Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. febrúar 1997.  Útgáfa 121a.  Prenta í tveimur dálkum.


Byggingarlög

1978 nr. 54 16. maíI. kafli. Gildissvið laganna.
1. gr. Lög þessi taka til hvers konar bygginga ofanjarðar og neðan og annarra mannvirkja, sem áhrif hafa á útlit umhverfisins. Undanþegin ákvæðum þessara laga eru þó götur og vegir, framræsluskurðir, girðingar á lögbýlum, flugbrautir, holræsi, dreifikerfi rafmagns, síma, hitaveitna og vatns, svo og hafnarmannvirki og virkjunarmannvirki að undanskildum húsbyggingum tilheyrandi þessum mannvirkjum.
Mannvirki undanþegin ákvæðum þessara laga skulu byggð í samræmi við ákvæði skipulagslaga og laga um náttúruvernd.
Leiki vafi á því, hvort mannvirki er háð ákvæðum laga þessara, skal [umhverfisráðuneytið] 1) úrskurða um það.
    1)L. 47/1990, 15. gr.
2. gr. Þar sem sérstaklega stendur á, getur ráðuneytið, að fenginni umsókn hlutaðeigandi sveitarstjórnar og umsögn skipulagsstjórnar, heimilað sveitarfélagi tímabundna undanþágu frá tilteknum ákvæðum laganna.

II. kafli. Yfirstjórn byggingarmála, almenn byggingarreglugerð og byggingarsamþykktir.
3. gr. [Umhverfisráðuneytið] 1) fer með yfirstjórn byggingarmála. Ráðuneytinu til aðstoðar eru Skipulagsstjórn ríkisins, Brunamálastofnun ríkisins og aðrar stofnanir, sem fara með málefni, sem snerta framkvæmd laga þessara.
    1)L. 47/1990, 15. gr.
4. gr. [Umhverfisráðuneytið] 1) setur almenna byggingarreglugerð 2) svo og sérreglugerðir með ákvæðum um staðla á ýmsum sviðum byggingariðnaðarins.
Í byggingarreglugerð skal mælt fyrir um, hvernig háttað skuli undirbúningi, gerð, tæknilegum frágangi og viðhaldi bygginga og annarra mannvirkja, sem lög þessi taka til. Í byggingarreglugerð skal kveðið á um þær kröfur, sem gerðar eru varðandi m.a. undirstöður, byggingarefni, burðarþol, einangrun gegn kulda, raka og hávaða, loftræstingu, lagnir, birtu, svo og aðra hollustuhætti og eldvarnir, að því leyti sem ekki er kveðið á um slíkt annars staðar. Þá skulu í byggingarreglugerð vera ákvæði um þær lágmarkskröfur, sem gerðar eru varðandi einstaka hluta byggingar og mismunandi tegundir bygginga, umgengni á vinnustöðvum og frágang lóða. Enn fremur skal í byggingarreglugerð kveðið á um réttindi og skyldur byggingarstjóra, starfssvið hönnuða og iðnmeistara, hversu háttað skuli byggingareftirliti, verksviði byggingarfulltrúa, gjöldum fyrir byggingarleyfi, mælingar, úttektir og vottorð, sem byggingarfulltrúi lætur í té, og hvernig þau skuli innheimt.
Í byggingarreglugerð skal setja ákvæði varðandi umbúnað bygginga til þess að auðvelda ellihrumu og fötluðu fólki að komast leiðar sinnar.
Í byggingarreglugerð skal skýra orð og hugtök, sem þar er fjallað um og orkað geta tvímælis, s.s. varðandi stærðir og byggingarstig mannvirkja.
Birta skal hina almennu byggingarreglugerð og sérreglugerðir í B-deild Stjórnartíðinda.
    1)L. 47/1990, 15. gr. 2)Rg. 177/1992, sbr. 72/1993, 371/1994 og 231/1996.
5. gr. Sveitarstjórnum er heimilt að setja í sérstaka byggingarsamþykkt fyllri ákvæði m.a. um stjórn og meðferð byggingarmála, um réttindi og skyldur iðnmeistara og byggingarfulltrúa og starfsreynslu. Til þess að byggingarsamþykkt öðlist gildi, þarf [umhverfisráðuneytið] 1) að staðfesta hana að fenginni umsögn skipulagsstjórnar ríkisins. Byggingarsamþykktir skal birta í B-deild Stjórnartíðinda. 2)
    1)L. 47/1990, 15. gr. 2) Augl. 23/1967 um fyrirmynd að byggingarsamþykkt fyrir skipulagsskylda staði utan Reykjavíkur.

III. kafli. Byggingarnefndir.
6. gr. Í hverju sveitarfélagi skal eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar kjósa byggingarnefnd, sbr. þó 2. mgr. Byggingarnefnd skal skipuð 3, 5 eða 7 mönnum eftir ákvörðun sveitarstjórnar. Sveitarstjórn kýs menn í byggingarnefnd, aðalmenn og varamenn, samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Nefndin skiptir með sér verkum.
Heimilt er sveitarfélagi að hafa samvinnu við nágrannasveitarfélag eða -félög um kosningu svæðisbyggingarnefndar og ráðningu byggingarfulltrúa, sbr. 24. gr. Hlutaðeigandi sveitarfélög skulu þá gera með sér samning um stofnun svæðisbyggingarnefndar. Skal þar m.a. kveðið á um tölu nefndarmanna og kosningu þeirra, svo og hvernig skipta skuli kostnaði af störfum nefndarinnar og störfum byggingarfulltrúa. [Umhverfisráðuneytið] 1) skal staðfesta slíka samninga og úrskurðar jafnframt ágreiningsatriði, sem upp kunna að koma.
Starfsmenn sveitarfélaga eru kjörgengir í byggingarnefnd.
Byggingarfulltrúi eða staðgengill hans skal sitja alla fundi byggingarnefndar.
Sveitarstjórn og svæðisbyggingarnefnd geta ákveðið, að starfsmenn sveitarfélags og aðrir opinberir starfsmenn, sem fjalla um byggingar- og skipulagsmál, sitji fundi byggingarnefndar með málfrelsi og tillögurétti.
Skipulagsstjóri ríkisins eða staðgengill hans hefur rétt til setu á fundum byggingarnefnda með málfrelsi og tillögurétti.
    1)L. 47/1990, 15. gr.
7. gr. Byggingarnefnd fer með byggingarmálefni sveitarfélags undir yfirstjórn sveitarstjórnar og ráðuneytis, sbr. þó 7. mgr. 8. gr.
Byggingarnefnd fjallar um byggingarleyfisumsóknir og hefur umsjón með því, að byggt sé í samræmi við skipulag og að lög og reglur um byggingarmálefni séu haldin.
Byggingarnefnd annast þau störf, sem greinir í lögum þessum og öðrum lögum og reglum um byggingarmálefni.
Enn fremur er sveitarstjórn heimilt að fela byggingarnefnd önnur störf á sviði byggingarmála, s.s. að fjalla um og gera tillögur til sveitarstjórnar varðandi skipulagsmál, nöfn gatna, torga og bæjarhluta.
8. gr. Byggingarnefnd skal halda reglulega fundi a.m.k. mánaðarlega, svo framarlega sem erindi liggja til afgreiðslu. Nefndin ákveður nánar fundardaga, fundartíma og fundarstað. Byggingarnefnd skal halda gerðabók, og skulu viðstaddir fundarmenn undirrita fundargerð hverju sinni.
Byggingarnefnd er ályktunarfær, ef meiri hluti nefndarmanna er mættur á fundi og hefur tekið þátt í afgreiðslu máls. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn með máli og móti, er málið fallið.
1)
Synji byggingarnefnd byggingarleyfisumsókn, skal nefndin rökstyðja synjunina, sé þess sérstaklega óskað.
Ályktanir byggingarnefndar skal bera undir sveitarstjórn til samþykktar eða synjunar. Ef sveitarstjórn samþykkir ályktun byggingarnefndar, öðlast ályktunin gildi, enda sé skilyrðum IV. kafla laga þessara fullnægt.
Hafi sveitarstjórn ekki tekið ályktun byggingarnefndar til afgreiðslu innan 2ja mánaða, frá því að hún var gerð, öðlast ályktunin gildi, enda hafi ákvæðum IV. kafla laganna verið fullnægt.
Rísi ágreiningur milli sveitarstjórnar og byggingarnefndar um afgreiðslu máls, sker [umhverfisráðherra] 2) úr, en leita skal hann áður umsagnar skipulagsstjórnar.
Telji einhver rétti sínum hallað með ályktun byggingarnefndar eða sveitarstjórnar, er honum heimilt að skjóta máli sínu til úrskurðar [umhverfisráðherra] 2) innan þriggja mánaða, frá því honum varð kunnugt um ályktunina. [Umhverfisráðherra] 2) skal kveða upp úrskurð sinn um ágreininginn innan þriggja mánaða frá áfrýjun, og skal hann áður hafa leitað umsagnar hlutaðeigandi sveitarstjórnar (byggingarnefndar) og skipulagsstjórnar.
    1)L. 37/1993, 36. gr. 2)L. 47/1990, 15. gr.

IV. kafli. Byggingarleyfisumsóknir og byggingarleyfi.
9. gr. Óheimilt er að grafa grunn, reisa hús, rífa hús eða breyta því eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki, sem áhrif hafa á útlit umhverfisins, nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarnefndar.
Framkvæmdir samkvæmt 1. mgr. skulu vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deildarskipulag, sbr. 4. gr. 1. mgr. skipulagslaga.
Í sambandi við niðurrif og breytingar á húsum og öðrum mannvirkjum skal gætt ákvæða IV. kafla laga nr. 52/1969, 1) um friðun húsa og annarra mannvirkja.
Byggingarleyfi skal vera skriflegt og öðlast gildi, þegar eftirtöldum skilyrðum hefur verið fullnægt:
    1. Sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt byggingarnefndar um veitingu byggingarleyfis og byggingarfulltrúi áritað aðaluppdrátt.
    2. Þeir, sem ábyrgð bera á byggingarframkvæmdum, hafa undirritað yfirlýsingu, sbr. 2. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 19. gr.
    3. Byggingarleyfisgjöld og önnur tilskilin gjöld hafa verið greidd.
Staðfesting á samþykkt byggingarnefndar, skv. 1. tölul., fellur úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða frá samþykki sveitarstjórnar.
    1)l. 88/1989.
10. gr. Þegar byggingarleyfi hefur verið gefið út fyrir nýbyggingu á skipulögðu svæði í þéttbýli, er sveitarstjórn skylt að sjá um að götur, rafmagn, vatn og holræsi séu fyrir hendi, eftir því sem þörf er á, nema sérstakur fyrirvari hafi verið gerður á.
11. gr. Sá, sem óskar leyfis til framkvæmda samkvæmt 9. gr., skal senda um það skriflega umsókn til hlutaðeigandi byggingarnefndar ásamt nauðsynlegum uppdráttum og skilríkjum, þar með talið samþykki meðeigenda ef um sameign er að ræða. Í byggingarreglugerð skal kveðið nánar á um, hvaða önnur gögn skuli fylgja byggingarleyfisumsókn og hvernig frá umsókn og uppdráttum skuli gengið. Í byggingarreglugerð skal enn fremur kveðið á um, hvaða séruppdrætti skuli gera af mannvirkjum og hvenær þeir skuli hafa borist byggingarfulltrúa.
12. gr. Rétt til að gera aðaluppdrætti og séruppdrætti af húsum og öðrum mannvirkjum hafa arkitektar, byggingarfræðingar, tæknifræðingar og verkfræðingar, hver á sínu sviði, svo og búfræðikandidatar úr tæknideildum búnaðarháskóla, að því er landbúnaðarbyggingar varðar, enda hafi viðkomandi tveggja ára starfsreynslu að baki. Þeir, sem hlotið hafa til þess rétt, áður en lög þessi gengu í gildi, halda þeim rétti.
Réttur samkvæmt 1. mgr. til að gera uppdrætti er háður löggildingu, sem [umhverfisráðherra] 1) veitir að fenginni umsögn hlutaðeigandi stéttarfélags og Skipulagsstjórnar ríkisins. Þeir, sem gert hafa uppdrætti í einstökum byggingarnefndarumdæmum fyrir gildistöku laga þessara, halda þeim staðbundnu réttindum. Enn fremur getur ráðherra veitt öðrum en 1. mgr. tekur til slík staðbundin réttindi að fengnum meðmælum viðkomandi byggingarnefndar.
Heimilt er að sameina tvö eða fleiri starfssvið varðandi séruppdrætti fyrir einföld mannvirki.
Uppdrættir skulu bera með sér, hverjir hafa gert þá. Sá, sem gerir aðaluppdrátt, skal að öðru jöfnu sjá um, að aðrir uppdrættir séu samræmdir.
Þeir, sem aðaluppdrætti gera samkvæmt þessari grein, svo og þeir, sem gera séruppdrætti, hver á sínu sviði, skulu árita uppdrættina með eigin hendi og bera á þeim ábyrgð.
Byggingarfulltrúum og starfsmönnum þeirra er óheimilt að gera uppdrætti að byggingum í hlutaðeigandi byggingarnefndarumdæmi, nema sérstaklega standi á, enda hafi byggingarnefnd fyrir fram veitt til þess samþykki sitt.
Varðveita skal a.m.k. eitt eintak af öllum samþykktum uppdráttum af samþykktum byggingarmannvirkjum (aðaluppdráttum og séruppdráttum) í skjalasafni byggingarfulltrúa. Enn fremur skulu áritaðir uppdrættir jafnan vera aðgengilegir á byggingarstað.
Í reglugerð skal nánar kveðið á um þau atriði, sem um ræðir í þessari grein.
    1)L. 47/1990, 15. gr.
13. gr. Byggingarnefnd getur veitt leyfi til að reisa verksmiðjuframleidd hús, enda fullnægi þau ákvæðum gildandi laga. Ákvæði V. kafla laga þessara gilda um slík mannvirki, eftir því sem við á.
Seljandi ber ábyrgð á göllum á verksmiðjuframleiddum húsum eftir almennum reglum.
14. gr. Byggingarleyfi veitir ekki heimild til framkvæmda, sem brjóta í bága við skipulag og ákvæði laga og reglugerða eða rétt annarra.
15. gr. Byggingarleyfi fellur úr gildi, ef byggingarframkvæmdir eru ekki hafnar innan 12 mánaða, frá því leyfið var gefið út. Byggingarframkvæmdir teljast hafnar í þessu sambandi, þegar undirstöður hafa verið steyptar. Nú stöðvast byggingarframkvæmdir eitt ár eða lengur og getur byggingarnefnd þá fellt úr gildi þann hluta leyfisins, sem ekki er farið að nota.
Hafi byggingarframkvæmdir stöðvast í tvö ár hið skemmsta, getur sveitarstjórn, að fengnum tillögum byggingarnefndar, með sex mánaða fyrirvara lagt dagsektir á byggingarleyfishafa, sbr. 36. gr., eða tekið ófullgerðar byggingarframkvæmdir eignarnámi samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Sveitarstjórn er heimilt að setja strangari ákvæði um byggingarhraða.

V. kafli. Umsjón með byggingarframkvæmdum.
16. gr. Heimilt er við gerð hvers mannvirkis að hafa einn ábyrgan aðila, sem nefnist byggingarstjóri. Byggingarnefnd veitir byggingarstjórum viðurkenningu.
17. gr. Byggingarstjóri er framkvæmdastjóri byggingarframkvæmda. Hann ræður iðnmeistara í upphafi verks í samráði við eiganda eða samþykkir ráðningu þeirra. Sama gildir um uppsögn iðnmeistara. Að öðru leyti fer um umboð byggingarstjóra, verksvið hans og ábyrgð gagnvart eiganda byggingarframkvæmda eftir lögum og samningi þeirra.
18. gr. Byggingarstjóri ber ábyrgð gagnvart byggingarnefnd og öðrum aðilum á því, að framkvæmdir séu í samræmi við samþykkta uppdrætti og að öðru leyti í samræmi við lög.
Byggingarstjóri skal, áður en byggingarframkvæmdir hefjast, undirrita yfirlýsingu um ábyrgð sína, eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð.
Nánari ákvæði um réttindi og skyldur byggingarstjóra skulu sett í reglugerð.
19. gr. Ákvæði 16.–18. gr. hagga í engu réttindum og skyldum byggingariðnaðarmanna, sveina og meistara, samkvæmt lögum um iðju og iðnað og öðrum lögum.
Iðnmeistarar skulu undirrita yfirlýsingu um ábyrgð sína, eftir því sem nánar verður kveðið á um í reglugerð.

VI. kafli. Byggingarfulltrúar o.fl.
20. gr. Sveitarstjórn skal, að fengnum tillögum byggingarnefndar, ráða sér byggingarfulltrúa. Skal byggingarfulltrúa sett erindisbréf í samráði við byggingarnefnd.
Svæðisbyggingarnefndir skv. 2. mgr. 6. gr. skulu, að fengnu samþykki hlutaðeigandi sveitarstjórna, ráða byggingarfulltrúa og setja honum erindisbréf.
21. gr. Byggingarfulltrúi skal vera arkitekt, byggingarfræðingur, byggingartæknifræðingur eða byggingarverkfræðingur. Í dreifbýli er heimilt að ráða búfræðikandidata úr tæknideild búnaðarháskóla í stöðu byggingarfulltrúa.
Fáist ekki maður í stöðu byggingarfulltrúa, sem fullnægi skilyrðum 1. mgr., getur sveitarstjórn að fengnum tillögum byggingarnefndar ráðið húsasmíða- eða múrarameistara til starfans.
Framangreindir aðilar skulu a.m.k. hafa 2ja ára starfsreynslu, sem byggingarnefnd metur gilda.
Þeir, sem gegna störfum byggingarfulltrúa við gildistöku laga þessara, skulu hafa rétt til að gegna starfi sínu áfram, þótt þeir fullnægi ekki skilyrðum 1. mgr.
22. gr. Byggingarfulltrúi er framkvæmdastjóri byggingarnefndar. Hann undirbýr fundi byggingarnefndar og mál, sem þar verða lögð fram. Hann gengur úr skugga um, að byggingaruppdrættir séu í samræmi við lög og reglur, áritar uppdrætti og gefur út byggingarleyfi. Byggingarfulltrúi annast daglegt eftirlit með því, að hús og önnur mannvirki séu byggð í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglur. Hann annast úttektir einstakra þátta byggingarframkvæmda svo og lokaúttekt fullbyggðs mannvirkis, þegar þess er óskað, og gefur út vottorð þar um, allt eftir því sem nánar er kveðið á um í byggingarreglugerð.
Þá annast byggingarfulltrúi önnur þau störf, sem honum eru falin samkvæmt lögum og reglum, og störf, sem byggingarnefnd eða sveitarstjórn hefur falið honum, svo og útmælingu lóða, staðsetningu húsa svo og upplýsingagjöf til Fasteignamats ríkisins, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 94/1976.
23. gr. Nánari ákvæði um verksvið byggingarfulltrúa, skyldur hans og réttarstöðu gagnvart byggingaryfirvöldum og byggingaraðilum skulu sett í reglugerð.
24. gr. Sveitarstjórn (svæðisbyggingarnefnd) skipar aðstoðarmenn byggingarfulltrúa eftir því sem þörf krefur, að fenginni umsögn hans, og starfa þeir í umboði hans. Aðstoðarmenn byggingarfulltrúa skulu vera sérfróðir um byggingarmálefni.
Sveitarstjórn skipar einnig annað starfslið byggingarfulltrúa.
25. gr. Byggingarfulltrúa og starfsliði hans skal heimill aðgangur að byggingarmannvirki til eftirlits á vinnutíma.
26. gr. Nú er viðhald eða frágangi húss eða annars mannvirkis ábótavant að dómi byggingarfulltrúa, og skal hann þá gera eiganda (umráðamanni) þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því, sem áfátt er, innan tiltekins frests.
Sinni eigandi (umráðamaður) ekki áskorun byggingarfulltrúa um úrbætur, skal með slík mál fara samkvæmt 36. gr.
27. gr. Sé ásigkomulag húss eða annars mannvirkis þannig, að hætta geti stafað af og eigandi (umráðamaður) hefur ekki sinnt áskorunum byggingarfulltrúa um úrbætur, getur byggingarnefnd, að fengnu samþykki sveitarstjórnar, látið fjarlægja eða rífa mannvirkið á kostnað eiganda (umráðamanns), en gera skal honum aðvart áður.

VII. kafli. Leyfisgjöld.
28. gr. Í byggingarreglugerð skal kveðið á um hámarksmælingagjöld og byggingarleyfisgjöld, þ.e. gjöld fyrir leyfi til að reisa, stækka eða breyta byggingarmannvirkjum. Enn fremur skal þar kveðið á um gjöld fyrir eftirlit, úttektir og vottorð, sem byggingarfulltrúi lætur í té.
29. gr. Gjöld samkvæmt 28. gr. skulu miðast við vísitölu byggingarkostnaðar 1. janúar ár hvert og renna í sveitarsjóð.
30. gr. Í byggingarreglugerð skal kveðið á um innheimtu byggingarleyfisgjalda. Verði vanskil á greiðslu byggingarleyfisgjalda, getur byggingarfulltrúi neitað að gefa vottorð um viðkomandi mannvirki. Gjaldfallin byggingarleyfisgjöld má innheimta með lögtaki.

VIII. kafli. Viðurlög.
31. gr. Ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, ef byggt er á annan hátt en leyfi stendur til eða ef bygging er tekin til annarra nota en byggingarnefnd hefur heimilað, varðar það sektum. Enn fremur getur byggingarfulltrúi fyrirskipað stöðvun slíkrar framkvæmdar tafarlaust og fyrirskipað brottnám byggingar eða byggingarhluta. Er lögreglunni skylt að veita byggingarfulltrúa aðstoð við slíkar aðgerðir, ef þörf krefur. Byggingarfulltrúi skal, svo fljótt sem við verður komið, gera byggingarnefnd grein fyrir slíku máli.
Hlíti byggingaraðili ekki fyrirmælum byggingarfulltrúa og lögreglu um stöðvun eða brottnám framkvæmda, skal fara með málið að hætti opinberra mála.
Sveitarsjóður á endurkröfu á byggingaraðila á öllum kostnaði, sem hann hefur haft af ólöglegri byggingarframkvæmd, og á sveitarsjóður lögveð fyrir endurgreiðslukröfu sinni í öllu efni, sem komið er í hina óleyfðu byggingarframkvæmd.
32. gr. Ef hönnuður skv. 12. gr. leggur fyrir byggingarnefnd uppdrátt, þar sem brotið er í bága við ákvæði laga, reglugerða eða samþykkta um byggingarmálefni, eða brýtur slíkt ákvæði á annan hátt, getur byggingarnefnd veitt honum áminningu. Hafi byggingarnefnd veitt hönnuði áminningu, skal hún tilkynna [umhverfisráðherra] 1) það. Sama gildir, ef um ítrekað brot er að ræða og ef nefndin telur hönnuð óhæfan til að gera uppdrætti.
Ráðherra getur veitt hönnuði áminningu og við ítrekað brot svipt hann löggildingu skv. 12. gr. um tiltekinn tíma eða fyrir fullt og allt. Áður en ráðherra tekur slíkar ákvarðanir skal hann leita umsagnar viðkomandi aðila, sem mælt er fyrir um í 12. gr.
    1)L. 47/1990, 15. gr.
33. gr. Ef sá, sem ber ábyrgð á byggingarframkvæmdum, brýtur ákvæði laga, reglugerða eða samþykkta um byggingarmálefni, getur byggingarnefnd veitt honum áminningu.
Ef brot er ítrekað eða alvarlegt getur byggingarnefnd svipt hann viðurkenningu skv. 16. gr.
1)
    1)L. 19/1991, 194. gr.
34. gr. Ef hönnuður skv. 12. gr., iðnmeistari eða byggingarstjóri gerist alvarlega brotlegur í starfi, má dæma hann til greiðslu sekta.
35. gr. Brot á lögum þessum, reglugerðum og samþykktum settum samkvæmt þeim varða sektum, sem renna í sveitarsjóð. Í refsimáli skal gefa sveitarstjórn kost á að koma með endurgjaldskröfu vegna kostnaðar, sem sveitarsjóður hefur haft vegna brotsins.
36. gr. Ef aðili sinnir ekki fyrirmælum byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar innan þess frests sem sveitarstjórn setur, getur hún ákveðið dagsektir, þar til úr verður bætt. Hámark dagsekta skal ákveðið í byggingarreglugerð. Dagsektir renna í sveitarsjóð. Skjóta má slíkum málum til dómstóla.
Byggingarnefnd getur látið vinna verk, sem hún hefur lagt fyrir að unnið skyldi, á kostnað þess, sem vanrækt hefur að vinna verkið.
Dagsektir og kostnað skv. 1. og 2. mgr. má innheimta með lögtaki.

IX. kafli. Gildistökuákvæði o.fl.
37. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1979, sbr. þó 2. gr. …
Ákvæði til bráðabirgða.
[Rafiðnfræðingar, rafvirkjameistarar og rafvirkjar, sem störfuðu þann 1. janúar 1996 við raflagnahönnun eða höfðu á næstliðnum 4 árum fengið samþykki opinberra aðila fyrir raflagnateikningum, eiga, þrátt fyrir ákvæði 12. gr., rétt á takmörkuðu starfsleyfi sem raflagnahönnuðir, enda sæki þeir um slíkt leyfi til umhverfisráðherra fyrir 1. janúar 1997.
Ráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd greinar þessarar í reglugerð. 1)] 2)
    1)Rg. 610/1996. 2)L. 92/1996, 1. gr.