Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1110, 122. löggjafarþing 443. mál: umferðarlög (öndunarsýni).
Lög nr. 23 8. apríl 1998.

Lög um breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum (öndunarsýni).


1. gr.

     Við 4. mgr. 47. gr. laganna, sbr. lög nr. 48/1997, bætist: Vegna töku og rannsóknar öndunarsýnis skal sá sem sakfelldur er greiða 6.500 kr., sem teljast til sakarkostnaðar.

2. gr.

     102. gr. laganna, sbr. lög nr. 44/1993, orðast svo:
     Nú hefur stjórnandi vélknúins ökutækis brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 45. gr. eða neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. og skal hann þá sviptur ökurétti. Ef sérstakar málsbætur eru og ökumaður hefur ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður má sleppa sviptingu ökuréttar vegna brota á ákvæðum 1., sbr. 2., mgr. 45. gr.
     Nú hefur stjórnandi ökutækis brotið gegn ákvæðum 1., sbr. 3., mgr. 45. gr. eða neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. og skal svipting ökuréttar þá eigi vera skemur en eitt ár.
     Nú hefur stjórnandi ökutækis áður brotið gegn ákvæðum 45. gr. eða neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. og hann gerist sekur um eitthvert þessara brota og skal svipting ökuréttar þá vera eigi skemur en tvö ár. Ef bæði brotin varða við ákvæði 1., sbr. 3., mgr. 45. gr. eða 3. mgr. 47. gr. skal svipting þó eigi vera skemur en þrjú ár.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 31. mars 1998.