Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 15. maí 2009. Útgáfa 136b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um húsgöngu- og fjarsölusamninga
2000 nr. 46 16. maí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. júní 2000. EES-samningurinn: XIX. viðauki tilskipun 85/577/EBE og 97/7/EB. Breytt með l. 62/2005 (tóku gildi 1. júlí 2005), l. 50/2006 (tóku gildi 1. júlí 2006) og l. 34/2007 (tóku gildi 30. mars 2007).
I. kafli. Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi eiga við um samninga um sölu eða leigu á vöru og þjónustu til neytenda þegar seljandi hefur atvinnu af því að selja eða veita þjónustu með fjarsölu ( fjarsölusamninga) eða húsgöngusölu ( húsgöngusölusamninga), sbr. þó ákvæði 3. og 4. gr. um samninga sem eru undanþegnir ákvæðum laganna.
Neytandi getur ekki afsalað sér réttindum sem honum eru veitt samkvæmt lögum þessum.
2. gr. Skilgreiningar.
1. Neytandi er í lögum þessum einstaklingur sem er kaupandi í viðskiptum sem lög þessi taka til í tilgangi sem er óviðkomandi starfi hans.
2. Seljandi er einstaklingur eða lögaðili sem vegna hlutaðeigandi viðskipta kemur fram í atvinnuskyni og gerir samninga við neytendur, svo og hver sá sem í atvinnuskyni kemur fram í umboði eða fyrir hönd seljanda.
3. Húsgöngusala er sala á vöru og þjónustu sem seljandi skipuleggur utan fastrar starfsstöðvar sinnar, svo sem á heimili neytanda eða vinnustað hans, og neytandi hefur hvorki óskað eftir né var kunnugt um að afhending vöru eða þjónustu væri hluti af sölu- eða þjónustustarfsemi seljanda, svo og annars konar farandsala.
4. Húsgöngusölusamningur er samningur seljanda og neytanda um kaup á vöru og þjónustu sem gerður er við húsgöngusölu.
5. Fjarskiptaaðferð er sérhver aðferð sem er nothæf til þess að stofna til samnings milli neytanda og seljanda án þess að þeir hittist.
6. Fjarsala er skipulögð sala á vöru og þjónustu þar sem notuð er ein, eða fleiri, fjarskiptaaðferð við gerð samnings.
7. Fjarsölusamningur er samningur seljanda og neytanda um kaup á vöru eða þjónustu sem gerður er með fjarskiptaaðferð.
8. Símasala er fjarsala þar sem neytandi gerir samning eða kauptilboð (pöntun) með samtali í síma eftir að hann hefur fengið upphringingu frá seljanda sem býður fram vöru eða þjónustu.
3. gr. Undanþágur.
Ákvæði þessara laga taka ekki til:
1. Samninga um smíði, byggingu eða önnur réttindi í sambandi við fasteignir. Lögin taka þó til leigusamninga.
2. Samninga um kaup á verðbréfum, vátryggingum eða annars konar fjármálaþjónustu.
3. Samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis.
4. Sölu úr sjálfsölum.
5. Samninga um notkun á almenningssímum.
6. Uppboða á nýjum og notuðum lausafjármunum, enda séu slík uppboð opinber og verulegur hluti uppboðsþátttakenda staddur á uppboðsstaðnum.
4. gr. Frekari undanþágur um húsgöngusölu.
Ákvæði laganna eiga ekki heldur við um eftirtalda húsgöngusölusamninga:
1. Samninga sem eru að verðmæti 4.000 kr. eða minna, en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 60 evrum miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
2. Samninga þar sem ráðgert er framhald á sambandi neytanda og umboðsmanns seljanda með tilliti til yfirstandandi viðskipta eða annarra viðskipta síðar.
3. Samninga um reglubundna afhendingu matvöru, drykkjarvöru eða annarrar vöru sem ætluð er til heimilisnota.
Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 3. gr. eiga ákvæði um húsgöngusölusamninga við um samninga um að látin skuli í té vara og hún felld að fasteignum.
II. kafli. Upplýsingaskylda seljanda.
5. gr. Skylda seljanda til að veita upplýsingar.
Neytandi á rétt á eftirfarandi upplýsingum innan hæfilegs frests áður en samningur, sem lög þessi taka til, er gerður:
1. Nafn og heimilisfang seljanda.
2. Helstu eiginleikar vöru eða þjónustu sem samningurinn fjallar um.
3. Verð vöru eða þjónustu, þar með talin öll opinber gjöld, svo og afhendingarkostnaður, ef það á við.
4. Fyrirkomulag á greiðslum, afhendingu og hvenær hún fer fram.
5. Réttur til að falla frá samningi, sbr. þó ákvæði 10. gr.
6. Kostnaður við að nota fjarskiptaaðferð þar sem hann er reiknaður á annan hátt en sem grunngjald.
7. Gildistími tilboðsins og tilboðsverðsins.
8. Lágmarksgildistími samningsins.
Upplýsingar sem getið er um í 1. mgr. skulu vera skýrar og greinargóðar og vera aðgengilegar neytanda.
Auk þess er seljanda í símasölu skylt að taka hverju sinni fram nafn sitt og skal neytanda þegar í upphafi samtalsins gerð grein fyrir því að samtalið fer fram í viðskiptalegum tilgangi.
Um húsgöngusölusamninga gilda ákvæði 1. og 2. mgr. eftir því sem við getur átt.
6. gr. Skriflegar staðfestingar á veittum upplýsingum.
Neytandi skal fá skriflega staðfestingu, eða við fjarsölu staðfestingu á öðrum varanlegum miðli sem er fáanlegur og aðgengilegur neytandanum, á upplýsingum sem taldar eru upp í 1.–6. tölul. 1. mgr. 5. gr.
Neytandi á rétt á upplýsingum samkvæmt þessari grein innan hæfilegs frests áður en samningur er efndur og ekki síðar en við afhendingu. Ef um er að ræða þjónustu ber að veita upplýsingar þegar samningur er gerður en þó aldrei síðar en frá og með sjötta degi eftir gerð samnings. Neytandi á ávallt rétt á:
1. Skriflegum upplýsingum um skilyrði og önnur atriði sem máli skipta ef neytandi vill notfæra sér rétt sinn til að falla frá samningi, sbr. 8. gr. Jafnframt ber að upplýsa neytanda ef hann hefur ekki slíkan rétt vegna undanþáguákvæða laga þessara, þ.m.t. þeirra tilvika sem getið er í 10. gr.
2. Upplýsingum um heimilisfang seljanda (þ.m.t. ríkisfang) þar sem tekið er við kvörtunum neytanda, svo að gilt sé.
3. Upplýsingum um ábyrgðir og þjónustu sem seljandi veitir eftir að kaup á vöru eða þjónustu hafa farið fram, ef það á við.
4. Upplýsingum um skilyrði fyrir uppsögn samnings ef um er að ræða ótímabundinn samning eða samning sem er til lengri tíma en eins árs.
Ákvæði 2. mgr. eiga þó ekki við um fjarskiptaþjónustu sem veitt er og afhent í eitt tiltekið skipti og rekstrarleyfishafi þeirrar þjónustu tekur gjald fyrir, svo sem símatorgsþjónustu. Neytanda ber þó ávallt að fá upplýsingar um heimilisfang seljanda, sbr. 2. tölul. 2. mgr.
Þegar húsgöngu- eða fjarsölu sem lög þessi taka til er beint að íslenskum neytendum, eða markaðssókn seljanda fer að öðru leyti fram á Íslandi og á íslensku, ber að veita neytanda upplýsingar samkvæmt ákvæðum laga þessara á íslensku.
Fullnægi seljandi ekki ákvæðum þessarar greinar um upplýsingar til neytanda innan þess frests sem getið er um í 2. mgr. er samningurinn ekki bindandi fyrir neytanda.
7. gr. Undanþágur frá upplýsingaskyldu.
Ákvæði 5. gr. um upplýsingaskyldu gilda þó ekki um samninga er varða:
1. Sölu á matvælum og öðrum daglegum neysluvörum sem afhentar eru á heimili eða vinnustað neytandans.
2. Sölu á hótelgistingu, flutningastarfsemi, sölu veitinga eða aðra samsvarandi þjónustu sem samið er um að skuli veitt á fyrir fram umsömdum tíma eða tímabili og það komi skýrt fram í samningnum.
3. Sölu á frístundaþjónustu, svo sem samninga er varða sölu á aðgangi að íþrótta- og menningarviðburðum eða annars konar sambærilegri frístundaþjónustu sem samið er um að skuli veitt á fyrir fram umsömdum tíma eða tímabili og það komi skýrt fram í samningnum.
III. kafli. Réttur neytanda til að falla frá samningi o.fl.
8. gr. Réttur til að falla frá samningi.
Húsgöngu- og fjarsölusamningur skuldbindur ekki neytanda fyrr en fjórtán dögum frá gerð hans og er neytanda heimilt að falla frá samningi innan þess frests án þess að tilgreina nokkra ástæðu eða greiðslu viðurlaga.
Hafi neytandi notfært sér rétt sinn skv. 1. mgr. er seljanda skylt að endurgreiða honum án nokkurs kostnaðar þær greiðslur sem hann hefur innt af hendi. Slík endurgreiðsla skal fara fram eins fljótt og kostur er og eigi síðar en eftir þrjátíu daga. Neytanda ber að skila eða endursenda seljanda vöruna. Eingöngu er heimilt að krefja neytanda um greiðslur vegna beins kostnaðar við að skila vörunni.
Hafi neytandi notfært sér rétt til að falla frá samningi samkvæmt þessari grein falla úr gildi allir lánssamningar sem hann hefur gert við seljanda eða þriðja aðila sem hefur milligöngu um að veita lán í tengslum við kaupin.
9. gr. Frestur til þess að beita rétti til að falla frá samningi skv. 8. gr. telst frá þeim degi sem neytandi veitir vöru viðtöku eða, ef um er að ræða þjónustu, frá þeim degi sem samningur er gerður, þó aldrei síðar en frá og með sjötta degi eftir gerð hans, og seljandi hefur fullnægt upplýsingaskyldu sinni skv. 6. gr.
10. gr. Undanþágur frá rétti til að falla frá samningi.
Ákvæði 8. gr. taka ekki til eftirtalinna samninga:
1. Samninga um þjónustu hafi neytandi samþykkt að hún sé veitt áður en frestur til að falla frá samningi skv. 8. gr. laga þessara er útrunninn.
2. Samninga um kaup á myndböndum, hljóðupptökum eða hugbúnaði hafi neytandi rofið innsigli seljanda.
3. Fjarsölusamninga þar sem neytandi hefur sérpantað vöruna eða hún hefur verið sniðin á annan hátt að persónulegum þörfum hans, eða ef eðli vörunnar er slíkt að hún mun skemmast eða verða útrunnin innan frestsins.
4. Fjarsölusamninga um þátttöku í happdrætti eða öðru löglegu spili.
11. gr. Efndir samnings og afhending vöru.
Seljandi skal afgreiða pöntun neytanda innan þrjátíu daga frá því að hún er gerð. Efni seljandi ekki sinn þátt samningsins þar sem varan eða þjónustan er ófáanleg ber að tilkynna neytanda það þegar í stað. Hafi hann greitt kaupverð að fullu eða hluta skal það endurgreitt án tafar og eigi síðar en eftir þrjátíu daga. Seljanda er þó heimilt að láta neytanda í té vöru (þjónustu) sem telst að öllu leyti sambærileg að gæðum og verði, enda hafi hann tekið það fram áður en samningur við neytanda var gerður. Þegar svo stendur á ber seljandi þó allan kostnað ef neytandi skilar vöru á grundvelli réttar síns til að falla frá samningi og skal það sérstaklega tekið fram í skilmálum seljanda.
12. gr. Greiðslur með korti.
Fyrirtæki sem gefa út greiðslukort skulu setja skýrar reglur um það hvernig neytandi getur óskað eftir afturköllun á greiðslu hafi greiðslukort hans verið misnotað við gerð fjarsölusamnings sem ákvæði þessara laga taka til. Jafnframt skal þar kveðið á um hvernig endurgreiða skuli neytanda vegna ólögmætrar misnotkunar á greiðslukorti hans.
13. gr. Ágengar söluaðferðir.
Óheimilt er að senda neytanda vöru eða þjónustu sem greiða á fyrir hafi hann ekki pantað vöruna eða þjónustuna.
Þegjandi samþykki neytanda þegar söluaðferðum er beitt skv. 1. mgr. er ávallt ógilt.
14. gr. Bann við notkun á tilteknum fjarskiptaaðferðum.
Óheimilt er að nota símbréf eða sjálfvirk upphringingatæki við sölustarfemi sem lög þessi taka til nema neytandi hafi sérstaklega veitt samþykki sitt fyrir notkun slíkra fjarskiptaaðferða.
Seljendum vöru og þjónustu sem lög þessi taka til ber, áður en bein markaðssókn er skipulögð, að kanna [bannskrá Þjóðskrár] 1) yfir þá sem vilja ekki að nöfn þeirra séu notuð við markaðssetningu, sbr. ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Hafi neytandi óskað eftir því að vera færður í skrána er bein markaðssókn til hans óheimil.
Hafi neytandi ekki tilkynnt sig til [bannskrár Þjóðskrár], 1) sbr. 2. mgr., eða áskrifandi fjarskiptaþjónustu óskað eftir sérmerkingu í símaskrá í samræmi við ákvæði fjarskiptalaga og seljandi sendir honum í beinni markaðssókn tölvupóst ber að gefa neytanda kost á að veita samþykki sitt fyrir áframhaldandi notkun á þeirri fjarskiptaaðferð. Samþykki neytandi ekki sérstaklega áframhaldandi sendingar með tölvupósti eru þær framvegis óheimilar.
1)L. 50/2006, 22. gr.
15. gr. Réttarvernd neytenda.
Samtökum neytenda er heimilt að gæta hagsmuna neytenda innan sem utan dómstóla samkvæmt ákvæðum laga þessara.
16. gr. Lagaval.
Hafi í samningi sem lög þessi taka til verið vísað til þess að um samninginn skuli gilda lög í ríki sem er utan Evrópska efnahagssvæðisins skal slíkum lögum ekki beitt um samninga sem lög þessi taka til nema neytandinn njóti betri verndar samkvæmt þeim.
17. gr. Eftirlit.
[Neytendastofa] 1) hefur eftirlit með viðskiptaháttum samkvæmt lögum þessum.
[Ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gilda um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð.
Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.
Ákvörðun Neytendastofu verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála liggur fyrir.
Nú vill aðili ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð áfrýjunarnefndarinnar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar.] 2)
1)L. 62/2005, 13. gr. 2)L. 34/2007, 4. gr.
18. gr. Nýti neytandi sér rétt til að falla frá samningi er lög þessi taka til skal um réttaráhrif þess fara eftir lögum um lausafjárkaup, einkum með tilliti til endurgreiðslu vöru eða þjónustu sem látin var í té og skila á móttekinni vöru, nema annað sé ákveðið í lögum þessum.
IV. kafli. Gildistaka, viðurlög o.fl.
19. gr. Brot á ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim varða fésektum eða fangelsi allt að þremur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
20. gr. Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara og er honum heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd þeirra í reglugerð.
21. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2000. …
Lög þessi eru sett með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 7/1994, um að fella inn í EES-samninginn og taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar ráðsins 85/577/EBE frá 20. desember 1985, um að vernda neytendur þegar samningar eru gerðir utan fastra starfsstöðva, og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 15/1998, um að fella inn í EES-samninginn og taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997, um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga.