Lagasafn. Íslensk lög 15. september 2015. Útgáfa 144b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um bókasöfn prestakalla
1931 nr. 17 6. júlí
Tóku gildi 12. október 1931. Breytt með l. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011) og l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við
innanríkisráðherra eða
innanríkisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna
hér.
1. gr. Stofna má bókasöfn fyrir prestaköll með bókagjöfum og bókakaupum, svo sem nánar er tiltekið í lögum þessum.
2. gr. Til bókasafna prestakalla skulu einkum keyptar bækur guðfræðilegs og heimspekilegs efnis, svo og almennar fræðibækur og úrvals skáldrit. Bókasöfnin mega þiggja bækur að gjöf.
3. gr. Nú vill sóknarprestur stofna eða auka við bókasafn prestakalls síns. Skal hann þá fyrir júnílok ár hvert senda bókanefnd prestakalla skrá yfir bækur þær, er hann óskar að fá í bókasafnið, og greiða
1/
4 verðs þeirra innbundinna og flutningsgjald fyrirfram.
4. gr. Bókanefnd prestakalla skipa þrír menn. Kýs prestastefnan tvo þeirra og einn varamann, en [ráðuneytið]
1) skipar einn mann, kunnan að smekkvísi og þekkingu á bókmenntum. Nefndin skal kosin og skipuð til þriggja ára í senn og skiptir sjálf með sér störfum. Bókanefnd starfar kauplaust, en útlagður kostnaður við störf nefndarinnar greiðist af bókakaupafé.

Bókanefnd skal veita leiðbeiningar um val bóka, annast kaup á þeim og úrskurða um það, hvort bækur fullnægi skilyrðum 2. gr. Nefndin sker úr um það, hverjum skuli veita styrk til bókakaupa og hvaða bækur skuli kaupa af þeim, sem óskað er eftir, þegar umsóknir fara fram úr því, sem hámark ríkisstyrks leyfir.

Þau prestaköll ganga fyrir öðrum um styrkveitingu, þar sem ekki eru fyrir bókasöfn, sem prestur og söfnuður getur haft til afnota.
1)L. 126/2011, 7. gr.
5. gr. Nú hefur bókanefnd borist beiðni um útvegun bóka samkvæmt 3. gr., og kemur beiðnin eigi í bága við fyrirmæli 2. gr. laga þessara. Útvegar hún þá bækurnar, en ráðuneytið ávísar bókanefndinni, eða bóksala hennar,
3/
4 kostnaðar úr ríkissjóði, gegn því að bækurnar verði eign bókasafns prestakallsins. Þó má ekkert ár verja meira fé úr ríkissjóði í þessu skyni en 4 þús. kr. samtals.
6. gr. Um leið og bókanefnd sendir presti bækur til bókasafns prestakalls hans samkvæmt lögum þessum, sendir hún prófasti skrá yfir bækur þær, er bókasafninu þannig bætast. Prestar skulu árlega senda prófasti skrá um gefnar bækur. Skal prófastur gera aðalskrá um bókasöfn í prófastsdæminu, sundurliðaða eftir prestaköllum.
7. gr. Þegar prestur hefur veitt móttöku bókum samkvæmt lögum þessum, skal hann rita á þær nafn prestakalls síns og skrásetja. Prófastur löggildir bók undir bókaskrá prestakalls, og ber honum á skoðunarferðum sínum að hafa eftirlit með því, að bækurnar séu vel varðveittar.
8. gr. Bókasafn prestakalls skal geymt á heimili prests. Presti er skylt að vátryggja safnið gegn eldsvoða. Þar sem fleiri en einn sóknarprestur er í prestakalli, skal sá prestur varðveita safnið, sem elstur er að embættisaldri, nema öðruvísi um semjist með prestum kallsins.

Nú er prestakall prestslaust, og gerir prófastur þá þær ráðstafanir, sem þurfa þykir, til öryggis safninu.

Við prestaskipti skal fara fram úttekt á bókasafni prestakallsins, og gerir prófastur þá fráfarandi presti að greiða bætur fyrir, ef á vantar og kenna má vangeymslu hans.
9. gr. Presti er skylt að lána sóknarbörnum bækur úr bókasafni prestakalls síns, sér að bagalausu. Lántakandi er skaðabótaskyldur, þegar bækur skaddast eða glatast. Útlánaskrá skal fylgja hverju bókasafni. Skal prestur leggja kapp á, að bókasafn prestakallsins verði söfnuðinum að sem mestum notum. Prestum er heimilt að lána hver öðrum bækur úr bókasöfnum prestakalla. Heimilt er og að skiptast á bókum úr bókasöfnum, þegar hlutaðeigandi prestar óska þess og bókanefnd samþykkir.
10. gr. Prestum og próföstum er skylt að gefa þær skýrslur um bókasöfn prestakalla, notkun þeirra og varðveislu, sem biskup fyrirskipar.