Ferill 309. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 757  —  309. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Björnsdóttur um vændi.


     1.      Hversu mörg vændisbrot hafa verið framin frá því að lög nr. 54/2009, um breytingu á almennum hegningarlögum (bann við kaupum á vændi), tóku gildi?
    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda brota gegn 206. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um bann við kaupum á vændi sem lögregla hafði til meðferðar á árunum 2009–2022 og það sem af er ári 2023.

2009 55
2010 10
2011 21
2012 60
2013 134
2014 2
2015 10
2016 5
2017 38
2018 19
2019 100
2020 71
2021 12
2022 11
2023 14


     2.      Hvað hafa margir sætt refsingu í formi sektargreiðslu eða fangelsis frá gildistöku umræddra laga?
    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda brota gegn 206 gr. almennra hegningarlaga sem fóru í sektarmeðferð eða ákærumeðferð, sundurliðað eftir ári þegar brot átti sér stað. Jafnframt kemur fram fjöldi mála sem fóru í ákærumeðferð og þar sem dómur féll í málinu. Ekki reyndist unnt að taka saman upplýsingar um sekt eða sýknu vegna umfangs þeirrar vinnu sem það hefði í för með sér.


Sektarmeðferð

Ákærumeðferð

Þar af dómur

2009 35 11
2010 8 2
2011 12 6
2012 39 12
2013 126 64
2014
2015 6 2
2016 1
2017 7 5 1
2018 3 3 1
2019 51 8 4
2020 18 1 1
2021 1 4
2022
2023 2

3



     3.      Hverju sætir misræmi í refsiákvæðum 3. mgr. 202. gr. og 2. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga og kemur til álita af hálfu ráðherra að endurskoða refsirammann og láta þyngri refsingu gilda?
    Allt frá gildistöku almennra hegningarlaga og fram til ársins 1992 varðaði sú háttsemi að tæla stúlkubarn á aldrinum 14–16 ára til samræðis fangelsi allt að fjórum árum, sbr. 2. mgr. 200. gr. laganna. Með lögum nr. 40/1992 var ákvæðinu breytt á þann veg að það var fært í 2. mgr. 202. gr., gert ókynbundið, aðferðir við tælingu nefndar í dæmaskyni auk þess sem það tók eftirleiðis til annarra kynferðismaka til viðbótar við samræði. Eftir breytingarnar hljóðaði 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga svo: „Hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælir ungmenni á aldrinum 14–16 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 4 árum.“
    Í almennum athugasemdum um verknað og fullframningu í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 40/1992 sagði meðal annars að þágildandi ákvæði 194.–201. gr. almennra hegningarlaga væru byggð á því að samræði ætti sér stað. Ekki væri ætlast til þess með frumvarpinu að fullframið samræði væri virt með sama hætti og tíðkast hefði í réttarframkvæmd og lagt til að „önnur kynferðismök“ yrðu lögð að jöfnu við samræði. Skýra bæri hugtakið „önnur kynferðismök“ fremur þröngt þannig að átt væri við kynferðislega misnotkun á líkama annarrar manneskju, er kæmi í stað hefðbundins samræðis eða hefði gildi sem slíkt (surrogat). Þetta væru athafnir sem veittu eða væru almennt til þess fallnar að veita hinum brotlega kynferðislega fullnægingu.
    Með lögum nr. 40/2003 var ákvæðinu breytt að nýju þannig að sú vernd sem því er ætlað að veita næði til allra ungmenna yngri en 18 ára, en ekki einungis til þeirra sem væru á aldursbilinu 14–16 ára. Þá var því fundinn nýr staður sem 3. mgr. 202. gr. Hefur ákvæðið staðið óbreytt síðan, þó að því frátöldu að með lögum nr. 61/2007 var orðinu „ungmenni“ breytt í „barn“.
    Árið 2009, með lögum nr. 54/2009, samþykkti Alþingi breytingar á almennum hegningarlögum sem lögfestu svonefnda sænska leið. Eftir þær breytingar varðar það allt að eins árs fangelsi að greiða eða heita greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi, sbr. 1. mgr. 206. gr. laganna, og allt að tveimur árum ef um er að ræða barn yngra en 18 ára, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Samhliða var að tillögu allsherjarnefndar felld brott þágildandi 4. mgr. 202. gr. laganna þar sem kveðið var á um að það varðaði fangelsi allt að tveimur árum að greiða barni eða ungmenni yngra en 18 ára endurgjald gegn því að hafa við það samræði eða önnur kynferðismök. Þótti ákvæðið óþarft eftir fyrirhugaða breytingu. Í áliti allsherjarnefndar kom jafnframt fram að ákvæði frumvarpsins gengi lengra en þágildandi 202. gr. almennra hegningarlaga, þar sem það næði einnig til þess þegar þriðja aðila væri greitt fyrir slíkt.
    Þegar nánar er litið til 3. mgr. 202. gr. og 2. mgr. 206. gr. má sjá að ákvæðin taka ekki að öllu leyti til sömu aðstæðna. Þannig telst brot gegn 3. mgr. 202. gr. ekki fullframið nema samræði eða önnur kynferðimök eigi sér stað vegna tælingar, á meðan brot gegn 2. mgr. 206. gr. telst fullframið við greiðslu eða heit um greiðslu eða annars konar endurgjald. Um það síðastnefnda má benda á dóm Landsréttar frá 18. janúar 2019 í máli nr. 204/2018. Þar var karlmaður m.a. sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga, sem inniheldur sömu verknaðarlýsingu og 2. mgr. 206, með því að hafa sent ókunnugri konu fjölda kynferðislegra texta- og myndskilaboða þar sem hann hét henni ítrekað greiðslu fyrir kynlíf, en ekki var um að ræða samræði eða önnur kynferðismök í því máli. Þá er ljóst af lögskýringargögnum að öfugt við 3. mgr. 202. gr. á 2. mgr. 206. gr. við þegar þriðja aðila er greitt eða heitið greiðslu fyrir vændi barns undir 18 ára aldri, sbr. einnig 6. mgr. 206. gr.
    Samandregið telst brot gegn 2. mgr. 206. gr. framið við greiðslu eða loforð um greiðslu eða annars konar endurgjald, óháð því hvort samræði eða önnur kynferðismök eiga sér stað, auk þess sem ákvæðið tekur jafnframt til þriðja aðila. Ef samræði eða önnur kynferðismök eiga sér stað vegna tælingar fellur háttsemin undir 3. mgr. 206. gr. sem hefur að geyma hærra refsihámark en 2. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga.