Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1236, 151. löggjafarþing 11. mál: barnalög (skipt búseta barna).
Lög nr. 28 23. apríl 2021.

Lög um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum (skipt búseta barns).


1. gr.

     Í stað 1. mgr. 28. gr. a laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barn.
     Ef forsjárforeldrar hafa samið um lögheimili og fasta búsetu barns hjá öðru þeirra hefur það foreldri sem barnið á lögheimili hjá heimild til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Forsjárforeldrar skulu þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta.
     Ef forsjárforeldrar hafa samið um skipta búsetu barns skulu þeir sameiginlega taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins skv. 2. mgr.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
 1. Í stað tilvísunarinnar „1. mgr.“ í 2. mgr. kemur: 2. mgr.
 2. Í stað tilvísunarinnar „3.–5. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 4.–6. mgr.
 3. Á eftir tilvísuninni „32. gr.“ í 4. mgr. kemur: 32. gr. a.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 29. gr. a laganna:
 1. 1. málsl. fellur brott.
 2. Á eftir tilvísuninni „32. gr.“ í 2. málsl. kemur: og 32. gr. a.


4. gr.

     Í stað 2.–4. málsl. 1. mgr. 31. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Foreldrar skulu semja um hvernig lögheimili og búsetu barns verði háttað í samræmi við ákvæði 32. gr.

5. gr.

     32. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Samningar foreldra um forsjá, lögheimili og búsetu.
     Foreldrar geta samið um forsjá, lögheimili og búsetu barns. Samningar skulu ávallt taka mið af því sem best hentar hag og þörfum barnsins.
     Foreldrar geta samið um að forsjá barns verði sameiginleg. Forsendur þess að semja um sameiginlega forsjá eru að foreldrar geti haft fullnægjandi samvinnu og samráð um málefni barns. Foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns án þess að búa saman skulu greina hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili og að jafnaði fasta búsetu.
     Foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns án þess að búa saman geta einnig samið um skipta búsetu barns þannig að barnið eigi fasta búsetu hjá þeim báðum. Forsendur þess að semja um skipta búsetu barns eru þær að foreldrar geti komið sér saman um atriði er snúa að umönnun og uppeldi barnsins og að búsetu foreldra sé þannig háttað að barnið sæki einn skóla eða leikskóla og eigi frjálsan og greiðan aðgang að samfelldu tómstundastarfi og öðrum frístundum frá báðum heimilum. Ef samið er um skipta búsetu barns skulu foreldrar ákveða hjá hvoru þeirra barnið skuli eiga lögheimili og hjá hvoru þeirra barnið skuli eiga búsetuheimili hér á landi. Ákvæði þetta gildir ekki um hjón sem skrá lögheimili hvort á sínum staðnum. Við staðfestingu sýslumanns á samningi um skipta búsetu fellur niður samningur, úrskurður, dómsátt eða dómur sem kann að liggja fyrir um umgengni og meðlag.
     Foreldrar geta samið um breytingu á forsjá, lögheimili eða búsetu barns.
     Foreldrar geta falið öðrum forsjá barns síns með samningi. Ef forsjá barns er í höndum annars foreldrisins skal leitað umsagnar hins foreldrisins.
     Samning foreldra um forsjá, lögheimili eða búsetu barns má tímabinda, þó ekki skemur en til sex mánaða.

6. gr.

     Á eftir 32. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 32. gr. a og 32. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (32. gr. a.)
Staðfesting sýslumanns á samningi um forsjá, lögheimili og búsetu.
     Samningur um forsjá, lögheimili eða búsetu barns öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns.
     Sýslumaður skal leiðbeina foreldrum um inntak forsjár og um þau réttaráhrif sem fylgja skráningu lögheimilis og búsetu barns.
     Sýslumanni ber með úrskurði að synja um staðfestingu samnings ef hann er andstæður hag og þörfum barns eða ef hann er andstæður lögum.
     Sýslumaður skal senda Þjóðskrá Íslands upplýsingar um hvernig forsjá, lögheimili eða búsetu barns er háttað. Sé um að ræða skipta búsetu barns skal barn skráð í þjóðskrá með lögheimili hjá öðru foreldrinu og búsetuheimili hjá hinu foreldrinu.
     
     b. (32. gr. b.)
Brottfall samnings um skipta búsetu barns.
     Ef foreldri telur forsendur skiptrar búsetu barns vera brostnar getur það snúið sér til sýslumanns sem staðfestir brottfall samnings.
     Sýslumaður skal leiðbeina báðum foreldrum um réttaráhrif af brottfalli samnings.
     Samningur um skipta búsetu barns fellur úr gildi við þingfestingu máls sem annað foreldri höfðar á hendur hinu um forsjá eða lögheimili barns. Samningur um skipta búsetu barns fellur jafnframt úr gildi við flutning annars foreldris úr landi.
     Sýslumaður skal senda Þjóðskrá Íslands upplýsingar um brottfall samnings um skipta búsetu barns.
     Eftir brottfall samnings um skipta búsetu barns skal lögheimili barns vera áfram hjá því foreldri sem það hefur skráð lögheimili hjá nema foreldrar séu sammála um annað.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 33. gr. laganna:
 1. Á eftir „lögheimilis-“ í 1. málsl. kemur: búsetu-.
 2. Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við um mál er varða synjun staðfestingar samnings um forsjá, lögheimili, búsetu eða umgengni eða brottfall samnings um skipta búsetu barns.


8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. a laganna:
 1. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sýslumaður getur einnig boðið aðilum mála er varða synjun staðfestingar samnings um forsjá, lögheimili, búsetu eða umgengni eða brottfall samnings um skipta búsetu barns sáttameðferð ef sýslumaður telur hana geta þjónað tilgangi við meðferð máls.
 2. 3. málsl. 3. mgr. orðast svo: Eftir atvikum skal gefa barni kost á að tjá sig við sáttameðferð og taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.


9. gr.

     Á eftir 33. gr. a laganna kemur ný grein, 33. gr. b, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Samtal að frumkvæði barns.
     Barn getur snúið sér til sýslumanns með ósk um að hann boði foreldra til samtals um fyrirkomulag forsjár, lögheimilis, búsetu og umgengni.
     Markmið samtals er að leiðbeina barni og foreldrum og leitast við að stuðla að fyrirkomulagi sem er barni fyrir bestu að teknu tilliti til sjónarmiða barnsins. Sýslumaður getur óskað eftir liðsinni sérfræðings í málefnum barna skv. 74. gr. við undirbúning og framkvæmd samtalsins.
     Ákvæði 3. mgr. 33. gr. á við um þagnarskyldu þeirra sem koma að undirbúningi og framkvæmd samtals.
     Ráðherra setur nánari reglur um samtal samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, svo sem um hæfi sérfræðinga, undirbúning og fyrirkomulag samtals.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
 1. Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Dómara ber að synja foreldrum um dómsátt ef hún er andstæð hag og þörfum barns eða ef hún er andstæð lögum.
 2. Við 4. málsl. 3. mgr. bætist: og þar með fasta búsetu.
 3. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki verður kveðið á um skipta búsetu barns með dómi en foreldrar geta ákveðið skipta búsetu barns með dómsátt þannig að barnið eigi fasta búsetu hjá þeim báðum.


11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
 1. 2. málsl. 2. mgr. fellur brott.
 2. Á eftir orðinu „Landsrétti“ í 2. málsl. 4. mgr. og lokamálslið 8. mgr. kemur: eða Hæstarétti.


12. gr.

     Á eftir 1. mgr. 38. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Dómara ber að tilkynna sýslumanni í því umdæmi þar sem barn býr um þingfestingu máls um forsjá eða lögheimili barns.

13. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 43. gr. laganna orðast svo: Gefa skal barni kost á að tjá sig um mál og taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.

14. gr.

     Í stað 4. og 5. mgr. 46. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Foreldrar geta samið um hvernig skipa skuli umgengnisrétti, þ.m.t. hvort þeirra greiði kostnað vegna umgengni. Samningar skulu ávallt taka mið af því sem best hentar hag og þörfum barns.
     Foreldrar geta samið um að barn dvelji til jafns hjá lögheimilisforeldri og umgengnisforeldri. Forsendur þess að semja um slíkt fyrirkomulag eru að samvinna foreldra um umgengnina þjóni hagsmunum barns og að búsetu foreldra sé þannig háttað að barnið sæki einn skóla eða leikskóla og eigi frjálsan og greiðan aðgang að samfelldu tómstundastarfi og öðrum frístundum frá heimilum beggja foreldra.
     Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna geta foreldrar óskað staðfestingar sýslumanns á samningi skv. 4. og 5. mgr. Sýslumaður skal leiðbeina þeim um réttaráhrif samnings. Sýslumanni ber að synja um staðfestingu samnings ef hann er andstæður hag og þörfum barns eða ef hann er andstæður lögum.

15. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „3.–5. mgr.“ í 2. mgr. 46. gr. a og 2. mgr. 46. gr. b laganna kemur: 3.–6. mgr.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 47. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „Ef foreldra“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna og foreldra.
 2. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sýslumanni ber að líta sérstaklega til forsendna sem fram koma í 5. mgr. 46. gr.


17. gr.

     Í stað orðanna „Ef foreldra“ í 1. mgr. 47. gr. b laganna kemur: Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna og foreldra.

18. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „3. mgr.“ í 2. mgr. 51. gr. laganna kemur: 5. mgr.

19. gr.

     1. mgr. 51. gr. a laganna orðast svo:
     Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna sem fara sameiginlega með forsjá þess og foreldra greinir á um utanlandsferð barns úrskurðar sýslumaður, að kröfu foreldris, um rétt til að fara í ferðalag með barn úr landi.

20. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 53. gr. laganna:
 1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Foreldrum sem barn býr hjá er skylt að framfæra barn sitt, báðum saman og hvoru um sig eftir atvikum.
 2. 2. mgr. fellur brott.
 3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Framfærsluskylda foreldra sem barn býr hjá.


21. gr.

     54. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Framfærsluskylda foreldris sem barn býr ekki hjá.
     Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna ber hinu foreldrinu skylda til að taka þátt í framfærslu barnsins með greiðslu kostnaðar við framfærsluna eða með greiðslu meðlags.
     Við skilnað, sambúðarslit eða breytingu á forsjá, lögheimili eða búsetu barns hvílir sú skylda á báðum foreldrum að tryggja að réttur barnsins til framfærslu sé virtur.

22. gr.

     Á eftir 54. gr. laganna kemur ný grein, 54. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Framfærsluskylda stjúp- og sambúðarforeldra.
     Stjúp- eða sambúðarforeldri sem barn býr hjá er skylt að framfæra barnið sem væri það eigið barn þess ef það fer með forsjá þess skv. 29. gr. a. Ákvæði 53. eða 54. gr. eiga við eftir atvikum þegar stjúp- eða sambúðarforeldri fer með forsjá barns eftir skilnað eða sambúðarslit ef annað kynforeldra barns er látið.

23. gr.

     55. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Samningur um framfærslu eða meðlag.
     Foreldrar sem búa ekki saman geta samið um hvernig skipta skuli kostnaði vegna framfærslu barns. Samningar skulu ávallt taka mið af því sem best hentar hag og þörfum barnsins.
     Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna geta foreldrar samið um að hitt foreldrið sinni framfærsluskyldu sinni með greiðslu meðlags.
     Foreldrar geta óskað staðfestingar sýslumanns á samningi um meðlag skv. 2. mgr. Sýslumaður skal leiðbeina þeim um réttaráhrif samnings. Sýslumanni ber að synja um staðfestingu samnings ef hann er andstæður hag og þörfum barns eða ef hann er andstæður lögum. Foreldrar geta einnig gert sátt fyrir dómi um greiðslu meðlags.
     Ekki má takmarka framfærsluskyldu foreldris við lægri aldur barns en 18 ár.
     Ef samið er um greiðslu meðlags má ekki miða við lægri fjárhæð en sem nemur barnalífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar. Nefnist það einfalt meðlag í lögum þessum.

24. gr.

     1. mgr. 56. gr. laganna orðast svo:
     Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna getur það foreldri þar sem barn á lögheimili samkvæmt ákvæðum laga þessara krafist þess að meðlag sé ákveðið og innheimt. Sama rétt hefur sá sem stendur straum af útgjöldum vegna framfærslu barns enda búi barnið alfarið hjá honum samkvæmt lögmætri skipan.

25. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
 1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna og foreldra greinir á um framfærslu barnsins getur sýslumaður úrskurðað það foreldri sem barnið býr ekki hjá til að greiða meðlag með barninu.
 2. Orðið „þó“ í 2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
 3. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við um ágreining foreldra sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð eftir samvistarslit og fram til þess tíma er samið hefur verið um forsjá, lögheimili og búsetu.
 4. Í stað orðanna „forsjá, sbr. 4. mgr.“ í 4. mgr. kemur: forsjá eða lögheimili, sbr. 6. mgr.
 5. Í stað orðanna „faðerni eða forsjá“ í 6. mgr. kemur: faðerni, forsjá eða lögheimili.


26. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 60. gr. laganna:
 1. Í stað 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 2.      Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna geta foreldrar óskað staðfestingar sýslumanns á samningi vegna útgjalda við skírn, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, sjúkdóm, greftrun eða af öðru sérstöku tilefni. Sýslumaður skal leiðbeina þeim um réttaráhrif samnings.
       Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna er heimilt að úrskurða það foreldri sem barn býr ekki hjá til að inna af hendi sérstakt framlag vegna útgjalda skv. 1. mgr.
 3. Í stað tilvísunarinnar „1. mgr.“ í 2. mgr. kemur: 2. mgr.
 4. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Sérstök útgjöld.


27. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
 1. Í stað 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 2.      Þrátt fyrir ákvæði 61. gr. getur sýslumaður staðfest samning foreldris og ungmennis um að foreldri greiði ungmenni framlag til menntunar eða starfsþjálfunar frá 18 ára aldri þar til það nær 20 ára aldri. Sýslumaður skal leiðbeina þeim um réttaráhrif samnings.
       Heimilt er að úrskurða foreldri til að inna af hendi framlag skv. 1. mgr. Ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 57. gr. á hér við að sínu leyti.
 3. Í stað tilvísunarinnar „1. mgr.“ í 2. mgr. kemur: 2. mgr.


28. gr.

     Á eftir orðunum „fyrir fram“ í 1. mgr. 63. gr. laganna kemur: með reglubundnum greiðslum.

29. gr.

     64. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Breyting á samningi eða dómsátt um meðlag eða um skiptingu framfærslu.
     Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna getur sýslumaður með úrskurði um meðlag breytt samningi foreldra um skiptingu kostnaðar vegna framfærslu barns eða um greiðslu meðlags, sbr. 55. gr., eða dómsátt, ef rökstudd krafa kemur fram um það, ef:
 1. aðstæður hafa breyst verulega,
 2. samningur eða dómsátt gengur í berhögg við þarfir barns eða
 3. samningur eða dómsátt er ekki í samræmi við fjárhagsstöðu foreldra.

     Þegar krafist er breytinga á samningi um framfærslu barns eða meðlag, eða dómsátt, verður meðlag ekki ákvarðað lengra aftur í tímann en frá því að krafa var sett fram nema alveg sérstakar ástæður leiði til þess.

30. gr.

     67. gr. laganna orðast svo:
     Sá sem er búsettur hér á landi og á rétt á greiðslum skv. IV. og IX. kafla getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og óskað eftir því að fá greitt samkvæmt þessu ákvæði.
     Tryggingastofnun ríkisins er skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt:
 1. dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns um meðlag eða samningi foreldra um meðlag staðfestum af sýslumanni, þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur einföldu meðlagi,
 2. úrskurði sýslumanns um framlag vegna sérstakra útgjalda skv. 60. gr. og vegna framlags til menntunar eða starfsþjálfunar skv. 62. gr.,
 3. samningi foreldra staðfestum af sýslumanni um framlag vegna sérstakra útgjalda skv. 60. gr., þó einungis vegna útgjaldaliða sem ákveðnir eru í leiðbeiningum skv. 4. mgr. sömu greinar og aldrei hærri fjárhæð en sem nemur hámarksfjárhæð sem þar er tilgreind,
 4. samningi foreldris og ungmennis staðfestum af sýslumanni vegna framlags til menntunar eða starfsþjálfunar skv. 62. gr., þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur einföldu meðlagi.


31. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (I.)
     Ákvæði barnalaga og framkvæmd þeirra skulu endurskoðuð innan þriggja ára frá samþykkt laga þessara. Ráðherra skal kynna niðurstöður endurskoðunarinnar eigi síðar en á haustþingi 2024.
     
     b. (II.)
     Skipa skal þrjá starfshópa, einn á vegum félagsmálaráðuneytis, annan á vegum heilbrigðisráðuneytis og þriðja á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis, sem falið verði að leggja til hvernig breyta skuli lögum og reglugerðum sem heyra undir málefnasvið þeirra og meta þörf á breytingum með hliðsjón af skiptri búsetu barns og öðrum atriðum eftir atvikum. Hver starfshópur skili niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. október 2021. Ráðherra í hverju ráðuneyti leggi, eftir atvikum, fram frumvarp sem byggist á niðurstöðum viðkomandi starfshóps eigi síðar en 1. nóvember 2021.

32. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2022. Þó öðlast b-liður 31. gr. þegar gildi.

33. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Barnaverndarlög, nr. 80/2002:
  1. Við 1. mgr. 15. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef foreldrar hafa samið um skipta búsetu barns samkvæmt ákvæðum barnalaga á barnaverndarnefnd í umdæmi þar sem barnið á lögheimili úrlausn um málefni þess, sbr. þó 3. og 4. mgr.
  2. Við 3. mgr. 24. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef foreldrar hafa samið um skipta búsetu barns samkvæmt ákvæðum barnalaga nægir samþykki þess foreldris sem úrræði beinast að.
  3. Á eftir orðunum „15 ára“ í 2. málsl. 4. mgr. 25. gr. laganna kemur: og býr hjá öðru foreldra sinna.
  4. Á eftir 67. gr. b laganna kemur ný grein, 67. gr. c, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
  5. Réttarstaða þegar foreldrar hafa samið um skipta búsetu barns.
        Ef foreldrar hafa samið um skipta búsetu barns samkvæmt ákvæðum barnalaga og annað foreldra afsalar sér umsjá barns skv. 25. gr. eða kveðinn er upp úrskurður um tímabundna vistun barns utan heimilis annars foreldris skv. 27. eða 28. gr. fer hitt foreldrið áfram með umsjá barnsins.
        Ef annað foreldra afsalar sér forsjá skv. 25. gr. eða er eitt svipt forsjá skv. 29. gr. fer hitt foreldrið eftir það eitt með forsjá barnsins og fellur skipt búseta samkvæmt barnalögum varanlega niður. Um réttindi barnsins fer skv. 70. gr.
  6. Í stað orðanna „67. gr. a eða 67. gr. b“ í 2. málsl. 2. mgr. 70. gr. laganna kemur: 67. gr. a, 67. gr. b eða 67. gr. c.
 2. Lög um félagslega aðstoð, nr. 99/2007: Í stað tilvísunarinnar „1. mgr.“ tvívegis í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: 2. mgr.
 3. Hjúskaparlög, nr. 31/1993:
  1. Í stað orðanna „framfærslueyri með því“ í 1. mgr. 44. gr. laganna kemur: lögheimili þess.
  2. Í stað orðsins „framfærslueyri“ í 2. mgr. 44. gr. laganna kemur: lögheimili barns.
 4. Lög um húsnæðisbætur, nr. 75/2016: Í stað tilvísunarinnar „5. mgr.“ í 3. mgr. 10. gr. laganna kemur: 6. mgr.
 5. Lög um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018:
  1. 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: Hafi hjón slitið samvistir og fyrir liggur staðfestur samningur, dómur eða dómsátt um hjá hvoru þeirra lögheimili barns skuli vera skal skrá lögheimili barnsins hjá öðru þeirra og eftir atvikum búsetuheimili hjá hinu ef um skipta búsetu barns er að ræða hér á landi samkvæmt ákvæðum barnalaga.
  2. Við 1. mgr. 6. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Hafi foreldrar samið um skipta búsetu barns samkvæmt ákvæðum barnalaga hefur barnið skráð lögheimili hjá öðru foreldri sínu og skráð búsetuheimili hjá hinu hér á landi. Samningur um skipta búsetu barns fellur úr gildi við flutning annars foreldris úr landi. Þegar um skipta búsetu barns er að ræða samkvæmt ákvæðum barnalaga er hvorki unnt að flytja lögheimili né búsetuheimili barns úr landi.
 6. Lög um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019: Við 1. mgr. 6. gr. laganna bætist nýr töluliður, sem verður 13. tölul., svohljóðandi: búsetuheimili.
 7. Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003:
  1. Við 1. mgr. 64. gr. laganna bætist: og barnið er með skráð lögheimili hjá.
  2. Við 1. mgr. A-liðar 68. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar foreldrar hafa samið um skipta búsetu barns samkvæmt ákvæðum barnalaga teljast, þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. málsl., báðir foreldrar framfærendur þess í skilningi ákvæðisins. Ákvarðast barnabætur vegna barnsins til hvors foreldris skv. 4. mgr. í samræmi við fjölskyldustöðu hvors þeirra fyrir sig í árslok og aldur barns og takmarkast við helming af útreiknuðum barnabótum eftir að tekið hefur verið tillit til tekjuskerðingar miðað við framangreindar aðstæður hjá hvoru þeirra um sig.
  3. Á eftir 10. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar foreldrar hafa samið um skipta búsetu barns, sbr. 1. mgr. A-liðar, og eru hvorki í hjúskap né uppfylla skilyrði til samsköttunar eða eru sannanlega í sambúð í árslok, ákvarðast vaxtagjöld þeirra, sbr. 3. mgr., og vaxtabætur líkt og hjá einstæðum foreldrum.
  4. Við 1. mgr. 81. gr. laganna bætist: og barnið er með skráð lögheimili hjá.
  5. Við 2. málsl. 2. mgr. 90. gr. laganna bætist: og hvílir framtalsskylda á því foreldri sem barn á skráð lögheimili hjá.
 8. Lög um útlendinga, nr. 80/2016: Í stað tilvísunarinnar „3. mgr.“ í b-lið 1. mgr. 46. gr. laganna kemur: 5. mgr.
 9. Lög um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl., nr. 160/1995: Í stað tilvísunarinnar „3. mgr.“ í 2. mgr. 13. gr. laganna kemur: 4. mgr.


Samþykkt á Alþingi 15. apríl 2021.