Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1810, 151. löggjafarþing 708. mál: hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. (EES-reglur, hringrásarhagkerfi).
Lög nr. 103 25. júní 2021.

Lög um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald (EES-reglur, hringrásarhagkerfi).


I. KAFLI
Breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

1. gr.

     Við 3. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
      Framleiðandi og innflytjandi er aðili sem:
 1. í atvinnuskyni framleiðir, fyllir á, selur eða flytur inn og setur á markað í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð einnota plastvöru, áfyllta einnota plastvöru eða veiðarfæri sem innihalda plast, óháð þeirri sölutækni sem er notuð, eða
 2. í atvinnuskyni selur einnota plastvöru, áfyllta einnota plastvöru eða veiðarfæri sem innihalda plast beint til notenda yfir landamæri.

      Veiðarfæri er hver sá hlutur eða hluti af búnaði sem er notaður við fiskveiðar eða í lagareldi til að einangra, fanga eða ala líffræðilegar auðlindir hafsins eða sem flýtur á yfirborði hafsins og er notað með það fyrir augum að laða að og fanga eða ala slíkar líffræðilegar auðlindir hafsins.

2. gr.

     Á eftir 37. gr. g laganna kemur ný grein, 37. gr. h, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á plastvörum.
     Framleiðendur og innflytjendur eftirfarandi einnota plastvara bera ábyrgð á þeim:
 1. ílátum, með eða án loks, sem ætluð eru undir matvæli til neyslu á sölustað eða annars staðar sem er jafnan neytt beint úr viðkomandi íláti og eru tilbúin til neyslu án frekari tilreiðslu, svo sem eldunar, suðu eða hitunar,
 2. umbúðum úr sveigjanlegu efni, sem ætlaðar eru til að vefja utan um matvæli sem neytt er beint úr viðkomandi umbúðum án frekari tilreiðslu,
 3. drykkjarílátum að rúmmáli allt að þremur lítrum, þ.m.t. lok, en undanskilin eru drykkjarílát úr gleri eða málmi sem hafa lok úr plasti,
 4. drykkjarmálum, þ.m.t. lok,
 5. burðarpokum úr plasti sem eru þynnri en 50 .m,
 6. blautþurrkum til heimilis- og einkanota,
 7. loftbelgjum og blöðrum, að undanskildum loftbelgjum til nota í iðnaði eða annarri atvinnustarfsemi og ekki eru ætlaðir til dreifingar til neytenda,
 8. tóbaksvörum með síu og stökum síum fyrir tóbaksvörur.

     Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda, sbr. 1. mgr., felst að þeir skulu fjármagna eftirfarandi fræðslu og upplýsingagjöf til notenda viðkomandi vara um:
 1. úrgangsforvarnir, þ.m.t. um möguleika neytenda til að nota fjölnota vörur í stað einnota vara,
 2. rétta meðhöndlun varanna þegar þær eru orðnar að úrgangi, þ.m.t. um söfnunarkerfi sem til staðar er,
 3. áhrif þess að fleygja rusli á víðavangi og áhrif annarrar ófullnægjandi meðhöndlunar varanna þegar þær eru orðnar að úrgangi, einkum áhrif þeirra á sjávarumhverfi, og
 4. áhrif þess að losa vörurnar í fráveitu.

     Framleiðendum og innflytjendum skv. 1. mgr. ber jafnframt að fjármagna hreinsun á rusli á víðavangi sem er til komið vegna þessara vara, ásamt flutningi þess og annarri meðhöndlun. Framangreind hreinsun skal vera á hendi opinberra yfirvalda eða í þeirra umboði.
     Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda vara skv. a–e-lið og h-lið 1. mgr. felst að þeir skulu fjármagna söfnun þessara vara, þegar þær eru orðnar að úrgangi, í söfnunarkerfum sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila, þ.m.t. er kostnaður við nauðsynlega innviði, rekstur þeirra og sérstaka söfnun þegar við á samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs. Í ábyrgðinni felst jafnframt að fjármagna meðhöndlun úrgangsins eftir söfnun, í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs. Í tilfelli vara skv. h-lið 1. mgr. skal fjármögnun ná til uppbyggingar sérstakra innviða sem nauðsynlegir eru til fullnægjandi söfnunar varanna, svo sem söfnunaríláta sem komið er fyrir á almannafæri.
     Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda vara skv. f–h-lið 1. mgr. felst að þeir skulu fjármagna öflun nauðsynlegra upplýsinga um þær vörur sem þeir setja á markað hér á landi og nauðsynlegra gagna um söfnun og aðra meðhöndlun þeirra þegar þær eru orðnar að úrgangi, ásamt öðrum upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að uppfylla markmið laga þessara varðandi þessar vörur.
     Framleiðendur og innflytjendur veiðarfæra sem innihalda plast bera ábyrgð á þeim veiðarfærum sem innihalda plast sem framleidd eru hér á landi eða flutt eru inn. Í ábyrgðinni felst að þeir skulu fjármagna sérstaka söfnun veiðarfæra sem innihalda plast sem handhafar þeirra losa sig við í móttökuaðstöðu hafna fyrir úrgang og farmleifar frá skipum, sbr. lög um varnir gegn mengun hafs og stranda, eða í önnur sambærileg söfnunarkerfi. Í ábyrgðinni felst jafnframt að fjármagna meðhöndlun úrgangs sem er safnað í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs. Framleiðendur og innflytjendur veiðarfæra sem innihalda plast skulu jafnframt fjármagna eftirfarandi fræðslu og upplýsingagjöf til notenda veiðarfæra sem innihalda plast um:
 1. úrgangsforvarnir, þ.m.t. um möguleika til endurnotkunar veiðarfæra,
 2. rétta meðhöndlun veiðarfæra þegar þau eru orðin að úrgangi, þ.m.t. um söfnunarkerfi sem til staðar er, og
 3. áhrif þess að losa veiðarfæri annars staðar en í viðunandi söfnunarkerfi og áhrif annarrar ófullnægjandi meðhöndlunar þeirra þegar þau eru orðin að úrgangi, einkum áhrif þeirra á sjávarumhverfi.

     Erlendum framleiðanda og innflytjanda einnota plastvara skv. 1. mgr. og veiðarfæra sem innihalda plast er heimilt að tilnefna viðurkenndan fulltrúa sinn hér á landi með skriflegu umboði sem skal vera ábyrgur fyrir því að uppfylla skyldur framleiðandans samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
     Framleiðandi og innflytjandi einnota plastvara skv. 1. mgr. og veiðarfæra sem innihalda plast sem selur einnota plastvörur eða veiðarfæri til notenda í öðru EES-ríki skal tilnefna viðurkenndan fulltrúa í því ríki með skriflegu umboði sem skal vera ábyrgur fyrir því að uppfylla skyldur framleiðandans og innflytjandans samkvæmt lögum þessum.
     Óheimilt er að setja á markað, selja hér á landi eða taka til eigin nota í atvinnuskyni einnota plastvörur sem taldar eru upp í 1. mgr. eða veiðarfæri sem innihalda plast nema framleiðandi og innflytjandi þeirra greiði úrvinnslugjald, sbr. lög um úrvinnslugjald. Undanskilin eru drykkjarílát skv. c-lið 1. mgr. sem falla undir ákvæði laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur en framleiðandi og innflytjandi þeirra skal greiða skilagjald og umsýsluþóknun samkvæmt þeim lögum.
     Úrvinnslusjóður skal:
 1. safna upplýsingum um magn einnota plastvara skv. 1. mgr. og veiðarfæra sem innihalda plast sem framleidd eru eða flutt inn, um magn einnota plastvara skv. 1. mgr. og veiðarfæra sem innihalda plast sem safnað er og ráðstöfun þeirra og skila upplýsingunum til Umhverfisstofnunar fyrir 1. apríl ár hvert fyrir undangengið ár, að undanskildum drykkjarílátum skv. c-lið 1. mgr. sem falla undir ákvæði laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur,
 2. stuðla að fullnægjandi fræðslu og upplýsingagjöf skv. 2. og 5. mgr. í samvinnu við Umhverfisstofnun, fullnægjandi hreinsun á rusli á víðavangi skv. 2. mgr. og fullnægjandi söfnun og meðhöndlun úrgangs skv. 3. og 4. mgr., að undanskildum ákvæðum er varða drykkjarílát skv. c-lið 1. mgr. sem falla undir ákvæði laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, og
 3. ná tölulegum markmiðum um söfnun, undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu og förgun einnota plastvara skv. 1. mgr. og veiðarfæra sem innihalda plast, að undanskildum drykkjarílátum skv. c-lið 1. mgr. sem falla undir ákvæði laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

     Hlutafélagið sem tekur að sér umsýslu skilagjalds svo og söfnun og endurvinnslu einnota umbúða er falla undir lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur skal:
 1. safna upplýsingum um magn einnota plastvara skv. c-lið 1. mgr. sem framleiddar eru eða fluttar eru inn, um magn einnota plastvara skv. c-lið 1. mgr. sem safnað er og ráðstöfun þeirra og skila þeim til Umhverfisstofnunar fyrir 1. apríl ár hvert fyrir undangengið ár, að því er varðar drykkjarílát sem falla undir ákvæði laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur,
 2. stuðla að fullnægjandi fræðslu og upplýsingagjöf skv. 2. mgr. í samvinnu við Umhverfisstofnun, fullnægjandi hreinsun á rusli á víðavangi skv. 3. mgr. og fullnægjandi söfnun og meðhöndlun úrgangs skv. 4. mgr., að því er varðar drykkjarílát skv. c-lið 1. mgr. sem falla undir ákvæði laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, og
 3. ná tölulegum markmiðum um söfnun, undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu og förgun einnota plastvara skv. c-lið 1. mgr., að því er varðar drykkjarílát sem falla undir ákvæði laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.


3. gr.

     Við 3. mgr. 51. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: hafa samstarf við Úrvinnslusjóð og Skattinn um framkvæmd eftirlits við innflutning og markaðssetningu plastvara samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI
Breyting á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003.

4. gr.

     Á eftir orðunum „Markmið laga þessara er að“ í 1. gr. laganna kemur: skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis og.

5. gr.

     Við 3. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: fóðurefnis, eins og það er skilgreint í reglugerð um notkun og markaðssetningu fóðurs, sem inniheldur ekki aukaafurðir úr dýrum.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „fáanlega“ og „fáanlegri“ í skilgreiningu á bestu fáanlegu tækni kemur: aðgengilega; og: aðgengilegri.
 2. Við skilgreiningu á endurnýtingu bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Endurnýting skiptist annars vegar í efnisendurnýtingu, þar á meðal undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og fyllingu, og hins vegar í orkuendurnýtingu, þar á meðal uppvinnslu sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti.
 3. Skilgreining á heimilisúrgangi (sorp) orðast svo: Heimilisúrgangur: úrgangur sem flokkast sem:
  1. blandaður úrgangur frá heimilum og úrgangur frá heimilum sem er sérstaklega safnað, þ.m.t. pappír og pappi, gler, málmar, plast, lífúrgangur, timbur, textíll, umbúðir, raf- og rafeindatækjaúrgangur, notaðar rafhlöður og rafgeymar og rúmfrekur úrgangur, þ.m.t. dýnur og húsgögn,
  2. blandaður úrgangur af öðrum uppruna og úrgangur af öðrum uppruna sem er sérstaklega safnað og er svipaður að eðli og samsetningu úrgangi frá heimilum,
  3. en þó ekki úrgangur frá framleiðslu, landbúnaði, skógrækt, fiskveiðum, rotþróm, fráveitukerfum, þ.m.t. seyra, úr sér gengin ökutæki eða byggingar- og niðurrifsúrgangur.
 4. Skilgreining á lífrænum úrgangi orðast svo: Lífrænn úrgangur: úrgangur sem er niðurbrjótanlegur af örverum með eða án tilkomu súrefnis, t.d. lífúrgangur, sláturúrgangur, fiskúrgangur, ölgerðarhrat, húsdýraúrgangur, timbur, lýsi, garðyrkjuúrgangur, pappír og pappi, og seyra.
 5. Skilgreining á meðferð úrgangs fellur brott.
 6. Orðið „endurnotkun“ í skilgreiningu á meðhöndlun úrgangs fellur brott.
 7. Við skilgreiningu á rafhlöðu eða rafgeymi bætast þrír nýir liðir, svohljóðandi:
  1. Færanleg rafhlaða eða rafgeymir er rafhlaða, hnapparafhlaða, rafhlöðupakki eða rafgeymir sem er innsiglaður, unnt er að bera í hendi og er hvorki iðnaðarrafhlaða né iðnaðarrafgeymir né rafhlaða eða rafgeymir fyrir vélknúin ökutæki.
  2. Rafhlaða eða rafgeymir fyrir vélknúin ökutæki er rafhlaða eða rafgeymir sem notaður er til að ræsa vél, til lýsingar eða sem kveikjubúnaður.
  3. Iðnaðarrafhlaða eða iðnaðarrafgeymir er rafhlaða eða rafgeymir sem er eingöngu ætlaður til notkunar í iðnaði eða til faglegrar notkunar eða sem notaður er í allar tegundir rafknúinna ökutækja.
 8. Skilgreining á sérstakri söfnun orðast svo: Sérstök söfnun: söfnun þar sem úrgangsflokkum er haldið aðskildum eftir tegund og eðli til að auðvelda tiltekna meðhöndlun, svo sem undirbúning fyrir endurnotkun eða endurvinnslu.
 9. Við bætast sjö nýjar skilgreiningar, í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
  1. Almennur úrgangur: úrgangur annar en spilliefni.
  2. Byggingar- og niðurrifsúrgangur: allur sá úrgangur sem til kemur vegna byggingar- og niðurrifsstarfsemi, þar á meðal vegna viðhalds og breytinga á líftíma mannvirkja, og niðurrifs þeirra. Skilgreining þessi tekur jafnframt til úrgangs sem stafar frá minni háttar byggingar- og niðurrifsstarfsemi almennings á einkaheimilum.
  3. Fylling: sérhver endurnýtingaraðgerð þar sem hentugur úrgangur, sem ekki er spilliefni, er notaður til endurheimtar á graftarsvæðum eða á tæknilegan hátt við landmótun. Úrgangur sem er notaður í fyllingar verður að koma í staðinn fyrir efni sem er ekki úrgangsefni, henta í áðurnefndum tilgangi og takmarkast við það magn sem er nauðsynlegt til að ná þessum tilgangi.
  4. Lífúrgangur: lífbrjótanlegur garðaúrgangur, matar- og eldhúsúrgangur frá heimilum, skrifstofum, heildsölum, smásölum, veitingastöðum, mötuneytum og veisluþjónustufyrirtækjum, og sambærilegur úrgangur frá vinnslustöðvum matvæla.
  5. Matarúrgangur: matvæli sem orðin eru að úrgangi.
  6. Matvæli: hvers konar efni eða vörur, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem fólki er ætlað að neyta eða sem eðlilegt er að vænta að fólk neyti. Hugtakið tekur einnig til drykkja, tyggigúmmís og hvers kyns efna, þ.m.t. neysluvatns, sem bætt er af ásettu ráði í matvæli við framleiðslu þeirra, vinnslu eða meðferð, svo og fæðubótarefna.
  7. Rafhlöðupakki: samstæða af rafhlöðum eða rafgeymum sem eru tengdir saman og/eða lokaðir inni í ytra byrði og mynda fullbúna einingu sem notandanum er ekki ætlað að skipta eða opna.


7. gr.

     Á eftir 2. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Umhverfisstofnun skal útbúa leiðbeiningar um gerð svæðisáætlana.

8. gr.

     Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Eftirlit með svæðisáætlunum sveitarfélaga.
     Umhverfisstofnun hefur eftirlit með því að sveitarstjórnir gefi út svæðisáætlanir skv. 6. gr. og leggur jafnframt faglegt mat á efni þeirra og hvort þær samræmist lögum og reglum þar um.
     Ef sveitarstjórn gefur ekki út svæðisáætlun eða svæðisáætlun er ekki í samræmi við lög og reglur sendir Umhverfisstofnun ráðuneytinu ábendingu þar um.
     Ráðherra getur að fenginni ábendingu frá Umhverfisstofnun gefið út:
 1. leiðbeiningar um túlkun laga þessara og stjórnsýslu sveitarfélagsins á þessu sviði,
 2. álit um lögmæti athafna eða athafnaleysis sveitarfélagsins,
 3. fyrirmæli til sveitarfélags um að það komi viðkomandi málum í lögmætt horf.


9. gr.

     Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Við gerð stefna og svæðisáætlana og töku ákvarðana um fyrirkomulag við meðhöndlun úrgangs skal nota efnahagsleg stjórntæki og aðrar ráðstafanir til að hvetja til forgangsröðunar við meðhöndlun úrgangs skv. 1. mgr.

10. gr.

     Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Fyrirkomulag söfnunarinnar skal stuðla að því að markmiðum laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra verði náð í sveitarfélaginu, þ.m.t. töluleg markmið um endurvinnslu og endurnýtingu.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „fáanlegu“ í 1. mgr. kemur: aðgengilegu.
 2. Í stað orðanna „lífrænan úrgang“ í 4. málsl. 4. mgr. kemur: lífúrgang.


12. gr.

     10. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Sérstök söfnun og flokkun úrgangs.
     Koma skal upp sérstakri söfnun á heimilisúrgangi þar sem það er nauðsynlegt til að uppfylla ákvæði 1. mgr. 11. gr. og koma í veg fyrir að úrgangur blandist öðrum úrgangi eða öðrum efniviði með aðra eiginleika. Sérstök söfnun skal vera á a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundum: pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Heimajarðgerð er þó heimil sem og söfnun lífúrgangs með öðrum úrgangi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. 4. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 57. gr. Sérstök söfnun á pappír og pappa, plasti og lífúrgangi skal fara fram á sem aðgengilegastan hátt við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli. Söfnunin skal fara fram innan lóðar viðkomandi íbúðarhúss eða lögaðila. Þó er heimilt að hafa sameiginlega söfnun úrgangs fyrir aðliggjandi lóðir að því tilskildu að öll söfnun úrgangs færist af viðkomandi lóðum. Enn fremur er heimilt að víkja frá ákvæði um söfnun innan lóðar þegar um er að ræða rúmfrekan úrgang, svo sem garðaúrgang, sem safnað er á söfnunar- eða móttökustöð. Sveitarfélögum er heimilt að uppfylla skyldu til sérstakrar söfnunar á gleri, málmum og textíl með söfnun í grenndargáma, að því tilskildu að það fyrirkomulag söfnunar stuðli að því að markmiðum laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim verði náð, sbr. 1. mgr. 8. gr. Sérstök söfnun á spilliefnum skal fara fram í nærumhverfi íbúa. Sveitarfélög skulu útfæra nánara fyrirkomulag sérstakrar söfnunar í samþykkt um meðhöndlun úrgangs.
     Ráðherra er heimilt, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, að veita undanþágu frá ákvæðum um sérstaka söfnun, sbr. 1. mgr., að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum, ásamt nánari skilyrðum sem ráðherra er heimilt að setja í reglugerð, sbr. 43. gr.:
 1. blönduð söfnun tiltekinna tegunda úrgangs hafi ekki áhrif á möguleika til endurnýtingar þeirra úrgangstegunda og slík söfnun tryggi sambærileg gæði úrgangsins og fæst með sérstakri söfnun,
 2. sérstök söfnun skili ekki bestri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið,
 3. sérstök söfnun sé ekki tæknilega möguleg, eða
 4. sérstök söfnun hafi í för með sér óhóflegan kostnað.

     Einstaklingum og lögaðilum er skylt að flokka heimilisúrgang í samræmi við ákvæði 1. mgr.
     Við meðhöndlun úrgangs skal nota samræmdar merkingar fyrir a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundir: pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl og spilliefni, sbr. nánari ákvæði í reglugerð sem ráðherra er heimilt að setja, sbr. 43. gr.
     Rekstraraðilum er skylt að flokka rekstrarúrgang í samræmi við 1. mgr. 11. gr. Byggingar- og niðurrifsúrgangur skal flokkaður í a.m.k. eftirfarandi flokka: spilliefni, timbur, steinefni, málm, gler, plast og gifs.
     Hvorki er heimilt að urða né senda til brennslu þær úrgangstegundir sem tilgreindar eru í 1. mgr. og hefur verið safnað sérstaklega, nema þann úrgang sem eftir verður og hentar hvorki til endurnotkunar né endurvinnslu og brennsla eða eftir atvikum urðun er sá kostur sem skilar bestri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið, sbr. 7. gr.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í því skyni skal stuðla að undirbúningi fyrir endurnotkun og endurvinnslu.
 2. 2. mgr. fellur brott.


14. gr.

     Á eftir 1. mgr. 13. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Sveitarstjórnir bera ábyrgð á að tölulegum markmiðum sem sett eru um heimilisúrgang og lífrænan úrgang sé náð á þeirra svæði.

15. gr.

     Í stað orðsins „fáanlegu“ í b-lið 1. mgr. 17. gr. og b-lið 3. mgr. 54. gr. laganna kemur: aðgengilegu.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
 1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Úrgangur sem hefur verið endurunninn eða farið í gegnum aðra endurnýtingaraðgerð hættir að vera úrgangur þegar hann uppfyllir þær sértæku viðmiðanir sem ráðherra setur í reglugerð um lok úrgangsfasa, sbr. 43. gr., í samræmi við eftirfarandi skilyrði.
 2. Í stað orðanna „yfirleitt notuð“ í a-lið 1. mgr. kemur: ætluð til notkunar.
 3. 2. mgr. orðast svo:
 4.      Einstaklingur eða lögaðili sem tekur í notkun efni eða hlut í fyrsta skipti eftir að hann hættir að vera úrgangur skv. 1. mgr. eða setur slíkt efni eða hlut á markað í fyrsta skipti skal tryggja að efnið eða hluturinn uppfylli kröfur efnalaga og viðeigandi reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.


17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
 1. Við 2. málsl. 2. mgr. bætist: og vegna uppsetningar og reksturs nauðsynlegra innviða.
 2. Í stað 3. og 4. málsl. 2. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Skylt er að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu, svo sem með því að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Sveitarfélagi og byggðasamlagi er þó heimilt að færa innheimtu gjalda á milli úrgangsflokka í því skyni að stuðla að markmiðum laga þessara og ákvæðum 7. gr., að teknu tilliti til 3. mgr. Jafnframt er sveitarfélagi heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu til þess að innheimta allt að 25% af heildarkostnaði sveitarfélagsins, sbr. 3. mgr.
 3. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sveitarfélag eða byggðasamlag skal árlega birta upplýsingar um innheimt gjöld og sundurliðun á raunkostnaði á vef sínum.


18. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
 1. Á eftir orðunum „fræða almenning“ í 1. mgr. kemur: og lögaðila.
 2. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Fræðsla til almennings og lögaðila.


19. gr.

     Á eftir 24. gr. laganna kemur ný grein, 24. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Lágmarkskröfur varðandi framlengda framleiðendaábyrgð.
     Úrvinnslusjóður, sbr. lög um úrvinnslugjald, og Endurvinnslan hf., sbr. lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, skulu fyrir hönd framleiðenda og innflytjenda uppfylla lágmarkskröfur varðandi framlengda framleiðendaábyrgð samkvæmt þessari grein.
     Framleiðendur og innflytjendur vara, sbr. lög um úrvinnslugjald og lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun vöru sem er orðin að úrgangi. Fjármögnunin skal þ.m.t. standa straum af kostnaði við sérstaka söfnun, sbr. 10. gr., sem og aðra söfnun úrgangsins eftir atvikum og meðhöndlun hans og kostnaði við upplýsingasöfnun, upplýsingaskil og upplýsingagjöf.
     Úrvinnslusjóður og Endurvinnslan skulu:
 1. ná á landsvísu tölulegum markmiðum um söfnun, undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og endurnýtingu viðkomandi úrgangs,
 2. safna upplýsingum um magn vara sem settar eru á markað og um magn vara sem safnað er þegar þær eru orðnar að úrgangi og ráðstöfun þeirra og skila upplýsingunum til Umhverfisstofnunar fyrir 1. apríl ár hvert fyrir undangengið almanaksár,
 3. tryggja almenna fræðslu til almennings og lögaðila, þ.m.t. um úrgangsforvarnir og rétta meðhöndlun vara þegar þær eru orðnar að úrgangi, þ.m.t. um þau söfnunarkerfi sem til staðar eru, og áhrif þess að dreifa úrgangi á víðavangi,
 4. tryggja á vef sínum birtingu upplýsinga um:
  1. stöðu gagnvart tölulegum markmiðum sem í gildi eru um söfnun, undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og endurnýtingu viðkomandi úrgangs,
  2. fjárframlag sem framleiðendur eða innflytjendur hafa greitt á hverja einingu eða á hvert tonn af vöru sem sett er á markað,
  3. samninga við aðila um meðhöndlun úrgangs,
 5. tryggja þjónustu um allt land og að söfnunarkerfi sé fullnægjandi,
 6. tryggja að fjárframlög framleiðenda og innflytjenda standi í raun undir þeim kostnaði sem af viðkomandi vöru hlýst.

     Fjárframlög sem framleiðandi eða innflytjandi vöru greiðir til að uppfylla skuldbindingar sínar skulu:
 1. aðlöguð fyrir einstakar vörur eða hópa svipaðra vara eftir því sem unnt er, einkum með því að taka tillit til endingar þeirra, möguleika á viðgerðum, endurnotkun og endurvinnslu og hvort um spilliefni er að ræða, og
 2. ekki vera hærri en sem nemur raunkostnaði við viðkomandi þjónustu við söfnun og aðra meðhöndlun vörunnar þegar hún er orðin að úrgangi.


20. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
 1. Á eftir orðunum „rafgeymum frá heimilum“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: nema drifrafhlöðum úr skráningarskyldum ökutækjum.
 2. Á undan orðunum „rafhlöður og rafgeyma“ og orðunum „rafhlöðum og rafgeymum“ í 3. mgr. kemur: færanlegar; og: færanlegum.
 3. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við um þá sem selja og dreifa rafhlöðum og rafgeymum fyrir vélknúin ökutæki og drifrafhlöðum og drifrafgeymum fyrir ökutæki sem ekki eru skráningarskyld.


21. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
 1. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 2.      Framleiðendum og innflytjendum iðnaðarrafhlaðna og iðnaðarrafgeyma, eða þriðju aðilum fyrir þeirra hönd, ber að taka við notuðum iðnaðarrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum frá notendum óháð efnasamsetningu og uppruna þeirra, þ.m.t. drifrafhlöðum og drifrafgeymum fyrir skráningarskyld ökutæki.
 3. Í stað orðanna „til söfnunarstöðva og verslana“ í 2. mgr. kemur: skv. 33. gr.


22. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 37. gr. laganna:
 1. Við 1. málsl. bætist: og að þeir séu skráðir í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda.
 2. 2. málsl. orðast svo: Jafnframt skal Umhverfisstofnun hafa eftirlit með að seljendur rafhlaðna og rafgeyma taki við notuðum rafhlöðum á sölu- eða dreifingarstað, sbr. 33. gr.


23. gr.

     Á eftir aa-lið 43. gr. laganna koma tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
bb. undanþágur frá sérstakri söfnun úrgangs, sbr. 10. gr. og 2. mgr. 57. gr.,
cc. samræmdar merkingar úrgangstegunda, sbr. 10. gr.

24. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sérstök söfnun skal vera á spilliefnum í samræmi við 1. mgr. 10. gr.
 2. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Hafi blöndun spilliefna orðið án þess að fullnægt hafi verið skilyrðum a- og b-liðar 3. mgr. skal aðskilja spilliefnin, svo fremi að það sé tæknilega gerlegt. Sé slíkt ekki mögulegt skal tryggt að viðkomandi blanda verði færð til viðeigandi meðhöndlunar, sbr. 9. gr.


25. gr.

     1. mgr. 56. gr. laganna orðast svo:
     Handhafar spilliefna, og ef við á seljendur og miðlarar spilliefna, skulu skrá í rafræna skrá Umhverfisstofnunar upplýsingar um magn, eðli og uppruna spilliefna sem falla til hjá þeim eða þeir safna, flytja eða meðhöndla á annan hátt.

26. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „moltugerð“ í a-lið 1. mgr. kemur: jarðgerð.
 2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Lífúrgangi skal safnað sérstaklega, sbr. einnig 1. mgr. 10. gr., og hann meðhöndlaður í samræmi við 1. mgr. Einnig er heimilt að aðskilja lífúrgang og endurvinna á upprunastað, sbr. 4. málsl. 4. mgr. 9. gr. Heimilt er að víkja frá skyldu til sérstakrar söfnunar lífúrgangs og safna með honum umbúðaúrgangi sem hefur svipaða eiginleika til lífræns niðurbrots og jarðgerðar og uppfyllir viðeigandi evrópska eða íslenska staðla þar um.


27. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 5. málsl. 2. mgr. 23. gr. er sveitarfélagi heimilt að innheimta allt að 50% af heildarkostnaði sveitarfélagsins til 1. janúar 2025.

III. KAFLI
Breyting á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002.

28. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Markmið laga þessara er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis með vörur og þjónustu til að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans. Jafnframt er markmið laganna að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurvinnslu úrgangs og aðra endurnýtingu úrgangs með hliðsjón af umhverfislegum ávinningi, í þeim tilgangi að draga úr magni úrgangs sem fellur til og fer til endanlegrar förgunar og tryggja viðeigandi förgun spilliefna.

29. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. 1. tölul. orðast svo: Endurnotkun: hvers kyns aðgerð þar sem vörur eða íhlutir, sem ekki eru úrgangur, eru notaðir í sama tilgangi og þeir voru ætlaðir til í upphafi.
 2. 2. tölul. orðast svo: Endurnýting: aðgerð þar sem aðalútkoman er sú að úrgangur verður til gagns þar eð hann kemur í stað annars efniviðar sem hefði annars verið notaður í tilteknum tilgangi, eða hann er útbúinn til þeirrar notkunar, í stöðinni eða úti í hagkerfinu.
 3. 4. tölul. orðast svo: Förgun: hvers kyns aðgerð sem er ekki endurnýting, jafnvel þótt aðgerðin hafi að auki í för með sér endurheimt efna eða orku.
 4. Orðin „flokkunarmiðstöðvar og“ í 3. málsl. 5. tölul. falla brott.
 5. 8. tölul. orðast svo: Úrgangur: hvers kyns efni eða hlutir sem handhafi úrgangs ákveður að losa sig við, ætlar að losa sig við eða er gert að losa sig við.
 6. Orðið „endurnotkun“ í 9. tölul. fellur brott.
 7. Við bætast fjórir nýir töluliðir, í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
  1. Endurvinnsla: hvers kyns endurnýtingaraðgerð sem felst í því að endurvinna úrgangsefni í vörur, efnivið eða efni, hvort sem er til notkunar í upphaflegum tilgangi eða í öðrum tilgangi. Undir þetta fellur uppvinnsla á lífrænum efniviði en ekki orkuvinnsla og uppvinnsla sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti eða til fyllingar.
  2. Rafhlaða eða rafgeymir: uppspretta raforku sem myndast við beina umbreytingu efnaorku og samanstendur af einu einhlaði eða fleiri eða einu endurhlaði eða fleiri.
  3. Færanleg rafhlaða eða rafgeymir: rafhlaða, hnapparafhlaða, rafhlöðupakki eða rafgeymir sem er innsiglaður, unnt er að bera í hendi og er hvorki iðnaðarrafhlaða né iðnaðarrafgeymir né rafhlaða eða rafgeymir fyrir vélknúin ökutæki.
   1. Rafhlaða eða rafgeymir fyrir vélknúin ökutæki: rafhlaða eða rafgeymir sem notaður er til að ræsa vél, til lýsingar eða sem kveikjubúnaður.
   2. Iðnaðarrafhlaða eða iðnaðarrafgeymir: rafhlaða eða rafgeymir sem er eingöngu ætlaður til notkunar í iðnaði eða til faglegrar notkunar eða sem notaður er í allar tegundir rafknúinna ökutækja.
  4. Rafhlöðupakki: samstæða af rafhlöðum eða rafgeymum sem eru tengdir saman og/eða lokaðir inni í ytra byrði og mynda fullbúna einingu sem notandanum er ekki ætlað að skipta eða opna.


30. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. Á eftir orðunum „stuðla að“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: endurnotkun efnis og hluta og.
 2. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Úrvinnslugjald á vörur skal almennt vera þrepaskipt þannig að tekið sé tillit til endingar þeirra, möguleika á viðgerðum, endurnotkun og endurvinnslu og innihalds hættulegra efna.
 3. Á eftir orðinu „endurnýtingarstöðvar“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: og eftir atvikum söfnun úrgangsins.
 4. Á eftir orðunum „standa undir“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: endurvinnslu úrgangsins, annarri.
 5. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal úrvinnslugjald standa undir kostnaði vegna framlengdrar framleiðendaábyrgðar, sbr. 2. mgr. 24. gr. a í lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003.
 6. Á eftir orðinu „pappírs-“ í 3. mgr. kemur: gler-, málm-, viðar-.
 7. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 8.      Úrvinnslugjald sem lagt er á rafhlöður og rafgeyma skal standa undir greiðslum til að ná tölulegum markmiðum, sbr. 3. mgr. 15. gr., um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun úrgangsins.


31. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
 1. Á eftir orðinu „pappírs-“ í 2. mgr. kemur: gler-, málm-, viðar-.
 2. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Fjárhæð úrvinnslugjalds vegna rafhlaðna og rafgeyma skal taka mið af áætlun Úrvinnslusjóðs um þær greiðslur sem bjóða þarf til að ná tölulegum markmiðum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun úrgangsins, sbr. 5. mgr. 3. gr., svo og greiðslur vegna flutnings úrgangsins innan lands.


32. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „úrvinnslugjald“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: skilagjald.
 2. Í stað orðsins „úrvinnslugjald“ í 2. málsl. 2. mgr. og 3. mgr. kemur: skilagjald eiganda; og í stað orðsins „úrvinnslugjalds“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: skilagjalds eiganda.
 3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Greiða skal skilagjald, 30.000 kr., hverjum þeim sem afhendir gjaldskylt ökutæki til móttökustöðvar til endurnýtingar eða endanlegrar förgunar, enda hafi ökutækið verið afskráð og skilagjald eigenda greitt a.m.k. einu sinni af viðkomandi ökutæki.
 5. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Skilagjald á ökutæki.


33. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Úrvinnslugjald skal leggja á hvert gjaldskylt ökutæki skv. 2. mgr. 1. gr. laga um bifreiðagjald, nr. 39/1988. Gjaldið skal lagt á við innflutning ökutækisins. Um inntak úrvinnslu ökutækja skal kveðið á í reglugerð sem ráðherra setur.
 3. 2. mgr. fellur brott.
 4. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Úrvinnslugjald á ökutæki.


34. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. a laganna:
 1. Á eftir orðinu „pappírs-“ í 6. mgr. kemur: gler-, málm-, viðar-.
 2. Á eftir orðinu „pappa“ í 1. málsl. 9. mgr. kemur: gleri, málmi, viði.
 3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Úrvinnslugjald á pappa-, pappírs-, gler-, málm-, viðar- og plastumbúðir.


35. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
 1. 5. tölul. 1. mgr. orðast svo: Rafhlöður og rafgeymar: færanlegar rafhlöður og rafgeymar, sbr. viðauka X, rafhlöður og rafgeymar fyrir vélknúin ökutæki, sbr. viðauka XI, iðnaðarrafhlöður og iðnaðarrafgeymar, sbr. viðauka XI A.
 2. Í stað orðsins „gerviefnum“ í 11. tölul. 1. mgr. og 1. og 2. málsl. 3. mgr. kemur: plasti.
 3. Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Plastvörur: sbr. viðauka XX.
 4. Við 1. málsl. 3. mgr. bætist: og framlengdri framleiðendaábyrgð á veiðarfærum sem innihalda plast, sbr. 37. gr. h laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
 5. Við 4. málsl. 3. mgr. bætist: með að lágmarki 24 mánaða fyrirvara og skal uppsögn samningsins miðast við áramót.
 6. 5. málsl. 3. mgr. fellur brott.
 7. Á eftir „XI“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: XI A.
 8. Á eftir orðinu „verslana“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: sbr. 33. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003.
 9. Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 10.      Framleiðanda og innflytjanda iðnaðarrafhlaðna og iðnaðarrafgeyma sem knýja skráningarskyld ökutæki er heimilt, einum sér eða í samvinnu við aðra framleiðendur og innflytjendur, að setja upp kerfi til að safna iðnaðarrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum um allt land og ráðstafa þeim í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs. Viðkomandi framleiðendur og innflytjendur geta þá fengið álagt úrvinnslugjald endurgreitt skv. 10. gr. c, að frátöldu gjaldi vegna skráningarkerfis og eftirlits Umhverfisstofnunar, í hlutfalli við ráðstafað magn af iðnaðarrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum. Áskilið er að viðkomandi framleiðendur og innflytjendur hafi sýnt fram á að þeir hafi safnað úrgangi um allt land og ráðstafað honum í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs og reglugerðir settar samkvæmt þeim.
 11. Á eftir 7. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 12.      Framleiðendur og innflytjendur plastvara bera ábyrgð á þeim plastvörum sem framleiddar eru hér á landi eða fluttar inn og falla undir viðauka XX. Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda felst að þeir skulu fjármagna söfnun plastvara þegar þær eru orðnar að úrgangi, fjármagna upplýsingagjöf og fjármagna hreinsun á rusli á víðavangi, sbr. 37. gr. h laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
       Framleiðendur og innflytjendur veiðarfæra sem innihalda plast bera ábyrgð á þeim veiðarfærum sem innihalda plast sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn og falla undir viðauka XVII. Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda felst að þeir skulu fjármagna söfnun veiðarfæra sem innihalda plast þegar þau eru orðin að úrgangi, fjármagna upplýsingagjöf og fjármagna hreinsun á rusli á víðavangi, sbr. 37. gr. h laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.


36. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Skatturinn annast álagningu úrvinnslugjalds af gjaldskyldum vörum í innflutningi og vegna innlendrar gjaldskyldrar framleiðslu sem og álagningu skilagjalds af ökutækjum. Innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu úrvinnslugjalds og skilagjalds. Innheimt úrvinnslugjald rennur í ríkissjóð.

37. gr.

     Á eftir 10. gr. b kemur ný grein, 10. gr. c, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Endurgreiðsla úrvinnslugjalds til framleiðenda og innflytjenda iðnaðarrafhlaðna og iðnaðarrafgeyma sem knýja skráningarskyld ökutæki.
     Framleiðanda og innflytjanda iðnaðarrafhlaðna og iðnaðarrafgeyma sem knýja skráningarskyld ökutæki er heimilt, einum sér eða í samvinnu með öðrum framleiðendum og innflytjendum, að setja upp kerfi til að safna drifrafhlöðum og drifrafgeymum um allt land og ráðstafa þeim með viðeigandi hætti. Viðkomandi framleiðandi og innflytjandi getur þá fengið álagt úrvinnslugjald endurgreitt, að frátöldu gjaldi fyrir skráningarkerfi og eftirlit Umhverfisstofnunar, í hlutfalli við ráðstafað magn af drifrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum sem úrvinnslugjald hefur verið greitt af.
     Aðili sem óskar endurgreiðslu skv. 1. mgr. skal tilgreina í sérstakri skýrslu til Skattsins magn vöru og fjárhæð þess úrvinnslugjalds sem sannanlega hefur verið greitt af viðkomandi vöru og magn og þyngd drifrafhlaðna og drifrafgeyma sem hefur verið safnað og hvar þeim var safnað, sem og magn ráðstafaðra drifrafhlaðna og drifrafgeyma og staðfestingu á ráðstöfuninni. Skýrslu skal skilað eigi síðar en 15 dögum fyrir gjalddaga úrvinnslugjalds. Endurgreiðsla skal fara fram á gjalddaga, enda hafi úrvinnslugjald vegna viðkomandi tímabils verið greitt. Fjárhæð sem sótt er um endurgreiðslu á hverju sinni skal vera að lágmarki 10.000 kr. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd endurgreiðslu.

38. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
 1. Á eftir orðinu „úrvinnslugjalds“ í 1. mgr. kemur: og skilagjalds.
 2. Á undan 1. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Úrvinnslusjóður skal stuðla að hringrásarhagkerfi með vörur og þjónustu til að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans.
 3. Í stað 1. og 2. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í því skyni skal Úrvinnslusjóður með hagrænum hvötum koma upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs sem er til kominn vegna vara sem falla undir lög þessi með hliðsjón af umhverfislegum ávinningi og leggja til grundvallar forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs, sbr. 7. gr. laga um meðhöndlun úrgangs sem og 1. gr. laga þessara.
 4. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Úrvinnslusjóður skal tryggja að fullnægjandi gögn varðandi ráðstöfun úrgangs liggi fyrir áður en greiðslur eru inntar af hendi til samningsaðila Úrvinnslusjóðs.
 5. Á eftir orðinu „pappírs-“ í 3. mgr. kemur: gler-, málm-, viðar-.
 6. Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Jafnframt ber Úrvinnslusjóði að ná á landsvísu tölulegum markmiðum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun notaðra rafhlaðna og rafgeyma og tölulegum markmiðum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun úr sér genginna, skráningarskyldra ökutækja. Enn fremur ber Úrvinnslusjóði að ná á landsvísu tölulegum markmiðum fyrir söfnun til endurvinnslu á veiðarfæraúrgangi sem inniheldur plast.
 7. Á eftir orðinu „úrvinnslugjalds“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: og skilagjalds.


39. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
 1. Á undan 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Tekjur Úrvinnslusjóðs eru fjárveiting á grundvelli fjárheimilda í lögum sem nemur tekjuáætlun fjárlaga af úrvinnslugjaldi og endurmati á tekjuáætlun úrvinnslugjalds fyrra árs. Vaxtatekjur vegna úrvinnslugjalds eru eign Úrvinnslusjóðs.
 2. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Tekjur Úrvinnslusjóðs.


40. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023. Þó skulu 28. gr. og b-, c- og d-liður 38. gr. taka þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 13. júní 2021.