Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1384, 126. löggjafarþing 737. mál: kjaramál fiskimanna og fleira (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 34 16. maí 2001.

Lög um kjaramál fiskimanna og fleira.


I. KAFLI
Um kjaramál fiskimanna.

1. gr.

     Verkföll Sjómannafélags Eyjafjarðar og aðildarfélaga Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, auk verkbanna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna gagnvart aðildarfélögum í Alþýðusambandi Vestfjarða og aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands, svo og verkföll og verkbönn og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, eru óheimil frá gildistöku laganna og á gildistíma ákvarðana gerðardóms skv. 2. og 3. gr. Þó er aðilum heimilt að semja um slíkar breytingar en eigi má knýja þær fram með vinnustöðvun.

2. gr.

     Hafi aðilar skv. 1. gr. ekki náð samkomulagi fyrir 1. júní 2001 skal Hæstiréttur tilnefna þrjá menn í gerðardóm. Skal gerðardómurinn ákveða eftirfarandi um kjaramál fiskimanna í þeim samtökum sem nefnd eru í 1. gr.:
  1. atriði er tengjast markmiðum varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum á þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila,
  2. atriði er varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör,
  3. atriði er varða kauptryggingu og launaliði,
  4. atriði er varða slysatryggingu,
  5. atriði er varða afmörkun á helgarfríi fiskimanna á netaveiðum,
  6. atriði er varða mótframlag útvegsmanna vegna viðbótarlífeyrissparnaðar fiskimanna og
  7. önnur atriði sem nauðsynlegt er að taka á varðandi kjaramál.

     Hæstiréttur kveður á um hver hinna þriggja gerðardómsmanna skuli vera formaður dómsins og kallar hann dóminn saman. Gerðardómurinn setur sér starfsreglur, aflar nauðsynlegra gagna og getur krafist skýrslna, munnlegra og skriflegra, af þeim aðilum sem gerðardómurinn telur nauðsynlegt. Aðilar skv. 1. gr. skulu eiga rétt á að gera gerðardóminum grein fyrir sjónarmiðum sínum. Skal gerðardómurinn ætla þeim hæfilegan frest í því skyni.

3. gr.

     Gerðardómurinn skal við ákvörðun sína samkvæmt lögum þessum hafa til hliðsjónar kjarasamninga sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum að því leyti sem við á og almenna þróun kjaramála, auk þess að taka mið af sérstöðu þeirra aðila sem nefndir eru í 1. gr.
     Ákvarðanir gerðardómsins skv. 1. mgr. skulu vera bindandi frá gildistöku laga þessara og skal gerðardómurinn hafa lokið störfum fyrir 1. júlí 2001. Hann skal ákveða gildistíma ákvarðana sinna.

4. gr.

     Kostnaður við störf gerðardóms skv. 2. gr. greiðist úr ríkissjóði.

II. KAFLI
Um niðurfellingu á lögum nr. 11/1998, um Kvótaþing, með síðari breytingum.

5. gr.

      Lög nr. 11/1998, um Kvótaþing, með síðari breytingum, eru felld úr gildi.

III. KAFLI
Um breytingar á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingu.

6. gr.

     2.–4. mgr. 12. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 1/1999, hljóða svo:
     Tilkynna skal Fiskistofu fyrir fram um flutning aflamarks og öðlast hann ekki gildi fyrr en stofnunin hefur staðfest flutninginn. Í tilkynningu skulu m.a. koma fram upplýsingar um magn aflamarks sem flytja skal, auk upplýsinga um verð, nema þegar aflamark er flutt á milli skipa í eigu sama aðila, einstaklings eða lögaðila.
     Áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks skal stofnunin skrá upplýsingar um flutning aflamarksins samkvæmt tilkynningu þar að lútandi. Ráðherra skal með reglugerð ákveða í hvaða formi tilkynningar til Fiskistofu um flutning aflamarks skuli vera. Sá sem tilkynnir um flutning aflamarks skal greiða Fiskistofu gjald að fjárhæð 2.000 kr. með hverri tilkynningu. Áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks skal stofnunin fá staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum. Hann skal uppfylla kröfur Verðlagsstofu skiptaverðs sem gerðar eru samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.
     Fiskistofa skal daglega birta aðgengilegar upplýsingar um flutning aflamarks, þar á meðal um magn eftir tegundum, auk upplýsinga um verð, þar sem við á.

IV. KAFLI
Um breytingar á lögum nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

7. gr.

     Á eftir 1. mgr. 1. gr. laganna kemur ný málsgrein sem hljóðar svo:
     Hafi samtök útvegsmanna og sjómanna gert með sér samkomulag um tiltekin markmið um viðmið varðandi verðlagningu á fiski við uppgjör á aflahlut sjómanna á gildistíma kjarasamnings eða ákvarðanir um slíkt hafa verið teknar með öðrum skuldbindandi hætti skulu Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, sbr. II. kafla, stuðla að því með störfum sínum og úrskurðum að þau markmið nái fram að ganga.

8. gr.

     Við 6. gr. laganna bætist nýr málsliður sem hljóðar svo: Fulltrúar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Sjómannasambands Íslands, Vélstjórafélags Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna skulu hafa aðgang að álitinu.

V. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

9. gr.

     3. málsl. 9. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 158/2000, fellur brott.

VI. KAFLI
Gildistaka.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi að undanskildum ákvæðum II. og III. kafla laganna sem taka gildi 1. júní 2001.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þar til ákvörðun gerðardóms skv. 2. og 3. gr. liggur fyrir eða kjaradeilan leysist með öðrum hætti skal til bráðabirgða fara með kjaramál fiskimanna sem um ræðir í 1. gr. samkvæmt fyrirkomulagi því sem komið var á með lögum nr. 10/1998, um kjaramál fiskimanna. Endanlegt uppgjör fari fram þegar ákvörðun gerðardóms eða nýr samningur liggur fyrir.

II.
     Kvótaþing skal ganga frá uppgjöri þeirra samninga sem gerðir hafa verið vegna starfsemi þess. Verði kostnaður umfram eignir þingsins greiðist hann úr ríkissjóði en verði afgangur rennur hann í ríkissjóð.

III.
     Virk tilboð sem kunna að vera til staðar á Kvótaþingi við gildistöku II. og III. kafla laganna falla þá úr gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. maí 2001.