Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. október 2020. Útgáfa 150c. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um leigubifreiðar
2001 nr. 134 21. desember
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 15. mars 2002. Breytt með: L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 59/2013 (tóku gildi 1. júlí 2013). L. 47/2018 (tóku gildi 26. maí 2018). L. 90/2018 (tóku gildi 15. júlí 2018; EES-samningurinn: XI. viðauki reglugerð 2016/679). L. 51/2020 (tóku gildi 6. júní 2020).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eða samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi taka til fólksbifreiða sem notaðar eru til leigubifreiðaaksturs. Fólksbifreiðar sem skráðar eru fyrir fleiri en átta farþega falla þó ekki undir lög þessi. Leigubifreiðaakstur telst það þegar fólksbifreið er seld á leigu ásamt ökumanni fyrir tiltekið gjald til flutnings á farþegum og farangri þeirra.
Heimilt er með reglugerð að kveða á um mörkin á milli atvinnusviðs leigubifreiða, vörubifreiða og sendibifreiða sem notaðar eru til leiguaksturs. Rísi ágreiningur um þessi mörk sker [Samgöngustofa] 1) úr.
Leigubifreiðar skulu auðkenndar samkvæmt reglum sem [ráðherra] 2) setur að fengnum tillögum [Samgöngustofu]. 1)
1)L. 59/2013, 19. gr. 2)L. 126/2011, 333. gr.
2. gr. Umsjón með leigubifreiðaakstri.
[Samgöngustofa] 1) fer með framkvæmd mála er varða leigubifreiðar. Undir starfssvið hennar fellur útgáfa starfsleyfa leigubifreiðastöðva, útgáfa atvinnuleyfa, útgáfa leyfa fyrir forfallabílstjóra og námskeiðahald. Þá sér [Samgöngustofa] 1) um starfrækslu gagnagrunns sem m.a. geymir upplýsingar um atvinnuleyfi og heimildir til undanþágu frá akstri eigin bifreiðar. Í gagnagrunninn eru skráðar nauðsynlegar upplýsingar sem liggja verða til grundvallar útgáfu atvinnu- og/eða starfsleyfis. Við skráningu gagna í gagnagrunninn og meðferð þeirra skal gætt ákvæða laga um persónuvernd og [vinnslu] 2) persónuupplýsinga.
Leigubifreiðastöðvar skulu gefa [Samgöngustofu] 1) upplýsingar um einstaka atvinnuleyfishafa, svo sem hverjir aka á hvaða stöð og önnur atriði er varða umsýslu leigubifreiðamála. [Samgöngustofa] 1) getur heimilað sérstakar útstöðvar frá gagnagrunninum á leigubifreiðastöðvum eða hjá félögum leigubifreiðastjóra til þess að afgreiða undanþágur skv. 9. gr.
Atvinnuleyfishöfum er skylt að veita [Samgöngustofu] 1) upplýsingar sem varða atvinnuleyfi þeirra og nýtingu þess.
[Ráðherra] 3) er heimilt að fenginni umsögn [Samgöngustofu] 1) að fela einstökum sveitarstjórnum framkvæmd mála er varða leigubifreiðar innan sveitarfélagsins enda liggi fyrir ósk þess efnis frá viðkomandi sveitarstjórn. Við flutning málaflokksins yfir til sveitarfélags tekur viðkomandi sveitarstjórn við stöðu [Samgöngustofu] 1) samkvæmt lögum þessum eftir því sem við getur átt. [Ráðherra] 3) getur veitt sveitarfélagi undaþágu frá starfrækslu gagnagrunns skv. 1. og 2. mgr. enda sé tryggt að unnt sé að halda uppi fullnægjandi eftirliti.
1)L. 59/2013, 19. gr. 2)L. 90/2018, 54. gr. 3)L. 162/2010, 231. gr.
3. gr. Leigubifreiðastöðvar.
Allar leigubifreiðar á takmörkunarsvæði skv. 8. gr. skulu hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð sem fengið hefur starfsleyfi [Samgöngustofu]. 1)
Leigubifreiðastöðvar skulu í samráði við félög leigubifreiðastjóra skipuleggja starfsemi sína með þeim hætti að almenningi verði veitt góð og örugg þjónusta. Hver leigubifreiðastöð skal fylgjast með því að ökumenn, sem þar hafa afgreiðslu, fari eftir fyrirmælum laga og reglugerða um leigubifreiðar. Skal hún sérstaklega fylgjast með því að reglur um nýtingu atvinnuleyfis séu ekki brotnar.
Leigubifreiðastöð getur séð um afgreiðslu undanþágna frá akstri eigin bifreiða skv. 9. gr. Telji leigubifreiðastöð að þeir sem hafa afgreiðslu á stöðinni hafi brotið gegn ákvæðum þessum skal hún stöðva afgreiðslu þeirra og tilkynna það til [Samgöngustofu]. 1)
Ráðherra getur sett nánari ákvæði í reglugerð um hlutverk og skyldur leigubifreiðastöðva og skilyrði starfsleyfis að fengnum tillögum [Samgöngustofu]. 1) Þar geta m.a. komið fram kröfur um þjónustustig, lágmarksfjölda bifreiða og tæknibúnað. [Samgöngustofu] 1) er heimilt að setja í reglur gæðastaðla um þjónustu leigubifreiðastjóra, stærð og búnað bifreiða o.fl. Leigubifreiðastöðvar skulu sjá um að gæðastöðlum sé framfylgt.
1)L. 59/2013, 19. gr.
4. gr. Stjórnsýslukæra.
Ákvörðunum [Samgöngustofu] 1) og leigubifreiðastöðva samkvæmt lögum þessum verður skotið til [ráðherra]. 2)
Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
1)L. 59/2013, 19. gr. 2)L. 162/2010, 231. gr.
II. kafli. Leyfisveitingar.
5. gr. Skilyrði fyrir atvinnuleyfi.
Sá sem fullnægir öllum eftirtöldum skilyrðum getur fengið atvinnuleyfi samkvæmt lögum þessum:
1. Hefur fullnægjandi starfshæfni, þ.m.t. fullnægjandi ökuréttindi og tilskilin námskeið sem nánar er fjallað um í reglugerð.
2. Er skráður eigandi fólksbifreiðar, þ.e. atvinnuleyfishafi skal vera skráður eigandi bifreiðar eða skráður fyrsti umráðamaður samkvæmt samningi við löggilt kaupleigu- eða rekstrarleigufyrirtæki.
3. Stundar leigubifreiðaakstur að aðalatvinnu, sbr. þó 9. gr.
4. Hefur ekki verið dæmdur til refsivistar eða framið alvarlegt eða ítrekað brot á lögum og reglugerðum sem um starfsgreinina gilda. Hafi brot verið smávægilegt eða langt er um liðið frá því að brot var framið getur umsækjandi þó öðlast leyfi samkvæmt lögunum.
5. Er fjár síns ráðandi.
6. Er 70 ára eða yngri, sbr. þó 2. málsl. 7. mgr. 9. gr.
Forfallabílstjóri skal uppfylla skilyrði 1., 4. og 6. tölul. 1. mgr.
[Ráðherra] 1) getur í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði fyrir atvinnuleyfi og akstri forfallabílstjóra.
1)L. 162/2010, 231. gr.
6. gr. Veiting atvinnuleyfa.
Atvinnuleyfi skv. 5. gr. er skilyrði þess að viðkomandi sé heimilt að taka að sér eða stunda leigubifreiðaakstur, sbr. þó 9. gr. Atvinnuleyfi eru gefin út af [Samgöngustofu] 1) hvort sem er á takmörkunarsvæðum eða utan þeirra.
Atvinnuleyfi er bundið við nafn. Engum má veita meira en eitt atvinnuleyfi. Leyfishafa er óheimilt að selja atvinnuleyfi, leigja það út eða ráðstafa því á annan hátt til þriðja aðila. Leigubifreiðastjórar samkvæmt lögum þessum skulu hafa í bifreiðinni skírteini til sönnunar á því að þeir hafi atvinnuleyfi eða stundi leigubifreiðaakstur í forföllum leyfishafa. [Samgöngustofa] 1) gefur atvinnuskírteinin út gegn gjaldi skv. 12. gr. Endurnýja ber atvinnuskírteini á fimm ára fresti.
[Samgöngustofa] 1) skal halda námskeið fyrir umsækjendur um atvinnuleyfi með hæfilegu millibili og skal gera viðunandi prófárangur að skilyrði fyrir því að leyfi verði veitt. [Samgöngustofu] 1) er heimilt að fela öðrum aðila framkvæmd námskeiða og fræðslu samkvæmt lögum þessum.
[Samgöngustofa] 1) skal gefa út leyfi til forfallabílstjóra til staðfestu því að þeir hafi leyfi til að aka leigubifreið eftir að hafa sýnt fram á að þeir hafi fullnægt skilyrðum 5. gr.
Heimilt er að taka sérstakt tillit til umsókna um atvinnuleyfi frá öryrkjum, enda uppfylli þeir skilyrði þessara laga.
1)L. 59/2013, 19. gr.
7. gr. Skilyrt atvinnuleyfi.
Þrátt fyrir ákvæði þessa kafla er [Samgöngustofu] 1) heimilt að veita tímabundið og skilyrt atvinnuleyfi til reksturs eðalvagnaþjónustu.
1)L. 59/2013, 19. gr.
8. gr. Takmörkun á fjölda leigubifreiða.
[Ráðherra] 1) setur í reglugerð, 2) að fengnum tillögum [Samgöngustofu], 3) nánari reglur um fjölda leigubifreiða á ákveðnum svæðum að fenginni umsögn viðkomandi sveitarstjórna, héraðsnefnda og félaga leigubifreiðastjóra.
Þegar heimild til takmörkunar á fjölda leigubifreiða er veitt er óheimilt að skerða atvinnuréttindi þeirra manna sem á lögmætan hátt stunda leigubifreiðaakstur er takmörkun hefst.
Þar sem takmörkun á fjölda leigubifreiða hefur verið ákveðin skal umsækjandi fullnægja skilyrðum 5. gr. og situr hann að jafnaði fyrir við úthlutun leyfa hafi hann stundað leigubifreiðaakstur í a.m.k. eitt ár. Þar sem ekki hefur verið kveðið á um takmörkun á fjölda leigubifreiða á umsækjandi rétt á að fá útgefið atvinnuleyfi ef hann fullnægir skilyrðum 5. gr. [Samgöngustofu] 3) er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum 5. gr. á svæðum þar sem ekki er í gildi takmörkun á fjölda leigubifreiða. Takmörkun þessi er framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa samkvæmt þessum kafla.
1)L. 162/2010, 231. gr. 2)Rg. 397/2003, sbr. 835/2017 og 352/2018. 3)L. 59/2013, 19. gr.
9. gr. Nýting atvinnuleyfis.
Leyfishafi skal hafa leigubifreiðaakstur að aðalatvinnu. Þó má víkja frá því skilyrði á svæðum þar sem íbúar eru færri en 10.000.
Veita má leyfishafa tímabundnar undanþágur frá akstri eigin bifreiðar vegna:
1. orlofs, þ.m.t. fæðingar- og foreldraorlofs, veikinda eða annarra forfalla,
2. vaktaskipta á álagstímum,
3. viðgerðar eða endurnýjunar á bifreið.
[Ráðherra] 1) setur nánari reglur um undanþágur skv. 2. mgr. að fengnum tillögum [Samgöngustofu] 2) og félaga leigubifreiðastjóra. Leigubifreiðastöðvar geta annast veitingu undanþágna á grundvelli upplýsinga í gagnagrunni sem [Samgöngustofa] 2) heldur og hefur að geyma upplýsingar um leyfishafa, undanþágur til þeirra, forfallabílstjóra og annað sem nauðsynlegt þykir í þessu skyni, sbr. 2. gr. Ráðherra er heimilt með reglugerð 3) að ákveða gjald fyrir afgreiðslu veittra undanþágna.
[Samgöngustofa] 2) getur heimilað að félög leigubifreiðastjóra annist afgreiðslu undanþágna, sbr. 3. mgr., standist þau kröfur hennar.
Leigubifreiðastjóra sem öðlast atvinnuleyfi ber að hefja nýtingu þess innan sex mánaða frá útgáfudegi og að nýta það samfellt í tvö ár áður en til fyrstu innlagnar kemur. Að öðrum kosti fellur atvinnuleyfi úr gildi.
[Samgöngustofa] 2) setur reglur um heimildir til tímabundinna innlagna atvinnuleyfa.
Atvinnuleyfi fellur úr gildi við lok 70 ára aldurs leyfishafa. Þó er heimilt að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn þar til atvinnuleyfishafi nær 76 ára aldri ef hann telst hæfur til að stunda leigubifreiðaakstur. Nánar má kveða á um þessi atriði í reglugerð.
Heimilt er að leyfa eftirlifandi maka leyfishafa að nýta atvinnuleyfi hans í allt að þrjú ár eftir andlát leyfishafa, þó eigi lengur en til þess tíma er leyfishafi hefði misst leyfið fyrir aldurs sakir ef hann hefði lifað, þó aldrei skemur en tólf mánuði. Þegar maki er ekki til staðar er dánarbúi leyfishafa heimilt að nýta atvinnuleyfi hans í allt að þrjá mánuði eftir andlát leyfishafa en þó ekki eftir lok búskipta.
1)L. 162/2010, 231. gr. 2)L. 59/2013, 19. gr. 3)Rg. 397/2003, sbr. 1012/2009 og 856/2012.
III. kafli. Ýmis ákvæði.
10. gr. Gjaldmælar.
Löggiltir gjaldmælar skulu vera í öllum leigubifreiðum samkvæmt lögum þessum. Löggildingarstofan hefur eftirlit með notkun og meðferð gjaldmæla. [Samgöngustofa] 1) setur reglur um með hvaða hætti verðskrá leigubifreiða skal sýnileg viðskiptavinum þeirra.
1)L. 59/2013, 19. gr.
11. gr. Refsingar. Svipting leyfis.
Brot gegn lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim geta varðað sektum og leyfissviptingu, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum … 1)
Við alvarleg eða ítrekuð brot er [Samgöngustofu] 2) heimilt að svipta viðkomandi atvinnuleyfi. Slík svipting tekur gildi þegar í stað og gildir þar til úrlausn hefur fengist í málinu skv. 1. mgr.
1)L. 88/2008, 233. gr. 2)L. 59/2013, 19. gr.
12. gr. Leyfisgjöld.
Greiða skal 10.000 kr. árlegt gjald fyrir hvert atvinnuleyfi sem í gildi er. Að auki skulu eftirtalin gjöld innheimt:
1. Fyrir útgáfu atvinnuskírteina 2.500 kr.
2. Fyrir tímabundna innlögn leyfis 1.000 kr.
3. Fyrir úttekt leyfis 1.000 kr.
4. Fyrir vottorð um gilt atvinnuleyfi vegna bifreiðakaupa 1.000 kr.
5. Fyrir færslu á milli stöðva 1.000 kr.
… 1)
Framangreind gjöld skulu renna [í ríkissjóð]. 1) … 1) Jafnframt er heimilt að innheimta námskeiðsgjöld fyrir kostnaði.
1)L. 47/2018, 8. gr.
13. gr. Reglugerð.
[Ráðherra] 1) setur að öðru leyti reglugerð 2) um nánari framkvæmd laga þessara.
1)L. 162/2010, 231. gr. 2)Rg. 397/2003, sbr. 259/2005, 752/2005, 112/2006, 157/2006, 208/2009, 1012/2009, 737/2016 og 273/2020.
14. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 15. mars 2002. …
Ákvæði til bráðabirgða.
[Þrátt fyrir 5. mgr. 9. gr. getur leigubifreiðastjóri sem hafið hefur nýtingu atvinnuleyfis lagt leyfið inn. Ákvæði þetta gildir til 31. desember 2020.] 1)
1)L. 51/2020, 1. gr.