Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 429, 112. löggjafarþing 221. mál: kjarasamningar opinberra starfsmanna (breyting á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga).
Lög nr. 128 28. desember 1989.

Lög um breyting á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.


1. gr.

     Við 6. gr. bætast fjórar nýjar málsgreinar, 5., 6., 7. og 8. mgr., er orðist svo:
     Þeir starfsmenn, sem eru félagar í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélögum og gerast ríkisstarfsmenn 1. jan. 1990 á grundvelli laga um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, nr. 87 31. maí 1989, skulu eiga þess kost að vera áfram í sama stéttarfélagi sem fer þá með samningsumboð fyrir þeirra hönd við ríkið.
     Starfsmenn, sem koma til starfa eftir 1. jan. 1990, í þau störf sem lög um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, nr. 87 31. maí 1989, taka til, skulu jafnframt eiga val um hvort þeir verði félagsmenn í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélagi eða hvort þeir óska að tilheyra því félagi ríkisstarfsmanna sem hefur samkvæmt lögum þessum samningsumboð fyrir viðkomandi starfsmenn.
     Hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélag skal hafa tilkynnt fjármálaráðuneytinu fyrir 15. jan. ár hvert, í fyrsta sinn fyrir 15. jan. 1990, hvaða starfsmenn það eru sem það fer með samningsumboð fyrir gagnvart ríkinu á grundvelli þessara laga.
     Hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélög hafa því aðeins samningsumboð gagnvart ríkinu fyrir starfsmenn skv. 5. og 6. mgr. þessarar greinar að tilkynningarskyldu hafi verið fullnægt skv. 7. mgr. þessarar greinar.

2. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1990.

Samþykkt á Alþingi 20. desember 1989.