Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1501, 144. löggjafarþing 11. mál: ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi (heildarlög).
Lög nr. 41 7. júlí 2015.

Lög um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.


I. KAFLI

1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að efla nýfjárfestingu í atvinnurekstri, samkeppnishæfni Íslands og byggðaþróun með því að tilgreina hvaða ívilnanir er heimilt að veita til nýfjárfestinga hér á landi og hvernig þeim skuli beitt.

2. gr.

Gildissvið og heimild.
     Lög þessi ná til skilgreindra ívilnana sem kveðið er á um í lögum þessum til nýfjárfestinga hér á landi, að uppfylltum þeim skilyrðum sem eru tilgreind í 5. gr.
     Á grundvelli laga þessara er ráðherra veitt heimild til að gera samninga, sbr. 14. gr., fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um aðkomu ríkisins og eftir atvikum sveitarfélaga vegna nýfjárfestinga hér á landi.
     Lög þessi ná ekki til fjárfestinga í fyrirtækjum sem veita þjónustu á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki, laga um vátryggingastarfsemi eða laga um verðbréfaviðskipti. Lög þessi ná ekki til ívilnana til flugvalla eða til verkefna á sviði orkuframleiðslu.

3. gr.

Orðskýringar.
     Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
 1. Byggðaaðstoð: Ríkisaðstoð sem er veitt með heimild í c-lið 3. mgr. 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið til að efla byggðaþróun og efnahagslíf á ákveðnu landsvæði í samræmi við samþykkt byggðakort.
 2. Byggðakort: Kort af Íslandi sem er samþykkt af Eftirlitsstofnun EFTA fyrir tiltekið tímabil þar sem fram kemur á hvaða svæðum á Íslandi er heimilt að veita byggðaaðstoð og að hvaða marki slík aðstoð er heimil.
 3. Fjárfestingarverkefni: Verkefni sem nýfjárfesting lýtur að.
 4. Fjárfestingarkostnaður: Kostnaður vegna áþreifanlegra eigna og óáþreifanlegra eigna sem fellur til í tengslum við fjárfestingarverkefni hér á landi eða launakostnaður. Ráðherra setur reglugerð um nánari útfærslu á því hvað telst til fjárfestingarkostnaðar samkvæmt ákvæðinu. Nefnd skv. 11. gr. veitir nánari leiðbeiningar um grundvöll og útreikning á fjárfestingarkostnaði.
 5. Ívilnun: Skilgreind ríkisaðstoð samkvæmt lögum þessum sem er forsenda þess að tiltekið fjárfestingarverkefni verði að veruleika hér á landi.
 6. Lítið fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með færri en 50 starfsmenn og árlega veltu undir 2 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 10 milljónum evra, sbr. leiðbeinandi reglur Eftirlitsstofnunar EFTA um aðstoð við örfyrirtæki, lítil og meðalstór fyrirtæki.
 7. Meðalstórt fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með á bilinu 50–250 starfsmenn og árlega veltu undir 50 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 43 milljónum evra, sbr. leiðbeinandi reglur Eftirlitsstofnunar EFTA um aðstoð við örfyrirtæki, lítil og meðalstór fyrirtæki.
 8. Stórt fyrirtæki: Fyrirtæki sem fellur ekki undir skilgreiningu á litlu eða meðalstóru fyrirtæki, sbr. 6. og 7. tölul.
 9. Nýfjárfesting: Fjárfesting sem lýtur að uppsetningu nýs verkefnis eða nýrrar starfsemi hér á landi eða felur í sér sjálfstæða viðbót við eldra verkefni. Fjárfesting sem kemur í stað eldri fjárfestingar telst ekki nýfjárfesting í skilningi laga þessara.


II. KAFLI

4. gr.

Umsókn um ívilnun.
     Umsókn um ívilnun til nýfjárfestingar á Íslandi skal send ráðuneyti því sem fer með ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi. Sérstök þriggja manna nefnd fer yfir umsóknir og gerir tillögur til ráðherra um afgreiðslu, sbr. 11. gr.
     Umsókn um ívilnun, ásamt fylgigögnum, skal berast áður en hafist er handa við fyrirhugað fjárfestingarverkefni hér á landi.
     Umsókn um ívilnun skal skilað á sérstöku eyðublaði sem nefnd skv. 1. mgr. birtir á vef ráðuneytisins, ásamt upplýsingum sem eru nauðsynlegar samkvæmt lögum þessum.
     Um meðhöndlun umsókna um ívilnun fer samkvæmt ákvæðum V. kafla.

5. gr.

Skilyrði fyrir veitingu ívilnana.
     Við mat á því hvort veita eigi ívilnun til nýfjárfestingar samkvæmt lögum þessum skal eftirfarandi skilyrðum vera fullnægt:
 1. að stofnað sé sérstakt félag um fjárfestingarverkefnið á Íslandi; íslenskt útibú eða umboðsskrifstofa félags sem skráð er í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið telst sérstakt félag,
 2. að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um viðkomandi fjárfestingarverkefni, þá aðila sem að því standa, stærð viðkomandi fjárfestingarverkefnis, sbr. 6.–8. tölul. 3. gr., og upplýsingar um hvernig fjármögnun verður háttað,
 3. að fyrirhugað fjárfestingarverkefni sé ekki hafið áður en undirritaður er samningur um ívilnun skv. 14. gr.,
 4. að sýnt sé fram á að veiting ívilnunar sé forsenda þess að fjárfestingarverkefnið verði að veruleika hér á landi,
 5. að a.m.k. 75% af fjárfestingarkostnaði séu fjármögnuð án ríkisaðstoðar og þar af séu að lágmarki 20% fjármögnuð af eigin fé þess aðila sem sækir um ívilnun,
 6. að árleg velta fyrirhugaðs fjárfestingarverkefnis sé a.m.k. 300 millj. kr. eða að nýfjárfesting skapi a.m.k. 20 ársverk hjá umsóknaraðila við rekstur fjárfestingarverkefnis á fyrstu tveimur árum þess,
 7. að fyrir liggi arðsemisútreikningar, sbr. 12. gr.,
 8. að sýnt sé fram á að fyrirhuguð fjárfesting sé í samræmi við 1. gr.; í því samhengi skal taka tillit til áhrifa viðkomandi nýfjárfestingarverkefnis á atvinnusköpun, byggðaþróun, útflutning, skatttekjur, nýsköpun og útbreiðslu nýrrar tækni og þekkingar,
 9. að um nýfjárfestingu sé að ræða og að tæki og búnaður sem kemur til vegna hennar sé nýr eða nýlegur og uppfylli skilyrði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir,
 10. að viðkomandi nýfjárfesting verði eftir að rekstur hefst að lágmarki til 10 ára í starfrækslu á viðkomandi svæði á Íslandi,
 11. að fyrir liggi upplýsingar um hvort fjárfestingarverkefnið sé háð umhverfismati samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000,
 12. að starfsemi félags sem nýtur ívilnunar sé að öllu leyti í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli og starfsemin brjóti ekki í bága við almennt velsæmi,
 13. að ekki séu fyrir hendi hjá viðkomandi félagi eða eigendum þess vangreiddir skattar eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi eða endurgreiðslukrafa skv. 3. mgr. 31. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, og að viðkomandi félag sé ekki í fjárhagslegum erfiðleikum eða fjárhagslegri endurskipulagningu í skilningi leiðbeinandi reglna Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð til endurskipulagningar eða björgunar fyrirtækja,
 14. að eigendur sem fara með virkan eignarhlut og framkvæmdastjóri viðkomandi félags séu lögráða, hafi óflekkað mannorð og orðspor sem samrýmist reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti; þeir skulu ekki hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota á síðustu fimm árum; þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu fimm árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.


III. KAFLI

6. gr.

Byggðaaðstoð.
     Heimildir stjórnvalda til að veita ívilnun í formi byggðaaðstoðar til fjárfestingarverkefna hér á landi takmarkast af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda skv. 61.–64. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993. Þær skuldbindingar og heimildir eru nánar útfærðar í ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA um byggðakort og aðstoðarhlutföll. Slíkar ákvarðanir eru birtar í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins hverju sinni. Í þeim ákvörðunum kemur fram á hvaða svæðum á Íslandi er heimilt að veita byggðaaðstoð.

7. gr.

Hámark leyfilegrar byggðaaðstoðar.
     Með vísan til 6. gr. getur ívilnun á grundvelli byggðaaðstoðar numið að hámarki 15% af skilgreindum fjárfestingarkostnaði þess fjárfestingarverkefnis sem sótt er um ívilnun fyrir. Fyrir meðalstór fyrirtæki er hámark ívilnunar 25% af fjárfestingarkostnaði og fyrir lítil fyrirtæki er hámark ívilnunar 35% af fjárfestingarkostnaði.
     Þegar um fjárfestingar stórra fyrirtækja skv. 8. tölul. 3. gr. er að ræða skal sýnt fram á að fjárhæð ívilnunar takmarkist við ákvörðun um fjárfestingu eða ákvörðun um staðsetningu. Því skal annað hvort eftirfarandi skilyrða uppfyllt:
 1. Fjárhæð ívilnunar skal ekki vera umfram það sem nauðsynlegt er til að fjárfestingarverkefnið verði nægjanlega ábatasamt.
 2. Fjárhæð ívilnunar skal ekki vera hærri en sá umframkostnaður sem hlýst af staðsetningu fjárfestingarverkefnisins í samanburði við önnur svæði.

     Í þeim tilvikum þegar fjárfestingarkostnaður fjárfestingarverkefnis er meiri en 50 milljónir evra lækkar hlutfall leyfilegrar hámarksaðstoðar, sbr. 1. mgr., í samræmi við heildarfjárfestingarkostnað, sbr. 4. mgr.
     Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um útreikning á leyfilegu hlutfalli ríkisaðstoðar, samkvæmt grein þessari, í samræmi við leiðbeinandi reglur Eftirlitsstofnunar EFTA um svæðisbundna byggðaaðstoð fyrir árin 2014–2020.
     Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er ívilnun, sbr. 14. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag byggðaaðstoðar.

8. gr.

Ívilnanir tengdar sköttum og opinberum gjöldum.
     Byggðaaðstoð getur samkvæmt lögum þessum verið í formi frávika frá sköttum eða opinberum gjöldum vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis.
     Félag sem er stofnað um nýfjárfestingu og uppfyllir öll skilyrði laga þessara fyrir veitingu ívilnunar skal njóta eftirfarandi skattalegra ívilnana:
 1. Tekjuskattshlutfall viðkomandi félags skal, í þann tíma sem kveðið er á um í 3. mgr., vera 15%. Lækki hið almenna tekjuskattshlutfall á tímabilinu niður fyrir framangreint hlutfall skal hið lægra tekjuskattshlutfall gilda um félagið.
 2. Á því ári þegar nýjar eignir eru teknar í notkun getur félagið valið að fyrna þær í hlutfalli við notkun á árinu í stað fullrar árlegrar fyrningar skv. 34. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. þeirra laga skal félaginu heimilt að fyrna eignir sínar að fullu.
 3. Skatthlutfall fasteignaskatts viðkomandi félags skal vera 50% lægra en lögbundið hámark að viðbættu álagi skv. II. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.
 4. Almennt tryggingagjald viðkomandi félags skal vera 50% lægra en það sem kveðið er á um í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald.
 5. Innflutningur og kaup félagsins eða einhvers fyrir þess hönd hérlendis á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis, svo og til reksturs þess, skulu vera undanþegin tollum samkvæmt tollalögum, nr. 88/2005.

     Þau frávik frá almennum reglum um skatta og opinber gjöld sem kveðið er á um í 2. mgr. gilda í 10 ár frá því að greiðsluskylda myndast eða hefði myndast vegna gjalds eða skatta, þó aldrei lengur en í 13 ár frá undirritun samnings skv. 14. gr.
     Félag sem nýtur ívilnunar samkvæmt grein þessari skal, að öðru leyti en kveðið er á um í 2. mgr., greiða skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma. Almenn ákvæði íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á og í gildi eru á hverjum tíma og varða skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á, auk andmæla og ágreinings í tengslum við þau, skulu gilda um viðkomandi félag.

9. gr.

Ívilnun í tengslum við land eða lóð undir nýfjárfestingu.
     Byggðaaðstoð getur samkvæmt lögum þessum verið í formi sölu eða leigu ríkis eða sveitarfélags á landi eða lóð í eigu ríkis eða sveitarfélags undir viðkomandi fjárfestingarverkefni til þess félags sem stofnað er um nýfjárfestingu og reisir og rekur fjárfestingarverkefnið, á verði sem telst vera undir almennu markaðsverði. Einnig getur byggðaaðstoð verið í formi sérstakrar lækkunar gatnagerðargjalds samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar.
     Um hámark ívilnunar skv. 1. mgr. vísast til 7. gr. Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem er veitt ívilnun, sbr. 14. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag ívilnunar sem tengd er sölu eða leigu á landi eða lóð.

IV. KAFLI

10. gr.

Almenn frávik frá tilgreindum ákvæðum laga.
     Í samningi skv. 14. gr. er heimilt að kveða á um að viðkomandi félag, sem stofnað er um nýfjárfestingu og reisir og rekur fjárfestingarverkefnið, skuli undanþegið:
 1. ákvæðum 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966, sem setur það skilyrði að 4/5 hlutar hlutafjár hlutafélags séu eign íslenskra ríkisborgara og að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar,
 2. ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, þar sem þess er krafist að meiri hluti stjórnarmanna og framkvæmdastjóri einkahlutafélags hafi heimilisfesti á Íslandi, svo og sambærilegum síðari ákvæðum,
 3. ákvæðum laga um brunatryggingar, nr. 48/1994, eða ákvæðum síðari laga um sameiginlega skyldutryggingu húseigna, enda verði með öðrum hætti tryggilega séð fyrir brunatryggingum,
 4. ákvæðum laga um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992, enda viðhaldi félagið fullnægjandi viðlagatryggingu.


V. KAFLI

11. gr.

Nefnd um veitingu ívilnana til nýfjárfestinga.
     Sérstök þriggja manna nefnd ráðherra fer yfir umsóknir um ívilnun, sbr. 4. gr., og gerir tillögu til ráðherra um afgreiðslu. Ráðherra skipar nefndina og skulu ráðherra er fer með tekjuöflun ríkisins og ráðherra er fer með málefni fjárfestinga í atvinnurekstri tilnefna sinn mann hvor, en sá þriðji skal skipaður án tilnefningar og vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nefndarmenn skulu hafa menntun í lögfræði eða hagfræði og sérþekkingu á sviði fjárfestinga. Nefndin leggur mat á umsóknir og kallar eftir þeim gögnum sem nauðsynleg eru.
     Nefndin skal hafa samráð við sveitarfélög í tengslum við aðkomu þeirra að fyrirhuguðum fjárfestingarverkefnum sem staðsett eru innan umdæma þeirra.
     Við mat á umsókn um ívilnun hefur nefndin heimild til þess að afla álits sérfróðra aðila um þætti sem að umsókn snúa.
     Ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda um störf nefndarinnar. Nefndin setur sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir.

12. gr.

Mat á arðsemi.
     Aðili sem sækir um ívilnun til nýfjárfestingar skal leggja fram rekstrar- og viðskiptaáætlun og önnur gögn sem nefnd skv. 11. gr. telur nauðsynleg við yfirferð á umsókninni. Ívilnanir skulu aðeins boðnar umsækjanda ef útreikningar gefa með skýrum hætti til kynna að fyrirhuguð fjárfesting hafi í för með sér jákvæð áhrif á þróun byggðar jafnt til lengri sem skemmri tíma.
     Áður en nefnd skv. 11. gr. gerir tillögu til ráðherra vegna umsóknar um ívilnun skal hún leggja mat á arðsemi fjárfestingarverkefnisins. Nefndin skal afla mats Byggðastofnunar á byggðaþróun og áhrifum á atvinnulíf. Nefndin getur óskað þess að óháður sérfróður aðili leggi mat á fjárfestingarverkefni, arðsemi þess og áhrif og vinni aðrar upplýsingar sem er nauðsynlegt að liggi fyrir áður en tekin er afstaða til umsóknar.
     Við mat á ávinningi af fyrirhugaðri starfsemi skal horft til mismunandi samsetningar ívilnana sem leyfilegar eru samkvæmt lögum þessum.

13. gr.

Boð um ívilnun.
     Nefnd skv. 11. gr. skal gera tillögu til ráðherra um að hafna beiðni um ívilnun eða að leggja fyrir umsækjanda boð um ívilnun. Leggi nefndin til boð um ívilnun skal koma fram rökstuðningur fyrir nauðsyn ívilnunar og hversu mikil ívilnunin skuli vera.
     Leggi ráðherra fram boð um ívilnun skal það byggjast á þeim heimildum sem fram koma í lögum þessum og getur það verið samsett úr fleiri en einni tegund ívilnana, sbr. þó 7. gr.

14. gr.

Samningur um veitingu ívilnunar.
     Fallist umsækjandi á boð ráðherra um ívilnun skal gerður samningur milli umsækjanda og ráðherra fyrir hönd stjórnvalda og eftir atvikum sveitarfélaga um veitingu ívilnunar til viðkomandi fjárfestingarverkefnis.
     Samningur skv. 1. mgr. skal kveða á um þær skuldbindingar sem kunna að þykja nauðsynlegar fyrir viðkomandi fjárfestingarverkefni og hversu lengi samningur skuli gilda. Í samningi skal m.a. kveðið á um eftirfarandi atriði:
 1. skilgreiningu og afmörkun á viðkomandi fjárfestingarverkefni,
 2. skilgreiningu og afmörkun á þeim lögaðila sem nýtur ívilnunar samkvæmt samningnum,
 3. hvaða ívilnanir eru veittar til verkefnisins,
 4. fjárhæð ívilnana á núvirði,
 5. hvernig ívilnun er komið til verkefnis og á hvaða tíma,
 6. eftirlit og endurgreiðslu ívilnunar ef skilyrði samnings eru ekki uppfyllt,
 7. hámark þeirrar ívilnunar sem veitt er til verkefnisins á grundvelli samningsins.

     Samningur um veitingu ívilnunar skv. 1. mgr. skal að hámarki gilda í 20 ár frá undirritun hans, sbr. þó 4. mgr.
     Ívilnun sem er veitt á grundvelli 8. gr. skal, sbr. 3. mgr. 8. gr., gilda í 10 ár frá því að viðkomandi skattskylda eða gjaldskylda sem kveðið er á um í 2. mgr. 8. gr. myndast, þó aldrei lengur en í 13 ár frá undirritun samnings um veitingu ívilnunar.
     Samningur um veitingu ívilnunar sem ráðherra undirritar samkvæmt lögum þessum skal birtur í B-deild Stjórnartíðinda.

15. gr.

Afmörkun ívilnunar.
     Ívilnun er eingöngu veitt vegna ákveðins fjárfestingarverkefnis umsækjanda en ekki til annarrar starfsemi hans. Aðila sem nýtur ívilnunar samkvæmt lögum þessum er einvörðungu heimilt að nýta þá ívilnun í það skilgreinda fjárfestingarverkefni sem kveðið er á um í samningi skv. 14. gr.

16. gr.

Eftirlit með notkun ívilnunar.
     Til tryggingar á réttri notkun ívilnunar, sbr. 15. gr., ber aðila sem nýtur ívilnunar að senda ráðuneytinu árlega skýrslu um framvindu fjárfestingarverkefnis, hlut ívilnunar í framgangi þess, heildarfjárhæð veittrar ríkisaðstoðar á næstliðnu ári og tilgreiningu á annarri starfsemi aðila ef einhver er. Ráðuneytið getur óskað þess að umræddar upplýsingar sem félagið sendir ráðuneytinu séu staðfestar af endurskoðanda.
     Sveitarfélög sem veita ívilnanir til fjárfestingarverkefna sem gerður hefur verið samningur um skv. 14. gr. skulu senda ráðuneytinu árlega skýrslu um heildarfjárhæð veittrar ríkisaðstoðar fyrir hvert verkefni, sundurliðað eftir verkefnum.
     Ráðuneytið skal upplýsa hlutaðeigandi sveitarfélög um atvik sem geta haft áhrif á gildi samninga sem gerðir hafa verið og skulu viðkomandi sveitarfélög á sama hátt upplýsa ráðuneytið um atvik af þessu tagi.

17. gr.

Afturköllun og/eða endurgreiðsla ívilnunar.
     Fella ber niður ívilnun og endurkrefja um þegar veitta ívilnun komi í ljós að aðili sem nýtur ívilnunar hefur vísvitandi veitt rangar upplýsingar eða leynt upplýsingum sem höfðu áhrif á veitingu ívilnunarinnar.
     Endurkrefja ber um ívilnun ef hún hefur verið nýtt til annarra hluta en fjárfestingarverkefnis þess sem var forsenda veitingar hennar.
     Komi í ljós að ívilnun til aðila er komin umfram þær heimildir sem fram koma í lögum þessum eða samningi um veitingu ívilnunar skal endurkrefja aðila um þann hlut sem umfram er og stöðva veitingu frekari ívilnunar.
     Ef ákvörðun um ívilnun er afturkölluð, samkvæmt grein þessari eða í kjölfar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA um ólögmæta ríkisaðstoð, skulu stjórnvöld, sbr. 3. mgr. 31. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, gera ráðstafanir til þess að endurheimta veitta ríkisaðstoð frá þiggjanda hennar.
     Verði fjárfestingarverkefnið ekki að veruleika eða ef það verður verulega frábrugðið því sem samningur um veitingu ívilnunar skv. 14. gr. miðar við innan fimm ára frá gildistöku samnings skal sá er ívilnunar hefur notið endurgreiða allar þær ívilnanir sem hann hefur fengið á grundvelli samnings um veitingu ívilnunar skv. 14. gr.

18. gr.

Frestur til greiðslu virðisaukaskatts.
     Aðila sem nýtur ívilnunar samkvæmt lögum þessum og verktökum sem taka að sér byggingu viðkomandi fjárfestingarverkefnis skal veittur gjaldfrestur á greiðslu virðisaukaskatts af innfluttum vörum og tækjum til fjárfestingarverkefnisins þar til endurgreiðsla vegna viðkomandi uppgjörstímabils skv. 4. mgr. 25. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, fer fram.

VI. KAFLI

19. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd laga þessara.

20. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Fjárfestingarsamningar sem gerðir eru á grundvelli laganna taka ekki gildi fyrr en Eftirlitsstofnun EFTA hefur veitt samþykki fyrir því ríkisaðstoðarkerfi sem lögin fela í sér að undanskildum fjárfestingarsamningum sem falla undir reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) um almenna hópundanþágu. Lög þessi falla úr gildi 1. júlí 2020. Ívilnanir sem hafa verið veittar fyrir þau tímamörk halda þó gildi sínu út þann tíma sem kveðið er á um í viðkomandi samningi um veitingu ívilnunar, sbr. 14. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Eingöngu kostnaður sem fellur til eftir gildistöku laga þessara getur talist til fjárfestingarkostnaðar í skilningi þeirra.

Samþykkt á Alþingi 29. júní 2015.