Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 509, 123. löggjafarþing 114. mál: almenn hegningarlög (refsiábyrgð lögaðila).
Lög nr. 140 22. desember 1998.

Lög um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (refsiábyrgð lögaðila).


1. gr.

     Á eftir II. kafla laganna kemur nýr kafli, II. kafli A, Refsiábyrgð lögaðila, með þremur nýjum greinum, 19. gr. a–19. gr. c, svohljóðandi:
     
     a. (19. gr. a.)
     Lögaðila verður gerð fésekt þegar lög mæla svo fyrir.
     
     b. (19. gr. b.)
     Ákvæði í lögum um refsiábyrgð lögaðila gilda, nema annað sé þar tekið fram, um sérhvern ópersónulegan aðila sem getur átt réttindi og borið skyldur að íslenskum rétti, þar með talin hlutafélög, einkahlutafélög, samlagshlutafélög, evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög, sameignarfélög, samvinnufélög, almenn félög, sjálfseignarstofnanir, stjórnvöld, stofnanir og sveitarfélög.
     
     c. (19. gr. c.)
     Refsiábyrgð lögaðila er bundin því skilyrði, nema annað sé tekið fram í lögum, að fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum hafi með saknæmum hætti unnið refsinæman og ólögmætan verknað í starfsemi lögaðilans. Verður lögaðila gerð refsing þó að ekki verði staðreynt hver þessara aðila hafi átt í hlut. Refsiábyrgð stjórnvalda er bundin því skilyrði að unninn hafi verið refsinæmur og ólögmætur verknaður í starfsemi sem telst vera sambærileg starfsemi einkaaðila.

2. gr.

     1. mgr. 51. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 101/1976, orðast svo:
     Þegar fjárhæð sektar er ákveðin skal eftir því sem við á höfð hliðsjón af tekjum og eignum sakbornings, afkomu, framfærsluskyldu, öðrum atriðum er orka á greiðslugetu hans og þeim fjárhagslega ávinningi eða sparnaði sem leiddi af brotinu eða stefnt var að með því.

3. gr.

     Við 52. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Sökunautur, sem gerð hefur verið sekt, getur ekki krafið aðra um endurgreiðslu eða bætur vegna greiðslu sektarinnar.

4. gr.

     Við 53. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 101/1976, bætist nýr málsliður er orðast svo: Nú er lögaðila gerð sekt og er vararefsing þá eigi ákveðin.

5. gr.

     Við 4. mgr. 82. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 63/1998, bætast tveir nýir málsliðir er orðast svo: Nú rofnar fyrningarfrestur gagnvart fyrirsvarsmanni lögaðila, starfsmanni hans eða öðrum á hans vegum og rofnar þá fyrningarfrestur jafnframt gagnvart lögaðilanum. Rof fyrningarfrests gagnvart lögaðila leiðir ekki til rofs á fyrningarfresti gagnvart fyrirsvarsmanni, starfsmanni eða öðrum á vegum lögaðilans.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 1998.