Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1395, 152. löggjafarþing 690. mál: hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs (lágmarkstryggingavernd, tilgreind séreign o.fl.).
Lög nr. 55 24. júní 2022.

Lög um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs (lágmarkstryggingavernd, tilgreind séreign o.fl.).


I. KAFLI
Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.

1. gr.

     Í stað hlutfallstölunnar „12%“ í 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: 15,5%.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður veitir til ævilangs mánaðarlegs ellilífeyris frá þeim tíma sem taka hans hefst, þó ekki síðar en frá 70 ára aldri, sbr. 14. gr., skal nema 1,8% af iðgjaldsstofni sem greitt er af á ári miðað við 40 ára inngreiðslutíma. Lágmarksréttindaöflun til örorkulífeyris skal uppfylla sömu viðmið og lágmarksréttindaöflun til ellilífeyris fyrir þann tíma sem iðgjald er greitt og þann tíma sem sjóðfélagi öðlast full réttindi til framreiknings, sbr. 15. gr. Enn fremur skal lágmarkstryggingavernd fela í sér að jafnað sé milli sjóðfélaga kostnaði vegna makalífeyris skv. 16. gr. og kostnaði vegna barnalífeyris skv. 17. gr.
  3. Við 2. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Þó er lífeyrissjóði heimilt að kveða á um í samþykktum sínum að sjóðfélagi geti ráðstafað allt að 3,5% iðgjaldshluta af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. 2. gr. til tilgreindrar séreignar, sem telst hluti lágmarkstryggingaverndar. Viðmið 1. og 3. málsl. 1. mgr. um meðaltal réttindaöflunar til ævilangs ellilífeyris og örorkulífeyris lækkar þá í hlutfalli við hlutfall iðgjalds til tilgreindrar séreignar af iðgjaldi skv. 1. mgr. 2. gr., en verður þó aldrei lægra en sem nemur 1,4% á ári af þeim iðgjaldsstofni sem greitt er af. Í samþykktir lífeyrissjóðs skulu sett nánari ákvæði um tilgreinda séreign, svo sem um ráðstöfun iðgjalds, upplýst samþykki sjóðfélaga um ráðstöfunina og tilhögun greiðslna.
  4. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  5.      Lífeyrissjóði sem hefur ákveðið lágmark tryggingaverndar þannig að iðgjaldi sé varið að hluta til öflunar lífeyrisréttinda í séreign og að hluta í sameign skv. 3. mgr. er heimilt að veita sjóðfélaga sömu lágmarkstryggingavernd og skv. 3. málsl. 2. mgr.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætast fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þá skal sjóðfélaga vera heimilt að ráðstafa tilgreindri séreign til annars vörsluaðila en þess lífeyrissjóðs sem móttekur iðgjald vegna lífeyrisréttinda hans í sameign. Skilyrði er að sömu reglur gildi um útborgun tilgreindrar séreignar og gilda mundu í þeim lífeyrissjóði sem sjóðfélaginn greiðir sameignarhluta iðgjaldsins til. Tilgreindri séreign skal haldið aðgreindri frá annarri séreign sem myndast af iðgjaldsstofni til lífeyrissjóðs skv. 1. mgr. 2. gr. og þeim hluta séreignar sem myndast hefur á grundvelli viðbótarlífeyrissparnaðar. Um uppsögn samnings um tilgreinda séreign gildir ákvæði 1. mgr. 9. gr. og um úttekt á tilgreindri séreign gildir ákvæði 14. gr. a.
  2. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó er lífeyrissjóði heimilt að taka gjald af sjóðfélaga sem hlýst af kostnaði við flutning á tilgreindri séreign til annars aðila.


4. gr.

     Við 2. mgr. 6. gr. laganna bætist: sundurliðað eftir ráðstöfun þess. Við útborgun lífeyris skulu lífeyrissjóðir og aðilar skv. 3. mgr. 8. gr. senda ríkisskattstjóra sundurliðaðar upplýsingar um skiptingu útborgunar í sameignarhluta, hluta séreignar sem myndast hefur af iðgjaldsstofni til lífeyrissjóðs skv. 1. mgr. 2. gr. og hluta séreignar sem myndast hefur á grundvelli viðbótarlífeyrissparnaðar. Upplýsingarnar skulu veittar á því formi sem Skatturinn ákveður.

5. gr.

     Á eftir 14. gr. laganna kemur ný grein, 14. gr. a, svohljóðandi:
     Heimilt er að hefja útgreiðslu tilgreindrar séreignar þegar sjóðfélagi hefur náð a.m.k. 62 ára aldri. Útgreiðsla skal dreifast á jafnar mánaðarlegar greiðslur frá því að lífeyrisþegi óskar eftir að fá tilgreinda séreign greidda út og þar til hann nær 67 ára aldri. Þegar sjóðfélagi nær 67 ára aldri er heimilt að greiða tilgreinda séreign út í einni greiðslu, nema sjóðfélagi óski annars.
     Missi sjóðfélagi starfsorku gilda ákvæði 3. mgr. 11. gr. um útgreiðslu tilgreindrar séreignar og við andlát gilda ákvæði 4. mgr. sömu greinar.
     Í samþykktum lífeyrissjóða og vörsluaðila er heimilt að kveða á um útborgun tilgreindrar séreignar í einu lagi, áður en 67 ára aldri er náð, ef um óverulega upphæð er að ræða.

6. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða V í lögunum orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. er eftir sem áður heimilt að miða við hlutfallstöluna 12%, sé hún viðmið gildandi kjarasamnings, í stað 15,5%, þar til samkomulag hefur náðst á milli aðila og nýr kjarasamningur öðlast gildi.

II. KAFLI
Breyting á lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, nr. 111/2016.

7. gr.

     Við 1. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá gilda lögin um skattfrjálsa úttekt tilgreindrar séreignar, sbr. 2. mgr. 4. gr. sömu laga, að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

8. gr.

     Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Rétthafa séreignarsparnaðar, sem ekki hefur verið eigandi að íbúðarhúsnæði síðastliðin fimm ár áður en sótt er um ráðstöfun séreignarsparnaðar, er einnig heimilt að nýta sér úrræði laga þessara að uppfylltum öðrum skilyrðum þeirra. Heimildin tekur til rétthafa sem ekki hefur áður fullnýtt skattfrjáls úrræði um ráðstöfun séreignarsparnaðar og skal tekjuskattsstofn, að meðtöldum heildarfjármagnstekjum, ekki hafa numið hærri fjárhæð en skv. 3. tölul. 1. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, fyrir næstliðið tekjuár. Heimildin gildir þó ekki um hjón eða einstaklinga sem uppfylla skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. sömu laga ef annar aðilinn er skráður eigandi að íbúðarhúsnæði.

9. gr.

     Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Rétthafa, sem ekki nær hámarksfjárhæðum skv. 1. mgr. með ráðstöfun á viðbótariðgjaldi til séreignarsparnaðar, er heimilt að nýta skattfrjálsa úttekt á tilgreindri séreign skv. 2. mgr. 4. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Heimild rétthafa takmarkast við ráðstöfun á allt að 3,5% iðgjaldshluta af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. 2. gr. þeirra laga sem ráðstafað hefur verið til öflunar réttinda í tilgreindri séreign. Samanlögð ráðstöfun rétthafa á viðbótariðgjaldi til séreignarsparnaðar og tilgreindri séreign takmarkast við hámarksfjárhæð skv. 1. mgr. Um frekari skilyrði og ráðstöfun á tilgreindri séreign gilda önnur ákvæði laga þessara eftir því sem við á.

III. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

10. gr.

     Á eftir 2. mgr. 12. tölul. 28. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Sama á við um úttekt tilgreindrar séreignar af iðgjaldsstofni manns skv. I. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, ef skilyrði laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð eru uppfyllt.
     Heimild manns takmarkast þó við allt að 3,5% iðgjaldshluta af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. 2. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sbr. þó 4. gr. laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, nr. 111/2016. Ef útgreiðsla á séreignarsparnaði fer yfir hámarksfjárhæðir 4. gr. laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, nr. 111/2016, telst það sem er umfram til skattskyldra tekna á greiðsluári.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. 10. tölul. orðast svo: Greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum: Greiðslur sem byggjast á iðgjaldi skv. 1. mgr. 2. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.
  2. Við bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
    1. Viðbótarlífeyrissparnaður: Sparnaður sem takmarkast við 4% framlag rétthafa af iðgjaldsstofni og 2% mótframlag launagreiðanda af iðgjaldsstofni.
    2. Viðbótartryggingavernd: Sú tryggingavernd sem er umfram þá lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður skilgreinir og greitt er fyrir með greiðslu iðgjalds samkvæmt sérstökum samningi við þá aðila sem tilgreindir eru í 1.–3. tölul. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.


12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „séreignarlífeyrissparnaði“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: viðbótarlífeyrissparnaði.
  2. Í stað orðanna „greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: og greiðslur úr viðbótarlífeyrissparnaði.


13. gr.

     Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 16. gr., sbr. 1. málsl. 4. mgr. þeirrar greinar, skal séreign, sem myndast hefur af iðgjaldsstofni til lífeyrissjóðs skv. 1. mgr. 2. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða hjá einstaklingi sem hefur hafið töku lífeyris samkvæmt lögum þessum fyrir 1. janúar 2023, ekki koma til lækkunar við ákvörðun um ellilífeyri, tekjutryggingu og ráðstöfunarfé.

V. KAFLI
Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999.

14. gr.

     Í stað orðsins „séreignarlífeyrissparnaði“ í 2. mgr. 26. gr. laganna kemur: viðbótarlífeyrissparnaði samkvæmt lögum um almannatryggingar.

15. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 26. gr., sbr. 2. mgr., skal séreign, sem myndast hefur af iðgjaldsstofni til lífeyrissjóðs skv. 1. mgr. 2. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða hjá einstaklingi sem fyrir 1. janúar 2023 tekur þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á stofnun fyrir aldraða, ekki teljast til tekna við útreikning á dvalarkostnaði skv. V. kafla.

16. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023.

Samþykkt á Alþingi 15. júní 2022.