Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1588, 144. löggjafarþing 628. mál: alþjóðleg öryggismál o.fl. (erlend herskip og herloftför o.fl., breyting ýmissa laga).
Lög nr. 81 10. júlí 2015.

Lög um breytingu á lögum sem varða alþjóðleg öryggismál o.fl.


I. KAFLI
Breyting á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.

1. gr.

     Á eftir XII. kafla laganna kemur nýr kafli, XII. kafli A, Aðgangur erlendra ríkisloftfara að íslensku yfirráðasvæði, með tveimur nýjum greinum, 134. gr. a og 134. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (134. gr. a.)
Gildissvið.
     Ákvæði þessa kafla gilda um erlend ríkisloftför. Sá ráðherra sem fer með utanríkismál fer með framkvæmd þessa kafla.
     
     b. (134. gr. b.)
Aðgangur erlendra ríkisloftfara.
     Erlent ríkisloftfar má því aðeins koma inn á íslenskt yfirráðasvæði að til þess liggi formleg heimild.
     Ráðherra ákveður á hvaða stöðum erlent ríkisloftfar getur átt viðkomu og hvernig ferðum þess skuli háttað innan íslensks yfirráðasvæðis.
     Ráðherra getur hvenær sem er afturkallað leyfi til komu erlends ríkisloftfars eða ferðar um íslenskt yfirráðasvæði sem og ákveðið að erlent ríkisloftfar skuli yfirgefa íslenskt yfirráðasvæði fyrirvaralaust.
     Ráðherra setur nánari reglur um komur og ferðir erlendra ríkisloftfara, svo sem varðandi umsóknarfresti, leyfilegan búnað, hvaða starfsemi þau megi stunda og tilkynningarskyldu þeirra, svo og komur og dvöl áhafna og farþega ríkisloftfara.

II. KAFLI
Breyting á lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, með síðari breytingum.

2. gr.

     Á eftir III. kafla laganna kemur nýr kafli, III. kafli A, Aðgangur erlendra ríkisskipa að íslensku yfirráðasvæði, með tveimur nýjum greinum, 16. gr. a og 16. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (16. gr. a.)
Gildissvið.
     Ákvæði þessa kafla gilda um erlend ríkisskip. Sá ráðherra sem fer með utanríkismál fer með framkvæmd þessa kafla.
     
     b. (16. gr. b.)
Aðgangur erlendra ríkisskipa.
     Erlent ríkisskip má því aðeins koma inn á íslenskt yfirráðasvæði að til þess liggi formleg heimild. Þetta á þó ekki við er um friðsamlega ferð um landhelgina í skilningi hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982 er að ræða.
     Ráðherra ákveður á hvaða stöðum erlent ríkisskip getur átt viðkomu og hvernig ferðum þess skuli háttað innan íslensks yfirráðasvæðis.
     Ráðherra getur hvenær sem er afturkallað leyfi til komu erlends ríkisskips eða ferðar um íslenskt yfirráðasvæði sem og ákveðið að erlent ríkisskip skuli yfirgefa íslenskt yfirráðasvæði fyrirvaralaust.
     Ráðherra setur nánari reglur um komur og ferðir erlendra ríkisskipa, svo sem varðandi umsóknarfresti, leyfilegan búnað, hvaða starfsemi þau megi stunda og tilkynningarskyldu þeirra, svo og komur og dvöl áhafna og farþega ríkisskipa.

III. KAFLI
Breyting á lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, nr. 93/2008, með síðari breytingum.

3. gr.

     3. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Þvingunaraðgerðir alþjóðastofnana o.fl.
     Ríkisstjórninni er heimilt, að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis, sbr. lög um þingsköp Alþingis, að taka þátt í og gera þær ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til þess að framkvæma ákvarðanir alþjóðastofnana, ríkjahópa eða samstarfsríkja um þvingunaraðgerðir sem miða að því að viðhalda friði og öryggi og/eða tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. 3. mgr. orðast svo:
  2.      Nú er gefinn út listi yfir aðila, hluti, tækni eða annað viðfang þvingunaraðgerða og er þá heimilt að birta erlendan frumtexta listans í B-deild Stjórnartíðinda, að vísa til hans á vefsetri öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eða í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins eða að birta hann á vefsetri utanríkisráðuneytisins og telst það lögmæt birting.
  3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Ráðherra er heimilt að banna viðskipti með hrádemanta frá átakasvæðum og tól sem nota má til pyntinga eða við framkvæmd dauðarefsingar.


IV. KAFLI
Breyting á lögum um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu, nr. 58/2010, með síðari breytingum.

5. gr.

     Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Samanlagður eignarhluti erlendra aðila í íslensku atvinnufyrirtæki sem framleiðir hluti sem falla undir 4. gr. eða veitir þjónustu sem fellur undir grein þessa má á hverjum tíma ekki vera meiri en 49%, nema með leyfi ráðherra. Ákvæði þetta skerðir ekki réttindi samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.

6. gr.

     B-liður 14. gr. laganna orðast svo: að birta erlendan frumtexta lista yfir hluti eða þjónustu skv. 4. og 5. gr. í B-deild Stjórnartíðinda, að vísa til hans á vefsetri öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eða í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins eða að birta hann á vefsetri utanríkisráðuneytisins og telst það lögmæt birting.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi eftirfarandi lög og tilskipun:
  1. Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að banna að veita upplýsingar um ferðir skipa, nr. 9/1940.
  2. Tilskipun um aðgang herskipa og herloftfara erlendra ríkja, er ekki eiga í ófriði, að íslensku forráðasviði, nr. 44/1939.


Ákvæði til bráðabirgða.
     Ákvæði 5. gr. taka til fjárfestinga sem eiga sér stað eftir gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 1. júlí 2015.