/umráðandi þess skulu samábyrgir, meðan réttur til umráða yfir loftfari varir, fyrir greiðslu:
     a.      gjalda rekstraraðila flugvallar vegna þjónustu flugvalla sem opnir eru almenningi skv. 195. gr.,
     b.      gjalda vegna flugleiðsöguþjónustu skv. 197. gr. sem veitandi slíkrar þjónustu með höfuðstöðvar sínar eða aðalaðsetur hér á landi veitir,
     c.      gjalda sem innheimt eru af Samgöngustofu skv. 13. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.
    Rekstraraðila flugvallar sem opinn er almenningi, rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu sem hefur höfuðstöðvar sínar eða aðalaðsetur hér á landi og Samgöngustofu er heimilt að leggja fram beiðni um stöðvun loftfars til sýslumanns uns lögmælt gjöld skv. 1. mgr. eru greidd, eða trygging sett fyrir greiðslu, enda séu öll eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
     a.      stofnað var til gjalda skv. 1. mgr. vegna þess loftfars sem stöðvunarbeiðni lýtur að og/eða vegna annarra loftfara í umráðum sama flugrekanda og starfrækir það loftfar sem beiðni beinist að,
     b.      stofnað var til gjalda skv. 1. mgr. og a-lið 2. mgr. að hámarki sjö mánuðum áður en beiðni um stöðvun er lögð fram,
     c.      flugrekanda og eiganda þess loftfars sem beiðni beinist að var með sannanlegum hætti send greiðsluáskorun og viðvörun um innheimtu kröfu eftir gjalddaga og veittur greiðslufrestur, sem ekki skal vera skemmri en fimmtán dagar, til greiðslu og efndum kröfu, enda hafi framangreindir aðilar verið að staðaldri í reglulegum viðskiptum við gerðarbeiðanda.
    Beiðni um stöðvun skal beina til sýslumanns í því umdæmi þar sem stöðvun fer eða mun fara fram. Ef ráðgert er að stöðvun fari fram utan hefðbundins opnunartíma sýslumanns skal gerðarbeiðandi tilkynna sýslumanni um fyrirhugaða beiðni um stöðvun með hæfilegum fyrirvara svo hægt sé að gera ráðstafanir til að bregðast við beiðninni. Framkvæmd stöðvunar er ekki háð því að gerðarþoli sé viðstaddur hana eða að honum hafi fyrirfram verið tilkynnt um hana. Hafi stöðvun verið framkvæmd án þess að gerðarþoli eða maður sem að lögum er heimilt að koma fram fyrir hans hönd hafi haft tök á að vera viðstaddur skal sýslumaður tilkynna honum svo fljótt sem verða má um framkvæmd hennar.
    Stöðvun fellur niður ef innt er af hendi sú greiðsla sem stöðvun loftfars varðar eða trygging sett fyrir greiðslu sem sýslumaður metur fullnægjandi auk þeirra atvika sem greind eru í 2. mgr. 21. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990. Skal þá þeim ráðstöfunum aflétt sem gerðar voru til að aftra för loftfars. Rekstraraðila flugvallar skal skylt að veita þann atbeina sem sýslumaður krefur til þess að stöðvun loftfars eða aflétting stöðvunar á flugvelli nái fram að ganga. Eiganda eða flugrekanda/umráðanda loftfars skal ætíð tryggt aðgengi að loftfari í því skyni að tryggja áframhaldandi lofthæfi þess.
    Að öðru leyti fer um framkvæmd og skilyrði til stöðvunar eftir lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., að því undanskildu:
     a.      að ekki sé skilyrði að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta takist eða að fullnustu verði verulega örðugri ef kyrrsetning fer ekki fram,
     b.      að ekki þurfi að setja tryggingu fyrir greiðslu bóta sem gerðarþoli kann að öðlast rétt til,
     c.      að dómsmál samkvæmt lögunum sé aðeins borið undir Héraðsdóm Reykjavíkur.
    Um framkvæmd og skilyrði til nauðungarsölu loftfars sem sætir stöðvun fer samkvæmt lögum um nauðungarsölu að því undanskildu að dómsmál samkvæmt lögunum verða aðeins borin undir Héraðsdóm Reykjavíkur.

199. gr.

Tölvufarskráningarkerfi.

    Kerfisseljandi tölvufarskráningarkerfis skal fara að hátternisreglum um starfrækslu tölvufarskráningarkerfa eins og mælt er fyrir um í reglugerð sem ráðherra setur.
    Eftirlitsstofnun EFTA fer með eftirlit með að hátternisreglum skv. 1. mgr. sé framfylgt og hvort kerfisseljendur í þriðju ríkjum beiti flugrekendur innan EFTA-ríkjanna meðferð sem er ósambærileg eða hefur mismunun í för með sér.
    Samkeppniseftirlitið fer með eftirlit með hvort kerfisseljendur í þriðju ríkjum beiti flugrekendur með höfuðstöðvar sínar hér á landi meðferð sem er ósambærileg eða hefur mismunun í för með sér.

200. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þ.m.t. að kveða nánar á um:
     a.      úthlutun takmarkaðra flugréttinda, afturköllun eða sviptingu og umsóknarferli,
     b.      tilnefningu, skilyrði og viðmiðanir sem lagðar eru til grundvallar úthlutun og hvaða sjónarmið skuli leggja til grundvallar við val,
     c.      skyldur um opinbera þjónustu, þ.m.t. skilyrði til beitingar heimildar, mat á þörf; útboð; ríkisaðstoð; tilkynningaskyldu og málsmeðferð,
     d.      frelsi til eigin flugafgreiðslu og flugafgreiðslu sem veitt er þriðja aðila, takmarkanir og undanþágur frá slíku frelsi, þ.m.t. viðmiðunarmörk flugvalla með tilliti til fjölda farþega, magn farms, skilyrði til takmörkunar á fjölda; þeim tilvikum þar sem bann við eigin afgreiðslu verður komið á; lágmarksfjölda fyrir hvern flokk flugafgreiðslu; kröfur til óhæði; fyrirkomulag og sjónarmið við val á þjónustuaðila, þ.m.t. eignarhaldi, veiting flugafgreiðslu og afmörkun á því hvaða þjónustuþættir falli þar undir; fyrirmæli um aðskilnað í bókhaldi þeirra sem veita flugafgreiðslu frá annarri starfsemi; eftirlit með aðgengi veitenda flugafgreiðslu að flugvelli; heimild til að leggja á skyldu um opinbera þjónustu og skilyrði útfærslu slíkrar skyldu og kvaðir sem henni tengjast; heimild til að leggja skyldu á flugvallarnotendur um að nýta eingöngu sérstök mannvirki á flugvelli til flugafgreiðslu; nánari afmörkun á sérstökum mannvirkjum; framsal á stjórnun sérstakra mannvirkja og gjaldtaka vegna aðgengi að sérstökum mannvirkjum og búnaði flugvalla,
     e.      aðgengi til flugtaks og lendingar á flugvöllum, úthlutun afgreiðslutíma, breytur fyrir úthlutun afgreiðslutíma, hreyfanleika afgreiðslutíma, umsóknarferli úthlutunar, skilyrði til endur úthlutunar afgreiðslutíma, upplýsingar sem flugrekendum ber að veita; réttindi og skyldur flugrekenda með tilliti til afgreiðslutíma; kvaðir á úthlutun afgreiðslutíma vegna opinberrar þjónustu á flugleiðum; tilnefning flugvallar, mat á afkastagetu; skipun samráðs- eða samræmingarstjóra og greiðslu kostnaðar vegna starfs þeirra, sjálfstæði og starfsskyldur; úrræði samræmingarstjóra ef afgreiðslutími er ekki nýttur; skipun og verkefni samræmingarnefndar; upplýsingamiðlun samræmingarstjóra til hagsmunaaðila ef við á og samræmingarnefndar; notkun staðla um upplýsingar um áætlanir; heimildir til framsals og/eða skipti á afgreiðslutíma og sáttaumleitun,
     f.      notendanefndir flugvalla, skipan nefnda, skipunartíma, verkefni og upplýsingaskyldu rekstraraðila flugvallar til notendanefndar og Samgöngustofu,
     g.      gjaldtöku á flugvöllum, gjaldtöku fyrir veitingu þjónustu rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. afmörkun þeirrar gjaldtöku sem lögin taka til, forsendur til útreiknings á kostnaði og tekjum, svo sem kostnaðargrunns, verðbólgu og annarra efnahagslegra forsendna, forsendur sem liggja til grundvallar útreikningi fyrirhugaðra gjalda, leyfilegar undanþágur frá gjaldtöku, hvatakerfi, reglubundið samráð við hagsmunaaðila um gjaldtöku, fyrirkomulag við setningu gjaldskrár og málsmeðferð, rökstuðning fyrir breytingu á gjöldum, sundurliðun gjalda, framsetningu og birtingu gjaldskrár, fyrirkomulag við innheimtu og eftirlit með gjaldtöku og viðmið við mat á ágreiningi um gjaldtöku, og málsmeðferð komi til ágreinings,
     h.      hátternisreglur fyrir notkun tölvufarskráningarkerfa, aðgengi, áreiðanleika og röðun upplýsinga, skilmála, bann við mismunun, eftirlit með starfsemi tölvufarskráningarkerfa, ráðstafanir til varnar jafnri samkeppni og vernd persónuupplýsinga.

XVI. KAFLI

Neytendavernd.

201. gr.

Gildissvið.

    Ákvæði kaflans gilda um:
     a.      íslenskt yfirráðasvæði og flug frá íslensku yfirráðasvæði,
     b.      flug frá þriðju ríkjum til flugvalla á íslensku yfirráðasvæði og til ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa í samræmi við ákvæði slíkra samninga, enda sé flugrekandi með höfuðstöðvar sínar á íslensku yfirráðasvæði eða innan yfirráðasvæðis ríkis sem Ísland hefur samið við.
    Ákvæði kaflans gilda enn fremur um eftirfarandi enda sé flytjandi með höfuðstöðvar sínar á íslensku yfirráðasvæði eða á yfirráðasvæði ríkis sem Ísland hefur samið við vegna þessa:
     a.      innanlandsflug innan þeirra ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa,
     b.      millilandaflug milli þeirra ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa.

202. gr.

Upplýsingagjöf.

    Flugrekendur, umráðendur loftfars, umboðsaðilar og söluaðilar skulu veita greinargóðar og aðgengilegar upplýsingar um fyrirhugað flug, þ.m.t. um:
     a.      ferða- og samningsskilmála,
     b.      öryggisreglur,
     c.      takmarkanir á flutningi farþega, farangurs, hjálpartækja og farms, meðal annars vegna stærðar loftfars eða eiginleika eða ástands þess sem flytja á,
     d.      endanlegt verð, gildandi fargjald og/eða farmgjald og sundurliðun allra gildandi skatta og kostnaðar sem lagður eru á, svo sem aukagjalda og þóknana sem eru óhjákvæmilegar og fyrirsjáanlegar á þeim tíma sem gjöldin eru birt,
     e.      upplýsingar um bótaábyrgð flytjanda skv. XVII. kafla og 204. gr. auk upplýsinga um rýmri bótarétt, ef við á, nafn eiginlegs og/eða samningsbundins flytjanda, sbr. 203. gr.
    Upplýsingar um valkvæðar viðbætur og verð skulu veittar á skýran, gagnsæjan og ótvíræðan hátt við upphaf hvers bókunarferils og samþykki viðskiptavinar skal byggjast á vali hans.
    Óheimilt er að mismuna viðskiptavinum við upplýsingagjöf eða aðgengi að farmiðum og farmiðaverði á grundvelli þjóðernis, búsetu eða staðsetningar söluaðila.
    Flugrekendur skulu veita farþegum upplýsingar um að þeir geti leitað til viðurkennds úrskurðaraðila vegna ágreinings seljanda og neytanda, sbr. 208. gr. Upplýsingarnar skulu innihalda heimilisfang og vefsíðu úrskurðaraðilans og vera látnar í té á skýran, skiljanlegan og aðgengilegan hátt á vefsíðu seljanda og í almennum samningsskilmálum söluaðila ef við á.

203. gr.

Nafn eiginlegs flugrekanda.

    Þrátt fyrir 201. gr. gildir þessi grein einnig um flutning farþega með flugi frá flugvelli í þriðja ríki til flugvallar innan þeirra ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa og frá brottfararstað í þriðja ríki til áfangastaðar í þriðja ríki enda hafi flug hafist innan ríkis sem Ísland hefur samið við vegna þessa.
    Samningsbundni flugrekandinn skal upplýsa farþega um nafn eiginlegs flugrekanda við bókun hver sem aðferðin er við gerð bókunarinnar. Sé það óljóst þegar bókun er gerð skal samningsbundni flugrekandinn tryggja að farþegi sé upplýstur um nafn eða nöfn þeirra flugrekenda sem mögulega munu annast flugið. Um leið og upplýsingar um eiginlegan flugrekanda fást staðfestar, eða ef síðar er gerð breyting á eiginlegum flugrekanda eftir bókun, skal farþegi upplýstur eins fljótt og auðið er. Í öllum tilvikum skal farþegi upplýstur við innritun eða við för um borð í loftfarið þar sem innritunar er ekki krafist vegna tengiflugs.
    Flugrekandi eða ferðasali, eftir atvikum, skal tryggja að samningsbundinn flugrekandi sé upplýstur um nafn hins eiginlega flugrekanda eða flugrekenda eins fljótt og auðið er, sérstaklega ef breyting verður á nafni eiginlegs flugrekanda.
    Ef söluaðili hefur ekki fengið upplýsingar um nafn eiginlegs flugrekanda skal hann ekki gerður ábyrgur fyrir upplýsingaskyldu skv. 2. og 3. mgr.
    Skylda samningsbundins flugrekanda til að upplýsa farþega um eiginlegan flugrekanda skal vera hluti af skilmálum farsamnings.
    Sé eiginlegum flugrekanda óheimil starfræksla loftfars innan EASA-ríkjanna og kjósi farþegi að nýta ekki farmiða sinn og flugið hefur ekki verið fellt niður skal farþegi eiga rétt á endurgreiðslu úr hendi samningsbundins flytjanda eða breytingu á flugleið.

204. gr.

Tjón vegna tafa, neitun um far og aflýsingu flugs.

    Flugrekanda er skylt að veita farþegum aðstoð og eftir atvikum greiða bætur til farþega, í samræmi við þau skilyrði sem sett eru í reglugerð sem ráðherra setur, ef:
     a.      tjón hefur orðið vegna tafa á flutningi,
     b.      farþega er neitað um far,
     c.      flugi er aflýst.
    Flugrekanda er ekki skylt að greiða bætur til farþega vegna atvika sem tilgreind eru í 1. mgr. ef farþegi ferðast endurgjaldslaust eða á afsláttarverði sem ekki stendur almenningi til boða.
    Hafi farþega þegar verið greiddar bætur vegna sömu atvika skulu slíkar bætur koma til frádráttar.
    Um fyrningu bótakrafna samkvæmt ákvæðum þessa kafla fer eftir almennum reglum.

205. gr.

Einstaklingar með fötlun eða hreyfihömlun.

    Flugrekandi, umboðsmaður hans eða ferðasali skal ekki synja einstaklingi á grundvelli fötlunar eða hreyfihömlunar um:
     a.      farskráningu í flug sem starfrækt er í ábataskyni til, frá eða um flugvöll innan þeirra ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa,
     b.      að fara um borð í loftfar á flugvelli innan þeirra ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa enda hafi farþegi gilda farskráningu og farseðil.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er flugrekanda, umboðsmanni hans eða ferðasala heimilt að synja einstaklingi um farskráningu í flug eða að fara um borð í loftfar á grundvelli fötlunar eða hreyfihömlunar:
     a.      þar sem flugöryggiskröfur krefjast þess,
     b.      ef stærð loftfarsins eða dyr þess við för um borð í loftfarið og meðan á flutningi stendur koma í veg fyrir það.
    Þegar synja þarf einstaklingi um flutning á grundvelli a- eða b-liðar 2. mgr. skal flugrekandi, umboðsmaður hans eða ferðasali gera viðhlítandi ráðstafanir til að leggja honum til viðunandi kost á flutningi. Einstaklingur með fötlun eða hreyfihömlun, sem hefur verið neitað að fara um borð á grundvelli fötlunar sinnar eða hreyfihömlunar skv. 2. mgr., og fylgdarmaður hans skulu eiga rétt á endurgreiðslu eða að flugleið þeirra verði breytt í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
    Þar sem flugöryggiskröfur krefjast þess er flugrekanda, umboðsaðila hans eða söluaðila heimilt að krefjast þess að einstaklingur með fötlun eða hreyfihömlun sé í fylgd með öðrum einstaklingi sem er fær um að veita þá aðstoð sem viðkomandi einstaklingur þarfnast.
    Beri flugrekandi, umboðsmaður hans eða ferðasali fyrir sig undanþágu skv. 2. mgr. eða kröfu skv. 4. mgr. skal viðkomandi einstaklingi tafarlaust greint frá ástæðum þess.

206. gr.

Réttur til aðstoðar.

    Rekstraraðili flugvallar skal veita einstaklingum með fötlun eða hreyfihömlun aðstoð á tilgreindum stöðum, einum eða fleiri, innan flugvallarsvæðis til þess að ferðast enda hafi einstaklingur óskað aðstoðar með þeim fyrirvara sem áskilinn er samkvæmt reglugerð.
    Rekstraraðili flugvallar skal tryggja að einstaklingar með fötlun eða hreyfihömlun njóti aðstoðar endurgjaldslaust.
    Rekstraraðila flugvallar er heimilt að innheimta gjald af notendum flugvallar til að fjármagna aðstoðina. Gjaldtakan skal ekki mismuna notendum flugvallar og vera ákvörðuð í samræmi við hlut hvers flugrekanda af komu- og brottfararfarþegum af heildarfjölda farþega á flugvelli. Gjaldið skal vera hæfilegt, byggjast á kostnaði sem almennt verður til við að veita þjónustuna, gagnsætt og sett af rekstraraðila flugvallar í samráði við notendur flugvallar.
    Flugrekendur skulu veita einstaklingum með fötlun eða hreyfihömlun þá aðstoð sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur.

207. gr.

Hlutverk Samgöngustofu á sviði neytendamála.

    Samgöngustofa skal stuðla að og gæta hagsmuna neytenda í viðskiptum við flugrekendur, söluaðila og rekstraraðila flugvalla. Samgöngustofa skal tryggja að upplýsingar um réttindi flugfarþega, öryggi og aðstoð séu aðgengilegar og skal gera viðeigandi ráðstafanir til að einstaklingum með fötlun eða hreyfihömlun sé tryggt aðgengi og hvetja flugrekendur og rekstraraðila flugvalla til að veita einnig slíkar upplýsingar á aðgengilegu og nothæfu formi fyrir einstaklinga með fötlun.
    Samgöngustofa fer með eftirlit með réttindum neytenda samkvæmt ákvæðum þessa kafla og skal grípa til viðeigandi aðgerða til að tryggja að réttindi farþega séu virt.
    Samgöngustofu er heimilt að rannsaka, að eigin frumkvæði, að fenginni ábendingu eða í kjölfar kvörtunar, framfylgni við ákvæði kaflans og settra stjórnvaldsfyrirmæla.
    Ef Samgöngustofa telur að framkvæmd flugrekenda eða rekstraraðila flugvalla á ákvæðum laga þessara eða stjórnvaldsfyrirmæla stríði gegn hagsmunum neytenda getur stofnunin vakið athygli ráðherra á því með áliti. Samgöngustofa skal í ársskýrslum sínum birta álit á því hvernig til hefur tekist í neytendamálum og gera grein fyrir aðgerðum og vinnu stofnunarinnar á sviði neytendamála. Álit Samgöngustofu um neytendamál skal birta almenningi á fullnægjandi hátt, t.d. með fréttatilkynningu til fjölmiðla eftir að það hefur verið kynnt ráðherra.

208. gr.

Úrlausn ágreiningsmála.

    Farþegar og aðrir sem hafa hagsmuna að gæta geta skotið ágreiningi er varðar fjárhagslega kröfur og einkaréttarlega hagsmuni samkvæmt ákvæðum þessa kafla til Samgöngustofu. Sá sem óskar eftir úrskurði Samgöngustofu skal greiða hæfilegt málskotsgjald. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um fjárhæð málskotsgjaldsins og í hvaða tilvikum kvartandi getur fengið gjaldið endurgreitt.
    Samgöngustofa skal leita álits viðkomandi flugrekanda eða rekstraraðila flugvallar á kvörtun, ganga úr skugga um að upplýsingar sem þar eru veittar eigi við rök að styðjast og freista þess að jafna ágreining aðila á skjótan og markvissan hátt.
    Samgöngustofu er heimilt að ljúka málinu með sátt í samræmi við 247. gr. með samþykki málsaðila, enda séu sakir ekki miklar. Í sátt er heimilt að skuldbinda málsaðila til að bjóða neytendum sem brotið hafði verið á viðeigandi úrbætur.
    Náist ekki samkomulag eða sátt skal Samgöngustofa skera úr ágreiningi með úrskurði. Úrskurðir skulu rökstuddir og birtir á vefsíðu Samgöngustofu. Úrskurður skal tilkynntur aðilum máls og þeim leiðbeint um réttaráhrif þeirra. Úrskurði Samgöngustofu verður ekki skotið til annarra stjórnvalda. Þegar úrskurður hefur verið kveðinn upp geta aðilar lagt ágreining sinn fyrir dómstól á venjulegan máta. Málshöfðun frestar ekki heimild til aðfarar skv. 6. mgr.
    Vilji flugrekandi eða rekstraraðili flugvallar ekki una úrskurði skal hann tilkynna Samgöngustofu um það með skýrum og sannanlegum hætti innan 30 daga frá því að honum er tilkynnt um úrskurðinn. Flugrekandi eða rekstraraðili flugvallar getur óskað eftir endurupptöku úrskurðar skv. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 og frestar það réttaráhrifum úrskurðar. Að liðnum fresti verður mál ekki endurupptekið að ósk aðila.
    Úrskurðir Samgöngustofu eru aðfararhæfir þegar frestur skv. 5. mgr. er liðinn og tilkynning hefur ekki borist stofnuninni frá flugrekanda eða rekstraraðila flugvallar. Að ósk neytanda skal Samgöngustofa gefa út staðfestingu um að skilyrðum til aðfarar sé fullnægt.

209. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þ.m.t. að kveða nánar á um:
     a.      nánari afmörkun á því hverjir teljast flugrekendur; hvaða flug og atvik falla undir ákvæði kaflans og um landfræðilega afmörkun réttinda þar sem við á,
     b.      réttindi og skyldur flugrekanda, umboðsmanna hans og söluaðila; upplýsingagjöf og miðlun upplýsinga við bókun, á heimasíðu og á öllum stigum ferðar, þær upplýsingar sem veittar skulu og miðlun þeirra, þ.m.t. kröfur til aðgengileika og forms og tungumála,
     c.      skyldur einstaklinga sem bóka flug og flugfarþega,
     d.      réttindi farþega til aðstoðar, skaðabóta, úrbóta og ívilnana, skilyrði og afmörkun, forgang farþega undir nánar tilgreindum aldri til flutnings og breytingar á farmiðabókun,
     e.      rétt farþega til fyrirframgreiðslu skv. 214. gr.,
     f.      réttindi einstaklinga með fötlun eða hreyfihömlun og einstaklinga með sérþarfir til aðstoðar, skaðabóta, úrbóta og ívilnana; skilyrði og afmörkun réttinda og forgangs til flutnings; flutningur þjónustudýra og hjálpar- og lækningatækja,
     g.      uppgjör skaðabóta og heimilan frádrátt frá bótum og endurkröfurétt,
     h.      aðstoð og upplýsingamiðlun rekstraraðila flugvallar við farþega og einstaklinga með fötlun eða hreyfihömlun, fyrirkomulag aðstoðar og gjaldtöku; þjálfun starfsfólks sem veitir þjónustuna; gæðakröfur til þjónustu og viðbúnaðaráætlun rekstraraðila flugvallar,
     i.      rétt Samgöngustofu til upplýsingaöflunar, prufukaup á vöru og þjónustu undir fölsku nafni eða auðkenni, vettvangsskoðun og haldlagningu gagna og heimildir til að stöðva brot, þar á meðal með bráðabirgðaákvörðun, gera sátt um stöðvun brots eða úrbætur fyrir neytendur og krefjast þess að látið sé af brotum auk birtingar slíkra ákvarðana eftir því sem við á,
     j.      fjárhæð málskotsgjalds og málsmeðferð, þ.m.t. getur ráðherra sett ákvæði um að Samgöngustofu sé heimilt að vísa frá kvörtunum þar sem virði krafna er undir eða yfir skilgreindum fjárhæðarmörkum og að Samgöngustofa geti tekið til meðferðar mál undir skilgreindum fjárhæðarmörkum ef það hefur almenna þýðingu fyrir neytendur,
     k.      upplýsingamiðlun til almennings og annarra lögbærra landsyfirvalda, gagnkvæma aðstoð slíkra aðila og samstarf og skýrslugerð innlendra stjórnvalda á sviði neytendaverndar.

XVII. KAFLI

Bótaábyrgð í loftflutningum.

210. gr.

Lögfesting Montreal-samningsins frá 1999.

    Alþjóðasamningur um samræmingu tiltekinna reglna varðandi loftflutninga milli landa sem gerður var í Montreal 28. maí 1999 skal hafa lagagildi hér á landi með þeim viðbótum sem af ákvæðum kafla þessa leiðir.
    Montreal-samningurinn er fylgiskjal með lögum þessum. Greini á milli erlendra jafngildra texta samningsins og íslenskrar þýðingar skulu fyrrnefndir textar samningsins ganga framar íslensku þýðingunni.
    Með vísan til 55. gr. Montreal-samningsins þá skulu ákvæði þessa kafla og Montreal-samningsins ganga framar lögum um gildistöku alþjóðasamnings um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa.

211. gr.

Gildissvið.

    Þrátt fyrir 1. gr. Montreal-samningsins skulu ákvæði hans gilda um bótaábyrgð flugrekanda, sem hefur höfuðstöðvar sínar eða aðalaðsetur í ríki sem Ísland hefur samið við vegna þessa, að því er varðar farþega og farangur, hvar sem flugið er starfrækt.
    Þrátt fyrir 1. gr. Montreal-samningsins skulu ákvæði hans gilda um flutninga í lofti á íslensku yfirráðasvæði.
    Fara skal með loftflutninga á vegum íslenska ríkisins, ríkisstofnana og opinberra aðila samkvæmt ákvæðum Montreal-samningsins, hvar sem flugið er starfrækt.

212. gr.

Sérstök yfirlýsing skv. 22. gr. Montreal-samningsins.

    Viðbótarfjárhæðin sem flytjandi getur krafist að farþegi eða sendandi inni af hendi þegar gefin er út sérstök yfirlýsing um mikilvægi þess að fá farangur sinn eða farm afhentan á áfangastað, sbr. 2. og 3. mgr. 22. gr. Montreal-samningsins, skal tilgreind í gjaldskrá flytjanda. Hún skal miðuð við þann aukakostnað sem hlýst af því að flytja og tryggja viðkomandi farangur eða farm umfram takmarkanir á bótafjárhæðum í tilvitnuðum ákvæðum. Gjaldskráin skal vera aðgengileg farþegum og sendendum farms.
    Með vísan til 24. gr. Montreal-samningsins skal ráðherra birta auglýsingu þegar fjárhæðir samningsins taka breytingum samkvæmt tilkynningu vörsluaðila Montreal-samningsins þar að lútandi.

213. gr.

Uppgjör, útreikningar og fyrning.

    Með sérstökum dráttarréttindum í Montreal-samningnum er átt við reiknieiningu sem skilgreind er af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og gengisskráningu Seðlabanka Íslands á þeim við sölu. Umreikningur í íslenskar krónur skal miðast við dómsuppsögudag en við uppgjörsdag ljúki máli án dóms. Bótafjárhæðir í tjónstilvikum sem valda örorku eða dauða skulu ákvarðaðar samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga. Vextir reiknast samkvæmt ákvæðum IV. kafla laga um vexti og verðtryggingu.
    Réttur til skaðabóta samkvæmt þessum kafla fyrnist ef mál er eigi höfðað áður en tvö ár eru liðin frá því er loftfar kom á ákvörðunarstað eða tvö ár eru liðin frá þeim degi er loftfar skyldi koma þangað eða frá því að flutningur stöðvaðist.

214. gr.

Fyrirframgreiðsla skaðabóta skv. 28. gr. Montreal-samningsins.

    Með vísan til 28. gr. Montreal-samningsins skal flytjandi án tafar og ekki síðar en 15 dögum eftir að ljóst er hver hinn slasaði eða látni er inna af hendi fyrirframgreiðslu til að mæta bráðum fjárhagsþörfum og skal greiðslan taka mið af þeim skaða sem orðið hefur. Fyrirframgreiðsla vegna dauðsfalls farþega skal ekki vera lægri en sú upphæð sem ráðherra ákveður í reglugerð. Það að inna fyrirframgreiðslu þessa af hendi jafngildir þó ekki viðurkenningu á ábyrgð og kemur til frádráttar við endanlegt uppgjör bóta vegna slyssins. Fyrirframgreiðsla er þó ekki afturkræf nema í þeim tilvikum sem greinir í 20. gr. Montreal-samningsins, þ.e. að flytjandi sannar að farþegi hafi verið valdur eða samvaldur að slysinu eða að sá sem greiðsluna fékk hafi ekki átt lögvarið tilkall til hennar.

215. gr.

Málshöfðun með vísan til 45. gr. Montreal-samningsins.

    Ef mál er höfðað með vísan til 45. gr. Montreal-samningsins og aðeins einum flytjanda stefnt skal sá flytjandi eiga rétt til að krefjast samlagsaðildar annarra flytjenda að málinu enda sé sú krafa sett fram eigi síðar en í greinargerð. Skal þá höfða sakaukasök eða -sakir innan eins mánaðar frá því að krafa um samlagsaðild var sett fram að viðlagðri frávísun aðalsakar.

XVIII. KAFLI

Skaðabætur og vátryggingar.

216. gr.

Skaði af notkun loftfars.

    Ef af notkun loftfars hlýst skaði á mönnum eða eignum utan loftfarsins er eiganda þess eða, ef við á, flugrekanda/umráðanda þess, skylt að bæta skaðann.
    Skaðabótaskyldan skv. 1. mgr. fellur niður ef sannað er að sá sem fyrir skaða verður hefur valdið tjóninu af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.
    Ef tjón verður á mönnum eða hlutum innan marka flugvallar sem opinn er almenningi skal ekki beita 1. mgr. heldur almennum skaðabótareglum.

217. gr.

Árekstur loftfara.

    Verði tjón á loftfari við árekstur loftfara skal beita almennum skaðabótareglum.
    Verði skaði á mönnum eða eignum sem eru utan loftfarsins af árekstri loftfara skulu allir eigendur eða, ef við á, umráðendur loftfara, samábyrgir gagnvart tjónþola.

218. gr.

Bótaábyrgð samkvæmt almennum reglum.

    Ákvæði 216. og 217. gr. takmarka að engu þann rétt til skaðabóta sem leiðir af almennum reglum.

219. gr.

Vátryggingarskylda.

    Flugrekandi/umráðandi loftfars skal taka og halda við vátryggingu til greiðslu skaðabóta sem kann að falla á hann vegna bótaábyrgðar í flugi og notkun loftfars vegna farþega, farangurs, farms og þriðju aðila. Vátryggja skal að lágmarki gegn þeim áhættum sem ráðherra tiltekur í reglugerð. Vátryggingafjárhæðir skulu tryggja skaðabætur í samræmi við ábyrgð flugrekanda/umráðanda loftfars. Vátryggingarskylda tekur til alls flugs óháð því hver starfrækir loftfarið.
    Veitendur flugleiðsöguþjónustu, veitendur þjónustu á sviði flæðistjórnunar flugumferðar og netstjórnandi skulu taka og halda við vátryggingu, til greiðslu skaðabóta, í samræmi við hugsanlegt tjón og skaða sem kann að leiða af þjónustunni sem þeir veita, að teknu tilliti til réttarstöðu hlutaðeigandi þjónustuveitanda og netstjórnanda og umfangs þeirrar vátryggingarverndar sem fáanleg er á markaði.
    Óheimilt er að skerða bótarétt aðila utan loftfars sem fyrir tjóni verður með vátryggingarskilmálum sem lúta að sjálfsáhættu vátryggingartaka, eigin sök hans eða með ábyrgðarundanþágum og skulu slík ákvæði teljast ógild. Vátrygging skal meðal annars tryggja greiðslu kostnaðar við hreinsun á slysstað og brottnám flaks.
    Ef vátrygging fellur úr gildi ber vátryggjandi ábyrgð á tjóni gagnvart þriðja aðila samkvæmt hljóðan vátryggingarskírteinis í fjórar vikur frá því það er tilkynnti lögbæru stjórnvaldi að vátryggingin sé niður fallin enda hafi loftfar eigi á þeim tíma verið tekið af skrá eða flugleyfi afturkallað eða vottorð veitanda skv. 2. mgr. fellt tímabundið úr gildi, er útrunnið eða það afturkallað.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um vátryggingaskyldu flugrekenda/ umráðenda loftfara, undanþágu frá slíkri skyldu, vátryggingaskyldu veitanda flugleiðsöguþjónustu, veitenda þjónustu á sviði flæðistjórnunar flugumferðar og netstjórnanda, þær áhættur sem vátrygging skal taka til að lágmarki, vátryggingarfjárhæðir og skilmála og afleiðingar þess að vátryggingu er eigi haldið í gildi.

220. gr.

Heimild vegna markaðsbrests.

    Ef fyrir hendi er almennur ómöguleiki flugrekenda/umráðenda loftfara til að kaupa á markaði vátryggingar gegn sérstökum áhættum, svo sem tjóns af völdum hernaðaraðgerða, ólögmætra athafna gegn flugsamgöngum og áþekkum atburðum, þ.m.t. hryðjuverkum, er ráðherra heimilt að stuðla að stofnun félags eða þátttöku íslenska ríkisins í slíku félagi eða sjóði með öðrum ríkjum í því skyni að vátryggja eða endurvátryggja gegn slíkum áhættum.

XIX. Kafli

Leit, aðstoð og björgun.

221. gr.

Skylda til að veita aðstoð í neyð.

    Stjórnendum loftfara, sjófarendum og vegfarendum á landi er skylt að veita loftfari í neyð liðsinni og aðstoð eftir megni til að bjarga mönnum úr hættu enda verði það gert án þess að björgunarmönnum, farartækjum þeirra, skipi eða loftfari sé stefnt í háska. Sama á við ef um er að ræða hluti og tæki sem ferðast geta um loftið en eru ekki loftför.

222. gr.

Leit og björgun.

    Á leitar- og björgunarsvæði Íslands, eins og það er skilgreint á hverjum tíma, er stjórnun leitar og aðstoð við loftför og björgun mannslífa í höndum lögreglu á landi og Landhelgisgæslu Íslands á hafi. Sama á við ef um er að ræða tæki eða hluti sem ferðast geta um loftið en eru ekki loftför. Landhelgisgæsla Íslands fer einnig með samhæfingu allra tiltækra björgunaraðila á og yfir hafi, þ.m.t. samstarf við erlend ríki og erlendar björgunarstjórnstöðvar. Lögreglu og Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að fela öðrum aðilum leit, aðstoð og björgun að hluta eða öllu leyti.
    Lögregla og Landhelgisgæsla Íslands skulu veita erlendum ríkjum þá aðstoð og þær upplýsingar sem þau óska í tengslum við leit og björgun í samræmi við þjóðréttarskuldbindingar og, ef við á, fyrirmæli ráðherra sem fer með málefni leitar og björgunar.
    Rannsóknarnefnd samgönguslysa fer með yfirstjórn vettvangsrannsóknar vegna flugslyss og ber lögreglu, Landhelgisgæslu Íslands og öðrum aðilum sem kvaddir hafa verið til aðstoðar og björgunar að aðstoða hana í hvívetna.
    Ráðherra sem fer með málefni leitar og björgunar er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um leit og björgun, kröfur til starfrækslu leitar- og björgunarstjórnstöðvar, þ.m.t. mönnun, kröfur um þjálfun og tungumálakunnáttu starfsfólks, verklag, aðföng, búnað og fjarskipti, viðbragðsáætlanir og æfingar auk samræmingar, samhæfingar og aðstoðar við erlend ríki og erlendar björgunarstjórnstöðvar, björgunaraðila og hagaðila og heimild slíkra aðila til leitar og björgunar á íslensku yfirráðasvæði.

223. gr.

Kostnaður af björgunarstarfi og hreinsun.

    Heimilt er að leggja kostnað, sem ríkissjóður hefur af leit að loftfari sem er saknað, að nokkru eða öllu leyti á eiganda eða flugrekanda/umráðanda loftfars enda komi þjóðréttarskuldbindingar ekki í veg fyrir slíkt. Sama gildir um kostnað af björgunarstarfi að því leyti sem hann greiðist ekki með björgunarlaunum.
    Heimilt er lögreglu og Landhelgisgæslu Íslands í kjölfar flugslyss að skylda eiganda eða flugrekanda/umráðanda loftfars og eiganda hlutar og tækis sem ferðast um loftið en er ekki loftfar til að hlutast til um hreinsun á slysstað, brottflutning eða eyðingu ellegar merkingu staðsetningar flaks á viðeigandi kortum ef staðsetning þess getur valdið hættu og brottflutningur er ekki mögulegur. Telji eigandi eða flugrekandi/umráðandi að ill- eða ógerlegt sé að fjarlægja sokkið loftfar eða hlut og tæki sem ferðast um loftið en er ekki loftfar, fer með umsókn hans og málsmeðferð samkvæmt lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda.
    Sinni eigandi eða flugrekandi/umráðandi skv. 2. mgr. ekki kröfu innan tímafrests eða ekki er unnt að veita slíkan frest sökum aðstæðna er lögreglu og Landhelgisgæslu Íslands heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir til þess á hans kostnað. Á lögregla eða Landhelgisgæsla Íslands endurkröfu á eiganda eða flugrekanda/umráðanda vegna þess kostnaðar sem viðkomandi stofnun hefur haft af framangreindum aðgerðum og er hann aðfararhæfur án undangengins dóms eða sáttar.

224. gr.

Björgunarlaun.

    Ef einstaklingur bjargar eða stuðlar að björgun á loftfari, sem hlekkst hefur á eða er statt í háska, farangri eða farmi sem í því er eða nokkru því sem telst til slíks loftfars, farangurs eða farms, á hann, hvort heldur bjargað er í lofti, á láði eða legi, rétt til björgunarlauna samkvæmt ákvæðum siglingalaga nema um annað sé samið. Sama á við ef um er að ræða hluti og tæki sem ferðast geta um loftið en eru ekki loftför, þ.m.t. geimhluti.
    Um rétt til björgunarlauna, og, ef við á, sérstakrar þóknunar, og uppgjör þeirra fer samkvæmt ákvæðum siglingalaga.

225. gr.

Lögveð vegna björgunar.

    Eigandi bjargaðs farms ábyrgist einungis björgunarlaun og sérstaka þóknun með verðmæti þess sem bjargað var. Slík krafa er tryggð með veði í andlagi björgunar og gengur það fyrir öllum öðrum veðböndum enda sé andlag björgunar flutt til íslensks yfirráðasvæðis eða björgun fari fram á leitar- og björgunarsvæði Íslands eins og það er skilgreint á hverjum tíma. Veðkrafa sem stafar af síðari atburði gengur fyrir veðkröfu sem stafar af fyrri atburði. Kröfur sem eiga rót sína að rekja til sama atburðar skulu jafn réttháar.
    Áður en andlag björgunar er afhent eiganda/umráðanda þess skal björgunarmanni heimilt að krefjast tryggingar fyrir greiðslu skv. 224. gr.
    Veðréttur skv. 1. mgr. fellur niður eftir þrjá mánuði ef hann er ekki þinglýstur og fjárhæð hans samþykkt eða, ef við á, skráður í alþjóðlegu réttindaskrána og fjárhæð samþykkt eða mál höfðað til staðfestu veðrétti. Mál má höfða þar sem björgunarstarfi lauk eða þar sem andlag lögveðs er staðsett.
    Veðhafa skv. 1. mgr. skal óheimilt að ganga að veði hafi nægileg trygging, að meðtöldum vöxtum og innheimtukostnaði, verið boðin eða veitt.

XX. KAFLI

Valdheimildir, þvingunarúrræði og refsingar.

226. gr.

Almennar eftirlitsheimildir.

    Lögbærum stjórnvöldum er heimilt að:
     a.      óska eftir skýringum og krefja þá aðila sem stjórnvaldið hefur gefið vottorð, réttindi, leyfi og fullgildingu, eða þá sem hafa gefið út yfirlýsingu, um að láta henni í té allar nauðsynlegar upplýsingar, hvort sem er munnlega eða skriflega, á öllum staðreyndum, skjölum, hlutum, verklagi eða öðru viðfangsefni sem tengist mati á því hvort eftirlitsskyldur aðili fari að lögum þessum og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra,
     b.      fara inn á land, athafnasvæði og í mannvirki, þ.m.t. flugvelli, flugstöðvar og starfsstöðvar eftirlitsskyldra aðila, og í farartæki eftirlitsskyldra aðila,
     c.      gera úttekt á starfsstöðvum eftirlitsskyldra aðila og er fyrirsvarsfólki aðila í því skyni skylt að veita þann aðgang og atbeina sem lögbær stjórnvöld krefjast,
     d.      rannsaka efni, skýrslur og gögn sem eftirlitsskyldir aðilar ráða yfir eða hafa aðgang að, þ.m.t. vottorð, skrár, verklagsreglur og annað tengt efni, og afrita eða gera útdrátt úr öllum viðeigandi skjölum, óháð því í hvaða miðli umræddar upplýsingar eru geymdar,
     e.      láta fara fram úttektir og skoðanir, þ.m.t. fyrirvaralausar skoðanir, sannprófanir á búnaði og tækjum, sannprófun á verklagi eða ráðstöfunum í þágu öryggis eða verndar,
     f.      gera prufukaup á vörum eða þjónustu, undir fölsku nafni ef nauðsyn krefur, til að koma upp um brot og til að afla sönnunargagna, þ.e. á grundvelli heimildar til þess að skoða, athuga, rannsaka, hluta sundur eða prófa vöru eða þjónustu,
     g.      grípa til ráðstafana eða fylgja málum eftir, eins og við á.
    Í þeim tilgangi að ákvarða hvort handhafi vottunar sem stjórnvaldið hefur gefið út eða yfirlýsingar sem lögð hefur verið fyrir stjórnvaldið framfylgi lögum þessum eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra skal lögbærum stjórnvöldum einnig vera heimilt að beita framangreindum heimildum gagnvart öðrum lögaðilum eða einstaklingum sem búast má við að hafi sannarlega aðgang að upplýsingum sem máli skipta vegna verkefna og eftirlits þess.
    Valdheimildum skal beitt að teknu tilhlýðilegu tilliti til meðalhófs og lögmætra hagsmuna framangreindra aðila.
    Samgöngustofu og eftir atvikum öðrum stjórnvöldum hér á landi skal að beiðni Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins skylt að aðstoða stofnunina við eftirlit á þess vegum.

227. gr.

Loftför.

    Samgöngustofu er heimilt að rannsaka loftfar, farm þess og flugverja og sannreyna þau skjöl sem loftfar og flugverjar hafa meðferðis, þ.m.t. gögn er varða vottun loftfars, viðhald o.fl. Sama gildir um ómannað loftfar og fjarflugmann þess.
    Heimilt er að krefjast þess að loftfarið sé haft tiltækt til skoðunar, það affermt og prófflug og önnur próf fari fram og kalla flugverja loftfars, fjarflugmann og aðra starfsmenn eftirlitsskylds aðila, þ.m.t. starfsmenn viðhaldsstöðva eða viðhaldsaðila, til aðstoðar eins og þurfa þykir.
    Rannsókn skal fara fram af þeirri nærgætni sem kostur er. Flugrekanda/umráðanda loftfars skal tilkynnt um niðurstöður rannsóknar.
    Samgöngustofu er heimilt að leggja bann við för loftfars ef rannsókn loftfars og skjala sem loftfar og flugverjar/fjarflugmaður hafa meðferðis leiðir í ljós alvarleg frávik eða fyrirhugað er eða líklegt að loftfarinu verði flogið án þess að flugrekandi/umráðandi loftfars hafi lokið viðeigandi aðgerðum til úrbóta eða ástæða er til að ætla að loftfari verði flogið andstætt ákvæðum laga þessara eða öðrum lögum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim. Rekstraraðilum rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu, rekstraraðilum flugvallar og lögreglu er skylt að veita stofnuninni aðstoð til að framfylgja slíku banni.
    Ákvæði þetta tekur jafnt til loftfara sem skráð eru hér á landi, loftfara sem starfrækt eru hér á landi án skráningar og erlendra loftfara.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um skilyrði banns við för loftfars, afléttingu þess, verklag og upplýsingamiðlun í reglugerð.

228. gr.

Takmörkun eða bann við flugi loftfara á grundvelli flugöryggis.

    Á grundvelli flugöryggis skal Samgöngustofu heimilt að banna og/eða takmarka flug loftfara og hluta og tækja sem ferðast um loftið en eru ekki loftför á íslensku yfirráðasvæði, þ.m.t. tilteknar tegundir eða flokka loftfara, hluta og tækja sem ferðast um loftið en eru ekki loftför, loftför skráð eða starfrækt frá tilteknum ríkjum eða af tilteknum flugrekendum/umráðendum. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um slíkt bann, skilyrði, framkvæmd, afléttingu þess og upplýsingamiðlun.
    Samgöngustofu er heimilt að banna flug yfir hljóðhraða á íslensku yfirráðasvæði.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð sem innleiðir EES-gerðir um gerð og birtingu skrár yfir loftför, flugrekendur og ríki sem sæta banni til flugs innan Evrópska efnahagssvæðisins á grundvelli flugöryggis. Heimilt er að vísa til erlends frumtexta skrárinnar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins í B-deild Stjórnartíðinda og telst það lögmæt birting.

229. gr.

Eftirlit með öryggi vara.

    Samgöngustofa skal að eigin frumkvæði eða eftir ábendingu taka til meðferðar mál er varða eftirlit með öryggi vara, þ.m.t. ómannaðra loftfara, búnaðar, kerfa og kerfishluta sem falla undir lög þessi.
    Ef vara skv. 1. mgr., sem er á markaði, uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem ráðherra setur getur Samgöngustofa krafist þess að markaðsaðili geri viðeigandi úrbætur. Ef ekki er orðið við þeirri kröfu skal Samgöngustofa gera allar viðeigandi ráðstafanir til að takmarka eða banna að varan sé boðin fram á markaði eða tryggja að hún sé afturkölluð eða tekin af markaði.
    Af ástæðum er tengjast almannaöryggi, -heilbrigði og -hagsmunum skal Samgöngustofu heimilt að krefjast þess að markaðsaðili grípi til allra viðeigandi aðgerða til að tryggja að áhætta stafi ekki af viðkomandi vöru þegar hún er sett á markað, taki vöruna af markaði eða innkalli hana innan hæfilegs frests miðað við eðli áhættunnar.
    Samgöngustofa getur gert kröfu um að eigendur, flugrekendur/umráðendur, rekstraraðilar, framleiðendur, innflytjendur eða dreifingaraðilar afhendi stofnuninni allar upplýsingar er varða vörur skv. 1. mgr. sem settar hafa verið á markað eða ráðgert er að setja á markað. Með slíkar upplýsingar skal farið sem trúnaðarmál.

230. gr.

Allsherjarregla og öryggi.

    Lögbærum stjórnvöldum og lögreglu er heimilt að skipa loftfari að víkja af fyrirhugaðri flugleið og/eða lenda, leggja bann við flugtaki eða lendingu, viðhafa nauðsynlegar ráðstafanir til að takmarka eða hindra flug loftfara um tiltekið loftrými, enda miði slík aðgerð að því að halda uppi allsherjarreglu, tryggja öryggi, flugvernd eða vernda umhverfi, friðhelgi einkalífs og persónuupplýsingar.
    Veitanda flugumferðarþjónustu og rekstraraðila flugvallar er skylt að veita lögbærum stjórnvöldum og lögreglu þá aðstoð sem þörf er á hverju sinni.
    Sé loftfari skipað að lenda skal því lent svo skjótt sem kostur er. Ef skipun er ekki annars efnis skal loftfar, annað en ómannað loftfar, lenda á næsta flugvelli hér á landi sem er opinn almenningi og lenda má á. Ómönnuðu loftfari skal lent þar sem ekki skapast hætta á tjóni eða ónæði af lendingu þess.
    Ef loftfar flýgur inn á svæði þar sem loftferðir eru bannaðar skal loftfarið tafarlaust fljúga út af svæðinu og tilkynna lögbæru stjórnvaldi.
    Fari stjórnandi loftfars eða fjarflugmaður ekki eftir fyrirmælum þessarar greinar er lögreglu heimilt að hindra áframhaldandi flug loftfarsins með viðeigandi ráðum.
    Lögreglu er heimilt að leggja bann við flugtaki eða lendingu loftfars ef ástæða er til að ætla að það verði notað í því skyni að fremja brot gegn lögum þessum eða refsilögum.
    Heimildir 1.–6. mgr. skulu einnig ná til hluta og tækja sem ferðast geta um loftið en eru ekki loftför.

231. gr.

Flugsamgöngur á hættutímum.

    Þegar brýna nauðsyn ber til, svo sem vegna almannaöryggis eða allsherjarreglu, getur ráðherra:
     a.      takmarkað eða bannað loftferðir almennt eða um hluta af íslensku yfirráðasvæði,
     b.      takmarkað aðgang að flugvöllum og flugstöðvum, umferð og dvöl loftfara svo og umgengni eða dvöl á slíkum svæðum.
    Ef vástig eða almannavarnarstig er hækkað vegna neyðar, yfirvofandi hættuástands eða ógnar er ráðherra heimilt að gefa út nauðsynleg fyrirmæli, hvort sem er almenn eða sértæk, til rekstraraðila flugvalla, rekstraraðila rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu, flugrekenda/umráðenda loftfara, þjónustuaðila og annarra sem hafa starfsemi við eða innan flugvallarsvæðis og í eða við flugstöðvar í því skyni að gæta allsherjarreglu, sóttvarna og öryggis. Slík fyrirmæli gilda aðeins meðan hækkað vástig eða almannavarnarstig varir og mæli þau ekki fyrir um gildistíma falla þau niður innan 30 daga frá útgáfu þeirra, ef þau eru ekki afturkölluð fyrr. Ef fyrirmæli eru verulega íþyngjandi og hafa í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir aðila og kostnaður er meiri en ávinningur aðila skal endurgjald metið samkvæmt samkomulagi eða á grundvelli mats samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.
    Í því skyni að tryggja viðbúnað á landsvísu skal ráðherra heimilt að beina því til eftirlitsskyldra aðila að veita aðstoð við skipulagningu viðbúnaðar og framkvæmd, þátttöku í æfingum og að tryggja öryggi og vernd þýðingarmikilla grunnvirkja, aðfangakeðju og samgangna. Ef veiting aðstoðar hefur í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir aðila sem veitir liðsinni og kostnaður er meiri en ávinningur aðila af þátttöku skal endurgjald metið samkvæmt samkomulagi eða á grundvelli mats samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.

232. gr.

Verndarráðstafanir.

    Samgöngustofu er heimilt að grípa til hvers konar ráðstafana til að bregðast við byrjuðum eða yfirvofandi vanda er tengist öryggi í flugi ef:
     a.      vandinn felur í sér alvarlega áhættu á sviði flugöryggis og þörf er á tafarlausum aðgerðum til að bregðast við,
     b.      ekki er unnt að grípa til annarra viðunandi viðbragða á grundvelli laga þessara eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim,
     c.      gætt er meðalhófs og ekki er gengið lengra en þörf krefur hverju sinni.
    Ráðstafanir skv. 1. mgr. skulu gefnar út sem öryggisfyrirmæli skv. 233. gr.

233. gr.

Rekstrar-, lofthæfi- og öryggisfyrirmæli.

    Lögbærum stjórnvöldum er heimilt að gefa út rekstrar-, lofthæfi- og öryggisfyrirmæli er varða framleiðsluvörur, hluti, óuppsettan búnað og búnað til að fjarstýra loftförum, vottorð útgefin af lögbæru stjórnvaldi eða er varða þá aðila sem gefið hafa út yfirlýsingu til lögbærs stjórnvalds og starfsemi og aðila sem lúta eftirliti samkvæmt lögum þessum, ef viðkomandi stofnun hefur ákvarðað að fyrir hendi séu óöruggar aðstæður sem krefjast tafarlausra aðgerða. Slík fyrirmæli geta varðað afmarkaða þætti eða starfsemi á viðkomandi sviði í heild. Samgöngustofu er heimilt að birta slík fyrirmæli á ensku ef þörf krefur.
    Rekstrar-, lofthæfi- og öryggisfyrirmæli geta lotið að því að banna tiltekna starfrækslu, binda hana takmörkunum eða gera hana háða því að tiltekin skilyrði sem viðeigandi lögbært stjórnvald setur séu uppfyllt í þágu aukins flugöryggis. Í slíkum fyrirmælum skal greint frá ástæðu fyrir útgáfu þeirra, gildissviði og gildistíma og þeim ráðstöfunum sem hlutaðeigandi aðila ber að viðhafa eða láta af auk annarra upplýsinga eftir atvikum.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem kveðið er nánar á um útgáfu og birtingu rekstrar-, lofthæfi- og öryggisfyrirmæla, lágmarksupplýsingar sem skulu koma fram og tilkynningarskyldu slíkra fyrirmæla eftir atvikum til Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins, Eftirlitsstofnunar EFTA og annarra ríkja.

234. gr.

Aðgerðir sem ber að tilkynna.

    Samgöngustofa skal án tafar tilkynna aðgerðir skv. 143., 190., 231.–233. og 2. mgr. 238. gr. og aðgerðir er varða atriði er falla undir gildissvið EASA-reglugerðarinnar til Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins, EASA-ríkjanna og Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Telji Eftirlitsstofnun EFTA, að fenginni umsögn Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins, ef við á, að ráðstafanir skv. 1. mgr. uppfylli ekki þau skilyrði sem tiltekin eru skulu ráðstafanirnar afturkallaðar af viðeigandi stjórnvaldi.

235. gr.

Krafa um úrbætur o.fl.

    Komi í ljós að eftirlitsskyldur aðili fylgi ekki lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra skulu lögbær stjórnvöld krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests eða þegar í stað í samræmi við alvarleika fráviks. Jafnframt geta lögbær stjórnvöld farið fram á að eftirlitsskyldur aðili grípi til frekari mótvægisaðgerða í því skyni að tryggja að farið sé eftir ákvæðum laga þessa og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim.
    Telji Samgöngustofa háttsemi aðila andstæða ákvæðum laga þessara getur stofnunin krafist þess að háttseminni verði þegar í stað hætt. Jafnframt getur Samgöngustofa krafist þess að starfsemi aðila verði stöðvuð tímabundið í því skyni að koma í veg fyrir háttsemi sem talin er andstæð ákvæðum laga þessara. Ef þörf krefur er lögreglu skylt að aðstoða Samgöngustofu við þær aðgerðir.

236. gr.

Breyting, takmörkun eða tímabundin niðurfelling eða afturköllun vottorðs o.fl.

    Lögbærum stjórnvöldum er heimilt að breyta, takmarka, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla vottorð, áritanir eða önnur réttindi ef viðeigandi lögbært stjórnvald telur að handhafi uppfylli ekki lengur þau skilyrði og þær kröfur sem gerðar eru til útgáfu þeirra, handhafi fer ekki lengur að lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra eða ef vafi leikur á að viðkomandi aðili geti fullnægt slíkum kröfum.
    Lögbærum stjórnvöldum er heimilt að ógilda eða afskrá yfirlýsingu ef sá sem gaf út yfirlýsinguna uppfyllir ekki lengur þau skilyrði og þær kröfur sem gerðar eru til útgáfu hennar eða ef útgefandi hennar fer ekki lengur að lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra eða ef vafi leikur á að viðkomandi aðili geti fullnægt slíkum kröfum.
    1. og 2. mgr. eiga enn fremur við ef handhafi vottunar, réttinda eða yfirlýsingar er uppvís af því að framvísa fölsuðum gögnum eða beita blekkingum við útgáfu eða endurnýjun vottorðs, annarra réttinda eða yfirlýsingar eða ef sönnun er færð fyrir misnotkun eða svikum í tengslum við notkun vottorðs, réttinda eða yfirlýsingar eða ef handhafi vottorðs, réttinda eða yfirlýsingar hefur verið við störf undir áhrifum geðvirkra efna, sbr. 254. gr.
    Ef vottorð, þ.m.t. heilbrigðisvottorð, áritanir eða önnur réttindi, er fellt úr gildi tímabundið eða afturkallað skal handhafi tafarlaust skila vottorðinu til viðkomandi lögbærs stjórnvalds.
    Tímabundin niðurfelling vottorðs eða annarra réttinda fellur úr gildi þegar vottorð er afturkallað.

237. gr.

Brot á lögum.

    Ef handhafi vottorðs, annarra réttinda, leyfis eða útgefandi yfirlýsingar hefur gerst sekur um brot gegn lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra eða ef telja verður varhugavert með hliðsjón af eðli brotsins eða öðru framferði að handhafi eða útgefandi yfirlýsingar neyti réttinda samkvæmt vottorði, öðrum réttindum, leyfi eða yfirlýsingu er Samgöngustofu heimilt að fella tímabundið úr gildi eða afturkalla umrædd réttindi eða ógilda eða afskrá yfirlýsingu.
    Ef brot er alvarlegt, stórfellt og/eða aðrar ríkar ástæður eru fyrir hendi er Samgöngustofu heimilt að fella tímabundið úr gildi eða afturkalla vottorð, önnur réttindi, leyfi eða yfirlýsingu fyrirvaralaust og án þess að handhafi eða útgefandi fái notið lögbundins andmælaréttar.

238. gr.

Undanþágur.

    Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra ef meginefni undanþágu varðar efnisatriði sem ekki fellur undir gildissvið EASA-reglugerðarinnar og afleiddra reglugerða sem innleiddar hafa verið í landsrétt og um er að ræða ófyrirséðar brýnar aðstæður eða þarfir vegna starfrækslu sem hefur áhrif á aðila, enda séu þau skilyrði sem greind eru í a–d-lið 2. mgr. uppfyllt.
    Í samræmi við ákvæði EASA-reglugerðarinnar er Samgöngustofu heimilt að veita einstaklingum og lögaðilum undanþágu frá ákvæðum laga þessara og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra, enda falli efnisatriði undanþágu undir EASA-reglugerðina eða afleiddar reglugerðir sem innleiddar hafa verið í landsrétt, vegna ófyrirséðra, brýnna aðstæðna eða þarfa vegna starfrækslu sem hefur áhrif á aðila, og undanþága uppfyllir aðrar kröfur sem ráðherra setur í reglugerð, meðal annars með tilliti til tímalengdar og endurtekningar, auk eftirfarandi skilyrða:
     a.      ekki er mögulegt að bregðast við þessum aðstæðum eða þörfum með viðunandi hætti í samræmi við gildandi kröfur,
     b.      öryggi, umhverfisvernd og samræmi við gildandi grunnkröfur er tryggt ef nauðsynlegt er að beita ráðstöfunum til að draga úr áhættu,
     c.      Samgöngustofa hefur, eins og mögulegt er, dregið úr hugsanlegri röskun á markaðsaðstæðum í kjölfar þess að undanþága er veitt, og
     d.      umfang og tímalengd undanþágunnar takmarkast við það sem telst algerlega nauðsynlegt og henni er beitt á jafnréttisgrundvelli.
    Ef kveðið er á um sérstaka heimild til að veita undanþágu frá grunnkröfum í EASA-reglugerðinni skal farið með slíkar heimildir og skilyrði í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.
    Undanþágur skv. 2. mgr. skal tilkynna í samræmi við 234. gr.

239. gr.

Valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA.

    Eftirlitsstofnun EFTA getur tekið ákvörðun um að:
     a.      fella niður gagnkvæma viðurkenningu vottorða, annarra réttinda og yfirlýsinga, sbr. 29. gr., enda sé sannað að handhafi eða útgefandi uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim. Þegar Eftirlitsstofnun EFTA telur að gripið hafi verið til viðeigandi aðgerða til úrbóta og gerðar hafi verið viðeigandi verndarráðstafanir getur hún ákveðið að vottorð, réttindi eða yfirlýsing teljist aftur gild og viðurkennd.
     b.      beina því til ráðherra að komið sé á eftirlitsstuðningskerfi í samvinnu við Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins hér á landi enda liggi fyrir sönnun um alvarlega og viðvarandi vangetu lögbærs landsyfirvalds til þess að sinna með skilvirkum hætti tilteknum eða öllum verkefnum sem tengjast vottun, eftirliti og framfylgd í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim og ekki hefur verið orðið við óskum um umbætur á fullnægjandi hátt og ástand hefur skapast þar sem flugöryggi er talið stefnt í hættu.

240. gr.

Réttur til að kæra ákvörðun Samgöngustofu.

    Ákvarðanir Samgöngustofu sæta kæru til ráðherra samkvæmt lögum þessum nema annað sé sérstaklega tekið fram. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

241. gr.

Málshöfðun fyrir innlendum dómstólum.

    Ef aðili vill ekki una ákvörðun Samgöngustofu samkvæmt lögum þessum getur hann höfðað mál til ógildingar henni fyrir dómstólum innan sex mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.
    Málshöfðun frestar hvorki réttaráhrifum ákvörðunar né heimild til aðfarar samkvæmt henni, ef við á.
    Dómstólar hafa vald til þess að endurskoða alla þætti stjórnvaldsákvörðunar um álagningu stjórnsýsluviðurlaga skv. 247. og 248. gr. og þar sem efni standa til geta þeir fellt þau niður, hækkað eða lækkað, allt eftir dómkröfum aðila.

242. gr.

Réttur til að kæra ákvarðanir Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins.

    Aðilum er heimilt að kæra ákvörðun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins sem beinist gegn þeim eða ákvörðun sem varðar þá óbeint þótt henni sé beint að öðrum aðila til kærunefndar stofnunarinnar, eins og nánar greinir í reglugerð sem ráðherra setur.
    Kæra sem lögð er fram skv. 1. mgr. hefur ekki áhrif til frestunar réttaráhrifa. Forstjóra Flugöryggisstofnunarinnar er heimilt að fresta réttaráhrifum ákvörðunar sem kærð hefur verið telji hann að aðstæður leyfi það.
    Áður en kærunefndin tekur kæru til athugunar skal hún gefa Flugöryggisstofnuninni kost á að endurskoða ákvörðun sína.
    Ráðherra skal setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um þær ákvarðanir sem heimilt er að kæra, svo sem endurskoðunarrétt Flugöryggisstofnunarinnar, kærunefnd, kærufresti, málsmeðferð, réttaráhrif kæru og niðurstöðu.

243. gr.

Málshöfðun vegna ákvörðunar, athafna eða athafnaleysis Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins.

    Mál til ógildingar á ákvörðun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins vegna athafna eða athafnaleysi, vegna skaðabótaábyrgðar innan eða utan samninga eða á grundvelli gerðardómsákvæðis verða aðeins höfðuð gegn stofnuninni fyrir dómstól Evrópusambandsins.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um rétt aðila til málshöfðunar, grundvöll málshöfðunar, rétt ríkja, stofnana Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnunar EFTA til málshöfðunar og málsmeðferð.

244. gr.

Málshöfðun fyrir EFTA-dómstólnum og aðfararhæfi.

    Ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA má skjóta til EFTA-dómstólsins í samræmi við samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
    Ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfar, sem og dómar og úrskurðir EFTA-dómstólsins.

245. gr.

Dagsektir.

    Samgöngustofa getur ákveðið að leggja dagsektir á eftirlitsskyldan aðila samkvæmt lögum þessum sem:
     a.      veitir ekki umbeðnar upplýsingar eða aðgengi sem nauðsynlegt er til að stofnunin geti sinnt eftirliti sínu,
     b.      sinnir ekki kröfu um úrbætur innan hæfilegs frests,
     c.      brýtur gegn ákvörðun stofnunarinnar sem tekin hefur verið samkvæmt lögum þessum.
    Tilkynna skal aðila um ákvörðun stofnunarinnar ásamt rökstuðningi við hana á sannanlegan hátt. Dagsektir leggjast á frá dagsetningu ákvörðunar eða, sé veittur frestur til að sinna úrbótum, frá þeim degi sem ákvörðun tiltekur þangað til farið hefur verið að kröfum Samgöngustofu. Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðili verði síðar við kröfu Samgöngustofu nema stofnunin samþykki lækkun eða niðurfellingu þeirra.
    Dagsektir geta numið frá 10 þús. kr. til 1 millj. kr. fyrir hvern dag sem líður eða byrjar að líða án þess að orðið sé við kröfu. Við ákvörðun um fjárhæð dagsektar er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila. Innheimtar dagsektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Gjalddagi dagsekta er 15 dögum eftir dagsetningu ákvörðunar. Greiða skal dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar sé hún ógreidd 15 dögum eftir gjalddaga.
    Ákvörðun um dagsektir má skjóta til ráðherra innan 30 daga frá því að hún er kynnt þeim sem hún beinist að. Ber Samgöngustofu að leiðbeina aðila sérstaklega um rétt til kæru. Ákvarðanir Samgöngustofu um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar að liðnum kærufresti. Málskot til ráðherra frestar aðför en úrskurðir ráðherra eru aðfararhæfir. Málshöfðun fyrir dómstólum frestar ekki aðför. Málshöfðun fyrir dómstólum er ekki háð því að mál hafi áður verið kært til ráðherra.
    Ákvæði þetta tekur jafnt til eftirlitsskyldra aðila sem annarra aðila sem veitt geta upplýsingar í þágu eftirlits, sbr. 2. mgr. 226. gr.

246. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Samgöngustofa getur lagt stjórnvaldssekt á eftirlitsskylda aðila, einstakling og lögaðila sem brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara, reglugerða og fyrirmælum sem sett eru á grundvelli þeirra um:
     a.      heimild til komu, brottfarar eða ferðar á íslensku yfirráðasvæði, sbr. 21.–23., 2. mgr. 25. og 189. gr.,
     b.      heimild til markaðsaðgangs skv. 189. og 191. gr.
     c.      vottun eða yfirlýsingu vegna flugöryggis enda sé ekki um að ræða EASA-loftfar, sbr. 22. gr.,
     d.      leyfi eða heimild, sbr. 26., 111.–113. og 160. gr.,
     e.      skyldu til að fara að fyrirmælum, sbr. 32., 230., 2. mgr. 231., 232. og 233. gr.,
     f.      skyldu til skráningar ómannaðs loftfars, sbr. 56. gr.,
     g.      skyldu til skráningar flugrekanda/umráðanda ómannaðs loftfars, sbr. 49. gr.,
     h.      merkingu loftfars, sbr. 41., 3. mgr. 49. og 5. mgr. 69. gr.,
     i.      skyldur til að afla starfsemi/mannvirki/búnaði/loftfari vottunar eða gefa út yfirlýsingu, sbr. 54., 57.–61., 2. mgr. 71., 79., 80., 84., 88., 89., 91., 105., 132.–135., 153., 154., 158., 163., 169. og 171.–173. gr.,
     j.      skyldu einstaklinga til vottunar sem sinna tilteknum störfum, sbr. 63., 64., 73., 75., 79. og 155. gr.,
     k.      starfrækslu loftfars án gilds lofthæfivottorðs eða vottorðs um áframhaldandi lofthæfi, sbr. 62. og 67. gr.,
     l.      markaðssetningu ómannaðs loftfars í opnum flokki eða sérstökum flokki sem ekki hefur CE-merkingu, sbr. 69. gr.,
     m.      IX. kafla um starfrækslu loftfara,
     n.      skyldur er varða vinnuumhverfi flugverja, sbr. 117.–122. gr.,
     o.      tilkynningarskyldu, sbr. 2. mgr. 40., 44., 45., 81., 86., 125., 2. mgr. 128., 2. mgr. 164. og 185. gr.,
     p.      skyldu til að vátryggja, sbr. 219. gr.,
     q.      XVI. kafla um neytendavernd,
     r.      flugreglur, sbr. 169. gr., og flug innan skilgreindra hafta-, hættu- og bannsvæða á meðan slíkar takmarkanir eru í gildi, sbr. 177. og 178. gr.,
     s.      að víkja frá hæðartakmörkunum eða öðrum takmörkunum skv. 149. gr.,
     t.      skyldu til að veita upplýsingar, sbr. 37., 4. mgr. 69. og 82. gr.,
     u.      meðhöndlun upplýsinga sem lúta trúnaði eða vernd, sbr. 114., 161. og 3. mgr. 195. gr.,
     v.      meðhöndlun tilkynninga skv. XI. kafla, sbr. 4. mgr. 127., 3. mgr. 128. og 1. mgr. 129. gr.,
     w.      brot gegn sanngirnismenningu, sbr. 2. mgr. 129. gr.,
     x.      að skila útgefnu vottorði, sbr. 1. mgr. 48., 3. mgr. 136. og 4. mgr. 236. gr.
     y.      sátt milli Samgöngustofu og aðila, sbr. 247. gr.
     z.      þagnarskyldu, sbr. 166. gr.
    Ákvörðun um stjórnvaldssekt skal tilkynnt á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.
    Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekið fyrirsvarsfólk lögaðilans, starfsfólk hans eða annan aðila sem starfar á vegum hans.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 25 þús. kr. til 8 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 75 þús. kr. til 100 millj. kr.
    Ráðherra getur í reglugerð ákveðið fjárhæð stjórnvaldssekta fyrir brot á einstökum ákvæðum laga þessara innan þess ramma sem ákveðinn er í 3. mgr. og breytt upphæð dagsekta skv. 245. gr. í samræmi við verðlagsþróun. Hafi fjárhæð stjórnvaldssektar ekki verið ákveðin í reglugerð skal við ákvörðun þeirra hafa hliðsjón af alvarleika brotsins, hvað það hafi staðið lengi yfir og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna fyrirtækis, ef við á, og hvort hægt var að koma í veg fyrir lögbrotið með stjórnun og eftirliti. Loks ber að líta til þess hver fjárhagslegur styrkleiki hins eftirlitsskylda aðila er.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir dagsetningu ákvörðunar. Greiða skal dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar sé hún ógreidd 15 dögum eftir gjalddaga. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Ákvörðun um stjórnvaldssekt má skjóta til ráðherra samkvæmt stjórnsýslulögum. Ber Samgöngustofu að leiðbeina aðila sérstaklega um rétt til kæru. Ákvarðanir Samgöngustofu um að leggja á stjórnvaldssekt eru aðfararhæfar að liðnum kærufresti. Málskot til ráðherra frestar aðför en úrskurðir ráðherra eru aðfararhæfir. Málshöfðun fyrir almennum dómstólum frestar ekki aðför og er ekki háð því að mál hafi áður verið kært til ráðherra.
    Heimild Samgöngustofu til að leggja á stjórnvaldssekt samkvæmt lögum þessum fellur brott þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Frestur rofnar þegar Samgöngustofa tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að brotinu.

247. gr.

Sátt.

    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara, reglugerða, fyrirmæla eða ákvörðun Samgöngustofu er stofnuninni heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Samgöngustofa setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.

248. gr.

Lögbannsheimild vegna hagsmuna neytenda.

    Samgöngustofa getur leitað lögbanns til að vernda heildarhagsmuni neytenda, enda sé fullnægt öðrum skilyrðum lögbanns sem greind eru í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
    Samgöngustofa getur fengið lagt lögbann við athöfn ef hætta er á að heildarhagsmunir neytenda bíði alvarlegan skaða og engin önnur skilvirk leið er fyrir hendi til að stöðva brot gegn 202. gr. og reglugerðum sem settar eru skv. 209. gr. Við lögbannsgerð má eftir kröfu Samgöngustofu leggja fyrir:
     a.      þjónustuveitanda eða þann sem starfrækir netskilflöt að fjarlægja efni á netskilfleti eða setja upp skýra viðvörun sem neytendur sjá þegar þeir fara inn á netskilflötinn,
     b.      fjarskiptafyrirtæki að takmarka aðgang að netskilfleti,
     c.      þjónustuveitanda að fjarlægja, gera óvirkan eða takmarka aðgang að netskilfleti, eða
     d.      skráningaraðila eða skráningarmiðlun léna að loka, læsa eða endurskrá lén hjá Samgöngustofu.
    Lagt verður fyrir þjónustuveitendur og fjarskiptafyrirtæki að leysa af hendi athafnir skv. 2. mgr. óháð því hvort þeir beri ábyrgð á gögnum, miðlun gagna eða sjálfvirkri, millistigs- eða skammtímageymslu gagna.
    Þegar sett er fram krafa um lögbann skal rétthafa léns og þeim sem talinn er brjóta gegn ákvæðum laga og reglugerða skv. 2. mgr., tryggð sambærileg réttarstaða og gerðarþola til hagsmunagæslu við fyrirtöku lögbannsgerðar eftir því sem við verður komið, auk tilkynningar um lögbannsgerð að henni lokinni, skv. 14. og 18. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990.
    Við mat á því hvort lögbann verði lagt á skal vega saman hagsmuni gerðarþola og heildarhagsmuni neytenda. Meðal annars skal litið til sjónarmiða um meðalhóf, tjáningarfrelsi og upplýsingarétt.
    Um lögbann samkvæmt þessari grein fer að öðru leyti eftir lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

249. gr.

Opinber birting viðurlaga.

    Samgöngustofu skal heimilt að birta á vefsíðu sinni nöfn rekstraraðila flugvalla og flugrekenda/umráðenda loftfara sem tilkynnt hafa að þeir hyggist ekki fara að úrskurði stofnunarinnar skv. 209. gr. og nöfn þeirra aðila sem sætt hafa stjórnsýsluviðurlögum sem ákveðin eru skv. 245.–247. gr. auk upplýsinga um tegund og eðli brots.
    Kveði dómstóll upp dóm um sýknu rekstraraðila flugvallar eða flugrekenda/umráðenda loftfara skv. 1. mgr. eða ef talið er að birting valdi einstaklingi óhóflegum skaða skal Samgöngustofa afmá nafn eða nöfn þeirra sem dómur varðar af vefsíðu sinni.

250. gr.

Sektir og févíti sem Eftirlitsstofnun EFTA getur lagt á.

    Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt, að tillögu Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins, að leggja á lögaðila eða einstakling sem Flugöryggisstofnunin hefur gefið út vottorð fyrir eða sem hefur lagt fyrir stofnunina yfirlýsingu annað hvort eða hvort tveggja:
     a.      fjársekt ef brotið er af ásetningi eða af gáleysi gegn ákvæðum laga þessara eða reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim,
     b.      févíti þegar einstaklingur eða lögaðili heldur áfram að brjóta í bága við ákvæði laga þessara eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim í því skyni að knýja viðkomandi til þess að fara að þessum ákvæðum.
    Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt með ákvörðun að sekta fyrirtæki og samtök fyrirtækja ef þau af ásetningi eða af gáleysi brjóta gegn ákvæðum 199. gr. eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli laga þessara vegna slíkra kerfa. Við ákvörðun sekta skal bæði taka tillit til þess hversu alvarlegt brotið er og hversu lengi það hefur staðið.
    Ákvarðanir um sektir og févíti samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar og skulu álagðar sektir og févíti renna til Eftirlitsstofnunar EFTA að frádregnum kostnaði við innheimtu.
    Ákvarðanir um sektir og févíti sæta endurskoðun EFTA-dómstólsins eins og nánar er kveðið á um í samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og er dómstólnum heimilt að fella niður sekt eða févíti eða breyta fjárhæð.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem kveðið er nánar á um fjárhæð sekta og févítis, álagningu og ákvörðun þar að lútandi, innheimtu og málsmeðferð við ákvarðanatöku, þ.m.t. andmæla- og upplýsingarétt.

251. gr.

Kæra til lögreglu.

    Samgöngustofu er heimilt að kæra brot á lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim til lögreglu.
    Varði meint brot bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Samgöngustofa hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Samgöngustofu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Samgöngustofa á hvaða stigi málsins sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra til opinberrar rannsóknar. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
    Varði brot á lögum þessum bæði refsiábyrgð fyrir einstakling og lögaðila metur Samgöngustofa, með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða, hvort mál skuli kært til lögreglu að hluta eða í heild.
    Með kæru Samgöngustofu skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 gilda ekki um ákvörðun Samgöngustofu um að kæra mál til lögreglu.
    Samgöngustofu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast brotum sem til rannsóknar eru hjá lögreglu og ákæruvaldi og taka þátt í aðgerðum lögreglu að öðru leyti.
    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Samgöngustofu í té upplýsingar og gögn sem þau hafa aflað og tengjast brotum sem til meðferðar eru hjá stofnuninni og taka þátt í aðgerðum hennar að öðru leyti.
    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Samgöngustofu til meðferðar og ákvörðunar.

252. gr.

Réttur einstaklinga til að fella ekki á sig sök.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur sá sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Samgöngustofa skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
    Þau stjórnsýsluviðurlög sem 1. mgr. tekur til eru viðurlög vegna lögbrots eða brots gegn reglugerðum sem settar eru á grundvelli laga þessara og fela í sér stjórnvaldssektir eða afturköllun vottorðs og annarra réttinda.

253. gr.

Refsingar.

    Brot gegn lögum þessum, reglugerðum og fyrirmælum sem sett eru eða gefin samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að fimm árum, liggi ekki fyrir þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum eða annað sérstaklega tiltekið.
    Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
    Hafi brot verið framið í því skyni að afla hinum brotlega eða öðrum óréttmæts ávinnings skal að jafnaði taka það til greina til þyngingar refsingunni.
    Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi. Um upptöku ávinnings af broti og hluta sem notaðir eru til að fremja brot fer eftir ákvæðum VII. kafla A almennra hegningarlaga.
    Vörur sem ekki uppfylla þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum þessum, hafa verið starfræktar í heimildarleysi eða andstætt lögum þessum má gera upptækar, sbr. 69. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum sem settar eru á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðilans má gera honum refsingu auk þess að gera lögaðilanum sekt.

254. gr.

Geðvirk efni.

    Enginn flugverji, fjarflugmaður, flugumferðarstjóri, flugnemi, nemi í flugumferðarstjórn eða annar einstaklingur má hafa með hendi starfa í loftfari, vera við stjórn loftfars, stjórna loftferðum eða veita öryggisþjónustu vegna loftferða sé hann vegna neyslu geðvirkra efna, vegna sjúkdóms, meiðsla, lyfjagjafar eða þreytu eða annarrar líkrar orsakar óhæfur til að rækja starfann tryggilega.
    Ef vínandamagn í blóði er yfir 0,2‰ eða áfengi í líkama, sem leitt getur til slíks vínandamagns í blóði, telst hlutaðeigandi undir áhrifum áfengis og ekki hæfur til þess starfa sem getur í 1. mgr. Það leysir viðkomandi ekki undan sök þótt hann haldi vínandamagn í blóði minna. Ef önnur geðvirk efni en alkóhól mælast í lífsýni, meðal annars efni sem falla undir lög um ávana- og fíkniefni og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim lögum, telst viðkomandi vera undir áhrifum geðvirkra efna og óhæfur til þeirra starfa sem um getur í 1. mgr.
    Einstaklingum skv. 1. mgr. er óheimilt að neyta geðvirkra efna síðustu átta klst. áður en störf eru hafin og við störf. Varðar það að jafnaði afturköllun vottorðs eða, ef við á, yfirlýsingar í ekki skemur en í þrjá mánuði en fyrir fullt og allt ef sakir eru miklar eða brot ítrekað. Þá mega þeir ekki neyta geðvirkra efna næstu sex klst. eftir að vinnu lauk enda hafi þeir ástæðu til að ætla að atferli þeirra við starfann sæti rannsókn.
    Ef rökstuddur grunur vaknar um neyslu geðvirkra efna skal Samgöngustofu og lögreglu heimilt að framkvæma skimun á neyslu geðvirkra efna hjá þeim sem um getur í 1. mgr. Viðkomandi einstaklingum er skylt að láta í té nauðsynleg lífsýni og hlíta rannsókn. Skimun skal framkvæma af þeirri nærgætni sem kostur er.
    Í venjubundnu eftirliti er Samgöngustofu hvenær sem er heimilt að framkvæma skimun fyrir geðvirkum efnum.
    Hafni einhver þeirra sem um getur í 1. mgr. skimun eða reynist eftir rannsókn vera undir áhrifum geðvirkra efna, sbr. 2. og 3. mgr., skal þeim hinum sama ekki heimilt að halda áfram vinnu. Lögreglu er skylt að aðstoða Samgöngustofu við skimun ef þörf krefur.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um geðvirk efni og tilgreina nánar þau geðvirku efni sem valda óhæfi, framkvæmd skimunar og skráningu upplýsinga um niðurstöður skimana í samevrópska miðlæga gagnagrunna í reglugerð.

255. gr.

Aðgangsbrot.

    Ef einstaklingur fer án gildrar aðgangsheimildar inn á skilgreint haftasvæði flugverndar, hvort sem er innan flugvallar eða utan, flugvallarsvæði þar sem aðgangur hefur verið takmarkaður eða bannaður, um borð í loftfar eða hefur viðveru innan framangreindra svæða eftir að hafa verið beðinn um að yfirgefa svæðið eða, ef við á, loftfarið, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum. Þó má beita fangelsi allt að 1 ári ef miklar sakir eru, svo sem ef sá sem brot framdi var vopnaður eða beitti ofbeldi eða hótun um ofbeldi eða brot framið af fleirum saman.
    Einstaklingi er óheimilt að taka sér far án gildrar heimildar eða gera tilraun til að ferðast án slíkrar heimildar sem laumufarþegi með loftfari í eða úr íslenskri lögsögu.

XXI. KAFLI

Lokaákvæði.

256. gr.

Bókun 35 við EES-samninginn.

    EES-gerðir á sviði loftferða og neytendaverndar sem innleiddar eru í landsrétt og tekið hafa gildi skulu ganga framar almennum ákvæðum laga þessara komi til árekstra þeirra á milli. Sama gildir um reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli sem sett eru á grundvelli laga þessara.

257. gr.

Innleiðing.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu eftirfarandi gerða sem vísað er til í XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (flutningastarfsemi):
     a.      reglugerðar (EB) nr. 2027/97 frá 9. október 1997 um bótaábyrgð flugfélaga vegna slysa, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 34/1998 frá 30. apríl 1998, sem birt var 19. desember 1998 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 48, bls. 250–252,
     b.      reglugerðar (EB) nr. 889/2002 frá 13. maí 2002 um breytingu á reglugerð (EB) 2027/97 um bótaábyrgð flugfélaga, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2002 frá 8. nóvember 2002, sem birt var 21. febrúar 2004 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 9, bls. 285–288,
     c.      tilskipunar ráðsins 2000/79/EB frá 27. nóvember 2000 um Evrópusamning um skipulag á vinnutíma farstarfsmanna í almenningsflugi sem gerður var milli Evrópusambands flugfélaga (AEA), Sambands félaga flutningaverkamanna í Evrópu (ETF), Evrópska flugliðasambandsins (ECA), Samtaka evrópskra svæðisflugfélaga (ERA) og Alþjóðasamtaka flutningafélaga (IACA), sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 122/2001 frá 28. september 2001, sem birt var 1. maí 2002 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 23, bls. 426–429,
     d.      tilskipunar 2009/12/EB frá 11. mars 2009 um gjaldtöku á flugvöllum, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 64/2012 frá 30. mars 2012, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 64/2012 frá 30. mars 2002, sem birt var 5. júlí 2012 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 38, bls. 16–21.

258. gr.

Gildistaka og brottfall laga.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Samhliða falla eftirtalin lög brott:
     a.      lög um loftferðir, nr. 60/1998,
     b.      lög um ráðstafanir vegna sameiningar Flugfélags Íslands h.f. og Loftleiða h.f., nr. 30/1974,
     c.      lög um kjaramál flugvirkja nr. 17/2010,
     d.      lög um kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra nr. 45/2016.
    Reglugerðir sem settar eru á grundvelli gildandi laga um loftferðir halda gildi sínu að svo miklu leyti sem ákvæði þeirra brjóta ekki í bága við ákvæði þessara laga.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal 3. málsl. 1. mgr. 159. gr. taka gildi frá og með 31. desember 2021.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal. 4. tölul. a-liðar 171. gr. taka gildi frá og með 27. febrúar 2022.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal d-liður 259. gr. og 2. tölul. e-liðar 259. gr. taka gildi frá og með 1. janúar 2022.

XXII. KAFLI

Breytingar á öðrum lögum.

259. gr.

Breytingar á lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.

     a.      Í stað orðanna „lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun“ í 5. mgr. 1. gr. laganna kemur: notkun geðvirkra efna og lyfja.
     b.      2. og 3. mgr. 4. gr. laganna falla brott.
     c.      8. gr. laganna verður svohljóðandi:
                      Samgöngustofa skal annast þau verkefni og eftirlit á sviði loftferða sem kveðið er á um í lögum um loftferðir.
     d.      2.–7. og 9. mgr. 12. gr. laganna falla brott.
     e.      Á 1. mgr. 13. gr. laganna verða eftirfarandi breytingar:
                  1.      11. tölul. orðast svo: heimilda sem tengjast einstökum atburðum og afgreiðslum, svo sem flugsýningum, flugkeppnum, fallhlífarstökki, lágflugi, listflugi, flugeldasýningum og yfirflugi með takmarkað lofthæfiskírteini.
                  2.      15. tölul. orðast svo: útgáfu hvers konar vottorða vegna loftfars.
                  3.      Við bætast þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
                      17.      skráning flugrekenda/umráðenda ómannaðra loftfara.
                      18.      skráning hluta og tækja sem eru ekki loftför.
                      19.      vegna úrskurða á sviði neytendamála.
     f.      Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þjónustugjöld fyrir eftirlit með skráðum eiganda eða umráðanda loftfars skv. 13. gr., svo sem vegna eftirlits með lofthæfi, starfrækslu loftfars, skráningu og afskráningu loftfars, eru tryggð með lögveði í loftfari eða loftfarshlutum skráðum hér á landi. Gjöldin skulu jafnrétthá sín í milli en eldri kröfur skulu ganga framar yngri. Þó skulu kröfur vegna björgunar skv. 225. gr. laga um loftferðir ganga framar kröfum samkvæmt þessari grein.
     g.      Við 1. mgr. 18. gr. laganna bætist: nema lög mæli fyrir um annað.
     h.      Við 1. mgr. 19. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um aðra sem vinna verkefni í þágu stofnunarinnar.

260. gr.

Breytingar á lögum um rannsókn samgönguslysa, nr. 18/2013.

     a.      Eftirfarandi orðskýringar bætast við 3. gr. laganna í viðeigandi stafrófsröð:
                  1.      EASA-loftfar: Loftfar sem fellur undir gildissvið EASA-reglugerðarinnar.
                  2.      EASA-reglugerðin: Reglugerð (ESB) 2018/1139 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins og um breytingu á reglugerðum (EB) nr. 2111/2005, (EB) nr. 1008/2008, (ESB) nr. 996/2010, (ESB) nr. 376/2014 og tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB og 2014/53/ESB og um niðurfellingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 og (EB) nr. 216/2008 og reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3922/91, með síðari breytingum, eins og hún er tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með þeim aðlögunum sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og bókun 1 um altæka aðlögun.
     b.      5. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
                      Skýrslum rannsóknarnefndar um rannsókn einstakra slysa og atvika skal ekki beitt sem sönnunargögnum í dómsmálum. Rannsókn nefndarinnar skal ekki miða að því að ákvarða sök eða ábyrgð.
     c.      Á eftir orðinu „slysi“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: eða atviki.
     d.      11. gr. laganna orðast svo:
                      Lögsaga rannsóknarnefndar samgönguslysa tekur til annars vegar rannsóknar flugslysa og flugatvika á íslensku yfirráðasvæði og hins vegar rannsóknar flugumferðaratvika í loftrými þar sem Íslandi hefur verið falið á grundvelli þjóðréttarlega skuldbindinga að veita rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu.
                      Þrátt fyrir 2. mgr. 4. gr. laganna skal nefndin rannsaka:
              a.      öll flugslys og alvarleg flugatvik sem verða á íslensku yfirráðasvæði sem tengjast EASA-loftförum,
              b.      flugslys og alvarleg flugatvik sem EASA-loftför skráð hér á landi tengjast sem ekki er hægt að staðsetja innan yfirráðasvæðis tiltekins ríkis.
                      Nefndinni er heimilt að taka til rannsóknar flugslys og alvarleg flugatvik loftfara sem ekki eru EASA-loftför og önnur flugatvik en um getur í 2. mgr. ef talið er að draga megi af slíkum rannsóknum lærdóm í þágu aukins flugöryggis.
                      Nefndinni er heimilt að rannsaka flugumferðaratvik sem verða á eða yfir því svæði sem Íslandi hefur verið falið að veita rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsögu-þjónustu í utan íslensks yfirráðasvæðis og skráningarríki þeirra loftfara sem í hlut eiga hlutast ekki til um rannsókn.
                      Þrátt fyrir 2. mgr. er nefndinni heimilt að ákveða, með hliðsjón af því hvaða lærdóm í þágu aukins flugöryggis má búast við að draga af því, að hefja ekki rannsókn ef um er að ræða ómönnuð loftför sem ekki eru háð útgáfu vottorðs eða útgáfu yfirlýsingar í samræmi við lög um loftferðir eða loftför sem hafa hámarksflugtaksmassa sem er 2250 kg eða minni og ef enginn einstaklingur slasast alvarlega eða hefur látið lífið.
     e.      11. gr. a laganna fellur brott.
     f.      14. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Þátttaka Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins og lögbærra landsyfirvalda í rannsókn máls.

                      Rannsóknarnefnd samgönguslysa skal bjóða Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins og hlutaðeigandi lögbærum landsyfirvöldum í EASA-ríkjunum, svo fremi sem fyrirséð er að engir hagsmunaárekstrar séu fyrir hendi, að tilnefna fulltrúa til þátttöku:
              a.      sem ráðgjafa stjórnanda rannsóknar í rannsókn mála skv. 1. og 2. mgr. 11. gr. sem framkvæmdar eru á íslensku yfirráðasvæði eða á þeim stað sem um getur í 2. mgr. 11. gr. undir stjórn og ákvörðunarvaldi stjórnanda rannsóknar,
              b.      sem ráðgjafa til að aðstoða trúnaðarfulltrúa EASA-ríkis við rannsókn sem fram fer í þriðja ríki.
                      Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins og lögbær landsyfirvöld skulu styðja við rannsóknina sem þau taka þátt í með því að útvega láta rannsóknarnefndinni í té umbeðnar upplýsingar, ráðgjafa og búnað.
                      Rannsóknarnefnd samgönguslysa er heimilt að veita yfirvöldum í eftirtöldum ríkjum rétt til að tilnefna trúnaðarfulltrúa, einn eða fleiri, til þátttöku í rannsókn máls:
              a.      þar sem loftfar er skráð,
              b.      þar sem flugrekandi/umráðandi loftfars hefur höfuðstöðvar eða aðalaðsetur,
              c.      þar sem loftfar er hannað,
              d.      þar sem loftfar er framleitt.
                      Skal slíkum fulltrúa heimill aðgangur að rannsókn, vettvangi, rannsóknargögnum og upplýsingum og gefinn kostur á að koma á framfæri tillögum í þágu rannsóknar. Skal ráðgjöfum, sbr. 1. mgr., og trúnaðarfulltrúum, sbr. 3. mgr., heimill aðgangur að rannsókn, vettvangi, rannsóknargögnum, taka þátt í aflestri á uppteknu efni, að undanskildum hljóðritunum og myndupptökum í stjórnklefa, og taka þátt í rannsóknarstarfsemi sem ekki á sér stað á slysstað, svo sem athugunum, prófunum, hermun og tæknilegum kynningum, nema þegar verið er að ákvarða orsakir eða setja fram öryggistilmæli. Jafnframt skal veita rétt til að kalla til ráðgjafa, einn eða fleiri, til aðstoðar trúnaðarfulltrúanum.
                      Ákveði skráningarríki loftfars eða ríki flugrekanda/umráðanda að tilnefna ekki fulltrúa er rannsóknarnefndinni heimilt að bjóða viðkomandi flugrekanda/umráðanda loftfars að taka þátt í rannsókn.
                      Ákveði ríki þess sem hannar loftfarið og ríki framleiðanda að tilnefna ekki fulltrúa er rannsóknarnefndinni heimilt að bjóða þeim aðila sem annaðist tegundarvottun og lokasamsetningu/framleiðslu hreyfils/loftskrúfu og hluta loftfars að taka þátt í rannsókn.
                      Telji rannsóknarnefnd það vera rannsókn máls til framdráttar skal henni heimilt að bjóða einnig ríki þar sem loftfar var hannað eða framleitt þátttöku í rannsókn.
                      Öðrum ríkjum sem samkvæmt beiðni rannsóknarnefndar veita upplýsingar, aðstoð, aðstöðu eða sérfræðiþekkingu í þágu rannsóknar máls eða eru ríki samstarfsaðila flugrekanda á grundvelli náins samstarfs/bandalags eða notkunar sameiginlegs bókunarnúmers, er heimilt að tilnefna þar til bæran fulltrúa til þátttöku í rannsókn. Rannsóknarnefndinni skal heimilt að takmarka upplýsingagjöf og þátttöku við þau málefni sem aðstoð lýtur að.
                      Ráðgjafar, sbr. 1. mgr., trúnaðarfulltrúar, sbr. 3. mgr., og fulltrúar annarra ríkja og/eða fyrirtækja, sbr. 5.–8. og 10. mgr., skulu bundnir þagnarskyldu um framgang og niðurstöður rannsóknar, nema rannsóknarnefnd leysi þá undan slíkri þagnarskyldu sérstaklega.
                      Erlendum ríkjum sem hafa sérstakan áhuga á rannsókn máls þar sem ríkisborgarar þess hafa látist eða slasast alvarlega í slysi er rannsókn lýtur að skal heimilt að tilnefna þar til bæran fulltrúa til að heimsækja vettvang, fá aðgang að grunnupplýsingum, taka þátt í að bera kennsl á þá látnu, taka skýrslur af ríkisborgurum sínum sem eftir lifa og fá eintak af lokaskýrslu nefndarinnar. Sé stór hluti farþega sem slasast alvarlega eða lætur lífið erlendir ríkisborgarar skal rannsóknarnefnd heimilt að bjóða því ríki eða ríkjum þátttöku í rannsókn máls.
     g.      Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
                  1.      E-liður 1. mgr. orðast svo: upptökum af samskiptum og fjarskiptum á vinnustað flugumferðarstjóra eða endurriti af slíkum samskiptum, þ.m.t. skýrslum og niðurstöðum sem eru til innri nota.
                  2.      J-liður 1. mgr. orðast svo: öðrum skýrslum, yfirlýsingum, frásögnum og athugasemdum sem rannsóknarnefnd skráir við rannsókn máls eða móttekur, þ.m.t. upplýsingu, og sönnunargögnum sem lögbær landsyfirvöld eða Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins afla.
     h.      Í stað tilvísunarinnar „b–i-lið“ í 1. málsl. 28. gr. laganna kemur: b–j-lið.
     i.      Við 2. mgr. 41. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Brot gegn þagnar- eða trúnaðarskyldum skv. 9. mgr. 14. gr., 2. mgr. 18. gr., 3. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 33. varðar sektum.

261. gr.

Breyting á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991.

    3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna fellur brott.

262. gr.

Breyting á lögum um friðhelgi og forréttindi alþjóðstofnana, nr. 98/1992.

    Á eftir 1. gr. laganna kemur ný grein, 1. gr. a, svohljóðandi:
    Laun og launatengdar greiðslur embættismanna og starfsmanna stofnana Evrópusambandsins njóta skattfrelsis hér á landi, þ.m.t. eftirlaun og greiðslur til eftirlifandi maka og barna.

263. gr.

Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

    Á eftir 1. málsl. 2. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um eftirlaun og örorkulífeyri sem greidd eru þeim sem starfað hafa hjá stofnunum Evrópusambandsins auk dánarbóta vegna þeirra sem greiddar eru til eftirlifandi maka og barna.

264. gr.

Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Á tímabilinu 1. júlí 2021 til og með 31. desember 2026 skal endurgreiða 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið við innflutning eða fyrstu sölu nýs loftfars, hreyfils eða loftskrúfu sem nýtir rafmagn sem aðalorkugjafa. Jafnframt skal á sama tímabili endurgreiða 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið við innflutning og fyrstu sölu notaðs loftfars, hreyfils eða loftskrúfu sem nýtir rafmagn sem aðalorkugjafa enda sé loftfarið þriggja ára eða yngra á innflutningsdegi og söludegi miðað við fyrstu skráningu og hreyfill eða loftskrúfa þriggja ára eða yngri á innflutningsdegi eða söludegi.
    Skilyrði fyrir endurgreiðslu skv. 1. mgr. er að loftfar, hreyfill og loftskrúfa hafi hlotið tegundarvottorð, takmarkað tegundarvottorð eða flugleyfi sem Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins hefur gefið út eða Samgöngustofa metið gilt.
    Endurgreiðsla skal fara fram innan 30 daga frá því umsókn barst Skattinum. Endurgreiðsluheimild samkvæmt ákvæði þessu nær ekki til þess virðisaukaskatts sem aðili getur talið til innskatts eftir ákvæðum 15. og 16. gr. þessara laga.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd endurgreiðslu samkvæmt ákvæði þessu.

265. gr.

Breytingar á tollalögum, nr. 88/2005.

     a.      Í stað orðsins „flugvéla“ í 9. tölul. 1. mgr. 7. gr., 2. tölul. 1. mgr. 98. gr., 1. og 2. tölul. 1. mgr. 195. gr. laganna og ákvæði til bráðabirgða XVI í lögunum kemur: flugfara.
     b.      Í stað orðsins „herflugvéla“ í 1. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 195. gr. laganna kemur: herflugfara.
     c.      Í stað orðsins „Flugumferðarstjórn“ í 2. mgr. 51. gr. laganna kemur: Rekstraraðili flugleiðsöguþjónustu.
     d.      Í stað orðsins„einkaflugvéla“ í 2. málsl. 1. mgr. 51. gr. a laganna kemur: einkaflugfara.
     e.      2. málsl. 54. gr. laganna orðast svo: Flugför skulu afgreidd þar á flugvelli sem tollyfirvöld ákveða í samráði við rekstraraðila flugvallar.
     f.      Í stað orðsins „loftferðaskírteini“ í 67. gr. laganna kemur: lofthæfivottorð.
     g.      Fyrirsögn 68. gr. laganna orðast svo: Herskip og herflugför.
     h.      Í stað orðanna „hafnar- eða flugvallaryfirvöld“ í 3. málsl. 165. gr. laganna kemur: hafnaryfirvöld og rekstraraðila flugvallar.

266. gr.

Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993.

    Í stað orðsins „flugvélar“ í 1. mgr. 17. gr. laganna kemur: loftför.

267. gr.

Breyting á lögum um tóbaksvarnir nr. 6/2002.

    Í stað orðsins „flugvéla“ í 2. mgr. 13. gr. laganna kemur: loftfara.

268. gr.

Breyting á lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011.

    Í stað orðsins „flugvéla“ í 2. og 3. mgr. 1. gr. laganna kemur: loftfara.

269. gr.

Breyting á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015.

    Í stað orðsins „flugvélar“ í 1. mgr. 46. gr. laganna kemur: loftför.

270. gr.

Breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

    Í stað orðanna „flugvélar“ í c-lið og „flugvél“ í g-lið 2. mgr. 99. gr. laganna kemur: loftfars; og: loftfar.

271. gr.

Breyting á lögum um vátryggingarstarfsemi, nr. 100/2016.

    Í orðanna „flugvélar“ í 4. mgr. 149. gr. og „flugvéla“ í 8. mgr. 149. gr. og 6. mgr. 161. gr. laganna kemur: loftfars; og: loftfar.

272. gr.

Breyting á lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996.

    Í stað orðsins „flugvéla“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: loftfara.

273. gr.

Breyting á lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007.

    5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Lög um loftferðir, X. kafli.

274. gr.

Breyting á lögum um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 52/2006.

    14. gr. laganna orðast svo:
    Landhelgisgæsla Íslands fer með stjórnun leitar, aðstoð og björgun loftfars sem saknað er, hlekkst hefur á eða farist á leitar- og björgunarsvæði Íslands, eins og það er skilgreint vegna loftfara, á og yfir hafinu. Landhelgisgæslan fer með ábyrgð á vettvangsstjórnun ef loftfar finnst á og/eða í hafi.

275. gr.

Breytingar á lögum um aðför, nr. 90/1989.

     a.      Við 1. mgr. 42. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef fjárnám er gert í loftfarshlut, þ.e. flugskrokk, hreyflum loftfara eða þyrlu, sem fellur undir lög um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingaréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara, skal fjárnám aðeins ná til þess loftfarshlutar sem réttindi lúta að en falli loftfar utan gildissviðs þeirra laga telst það, ef annað er ekki tekið fram, einnig ná til fylgifjár loftfars, jafnt þess sem þegar er fyrir hendi og þess sem síðar verður til.
     b.      2. mgr. 42. gr. laganna orðast svo:
                      Fjárnám má aðeins gera í slíku fylgifé einu út af fyrir sig að ábendingu gerðarþola og með samþykki þeirra, sem að öðru leyti eiga réttindi yfir viðkomandi fasteign, skipi eða loftfari, nema fylgiféð hafi áður sérstaklega verið veðsett gerðarbeiðanda til tryggingar kröfunni og veðréttindi hans njóti verndar gagnvart þeim, sem að öðru leyti eiga réttindi yfir því, eða loftfarshlutur njóti réttarverndar samkvæmt lögum um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara.
     c.      Á eftir 51. gr. laganna kemur ný grein, 51. gr. a, svohljóðandi:
                      Í samræmi við lög um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara skulu skráningarhæf, lögbundin réttindi eða tryggingarréttindi skv. dd-lið 1. gr. Höfðaborgarsamningsins og bókun um búnað loftfara, sem stofnast hafa með aðfarargerð hér á landi, þ.e. fjárnámi, kyrrsetningu eða löggeymslu, skráð í alþjóðlega skrá í samræmi við reglur Höfðaborgarsamningsins til að þau öðlist réttarvernd gagnvart síðar skráðum réttindum.
     d.      1. og 2. mgr. 56. gr. laganna orðast svo:
                      Ef fjárnám er gert í fasteign, skrásettu skipi, loftfari, loftfarshlut eða lausafé á gerðarþoli rétt á að hafa umráð hins fjárnumda þar til nauðsyn ber til annars vegna nauðungarsölu þess nema annað leiði af reglum 2. eða 3. mgr.
                      Hafi fjárnám verið gert í fasteign, skrásettu skipi, loftfari eða loftfarshlut getur sýslumaður svipt gerðarþola umráðum hins fjárnumda að kröfu gerðarbeiðanda og falið þau öðrum manni ef sýnt þykir að brýn hætta sé á að það spillist eða rýrni í umráðum gerðarþola eða að umráð hans muni á annan hátt torvelda nauðungarsölu verulega. Gerðarþoli verður þó ekki af þessum sökum sviptur umráðum fasteignar eða þess hluta hennar þar sem hann á heimili.

276. gr.

Breytingar á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991.

     a.      4. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
                      Ef nauðungarsölu er krafist á skipi sem skráð er erlendis skulu staðfest gögn frá erlendri réttindaskrá fylgja til upplýsingar. Ef nauðungarsölu er krafist á loftfari sem skráð er erlendis eða loftfarshlut, þ.e. flugskrokk, hreyflum loftfara og þyrlu, sem fellur undir lög um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingaréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara skulu staðfest gögn frá erlendri réttindaskrá, eða ef við á, upplýsingar úr alþjóðlegu skránni um skráð lögbundin réttindi og tryggingaréttindi fylgja til upplýsingar.
     b.      Á eftir orðinu „loftförum“ í 2. mgr. 17. gr. laganna kemur: og loftfarshlutum, þ.e. flugskrokk, hreyflum loftfara og þyrlu.
     c.      Orðin „eða loftfars“ í 1. málsl. 1. mgr. 30. gr. laganna falla brott.
     d.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 30. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við um loftfar og fylgifé þess sem fellur utan gildissvið laga um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingaréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Ef almannavarnarstig er hækkað vegna farsóttar, og almannaheilbrigði krefst, er ráðherra heimilt að kveða á um tímabundnar skyldur flugrekenda/umráðanda loftfars til að tryggja sóttvarnir með reglugerð, sem hér segir:
     a.      Skyldu til að kanna að farþegi hafi fullnægt skyldu til forskráningar og hafi tilskilið vottorð eða staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu prófs gegn COVID-19 (SARS-CoV2) áður en farið er um borð í loftfar.
     b.      Skyldu til að synja farþega um flutning sem ekki getur framvísað tilskildu vottorði eða staðfestingu skv. a-lið.
     c.      Skyldu til að flytja farþega til baka til brottfararstaðar sem ekki getur framvísað tilskildu vottorði eða staðfestingu skv. a-lið við komu til landsins.
    Samgöngustofu er heimilt að leggja stjórnvaldssekt á flugrekanda/umráðanda fyrir brot gegn 1. mgr. í samræmi við 246. gr.
    Ákvæðið fellur úr gildi 31. desember 2021.


Fylgiskjal I.


Samningur um samræmingu tiltekinna reglna varðandi loftflutninga milli landa [Montreal-samningurinn].


    AÐILDARRÍKI SAMNINGS ÞESSA SEM
    VIÐURKENNA mikilvægt framlag með samningnum um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa, sem var undirritaður í Varsjá 12. október 1929, hér eftir nefndur „Varsjársamningurinn“, og öðrum skyldum gerningum til þess að samræma reglur um einkamálarétt á sviði flugmála;
    VIÐURKENNA nauðsyn þess að færa til nútímahorfs og steypa saman Varsjársamningnum og skyldum samningum;
    VIÐURKENNA mikilvægi þess að tryggð sé vernd hagsmuna neytenda með tilliti til flutninga milli landa loftleiðis og nauðsyn réttlátra bóta sem eru byggðar á meginreglunni um endurheimt;
    ÁRÉTTA að æskilegt er að þróun reksturs á sviði flutninga milli landa loftleiðis sé með skipulegum hætti og að flæði farþega, farangurs og farms sé jafnt í samræmi við meginreglur og markmið samþykktar um alþjóðleg flugmál sem var gerð í Chicago 7. Desember 1944;
    ERU FULLVISS um að sameiginlegar ráðstafanir ríkja til þess að samræma frekar og skrá skipulega tilteknar reglur um flutninga milli landa loftleiðis með nýjum samningi er vísasta leiðin til þess að ná fram réttlátum jöfnuði með tilliti til ólíkra hagsmuna;
    HAFA ORÐIÐ ÁSÁTT UM EFTIRFARANDI:

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

1.           Samningur þessi gildir um allan flutning í loftfari á farþegum, farangri og farmi milli landa gegn greiðslu. Hann gildir jafnt um ókeypis flutninga með loftförum sem flugrekandi framkvæmir.
2.           Í samningi þessum merkir flutningur milli landa flutning þar sem brottfarar- og ákvörðunarstaður, samkvæmt samningi milli viðkomandi aðila og hvort sem hlé verður á flutningi eða áframsending á sér stað eða ekki, eru annaðhvort innan landsvæða tveggja aðildarríkja eða innan landsvæðis eins aðildarríkis ef um er að ræða umsaminn viðkomustað innan landsvæðis annars ríkis, jafnvel þó að það ríki sé ekki aðildarríki. Flutningur milli tveggja staða innan landsvæðis eins samningsaðila, án þess að um umsaminn viðkomustað innan landsvæðis annars ríkis sé að ræða, er ekki flutningur milli landa í skilningi samnings þessa.
3.           Flutningur, sem nokkrir flytjendur framkvæma hver á eftir öðrum, telst, að því er samning þennan varðar, einn óslitinn flutningur ef viðkomandi aðilar hafa litið svo á að um eitt verkefni sé að ræða, hvort sem samið hafði verið um það í einum samningi eða röð samninga, og slíkur flutningur telst vera milli landa jafnvel þótt framkvæma eigi einn samning eða röð samninga alfarið innan landsvæðis sama ríkis.
4.           Samningur þessi gildir einnig um flutninga, samanber í V. kafla, með fyrirvara um þá skilmála sem þar er getið.

2. gr.

Flutningar sem ríki framkvæma og flutningur póstsendinga.

1.           Samningur þessi gildir um flutninga, sem ríki framkvæma eða lögformlegar opinberar stofnanir, að því tilskildu að þeir rúmist innan þeirra skilyrða sem mælt er fyrir um í 1. gr.
2.           Að því er varðar flutning pósts skal viðkomandi flytjandi aðeins skaðabótaskyldur gagnvart hlutaðeigandi póststjórn í samræmi við gildandi reglur um tengsl flytjenda og póststjórna.
3.           Ákvæði samnings þessa gilda ekki um flutning pósts nema að því leyti sem kveðið er á um í 2. mgr. þessarar greinar.

II. KAFLI

Skjalahald og skyldur aðila að því er varðar flutning farþega, farangurs og farms.

3. gr.

Farþegar og farangur.

1.           Þegar um ræðir farþegaflutninga skal afhenta einstaklingsbundinn eða sameiginlegan farseðil sem inniheldur upplýsingar um:
            a.      brottfarar- og ákvörðunarstað;
            b.      séu brottfarar- og ákvörðunarstaður innan landsvæðis eins aðildarríkis og einn eða fleiri umsamdir viðkomustaðir innan landsvæðis annars ríkis, að minnsta kosti einn slíkan viðkomustað.
2.           Í stað þess að afhenda farseðil, sem um getur í 1. mgr., er heimilt að beita annarri aðferð sem gerir kleift að varðveita þær upplýsingar sem koma fram í 1. mgr. Ef slíkri annarri aðferð er beitt skal flytjandinn bjóða farþega að afhenda honum skriflega yfirlýsingu um þær upplýsingar sem eru varðveittar samkvæmt fyrrnefndri aðferð.
3.           Flytjandi skal afhenda farþega farangursmiða fyrir hvern farangurshluta sem er innritaður.
4.           Afhenda skal farþega skrifleg tilkynningu þess efnis að þar sem samningur þessi er í gildi hann um og kunni að takmarka ábyrgð flytjenda að því er varðar líf- eða líkamstjón og ábyrgð vegna eyðileggingar eða hvarfs eða tjóns á fararangri og vegna tafa.
5.           Þótt ákvæðum málsgreinanna hér að framan sé eigi fylgt hefur það engin áhrif á tilvist eða gildi flutningssamningsins sem ákvæði samnings þessa gilda engu að síður um, meðal annars ákvæði um takmörkun ábyrgðar.

4. gr.

Farmur.

1.           Þegar farmur er fluttur skal afhenda fylgibréf.
2.           Heimilt er að varðveita greinargerð um fyrirhugaðan flutning með öðrum hætti sem getur komið í stað þess að afhenda sendanda farmkvittun sem gerir kleift að bera kennsl á sendinguna og heimilar aðgang að þeim upplýsingum sem koma fram í þeirri greinargerð sem er varðveitt með öðrum hætti sem fyrr greinir.

5. gr.

Efni fylgibréfs eða farmkvittunar.

    Í fylgibréfi eða farmkvittun fyrir farmi komi eftirfarandi fram:
     a.      brottfarar- og ákvörðunarstaður;
     b.      ef brottfarar- og ákvörðunarstaður eru innan landsvæðis eins aðildarríkis, en einn eða fleiri umsamdir viðkomustaðir innan landsvæðis annars ríkis, að minnsta kosti einn slíkur viðkomustaður; og
     c.      þyngd sendingar.

6. gr.

Farmgerðarskjal.

    Heimilt er að krefjast þess, ef nauðsyn ber til, að sendandi fullnægi þeirri formkröfu tollyfirvalda, lögreglu og líkra opinberra yfirvalda að afhenda skjal þar sem fram kemur um hvers kyns farm er að ræða. Að því er varðar flytjandann hefur ákvæði þetta enga skyldu eða skuldbindingu í för með sér eða ábyrgð sem má rekja til hennar.

7. gr.

Lýsing fylgibréfs.

1.           Sendandi skal fylla út fylgibréfs í þremur frumeintökum.
2.           Fyrsta eintakið skal merkt „handa flytjanda“ og skal sendandi undirrita það. Annað eintakið skal merkt „handa viðtakanda“ og skal sendandi og flytjandi undirrita það. Flytjandinn skal undirrita þriðja eintakið og afhenda sendanda eftir að farmi hefur verið veitt viðtaka.
3.           Heimilt er að prenta eða stimpla undirritun flytjanda og sendanda.
4.           Útfylli flytjandinn fylgibréf, að beiðni sendanda, skal litið svo á að flytjandinn hafi gert það fyrir hönd sendanda, nema færðar séu sönnur á annað.

8. gr.

Skjöl um böggla í mörgum stykkjum.

    Ef um fleiri en eitt stykki er að ræða:
     a.      getur farmflytjandi krafist þess að sendandi fylli út aðskilin fylgibréf;
     b.      getur sendandi krafist þess að flytjandinn afhendi aðskildar farmkvittanir þegar sá annar háttur er hafður á sem um getur í 2. mgr. 4. gr.

9. gr.

Kröfum um skjalagerð ekki fullnægt.

    Þrátt fyrir að ákvæðum 4. til 8. gr. sé ekki fylgt hefur það engin áhrif á tilvist og gildi flutningssamnings sem ákvæði samnings þessa gilda engu að síður um, meðal annars ákvæði um takmörkun ábyrgðar.

10. gr.

Ábyrgð á veittum upplýsingum í skjölum.

1.           Sendandi er ábyrgur fyrir því að upplýsingar og yfirlýsingar um farm, sem hann færir inn í fylgibréf eða eru færðar inn fyrir hans hönd, séu réttar; það sama gildir um upplýsingar og yfirlýsingar um farm sem hann lætur flytjandanum í té eða eru látnar flytjanda í té fyrir hans hönd og færa á inn í farmkvittun eða greinargerð sem er varðveitt með öðrum hætti sem um getur í 2.mgr. 4. gr. Fyrrnefnd atriði gilda einnig þegar sá aðili, sem kemur fram fyrir hönd sendanda, er einnig umboðsmaður flytjandans.
2.           Sendandi skal gera flytjanda skaðlausan vegna alls tjóns sem flytjandinn verður fyrir, eða annar aðili sem flytjandinn er ábyrgur gagnvart, sakir þess að upplýsingarnar og yfirlýsingarnar, sem sendandi lætur í té eða eru látnar í té fyrir hans hönd, eru ólögmætar, rangar eða ófullkomnar.
3.           Flytjandinn skal, með fyrirvara um ákvæði 1. og 2. mgr. þessarar greinar, gera sendanda skaðlausan vegna alls tjóns sem sendandinn verður fyrir, eða annar aðili sem sendandinn er ábyrgur gagnvart, sakir þess að upplýsingarnar og yfirlýsingarnar, sem flytjandinn færir inn, eða eru færðar inn fyrir hans hönd, í farmkvittun eða greinargerð, sem er varðveitt með öðrum hætti sem um getur í 2. mgr. 4. gr., eru ólögmætar, rangar eða ófullkomnar.

11. gr.

Sönnunargildi skjala.

1.           Fylgibréf eða farmkvittun gildir að órannsökuðu máli sem sönnun fyrir því að samningur hafi verið gerður, því að við farmi hafi verið tekið og fyrir þeim flutningsskilyrðum sem þar um getur.
2.           Yfirlýsingar í fylgibréfi eða farmkvittun um þyngd, mál og umbúðir farms sem og stykkjafjölda gilda að órannsökuðu máli sem sönnun fyrir þeim atriðum sem eru tilgreind. Yfirlýsingar um magn, rúmtak eða ástand vöru gilda hins vegar ekki sem sönnunargagn gegn flytjanda, nema að því leyti sem fram kemur í fylgibréfi eða farmkvittun að hann hafi, í viðurvist sendanda, gengið úr skugga um sannleiksgildi þeirra eða þær eiga skylt við sýnilegt ástand farmsins.

12. gr.

Réttur til að ráðstafa farmi.

1.           Sendandi hefur, með fyrirvara um þá skyldu að fullnægja öllum skuldbindingum sínum samkvæmt flutningssamningi, rétt til þess að ráðstafa farmi með því að fjarlægja hann í flughöfn sem er brottfarar- eða ákvörðunarstaður eða með því að stöðva flutning hans á leiðinni hvar sem lent er eða krefjast þess að hann verði afhentur á ákvörðunarstað eða á leiðinni öðrum aðila en þeim viðtakanda sem var upphaflega tilnefndur eða með því að krefjast þess að hann sé endursendur til flughafnar sem er brottfararstaður. Sendandi skal ekki fara með fyrrnefndan ráðstöfunarrétt þannig að flytjandinn eða aðrir sendendur verði fyrir tjóni og skal endurgreiða útlagðan kostnað sem hlýst af því að þessum rétti er beitt.
2.           Sé ógerlegt að fara að fyrirmælum sendanda skal flytjandinn tilkynna honum það án tafar.
3.           Fari flytjandinn að fyrirmælum sendanda um ráðstöfun farms án þess að krefjast þess að sá hluti fylgibréfs eða farmkvittunar fyrir farmi, sem þeim síðarnefnda er afhentur, sé lagður fram mun flytjandinn verða skaðabótaskyldur, með fyrirvara um rétt hans til bóta frá sendanda, fyrir öllu tjóni sem hver sá aðili, sem löglega hefur yfir að ráða fyrrnefndum hluta fylgibréfsins eða farmkvittunarinnar fyrir farmi, kann að verða fyrir af þeim sökum.
4.           Réttur sendanda fellur niður um leið og réttur viðtakanda hefst skv. 13. gr. Neiti viðtakandi því að taka við farmi eða ekki er unnt að ná sambandi við hann endurheimtir sendandi samt sem áður ráðstöfunarrétt sinn.

13. gr.

Afhending farms.

1.           Viðtakanda ber, nema sendandi hafi haldið fram rétti sínum skv. 12. gr., réttur til að gera kröfu, við komu farms til ákvörðunarstaðar, um að flytjandinn afhendi honum farminn gegn greiðslu tilhlýðilegra gjalda og eftir að hann hefur fullnægt flutningsskilyrðum.
2.           Flytjanda ber skylda til þess að tilkynna viðtakanda án tafar um komu farms, nema samið sé um annað.
3.           Viðurkenni flytjandi að farmur hafi glatast eða sé farmur ókominn sjö dögum eftir þann dag sem von var á honum getur viðtakandi haldið fram þeim rétti gagnvart flytjandanum sem flutningssamningurinn kveður á um.

14. gr.

Réttur sendanda og viðtakanda nýttur.

    Sendandi og viðtakandi geta hvor um sig nýtt sér allan þann rétt sem þeim ber skv. 12. og 13. gr., hvor í eigin nafni, hvort sem þeir gæta eigin hagsmuna eða hagsmuna annarra, að því tilskildu að þeir sinni þeim skyldum sem þeim ber samkvæmt flutningssamningi.

15. gr.

Tengsl sendanda og viðtakanda eða gagnkvæm tengsl þriðju aðila.

1.           Ákvæði 12., 13. og 14. gr. hafa hvorki áhrif á tengsl sendanda og viðtakanda þeirra á milli né gagnkvæm tengsl þriðju aðila sem sækja rétt sinn annaðhvort til sendanda eða viðtakanda.
2.           Ákvæðum 12., 13. og 14. gr. má aðeins breyta með sérstöku ákvæði í fylgibréfi eða farmkvittun.

16. gr.

Formkröfur tollyfirvalda, lögreglu eða annarra opinberra yfirvalda.

1.           Sendanda er skylt að láta í té þær upplýsingar og framvísa þeim skjölum sem eru nauðsynleg til þess að uppfylla formkröfur tollyfirvalda, lögreglu og annarra opinberra yfirvalda áður en unnt er að afhenda viðtakanda farm. Sendandi er skaðabótaskyldur gagnvart flytjanda vegna tjóns sem hlýst af því að slíkar upplýsingar eða skjöl vantar eða þau eru ófullkomin eða ólögmæt, nema tjónið sé af völdum flytjandans, starfsmanna hans eða umboðsmanna.
2.           Flytjanda ber ekki skylda til þess að kanna hvort fyrrnefndar upplýsingar eða skjöl séu rétt eða fullnægjandi.

III. KAFLI

Ábyrgð flytjanda og takmörk skaðabóta.

17. gr.

Farþegi lætur lífið eða meiðist – tjón á farangri.

1.           Flytjandi er skaðabótaskyldur, láti farþegi lífið eða verði fyrir líkamstjóni, aðeins ef slysið, sem olli líf- eða líkamstjóni, varð um borð í loftfari eða þegar farið var um borð eða frá borði.
2.           Flytjandi er skaðabótaskyldur, eyðileggist innritaður farangur eða glatist eða skemmist, aðeins ef sá atburður, sem olli eyðileggingunni, hvarfinu eða skemmdunum, varð um borð í loftfarinu eða meðan innritaður farangur var í vörslu flytjandans. Flytjandinn er samt sem áður ekki skaðabótaskyldur ef og að því marki sem tjónið má rekja til innbyggðs annmarka, eiginleika eða ágalla farangurs. Flytjandinn er skaðabótaskyldur ef um er að ræða óinnritaðan farangur, þar með talið persónulega muni, sé tjónið vegna mistaka hans eða starfsmanna hans eða umboðsmanna.
3.           Gangist flytjandi við því að innritaður farangur hafi glatast eða komi innritaður farangur ekki fram að tuttugu og einum degi liðnum frá þeim degi er hann hefði átt að koma fram getur farþegi haldið fram þeim rétti gagnvart flytjandanum sem flutningssamningurinn kveður á um.
4.           „Farangur“ merkir í samningi þessum, nema annað sé tilgreint, bæði innritaðan og óinnritaðan farangur.

18. gr.

Tjón á farmi.

1.           Flytjandi er skaðabótaskyldur vegna tjóns, sem verður þegar farmur eyðileggst eða glatast eða skemmist, aðeins ef sá atburður, sem olli því tjóni sem þannig varð, átti sér stað meðan á flutningi loftleiðis stóð.
2.           Flytjandinn er samt sem áður ekki skaðabótaskyldur færi hann sönnur á, og að því marki sem hann gerir svo, að eyðilegging eða hvarf eða tjón á farmi hafi orsakast af einni eða fleiri eftirtalinna ástæðna:
            a.      eðlislægum ágöllum, eiginleikum eða göllum farmsins;
            b.      gölluðum umbúðum farmsins sem aðrir en flytjandinn eða starfsmenn hans eða umboðsmenn hafa gengið frá;
            c.      stríði eða vopnuðum átökum;
            d.      aðgerðum opinberra yfirvalda í tengslum við komu, brottför eða umflutning farmsins.
3.           Undir flutning loftleiðis, í skilningi 1. mgr. þessarar greinar, fellur sá tími sem farmur er í vörslu flytjanda.
4.           Flutningur loftleiðis nær ekki til neinskonar flutnings á landi, á sjó eða innlendum vatnaleiðum sem fer fram utan flughafnar. Ef hins vegar slíkur flutningur á sér stað samkvæmt samningi um flutning loftleiðis, í þeim tilgangi að hlaða, afhenda eða áframsenda farm, er litið svo á, nema færðar séu sönnur á annað, að tjón sé vegna atburðar sem átti sér stað meðan á flutningi loftleiðis stóð. Ákveði flytjandi, án samþykkis sendanda, að annar flutningsmáti sé viðhafður allan þann tíma meðan á flutningi stendur eða hluta þess tíma í stað þess sem samningur milli aðila gerði ráð fyrir að yrði flutningur loftleiðis er litið svo á að slíkur flutningur með öðrum hætti eigi sér stað meðan á flutningi loftleiðis stendur.

19. gr.

Tafir.

    Flytjandi ber ábyrgð á tjóni af völdum tafa á flutningi farþega, farangurs eða farms í lofti. Þó verður flytjandi ekki talinn bera ábyrgð á tjóni sem orsakast vegna tafa geti hann fært sönnur á að hann og starfsmenn hans og umboðsmenn hafi viðhaft allar þær aðgerðir, sem sanngjarnt getur talist að viðhafðar séu, í því skyni að afstýra tjóni eða það hafi verið ógerlegt fyrir hann eða þá að framkvæma slíkar aðgerðir.

20. gr.

Hreinsun af áburði.

    Færi flytjandi sönnur á að sá aðili, sem krefst skaðabóta, eða sá aðili, sem hann sækir rétt sinn til, hafi valdið tjóninu eða stuðlað að því með vanrækslu eða öðrum ólögmætum athöfnum eða athafnaleysi skal bera sakir af flytjandanum, að hluta til eða að fullu, með tilliti til ábyrgðar hans gagnvart krefjanda, að því marki sem slík vanræksla eða ólögmæt athöfn eða athafnaleysi olli tjóninu eða stuðlaði að því. Geri annar aðili en farþegi bótakröfu vegna líf- eða líkamstjóns farþega skal á sama hátt bera sakir af flytjandanum, að hluta til eða að fullu, með tilliti til ábyrgðar hans, að því marki sem hann færir sönnur á að vanræksla eða ólögmæt athöfn eða athafnaleysi farþegans olli tjóninu eða stuðlaði að því. Þessi grein gildir um öll ákvæði sem fjalla um ábyrgð í samningi þessum, þar á meðal 1. mgr. 21. gr.

21. gr.

Bætur vegna líf- eða líkamstjóns.

1.           Flytjandi getur ekki útilokað eða takmarkað ábyrgð sína vegna tjóns skv. 1. mgr. 17. gr. sem er 100 000 SDR eða minna vegna hvers farþega.
2.           Flytjandi skal ekki skaðabótaskyldur vegna tjóns skv. 1. mgr. 17. gr., að því leyti sem það er meira en 100 000 SDR vegna hvers farþega, færi flytjandinn sönnur á það:
            a.      að tjónið varð ekki vegna vanrækslu eða annarrar ólögmætrar athafnar eða athafnaleysis flytjandans eða starfsmanna hans eða umboðsmanna;
            b.      að tjónið varð einvörðungu vegna vanrækslu eða annarrar ólögmætrar athafnar eða athafnaleysis þriðja aðila.

22. gr.

Mörk ábyrgðar í tengslum við tafir, farangur og farm.

1.           Þegar um ræðir tjón vegna tafa, eins og tilgreint er í 19. gr. og að því er varðar farþegaflutninga, skal ábyrgð viðkomandi flytjanda vegna hvers farþega takmörkuð við 4 150 SDR.
2.           Þegar um ræðir flutning farangurs skal ábyrgð viðkomandi flytjanda vegna eyðileggingar, hvarfs, tjóns eða tafa takmörkuð við fjárhæð sem nemur 1 000 SDR vegna hvers farþega, nema farþegi hafi, þegar innritaður farangur var afhentur flytjandanum, gefið sérstaka yfirlýsingu um hagsmuni sína sem tengdir eru afhendingu á ákvörðunarstað og greitt aukagjald sé þess krafist. Ef svo ber undir ber flytjandanum að greiða fjárhæð sem er jafnhá uppgefinni fjárhæð eða lægri, nema hann færi sönnur á að fjárhæðin sé hærri en raunverulegir hagsmunir farþega sem tengjast afhendingu á ákvörðunarstað.
3.           Þegar um ræðir flutning farms skal ábyrgð viðkomandi flytjanda vegna eyðileggingar, hvarfs, tjóns eða tafa takmörkuð við fjárhæð sem nemur 17 SDR fyrir hvert kílógramm, nema sendandi hafi, þegar böggull var afhentur flytjandanum, gefið sérstaka yfirlýsingu um hagsmuni sína sem tengjast afhendingu á ákvörðunarstað og greitt aukagjald sé þess krafist. Ef svo ber undir ber flytjandanum að greiða fjárhæð, sem er jafnhá uppgefinni fjárhæð eða lægri, nema hann færi sönnur á að fjárhæðin sé hærri en raunverulegir hagsmunir sendanda sem tengjast afhendingu á ákvörðunarstað.
4.           Ef hluti farms eyðileggst, hverfur, skemmist eða tefst eða gripur í honum skal sá þungi, sem miðað er við þegar ákveðin er sú fjárhæð sem ábyrgð flytjandans er takmörkuð við, einungis vera heildarþungi þess bögguls, eins eða fleiri, sem um ræðir. Hafi eyðilegging, tjón á eða tafir hluta farms eða grips í honum engu að síður áhrif á verðgildi annarra böggla, sem sama fylgibréf eða sama farmkvittun gildir um eða, hafi þau ekki verið gefin út, sama greinargerð, sem er varðveitt með öðrum hætti sem um getur í 2. mgr. 4. gr., skal einnig miða við heildarþunga slíks eða slíkra böggla þegar mörk ábyrgðar eru ákveðin.
5.           Ákvæði 1. og 2. mgr. þessarar greinar gilda ekki ef sönnur eru færðar á að tjónið sé vegna athafnar eða athafnaleysis flytjandans, starfsmanna hans eða umboðsmanna sem er framinn eða viðhaft í því skyni að valda tjóni eða sem rekja má til kæruleysis og viðkomandi hefði mátt vita að tjón myndi sennilega hljótast af slíkri athöfn eða athafnaleysi; sá fyrirvari er þó á að þegar um ræðir slíka athöfn eða athafnaleysi starfsmanns eða umboðsmanns séu einnig færðar sönnur á að umræddur starfsmaður eða umboðsmaður hafi verið að verki á vettvangi starfs síns.
6.           Þau mörk, sem mælt er fyrir um í 21. gr. og í þessari grein, skulu ekki koma í veg fyrir að dómstóllinn úrskurði aukinheldur, í samræmi við lög sín, um kostnað vegna málflutnings og annan málskostnað, allan eða að hluta, sem stefnandi hefur lagt í, þar með talda vexti. Ákvæðið hér að framan gildir ekki ef dæmdar skaðabætur, að undanskildum kostnaði vegna málflutnings og öðrum málskostnaði, eru ekki hærri en sú fjárhæð sem flytjandinn hefur boðið stefnanda skriflega innan sex mánaða frá þeim degi er sá atburður varð sem leiddi til tjónsins eða áður en lögsókn er hafin, ef það gerist síðar.

23. gr.

Umreikningur eininga gjaldmiðla.

1.           Líta ber svo á að með þeim fjárhæðum sem gefnar eru upp í SDR í samningi þessum sé átt við sérstök dráttarréttindi samkvæmt skilgreiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Umreikningur fjárhæða í innlenda gjaldmiðla skal, þegar um ræðir málarekstur fyrir dómstólum, fara fram miðað við verðgildi slíkra gjaldmiðla í sérstökum dráttarréttindum daginn sem dómur er kveðinn upp. Reikna ber út í SDR-verðgildi innlends gjaldmiðils aðildarríkis, sem á aðild að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, samkvæmt matsaðferðinni sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beitir, svo gott sem daginn sem dómur er kveðinn upp, vegna meðferðar hans og yfirfærslu. Reikna ber út í SDR-verðgildi innlends gjaldmiðils aðildarríkis, sem ekki á aðild að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, með þeim hætti sem það aðildarríki ákveður.
2.           Þau ríki, sem eiga ekki aðild að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ef löggjöf þeirra heimilar ekki að ákvæðum 1. mgr. þessarar greinar sé beitt, geta, engu að síður, lýst því yfir, samhliða fullgildingu eða aðild eða hvenær sem er eftir það, að ábyrgð flytjanda, sem mælt er fyrir um í 21. gr., sé takmörkuð við 1 500 000 einingar gjaldmiðla vegna hvers farþega í málarekstri fyrir dómstóli á landsvæðum þeirra, 62 500 einingar gjaldmiðla vegna hvers farþega að því er varðar 1. mgr. 22. gr., 15 000 einingar gjaldmiðla vegna hvers farþega með tilliti til 2. mgr. 22 gr. og 250 einingar gjaldmiðla fyrir hvert kílógramm með tilliti til 3. mgr. 22. gr. Fyrrnefnd eining gjaldmiðils svarar til 65,5 millígramma gulls að hreinleika 900/1000. Heimilt er að umreikna þessar fjárhæðir í viðeigandi innlendan gjaldmiðil í rúnnuðum tölum. Umreikningur þessara fjárhæða í innlendan gjaldmiðil skal gerður samkvæmt lögum viðkomandi ríkis.
3.           Útreikningurinn, sem um getur í síðasta málslið 1. mgr. þessarar greinar, og umreikningurinn, sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar, skulu gerðir þannig að fram komi, í innlendum gjaldmiðli viðkomandi aðildarríkis og eins og frekast er unnt, hið sama raunverulega verðgildi, að því er varðar fjárhæðirnar í 21. og 22. gr., og myndi fást ef ákvæðum þriggja fyrstu málsliða 1. mgr. þessarar greinar yrði beitt. Aðildarríkin skulu tilkynna vörsluaðilanum um hvaða reikningsaðferð er beitt samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar eða um niðurstöðu umreikninganna í 2. mgr. þessarar greinar, eftir því sem við á, er þau afhenda skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki samnings þessa eða aðild að honum og í hvert sinn er breyting verður á hvorri sem er.

24. gr.

Endurskoðun takmarka.

1.           Vörsluaðili skal, á fimm ára fresti og með fyrirvara um ákvæði 25. gr. samnings þessa og 2. mgr. hér að aftan, endurskoða mörk ábyrgðar sem mælt er fyrir um í 21., 22. og 23. gr. og skal fyrsta endurskoðun fara fram í lok fimmta árs frá þeim degi er samningur þessi öðlaðist gildi eða, öðlist samningurinn ekki gildi innan fimm ára frá þeim degi er hann liggur fyrst frammi til undirritunar, áður en fyrsta árið, sem hann er í gildi, er á enda með skírskotun til verðbólgustuðuls sem svarar til uppsafnaðs verðbólguhraða síðan síðasta breyting var gerð eða, ef um fyrstu breytingu er að ræða, síðan samningurinn öðlaðist gildi. Mæling verðbólguhraða, sem nota á til þess að ákvarða verðbólgustuðulinn, skal vera vegið meðaltal árlegra hækkunar- eða lækkunarstiga neysluverðsvísitölu þeirra aðildarríkja sem eiga þá gjaldmiðla sem mynda sérstöku dráttarréttindin sem um getur í 1. mgr. 23. gr.
2.           Leiði endurskoðunin, sem um getur í málsgreininni hér að framan, í ljós að verðbólgustuðullinn hafi farið yfir tíu af hundraði skal vörsluaðili tilkynna aðildarríkjum um að mörkum ábyrgðar verði breytt. Allar þess háttar breytingar skulu koma til framkvæmda sex mánuðum eftir að aðildarríkjunum er tilkynnt um þær. Bóki meirihluti aðildarríkjanna andmæli sín innan þriggja mánaða eftir að þeim er tilkynnt um breytingar skulu þær ekki koma til framkvæmda og vörsluaðili vísa málinu til fundar aðildarríkjanna. Vörsluaðili skal án tafar tilkynna öllum aðildarríkjum um það þegar breytingar koma til framkvæmda.
3.           Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þessarar greinar skal ávallt beita málsmeðferðinni, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. þessarar greinar, að því tilskildu þó að þriðjungur aðildarríkjanna láti í ljós ósk sína í þá veru og með því skilyrði að verðbólgustuðullinn, sem um getur í 1. mgr., hafi farið upp fyrir 30 af hundraði síðan síðasta breyting var gerð eða síðan samningur þessi öðlaðist gildi, sé ekki um fyrri breytingu að ræða. Endurskoðun, þar sem stuðst er við þá aðferð, sem er lýst í 1. mgr. þessarar greinar, mun síðar meir fara fram á fimm ára fresti, í fyrsta sinn í lok fimmta árs frá dagsetningu endurskoðunar samkvæmt þessari málsgrein.

25. gr.

Skilmálar um takmörk.

    Flytjanda er heimilt að fastsetja að í flutningssamningi sé fyrirvari um hærri mörk ábyrgðar en kveðið er á um í samningi þessum eða alls engin mörk ábyrgðar.

26. gr.

Ógild samningsákvæði.

    Öll samningsákvæði, þar sem tilhneiging er til þess að leysa flytjanda undan ábyrgð eða ákveða lægri mörk en mælt er fyrir um í samningi þessum, skulu ógild þó að í ógildingu allra slíkra samningsákvæða felist ekki ógilding alls samningsins sem ákvæði samnings þessa gilda eftir sem áður um.

27. gr.

Frelsi til samningsgerðar.

    Ekkert í samningi þessum skal koma í veg fyrir að flytjandi geti neitað að gera flutningssamninga, að hann geti afsalað sér vörnum samkvæmt samningi þessum eða að hann mæli fyrir um skilyrði sem ganga ekki gegn ákvæðum hans.

28.

Fyrirframgreiðslur.

    Leiði flugslys til líf- eða líkamstjóns farþega skal viðkomandi flytjandi, kveði innlend lög í landi hans um það, inna af hendi fyrirframgreiðslu án tafar til einstaklings eða einstaklinga, sem ber réttur til þess að krefjast skaðabóta, í því skyni að koma til móts við aðkallandi efnahagslegar þarfir slíkra einstaklinga. Í slíkum fyrirframgreiðslum felst ekki viðurkenning ábyrgðar og heimilt er að vega þær á móti fjárhæðum sem flytjandinn greiðir síðar sem skaðabætur.

29. gr.

Grundvöllur bótakrafna.

    Að því er varðar flutning farþega, farangurs og farms er einungis unnt að höfða skaðabótamál, án tillits til málsástæðna og hvort sem það er reist á samningi þessum eða flutningssamningi eða skaðabótarétti eða á öðru, með hliðsjón af skilyrðum og þeim mörkum ábyrgðar, sem eru sett fram í samningi þessum, án tillits til þess hverjir hafa rétt til þess að höfða mál og hver réttur hvers og eins er. Með slíkri málshöfðun skal eigi unnt að fá dæmdar skaðabætur til fælingar eða aðrar bætur sem eru ekki eiginlegar skaðabætur.

30. gr.

Starfsmenn, umboðsmenn – Uppsöfnun krafna.

1.           Sé mál höfðað gegn starfsmanni eða umboðsmanni flytjanda vegna tjóns, sem samningur þessi fjallar um, skal fyrrnefndum starfsmanni eða umboðsmanni heimilt að bera fyrir sig þær ábyrgðarleysisástæður og takmarkanir á ábyrgð sem flytjanda sjálfum er heimilt að bera fyrir sig samkvæmt samningi þessum, geti þeir sannað að þeir hafi framkvæmt störf sín innan verksviðs síns.
2.           Heildarfjárhæð, sem unnt er að fá flytjanda, starfsmenn hans eða umboðsmenn dæmda til þess að greiða í fyrrnefndu tilviki, skal vera innan fyrrnefndra marka.
3.           Ákvæði 1. og 2. mgr. þessarar greinar gilda ekki nema með tilliti til flutnings farms ef sannað er að tjónið hafi orðið vegna athafnar eða athafnaleysis starfsmannanna eða umboðsmannanna sem er framinn eða viðhaft í því skyni að valda tjóni eða sem rekja má til gáleysis og viðkomandi hefði mátt vita að tjón myndi sennilega hljótast af slíkri athöfn eða athafnaleysi.

31. gr.

Kvörtun borin fram í tæka tíð.

1.           Taki aðili, sem afhenda ber innritaðan farangur eða farm, við farangri eða farmi án þess að bera fram kvörtun gildir það að órannsökuðu máli sem sönnun fyrir því að hann hafi verið afhentur í góðu ástandi og í samræmi við farseðil eða greinargerð sem er varðveitt með öðrum hætti og um getur í 2. mgr. 3. gr. og 2.mgr. 4. gr.
2.           Verði tjón ber viðtakanda að bera fram kvörtun við flytjandann jafnskjótt og þess verður vart og eigi síðar en sjö dögum eftir að tekið er við innrituðum farangri og fjórtán dögum ef um farm er að ræða. Ef um töf er að ræða skal bera fram kvörtun áður en tuttugu og einn dagur er liðinn frá því að farangur eða farmur var til taks fyrir viðtakanda.
3.           Kvartanir skal bera fram eða senda skriflega og áður en liðnir eru þeir tímafrestir sem að framan greinir.
4.           Sé krafa ekki borin fram áður en liðnir eru þeir tímafrestir sem að framan greinir fær málshöfðun ekki staðist gegn flytjanda, nema hann hafi farið sviksamlega að ráði sínu.

32. gr.

Andlát skaðabótaskylds aðila.

    Falli skaðabótaskyldur aðili frá fær málshöfðun staðist, samkvæmt skilmálum samnings þessa, gegn þeim sem fer með dánarbú hans lögum samkvæmt.

33. gr.

Lögsaga dómstóla.

1.           Skaðabótamál skal höfða, að vali stefnanda, á landsvæði eins aðildarríkis samnings þessa, annað hvort fyrir dómstóli þar sem flytjandinn á lögheimili eða þar sem hann hefur aðalskrifstofu sína eða útibú, sem gerði samninginn fyrir hans hönd, eða fyrir dómstóli á ákvörðunarstað.
2.           Heimilt er, að því er varðar skaðabætur vegna líf- eða líkamstjóns farþega, að höfða mál fyrir einum þeirra dómstóla sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar eða á landsvæði aðildarríkis samnings þessa þar sem farþeginn hafði aðalaðsetur og fasta búsetu þegar slysið varð og þangað og þaðan sem flytjandinn framkvæmir farþegaflutninga í lofti, annaðhvort með sínum eigin loftförum eða loftförum annars flytjanda samkvæmt viðskiptasamningi, og þar sem fyrrnefndur flytjandi stjórnar starfsemi sinni á sviði farþegaflutninga í lofti frá starfsstöð sem hann leigir eða á sjálfur eða annar flytjandi sem hann hefur viðskiptasamning við.
3.           Að því er varðar 2. mgr. merkir:
            a.      „viðskiptasamningur“ samning, sem ekki er umboðssamningur, gerður milli flytjenda og varðar sameiginlega þjónustu sem þeir veita á sviði farþegaflutninga í lofti;
            b.      „aðalaðsetur og föst búseta“ eitt fast og varanlegt heimili sem farþegi hefur þegar slys verður. Þjóðerni farþega skal ekki vera ákvörðunarástæða í þessu samhengi.
4.           Leysa skal úr öllum réttarfarságreiningi samkvæmt lögum þess ríkis þar sem mál er höfðað.

34. gr.

Gerðardómur.

1.           Aðilum að samningi um flutning farms er heimilt, samkvæmt ákvæðum samnings þessa, að mæla fyrir um að deila, sem snýst um ábyrgð flytjanda samkvæmt samningi þessum, skuli lögð fyrir gerðardóm til úrlausnar. Slíkt samkomulag skal vera skriflegt.
2.           Gerðardómsmeðferð skal, að vali kröfuhafa, fara fram innan einhverrar þeirrar lögsögu sem um getur í 33. gr.
3.           Gerðardómsmaður eða gerðardómurinn skal beita ákvæðum samnings þessa.
4.           Líta ber svo á að ákvæði 2. og 3. mgr. þessarar greinar séu hluti af sérhverju gerðardómsákvæði eða -samkomulagi og sérhver áskilnaður í slíku gerðardómsákvæði eða samkomulagi, sem brýtur í bága við fyrrnefnd ákvæði, skal ógildur vera.

35. gr.

Frestur til málshöfðunar.

1.           Réttur til að höfða skaðabótamál fellur niður sé mál ekki höfðað innan tveggja ára frá komu loftfars til ákvörðunarstaðar eða frá þeim degi er loftfarið skyldi koma þangað eða frá þeim degi er flutningur stöðvaðist.
2.           Beita ber lögum þess ríkis, þar sem skaðabótamál er höfðað, þegar ákveða á aðferð til þess að reikna út fyrrnefndan frest.

36. gr.

Gagnfær flutningur.

1.           Ef fleiri flytjendur en einn eiga hver á eftir öðrum að framkvæma flutning, sem fellur undir skilgreininguna sem er sett fram í 3. mgr. 1. gr., skal hver flytjandi fylgja reglunum, sem eru settar fram í samningi þessum, er hann tekur við farþegum, farangri eða farmi og skal litið á hann sem einn aðila að flutningssamningnum að því marki sem samningurinn varðar þann hluta flutningsins sem honum ber að framkvæma.
2.           Ef um slíkan flutning er að ræða getur farþegi, eða þeir sem taka við rétti hans til skaðabóta, einungis beint kröfum sínum að þeim flytjanda sem annaðist flutninginn þegar slysið eða töfin varð, enda hafi sá flytjandi, sem annaðist upphafsáfanga flutningsins, eigi tekið á sig ábyrgð á flutningnum á leiðarenda með sérstökum samningi.
3.           Að því er varðar farangur eða farm getur farþegi eða sendandi þó jafnan beint kröfum sínum að þeim flytjanda. sem annaðist upphafsáfanga flutningsins, og sá sem rétt á til afhendingar farangurs eða farms getur jafnan beint kröfum sínum að þeim flytjanda sem tók að sér lokaáfanga flutningsins og að auki geta aðilar beint kröfum sínum að þeim flytjanda sem annaðist flutninginn þegar eyðilegging, hvarf, tjón eða töf varð. Flytjendur þessir eru ábyrgir, sameiginlega eða hver fyrir sig, gagnvart farþega eða gagnvart sendanda eða viðtakanda.

37. gr.

Endurkröfuréttur á hendur þriðju aðilum.

    Ekkert í samningi þessum skal koma í veg fyrir að aðili, sem á rétt á skaðabótum samkvæmt ákvæðum hans, eigi endurkröfurétt á hendur hvaða þriðja aðila sem er.

IV. KAFLI

Fjölþátta flutningur.

38. gr.

Fjölþátta flutningur.

1.           Þegar um ræðir fjölþátta flutning, sem fer fram að nokkru leyti með loftfari og að nokkru leyti með öðru flutningstæki, skulu ákvæði samnings þessa, með fyrirvara um 4. mgr. 18. gr., einungis taka til þess hluta flutnings sem fer fram í lofti, að því tilskildu að sá flutningur í lofti, sem um er að ræða, fullnægi skilmálum 1. gr.
2.           Þegar um ræðir fjölþátta flutninga skal ekkert í samningi þessum koma í veg fyrir að aðilar setji skilmála inn í viðeigandi skjal um flutning í lofti sem eiga við um aðrar tegundir flutnings, að því tilskildu að ákvæðum samnings þessa sé hlítt að því er varðar flutning í lofti.

V. KAFLI

Flutningur loftleiðis sem annar en samningsbundni flytjandinn framkvæmir.

39. gr.

Samningsbundinn flytjandi – flytjandi í raun.

    Ákvæði þessa kafla gilda þegar aðili (hér á eftir nefndur „samningsbundinn flytjandi“) gerir, sem ábyrgðaraðili, flutningssamning, samkvæmt ákvæðum samnings þessa, við farþega eða sendanda eða við aðila, sem er í fyrirsvari fyrir farþegann eða sendandann, og annar aðili (hér á eftir nefndur „flytjandi í raun“) framkvæmir allan eða hluta flutnings í umboði samningsbundna flytjandans en er ekki, að því er slíkan hluta varðar, flytjandi sem framkvæmir gagnfæran flutning í skilningi samnings þessa. Gera skal ráð fyrir að um slíkt umboð sé að ræða nema sannað sé hið gagnstæða.

40. gr.

Ábyrgð samningsbundins flytjanda og flytjanda í raun hvors um sig.

    Framkvæmi flytjandi í raun allan eða hluta flutnings, það er flutning sem samningur þessi gildir um samkvæmt flutningssamningnum sem um getur í 39. gr., skulu ákvæði samnings þessa gilda um bæði samningsbundna flytjandann og flytjandann í raun, nema kveðið sé á um annað í þessum kafla, hinn fyrrnefnda að því er varðar allan flutninginn sem fjallað er um í flutningssamningnum og hinn síðarnefnda einungis að því er varðar þann flutning sem hann framkvæmir.

41. gr.

Sameiginleg ábyrgð.

1.           Líta ber svo á að athöfn eða athafnaleysi flytjanda í raun og starfsmanna hans og umboðsmanna sem er innan verksviðs þeirra sé einnig athöfn eða athafnaleysi samningsbundna flytjandans að því er varðar flutning sem flytjandinn í raun framkvæmir.
2.           Líta ber svo á að athöfn eða athafnaleysi samningsbundins flytjanda og starfsmanna hans og umboðsmanna sem er innan verksviðs þeirra sé einnig athöfn eða athafnaleysi flytjandans í raun, að því er varðar flutning sem flytjandinn í raun framkvæmir. Engin slík athöfn eða athafnaleysi skal samt sem áður gera flytjandann í raun skaðabótaskyldan umfram þær fjárhæðir sem um getur í 21., 22., 23. og 24. gr. Allir sérsamningar þar sem samningsbundni flytjandinn tekst skyldur á herðar sem samningur þessi kveður ekki á um eða fellur frá réttindum eða vörnum sem samningur þessi heimilar eða sérhver yfirlýsing um hagsmuni sem tengjast afhendingu á ákvörðunarstað, sem fjallað er um í 22. gr., skulu ekki binda flytjanda í raun nema hann hafi samþykkt það sérstaklega.

42. gr.

Viðtakandi kvartana og fyrirmæla.

    Kvartanir, bornar fram við flytjanda eða fyrirmæli honum gefin samkvæmt samningi þessum, skulu hafa sömu þýðingu hvort sem þeim er beint til samningsbundna flytjandans eða flytjanda í raun. Fyrirmæli, sem um getur í 12. gr., skulu hins vegar því aðeins gild að þeim sé beint til samningsbundna flytjandans.

43. gr.

Starfsmenn og umboðsmenn.

    Að því er varðar flutning, sem flytjandi í raun framkvæmir, er öllum starfsmönnum eða umboðsmönnum hans eða samningsbundna flytjandans, heimilt, ef þeir sanna að þeir hafi haldið sig innan verksviðs síns, að bera fyrir sig þær ábyrgðarleysisástæður og takmarkanir á ábyrgð sem þeim flytjanda, sem þeir eru stafsmenn eða umboðsmenn hjá, er heimilt að bera fyrir sig samkvæmt samningi þessum, nema sannað sé að þeir hafi hagað sér með þeim hætti sem kemur í veg fyrir að unnt sé að skírskota til marka ábyrgðar samkvæmt samningi þessum.

44. gr.

Uppsöfnun skaðabóta.

    Að því er varðar flutning, sem flytjandi í raun framkvæmir, skulu samanlagðar bætur frá honum, samningsbundna flytjandanum og frá starfsmönnum og umboðsmönnum þeirra, sem framkvæma störf sín innan verksviðs síns, ekki verða hærri en sem nemur hæstu fjárhæð sem annaðhvort samningsbundna flytjandann eða flytjanda í raun yrði gert að inna af hendi samkvæmt samningi þessum, en engum aðila, sem um er getið, skal skylt að greiða fjárhæð yfir þeim mörkum sem um hann gilda.

45. gr.

Viðtakandi krafna.

    Stefnandi getur, að því er varðar flutning sem flytjandi í raun framkvæmir, beint bótakröfum sínum, að eigin vali, hvort sem er gegn flytjanda í raun eða samningsbundna flytjandanum, saman eða hverjum fyrir sig. Sé málið einvörðungu höfðað gegn öðrum fyrrnefndra flytjenda ber honum réttur til þess að krefjast þess að hinn flytjandinn komi einnig að meðferð þess fyrir rétti og fer slík málsmeðferð og áhrif slíkrar aðkomu eftir lögum þess ríkis þar sem mál er höfðað.

46. gr.

Viðbótarlögsaga.

    Höfða skal skaðabótamál, sem er fjallað um í 45. gr., að vali stefnanda á landsvæði einhvers aðildarríkis samnings þessa, annaðhvort fyrir dómstóli sem heimilt er að höfða mál fyrir gegn samningsbundna flytjandanum, eins og kveðið er á um í 33. gr., eða fyrir þeim dómstóli sem hefur lögsögu þar sem flytjandi í raun á lögheimili eða hefur aðalskrifstofu sína.

47. gr.

Ógilding samningsákvæða.

    Öll samningsákvæði, sem miða að því að leysa samningsbundna flytjandann eða flytjanda í raun undan ábyrgð samkvæmt þessum kafla eða að því að ákvarða lægri ábyrgðarmörk en þau sem gilda samkvæmt þessum kafla, skulu ógild, en í ógildingu sérhvers slíks ákvæðis felst ekki ógilding samningsins í heild sem ákvæði samnings þessa gilda um eftir sem áður.

48. gr.

Innbyrðis tengsl samningsbundins flytjanda og flytjanda í raun.

    Ekkert í þessum kafla hefur áhrif á réttindi og skyldur flytjendanna gagnvart hverjum öðrum, þar með talinn endurkröfurétt og rétt til skaðleysisbóta, með fyrirvara um ákvæði 45. gr.

VI. KAFLI

Önnur ákvæði.

49. gr.

Tilskilið gildissvið.

    Ógild skulu vera hvers konar ákvæði í flutningssamningi og hvers konar sérsamningar sem gerðir eru áður en tjón verður og miða að því að ganga fram hjá reglum samnings þessa varðandi þau lög sem fara skal eftir eða varðandi lögsögu.

50. gr.

Vátrygging.

    Aðildarríki samnings þessa skulu skylda flytjendur sína til þess að viðhalda fullnægjandi vátryggingu sem vegur upp ábyrgð þeirra samkvæmt samningi þessum. Aðildarríki samnings þessa getur krafið flytjanda, sem er með starfsemi á landsvæði þess, um að hann leggi fram gögn því til staðfestingar að hann viðhaldi fullnægjandi vátryggingu sem vegur upp ábyrgð hans samkvæmt samningi þessum.

51. gr.

Flutningur við óvenjulegar aðstæður.

    Ákvæði 3. til 5. gr. og 7. og 8. gr. um skjalahald í flutningum gilda ekki þegar um ræðir flutning við óvenjulegar aðstæður utan venjulegs rekstrarsviðs flytjanda.

52. gr.

Merking daga.

    Orðið „dagar“ merkir í samningi þessum almanaksdaga en ekki virka daga.

VII. KAFLI

Lokaákvæði.

53. gr.

Undirritun, fullgilding og gildistaka.

1.           Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar í Montreal 28. maí 1999 af hálfu þátttökuríkja alþjóðlegu ráðstefnunnar um flugrétt sem var haldin í Montreal 10. til 28. maí 1999. Samningurinn skal liggja frammi til undirritunar fyrir öll ríki í höfuðstöðvum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar í Montreal uns hann öðlast gildi samkvæmt ákvæðum 6. mgr. þessarar greinar.
2.           Samningur þessi skal einnig liggja frammi til undirritunar af hálfu svæðisbundinna stofnana á sviði efnahagslegs samruna. Í samningi þessum merkir „svæðisbundin stofnun á sviði efnahagslegs samruna“ stofnun sem fullvalda ríki á tilteknu svæði koma á fót og er réttbær til þess að fara með tiltekin mál sem samningur þessi fjallar um og hefur fullt umboð til þess að undirrita samning þennan, fullgilda hann, staðfesta eða samþykkja eða gerast aðili að honum. Vísun til „aðildarríkis“ eða „aðildarríkja“ í samningi þessum annars staðar en í 2. mgr. 1. gr., b-lið 1. mgr. 3. gr., b-lið 5. gr., 23., 33. og 46. gr. og b-lið 57. gr. gildir jafnt um svæðisbundna stofnun á sviði efnahagslegs samruna. Að því er varðar 24. gr. gildir vísun til „meirihluta aðildarríkjanna“ og „þriðjungs aðildarríkjanna“ ekki um svæðisbundna stofnun á sviði efnahagslegs samruna.
3.           Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu af hálfu ríkja og svæðisbundinna stofnana á sviði efnahagslegs samruna sem hafa undirritað hann.
4.           Öllum ríkjum og svæðisbundnum stofnunum á sviði efnahagslegs samruna, sem undirrita ekki samning þennan, er heimilt að staðfesta eða samþykkja samning þennan eða gerast aðili að honum hvenær sem er.
5.           Afhenda ber skjöl um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild Alþjóðaflugmálastofnuninni til vörslu sem er hér með tilnefnd vörsluaðili samningsins.
6.           Samningur þessi tekur gildi milli þeirra ríkja, sem hafa afhent skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu, á sextugasta degi eftir að þrítugasta skjalið þess efnis hefur verið afhent vörsluaðila. Skjal, sem stofnun á sviði efnahagslegs samruna afhendir til vörslu, er ómeðtalið að því er varðar þessa málsgrein.
7.           Samningur þessi tekur gildi, að því er varðar önnur ríki og aðrar stofnanir á sviði efnahagslegs samruna, sextíu dögum eftir þann dag er skjal um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild var afhent til vörslu.
8.           Vörsluaðili skal tilkynna öllum undirritunaraðilum og aðildarríkjum án tafar um:
            a.      sérhverja undirritun samnings þessa og dagsetningu hennar;
            b.      sérhverja afhendingu skjals um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild og dagsetningu hennar;
            c.      dagsetningu gildistöku samnings þessa;
            d.      dagsetningu gildistöku breyttra marka ábyrgðar sem eru ákveðin samkvæmt samningi þessum;
            e.      sérhverja uppsögn skv. 54. gr.

54. gr.

Uppsögn.

1.           Öllum aðildarríkjum er heimilt að segja upp samningi þessum með skriflegri tilkynningu til vörsluaðila.
2.           Uppsögn skal taka gildi eitthundrað og áttatíu dögum eftir þann dag er vörsluaðili tekur við tilkynningu um uppsögn.

55. gr.

Tengsl við aðra gerninga samkvæmt Varsjársamningnum.

    Samningur þessi gengur framar öllum reglum sem gilda um flutninga milli landa loftleiðis:
1.           milli aðildarríkja samnings þessa í krafti þess að þau séu almennt aðilar að:
            a.      samningnum um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa sem var undirritaður í Varsjá 12. október 1929 (hér á eftir nefndur Varsjársamningurinn);
            b.      bókuninni um breytingar á samningnum um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa, undirritaður í Varsjá 12. október 1929, sem var gerð í Haag 28. september 1955, (hér á eftir nefnd Haag-bókunin);
            c.      samningnum um samræmingu tiltekinna reglna um flutninga milli landa loftleiðis sem annar aðili en hinn samningsbundni flytjandi framkvæmir, sem er viðbót við Varsjársamninginn, sem undirritaður var í Gvadalajara 18. september 1961, (hér á eftir nefndur Gvadalajara-samningurinn);
            d.      bókuninni um breytingar á samningnum um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa, sem var undirritaður í Varsjá 12. október 1929, eins og henni var breytt með bókuninni sem var gerð í Haag 28. september 1955 og undirrituð var í Gvatemalaborg 8. mars 1971 (hér á eftir nefnd Gvatemalaborgarbókunin);
            e.      1. til 3. viðbótarbókun og 4. Montreal-bókun um breytingu á Varsjársamningnum, eins og honum var breytt með Haag-bókuninni, eða Varsjársamningnum, eins og honum var breytt með bæði Haag-bókuninni og Gvatemala-borgarbókuninni sem voru undirritaðar í Montreal 25. september 1975 (hér á eftir nefndar Montreal-bókanirnar); eða
2.           innan landsvæðis hvaða einstaka aðildarríkis samnings þessa sem er í krafti þess að viðkomandi ríki sé aðili að einum eða fleiri gerningum sem um getur í a- til e-lið hér að framan.

56. gr.

Ríki þar sem fleiri en eitt réttarkerfi eiga við.

1.           Ráði ríki yfir tveimur eða fleiri landsvæðum þar sem ólík réttarkerfi eiga við um málefni, sem samningur þessi fjallar um, er því heimilt að lýsa því yfir, við undirritun hans, fullgildingu, staðfestingu eða samþykki eða þegar það gerist aðili að honum, að samningur þessi skuli gilda á öllum landsvæðum þess eða einvörðungu á einu þeirra eða fleirum og er því enn fremur heimilt að gera breytingar á þeirri yfirlýsingu með því að senda aðra yfirlýsingu hvenær sem það kýs.
2.           Tilkynna ber um hverja slíka yfirlýsingu til vörsluaðila og taka skýrt fram á hvaða landsvæðum samningurinn gildir.
3.           Að því er varðar aðildarríki samnings þessa sem gefið hefur út slíka yfirlýsingu:
            a.      skal líta svo á að vísanir í 23. gr. til „innlendra gjaldmiðla“ eigi við gjaldmiðil viðkomandi landsvæðis þess ríkis; og
            b.      að vísanir í 28. gr. til „innlendra laga“ eigi við lög viðkomandi landsvæðis þess ríkis.

57. gr.

Fyrirvarar.

    Óheimilt er að gera fyrirvara við samning þennan með þeirri undantekningu að aðildarríki hans er hvenær sem er heimilt að lýsa því yfir, í tilkynningu til vörsluaðila, að samningur þessi gildi ekki um:
     a.      flutninga milli landa loftleiðis sem það aðildarríki framkvæmir og rekur sjálft milliliðalaust í öðrum tilgangi en viðskiptalegum eða í þeim tilgangi að gegna hlutverki sínu og skyldum sem fullvalda ríki; og/eða
     b.      flutning farþega, farms og farangurs fyrir hernaðaryfirvöld þess með loftfari, sem er skráð í því aðildarríki eða tekið á leigu af því, þar sem slík yfirvöld hafa tekið frá allt flutningsrými eða það hefur verið gert fyrir þeirra hönd.

    ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

    GJÖRT í Montreal hinn 28. maí 1999 á arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku og eru allir textar jafngildir. Samningur þessi skal varðveittur í skjalasafni Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og skal vörsluaðili senda öllum aðildarríkjum samnings þessa og öllum aðildarríkjum Varsjársamningsins, Haag-bókunarinnar, Gvadalajara-samningsins, Gvatemalaborgarbókunarinnar og Montreal-bókananna staðfest afrit af honum.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um loftferðir sem taki mið af þjóðréttarlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist, stefnu stjórnvalda á sviði flugsamgangna og stuðli að þeim markmiðum sem tiltekin eru í 1. gr. frumvarpsins.
    Þjóðréttarlegar skuldbindingar á sviði flugmála eru margvíslegar og eiga margar þeirra sér langa sögu sem samofin er þróun flugsins, öryggi og vernd, markaðsaðgangi, umhverfis- og neytendavernd. Stjórnvöld hafa á hverjum tíma lagt sig fram við að undirrita og fullgilda samninga á sviði flugsamgangna sem talið er að feli í sér bestu framkvæmd. Hafa slíkar skuldbindingar að miklu leyti verið undirstaða þeirrar löggjafar sem flugsamgöngur hafa búið við hér á landi. Á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn hér eftir) og þeirra gerða sem teknar hafa verið upp í samninginn hefur umgjörð flugs og eftirlits tekið hröðum breytingum. Er það ekki síst þess vegna sem ráðist hefur verið í endurskoðun laganna.
    Stefna stjórnvalda á sviði flugmála liggur nú fyrir í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins. Þann 29. júní 2020 samþykkti Alþingi nýja samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 og um leið nýja flugstefnu (sjá fylgiskjal II við þskj. 599, 435. mál á 150. lögþ. 2019–2020). Eins og fram kemur í greinargerð með samgönguáætlun er tilgangur með mótun stefnu í flugi að skapa umhverfi sem viðheldur grunni fyrir flugrekstur og flugtengda starfsemi á Íslandi, hvort sem er núverandi starfsemi eða nýja, og styður við vöxt hennar að því marki sem það er þjóðhagslega hagkvæmt, styður atvinnusköpun og stuðlar að jákvæðri byggðaþróun. Áherslur og verkefni til stuðnings flugstefnu birtast bæði í fimmtán ára og fimm ára samgönguáætlun undir viðeigandi lögbundnu markmiði. Góðar flugsamgöngur gegna mikilvægu hlutverki ekki aðeins hvað varðar farþegaflutninga heldur einnig í vöruflutningum. Samkvæmt grænbók um flugstefnu var framlag flugs og flugtengdrar starfsemi til vergrar landsframleiðslu metið um 13,4% árið 2017 en hefur dregist saman í kjölfar útbreiðslu COVID-19-veirunnar. Eftir sem áður skiptir flug verulegu máli fyrir hagvöxt og atvinnusköpun og er talið mikilvæg stoð í hagkerfinu.
    Frumvarp þetta er samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í samstarfi við Samgöngustofu.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1 Þjóðréttarlegar skuldbindingar.
    Núverandi löggjöf á sviði flugmála byggist að miklu leyti á þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist. Er hér bæði átt við fjölda alþjóðlegra samninga, EES-samninginn, stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (stofnsamning EFTA hér eftir) auk annarra samninga, tvíhliða og marghliða skuldbindinga.
    Í íslenskum rétti er byggt á kenningunni um tvíeðli þjóðaréttar og landsréttar. Meginreglan hefur verið sú að þjóðaréttur er ekki hluti landsréttar nema þjóðréttarákvæðin hafi sérstaklega verið leidd í lög eða ákvæðin hafi unnið sér þegnrétt þar sökum réttarvenju. Í þeim tilvikum þar sem alþjóðlegum samningum er ætlað að vera réttskapandi, þ.e. skapa bein réttaráhrif fyrir einstaklinga, er nauðsynlegt að lögfesta slík ákvæði. Þegar íslenska ríkið undirgengst þjóðréttarlega skuldbindingu felur það jafnan í sér að ríkið þarf að tryggja að framkvæmd laga að landsrétti sé í samræmi við þá skuldbindingu. Því er víða í frumvarpinu vísað til einstakra ákvæða framangreindra samninga eða samninganna sem slíkra, sem og í þeim tilvikum þegar ætlunin er að um nánari útfærslu slíkra réttinda eða skyldna fari samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.
    Eftirfarandi umfjöllun er ekki ætlað að vera tæmandi heldur fjalla um helstu þjóðréttarskuldbindingar sem frumvarpið byggist á eða vísað er til.

2.1.1. Chicago-samningurinn frá 1944.
    Frumvarpinu er ætlað að leiða í lög afmarkaðar greinar Chicago-samningsins um alþjóðaflugmál (e. Convention on international aviation) sem gerður var 7. desember 1944 og Ísland er aðili að, sbr. auglýsingu nr. 45/1947, auk þess sem tekið er tillit til þeirra breytinga á Chicago-samningnum sem Ísland hefur síðar fullgilt. Aðildarríki Chicago-samningsins voru 193 talsins þann 1. janúar 2021 og hefur samningurinn mjög sterka stöðu á heimsvísu og er almennt vísað til sem frumréttarheimildar á sviði alþjóðaflugs. Viðaukar Chicago-samningsins eru nítján og eru flestir þeirra uppfærðir mjög reglulega. Viðaukar samningsins hafa sama gildi og meginmál samningsins að þjóðarétti en aðildarríkjunum er heimilt að víkja frá ákvæðum viðaukanna, enda séu slík frávik tilkynnt ráði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar í samræmi við 38. gr. samningsins. Er frumvarpinu einnig ætlað að tryggja fullnægjandi lagastoð til innleiðingar viðaukanna í landsrétt. Umfangsins vegna er almennt miðað við að innleiðing viðaukanna fari fram í formi reglugerða eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla.
    Þær breytingar á Chicago-samningnum sem Ísland hefur fullgilt eru eftirfarandi:
     1.      Á greinum 48(a), 49(e) og 61 (frá 1954), sjá auglýsingar nr. 100/1955 og 10/1990.
     2.      Á grein 50(a) (breytingar gerðar 1971, 1974, 1990), sjá auglýsingar nr. 18/1975, 1/1988, 21/1992 og 44/2002. Unnið er að staðfestingu breytinga frá 2016 sem ekki hafa tekið gildi.
     3.      Á grein 56. (breytingar gerðar 1971, 1989), sbr. auglýsingar nr. 1/1988, 10/1990. Unnið er að staðfestingu breytinga frá 2016 sem ekki hafa tekið gildi.
     4.      Ný grein 3 bis (breyting gerð 1984, tók gildi 01.10.1998), sjá auglýsingu nr. 56/2004.
     5.      Ný grein 83 bis (breyting gerð 1980, tók gildi 20.06.1997), sjá auglýsingar nr. 10/1990 og 17/1997.
     6.      Tungumál samningsins, sbr. auglýsingar nr. 8/1979, 10/2002 (rússneska), 2/2005 (arabíska), 3/2005 (kínverska), sbr. auglýsingu nr. 6/2005. Breytingar er lúta að arabísku og kínversku hafa ekki tekið gildi.

2.1.2. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) er einn mikilvægasti viðskiptasamningur sem Ísland á aðild að og eru þær EES-gerðir á flugsviðinu sem teknar hafa verið upp í samninginn bæði margar og umfangsmiklar að efni til. Á grundvelli þeirra er þjónustufrelsi í flugsamgöngum innan svæðisins tryggt sem og samræmdar reglur á sviði flugöryggis og flugverndar. Þær efnisreglur sem EES-gerðirnar hafa að geyma byggjast að stórum hluta á alþjóðlegum samningum, svo sem einstökum viðaukum við Chicago-samninginn, ýmist þeim til frekari fyllingar eða sem sérstæð hliðsett löggjöf. Þá eru einnig dæmi þess að gerðirnar gangi mun lengra en nefndir samningar kveða á um eða víkja frá þeim.
    Samræming löggjafar á sameiginlega markaði Evrópska efnahagssvæðisins og einsleitni, ekki aðeins í löggjöf heldur einnig í framkvæmd, er undirstaða jafnrar samkeppnisstöðu fyrirtækja og einstaklinga sem á markaðnum starfa. Því er einkar mikilvægt að vel takist til í innleiðingu þeirra og á þeim sviðum þar sem um fulla samræmingu er að tefla að ekki sé bætt við viðbótarskilyrðum eða kröfum sem raski samkeppnisstöðu flugrekenda og annarra sem stunda flugtengda starfsemi hér á landi.
    EES-gerðir á sviði flugsamgangna sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn miðað við 1. september 2020 og eru í gildi eru um 220 talsins. Í flestum tilvikum er um að ræða reglugerðir, aðeins fáeinar tilskipanir halda enn velli sem og fáeinar ákvarðanir. Samkvæmt EES-samningnum ber að innleiða reglugerðir Evrópusambandsins sem reglugerðir í landrétt. Tilskipanir veita almennt meira svigrúm til forms og aðferðar. Þær breytingar sem frumvarpið leggur til miða að því að tryggja að þær gerðir sem fyrirhugað er að innleiða í landsrétt eða þegar hafa verið innleiddar hafi fullnægjandi lagastoð og að þau lögbæru stjórnvöld sem fara með verkefni og eftirlit á sviði flugmála hafi nauðsynlegar valdheimildir. Er þannig talið að stutt sé við þá stefnu stjórnvalda að tryggja flugstarfsemi hér á landi skýra lagaumgjörð, samkeppnishæfni og flugöryggi eins og best gerist.

Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, EASA.
     Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins (e. European Union Aviation Safety Agency), hér eftir EASA, er undirstofnun Evrópusambandsins og sjálfstæður lögaðili. Stofnunin var stofnuð árið 15. júlí 2002 og tók formlega til starfa árið 2003. Stofnunin er miðpunktur stefnu Evrópusambandsins á sviði flugöryggis. Aðalaðsetur hennar er í Köln í Þýskalandi en stofnunin rekur jafnframt starfsstöð í Brussel í Belgíu auk sendiskrifstofa í Bandaríkjunum, Kanada, Kína og Singapúr. Framkvæmdastjóri veitir stofnuninni forstöðu en öll aðildarríki Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna eiga fulltrúa í stjórn hennar auk fulltrúa framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. EFTA-ríkin hafa ekki atkvæðisrétt á fundum í stjórn stofnunarinnar en hafa málfrelsi og tillögurétt. Um átta hundruð manns starfa að staðaldri hjá stofnuninni. EASA er að mestu rekin af fyrir tekjur af þjónustugjöldum (64%) og fjárframlagi frá Evrópusambandinu (23%) og þeim þriðju ríkjum (EFTA-ríkjunum) sem aðild eiga að henni (2%), auk sértekna (11%). Hlutverk stofnunarinnar og sú ábyrgð sem henni hefur verið falin er margþætt eins og nánar er rakið hér á eftir.

Ný EASA-reglugerð.
    Meginþorri efnisatriða frumvarpsins á rót sína að rekja til fyrirhugaðrar upptöku og innleiðingar á reglugerð (ESB) 2018/1139 frá 4. júlí 2018 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins og um breytingu á reglugerðum (EB) nr. 2111/2005, (EB) nr. 1008/2008, (ESB) nr. 996/2010, (ESB) nr. 376/2014 og tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB og 2014/53/ESB og um niðurfellingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 og (EB) nr. 216/2008 og reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3922/91 (hér eftir reglugerð (ESB) 2018/1139 eða EASA-reglugerðin). Um er að ræða grunngerð á sviði flugöryggis, svonefnda móðurgerð, sem tók gildi 11. september 2018 innan Evrópusambandsins og stefnt er að taka upp í EES-samninginn á árinu 2021. Mun fjöldi afleiddra gerða byggja lagastoð sína á reglugerð (ESB) 2018/1139 og vísa til hennar. Leysir reglugerðin af hólmi eldri gerð auk þess að gera afmarkaðar breytingar á sex öðrum gerðum og fella niður tvær þegar innleiddar gerðir til viðbótar. Segja má að þessi EES-gerð og forverar hennar hafi ollið hvað mestum stakkaskiptum á fyrirkomulagi flugöryggismála innan Evrópska efnahagssvæðisins og Sviss (EASA-ríkjanna) á síðastliðnum árum.
    Undanfarin 20 ár hefur Evrópusambandið í síauknum mæli beitt sér fyrir samræmingu reglna á sviði flugsamgangna, einkum á sviði flugöryggis, flugverndar og neytendaverndar. Þessi þróun endurspeglast ekki síst í útvíkkun á valdsviði Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins á sviði flugöryggis, sem farið hefur fram í áföngum. Reglugerð (ESB) 2018/1139 sem nú er fyrirhugað að taka upp í EES-samninginn er þriðja kynslóð slíkrar gerðar. Reglugerðin er afrakstur heildarendurskoðunar Evrópusambandsins á eldri reglugerð sama efnis frá 2008 (og fyrirrennara frá 2002) og er hluti af heildarstefnumótun sambandsins á flugsviðinu. Reglugerðin fjallar ekki einungis um hlutverk og ábyrgð EASA, lögbærra landsyfirvalda (Samgöngustofa hér á landi) og sameiginlegar valdheimildir heldur er reglugerðin uppfærð og endurbætt lagastoð fyrir flestalla afleidda löggjöf Evrópusambandsins á sviði flugöryggis. Umfangið er mikið og spannar svo til alla þætti flugstarfsemi og tekur til bæði einstaklinga og lögaðila í almenningsflugi auk verkefna og eftirlits lögbærra stjórnvalda.
    Til þess að átta sig betur á umfangi verkefna og eftirlits á sviði flugöryggis og framsals framkvæmda- og dómsvalds á síðastliðnum árum er rétt að gera stuttlega grein fyrir þessari þróun. Fyrsta reglugerðin um öryggi í almenningsflugi og stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu (eins og stofnunin hét þá), reglugerð (EB) 1592/2002, tók gildi innan Evrópusambandsins 27. september 2002 og var innleidd í landsrétt hér á landi tæpum þremur árum síðar og tók gildi 1. júlí 2005. Í grunninn tók hún til lofthæfi, þ.e. hönnunar, framleiðslu og viðhalds framleiðsluvara, hluta og búnaðar svo og þeirra starfsmanna og fyrirtækja sem að slíkum verkefnum koma, auk starfrækslu loftfara. Með innleiðingu gerðarinnar fluttist vottun framleiðsluvara, þ.e. loftfara, hreyfla eða loftskrúfa, sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar, frá aðildarríkjum Evrópusambandsins og EFTA-ríkjunum til EASA. Samhliða komst á gagnkvæm viðurkenning þeirra vara sem féllu undir gildissvið þágildandi reglugerðar, þ.e. vottun EASA á þessum framleiðsluvörum varð forsenda fyrir frjálsri för þeirra innan Evrópska efnahagssvæðisins og víðar, þar sem fjölmörg ríki utan EASA-ríkjanna viðurkenna einhliða vottun stofnunarinnar. Að auki var EASA falið, að því er varðar framleiðsluvörur, hluti og óuppsettan búnað, sem féll undir gildissvið gerðarinnar, að annast fyrir hönd EASA-ríkjanna störf og verkefni hönnunar-, framleiðslu- og skráningarríkis samkvæmt Chicago-samningnum. Mjög takmarkaðar lagabreytingar voru gerðar á þessum tíma til undirbúnings innleiðingar gerðarinnar í landsrétt. Með lögum nr. 88/2004 til breytinga á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, var samgönguráðherra veitt heimild til að innleiða reglugerðina í einu efnisákvæði, sbr. 146. gr. laganna.
    Vöktun og eftirlit EASA, fyrir hönd framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnunar EFTA, með aðildarríkjum Evrópusambandsins og EFTA-ríkjunum á efnisþáttum reglugerðar (EB) 1592/2002 hófst skömmu eftir samþykkt nýrrar reglugerðar sama efnis um mitt ár 2006. Þá færðist SAFA-áætlunin svonefnda (úttektir á loftförum þriðju ríkja á flugvöllum innan bandalagsins) undir EASA þann 1. janúar 2007.
    Önnur kynslóð reglugerðar um öryggi í almenningsflugi og stofnun EASA, reglugerð (EB) 216/2008, tók gildi innan Evrópusambandsins 8. apríl 2008 en var innleidd í landsrétt hér á landi 8. október 2012. Með gerðinni útvíkkaði valdsvið EASA enn frekar, einkum varðandi verkefni og eftirlit í þriðju ríkjum (utan EASA-ríkjanna), svo sem á sviði skírteinamála flugliða, öryggis- og þjónustuliða, fluglækna, þjálfunarfyrirtækja og flugrekstrar auk þess sem SAFA-áætlunin (skoðanir loftfara á hlaði) var útvíkkuð til allra loftfara óháð þjóðerni. Stuttu síðar voru enn frekari breytingar gerðar á þessari annarri kynslóð grunngerðar en árið 2009 útvíkkaði gildissvið hennar til flugvalla (hönnun, viðhald og starfræksla), öryggisbúnaðar flugvalla, hlaðstjórnarþjónustu, rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu, hönnunar búnaðar, starfrækslu og viðhalds búnaðar sem notað er til síðastnefndu þjónustunnar, auk starfsfólks á því sviði. Þessi breyting tók gildi á Íslandi samhliða innleiðingu annarrar kynslóðar reglugerðarinnar 8. október 2012. Til undirbúnings innleiðingar þessara breytinga var með lögum nr. 50/2012 bætt við nýrri grein við lög um loftferðir þar sem sektarvald Eftirlitsstofnunar EFTA var lögfest með vísan til reglugerðarinnar. Að auki var nýrri málsgrein bætt við 146. gr. laganna þar sem ráðherra var heimilað að setja reglugerð til innleiðingar EES-gerða er varða verkefni stofnunarinnar.
    Frekari breytingar á annarri kynslóð reglugerðarinnar voru gerðar á vettvangi Evrópusambandsins í áföngum á árunum 2011 og 2013. Þá tók gildi ný reglugerð um vottun loftfara í flutningaflugi frá þriðju ríkjum árið 2015 innan Evrópusambandsins en var innleidd hér á landi í júlí 2017. Með henni fluttist vottun á flugöryggi loftfara frá þriðju ríkjum í flutningaflugi til EASA frá aðildarríkjum Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna. Lítilsháttar breytingar voru gerðar á annarri kynslóð reglugerðarinnar 2016 en með nýrri reglugerð á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsögu, sem tók gildi innan Evrópusambandsins 2017 en hér á landi í ágúst 2019, fluttist formlega vottun netstjórnandans (e. the network manager) til EASA.
    Þriðja kynslóð reglugerðarinnar, reglugerð (ESB) 2018/1139, tók gildi innan Evrópusambandsins 11. september 2018 og standa vonir til þess, nái frumvarp þetta fram að ganga, að hægt verði að innleiða gerðina hér á landi eins fljótt og verða má. Reglugerðin hefur að geyma margvísleg nýmæli og breytingar. Gildissvið hennar er lítillega útvíkkað frá því sem áður var og tekur nú til að mynda til ómannaðra loftfara (eldri þyngdarviðmiðun loftfara breytt), upplýsingaöryggis (netöryggis) í flugsamgöngum, eftirlits með flugafgreiðslu (þ.m.t. hlaðstjórnunarþjónustu) og vottunar og eftirlits með starfrækslu víðfeðma leiðréttingarkerfisins (EGNOS). Þá hafa ýmsar leiðréttingar verið gerðar á efni reglugerðarinnar til samræmis við aðra löggjöf Evrópusambandsins. Heimildir til eftirlits byggðar á áhættu- og frammistöðumati eru frekar styrktar, frekari möguleikar eru kynntir til samstarfs og tilfærslu eftirlits milli lögbærra landsyfirvalda, EASA og hæfra aðila. Listi yfir þá flokka loftfara sem falla utan gildissviðs reglugerðarinnar hefur enn fremur verið endurskoðaður. Jafnframt tiltekur reglugerðin víðtækara hlutverk EASA með tilliti til verkefna er snerta flugöryggi beint, svo sem á sviði flugverndar, umhverfisverndar, rannsókna og þróunar auk alþjóðlegrar samvinnu. Einnig er stofnuninni falið samræmingarhlutverk á sviði netöryggis í flugi. Þá býður reglugerðin upp á afmarkaða möguleika ríkja til að þrengja gildissvið reglugerðarinnar með tilliti til flokka loftfara að tilteknum skilyrðum uppfylltum (svonefnd „opt-out“ ákvæði). Samhliða býður reglugerðin einnig upp á möguleika til að útvíkka gildissviðið gagnvart starfsemi sem annars félli utan gildissviðs hennar (svonefnd „opt-in“ ákvæði). Séu þessar heimildir nýttar kunna þær að leiða til frekari breytinga á öðrum reglugerðum við innleiðingu í landsrétt. Frumvarpið tekur almennt ekki afstöðu til þess hvort nýta beri framangreindar heimildir en gerir ráð fyrir að hægt sé að nýta þær í framtíðinni. Miðað er við að samráð verði haft við hagaðila áður en endanlega afstaða er mótuð til þessara möguleika við innleiðingu reglugerðarinnar í landsrétt.
    Staðan á upptöku reglugerðar (ESB) 2018/1139 í EES-samninginn í mars 2021 er sú að tillaga að ákvörðun sameignlegu EES-nefndarinnar er til umfjöllunar meðal aðildarríkja Evrópusambandsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Ljóst er að vegna innri ferla Evrópusambandsins mun það taka nokkurn tíma að afla samþykkis fyrir tillögu að endanlegri ákvörðun. Eins og áður var vikið að tók reglugerðin gildi innan Evrópusambandsins þann 11. september 2018 og er þegar farið að gæta vandkvæða í rekstri flugrekenda og annarra hagaðila sem leiða má af þeim drætti sem orðið hefur á upptöku gerðarinnar og því ósamræmi sem ríkir milli þess regluverks sem er í gildi innan Evrópusambandsins og hér á landi. Sama á einnig við um aðrar afleiddar gerðir sem byggja lagastoð sína á reglugerð (ESB) 2018/1139. Á fyrri stigum gerði Ísland stjórnskipulegan fyrirvara við upptöku reglugerðar (ESB) 2018/1139 þar eð ljóst var að lagabreytinga væri þörf til að hægt væri að innleiða gerðina, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Verði frumvarp þetta að lögum skapast forsendur til þess að aflétta þessum stjórnskipulega fyrirvara sem þýðir einnig að þegar endanleg ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar liggur fyrir verður hægt að innleiða gerðina í landsrétt án frekari tafa.
    Í ljósi örra breytinga á síðastliðnum árum má telja heildarendurskoðun laga um loftferðir tímabæra með það í huga að uppfæra efnisreglur laganna og færa þau ákvæði sem telja má barn síns tíma í þann búning sem endurspeglar núverandi verkefni, stöðu og skipan flugöryggismála og búa reglugerð (ESB) 2018/1139 og afleiddri löggjöf á sviði flugöryggis fullnægjandi lagastoð.

Aðrar EES-gerðir.
    Ýmsar breytingar hafa orðið á öðrum gerðum og nýjar litið dagsins ljós sem annað hvort bíða innleiðingar eða þegar eru innleiddar. Þar sem talið er að vafi leiki á hvort fullnægjandi lagastoð sé fyrir hendi, eða ljóst er að svo er ekki, er lagt til í frumvarpinu að skýrri lagastoð sé skotið undir eftirfarandi gerðir auk annarra sem þegar bíða innleiðingar.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði til að tryggja fullnægjandi lagastoð til innleiðingar á reglugerð (ESB) 2018/1139, auk afleiddra gerða, þar á meðal:
          reglugerð (ESB) 2018/1042 frá 23. júlí 2018 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 965/2012 að því er varðar tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða stuðningsáætlanir, sálrænt mat á flugáhöfn, sem og kerfisbundna og handahófskennda skimun fyrir geðvirkum efnum til að tryggja heilbrigði flugliða og öryggis- og þjónustuliða og að því er varðar uppsetningu á landslagsgreiningarkerfi í nýlega framleiddar flugvélar, knúnar hverfihreyflum með 5700 kg skráðan hámarksflugtaksmassa eða minna og sem samþykktar hafa verið til að bera sex til níu farþega, með síðari breytingum,
          reglugerð (ESB) 2019/27 frá 19. desember 2018 um breytingu á reglugerð (ESB) 1178/2011 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1178/2011 um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð er varðar áhöfn í almenningsflugi samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1139,
          reglugerð (ESB) 2019/103 frá 23. janúar 2019 um breytingu á reglugerð (ESB) 2015/1998 að því er varðar nánari útlistun, samræmingu og einföldun sem og styrkingu á tilteknum sértækum flugverndarráðstöfunum, með síðari breytingum,
          reglugerð (ESB) 2019/945 frá 12. mars 2019 um ómönnuð loftför og flugrekendur ómannaðra loftfara frá þriðju ríkjum, með síðari breytingum,
          reglugerð (ESB) 2019/947 frá 24. maí 2019 um reglur og verklag við starfrækslu ómannaðra loftfara með síðari breytingum,
          reglugerð (ESB) 2019/1583 frá 25. september 2019 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2015/1998 um ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd að því er varðar ráðstafanir vegna öryggis á netinu, með síðari breytingum.
    Með frumvarpinu eru enn fremur lagðar til breytingar í því skyni að undirbyggja frekari lagastoð eða skýra nánar ákvæði þegar innleiddra gerða, þar á meðal:
          reglugerðar (EB) 2027/97 frá 9. október 1997 um bótaábyrgð flugfélaga vegna slysa, með síðari breytingum, sbr. reglugerð (EB) nr. 889/2002 frá 13. maí 2002 um breytingu á reglugerð (EB) 2027/97,
          tilskipunar 96/67/EB frá 15. október 1996 um aðgang að flugafgreiðslumarkaðinum á flugvöllum bandalagsins, með síðari breytingum, sbr. reglugerð um aðgang að flugafgreiðslu á flugvöllum, nr. 370/2018,
          tilskipunar 2009/12/EB frá 11. mars 2009 um gjaldtöku á flugvöllum,
          reglugerð (ESB) 996/2010 frá 20. október 2010 um rannsóknir og forvarnir gegn slysum og flugatvikum í almenningsflugi og um niðurfellingu á tilskipun 94/56/EB, með síðari breytingum, sbr. reglugerð um störf rannsóknarnefndar samgönguslysa, nr. 763/2013,
          reglugerðar (ESB) 598/2014 frá 16. apríl 2014 um að setja reglur og koma á málsmeðferð við innleiðingu rekstrartakmarkana vegna hávaða á flugvöllum í Sambandinu innan yfirvegaðs mats á úrræðum og um niðurfellingu tilskipunar 2002/30/EB, sbr. reglugerð um rekstrartakmarkanir vegna hljóðmengunar á flugvöllum sem staðsettir eru á Evrópska efnahagssvæðinu, nr. 666/2015,
          reglugerð (ESB) 452/2014 frá 29. apríl 2014 um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugrekstur frá þriðja landi samkvæmt reglugerð (EB) 216/2008, með síðari breytingum, sbr. reglugerð nr. 125/2016, með síðari breytingum,
          reglugerð (ESB) 376/2014 frá 3. apríl 2014 um tilkynningu atvika í almenningsflugi, með síðari breytingum, sbr. reglugerð um tilkynningu atvika í almenningsflugi sem og greiningu á og eftirfylgni með þeim, nr. 900/2017, með síðari breytingum,
          reglugerð (ESB) 139/2014 frá 12. febrúar 2014 um kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugvelli samkvæmt reglugerð (EB) 216/2008, með síðari breytingum, sbr. reglugerð nr. 75/2016, með síðari breytingum,
          reglugerðar (ESB) 2017/373 frá 1. mars 2017 um sameiginlegar kröfur fyrir veitendur þjónustu á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu og á sviði starfsemi neta fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar og eftirlit með þeim, um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 482/2008, framkvæmdarreglugerðum (ESB) nr. 1034/2011, (ESB) nr. 1035/2011 og (ESB) 2016/1377 og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 677/2011, með síðari breytingum, sem innleidd hefur með reglugerð um sameiginlegar kröfur fyrir veitendur þjónustu á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar og flugleiðsöguþjónustu og á sviði starfsemi neta fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar og eftirlit með þeim, nr. 720/2019.
    Vegna innleiðingar framangreindra gerða reyndist jafnframt þörf á að leggja til breytingar á öðrum lögum, þar á meðal lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012, lögum um rannsókn samgönguslysa, nr. 18/2013, og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991.

2.1.3. „Varsjár-kerfið“ og Montreal-samningurinn frá 1999.
    Í umfjöllun um XVII. kafla frumvarpsins er fjallað um Varsjár-samninginn um samræmingu nokkurra reglna er varða loftflutninga milli landa sem gerður var 12. október 1929 (fr. Convention pour l'Unification de certaines règles relatives au Transport aèrien international) og þær bókanir og viðbótarbókanir við Varsjár-samninginn sem hið svonefnda „Varsjár-kerfi“ samanstendur af. Með ákvæðum laga um gildistöku alþjóðasamnings um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa, nr. 41/1949, með síðari breytingum, var samningnum veitt lagagildi og síðar þeim bókunum og viðbótarbókunum sem Ísland hefur fullgilt. Í frumvarpinu er lagt til að Montreal-samningurinn um samræmingu tiltekinna reglna varðandi loftflutninga milli landa frá 1999 verði lögfestur í heild sinni sem fylgiskjal með lögunum nái frumvarpið fram að ganga. Montreal-samningnum er ætlað að leysa af hólmi Varsjár-kerfið og því er ákvæðum XVII. kafla ætlað að ganga framar ákvæðum laga nr. 41/1949, með síðari breytingum, að svo miklu leyti sem aðstæður og atvik haga því svo til að Montreal-samningurinn gildi. Í því skyni er í XVI. kafla frumvarpsins lagt til að fáeinar greinar verði lögfestar til nánari afmörkunar á gildissviði og lagaskilum auk þess sem ráðherra er veitt heimild til að auglýsa sérstaklega breytingar og uppfærslu á bótafjárhæðum þeim sem samningurinn tiltekur. Samningurinn var á sínum tíma lögfestur með umritunaraðferð með lögum nr. 88/2004, um breytingu á lögum um loftferðir, og var komið fyrir í X. kafla laganna auk fáeinna ákvæða á sviði neytendaverndar til hagsbóta fyrir flugfarþega. Ástæður þess að lagt er til að Montreal-samningurinn verði lögfestur í heild sinni eru nánar raktar í umfjöllun um efni XVII. kafla.

2.1.4.     Samningurinn um sameiginlega Evrópska flugsvæðið.
    Ísland er aðili að fjölhliða samningi milli Evrópusambandsins og aðildarríkja þess og Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu, Makedóníu, fyrrverandi lýðveldis Júgóslavíu (nú Norður-Makedónía), Svartfjallalands, Serbíu og borgaralegrar stjórnsýslu Sameinuðu þjóðanna í Kósovó (saman vísað til sem ríkja á V-Balkanskaga), auk Noregs, Búlgaríu, Króatíu og Rúmeníu um stofnun sameiginlegs Evrópsks flugsvæðis, undirritaður 9. júní 2006. Bent skal á að þrjú síðastnefndu ríkin hafa síðan samningurinn var gerður gengið inn í Evrópusambandið og því talin með aðildarríkjum Evrópusambandsins en ekki ríkjum á V-Balkanskaga. Miðar samningurinn að því að stofna sameiginlegt Evrópskt flugsvæði (e. European Common Aviation Area) sem byggist á frjálsum markaðsaðgangi, staðfesturétti, jöfnum skilyrðum til samkeppni og sameiginlegu regluverki, þar á meðal á sviði flugöryggis, verndar, flugleiðsögu, umhverfismála og félagslegra þátta. Ísland fullgilti samninginn þann 1. febrúar 2007 en samningurinn tók gildi frá og með 1. desember 2017 og er óbirtur.
    Rétt er að benda á að stofnanaumhverfi samningsins um sameiginlega Evrópska flugsvæðið er ólíkt EES-samningnum þar sem ekki er byggt á svonefndu tveggja stoða kerfi heldur einni stoð, stoð stofnana Evrópusambandsins. Sameiginlega nefndin, sem stofnuð er skv. 18. gr. samningsins, ber ábyrgð á stjórn samningsins og er ætlað að tryggja rétta framkvæmd hans með tilmælum og ákvörðunum í samræmi við ákvæði hans. Ákvarðanir nefndarinnar skv. 19. gr. samningsins eru bindandi að þjóðarétti.
    Samningurinn tilgreinir tvö aðlögunartímabil þar sem ríkin á V-Balkanskaga vinna að því að samþætta löggjöf sína löggjöf Evrópusambandsins á sviði loftferða. Samningurinn hefur að geyma fimm viðauka og bókanir er varða aðlögunartímabil ríkjanna á V-Balkanskaga sem uppfærðar eru eftir þörfum. Í viðauka I við samninginn eru teknar upp tilvísanir til þeirra gerða sem binda eiga aðildarríkin og var hann síðast uppfærður árið 2019. Fyrra aðlögunartímabili er nú lokið. Í lok annars aðlögunartímabils er gert ráð fyrir að staða einstakra ríkja verði metin og skilyrði fyrir þátttöku í Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, EASA, ákvörðuð.
    Við gerð frumvarpsins er einkum tekið tillit til ákvæða samningsins hvað varðar markaðsaðgang (flugréttindi) og staðfesturétt með tilliti til fjárfestingar erlendra aðila í flugrekstri, sjá nánar III. og VIII. kafla frumvarpsins.

2.1.5. Alþjóðlegir samningar á sviði flugverndar.
    Á sviði flugverndar og í baráttu gegn hryðjuverkum hefur Ísland fullgilt fjölmarga alþjóðasamninga. Meðal þeirra samninga er sérstaklega varða flugstarfsemi eru:
          Alþjóðasamningur varðandi lögbrot og aðra verknaði í loftförum sem undirritaður var í Tókýó þann 14. september 1963, sbr. auglýsingu nr. 11/1970 (Tókýó-samningurinn). Samningurinn tók gildi þann 4. desember 1969 og hvað Ísland varðar þann 14. júní 1970. Þann 1. janúar 2021 voru 187 ríki aðilar að samningnum.
          Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir ólöglega töku loftfara sem gerður var í Haag þann 16. desember 1970, sbr. auglýsingu nr. 12/1973 (Haag-samningurinn). Samningurinn tók gildi þann 14. október 1971. Þann 1. janúar 2021 voru 185 ríki aðilar að samningnum.
          Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna sem undirritaður var í Montreal þann 23. september 1971, sbr. auglýsingu nr. 13/1973 (Montreal-samningurinn frá 1971). Samningurinn tók gildi þann 26. janúar 1971. Þann 1. janúar 2021 voru 188 ríki aðilar að samningnum.
          Bókun til að koma í veg fyrir ofbeldisverk í flughöfnum fyrir almenna alþjóðlega flugumferð, til viðbótar við samning um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna, sem gerður var í Montreal 23. september 1971, gerð 28. febrúar 1988, sbr. auglýsingu 9/1990 (Montreal-bókunin frá 1988). Bókunin tók gildi þann 6. ágúst 1989. Þann 1. janúar 2021 voru 176 ríki aðilar að bókuninni.
          Alþjóðasamningur um merkingar á plastsprengiefni til auðkenningar á því sem undirritaður var í Montreal þann 1. mars 1991, sbr. auglýsingu nr. 29/2002 (MEX-samningurinn). Samningurinn tók gildi þann 21. júní 1998 og þann 1. janúar 2021 voru aðildarríki hans 156.
    Tókýó-samningurinn fjallar um lögsögu ríkja vegna brota sem framin eru um borð í loftförum, ábyrgð flugstjóra og heimildir til valdbeitingar. Vegna aukinnar flugumferðar og þeirrar þróunar að alvarleiki og tíðni óstýrilátrar hegðunar farþega hefur aukist og stigmagnast, hefur verið talin þörf á að sporna við þessari þróun. Í því skyni var gerð bókun í Montreal þann 4. apríl 2014 til að breyta samningnum varðandi lögbrot og aðra verknaði í loftförum (Montreal-bókunin frá 2014). Montreal-bókunin frá 2014 tók gildi 1. janúar 2020 og þann 1. janúar 2021 voru aðildarríki að bókuninni 25 talsins. Með frumvarpi þessu er meðal annars lagt til að valdheimildir flugstjóra verði styrktar til samræmis við ákvæði Tókýó-samningsins og Montreal-bókunarinnar frá 2014.
    Haag-samningurinn frá 1970 skilgreinir það sem brot ef maður með ólögmætum hætti tekur á sitt vald eða nær tökum á stjórn loftfars með valdbeitingu eða hótun um valdbeitingu. Sama á við um hlutdeild og/eða tilraun til slíkra brota. Samningurinn hefur einnig að geyma ákvæði um saksókn, framsal og aðstoð aðildarríkja vegna saksóknar. Bókun til viðbótar við Haag-samninginn frá 1970 um að koma í veg fyrir ólöglega töku loftfara var gerð í Peking þann 10. september 2010 (Peking-bókunin). Peking-bókunin breytir fáeinum ákvæðum Haag-samningsins frá 1970 og skilgreinir jafnframt frekari brot/brotalýsingar á flugránum, m.a. með aðstoð nútímatækni, og bætir við ákvæðum er varða ógn eða samsæri um að fremja brot. Tók bókunin gildi þann 1. júlí 2018 og voru aðildarríki hennar 34 talsins þann 1. janúar 2021. Unnið er að fullgildingu bókunarinnar.
    Montreal-samningurinn frá 1971 skilgreinir það sem lögbrot ef einstaklingur með ásetningi vinnur ofbeldisverk gegn einstaklingi um borð í loftfari í flugi, ef sú athöfn er líkleg til að stofna öryggi flugvélarinnar í hættu og að setja sprengiefni um borð í loftfar. Sama á við um hlutdeild og/eða tilraun til slíkra brota. Montreal-bókunin frá 1988 útvíkkar refsinæmi þeirra brota sem Montreal-samningurinn frá 1971 skilgreinir þannig að ákvæðin taki jafnframt til flugvalla.
    Frekari brot eru skilgreind í nýlegum alþjóðlegum samningum. Alþjóðlegur samningur um að koma í veg fyrir ólöglegar aðgerðir í tengslum við almenningsflug, gerður í Peking 10. september 2010 (Peking-samningurinn), er ætlað að leysa af hólmi Montreal-samninginn frá 1971 og Montreal-bókunina frá 1988. Tók Peking-samningurinn gildi þann 1. júlí 2018 og voru aðildarríki hans 33 talsins þann 1. janúar 2021. Peking-samningurinn frá árinu 2010 útvíkkar frekar þau brot sem Montreal-samningurinn 1971 og Montreal-bókunin 1988 skilgreina. Meðal annars tekur Peking-samningurinn til nýrra brota og verknaðarlýsingar sem meðal annars eiga rót sína eiga að rekja til atburðanna 11. september 2001 í Bandaríkjunum. Unnið er að fullgildingu samningsins.
    Meginmarkmið MEX-samningsins er að þau ríki sem fullgilda samninginn banni framleiðslu, geymslu, flutning og komu ómerkts plastsprengiefnis á yfirráðasvæði þess. Plastsprengiefni sem slíkt er ekki bannað samkvæmt samningnum heldur eru lagðar skyldur á viðkomandi ríki til að tryggja auðkenningu þess með efnamerki svo hægt sé að auðkenna það t.d. við skimun eða innflutning og þannig hindra að slík efni komist í hendur þeirra sem hyggja á ólögmætar ráðstafanir gegn öryggi flugsamganga. Með samningnum er komið á alþjóðlegri tækninefnd sprengiefna sem annast uppfærslu tæknilegs viðauka við samninginn. MEX-samningurinn er að því leyti ólíkur t.d. Tókýó-samningnum og öðrum samningum sem hér hefur verið fjallað um að meginmarkmið hans er ekki að skilgreina brot heldur að ráðast gegn þeim vanda sem auðkenning ómerktra plastsprengiefna er.
    Samhliða að stefnt er að fullgildingu Peking-samningsins frá 2010 og Peking-bókunarinnar frá 2010 er til athugunar að fullgilda Montreal-bókunina frá 2014 og leggja mat á það hvort gera þurfi frekari breytingar til að tryggja framkvæmd við MEX-samninginn í löggjöf. Fyrirhugað er að leggja síðar fram sérstakt frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum og eftir atvikum öðrum lögum í samráði við dómsmálaráðuneytið til þess að leggja til nauðsynlegar lagabreytingar.

2.1.6 Ýmsir aðrir samningar.
    Víða í frumvarpinu er vikið að öðrum þjóðréttarsamningum sem ákvæði frumvarpsins ýmist byggja á eða vísa til. Gætir þar nokkuð fjölbreyttrar flóru samninga.
    Ísland er aðili að almenna samningnum um þjónustuviðskipti (e. General Agreement on Trade in Services, GATS) sem leit dagsins ljós í kjölfar Úrúgvæ-samningalotunnar á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Tók samningurinn gildi 1. janúar 1995, sbr. auglýsingu nr. 62/1995, og eru öll aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar aðilar hans. Samkvæmt gildissviði GATS-samningsins gildir hann ekki um ráðstafanir sem hafa áhrif á flugréttindi, þ.e. aðgang að markaði, án tillits til þess hvernig þær eru veittar, eða þjónustu sem tengist beint nýtingu flugréttinda. Samningurinn gildir aðeins um ráðstafanir sem hafa áhrif á viðgerðir og viðhaldsþjónustu loftfara, sölu og markaðssetningu flugþjónustu og þjónustu í gegnum tölvufarskráningarkerfi.
    Lítillega er minnst á Hoyvíkur-samninginn, fríverslunarsamning Íslands við Færeyjar, í athugasemdum við III. og V. kafla frumvarpsins. Samningurinn tók gildi 1. nóvember 2006, sjá auglýsingu nr. 1/2006. Með honum var komið á sameiginlegu efnahagssvæði á yfirráðasvæðum Íslands og Færeyja, auk staðfesturéttar og flugréttinda.
    Loftferðasamningar eru iðulega tví- eða marghliða samningar um réttindi til flugs (markaðsaðgang) og er nánar fjallað um efni þeirra í athugasemdum við III. og XV. kafla frumvarpsins.
    Flugöryggissamningar eru samningar um gagnkvæma viðurkenningu á afmörkuðum sviðum en vikið er að þessari tegund samninga í 4. kafla.
    Á sviði flugleiðsögu er rétt að minnast á fjölþjóðlegan samning sem tuttugu og fjögur ríki auk Íslands eru aðilar að um sameiginlega fjármögnun og uppbyggingu innviða á sviði flugleiðsöguþjónustu á Íslandi fyrir Norður-Atlantshafssvæðið með áorðnum breytingum (e. Agreement on the Joint Financing of certain Air Navigation Services in Iceland (1956) as amended 1982 and 2008), sbr. auglýsingar nr. 3/1958, 2/1992 og 14/1987. Samningurinn og systursamningur við Danmörku (vegna Grænlands og Færeyja) eiga sér merkilega sögu allt frá árinu 1946. Vísað er til samningsins í 15. kafla.
    Hvað varðar skráningu réttinda í loftförum og skráningu alþjóðlegra tryggingaréttinda vísast til sérlaga þar að lútandi. Annars vegar er um að ræða lögfestingu Genfar-samningsins svonefnda frá 19. júní 1948 um alþjóðaviðurkenningu réttinda í loftförum, sjá lög um skráningu réttinda í loftförum, nr. 21/1966, með síðari breytingum, og hins vegar lög um lögfestingu Höfðaborgarsamningsins um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði frá 16. nóvember 2001 og bókunar um búnað loftfara frá sömu dagsetningu, sjá lög nr. 74/2019 um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara. Rétt er að benda á að þar sem ákvæðum þessa laga lýstur saman ganga ákvæði Höfðaborgarlaganna framar en gildissvið þeirra laga er hins vegar takmarkaðra en samkvæmt lögunum um lögfestingu Genfar-samningsins.
    Í ljósi þess að lagt er til að gildissvið frumvarpsins nái til tækja og hluta sem ferðast geta um loftið sem eru ekki loftför er ekki hjá því komist að taka nokkurt tillit til þeirra alþjóðlegu samninga á sviði geimréttar sem fyrir hendi eru og einkum þeirra sem Ísland hefur þegar fullgilt. Er hér einkum átt við samninginn um rannsóknir og not ríkja af himingeimnum, tungli og stjörnum frá 27. janúar 1967, sbr. auglýsingu nr. 1/1968, og samninginn um björgun geimfara, framsal geimfara og skil á hlutum sem skotið hefur verið út í himingeiminn sem gerður var 22. apríl 1968, sbr. auglýsingu nr. 21/1969. Hefur hér einkum verið horft til þess tryggja almannaöryggi og öryggi flugumferðar og að fyrir hendi séu afmörkuð efnisákvæði, auk heimildar til setningar reglugerða, meðan ekki nýtur við heildstæðrar löggjafar um málefni geimsins og geimtengdrar starfsemi. Einkum er vikið að geimtengdum atriðum í umfjöllun um 1., 3., 5. og 19. kafla frumvarpsins.

2.3 Áherslur í nálgun.
    Í ljósi alþjóðlegs umhverfis og örra breytinga á þjóðréttarlegum skuldbindingum, einkum breytingum á viðaukum Chicago-samningsins og EES-gerðum, var megináhersla við vinnslu frumvarpsins lögð á að styrkja lagalegan grundvöll fyrir alla flugstarfsemi, þ.e. skýr efnisákvæði og lagastoð til setningar reglugerða sem taka til þess víðfeðma og mjög svo tæknilega umhverfis sem flugsamgöngum er búið auk nauðsynlegra valdheimilda og úrræða stjórnvalda. Einkum var leitast við að taka tillit til efnisákvæða reglugerðar (ESB) 2018/1139, afleiddra gerða og annarra EES-gerða við samningu frumvarpsins. Þá var einnig leitast við að styrkja eða styðja við þau ákvæði sem áfram er þörf á þar sem gildissviði reglugerðar (ESB) 2018/1139 sleppir og samhliða yfirfara heimildir ráðherra til að setja reglugerðir ákvæðum frumvarpsins til frekari fyllingar. Þá var köflum frumvarpsins fjölgað frá gildandi lögum í því skyni að sameina í kafla efnisskyld ákvæði og auka skýrleika og aðgengi.
    Með vísan til lögmætisreglu stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar, sér í lagi lagaáskilnaðarreglunnar, var einkum hugað að ákvæðum er lúta að kvöðum sem lögð eru á einstaklinga og lögaðila og takmarkanir á atvinnufrelsi og eignarrétti, svo sem að virtum þeim kröfum sem gera verður til skýrleika lagaheimilda fyrir íþyngjandi reglugerðarákvæðum. Vegna grunnreglu um lögbundnar refsiheimildir og ákvæðis um stjórnvaldssektir er einnig talin vera þörf fyrir skýrari verknaðarlýsingu brota. Hafa ber í huga að ef gerð er innleidd sem stjórnvaldsfyrirmæli er jafnframt nauðsynlegt að gæta þess að fyrir henni sé nægjanleg stoð í lögum. Því þurfa lög um loftferðir að hafa efnisákvæði sem, eftir atvikum, kunna að vera nánar útfærð í reglugerð, auk heimilda til setningar reglugerða. Skv. 7. gr. EES-samningsins, sbr. fylgiskjal I við lög nr. 2/1993, með síðari breytingum, er íslenska ríkið skuldbundið til þess að innleiða reglugerðir Evrópusambandsins sem vísað er til í samningnum sem reglugerðir að landsrétti. Er frumvarpinu því ætlað að tryggja að fullnægjandi ákvæði séu fyrir hendi í lögum sem og heimildir til setningar reglugerða til að fullnægja framangreindum skuldbindingum. Heimildir til setningar reglugerða eru nokkuð fyrirferðarmiklar í frumvarpinu en í ljósi umfangs afleiddrar löggjafar er vart hjá því komist að hafa þær nokkuð ítarlegar.
    Í ljósi þess að þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem efni frumvarpsins byggist á eru í sífelldri þróun afmarkast efni frumvarpsins við þær breytingar sem fram voru komnar í endanlegri mynd þann 1. september 2020, þ.e. frágengnar gerðir af hendi Evrópusambandsins sem tilbúnar eru til upptöku í EES-samninginn. Ekki er því tekið tillit til nýlegra álita EASA og drög að nýjum EES-gerðum sem ekki eru fullkláruð fyrir það tímamark þar sem þær tillögur eru enn til umfjöllunar á vettvangi Evrópusambandsins.
    Við vinnslu frumvarpsins kom meðal annars til skoðunar hvort æskilegt væri að feta þá braut sem farin hefur verið á öðrum sviðum og lögfesta tiltekna alþjóðasamninga og EES-gerðir. Var t.d. talið heppilegra að lögfesta Montreal-samninginn frá 1999 í heild sinni í stað umritunar eins og nánar er rakið í athugasemdum við XVII. kafla í greinargerð. Einnig var sérstaklega til athugunar hvort æskilegt væri að lögfesta reglugerð (ESB) 2018/1139 í heild sinni. Var einkum þrennt talið standa í vegi fyrir því. Í fyrsta lagi það óhagræði að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku gerðarinnar, sem inniheldur meðal annars mikilvægan aðlögunartexta við einstök efnisákvæði gerðarinnar, liggur ekki fyrir í endanlegri mynd og ófyrirséð hvort það náist fyrir framlagningu frumvarpsins og þinglega meðferð. Í öðru lagi gerir lengd reglugerðarinnar og efnistök það að verkum að lögfesting yrði síst til þess að auka gagnsæi, skýrleika og aðgengi að efni nýrra laga. Þá má einnig nefna að ekki hefur verið tekin endanleg afstaða til allra valkvæðra ákvæða gerðarinnar sem myndu mögulega kalla á lagabreytingu ef ákveðið væri að nýta þau ákvæði eða breyta síðar meir. Í þriðja lagi hafa þegar verið kynntar á vettvangi Evrópusambandsins hugmyndir um breytingar á gerðinni sem myndu kalla á frekari lagabreytingar þegar kæmi að innleiðingu slíkra breytinga. Þá var einnig ljóst að þrátt fyrir að reglugerðin væri lögfest þyrfti engu að síður að halda til haga efnisákvæðum þar sem gildissviði reglugerðarinnar sleppir.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið skiptist efnislega í tuttugu og tvo kafla, þar af eru breytingar á ýmsum öðrum lögum í síðasta kaflanum. Í frumvarpinu eru lagðar til veigamiklar breytingar frá gildandi lögum sem í megindráttum varða stjórn flugmála og eftirlit, uppfærslu efnisákvæða til samræmis við EES-gerðir og aðrar þjóðréttarlegar skuldbindingar og lögfestingu Montreal-samningsins frá 1999 í heild sinni. Rétt er þó að hafa í huga að fjölmörg nýmæli frumvarpsins eiga rót sína að rekja til efnisákvæða í EES-gerðum sem þegar hafa verið innleiddar í landsrétt.

3.1 Helstu nýmæli.
    I. kafli. Markmið, gildissvið og orðskýringar. Lagt er til að gildissviðið verði útvíkkað frá gildandi lögum. Er það einkum gert í ljósi víðtæks eftirlitshlutverks EASA með loftförum, aðilum og starfsemi í þriðju ríkjum og vegna vottunar og eftirlits með veitendum samevrópskrar þjónustu á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsögu, vegna neytendaverndar (sjá kafla XVI og XVII), en einnig til tryggja að tæki og hlutir sem ferðast geta um loftið en eru ekki loftför falli undir gildissvið frumvarpsins.
    Í II. kafla eru lagðar til verulegar breytingar á skipan stjórnunar og eftirlits á sviði flugmála frá gildandi lögum. Í kaflanum er leitast við að skýra nánar tilhögun og afmörkun verkefna og ábyrgðar milli lögbærra stjórnvalda, Samgöngustofu og Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins með vísan til ákvæða reglugerðar (ESB) 2018/1139. Jafnframt eru lagðar til frekari heimildir en gildandi lög geyma til tilfærslu eftirlits til hæfra aðila, annarra lögbærra landsyfirvalda og til Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins. Samhliða eru einnig lagðar til breytingar á lögum um Samgöngustofu. Þær breytingar sem lagðar eru til teljast þó vart nýmæli þar eð sú verkaskipting sem rutt hefur sér til rúms hefur verið við lýði um nokkurt skeið.
    Í III. kafla um aðgang að íslensku yfirráðasvæði er lagt til að það fyrirkomulag sem þegar hefur verið innleitt sé endurspeglað í ákvæðum nýrra laga. Þá verði einnig skýrt greint á milli heimilda til flugs og eftirlits á sviði flugöryggis og verndar.
    Ýmis almenn ákvæði eru viðfangsefni IV. kafla. Nokkuð er um nýmæli þótt mörg ákvæðin eigi rót sína að rekja til fyrirliggjandi skuldbindinga.
    Í V. kafla um skráningu loftfara er mælt fyrir um tvær nýjar skrár sem Samgöngustofu er ætlað að halda. Annars vegar skrá um flugrekendur/umráðendur ómannaðra loftfara sem skylt verður að skrá sig og skrá um hluti og tæki sem ferðast geta um loftið en eru ekki loftför, þ.m.t. geimhluti. Þá verður einnig skylt að skrá ómönnuð loftför sem háð eru vottun í loftfaraskrá en gildandi lög hafa til þessa aðeins kveðið á um heimild til skráningar loftfara, ekki skyldu.
    Í VI. kafla um lofthæfi er í fyrsta skipti fjallað um vottun á hönnun framleiðsluvöru, hluta og óuppsetts búnaðar, útgáfu tegundarvottorða, starfsemi sem háð er vottun á sviði hönnunar og framleiðslu framleiðsluvara sem og vottun ómannaðra loftfara að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
    Í kafla VII um vottun einstaklinga og aðila er annast þjálfun eru lagðar til breytingar á lágmarks- og hámarksaldri flugmanna vissra tegunda loftfara, kveðið á um vottun flughermisþjálfa, sem er nýmæli, og vottun aðila sem annast þjálfun sem hafa staðfestu í þriðju ríkjum.
    Í VIII. kafla um flugrekstrarleyfi er lagt til að þær kröfur til eignarhalds í flugrekstri sem nú eru í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á sviði flugrekstrar verði hluti kaflans. Ekki er um eiginlega efnisbreytingu að ræða heldur aðeins tilfærslu ákvæða.
    Í IX. kafla um starfrækslu loftfara er lagt til að lögfest verði ýmis efnisákvæði sem áður voru að mestu leyti aðeins í afleiddu regluverki.
    Í X. kafla um vinnuvernd flugverja er gildissvið kaflans lítillega útvíkkað og ákvæði uppfærð með vísan til fyrirliggjandi EES-gerða.
    Í XII. kafla um flugvelli eru lagðar til margvíslegar breytingar í því skyni að aðlaga ákvæði kaflans að fyrirliggjandi EES-gerðum. Mælt er fyrir eftirliti með flugafgreiðslu og hlaðstjórnunarþjónustu og lagt til að komið verði á sérstakri samráðsskyldu milli sveitarfélaga og rekstraraðila flugvalla vegna skipulagsmála. Einnig hafa ákvæði um skipulagsreglur flugvalla og hindranir við flugvelli verið endurskoðuð.
    Í XIII. kafla um flugvernd hafa ákvæði er varða flugvernd verið uppfærð, einkum með tilliti til breytinga á EES-gerðum er meðal annars lúta að athugunum á bakgrunni.
    Í XIV. kafla um loftrýmið og þá þjónustu sem veitt er loftförum er lagt til að lögfest verði nýmæli um skipulag og stjórnun loftrýmisins og hönnun flugferla. Þá er lagt til að komið verði á auknu samráði við ákvarðanatöku um ótímabundnar takmarkanir á nýtingu loftrýmisins, svo sem vegna setningar bann-, hafta- og hættusvæða. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna ómannaðra loftfara og fjölda bæði opinberra og einkaaðila sem vilja takmarka og banna flug þeirra yfir afmörkuðum svæðum. Enn fremur er mælt fyrir um tilkynningaskyldu vegna mannvirkja og hluta (hindrana) sem eru 50 m og hærri.
    Í XV. kafla um aðgang að markaði, þjónustugjöld o.fl. eru lagðar til breytingar á meðferð ágreinings vegna gjaldtöku flugvalla og skerpt á öðrum ákvæðum er varða efnahagslegt eftirlit, svo sem hvað varðar aðgang að flugafgreiðslu, úthlutun afgreiðslutíma flugvalla o.fl. Einnig er lagt til að sérstök heimild ráðherra til að bregðast við markaðsbresti á vátryggingamarkaði verði lögfest.
    Í XVI. kafla um neytendavernd eru lagðar til nokkrar breytingar á fyrirkomulagi við afgreiðslu kvartana neytenda, kæruheimild til ráðherra felld niður, úrskurðir verði bindandi með aðfararheimild en flugrekandi/rekstraraðili flugvallar hafi 30 daga til að tilkynna að hann hyggist ekki vera bundinn við úrskurð. Þá verði heimilt að birta opinberlega nafn flugrekanda/rekstraraðila flugvallar sem gerir slíka tilkynningu.
    Í XVII. kafla um bótaábyrgð í loftflutningum er lagt til að Montreal-samningurinn frá 1999 um bótaábyrgð flugrekenda verði lögfestur í heild sinni í stað umritunar í gildandi lögum. Er samningnum ætlað að vera fylgiskjal með lögunum.
    XX. kafli um valdheimildir, þvingunarúrræði og refsingar byggist að miklu leyti á samsvarandi ákvæðum í gildandi lögum sem finna má á víð og dreif í lögunum. Í kaflanum er meðal annars kveðið á um valdheimildir, þvingunarúrræði, stjórnsýsluviðurlög, þ.m.t. heimild Samgöngustofu til að leggja á stjórnvaldssekt, tilkynningarskyldu vegna tiltekinna aðgerða og ráðstafana, auk ákvæða er varða kærur, málsmeðferð og málshöfðun.
    Í XXI. kafla um lokaákvæði er að finna hefðbundin ákvæði um tilvísun til þeirra EES-gerða sem frumvarpið innleiðir og gildistöku og brottfall laga. Þá er einnig lagt til nýtt ákvæði með vísan til bókunar 35 við EES-samninginn til að tryggja forgang þeirra EES-gerða á sviði loftferða og neytendaverndar sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn komi til árekstra þeirra á milli við ákvæði laganna og reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru á grundvelli þeirra.
    Ekki er unnt í þessari samantekt að gera þeim breytingum sem lagðar eru til tæmandi skil og vísast því til nánari umfjöllunar um einstök ákvæði hér á eftir.

3.2 Breytingar á öðrum lögum.
    Í XXII. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á öðrum lögum. Breytingar á lögum um Samgöngustofu og lögum um rannsókn samgönguslysa leiða að mestu af ákvæðum reglugerðar (ESB) 2018/1139. Veigamestu breytingarnar á lögum um rannsókn samgönguslysa varða skyldur nefndarinnar til að rannsaka flugslys og alvarleg flugatvik.
    Með breytingum á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri er felld niður 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna þar eð samsvarandi ákvæði er tekið upp í kafla IX um flugrekstur. Stóð valið á milli þess að gera breytingar á framangreindu ákvæði á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, meðal annars til að taka tillit til stofnsamnings EFTA og samningsins um sameiginlega Evrópska flugsvæðið, eða fella það niður og samhliða taka slíkt ákvæði upp í lög um loftferðir. Var síðarnefnda leiðin fyrir valinu þar eð eðlilegt má telja að lög um loftferðir taki til starfrækslu loftfara og flugreksturs heildstætt.
    Þá eru afmarkaðar breytingar lagðar til á tekjuskattslögum og lögum um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana í því skyni að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA og til að tryggja að hluta til efnislega innleiðingu bókunar 7 um friðhelgi og forréttindi Evrópusambandsins sem getið er í aðlögunartexta flestra EES-gerða er varða undirstofnanir Evrópusambandsins sem Ísland er aðili að. Þá eru einnig lagðar til breytingar á ýmsum öðrum lögum sem aðallega eru leiðréttingar á notkun hugtaka eða tilvísunum.
    Breytingar á lögum um Landhelgisgæslu Íslands má rekja til breytinga á XIX. kafla um leit og björgun og eru til samræmis við ákvæði kaflans.
    Breytingar á lögum um virðisaukaskatt byggjast á stefnumiðum í flugstefnu um aukna umhverfisvernd og fela í sér heimild til bráðabirgða til að endurgreiða virðisaukaskatt sem greiddur hefur verið við innflutning eða fyrstu sölu nýs eða notaðs loftfars, hreyfils eða loftskrúfu sem nýtir rafmagn sem aðalorkugjafa.
    Að síðustu eru lagðar til fáeinar breytinga á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu vegna lögfestingar Höfðaborgarsamningsins og bókunar um búnað loftfara, sbr. lög sama efnis er tóku gildi 1. október 2020.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Stjórnskipuleg álitaefni varða aðallega fyrirhugaða innleiðingu reglugerðar (ESB) 2018/1139 og eru þau sömu og áður hafa komið fram vegna upptöku og innleiðingar forvera reglugerðar (ESB) 2018/1139, reglugerðar (EB) 216/2008, sbr. þingsályktun um heimild til staðfestingar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka (Flutningsstarfsemi) við EES-samninginn, 621. mál á 139. löggjafarþingi 2010–2011. Var tillagan samþykkt sem þingsályktun nr. 39/139 á Alþingi 10. júní 2011. Snúa álitaefnin fyrst og fremst að framsali framkvæmdarvalds og dómsvalds.
    Framkvæmdarvald á tilteknum sviðum flugöryggis er alfarið falið EASA á grundvelli reglugerðarinnar (og eldri reglugerða). Þannig er EASA falið fyrir hönd allra EES-ríkja að rækja ákveðnar skyldur gagnvart einstaklingum og lögaðilum í EES-ríkjunum og þriðju ríkjum og fara með sjálfstætt ákvörðunar- og eftirlitsvald. Með reglugerð (ESB) 2018/1139 hefur þetta hlutverk verið útvíkkað lítillega til nýrra atriða, svo sem óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra ómönnuðum loftförum. Sem dæmi má nefna að EASA annast vottun og eftirlit á sviði hönnunar framleiðsluvara (loftfara, hreyfla eða loftskrúfa) innan EASA-ríkjanna og með aðilum sem hafa staðfestu í þriðju ríkjum sem hanna, framleiða eða starfrækja loftför, annast flugkennslu, veita viðhaldsþjónustu o.fl. Upptalningin er ekki tæmandi. Sem stjórnvald fer EASA með sambærilegar valdheimildir og lögbær landsyfirvöld, svo sem til að taka á móti umsóknum, gefa út vottorð, framkvæma eftirlit og grípa til öryggisráðstafana, svo sem banna, takmarka eða setja þeirri starfsemi sem undir eftirlit hennar heyrir skilyrði o.fl.
    Þá hefur EASA verið falið að koma fram fyrir hönd EASA-ríkjanna á afmörkuðum sviðum flugöryggis og sinna ákveðnum skyldum. EASA annast störf og verkefni hönnunar-, framleiðslu- og skráningarríkis samkvæmt Chicago-samningnum, hvað varðar vottun hönnunar og skyldubundnar upplýsingar um áframhaldandi lofthæfi hvað varðar þær framleiðsluvörur sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar, sbr. 77. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139.
    Af framangreindu framsali framkvæmdarvalds leiðir að ákvarðanir EASA á afmörkuðum sviðum lúta málsmeðferðarreglum samkvæmt reglugerðinni. EASA tekur sjálfstæðar ákvarðanir þar sem stofnuninni hafa alfarið verið falin tiltekin verkefni og eftirlit. Heimilt er að kæra ákvarðanir stofnunarinnar til sérstakrar kærunefndar, sem telst vera hluti af stjórnsýslufyrirkomulagi EASA, en er sjálfstæð í störfum sínum. Úrskurðir kærunefndarinnar sæta eingöngu kæru til dómstóls Evrópusambandsins. Almennt gildir að einungis er heimilt að höfða mál fyrir dómstóli Evrópusambandsins til ógildingar á ákvörðun EASA eftir að kæruleið máls hefur verið tæmd. Sama á við um mál sem varða athafnir eða athafnaleysi EASA sem ætlað er að hafa réttaráhrif gagnvart þriðja aðila og vegna skaðabótaábyrgðar innan og utan samninga og á grundvelli gerðardómsákvæða.
    Eftirlitsstofnun EFTA fer með eftirlit með því að EFTA-ríkin sinni skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum. Á grundvelli reglugerðarinnar annast EASA vöktun á framfylgni ríkjanna fyrir hönd framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnunar EFTA með skuldbindingum á sviði flugöryggis auk þess að sinna eigin verkefnum og eftirliti með eftirlitsskyldum aðilum sem falla undir valdsvið hennar. Telji EASA að eftirlitsskyldir aðilar hafi vanrækt skyldur sínar eða gerst brotlegir við þær getur stofnunin beint beiðni til Eftirlitsstofnunar EFTA um að leggja sektir eða févíti á aðila sem hefur brotið, af ásetningi eða af gáleysi, gegn ákvæðum reglugerðarinnar eða afleiddu regluverki. Eins getur stofnunin lagt til að þvingunarúrræði verði beitt, þ.e. févíti, í því skyni að knýja aðila til framfylgni. Álagning sektar og févítis á þá aðila sem hafa höfuðstöðvar eða aðalaðsetur hér á landi og falla undir eftirlit EASA samkvæmt framansögðu er hjá Eftirlitsstofnun EFTA en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fer með sömu valdheimildir gagnvart aðilum með staðfestu innan Evrópusambandsins og í þriðju ríkjum. Þá hefur EFTA-dómstóllinn í sömu tilvikum með höndum endurskoðun ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA um sektir og févíti. Ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA eru einvörðungu bornar undir EFTA-dómstólinn og dómar hans koma beint til fullnustu hér á landi.
    Á þeim sviðum sem EASA-reglugerðin tekur til setur hún einnig EES-ríkjunum skorður hvað varðar þau verkefni og eftirlit sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar. Má þar nefna veitingu undanþága, ráðstafana sem kann að vera gripið til í öryggisskyni eða til verndar.
    Eins og vikið er að hér að framan eru álitaefni tengd EASA-reglugerðinni ekki ný af nálinni. Allmargar álitsgerðir liggja þegar fyrir um mat á atriðum er tengjast framsali framkvæmda- og dómsvalds vegna EES-samningsins og tengdra samninga og eru þær ekki einhlítar enda tilvikin mismunandi að efni og umfangi. Niðurstöður þeirra hafa fyrst og fremst miðast við einstök ákvæði en til viðbótar hafa jafnan verði gerðir fyrirvarar um sameiginleg áhrif af þróun samningsins í heild.
    Með þingsályktunartillögu um heimild til staðfestingar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar vegna reglugerðar (EB) 216/2008, forvera EASA-reglugerðarinnar, fylgdi álitsgerð sem Stefán Már Stefánsson, þáverandi lagaprófessor, vann að beiðni forsætisráðuneytisins og er dagsett 10. janúar 2011. Er álit hans prentað sem fylgiskjal III. við þingsályktunartillöguna. Kemur þar m.a. fram sú niðurstaða hans, með vísan til framsals framkvæmdavalds, að „erfitt geti verið að fullyrða að slík löggjöf brjóti í bága við stjórnarskrá“. Meðal annars er skírskotað til þess í álitinu að „ekki megi þrengja um of að möguleikum Íslands til þess að tryggja hagsmuni sína í þjóðréttarsamningum og svo einnig að Alþingi hafi ákveðið svigrúm til að skýra stjórnarskrána með bindandi hætti.“
    Hvað framsal dómsvalds varðar tiltók Stefán Már að: „það teldist ekki andstætt ákvæðum íslenskrar stjórnarskrár þótt Ísland viðurkenndi í þjóðréttarsamningi að alþjóðlegur dómstóll kveði upp dóma sem túlka nánar þær þjóðréttarlegu skyldur sem leiða af viðkomandi þjóðréttarsamningi. Þetta gilti jafnt þótt slíkar niðurstöður gætu haft mikla þýðingu fyrir túlkun íslensks réttar af hálfu íslenskra dómstóla og stjórnvalda.“

5. Samráð.
    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birti í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is dagana 30. nóvember 2018–16. janúar 2019 áform sín um upptöku reglugerðar (ESB) 2018/1139 í EES-samninginn og fyrirhugaða innleiðingu í landsrétt (mál nr. S-243/2018). Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu vegna þessara áforma.
    18. júní – 16. júlí 2019 kynnti ráðuneytið áform um lagasetningu vegna fyrirhugaðrar innleiðingar reglugerðar (ESB) 2018/1139 í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál S-142/2019). Þrjár umsagnir bárust vegna áformanna.
    Á tímabilinu 20. janúar – 10. febrúar 2020 birti ráðuneytið í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is drög að frumvarpi til breytinga á lögum um loftferðir (mál nr. S-8/2020). Tvær umsagnir um frumvarpið bárust, frá Isavia ohf. og Samtökum atvinnulífsins, og var í báðum umsögnum einkum sett fram gagnrýni á að ekki skyldi ráðist í heildarendurskoðun laganna, sér í lagi að teknu tilliti til þess hversu umfangsmiklar breytingarnar lagðar voru til á gildandi lögum. Frumvarpið var ekki lagt fram. Þess í stað kynnti ráðuneytið í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is dagana 22. maí – 19. júní 2020 áform um heildarendurskoðun laganna (mál nr. S-102/2020). Fjórar umsagnir bárust, frá Samtökum atvinnulífsins, Félagi íslenskra atvinnuflugmanna, Umhverfisstofnun og Isavia ohf. Einnig voru áform um heildarendurskoðun laganna kynnt á fundi fagráðs um flugmál.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við Samgöngustofu og rannsóknarnefnd samgönguslysa og hvað afmarkaða þætti varðar við forsætisráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, utanríkisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Ríkislögreglustjóra, Lögreglustjórann á Suðurnesjum, Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu, Vinnueftirlit ríkisins, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Skattinn, Samtök atvinnulífsins, Isavia ohf., Neytendasamtökin, Landhelgisgæslu Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga. Drög að frumvarpi þessu voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is á haustmánuðum 2020, þ.e. frá 19. október – 16. nóvember 2020, sjá mál nr. S-220/2020. Samtals bárust þrettán umsagnir frá haghöfum og hefur við lokafrágang frumvarpsins meðal annars verið tekið mið af þeim.
    Meðan frumvarpið var í samráðsgátt stjórnvalda var frumvarpið kynnt á fundi fagráðs um flugmál og fyrir einstökum hagsmunaðilum að beiðni þeirra. Við lokavinnslu frumvarpsins var enn fremur haft samráð við einstaka hagaðila vegna athugasemda þeirra. Ítarlegt yfirlit yfir þær athugasemdir og ábendingar sem bárust og viðbrögð við þeim hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda undir máli nr. S-220/2020 og er því hér aðeins stiklað á allra veigamestu breytingunum sem gerðar voru.
    Í ljósi ábendinga um ósamræmi milli 2. gr. um gildissvið og gildissviðsákvæða einstakra kafla voru gerðar breytingar á gildissviðsákvæði, bæði er varðar nánari afmörkun á íslensku yfirráðasvæði og hvað varðar samræmi við aðra kafla (XVI. og XVII. kafla). Þá voru gerðar breytingar á fáeinum orðskýringum í 3. gr., meðal annars hugtakinu rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsöguþjónusta. Í II. kafla var bætt við ákvæði um heimild Samgöngustofu til vinnslu persónuupplýsinga og miðlun slíkra upplýsinga.
    Ítarlegar umsagnir tveggja stéttarfélaga gáfu tilefni til endurskoðunar á ákvæðum X. kafla um vinnuumhverfi flugverja, einkum hvað varðar styrkingu ákvæða er varða fartíma- og vinnutímamörk, rannsókn vinnuslysa um borð í loftförum og almenn umgjörð eftirlits með vinnuumhverfi um borð og styrkingu reglugerðarheimilda.
    Fram komu athugasemdir um fjölmörg efnisatriði XII. kafla um flugvelli, sér í lagi hvað varðar samráð rekstraraðila flugvallar og sveitarfélaga um vöktun og verndun flugvallarumhverfis, setningu skipulagsreglna flugvalla og framfylgni við slíkar reglur. Gerðar voru breytingar á nokkrum ákvæðum kaflans til að koma til móts við þessar athugasemdir.
    Fáeinar breytingar voru gerðar á ákvæðum XIII. kafla um flugvernd, aðallega vegna gagna og upplýsinga á sviði flugverndar sem ekki teljast trúnaðarflokkaðar til að tryggja engu að síður vernd þeirra, miðlun og varðveislu.
    Nokkur einföldun var gerð 186. gr. um frammistöðuáætlun á sviði flugleiðsögu auk þess sem reglugerðarheimild í 187. gr. var yfirfarin.
    Gerð var athugasemd við 198. gr. um heimild til stöðvunar loftfars er varðar framkvæmd slíkrar stöðvunar á grundvelli laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Var ákvæðið endurskoðað og endurbætt í því skyni að auðvelda framkvæmd þess og skýra málsmeðferð.
    Í XVII. kafla um bótaábyrgð í loftflutningum var bætt við nýju ákvæði varðandi málshöfðun með vísan til Montreal-samningsins. Ekki er um efnislega breytingu frá gildandi lögum.
    Vegna athugasemda um heimild erlendra stjórnvalda og annarra hagaðila til leitar og björgunar innan íslensks yfirráðasvæðis var gerð breyting á 222. gr. frumvarpsins og ráðherra falið að útfæra slíka heimild í reglugerð.
    Gerð var athugasemd við birtingu nafns þess aðila sem ekki hyggst fara að úrskurði Samgöngustofu í neytendamálum, sbr. 249. gr. frumvarpsins, sér í lagi ef úrskurði stofnunarinnar yrði hnekkt fyrir dómstólum. Var orðalagi greinarinnar breytt svo Samgöngustofu yrði skylt að afmá nafn eða nöfn þeirra er dómur varðar af vefsíðu sinni kveði dómstóll upp dóm um sýknu.
    Auk þess sem að framan greinir var við frumvarpið bætt fimm nýjum greinum. Í 88. gr. var bætt við ákvæði um tómaleigu- og þjónustuleigu á sviði flugrekstrar. Í 264. gr. er lagt til að nýtt bráðabirgðaákvæði við lög um virðisaukaskatt taki gildi sem heimilar tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af loftförum, hreyflum og loftskrúfum sem nota rafmagn sem aðalaflgjafa og er almennt til ívilnunar. Til leiðréttingar er lögð til breyting á tilvísun í lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda í 274. gr. Lagðar eru til breytingar á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu til áréttinga og skýringa vegna gildistöku laga um lögfestingu Höfðaborgarsamningsins og bókunar um búnað loftfara (sjá 276. og 277. gr.) auk breytinga á gildistökuákvæði (258. gr.) varðandi gildistöku einstakra greina. Þá voru gerðar ýmsar almennar leiðréttingar í ljósi athugasemda frá hagaðilum auk þess sem skýringar í greinargerð með fjölda ákvæða voru endurbættar.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið varðar hagsmuni neytenda og almennings, atvinnulífs og hins opinbera. Afleiðingar af samþykkt frumvarps fyrir almannahagsmuni og helstu hagsmunaaðila eru almennt talin jákvæð og til þess fallnar að stuðla að einsleitni löggjafar á sviði flugsamgangna innan Evrópska efnahagssvæðisins og EASA-ríkjanna. Nokkuð misjafnt er á hvaða tímapunkti ný verkefni og eftirlit sem lagður er grunnur að í frumvarpinu koma til framkvæmda. Veltur það í flestum tilvikum á innleiðingu þeirra afleiddu gerða sem byggja á reglugerð (ESB) 2018/1139, svo sem hvað varðar ómönnuð loftför, netöryggi, flugferlahönnun, vottun öryggistengds flugvallarbúnaðar og eftirlit með flugafgreiðslu- og hlaðstjórnunaraðilum á flugvöllum. Brottfall lögveðs vegna ógreiddra flugtengdra gjalda og setning frekari skilyrða um beitingu og málsmeðferð vegna stöðvunar loftfars vegna slíkra gjalda kunna einnig að hafa áhrif á flugrekendur og rekstraraðila flugvalla. Á það bæði við um getu fjárveikari flugrekenda til að viðhalda rekstri og nýliða til að hefja rekstur, svo sem vegna hugsanlega aukinna krafna um tryggingar fyrir greiðslufresti gjalda. Þá er talið að þessi sömu atriði kunni að hafa áhrif á Isavia ohf. samstæðuna hvað innheimtu flugtengdra gjalda varðar. Ekki hefur reynst unnt að kostnaðarmeta áhrif þeirra breytinga sem hér er getið.
    Ekki er búist við að frumvarpið hafi sérstök áhrif á stjórnsýslu ríkisins, að Samgöngustofu undanskilinni. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á stöðu kynjanna en engin greining á því liggur hins vegar fyrir.
    Að mati Samgöngustofu koma áætluð útgjöld til með að aukast varanlega verði frumvarpið að lögum. Sá viðbótarkostnaður er áætlaður um 50 millj. kr. á ári vegna nýrra verkefna og fjölgun stöðugilda. Þar af er gert ráð fyrir um 10 millj. kr. á ári vegna verkefna sem tengjast aðgerðaáætlun á sviði flugöryggis og útfærslu flugstefnu. Þá liggur fyrir að einskiptiskostnaður vegna kerfisþróunar, kynningarátaks og fræðslu í tengslum við ný verkefni er áætlaður um 17 millj. kr. Gert er ráð fyrir að aukin umsvif verkefna og eftirlits verði fjármögnuð að hluta til eða að öllu leyti með gjaldheimtu í samræmi við gjaldskrá stofnunarinnar hverju sinni.
    Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur metið fjárhagsáhrif vegna frumvarpsins. Niðurstaða þess mats er að bein fjárhagsáhrif frumvarpsins séu engin. Þrátt fyrir að frumvarpið kveði á um takmarkaðri skyldur nefndarinnar til að hlutast til um rannsókn nánar tiltekinna loftfara er jafnframt kveðið á um rétt nefndarinnar til að ákvarða að eigin frumkvæði að rannsaka flugslys eða alvarleg flugatvik sem tengjast slíkum loftförum, ef talið er að draga megi af slíkum rannsóknum lærdóm í þágu aukins öryggis.
    Dómsmálaráðuneytið hefur jafnframt metið fjárhagsáhrif frumvarpsins með tilliti til kaflans um leit og björgun, breytinga á ákvæðum á sviði fullnusturéttarfars og er varðar stöðvun loftfars vegna ógreiddra gjalda. Niðurstaða mats er að bein fjárhagsáhrif frumvarpsins séu engin.
    Vegna breytinga á tekjuskattslögum og lögum um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið metið fjárhagsáhrif þeirra á ríki og sveitarfélög. Áhrifin eru talin mjög takmörkuð vegna þess hve breytingin snertir fáa einstaklinga. Að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins eru áhrif vegna breytinga á lögum um virðisaukaskatt talin óveruleg.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er af þessum sökum ekki gert ráð fyrir því að það hafi teljandi áhrif á afkomu ríkissjóð.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Eins og rakið er í inngangi að greinargerð þessari byggja markmið frumvarpsins á nýlega samþykktri flugstefnu. Tilefni þess að mótuð var stefna í flugi var margþætt. Meðal þeirra atriða sem lágu til grundvallar voru að skapa umhverfi sem viðheldur grundvelli fyrir flugrekstur og flugtengda starfsemi á Íslandi, hvort sem er núverandi eða nýja starfsemi, styður við vöxt hennar að því marki sem það er þjóðhagslega hagkvæmt, eykur atvinnusköpun og stuðlar að jákvæðri byggðaþróun. Þessi lykilviðfangsefni flugstefnu hafa í megindráttum legið til grundvallar þeirri vinnu sem liggur að baki frumvarpinu.
    Frumvarpinu, ef það nær fram að ganga, er ætlað að vera ný heildarlög á sviði loftferða og jafnframt heildstæð löggjöf á þeim sviðum sem þau taka til í samræmi við skuldbindingar Íslands að þjóðarétti. Áhersla er lögð á flugöryggi og að byggt sé á og þeim árangri viðhaldið sem náðst hefur á sviði flugöryggismála og leitað leiða til að stuðla áfram að auknu flugöryggi. Í því skyni er meðal annars lagt til í frumvarpinu að komið verði á og viðhaldið landsáætlun og aðgerðaáætlun á sviði flugöryggis.
    Greiðar samgöngur tengjast ekki síst markaðsaðgangi og tækifærum til samkeppni en einnig byggðastefnu og að samgöngum sé viðhaldið í samræmi við þörf þrátt fyrir að markaðsforsendur bresti. Skilvirkni vísar til þess sem ber góðan árangur, sem skilar sem mestu á sem hagkvæmastan hátt. Ein forsenda lífsgæða í nútímasamfélagi er talin vera virk samkeppni í flugi og afleiddri þjónustustarfsemi sem tengist flugi sem og efnahagsleg velsæld og samkeppnishæfni landsins. Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að góðar flugsamgöngur eru forsenda ýmissa annarra atvinnugreina, svo sem ferðaþjónustu og öðrum þjónustugreinum innanlands. Þá er virk samkeppni ekki síst mikilvæg þar sem hún veitir fyrirtækjum aðhald og hvetur til nýsköpunar, betri þjónustu og lægra verðs.
    Forsenda greiðra samgangna er að fyrir hendi séu innviðir sem stuðlað geti að frekari uppbyggingu og viðhaldið þeim ávinningi sem unnist hefur. Því er ekki síst mikilvægt að tryggja uppbyggingu og viðhald innviða sem mæti þörfum notenda sem og að tryggja aðgengi að þeim. Þá er aukin áhersla á að dregið sé úr neikvæðum umhverfisáhrifum flugs og flugtengds reksturs.

Um 2. gr.

    Lagt er til að lögfest verði nokkuð ítarlegra og víðtækara gildissviðsákvæði en samkvæmt gildandi lögum. Byggist greinin í meginatriðum á grunnviðmiðum gildandi 1. gr. laga um loftferðir hvað varðar landfræðilega afmörkun, þ.e. að lögin gildi á íslensku yfirráðasvæði, sbr. lög um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979. Forráðasvæði íslenska ríkisins, íslenskt yfirráðasvæði, skiptist í aðalatriðum í land, hafsvæði og lofthelgi. Lofthelgin tekur til loftrýmisins yfir landinu, yfir innsævi og landhelginni. Landhelgin afmarkast af línu sem alls staðar er 12 sjómílur frá grunnlínu sem dregin er milli tiltekinna staða, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1979.
    Almennt er viðurkennt að hvert ríki hafi óskoruð yfirráð í lofti yfir landi sínu, þ.e. loftrýminu (e. airspace) og landhelgi. Endurspeglast þessi viðurkenning í 1. gr. Chicago-samningsins um alþjóðaflugmál (e. Convention on international aviation) sem gerður var 7. desember 1944 og Ísland er aðili að, sbr. auglýsingu nr. 45/1947, og forvera hans, Parísar-samningsins svonefnda, sem gerður var árið 1919 (e. Convention Relating to the Regulation of Aerial Navigation). Þessi fullveldisréttur (e. sovereignity) byggist á almennt viðurkenndri þjóðréttarvenju. Sú lagalega og diplómatíska umgjörð sem alþjóðlegum flugsamgöngum er búin hvílir á þremur meginatriðum: Í fyrsta lagi fullveldi og lögsögu hvers ríkis yfir því loftrými sem er yfir yfirráðasvæði þess, þ.m.t. innsævi og landhelgi. Í öðru lagi að loftrými yfir alþjóðlegum hafsvæðum (e. high seas) og öðrum hlutum jarðar sem ekki lúta lögsögu neins ríkis (terra nullis) er aðgengilegt loftförum allra ríkja. Sú regla Parísarsamningsins sem byggist á þjóðréttarvenju um rétt til friðsamlegrar ferðar (e. innocent passage) loftfars um lofthelgi annarra samningsríkja náði ekki fótfestu í Chicago-samningnum, aðallega að því er talið er vegna yfirstandandi heimstyrjaldar þegar samningurinn var gerður. Ber því mjög á milli meginreglna Chicago-samningsins í flugrétti og hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna (e. The United Nations Convention on the Law of the Sea, UNCLOS) frá 1982, sbr. auglýsingar nr. 7/1985, 40/1993 og 43/1995 um rétt til friðsamlegrar ferðar. Í þessu samhengi er þó rétt að hafa í huga að lofthelgin nær aðeins til marka landhelgi hvers ríkis en tekur ekki til loftrýmisins yfir efnahagslögsögunni eða landgrunni þar sem öllum loftförum er frjáls för. Þá er rétt að hafa í huga að skv. 38. gr. UNCLOS er fyrir hendi réttur til flugs yfir sund (milli tveggja ríkja) fyrir bæði herloftför og loftför í flutningaflugi. Í þriðja lagi hefur hvert ríki algjört vald til að ákvarða um aðgengi eða synjun um aðgengi að lofthelgi sinni. Um aðgengi að íslensku yfirráðasvæði er nánar fjallað í III. kafla frumvarpsins.
    Loftrýmið teygir sig lóðrétt upp frá yfirborði jarðar upp í ótiltekna hæð. Við starfrækslu loftfara er almennt miðað við að 18 km hæð séu efri mörk borgaralegrar flugumferðar, 50 km séu efri mörk uppdrif andrúmslofts (loftbelgir), 120 km þröskuldur endurkomu fyrir geimför og 160 km lægsta raunhæfa hæð fyrir starfrækslu gervitungla. Ekki liggur fyrir þjóðréttarleg skilgreining um afmörkun himingeimsins (e. outer space) eða einfaldlega geimsins, þ.e. hvar hann byrjar og hvar loftrýmið endar og þar með lofthelgi ríkja. Ýmsar kenningar og sjónarmið hafa verið settar fram þar að lútandi á alþjóðavettvangi án þess að hljóta yfirgnæfandi stuðning eða samhljóða samþykki ríkja. Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna um málefni geimsins (e. United Nations Office for Outer Space Affairs, UNOOSA) hefur haldið utan um þessar tillögur og þær verið ræddar á fundum nefndar Sameinuðu þjóðanna um friðsamlega notkun himingeimsins (e. Committee on the Peaceful Uses of Outer Space, COPUOS). Í hnotskurn hafa tvær meginfylkingar mótast, annars vegar nálgun sem styður skýra afmörkun milli loftrýmis og geimsins byggð á vísindalegum eða almennt viðurkenndum viðmiðum (staðbundin nálgun). Sem dæmi: von Kármán línan (100 km frá sjávarmáli), lagskiptingu andrúmsloftsins og raunverulega stjórnun í því, mörk andrúmsloftsins og geimsins, hámarks flughæð loftfara, loftaflfræðilegir eiginleikar og lægsti punktur brautar gervitungls/fars við jörðu. Hins vegar nálgun sem byggist á því að slík afmörkun sé óþörf eða jafnvel ekki möguleg því þær athafnir sem framkvæmdar eru í þessu rými ætti að meta með tillit til markmiða sinna (hagnýt nálgun). Dæmi: miðað er við tilgang, hönnun og vottun og áhrif á umferðarstjórn í loftrýminu/geimnum. Hinn 10. október 1967 tók gildi þjóðréttarsamningur um rannsóknir og not ríkja af himingeimnum, tungli og stjörnum, oftast nefndur geimréttarsamningurinn. Fullgilti Ísland samninginn 5. febrúar 1968, sbr. auglýsingu nr. 1/1968. Aðildarríki hans voru þann 1. janúar 2021 110 talsins. Með samningnum er slegið föstum nokkrum grundvallarreglum um geiminn, meðal annars að allar þjóðir hafi frelsi og jafnan rétt til rannsókna og notkunar geimsins og að ekkert ríki geti stofnað til yfirráða í himingeimnum.
    Með vísan til þess sem að framan greinir er ljóst að hér greinir mjög á milli flug- og geimréttar. Á grundvelli Chicago-samningsins hafa ríki óskoruð yfirráð yfir lofthelginni en samkvæmt geimréttarsamningnum getur ekkert ríki stofnað til yfirráða í himingeimnum, hvorki í rúminu né á tunglinu né öðrum hnöttum. Því hefur afmörkun lofthelginnar einnig praktíska þýðingu hvað varðar yfirflug, svo sem eldflauga (e. rockets), hvort sem slíkar flaugar ná ekki fullri sporbraut, þ.e. skotið nær ekki æskilegum hraða til að viðhalda hringferð um sporbraut (svonefnt kastbrautarskot, e. sub-orbital), í grenndargeim (e. near space) eða himingeiminn. Það er að við skot á loft og endurkomu kann fyrirhuguð flug- eða fallslóð eða braut slíks hlutar að fara um lofthelgi fleiri en eins ríkis. Þetta á einkum við „trans-atmospheric“-eldflaugar og eldflaugar sem fara á sporbaug (e. orbital rockets). Þá eru skaðabótareglur flug- og geimréttar ólíkar.
    Stefna íslenskra stjórnvalda í málefnum geimsins hefur ekki verið mótuð og nýleg flugstefna tekur ekki afstöðu til þessa. Þá er íslensk löggjöf fáorð um málefni geimsins. Er því ekki tilefni í þessu frumvarpi til þess að varpa fram skilgreiningu á ytri mörkum loftrýmisins og geimsins. Á það hefur verið bent að þessi skortur á skilgreiningu hefur takmarkaða praktíska þýðingu. Til að mynda tilgreinir geimréttarsamningurinn að tunglið sé í geimnum og veitir þannig nokkrar vísbendingar um afmörkun.
    A-liður 1. mgr. 2. gr. er samhljóða 1. mgr. 1. gr. gildandi laga. Af þjóðerni loftfars (skráningu þess) leiðir að lögsaga skráningarríkis nær til loftfarsins hvar sem það er statt nema samningar við önnur ríki eða lög þess ríkis sem loftfarið fer um leiði til annars. Byggir þessi nálgun á þríþættum meginreglum Chicago-samningsins um lögsögu ríkja, þ.e. forráðasvæðislögsögu (e. territorial jurisdiction) yfir öllum loftförum innan yfirráðasvæði þess, lögsögu yfir loftfari sem skráð er í því ríki í flugi á eða yfir yfirráðasvæðum erlendra ríkja (e. personal jurisdiction) og svonefndri ígildis-forráðasvæðalögsögu (e. quasi-territorial jurisdiction) vegna loftfars skráð í því ríki í flugi yfir úthöfin og í loftrými þar sem engu ríki hefur verið ákvarðaður fullveldisréttur. Hvað úthöfin varðar tiltekur 12. gr. Chicago-samningsins að þær reglur sem teknar eru upp á grundvelli samningsins skuli gilda yfir úthöfunum. Á þetta meðal annars við um flugreglurnar sem fram koma í viðauka 2 (flugreglur) við Chicago-samninginn sem ætlað er að gilda þar án undantekninga, sbr. 3. mgr. 169. gr. frumvarpsins.
    Aðrir stafliðir (b-, c- og e–g-liðir) í 1. mgr. eru nýmæli og eiga rót sína að rekja til víðfeðms gildissviðs reglugerðar (ESB) 2018/1139 og afleidds regluverks sem tekur ekki aðeins til loftfara, einstaklinga og lögaðila sem staðfestu hafa í EASA-ríkjum heldur einnig utan þeirra auk þjónustu sem aðilar með staðfestu innan EASA-ríkjanna veita óháð því hvar þjónustan er veitt (landfræðilega). Þar með er talin þjónusta sem veitt er í loftrými yfir úthöfunum, utan yfirráðasvæðis EASA-ríkjanna. Þá er einnig leitast við að taka tillit til þeirra aðstæðna þegar lögbært landsyfirvald erlends ríkis eða EASA hefur fært eftirlit til Samgöngustofu, sbr. f-lið. Í d-lið, sem einnig er nýmæli, er tiltekið að gildissviðið taki til hluta og tækja sem ætlað er að hreyfast um loftið en teljast ekki loftför, þ.e. haldast ekki á lofti vegna verkana loftsins eins og loftför. Sem dæmi um slíka hluti og tæki má nefna geimför (e. space craft) og skotvagna (e. launch vehicles). Eldflaugar (e. rockets) og skotflaugar (e. missiles) teljast alla jafna ekki til loftfara þótt það sé ekki algilt. Til að mynda geta stýriflaugar (e. cruise missiles) og stýrð flugskeyti (e. guided missiles) talist loftför. Er þetta nokkur útvíkkun á gildissviði gildandi laga en fyrir hendi er heimild ráðherra í 2. mgr. 2. gr. gildandi laga til að setja reglur um tæki sem ætluð eru til að hreyfast um loftið en eru ekki loftför. Samsvarandi heimildum er viðhaldið í 4. mgr. 21. gr. Markmið þessarar breytingar er fyrst og fremst að tryggja öryggi flugumferðar og almannaöryggi.
    Í 3. mgr. er lagt til að víðtækara gildissvið tveggja kafla gildi óháð 1. mgr. Kaflarnir eru XVI. kafli um neytendavernd og XVII. kafli um bótaábyrgð í loftflutningum (lögfesting Montreal-samningsins frá 1999). Báðir kaflar hafa sérstakt gildissviðsákvæði, sjá annars vegar 201. gr. vegna XVI. kafla og hins vegar 211. gr. og 212. gr. vegna XVII. kafla, sem mæla fyrir um víðtækara gildissvið en það sem 1. mgr. mælir fyrir um. Helgast víðtækara gildissvið kaflanna fyrst og fremst af þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem efni kaflanna byggist á eða vísar til.
    Í 4. mgr. greinarinnar er mælt fyrir um heimildir ráðherra til að ákveða að hve miklu leyti lög og reglugerðir sem settar eru samkvæmt heimild í lögunum gildi utan íslensks yfirráðasvæðis og um erlend skráð loftför sem starfrækt eru af aðila sem er með höfuðstöðvar sínar eða aðalaðsetur á Íslandi. Byggir málsgreinin á samsvarandi heimildum í gildandi lögum, sbr. annars vegar 2. mgr. 1. gr. og hins vegar 39. gr. og 85. gr. Bent er á að ef heimildin er nýtt er litið svo á að þrátt fyrir erlenda skráningu loftfars sé það talið íslenskt í skilningi 2. tölul. 4. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Miðað er við að heimildinni sé beitt með tvennum hætti. Annars vegar með stjórnvaldsákvörðun eða stjórnvaldsfyrirmælum, þ.e. í reglugerð eða auglýsingu, eða hins vegar með vísan til samnings við erlent ríki. Með vísan til 83. gr. bis í Chicago-samningnum er gert ráð fyrir að aðildarríki geti með samningi fært vissar skyldur og eftirlit með loftfari frá skráningarríki loftfars til þess ríkis þar sem flugrekandi hefur höfuðstöðvar sínar eða aðalaðsetur í. Í slíkum samningi felst yfirfærsla afmarkaðra skyldna og eftirlits að því marki sem viðkomandi samningur greinir, sbr. þær skyldur sem felst í 12. gr., 30. gr., 31. gr. og 32. gr. (a) í Chicago-samningnum. Nánar er fjallað um heimildir Samgöngustofu í þessu samhengi í 14. gr. frumvarpsins um tilfærslu eftirlits. Samkvæmt bókuninni um 83. gr. bis skal samningur um flutning skyldna og eftirlits aðeins hafa áhrif gagnvart öðrum aðildarríkjum Chicago-samningsins frá því tímamarki sem samningur um flutning er skráður hjá ráði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og efni hans birt skv. 83. gr. Chicago-samningsins eða að tilvist hans og gildissviði sé miðlað beint til stjórnvalda í aðildarríkjum Chicago-samningsins af ríki sem aðild á að samningi. Heldur Alþjóðaflugmálastofnunin sérstaka skrá um slíka samninga sem eru aðgengilegir á vefsíðu stofnunarinnar. Bókun um breytingu á Chicago-samningnum (ný grein, 83. gr. bis) var fullgilt af Íslands hálfu 9. maí 1990 en greinin sjálf tók gildi 20. júní 1997, sbr. auglýsingar nr. 10/1990 og 17/1997. Af framangreindu leiðir að með sama hætti og erlent loftfar geti fallið undir íslenskan rétt getur íslenskt loftfar skráð í loftfaraskrá hér á landi en starfrækt af erlendum flugrekanda því lotið erlendum lögum og reglum.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um orðskýringar sem ætlað er að gilda fyrir alla kafla laganna, að undanskildum XVII. kafla og Montreal-samningnum sem er fylgiskjal við lögin. Ástæða þessa er að XVII. kafli er lögfesting á ákvæðum Montreal-samningsins frá 1999. Ekki er ætlunin að raska eða breyta þeim orðum og hugtökum sem þar eru notuð.
    Alþjóðlegt tungumál flugsins er enska og orðasambönd í orðskýringum greinarinnar eru þýðingar úr ensku. Í skýringum við einstakar greinar er þess gætt að birta orð og hugtök á ensku. Er þetta gert af ráðnum hug þar sem ætlunin er að reyna að festa frekar í sessi íslenska þýðingu þessara orða og samhliða stuðla að útbreiddari notkun þeirra.
    Að öðru leyti byggjast orðskýringarnar á sömu orðskýringum og koma fram í reglugerð (ESB) 2018/1139 og öðrum EES-gerðum á sviði flugmála auk orðskýringa sem eiga rót sína að rekja til Chicago-samningsins og viðauka hans. Leitast var við að velja sérstaklega úr orðskýringar er varða orð og hugtök sem koma fyrir í ákvæðum frumvarpsins.
    Orðið loftfar (e. aircraft) sem er skilgreint sérstaklega í orðskýringum tekur bæði til loftfara í almenningsflugi (e. civil aviation) og ríkisloftfara (e. state aircraft). Í b-lið 3. gr. Chicago-samningsins er tiltekið að loftför sem notuð eru af hernaðaryfirvöldum, lögreglu og tollgæslu teljist til ríkisloftfara. Bent er á að með þessu orðalagi eru ríkisloftför ekki tæmandi talin. Loftför sem starfrækt eru af opinberum aðilum til að sinna opinberri þjónustu eða skyldum á ábyrgð ríkisins, sbr. 61. gr. og 92. gr., teljast ekki endilega ríkisloftför því opinberir aðilar geta einnig starfrækt borgaraleg loftför. Það er að eignarhald þeirra eitt og sér ákvarðar ekki að um ríkisloftfar sé að ræða. Sama á við um ákvörðun á því hvort flug telst starfrækt sem borgaralegt flug eða ríkisflug, þ.e. notkun þess ákvarðar flokkun. Þannig getur borgaralega skráð loftfar í flutningum á hermönnum verið talið í herflugi (þ.e. ríkisflugi) og loftfar skráð sem herloftfar en er notað við hjálparstarf, t.d. flutning neyðarbirgða, verið talið í borgaralegu flugi.
    Hugtakið loftfar er afmarkað við tæki sem haldist getur á flugi vegna verkana loftsins annarra en loftpúðaáhrifa við yfirborð jarðar. Hugtakið loftfar er ekki skilgreint í Chicago-samningnum heldur í viðauka 7 (þjóðerni loftfara og skráningarmerki) við samninginn og var meðal annars sérstaklega breytt árið 1967 til að útiloka svifnökkva frá eldri skilgreiningu hugtaksins. Þá er rétt að hafa í huga að hlutir og tæki sem ferðast geta um loftið (en teljast ekki loftför), sbr. d-lið 1. mgr. 2. gr., sem ætlað er að ferðast út í geim, kunna að falla undir skilgreininguna loftfar ef þau nota lyftikrafta andrúmsloftsins til flugs meðan þau fljúga innan loftrýmis (e. air space). Á þetta bæði við um svonefndar kastbrautarflugvélar (e. sub-orbital aerospace planes) og flugvélar sem fljúga að sporbaug (e. orbital aerospace planes).
    Bent skal á að orðin vottun (e. certification) og vottorð (e. certificate) koma mjög víða fyrir og hafa víðtæka merkingu. Orðið yfirlýsing (e. declaration) kemur einnig víða fyrir og byggist á þeim möguleika sem EASA-reglugerðin tiltekur að í stað útgáfu vottorðs sé aðila heimilt að gefa þess í stað út yfirlýsingu til EASA eða lögbærra landsyfirvalda, eftir atvikum um uppfyllingu krafna.
    Fáein nýyrði eru í orðskýringum. Ber þar helst að nefna orðskýringar sem leiða beint af reglugerð (ESB) 2018/1139 þó svo að þær orðskýringar sé ekki að finna í reglugerðinni sjálfri. Sem dæmi má nefna: EASA-reglugerð, EASA-ríki og EASA-loftfar. Þessi hugtök má rekja beinlínis til 2. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139 þar sem kveðið er á um gildissvið reglugerðar-innar.
    Hugtakið EASA-ríki tekur til þeirra ríkja sem taka þátt í starfsemi Flugöryggisstofnunar Evrópu á grundvelli 129. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139. Nú eru það aðildarríki Evrópusambandsins, EFTA-ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein á grundvelli EES-samningsins, auk Sviss á grundvelli samnings Sviss við Evrópusambandið á sviði flugmála og stofnsamnings EFTA. Bent skal á að upptalning ríkjanna tekur til yfirráðasvæða þessara ríkja eins og framangreindir samningar skilgreina þau. Hvað aðildarríki Evrópusambandsins varðar er kveðið á um yfirráðasvæði þeirra í 52. gr. sáttmálans um Evrópusambandið (TEU) og 355. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins (TFEU). Getur þessi afmörkun haft þýðingu í tilteknum tilvikum, svo sem til nánari afmörkunar á því valdi sem EASA er falið í þriðju ríkjum, þ.e. afmörkun á því hvaða ríki teljast þriðju ríki í skilningi reglugerðarinnar og hvaða flugrekendur/umráðendur í þriðju ríkjum teljast falla undir vottunarkröfur með tilliti til flutningaflugs til, frá og innan EASA-ríkjanna. Þá er einnig gagnlegt að hafa í huga að landfræðileg afmörkun samkvæmt framangreindum sáttmálum er ekki alltaf sú sama og sú sem tilgreind er í Schengen-gerðum.
    Aðildarríki samningsins um sameiginlega Evrópska flugsvæðið, Albanía, Bosnía og Hersegóvína, Norður-Makedónía, Svartfjallaland, Serbía og Kósovó, auk Íslands, Noregs og aðildarríkja Evrópusambandsins, eru samstarfsríki EASA, en teljast ekki full þátttökuríki. Samningurinn um sameiginlega Evrópska flugsvæðið tilgreinir tvö aðlögunartímabil þar sem ríkin á Vestur-Balkanskaga vinna að því að samþætta löggjöf sína löggjöf Evrópusambandsins á málefnasviðinu. Í lok annars aðlögunartímabils er gert ráð fyrir að staða einstakra ríkja verði metin og staða þeirra og skilyrði fyrir þátttöku í EASA ákvörðuð. Í þessu samhengi er rétt að vekja athygli á hugtökum sem gjarnan vilja ruglast saman en þýða ólíka hluti. Annars vegar sameiginlega Evrópska flugsvæðið (e. European Common Aviation Area) sem lýst er hér fyrir framan og tilgreinir það svæði sem framangreindur samningur tekur til og hins vegar samevrópska loftrýmið (e. single European sky). Það síðarnefnda er ýmist notað yfir tiltekið loftrými í Evrópu eða áætlanir Evrópusambandsins og löggjafar til umbóta á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar og flugleiðsöguþjónustu sem fram hafa komið á síðastliðnum árum.
    Sérstaklega skal bent á að hugtakið EASA-loftfar kemur til með að ráðast endanlega af innleiðingu reglugerðar (ESB) 2018/1139 í landsrétt og að teknu tilliti til beitingar sveigjanleika ákvæða reglugerðarinnar, þ.e. svonefndum „opt-in“ og „opt-out“ möguleikum. Jafnframt hefur hugtakið EASA-loftfar einnig sérstaka þýðingu með tilliti til þeirra breytinga sem frumvarpið leggur til á lögum um rannsókn samgönguslysa, sbr. 260. gr. frumvarpsins.
    Hugtakið flugrekandi/umráðandi leiðir beint af þýðingu enska orðsins „operator“. Rétt er að benda á að hugtakið tekur ekki afstöðu til þess hvernig starfrækslu loftfarsins er háttað, þ.e. hvort um er að ræða starfrækslu í ábataskyni eða ekki.
    Hugtökin flugleiðsöguþjónusta (e. air navigation service) og rekstrarstjórnun flugumferðar (e. air traffic management) eiga rót sína að rekja til samnefndra reglugerða (EB) 549/2004, 550/2004, 551/2004 og 552/2004 um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu, með síðari breytingum, sem innleiddar eru með reglugerð nr. 870/2007, með síðari breytingum. Hugtakið rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsöguþjónusta (e. air traffic management/air navigation service) á rót sína að rekja til reglugerðar (ESB) 2018/1139 og er nánar fjallað um það í skýringum við 171. gr. Er þar einnig stuttlega fjallað um hugtakið samevrópsk þjónusta í tengslum við hugtakið rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsöguþjónusta.
    Rétt er að benda sérstaklega á að orðskýringunni á ómönnuðu loftfari er ætlað að taka til bæði hugtakanna ómannaðs loftfars (e. unmanned aircraft) eins og það er skilgreint í reglugerð (ESB) 2018/1139, þ.e. loftfar sem starfrækt er eða hannað til flugs með sjálfstýringu eða fjarstýribúnaði án flugmanns um borð, og ómannaðs loftfarskerfis (e. unmanned aircraft systems), sbr. reglugerð (ESB) 2019/947. Ómannað loftfarskerfi er skilgreint sem ómannað loftfar og búnaðurinn til að fjarstýra því. Búnaður til að fjarstýra ómönnuðu loftfari (e. equipment to control unmanned aircraft remotely) er einnig skilgreindur í greininni. Bent skal á að búnaður til að fjarstýra ómönnuðu loftfari telst hvorki hlutur (e. part) né óuppsettur búnaður (e. non-installed equipment). Nánar er fjallað um „hlut“ í skýringum við 52. gr. frumvarpsins. Sú hugtakanotkun sem rutt hefur sér til rúms innan Evrópusambandsins og stuðst er við er ekki að öllu leyti í takt við þá hugtakanotkun sem Alþjóðaflugmálastofnunin hefur notað. Í viðaukum Chicago-samningsins og leiðbeiningarefni stofnunarinnar er greint á milli fjarstýrðra loftfara (e. remotely piloted aircraft, RPA), fjarstýrðra loftfarskerfa (e. remotely piloted aircraft systems, RPAS), ómannaðra loftbelgja (e. unmanned free balloon) og sjálfstýrðra loftfara (e. autonomous aircraft) og því orðalagi sem notað er í 8. gr. Chicago-samningsins, loftfar án stjórnanda (e. pilotless aircraft), er ekki viðhaldið.
     Lögbær stjórnvöld (e. competent authorities) eru annars vegar lögbær landsyfirvöld (e. national competent authorities) og Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins.

Um II. kafla.

    Með kaflanum er einkum leitast við að skýra nánar tilhögun og afmörkun verkefna og ábyrgðar milli þeirra stjórnvalda sem að flugmálum koma, einkum með vísan til ákvæða reglugerðar (ESB) 2018/1139 og annarra þjóðréttarskuldbindinga. Jafnframt eru lögð til ýmis nýmæli, svo sem hvað varðar tilfærslu eftirlits, sem byggjast á ákvæðum reglugerðar (ESB) 2018/1139 og er ætlað að leysa mun takmarkaðri ákvæði sama efnis af hólmi.
    Kaflanum er ætlað að endurspegla þá grunnhugmynd sem reglugerð (ESB) 2018/1139 byggist á, að teknu tilliti til annarra þjóðréttarskuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist, þ.e. að lögbær landsyfirvöld, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (og Eftirlitsstofnun EFTA hvað EFTA-ríkin varðar) og Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, EASA, vinni saman sem eitt evrópskt flugöryggiskerfi (e. European aviation safety system). Er almennt miðað við að lögbær landsyfirvöld (e. national competent authorites) fari fyrst og fremst með verkefni og eftirlit (e. oversight) með aðilum með höfuðstöðvar eða aðalaðsetur (e. principal place of business) í EASA-ríkjum. Þá fer EASA með eftirlit með aðilum með höfuðstöðvar eða aðalaðsetur í þriðju ríkjum utan EASA-ríkjanna og aðilum sem veita samevrópska þjónustu á vissum sviðum. Á framangreindri verkaskiptingu eru þó mikilvægar undantekningar þar sem í vissum tilvikum hefur verið talið gagnlegt að tiltekin afmörkuð verkefni séu einvörðungu á verksviði EASA. Á þetta einkum við þar sem talið er nauðsynlegt að tryggja einsleitni og samræmi við framkvæmd svo og til að tryggja virkni sameiginlega markaðarins. Þá hefur einnig verið talin þörf á víðtækum ákvæðum þar sem lögbærum stjórnvöldum er heimilt að fela Flugöryggisstofnuninni frekari verkefni og eftirlit eða að færa til slíkt eftirlit til annarra lögbærra landsyfirvalda. Framkvæmd og eftirlit lögbærra landsyfirvalda með eftirlitsskyldum aðilum lýtur eftirliti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnunar EFTA, þar sem EASA er þeim til aðstoðar við vöktun og eftirlit. Í fyrstu EASA-reglugerðinni, reglugerð (EB) 1592/2002, kom þessi verkaskipting þegar skýrt fram hvað varðar grunnkröfur til lofthæfi og hönnunar, framleiðslu og viðhald framleiðsluvara. Var þar meðal annars skýrt kveðið á um hlutverk EASA við ákvörðun vottunargrunns og útgáfu tegundarvottorða, vottun hönnunarfyrirtækja og enn fremur vottun viðhaldsfyrirtækja í þriðju ríkjum. Í annarri EASA-reglugerðinni, reglugerð (EB) 216/2008, og síðari breytingum á þeirri reglugerð, þróaðist þessi verkaskipting frekar eftir því sem nýjum sviðum fjölgaði sem felld voru undir gildissvið reglugerðarinnar. Við innleiðingu fyrstu EASA-reglugerðarinnar í landsrétt voru mjög takmarkaðar breytingar gerðar á lögum um loftferðir þar eð aðallega var horft til þess að undirbyggja almenna lagastoð til innleiðingar reglugerðarinnar án þess að kveða nánar á um hlutverk EASA eða framsal á framkvæmdarvaldi til hennar. Við innleiðingu annarrar EASA-reglugerðar voru aðallega lögfestar breytingar á lögum um loftferðir vegna sektarheimilda sem fengnar voru Eftirlitsstofnun EFTA. Gildandi lög um loftferðir endurspegla því ekki starfssvið og verkaskiptingu lögbærra landsyfirvalda og Flugöryggisstofnunarinnar heldur kemur slík skipting einvörðungu fram í afleiddu regluverki sem innleitt hefur verið. Er kaflanum meðal annars ætlað að ráða bót á því.
    Bent skal á að þar sem gildissviði EASA-reglugerðarinnar sleppir er stjórnskipan flugmála með hefðbundnu sniði. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fer með yfirstjórn flugmála, stefnumörkun, samningu lagafrumvarpa, setningu reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla. Samgöngustofa, sem lögbært landsyfirvald, fer með þau verkefni og stjórnsýslu sem henni eru falin og, auk Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins, eftirlit á sviði loftferða.

Um 4. gr.

    Í greininni er almennt kveðið á um fyrirkomulag verkefna og eftirlits á sviði flugmála. Með vísan til fyrirhugaðrar upptöku og innleiðingar reglugerðar (ESB) 2018/1139 í landsrétt er hér lagt til að stjórnskipan flugmála og framkvæmdarvald verði samræmt þeirri skipan sem reglugerðin og EES-samningurinn kveða á um. Eins og rakið er í inngangi greinargerðar og almennum athugasemdum við þennan kafla er hér ekki um nýmæli að ræða heldur er leitast við að skýra það fyrirkomulag sem rutt hefur sér til rúms á undanförnum árum. Verkefnum og eftirliti á sviði flugmála er að mestu leyti skipt á milli tveggja stofnana, annars vegar innlends landsyfirvalds, Samgöngustofu, og hins vegar Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins, en á þeim sviðum sem EASA-reglugerðin tekur ekki til fer Samgöngustofa einvörðungu með verkefni og eftirlit, ýmist sjálfstætt eða í samráði við ráðherra. Yfirstjórn ráðherra tekur til hefðbundins hlutverks samkvæmt íslenskri stjórnskipan að svo miklu leyti sem þjóðréttarlegar skuldbindingar leiða ekki til takmarkana þar á, svo sem hvað varðar forystu um stefnumörkun innan þeirra málaflokka sem hann fer með, setningu stjórnvaldsfyrirmæla, meðferð úrskurðarvalds o.s.frv.
    Í 3. mgr. eru í dæmaskyni nefndar fáeinar ríkisstofnanir sem eru Samgöngustofu til aðstoðar. Þessari upptalningu er ekki ætlað að vera tæmandi.

Um 5. gr.

    Í greininni er ekki að finna tæmandi talningu á öllum verkefnum og eftirliti Samgöngustofu sem lögbærs landsyfirvalds (e. national competent authority). Kveðið er á um frekari verkefni og eftirlit víðar í frumvarpinu og í lögum um Samgöngustofu, nr. 119/2012. Bent skal á að þau verkefni og eftirlit sem falla utan gildissviðs reglugerðar (ESB) 2018/1139 lúta þjóðarreglum og eftirliti Samgöngustofu, svo sem þeir flokkar loftfara sem falla undir viðauka I við reglugerðina, flugvellir sem ekki teljast EASA-flugvellir og ríkisflug.
    Um afmörkun og valdsvið lögbærra landsyfirvalda og EASA er fjallað í 62. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139. Hafa ber í huga að almennt er gert ráð fyrir að einstaklingar sæki um vottorð, skírteini, fullgildingar eða önnur réttindi í því ríki þar sem þeir hafa aðalaðsetur eða búsetu. Með sama hætti er á því byggt að aðili sæki um vottun vegna starfsemi sinnar til þess lögbæra landsyfirvalds í því ríki þar sem höfuðstöðvar hans eru eða aðalaðsetur. Frá þessu er þó vikið, svo sem hvað varðar landfræðilega staðsetningu flugvalla, veitingu flugafgreiðslu á flugvelli og hlaðstjórnarþjónustu, sbr. f-lið, þar sem landfræðileg staðsetning ræður því hvaða lögbæra landsyfirvald fer með eftirlit óháð því hvar höfuðstöðvar eða aðalaðsetur aðila eru.
    Hvað varðar f-lið 1. mgr. er rétt að vekja athygli á 7. gr. (Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins) sem tekur til aðila er veita samevrópska rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu (e. pan-European ATM/ANS) sem lúta eftirliti EASA þó svo að hluti þjónustunnar fari fram í loftrými yfir íslensku yfirráðasvæði. Nánar er fjallað um samevrópska rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu í XIV. kafla.
    Í i-lið 1. mgr. er kveðið á um hlutverk Samgöngustofu hvað varðar eftirlit með öryggi og opinbera markaðsgæslu vara, sem er nýmæli. Um er að ræða opinbera markaðsgæslu þar sem leitast er við að tryggja að vörur á markaði uppfylli settar reglur um öryggi og heilsu- og umhverfisvernd, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 5. gr. laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995. Byggist málsgreinin meðal annars á fyrirhugaðri upptöku í EES-samninginn og innleiðingu tveggja reglugerða um ómönnuð loftför í landsrétt, þ.e. reglugerðar (ESB) 2019/947 frá 24. maí 2019 um reglur og verklag við starfrækslu ómannaðra loftfara og reglugerðar (ESB) 2019/945 frá 12. mars 2019 um ómönnuð loftför og flugrekendur/umráðendur ómannaðra loftfara frá þriðju ríkjum. Er miðað við að Samgöngustofa fari með eftirlit með ómönnuðum loftförum sem ekki teljast leikföng í skilningi tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/48/EB um öryggi leikfanga sem innleidd hefur verið í landsrétt með reglugerð nr. 944/2014 um öryggi leikfanga og markaðssetningu þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu. Nánar er kveðið á um eftirlit með öryggi vara og markaðsgæslu í 229. gr. Bent skal á að nánari afmörkun á hlutverki Samgöngustofu og Neytendastofu á einvörðungu við opinbert markaðseftirlit. Greininni er ekki ætlað að takmarka rétt og skyldu Samgöngustofu til íhlutunar gagnvart starfrækslu og flugi ómannaðra loftfara á íslensku yfirráðasvæði hvort sem um er að ræða leikföng eða ómönnuð loftför sem falla undir gildissvið laganna. Hvað aðrar vörur áhrærir er einkum horft til löggjafar sem er í undirbúningi á vettvangi Evrópusambandsins um vörur, búnað, kerfi og kerfishluta sem starfrækt eru á flugvöllum og við veitingu rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu.
    Með vísan til gildissviðs laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, er lagt til í j-lið 1. mgr. að Samgöngustofa fari með eftirlit með vinnuvernd flugverja í áhöfn loftfars um borð og á jörðu niðri. Bent er á að lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum taka ekki til loftferða né þeirra alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að og varða verksvið Samgöngustofu. Þó fellur undir gildissvið laga nr. 46/1980 vinna við loftför á jörðu niðri nema um störf áhafnar sé að ræða.
    Í k-lið 1. mgr. er almennt vísað til annarra verkefna Samgöngustofu. Er víða í frumvarpinu kveðið nánar á um hlutverk stofnunarinnar á einstökum sviðum, svo sem á sviði neytendaverndar (XVI. kafli), flugverndar (XIII. kafli) og hvað varðar aðgang að markaði og gjaldtöku (XV. kafli).

Um 6. gr.

    Ítarlegar kröfur um stjórnarhætti lögbærra landsyfirvalda er að finna í sérstökum köflum í flestöllu afleiddu regluverki Evrópusambandsins á sviði flugöryggis og á sviði flugverndar, kröfur til lögbærra landsyfirvalda (e. requirements for competent authorities). Slíkum kröfum hefur þó aðeins að takmörkuðu leyti verið til að dreifa í lögum um loftferðir og í lögum um Samgöngustofu. Er hér því leitast við að tryggja slíkum ákvæðum nægilega lagastoð til innleiðingar.
    Í 2. mgr. er lagt til að Samgöngustofa beri sambærilegar skyldur og þeir aðilar sem falla undir gildissvið laga um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, þ.e. að stofnunin geri nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi net- og upplýsingakerfa til varðveislu þeirra gagna og upplýsinga sem stofnunin aflar í þágu eftirlits og sem eftirlitsskyldir aðilar veita stofnuninni í trúnaði. Framangreint er þó með fyrirvara um strangari reglur sem kunna að gilda um varðveislu gagna og upplýsinga sem háð eru trúnaðarflokkun.
    Í 3. mgr. er lagt til að Samgöngustofa leitist við að tryggja að stofnunin hafi á hverjum tíma yfir að ráða starfsfólki sem býr yfir nauðsynlegri kunnáttu, reynslu og, ef við á, réttindum og hafi hlotið viðeigandi þjálfun til að vinna þau verkefni sem því eru falin. Í ljósi þess að flugstarfsemi er í eðli sínu tæknileg og sérhæfð er þessi krafa viðvarandi áskorun. Í ljósi þessa er í 4. mgr. lagt til að Samgöngustofu verði veitt heimild til að leggja til eftirlitsfólk í svonefnt samlag eftirlitsfólks sem EASA heldur utan um og jafnframt óska eftir liðsauka úr samlaginu til starfa fyrir stofnunina. Samlag eftirlitsfólks (e. pool of European aviation inspectors) er eins konar samansafn hæfs eftirlitsfólks sem einstök lögbær landsyfirvöld meðal EASA-ríkjanna og EASA geta sótt í. Er málsgreininni, sem byggist lauslega á 63. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139, ætlað að greiða fyrir samnýtingu eftirlitsfólks milli lögbærra stjórnvalda þegar þörf krefur. Er ekki síst horft til framangreindrar áskorunar sem mörg lögbær landsyfirvöld standa frammi fyrir, þ.e. að hafa ávallt þá sérfræðiþekkingu, eða aðgang að slíkri þekkingu, sem þörf er á til að sinna vottun, verkefnum og eftirliti. Þá kann slík samnýting eftirlitsfólks einnig að vera úrræði fyrir lögbær landsyfirvöld sem standa höllum fæti og þarfnast tækniaðstoðar til að styrkja hæfni og getu til eftirlits. Er gert ráð fyrir að það stjórnvald sem óskar liðsauka úr samlaginu standi að öllu leyti undir þeim kostnaði sem til kann að falla því samfara. Er EASA fyrst og fremst ætlað samræmingarhlutverk, að skilgreina nauðsynlega hæfni og reynslu eftirlitsfólks, þróa málsmeðferðarreglur og þess háttar í samráði við lögbær landsyfirvöld.

Um 7. gr.

    Í greininni er kveðið á um þau verkefni og eftirlit sem EASA sem lögbæru stjórnvaldi (e. competent authority) eru falin samkvæmt ákvæðum 62., 64. og 65. gr. og 78.–82. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139. Skipta má verkefnum og eftirliti EASA í þrennt. Í fyrsta lagi, eftirlit með þeim aðilum sem hafa staðfestu í þriðja ríki, í öðru lagi gagnvart aðilum óháð staðfestu og í þriðja lagi þau verkefni sem EASA annast fyrir hönd íslenska ríkisins, sjá umfjöllun um 2. mgr.
    Þessi verkefni og eftirlit eru öll nokkuð umfangsmikil. Til að mynda taka verkefni skv. a-lið 1. mgr. til vottunar allra flugrekenda í flutningaflugi (e. commercial air transport operation) sem fljúga til og frá og innan EASA-ríkjanna með tilliti til öryggis. Vottun skv. b- og c-lið 1. mgr. tekur til upphaflegrar vottunar, svo sem tegundarvottunar, gagna um örugga starfrækslu og margs konar tengdra vottunarverkefna. Auk þess tekur ábyrgðin til að tryggja áframhaldandi lofthæfi vottaðra framleiðsluvara (loftfar, hreyfill eða loftskrúfa), hluta og óuppsetts búnaðar allan líftíma þeirra. Vottun EASA á framleiðsluvöru er þannig forsenda þess að heimilt sé að starfrækja hana innan EASA-ríkjanna.
    Eftirlit með aðilum skv. c-lið 1. mgr. tekur meðal annars til þeirra aðila í þriðju ríkjum sem:
     1.      viðhalda og stjórna áframhaldandi lofthæfi framleiðsluvara, hluta og óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra loftförum,
     2.      reka fluglæknasetur,
     3.      veita bóklega og verklega þjálfun flugmanna, flugumferðarstjóra og flugvéltækna,
     4.      annast mat á færni flugmanna, flugumferðarstjóra, flugvéltækna og fluglækna,
     5.      starfrækja flughermisþjálfa, þegar fyrirtæki hefur höfuðstöðvar utan EASA-ríkja eða flughermisþjálfinn er staðsettur utan EASA-ríkja,
     6.      taka þátt í hönnun, framleiðslu eða viðhaldi kerfa eða kerfishluta fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu.
    Á þeim sviðum þar sem EASA fer með óskorað vald til vottunar eða viðtöku yfirlýsingar, starfar stofnunin í raun eins og lögbært landsyfirvald, þ.e. stofnunin lýtur sömu skyldum til að takmarka, afturkalla eða fella úr gildi vottun ef handhafi þess fer ekki eftir þeim kröfum sem tilgreindar eru varðandi handhöfn þeirra. EASA ber sömu skyldur og lögbær landsyfirvöld sem eftirlitsaðili og hvað varðar eftirlit, veitingu undanþága og þess háttar. Með öðrum orðum fer EASA með heimildir til að taka lagalega bindandi ákvarðanir á ákveðnum sviðum.
    Í 2. mgr. greinarinnar er fjallað um þau verkefni og eftirlit sem EASA fer með fyrir hönd allra EASA-ríkjanna, þ.m.t. Íslands, sbr. 77. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139. Bent skal á að þessi flutningur verkefna, eftirlits og skyldna hönnunarríkis samkvæmt Chicago-samningnum, sbr. 8. viðauka (lofthæfi) og 13. viðauka (rannsókn flugslysa), hvað varðar vottun hönnunar og upplýsingar um áframhaldandi lofthæfi sem EASA annast fyrir hönd íslenska ríkisins, tekur ekki til rannsókna flugslysa í samræmi við viðauka 13 við Chicago-samninginn. Þá er rétt að hafa í huga að 1. mgr. er ekki tæmandi talning verkefna sem EASA annast fyrir Íslands hönd. Nánar er fjallað í VI. kafla frumvarpsins um það hvernig EASA framfylgir skyldum þessum, en einnig er gert ráð fyrir að þessum verkefnum verði nánar lýst í reglugerð.
    Vottun hönnunar tekur til margvíslegra umfangsmikilla verkefna. Til að mynda að ákvarða og gera aðgengilega vottunargrunna eða tegundarvottunargrunna fyrir framleiðsluvöru, hluti, óuppsettan búnað eða búnað til að fjarstýra ómönnuðum loftförum. Vottunargrunnur eða tegundarvottunargrunnur fyrir tiltekna vöru er ákvarðaður af EASA og er vísað til viðeigandi vottunarforskrifta (e. certification specification) vara í afleiddum reglugerðum Evrópusambandsins sem hér eru innleiddar. Þessu tengt gefur stofnunin einnig út tegundarskírteini, viðbótartegundarskírteini o.fl. er tengist vottun þessara vara auk þess að samþykkja gögn um örugga starfrækslu. Þá ákvarðar stofnunin einnig forskriftir um lofthæfi- og umhverfissamhæfi einstakra vara og gerir aðgengilegar. Framangreind verkefni sem EASA annast fyrir hönd Íslands eru ekki ný af nálinni og var sambærilegt ákvæði þegar í fyrstu EASA-reglugerðinni, reglugerð (EB) 1592/2002.

Um 8. gr.

    Hér er lagt til að lögfest verði sú skylda lögbærra stjórnvalda að vakta og meta öryggisframmistöðu þeirra aðila sem þau hafa eftirlit með á grundvelli áhættumiðaðrar nálgunar við eftirlit sem byggist á 6. mgr. 62. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139 og viðauka 19 (öryggisstjórnunarkerfi) við Chicago-samninginn. Áhættumiðuð nálgun miðar að því að forgangsraða eftirliti í samræmi við þá áhættu eða þörf sem talin er vera fyrir hendi hverju sinni en meta með reglubundnum hætti öryggisframmistöðu einstakra þjónustuveitenda engu að síður.
    Með orðalaginu „annað eftirlit“ er átt við annað eftirlit en öryggiseftirlit, svo sem hvað varðar efnahagslegt eftirlit (gjaldtöku, kostnaðarhagkvæmni), markaðsaðgang, umhverfisframmistöðu, á sviði flugverndar o.fl.

Um 9. gr.

    Í greininni er lagt til að ráðherra skipi tvö ráð, annars vegar flugverndarráð og hins vegar ráð um ráðstafanir til að greiða fyrir flugstarfsemi, samhæfingu opinberra aðila og annarra á því sviði. Samkvæmt gildandi lögum er flugverndarráð skipað af Samgöngustofu, en rétt þykir að ráð sem ætluð eru að vera ráðherra til ráðgjafar séu skipuð af honum. Nánar er fjallað um ráðstafanir til að greiða fyrir flugstarfsemi (e. facilitation), nefnt „flugvirkt“ í gildandi lögum, í skýringum við 38. gr. Er lagt til að vikið sé frá orðalagi gildandi laga þar eð það orðalag sem lagt er til er talið gegnsærra og betur til þess fallið að lýsa tilgangi ráðstafana.
    Þá er lagt til að Samgöngustofa setji reglur um skipan og starfsemi vinnuverndarráðs og flugverndarnefnda á flugvöllum og tryggi að samræmingarnefnd flugvalla sé skipuð, þar sem við á. Er þetta óbreytt skipan frá núverandi fyrirkomulagi.

Um 10. gr.

    Í greininni er mælt fyrir samstarfi lögbærra stjórnvalda hvað varðar söfnun, greiningu og skipti á upplýsingum og gögnum er varða flugöryggi, framkvæmd laga og reglugerða. Byggist ákvæðið meðal annars á 72.–74. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139 og viðauka 19 (öryggisstjórnunarkerfi) við Chicago-samninginn. Um er að ræða margvísleg gögn og upplýsingar. Sem dæmi má nefna:
          Tilkynningar einstakra ríkja er varða beitingu eða framkvæmd reglugerðar (ESB) 2018/1139, svo sem hvað varðar gildissvið, tilkynntar undanþágur, beitingu verndarráðstafana, tilfærslu eftirlits o.fl.
          Upplýsingar um útgefin vottorð og yfirlýsingar sem veitt hefur verið viðtaka af EASA og lögbærum landsyfirvöldum, upplýsingar um vottun hæfra aðila og fullgildingar erlendra vottorða.
          Tilkynnt flugatvik og flugslys.
          Ýmsar upplýsingar er lúta að flugöryggi.
    Í 2. mgr. er vísað til þess forvarnarhlutverks sem lögbærum stjórnvöldum er ætlað að sinna. Tekur málsgreinin mið af orðalagi 12. tölul. 62. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139.
    Í 3. mgr. er lagt til að lögfest verði sérákvæði um undanþágu tilkynntra upplýsinga, þ.m.t. tilkynningar, kvartanir og nafn þess sem kvartar eða kvörtun beinist gegn, frá upplýsingarétti samkvæmt stjórnsýslu- og upplýsingalögum. Má leiða að því líkur að væri aðgangur að þessum gögnum opinn væri fljótt grafið undan því trausti og trúnaði sem er undirstaða þess að tilkynningar vegna atvika eru gerðar.

Um 11. gr.

    Lagt er til að lögfest verði í 1. mgr. heimild Samgöngustofu til vinnslu persónuupplýsinga. Tekur greinin að nokkru leyti mið af 5. mgr. 1. gr. laga um Samgöngustofu, nr. 119/2012, sem bundin er við lögbundið hlutverk stofnunarinnar eins og það er skilgreint í þeim lögum. Þar sem þau lög eru ekki tæmandi hvað varðar hlutverk stofnunarinnar á sviði loftferða er talið rétt að tiltaka slíka heimild í frumvarpinu.
    Í 2. mgr. er vísað til miðlægra samevrópskra gagnasafna, þ.e. gagnasafna upplýsinga og gagnagrunna sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, EASA og lögbær landsyfirvöld hafa komið á fót. Er þar meðal annars átt við:
          gagnasafn skv. 74. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139 sem tekur til margvíslegra upplýsinga sem nauðsynlegar eru taldar til að tryggja skilvirka samvinnu milli framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, EASA og lögbærra landsyfirvalda varðandi framkvæmd verkefna þeirra sem tengjast vottun, eftirliti og framfylgd,
          gagnasafn um flugheilbrigðisupplýsingar (e. European Aero-Medical Repository) á grundvelli reglugerðar (ESB) 2019/27 frá 19. desember 2018 til breytinga á reglugerð (ESB) 1178/2011, sem fyrir liggur að verður tekin upp í EES-samninginn og innleidd í landsrétt, og
          gagnasafn um flugatvik (e. European Central Repository for accident and incident reports) sem stofnað er á grundvelli 8. gr. reglugerðar (ESB) 376/2014, sbr. XI. kafla frumvarpsins, og reglugerðar (ESB) 996/2010 um rannsókn flugslysa og atvika í almenningsflugi, sjá lög um rannsókn samgönguslysa.
    Hvað varðar flugheilbrigðisupplýsingar er ráðgert að lögbær landsyfirvöld, fluglæknar og fluglæknasetur muni nota samevrópska gagnasafnið til að skiptast á upplýsingum um heilbrigði flugmanna. Er við það miðað að skráning slíkra persónuupplýsinga takmarkist við það sem er nauðsynlegt til að tryggja skilvirka vottun flugmanna og eftirlit með þeim í samræmi við ákvæði VII. kafla um vottun einstaklinga og aðila er annast þjálfun o.fl.

Um 12. gr.

    Víðtækar kröfur eru gerðar til upplýsingaskipta á grundvelli reglugerðar (ESB) 2018/1139, forvera hennar og annarra EES-gerða á sviði flugmála. Er hér leitast við að undirbyggja skýra lagastoð til miðlunar upplýsinga til EASA, Eftirlitsstofnunar EFTA og eftir atvikum annarra stofnana innan EASA-ríkjanna í þágu skilvirks eftirlits. Hvað varðar gögn er lúta þagnarskyldu þá er meðal annars átt við persónuupplýsingar, upplýsingar er varða framkvæmd eftirlits og eftirlitsskylda aðila, þ.m.t. fjárhagsleg málefni og viðskiptaáætlanir, og upplýsingar er varða lögbært landsyfirvald, starfsfólk þess og verktaka.

Um 13. gr.

    Hér er lagt til að Samgöngustofu sé fengin almenn heimild til að hafa samstarf við þau lögbæru landsyfirvöld, eitt eða fleiri, sem fara með eftirlit með eftirlitsskyldum aðila og/eða EASA. Er hér einkum horft til ástands þar sem eftirlit skarast beinlínis eða er samtvinnað eftirliti annars lögbærs landsyfirvalds eða EASA, svo sem hvað varðar hlaðskoðanir loftfara eða á sviði flugrekstrar. Byggist ákvæðið á almennum ákvæðum reglugerðar (ESB) 2018/1139, sbr. einkum 1. og 7. mgr. 62. gr. Í 90. gr. frumvarpsins er einnig kveðið á um samstarf lögbærra stjórnvalda í þeim tilvikum þar sem lögbært landsyfirvald sem gefur út flugrekandaskírteini er annað en það sem gefur út flugrekstrarleyfi sama aðila.

Um 14. gr.

    Þau verkefni og eftirlit sem greinin tekur til getur lotið að allri starfsemi á tilteknu sviði, einstökum eftirlitsskyldum aðilum eða þjónustu, loftförum eða flokki loftfara svo dæmi séu tekin. Ástæða þess að sérstaklega er tiltekið að stofnuninni beri að hafa samráð við ráðherra er tengd stofnuninni sjálfri sem er opinber stofnun. Breytingar á starfsemi hennar kunna að hafa áhrif á aðra þætti, getu og fjárhag.
    Heimildir til tilfærslu eftirlits byggjast annars vegar á 64. gr. og 69. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139 og hins vegar 83. gr. bis við Chicago-samninginn varðandi loftför og starfrækslu þeirra. Í gildandi lögum um loftferðir eru fyrir ákvæði um heimild Samgöngustofu til framsals eftirlits á afmörkuðum sviðum, sbr. á grundvelli 2. mgr. 21. gr. varðandi framsal eftirlits með starfrækslu og viðhaldi loftfars sem skráð er hér á landi en starfrækt utan EES til lengri eða skemmri tíma, í a-lið 5. mgr. 28. gr. b varðandi framsal til óháðra viðurkenndra eða vottaðra aðila og í 30. gr. laganna um framsal eftirlits með áhöfnum. Þá er einnig víðtæka heimild að finna í 1. mgr. 16. gr. laga um Samgöngustofu, nr. 119/2012, þar sem stofnuninni er heimilt, að undangengnu samþykki ráðherra, að fela stjórnvöldum, viðurkenndu flokkunarfélagi, skoðunarstofum eða öðrum aðilum einstaka þætti eftirlits samkvæmt lögunum. Ekki er ætlunin hér að hreyfa við heimildum Samgöngustofu samkvæmt lögum um Samgöngustofu þar eð þau lög taka til fleiri samgöngumáta en flugsamgangna. Er þó við það miðað að tilfærsla eftirlits á sviði flugsamgangna fari samkvæmt lögum um loftferðir.
    Orðalagið tilfærsla eftirlits (e. reallocation of responsibilities) byggist almennt á því að ekki er um að ræða algert framsal við tilfærslu eftirlits eða endurúthlutun þess, þ.e. sú ábyrgð sem fyrir hendi er á því ríki sem tilfærir eftirlit samkvæmt Chicago-samningnum (eða á EASA ef 12. eða 13. gr. á við) helst þrátt fyrir tilfærslu. Með öðrum orðum á möguleiki til tilfærslu ábyrgðar á þeim verkefnum sem tengjast vottun, eftirliti og framfylgd, ekki að hafa áhrif á réttindi og skyldur aðildarríkja Chicago-samningsins. T.d. mundi tilfærsla eftirlits með flugrekanda ekki hafa áhrif á þær skyldur íslenska ríkisins varðandi þau loftför sem hann starfrækir og skráð eru hér á landi nema eftirlit með þeim yrði einnig framselt með vísan til 83. gr. bis Chicago-samningsins. Þá er einnig við það miðað að tilfærsla eftirlits sé afturkræf, þ.e. að hægt sé að afturkalla slíka ráðstöfun. Er því orðið „tilfærsla“ notað í stað framsals.
    Í hnotskurn eru áhrif tilfærslu með tvennum hætti. Annars vegar tilfærsla skv. a- og b-lið 1. mgr. og hins vegar skv. c-lið 1. mgr. til hæfs aðila. Sé um að ræða tilfærslu skv. a- eða b-lið tekur nýtt lögbundið landsyfirvald eða EASA við vottun, eftirliti og framfylgd með þeim aðila/aðilum sem um ræðir. Á grundvelli þeirra samninga sem gerðir eru um tilfærslu breytist lagalegt umhverfi þeirra aðila sem sæta eftirliti sem því nemur, ekki aðeins hvað varðar vottun, eftirlit og framfylgd heldur einnig varðandi rétt til kæru, áfrýjunar og möguleika á að bera ágreining undir þar til bært stjórnvald eða dómstóla, þ.e. löggjöf viðkomandi ríkis sem tekur við vottun, eftirliti og framfylgd tekur yfir. Í þessu samhengi er einnig rétt að benda á skýringar við 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins þar sem fjallað um heimild ráðherra til að ákveða að hve miklu leyti lög þessi og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim gilda utan íslensks yfirráðasvæðis og um loftfar skráð í ríki sem starfrækt er af aðila sem er með höfuðstöðvar eða aðalaðsetur á Íslandi og lýtur eftirliti Samgöngustofu og öfugt. Sé um að ræða tilfærslu til EASA á sama við. Eftirlitsskyldur aðili kemur til með að heyra undir almennar valdheimildir stofnunarinnar eins og þær eru settar fram í reglugerð (ESB) 2018/1139. Sé einnig um að ræða tilfærslu skyldna og eftirlits á grundvelli ákvæða Chicago-samningsins er rétt að benda á að samkvæmt svonefndum „83. gr. bis samningum“, sem vísað er til í samnefndri grein Chicago-samningsins (sbr. bókun við samninginn) vegna leigu loftfars eða loftfaraskipta (e. aircraft interchange), er ráðgert að vissar skyldur og eftirlit samkvæmt Chicago-samningnum geti verið framseldar milli stjórnvalda aðildarríkja að Chicago-samningnum. Er þá um að ræða algert framsal þeirra skyldna og eftirlits sem tilteknar eru meðan samningur gildir.
    Tilfærsla til hæfs aðila, sem hlotið hefur vottun og telst hæfur til þeirra verkefna og eftirlits sem um ræðir, byggist á 69. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139. Nánar er fjallað um hæfa aðila í 15. gr. frumvarpsins. Sé um að ræða hæfan aðila skv. c-lið færast til þau verkefni, eftirlit og framfylgd að því marki sem samningur viðkomandi lögbærs landsyfirvalds við hinn hæfa aðila segir til um. Tilfærslan kemur almennt ekki til með að hafa áhrif á lagalega umgjörð hins eftirlitsskylda aðila hvað varðar framfylgd, rétt til kæru, áfrýjun og möguleika á að bera ágreining undir þar til bært stjórnvald eða dómstóla.

Um 15. gr.

    Með hæfum aðila (e. qualified entity) er átt við vottaðan (e. accredited) lögaðila eða einstakling sem EASA eða lögbært landsyfirvald kann að fela tiltekin vottunar- eða eftirlitsverkefni samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra undir eftirliti Flugöryggisstofnunarinnar eða lögbærs landsyfirvalds. Valið er að nota ekki orðið faggiltur sem þýðing á enska orðinu „accredited“ svo ekki skapist sú hætta að því verði ruglað saman við faggiltar skoðunarstofur á grundvelli annarrar löggjafar sem og til að viðhalda einsleitni í frumvarpstextanum.
    Ákvæði um hæfa aðila byggjast á 69. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139 og viðauka VI við sömu reglugerð. Ákvæðin eru ekki ný af nálinni en sambærileg ákvæði voru einnig í 13. gr. reglugerðar (EB) 216/2008, sbr. viðauka V við sömu reglugerð. Skv. 13. gr. reglugerðar (EB) 216/2008 var hæfum aðilum bannað að gefa út vottorð. Sams konar bannákvæði var ekki tekið upp í 69. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139 heldur beinlínis gert ráð fyrir að hægt væri að fela vottuðum hæfum aðila útgáfu vottorða fyrir hönd EASA eða lögbærs landsyfirvalds eða veita viðtöku yfirlýsingar fyrir sína hönd. Sama á við um endurnýjun, breytingar, takmarkanir og jafnvel að fella vottorð tímabundið úr gildi eða afturkalla sem og að afskrá eða ógilda yfirlýsingu. Þá sé það hverju lögbæru stjórnvaldi í sjálfsvald sett að velja hvort og að hve miklu leyti það kjósi að færa sér í nyt vottun hæfs aðila. Á grundvelli 6. gr. VI. viðauka við reglugerð (ESB) 2018/1139 er gert ráð fyrir í lokamálslið 3. mgr. að hæfur aðili taki og viðhaldi ábyrgðartryggingu vegna þeirra verkefna sem hann tekst á hendur nema lögbært landsyfirvald sem felur honum verkefni undirgangist ábyrgðina.

Um 16. gr.

    Hér er lagt til að lögfest verði ný grein sem ætlað er að leysa 9. gr. a gildandi laga af hólmi en er þó nánar afmörkuð við verkefni og eftirlit á sviði almannaflugs (e. general aviation operation). Að meginstefnu er miðað við tilfærslu verkefna og eftirlit er varðar loftför, útgáfu vottorða og eftirlit sem að jafnaði falla utan gildissviðs EASA-reglugerðarinnar. Gildissviði EASA-reglugerðarinnar er þó ekki ætlað að vera algild afmörkun. Horft er til þess að ekki er alltaf hægt að gera skýran greinarmun hvað varðar tiltekna flokka loftfara hvort loftfar teljist EASA-loftfar eða ekki. Þá gera fáeinar afleiddar gerðir sem byggja á EASA-reglugerðinni ráð fyrir möguleikanum á tilfærslu verkefna og eftirlits á sviði almannaflugs til félaga eða félagssamtaka, svo sem hvað varðar skráningu flugrekenda/umráðenda ómannaðra loftfara og starfrækslu þeirra.
    Tilfærsla verkefna og eftirlits samkvæmt greininni getur tekið til allra verkefna Samgöngustofu, þ.m.t. skráningar loftfara í loftfaraskrá, skráningar flugrekenda/umráðenda í skráningarkerfi flugrekenda/umráðenda ómannaðra loftfara, útgáfu vottorða flugmanna (skírteina) eða ígildi þess, eftirlits með áframhaldandi lofthæfi, viðhaldi og starfrækslu. Með greininni er sérstaklega leitast við að undirbyggja einfaldari og umfangsminni umgjörð en með vottun hæfra aðila, sbr. 15. gr. Horft er til þess að heimildin geti nýst þeim íþrótta- og tómstundafélögum sem áhuga hafa á að taka að sér afmörkuð verkefni og eftirlit sem annars væri í höndum Samgöngustofu, svo sem vegna loftfara sem ekki teljast EASA-loftför, þ.m.t. fis, heimasmíðuð loftför, léttari loftför o.fl., auk ómannaðra loftfara.

Um 17. gr.

    Greinin byggist á 65. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139, sem er nýmæli. Orðið „fyrirtækjahópur“ er ensk þýðing orðanna „single business grouping“. Í 40. mgr. aðfaraorða reglugerðar (ESB) 2018/1139 er leitast við að skýra þær forsendur sem leitt gætu til synjunar á beiðni um tilfærslu samkvæmt greininni. Segir þar svo: „Þar sem samvinna milli Flugöryggisstofnunarinnar og lögbærra landsyfirvalda er nauðsynleg til að tryggja samræmt flugöryggi á háu stigi í Sambandinu ætti tilfærsla verkefna á sviði vottunar, eftirlits og framfylgdar frá lögbærum landsyfirvöldum til Flugöryggisstofnunarinnar að því er varðar fyrirtæki, sem eru með verulegan hluta aðstöðu (e. substantial proportion) og starfsfólk sem eru staðsett í fleiri en einu aðildarríki, ekki að stofna í hættu sjálfbærni lögbærra landsyfirvalda, með tilliti til þekkingar þeirra, færni, tilfanga og fjárhagslegrar getu, ætti ekki að leiða til neins konar samkeppni milli Flugöryggisstofnunarinnar og lögbærra landsyfirvalda og ætti ekki að hafa áhrif á sjálfstæði Flugöryggisstofnunarinnar þegar hún annast eftirlit með stöðlun í þeim tilgangi að staðfesta samræmda framkvæmd þessarar reglugerðar.“

Um 18. gr.

    Hér er lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði um landsáætlun og aðgerðaáætlun á sviði flugöryggis sem taki mið af Flugöryggisáætlun Evrópu (e. European Aviation Safety Programme) og svæðisbundnum áherslum innan Norður-Atlantshafssvæðisins (e. North Atlantic Region, NAT) hvað Ísland varðar. Hér er rétt að benda á að Ísland er í nokkurri sérstöðu á sviði flugleiðsögu þar eð það er eina ríkið innan Evrópska efnahagssvæðisins og meðal EASA-ríkjanna sem einvörðungu er innan NAT-svæðisins. Fáein önnur ríki innan EES annast flugleiðsögu sem að hluta er innan NAT-svæðisins þótt annað loftrými þar sem þau veita þjónustu tilheyri Evrópusvæðinu (European Region, EUR) eða eftir atvikum öðrum svæðum.
    Byggist ákvæðið á 5.–8. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139 um Flugöryggisáætlun Evrópu, (e. European Plan for Aviation Safety), Aðgerðaáætlun um flugöryggi í Evrópu (e. European Aviation Safety Programme), flugöryggisáætlun ríkis (e. State Safety Programme) og aðgerðaáætlun ríkis um flugöryggi (e. State Plan for Aviation Safety) með vísan til innleiðingar á 19. viðauka (öryggisstjórnunarkerfi) við Chicago-samninginn.

Um 19. gr.

    Hér er lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði um viðbragðsáætlun vegna flugslysa. Á ákvæðið rætur að rekja til 21. gr. reglugerðar (ESB) 996/2010, sem innleidd var með breytingu á reglugerð um rannsóknir og forvarnir gegn slysum og flugatvikum í almenningsflugi nr. 1248/2014, nr. 1178/2015, með síðari breytingum. Tilgangur þess er meðal annars að tryggja víðtækari og samræmdari viðbrögð við slysum, einkum með tilliti til fórnarlamba flugslysa og aðstandenda, en í aðfaraorðum reglugerðarinnar segir svo: „Það hefur mikla þýðingu til hvaða ráðstafana aðildarríki grípa í því skyni að bregðast við slysum og afleiðingum þeirra. Í þessu sambandi skulu aðildarríki hafa neyðaráætlun sem felur meðal annars í sér neyðarþjónustu á flugvöllum og aðstoð við fórnarlömb slysa í almenningsflugi og við skyldmenni þeirra. Flugrekendur skulu einnig hafa áætlun um aðstoð við fórnarlömb slysa í almenningsflugi og við skyldmenni þeirra. Sérstök áhersla skal lögð á stuðning og samskipti við fórnarlömb og skyldmenni þeirra, sem og við samtök þeirra.“ Skv. 3. mgr. 21. gr. framangreindrar reglugerðar er miðað við að það ríki sem fer með fyrirsvar rannsóknar flugslyssins, ríkið þar sem flugrekandi sem tengist slysinu hefur staðfestu eða ríkið þaðan sem margir ríkisborgarar um borð í loftfarinu sem tengist slysinu koma, tilnefni tengilið (e. reference person as a point of contact) sem ábyrgð beri á samskiptum og upplýsingagjöf. Þá sé þeim ríkjum sem kunna að hafa sérstakra hagsmuna að gæta í tengslum við slys gert kleift að tilnefna sérfræðing sem meðal annars hafi heimild til að heimsækja slysstað, aðstoða við að bera kennsl á fórnarlömb eða sækja fundi með þeim sem lifa af og/eða aðstandendum, fá aðgang að upplýsingum um staðreyndir slyss og framvindu rannsóknar o.fl. Nánar er fjallað um gerð viðbúnaðaráætlunar, innleiðingu og framkvæmd, þörf fyrir samhæfingu opinberra aðila, rekstraraðila o.fl., aðstoð til fórnarlamba flugslysa, þeirra sem lifa af og aðstandenda o.fl. í leiðbeiningum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar Guidance on Assistance to Aircraft Accident Victims and their Familes (Doc 9973).

Um 20. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að lögfest verði heimild til innleiðingar á reglugerð (ESB) 2018/1139 í landsrétt með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og bókun 1 við EES-samninginn. Víða í texta frumvarpsins er að auki vísað til afleiddra EES-gerða, þ.e. þeirra gerða Evrópusambandsins sem byggja lagastoð sína á reglugerð (ESB) 2018/1139 og sem koma til með að verða teknar upp í EES-samninginn í framtíðinni. Þótt aðeins séu liðin tvö ár frá því að reglugerð (ESB) 2018/1139 tók gildi innan Evrópusambandsins er þegar búið að gefa út töluverðan fjölda reglugerða sem bíða upptöku í EES-samninginn og fyrirhugað er að innleiða í landsrétt verði frumvarp þetta að lögum.
    Í 2. mgr. er lagt til að lögfest verði sértækari heimild ráðherra til að setja reglugerðir um margt það sem fyrirsjáanlegt er að útfært verði nánar í afleiddum gerðum og tekið upp í EES-samninginn og innleitt í landsrétt.

Um III. kafla.

    Ákvæði kaflans byggjast í grunninn á gildandi ákvæðum laga, sbr. 3. gr., 134. gr. a og 134. gr. b, auk þeirra þjóðréttarskuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist hvað varðar aðgang erlendra loftfara að íslensku yfirráðasvæði og flugöryggi, meðal annars reglugerð (ESB) 452/2004 um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugrekstur frá þriðja landi samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008, með síðari breytingum, sem innleidd hefur verið með reglugerð 125/2016, með síðari breytingum, og reglugerð (EB) 1008/2008 um sameiginlegar reglur um rekstur flugþjónustu, með síðari breytingum, sbr. reglugerð nr. 48/2012, með síðari breytingum.
    Umhverfi flugsamgangna á heimsvísu hvað varðar rétt til viðskipta, þ.e. flutning farþega, farms og pósts milli landa, er að mörgu leyti sérstakt og bundið margvíslegum kvöðum og takmörkunum. Ástæðu þessa má meðal annars rekja til ríkjaráðstefnunnar 1944 í Chicago þegar Chicago-samningurinn, alþjóðlegur samningur um viðkomuréttindi loftfara og alþjóðlegur samningur um loftflutninga voru samþykktir. Á ráðstefnunni náðist ekki samkomulag meðal þeirra ríkja sem sóttu ráðstefnuna um það hversu víðtæk réttindi samningsaðilar skyldu hafa til að flytja farþega, farm og póst milli ríkja. Greina allir þrír samningarnir í þessu skyni á milli áætlunarflugs (e. scheduled flights) og óreglubundins flugs (e. non-scheduled flights). Í 5. gr. Chicago-samningsins er viðurkenndur réttur ríkis til flugs yfir og til viðkomu án viðskipta í óreglubundnu flugi. Þessi réttur er þó ekki algildur og tekur meðal annars aðeins til borgaralegra loftfara og er háður rétti þess ríkis sem flogið er yfir að krefjast þess að loftför, sem hyggjast fljúga yfir svæði sem ekki er mögulegt að lenda á eða þar sem búnaður til flugleiðsögu er ekki fyrir hendi, fari eftir ákveðnum flugleiðum eða verði sér út um sérstakt leyfi til slíks flugs. Þá sé því ríki þar sem farþegar, farmur eða póstur er skilinn eftir heimilt að setja þær reglur og skilmála eða reisa þær skorður við slíkum flutningi sem því ríki þykir æskilegt. Skv. 6. gr. Chicago-samningsins er óheimilt að starfrækja áætlunarflug í millilandaflugi (e. scheduled international air service) um samningsríki eða yfir því nema sérstakt leyfi eða önnur heimild þess ríkis komi til og skal flugi því þá hagað samkvæmt ákvæðum leyfisins eða heimildarinnar. Skv. 7. gr. Chicago-samningsins hefur hvert samningsríki rétt til að neita loftförum annars samningsríkis um leyfi til innanlandsflugs með farþega, farm og póst.
    Flugréttindi eða flugfrelsi eins og þau eru ýmist nefnd má greina í tvo flokka. Annars vegar flugréttindi tæknilegs eðlis (e. technical priviledges), þ.e. rétt til yfirflugs og viðkomu án viðskipta, og hins vegar réttindi viðskiptalegs eðlis (e. commercial traffic rights). Fyrstu tvenn flugréttindin eru skilgreind samkvæmt alþjóðasamningi um viðkomuréttindi loftfara frá 1944 (International Air Services Transit Agreement) sem Ísland er aðili að, sbr. auglýsingu nr. 45/1947. Aðildarríki samningsins þann 1. júní 2020 eru 133 talsins, mun færri en eru aðilar að Chicago-samningnum (193 aðildarríki þann 1. júní 2020). Rétt er að vekja athygli á því að hvorki Kanada né Rússland eru aðilar að samningnum.
    Þriðju til fimmtu réttindin eru skilgreind í alþjóðlegum samningi um loftflutninga sem gerður var 7. desember 1944, samhliða Chicago-samningnum og alþjóðasamningnum um viðkomuréttindi loftfara. Þann 1. júní 2020 voru aðeins 11 ríki aðilar að samningnum, þar af aðeins tvö aðildarríki Evrópusambandsins (Holland og Grikkland). Ísland er ekki aðili að samningnum. Flugréttindin samkvæmt framangreindu eiga almennt við um veitingu alþjóðlegrar flugþjónustu (e. international service). Þau eru, auk þeirra viðbótarflugréttinda sem fræðimenn hafa skilgreint:
     1.      Heimild til flugs um lofthelgi ríkis án lendingar.
     2.      Heimild til lendingar án viðskipta, þ.e. svonefnd tæknileg viðkoma, yfirleitt nýtt til að taka eldsneyti.
     3.      Heimild til að veita flugþjónustu frá heimaríki flugrekanda til annars ríkis.
     4.      Heimild til að veita flugþjónustu frá öðru ríki til heimaríkis flugrekanda.
     5.      Heimild til að veita flugþjónustu milli annars og þriðja ríkis sem hluti af alþjóðlegri flugþjónustu frá heimaríki flugrekanda.
     6.      Heimild til að veita flugþjónustu milli tveggja ríkja með viðkomu í heimaríki flugrekanda.
     7.      Heimild til að veita flugþjónustu frá þriðja ríki til annars ríkis án viðkomu í heimaríki flugrekanda.
     8.      Heimild til innanlandsflugs í öðru ríki en heimaríki flugrekanda sem hluti af alþjóðlegri flugþjónustu (e. cabotage). Einnig er stundum talað um stækkuð áttundu réttindi (e. grand cabotage) í þeim tilvikum þar sem flutningur á sér stað milli áfangastaða sem tilheyra sama ríki en landfræðileg staðsetning er ólík.
     9.      Heimild flugrekanda til tveggja punkta innan sama ríkis utan heimaríkis flugrekanda (e. stand alone cabotage).
    Í ljósi mjög takmarkaðrar aðildar að alþjóðasamningnum um loftflutninga hafa flugréttindi viðskiptalegs eðlis afmarkast fyrst og fremst af tví- og marghliða samningum milli ríkja. Í dag er víðfeðmt net loftferðasamninga fyrir hendi á heimsvísu og skipta samningarnir þúsundum. Þessi frumskógur samninga gerir það að verkum að yfirleitt þarf að skoða samverkan tveggja eða fleiri samninga til að átta sig á þeim réttindum til markaðsaðgangs á tiltekinni flugleið og þeim takmörkunum sem slíkum réttindum kunna að vera sett.
    Þeir samningar hvað Ísland varðar sem veita hvað víðtækust réttindi eru EES-samningurinn, stofnsamningur EFTA og samningurinn um sameiginlega Evrópska flugsvæðið. Þessir samningar taka almennt til flugs innan þess svæðis sem viðkomandi samningur tekur til en varða ekki réttindi til flugs til og frá þriðju ríkjum til og frá þessum ríkjum. Þá er misjafnt að hvaða marki réttindi milli samninga skarast. Til að mynda skarast réttindi bæði milli EES-samningsins og stofnsamnings EFTA sem og milli EES-samningsins, stofnsamnings EFTA og samningsins um sameiginlega Evrópska flugsvæðið gagnvart þeim ríkjum sem aðilar eru að viðkomandi samningum. Bent skal á að þó þessi skörun sé fyrir hendi er hún oft mjög afmörkuð og heimilar til að mynda ekki flug til og frá einstökum ríkjum beggja samninga með viðkomu í þriðju ríkjum eða frá samningsríkjum til þriðju ríkja auk þess sem skörun er milli þeirra loftferðasamninga sem Ísland hefur gert við einstök aðildarríki framangreindra samninga. Fríverslunarsamningur við Færeyjar hefur að geyma ákvæði um staðfesturétt auk þess að veita flugrekendum gagnkvæm réttindi til flugs milli Íslands og Færeyja auk heimilda til innanlandsflugs. Loftferðasamningar Íslands við þriðju ríki eða hóp ríkja eru almennt nokkuð misjafnir bæði hvað varðar efni og flugréttindi. Eru ekki forsendur til að rekja efni þeirra frekar hér.

Um 21. gr.

    Eins og vikið er að í inngangi er hér lagt til að ítarlegt ákvæði um aðgang loftfara að íslensku yfirráðasvæði verði lögfest. Byggist ákvæðið á því að um sé að ræða yfirflug og viðkomu (tæknilegt stopp) loftfars sem ekki er í viðskiptaerindum, sbr. ákvæði Chicago-samningsins og alþjóðasamning um viðkomuréttindi loftfara, sbr. auglýsingu nr. 45/1947, þ.e. fyrstu tvenn flugréttindin. Fjallað er nánar um komu og brottför í viðskiptalegum tilgangi í 23. gr. frumvarpsins.
    Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að ríkisloftför njóta ekki sama réttar og loftför í almenningsflugi hvað varðar yfirflug og viðkomu skv. 3. gr. Chicago-samningsins. Almenna reglan er sú að sækja beri um leyfi til flugs um yfirráðasvæði hvers ríkis sem fljúga skal yfir. Sama á við um ómannað loftfar, hvort sem það telst ríkisloftfar eða ekki, sbr. 8. gr. Chicago-samningsins. Bent skal á að samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/947 frá 24. maí 2019 um reglur og verklag við starfrækslu ómannaðra loftfara og reglugerð (ESB) 2019/945 frá 12. mars 2019 um ómönnuð loftför og flugrekendur/umráðendur ómannaðra loftfara frá þriðju ríkjum, sem til stendur að innleiða í landsrétt samhliða reglugerð (ESB) 2018/1139, munu ómönnuð loftför sem starfrækt eru af skráðum flugrekanda/umráðanda með staðfestu innan EASA-ríkjanna njóta takmarkaðra réttinda innan þeirra. Þá er einnig miðað við að staða ómannaðra loftfara með tilliti til flugréttinda í viðskiptatilgangi, meðal annars í vottaða flokknum, skýrist frekar á allra næstu árum.
    Samsvarar a-liður 1. mgr. í meginatriðum a-lið 1. mgr. gildandi laga þótt kveðið sé sérstaklega á um vottorð um lofthæfi. Í b- og c-lið 1. mgr. er byggt á b-lið 1. mgr. gildandi 3. gr. laganna. Í d-lið 1. mgr. er fjallað ferns konar tilvik. Í fyrsta lagi um ríkisloftfar erlends ríkis, í öðru lagi svonefnt ríkisflug, þ.e. flug loftfars sem getur verið skráð sem borgaralegt loftfar eða ríkisloftfar, þegar yfirlýstur tilgangur flugsins er í þágu erlends ríkis, svo sem flutningur þjóðhöfðingja, flutningur herafla og þess háttar þar sem um eiginlegt ríkisflug er að ræða. Í þriðja lagi um ómannað ríkisloftfar erlends ríkis og eiga þá sömu sjónarmið við og varðandi fyrstu tvö tilvikin. Í fjórða lagi hluti og tæki sem ferðast geta um loftið en eru ekki loftför sem telst vera í eigu eða undir yfirráðum erlends ríkis. Í e-lið 1. mgr. er vikið að loftförum sem ekki er skylt að skrá en eru af tiltekinni tegund eða flokki sem ráðherra heimilar sérstaklega för um íslenskt yfirráðasvæði með reglugerð, svo sem flugmódel, fallhlífar, mjög léttir loftbelgir og eftir atvikum ómönnuð loftför sem ekki eru háð skráningarskyldu en flugrekandi/umráðandi loftfars er skráður hér á landi eða í EASA-ríki.
    Í f-lið er almenn heimild ráðherra eða Samgöngustofu til að heimila för loftfars í tilvikum þar sem stafliðir a–e eiga ekki við, t.d. ef um er að ræða loftfar skráð í þriðja ríki með takmarkað lofthæfivottorð eða óskráð ómannað loftfar yfir þeim þyngdarviðmiðum sem ráðherra hefur afmarkað í reglugerð, sbr. e-lið 1. mgr. Bent skal á að ómannað loftfar telst óskráð þó svo að flugrekandi/umráðandi þess sé skráður samkvæmt skráningarkerfi flugrekenda/umráðenda ómannaðra loftfara. Gert er ráð fyrir að erlend ómönnuð loftför sæki um heimild til ferðar um íslenskt yfirráðasvæði skv. 1. mgr. f-liðar nema 24. gr. eigi við.
    Lagt er til í 2. mgr. að aðeins sé heimilt að hefja á loft eða skjóta á loft frá íslensku yfirráðasvæði og heimila endurkomu til þess hlut eða tæki, þ.m.t. geimhlut, sem ætlað er að ferðast um loftið en telst ekki vera loftfar, að fyrir liggi leyfi ráðherra eða þess sem hann felur leyfisveitingu. Um er að ræða nýmæli. Í málsgreininni eru orðin að hefja á loft eða að skjóta upp notað yfir enska orðið „launch“ og orðið geimhlutur notað yfir ensku orðin „space object“.
    Í 3. mgr. er lagt til að Samgöngustofu og veitanda rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu sé fyrir fram tilkynnt um feril tækis eða hlutar sem ætlað er að ferðast um loftið en telst ekki vera loftfar, þ.m.t. geimhluta, um íslenska lofthelgi og/eða það loftrými þar sem veitt er flugleiðsöguþjónusta í nafni íslenska ríkisins. Um er að ræða fyrirframtilkynningu en ekki leyfisskylda starfsemi, þ.e. byggt á þjóðréttarvenju um friðsama för slíkra hluta og tækja og að það væri óæskilegt að einstök ríki kæmu í veg fyrir skot frá yfirráðasvæði annars ríkis með því að heimila því ekki friðsama för um lofthelgi sína. Í málsgreininni eru orðin fyrirhuguð flug- eða fallslóð eða braut notað yfir ensku orðin „intended flight path“ og „trajectory“.
    Heimild ráðherra í 5. mgr. til að setja reglugerð er nokkuð ítarlegri en sú heimild sem kveðið er á um í gildandi lögum og tekur meðal annars til starfrækslu loftfara sem og tækja og hluta sem ætlað er að hreyfast um loftið en teljast ekki loftför. Er hér meðal annars horft til flutnings hergagna og myndatöku með vísan til 35. og 36. gr. Chicago-samningsins auk ómannaðra loftfara og tækja og hluta svo og geimhluta sem hætta getur stafað af.

Um 22. gr.

    Hér er lagt til að lögfest verði sérstakt ákvæði um vottun vegna flugöryggis, þ.m.t. umhverfisverndar, og verndar borgaralegra loftfara frá þriðju ríkjum. Byggist ákvæðið á 59. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139. Er almennt miðað við að loftför frá þriðju ríkjum, önnur en ómönnuð loftför, uppfylli viðeigandi kröfur og ráðlagðar starfsvenjur sem fram koma í viðaukum við Chicago-samninginn og hafi gilt lofthæfivottorð. Á þetta almennt við um loftför sem skráð eru í aðildarríkjum að Chicago-samningnum. Ef um er að ræða loftfar skráð í ríki sem ekki er aðili að Chicago-samningnum þarf að fara fram viðameira mat á því hvort umrætt ríki þar sem loftfar er skráð og flugrekandi/umráðandi loftfarsins uppfyllir kröfur og ráðlagðar starfsvenjur samkvæmt Chicago-samningnum áður en leyfi væri veitt, sbr. f-lið 1. mgr. 21. gr. Þá er miðað við að borgaraleg ómönnuð loftför uppfylli þær grunnkröfur sem reglugerð (ESB) 2018/1139 og afleiddar gerðir áskilja.
    Hvað varðar loftför starfrækt í flutningaflugi (e. commercial air transport operation) er byggt á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 452/2014 frá 29. apríl 2014 um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugrekstur frá þriðja landi samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008, sbr. reglugerð nr. 125/2016, með síðari breytingum. Að öðru leyti byggist greinin á viðaukum Chicago-samningsins.
    Hlutverk lögbærra stjórnvalda skarast hér. EASA annast vottun loftfara frá þriðju ríkjum, þ.e. útgáfu heimilda til flugrekenda sem vilja starfrækja flutningaflug og annast vöktun þeirra heimilda sem hún gefur út. Er áætlað að stofnunin vakti um 600–800 flugrekendur frá þriðju ríkjum sem stunda flutningaflug til og frá EASA-ríkjunum. Samgöngustofa annast vottun allra annarra loftfara frá þriðju ríkjum auk þess að fara með flugverndareftirlit með loftförum frá þriðju ríkjum, þ.m.t. þeim sem stunda flutningaflug. Skýrist skörun hlutverka af því að verksvið Flugöryggisstofnunarinnar nær ekki til vottunar á sviði flugverndar.
    Vöktun og eftirlit EASA og Samgöngustofu fer einkum fram með skoðunum á loftförum á hlaði (e. apron) á grundvelli áhættumats þar sem meðal annars er byggt á fyrirliggjandi upplýsingum um stöðu öryggisþátta er varða flugrekendur frá þriðju ríkjum.
    Í 5. mgr. er kveðið á um yfirflug þar sem almenna reglan er sú að sé loftfar skráð í ríki sem aðild á að Chicago-samningnum sé ekki þörf á vottorði eða yfirlýsingu til flugsins. Slíks vottorðs er hins vegar þörf sé loftfar skráð í ríki sem ekki er aðili að Chicago-samningnum og ef um er að ræða ómannað loftfar.
    Í 7. mgr. er áréttað að greinin taki ekki til þeirra aðstæðna þegar tiltekið loftfar sætir banni eða er skráð í ríki sem sætir banni skv. 228. gr. Er óbeint vísað til skrár framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins yfir ríki, loftför og flugrekendur/umráðendur sem af öryggisástæðum er bannað að stunda flugrekstur innan bandalagsins sem er í formi reglugerðar Evrópusambandsins og er reglulega uppfærð og innleidd í landsrétt, sbr. reglugerð (EB) 2111/2005, (EB) 473/2006 og (EB) 474/2006, sbr. reglugerð um aðgerðir til að tryggja flugöryggi og skrá yfir flugrekendur sem ekki uppfylla viðeigandi öryggiskröfur, nr. 277/2008, með síðari breytingum. Sama á við ef íslensk flugmálayfirvöld hafa tekið ákvörðun um slíkt bann.

Um 23. gr.

    Hér er lagt til nýtt ákvæði er varðar markaðsaðgang loftfara, þ.e. viðskiptaleg réttindi til flugs. Kemur ákvæðið að hluta í stað 80. gr. gildandi laga. Viðskiptaleg réttindi til flugs byggjast að meginstefnu á samningum Íslands við erlend ríki um markaðsaðgang og á grundvelli reglugerðar (ESB) 1008/2008, sbr. reglugerð nr. 48/2012, með síðari breytingum.
    Í 2. mgr. er vísað til flugréttinda umfram þau réttindi sem samningar Íslands taka til og er þar átt við réttindi sem ganga lengra en sá samningur sem þau byggjast á kveður á um, t.d. sjöundu réttindi í farþegaflugi þegar viðkomandi samningur tiltekur ekki slík réttindi, flug handan áfangastaða til annarra heimsálfa en tilteknar eru í viðkomandi samningi, tíðni eða flutningsmagn sem er meira en samningur tiltekur o.s.frv.
    Byggist 3. mgr. á samsvarandi ákvæðum í reglugerð (ESB) 1008/2008.

Um 24. gr.

    Í greininni er lagt til að viðhaldið sé því fyrirkomulagi sem tíðkast hefur allt frá árinu 1939, þ.e. að utanríkisráðherra veiti erlendum ríkisloftförum, þ.m.t. ómönnuðum loftförum, heimild til þess að koma inn á íslenskt yfirráðasvæði. Er í grunninn byggt á 134. gr. a og 134. gr. b í gildandi lögum en lagt er til að undir ákvæðið falli einnig hlutir og tæki sem ferðast geta um loftið en eru ekki loftför, sem talið er að séu í eigu eða undir yfirráðum erlends ríkis. Þá er einnig áréttað að loftför sem skráð eru í erlendu ríki þar sem yfirlýstur tilgangur flugsins er í þágu erlends ríkis falli einnig undir heimildarveitingu utanríkisráðherra.
    Eins og vísað er til í umfjöllun um 21. gr. njóta ríkisloftför ekki sama réttar til yfirflugs annars ríkis eða lendinga þar nema með leyfi í sérstökum samningum eða annarri heimild og þá í samræmi við skilmála slíkrar heimildar, sbr. c-lið 3. gr. Chicago-samningsins.

Um 25. gr.

    Í 1. mgr. er byggt á 72. gr. gildandi laga sem aftur á rót sína að rekja til 1. mgr. 15. gr. Chicago-samningsins.
    Í 2. mgr. er lagt til að Samgöngustofu hafi heimild til að falla frá þeirri kröfu að við komu til eða við brottför frá landinu sé skylt að nota landamærastöð enda sé um að ræða flug sem ekki er starfrækt í ábataskyni og sérstakar aðstæður styðji við veitingu slíkrar heimildar. Bent skal á að sambærilegrar heimildar þarf einnig að afla frá öðrum stjórnvöldum, svo sem hvað varðar landamæraeftirlit, tollgæslu og annað heilbrigðiseftirlit. Aðstæður sem réttlætt gætu frávik væru til að mynda takmörkuð afkastageta loftfars og flugþol eða aðrar sérstakar aðstæður.

Um 26. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um leyfi vegna viðburða er áhrif geta haft á öryggi flugumferðar eða öryggi fólks, dýra og mannvirkja á jörðu niðri. Byggist greinin að hluta til á b- og c-lið 3. mgr. 76. gr. gildandi laga þar sem ráðherra var veitt heimild til að setja í reglugerð ákvæði um flugsýningar og fallhlífarstökk.
    Í c-lið 1. mgr. er orðalagið „skoteldar og flugeldavörur“ notað og er almennt miðað við sömu skilgreiningu þar og fram kemur í reglugerð um skotelda nr. 414/2017, þ.e. að skoteldar og flugeldavörur séu hvers kyns hlutir sem innihalda efni eða efnablöndur sem geta sprungið og ætlað er, með íkveikju eða á annan hátt, að gefa frá sér hita, ljós, hljóð, lofttegund eða reyk með útvermum og sjálfbærum efnaferlum. Bent er á að ef „skoteldur“ telst skoteldur í geimiðnaði, geimhlutur eða skoteldur hernaðarlegs eðlis kann slíkt skot að falla undir 2. mgr. 21. gr.

Um IV. kafla.

    Kaflinn eins og heiti hans ber með sér hefur að geyma ýmis almenn ákvæði sem bæði varða eftirlitsskylda aðila og hafa almennt gildi. Ákvæðin eiga ýmist rót sína að rekja til reglugerðar (ESB) 2018/1139 og afleidds regluverks á sviði flugöryggis og EES-gerða á sviði flugverndar auk einstakra ákvæða Chicago-samningsins eða viðauka hans.

Um 27. og 28. gr.

    Í greinunum er annars vegar mælt fyrir um gildi vottorða og hins vegar yfirlýsinga. Sömu meginreglur eiga við hvað varðar gagnkvæma viðurkenningu yfirlýsinga og lýst er í umfjöllun um 29. gr.

Um 29. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um almenna meginreglu um gagnkvæma viðurkenningu vottorða og annarra réttinda á grundvelli samninga sem Ísland er aðili að. Um nokkuð fjölbreytta samninga er að ræða sem til einföldunar má flokka í þrennt.
    Í fyrsta lagi eru alþjóðlegir samningar sem Ísland er aðili að. Á grundvelli Chicago-samningsins njóta lofthæfivottorð og vottorð einstaklinga sem hafa verið útgefin eða fullgilt af skráningarríki loftfars gagnkvæmrar viðurkenningar meðal aðildarríkja Chicago-samningsins skv. 33. gr. hans enda byggjast nefnd vottorð, þ.m.t. skírteini, á kröfum sem teljast jafngildar eða meiri en þær lágmarkskröfur sem settar eru í alþjóðlegum kröfum og ráðlögðum starfsvenjum (e. international standards and recommended practices) útgefnum af Alþjóðaflugmálastofnuninni.
    Í öðru lagi regluverk Evrópusambandsins sem tekið hefur verið upp í EES-samninginn, stofnsamning EFTA og samning um sameiginlegt Evrópskt flugsvæði. Vottorð, önnur réttindi og yfirlýsingar sem gefnar eru út í samræmi við reglugerð (ESB) 2018/1139 njóta almennt gagnkvæmrar viðurkenningar innan EASA-ríkjanna, sbr. 9. og 12. mgr. 3. gr., 1. mgr. 67. gr. og 4. mgr. 69. gr. reglugerðarinnar. Þessi gagnkvæma viðurkenning er bundin við EASA-ríkin, EFTA-ríkin eða aðildarríki EES-samningsins, eftir atvikum. Hér kann gagnkvæm viðurkenning vottorða útgefinna í Sviss til að mynda að ráðast af því hvort viðkomandi gerð hafi tekið gildi á grundvelli stofnsamnings EFTA gagnvart báðum ríkjunum. Gagnkvæm viðurkenning á grundvelli EES-samningsins er þó ekki algild og ræðst af ákvæðum viðkomandi gerðar á viðkomandi sviði hverju sinni. Í öðru regluverki Evrópusambandsins á sviði flugmála er einnig á stöku stað kveðið á um gagnkvæma viðurkenningu eða heimild til gagnkvæmrar viðurkenningar að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Til að mynda er kveðið á um gagnkvæma viðurkenningu á flugverndaraðgerðum tiltekinna þriðju ríkja á sviði flugverndar og varðandi öryggi vöru. Öðlast slík ákvæði gildi hér á landi við innleiðingu viðkomandi gerðar í landsrétt. Vottorð og önnur réttindi sem gefin eru út af lögbærum landsyfirvöldum í EASA-ríkjum á grundvelli þjóðarreglna, þ.e. ekki á grundvelli EASA-reglugerðarinnar, njóta ekki skilyrðislausrar gagnkvæmrar viðurkenningar meðal EASA-ríkjanna. Sem dæmi má nefna þjóðarlofthæfivottorð loftfars sem byggist á þjóðarreglum sem uppfyllir ekki lágmarkskröfur sem settar eru í alþjóðlegum kröfum og ráðlögðum starfsvenjum, vottorð/skírteini einstaklings sem byggt er á þjóðarreglum og vottun á viðhaldi loftfars sem fellur utan gildissviðs reglugerðar (ESB) 2018/1139.
    Í þriðja lagi eru tvíhliða samningar Íslands við þriðju ríki þar sem samið hefur sérstaklega verið um gagnkvæma viðurkenningu. Á sviði flugöryggis hefur Ísland til að mynda samið við Bandaríkin um gagnkvæma viðurkenningu á afmörkuðum sviðum.
    Samkvæmt 2. mgr. er því kveðið á um að lögbærum stjórnvöldum sé heimilt að gefa út vottorð eða viðurkenna vottorð og önnur viðeigandi gögn sem staðfesta samræmi við lög þriðja ríkis, sem ekki telst EASA-ríki, ef kveðið er á um slíkt í lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim eða samningum sem Ísland er aðili að við þriðja ríki. Byggist heimildin á 1. mgr. 68. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139 og er sama efnis og kveðið er á um í fyrirhuguðum aðlögunartexta í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar vegna upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn. Hafa ber í huga að þó að leiðbeiningarefni EASA vísi til samnings eða samninga sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og aðildarríki Evrópusambandsins hafa gert við tiltekið þriðja ríki eru slíkir samningar ekki bindandi hvað Ísland varðar, þ.e. miða verður við þá samninga Íslands við þriðja ríki sem eru í gildi hverju sinni.

Um 30. gr.

    Lagt er til að lögfest verði almenn meginregla um ábyrgð þeirra aðila sem sæta eftirliti samkvæmt lögunum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim. Fara þarf að lögum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim og virða þau réttindi sem skilgreind eru í þeim vottorðum og öðrum réttindum sem gefin eru út af lögbærum stjórnvöldum sem og að fara að þeim skilyrðum og takmörkunum sem tengd eru handhöfn þeirra.

Um 31. gr.

    Ákvæðið byggist lauslega á 3. mgr. 28. gr., d-lið 5. mgr. 28. gr. b og 2. mgr. 83. gr. gildandi laga. Þá hefur trúnaðarskylda fyrirsvars- og ábyrgðarfólks (áður fyrirsvarsmanna) verið afnumin. Helgast breytingin helst af því að slík trúnaðarskylda byggist ekki á EES-gerðum. Orðunum „tilnefnt fyrirsvars- og ábyrgðarfólk“ er ætlað að ná yfir þá einstaklinga sem eru í fyrirsvari eða bera ábyrgð á tilteknum störfum hjá viðkomandi fyrirtæki (e. post holders, nominated persons) og hafa verið tilnefndir til slíkra starfa af hálfu viðkomandi eftirlitsskylds aðila. Felst heimildin í því að hægt sé að staðreyna kunnáttu og hæfni þeirra sem eftirlitsskyldur aðili tilnefnir.

Um 32. gr.

    Kveðið er á um almenna skyldu til að fara að fyrirmælum útgefnum af lögbærum stjórnvöldum í greininni.

Um 33. gr.

    Ákveðin samvinna er forsenda þess að eftirlit sé skilvirkt og árangursríkt fyrir bæði eftirlitsskylda aðila og lögbær stjórnvöld sem fara með eftirlit. Með orðalaginu „greiða fyrir“ er átt við að auðvelda eða liðsinna.

Um 34. gr.

    Hér er kveðið á um skyldu eftirlitsskylds aðila til að tryggja að sú þjónusta eða vara sem er útvistuð eða aðkeypt uppfylli viðeigandi kröfur um vottun, sé slíkrar vottunar á annað borð krafist, og um aðgengi lögbærra stjórnvalda til eftirlits. Ákvæðið byggist á samsvarandi ákvæðum í EES-gerðum.

Um 35. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að fest verði í sessi og skýrt kveðið á um hver áhrif viðurkenndra aðferða til að uppfylla skilyrði og kröfur (e. Acceptable Means of Compliance, AMC) eru. Viðurkenndar aðferðir til að uppfylla kröfur hafa svo verið skilgreindar í reglugerð (ESB) 2018/1139: Viðmið sem eru ekki bindandi og viðeigandi lögbært stjórnvald (þ.e. EASA eða viðeigandi lögbært landsyfirvald eftir atvikum) hefur samþykkt til að sýna fram á aðferðir til að staðfesta samræmi við gildandi reglugerðir. Er við það miðað að hafi viðurkenndum aðferðum til að uppfylla skilyrði og kröfum (AMC) verið beitt sé litið svo á að gildandi kröfur séu uppfylltar. Þannig sé eftirlitsskyldum aðilum veitt réttarvissa fyrir vali sínu. EASA hefur aðallega staðið að útgáfu AMC þótt ekki sé útilokað að Samgöngustofa kunni að gera það á afmörkuðum sviðum sem falla utan gildissviðs reglugerðar (ESB) 2018/1139.
    Nokkuð öðruvísi horfir við í 2. mgr. þar sem fyrirframsamþykkis lögbærs stjórnvalds er þörf þegar eftirlitsskyldur aðili hyggst styðjast við aðrar aðferðir til að uppfylla kröfur (e. Alternative Method of Compliance, AltMoC) til að fullnægja kröfum í lögum eða reglugerð. Aðrar aðferðir til að uppfylla kröfur eru svo skilgreindar: Önnur tillaga um valkost en núverandi viðurkenndar aðferðir til að uppfylla kröfur eða ný aðferð til að staðfesta samræmi við EASA-reglugerðina og afleiddar reglugerðir sem innleiddar hafa verið í íslenskan rétt þar sem Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins hefur ekki ákvarðað tilheyrandi viðurkenndar aðferðir til að uppfylla kröfurnar.
    Á sviði flugleiðsögu er miðað við að sérstakt efni útgefið af NAT-SPG, sem er sérstök undirnefnd á vettvangi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar sem fer með málefni Norður-Atlantshafssvæðisins, geti haft stöðu annarra aðferða til að uppfylla kröfur (AltMoC) enda verði slík aðlögun að reglugerð (ESB) 2018/1139 samþykkt í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar vegna upptöku gerðarinnar í EES-samninginn. Er horft til þess að Ísland er eina ríkið innan EES sem eingöngu er alfarið innan Norður-Atlantshafssvæðisins (NAT), eins og það er skilgreint af Alþjóðaflugmálastofnuninni. Um er að ræða viðurkenningu á því að AltMoC útgefið af EASA á þessu sviði kunna að vera ósamrýmanlegt eða stangast á við þær leiðbeiningar sem Alþjóðaflugmálastofnunin (og undirnefnd hennar) vegna NAT-svæðisins hefur gefið út. Ástæða þessa er að EASA miðar útgáfu leiðbeininga á þessu sviði iðulega við það fyrirkomulag flugumferðar sem tekur til EUR og AFI (þ.e. yfir meginlandi Evrópu) og tekur takmarkað tillit til NAT-svæðisins.
    Í þessu samhengi kann að vera gagnlegt að hafa í huga að í reglugerð (ESB) 2018/1139 er leiðbeiningarefni svo skilgreint: „Efni sem er ekki bindandi og er þróað af lögbærum stjórnvöldum eða öðrum aðila til að útskýra merkingu kröfu eða forskriftar og er notað til að styðja við túlkun gildandi reglna og viðurkenndra aðferða til að uppfylla kröfur.“

Um 36. gr.

    Ákvæðið byggist lauslega á 146. gr. d gildandi laga og á sér beina vísun til viðauka 5 (mælieiningar sem nota skal í starfrækslu í flugi og á jörðu niðri) við Chicago-samninginn. Viðauki 5, eins og heiti hans ber með sér, hefur að geyma ýmsar mjög mikilvægar og almennar skilgreiningar á mælieiningum. Ákvæðinu er ætlað að þjóna sem almennri lagastoð til setningar reglugerðar því til nánari fyllingar. Alþjóðlega SI-mælieiningakerfið er samþykkt og því viðhaldið af Almenna þinginu fyrir vog og mál (e. General Conference of Weights and Measures, CGPM). Með samræmdum heimstíma er átt við „coordinated universal time, UTC“. Lagt er til að í stað heimildar Samgöngustofu til að setja reglur samkvæmt gildandi lögum verði ráðherra heimilt að setja reglugerð ákvæðinu til nánari fyllingar.

Um 37. gr.

    Meðal lykilviðfangsefna í nýlegri flugstefnu var ákall um bætta söfnun tölfræðiupplýsinga á sviði flugs og flugtengdrar starfsemi hérlendis. Er tilgangur greinarinnar því meðal annars að bregðast við því ákalli með því að skjóta styrkri lagastoð undir söfnun og útvinnslu slíkra upplýsinga. Á vettvangi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar fer þegar fram umfangsmikil söfnun upplýsinga á sviði flugsamgangna þar sem upplýsingum og gögnum er safnað frá aðildarríkjum þess og almenningi til ýmissa greininga, svo sem á sviði flugöryggis, verndar, til markaðsgreininga, gerðar líkana og til að spá fyrir um þróun flugsamganga á næstu árum. Söfnun Alþjóðaflugmálastofnunarinnar á tölfræðiupplýsingum byggist á 67. gr. Chicago-samningsins. Á vettvangi Evrópusambandsins og samningsins um Evrópska efnahagssvæðið fer einnig fram söfnun upplýsinga og úrvinnsla gagna á vettvangi Evrópska hagskýrslusamstarfsins sem Hagstofa Íslands annast fyrir Íslands hönd. Þá safna ýmis önnur stjórnvöld margvíslegum tölfræðilegum upplýsingum, svo sem Ferðamálastofa.

Um 38. gr.

    Með orðalaginu ráðstafanir til að greiða fyrir flugstarfsemi (e. facilitation) í fyrirsögn greinarinnar er, hvað almenningsflug varðar, um að ræða fjölbreytta flóru málefna og starfsemi. Orðalagið á rót sína að rekja til fyrirsagnar 22. gr. Chicago-samningsins (Að greiða fyrir formsatriðum) sem fjallar um skyldur ríkja til þess að gera allar raunhæfar ráðstafanir, með setningu reglna eða með öðrum hætti, í því skyni að greiða fyrir og flýta leiðsögu loftfara milli aðildarríkja og koma í veg fyrir ónauðsynlegar tafir loftfara, áhafnar, farþega og farms, hvað varðar landamæraeftirlit, sóttvarnir og tollafgreiðslu. Um skyldar ráðstafanir er einnig fjallað í öðrum greinum Chicago-samningsins, svo sem í 13. gr. (Reglur um komu og afgreiðslu), 14. gr. (Varnir gegn útbeiðslu sjúkdóma), 15. gr. (Gjaldtaka á flugvöllum og áþekk gjöld) og 23. gr. (Framkvæmd tollskoðunar og reglur við innflutning fólks). Viðauki 9 við Chicago-samninginn tekur til samhæfingar opinberra aðila og annarra sem koma að afgreiðslu eða þjónustu við loftför, farþega, farangur og farm til þess að loftflutningar geti gengið fyrir sig án erfiðleika og tafa, þ.e. viðaukinn tiltekur viðmið, lýsir verklagi, ábyrgð og veitir leiðbeiningar ekki aðeins fyrir þau opinberu stjórnvöld sem þurfa að koma að slíkum málum heldur einnig rekstraraðila flugvalla og flugleiðsöguþjónustu auk flugrekenda. Skörun þeirra þátta er tengjast meðhöndlun loftfara, áhafnar, farþega og farms við aðra flugtengda starfsemi eða opinberar skyldur er víða. Því er brýnt að tryggja samstarf og samvinnu þeirra sem þurfa að koma að málum. Í því skyni er meðal annars í 10. gr. lagt til að ráðherra skipi ráð um ráðstafanir til að greiða fyrir flugstarfsemi, samhæfingu opinberra aðila og annarra á því sviði.

Um 39. gr.

    Eins og vikið er að í inngangi að greinargerð hafa viðaukar Chicago-samningsins, nítján að tölu, sama gildi og meginmál samningsins að þjóðarétti. Aðildarríkjum samningsins er þó heimilt að víkja frá alþjóðlegum kröfum (e. international standards) viðaukanna ef slík frávik eru tilkynnt ráði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, sbr. 38. gr. Chicago-samningsins. Í greininni segir svo: „Nú þykir ríki ekki unnt að fara að öllu leyti eftir einhverjum slíkum alþjóðlegum kröfum og aðferðum (e. procedure), eða samræmir ekki að fullu reglur sínar og venjur einhverri alþjóðlegri kröfu eða aðferð, eftir að henni hefur verið breytt, eða því þykir nauðsynlegt að taka upp reglur eða venjur, sem í einhverju eru frábrugðnar þeim, sem settar eru að í alþjóðlegum kröfum, og skal það þá þegar í stað tilkynna Alþjóðaflugmálastofnuninni mismuninn á sinni aðferð og alþjóðlegu kröfunni. Séu breytingar gerðar á alþjóðlegum kröfum, skal hvert það ríki, sem gerir ekki viðeigandi breytingar á sínum reglum og venjum, tilkynna ráðinu innan 60 daga eftir að sú breyting á alþjóðlegum kröfum var gerð, eða gefa til kynna til hvaða ráðstafana það hyggist grípa. Þegar svona stendur á, skal ráðið þegar í stað tilkynna öllum öðrum (aðildar)ríkjum mismuninn, sem verður milli eins eða fleiri atriða í alþjóðlegum kröfum og tilsvarandi venjum þess ríkis. Í öllum slíkum tilvikum skal ráðið þegar í stað kunngera öllum öðrum ríkjum þann mismun, sem vera kann í einu eða fleiri atriðum á alþjóðareglum og tilsvarandi staðarvenjum þess ríkis.“. Í flugmálahandbók er birt yfirlit yfir þau frávik sem Ísland hefur tilkynnt til Alþjóðaflugmálastofnunarinnar á hverjum tíma. Í greininni er lagt til að Samgöngustofu verði áfram falið, í samráði við ráðherra, að annast tilkynningu frávika og annast miðlun annarra upplýsinga til stofnunarinnar eftir þörfum.
    Með vísan til 28. gr. Chicago-samningsins og viðauka 15 (upplýsingaþjónusta flugmála) við Chicago-samninginn hvílir sú ábyrgð á aðildarríkjum Chicago-samningsins að veita upplýsingaþjónustu flugmála (e. aeronautical information service), þ.e. þjónustu sem felst í miðlun upplýsinga og gagna sem nauðsynleg eru til að tryggja öryggi, reglufestu og skilvirkni í flugleiðsögu til stjórnenda loftfara og annarra sem stunda flugtengda starfsemi. Þótt framangreind skylda felist fyrst og fremst í miðlun upplýsinga til þeirra sem huga á millilandaflug er fyrir hendi sama þörf hvað varðar upplýsingar um flug innan Íslands. Í greininni er lagt til að Samgöngustofu verði áfram falin útgáfa flugmálahandbókar (e. Aeronautical Information Publication, AIP) og upplýsingabréfs um flugmál (e. Aeronautical Information Circular), sbr. 2. mgr. 140. gr. gildandi laga, auk tilkynninga til flugliða (e. NOTices to AirMen, NOTAM). Í því felst ábyrgð á formi útgáfu og efni í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar og að með skýrum hætti komi fram að upplýsingar um flugmál sem birtar eru fyrir íslenska ríkið séu birtar í nafni Samgöngustofu. Flugmálahandbók er ætlað að veita bæði grundvallarupplýsingar og tímabundnar upplýsingar, flugkort og aðrar nauðsynlegar upplýsingar fyrir flugleiðsögu. Upplýsingabréf flugmála eru tilkynningar er varða flugöryggi, flugleiðsögu, tækni-, laga- eða stjórnunarleg málefni sem hvorki eiga heima í flugmálahandbók né henta til útgáfu sem tilkynning til flugliða (NOTAM). NOTAM eru tilkynningar sem komið er áleiðis með fjarskiptum varðandi upplýsingar um stofnsetningu, ástand eða breytingar á flugleiðsöguaðstöðu, þjónustu, framkvæmd eða hættuástandi þar sem nauðsynlegt er að koma upplýsingum sem fyrst til viðkomandi einstaklinga vegna starfrækslu flugs. Rétt er að benda á að í samræmi við eðli upplýsinganna eru þær að jafnaði birtar bæði á íslensku og ensku.

Um V. kafla.

    Í ákvæðum kaflans er að meginstefnu byggt á ákvæðum gildandi laga um skráningu loftfara. Þó gætir nokkurra nýmæla. Lagt er til að Samgöngustofa haldi tvær nýjar skrár til viðbótar við loftfaraskrá. Annars vegar skrá um flugrekendur/umráðendur ómannaðra loftfara í samræmi við eftirfarandi gerðir sem til stendur að taka upp í EES-samninginn:
          reglugerð (ESB) 2018/1139, sbr. IX. viðauka (grunnkröfur fyrir ómönnuð loftför) við reglugerðina,
          reglugerð (ESB) 2019/947 frá 24. maí 2019 um reglur og verklag við starfrækslu ómannaðra loftfara, með síðari breytingum, og
          reglugerð (ESB) 2019/945 frá 12. mars 2019 um ómönnuð loftför og flugrekendur ómannaðra loftfara frá þriðju ríkjum, með síðari breytingum.
    Hins vegar að Samgöngustofa haldi skrá um hluti og tæki sem ferðast geta um loftið en eru ekki loftför, þ.m.t. geimhlut (e. space object) sem hafinn er á loft eða er skotið er út í himingeiminn.

Um 40. gr.

    Hér er lagt til að Samgöngustofa haldi þrjár skrár. Í fyrsta lagi loftfaraskrá, skrá um íslensk loftför með vísan til 17.–21. gr. Chicago-samningsins, sem er óbreytt tilhögun frá gildandi lögum. Í öðru lagi skrá um flugrekendur/umráðendur ómannaðra loftfara sem er nýmæli með vísan til 1. mgr. 14. gr. reglugerðar (ESB) 2019/947 frá 24. maí 2019 um reglur og verklag við starfrækslu ómannaðra loftfara, með síðari breytingum, og reglugerð (ESB) 2019/945 frá 12. mars 2019 um ómönnuð loftför og flugrekendur ómannaðra loftfara frá þriðju ríkjum, með síðari breytingum, sem fyrirhugað er að taka upp í EES-samninginn og innleiða í landsrétt. Er skráning flugrekanda/umráðanda ómannaðs loftfars forsenda starfrækslu slíks loftfars innan íslensks yfirráðasvæðis. Í þriðja lagi er lagt til að skrá um hluti og tæki sem ferðast geta um loftið en eru ekki loftför, þ.m.t. geimhlutir, sé komið á. Um er að ræða nýmæli. Að svo stöddu er óljóst hvort reyna mun á slíka skráningu í náinni framtíð en yfirlýsingar erlends aðila um að stefnt sé á næstu misserum að kastbrautarskotum (e. sub-orbital launches) um og yfir 60 km og geimskotum frá íslensku yfirráðasvæði hafa verið fréttaefni í fjölmiðlum. Ísland hefur hvorki undirritað né fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um skráningu geimhluta frá 14. september 1974 sem gekk í gildi 15. september 1976 (e. Convention on the Registration of Objects Launched into Space) en samningurinn kveður á um að aðildarríki skuli skylt að halda skrá yfir geimhluti og tilkynna aðalritara Sameinuðu þjóðanna um hana. Samninginn höfðu 69 ríki fullgilt þann 1. janúar 2021. Aðalritara Sameinuðu þjóðanna ber samkvæmt samningnum að halda skrá með afmörkuðum lágmarksupplýsingum sem ríkjum ber að tilkynna. Í ljósi fyrirliggjandi skuldbindinga íslenska ríkisins á sviði geimréttar, einkum samningsins um rannsóknir og not ríkja af himingeimnum, tungli og stjörnum frá 27. janúar 1967 (e. Treaty on Principles Governing the Activities of States in the Exploration and Use of Outer Space Including the Moon and Other Celestial Bodies), er talið rétt að virða þær meginreglur sem felast í skráningarsamningnum.
    Samkvæmt 2. mgr. er Samgöngustofu gert skylt að miðla afmörkuðum upplýsingum úr þeim skrám sem kveðið er á um í 1. mgr. Er við það miðað að miðlað verði almennum upplýsingum um loftför og hluti og tæki sem ferðast geta um loftið en eru ekki loftfar auk nafna eigenda eða flugrekenda/umráðenda þeirra. Í dag er meginefni loftfaraskrár aðgengilegt á vefsíðu Samgöngustofu.

Um 41. gr.

    Greinin á rót sína að rekja til 2. og 3. mgr. 9. gr. gildandi laga. Sú samantekt sem hér fylgir byggir að mestu á greinargerð og skýringum með frumvarpi til laga sem varð að lögum um loftferðir, nr. 60/1998, og hafa aðeins lítils háttar breytingar verið gerðar.
    Sú meginregla að loftfar skuli hafa þjóðerni þess ríkis sem það er skrásett í á rót sína að rekja til 17. gr. Chicago-samningsins en þar segir: „Aircraft have the nationality of the State in which they are registered.“ Í 18. gr. Chicago-samningsins segir að loftfar geti ekki verið skráð í fleiri en einu ríki en það er leyfilegt að breyta skráningu frá einu ríki til annars. Skv. 19. gr. Chicago-samningsins skal skráning eða flutningur skráningar loftfars hjá einhverju samningsríki vera gerður í samræmi við lög þess og reglur. Þá mælir 20. gr. sama samnings fyrir um að sérhvert loftfar sem notað er í millilandaflugi skuli bera tilhlýðileg þjóðernis- og skráningarmerki sem því hefur verið úthlutað af alþjóðastofnun. Loks er í 21. gr. Chicago-samningsins lagt svo fyrir að aðildarríkin hafi skyldu til að upplýsa Alþjóðaflugmálastofnunina eða önnur aðildarríki um skrásetningu og eignarrétt þeirra loftfara sem skráð eru í ríkinu. Í viðauka 7 við Chicago-samninginn er kveðið á um þjóðernis- og skráningarmerkingu loftfars.
    Í alþjóðaflutningum hefur það alltaf verið mjög mikilvægt fyrir loftfar eða skip að njóta verndar þess ríkis sem það tilheyrir og einnig hefur það verið ríkjum mikilvægt að fánaberar þeirra, skip eða loftför, beri rétt merki. Þjóðerni loftfars leiðir því af sér að í mörgum tilvikum nær lögsaga skráningarríkisins til loftfarsins hvar sem það er statt eða milliríkjasáttmálar greina mörk lögsögu skráningarríkisins og lögsögu þess ríkis er atburður verður í eða milliríkjasáttmálar kveða á um meðferð máls:
     a.      Fæðing, dauði, stofnun hjúskapar eða samningur sem er gerður um borð í loftfari fylgir lögum skráningarríkis loftfarsins eins og atburðurinn hefði orðið á yfirráðasvæði skráningarríkisins.
     b.      Almenn regla alþjóðalaga er sú að hvert ríki beri ábyrgð á því að loftför þeirra uppfylli alþjóðlegar reglur um lofthæfi, öryggi og alþjóðasamninga hvar sem þau eru stödd. Þannig gilda reglur skráningarríkis um skyldur og réttindi áhafnarinnar um borð en reglur þess ríkis sem farið er um gilda hvað varðar för loftfarsins og áhafnarinnar um yfirráðasvæði þess ríkis.
     c.      Ef afbrot eru framin um borð í loftfari mæla alþjóðlegir samningar fyrir um lögsögu, svo sem með Tókýó-samningnum frá 1963, Haag-samningnum frá 1970 og Montreal-samningnum frá 1971, sbr. Montreal-bókunina frá 1988. Þá kveður 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, á um að refsa skuli samkvæmt íslenskum hegningarlögum fyrir brot framin um borð í íslenskum loftförum hvar sem þau hafa þá verið stödd. Hafi brot verið framið á stað þar sem refsivald annars ríkis nær að þjóðarétti og af manni sem hvorki var fastur starfsmaður né farþegi á farinu skal þó ekki refsað hér nema heimild sé til þess eftir 5. og 6. gr. sömu laga.
    Viðfangsefni innlenda réttarins er því að ákveða með hvaða hætti loftför hljóti þjóðernisskráningu og hvaða skilyrði þau þurfa að uppfylla, allt þó í samræmi við alþjóðasamninga.
    Rétt er að vekja sérstaka athygli á að tvenns konar skráning er á loftförum, þ.e. annars vegar þjóðernisskráning sem haldin er og gerð hjá Samgöngustofu og hins vegar skráning réttinda í loftförum eða loftfarshlutum. Um skrásetningu réttinda í loftförum og loftfarshluti gilda sérstök lög, annars vegar lög um skrásetningu réttinda í loftförum, nr. 21/1966, og hins vegar lög um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara, nr. 74/2019, sem ganga framar ákvæðum laga um skrásetningu réttinda í loftförum, vegna skráðra tryggingarréttinda sem falla undir Höfðaborgarsamninginn og innbyrðis þýðingar skráðra tryggingarréttinda. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu annast skráningu réttinda í loftförum samkvæmt lögum nr. 21/1966. Skráning alþjóðlegra tryggingaréttinda í loftförum og loftfarshlutum fer fram rafrænt í alþjóðlegu skránni sem stofnuð var á grundvelli Höfðaborgarsamningsins.

Um 42. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði heimild til skráningar loftfars á grundvelli eignarréttar með vísan til þjóðréttarlega skuldbindinga og staðfesturéttar með skýrari hætti en í gildandi lögum. Meðal þjóðréttarskuldbindinga sem horft er til er EES-samningurinn, stofnsamningur EFTA, samningurinn um sameiginlega Evrópska flugsvæðið og fríverslunarsamningur við Færeyjar.
    Bent skal á að skráning loftfars ein og sér veitir ekki heimild til að starfrækja það í ábataskyni. Þjóðerniskröfur hvað varðar eignarhald og eiginlega stjórnun þess aðila eða fyrirtækis sem hyggur á slíka starfrækslu, hvort sem er beint eða óbeint, er að finna í VIII. kafla frumvarpsins um flugrekstur. Með tómaleigu (e. dry lease) í 2. mgr. er átt við afnotaleigu sem felst í því að leigutaki fær loftfar á leigu án áhafnar og annast sjálfur allan rekstur þess. Með samningi um tómaleigu er átt við samning milli fyrirtækja þar sem loftför eru starfrækt samkvæmt flugrekandaskírteini leigutaka eða, ef um er að ræða aðra starfrækslu í ábataskyni en flutningaflug, á ábyrgð leigutaka.
    Mælt er fyrir frekara svigrúmi í 3. mgr. þar sem Samgöngustofa getur heimilað skráningu loftfars þrátt fyrir að skilyrði 1. og 2. mgr. séu ekki uppfyllt. Byggir greinin á samsvarandi heimild í 3. mgr. 10. gr. gildandi laga. Á það til að mynda við þar sem eignarhald er í höndum aðila utan þeirra ríkja sem Ísland hefur samið við en starfræksla loftfarsins er í höndum umráðanda sem uppfyllir skilyrðin og eftirliti er skipað með fullnægjandi hætti. Hvað sérstakar ástæður varðar sem vísað er til kunna ýmis sjónarmið að koma til skoðunar, svo sem ef um er að ræða framleigu loftfars til rekstrar í öðru ríki, um er að ræða tímabundna skráningu vegna viðhalds eða umbreytingu á loftfarinu o.fl.
    4. mgr. á rót sína að rekja til 1. mgr. 11. gr. gildandi laga sem byggist á 18. gr. Chicago-samningsins.

Um 43. gr.

    Greinin byggist í grunninn á 2. mgr. 11. gr., 1. mgr. 12. gr., 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. gildandi laga. Þó hefur orðalagi nokkuð verið breytt með vísan til reglugerðar (ESB) 2018/1139.
    Í 1. mgr. er lagt til að umsókn skuli geyma nauðsynlegar upplýsingar um loftfarið og að upplýsingar um eiganda og/eða umráðanda liggi fyrir.
    2. mgr. tekur mið af reglugerð (ESB) 2018/1139 hvað varðar svonefnd EASA-loftför. Í 3. mgr. er kveðið á um heimild til skráningar loftfara sem ekki teljast EASA-loftför, sbr. I. viðauka við reglugerð (ESB) 2018/1139, eða falla ekki undir gildissvið reglugerðarinnar, svo sem heimasmíði, eða létt loftför sem eru talin áhættulítil. Hvað „létt loftför“ áhrærir er hér sérstaklega horft til þess sveigjanleika (svonefndar „opt-out“ heimildar) sem fjallað er um í 8. mgr. 2. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139, þ.e. að undanskilja frá gildissviði reglugerðarinnar, við innleiðingu hennar í landsrétt, eina eða fleiri gerðir loftfara, innan þess ramma sem 8. mgr. tiltekur. Heimildin er jafnframt takmörkuð ef viðkomandi gerð loftfara hefur fengið útgefið tegundarvottorð eða gefin hefur verið út yfirlýsing vegna þeirra í samræmi við ákvæði reglugerðar (ESB) 2018/1139 eða forvera hennar (reglugerðar (EB) 216/2008). Með því að færa sér í nyt þessa „opt-out“ heimild færast viðkomandi gerðir loftfara undan gildissviði reglugerðar (ESB) 2018/1139 og undir landslöggjöf þess EASA-ríkis sem nýtir heimildina. Við innleiðingu reglugerðar (ESB) 2018/1139 þarf því að taka afstöðu til þess hvort nýta eigi þessa heimild og, ef svo er gert, að hvaða marki. Ljóst er að þessi heimild mun hafa bein áhrif á það hvort heimilt sé að skrá loftfar í loftfaraskrá. Á vefsíðu EASA má skoða yfirlit yfir þau ríki sem nýtt hafa þessa heimild og að hvaða marki þau hafa nýtt hana.
    4. mgr. greinarinnar á rót sína að rekja til 2. mgr. 11. gr. gildandi laga og er efnislega óbreytt. Vísað er til umfjöllunar um 41. gr. hér að framan um skrásetningu réttinda í loftförum og loftfarshlutum. Bent skal á að þó að líklegt megi telja að skráning réttinda stærri loftfara og loftfarshluta flytjist að mestu í alþjóðlegu skrána er ekki loku fyrir það skotið að tryggingarréttindi í loftförum verði einnig skráð í réttindaskrá innanlands.
    Hér er lagt til að 5 mgr. greinarinnar byggist í grunninn á 1. mgr. 14. gr. gildandi laga og þau atriði sem skráning tekur til verði nánar útlistuð í reglugerð sem ráðherra setur.
    Í 6. mgr. er vikið að skráningarskyldu borgaralegra ómannaðra loftfara sem háð eru vottun í samræmi við 56. gr., þ.e. þau ómönnuðu loftför sem talin eru hafa áhættumestu starfræksluna. Er hér gert ráð fyrir að skráningarskyld ómönnuð loftför verði skráð í loftfaraskrá eins og hefðbundin (mönnuð) loftför og hljóti þjóðernis- og skrásetningarmerki. Auðkenning skráningarskylds ómannaðs loftfars byggist á 2. málsl. 6. mgr. 14. gr. reglugerðar (ESB) 2019/947. Gert er ráð fyrir að Samgöngustofa úthluti einkvæmu stafrænu skráningarnúmeri ómannaðs loftfars við skráningu þess.

Um 44. gr.

    Greinin er samhljóða 1. og 2. mgr. 15. gr. gildandi laga og er efnislega óbreytt. Í 3. mgr. hefur orðunum „að uppfylltum skilyrðum“ verið bætt við frá 3. mgr. 15. gr. gildandi laga. Ekki er um efnislegar breytingu að ræða.

Um 45. gr.

    Hér er lagt til að sú skylda að tilkynna samning til Samgöngustofu sem hvílir á eiganda og umráðanda skv. 17. gr. gildandi laga haldi sér óbreytt.

Um 46. gr.

    Greinin samsvarar 16. gr. gildandi laga og er efnislega að mestu óbreytt. Í 1. mgr. eru tilgreind þau atvik sem leiða til þess að loftfar er tekið af skrá. Í 4. mgr. hefur viðeigandi vottorðum verið bætt við málsgreinina til samræmis við greinar frumvarpsins.

Um 47. gr.

    Með yfirlýsingu Íslands við fullgildingu Höfðaborgarsamningsins og bókunar um búnað loftfara skv. 1. mgr. XXX. gr. bókunar varðandi XIII. gr. bókunarinnar (heimild til að biðja um afskráningu og útflutningsleyfi) er hér lagt til að Samgöngustofu sé heimilt að verða við beiðni um afskráningu loftfars og útflutning enda séu önnur skilyrði beitingar þessa úrræðis uppfyllt, sbr. IX. gr. bókunar, og með fyrirvara um gildandi löggjöf á sviði flugöryggis. Í viðauka við bókunina um búnað loftfara er form að óafturkræfri beiðni um afskráningu loftfars og útflutning. Þá er gert ráð fyrir að í reglugerð verði nánar kveðið á um beitingu og skilyrði til afskráningar loftfars og útflutnings samkvæmt þessari grein, sbr. 51. gr. Greinin á rót sína að rekja til lögfestingar Höfðaborgarsamningsins, sbr. lög nr. 74/2019, og 16. gr. a í gildandi lögum um loftferðir. Er ákvæðið óbreytt orðalag gildandi laga.

Um 48. gr.

    Greinin er samhljóða 18. gr. gildandi laga og er annars vegar kveðið á um skyldu til að koma þjóðernis- og skrásetningarskírteini til Samgöngustofu sé loftfar fellt af skrá og hins vegar ef breytingar verða á þeim atriðum sem liggja til grundvallar skráningu loftfars skuli ráðstafanir gerðar til að uppfæra þjóðernis- og skrásetningarskírteini loftfarsins til samræmis.

Um 49. gr.

    Í greininni er lagt til að flugrekanda/umráðanda ómannaðs loftfars sé skylt að skrá sig í skráningarkerfi flugrekanda/umráðenda ómannaðra loftfara ef eitt eða fleiri efnisatriði a–b-liða 1. mgr. eiga við. Byggist ákvæðið á samsvarandi skyldu í 14. gr. reglugerðar (ESB) 2019/947, sbr. 4. gr. viðauka IX við sömu reglugerð. Er miðað við að flugrekandi/umráðandi skrái sig í því ríki þar sem hann hefur aðalaðsetur sitt eða höfuðstöðvar, ef um er að ræða lögaðila. Almennt er gert ráð fyrir að flugrekandi/umráðandi ómannaðs loftfars sé aðeins skráður í einu EASA-ríki hverju sinni. Í 1. tölul. a-liðar 1. mgr. er skráningarskylda flugrekanda/umráðanda fyrir hendi þó að ómannaða loftfarið sé léttara en 250 grömm ef það getur yfirfært meira en 80 júl af hreyfiorku á mann. Þetta getur t.d. átt við þegar loftfarið er lítið og létt en hægt er að fljúga því á miklum hraða. Í 2. tölul. a-liðar 1. mgr. er orðið „nemi“ þýðing á enska orðinu „sensor“. Átt er við t.d. nema sem tekið getur upp mynd og/eða hljóð. Með leikfangi er átt við leikfang í skilningi tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/48/EB um öryggi leikfanga sem innleidd hefur verið í landsrétt með reglugerð nr. 944/2014 um öryggi leikfanga og markaðssetningu þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Með viðbótarbúnaði fyrir fjarauðkenningu í 3. mgr. er átt við kerfi sem tryggir staðbundna útsendingu upplýsinga um ómannað loftfar sem verið er að starfrækja, þ.m.t. skráningarnúmeri flugrekanda/umráðanda ómannaða loftfarsins þannig að hægt sé að afla þessara upplýsinga án þess að hafa efnislegan aðgang að loftfarinu.
    Mælt er fyrir um heimild ráðherra til að setja í reglugerð nánari ákvæði um ýmis atriði er varða ómönnuð loftför, sbr. 51. gr. Er heimildin mikilvæg ekki síst þar sem um nýtt svið er að ræða.

Um 50. gr.

    Hér er lagt til að samsvarandi meginreglur gildi um afskráningu flugrekanda/umráðanda ómannaðs loftfars og gilda um mönnuð loftför. Þá er einnig lagt til að skyldur til að tilkynna breytingar á umráðum ómannaðs loftfars þar sem umráð ómannaðs loftfars eru samtvinnuð skráningu flugrekanda/umráðanda loftfars.

Um 51. gr.

    Hér er lagt til að ráðherra verði heimilt að setja reglugerðir fáeinum ákvæðum laganna til frekari fyllingar. Nokkuð umfangsmeiri heimild er í 2. mgr. greinarinnar er varðar hluti og tæki sem ferðast geta um loftið en eru ekki loftför og geimhluti. Er við það miðað að meðan ekki nýtur við heildstæðrar löggjafar um geimtengda starfsemi þá muni lagastoðin þjóna til setningar reglugerða sem taka til slíkrar starfsemi.

Um VI. kafla.

    Í grundvallaratriðum byggjast ákvæði VI. kafla á ákvæðum reglugerðar (ESB) 2018/1139 og, þar sem gildissviði reglugerðarinnar sleppir, 8. viðauka (lofthæfi loftfara) við Chicago-samninginn og leiðbeiningarefni Alþjóðaflugmálastofnunarinnar hvað varðar loftför í almenningsflugi. Jafnframt er sérstaklega fjallað um lofthæfi og viðhald og stjórnun á áframhaldandi lofthæfi ríkisloftfara og loftfara sem starfrækt eru af opinberum aðilum í almannaþágu, sem undanskilin eru ákvæðum reglugerðar (ESB) 2018/1139.
    Í kaflanum eru fáein nýmæli þar sem leitast er við að bregðast við skorti á ákvæðum eða lagastoð í gildandi lögum á afmörkuðum sviðum, svo sem hvað varðar hönnun og framleiðslu framleiðsluvara (e. product), hluta (e. part) og óuppsetts búnaðar (e. non-installed equipment), lofthæfi ómannaðra loftfara og verkaskiptingu milli lögbærra stjórnvalda. Þá er einnig horft til nýmæla sem leiða af reglugerð (ESB) 2018/1139 sem koma til með að vera útfærð nánar í afleiddu regluverki Evrópusambandsins sem þegar hefur verið innleitt í landsrétt, þ.e. aðallega:
          Reglugerð (ESB) 748/2012 frá 3. ágúst 2012 um framkvæmdarreglur varðandi lofthæfi- og umhverfisvottun loftfara og tilheyrandi framleiðsluvara, hluta og búnaðar og varðandi vottun hönnunar- og framleiðslufyrirtækja, með síðari breytingum, sbr. reglugerð nr. 380/2013, með síðari breytingum.
          Reglugerð (ESB) 1321/2014 frá 26. nóvember 2014 um áframhaldandi lofthæfi loftfara og annarra framleiðsluvara, hluta, búnaðar til flugs og um samþykki fyrir fyrirtækjum og starfsfólki á þessu sviði, með síðari breytingum, sbr. reglugerð nr. 926/2015 með síðari breytingum.
    Er hér sérstaklega átt við nýmæli eins og vottun á óuppsettum búnaði sem er nýtt hugtak sem bregður fyrir í afmörkuðum ákvæðum og hóflegri ákvæða með tilliti til áhættu hvað varðar loftför sem ætluð eru til íþrótta- og tómstundaflugs, auk sveigjanleika er varðar útgáfu yfirlýsinga vegna hönnunar og framleiðslu í stað vottunar enda séu þau skilyrði og takmarkanir sem reglugerðin áskilur uppfyllt. Gerir reglugerð (ESB) 2018/1139 meðal annars einnig ráð fyrir að fyrirtæki er annast hönnun og framleiðendur loftfara sem annars eru undanskildir gildissviði reglugerðarinnar geti valið að heyra undir hana (svonefnt „opt-in“ ákvæði) hvað varðar lofthæfi og áframhaldandi lofthæfi, sbr. 9. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar.
    Ákvæði í kaflanum er lúta að ómönnuðum loftförum byggjast á reglugerð (ESB) 2019/945 frá 12. mars 2019 um ómönnuð loftför og flugrekendur ómannaðra loftfara frá þriðju ríkjum, með síðari breytingum, og reglugerð 2019/947 frá 24. mars 2019 um reglur og verklag við starfrækslu ómannaðra loftfara, með síðari breytingum, og lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Gerðirnar um ómönnuð loftför bíða upptöku í EES-samninginn. Teljast gerðirnar afleiddar gerðir af reglugerð (ESB) 2018/1139 og er miðað við að þær verði teknar upp í samninginn og innleiddar hér á landi samhliða innleiðingu móðurgerðarinnar.

Um 52. gr.

    Með greininni er lagt til að hönnun framleiðsluvöru, að undanskildum ómönnuðum loftförum, hlutum, óuppsettum búnaði, breyting á hönnun framleiðsluvöru, hönnun viðgerðar og gögn er varða örugga starfrækslu í tengslum við tegundarhönnun verði háð vottun lögbærs stjórnvalds (tegundarvottun). Hugtakið hlutur í þessum kafla hefur þá merkingu sem tilgreind er í reglugerð (ESB) 2018/1139, þ.e. hluti framleiðsluvöru eins og skilgreint er í tegundarhönnun framleiðsluvörunnar. Byggist greinin á samsvarandi ákvæðum í 11.–13. gr. í reglugerð (ESB) 2018/1139. Sú skipting ábyrgðar milli Samgöngustofu og EASA sem greinir í 2. mgr. leiðir af gildissviði reglugerðar (ESB) 2018/1139. Í grunninn er hér ekki um nýmæli að ræða þar sem sambærileg ákvæði hafa verið í gildi allt frá því að fyrsta reglugerð Evrópusambandsins um Flugöryggisstofnunina leit dagsins ljós og reglugerð (EB) 1592/2002 var innleidd hér á landi í landsrétt (frá 2005) og tegundarvottun þeirra framleiðsluvara sem undir reglugerðina heyrðu fluttust til Flugöryggisstofnunarinnar. Meginbreytingarnar lúta að óuppsettum búnaði og þeim aukna sveigjanleika við vottun sem reglugerð (ESB) 2018/1139 mælir fyrir um.

Um 53. gr.

     Vottunargrunnur framleiðsluvara (e. certification basis), sem falla undir gildissvið reglugerðar (ESB) 2018/1139, byggist á verklagi við vottun og vottunarforskriftum (e. certification standards, CS) sem EASA hefur tekið saman, samþykkt og gefið út. Byggt er á því að Flugöryggistofnunin ákvarði vottunargrunninn og tilkynni umsækjanda um hann. Vísað er til viðeigandi vottunarforskrifta hvað varðar lofthæfi og umhverfissamræmi í viðauka I (Part-21) við reglugerð (ESB) 748/2012, með síðari breytingum. Byggist greinin á 11.–13. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139.
    Tegundarvottun framleiðsluvara sem falla undir gildissvið reglugerðar (ESB) 2018/1139 er forsenda þess að starfræksla þeirra sé heimil innan EASA-ríkjanna. Tegundarvottorð (e. type certificate) staðfestir að tiltekin tegund loftfars uppfyllir þær öryggiskröfur sem í gildi eru innan EASA-ríkjanna.
    Í 2. mgr. er vikið að þeim aðstæðum þegar hönnun loftfars uppfyllir ekki að öllu leyti þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt vottunargrunni. Er EASA þá heimilt að gefa út takmarkað tegundarvottorð enda sé sýnt fram á að hönnun loftfarsins samræmist vottunargrunni og hönnun loftfarsins sé fullnægjandi hvað varðar lofthæfi og umhverfissamræmi í ljósi áætlaðrar notkunar loftfarsins.
    Í a- og b-liðum 4. mgr. er byggt á a-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139.

Um 54. gr.

    Hér er mælt fyrir um vottun þrenns konar starfsemi, hönnunar (e. design), framleiðslu (e. production) og viðhalds (e. maintenance) og stjórnun á áframhaldandi lofthæfi (e. continuing airworthiness management). Byggist ákvæðið á 15. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139. Skv. 2. mgr. 77. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139 fer EASA með vottun og eftirlit með þeim fyrirtækjum hér á landi sem sinna þeirri starfsemi sem getið er í a-lið 1. mgr., þ.e. hönnun framleiðsluvara, hluta, óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra ómönnuðum loftförum. Samgöngustofa annast vottun annarrar starfsemi samkvæmt greininni sem fram fer hjá fyrirtæki með höfuðstöðvar hér á landi en hjá EASA ef höfuðstöðvar fyrirtækis eru utan EASA-ríkjanna.
    Þó að greinin sé nýmæli hvað varðar vottun fyrirtækja er annast hönnun og framleiðslu hafa sambærileg ákvæði verið í gildi í afleiddu regluverki Evrópusambandsins sem innleitt hefur verið hér á landi. Hvað varðar vottun á fyrirtækjum er annast viðhald og áframhaldandi lofthæfi leysir greinin af hólmi 1. og 2. mgr. 28. gr. gildandi laga.
    Heimild ráðherra skv. 4. mgr. til að undanþiggja tilteknar framleiðsluvörur, hluti, óuppsettan búnað og búnað til að fjarstýra ómönnuðum loftförum byggist almennt á sömu nálgun og í reglugerð (ESB) 2018/1139 og þeim fyrirliggjandi afleiddu reglugerðum Evrópusambandsins sem þegar hafa verið innleiddar í landsrétt.

Um 55. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði heimild til þess að viðurkenna erlenda vottun fyrirtækis sem vottað hefur verið til hönnunar eða framleiðslu í þriðja ríki utan EASA-ríkjanna. Byggist greinin á 8. og 9. gr. reglugerðar (ESB) 748/2012.

Um 56. gr.

    Greinin er nýmæli og byggist á 55. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1139 hvað varðar grunnkröfur sem gerðar eru til ómannaðra loftfara, sbr. IX. viðauka við reglugerðina. Jafnframt byggist greinin á 40. gr. reglugerðar (ESB) 2019/945 um ómönnuð loftför og starfrækslu ómannaðra loftfara frá þriðju ríkjum sem ráðgert er að taka upp í EES-samninginn og innleiða í landsrétt. Fáein orðasambönd í greininni hafa sérstaka merkingu sem rétt er að benda á en að öðru leyti er vísað til orðskýringa í framangreindum reglugerðum. Mannfjöldi (e. assemblies of people) í a-lið merkir samsöfnun fólks þar sem einstaklingar geta ekki komist út úr hópnum vegna þess hve þétt þeir standa. Traustleiki (e. robustness) í c-lið merkir sá eiginleiki til mildunarráðstafana sem kemur af því að sameina þann öryggisávinning sem mildunarráðstafanirnar hafa í för með sér