Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 849, 154. löggjafarþing 468. mál: skattar og gjöld (gistináttaskattur, áfengisgjald o.fl.).
Lög nr. 102 27. desember 2023.

Lög um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl. (gistináttaskattur, áfengisgjald o.fl.).


I. KAFLI
Breyting á lögum um gistináttaskatt, nr. 87/2011.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. 2. og 3. málsl. 1. mgr. falla brott.
  2. Á eftir 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Með gistináttaeiningu er átt við leigu á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring, þ.m.t. yfir nótt. Með gistiaðstöðu er átt við húsnæði eða svæði, þar á meðal um borð í skemmtiferðaskipi, sem leigt er út í þeim tilgangi að þar sé dvalið yfir nótt, svefnaðstaða sé fyrir hendi eða hægt sé að koma henni fyrir og leigan sé almennt til skemmri tíma en eins mánaðar.
         Greiða skal gistináttaskatt fyrir gistiaðstöðu á:
    1. gististað sem hefur rekstrarleyfi í flokki II–IV, sbr. 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007,
    2. tjaldstæði og stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi,
    3. skemmtiferðaskipi á meðan það dvelur í höfn hér á landi eða annars staðar á tollsvæði ríkisins, sbr. 2 gr. tollalaga, nr. 88/2005.

  4. 2. mgr. orðast svo:
  5.      Gistináttaskattur af hverri gistináttaeiningu skal vera sem hér segir:
    1. Fyrir gistiaðstöðu skv. a-lið 3. mgr. 600 kr.
    2. Fyrir gistiaðstöðu skv. b-lið 3. mgr. 300 kr.
    3. Fyrir gistiaðstöðu skv. c-lið 3. mgr. 1.000 kr.

  6. Í stað orðanna „Tilgreina skal“ í 3. mgr. kemur: Skattskyldir aðilar skv. 4. gr. sem eru í starfsemi sem fellur undir lög um virðisaukaskatt skulu tilgreina.


2. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Ekki skal innheimta gistináttaskatt í eftirfarandi tilvikum:
  1. við sölu gistingar sem ekki ber virðisaukaskatt samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, sbr. þó 2. mgr. 4. gr.,
  2. við sölu gistingar til dvalargesta um borð í skemmtiferðaskipi ef skipið leggst að höfn og fyrir liggur með sannanlegum hætti að skipið hafi verið í nauðum statt vegna áreksturs, sjóskemmda, veikinda eða ófriðar,
  3. fyrir gistiaðstöðu sem áhöfn skipsins og annað starfsfólk þess hefur til umráða um borð í skipinu.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Öllum þeim sem selja gistináttaeiningar skv. a- og b-lið 3. mgr. 2. gr. og rekstraraðilum skemmtiferðaskipa skv. c-lið 3. mgr. 2. gr., sem notuð eru í starfsemi sem fellur undir lög um virðisaukaskatt, ber skylda til að innheimta gistináttaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð.
  3. 2. mgr. orðast svo:
  4.      Rekstraraðilum skemmtiferðaskipa skv. c-lið 3. mgr. 2. gr., sem ekki eru notuð í starfsemi sem fellur undir lög um virðisaukaskatt, ber að standa skil á gistináttaskatti í ríkissjóð.
  5. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Rekstraraðilum skemmtiferðaskipa, sem ekki eru notuð í starfsemi sem fellur undir lög um virðisaukaskatt, er heimilt að skrá sig á gistináttaskattskrá skv. 4. mgr. í eigin nafni.


4. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Ríkisskattstjóri annast álagningu gistináttaskatts skv. 2. gr.
     Skattskyldir aðilar skulu greiða gistináttaskatt fyrir hvert uppgjörstímabil miðað við fjölda seldra gistináttaeininga.
     Uppgjörstímabil gistináttaskatts hjá skattskyldum aðilum skv. a- og b-lið 3. mgr. 2. gr. og hjá rekstraraðilum skemmtiferðaskipa skv. c-lið 3. mgr. 2. gr., sem notuð eru í starfsemi sem fellur undir lög um virðisaukaskatt, skulu vera þau sömu og uppgjörstímabil virðisaukaskatts skv. 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
     Uppgjörstímabil gistináttaskatts hjá rekstraraðilum skemmtiferðaskipa skv. c-lið 3. mgr. 2. gr., sem ekki eru notuð í starfsemi sem fellur undir lög um virðisaukaskatt, telst vera sá tími á meðan skipið er innan tollsvæðis ríkisins hverju sinni. Gjalddagi er sami dagur og þegar skip yfirgefur tollsvæði ríkisins.
     Eigi síðar en á gjalddaga skv. 3. og 4. mgr. skulu skattskyldir aðilar ótilkvaddir skila Skattinum skýrslu um fjölda seldra gistinátta á uppgjörstímabilinu og standa skil á greiðslu skattsins til innheimtumanns ríkissjóðs. Beri gjalddaga gistináttaskatts skv. 3. og 4. mgr. upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir.
     Skýrslur vegna gistináttaskatts skulu vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

5. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. ber ekki að greiða gistináttaskatt vegna sölu gistináttaeiningar sem afhent er á árinu 2024 eða síðar enda sé sölureikningur fyrir heildarverði gistingar gefinn út fyrir 1. janúar 2024.

II. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
  1. Á eftir „íslenskum aðilum“ í 2. tölul. kemur: eða föstum starfsstöðvum hér á landi.
  2. Við 2. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki skiptir máli hvar starfsemin fer fram.
  3. Við bætist nýr töluliður, 11. tölul., svohljóðandi: Allir aðilar sem njóta gjafa, þó ekki tækifærisgjafa, frá íslenskum aðilum eða föstum starfsstöðvum hér á landi.


7. gr.

     Í stað orðsins „eignum“ í 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. og orðsins „skuldum“ í 4. tölul. 1. mgr. 49. gr. laganna kemur: eignum og skuldum.

8. gr.

     10. gr. a laganna fellur brott.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 15. gr. laganna:
  1. Orðin „eða íbúðarhúsnæðis til eigin nota“ í 1. málsl. falla brott.
  2. Orðin „eða noti hið keypta húsnæði fyrir eigin íbúð í a.m.k. tvö ár eftir kaupdag“ í 3. málsl. falla brott.
  3. Á eftir 4. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Skattfrestun söluhagnaðar samkvæmt framangreindu er heimil óháð því félagaformi sem búreksturinn var í.
  4. Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði þetta tekur jafnframt til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota enda sé það í tengslum við lok búrekstrar og húsnæðið sé notað fyrir eigin íbúð í a.m.k. tvö ár eftir kaupdag.


10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
  1. 3. mgr. 2. tölul. B-liðar 1. mgr. fellur brott.
  2. Á eftir „A-liðar“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: eða 1.–8. tölul. C-liðar.


11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
  1. 3. mgr. 2. tölul. orðast svo:
  2.      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal tekjuskattur eftirlaunaþega og lífeyrisþega sem um ræðir í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. reiknast af tekjuskattsstofni skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 66. gr. án persónuafsláttar.
  3. Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
    1. Tekjuskatt aðila sem um ræðir í 11. tölul. 1. mgr. 3. gr. skal reikna sem hér segir:
      1. Af tekjuskattsstofni með skatthlutfalli skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 66. gr., án persónuafsláttar ef um mann er að ræða.
      2. 20% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. tölul. 61. gr., ef um lögaðila skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. er að ræða.
      3. 37,6% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. tölul. 61. gr., ef um aðra lögaðila er að ræða.


12. gr.

     Við 4. mgr. 92. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Hvað fasteignir og lausafé varðar liggur upplýsingaskylda á rekstraraðilum stafrænna vettvanga, m.a. um leigusala, hið leigða og greiðslufyrirkomulag. Með stafrænum vettvangi er átt við hugbúnað, þ.m.t. smáforrit, sem gerir leigusölum og seljendum vara og þjónustu kleift að tengjast notendum með það fyrir augum að veita þeim þjónustu, með beinum eða óbeinum hætti, og býður eftir atvikum upp á greiðslufyrirkomulag. Ráðherra skal setja reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd upplýsingaöflunar á grundvelli þessa ákvæðis þar sem nánar er fjallað um m.a. skráningarskyldu, hvaða upplýsingum skuli skila og fyrirkomulag upplýsingaskipta til skattyfirvalda og milli ríkja.

13. gr.

     Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (I.)
     Þrátt fyrir ákvæði 2. tölul. A-liðar 7. gr. teljast ekki til skattskyldra tekna styrkir sem einstaklingar utan rekstrar hljóta til kaupa á hreinorkubifreiðum og veittir eru úr Orkusjóði á tímabilinu 1. janúar 2024 til og með 31. desember 2024, sbr. lög nr. 76/2020.
     
     b. (II.)
     Vegna náttúruhamfara í Grindavík telst sérstök eftirgjöf af vöxtum og verðbótum af skuldum manna utan atvinnurekstrar, vegna nóvember og desember 2023 og janúar 2024, af lánum sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þ.m.t. kaup á búseturétti samkvæmt lögum nr. 66/2003 og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð samkvæmt eldri lögum, ekki til skattskyldra tekna við álagningu opinberra gjalda á árunum 2024 og 2025. Skilyrði er að um sé að ræða vexti og verðbætur vegna áhvílandi lána á íbúðarhúsnæði. Ákvæðið gildir um eftirgjöf sem reiknast af allt að 50 millj. kr. lánsfjárhæð hjá einstaklingi, hjónum eða samsköttuðum einstaklingum og hlutfallslega sé lánsfjárhæð hærri. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd eftirgjafarinnar á grundvelli þessa ákvæðis.
     Ákvæðið á ekki við gildi 3. tölul. 28. gr. um eftirgjöf skulda.
     Við eftirgjöf vaxta og verðbóta samkvæmt ákvæði þessu skal kröfuhafa skylt að varðveita öll gögn sem forsendur eftirgjafarinnar eru byggðar á þannig að upplýsingaskyldu skv. 92. gr. verði sinnt. Upplýsingar skulu veittar í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
     
     c. (III.)
     Þrátt fyrir ákvæði 1.–4. mgr. 112. gr. og 1. mgr. 114. gr. er ráðherra heimilt með reglugerð að ákvarða að á árinu 2024 megi lækka eða fella niður fyrirframgreiðslu gjaldenda upp í tekjuskatt sem lagður er á á því ári vegna tekna ársins 2023 eða ákvarða aðra gjalddaga fyrirframgreiðslna en mælt er fyrir um í þeim ákvæðum vegna náttúruhamfara í Grindavík.

III. KAFLI
Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.

14. gr.

     Í stað orðanna „og 10. tölul. 1. mgr.“ og „og 10. tölul. 70. gr.“ í 2. málsl. A-liðar 2. gr. laganna kemur: 10. og 11. tölul. 1. mgr.; og: 10. og 11. tölul. 70. gr.

15. gr.

     Í stað orðanna „og 10. tölul.“ í 6. tölul. 5. gr. laganna kemur: 10. og 11. tölul.

16. gr.

     Í stað orðanna „og 10. tölul.“ í 2. málsl. 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: 10. og 11. tölul.

17. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. er launagreiðendum, sem eiga við verulega rekstrarörðugleika að stríða vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls sem leiðir af almennum samdrætti vegna náttúruhamfara í Grindavík, heimilt að sækja um frestun á skilum á allt að þremur greiðslum af afdreginni staðgreiðslu af launum skv. 1. og 2. tölul. 5. gr., sem eru á gjalddaga 1. desember 2023 til og með 1. febrúar 2024. Gjalddagi og eindagi þeirra greiðslna sem frestað er að uppfylltum skilyrðum þessa ákvæðis er 15. apríl 2024.
     Ef arði er úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2023 eða úttekt eigenda innan ársins 2023 fer umfram reiknað endurgjald þeirra verður ekki fallist á að um verulega rekstrarörðugleika sé að ræða í skilningi þessa ákvæðis.
     Skilyrði fyrir frestun greiðslu skv. 1. mgr. eru þau að launagreiðandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 31. ágúst 2023 og að álagðir skattar og gjöld byggist ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum til Skattsins, síðastliðin þrjú ár eða síðan hann hóf starfsemi.
     Beiðni um frestun á greiðslum skv. 1. mgr. felur eðli máls samkvæmt í sér skil á viðkomandi skilagreinum skv. 2. mgr. 20. gr. Umsókn launagreiðanda um frestun skal hafa borist í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils skv. 1. mgr. 20. gr. á því formi sem Skatturinn ákveður. Við afgreiðslu og endurskoðun umsóknar er auk þess heimilt að fara sérstaklega fram á að umsækjandi sýni með rökstuðningi og gögnum fram á að við verulega rekstrarörðugleika sé að glíma, svo sem með hliðsjón af lækkun á virðisaukaskattsskyldri veltu, og að skilyrði ákvæðisins fyrir frestun séu að öðru leyti uppfyllt. Heimilt er að hafna umsókn sé talið að skilyrðum ákvæðisins sé ekki fullnægt. Almenn afgreiðsla á greiðslufrestun sætir síðari endurskoðun og felur því ekki í sér staðfestingu á því að skilyrði hennar hafi á afgreiðsludegi verið uppfyllt.
     Leiði síðari skoðun í ljós að skilyrði greiðslufrestunar hafi ekki verið til staðar skal launagreiðandi sæta álagi til viðbótar upphæð skilafjárins skv. 28. gr. í samræmi við upphaflega gjalddaga og eindaga hvers greiðslutímabils sem greiðslu var frestað fyrir. Launagreiðandi og forsvarsmenn hans skulu ekki sæta öðrum viðurlögum.
     Ákvæði þetta á ekki við um staðgreiðsluskil opinberra aðila, þ.e. aðila sem fara með ríkis- eða sveitarstjórnarvald. Þá á ákvæðið ekki við um staðgreiðslu skatts samkvæmt lögum um fjársýsluskatt, nr. 165/2011.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

18. gr.

     Við 3. mgr. 42. gr. A laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Seljandi vinnu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað.

19. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögunum:
  1. Í stað „2023“ í 1. málsl. 9. mgr. kemur: 2024.
  2. Í stað „2023“ í síðara skiptið í 1. tölul. 10. mgr. kemur: 2024.
  3. Í stað „2023“ í síðara skiptið í 1. tölul. 11. mgr. kemur: 2024.


20. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (I.)
     Ríkisskattstjóra er heimilt, samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra, að fella niður álag skv. 27. gr. á vangreiddan virðisaukaskatt, tímabundið eða ótímabundið, vegna uppgjörstímabila frá og með 1. september 2023 til og með 31. desember 2024, enda kunni utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik að hamla almennt greiðslu virðisaukaskatts á réttum tíma. Heimildin er bundin því skilyrði að virðisaukaskattsskyldur aðili hafi verið með skráð lögheimili og/eða skráða starfsstöð í Grindavíkurbæ hinn 10. nóvember 2023 og í lok þess uppgjörstímabils sem fellur undir tímabil niðurfellingar álags.
     
     b. (II.)
     Á tímabilinu 1. janúar 2024 til og með 31. desember 2025 er skattaðila, sem er handhafi starfsleyfis til rekstrar ökutækjaleigu skv. 3. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015, heimilt við endursölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar að undanþiggja frá skattskyldri veltu:
  1. Að hámarki 5.500.000 kr. vegna rafmagns- og vetnisbifreiðar.
  2. Að hámarki 2.000.000 kr. vegna tengiltvinnbifreiðar.

     Heimild skv. 1. mgr. er bundin eftirfarandi skilyrðum:
  1. Að virðisaukaskattur hafi verið felldur niður við innflutning eða fyrstu sölu bifreiðarinnar á grundvelli 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV.
  2. Að skattaðili geti lagt fram reikninga eða önnur gögn til Skattsins sem staðfesta framangreint.


V. KAFLI
Breyting á lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995.

21. gr.

     Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, 3. gr. a, svohljóðandi:
     Heimilt er að lækka áfengisgjald skv. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. um 50% að uppfylltum öllum eftirtöldum skilyrðum:
  1. Áfengur drykkur er framleiddur af litlum framleiðanda. Framleiðandi telst lítill ef heildarframleiðsla hans á næstliðnu almanaksári á vörum, sem heyra undir þá vöruliði sem tilgreindir eru í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr., var minni en sem nemur 2.500.000 sentilítrum af vínanda.
  2. Áfengur drykkur er framleiddur af sjálfstæðum framleiðanda. Framleiðandi telst sjálfstæður ef hann uppfyllir eftirtalin skilyrði:
    1. Framleiðandi framleiðir vörur sem heyra undir þá vöruliði sem tilgreindir eru í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. á starfsstöð sinni, með eigin framleiðslutækjum, og á grundvelli eigin framleiðsluleyfis skv. 6. gr. áfengislaga, nr. 75/1998.
    2. Framleiðandi er ekki undir eignar- eða stjórnunaryfirráðum annars framleiðanda áfengra drykkja. Slík yfirráð teljast vera til staðar ef beint eða óbeint eignarhald annars framleiðanda er yfir 50%, hann fer, beint eða óbeint, með meira en 50% atkvæðisréttar eða hefur að öðru leyti yfirráð yfir framleiðanda.
  3. Framvísað er gögnum á því formi sem Skatturinn ákveður sem staðfesta á fullnægjandi hátt að framleiðandi uppfylli öll framangreind skilyrði.

     Heimild til lækkunar á áfengisgjaldi skv. 1. mgr. á hverju almanaksári fyrir hvern framleiðanda afmarkast við sem nemur samtals 550.000 sentilítrum af vínanda sem áfengisgjald reiknast af skv. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr.

VI. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005.

22. gr.

     2. málsl. b-liðar 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993.

23. gr.

     Á eftir orðinu „golfbifreiðar“ í 2. málsl. p-liðar 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: körtur og beltabifreiðar, þ.m.t. vélsleða.

24. gr.

     Í stað orðanna „á árunum 2020–2023“ í 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVIII í lögunum kemur: frá 1. janúar 2020 til 1. október 2024.

25. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Heimilt er að endurgreiða viðurkenndum heildarsamtökum björgunarsveita og björgunarsveitum sem starfa innan þeirra almennt og sérstakt vörugjald vegna kaupa á bensíni á farartæki í þeirra eigu. Skilyrði endurgreiðslu er að fyrir liggi staðfesting heildarsamtaka björgunarsveita á að farartækið sé einvörðungu nýtt í starfsemi björgunarsveita.
     Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um nánari framkvæmd ákvæðisins, svo sem um form og afgreiðslu endurgreiðslubeiðnar.
     Heimild til endurgreiðslu skv. 1. mgr. tekur til kaupa á bensíni á tímabilinu 1. janúar 2024 til og með 31. desember 2024.
     Dómsmálaráðherra skal skipa starfshóp sem vinnur heildstæðar tillögur að fjármögnun björgunarsveita til framtíðar. Hópurinn skal eiga náið samráð við björgunarsveitir landsins við tillögugerðina. Starfshópurinn horfi meðal annars til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og umhverfis- og loftslagsmarkmiða stjórnvalda. Hópurinn skal skila tillögum sínum fyrir 1. september 2024.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019.

26. gr.

     Við 13. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tilkynninguna má senda í stafrænt pósthólf á vegum stjórnvalda, sbr. lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, og telst það ávallt nægileg birting.

IX. KAFLI
Breyting á höfundalögum, nr. 73/1972.

27. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á töflu í 3. mgr. 11. gr. laganna:
  1. Tollskrárnúmerið 8517.1200 ásamt skýringu og hlutfalli af tollverði fellur brott.
  2. Við töfluna bætast tvö ný tollnúmer ásamt skýringu og hlutfalli af tollverði, svohljóðandi:
  3. 8517.1300 Snjallsímar 1
    8517.1400 Aðrir símar fyrir farsímanet eða önnur þráðlaus net 1



28. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Höfundar verka skv. 3. mgr. 11. gr. eiga rétt á bótum samkvæmt sömu málsgrein sem nema 1% af tollverði vara í tollskrárnúmerum 8517.1300 og 8517.1400, sem fluttar voru inn á árinu 2022. Bæturnar skulu greiðast til samtaka höfundaréttarfélaga í samræmi við 4. mgr. 11. gr. eigi síðar en 31. desember 2023.

X. KAFLI
Breyting á lögum um útflutning hrossa, nr. 27/2011.

29. gr.

     6. gr. laganna fellur brott.

XI. KAFLI
Breyting á búvörulögum, nr. 99/1993.

30. gr.

     Í stað „2026“ í 1. málsl. 6. mgr. 38. gr. laganna kemur: 2027.

31. gr.

     Í stað orðanna „2022 og 2023“ í 1. málsl. EE-liðar ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: 2022, 2023 og 2024.

XII. KAFLI
Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.

32. gr.

     14. gr. laganna orðast svo:
     Fyrir ýmis vottorð og leyfi greiðast eftirfarandi gjöld:
  1. Fyrir borgaralega hjónavígslu 11.000 kr.
  2. Fyrir lögskilnaðarleyfi 6.500 kr.
  3. Fyrir leyfi til skilnaðar að borði og sæng 5.400 kr.
  4. Fyrir ættleiðingarleyfi 5.400 kr.
  5. Fyrir vottorð sem einstakir menn óska eftir í þágu verslunar eða atvinnu 2.700 kr.
  6. Fyrir löggildingu leiðarbókar eða véladagbókar 2.700 kr.
  7. Fyrir sakavottorð gefin út samkvæmt beiðni einstakra manna 2.700 kr.
  8. Fyrir veðbókarvottorð 2.200 kr.
  9. Fyrir önnur embættisvottorð 2.700 kr.
  10. Fyrir umsókn og tilkynningu um íslenskan ríkisborgararétt:
    1. Fyrir umsókn um ríkisborgararétt 27.000 kr.
    2. Fyrir tilkynningu um ríkisborgararétt 13.500 kr.
  11. Fyrir ökuskírteini (fullnaðarskírteini) fyrir flokkana A, B, BE, C, CE, D og DE og til farþegaflutninga í atvinnuskyni 8.600 kr.
  12. Fyrir bráðabirgðaökuskírteini og ökuskírteini fyrir flokkana M og T 4.300 kr.
  13. Fyrir ökuskírteini 65 ára og eldri 1.800 kr.
  14. Fyrir friðlýsingu æðarvarpa 12.000 kr.
  15. Fyrir beiðni til mannanafnanefndar um að setja nýtt nafn á mannanafnaskrá 4.300 kr.
  16. Fyrir útgáfu könnunarvottorðs 4.800 kr.

     Fyrir útgáfu vegabréfa til útlanda, diplómatískra vegabréfa og þjónustuvegabréfa greiðast eftirfarandi gjöld:
  1. Fyrir útgáfu vegabréfa til útlanda fyrir 18–66 ára:
    1. Almennt gjald 14.000 kr.
    2. Fyrir skyndiútgáfu 28.000 kr.
    3. Fyrir neyðarvegabréf 7.500 kr.
    4. Útgáfa vegabréfa til öryrkja fer skv. 2. tölul.
  2. Fyrir útgáfu vegabréfa til útlanda fyrir aðra:
    1. Almennt gjald 6.000 kr.
    2. Fyrir skyndiútgáfu 12.000 kr.
    3. Fyrir neyðarvegabréf 3.000 kr.
  3. Fyrir útgáfu diplómatískra vegabréfa og þjónustuvegabréfa:
    1. Fyrir 18–66 ára 11.000 kr.
    2. Skyndiútgáfa fyrir 18–66 ára 22.000 kr.
    3. Fyrir aðra 4.300 kr.
    4. Skyndiútgáfa fyrir aðra 8.600 kr.

     Fyrir umsóknir á grundvelli laga um útlendinga greiðast eftirfarandi gjöld:
  1. Fyrir umsókn um vegabréf til útlendinga fer skv. 1. og 2. tölul. 2. mgr.
  2. Fyrir umsókn um ferðaskilríki flóttamanna fer skv. 2. tölul. 2. mgr.
  3. Fyrir umsókn um vegabréfsáritun skal Útlendingastofnun gefa út gjaldskrá á mánaðarfresti sem tekur mið af miðgengi evru mánaðarins á undan fyrir útgáfu nýrrar gjaldskrár og námunda niður að næsta hundraði. Fyrir umsóknir sem mótteknar eru erlendis er gjald innheimt í evrum.
    1. Vegabréfsáritun, 6–12 ára, 40 evrur.
    2. Vegabréfsáritun, 13 ára og eldri, 80 evrur.
    3. Vegabréfsáritun, framlenging, 30 evrur.
    4. Vegabréfsáritanir samkvæmt fyrirgreiðslusamningi 35 evrur.
  4. Fyrir umsókn um langtímavegabréfsáritun 12.200 kr.
  5. Fyrir útgáfu landsáritunar í tengslum við útgáfu dvalarleyfis 8.400 kr.
  6. Fyrir umsókn um dvalarleyfi 16.000 kr. Eigi skal þó greiða fyrir dvalarleyfi skv. 66. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, sé samningur samkvæmt þeirri grein í gildi og þar sé kveðið á um undanþágu frá greiðslu.
  7. Fyrir umsókn um endurnýjun dvalarleyfis 16.000 kr.
  8. Fyrir umsókn um bráðabirgðadvalarleyfi 16.000 kr.
  9. Fyrir umsókn um ótímabundið dvalarleyfi 22.000 kr.
  10. Fyrir flýtiafgreiðslu umsóknar um dvalar- og atvinnuleyfi 48.000 kr.
  11. Fyrir endurútgáfu dvalarleyfisskírteinis 8.000 kr.
  12. Fyrir útgáfu og endurútgáfu dvalarskírteinis fyrir aðstandendur EES-borgara sem ekki eru EES- eða EFTA-borgarar 8.000 kr.


33. gr.

     2. mgr. 20. gr. laganna fellur brott.

XIII. KAFLI
Breyting á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971.

34. gr.

     Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, svohljóðandi:
     Ráðuneytinu er heimilt, án þess að starf sé auglýst laust til umsóknar, að ákveða að starfsmaður Íslandsstofu flytjist um afmarkaðan tíma til starfa sem viðskiptafulltrúi í sendiráði enda liggi fyrir samþykki framkvæmdastjóra Íslandsstofu og starfsmannsins sjálfs.

XIV. KAFLI
Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.

35. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. er launagreiðendum, sem eiga við tímabundna rekstrarörðugleika að stríða vegna tekjufalls, heimilt að óska eftir frestun á allt að þremur greiðslum á staðgreiðslu tryggingagjalds, sem eru á gjalddaga 1. desember 2023 til og með 1. febrúar 2024. Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestun tekur réttilega til er 15. apríl 2024.
     Um skilyrði fyrir heimildum skv. 1. mgr., undanþágur og framkvæmd gildir að öðru leyti ákvæði til bráðabirgða XI í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.


36. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024, nema 8. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2034 og a-liður 11. gr. og 22. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2025.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 27. og 28. gr. þegar gildi.
     Ákvæði 1.–5. gr. gilda um þær gistináttaeiningar sem afhentar eru frá og með gildistöku þeirra greina.

Samþykkt á Alþingi 16. desember 2023.