Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1044, 154. löggjafarþing 616. mál: staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl. (náttúruhamfarir í Grindavíkurbæ).
Lög nr. 12 16. febrúar 2024.

Lög um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tryggingagjald og lögum um tekjuskatt (náttúruhamfarir í Grindavíkurbæ).


I. KAFLI
Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XI í lögunum:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama á við um skil á greiðslum á afdreginni staðgreiðslu af launum skv. 1. og 2. tölul. 5. gr., sem eru á gjalddaga 1. mars 2024 til og með 1. júlí 2024, og skal nýr gjalddagi og eindagi þeirra vera 15. janúar 2025.
  2. Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Með sama hætti verður ekki fallist á að um verulega rekstrarörðugleika sé að ræða sem réttlæti frestun greiðslu skv. 3. málsl. 1. mgr. hafi arði verið úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2024 eða úttekt eigenda innan ársins 2024 farið umfram reiknað endurgjald þeirra. Fari arðgreiðsla, kaup eigin hluta eða úttekt skv. 2. málsl. fram eftir frestun greiðslu skv. 3. málsl. 1. mgr. skal um þá greiðslu fara eftir ákvæði 5. mgr.
  3. Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Launagreiðanda sem frestað hefur greiðslum til eindaga 15. janúar 2025 skv. 3. málsl. 1. mgr. er heimilt að sækja um að fresta þeim greiðslum þannig að þær skiptist á fjóra gjalddaga og skulu gjalddagar og eindagar þeirra vera 15. september, 15. október, 17. nóvember og 15. desember 2025. Umsókn um aukinn frest skal beina til Skattsins á því formi sem hann ákveður eigi síðar en 10. janúar 2025. Skatturinn skal afgreiða umsókn fyrir 15. janúar 2025. Ef arði var úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2025 eða úttekt eigenda innan ársins 2025 fór umfram reiknað endurgjald þeirra verður ekki fallist á að skilyrði fyrir frestun greiðslna samkvæmt þessu ákvæði hafi verið uppfyllt. Önnur skilyrði fyrir frestun samkvæmt þessu ákvæði eru þau að launagreiðandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 1. ágúst 2024 og að álagðir skattar og gjöld byggist ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum til Skattsins, síðastliðin þrjú ár eða síðan hann hóf starfsemi. Bú aðila skal ekki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta. Jafnframt skal launagreiðandi ekki hafa verið tekinn til slita, nema ef slitin eru liður í samruna eða skiptingu rekstraraðilans og fyrirhugað er að halda rekstri sem umsókn varðar áfram í lögaðila sem við tekur.


II. KAFLI
Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XV í lögunum:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama á við um skil á greiðslum á staðgreiðslu tryggingagjalds sem eru á gjalddaga 1. mars 2024 til og með 1. júlí 2024, og skal nýr gjalddagi og eindagi þeirra vera 15. janúar 2025.
  2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Launagreiðanda sem frestað hefur greiðslum til eindaga 15. janúar 2025 skv. 3. málsl. 1. mgr. er heimilt að sækja um að fresta þeim greiðslum þannig að þær greiðslur skiptist á fjóra gjalddaga og skulu gjalddagar og eindagar þeirra vera 15. september, 15. október, 17. nóvember og 15. desember 2025.
  4. Í stað tilvísunarinnar „1. mgr.“ í 2. mgr. kemur: 1. og 2. mgr.


III. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

3. gr.

     Á eftir orðinu „janúar“ í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða LXXVIII í lögunum kemur: febrúar, mars og apríl.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 13. febrúar 2024.