Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1121, 120. löggjafarþing 407. mál: Húsnæðisstofnun ríkisins (félagslegar eignaríbúðir).
Lög nr. 76 11. júní 1996.

Lög um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993, sbr. lög nr. 12/1994, nr. 58/1995 og nr. 150/1995.


1. gr.

     Á eftir 92. gr. laganna koma tvær nýjar greinar er orðast svo:
     
     a. (92. gr. a.)
     Sýni húsnæðisnefnd fram á, eftir að sveitarfélag hefur keypt inn félagslega eignaríbúð samkvæmt ákvæðum laganna um kaupskyldu eða forkaupsrétt, að íbúð sé óseljanleg er húsnæðismálastjórn heimilt, innan fjárhags- og útlánaáætlunar skv. 2. tölul. 5. gr., að verða við umsókn sveitarstjórnar um að breyta íbúðinni í félagslega eða almenna kaupleiguíbúð. Félagsleg eignaríbúð telst óseljanleg samkvæmt ákvæði þessu hafi hún verið auglýst til sölu en engin umsókn borist.
     
     b. (92. gr. b.)
     Sveitarfélag, sem hefur á sínum vegum félagslegar eignaríbúðir eða félagslegar kaupleiguíbúðir sem ekki verða nýttar, getur sótt um heimild til húsnæðismálastjórnar til að miða við rýmri tekjumörk einstaklings en gilda hverju sinni samkvæmt reglugerð þar að lútandi, enda sýni húsnæðisnefnd fram á að það sé eina færa leiðin til þess að íbúð verði úthlutað. Undanþáguheimildin er almenns eðlis og skal kynnt sérstaklega í sveitarfélaginu. Undanþágan hefur ekki áhrif á vexti, sbr. þó 79. gr.
     Í næstu sex ár frá því síðast er úthlutað íbúð samkvæmt undanþágunni er sveitarfélag útilokað frá því að sækja um framkvæmdalán úr Byggingarsjóði verkamanna til að kaupa eða byggja félagslegar íbúðir.
     Ákvæði þetta tekur m.a. til íbúða sem breytt hefur verið í félagslegar kaupleiguíbúðir, sbr. 92. gr. a.

2. gr.

     Á eftir 93. gr. laganna kemur ný grein, 93. gr. a, er orðast svo:
     Heimilt er húsnæðismálastjórn að samþykkja frestun á afborgun lána til Byggingarsjóðs verkamanna þegar sveitarstjórn hefur keypt inn félagslega íbúð samkvæmt ákvæðum laganna um kaupskyldu sem ekki verður nýtt sem heilsársíbúð vegna hættu á snjóflóðum eða skriðuföllum, enda sé íbúð á hættusvæði, sbr. lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985, með síðari breytingum. Frestun á afborgun lána samkvæmt ákvæði þessu getur einungis átt sér stað í ákveðinn tíma eftir ákvörðun húsnæðismálastjórnar á meðan unnið er að varanlegri lausn. Vextir, og verðbótaþáttur vaxta, greiðast á meðan frestur stendur yfir.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 30. maí 1996.