Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 973, 115. löggjafarþing 531. mál: stofnun og slit hjúskapar (réttarfar, stjórnsýslumeðferð o.fl.).
Lög nr. 39 26. maí 1992.

Lög um breytingu á lögum um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60/1972, og lögum um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20/1923.


I. KAFLI
Um breytingu á lögum um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60/1972.

1. gr.

     31. gr. laganna orðast svo:
     Nú eru hjón sammála um að leita skilnaðar að borði og sæng og ber þá að veita þeim leyfi til slíks skilnaðar.

2. gr.

     32. gr. laganna orðast svo:
     Maki, sem telur sig ekki geta haldið áfram hjúskap, á rétt á skilnaði að borði og sæng.

3. gr.

     34. gr. laganna orðast svo:
     Nú eru hjón á einu máli um að leita lögskilnaðar og er hann þá kræfur er liðnir eru sex mánuðir frá því að leyfi var gefið út til skilnaðar að borði og sæng eða dómur gekk, sbr. þó 33. gr.
     Hvor maki um sig á rétt á lögskilnaði eftir að eitt ár er liðið frá því að leyfi var veitt til skilnaðar að borði og sæng eða dómur gekk, sbr. þó 33. gr.

4. gr.

     35. gr. laganna orðast svo:
     Nú hafa hjón slitið samvistir vegna ósamlyndis og getur þá hvort þeirra krafist lögskilnaðar þegar samvistaslit hafa staðið í tvö ár hið skemmsta.

5. gr.

     36. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

     43. gr. laganna orðast svo:
     Leyfi til skilnaðar að borði og sæng skv. 31. gr. og lögskilnaðar skv. 1. mgr. 34. gr. veita sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra.
     Skilnaðar samkvæmt öðrum ákvæðum má leita hjá sýslumönnum ef hjón eru sammála um það, en ella hjá dómstólum.
     Nú synjar sýslumaður um leyfi til skilnaðar og getur aðili þá skotið synjuninni til dómsmálaráðuneytis, sbr. 80. gr. Synjun er ekki því til fyrirstöðu að skilnaðar sé leitað fyrir dómstólum.

7. gr.

     45. gr. laganna orðast svo:
     Áður en skilnaður að borði og sæng eða lögskilnaður er veittur skal sýslumaður eða dómari reyna að koma á samkomulagi milli hjóna um skipan forsjár fyrir börnum, um framfærslueyri og aðra skilnaðarskilmála. Hjón skulu staðfesta samkomulag um þessi efni fyrir sýslumanni eða dómara.
     Ákvæði 1. mgr. á ekki við ef óskað er lögskilnaðar á grundvelli skilnaðar að borði og sæng, sbr. 34. gr., með óbreyttum skilnaðarskilmálum.
     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti setur nánari reglur um umleitun skv. 1. mgr.

8. gr.

     47. gr. laganna orðast svo:
     Forsjá barns og framfærslueyri með því skal skipa við skilnað að borði og sæng og við lögskilnað í samræmi við ákvæði barnalaga, enn fremur framfærslueyri með maka. Áður en skilnaður er veittur skal annað tveggja vera samkomulag milli hjóna um fjárskipti eða opinber skipti hafin vegna fjárslita.
     Ágreiningur foreldra um forsjá og framfærslueyri kemur ekki í veg fyrir að skilnaður verði veittur að kröfu aðila.

9. gr.

     48. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

     Í 1. og 2. málsl. 1. mgr. 50. gr. laganna fellur niður orðið „dómsmálaráðuneyti“, en í stað þess kemur: sýslumaður.

11. gr.

     Í 1. mgr. 52. gr. laganna fellur niður orðið „ráðuneytis“, en í stað þess kemur: sýslumanns.

12. gr.

     53. gr. laganna fellur brott.

13. gr.

     Í 2. málsl. 60. gr. laganna fellur niður orðið „dómsmálaráðuneyti“, en í þess stað kemur: sýslumaður.

14. gr.

     Í stað 61.–81. gr. laganna (VII. kafli: Um réttarfar í hjúskaparmálum o.fl.) koma tíu nýjar greinar er orðast svo:
     
     a. (61. gr.)
     Hjúskaparmál samkvæmt þessum kafla eru eftirfarandi dómsmál:
  1. Mál sem höfðuð eru til ógildingar hjúskap.
  2. Mál sem höfðuð eru til hjónaskilnaðar.
  3. Mál til úrlausnar um hvort hjúskapur sé gildur eða ekki gildur.
  4. Mál til úrlausnar um hvort réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng séu fallin niður.

     
     b. (62. gr.)
     Hjúskaparmál má höfða hér á landi í eftirfarandi tilvikum:
  1. Ef stefndi er búsettur hér á landi.
  2. Ef stefnandi er hér búsettur og hefur verið það sl. tvö ár eða búið hér áður svo langan tíma.
  3. Ef stefnandi er íslenskur ríkisborgari og leitt er í ljós að hann geti ekki vegna ríkisfangs síns höfðað mál í því landi sem hann er búsettur í.
  4. Ef bæði eru íslenskir ríkisborgarar og stefndi lýsir eigi andstöðu sinni gegn því að málið sæti úrlausn dómstóls hér á landi.
  5. Ef lögskilnaðar er krafist á grundvelli undanfarandi skilnaðar að borði og sæng enda hafi leyfi verið veitt eða dómur gengið hér á landi.

     Mál til ógildingar hjúskap má höfða hér á landi ef hjónavígslan hefur farið fram hér.
     Ákvæði milliríkjasamninga, sem Ísland er aðili að, skulu þó ganga framar ákvæðum þessarar greinar.
     
     c. (63. gr.)
     Mál skal höfða á heimilisvarnarþingi stefnda. Ef stefndi á ekki heimilisvarnarþing hér á landi skal mál höfða þar sem stefnandi á heimilisvarnarþing. Aðilar geta samið um annað varnarþing en að framan greinir.
     Nú er eigi til að dreifa varnarþingi skv. 1. mgr. og skal þá höfða mál fyrir dómstóli er dóms- og kirkjumálaráðuneytið kveður á um.
     
     d. (64. gr.)
     Annað hjóna og það eitt getur höfðað hjúskaparmál, sbr. þó 2. mgr. 24. gr.
     
     e. (65. gr.)
     Hjúskaparmál sæta meðferð einkamála nema um frávik sé mælt í lögum.
     Ef hvorki er vitað um heimilisfang né dvalarstað stefnda er dómara heimilt að skipa honum málsvara. Sama á við þegar stefndi er búsettur eða dvelst erlendis og ekki tekst að birta honum stefnu eða hvorki hann né umboðsmaður hans sækir þing við þingfestingu máls og sérstakar ástæður mæla að öðru leyti með því að honum verði skipaður málsvari. Málsvari skal hafa samráð við umbjóðanda sinn ef unnt er. Dómari ákveður þóknun til málsvara sem greiðist úr ríkissjóði. Dómari getur kveðið á um að stefndi skuli endurgreiða ríkissjóði kostnað vegna málsvara að öllu eða nokkru leyti ef rök mæla með því.
     Dómari gætir óhjákvæmilegra lagaskilyrða við úrlausn hjúskaparmáls.
     Hjúskap verður ekki slitið með dómsátt.
     
     f. (66. gr.)
     Dómþing í hjúskaparmálum skulu háð fyrir luktum dyrum nema dómari kveði öðruvísi á með samþykki málsaðila.
     
     g. (67. gr.)
     Eigi má án leyfis dómara birta almenningi á nokkurn hátt annað af því sem gerst hefur í hjúskaparmálum en dóminn. Brot gegn ákvæði þessu varðar sektum.
     Nú er dómur í slíku máli birtur, þar á meðal að tilstuðlan dómstólsins, og skal þá gæta leyndar á nöfnum og upplýsingum sem bent geti til þess hverjir séu aðilar máls.
     
     h. (68. gr.)
     Hjúskaparmál verður eigi höfðað eftir dauða annars hjóna.
     Nú deyr annað hjóna áður en dómur gengur í hjúskaparmáli og fellur þá málið niður. Á þetta einnig við ef máli er áfrýjað.
     
     i. (69. gr.)
     Nú er máli vísað frá dómi eða það fellt niður án kröfu sækjanda og getur sækjandi þá höfðað mál að nýju innan mánaðar þó að lögmæltur málshöfðunarfrestur sé þá liðinn.
     
     j. (70. gr.)
     Heimilt er að áfrýja einstökum þáttum dóms.
     Hvorugur málsaðili má ganga í nýtt hjónaband innan loka áfrýjunarfrests nema því aðeins að gagnaðili og dóms- og kirkjumálaráðuneyti, þegar það á aðild máls, hafi bréflega fallið frá áfrýjun.
     Endurupptaka máls er ekki heimil eftir lok áfrýjunarfrests.

15. gr.

     Á eftir VII. kafla laganna kemur nýr kafli, VIII. kafli: Um meðferð og úrlausn stjórnvalda á málum samkvæmt lögum þessum, með tíu nýjum greinum er orðast svo:
     
     a. (71. gr.)
     Stjórnvöld geta leyst úr málum er tengjast öðrum ríkjum í eftirfarandi tilvikum:
  1. Ef sá sem krafa beinist gegn er búsettur hér á landi.
  2. Ef aðilar eru íslenskir ríkisborgarar og sá sem krafa beinist gegn samþykkir að málið sæti úrlausn hér á landi.
  3. Ef lögskilnaðar er krafist á grundvelli undanfarandi skilnaðar að borði og sæng, enda hafi leyfi til skilnaðar að borði og sæng verið veitt hér á landi.

     Ákvæði milliríkjasamninga, sem Ísland er aðili að, skulu þó ganga framar ákvæðum 1. mgr.
     
     b. (72. gr.)
     Leysa skal úr máli í því umdæmi þar sem sá sem krafa beinist gegn er búsettur. Ef hann er ekki búsettur hér á landi skal leysa úr máli í því umdæmi þar sem krefjandi er búsettur. Hjón geta samið um annað úrlausnarumdæmi.
     Dóms- og kirkjumálaráðuneytið ákvarðar úrlausnarumdæmi ef hvorki sá sem krafa beinist gegn né krefjandi eru búsettir hér á landi eða ef annars leikur vafi á því hvar leysa skuli úr máli samkvæmt framangreindu.
     
     c. (73. gr.)
     Sýslumaður skal leiðbeina aðilum um réttindi þeirra og skyldur er málið varðar.
     
     d. (74. gr.)
     Sýslumaður leitar sátta með aðilum áður en hann leysir úr ágreiningsmáli.
     Ef aðilar máls búa eða dvelja hvor í sínu umdæmi má leita sátta þar sem hvor aðila býr eða dvelst.
     
     e. (75. gr.)
     Aðilum máls ber að setja fram skýrar kröfur fyrir stjórnvaldi og afla þeirra gagna sem stjórnvald telur þörf á til úrlausnar máls. Enn fremur getur stjórnvald aflað gagna að eigin frumkvæði ef þörf krefur.
     Ef sá sem kröfu gerði sinnir eigi ítrekuðum kvaðningum eða tilmælum stjórnvalds um framlagningu gagna er stjórnvaldi heimilt að synja um úrlausn.
     Nú sinnir gagnaðili máls eigi ítrekuðum kvaðningum eða tilmælum stjórnvalds um gagnaöflun og má þá veita úrlausn á grundvelli þeirra krafna og gagna sem fyrir liggja.
     
     f. (76. gr.)
     Aðilum máls er heimilt að kynna sér skjöl og önnur gögn sem málið varðar. Réttur þessi nær ekki til vinnuskjala sem rituð hafa verið hjá stjórnvaldi til eigin afnota í sambandi við meðferð málsins.
     
     g. (77. gr.)
     Aðilar skulu eiga þess kost að tjá sig um mál áður en ákvörðun er tekin og getur stjórnvald sett þeim ákveðinn frest til þess.
     
     h. (78. gr.)
     Úrskurður stjórnvalds skal vera skriflegur. Þar skal greina úrlausnarefni, niðurstöðu og rökstuðning fyrir henni, þar á meðal lagaatriði er niðurstaða byggist á og önnur atriði er máli skipta, þar á meðal kæruheimild og þvingunarúrræði ef því er að skipta.
     
     i. (79. gr.)
     Úrskurð stjórnvalds skal senda aðilum máls með ábyrgðarbréfi, hann birtur af einum stefnuvotti eða kynntur með öðrum sannanlegum hætti.
     
     j. (80. gr.)
     Kæra má úrlausn sýslumanns til dóms- og kirkjumálaráðuneytis innan tveggja mánaða frá dagsetningu hennar.
     Kæra frestar ekki réttaráhrifum úrlausnar nema sýslumaður ákveði annað.
     Málsaðilum, sem fengið hafa leyfi til lögskilnaðar, er ekki heimilt að ganga í hjúskap að nýju fyrr en eftir lok kærufrests nema þeir hafi fallið bréflega frá kæru.

16. gr.

     Í VIII. kafla laganna, er verður IX. kafli, kemur ný grein, 81. gr., er orðast svo:
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna.

II. KAFLI
Um breytingu á lögum um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20/1923.

17. gr.

     II. kafli laganna, Um foreldravald (16. gr.), fellur brott.

18. gr.

     Á eftir 86. gr. laganna koma tvær nýjar greinar er orðast svo:
     
     a. (87. gr.)
     Við meðferð og úrlausn stjórnvalda á málum samkvæmt lögum þessum skal beita ákvæðum VIII. kafla laga um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60/1972, með síðari breytingum, eftir því sem við á.
     
     b. (88. gr.)
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna.

III. KAFLI
Gildistaka o.fl.

19. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1992.
     Frá sama tíma fellur úr gildi 2. tölul. 62. gr. laga nr. 92/1991, um breyting á ýmsum lögum vegna aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Nú var sett fram krafa um skilnað að borði og sæng eða lögskilnað samkvæmt lögum nr. 60/1972, með síðari breytingum, fyrir gildistöku laga þessara og skal þá fara um þá kröfu eftir eldri lögum. Ef bæði hjón óska þess er þó heimilt að beita reglum þessara laga.

Samþykkt á Alþingi 16. maí 1992.