Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 2007.  Útgáfa 134.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Siglingastofnun Íslands

1996 nr. 6 19. mars


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 29. mars 1996; komu til framkvæmda 1. október 1996. Breytt með l. 38/1997 (tóku gildi 1. jan. 1998), l. 121/1999 (tóku gildi 30. des. 1999), l. 73/2002 (tóku gildi 4. nóv. 2002, sbr. l. 111/2002), l. 29/2003 (tóku gildi 3. apríl 2003; EES-samningurinn: XIV. viðauki reglugerð 1406/2002), l. 39/2004 (tóku gildi 26. maí 2004) og l. 13/2006 (tóku gildi 28. mars 2006).


1. gr. Yfirstjórn.
Samgönguráðherra fer með yfirstjórn siglinga-, hafna- og vitamála, nema annað sé ákveðið í öðrum lögum.
2. gr. Siglingastofnun Íslands.
Siglingastofnun Íslands fer með framkvæmd siglinga-, hafna- og vitamála samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum sem um þau mál fjalla. [Aðsetur Siglingastofnunar er í Kópavogi, nema ráðherra ákveði annað.] 1)
[Siglingamálastjóri] 2) skal að fenginni umsögn hafnaráðs og siglingaráðs skipaður af samgönguráðherra til fimm ára í senn. [Siglingamálastjóri] 2) ræður annað starfsfólk stofnunarinnar.
    1)L. 121/1999, 2. gr. 2)L. 73/2002, 9. gr.
3. gr. Verkefni Siglingastofnunar Íslands.
Verkefni Siglingastofnunar Íslands eru:
    1. Að annast þátt ríkisins í framkvæmd hafnalaga.
    2. [Að annast þátt ríkisins í framkvæmd laga um sjóvarnir og hafa umsjón með ríkisstyrktum framkvæmdum vegna lendingarbóta.] 1)
    3. Að annast framkvæmd laga um eftirlit með skipum, laga um mælingu skipa og laga um skráningu skipa.
    4. [Að annast framkvæmd laga um vitamál og laga um köfun.] 2)
    5. Að annast mál er varða lög um varnir gegn mengun sjávar og reglugerðir samkvæmt þeim að því leyti sem þau varða skip og búnað þeirra samkvæmt reglum sem umhverfisráðherra setur.
    6. Að annast samstarf við alþjóðastofnanir og framkvæmd alþjóðasamþykkta sem Ísland er aðili að og varða siglinga-, hafna- og vitamál.
    7. Að fylgjast með rannsókn sjóslysa og veita aðstoð við rannsókn þeirra og rita umsögn um sjópróf til ríkissaksóknara.
    8. Að annast mál er varða siglinga- og sjómannalög að því leyti sem þau tengjast skipum, skráningu þeirra og búnaði, siglingaöryggi og öðrum málum sem ráðuneytið kann að fela stofnuninni varðandi siglingar og áhafnir skipa.
    9. Að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um mál sem eru í verkahring stofnunarinnar.
    [10. Að annast gerð áætlana samkvæmt lögum um samgönguáætlun.] 3)
    [11. Að annast framkvæmd laga um vaktstöð siglinga.
    12. Að eiga samstarf við Siglingaöryggisstofnun Evrópu (EMSA) með það að markmiði að auka öryggi í siglingum, draga úr mengun frá skipum og koma að sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda í starfi stofnunarinnar.] 4)
    [13. Að annast framkvæmd laga um siglingavernd.
    14. Að birta á heimasíðu sinni íslenska og/eða enska útgáfu alþjóðasamninga á sviði siglinga sem Ísland er aðili að. Jafnframt skal stofnunin birta á heimasíðu sinni enska útgáfu af viðaukum og kóðum sem þeim samningum fylgja og öðrum samningum sem varða flutning á hættulegum efnum með skipum og hafa almennt gildi en birtast ekki í Stjórnartíðindum. Viðaukar þessir og kóðar skulu uppfærðir jafnóðum og breytingar verða á þeim. Þeim sem þess óska skal gefinn kostur á að fá sendar tilkynningar frá Siglingastofnun þegar birtir eru nýir samningar, kóðar eða viðaukar eða þeim breytt á heimasíðunni.] 2)
Siglingastofnun Íslands er heimilt með samþykki samgönguráðherra að fela öðrum að annast ákveðin verkefni.
Siglingastofnun Íslands er heimilt með samþykki samgönguráðherra að kaupa og fara með hlut ríkisins í rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum, m.a. til þess að stuðla að útflutningi á íslenskri þekkingu á starfssviði stofnunarinnar.
Samgönguráðherra getur með reglugerð 5) kveðið nánar á um hlutverk og starfshætti Siglingastofnunar Íslands og einstök verkefni hennar.
[Siglingastofnun Íslands aflar sér tekna á eftirfarandi hátt:
    1. Með innheimtu gjalda sem kveðið er á um í sérlögum sem gilda um starfsemi stofnunarinnar.
    2. Með sölu á sérhæfðri þjónustu á starfssviði stofnunarinnar, þ.m.t. útgáfu starfsleyfa og atvinnuskírteina og veitingu undanþágna til starfa á skipum.
    3. Með þjónustugjöldum fyrir afgreiðslu gagna.
Gjöld skv. 1.–3. tölul. 5. mgr. skulu ákvörðuð í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir og birt er í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldskrá skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal gjaldtaka ekki vera meiri en nemur þeim kostnaði. Kostnaður við starfrækslu Siglingastofnunar Íslands greiðist að öðru leyti af framlögum sem ákvörðuð eru í fjárlögum.] 2)
    1)L. 38/1997, 1. gr. 2)L. 39/2004, 1. gr. 3)L. 73/2002, 10. gr. 4)L. 29/2003, 1. gr. 5)Rg. 326/2004, rg. 672/2006.
4. gr. Hafnaráð.
[Samgönguráðherra skipar hafnaráð. Í hafnaráði skulu eiga sæti sex fulltrúar og jafnmargir varamenn. Þar af skulu tveir tilnefndir af Hafnasambandi sveitarfélaga til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Einn skal tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins að loknum alþingiskosningum. Þrír fulltrúar skulu skipaðir án tilnefningar að loknum alþingiskosningum og skal einn þeirra vera formaður ráðsins. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði falla jöfn.] 1)
    1)L. 73/2002, 11. gr.
5. gr. Verkefni hafnaráðs.
[Verkefni hafnaráðs eru eftirfarandi:
    1. Hafnaráð veitir samgönguráðherra umsögn um tillögu samgönguráðs að samgönguáætlun, sbr. lög um samgönguáætlun.
    2. Hafnaráð gefur ráðherra umsögn um breytingar á lögum og reglum er varða hafnamál og sjóvarnir.
    3. Hafnaráð er stjórn Hafnabótasjóðs samkvæmt hafnalögum. Hafnaráð hefur umsjón með greiðsluþátttöku ríkisins við hafna- og sjóvarnaframkvæmdir og afgreiðir umsóknir um tjónabætur sem sendar eru til sjóðsins.
    4. Hafnaráð er Siglingastofnun til ráðgjafar um framkvæmd áætlana í hafna- og sjóvarnaframkvæmdum.] 1)
Hafnaráð skal halda fundi með fulltrúum sjómanna og útgerðarmanna a.m.k. einu sinni á ári.
[Siglingamálastjóri] 2) situr fundi ráðsins, með málfrelsi og tillögurétti, ásamt þeim starfsmönnum stofnunarinnar sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir. Skal hann leggja þar fyrir þau mál sem falla undir verksvið ráðsins samkvæmt framansögðu eða ráðið óskar eftir.
    1)L. 73/2002, 12. gr. 2)L. 73/2002, 9. gr.
6. gr. Siglingaráð.
[Samgönguráðherra skipar siglingaráð sér til ráðuneytis um siglinga- og vitamál. Í siglingaráði skulu eiga sæti tólf fulltrúar og jafnmargir varamenn. Þar af skulu þrír fulltrúar skipaðir án tilnefningar að loknum alþingiskosningum og skal einn þeirra vera formaður ráðsins. Níu fulltrúar skulu skipaðir til allt að fjögurra ára samkvæmt tilnefningu eftirtalinna aðila sem tilnefna einn fulltrúa hver: Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, samtök skemmtibátaeigenda, Málmur, samtök fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda, Samband íslenskra kaupskipaútgerða, Sjómannasamband Íslands, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Vélstjórafélag Íslands. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.] 1)
    1)L. 13/2006, 1. gr.
7. gr. Verkefni siglingaráðs.
Siglingaráð skal vera ráðgefandi aðili fyrir ráðherra og [siglingamálastjóra] 1) í siglinga- og vitamálum. Siglingaráð skal fjalla um breytingar á lögum og reglum er varða siglinga- og vitamál.
Siglingaráð skal fjalla um öryggismál skipa og sjófarenda, svo og meiri háttar endurbætur og breytingar vitakerfisins. [Siglingamálastjóri] 1) situr fundi ráðsins, með málfrelsi og tillögurétti, ásamt þeim starfsmönnum stofnunarinnar sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir. Skal hann leggja þar fyrir þau mál sem falla undir verksvið ráðsins samkvæmt framansögðu eða ráðið óskar eftir.
    1)L. 73/2002, 9. gr.
[8. gr. Siglingaöryggisstofnun Evrópu.
Samgönguráðherra skal setja reglugerð, 1) sbr. 12. tölul. 1. mgr. 3. gr., sem felur í sér að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1406/2002 frá 27. júní 2002, um stofnun Siglingaöryggisstofnunar Evrópu, verði innleidd í íslensk lög.] 2)
    1)Rg. 739/2004, sbr. 581/2005. 2)L. 29/2003, 2. gr.
[9. gr.]1) Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi en koma ekki til framkvæmda fyrr en 1. október 1996. …
    1)L. 29/2003, 2. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.