Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 15. september 2015.  Útgáfa 144b.  Prenta í tveimur dálkum.


Erindisbréf handa biskupum

1746 1. júlí


Breytt með l. 46/1905 (tóku gildi 23. febr. 1905), l. 47/1907 (tóku gildi 25. mars 1908) og l. 116/1990 (tóku gildi 31. des. 1990).


   …
5) Þegar biskup ætlar í … yfirreið sína, skal hann svo tímanlega tilkynna prestum komu sína, með umburðarbréfi, þar sem hann ætlar að fara yfir, að þeir megi fá vitneskju um það að minnsta kosti 3–4 dögum áður, svo að þeir fái gert söfnuðum sínum viðvart og söfnuðurinn hafi ekki neina ástæðu til afsökunar á því, ef hann kemur eigi.
6) Á yfirreiðum skal biskup einslega í samtali við menn spyrjast fyrir um það, í hverju presti sé helst áfátt, hvort hann hafi dugnað og kunnustu til embættis síns, hvort hann hafi röggsemi til þess að efla sanna guðsþekkingu og guðsótta, hverja ástundun hann sýni til þess í söfnuði sínum, hver pia desideria hann hafi í þá átt, og hvaða sennilegar uppástungur hann hafi til breytingar í því efni. …
14) Enn fremur skulu meðhjálparar vera viðstaddir, þegar biskup eða prófastur koma, og skulu þeir allir spurðir, hvernig ástandið sé í söfnuðinum, hvort þar tíðkist nokkrir sérstakir ósiðir eða guðleysi, hvernig hver um sig ræki embætti sitt, og fái stoð til þess eða sæti tálmunum, og skal biskup eða prófastur eigi láta undir höfuð leggjast að áminna menn í því efni.
15) Biskupar skulu samkvæmt hingað til haldinni venju hvarvetna láta, þar sem þeir fara yfir, halda fullnægjandi skrá yfir kirkjuna sjálfa, innanstokksmuni hennar og skrautgripi, kúgildi, jarðir, leigur, hús, skóga, reka og aðrar eignir hennar og hlunnindi, og skal biskup, hvenær sem hann heldur kirkjuskoðun, ásamt forráðamanni kirkju og nokkrum öðrum góðum mönnum, undirrita skrána, og skal hún látin í stiftskistuna og geymd þar til þess að hafa hliðsjón af henni.
16) Til þess að fyrirgirða allar deilur, er rísa af skorti á áreiðanlegum gögnum um eignir kirkna, réttindi og kúgildi, er standa á jörðum léns- og bændakirkna, skulu samkvæmt allra þegnsaml. tillögum fyrri biskupa, eftir greindar skrár taldar áreiðanlegar og löggiltar kirkjuskrár og máldagabækur í Skálholts- og Hólastifti, er allar þrætur um eignir kirkna og réttindi skulu dæmd og útkljáð eftir:
   Í Skálholtsstifti: Hin gamla máldagabók eða kirkjuregistur Vilchins biskups, samantekin 1397.
   Í Hólastifti:
    a. Registur og máldagabók Jóns biskups Eiríkssonar 1360,
    b. Péturs biskups 1394,
    c. Auðunar biskups 1398, 1)
    d. Ólafs biskups Rögnvaldssonar 1461 og
    e. Sigurðar prests, sem safnað var eftir siðaskiptin.
   … 2)
   Mál er varða aðrar kirkjueignir í báðum stiftum, svo sem innanstokksmuni og skrautgripi þeirra, skulu eigi dæmd eftir nefndum máldagabókum, heldur eftir skrám þeim, er evangelisku biskuparnir hafa gert eftir siðaskipti.
    1)Með réttu 1318. 2)L. 46/1905, 11. gr.
17) Biskup skal knýja kirkjubændur og svonefnda lénspresta til þess að halda kirkjum, gripum þeirra og öðru, forsvaranlega við, svo og að hafa kirkjur svo rúmgóðar, að allir safnaðarmenn komist þar fyrir. Svo ber þeim og að gera reikning fyrir tekjum kirkna og gjöldum. Verði ólöglegur dráttur þar á, skal amtmaður sækja bændakirkjueigendur, og lénsprestum skal refsað samkvæmt allran. konungsboði frá 1708. 1) Auk þess skal bændakirkjueigandi eða erfingjar hans safna svo fé, sem nægir til endurbyggingar kirkju, ásamt öðrum tekjum hennar.
    1)Konbr. 11. maí 1908.
18) Nú telur biskup eitthvað svo úr sér gengið, að það þurfi endurbóta við, og skal þá skipun hans tafarlaust hlýtt … 1)
    1)L. 116/1990, 1. gr.
21) Biskup skal samkvæmt þar um útkomnum konungsboðum, … sjá um, að prófastar þeir, sem undir hann eru gefnir, vísiteri árlega hver sitt prófastsdæmi og sendi biskupi þar um greinilega og áreiðanlega skýrslu, ásamt uppástungum til endurbóta, er nauðsynlegar kynnu að vera, svo að biskup megi nákvæmlega rannsaka þau efni og gera rækilegar skýrslur og tillögur um það til Generalkirkju-eftirlits kollegíis Vors. … 1) En af því að þau prófastsdæmi eru til, svo sem í Skálholtsstifti, Múla-, Rangárvalla-, Ísafjarðar- og Árnessýslur, og í Hólastifti Þingeyjarsýsla, er prófastar fá eigi komist yfir að vísitera algerlega á hverju ári, svo að söfnuður þeirra og heimili bíði eigi hnekki af, þá skal biskup þá skipun á gera, að hvorki sé próföstum íþyngt um of né yfirreiðir frestist um skör fram, heldur skuli þeim lokið á 2 ára fresti í hverju héraði. … 2)
    1)L. 116/1990, 1. gr. 2)L. 47/1907, 3. gr.
24) Í hvoru stifti skal einu sinni á ári haldin synodus. … Biskup skal í tækan tíma bréflega boða hana próföstum og prestum, er hlut eiga að máli, með því að þar á að ræða um allt, er varða má nauðsynjar klerkdómsins.
   …
31) Biskup skal sjá um, að prestar haldi réttilega skrá yfir:
    a. … acta synodalia, umburðarbréf biskupa, er öll skulu í heild sinni skráð,
    b. fædda, dána, gifta,
    c. fermda; þessar þrjár bækur skulu ávallt vera eign kirkjunnar, og skal biskup, hvenær sem hann vísiterar þar, rita í hverja þessara bóka, að hann hafi séð þær,
    d. skipulegt sálnaregistur, einkum yfir nöfn æskulýðsins, aldur, lestur og framfarir, og skal biskupi sýnd bókin á yfirreiðum, svo að hann sjái, að hún sé haldin svo, og, ef nauðsyn krefur, til þess að hann megi áminna um að koma betri skipun á hana. …
42) Biskup skal eigi dirfast að vígja nokkurn mann til prests, sem eigi hefur náð, lögum samkvæmt, 1) 25 ára aldri.
    1)Tilsk. 16. febrúar 1621.
43) Próf það, er biskup heldur yfir prestsefni, er sækir um prestakall, skal haldið með samviskusemi og án manngreinarálits, og skal þess vandlega gæta, að prestaköllin séu veitt mönnum sem til þeirra eru hæfir, bæði að lærdómi og líferni. Auk annars skal reyna það vandlega í prófi þessu, hverja þekkingu candidatus hefur til að bera in theologicis [amp] biblicis, svo og í samþykktum játningarritum kirkju vorrar, og má halda próf þetta skriflega, svo að síðar megi, ef þess er óskað, sjá hæfileika prestsefnisins. …
45) Jafnskjótt sem einhver hefur fengið veitingu fyrir prestakalli, skal hann þegar snúa sér til biskups, sem … vígir hann og eiðfestir og fær honum vígslubréf til þess safnaðar, er hann á að gæta. Þó skal slíkur kandidat rita ævisögu sína á latínu í þar til gerða bók, er geymd skal með skjölum stiftisins. …