Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1023, 144. löggjafarþing 403. mál: örnefni (heildarlög).
Lög nr. 22 13. mars 2015.

Lög um örnefni.


1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er:
 1. að stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða í landinu sem hluta af íslenskum menningararfi og tryggja að honum verði viðhaldið handa komandi kynslóðum,
 2. að ný örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði og íslenska málvenju,
 3. að ný örnefni séu í samræmi við staðhætti og örnefnahefð,
 4. að samræma stjórnsýslu við skráningu örnefna þannig að ferli nafngifta sé opið, gagnsætt og skilvirkt.


2. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
 1. Örnefni er nafn, orð eða orðasamband, á landfræðilegum punkti, línu eða svæði sem hægt er að setja á landakort og vísar til eins ákveðins staðar innan ákveðins samfélags; lands, héraðs, sveitabæjar, þéttbýlisstaðar, húss, götu, torgs, vegar, fjalls, dals, stöðuvatns, fjarðar, hafsvæðis, skers, miðs o.s.frv.
 2. Örnefnagrunnur er miðlægur gagnagrunnur sem inniheldur örnefni og gögn tengd þeim.
 3. Staðfang lýsir landfræðilegri staðsetningu, svo sem aðkomu að mannvirki, lóð eða áfangastað. Í staðfangi eru fólgnar upplýsingar um nafn, númer og hnit. Staðfang er tegund örnefnis.


3. gr.

Yfirstjórn.
     Ráðherra fer með yfirstjórn örnefnaverndar í landinu samkvæmt lögum þessum.

4. gr.

Örnefnanefnd.
     Ráðherra skipar fimm manna örnefnanefnd til fjögurra ára í senn. Ráðherra sem fer með skipulagsmál, ráðherra sveitarstjórnarmála, Stofnun Árna Magnússonar og Íslensk málnefnd tilefna einn fulltrúa hver. Ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður en varaformaður skal skipaður úr hópi nefndarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki er heimilt að skipa sama aðalmann lengur en tvö samfelld starfstímabil. Meðal nefndarmanna skal vera sérþekking á íslensku máli, örnefnum og staðfræði.
     Örnefnanefnd hefur eftirfarandi hlutverk:
 1. að veita rökstutt álit um örnefni vegna birtingar í opinberum örnefnagrunni hafi risið ágreiningur um það efni og honum verið skotið til nefndarinnar,
 2. að úrskurða um nýtt eða breytt bæjarnafn, götunafn eða annað það nafn sem notað er til skráningar á staðfangi hafi risið ágreiningur um það efni og honum verið skotið til nefndarinnar,
 3. að úrskurða um nöfn á skiltum opinberra aðila,
 4. að veita umsögn um fyrirhugað nafn á nýjum þéttbýliskjarna eða hverfi innan sveitarfélags,
 5. að veita umsögn um nafn sveitarfélags, sbr. 6 gr.,
 6. að veita umsögn um nafn á nýju náttúrufyrirbæri innan sveitarfélags,
 7. að sinna öðrum verkefnum sem henni kunna að vera falin með lögum, reglugerðum eða ákvörðun ráðherra.

     Örnefnanefnd er heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði.
     Kostnaður af starfsemi örnefnanefndar greiðist úr ríkissjóði.
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.

5. gr.

Málsmeðferð.
     Við afgreiðslu mála hjá örnefnanefnd ræður meiri hluti atkvæða úrslitum. Falli atkvæði jafnt sker atkvæði formanns úr. Samþykki örnefnanefnd tillögu skal afrit af samþykktinni sent Landmælingum Íslands.
     Hafni örnefnanefnd tillögu að nafngift ber henni að senda aðila máls rökstuðning og eftir atvikum tillögu að mögulegri málamiðlun. Aðili máls skal innan átta vikna bregðast við ákvörðun örnefnanefndar en að öðrum kosti úrskurðar nefndin um nýtt nafn. Örnefnanefnd er heimilt að leita álits sérfræðinga utan nefndarinnar ef þurfa þykir.
     Úrlausnir örnefnanefndar samkvæmt lögum þessum eru endanlegar á stjórnsýslustigi og ekki kæranlegar til ráðherra.
     Um málsmeðferð fer að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum.

6. gr.

Heiti sveitarfélags.
     Um heiti sveitarfélags fer eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, með síðari breytingum.
     Örnefnanefnd skal skila rökstuddu áliti sínu til hlutaðeigandi sveitarstjórnar eða sveitarstjórna innan þriggja vikna frá því að erindi berst. Nefndin skal senda afrit af áliti sínu til ráðherra sveitarstjórnarmála.

7. gr.

Nafngiftir nýrra náttúrufyrirbæra.
     Ef nýtt náttúrufyrirbæri þarfnast nafns ber viðkomandi sveitarstjórn að hafa frumkvæði að nafngift að fenginni umsögn örnefnanefndar. Utan stjórnsýslumarka sveitarfélaga liggur frumkvæði að nafngift hjá ráðherra.
     Tillögu að nýju nafni ber að senda ráðherra til staðfestingar. Þegar ráðherra hefur staðfest nýtt nafn skal sveitarstjórn eða eftir atvikum ráðherra upplýsa Landmælingar Íslands um nýja nafngift.

8. gr.

Ráðgjöf um örnefni.
     Um ráðgjöf um örnefni fer samkvæmt ákvæðum laga um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, nr. 40/2006, með síðari breytingum.

9. gr.

Örnefnagrunnur.
     Um örnefnagrunn fer samkvæmt ákvæðum laga um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006, með síðari breytingum.
     Ráðherra sem í hlut á, í samræmi við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um innihald, skráningu og tilhögun örnefnagrunns.

10. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi lög um bæjanöfn o. fl., nr. 35/1953, með síðari breytingum.

11. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Lög um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006:
  1. D-liður 4. tölul. 4. gr. laganna verður svohljóðandi: Örnefni úr örnefnagrunni.
  2. Við 4. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Skráning, viðhald og miðlun örnefnagrunns í samráði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Innihald gagnagrunnsins skal vera aðgengilegt og endurnot þess án gjaldtöku og í samræmi við ákvæði upplýsingalaga, nr. 140/2012. Landmælingar Íslands skulu gera almenningi kleift að skrá örnefni í sérstakan gagnagrunn á vegum stofnunarinnar.
 2. Lög um stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, nr. 40/2006: Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: vera til ráðgjafar fyrir almenning og stofnanir um söfnun, skráningu og varðveislu örnefna og jafnframt um nýjar nafngiftir.
 3. Lög um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001:
  1. 2. og 3. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
  2.      Hver fasteign tengist minnst einu staðfangi samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar. Heiti fasteignar ræðst af þeim staðföngum sem eigninni tengjast. Staðfang lýsir landfræðilegri staðsetningu, svo sem aðkomu að mannvirki, lóð eða áfangastað. Í staðfangi eru fólgnar upplýsingar um nafn, númer og hnit.
        Ráðherra skal setja reglugerð um skráningu staðfanga að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Í slíkri reglugerð skal m.a. kveðið á um verklagsreglur sveitarfélaga við skráningu á heiti þeirra.
  3. 1. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
  4.      Sveitarstjórn skal tilkynna Þjóðskrá Íslands um breytingar á skráningu staðfanga.
  5. 3. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
  6.      Í fasteignaskrá skal halda ferilskrá yfir breytingar á fasteignum þar sem fyrri heiti, staðföng og auðkenni og tengsl þeirra við gildandi staðföng og auðkenni eru varðveitt.
 4. Lög um lögheimili, nr. 21/1990: Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist: sem er staðfang.
 5. Jarðalög, nr. 81/2004: 21. gr. laganna fellur brott.
 6. Skipulagslög, nr. 123/2010:
  1. Í stað orðanna „Landskrá fasteigna“ í 47. gr. laganna kemur: fasteignaskrá.
  2. 2. mgr. 48. gr. laganna orðast svo:
  3.      Sérhver afmörkuð landareign skal hafa vísun í a.m.k. eitt staðfang í samræmi við 12. gr. laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.


Samþykkt á Alþingi 3. mars 2015.