Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 585, 130. löggjafarþing 146. mál: almenn hegningarlög (fullgilding spillingarsamnings).
Lög nr. 125 16. desember 2003.

Lög um breyting á almennum hegningarlögum og lögum um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslna og hryðjuverka (fullgilding spillingarsamnings).


I. KAFLI
Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 6. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Fyrir háttsemi sem greinir í samningi á sviði refsiréttar um spillingu frá 27. janúar 1999.

2. gr.

     109. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 147/1998, orðast svo:
     Hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að 3 árum eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi.
     Sömu refsingu skal sá sæta sem beinir slíku að erlendum opinberum starfsmanni, starfsmanni alþjóðastofnunar, manni sem á sæti á þingi slíkrar stofnunar eða á opinberu löggjafarþingi í erlendu ríki, dómara sem á sæti í alþjóðlegum dómstóli eða starfsmanni við slíkan dómstól, í því skyni að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans.
     Sömu refsingu skal enn fremur sá sæta sem beinir slíku að manni, sem heldur því fram eða veitir vissu fyrir að hann geti haft óeðlileg áhrif á ákvarðanatöku manns sem fjallað er um í 1. og 2. mgr. þessarar greinar, í því skyni að fá hann til að beita þessum áhrifum.
     Enn fremur skal sæta sömu refsingu sá maður sem heldur því fram eða veitir vissu fyrir að hann geti haft óeðlileg áhrif á ákvarðanatöku manns, sem fjallað er um í 1. og 2. mgr. þessarar greinar, og heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, án tillits til þess hvort áhrifunum er beitt eða hvort þau leiða til þess markmiðs sem stefnt var að.

3. gr.

     Við 128. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Sömu refsingu skal sæta erlendur opinber starfsmaður, starfsmaður alþjóðastofnunar, maður sem á sæti á þingi slíkrar stofnunar eða á opinberu löggjafarþingi í erlendu ríki, dómari sem á sæti í alþjóðlegum dómstóli eða starfsmaður við slíkan dómstól, sem heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns.

4. gr.

     Á eftir 264. gr. laganna kemur ný grein, 264. gr. a, svohljóðandi:
     Hver sem gefur, lofar eða býður manni, sem stjórnar fyrirtæki í atvinnurekstri eða innir af hendi störf á vegum þess, gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert í bága við starfsskyldur hans skal sæta fangelsi allt að 2 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.
     Ef maður, sem stjórnar fyrirtæki í atvinnurekstri eða innir af hendi störf á vegum þess, heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, og gerir með því eitthvað eða lætur eitthvað ógert í bága við starfsskyldur sínar, skal sæta fangelsi allt að 2 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.

II. KAFLI
Breyting á lögum um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslna og hryðjuverka, nr. 144 22. desember 1998, sbr. lög nr. 99 15. maí 2002.

5. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Nú er í starfsemi lögaðila framið brot gegn 109. gr. eða 1. mgr. 264. gr. a almennra hegningarlaga og er þá heimilt að gera lögaðilanum fésekt. Nú er í starfsemi lögaðila framið brot gegn 264. gr. almennra hegningarlaga og frumbrotið, sem ávinningur stafar af, varðar 109. gr. eða 1. mgr. 264. gr. a almennra hegningarlaga og er þá sömuleiðis heimilt að gera lögaðilanum fésekt.

6. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 3. gr., svohljóðandi:
     Um tilhögun refsiábyrgðar samkvæmt lögunum fer eftir II. kafla A almennra hegningarlaga.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 5. desember 2003.