Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1303, 111. löggjafarþing 349. mál: tekjuskattur og eignarskattur (vaxtabætur).
Lög nr. 79 31. maí 1989.

Lög um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     C-liður 69. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
C
Vaxtabætur.
     Maður, sem skattskyldur er skv. 1. gr. og ber vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, á rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum.
     Vaxtabætur skal ákvarða þannig að frá vaxtagjöldum, eins og þau eru skilgreind í 3. mgr., skal draga fjárhæð er svarar til 5% af tekjuskattsstofni eins og hann er skilgreindur í 62. gr. Sé um hjón eða sambýlisfólk, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr., að ræða skal framangreint hlutfall reiknast af samanlögðum tekjuskattsstofni þeirra beggja. Þannig ákvarðaðar vaxtabætur skulu skerðast í hlutfalli við eignarskattsstofn framteljanda þannig að fyrir hverjar 100.000 kr. sem eignarskattsstofn einstaklings fer fram úr 1.700.000 kr. skulu vaxtabætur skertar um 6% uns þær falla niður. Fyrir hverjar 100.000 kr. sem samanlagður eignarskattsstofn hjóna eða sambýlisfólks fer fram úr 3.400.000 kr. skulu vaxtabætur skertar um 3% uns þær falla niður. Jákvæður mismunur telst vera vaxtabætur. Vaxtabætur geta þó aldrei orðið hærri en 95.000 kr. fyrir einstakling, 125.000 kr. fyrir einstætt foreldri og 155.000 kr. fyrir hjón eða sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. Vaxtabætur greiðast út 1. september ár hvert að lokinni álagningu opinberra gjalda og miðast við vaxtagjöld viðkomandi tekjuárs og eignir í lok þess sama árs.
     Vaxtabætur skv. 2. mgr. miðast við fjárhæð vaxtagjalda hjá hverjum framteljanda. Til vaxtagjalda í þessu sambandi teljast:
  1. Vaxtagjöld, afföll og gengistöp skv. 1., 2. og 4. tölul. 51. gr. að því marki sem þau eru umfram vaxtatekjur skv. 3.–5. tölul. 1. mgr. 8. gr., enda séu gjöld þessi vegna fasteignaveðlána til a.m.k. tveggja ára eða lána við lánastofnanir með sjálfskuldarábyrgð til a.m.k. tveggja ára, enda séu lánin sannanlega notuð til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Til vaxtagjalda sem verðbætur og gengistöp teljast í þessu sambandi aðeins gjaldfallnar verðbætur og gengistöp á afborganir og vexti. Með eigin notum er átt við að húsnæðið sé nýtt til íbúðar af eiganda þess sjálfum.
  2. Vaxtagjöld umfram vaxtatekjur skv. 3.–5. tölul. 1. mgr. 8. gr. vegna annarra lána en um ræðir í 1. tölul., enda er einungis heimilt að telja þau með á næstu fjórum skattárum talið frá og með kaupári ef um er að ræða kaup á íbúð. Sé um nýbyggingu að ræða er heimilt að telja þau með á næstu sjö skattárum talið frá og með því ári þegar bygging hefst eða til og með því ári sem húsnæðið er tekið til íbúðar ef það er síðar.

     Réttur til vaxtabóta stofnast á því ári þegar íbúðarhúsnæði til eigin nota er keypt eða bygging þess hefst.
     Vaxtabætur skulu bundnar við eignarhald rétthafa á íbúðarhúsnæði. Selji rétthafi það húsnæði sem veitti rétt til vaxtabóta, án þess að hefja byggingu eða festa kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota á sama ári, falla bótagreiðslur til hans niður frá og með næsta ári á eftir söluári.
     Vaxtabótum hjóna skal skipt til helminga á milli þeirra. Hið sama gildir um sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein.
     Vaxtabætur greiðast rétthafa að því marki sem eftirstöðvum nemur þegar frá hafa verið dregnar greiðslur opinberra gjalda í þessari forgangsröð:
  1. Tekjuskatts sem á er lagður vegna tekjuársins skv. 67. gr., að frádreginni staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
  2. Annarra þinggjalda sem á eru lögð vegna tekjuársins.
  3. Ógoldinna þinggjalda frá fyrri árum.
  4. Annarra skatta eða gjalda en hér eru tilgreind eftir nánari ákvörðun fjármálaráðherra.

     Komi í ljós að maður hefur fengið greiddar vaxtabætur án þess að eiga rétt á þeim skal honum gert að endurgreiða þær að viðbættu álagi. Álag á of hátt ákvarðaðar bætur skal nema 25%. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein ef maður færir rök fyrir því að honum verði eigi kennt um þá annmarka á framtali er leiddu til ákvörðunar skattstjóra.
     Ákvæði 99. og 100. gr. gilda um kærurétt vegna vaxtabóta eftir því sem við á.
     Nánari reglur um vaxtabætur, þar á meðal um útborgun þeirra og skuldajöfnun á móti opinberum gjöldum, skulu settar í reglugerð.

2. gr.

     1. mgr. 121. gr. laganna, sbr. 18. gr. laga nr. 97/1988, orðast svo:
     Fjárhæðir sem um ræðir í 68. gr., A-lið 69. gr., 2. mgr. B-liðar 69. gr., fjárhæð þeirra vaxtabóta sem skattstjóri reiknar út skv. 1.–5. málsl. 2. mgr. C-liðar 69. gr. og hámarksfjárhæð vaxtabóta skv. 6. málsl. 2. mgr. C-liðar 69. gr. skulu 1. júlí á staðgreiðsluári taka hlutfallslegri breytingu sem nemur mismun á lánskjaravísitölu sem í gildi er 1. desember næstan á undan staðgreiðsluári og lánskjaravísitölu sem er í gildi 1. júní á staðgreiðsluári.

3. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða I um vaxtaafslátt í lögum nr. 49/1987, sbr. 9. gr. laga nr. 92/1987, fellur niður.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 15. nóvember 1989 og koma til framkvæmda við álagningu gjalda á árinu 1990 vegna tekna á árinu 1989 og eigna í lok þess árs.

Ákvæði til bráðabirgða.
I
     Hafi maður fengið ákvarðaðar húsnæðisbætur samkvæmt C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, sbr. B-lið 11. gr. laga nr. 49/1987, sbr. C-lið 9. gr. laga nr. 92/1987, skal hann halda þeim rétti og fá greiddar húsnæðisbætur í samræmi við ákvörðun skattstjóra til loka þess tímabils er ákvörðun skattstjóra tók til, þó í engu tilviki lengur en til ársins 1993. Þeir sem fá húsnæðisbætur geta aldrei notið vaxtabóta samtímis. Með framtali fyrir tekjuárið 1989 getur maður, sem áður hefur fengið ákvarðaðar húsnæðisbætur, óskað eftir því við skattstjóra að fá úrskurð um vaxtabætur. Réttur til húsnæðisbóta fellur að fullu niður hjá þeim sem þannig fær ákvarðaðar vaxtabætur.
II
     Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. laga þessara varir réttur þeirra manna til húsnæðisbóta, sem fá úrskurðaðar slíkar bætur á grundvelli umsóknar með framtali 1989 vegna tekjuársins 1988, í eitt ár.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 1989.