Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1356, 128. löggjafarþing 464. mál: almannavarnir o.fl. (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 44 24. mars 2003.

Lög um breyting á lögum um almannavarnir, lögreglulögum, lögum um Viðlagatryggingu Íslands, lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og lögum um fjarskipti (stjórnsýsla almannavarna).


I. KAFLI
Breyting á lögum um almannavarnir, nr. 94 29. desember 1962, með síðari breytingum.

1. gr.

     2. mgr. 4. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 85/1985, orðast svo:
     Ríkislögreglustjóri stýrir starfsemi almannavarna í umboði dómsmálaráðherra að höfðu samráði við almannavarnaráð, sbr. 6. gr.

2. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Landlæknir fer í umboði heilbrigðisráðherra með stjórn þeirra þátta almannavarna er varða málefni heilbrigðisstofnana, læknismeðferð og hjúkrun á sjúkum og særðum. Stjórn sóttvarna er í höndum sóttvarnalæknis.
     Landlæknisembættið hefur með höndum forvarnir, leiðbeiningar og almannafræðslu er varða málefni sem ógna heilsu manna.
     Forráðamönnum heilbrigðisstofnana ber samkvæmt tilmælum landlæknis að undirbúa og framkvæma ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að geta veitt sjúkum og særðum móttöku og meðferð á hættutímum. Þeim ber og að taka þátt í undirbúningi að stofnun og rekstri varasjúkrahúsa.

3. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Ríkislögreglustjóri annast heildarskipulagningu almannavarna og sér um framkvæmdir á þeim þáttum sem undir ríkisvaldið falla að höfðu samráði við almannavarnaráð, sbr. 4. mgr. Í því felst meðal annars að samhæfa gerð almannavarnaáætlana sveitarfélaga og stofnana og hafa eftirlit með endurskoðun og viðhaldi þeirra.
     Meðal verkefna ríkislögreglustjóra vegna almannavarna eru:
 1. Að tryggja fjarskipti milli lögregluumdæma.
 2. Vöktun og mat á hættu ásamt öflun upplýsinga í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir.
 3. Viðbúnaður vegna geisla- og kjarnorkuvár í samvinnu við Geislavarnir ríkisins.
 4. Viðbúnaður vegna mengunaróhappa í samvinnu við Umhverfisstofnun og landlæknisembættið.
 5. Að hafa samvinnu við yfirdýralækni og landlæknisembættið um viðbrögð og varnaraðgerðir gegn dýrasjúkdómum sem ógnað geta almannaheill.
 6. Að annast viðvaranir vegna yfirvofandi eða viðvarandi hættuástands í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir.
 7. Forvarnir, leiðbeiningar og almenningsfræðsla í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir.
 8. Samhæfing á þjálfun og fræðslu yfirmanna og leiðbeinenda.
 9. Eftirlit og umsjón með ráðstöfunum á sviði almannavarna vegna æðstu stjórnar landsins og mikilvægra stofnana ríkisins samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.
 10. Að halda yfirlit yfir björgunarbúnað og staðsetningu hans.
 11. Skipulagning og yfirstjórn á flutningi fólks af hættusvæðum.
 12. Yfirstjórn á aðstoð milli umdæma og aðstoð ríkisstofnana.
 13. Umsjón með almannavörnum í héraði.
 14. Aðrar ráðstafanir sem ráðherra ákveður í samráði við ríkislögreglustjóra.

     Ríkislögreglustjóri skal jafnframt stuðla að, fylgjast með og samræma ráðstafanir sem miða að því að draga úr líkum á líkams- og eignatjóni af völdum náttúruhamfara eða af annarri vá, svo sem með gerð varnarvirkja eða með öðrum verndarráðstöfunum.
     Sérstakt ráð, almannavarnaráð, skal vera ríkisstjórninni til ráðgjafar um almannavarnir. Ráðið skal starfa með ríkislögreglustjóra þegar almannavarnaástand skapast. Í ráðinu eiga sæti forstjóri Landhelgisgæslunnar, landlæknir, ríkislögreglustjóri, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, forstjóri Landssíma Íslands, vegamálastjóri, veðurstofustjóri, flugmálastjóri, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjörg og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ráðherra skipar óháðan formann ráðsins án tilnefningar. Ráðherra getur sett nánari reglur um aðild að ráðinu og starf þess.

4. gr.

     1. mgr. 7. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 85/1985, orðast svo:
     Lögreglustjórar fara með stjórn almannavarna, hver í sínu umdæmi, og skulu þeir starfa með almannavarnanefndum sem sveitarstjórnir skipa, sbr. 8. gr.

5. gr.

     8. gr. laganna orðast svo:
     Í hverju sveitarfélagi skal vera starfandi almannavarnanefnd sem sveitarstjórn skipar. Heimilt er sveitarstjórnum að semja um að koma á fót sameiginlegri almannavarnanefnd, en nái slík sameining yfir tvö eða fleiri lögsagnarumdæmi er slík sameining háð staðfestingu ráðherra. Skal þá ráðherra ákveða hvaða lögreglustjóri starfi með nefndinni.
     Almannavarnanefnd skal auk lögreglustjóra skipuð lykilmönnum sem stýra í starfi sínu viðbrögðum sem tryggja öryggi hins almenna borgara gagnvart aðsteðjandi vá. Þær sveitarstjórnir sem að nefndinni standa ákveða fjölda nefndarmanna, en nefndin kýs sér sjálf formann og varaformann. Sveitarstjórnir ákveða um ráðningu starfsmanna almannavarnanefnda og standa undir kostnaði af starfi þeirra.

6. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Hlutverk almannavarnanefnda er að skipuleggja og annast björgunar- og hjálparstörf vegna hættu eða tjóns sem skapast hefur vegna hernaðarátaka, náttúruhamfara eða af annarri vá. Þær skulu gera áætlanir um skipulag almannavarna í samvinnu við ríkislögreglustjóra og almannavarnaráð. Þeim er þannig falin framkvæmd eftirtalinna ráðstafana innan umdæma sinna samkvæmt nánari reglum er ráðherra setur:
 1. Skipulag og samræming hjálparstarfs og hjálparliða, þjálfun þeirra og búnaður.
 2. Eftirlit með einkavörnum í íbúðarhúsum, atvinnufyrirtækjum og stofnunum og leiðbeiningar á því sviði.
 3. Bygging, búnaður og rekstur opinberra öryggisbyrgja samkvæmt áætlun sem ráðherra samþykkir.
 4. Uppbygging og rekstur stjórnstöðvar.
 5. Skipulag og uppbygging fjarskipta innan umdæmis.
 6. Birgðasöfnun og rekstur birgðastöðva.
 7. Undirbúningur og aðstoð vegna brottflutnings fólks og móttöku fólks af hættusvæði.
 8. Aðrar ráðstafanir sem ráðherra ákveður, að fengnum tillögum ríkislögreglustjóra.

     Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um lágmarksviðbúnað að almannavörnum í héraði. Ráðherra er heimilt að ákveða að ríkislögreglustjóri láti undirbúa og koma á lágmarksviðbúnaði í héraði á kostnað sveitarsjóðs eða sveitarsjóða hafi ákvæðum um lágmarksviðbúnað ekki verið hlítt.

7. gr.

     2. mgr. 11. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1985, orðast svo:
     Á hættutíma hefur ríkislögreglustjóri ákvörðunarvald um flutning hjálparliðs á milli umdæma til aðstoðar á hættusvæði, að höfðu samráði við viðkomandi lögreglustjóra og almannavarnaráð.

8. gr.

     Í stað orðsins „almannavarnaráðs“ í 26. gr. laganna, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1985, kemur: ríkislögreglustjóra.

9. gr.

     Í stað orðsins „almannavarnaráð“ í 3. mgr. 27. gr. laganna, sbr. 10. gr. laga nr. 85/1985, kemur: ríkislögreglustjóra.

II. KAFLI
Breyting á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist nýr stafliður er orðast svo: að fara með yfirstjórn almannavarna í umboði ráðherra að höfðu samráði við almannavarnaráð.
 2. Við 2. mgr. bætist nýr stafliður er orðast svo: að starfrækja almannavarnadeild sem annist verkefni á sviði almannavarna.


III. KAFLI
Breyting á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55 2. júní 1992.

11. gr.

     Í stað orðanna „Almannavarnir ríkisins“ í 21. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 35/1995, kemur: ríkislögreglustjóra.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49 23. maí 1997.

12. gr.

     1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
     Ríkislögreglustjóri skal undir yfirstjórn dómsmálaráðherra og að höfðu samráði við almannavarnaráð annast gerð neyðaráætlana, svo og sjá um leiðbeiningar og almannafræðslu um hættu af ofanflóðum í samvinnu við Veðurstofu Íslands.

13. gr.

     3. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: Skulu uppdrættirnir staðfestir af umhverfisráðherra og kynntir ríkislögreglustjóra, almannavarnaráði og hlutaðeigandi almannavarnanefndum.

V. KAFLI
Breyting á lögum um fjarskipti, nr. 107 28. desember 1999.

14. gr.

     1. málsl. 2. mgr. 54. gr. laganna orðast svo: Í neyðartilvikum, svo sem þegar um er að ræða eldgos, jarðskjálfta, snjóflóð o.s.frv., getur samgönguráðherra að beiðni ríkislögreglustjóra, að höfðu samráði við almannavarnaráð, mælt fyrir um takmörkun fjarskipta sem truflað geta neyðar- og öryggisfjarskipti.

VI. KAFLI
Gildistaka.

15. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 13. mars 2003.