Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1118, 113. löggjafarþing 161. mál: lánsfjárlög 1991.
Lög nr. 26 2. apríl 1991.

Lánsfjárlög fyrir árið 1991.


I. KAFLI

1. gr.

     Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að taka lán innan lands að fjárhæð allt að 14.700.000 þús. kr.
     Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að semja um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæslu Íslands og taka til þess nauðsynleg lán vegna greiðslna sem kunna að falla á árið 1991, allt að 100.000 þús. kr.
     Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 735.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt og endurláni eftirtöldum aðilum á árinu 1991:
 1. Fiskveiðasjóði Íslands, allt að 200.000 þús. kr. til handa sérstakri deild við sjóðinn sem hafi það hlutverk að stuðla að úreldingu loðnuverksmiðja.
 2. Síldarverksmiðjum ríkisins, allt að 300.000 þús. kr.
 3. Byggðastofnun, allt að 200.000 þús. kr. til að leysa vanda rækjuverksmiðja.
 4. Lánasjóði sveitarfélaga, allt að 35.000 þús. kr. til umhverfisbótadeildar sjóðsins.


2. gr.

     Lánsfé skv. 1. gr. skal ráðstafað í samræmi við ákvæði fjárlaga fyrir árið 1991 og þessara laga.

3. gr.

     Landsvirkjun er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 3.400.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri eða innlendri mynt til fjármögnunar á raforkuframkvæmdum fyrirtækisins. Gætt skal ákvæða 14. gr. laga nr. 42/1983 við þessar lántökur og teljast lán, sem Landsvirkjun er heimilt að taka samkvæmt þeirri grein án samþykkis eignaraðila, hluti af ofangreindri fjárhæð.
     Landsvirkjun er enn fremur heimilt að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar að taka að láni á árinu 1991 að fjárhæð allt að 800.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til undirbúnings Fljótsdalsvirkjunar, stækkunar Búrfellsvirkjunar, fimmta áfanga Kvíslaveitu og stofnlína eins og nauðsynlegt er til þess að unnt verði að sjá nýju álveri fyrir nægjanlegri raforku frá áramótum 1994–1995. Ákvörðun um þennan undirbúning og að nýta heimildir samkvæmt þessari málsgrein skal tekin í ljósi framvindu samninga um álver á Keilisnesi.

4. gr.

     Heimilt er að taka lán vegna skuldbreytinga sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra sem hér segir:
 1. Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar, lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 50.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.
 2. Hitaveita Egilsstaða og Fella, lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 10.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.
 3. Hitaveita Eyra, lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 17.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.
 4. Bæjarveitur Vestmannaeyja, lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 28.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.
 5. Aðrar skuldbreytingar, lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 50.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.


5. gr.

     Hríseyjarhreppi er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 23.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til að búa ferjuna Sæfara farþegarými.

6. gr.

     Herjólfi hf., Vestmannaeyjum, er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 500.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til smíði á nýrri ferju.

7. gr.

     Djúpbátnum hf. á Ísafirði er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 45.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til kaupa á norsku ferjunni ms. Tufjord. Jafnframt er samgönguráðherra heimilt að leyfa fyrirtækinu innflutning á ferjunni, þó eldri sé en 12 ára, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 51/1987, um eftirlit með skipum.

8. gr.

     Flóabátnum Baldri hf., Stykkishólmi, er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 15.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til lúkningar á smíði nýrrar ferju.

9. gr.

     Skallagrími hf., Akranesi, er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 11.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt vegna skuldbreytinga.

10. gr.

     Hitaveitu Suðurnesja er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 200.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til fjármögnunar á orkuframkvæmdum fyrirtækisins.

11. gr.

     Byggðastofnun er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 900.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.
12. gr.     Iðnþróunarsjóði er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 400.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Milliganga Iðnþróunarsjóðs um erlend lán fyrir aðila út á auglýsingu viðskiptaráðuneytis, nú nr. 314/1990, eða aðrar heimildir veittar einstökum fyrirtækjum, skal rúmast innan þessarar heimildar.

13. gr.

     Iðnlánasjóði er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 950.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Milliganga Iðnlánasjóðs um erlend lán fyrir aðila út á auglýsingu viðskiptaráðuneytis, nú nr. 314/1990, eða aðrar heimildir veittar einstökum fyrirtækjum, skal rúmast innan þessarar heimildar.

14. gr.

     Útflutningslánasjóði er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 50.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.

15. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð eða taka lán að hluta eða öllu leyti í stað ríkisábyrgðar og endurlána þeim aðilum sem nefndir eru í 3.–14. gr. með þeim kjörum og skilmálum sem fjármálaráðherra ákveður.
     Þeir aðilar, sem nefndir eru í 3.–14. gr., svo og allir aðrir sem njóta ábyrgðar ríkissjóðs á erlendum skuldbindingum sínum og taka erlend lán út á heimildir laga þessara eða annarra laga, skulu gæta ákvæða 2. mgr. 7. gr. laga nr. 43/1990.

16. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð allt að fjórðungi skuldbreytinga loðnuverksmiðja hjá bönkum og sjóðum. Ábyrgð ríkissjóðs samkvæmt þessari grein skal að hámarki nema 200.000 þús. kr.

17. gr.

     Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt með samþykki ríkisstjórnarinnar að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð eða taka lán að hluta eða öllu leyti í stað ríkisábyrgðar og endurlána Vatnsleysustrandarhreppi til að fjármagna kaup á jörðinni Flekkuvík, ásamt mannvirkjum, og lönd úr jörðunum Stóru- og Minni-Vatnsleysu, ásamt mannvirkjum og til að fjármagna kostnað og sérfræðiráðgjöf vegna lóðaöflunar fyrir álver á Keilisnesi. Endurgreiðsla Vatnsleysustrandarhrepps á veittum lánum samkvæmt þessari grein skal háð því að af byggingu og rekstri álvers verði en að öðrum kosti skulu hinar keyptu eignir falla til ríkissjóðs.
     Náist ekki samningar við eigendur landa eða mannvirkja getur fjármálaráðherra heimilað Vatnsleysustrandarhreppi að taka eignarnámi vatnsréttindi, land, aðstöðu og önnur réttindi sem nauðsynleg eru vegna byggingar álvers á Keilisnesi og hafnar vegna þess. Eignarnám samkvæmt þessu ákvæði skal framkvæmt samkvæmt lögum nr. 11/1973.

18. gr.

     Lánasjóðum sem njóta ríkisábyrgðar á skuldbindingum sínum, öðrum en þeim sem tilgreindir eru í 8. og 9. gr., er óheimilt að hafa milligöngu um töku erlendra lána fyrir innlenda aðila á grundvelli auglýsingar viðskiptaráðuneytisins, nú nr. 314/1990, um erlendar lántökur og leigusamninga vegna innflutnings á vélum, tækjum og búnaði til atvinnurekstrar, eða annarra heimilda veittum einstaka fyrirtækjum, nema að fengnu samþykki fjármálaráðuneytis. Ákvæði 2. mgr. 11. gr. gilda jafnframt um tilvik samkvæmt þessari grein.

II. KAFLI

19. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 5. tölul. 4. gr. laga nr. 45/1971, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1982, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, skal framlag ríkissjóðs til Stofnlánadeildar landbúnaðarins eigi nema hærri fjárhæð en 53.680 þús. kr. á árinu 1991 og er framlagið vegna Lífeyrissjóðs bænda.

20. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og 21. gr. laga nr. 16/1965, um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna, skal endurgreiðsla ríkissjóðs til sjóðanna vegna hækkunar á áður úrskurðuðum lífeyri eigi nema hærri fjárhæð en 700.000 þús. kr. á árinu 1991 og skiptast á milli sjóðanna í hlutfalli við óskertar endurgreiðslukröfur.

21. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 31. gr. laga nr. 69/1984, hafnalaga, skal framlag ríkissjóðs til Hafnabótasjóðs eigi fara fram úr 50.000 þús. kr. á árinu 1991.

22. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði d-liðar 3. gr. laga nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands, skal framlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs falla niður á árinu 1991.

23. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 2. tölul. 5. gr. og 3. tölul. 9. gr. laga nr. 76/1987, sbr. og 31. gr. sömu laga, um Iðnlánasjóð, skal framlag ríkissjóðs til Iðnlánasjóðs falla niður á árinu 1991.

24. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 8. gr. og 26. gr. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, skal framlag ríkissjóðs til Ferðamálasjóðs og til sérstakra verkefna Ferðamálaráðs samkvæmt fyrrnefndum lögum eigi nema hærri fjárhæð en 68.000 þús. kr. á árinu 1991.

25. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga nr. 32/1979, um framlög ríkissjóðs til greiðslu kostnaðar af forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum, falla þær greiðslur niður á árinu 1991.

26. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 22. og 23. gr. laga nr. 68/1985, útvarpslaga, skulu tekjur á árinu 1991 vegna aðflutningsgjalda af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renna í ríkissjóð.

27. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 13. gr. laga nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka, með síðari breytingum, skal framlag ríkissjóðs vegna bóta fyrir eyðingu refa og minka eigi vera hærra en 19.640 þús. kr. á árinu 1991.

28. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 9. gr. laga nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, og 7. gr. laga nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, er landbúnaðarráðherra heimilt að innheimta gjald af sláturleyfum til greiðslu kostnaðar sem af yfirmati samkvæmt lögunum leiðir.

29. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 3. gr. laga nr. 34/1982, um Listskreytingasjóð ríkisins, skal framlag ríkissjóðs til sjóðsins eigi vera hærra en 12.000 þús. kr.

30. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 35. gr. laga nr. 19/1964, skipulagslaga, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 42/1974, skal mótframlag ríkissjóðs falla niður á árinu 1991.

31. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 46. gr. laga nr. 88/1989, þjóðminjalaga, skal framlag ríkissjóðs í Húsafriðunarsjóð eigi nema hærri fjárhæð en 10.500 þús. kr. á árinu 1991.

32. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 26. gr. laga nr. 21/1963, um kirkjugarða, með síðari breytingum, skal hlutdeild kirkjugarða í óskiptum tekjuskatti lækka um 20% á árinu 1991.

33. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. laga nr. 49/1978, lyfjalaga, með síðari breytingum, skal framlag ríkissjóðs til lyfsölusjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 880 þús. kr. á árinu 1991.

34. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, skal á árinu 1991 heimilt að ráðstafa 335.000 þús. kr. af sérstökum eignarskatti samkvæmt lögunum til framkvæmda við eftirtalin mannvirki: Þjóðleikhús, Þjóðminjasafn Íslands og Bessastaði.

35. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er fjármálaráðherra heimilt að fella niður eða endurgreiða virðisaukaskatt af gjöfum til björgunarsveita, svo og til mannúðar- og líknarstarfsemi. Jafnframt er heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt af rannsóknartækjum sem vísindastofnunum eru gefin eða eru keypt fyrir styrki.

III. KAFLI

36. gr.

     Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að samþykkja skulda- eða vaxtaskipti lána, sem tryggð eru með sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs, enda séu að mati fjármálaráðherra nægar tryggingar fyrir ábyrgð ríkissjóðs þegar til slíkra samninga er stofnað.

37. gr.

     Aðilum, sem njóta ríkisábyrgðar á erlendum skuldbindingum sínum, er heimilt:
 1. Að taka lán erlendis í því skyni að endurgreiða fyrir gjalddaga eftirstöðvar erlendra lána þegar hagstæðari kjör bjóðast.
 2. Að stofna til skulda- eða vaxtaskipta þar sem mótaðili í slíkum viðskiptum tekur á sig gjaldeyriskvaðir eða vaxtaskilmála í lánum sem aðili, sem nýtur ríkisábyrgðar, tekur eða hefur tekið með heimild í þessum eða öðrum lögum. Slíkur aðili tekur á sig samsvarandi gjaldeyriskvaðir eða vaxtaskilmála mótaðilans í hverjum slíkum skulda- eða vaxtaskiptum.
 3. Séu lántökuheimildir laga þessara að hluta til nýttar til töku skammtímalána eða veltilána er aðila, sem nýtur ríkisábyrgðar, heimilt að nýta sömu heimildir til töku á nýju láni til endurgreiðslu veltiláns eða skammtímaláns að hluta eða öllu leyti án þess að lánssamningur um þau falli úr gildi, enda sé ekki dregið á slíka lánssamninga að nýju nema lagaheimild liggi fyrir.
 4. Að nýta möguleika sem bjóðast á markaði til þess að tryggja sig gegn verulegum vaxtabreytingum.

     Hyggist aðilar, sem njóta ríkisábyrgðar á erlendum skuldbindingum sínum, nýta sér heimildir þessarar greinar skulu þeir gæta ákvæða 2. mgr. 7. gr. laga nr. 43/1990.

38. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að stofna til skuldbindinga með útgáfu skuldabréfa á árinu 1991 að upphæð allt að 1.700.000 þús. kr. vegna samnings landbúnaðarráðherra við bændur um fækkun fjár og aðlögun sauðfjárframleiðslu að innanlandsmarkaði, sbr. lög nr. 46/1985. Heimild þessi gildir þar til gerðar hafa verið nauðsynlegar lagabreytingar vegna framkvæmdar samningsins að öðru leyti.

39. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að yfirtaka skuldir Byggðastofnunar hjá Framkvæmdasjóði Íslands að fjárhæð allt að 1.200.000 þús. kr.

40. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast nauðsynleg lán vegna kaupa Rafmagnsveitna ríkisins á eignum Hitaveitu Siglufjarðar og Rafveitu Siglufjarðar.

41. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs og að fengnu samþykki fjárveitinganefndar Alþingis að semja við Hitaveitu Hjaltadals og Hitaveitu Siglufjarðar um ráðstafanir til að bæta fjárhag veitnanna í framtíðinni.

42. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast lán fyrir Dýpkunarfélagið hf. sem tekið var hjá Framkvæmdasjóði Íslands á árinu 1989, þá að fjárhæð 9.500 þús. kr.

43. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt að fella niður opinber gjöld sem tengjast fyrirhuguðum framkvæmdum Flugleiða við byggingu nýs viðhaldsflugskýlis á Keflavíkurflugvelli.

44. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt að ganga til samninga við Sláturfélag Suðurlands um kaup á húseigninni Laugarnesvegi 91 í Reykjavík til afnota fyrir Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Listdansskóla Þjóðleikshússins og fleiri skóla og menningarstofnanir.
     Heimildin er háð því að samkomulag takist um að Sláturfélag Suðurlands fallist á að taka við húseignum í eigu ríkissjóðs fyrir hluta af kaupverðinu.

45. gr.

     Lántökuheimildir skv. I. kafla gilda á árinu 1991. Heimildir samkvæmt lögum þessum verða þó nýttar til 1. júlí 1992 standi sérstaklega á og samþykki fjármálaráðherra komi til.

46. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. mars 1991.