Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög í janúar 2002. Útgáfa 127a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum
1992 nr. 54 16. maí
1. gr. Sjávarútvegsráðuneytið veitir leyfi til fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipi að uppfylltum skilyrðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim.
Það telst fullvinnsla í þessu sambandi ef flökun eða flatning botnfisks er þáttur í vinnslunni.
2. gr. [Um nýtingu afla um borð í fullvinnsluskipum gilda ákvæði laga um umgengni um nytjastofna sjávar.
Um útreikning á nýtingu aflaheimilda skal farið að reglugerð um nýtingarstuðla fyrir fullvinnsluskip sem ráðherra setur.] 1)
1)L. 58/1996, 1. gr.
3. gr. [Um borð í fullvinnsluskipi skal vera aðstaða til móttöku, geymslu, vinnslu og frágangs aflans þannig að gæði framleiðslunnar verði tryggð.
Ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð að um borð í fullvinnsluskipum skuli vera sjálfvirkur tækjabúnaður sem tryggi nákvæma vigtun og skráningu innvegins afla og afurða. Setja skal með reglugerð nánari ákvæði um nauðsynlegan búnað í þessu skyni og önnur atriði varðandi framkvæmd laganna.] 1)
1)L. 58/1996, 2. gr.
4. gr. Það er skilyrði fyrir leyfisveitingu, sbr. 1. gr., að fjöldi í áhöfn sé nægilegur til að vinna afla á fullnægjandi hátt miðað við veiðar, vinnslu og gerð skips, að teknu tilliti til áskilins hvíldartíma og að fyrir hendi sé tilskilin aðstaða fyrir þá áhöfn og eftirlitsmenn, sbr. 6. gr.
Í áhöfn skal vera maður með sérþekkingu á viðkomandi framleiðslu er hafa skal umsjón með allri vinnslu ásamt nauðsynlegu gæðaeftirliti. Skal með reglugerð kveða á um menntunarkröfur og starfssvið hans.
5. gr. Áður en fullvinnsluleyfi er veitt skal liggja fyrir álit [Fiskistofu] 1) á því hvort búnaður sé fullnægjandi með hliðsjón af ákvæðum laga þessara og reglugerða settra með stoð í þeim. Þá skal liggja fyrir mat [Siglingastofnunar Íslands] 2) á því hvort reglum um öryggisbúnað varðandi fiskvinnslu og aðbúnað áhafnar sé fullnægt.
1)L. 58/1996, 3. gr. 2)L. 7/1996, 21. gr.
6. gr. [Eftirlitsmaður eða eftirlitsmenn skulu vera um borð í fiskiskipi, sem leyfi hefur til fullvinnslu botnfiskafla um borð, fyrst eftir að leyfi er veitt, svo lengi sem Fiskistofa metur nauðsynlegt með hliðsjón af framkvæmd vinnslunnar. Sama gildir verði það mikil breyting í áhöfn fullvinnsluskips, útgerðarháttum þess eða búnaði að ástæða sé til að ætla að það hafi veruleg áhrif á vinnslu um borð í skipinu. Í annan tíma er veiðieftirliti Fiskistofu heimilt að setja eftirlitsmann eða eftirlitsmenn um borð í fullvinnsluskip eftir því sem ástæða er talin til.
… 1)] 2)
1)L. 34/2000, 11. gr. 2)L. 58/1996, 4. gr.
[7. gr. Brot gegn ákvæðum laga þessara eða reglum 1) settum samkvæmt þeim varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Um mál sem rísa út af brotum gegn ákvæðum þessara laga skal farið að hætti opinberra mála.
Ráðuneytinu er enn fremur heimilt vegna brota á ákvæðum laga þessara, reglna settra samkvæmt þeim og leyfisbréfa að svipta skip leyfi til fullvinnslu botnfiskafla.] 2)
1)Rg. 354/1996. Rg. 510/1998, sbr. 464/1999. Rg. 511/1998, sbr. 448/1999. 2)L. 58/1996, 5. gr.
[8. gr.]1) Lög þessi öðlast þegar gildi.
1)L. 58/1996, 5. gr.
Ákvæði til bráðabirgða. … 1)
1)L. 58/1996, 6. gr.